Print

Mál nr. 198/2011

Lykilorð
  • Manndráp
  • Sakhæfi
  • Skaðabætur
  • Öryggisgæsla

                                                                                              

Fimmtudaginn 13. október 2011.

Nr. 198/2011.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir

settur vararíkissaksóknari)

gegn

Gunnari Rúnari Sigurþórssyni

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.

Jón Egilsson hdl.)

Manndráp. Sakhæfi. Skaðabætur. Öryggisgæsla.

G var ákærður fyrir manndráp með því að hafa veist að A á heimili hans og banað honum með því að stinga hann ítrekað með hnífi í brjóst, bak, háls, andlit, handleggi og hendur. G játaði sakargiftir en fyrir dómi var deilt um hvort hann hefði verið ósakhæfur samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þegar hann vann verkið. Í málinu lá fyrir matsgerð og yfirmat þriggja dómkvaddra geðlækna sem allir komust að þeirri niðurstöðu að G hefði á verknaðarstundu verið haldinn geðveiki í merkingu 15. gr. laga nr. 19/1940. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að þau sjónarmið sem byggju að baki refsilögum mæltu með því að umrætt lagaákvæði yrði fremur skýrt þröngt en rúmt, enda hefði það að geyma undantekningu frá þeirri meginreglu að mönnum væri refsað fyrir afbrot er þeir hefðu framið. Ekki yrði hróflað við mati hinna dómkvöddu geðlækna en það álitaefni hvort G hefði sökum geðsjúkdómsins verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum umrætt sinn, sbr. áskilnað 15. gr. laga nr. 19/1940, lyti endanlegri úrlausn dómstóla og þeir í því efni ekki bundnir af áliti matsmannanna. Við þá úrlausn bæri einkum að horfa til aðdraganda brots ákærða, hvernig hann stóð að því og framferði hans í kjölfar þess. Í þessu samhengi var rakið að G hafði skipulagt verknaðinn í þaula með það fyrir augum að ekki kæmist upp um hann, gengið ákveðið og skipulega til verks og síðan gert allt sem í hans valdi stóð til að aftra því að upp um hann kæmist. Einnig var bent á að G hefði sjálfur borið að hann hefði að einhverju leyti gert sér grein fyrir því að hann hefði verið að gera eitthvað sem væri rangt. Að þessu virtu var talið í ljós leitt að G hefði borið skynbragð á eðli þess afbrots sem hann var ákærður fyrir og að hann hefði verið að því marki fær um að stjórna gerðum sínum þegar hann réðst að A að hann teldist sakhæfur. Var G því dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir brot gegn 211. gr. laga nr. 19/1940 að frádregnu gæsluvarðhaldi og öryggisgæslu sem hann hafði sætt. Á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 var G gert að greiða foreldrum A, hvoru um sig, 1.000.000 króna miskabætur. G var jafnframt gert að greiða sambýliskonu A 1.200.000 krónur í miskabætur en þau höfðu búið saman í eitt og hálft ár þrátt fyrir að vera ekki í skráðri sambúð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. mars 2011. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst staðfestingar á ákvæði hins áfrýjaða dóms um sýknu hans af refsikröfu og að hann sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig gerir hann kröfu um að miskabætur til B og C verði lækkaðar. Loks krefst hann aðallega sýknu af kröfu D um bætur, en til vara að krafan verði lækkuð.

B og C krefjast þess aðallega að ákærða verði gert að greiða hvoru þeirra 2.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. ágúst 2010 til 19. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefjast þau þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um bótakröfur þeirra. Ennfremur krefjast þau staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um skaðabætur þeim til handa vegna útfararkostnaðar. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

D krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. ágúst 2010 til 21. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um bótakröfu hennar.  Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu er ákærða gefið að sök manndráp „með því að hafa að morgni sunnudagsins 15. ágúst 2010, veist að A ... á heimili hans ... og banað honum með því að stinga hann ítrekað með hnífi í brjóst, bak, háls, andlit, handleggi og hendur.“ Ákærði játaði sakargiftir skýlaust fyrir héraðsdómi og er staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að hann hafi framið þann verknað sem greinir í ákæru.

Ákærði var hins vegar sýknaður af kröfu um refsingu þar sem hann var talinn  ósakhæfur á verknaðarstundu. Er fyrst og fremst til úrlausnar hér fyrir dómi hvort ákærði hafi, sökum geðveiki, verið alls ófær til að stjórna gerðum sínum, svo sem áskilið er í 15. gr. almennra hegningarlaga, þegar hann varð A að bana.

II

Fyrir Hæstarétt hefur meðal annars verið lagt vottorð H, geðlæknis og yfirlæknis Réttar- og öryggisdeildarinnar á Sogni, 25. september 2011 þar sem lýst er núverandi ástandi ákærða, framtíðarhorfum hans og þeirri meðferð sem hann hefur hlotið á Sogni.

Í vottorðinu kemur fram mat H sjálfs, auk þess sem þar er vitnað til mats sálfræðings og annars geðlæknis sem átt hafa viðtöl við ákærða. Í lok vottorðsins er að finna samantekt á ástandi ákærða og segir þar meðal annars: „Eftir 9½ mánuð á Sogni hefur ekki tekist að fá fram nokkru sinni ranghugmyndir, ofskynjanir, hugsanatruflanir eða merki um brenglaða raunveruleikaskynjun. Einkenni ástarsýki finnast ekki nú. Gunnar Rúnar hefur sterk merki persónuleikaröskunar. Gunnar Rúnar er með vissa þráhyggjuþætti, stífur á sinni meiningu og á erfitt með að aðlagast vissum reglum. Hann er rökviss og vel meðvitaður um hvað hann vill og hvað hann ætlar sér. Athygli vekur hversu fljótt ást hans til D hvarf, en slíkt er yfirleitt á skjön við raunverulega ástarsýki (erotomaniu), slíkt hverfur yfirleitt aldrei nema með lyfjameðferð eða annarri mjög langvarandi meðferð ... Ekki er hægt að sjá enn þörf á neinum geðlyfjum ... Erfitt er að meta framtíðarhorfur Gunnars Rúnars. Hann er eins og að ofan getur ekki með nú formlegan geðsjúkdóm í þess orðs vanalegu merkingu. Hann hefur hins vegar greinilega persónuleikaveilu og á erfitt með ýmsar hugsanir (þráhyggju, óskhyggju, forboðnar hugsanir) sem þegar hafa leitt hann í mikla ógæfu ... Framtíðarspá hans er ... bjartari en margra annarra sakamanna vegna þess að hann hefur ekki sögu um misnotkun áfengis, eða eiturlyfja. Hann er ágætlega gefinn og hafði áður en atburðurinn átti sér stað verið kominn í þokkalega góða stöðu félagslega og atvinnulega. Hann á góða fjölskyldu sem styður hann dyggilega.“

III

Upphaf máls þessa má rekja til þess kringum áramótin 2008–2009 mun ákærði hafa hitt D, [...], að því er virðist fyrir tilviljun. Þau höfðu verið saman í grunnskóla og þekktust því fyrir, enda þótt þau hefðu ekki hist árum saman. Fljótlega eftir að kynni tókust með þeim að nýju hafi D, að sögn ákærða, haft frumkvæði að því að fá hann til að fara út að skemmta sér þar sem hann hafi hitt fjölda fólks sem hún umgekkst. Þetta hafi gerbreytt högum hans því að áður hafi hann lifað einangruðu lífi. Kvaðst ákærði hafa orðið ástfanginn af D sem varð til þess að í lok mars 2009 setti hann á netið myndskeið af sjálfum sér þar sem hann játaði henni ást sína. Hún brást illa við því og mun ekki í kjölfarið hafa talað við ákærða um nokkurra vikna skeið. Skömmu eftir að fundum þeirra ákærða bar saman hafði D kynnst A. Fluttist hún síðar á heimili hans að [...] og bar fyrir dómi að þau hafi byrjað að búa þar saman í apríl 2009.

Einhvern tíma vors 2009 munu þau ákærði og D hafa aftur byrjað að fara saman út að skemmta sér, en ávallt með öðru fólki. Að sögn ákærða gerðist það oft þannig að D bauð honum heim til þeirra A, þau fengu sér þar í glas og tóku síðan leigubíl í miðbæinn. Þá kom það nokkrum sinnum fyrir að ákærði svaf í gestaherbergi heima hjá þeim D og A eftir að þau höfðu verið úti að skemmta sér. Ákærði sagðist ekki hafa gert sér vonir um að ná ástum D eftir að hann birti fyrrgreint myndskeið á netinu og hún byrjaði að búa með A. Þó hafi honum fundist að samband þeirra D og A væri ekki ástríðufullt eða hamingjusamt.

Að kvöldi þess dags þegar A var ráðinn bani var tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglu. Daginn eftir, 16. ágúst 2010, var hann svo handtekinn, grunaður um að hafa orðið A að bana. Við skýrslutöku þann dag og síðar 17. ágúst neitaði hann að hafa framið brotið. Þegar ákærði var tekinn höndum á ný 26. ágúst hélt hann fast við fyrri framburð sinn og var það ekki fyrr en í skýrslutöku 3. september að hann fór að greina óljóst frá því sem gerst hafði að kvöldi 14. og að morgni 15. ágúst. Í lok skýrslutöku 4. september játaði hann síðan að hafa orðið A að bana og staðfesti það við skýrslutöku 7. sama mánaðar.

Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði aðspurður staðfesta þær skýrslur sem hann hafði gefið hjá lögreglu við rannsókn þess. Samkvæmt því, sem þar kom fram, fór sú hugsun að sækja á ákærða þegar vorið 2009 að hann þyrfti að drepa A til þess að fá D til sín. Kvaðst hann þá þegar hafa verið „byrjaður að plana þetta“ með sjálfum sér og smátt og smátt orðið sér úti um hluti, sem hann ætlaði að nota í þessu skyni, og komið þeim fyrir í farangursgeymslu bifreiðar sinnar. Meðal þeirra var hnífurinn sem hann hafi síðar notað þegar hann réðist á A. Að sögn ákærða ók hann frá heimili sínu að [...] að kvöldi 14. ágúst 2010 og lagði leið sína í [...] þar sem hann gekk um og skoðaði aðstæður, en einbýlishúsið að [...], sem var á þessum tíma heimili þeirra A og D, er í því hverfi. Síðan sagðist hann hafa haldið í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann hitti D, eftir að hún hafði hringt til hans, aðfaranótt 15. ágúst. Hafa þau bæði borið hjá lögreglu að þau hafi litið við á nokkrum veitingastöðum í miðbænum og drukkið mikið af áfengi, ekki síst D sem varð dauðadrukkin þegar leið á nóttina. Í stað þess að aka henni heim að [...] þar sem ákærði taldi sig vita að A væri sofandi kvaðst hann hafa ákveðið að aka henni heim til ákærða að [...] þar sem hann kom henni fyrir í herbergi sínu. Á þeirri stundu hafi það runnið upp fyrir sér „að þetta væri besta tækifærið sem [hann] myndi hafa til þess að ... drepa A“. Hafi hann verið „með allt tilbúið ... allt sem [hann] þurfti var í skottinu á bílnum ... hafði verið þar mjög lengi.“

Ákærði sagðist því næst hafa skipt um föt og haldið af stað áleiðis að [...]. Hafi hann lagt bifreið sinni við leikskólann [...], sem er þar skammt frá, og síðan gengið eftir göngustíg að [...]. Áður hafi hann farið í úlpu, brugðið yfir sig lambhúshettu og loks tekið fram hnífinn. Hafi hann gætt þess að fela hann í hendi sér svo að hann sæist ekki. Einhvers staðar á leiðinni að [...] kvaðst ákærði hafa fest innkaupapoka um fætur sér með límbandi og sett á sig hanska. Þegar hann hafi komið að húsinu hafi framdyr þess verið læstar, en hann þá munað eftir hurðinni á bílskúrnum, sem aldrei hafi verið læst, og hann því farið þar inn. Hafi hann gengið upp stigann og inn í svefnherbergi A sem legið hafi þar sofandi. Síðan lýsti ákærði því, sem hafi gerst næst, á þessa leið: „Ég stóð þar í smá stund, ég held að ég hafi staðið þarna í nokkrar mínútur og svo ... stakk ég hann beint í bringuna. Ég stakk hann tvisvar og svo rauk hann upp, byrjaði að hlaupa ... og svo stakk ég hann í hálsinn og hann datt fram fyrir sig og ég stakk hann síðan í bakið.“ Að svo búnu kvaðst ákærði hafa hlaupið út og til baka að bifreið sinni. Á leiðinni hafi hann sett „allt dótið“ í innkaupapoka og síðan ekið að [...] þar sem hann hafi hent pokanum undir bryggju. Síðan hafi hann haldið heim til sín, skipt um föt og sett þau í annan poka sem hann hafi hent í ruslatunnu við hús í næstu götu.

Ofangreind lýsing ákærða á því, sem gerst hafi, er í samræmi við annað sem fram kom við yfirgripsmikla rannsókn málsins. Spurður við skýrslutöku hjá lögreglu hvort hann hafi ekki gert sér grein fyrir að hann væri að drepa A svaraði ákærði að hann héldi það. Ástæðan fyrir því að hann hafi ráðið A bana hafi verið sú að hann hafi elskað D og hún hafi átt að vera hjá sér, en ekki hjá honum. Aðspurður kvaðst ákærði hafa ætlað að reyna að komast upp með þann glæp að drepa mann og hafi hann þess vegna reynt að fela slóð sína. Sér hafi þó liðið mjög illa eftir á.

IV

Á meðan rannsókn málsins stóð var E geðlæknir dómkvaddur á grundvelli 128. gr., sbr. 86. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að framkvæma geðrannsókn á ákærða samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laganna. Í matsgerð læknisins kemur fram að hann hafi í september og október 2010 rætt þrívegis við ákærða, auk móður hans og tveggja föðursystkina. Er því meðal annars lýst að ákærði hafi aðeins níu ára að aldri orðið fyrir hörmulegu áfalli þegar faðir hans svipti sig lífi og hafi það áfall markað upphaf djúps rofs í huga hans og persónuleika. Í niðurstöðu matsgerðarinnar er meðal annars komist svo að orði: „Gunnar Rúnar lýsir því eftir á, að á þeirri stundu er nær dró atlögunni hafi hann upplifað annarlegan óraunveruleika líkt og milli svefns og vöku. Hið sérkennilega langa hik og vafi endurspeglar átök andstæðra persónuleikaþátta þar til geðrofið verður ráðandi og nær sínu fram ... Hann var á vélrænan hátt knúinn af kenndum, sem hvorki rökhugsun, dómgreind eða vilji hans gat með neinu móti hindrað ... Niðurstaðan er sú að Gunnar Rúnar hafi sökum svæsins geðrofs verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum, er hann framdi verknað þennan, og 15. gr. almennra hegningarlaga eigi hér við.“

Geðlæknarnir F og G voru síðar dómkvaddir samkvæmt 131. gr. laga nr. 88/2008 sem yfirmatsmenn til að endurmeta fyrrgreinda niðurstöðu matsmannsins. Í yfirmatsgerð er meðal annars greint frá tveimur viðtölum yfirmatsmanna við ákærða í nóvember og desember 2010, svo og viðtölum við móður hans og aðra sem átt höfðu samskipti við hann. Yfirmatsmenn lýsa miklum áhyggjum af því að ákærði hafi „ofbeldishugsanir gagnvart öðrum“. Illgerlegt sé að meta í hvaða átt ofsafengin reiði hans gæti beinst þar sem mikil duld sé yfir ranghugmyndaheimi hans sem hafi gert það að verkum að flestir telji hann meinlausan. Að þeirra áliti hafi samband ákærða við D verið „af þeirri tegund sem kallað er „erotomania“ á íslensku þýtt sem ástaræði“. Hann hafi verið sannfærður um að ást hans á D hafi verið endurgoldin þótt hún hafi ekki gefið honum neitt tilefni til þess. Á grundvelli þeirrar ranghugmyndar hafi hann undirbúið morðið á A. Tekið er fram í yfirmatsgerðinni að ákærði sé lokaður og ranghugmyndakerfi hans á þröngu sviði. Þess utan virki hann eðlilegur og mjög yfirvegaður. Þess vegna sé skiljanlegt að margir telji hann ábyrgan gerða sinna. Sjúkdómsgreining yfirmatsmanna var að ákærði sé haldinn hugvilluröskun. Voru þeir sammála ofangreindu undirmati að ákærði hafi sökum svæsins geðrofs verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum er hann framdi verknaðinn.

Matsmennirnir þrír komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins í héraði og staðfestu matsgerðir sínar. Fram kom hjá E að ákærði hafi verið harmi sleginn yfir atburðunum og með „mjög djúpstæða sektarkennd“. Innra með honum hafi tekist á tvö tilfinningaleg öfl sem ekki hafi náð að samþættast. Spurður hvort ákærði hafi ekki vitað að það, sem hann gerði, hafi verið rangt og aðeins verið tvístígandi hvort hann ætti að framkvæma það eða ekki, svaraði E að ákærði hafi að hluta vitað að þetta væri rangt, en að hluta hafi sálarlíf hans verið svo vanþroskað að hann hafi ekki ráðið við að halda aftur af hinni „djúpstætt aggresívu drápstilfinningu“ sem komið hafi upp. E lýsti sig sammála fyrrgreindri niðurstöðu yfirmatsmanna, en sagði aðspurður að í raun og veru hafi ekkert mælanlegt komið fram við sálfræðipróf og mats- og skimunarlista, sem lagðir voru fyrir ákærða, að hann væri haldinn geðrofi. G bar meðal annars fyrir dómi að ákærði hafi orðið „gjörsamlega hamslaus og stjórnlaus þegar hann kemur inn í hús A eftir að vera búinn að undirbúa þetta af nákvæmni“. Þegar ákærði hafi gengið að húsinu hafi hann verið „eins og í öðrum heimi“. Hann hafi lýst því með óhugnanlegum hætti fyrir yfirmatsmönnum að honum hafi liðið vel þótt hann væri að fara að drepa mann. Í framburði F kom fram að ákærði hafi myndað „sér einhvers konar ástríðukennda hugsun til“ D. Hugmyndaheimur hans, sem einkennist af ranghugmyndum, feli í sér ógnarviðbrögð gagnvart öðru fólki, en vegna þess hve dulur hann sé eigi aðrir, þar á meðal læknar, erfitt með að átta sig á umfangi veikinda hans.

