Mál nr. 461/2011

Lykilorð
  • Tilboð
  • Afturköllun
  • Samningur

                                     

Fimmtudaginn 1. mars 2012.

Nr. 461/2011.

 

Þorbjörn hf.

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

gegn

Byr sparisjóði

(Stefán BJ. Gunnlaugsson hrl.)

 

Samningur. Tilboð. Afturköllun.

Þ hf. gerði sparisjóðnum B munnlegt tilboð um greiðslu vegna víxils sem gefinn var út í tengslum við fjármögnun sparisjóðsins á kaupum dótturfélags Þ hf. á hlutabréfum í I hf. Nokkrum dögum síðar afturkallaði Þ hf. tilboð sitt eftir að lögmaður félagsins komst að þeirri niðurstöðu að líklega væri Þ hf. ekki skylt að greiða víxilinn, en í millitíðinni hafði Þ hf. millifært fjármunina á reikning B. Talið var að Þ hf. hefði veitt B frest til að taka afstöðu til tilboðsins og ekki hefðu verið uppfyllt skilyrði til afturköllunar tilboðsins eftir að það komst til vitundar B. Þá var ekki fallist á með Þ hf. að önnur rök, svo sem sjónarmið um forsendubrest, gætu leitt til þess að B bæri að endurgreiða fjármunina. B var því sýknaður af kröfum Þ hf.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júlí 2011. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað til nýrrar aðalmeðferðar í héraði en til vara að stefnda verði gert að greiða áfrýjanda 168.128.028 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að stefndi hafi ekki haft uppi þær málsástæður í héraði sem héraðsdómur byggir niðurstöðu sína á. Í greinargerð stefnda í héraði var skýrlega byggt á þeirri málsástæðu að áfrýjandi gæti ekki með vísan til 6. gr., sbr. 7. gr., laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga afturkallað það tilboð sem stefndi byggir á að áfrýjandi hafi gert sér um skuldauppgjör það sem um er deilt í málinu. Krafa áfrýjanda um ómerkingu héraðsdóms af þessum sökum er því ekki á rökum reist og verður því ekki á hana fallist.

Með samningi 31. október 2007 keypti einkahlutafélagið Gnúpverjar, dótturfélag áfrýjanda, hluti í Icebank hf. Stefndi mun hafa veitt Gnúpverjum ehf. lán til kaupanna og til tryggingar endurgreiðslu þess gaf áfrýjandi síðar út tvo víxla. Annar þeirra var með gjalddaga 1. desember 2008 að fjárhæð 80.739.787 krónur en hinn með gjalddaga 1. júní 2009 að fjárhæð 87.388.241 króna, eða samtals 168.128.028 krónur, en það er sú fjárkrafa sem áfrýjandi hefur uppi í málinu.

Í lok nóvember 2009 höfðaði stefndi mál á hendur áfrýjanda til greiðslu á fyrrnefnda víxlinum. Eigi síðar en 30. desember 2009 hafði Eiríkur Tómasson, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri áfrýjanda, samband við Árna Möller, viðskiptastjóra stefnda, og gerði stefnda munnlegt tilboð um að áfrýjandi myndi greiða höfuðstól beggja víxlanna gegn því að víxilmálið yrði látið niður falla og stefndi krefði hann ekki um frekari greiðslur í skuldauppgjöri aðila. Hinn 30. desember 2009 sendi Árni tölvubréf til Eiríks þar sem segir að áfrýjandi hafi gert stefnda munnlegt tilboð um greiðslu höfuðstóls víxlanna, en tilboðið þurfi að hljóta samþykki lánanefndar og stjórnar stefnda. „Til að kaupa tíma“ geti áfrýjandi lagt umrædda fjárhæð inn á reikning hjá stefnda sem hafi síðan 15 daga til að samþykkja eða synja tilboðinu. Síðar sama dag fékk Árni svar í tölvubréfi frá Eiríki þar sem segir að ekki myndi vinnast tími til að „ganga frá þessu fyrir áramótin“ en þeir yrðu í sambandi á nýju ári. Hinn 5. janúar 2010 sendi Eiríkur tölvubréf til Árna þar sem spurt var hvort hinn síðarnefndi gæti staðfest að gengi stefndi ekki að fyrrgreindu tilboði myndi hann leggja höfuðstólsfjárhæð beggja víxlanna inn á tilgreindan reikning áfrýjanda. Daginn eftir staðfesti Árni að fjárhæðin yrði endurgreidd gengi stefndi ekki að tilboðinu. Að fengnu þessu svari lagði áfrýjandi samdægurs fjárhæðina inn á reikning stefnda. Með tölvubréfi 11. janúar 2010 lýsti Eiríkur því yfir fyrir hönd áfrýjanda að áfrýjandi afturkallaði fyrrgreint tilboð sitt þar sem verulegur vafi léki á að víxilskuldbinding hefði stofnast. Með tölvubréfi degi síðar tilkynnti stefndi að gengið hefði verið að tilboði áfrýjanda og var víxilmálið fellt niður í framhaldi af því.

Í héraði og fyrir Hæstarétti hefur stefndi haldið þeirri málsástæðu fram að sýkna beri hann af kröfu áfrýjanda þar sem áfrýjandi sé ekki réttur aðili málsins heldur Gnúpverjar ehf. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú úrlausn hans að stefndi verði ekki sýknaður af dómkröfu áfrýjanda vegna aðildarskorts hins síðarnefnda.

Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 7/1936 verður að samþykkja munnlegt tilboð þegar í stað nema frestur sé veittur móttakanda tilboðsins. Í þessu felst að vilji sá sem slíkt tilboð fær fá umhugsunarfrest verður hann að biðja tilboðsgjafa um að veita sér hann. Skilja verður fyrrgreint tölvubréf Árna Möller 30. desember 2009 svo að með því hafi stefndi farið fram á slíkan frest, en þá gerði Árni áfrýjanda grein fyrir því að það tæki stefnda allt að 15 dögum að taka afstöðu til tilboðsins. Líta verður á þá ráðstöfun áfrýjanda 6. janúar 2010 að leggja áðurnefnda fjárhæð inn á reikning stefnda sem áréttingu áfrýjanda á fyrrgreindu munnlegu tilboði hans um skuldauppgjör og jafnframt að með því hafi áfrýjandi samþykkt í verki frestbeiðni stefnda. Áfrýjandi var bundinn við tilboð sitt eftir að það kom til vitundar stefnda samkvæmt framansögðu og voru því hinn 11. janúar 2010 ekki uppfyllt skilyrði til afturköllunar þess samkvæmt 7. gr. laga nr. 7/1936. Þá hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að önnur rök standi til þess að sér hafi verið heimilt að afturkalla tilboðið þegar hann sendi stefnda tölvubréf þess efnis 11. janúar 2010. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að í málsatvikalýsingu hins áfrýjaða dóms er að finna neðanmálsgrein. Ekki verður séð þörf þessa og er sá háttur ekki í samræmi við áratugalanga venju við samningu dóma hér á landi.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Þorbjörn hf., greiði stefnda, Byr sparisjóði, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2011.

Mál þetta var höfðað 25. mars 2010 og dómtekið 12. apríl 2011. Stefnandi er Þorbjörn hf., Hafnargötu 12, Grindavík og stefndi er Byr sparisjóður, Borgartúni 18, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 168.128.028 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. janúar 2010 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnda dæmdur málskostnaður að mati dómsins úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

I.

Stefnandi lagði 168.128.028 krónur inn á reikning stefnda þann 6. janúar 2010 í kjölfar samningaviðræðna aðila og tilboðs stefnanda um uppgjör á tveimur víxlum sem stefnandi hafði gefið út eða talið sig gefa út,1 [1: Í atvikalýsingu stefnu segir að „stefnandi hafi gefið út tvo víxla“ en við aðalmeðferð leiðrétti lögmaður stefnanda það, réttara væri að stefnandi hefði talið sig gefa út tvo víxla. Þess var mótmælt af hálfu lögmanns stefnda sem taldi stefnanda við bundinn við staðhæfinguna í stefnu samkvæmt 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.] annars vegar að fjárhæð 80.739.787 krónur, með gjalddaga 1. desember 2008 og hins vegar að fjárhæð 87.388.241 króna, með gjalddaga 1. júní 2009 og samþykktir af dótturfélagi stefnanda, Gnúpverjum ehf.

Víxlarnir höfðu verið útbúnir og afhentir stefnda í kjölfar hlutabréfakaupa dótturfélags stefnanda, Gnúpverja ehf. í Icebank hf., síðari hluta árs 2007. Víxlarnir voru ekki greiddir á gjalddaga og stefndi höfðaði því mál í lok nóvember 2009 fyrir héraðsdómi á hendur stefnanda til greiðslu annars víxilsins.

Verður nú rakinn nánar aðdragandinn að því að stefnandi greiddi umrædda fjárhæð inn á reikning hjá stefnda. Óumdeilt er að stefnandi gerði stefnda munnlegt tilboð í desember 2009 um að greiða höfuðstól víxlanna, eins og jafnframt verður ráðið af eftirfarandi skeyti, sem starfsmaður stefnda, Árni Möller, sendi Eiríki Tómassyni stjórnarformanni stefnanda og framkvæmdastjóra, þann 30. desember 2009 sem ber yfirskriftina: „Þorbjörn hf. – víxlar“:

Sæll Eiríkur,

Gnúpverjar eru greiðandi og Þorbjörn hf. útgefandi á eftirfarandi tveimur víxlum:

Höfuðstóll                                    

Gjalddagi

Dráttarvextir 30.12.2009

1.  80.739.787

1. des. 2008

19.202.078

2.  87.388.241

1. júní 2009

9.712.237

 

Sjá einnig meðfylgjandi gögn um stöðu á kröfum.

Þú hefur gert okkur munnlegt tilboð um að greiða fyrir hönd Þorbjarnar hf. sem nemur höfuðstóli víxlanna í peningum til lúkningar á þeim.

Mál er varða afskrift verða að fara í gegnum tvö samþykktarstig, lánanefnd og síðan stjórn og því vinnst ekki tími til þess fyrir áramót.

Til að kaupa tíma má gera eftirfarandi:

·         Þú leggur upphæðina þ.e.a.s. höfuðstól víxlanna inn á reikning hjá okkur.

·         Byr hefur síðan 15 daga til að samþykkja eða synja tilboði þínu. 

