Print

Mál nr. 494/2016

Birtingur útgáfufélag ehf. (Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.)
gegn
Auði Ingibjörgu Húnfjörð (Guðmundur B. Ólafsson hrl.)
Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsagnarfrestur
  • Orlof
  • Laun
  • Uppgjör
  • Endurgreiðsla ofgreidds fjár
Reifun

Ágreiningur aðila laut að uppgjöri vegna starfsloka A hjá B ehf. Að virtum atvikum málsins var fallist á með A að hún ætti kröfu á hendur B ehf. fyrir ótekið orlof og vangoldin laun. Þá var hafnað gagnkröfu B ehf. um bætur vegna ólögmæts brotthvarfs A úr starfi og um endurgreiðslu ofgreidds launaauka. Var B ehf. gert að greiða A ógreiddar eftirstöðvar orlofsfjár að frádregnum hluta af kröfu B ehf. vegna ofgreidds launauka.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 25. apríl 2016. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 8. júní 2016 og var áfrýjað öðru sinni 4. júlí sama ár. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu, en til vara að fjárhæð kröfunnar verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndu verði gert að greiða sér annars vegar 347.995 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags og hins vegar 881.280 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga frá 15. júlí 2013 til 20. janúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Einnig krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Birtingur útgáfufélag ehf., greiði stefndu, Auði Ingibjörgu Húnfjörð, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2016.

                Mál þetta, sem var dómtekið 13. janúar sl., er í aðalsök höfðað 9. apríl 2015 af Auði Ingibjörgu Húnfjörð, Furugranda 26 í Kópavogi, á hendur Birtingi útgáfufélagi ehf., Lyngási 17 í Garðabæ. Aðalsök var þingfest 16. apríl 2015.

                Endanlega krafa aðalstefnanda í aðalsök er sú að gagnstefnandi greiði henni ógreitt orlof og laun að fjárhæð 738.491 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags. Þess er jafnframt krafist að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. janúar 2015 en síðan árlega þann dag. Þá er krafist málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti og vaxta af málskostnaði samkvæmt 3. kafla laga nr. 38/2001 frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags.

                Gagnstefnandi krefst aðallega sýknu af dómkröfu aðalstefnanda í aðalsök, en til vara verulegrar lækkunar. Þá krefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar.

                Gagnstefnandi höfðaði gagnsakarmál á hendur aðalstefnanda með stefnu birtri 13. maí 2015 og gerir þær kröfur að aðalstefnanda verði gert að greiða sér 563.927 krónur, að frádreginni innborgun að fjárhæð 215.932 krónur þann 31. júlí 2013, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 347.995 krónum frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags. Þess er einnig krafist að aðalstefnandi verði dæmd til að greiða gagnstefnanda 881.280 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr., laga nr. 38/2001 frá 15. júlí 2013 til 20. janúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist viðurkenningar á rétti gagnstefnanda til skuldajafnaðar á framangreindum fjárhæðum við fjárhæð sem kunni að verða dæmd aðalstefnanda í aðalsök, að því marki sem til þurfi, en til sjálfstæðs dóms fyrir því sem er umfram kröfu aðalstefnanda í aðalsök. Þá er krafist málskostnaðar.

                Aðalstefnandi krefst sýknu af kröfum gagnstefnanda í gagnsök, auk málskostnaðar.

                                                                                              I

                Aðalstefnandi hóf störf hjá gagnstefnanda 1. júní 2012 sem auglýsingastjóri tímaritsins Nýtt líf. Umsamin laun hennar voru 250.000 krónur í grunnlaun, auk sölutengdra tekna sem voru 12% af allri sölu. Um áramótin 2012/2013 voru gerðar skipulagsbreytingar hjá gagnstefnanda og í kjölfarið, 1. mars 2013, var gerður nýr samningur við aðalstefnanda. Var hún eftir það viðskiptastjóri og sá um að selja auglýsingar í öll tímarit sem gagnstefnandi gaf út. Launafyrirkomulagi aðalstefnanda var breytt þannig að föst laun hennar skyldu vera 220.000 krónur og ökutækja- og símastyrkur 40.000 krónur. Þá skyldu tölutengdar tekjur vera 5% af sölu fyrir fyrstu 2.000.000 króna, 7% af sölu upp að 5.000.000 króna og 10% af allri sölu eftir það.

                Aðalstefnandi var ósátt við þessar breytingar og taldi að þær myndu leiða til skerðingar á heildartekjum hennar. Hún sagði starfi sínu lausu 24. júní 2013 og gerði þá ráð fyrir því að starfa út þriggja mánaða uppsagnarfrest sinn, eða til 30. september 2013. Með tölvuskeyti 28. júní 2013 óskaði hún hins vegar eftir því að fá að láta strax af störfum. Í framhaldi af því átti aðalstefnandi fund 1. júlí 2013 með Matthíasi Björnssyni, fjármálastjóra gagnstefnanda. Ágreiningur er með aðilum um hvort samkomulag hafi náðst á þeim fundi um starfslok aðalstefnanda þegar í stað. Aðalstefnandi heldur því fram að svo hafi verið og hún hafi þann sama dag kvatt samstarfsfólk sitt í góðu samkomulagi.

                Þann 1. júlí 2013 sendi aðalstefnandi tölvuskeyti til samstarfsmanna sinna og viðskiptavina og tilkynnti að hún hefði sagt upp starfi sínu og myndi hætta samdægurs. Þennan sama dag sendi gagnstefnandi aðalstefnanda og öðrum viðskiptastjórum sínum tölvuskeyti þar sem fram kom að við útreikning sölugrunns þann mánuð hefði komið í ljós „skekkja, ekkert alvarlegt“. Þetta yrði skoðað og leiðrétt við hvern starfsmann.

                Stefnandi átti í tölvupóstsamskiptum við fjármálastjóra gagnstefnanda í júlí og ágúst sama ár. Samkvæmt tölvuskeyti fjármálastjórans 12. júlí skyldi „lokauppgjör“ fara fram næstu mánaðamót á eftir. Þann 15. sama mánaðar tilkynnti aðalstefnandi að hún hefði hafið störf á nýjum vinnustað þann sama dag. Kom þar fram að hún hefði ákveðið að vera ekki í fríi út júlí eins og til hafi staðið. Því væri einungis um hálfan mánuð að ræða á milli þeirra. Í framhaldi áttu aðilar samskipti um uppgjör þeirra á milli.

                VR sendi gagnstefnanda innheimtubréf, dags. 29. nóvember 2013, vegna ógreidds orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Því var svarað með bréfi gagnstefnanda, dags. 20. desember 2013, þar sem kröfum aðalstefnanda var hafnað og vísað til þess að gagnstefnandi ætti kröfu á aðalstefnanda vegna ofgreidds bónuss og ólögmæts brotthlaups úr starfi.