V

Í 15. gr. almennra hegningarlaga er svo fyrir mælt að þeim mönnum skuli eigi refsað, sem sökum geðveiki, andlegs vanþroska eða hrörnunar, rænuskerðingar eða annars samsvarandi ástands voru alls ófærir á þeim tíma, er þeir unnu verkið, til að stjórna gerðum sínum. Með þessu ákvæði eru sett ströng skilyrði fyrir sakhæfisskorti í íslenskum rétti, þar á meðal verður andlegur annmarki, svo sem geðveiki, að vera á háu stigi til þess að hann leiði til refsileysis af þeim sökum. Það nægir þó ekki til skorts á sakhæfi, heldur verður maður að hafa verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum vegna hins andlega annmarka þegar hann framdi verknað sem lýstur er refsiverður að lögum. Í greinargerð með frumvarpi til almennra hegningarlaga segir: „Markmið refsingar er fyrst og fremst verndun almenns réttaröryggis og viðhald lögbundins þjóðskipulags. En auk þess fullnægir refsing réttlætistilfinningu almennings, er ekki sættir sig við það, að menn skerði órefsað mikilvæg réttindi annarra.“ Þessi sjónarmið, sem búa að baki refsilögum, mæla með því að umrætt ákvæði sé fremur skýrt þröngt en rúmt, enda hefur það að geyma undantekningu frá þeirri meginreglu að mönnum sé refsað fyrir afbrot er þeir hafa framið. Samkvæmt því leiðir það ekki til sakhæfisskorts þótt sá, sem uppvís hefur orðið að refsiverðum verknaði, hafi brenglað raunveruleikaskyn eða sé haldinn ranghugmyndum af völdum geðsjúkdóms nema hann hafi alls ekki verið fær um að hafa stjórn á gerðum sínum þegar hann vann verkið.

Fyrir liggur í málinu samdóma niðurstaða þriggja dómkvaddra matsmanna um að ákærði hafi verið haldinn geðveiki í merkingu 15. gr. almennra hegningarlaga þegar hann varð A að bana 15. ágúst 2010. Verður ekki hróflað við þessu mati hinna læknisfróðu manna af dómstólum. Það álitaefni hvort ákærði hafi sökum geðsjúkdómsins verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum umrætt sinn lýtur á hinn bóginn endanlegri úrlausn dómstóla og eru þeir ekki í því efni bundnir af áliti hinna sérfróðu matsmanna, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 88/2008.

Við þá úrlausn ber einkum að horfa til aðdraganda þess voðaverks, sem ákærði vann, hvernig hann stóð að því og framferði hans í kjölfar þess. Verður þar fyrst og fremst stuðst við framburð ákærða sjálfs hjá lögreglu, sem hann hefur, eins og áður segir, staðfest fyrir dómi. Eins og rakið hefur verið fór sú hugsun að sækja á ákærða þegar vorið 2009 að hann þyrfti að ryðja A úr vegi. Verður ekki annað ráðið af framburði ákærða en að hann hafi skipulagt verknaðinn í þaula með það fyrir augum að ekki kæmist upp um hann og í samræmi við það tók hann smátt og smátt að verða sér úti um hluti sem hann ætlaði að nota til verksins. Þegar á hólminn var komið gekk hann svo ákveðið og skipulega til verks. Einnig virðist ákærði eftir á hafa gert allt, sem í hans valdi stóð, til að aftra því að upp um hann kæmist, þar á meðal neitaði hann staðfastlega að hafa orðið A að bana þar til böndin fóru æ meira að berast að honum við rannsókn málsins. Spurður hvort hann hafi ekki gert sér grein fyrir eðli verknaðarins kvaðst ákærði halda að svo hafi verið. Þá bar matsmaðurinn E fyrir dómi að ákærði hafi að hluta vitað að það væri rangt sem hann hefði gert.

Að virtu öllu því, sem að framan greinir, verður að telja í ljós leitt að ákærði hafi borið skynbragð á eðli þess afbrots, sem hann er ákærður fyrir, og að hann hafi verið að því marki fær um að stjórna gerðum sínum þegar hann stakk A til ólífis að hann teljist sakhæfur. Var ásetningur ákærða til að svipta A lífi einbeittur og á hann sér engar málsbætur. Brot hans er í ákæru réttilega fært undir 211. gr. almennra hegningarlaga og er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 16 ár. Samkvæmt 76. gr. laganna skal gæsluvarðhald, sem hann sætti frá 27. ágúst 2010 til 1. mars 2011 þegar hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp, koma til frádráttar refsingunni. Vegna þess að leggja verður þá frelsissviptingu, sem er fólgin í öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga, að jöfnu við gæsluvarðhald í þessu tilliti kemur sú öryggisgæsla, sem ákærði hefur sætt frá uppkvaðningu héraðsdóms, einnig til frádráttar refsingunni.

 Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999,  skal ákærði greiða miskabætur til foreldra hins látna, B og C, og er fjárhæð þeirra hæfileg 1.000.000 krónur til hvors þeirra, að viðbættum vöxtum eins og kveðið er á um í dómsorði. Ákvörðun hins áfrýjaða dóms um bætur þeim til handa úr hendi ákærða vegna útfararkostnaðar skal vera óröskuð, enda hefur henni ekki verið mótmælt. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og að öðru leyti með vísan til forsendna dómsins er staðfest ákvörðun hans um bætur til handa D ásamt vöxtum, en í samræmi við kröfugerð hennar í héraði ber að miða upphafsdag dráttarvaxta við 19. desember 2010. Sömuleiðis verður staðfest ákvörðun héraðsdóms um málskostnað til kröfuhafa vegna meðferðar málsins í héraði, en rétt er að ákærði greiði þeim málskostnað fyrir Hæstarétti eins og kveðið er á um í dómsorði. 

Eftir þessum málsúrslitum skal ákærði greiða sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Rúnar Sigurþórsson, sæti fangelsi í 16 ár. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 27. ágúst 2010, svo og öryggisgæsla sem hann hefur sætt frá 1. mars 2011.

Ákærði greiði B og C, hvoru um sig, 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. ágúst 2010 til 19. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um bætur til þeirra úr hendi ákærða vegna útfararkostnaðar og bætur úr hans hendi til D, svo og um málskostnað til þeirra allra, skal standa óröskuð. Ákærði greiði þeim, hverju um sig, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 2.331.196 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, samtals 2.114.675 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. mars 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. febrúar 2011, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 18. nóvember 2010 á hendur Gunnari Rúnari Sigurþórssyni, kt. [...], , fyrir manndráp, með því að hafa, að morgni sunnudagsins 15. ágúst 2010, veist að A, kt.[...], á heimili hans að [...], og banað honum með því að stinga hann ítrekað með hnífi í brjóst, bak, háls, andlit, handleggi og hendur. Gengu hnífsstungur m.a. í hjarta, lunga og nýra.

Þetta er talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Þess er jafnframt krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu B, kt.[...], og C, kt.[...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða hvoru þeirra um sig 2.500.000 kr. í miskabætur og báðum samtals 1.261.836 kr. í skaðabætur vegna útfararkostnaðar samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt er krafist vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af miskabótakröfum, samtals að fjárhæð 5.000.000 kr., frá 15. ágúst 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var kynnt fyrir ákærða, en með dráttarvöxtum af heildarkröfunni, 6.261.936 kr., samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk lögmannsþóknunar.

Þá er af hálfu D, kt.[...], þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.500.000 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 frá 15. ágúst 2010 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var kynnt fyrir ákærða en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags, auk lögmannsþóknunar.

Ákærði krefst aðallega sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins á grundvelli 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er jafnframt krafist að einkaréttarkröfur B og C verði lækkaðar verulega, en krafist er sýknu af einkaréttarkröfu D. Þá krefst verjandi þóknunar.

I.

Sunnudaginn 15. ágúst 2010 kl. 11:33 barst lögreglu tilkynning um að komið hefði verið að A látnum á heimili hans við [...]. D, hefði komið að honum og ljóst væri að um manndráp hefði verið að ræða.

Ákærði var handtekinn mánudaginn 16. ágúst og yfirheyrður. Þá var leit gerð á heimili hans. Ákærði neitaði sök og var honum sleppt vegna ónógra sönnunargagna. Rannsókn lögreglu og leit að banamanni A var umfangsmikil og fjöldi manna var yfirheyrður. Ákærði var handtekinn að nýju 26. ágúst 2010 eftir að rannsókn lögreglu leiddi í ljós að skófar sem fannst á vettvangi samsvaraði skó ákærða. Ákærði neitaði sem fyrr sök hjá lögreglu og degi síðar, 27. ágúst, var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Við rannsókn lögreglu á bifreið ákærða fundust blóðleifar í skottinu. Þá leiddi rannsókn í ljós að á myndskeiði úr öryggismyndavél við [...], að morgni 15. ágúst 2010, sést ákærði sækja eitthvað í skott bifreiðar sinnar og henda því undir bryggjuna. Hinn 4. september 2010 barst lögreglu svo tilkynning frá tveimur unglingspiltum um að þeir hefðu fundið hníf í [...] 1. september 2010, á rampi við siglingaklúbb. Jafnframt fannst úlpa ákærða við [...] 1. september 2010.

Í skýrslutöku hjá lögreglu 3. september 2010 greindi ákærði frá því að í gæsluvarðhaldinu hefðu ásótt hann draumar sem hann myndi brotakennt. Ákærði lýsti því m.a. að hann hefði verið á gangi við leikskóla í Setbergshverfinu. Þá myndi hann eftir að hafa sett poka á fætur sína og límt fyrir. Einnig hafi hann verið staddur á bryggju og verið með poka sem í var húfa, límband, pokarnir sem ákærði hafi verið með á fótum og hulstur af hnífi. Jafnframt hefði hann hent úlpu sinni og síðar ekið á bíl sínum og hent poka með fötum í ruslatunnu. Ákærði hefði svo farið heim til sín og D verið þar sofandi. Hann hefði kysst hana og farið að sofa. Honum hefði fundist eins og hann væri að kveðja hana og hún myndi aldrei tala við hann aftur. Þegar ákærði var í kjölfar þessara lýsinga spurður hvort hann hefði orðið A að bana, sagði hann í miklu uppnámi að hann myndi það ekki og það gæti ekki verið að hann hefði gert það.  