Með kveðju / Best regards

Árni Möller

Viðskiptastjóri / Business Manager …

 

Með skeyti sem viðskiptastjórinn, sendi framkvæmdastjóra stefnanda 5. janúar sendi hann upplýsingar um reikning og sama dag svaraði framkvæmdastjóri stefnanda honum með svohljóðandi skeyti:

„Sæll, Getur þú staðfest að ef Byr gengur ekki að þessu tilboði, munið þið leggja upphæðina sem ég legg inná neðangreindan reikning inná reikning 545 26 255 sem er í eigu Þorbjarnar hf. Ég mun síðan greiða inná reikninginn þegar staðfestingin kemur.“

 

Þann 6. janúar sendi viðskiptastjórinn framkvæmdastjóra stefnanda svohljóðandi  skeyti:

„Sæll, Ég staðfesti að ef Byr gengur ekki að þessu, þá legg ég upphæðina inná umbeðinn reikning.“

 

Þann 11. janúar 2010 sendi framkvæmdastjóri stefnanda viðskiptastjóranum skeyti er hafði m.a. að geyma það álit lögmanns að vafi léki á um að víxilskuldbinding væri fyrir hendi hjá Þorbirni. Þá segir einnig í skeytinu

„Í ljósi þessa er tilboð Þorbjarnar hf. um að greiða höfuðstól víxlanna hér með afturkallað og þess farið á leit við BYR sparisjóð að afhent fjárhæð verði endurgreidd og dómstólar skeri úr um skuldbindingagildi umræddra víxilskuldbindinga.“

 

Þann 12. janúar 2010 sendi viðskiptastjórinn svohljóðandi skeyti:

„Sæll, Lánanefnd og stjórn samþykktu greiðslutilhögun víxlanna. Víxlarnir eru því að fullu greiddir með þeirri greiðslu sem þið inntuð af hendi. Læt lögmann okkar vita og málið verður fellt niður. Kv. Árni.“ 

 

Framkvæmdastjóri stefnanda svaraði þá um hæl  sama dag með svohljóðandi skeyti.

„Sæll, Með tölvupósti sem ég sendi þér í gær og afrit á Atla og lögmann fyrirtækisins afturkallaði ég tilboðið. Það gilti því ekki lengur, og Byr er með öllu óheimilt að ráðstafa þeim peningum sem um ræðir til greiðslu á víxlunum. Krafa um skil á peningunum er hér með ítrekuð. F.h. Þorbjörn hf. Eiríkur Tómasson Forstjóri.“

 

Með skeyti þann 13. janúar 2010 sendi síðan lögmaður stefnanda mótmæli gegn heimildarlausri ráðstöfun stefnda á fjármununum, þar sem m.a. var bent á að áður en málið hefði farið í gegnum „samþykktarstig“ hjá stefnda hefði tilboðið verið afturkallað enda hefðu þá forsendur fyrir því og kröfu stefnda verið brostnar þar sem sennilega væri staðan sú að stefndi ætti ekki kröfur á hendur stefnanda vegna víxlanna. Á það var bent að peningarnir hefðu verið greiddir inn á reikning hjá stefnda til vörslu en ekki beint inn á viðkomandi víxla. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur stefnanda um endurgreiðslu fjármuna hélt stefndi þeirri afstöðu til streitu að greiða stefnanda ekki umdeilda fjárhæð.

Í stefnu skoraði stefnandi á stefnda að leggja fram fundargerð stjórnar stefnda þann 12. janúar 2010 að því er varðar afgreiðslu stjórnar stefnda á tilboði og afturköllun stefnanda. Vegna þessarar áskorunar lagði stefndi fram undir rekstri málsins, þann 27. október sl., yfirlýsingu slitastjórnar stefnda þar sem fram kemur að slitastjórnin hafi farið í gegnum fundargerð sparisjóðsins frá 12. jan. sl. Staðfest er að eftirfarandi bókun sé þar að finna:

„10. Lánamál frá lánanefnd. Minnisblað um uppgjör á víxlum Gnúpverja ehf. Samþykkt fullnaðargreiðsla með því að greiddur verði höfuðstóll á víxlunum og gefa eftir áfallna vexti og innheimtukostnað.“

 

Lögmaður stefnanda skoraði þá á stefnda að leggja fram minnisblaðið sem þarna væri nefnt og var stefnda veittur frestur til þess. Í næsta þinghaldi þann 18. nóvember sl. upplýsti lögmaður stefnda að minnisblaðið hefði ekki fundist. Lögmaður  stefnanda ítrekaði áskorun sína um að stefndi fyndi og legði fram minnisblaðið. Í þinghaldi 8. apríl sl. lagði stefndi fram skeyti frá Árna Ármanni Árnasyni f.h. slitastjórnar þar sem Árni kveðst ekki hafa séð minnisblaðið en hann geri ráð fyrir að þar komi fram lýsing á málinu eins og það horfi við bankanum. Slík skjöl séu innanhússtrúnaðarskjöl og verði það því ekki lagt fram í dómsmáli.

Við aðalmeðferð gáfu framkvæmdastjóri stefnanda, Eiríkur Tómasson, og Árni Möller, fyrrum starfsmaður/viðskiptastjóri, stefnda skýrslu fyrir dóminum.