                                                                                              II

                Aðalstefnandi byggir á því að uppgjör samkvæmt launaseðli hennar vegna launa og orlofs í lok júlí 2013 hafi ekki verið í samræmi við útgefna launaseðla fyrirtækisins þar sem orlof við starfslok sé einungis reiknað af grunnlaunum en ekki heildarlaunum eins og kveðið sé á um í 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Laun aðalstefnanda hafi samanstaðið af föstum launum og bónus. Heildarlaun hennar frá 1. júní 2012 til 30. júní 2013 hafi verið 7.637.754 krónur. Orlof sé 10,17% af heildarlaunum og eigi því að vera 776.760 krónur. Gagnstefnandi hafi greitt 182.732 krónur af þeirri kröfu samkvæmt launaseðli fyrir júlí 2013. Vangoldin orlofslaunakrafa sé því 594.028 krónur.

                Gagnstefnandi hafi dregið 215.932 krónur af launum aðalstefnanda við útgreiðslu launa í júlí. Þær skýringar hafi verið gefnar að um ofgreiddan bónus hafi verið að ræða. Aðalstefnandi mótmæli því að svo hafi verið og telji að gagnstefnandi hafi ekki haft heimild til að draga af þegar greidd laun sem nýtt séu til framfærslu af aðalstefnanda. Því sé gerð krafa um greiðslu þeirrar fjárhæðar sem vangoldinna launa.

                Samkvæmt grein 1.9 í kjarasamningi VR og samtaka atvinnulífsins sem gildi frá febrúar 2008 eigi laun að greiðast fyrsta dag eftir að þeim mánuði lýkur sem laun eru greidd fyrir. Samkvæmt 8. gr. orlofslaga beri vinnuveitanda að greiða áunnin orlofslaun við lok ráðningartímans.

                Krafa aðalstefnanda sundurliðist sem hér segi:

                Vangoldið orlof (10,17% x 7.637.754 kr. )                   kr. 594.028.

                Vangoldin laun vegna frádráttar á launaseðli                             kr. 215.932.

                Samtals                                                                               kr. 809.960.

                Varðandi kröfu gagnstefnanda vegna ofgreidds sölubónuss vísi aðalstefnandi til þess að gagnstefnandi hafi einhliða breytt launakerfi að því er varði föst laun og árangurstengingu í starfi, auk þess sem gerðar hafi verið breytingar á sölukerfi. Breytingin hafi falist í því að allir sölumenn hafi átt að selja auglýsingar fyrir öll blöð fyrirtækisins, en áður hafi sölumenn selt auglýsingar í tiltekin blöð. Aðalstefnandi hafi verið ósátt við breytinguna þar sem hún hafi álitið að hún myndi lækka í launum. Það hafi verið ástæða þess að hún hafi viljað hætta störfum.

                Við útgreiðslu launa vegna maí hafi laun verið greidd með venjubundum hætti en þann 1. júlí hafi aðalstefnandi móttekið tilkynningu um að komið hefði í ljós skekkja við útreikninga sölugrunns, en það væri „ekkert alvarlegt“. Þetta kallaði á endurskoðun verklags aftur í tímann sem lyki fyrir vikulok. Þetta yrði leiðrétt við hvern og einn ef einhverju munaði, en það gæti numið einhverjum smáupphæðum fyrir hvern og einn. Engin leiðrétting eða tilkynning um leiðréttingu hafi komið viku síðar. Það sem dregið hafi verið frá launum aðalstefnanda hafi ekki verið í samræmi við tölvuskeytið, enda byggi endurkrafan á allt öðrum forsendum um leiðréttingu en tölvuskeytið frá 1. júlí gefi til kynna. Því sé mótmælt að aðalstefnandi hafi viðurkennt að um ofgreiðslu launa væri að ræða.

                Samkvæmt meginreglum vinnuréttar verði ofgreidd laun ekki endurkrafin, enda séu þau ætluð til framfærslu. Kröfum gagnstefnanda sé því mótmælt bæði að því er varði útreikninga og endurkröfu. Tölvuskeytið frá 1. júlí veiti gagnstefnanda engan rétt þar sem viðvörunin sem í honum hafi falist hafi ekki verið í samræmi við þá fjárhæð sem dregin hafi verið frá launum aðalstefnanda hvað þá fjárhæðina sem krafist sé endurgreiðslu á.

                Engin gögn hafi fylgt sölutölum við útgreiðslu launa og engin slík gögn hafi verið lögð fram. Ómögulegt sé því fyrir aðalstefnanda að átta sig á útreikningunum. Ágreiningur aðila snúist um tvö tímabil, annars vegar vegna sölu frá 20. apríl til 20. maí og hins vegar frá 21. maí til 20. júní. Aðalstefnandi hafi haldið söludagbók yfir sölur sínar á þeim tíma. Samkvæmt söludagbókinni hafi hún á tímabilinu frá 20. apríl til 20. maí selt eftirfarandi: Nýtt Líf 4. tbl. 1.258.385 krónur, Nýtt Líf 5. tbl. 530.000 krónur, Gestgjafinn 5. tbl. 425.006 krónur, Sumarpakki 250.000 krónur, KSÍ 77.209 krónur, Vikan 18. tbl. 77.208 krónur, Vikan 17. tbl. 28.594 krónur, Wow headrest 4.200.000 krónur eða samtals 6.846.402 krónur. Salan í tímarit hafi verið 2.646.402 krónur. Bónus hafi verið 7% af sölu yfir 2 milljónum króna og hafi því verið 185.248 krónur. Greiddar hafi verið 207.989 krónur og ofgreiddar hafi því verið 22.741 króna. Samkomulag hafi verið um að greiða fyrir sölu vegna WOW með júní-launum.

                Gagnstefnandi telji ofgreiðslu hafa verið 126.615 krónur. Sú tala hafi ekki verið skýrð með gögnum en svo virðist sem heildarsala samkvæmt gagnstefnu hafi verið 1.018.912 krónum lægri en samkvæmt söludagbók aðalstefnanda. Heildarsala fyrir rúmlega 1,6 milljónir króna hefði gefið 81.000 króna bónus, en það sé í engu samræmi við sölutölur og sölubónusa undanfarna mánuði. Bónusar aðalstefnanda hafi verið 236.000 krónur í janúar, 181.000 krónur í febrúar, 276.000 krónur í mars og 348.000 krónur í apríl. Talan sem gagnstefnandi telji heildarsölu vegna apríl sé engum gögnum studd og sé henni mótmælt.

                Stefnandi telji að þótt um ofgreiðslu hafi verið að ræða upp á 22.741 krónu sé sú fjárhæð ekki endurkræf þar sem um lága fjárhæð sé að ræða og launin ætluð til framfærslu.