Ákærði skýrði frá því við yfirheyrslu 7. september 2010 að hann hefði banað A. Ákærði lýsti því að hann hefði farið í bíltúr laugardagskvöldið 14. ágúst í nágrenni við heimili A. Hann hefði lagt bílnum við verslunina 10/11 í Setbergshverfi og gengið um hverfið. Þetta hefði verið um miðnætti. Hann kvaðst hafa reynt að stoppa sjálfan sig af en hann hefði verið með hníf á sér og velt fyrir sér hvort hann ætti að drepa A eða ekki. Ákærði kvaðst hafa pælt í þessu um tíma, að drepa A, en alltaf stoppað sig af. Samt hefði ákærði alltaf verið farinn að ganga lengra og lengra. Umrætt kvöld í göngutúrnum hefði ákærði stoppað sig af og hann hefði vitað að enginn væri heima hjá A. Ákærði hefði því farið í bíl sinn og keyrt niður í miðbæ Reykjavíkur til að fá sér í glas. Ákærði lýsti því að D hefði hringt í hann um klukkan tvö um nóttina og viljað hitta hann. Þau hefðu farið á milli skemmtistaða og drukkið áfengi. Ákærði sagði að hann hefði reynt að gleyma því sem hann hefði verið að gera áður og það „hjálpaði rosalega að hafa D þarna“. Seint um morguninn hafi D verið orðin mjög ölvuð og ákærði reynt að koma henni í leigubíl heim til A en það hafi verið löng biðröð eftir leigubíl. Þau hefðu ekki nennt að bíða og farið í bíl ákærða. D hefði eiginlega sofnað í bílnum og ákærði ákveðið að keyra heim til ákærða. Þegar þangað var komið hafi ákærði lagtD í rúm sitt og hann sjálfur svo lagst upp í sófa. Ákærði lýsti framhaldinu þannig: „En ég gat ekki sofið, ég var að hugsa og ég var að hugsa og þá fór ég að hugsa um hvað ég var að gera áður, áður en ég fór að skemmta mér og það sem að rann upp fyrir mér er að þetta væri besta tækifærið sem ég myndi fá til þess að, til þess að hérna drepa A og ég var með allt tilbúið … allt sem ég þurfti var í skottinu á bílnum og hafði verið þar mjög lengi.“ Ákærði kvaðst hafa skipt um föt og keyrt upp að Setberginu, en hann hefði lagt bíl sínum við leikskóla. Þar hefði hann farið í úlpu sem var í skottinu, sett á sig hettu og tekið poka með dóti sínu. Hann hefði gengið upp stíg og upp við ljósastaur hefði hann sett poka á fætur sína og límt fyrir. Svo hefði hann sett á sig latexhanska og tekið upp hníf. Þá sagði ákærði að þegar hann hefði gengið að húsi A „fannst mér ég vera að bíða eftir að ég myndi stoppa en ég stoppaði mig ekki, ég vildi, ég vildi þetta en ég reyndi samt og hélt ég myndi stoppa mig en það gerðist ekki og ég fór upp að framhurðinni og hún var læst“. Ákærði kvaðst hafa vitað að bílskúrshurðin hafi aldrei verið læst og því farið þar inn. Hann hefði gengið upp stiga og inn til A þar sem hann lá sofandi. Svo sagði ákærði: „Ég stóð þar í smá stund, ég held að ég hafi staðið þarna í nokkrar mínútur og svo og svo stakk ég hann beint í bringuna. Ég stakk hann tvisvar og svo rauk hann upp, byrjaði að hlaupa út um hurðina og svo ég stakk hann í hálsinn og hann datt fram fyrir sig og ég stakk hann síðan í bakið.“ Ákærði kvaðst hafa hlaupið út um bílskúrinn og aftur að ljósastaurnum þar sem hann hefði tekið af sér húfuna og pokana af fótunum. Einn pokann hefði hann notað til að setja dótið sitt í. Svo hefði hann gengið aftur að bíl sínum, sett úlpuna og pokann í skottið og keyrt í burtu. Hann hefði svo farið að bryggjunni í Hafnarfirði og hent pokanum og úlpunni undir bryggjuna. Ákærði sagði að hann hefði verið hágrenjandi, ráfað um bryggjuna og svo keyrt heim til sín. Þegar þangað var komið hafi hann náð í poka, sett buxur sínar í hann og úlpuna. Hann hefði því næst farið út og gengið að Eyrarholti og hent pokanum í ruslatunnu. Hann hefði svo farið heim til sín þar sem D lá sofandi. Hann kvaðst hafa kysst hana á munninn og svo farið fram og lagst í sófa. Ákærði sagði að hann hefði grátið og grátið og ekkert getað sofið. Hann hefði legið þarna en svo lagst hjá bróður sínum sem hefði vaknað og farið að horfa á teiknimyndir. Þegar D vaknaði hefði ákærði keyrt hana heim. Ákærði sagði: „Ég vildi helst ekki hleypa henni út úr bílnum, ég gat ekki sagt neitt við hana, ég þorði ekki að segja neitt.“ Hún hefði svo farið út úr bílnum og ákærði keyrt heim. Hann hefði legið uppi í rúmi mjög lengi, en hann hefði svo farið í ræktina. Hann hefði ætlað að reyna að gleyma þessu en það ekki gengið. Hann kvaðst hafa fylgst með fréttum og þegar fréttir komu í sjónvarpinu hefði móðir hans kallað á hann „og þá vissi ég að A væri dáinn. Ég vissi að honum blæddi en ég vissi ekki að hann væri dáinn fyrr en ég heyrði það í fréttunum en mig grunaði það. Ég var bara ekki, ég vissi ekki hvað ég átti að hugsa.“ Um ástæðu þess að ákærði hefði stungið A með hnífi sagði ákærði: „Ég elskaði D. Hún átti að vera hjá mér. Hún átti ekki að vera með honum.“

Samkvæmt krufningarskýrslu hlaut A 20 mismunandi sár sem gætu hafa verið veitt honum með nokkru afli og líklegast með hnífi. Skurðir voru að minnsta kosti 5 og 15 stungusár. Dánarorsök var blóðmissir vegna alvarlegra áverka á hjarta, lunga og hægra nýra.

E geðlækni var hinn 2. september 2010 falið af dómara að framkvæma geðrannsókn á ákærða. Í matsgerð geðlæknisins, dags. 17. nóvember 2010, kemur fram að hann átti þrjú viðtöl við ákærða. Einnig ræddi geðlæknirinn við móður ákærða. Þá er í matsgerðinni m.a. rakin fjölskyldusaga ákærða og þroskasaga hans. Jafnframt er gerð grein fyrir fjölmörgum mats- og skimunarlistum sem matsmaður lagði fyrir ákærða og móður hans.

Matsgerðin er mjög ítarleg. Í niðurstöðukafla segir að ákærði hafi verið á mjög viðkvæmum aldri þegar hann hefði fyrirvaralaust orðið fyrir yfirþyrmandi áfalli (trauma) við sjálfsvíg föður síns, í viðurvist hans og ættingja. Faðirinn hafi verið ákærða mjög náinn og því hafi hið sálræna sár orðið dýpra en ella. Örvæntingin sem hafi fylgt áfallinu hafi skilið eftir sig sár sem hafi ekki gróið og valdið stöðnun (fixation) á mikilvægustu þáttum persónuleikaþróunar hans, sem hefði leitt til þess að hugsana- og tilfinningalíf hans hefði fest á veikbyggðu og vanþroskuðu bernskustigi. Þetta hafi markað líðan hans og hegðun og skert mjög getu hans til tengslamyndunar, hæfni til samskipta og tjáskipta og stuðlað að innilokun í eigin hugarheimi og félagslegri einangrun. Það hefði þróast djúpstætt hugrof (dissociation) sem væri í senn afleiðing af áfallinu og ástæða sjúklegrar persónuleikabæklunar sem hefði einkennt hann og líf hans síðan. Hugur hans hafi ekki staðið undir því mikla tilfinningalega álagi, innri togstreitu, og breytingum sem urðu eftir að hann kynntist aftur D, fyrrverandi bekkjarsystur sinni, sem síðar hafi orðið unnusta A. Þörfin eftir meiri tengslum viðD hafi orðið að sjúklegri þráhyggju með umtalsverðum ranghugmyndablæ. Þessi „autistiska“ fantasía hafi þróast yfir í það að A væri fyrir. Mörg dæmi væru um það hvernig hinn sjúki hugur ákærða hefði umbreyst, afneitað og afmáð staðreyndir og atburði, eins og eftir sjálfsvíg föður hans. Fantasían um að losna við A, þessi ósjálfráða veruleikaafbökun, sé dæmigerður hluti hugrofs, og hún hefði magnast mjög hratt upp. Í þessu ástandi hafi hinir aðskildu (dissocieruðu) hlutar persónu ákærða verið margfalt virkari og meira afgerandi og tekið völdin. Þeir hafi hagað sér sem gjörólíkir persónuleikar með afar andstæða afstöðu til stöðu mála. Hinar tvær persónur ákærða hafi orðið sem fjandmenn í grimmilegri rimmu. Þetta samrýmist viðurkenndum fræðikenningum um (tví)skiptan persónuleika (multiple personality). Annar persónuleikinn telur fráleitt að aðhafast en hinn persónuleikinn, sem hefði haft yfirhöndina að lokum, væri haldinn mjög sjúku geðrofi þar sem örli ekki á rökhugsun eða eðlilegum hugrænum tengingum, hvorki um rétt eða rangt, orsakir né afleiðingar. Hinn rétthugsandi persónuleikaþáttur hefði barist af ítrasta mætti til að svo færi ekki sem raun varð á, en ákærða hafi hryllt við að fremja verknaðinn og alls ekki verið í nöp við A. Hinum heilbrigða persónuleika ákærða hafi inn á milli tekist að róa niður þessa þjáningafullu baráttu með því að „heimila“ hinum sjúka persónuleikaþætti vissar undirbúningsaðgerðir. Þegar nær dró verknaðinum hafi ákærði lýst því að hann hafi upplifað annarlegan óraunveruleika, líkt og milli svefns og vöku. Hið sérkennilega langa hik og vafi hjá ákærða endurspegli átök andstæðra persónuleikaþátta þar til geðrofið hafi orðið ráðandi og náð sínu fram. Ákærði hafi óraunveruleikatilfinningu fyrir verknaðinum og finnist nánast eins og einhver annar en hann hafi verið að verki.