Framkvæmdastjóri stefnanda bar m.a. fyrir dóminum að stefnandi hefði verið beðinn um ábyrgð um mitt ár 2008 með því að skrifa á víxlana. Spurður um aðdraganda þess að hann hefði gert stefnda munnlegt tilboð, sbr. skeytið frá 30. desember 2009, sagði framkvæmdastjórinn að áskoranir hefðu streymt til Gnúpverja og stefnanda um að greiða víxlana. Gnúpverjar hefðu verið ógjaldfærir og verðmæti bréfanna ekkert. Þar sem þeim hefði þótt undarlegt hvað stuttur tími leið frá kaupum þar til Icebank hefði verið kominn í gjörgæslu FME hefði stefnandi verið í sambandi við stefnda til að fá hann til að sætta sig við að ekki yrði greitt fyrir þetta en síðar hefði komið í ljós að aðrir kaupendur hlutabréfa í þessum viðskiptum hefðu ekki þurft að setja ábyrgð. Stefndi hefði ekki samþykkt að falla frá kröfunni. Þeir hefðu því boðið helming og loks sett fram tillögu um að borga höfuðstólinn enda hefði hann talið að stefnandi ætti að borga þetta.

Spurður að því hvernig Árni Möller hefði brugðist við munnlega tilboðinu sagði framkvæmdastjórinn að hann hefði viljað að þeir greiddu inn á geymslureikning hjá stefnda til þess að kaupa tíma. Árni hefði sagt að þeir þyrftu 15 daga til að samþykkja eða synja tilboðinu. Aðspurður játaði framkvæmdastjórinn því að Árni hefði beðið um frest til að samþykkja munnlegt tilboð. Þá kom fram hjá framkvæmdastjóra stefnanda að hann hefði fyrst talið að reikningurinn sem Árni hefði gefið upp væri reikningur stefnanda en þegar hann hefði séð að um var að ræða reikning stefnda hefði hann sent þeim skeyti um það hvort Árni staðfesti ekki að þeir myndu greiða til baka að loknum 15 dögum ef þeir samþykktu ekki. Spurður að því hvort hann hefði trúað því að um væri að ræða gilda víxilkröfu þegar hann hefði sett fram tilboðið játaði framkvæmdastjóri stefnanda því og kvaðst annars ekki hafa gert þetta. Hann hefði verið mjög ósáttur við að þurfa að gera þetta. 

Árni Möller, fyrrum viðskiptastjóri stefnda, bar fyrir dóminum að Eiríkur, framkvæmdastjóri stefnanda, hefði viljað semja um greiðslu á víxlunum og að tilboð hefðu borist frá honum sem þeir hefðu skoðað og metið. A.m.k. þrjú tilboð hefðu borist sem stefndi hefði hafnað. Í lok ársins hefði framkvæmdastjórinn komið með tilboð um að greiða höfuðstólinn. Eiríkur  hefði helst viljað að greiðslan lenti á bókhaldsárinu 2009 en tíminn hefði ekki dugað til þess þar sem málið hefði þurft að fara fyrir lánanefnd og stjórn þar sem um hefði verið að ræða afskrift á vöxtum og kostnaði. Vitnið kvaðst hafa gert gagntilboð „ef þú leggur upphæðina inn á reikning, höfuðstól víxlanna og gefur mér svo 15 daga til þess að fara með þetta í gegnum lánanefnd og stjórn“. Hann hefði ekki haft neinar heimildir til að samþykkja eitt né neitt þannig að hann hefði orðið að fara í gegnum þetta ferli. Þar sem hefði verið komið svo nálægt áramótum hefði hann ekki treyst sér til að ganga frá þessu á þessum stutta tíma og þeir hefðu því verið sammála um að tala saman eftir áramót. Þann 5. janúar hefði Eiríkur beðið hann um upplýsingar um reikninginn sem hægt væri að greiða inn á. Bókhaldið hefði gefið vitninu upp víxilreikning sem hann hefði sent á framkvæmdastjóra stefnanda. Í framhaldinu hefði hann lagt inn á reikninginn en á undan hefði hann fengið staðfestingu hjá vitninu um að ef gengi ekki eftir hjá lánanefnd og stjórn myndi vitnið endurgreiða fjármunina.

Vitnið kvaðst hafa fengið afturköllun á tilboðinu þann 11. janúar en þar sem hann hefði ekki haft heimildir til að taka neinar ákvarðanir hefði hann rætt þetta við framkvæmdastjóra stefnda og ákveðið að fara fyrir lánanefnd. Vitnið kvaðst hafa lagt þetta fyrir lánanefnd og látið nefndina vita af afturkölluninni. Lánanefndin hefði samþykkt þetta og ákveðið að fara með málið áfram fyrir stjórnina sem vitnið hefði jafnfram gert daginn eftir. Stjórnin hefði samþykkt þetta en fram kom hjá vitninu að það hefði látið stjórn vita af afturkölluninni. Spurður um það sem fram kom í tölvupósti vitnisins frá 30. desember 2009 um að til að flýta fyrir mætti greiða upphæðina inn á reikning sagði vitnið að Eiríkur hefði viljað fá þetta inn á bókhald 2009. Þeir hefðu verið að reyna að keyra þetta hraðar í gegn. Spurður að því hvernig hann hefði litið á þetta sagði vitnið að þetta hefði bara verið greiðsla á víxlinum og hann lofað að endurgreiða ef þetta ferli gengi ekki eftir, þ.e. samþykktaferlið.

II. Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því að með greiðslu fjárhæðarinnar inn á vörslureikning hjá stefnda hafi stefnandi einungis verið að sýna greiðsluvilja sinn sem útgefandi víxlanna, sbr. tölvupóst stefnda frá 30. desember 2009 um að stefnandi Þorbjörn hf. gæti keypt sér tíma með því að leggja fjárhæðina inn á vörslureikning hjá stefnda. Stefndi hafi takið að sér að varðveita fjármunina á sérstökum reikningi hjá sér, nr. 1175-26-970900.

Stefnandi heldur því fram að tilboð sitt um greiðslu á höfuðstól umræddra víxla hafi verið byggt á þeirri forsendu að hann væri ábyrgur fyrir greiðslu víxlanna að víxilrétti. Afturköllun stefnanda á tilboðinu hafi byggst á því að verulegur vafi hafi verið um skuldbindingu stefnanda að víxilrétti og rétt væri að dómstólar myndu skera úr um réttmæti hennar að víxilrétti.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki tekið tilboði stefnanda þegar hann hafi afturkallað tilboð sitt um greiðslu á höfuðstól víxlanna þann 11. janúar 2010. Samþykki tilboðs sé ákvöð sem bindi ekki viðtakanda fyrr en samþykkið berist honum. Samþykkt stjórnar og lánanefndar stefnda hafi ekki legið fyrir fyrr en daginn eftir að stefnandi hafi afturkallað tilboð sitt, eða 12. janúar 2010. Stefnandi hafi því verið óskuldbundinn af ákvörðun stefnda og honum skylt að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð.

Um hafi verið að ræða tilboð um fullnaðargreiðslu og stefndi hafi sjálfur áskilið sér 15 daga til að annaðhvort samþykkja tilboðið eða synja því. Áður en stefndi hafi tekið afstöðu til tilboðs stefnanda, hafi stefnandi afturkallað tilboðið á grundvelli breyttra forsendna með tölvupósti þann 11. janúar 2010 og endurkrafið stefnda um fjárhæðina. Stefnda hafi því verið skylt að greiða stefnanda umrædda fjárhæð.

Afturköllun stefnanda á tilboði sínu hafi jafnframt falið í sér afturköllun á heimild stefnda til að ráðstafa þeim fjármunum sem stefnandi hafði lagt inn á fjárvörslureikning hjá stefnda. Umræddir fjármunir hafi verið lagðir inn á fjárvörslureikning hjá stefnda og honum verið algerlega óheimilt að ráðstafa fjármununum á nokkurn hátt án samþykkis stefnanda.

Þá er á því byggt, að í síðasta lagi þann 11. janúar 2010 þegar stefnandi hafi afturkallað tilboð sitt hafi stefnda verið ljóst eða átt að vera ljóst að verulegur vafi væri á því að stefndi ætti fjárkröfu á hendur stefnanda á grundvelli víxlanna. Afturköllun stefnanda á tilboði sínu hafi því verið skuldbindandi gagnvart stefnda. Stefndi hafi því í heimildarleysi og á ólögmætan hátt, án samþykkis stefnanda sem eiganda fjármunanna, ráðstafað þeim inn á meinta víxilskuld, í því skyni að afla stefnda ólögmæts hagnaðar á kostnað stefnanda. Í þessu sambandi vísar stefnandi m.a. til 38. gr. samningalaga nr. 7/1936, með lögjöfnun.

Stefnandi byggir enn fremur kröfu sína á því að forsendur fyrir greiðslu stefnanda á höfuðstól víxlanna hafi verið brostnar. Forsenda þess að stefnandi hafi samþykkt að greiða höfuðstól víxlanna, eða 168.128.028 krónur inn á vörslureikning hjá stefnda hafi verið sú að stefnandi hafi talið sig skuldbundinn til að greiða víxlana samkvæmt víxilrétti. Þegar stefnanda hafi orðið ljóst þann 11. janúar 2010 samkvæmt áliti lögmanns að þær forsendur væru ekki fyrir hendi, eða að minnsta kosti mikill vafi væri á því að stefnandi væri skuldbundinn til að greiða víxlana, hafi stefnandi strax afturkallað tilboð sitt um að greiða höfuðstól þeirra. Stefnandi hafi talið rétt að dómstólar skæru fyrst úr um víxilskuldbindingu hans samkvæmt víxlunum, enda hafði stefndi þá þegar þingfest mál fyrir héraðsdómi vegna annars víxilsins, eða þann 10. desember 2009.

Loks er á því byggt af hálfu stefnanda, að hefði hann vitað að einhver vafi væri á víxilskuldbindingu hans, þá hefði hann aldrei samþykkt að greiða umrædda fjárhæð inn á vörslureikning hjá stefnda. Ákvörðunarástæða stefnanda hafi með öðrum orðum verið sú að fyrir hendi væri gild víxilskuldbinding á hendur honum. Stefnandi telur að stefnda hafi verið ljóst eða átt að hafa verið ljóst að ákvörðunarforsenda þess að stefnandi greiddi umrædda fjárhæð á vörslureikning hjá stefnda hafi verið sú að hann hafi talið sig skuldbundinn að víxilrétti. Á því er byggt að stefnda hafi í síðasta lagi verið ljóst þann 11. janúar 2010, er stefnandi hafi afturkallað tilboð sitt og krafist greiðslu, að víxilskuldbinding á hendur stefnanda væri ógild, eða að mikill vafi hafi að minnsta kosti leikið á um hana. Í þessu skyni er vísað meðal annars til síðari málsliðar 38. gr. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um tilboð, ákvaðir, samþykki tilboðs/ákvaða og afturköllun tilboðs, til meginreglna kröfuréttar um brostnar forsendur, og til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, einkum 36. og 38. gr. Enn fremur er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafan um málskostnað styðst við 130. gr., sbr. 129. gr. sömu laga.