                Samkvæmt söludagbók aðalstefnanda hafi sala á síðara tímabilinu, 21. maí til 20. júní, verið eftirfarandi: Nýtt Líf 6.tbl. 1.211.689 krónur, Gestgjafinn 6. tbl. 109.573 krónur, Gestgjafinn 7. tbl. 328.719 krónur, Wow 578.643 krónur, Heilsan 528.049 krónur, ÍTA 209.522 krónur, S&H 194.417 krónur, Vikan 21. tbl. 77.208 krónur, sumarpakki HJ x 2 499.800 krónur, Nýtt Líf 7. tbl. 742.496, Ferðablaðið 45.000 krónur, Vikan 24. tbl. 77.208 krónur og Vikan 25. tbl. 31.193 krónur eða samtals 4.633.517 krónur. Sala vegna WOW-headrest hafi verið 4.200.000 krónur. Heildarsalan hafi því numið 8.833.517 krónum, en greiða hafi átt 10% af sölu umfram fimm milljónir króna. Bónus hafi því verið 883.352 krónur, en greiddar hafi verið 1.004.388 krónur. Ofgreiðsla nemi því 121.036 krónum.

                Ágreiningur aðila snúist um heildarsölutölur. Engin gögn fylgi útreikningi gagnstefnanda eða skýringar á því hvernig hann fái umræddar sölutölur. Þó skýrist munur á síðara tímabili einkum af því að sala vegna WOW sé tiltekin 1.386.000 krónur hjá gagnstefnanda en 4.200.000 krónur hjá aðalstefnanda. Vegna annarrar sölu muni 358.763 krónum.

                Ágreiningur vegna WOW sölu snúist um hvort miða eigi við heildarsölu eða hlutdeild í samningi við WOW. Er sölumönnum hafi verið boðið að selja auglýsingar á sætisbök WOW hafi aldrei verið talað um annað en sölubónus af heildarsölu, enda hafi verið greitt í samræmi við það. Gagnstefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að samið hafi verið um annað. Ekkert í gögnum málsins styðji það. Sölumenn hafi séð mikil tækifæri í sölunni enda hafi verið öruggt að heildarsalan færi þá yfir 5 milljónir króna og því væri kominn 10% bónus vegna heildarsölu. Samkomulagið hafi verið þannig að sá sölumaður er fyrst gæti selt auglýsingu fengi allan samninginn. Aðalstefnandi hafi verið fyrst og því fengið alla söluna. Ekkert hafi komið fram um mistök við útgreiðslu fyrr en eftir að aðalstefnandi hafi verið hætt störfum. Í tölvuskeyti frá Matthíasi Björnssyni fjármálastjóra 9. ágúst hafi sagt: „... það er frekar hæpið að reikna bónus út frá heildartekjum samningsins ...“ Þá hafi bónusinn þegar verið greiddur. Ef einungis hefði verið miðað við söluprósentu í hlutdeild gagnstefnanda, sem hafi verið 33%, hefði söluþóknun einungis verið 3,3% og hvatning til starfsmanna því lítil sem engin miðað við þóknun gagnstefnanda sjálfs sem hafi verið 1,4 milljónir króna.

                Samkvæmt framansögðu hafi ofgreiðsla vegna fyrra tímabilsins verið 22.741 króna og 121.036 krónur vegna síðara tímabilsins, eða samtals 143.777 krónur. Gagnstefnandi hafi dregið 215.932 krónur af launum aðalstefnanda. Launagreiðslur hafi alfarið verið á ábyrgð gagnstefnanda sjálfs sem hafi séð um útreikninga og útgreiðslu launa. Launin hafi verið móttekin í góðri trú. Vinnuveitandi geti því ekki endurkrafið um ofgreidd laun og skuldajöfnuði sé mótmælt.

                Varðandi kröfu gagnstefnanda vegna starfsloka bendi aðalstefnandi á að samkomulag hafi náðst um starfslok hennar í samtali við Matthías Björnsson fjármálastjóra 1. júlí 2013. Í framhaldi af því hafi aðgangi hennar að netfanginu audur@birtingur.is verið lokað. Í því felist ótvíræð sönnun þess að starfssambandinu hafi verið lokið, enda sé sölumaður hreinlega óvinnufær eftir það þar sem öll samskipti við viðskiptavini fari fram í gegnum tölvupóst. Frá þeim tíma hafi öll samskipti aðila farið fram í gegnum einkanetfang aðalstefnanda, sem væri óeðlilegt ef hún væri enn starfsmaður. Skýrt komi fram í tölvuskeyti Matthíasar Björnssonar 12. júlí 2013 að „lokauppgjör“ skyldi verða um næstu mánaðamót. Í þessu felist ótvíræð viðurkenning á því sem fram hafi farið á milli þeirra 1. júlí 2013.

                Aðalstefnandi hafi sent tölvuskeyti til allra starfsmanna og viðskiptavina sinna síðasta starfsdag hennar þar sem hafi staðið: „Ég hef sagt upp störfum hjá Birtingi og hætti strax í dag. Ég vil þakka kærlega fyrir skemmtilegt samstarf og mun án efa heyra frá ykkur í framtíðinni.“ Allir samstarfsmenn og yfirmenn aðalstefnanda hafi fengið þetta skeyti. Forsvarsmönnum gagnstefnanda hafi borið að gera athugasemdir hafi þeir ekki verið sammála þessum skilningi aðalstefnanda. Staðhæfingar um að hún hafi hætt fyrirvaralaust eigi því ekki við rök að styðjast.

                Samkvæmt meginreglum vinnuréttar beri þeim aðila sem telji að vinnusamningur sé brotinn að gefa hinum aðilanum kost á að bæta úr vanefnd áður en hægt er að beita vanefndarúrræðum. Gagnstefnandi hafi fengið tilkynningu um að aðalstefnandi væri komin í aðra vinnu 15. júlí 2013. Hann hafi ekki hreyft neinum andmælum við þeirri tilkynningu, hvorki um að hann teldi hana brjóta gegn vinnusamningi aðila, né með því að skora á hana að virða samning aðila. Gagnstefnandi geti því ekki gert kröfu vegna ólögmæts brotthlaups. Rök gagnstefnanda um að ekki hafi verið ástæða til þess þar sem hún hafi verið búin að ráða sig í aðra vinnu hafi enga þýðingu þar sem réttur til bóta sé háður því skilyrði að gefinn sé kostur á að bæta úr vanefnd.

                Gagnstefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna starfsloka aðalstefnanda. Nýtt sölukerfi hafi verið með þeim hætti að allir sölumenn hafi selt auglýsingar í öll blöð gagnstefnanda. Því geti sala ekki hafa misfarist eða tjón hafa orðið. Gagnstefnandi haldi því annars vegar fram að aðalstefnandi hafi hlaupið frá hálfkláruðu verki við að selja auglýsingar í tímarit sem hafi átt að koma út síðar í mánuðinum en viðurkenni hins vegar að hún hafi átt að vera í fríi í júlí. Þessi röksemdafærsla gangi ekki upp. Gagnstefnandi þurfi að sanna tjón sitt eða sýna fram á líkur á því að hann hafi orðið fyrir tjóni. Það að starfsmaður hætti störfum leiði ekki sjálfkrafa af sér að vinnuveitandi verði fyrir tjóni. Starfsmannavelta gagnstefnanda í söludeild auglýsinga hafi verið um 66% á fyrstu sex mánuðum ársins. Vart verði séð að starfslok aðalstefnanda geti hafa verið svo íþyngjandi þegar ekkert hafi verið gert til að óska eftir því að hún mætti aftur til vinnu.

                Bótakröfu sé sérstaklega mótmælt, en gagnstefnandi haldi því fram að aðalstefnandi hafi ekki verið hætt störfum heldur verið í orlofi og því einungis átt tvo mánuði eftir af uppsagnarfresti sem taka beri mið af ef beitt er ákvæðum hjúalaga.

                Því sé mótmælt að kröfur aðalstefnanda séu fallnar niður vegna tómlætis. Kröfurnar hafi verið settar fram með bréfi VR. Hins vegar eigi tómlætissjónarmið við um kröfur gagnstefnanda í gagnsök, en eins og fram hafi komið í tölvuskeyti Matthíasar Björnssonar hafi gagnstefnandi talið sig eiga kröfu vegna ofgreiðslu launa í ágúst 2013. Hann hafi hins vegar ekki sett þá kröfu fram fyrr en með útgáfu gagnstefnu þessa máls 19. maí 2015 eða um tveimur árum eftir að hann hafi talið sig vita um kröfuna.

                                                                                              III

                Gagnstefnandi byggir kröfu sína um sýknu af kröfu aðalstefnanda í aðalsök á því að hann hafi ekki samþykkt beiðni hennar um að hætta störfum þegar í stað. Hvergi í gögnum málsins sé að finna sönnun eða vísbendingu þess efnis. Aðalstefnanda hafi borið að virða umsaminn þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt 2. gr. í ráðningarsamningi sínum, sbr. einnig ákvæði laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests og ákvæði kjarasamnings VR og Samtaka atvinnulífsins. Það hafi hún hins vegar ekki gert heldur hafi hún tilkynnt gagnstefnanda 15. júlí 2013 að hún hefði þann dag hafið störf fyrir annan vinnuveitanda, nánar tiltekið samkeppnisaðila gagnstefnanda, útgefanda MAN magasín. Hún hafi tekið fram að hún hefði ákveðið að vera ekki í orlofi út mánuðinn. Þá bendi gögn málsins til þess að hún hafi hafið störf hjá MAN magasín, mun fyrr en hún hafi haldið fram í tölvubréfi sínu til gagnstefnanda 15. júlí 2013, eða a.m.k. hinn 7. júlí 2013.

                Aðalstefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að gagnstefnandi hafi samþykkt styttri uppsagnarfrest en kveðið hafi verið á um í ráðningarsamningi milli aðila. Hún hafi gegnt þýðingarmiklu starfi og mátt vera ljóst að enginn gæti komið í hennar stað með svo skömmum fyrirvara. Hagsmunir gagnstefnanda væru því verulegir þar til nýr starfsmaður fyndist í hennar stað.

                Aðalstefnandi beri ein ábyrgð á starfslokum sínum hjá gagnstefnanda og að hafa ekki sinnt starfi sínu á uppsagnarfresti eins og henni hafi verið skylt. Hún hafi þvert á móti og án samráðs við gagnstefnanda ekki mætt til starfa, heldur hafið störf fyrir annan vinnuveitanda. Í háttsemi aðalstefnanda hafi falist samningsbrot og gróft brot á trúnaðarskyldu gagnvart vinnuveitanda á samningstíma. Aðalstefnandi hafi því í raun rift ráðningarsamningi sínum fyrirvaralaust með háttsemi sinni. Ekki hafi heldur verið grundvöllur fyrir því að skora á aðalstefnanda að mæta til vinnu eftir tilkynningu hennar. Þess í stað hafi þurft að fara fram uppgjör milli aðila á grundvelli þeirrar stöðu sem komin hafi verið upp, enda um fullkominn trúnaðarbrest að ræða.

                Krafa aðalstefnanda um „vangoldin laun“ að fjárhæð 215.932 krónur sé algerlega tilhæfulaus og virðist byggð á misskilningi. Aðalstefnandi hafi ekki átt nein laun inni hjá gagnstefnanda þegar hún hafi látið af störfum, enda hafi hún fengið útborguð laun í lok júní og ekkert unnið hjá gagnstefnanda eftir það. Ástæða þess að gagnstefnandi hafi dregið 215.932 krónur af aðalstefnanda í uppgjörinu í lok júlí 2013 hafi verið sú að með þessu hafi hann skuldajafnað því orlofi sem hann hafi talið aðalstefnanda eiga inni hjá sér við kröfu sína á hendur henni um vangreitt orlof, auk orlofs- og desemberuppbótar. Um mánaðamótin júlí/ágúst hafi legið fyrir að gagnstefnandi hafi átt kröfu á aðalstefnanda vegna ofgreidds sölubónuss. Leiðréttingar gagnvart öðrum starfsmönnum gagnstefnanda hafi farið fram með því að ofgreiddur bónus hafi verið dreginn af launum, en þar sem aðalstefnandi hafi verið hætt störfum hafi hún engin laun átt inni hjá gagnstefnanda. Orlofsinneign hennar hafi því verið skuldajafnað við hluta af kröfu gagnstefnanda. Sá skuldajöfnuður sé viðurkenndur í stefnu málsins, enda komi þar fram að gagnstefnandi hafi greitt 182.732 krónur af heildar orlofskröfunni, sem sé 776.760 krónur. Það sem eftir standi af 215.932 krónum hafi verið uppgjör á orlofs- og desemberuppbót. Aðalstefnandi eigi enga kröfu á gagnstefnanda um vangoldin laun. Heildarkrafa aðalstefnanda geti ekki numið hærri fjárhæð en sem orlofskröfu hennar nemi, eða 594.028 krónum. Með því að krefjast sérstaklega 215.092 króna sem „vangoldinna launa“ sé í raun verið að krefja um þegar greitt orlof sem „vangoldin laun“ að fjárhæð 182.732 krónur, sem þó sé viðurkennd í stefnu sem innborgun, auk greiðslu á orlofs- og desemberuppbót.