Að lokum segir í niðurstöðunni að verknaðurinn hafi verið framkvæmdur af hinum sturlaða hluta ákærða sem hafi mótast innra með honum eftir hið mikla áfall að missa föður sinn. Hann hafi á vélrænan hátt verið knúinn af kenndum sem hvorki rökhugsun, dómgreind eða vilji hans hafi getað hindrað. Eitt af því sem renni stoðum undir geðrofsástand ákærða sé ættarsaga hans um geðrofssjúkdóma. Niðurstaða geðlæknisins er sú að ákærði hafi sökum svæsins geðrofs verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum er hann framdi verknaðinn, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Afar ósennilegt sé að ákærði eigi eftir að fremja verknað sem þennan verði honum veitt ásættanleg og nauðsynleg þjónusta, eftirlit og meðferð. Að lokum er bent á ákvæði 62. gr. almennra hegningarlaga.

III.

Hinn 19. nóvember 2010 voru dómkvaddir sem yfirmatsmenn geðlæknarnir F og G. Í matsgerð þeirra, dags. 14. desember 2010, kemur fram að yfirmats­menn hafi lesið gögn málsins og tvívegis rætt við ákærða. Einnig ræddu þeir við móður ákærða, vinnuveitanda hans og D. Jafnframt er í matsgerðinni fjallað um myndband sem ákærði setti á vefsíðuna Youtube þar sem hann játar ást sína til D og önnur myndbönd sem fylgdu á eftir. 

Í samantekt yfirmatsgerðarinnar er rakið að þegar ákærði var níu ára hafi faðir hans framið sjálfsmorð, en svo virðist sem ákærði hafi ekki fyrr en nýlega vitað með vissu að faðir hans framdi sjálfsmorð. Andlát föðurins hafi sannarlega haft mikil áhrif á ákærða, ekki síst vegna þess að þeir hafi verið mjög nánir. Móðir ákærða hafi sagt að hún væri ekki viss um að ákærði hefði breyst mjög mikið strax eftir að faðir hans dó en árekstrar við jafnaldra hafi komið upp nokkrum árum síðar, þegar ákærði var í 8.-10. bekk. Ákærði hefði orðið hamslaus í samskiptum við jafnaldra, með þeim hætti að öðrum stóð stuggur af. Hann hafi fengið aðstoð á BUGL. Ákærða hafi verið lýst sem einmana og félagslega óþroskuðum karlmanni með enga reynslu af nánum kynnum við konur. D, fyrrverandi bekkjarsystir hans, hefði komið inn í líf hans og á stuttum tíma hefði þróast ást til D, en hún ekki virst endurgjalda áhuga hans. Í huga ákærða hafi lausnin verið sú að losna við D. Síðla árs 2009 hafi hann farið að undirbúa glæpinn og verið rekinn áfram af þráhyggju sem hafi orðið að ranghugmynd (delusion). Ákærði hafi lifað í sínum eigin heimi hvað þetta varðar, heimi sem hafi orðið óhuggulegur. Í ímynduðum fantasíuheimi ákærða hafi  A ekki verið til staðar heldur bara ákærði og D og ákærði hafi hafið undirbúning að því að taka A af lífi. Við undirbúninginn hafi ákærði fengið lausn af þráhyggjunni en hún hafi horfið við hvern þann hlut sem hann hafi sankað að sér og sett í skottið á bíl sínum. Svo hafi sárið ýfst upp við hringingar D og samvistir við hana. Hugmynd ákærða um að drepa A hafi orðið ákveðnari og eins og stjórnlaus. Ákærði hafi undirbúið morðið í smæstu smáatriðum og niðurstaðan í huga hans hafi verið sú að við brotthvarf A myndi hann einn njóta D. Lengst af hafi ákærða tekist að berjast gegn þessari þráhyggju sem hafi þróast yfir í ranghugmynd. Umrædda nótt hafi allt verið fullkomnað í huga ákærða. D hafi verið í herbergi hans. Dómgreind ákærða hafi verið slævð og hömlur hans minnkað vegna áfengisneyslu. Ákærði hafi tekist á við ætlunarverk sitt sem hann hafi undirbúið af nákvæmni og í smáatriðum. Hann hafi upplifað sig eins og í draumi, en verknaðurinn sjálfur hafi verið hamslaus eins og stundum í ástríðuglæpum. 

Þá segir í yfirmatsgerðinni að í síðara viðtalinu við ákærða hafi komið skýrar fram hinn mikli heimur ímyndunar hjá ákærða, sem hann hafi alla tíð horfið í. Ákærði hafi skýrt frá því að hann hefði ekki trúað því að faðir hans væri látinn og iðulega horfið í heim minninga með föður sínum þegar hann yrði eldri. Hinn ímyndaði heimur og hugsun til D hafi þróast yfir í þráhyggju þannig að tengslin við raunveruleikann hafi rofnað með þeim hörmulegu afleiðingum sem raun varð á. Ákærði hefði lýst því hvernig hann hafi ítrekað notað þennan hugarheim, þar sem hann átti griðastað í huga sér með föður sínum, til að leita að hugarró gegn rangindum sem hann hafi verið beittur eða til að öðlast styrk gegn reiði sinni og löngun til að meiða aðra. Þá lýsi ákærði því hvernig hann missi stjórn á sér ef þessum hugarheimi sé ógnað. Hann hafi þá enga stjórn á sér og þeim ógnarhugmyndum sem hann fái. Nú líti hann svo á sem þeim hugarheimi sé ógnað þar sem hann sé þar ekki lengur einn með föður sínum. Ákærði sé sjálfur mjög hræddur við þetta algjöra stjórnleysi og í matsviðtölum hafi hann brotnað niður með óhuggulegum og ógnvekjandi hætti. Hann hafi grátið ofsalega og hrist allur.

Jafnframt segir í yfirmatsgerðinni að yfirmatsmenn hafi miklar áhyggjur af því að ákærði hafi haft ofbeldishugmyndir gagnvart öðrum, eins og skólafélögum, samstarfsmanni og síðast samfanga. Telja yfirmatsmenn að ákærði sé verulega hættulegur öðrum því hann hafi takmarkaða stjórn á þessum ofbeldishugmyndum og upplifi mjög auðveldlega reiði gagnvart öðrum. Að vísu væri ekki hægt að fá fram neina reiði gagnvart A, en draumsýn hans um framtíð með D hafi knúið hann áfram til að ráða A af dögum. Samband ákærða og D sé af tegund sem kallist „erotomania“, á íslensku þýtt sem ástaræði (amor insanus). Ákærði sé sannfærður um að ást hans á henni sé endurgoldin þrátt fyrir að hún hafi ekki gefið neitt tilefni til þess. Á grundvelli þessara ranghugmynda hafi ákærði undirbúið morðið á A. Ákærði hafi notað ímyndaðan heim með föður sínum og síðar D til að fá skjól og frið frá þessum ofbeldishugmyndum. Sá heimur sé honum nú lokaður sem geri hann enn hættulegri. Illgerlegt sé á hverjum tíma að meta í hvaða átt ofsafengin reiði ákærða beinist eða gæti beinst þar sem mikil duld sé yfir ranghugmyndaheimi hans og það hafi gert það að verkum að flestir hafi talið hann meinlausan. Þá telja yfirmatsmenn að ákærði sé í töluverðri hættu á að fremja sjálfsmorð. Enn fremur taka þeir fram að ranghugmyndakerfi ákærða sé á þröngu sviði og þess utan virki hann eðlilegur. Þannig geti langur tími liðið á milli þess að ranghugmyndakerfi og veikindi ákærða séu umheiminum ljós. Þegar þau birtist geti þau orðið ofsafengin eins og sjáist í manndrápinu. Þá hafi ákærði orðið hömlulaus í síðara viðtalinu við yfirmatsmenn, en það hafi gerst þegar þrýst var á hann vegna hugmyndaheims hans. Í sögu ákærða séu nokkur dæmi um að hann hafi orðið stjórnlaus. Ákærði sé lokaður og virki yfirvegaður. Þess vegna sé skiljanlegt að margir telji hann ábyrgan gerða sinna.