III. Málsástæður stefnda

Stefndi heldur því fram að þegar Eiríkur Tómasson hafi gert munnlegt tilboð um að greiða höfuðstól víxlanna um áramótin 2009/2010 hafi stefndi gert Eiríki gagntilboð þess efnis að hann samþykkti tilboðið gegn því að Eiríkur greiddi umsamda fjárhæð 168.128.028 krónur inn á reikning hjá stefnda en stefndi áskilið sér 15 daga til að leggja málið fyrir lánanefnd og stjórn stefnda til endanlegrar staðfestingar. Ef stjórn og lánanefnd stefndu samþykktu ekki innan tilskilins frestsins myndi stefndi endurgreiða Eiríki fjárhæðina. Þetta gagntilboð hafi Eiríkur Tómasson samþykkt og greitt f.h. Gnúpverja ehf. inn á víxilreikning stefnda, reikning nr. 1175-26-970900, 168.128.028 krónur þann 6. janúar 2010. Þann 11. janúar 2010 hafi Eiríkur Tómasson sent starfsmanni stefnda tölvupóst þar sem hann hafi viljað afturkalla greiðslu samkvæmt gagntilboðinu frá 30. desember 2009. Lánanefnd og stjórn stefnda hafi samþykkt samkomulag um greiðslu kröfunnar 12. janúar 2010 eða innan 15 daga frestsins sem gagntilboðið hafi sett. Stefndi hafi því sent Eiríki Tómassyni tölvupóst um að samkomulagið hefði verið samþykkt og stefndi því ekki talið forsendur til endurgreiðslu. Krafan væri að fullu greidd og að dómsmál yrði fellt niður. Dómsmálið hafi síðan verið fellt niður 18. janúar 2010.    

Stefndi mótmælir málsástæðum stefnanda, sérstaklega því að stefndi hafi tekið að sér að varðveita fjármuni fyrir stefnda. Hið rétta sé að stefnandi hafi greitt 168.128.028 krónur inn á skuld Gnúpverja ehf. samkvæmt samþykktu gagntilboði. Reikningur nr. 1175-26-970900 sé reikningur sem menn greiði inn á þegar víxlar séu greiddir. Stefndi mótmælir því einnig að stefnandi hafi einungis greitt umrædda fjármuni af því að hann væri bundinn af því að víxilrétti. Enn fremur mótmælir stefndi tilvísunum stefnanda til 36. og 38. gr. samningalaga en þær eigi ekki við. 

Í fyrsta lagi heldur stefndi því fram að sýkna beri hann vegna aðildarskorts samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi líti svo á að Gnúpverjar ehf. hafi greitt umrædda skuld. Gnúpverjar ehf. hafi verið skuldari og samþykkjandi tveggja víxla sem mál þetta snúist um. Gnúpverjar ehf. hafi greitt umrædda fjárhæð. Greiðsla hafi borist af reikningi stefnanda en sem skýringu setji hann að verið sé að greiða „Víxlar – Gnúpverjar.“ Gnúpverjar ehf., sem heiti nú G14, sé félag sem sé í 100% eigu Þorbjarnar hf. Sömu aðilar hafi verið í stjórn beggja félaganna, þau Eiríkur Tómasson, Gunnar Tómasson og Gerður S. Tómasdóttir. Eiríkur sé framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. og stjórnarformaður Gnúpverja ehf. og hafi hann prókúruumboð fyrir félagið. Skráð heimilisfang beggja félaganna sé á sama stað, þ.e. að Hafnargötu 12, Grindarvík. Öll tölvupóstsamskipti starfsmanna stefnda séu við Eirík. Þegar greiðsla hafi borist hafi eftirfarandi skýring verið sett fram: „Víxlar Gnúpverjar ehf.“ Stefndi hafi litið svo á að Eiríkur væri að semja fyrir Gnúpverja ehf. Stefndi telur því um aðildarskort að ræða sem leiði til sýknu sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í öðru lagi rökstyður stefndi sýknukröfu sína með því að stefndi hafi svarað tilboði stefnanda þann 30. desember 2009 með gagntilboði, um að höfuðstóll víxlanna yrði lagður inn á reikning hjá stefnda, en jafnframt hafi hann áskilið sér 15 daga frest til að samþykkja endanlega greiðslufyrirkomulagið, þar sem lánanefnd stefnda og stjórn hafi þurft að samþykkja samkomulagið. Stefndi hafi lofað að endurgreiða fjárhæðina ef lánanefnd stefnda og stjórn myndu ekki samþykkja samkomulagið. Þetta gagntilboð hafi Eiríkur Tómasson samþykkt og greitt fjárhæðina til stefnda inn á víxilreikning. Stefndi hafi innan 15 daga, þ.e. 12. janúar 2010, samþykkt gagntilboðið sem stefnandi hafi samþykkt. Þess vegna og með vísan til tölvupóstsamskipta stefnda og stefnanda sé ljóst að stefnandi hafi ekki getað afturkallað gagntilboð sem hann hafði samþykkt. Í þessu sambandi vísar stefndi til 6. gr., sbr. 7. gr. laga 7/1936. Stefnandi beri fyrir sig reglur um ákvöð. Stefndi telur að stefnandi geti ekki afturkallað gagntilboð það sem hann hafi samþykkt og því eigi reglurnar um ákvöð ekki við í þessu máli.