                Samkvæmt 7. gr. orlofslaga reiknist orlofslaun við hverja launagreiðslu þannig að af heildarlaunum reiknist orlofslaunahlutfall að lágmarki 10,17%. Þótt þetta sé regla orlofslaganna séu orlofslaun mánaðarkaupsfólks í raun reiknuð í orlofsdögum, enda beri launaseðlar aðalstefnanda með sér að orlof hennar hafi verið innifalið í launum og að það skyldi taka út með töku orlofsdaga á óskertum launum. Aðalstefnandi setji kröfuna fram líkt og hún hafi aldrei tekið launað orlof hjá gagnstefnanda en það sé rangt. Á 13 mánaða starfstíma sínum hafi hún unnið sér inn 26 orlofsdaga. Á þeim tíma hafi hún nýtt a.m.k. átta orlofsdaga, en hún hafi verið í leyfi fimmtudaginn 21. desember og föstudaginn 22. desember 2012. Þá hafi hún verið í leyfi fimmtudaginn 13. júní til og með föstudeginum 21. júní 2013, samtals sex daga. Hún hafi því að hámarki átt inni 18 orlofsdaga þegar hún hafi ákveðið að hætta störfum. Orlofsuppgjör gagnstefnanda hafi byggt á því. Þess utan hafi aðalstefnandi farið í leyfi til Flórída á starfstímanum og verið á launum á meðan, en ekki sé ljóst hversu marga daga það hafi verið.

                Samkvæmt útreikningum gagnstefnanda hafi orlofsinneign aðalstefnanda numið 182.732 krónum en að viðbættri orlofs- og desemberuppbót 215.932 krónum. Gagnstefnandi hafi skuldajafnað þessari fjárhæð við kröfu sína á hendur aðalstefnanda með hennar vitund og samþykki, enda hafi hún aldrei mótmælt kröfu gagnstefnanda eða skuldajöfnuðinum og hann sé viðurkenndur í stefnu sem innborgun inn á orlofskröfuna og uppgreiðsla á orlofs- og desemberuppbót. Það sé þannig óumdeilt að gagnstefnandi hafi greitt 182.732 krónur í orlof á móti orlofskröfu aðalstefnanda. Þá liggi fyrir að aðalstefnandi hafi nýtt a.m.k. átta daga launað orlof á starfstíma, auk þess sem hún hafi tekið leyfi til að fara til útlanda. Það sé því ósannað að aðalstefnandi eigi rétt til frekara orlofs.

                Gagnstefnandi byggi sýknukröfu sína einnig á tómlæti aðalstefnanda. Hún hafi sýnt af sér slíkt tómlæti við innheimtu meintrar launakröfu sinnar, að hún hafi fyrirgert rétti sínum til kröfunnar, eigi hún hana á annað borð. Krafa um vangoldið orlof hafi fyrst komið fram eftir starfslok aðalstefnanda. Hún hafi sagt upp störfum 24. júní 2013 og til hafi staðið að hún lyki störfum 30. september 2013, miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest. Þann 28. júní 2013 hafi hún hins vegar óskað eftir því, þvert á það sem samið hafi verið um, að fá að láta af störfum strax og vinna ekki út uppsagnarfrestinn. Þann 15. júlí 2013 hafi hún tilkynnt að hún hefði hafið störf hjá MAN magasín, samkeppnisaðila gagnstefnanda og hún hefði þar með ákveðið að hætta að vera í orlofi. Gögn málsins beri þó með sér að hún hafi starfað lengur fyrir nefndan samkeppnisaðila eða a.m.k. frá 7. júlí 2013. Með því hafi hún í raun rift ráðningarsamningi sínum einhliða og fyrirvaralaust.

                Ekkert hafi heyrst frá aðalstefnanda frá því að bréfasamskiptum lögmanna hafi lokið 20. desember 2013 og gagnstefnandi hafi talið málinu lokið. Hún hafi aldrei mótmælt fullyrðingum gagnstefnanda um ofgreiddan bónus. Tæpum tveimur árum eftir uppsögnina hafi aðalstefnandi svo höfðað mál þetta. Full ástæða hafi verið til þess fyrir hana að hefjast handa við málsókn sína án tafar, til að tryggja lögmæti meintra krafna sinna fyrir dómstólum. Með því að sýna af sér slíkt tómlæti hafi aðalstefnandi glatað rétti til mögulegrar kröfu sinnar.

                Vaxtakröfu aðalstefnanda sé sérstaklega mótmælt. Fordæmi séu fyrir því að kröfuhafi glati rétti sínum til dráttarvaxta fyrir þingfestingu máls vegna tómlætis. Þess sé því krafist að vextir verði í fyrsta lagi dæmdir frá þingfestingu.

                Gagnkrafa gagnstefnanda sé tvíþætt. Annars vegar lúti hún að endurgreiðslu vegna ofgreidds sölubónuss en hins vegar sé um að ræða skaðabætur vegna ólögmæts brotthlaups úr starfi.

                Aðalstefnandi hafi m.a. selt fyrirtækjum auglýsingar í tímaritum gagnstefnanda og fengið greidd föst laun auk sölutengdra tekna eða sölubónuss. Eftir launakeyrslu og útborgun launa 30. júní 2013 hafi uppgötvast villa í bónusum til starfsmanna gagnstefnanda sem hafi falist í því að hlutfall sölubónuss starfsmanna hafi verið reiknað af heildarfjárhæð auglýsingasölusamninga, en ekki af tekjum gagnstefnanda af samningunum. Í tilviki aðalstefnanda hafi verið um að ræða samning milli flugfélagsins WOW air ehf., gagnstefnanda og Cintamani um auglýsingar síðastnefnda aðilans í flugtímariti og á sætisbökum WOW air ehf., en gagnstefnandi hafi annast útgáfu flugtímaritsins fyrir flugfélagið. Hlutfall gagnstefnanda í tekjum af samningnum hafi verið ákveðið 33% en aðrar tekjur hafi runnið til flugfélagsins. Sölubónus aðalstefnanda hafi átt að reiknast af tekjum gagnstefnanda af samningnum, en ekki af heildarfjárhæð samningsins eins og gert hafi verið. Einnig hafi komið í ljós að sölubónus hafi verið rangt reiknaður um mánaðamótin maí/júní, en sú tala hafi verið mun lægri.

                Tilkynning um villuna hafi verið send viðskiptastjórum, þ.m.t. aðalstefnanda, með tölvuskeyti 1. júlí 2013, eða sama dag og laun hafi verið greidd vegna júní. Ofgreiddur bónus aðalstefnanda við launaútborgun um mánaðamótin júní/júlí hafi numið 438.313 krónum, en um mánaðamótin maí/júní hafi hún fengið ofgreiddar 126.614 krónur. Samtals hafi hún því fengið ofgreiddan bónus að fjárhæð 563.927 krónur. Ekki sé ágreiningur um að aðalstefnandi hafi fengið ofgreiddan bónus og að henni beri að endurgreiða þá fjármuni, en aðalstefnandi hafi aldrei mótmælt því og hafi viðurkennt vitneskju sína um ofgreiðslu. Í stefnu sé m.a.s. viðurkenndur sem innborgun skuldajöfnuður sem hafi verið framkvæmdur af gagnstefnanda, þar sem orlofsinneign hafi verið skuldajafnað á móti þessari kröfu.