Sjúkdómsgreining yfirmatsmanna er „delusional disorder“ (hugvilluröskun). Þeir segja í yfirmatinu að þeir séu sammála mati E geðlæknis um að ákærði hafi sökum svæsins geðrofs verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum er hann framdi umræddan verknað og að 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við. Þá leggja þeir áherslu á að ákærði sé áfram hættulegur öðrum og mikla nauðsyn beri til strangrar öryggisgæslu auk viðeigandi meðferðar.

IV.

Af hálfu ákærða var lögð fram skrifleg greinargerð, sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í henni er á því byggt að ákærði hafi á verknaðarstundu verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum sökum svæsins geðrofs, þannig að 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi við.

Ákærði vísar til niðurstöðu E geðlæknis um að ákærði hafi verið ósakhæfur á verknaðarstundu. Jafnframt er vísað til niðurstöðu tveggja yfirmatsmanna, geðlæknanna G og F, sem sé á sömu lund og undirmat E, þ.e. þeir taki undir niðurstöðu undirmatsins.  Það liggi því fyrir mat þriggja virtra og reyndra geðlækna á því að ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu, vegna svæsins geðrofs. Jafnframt bendi matsmennirnir á úrræði 62. gr. almennra hegningarlaga um öryggis­gæslu til að tryggja réttaröryggi. 

Þá segir í greinargerðinni að þótt ljóst sé að mat á sakhæfi sé lögfræðilegt og að það sé dómsins að komast að niðurstöðu um það hvort ákærði hafi verið ósakhæfur á verknaðarstundu, þá sé jafnframt ljóst að dómstólar styðjist við mat geðlækna í málum sem þessum. Þegar niðurstöður undir- og yfirmats séu ekki samhljóða þá séu fordæmi Hæstaréttar fyrir því að yfirmatið ráði, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 41/2004. Í þessu máli séu hins vegar niðurstöður allra matsmannanna þriggja samhljóða, sem hafi mikla þýðingu þegar komist er að niðurstöðu um sakhæfi ákærða. Þá hnígi öll málsatvik að þessari sömu niðurstöðu. Engar skynsamlegar skýringar hafi verið færðar fram sem skýri hvers vegna ákærði banaði A. Eftir standi einungis sú ástæða sem dómkvaddir matsmenn hafi allir lagt til grundvallar, þ.e. svæsið geðrof.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða og framangreindra matsgerða verði að teljast sannað að ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum þegar hann framdi verknaðinn. Ákærði krefst því sýknu á grundvelli 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði krefst verulegrar lækkunar á miskabótakröfum B og C. Er sú krafa byggð á því að samkvæmt dómaframkvæmd og miðað við fjárhæðir bóta í sambærilegum tilvikum sýnist kröfur þessara bótakrefjenda vera of háar. Í þessu sambandi er vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 408/2005 en þar hafi foreldrum verið dæmdar miskabætur á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 1.000.000 króna hvoru um sig.

Ákærði mótmælir því að bótaskylda hans verði grundvölluð á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-2492/2004 hafi því verið hafnað að bótaskylda ákærðu, sem talin var ósakhæf og því sýknuð af refsikröfu, yrði grundvölluð á 26. gr. skaðabótalaga þar sem hugtaksskilyrði væri að ólögmætri meingerð eða dauða hefði verið valdið af ásetningi eða gáleysi. Þar sem dómurinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að ákærða væri ósakhæf hafi bótaskylda hennar ekki verið grundvölluð á 26. gr. skaðabótalaganna, þar sem hugtaksskilyrði um huglæga afstöðu til verknaðarins skorti.

Þar sem telja verði sannað að ákærði sé ósakhæfur beri að sýkna hann af refsikröfu ákæruvaldsins. Með vísan til framangreinds héraðsdóms, auk dóms Hæstaréttar í máli nr. 27/1970, sé sýnt að bótaskylda ákærða verði einungis grundvölluð á 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar, þar sem fjallað sé um óðs manns víg. Sérstaklega er bent á að í kapítulanum komi fram eftirfarandi skilyrði: „… þá skal bæta af fé hans … ef til er …“. Verði því að taka nokkurt tillit til fjárhagsstöðu ákærða, þannig að ekki verði unnt að ákvarða bætur umfram það sem ákærði sé borgunarmaður fyrir.

Kröfu um bætur vegna útfararkostnaðar er mótmælt sérstaklega sem allt of hárri, en í 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé getið um „hæfilegan útfararkostnað“.  Kostnaður að fjárhæð 1.261.836 kr. sýnist vera umfram hugtaksskilyrðið „hæfilegur útfararkostnaður.“ Varðandi þau rök að um raunkostnað sé að ræða þá sé ekki dregið í efa að svo sé. Í lagaákvæðinu sé hins vegar ekki getið um raunkostnað heldur hæfilegan kostnað og hljóti þá að vera miðað við hefðbundnar útfarir. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 24/2001 hafi föður verið dæmdar 226.288 kr. í bætur vegna útfararkostnaðar, en fjárhæðin framreiknuð til dagsins í dag nemi 396.275 kr. Jafnvel þótt gert væri ráð fyrir að útfararkostnaður hefði hækkað umfram verðlagsbreytingar, þá verði fráleitt talið að hæfilegur kostnaður gæti nálgast 1.261.836 kr. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 24/2001 hafi verið uppi svipuð sjónarmið og hér, en þar hafi verið um að ræða sviplegt fráfall ungrar konu í blóma lífsins.

Ákærði hafnar miskabótakröfu D og bótaskyldu gagnvart henni. Byggt er á því að bótakrefjandinn uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, þ.e. falli ekki undir hugtakið maki. Í greinargerð með 13. gr. laga nr. 37/1999, sem hafi rýmkað heimild til ákvörðunar miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, segi að orðið maki nái einnig til sambúðarmaka. Samkvæmt framburði D sjálfrar hjá lögreglu 15. ágúst 2010 hafi hún verið með lögheimili hjá foreldrum sínum. Hún hafi skýrt frá því að hafa verið með lögheimili hjá foreldrum sínum en hafa búið „heima hjá honum“.  Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili þá geti tveir einstaklingar, sem séu samvistum og uppfylli ákveðin skilyrði hjúskaparlaga, fengið sambúð sína skráða í þjóðskrá. Jafnframt komi þar fram að fólk í skráðri sambúð eigi sama lögheimili. Það sé því ljóst að D hafi ekki verið í skráðri sambúð með hinum látna, þar sem hún hafi átt lögheimili annars staðar, auk þess sem af orðum hennar sjálfrar megi ráða að hún hafi ekki litið á heimili A sem sitt heimili eða þeirra sameiginlega heimili. Engin rök standi til að rengja að bótakrefjandi hafi dvalið langdvölum á heimili A, en það jafngildi ekki heimilisfesti í lagalegum skilningi þannig að fullnægt sé hugtaksskilyrðum fyrrgreindra laga, 2. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 og 3. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1990. Skýra verði hugtakið maki í 2. mgr. 26. gr. skaðabóta­laga, þannig að þar sé átt við sambúðarmaka í skráðri sambúð samkvæmt þjóðskrá. Eðlilegt sé að gera kröfur til þess að ákveðin festa hafi verið í sambúðinni, a.m.k. þannig að aðilar hafi ákveðið að skrá sambúð sína lögum samkvæmt, til þess að bótaskylda geti stofnast samkvæmt 2. mgr. 26. gr. Þar skorti á í máli þessu. Þess utan geti bótaskylda ákærða ekki verið grundvölluð á 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, heldur 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar.

IV.

Við aðalmeðferð málsins vildi ákærði ekki tjá sig en staðfesti fyrirliggjandi skýrslur sem teknar voru af honum hjá lögreglu, í hljóði og mynd.

Verður nú rakinn framburður vitna fyrir dómi.

Vitnið E geðlæknir sagði að um væri að ræða langa og flókna sögu. Ákærði hefði virst hafa verið heilbrigt barn sem hefði þroskast eðlilega en svo hefði hann orðið fyrir hörmulegu áfalli er faðir hans svipti sig lífi. Um einu til tveimur árum eftir það hefðu orðið mjög róttækar breytingar í þroskaferli ákærða þar sem hann hefði þróað með sér sjúklegt sálarlíf á geðrofsgrunni. Mjög sterkar vísbendingar væru um sjúklegt sálarlíf ákærða með djúpstæðu rofi í persónuleikanum. Í máli því sem hér um ræðir hafi ákærði séð leið til að komast út úr félagslegri einangrun sem hafi breytt miklu fyrir hann og félagslega virkni hans. Ákærði virðist hafa lagt ást á D og um sjúklega þráhyggju hafi verið að ræða á geðrofsgrunni, en ákærði hafi ekki náð með neinum hætti að lesa hug D til sín. Þar að auki virðist sem sprottið hafi sú sjúklega hugsun að ryðja A úr vegi svo ákærði fengi að njóta D einn. Sú hugsun hafi einnig verið á geðrofsgrunni. Ákærði hefði að hluta til gert sér grein fyrir sjúkleika þessara hugsana en hann hafi ekki haft færni til að leiðrétta þær í huga sér og þær nánast náð að lifa sjálfstæðu lífi og ná það sterkum tökum á honum að hann hafi fundið sér óeðlilegar og óþroskaðar leiðir til að skapa einhverja málamiðlun innra með sér. Ákærði hafi róað þessar hugsanir með því að koma með einhverjar hugmyndir um tæknilegar útfærslur. Þá virðist sem morðhugsanirnar hafi lagst í dvala í mislangan tíma, allt að mánuði í senn, en þær alltaf komið aftur á yfirborðið. Þær hafi fyllt huga hans þannig að hann hafi ekki haft getu eða ráðrúm í huga sér til að taka dýpri umhugsun og huga nánar að eðli þessara hugsana, heldur hafi þær drifið hann út í verknaðinn. Þannig hafi nánast orðið jafnaðarmerki milli hugmyndar og verknaðar í huga hans. Hugsunin og tilfinningin hafi náð það sterkum tökum á honum. Samkvæmt frásögn ákærða virðist nánast sem tilviljanir reki hann áfram í að myrða A og ákærði hafi verið með djúpstæða óraunveruleika­tilfinningu í kringum verknaðinn sjálfan og eftir á. Eftir verknaðinn hafi hann ætlað að beita fyrir sig jafn frumstæðum varnarháttum og hann gerði þegar faðir hans dó. Ákærði hafi bara ætlað að hrista hausinn til að gleyma þessu en það hafi verið gróf afneitun, nánast því á geðrofsplani.