Stefnandi beri fyrir sig að það hafi verið forsenda greiðslu af sinni hálfu að hann hafi verið ábyrgur fyrir greiðslu víxlanna að víxilrétti. Stefndi telur svo ekki hafa verið, stefnandi hafi aldrei borið það fyrir sig fyrr en í stefnu. Stefndi telur að stefnanda hafi verið í lófa lagið að bera það fyrir sig við gerð samkomulags aðila og tilboða sem gengið hafi á milli aðila. Stefndi hafði stefnt öðrum víxlinum fyrir dóm og hafi stefnandi haft öll gögn málsins í sínum fórum er hann hafi gert stefnda tilboð. Því hafi lokið með því að stefndi hafi gert stefnanda gagntilboð sem stefnandi hafi samþykkt. Lögmaður stefnanda hafi haft gögnin undir höndum, fengið þau sannarlega í hendur 10. desember 2009 og óskað eftir fresti til að skila greinargerð til 14. janúar 2009. Þrátt fyrir það hafi stefnandi gert stefnda tilboð um greiðslu þann 30. desember 2009. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að gera fyrirvara um að greiðsla væri háð því að hann væri dæmdur til greiðslu að víxilrétti. Stefnandi hefði og getað skilað inn greinargerð í málinu. Stefndi telur að stefnandi beri alla sönnunarbyrði fyrir því að greiðsla hafi verið bundin ofangreindu skilyrði.

Þá sé og til þess að líta að umræddir víxlar séu lagðir fram sem trygging af hálfu Gnúpverja ehf. vegna kaupa á hlutafé. Víxlarnir séu útgefnir af stefnda og framseldir af stefnanda á bakhlið. Þannig lýsi stefnandi málinu sjálfur í stefnu. Stefndi líti svo á að hann sé bundinn af þessari yfirlýsingu sbr. ákvæði laga um meðferð einkamála. Áritun á framsal víxlanna sé með eiginhandaráritun Eríks Tómassonar og Gunnars Tómassonar. Stefnandi sé eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og alvant viðskiptum. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um ábyrgð sína eins og málið beri að. Stefnandi hafi tekið á sig ábyrgð gagnvart stefnda með áritun á víxlana og gengist í ábyrgð fyrir Gnúpverja ehf. Á grundvelli þeirrar ábyrgðar hafi stefnanda borið að greiða stefnda umrædda fjárhæð og hafi stefndi gefið eftir umtalsverðar fjárhæðir til að koma til móts við stefnanda. Stefnandi hafi haft frumkvæðið að samkomulagi um lausn málsins. Með vísan til þessa telur stefndi að stefnandi eigi engan rétt til að fá greiðsluna endurgreidda og fyrir því liggi engin rök.

Loks byggir stefndi á því að stefnandi sé í raun að endurkrefja stefnda um fjármuni sem hann telji sig hafa ofgreitt. Um þetta gildi að mati stefnda reglurnar um endurgreiðslukröfu „conictio indibiti“. Meginreglan sé sú að menn eigi ekki rétt á endurgreiðslu nema greitt hafi verið með fyrirvara. Stefnandi hafi haldið því fram að forsenda greiðslu hafi verið að honum hafi borið að greiða að víxilrétti. Stefndi telur eins og fram sé komið að greiðsla hafi verið innt af hendi án nokkurs fyrirvara og því eigi stefnandi engan rétt til endurgreiðslu kröfunnar.

IV. Forsendur og niðurstaða

Eins og fram hefur komið snýst ágreiningur aðila í fyrsta lagi um það hvort sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts þar sem greiðandi skuldarinnar hafi verið Gnúpverjar ehf. Af framlögðum gögnum er ljóst að umrædd greiðsla var millifærð af reikningi stefnanda Þorbjarnar hf. Þá segir í skeyti viðskiptastjóra stefnda þann 30. desember skilmerkilega: „Þú hefur gert okkur munnlegt tilboð um að greiða fyrir hönd Þorbjarnar hf. …“ Enginn vafi þykir því leika á að stefnandi sé réttur aðili að málinu. Kröfu stefnda um sýknu samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991 er því hafnað. Breytir engu um þá niðurstöðu hvort stefnandi og Gnúpverjar ehf. hafi verið í samstæðutengslum, í eigu sama fólks eða sömu menn skipað stjórnir beggja félaganna enda hvort félag um sig lögaðilar er bera sjálfstætt réttindi og skyldur.