                Gagnstefnandi eigi rétt á endurgreiðslu í samræmi við meginreglur kröfu- og vinnuréttar vegna þess sem hafi verið ofgreitt. Ofgreiðslan hafi stafað af villu um staðreyndir. Villan hafi verið augljós og athygli starfsmanna hafi strax verið vakin á henni. Aðalstefnandi hafi fengið mun hærri laun en hún hafi mátt eiga von á með hliðsjón af fyrri launagreiðslum. Gagnstefnandi hafi ekki vakið hjá henni traust um að þessar ofgreiðslur gætu talist til réttra launa hennar, enda hafi hann leiðrétt ofgreiðslurnar um leið og hann hafi orðið þeirra var. Í síðara tilvikinu hafi starfsmenn verið upplýstir um villuna sama dag og launin hafi verið greidd. Aðalstefnandi hafi ekki hreyft andmælum við leiðréttingu á ofgreiðslunni og hafi viðurkennt að hafa móttekið tilkynninguna um ofgreiðsluna. Endurgreiðsluskylda hennar á fjárhæðinni 563.927 krónum sé óumdeilanleg. Aðalstefnanda beri því að greiða gagnstefnanda fjárhæðina að frádreginni þeirri fjárhæð sem gagnstefnandi hafi nýtt til að skuldajafna við ógreitt orlof og orlofs- og desemberuppbót við uppgjör um mánaðamótin júlí/ágúst 2013, alls 215.932 krónur. Krafa gagnstefnanda vegna þessa liðar sé því 347.995 krónur auk vaxta.

                Aðalstefnandi hafi algjörlega einhliða og með ólögmætum hætti tekið ákvörðun um að hætta störfum fyrir gagnstefnanda. Sú regla gildi í vinnurétti að starfsmönnum sé óheimilt að hlaupast á brott úr starfi sínu, rétt eins og atvinnurekanda sé óheimilt að rifta ráðningarsamningi, án réttmætrar ástæðu. Um verulega vanefnd atvinnurekanda þurfi að vera að ræða til þess að brotthlaup starfsmanns úr starfi geti talist lögmætt. Aðalstefnandi hafi ekki haft réttmæta ástæðu til að hlaupast á brott úr starfi sínu enda hafi gagnstefnandi staðið við allar skyldur sínar gagnvart henni. Ástæða þess að hún hafi hlaupist á brott úr starfi sínu hafi verið sú að henni hafi boðist starf hjá samkeppnisaðila gagnstefnanda, en gagnstefnandi hafi ekki viljað sleppa henni við að vinna uppsagnarfrestinn. Ástæðan hafi því ekki aðeins verið ólögmæt heldur hafi beinlínis verið um að ræða gróft brot á trúnaðarskyldu starfsmanns gagnvart vinnuveitanda.

                Dómstólar líti svo á að atvinnurekandi eigi skaðabótakröfu á hendur starfsmanni vegna ólögmæts brotthlaups úr starfi. Þá sé litið til þess tjóns sem starfsmaður hafi valdið atvinnurekanda sínum með slíku framferði. Uppsögn aðalstefnanda hafi komið sér mjög illa fyrir gagnstefnanda, enda hafi hún horfið frá hálfkláruðu verki við að selja auglýsingar í næsta tölublað tímaritsins Nýtt líf. Fyrirvaralaust og ólögmætt brotthlaup aðalstefnanda hafi óumdeilanlega valdið gagnstefnanda verulegu tjóni. Í dómaframkvæmd hafi verið miðað við að starfsmanni beri að greiða atvinnurekanda meðalhófsbætur fyrir ólögmætt brotthlaup er samsvari launum fyrir helming uppsagnarfrests starfsmannsins, ef tjón er ekki sannað, sbr. 1. mgr. 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928. Samkvæmt dómafordæmum hafi ákvæðið almennt gildi í vinnurétti með lögjöfnun. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur aðalstefnanda samkvæmt ráðningarsamningi hafi verið þrír mánuðir. Samkvæmt framangreindri skaðabótareglu beri henni að greiða gagnstefnanda fjárhæð sem svari til launa í einn og hálfan mánuð. Heildarlaun aðalstefnanda hafi verið breytileg þar sem þau hafi að hluta verið árangurstengd. Heildarlaun hennar þá 13 mánuði sem hún hafi starfað hjá gagnstefnanda hafi verið 7.637.754 krónur, en krafa hennar um orlof byggi á þeirri fjárhæð. Gagnstefnandi geri ekki athugasemd við að hún sé höfð til viðmiðunar um laun aðalstefnanda, enda horfi það til mikillar einföldunar. Samkvæmt því hafi meðaltalsmánaðarlaun verið 587.520 krónur. Skaðabótakrafa gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda nemi einum og hálfum þeim mánaðarlaunum, eða 881.280 krónum.

                Krafa gagnstefnanda á hendur aðalstefnanda sé því að fjárhæð 563.927 krónur vegna ofgreidds sölubónuss að teknu tilliti til innborgunar og 881.280 krónur vegna ólögmæts brotthlaups úr starfi, eða samtals 1.445.207 krónur. Til frádráttar komi 215.932 krónur vegna skuldajöfnuðar og krafan sé því 1.229.275 krónur. Þess sé krafist að viðurkenndur verði réttur gagnstefnanda til að skuldajafna framangreindri fjárhæð við þá fjárhæð sem mögulega verði dæmd aðalstefnanda í aðalsök, en að sjálfstæður dómur gangi um það sem umfram sé, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Enginn vafi leiki á því að kröfur samkvæmt gagnstefnu séu samkynja kröfu aðalstefnanda í aðalsök og eigi rætur að tekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings.