Aðspurt um hugleiðingar vitnisins um að ákærði væri með tvískiptan persónuleika sagði vitnið að ákærði hefði heilbrigðan þátt sem birtist að jafnaði út á við en svo hefði hann djúpstætt rof í huga sínum eða persónuleika sem komi upp á yfirborðið þegar hann upplifi sig aðþrengdan í einhverjum aðstæðum sem nái þá yfirhendinni. Þegar vitninu var bent á að ákærði virðist muna eftir öllu sem hann geri sagði vitnið að rofið á milli svona hluta sé misgróft, allt frá því að vera algjört óminni eða minning sem skipti ákærða litlu máli. Það hefði ekki tilfinningalega merkingu fyrir hinn hlutann. Ákærði hefði sagt að hann myndi eftir atvikum en hann hefði samt sem áður djúpstæða óraunveruleikatilfinningu fyrir þeim, nánast eins og það hefði ekki verið hann sjálfur sem hefði gert þetta. Þetta gæfi sterkar vísbendingar um djúpstætt rof í persónuleika ákærða. Vitnið sagði að geðrof sem þetta gæti birst í djúpstæðum sveiflum í upplifun viðkomandi á sjálfum sér og sýn annarra á viðkomandi, þannig að hann hefði á sér mjög djúpstætt andstæðar hliðar. Aðstandendur ákærða ættu að sjá mun á honum og reiðin að koma meira upp á yfirborðið. Vitnið sagði að í viðtölum þess við ákærða hafi hann verið harmi sleginn og verið með djúpstæða sektarkennd vegna verknaðar síns. Hann hefði áfellst sjálfan sig og verið á barmi örvæntingar yfir því sem hefði gerst. Hann hefði haft óraunveruleika­tilfinningu fyrir því að hann hefði gert þetta.

Þegar vitnið var spurt hvort um varanleg veikindi væri að ræða og hætta væri á því að hann fremdi eitthvað svona aftur sagði vitnið að svo væri. Um væri að ræða djúpstæða og langvarandi „strúktúra“ í sálarlífinu sem hafi farið úrskeiðis og krefjist mikils inngrips til að leiðrétta þá. Með réttri sálfræðilegri meðferð væri það hægt en viðkomandi þyrfti að vera viljugur til að breyta sér. Að hluta til gæti lyfjameðferð hjálpað til að létta á þjáningu viðkomandi en jafnframt þurfi meðferð að taka til meðvitundar svo hægt sé að vinna úr þeim áföllum sem hann hafi orðið fyrir í lífinu. Það megi lýsa þessu sem svo að sjálft áfallið falli í bakgrunninn og það sé tekið aftur til meðvitundar í gegnum samtöl eða sálfræðilega meðferð. Innt eftir því hvað hefði kveikt í að ákærði veiktist og hvort það hefði verið ást á D sagði vitnið að breytt líferni, að koma inn í félagslegar aðstæður sem hefðu verið flóknari en ákærði hafi ráðið við, hefði sett af stað innra ferli sem hann hafi ekki ráðið við sökum vanþroska sálarlífs síns. Ef ákærði hefði leitað hjálpar hefði hann getað náð að „hlutleysa“ þessar yfirþyrmandi tilfinningar. Þroskaferli ákærða hafi haft í för með sér að hann hafi dregið sig mikið inn í einsemd og ætlað sér að klára allt sitt líf á eigin spýtur. Hefði hann ekki þróað með sér þessa einangrun hefði hann getað unnið betur úr álagi sem þessar breyttu félagslegu aðstæður höfðu í för með sér. Ákærði hafi ekki getað ráðið við eða unnið úr þessum tilfinningum. Ákærði hefði reynt að grípa inn í og breyta atburðarásinni en hann hefði reynt það á mjög óþroskaðan hátt með því að róa árásargjarna hlutann með því að gangast á vit með honum. Nánast væri eins og um tvær persónur væri að ræða. Kannski ekki raunverulegar persónur heldur tvö tilfinningaleg öfl sem nái ekki að samþættast og annar krafturinn reyni að sýna hinum ákveðna undirgefni. Ekki með því að gera uppreisn gegn honum heldur að miðla málum á vanþroskaðan hátt með því að vera á sama máli. Þegar vitnið var spurt hvort hugsanlegt væri að ákærði hafi einfaldlega vitað að þetta væri rangt og verið tvístígandi um það hvort hann ætti að fremja verknaðinn sagði vitnið að að hluta til hafi ákærði vitað að þetta væri rangt en sálarlífið hafi verið svo vanþroskað að hann hafi ekki ráðið við að halda aftur af þessari djúpstæðu og árásargjörnu drápstilfinningu sem hafi komið upp. Hugurinn hafi ekki haft neina getu til að miðla málum. Þetta væri nánast eins og hjá litlu barni sem gæti ekki séð marga fleti á málum. Það væri bara einn flötur og það væri sá flötur sem kalli fram tilfinningu og drífi fram verknaðinn. Hann hefði engan þroska haft til að hugsa og sjá rétt og rangt. Innt eftir því hvernig þetta kæmi heim og saman við það sem kemur fram í matsgerð vitnisins um að ákærði líti á sjálfan sig sem sjálfsagaðan mann sem reyni að hafa stjórn og aga á tilfinningum sínum sagði vitnið að það væri hugmynd ákærða um sjálfan sig. Hann reyndi t.d. að hafa allt í röð og reglu á skrifborði sínu en allt annað væri í óreiðu og þetta einkenndi ákærða. Þetta beri að sama brunni, að ákærði hafi reynt að bjarga sér sjálfur án þess að leita aðstoðar hjá öðrum. Aðspurt um ummæli ákærða í samtali við vitnið, varðandi myndband á Youtube, um að eftir þá birtingu hefði allt farið á verri veg og hvað ákærði hafi átt við, sagði vitnið að það hefði lagt þann skilning í ummælin að ákærði hefði mætt meira mótlæti. Þetta hefði gert lífið enn flóknara því nú hefði þetta ekki aðeins verið milli hans og D heldur fleiri haft vitneskju um og skoðanir á ást hans á D. Vitninu var kynnt af sækjanda að yfirmatsmenn hefðu einnig komist að þeirri niðurstöðu að ákærði væri ósakhæfur vegna svæsins geðrofs en þeir hefðu byggt á því að ákærði hafi verið með ranghugmyndir sem hafi leitt hann út í þessar gerðir. Vitnið kvaðst vera sammála þessu. Vitnið hefði orðað þetta í matsgerð sinni þannig að þessar þráhyggjukenndu hugsanir væru af geðrofstoga en það væri annað orðalag um það sem hægt sé að kalla ranghugmyndir. Aðspurt hvort vitnið lýsi alvarlegra ástandi en yfirmatsmenn sagði vitnið að það drægi fram bæði sjúkleika ákærða af geðrofstoga en einnig persónuleikaþroska hans og þráhyggju. Þannig að ákærði ætti við vanda að etja á þessum tveimur sviðum, bæði á geðrofsplani og hans heildstæða persónuleikaþroska sem geri honum enn erfiðara um vik. Einnig var vitninu kynnt að í matsgerð yfirmatsmanna segði að samband ákærða við D hefði verið af tegundinni „erotomania“ og kvaðst vitnið vera sammála því. Hugtakið „erotomania“ væri annað orðalag um það sem vitnið kalli „fixed idea“. Um væri að ræða hugmynd sem festist svo djúpum rótum í huga viðkomandi að ekkert annað komist að. Þetta yrði allt umlykjandi og allsráðandi hugsun í huga viðkomandi og ekkert annað komist að. Hugtökin „fixed idea“ eða „overvalued ideas“ lýsi þessu að sumu leyti ekki síður en ranghugmynd. Þetta sé hugmynd sem sé alveg föst í huganum og viðkomandi nái ekki með neinu móti að hleypa öðru að, annarri sýn. Þetta væri öðruvísi en að vera ástfanginn á venjulegan hátt. Ákærði hafi ekki getað sett sig í spor D og lesið hug hennar til hans. Hann hafi haldið að þau yrðu eitt við að ryðja A úr vegi og heilbrigð hugsun ekki komist að til að leiðrétta þessa sjúklegu hugsun, en heilbrigður maður hefði getað séð fyrir sér að þetta myndi ekki ganga. Ákærði hefði sagt að D hefði aldrei sagt „nei“ við hann og þar með hefði hann haft djúpstæða von um að þau yrðu eitt. Alveg fram á verknaðar­stundu hefði hann haldið fast í þetta og í þessu liggi vísbendingar um „fix idea“ eða „overvalued ideas“, eða það sama og ranghugmyndir (delusion). Það að ákærði hafi ætlað að hrista verknaðinn úr höfði sér væri líka á „psykotísku“ plani og það mætti segja að komin væri ný ranghugmynd. Vitnið kvaðst vera þeirrar skoðunar að ákærði þurfi að sæta öryggisgæslu, enda væri ákærði haldinn alvarlegum sjúkleika. Fram kom að vitnið hefði rætt við ákærða í samtals 10 klukkustundir.   