Í öðru lagi deila aðilar um hvað hafi falist í svari viðskiptastjóra stefnda þann 30. desember 2009 þegar hann svaraði munnlegu tilboði stefnanda. Stefnandi heldur því fram að í svari viðskiptastjórans hafi falist beiðni um frest til að taka tilboðinu eða hafna því. Samþykki tilboðs sé ákvöð sem bindi ekki viðtakanda fyrr en samþykkið berist honum. Samþykki stjórnar og lánanefndar stefnda hafi ekki legið fyrir fyrr en daginn eftir að stefnandi hafi afturkallað tilboðið. Með greiðslu fjárhæðarinnar inn á reikning stefnda til fjárvörslu hafi stefnandi einungis sýnt greiðsluvilja og stefnda hafi því verið óheimilt að ráðstafa fjármununum án samþykkis stefnanda. Stefnda hafi í síðasta lagi 11. janúar 2010 verið ljóst að víxilskuldbinding á hendur stefnanda væri ógild eða a.m.k. að mikill vafi léki á um hana, sbr. síðari málsl. 38. gr. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Stefndi heldur því hins vegar fram að í svarinu hafi falist gagntilboð þess efnis að stefndi samþykkti tilboðið gegn því að fjárhæðin yrði greidd inn á reikning stefnda. Jafnframt hafi hann áskilið sér 15 daga frest til að samþykkja endanlega greiðslufyrirkomulagið þar sem lánanefnd og stjórn hafi þurft að samþykkja samkomulagið. Stefndi hafi lofað að endurgreiða fjárhæðina ef lánanefndin og stjórn samþykkti ekki. Þar sem um gagntilboð hafi verið að ræða, sem stefnandi hafi samþykkt, hafi stefnandi ekki getað afturkallað það. Þá hafnar stefndi því að það hafi verið forsenda greiðslu stefnanda að hann væri ábyrgur fyrir greiðslu víxlanna að víxilrétti eins og stefnandi heldur fram.

Það er niðurstaða dómsins að í svari viðskiptastjóra stefnda við tilboði stefnanda, með tölvuskeytinu 30. desember 2009, hafi falist beiðni um 15 daga frest til að taka afstöðu til tilboðs stefnanda. Hér er einkum horft til fyrirvarans í skeytinu um að mál er varði afskrift verði að fara í gegnum tvö samþykktarstig, lánanefnd og stjórn, og niðurlags skeytisins um að stefndi hafi síðan 15 daga til að samþykkja eða synja tilboði stefnanda, enda hafði viðskiptastjórinn ekki heimild til að samþykkja tilboð stefnanda, eins og hann áréttaði fyrir dóminum. Hér er einnig litið til þess að í skeytinu sem framkvæmdastjóri stefnanda sendi til viðskiptastjórans 5. janúar er beðið um staðfestingu á því að ef stefndi gangi ekki að „þessu tilboði“ hvort stefndi muni leggja upphæðina, sem hann leggi inn á reikninginn sem viðskiptastjórinn hafði sent honum upplýsingar um fyrr um daginn, inn á nánar tilgreindan reikning „í eigu Þorbjarnar hf.“ Eins og fram hefur komið staðfesti viðskiptastjórinn að ef stefndi gengi ekki að þessu þá legði hann upphæðina inn á umbeðinn reikning, sbr. skeytið frá 6. janúar 2010. Samkvæmt þessu var ekki kominn á samningur á milli aðila um greiðslu víxlanna, eða gagntilboð sem stefnandi hafi samþykkt með greiðslu umræddra fjármuna inn á reikning stefnda, eins og stefndi heldur fram, heldur verður að líta svo á að stefndi hafi áskilið sér tímafrest til að kanna hvort til þess bærir aðilar hjá stefnda væru reiðubúnir að fallast á tilboð stefnanda, og uppgjör víxlanna með greiðslu fjármunanna sem stefnandi greiddi inn á reikning stefnda 6. janúar 2010, og að stefnandi hafi samþykkt það.

Samkvæmt framangreindu verður að telja að stefnandi hafi með óafturkræfum hætti veitt stefnda 15 daga frest til að samþykkja tilboðið og þar með greiðslu stefnanda inn á reikning stefnda sem fullnaðaruppgjör á umræddum víxlum. Samkvæmt gagnályktun frá 5. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga var stefnanda því að fyrra bragði ekki heimilt að afturkalla tilboð sitt innan 15 daga frestsins. Með því að stefndi tók tilboði stefnanda innan tilskilsins frests kemur næst til álita hvort stefnanda hafi verið heimilt að afturkalla tilboðið innan frestsins vegna brostinna forsendna þegar honum barst álit lögmanns um að víxilútgáfan kynni að vera gölluð. Nánar tiltekið sökum þess að stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að ákvörðunarforsenda stefnanda þegar hann greiddi umdeilda fjárhæð hafi verið sú að hann hafi talið sig skuldbundinn að víxilrétti eins stefnandi byggir á.

Við mat á því hvort sjónarmið stefnanda um forsendubrest og sanngirni eigi við, sbr. síðari málslið 38. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, verður ekki litið fram hjá því að við gerð umræddra víxla var það ætlun stefnanda að taka á sig ábyrgð vegna skuldbindinga dótturfélags síns, Gnúpverja ehf. Þá verður ekki betur séð en að báðir aðilar hafi gengið út frá því að stefnandi bæri ábyrgð á greiðslu víxlanna þegar stefnandi gerði stefnda umrætt tilboð um greiðslu þeirra. Stefnandi þykir því hvorki hafa sýnt fram á að stefnda hafi mátt vera ljóst að gild skuldbinding hans að víxilrétti væri veruleg forsenda fyrir tilboði hans né að sanngirnissjónarmið leiði til þess að honum hafi verið heimil afturköllun tilboðsins innan samþykkisfrests.

Stefndi Byr sparisjóður er því sýknaður af kröfum stefnanda. Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamál ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir eftir atvikum og umfangi málsins hæfilega ákveðinn 500.000 krónur. 

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Byr sparisjóður, er sýknaður af kröfu stefnanda, Þorbjarnar hf. 

Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.