                                                                                              IV

                Deila málsaðila lýtur að uppgjöri vegna starfsloka aðalstefnanda hjá gagnstefnanda og snýst ágreiningur þeirra um orlofsgreiðslur, bónusgreiðslur og bótakröfu vegna brotthlaups aðalstefnanda. Gagnstefnandi hefur ekki andmælt útreikningi aðalstefnanda á orlofskröfu sinni. Við aðalmeðferð málsins var það staðfest af hálfu gagnstefnanda að hann gerði ekki athugasemd við að orlofslaun aðalstefnanda hefðu átt að nema 776.760 krónum. Hann telur hins vegar að lækka verði þá fjárhæð vegna átta orlofsdaga sem aðalstefnandi hafi tekið. Við aðalmeðferð málsins féllst aðalstefnandi á að lækka bæri kröfuna vegna sex orlofsdaga hennar í júní 2013 en taldi rétt að miða við föst mánaðarlaun við lækkunina. Því mótmælti gagnstefnandi og taldi að miða bæri við heildarlaun. Ágreiningur er um tvo daga í desember 2012 þar sem gagnstefnandi heldur því fram að aðalstefnandi hafi verið í fríi en hún kannast ekki við það. Fullyrðing gagnstefnanda byggist á því að samkvæmt vinnuyfirliti hafi aðalstefnandi verið skráð í orlof þessa daga en aðalstefnandi telur þá skráningu ekki áreiðanlega. Þótt innskráningar starfsmanns í kerfið hafi ekki verið nákvæmar er ekkert sem bendir til annars en að skráningar á orlofsdögum hafi verið réttar, enda er óumdeilt að leyfisdagar í júní eru þar rétt skráðir. Verður því að telja að gagnstefnandi hafi fært nægilegar sönnur fyrir því að aðalstefnandi hafi verið í leyfi þá tvo daga í desember 2012 sem um ræðir. Gagnstefnandi heldur því jafnframt fram að aðalstefnandi hafi tekið sér fleiri orlofsdaga þegar hún hafi farið í frí til Flórída. Aðalstefnandi kvaðst hafa fengið leyfi til þess að vinna í ferð sinni til Flórída, en samið hafi verið um að hún ynni þar í sex klukkustundir á dag. Matthías Björnsson, fjármálastjóri gagnstefnanda, kvaðst fyrir dóminum kannast við að aðalstefnandi hafi eitthvað unnið í fríinu úti en taldi að þó hafi verið um leyfi að ræða. Hann kvaðst þó ekki hafa komið að samkomulagi um þetta. Engin gögn liggja fyrir um það um hve langan tíma var að ræða eða hvers efnis samkomulag aðila var. Hefur því ekki verið sýnt fram á að aðalstefnandi hafi tekið orlof vegna ferðar sinnar til Flórída. Óumdeilt er að aðalstefnandi hafði unnið sér inn 26 orlofsdaga vegna starfs síns hjá gagnstefnanda. Samkvæmt framangreindu hefur hún þegar nýtt átta daga af orlofi sínu og átti því ógreidda 18 daga við starfslok.

                Gagnstefnandi krefst þess að aðalstefnandi greiði sér 563.927 krónur, að frádregnum 215.932 krónum sem hann hefur þegar dregið af launum hennar vegna ofgreidds sölubónuss. Aðalstefnandi krefst þess að þær 215.932 sem dregnar hafi verið af launum hennar verði endurgreiddar sér. Gagnstefnandi tilkynnti aðalstefnanda og öðrum viðskiptastjórum sínum með tölvuskeyti 1. júlí 2013 að við útreikning launa „þennan mánuðinn“ hefði komið í ljós „skekkja, ekkert alvarlegt“. Þetta kallaði á endurskoðun verklags aftur í tímann. Þeirri vinnu myndi ljúka fyrir vikulok og yrði þetta „leiðrétt við hvern og einn ef einhverju munar. Þetta gæti numið einhverjum smáupphæðum fyrir hvern og einn.“ Í tölvuskeyti Matthíasar Björnssonar til aðalstefnanda 31. júlí 2013 kemur fram að hann hafi verið að fara yfir bónusa vegna „Cintamani sölunnar“. Þá hafi komið í ljós að það hafi verið „verulega ofgreitt enda hafði það verið reiknað með í maí útborgun og svo tvöfalt í júní útborgun“. Í tölvuskeyti Matthíasar frá 4. ágúst sama ár kom það sama fram: „Cintamani salan var tekin með í maí og var svo tvítekin í júní bæði af okkar þóknun og heildarsölunni. Auk þess voru tímarit eins og GE 1306 og önnur tímarit tekin með sem ekki tilheyrðu uppgjörstímabilinu 21. maí-20. júní.“ Í tölvuskeyti hans frá 9. sama mánaðar kom svo fram að bónusinn vegna Cintamani sölunnar hefði verið reiknaður af heildartekjum samningsins. Þá sagði: „Mér finnst frekar hæpið að reikna bónus út frá heildartekjum samningsins enda eru þetta ekki okkar tekjur. Það ætti að reikna það út frá okkar hluta af samningnum.“

                Í gagnstefnu er greint frá því að ofgreiðslur til aðalstefnanda hafi numið 438.313 krónum um mánaðamótin júní/júlí, en um mánaðamótin maí/júní 126.614 krónum, eða samtals 563.927 krónum. Engar skýringar er þar hins vegar að finna á því hvernig þessar fjárhæðir eru fundnar að öðru leyti en því að ljóst er að ágreiningur stendur um sölu á auglýsingum fyrir Wow air til Cintamani. Gagnstefnandi ber því við að stærstur hluti ofgreiðslunnar sé til kominn vegna þess að bónus aðalstefnanda hafi verið reiknaður af heildarsamningnum en ekki af hlut gagnstefnanda í samningnum. Framangreindur samningur er ekki meðal gagna málsins, en ljóst er að aðalstefnandi var ekki aðili að honum. Þá hefur hún borið að henni hafi ekki verið kynntur sá samningur, heldur hafi salan verið kynnt starfsmönnum þannig að öll fjárhæðin hafi verið undir, enda hafi verið keppikefli að ná sölunni og háum bónus vegna hennar. Haraldur Logi Hrafnkelsson, fyrrum samstarfsmaður aðalstefnanda hjá gagnstefnanda, bar á sama veg og sagði samkeppni hafa verið á milli viðskiptastjóranna um að ná þessari sölu. Málið hafi verið kynnt fyrir þeim á fundi en aldrei hafi verið talað um annað viðmið fyrir sölubónusinn. Í ráðningarsamningi aðalstefnanda frá 1. mars 2013 kemur fram að sölubónus starfsmanns skuli vera 5% þóknun ef hann selur fyrir undir tvær milljónir á mánuði, 7% þóknun ef hann selur fyrir yfir tvær milljónir á mánuði og 10% þóknun ef hann selur fyrir meira en fimm milljónir á mánuði. Sá skilningur gagnstefnanda að miða ætti sölubónus við hlutdeild hans í samningi við Wow air kom ekki fram fyrr en nokkru eftir starfslok aðalstefnanda. Gagnstefnandi verður að bera ábyrgð á því hafi hann gert mistök við sölubónus vegna auglýsinga fyrir Wow air. Um umtalsverða fjárhæð er að ræða fyrir aðalstefnanda og ekkert sem bendir til þess að hún hafi mátt vita um framangreinda ætlun gagnstefnanda. Er því ekki hægt að fallast á að gagnstefnandi eigi endurkröfurétt á hana af þeim sökum.

                Eins og að framan greinir gerir gagnstefnandi ekki grein fyrir því í gagnstefnu hvernig hann hefur fundið þær fjárhæðir sem hann miðar við. Aðalstefnandi hefur hins vegar lagt fram eigin útreikninga á sölubónus sínum fyrir framangreind tímabil. Samkvæmt þeim fellst hún á að um ofgreiðslu hafi verið að ræða, vegna fyrra tímabilsins 22.741 krónur og vegna síðara tímabilsins 121.036 krónur. Samkvæmt tilkynningu gagnstefnanda frá 1. júlí 2013 var um að ræða smávægilega villu við greiðslu launa þann dag. Ekkert var minnst á villu í útborgun launa vegna mánaðarins á undan. Launagreiðslan var á ábyrgð gagnstefnanda og er ekki hægt að gera kröfu til þess að aðalstefnanda hafi mátt vera villan ljóst. Verður því ekki fallist á endurgreiðslukröfu vegna þess mánaðar. Tilkynning gagnstefnanda náði hins vegar til launa sem greidd voru út þann sama dag. Þá átti aðalstefnandi í framhaldinu í tölvupóstsamskiptum við fjármálastjóra gagnstefnanda um þessa villu. Þótt fallast megi á með aðalstefnanda að ekki sé um „smáupphæð“ að ræða verður að líta til þess að henni mátti vera ljóst strax frá útborgunardegi að mistök hefðu verið gerð við útborgunina og að til stæði að leiðrétta villuna. Það var svo gert við launagreiðslu næsta mánaðar. Þykir aðalstefnandi því verða að una endurkröfu gagnstefnanda að fjárhæð 121.036 krónur.

                Krafa gagnstefnanda vegna ólögmæts brotthlaups byggist á því að ekki hafi náðst samkomulag við aðalstefnanda um starfslok heldur hafi hún einhliða ákveðið að hætta og hefja störf á nýjum stað. Aðalstefnandi heldur því hins vegar fram að samkomulag hafi náðst um starfslok hennar á fundi með fjármálastjóra gagnstefnanda 1. júlí 2013. Í málinu liggur fyrir tölvuskeyti sem aðalstefnandi sendi þann dag til samstarfsmanna sinna og viðskiptavina þar sem hún tilkynnti uppsögn sína og starfslok sama dag. Matthías Björnsson, fjármálstjóri gagnstefnanda, staðfesti að pósturinn hefði borist sér. Fyrir liggur að engar athugasemdir voru gerðar við aðalstefnanda af því tilefni. Þá kom fram í tölvuskeyti fjármálastjórans til aðalstefnanda 12. júlí 2013 að lokauppgjör færi fram um næstu mánaðamót. Fjármálstjórinn greindi frá því fyrir dóminum að honum hefði ekki verið kunnugt um að aðalstefnandi hefði ráðið sig í nýtt starf fyrr en 15. júlí 2013. Þykir þetta benda ótvírætt til þess að gagnstefnandi hafi fallist á að aðalstefnandi ynni ekki út uppsagnarfrest sinn. Verður kröfu gagnstefnanda um bætur vegna ólögmæts brotthlaups því hafnað.

                Við aðalmeðferð málsins byggði gagnstefnandi meðal annars á því að fjármálastjóra gagnstefnanda hefði skort umboð til þess að semja um starfslok aðalstefnanda. Framangreindri málsástæðu var ekki andmælt sem of seint fram kominni, en því mótmælt að um umboðsskort væri að ræða. Fram hefur komið að framkvæmdastjóri gagnstefnanda fól fjármálastjóranum að ræða við aðalstefnanda um starfslok hennar í fjarveru sinni. Framkvæmdastjórinn var í framhaldinu upplýstur um málið og kom til vinnu nokkrum dögum síðar, en gerði engar athugasemdir. Þá átti fjármálastjórinn í áframhaldandi viðræðum við aðalstefnanda um starfslok hennar og launauppgjör. Verður því ekki fallist á að fjármálastjórann hafi skort umboð til að semja um starfslokin.

                Gagnstefnandi telur aðalstefnanda hafa sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfu sinnar. Ljóst er að aðalstefnandi setti fram kröfu um að orlofsinneign hennar yrði greidd þegar við starfslok. Þá átti hún í samskiptum við fjármálastjóra gagnstefnanda um uppgjör launa sinna og leitaði til VR sem sendi gagnstefnanda innheimtubréf 29. nóvember 2013. Gagnstefnandi svaraði því bréfi 20. desember 2013. Eftir sáttaumleitanir höfðaði aðalstefnandi mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness, en gagnstefnandi krafðist frávísunar málsins vegna ákvæðis í ráðningarsamningi um að mál vegna hans skuli reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Var málið fellt niður og nýtt mál höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 16. apríl 2015. Verður ekki fallist á að aðalstefnandi hafi með framangreindu sýnt af sér tómlæti sem leiði til þess að hún hafi fyrirgert rétti sínum.

                Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins að aðalstefnandi eigi kröfu á gagnstefnanda vegna orlofs. Óumdeilt er að fjárhæð þess er 776.760 krónur vegna 26 orlofsdaga. Þar sem aðalstefnandi hefur þegar nýtt sér átta orlofsdaga nemur krafa hennar 537.757 krónum. Aðalstefnandi hefur lækkað kröfu sína vegna innborgunar að fjárhæð 182.732 krónur og nemur ógreitt orlof hennar því 355.025 krónum. Þá hefur hún krafist 215.932 króna vangoldinna launa vegna frádráttar gagnstefnanda við launauppgjör. Í samræmi við þá niðurstöðu að gagnstefnanda hafi verið heimilt að endurkrefja hana um 121.036 krónur verður fallist á kröfu aðalstefnanda að fjárhæð 94.896 krónur. Það er því niðurstaða dómsins að gagnstefnanda beri að greiða aðalstefnanda 449.921 krónu.

                Gagnstefnandi hefur andmælt vaxtakröfu aðalstefnanda á grundvelli tómlætis af hennar hálfu. Þar sem þeim sjónarmiðum hefur verið hafnað verður fallist á vaxtakröfu aðalstefnanda. Rétt aðalstefnanda til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti má leiða beint af ákvæðum 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Það er því óþarft að kveða á um slíka höfuðstólsfærslu í dómsorði.

                Í ljósi málsúrslita þykir rétt að gagnstefnandi greiði aðalstefnanda málskostnað að fjárhæð 900.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                              D Ó M S O R Ð :

                Gagnstefnandi, Birtingur útgáfufélag ehf., greiði aðalstefnanda, Auði Ingibjörgu Húnfjörð, 449.921 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2013 til greiðsludags.

                Gagnstefnandi greiði aðalstefnanda 900.000 krónur í málskostnað.