Vitninu var kynnt það sem fram kemur í skýrslu lögreglu um rannsókn málsins, að hegðun ákærða hjá lögreglu hefði verið undarleg þar sem hann hefði ekki sýnt tilfinningaleg viðbrögð eða streitumerki vegna aðgerða lögreglu. Vitnið sagði að það hefði tekið löng viðtöl við ákærða og þá hefði hann sýnt tilfinningaleg viðbrögð. Eitt af því sem einkenndi geðrofssjúkdóma væri það að oft væri mikil tilfinningaleg flatneskja eða djúpstæð afneitun á tilfinningalífi. Skimunar­listar sem vitnið hefði lagt fyrir ákærða endurspegli þetta að hluta til en það sé eins og ákærði sé í afneitun um að eitthvað hrjái hann en á hinn bóginn sé hann harmi sleginn yfir verknaðinum. Hann sé því mótsagnakenndur, að hluta til vegna geðrofs og að hluta vegna frávika í persónuleikaþroska hans.

Aðspurt um þýðingu þess að í ættarsögu ákærða séu geðrofssjúkdómar sagði vitnið að meginhugmynd um geðrofssjúkdóma í dag væri sú að hjá einstaklingum gæti verið meðfædd viðkvæmni en hún væri ekki nóg heldur þurfi að vera fyrir hendi tilteknar aðstæður, eins og t.d. áföll eða langvarandi álag, sem hleypi ástandinu af stað. Í tilfelli ákærða væri hvort tveggja til staðar.    

Þá sagði vitnið að mats- og skimunarlistar styddu að eitthvað hefði gerst hjá ákærða sem hefði gert það að verkum að þroski hans hefði farið úrskeiðis. Skilaboðin af þessu máli til samfélagsins væru þau að taka bæri alvarleg áföll hjá börnum alvarlega.

Vitnið G geðlæknir greindi frá því að svo virðist sem ákærði hafi ekki fyllilega áttað sig á því að faðir hans hefði framið sjálfsvíg og ímyndað sér að faðir hans, sem var sjómaður, hefði farið í burtu og kæmi aftur. Móðir ákærða hefði lýst ákærða sem þverum en mjög reglusömum og hann hefði verið passasamur. Fyrst eftir að faðir ákærða dó hefði hún ekki merkt miklar breytingar á ákærða en á eldri árum í grunnskóla hefði ákærði orðið hamslaus í nokkur skipti í samskiptum við jafnaldra, með þeim hætti að öðrum stóð stuggur af. Ákærði var sendur á barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna þess og fór í nokkur viðtöl. Vitnið sagði jafnframt að ákærði hefði verið þokkalega góður námsmaður og hann lokið námi 2007. Hann hefði svo farið að vinna hjá tölvufyrirtæki í mars 2008. Ákærða hafi verið lýst sem einmana og félagslega óþroskuðum karlmanni. Ákærði hefði t.d. aldrei borðað í mötuneyti á vinnustað sínum heldur farið á nærliggjandi veitingastaði. Hann hafi ekki kynnst stúlkum eða konum, en snemma árs 2009 eða í lok árs 2008 hafi hann hitt D, fyrrverandi bekkjarsystur sína, og þau tekið tal saman. Hún hefði boðið honum í partí í húsi A og ákærði orðið mjög hrifinn af henni, en engin merki hafi verið um að það væri gagnkvæmt. Ákærði hefði verði mjög upptekinn af ást sinni til D og í lok mars 2009 hafi hann gert myndband á Youtube, sem sé sérstakt á margan hátt, þar sem hann játi ást sína til D. Þá hefði hann gert fleiri myndbönd. Í framhaldinu hefði þróast í huga hans hugmynd um að losna við A. Í október eða nóvember sama ár hafi hann farið að ímynda sér að lausnin væri sú að losna við A. Ákærði hefði hafið undirbúning að glæpnum með því að safna að sér dóti sem hann setti í skottið á bíl sínum, hanska, hlífar á skó o.þ.h. Hann hafi verið rekinn áfram af ákveðinni þráhyggju. Þegar hann hefði keypt einhvern smáhlut hafi hann losnað við þráhyggjuna og getað ýtt henni frá sér. Ákærði hefði haldið áfram að hafa samband við D og orðið upptekinn af því að ef hann losnaði við A sæti hann einn með henni. Þetta hefði þróast áfram og í ágúst 2010 hafi hann verið niðri í miðbæ og D haft samband við hann og þau hist. Ákærði hefði keyrt hana heim en D hafi verið töluvert ölvuð og hann farið með hana á heimili sitt, lagt hana í rúm sitt og beðið fyrir utan smástund. Svo hefði hann farið snemma morguns og undirbúið glæpinn. Ákærði hefði svo eftir verknaðinn losað sig við tæki og tól. Ákærði hefði orðið gjörsamlega stjórnlaus og hamslaus. Hann hefði lýst því vel fyrir vitninu hvernig þessi ímyndaði heimur hans varð að þráhyggju sem hann réð ekki við, ranghugmynd á þröngu sviði.

Þá greindi vitnið frá því að í viðtölum sínum við ákærða hefði hann brotnað niður með óhuggulegum og ógnvekjandi hætti. Hann hefði grátið ofsalega og gjörsamlega misst stjórn á sér. Einnig sagði vitnið að það og F geðlæknir hefðu haft áhyggjur af því að ákærði hefði áður haft ofbeldishugmyndir, ekki eingöngu gagnvart A heldur tvívegis í grunnskóla. Þá hefði ákærði haft reiðihugmyndir gagnvart samstarfsmanni og samfanga í gæsluvarðhaldinu. Ákærði hefði verið mjög hræddur við þessar hugmyndir og ekki verið viss um að hann gæti stjórnað sér ef hann hitti D einhvern tímann. Niðurstaða vitnisins og F væri sú að hjá ákærða hafi verið um að ræða ranghugmynd, á þröngu sviði en alvarlega, sem kallist „erotomania“. Þetta væri ákveðið form af hugvilluröskunum og hefði verið þýtt sem ástaræði. Ákærði hafi verið viss um að D endurgyldi ást hans þótt ekkert styddi það. Hann hefði svo búið til þessa atburðarás og fantasíu í sínum heimi, sem hann hafi síðan framkvæmt. Vitnið sagði jafnframt að fyrir utan þessa ranghugmynd hafi ákærði virst vera eðlilegur. Hann hafi getað stundað vinnu og vinnuveitandi sem vitnið ræddi við hafi sagt að ákærði væri svolítið sérstakur en hafi virst eðlilegur.

Þegar vitnið var spurt hvort um viðvarandi ástand væri að ræða hjá ákærða sagði vitnið að ranghugmynd ákærða hefði verið viðvarandi í eitt og hálft ár, með smá hléum. Þetta væri á þröngu sviði og ekki einfalt að meðhöndla. Þetta væri ástand sem gæti blossað upp aftur. Meðferð væri fólgin í lyfjagjöf. Vitnið kvaðst telja ákærða hættulegan og að hann þyrfti að vera í gæslu. Í slíkri gæslu væri umhverfi tiltölulega hlutlaust þannig að það gæti vel verið að ranghugmyndir hverfi þar og ákærði virki eðlilegur gagnvart þeim sem annist hann. Aðspurt hvort hætta af ákærða yrði enn fyrir hendi sagði vitnið að ekki væri hægt að útiloka það, kannski um langan tíma. Vitnið kvaðst telja erfitt að veita ákærða meðferð því þegar truflunin væri á þröngu sviði væri erfiðara að meðhöndla hana heldur en þegar hún væri víðtæk.

Innt eftir því sem fram kemur í yfirmatsgerð, um að ekki hafi verið hægt að fá fram reiði hjá ákærða í garð A, sagði vitnið að svo virtist sem A  hafi verið hlutlaus persóna. Það virtist sem ákærði hafi ekki haft miklar tilfinningar gagnvart A, en ákærða fundist hann standa í vegi fyrir því að ákærði gæti notið ástar með D. Eina ráðið sem ákærði hafi séð í sínum ranghugmyndaheimi hafi verið að losna við A. Þá sagði vitnið að samkvæmt gögnum málsins og eftir því sem vitnið fái best séð hafi A verið góður við ákærða og kannski litið á hann sem minnimáttar en hann hafi ekkert amast við honum. Aðspurt hvort hugsanlegt væri að ákærði hafi verið reiður út í A fyrir að líta niður á hann og ekki líta á ákærða sem raunverulegan keppinaut sagði vitnið að erfitt væri að átta sig á því eða vita það. Ákærði hefði orðið gjörsamlega stjórnlaus og hamslaus þegar hann fór á heimili A að morgni 15. ágúst. Ákærði hefði lýst því með óhuggulegum hætti fyrir vitninu þegar hann hafi gengið að húsinu og verið brosandi. Hann hefði sagt að sér hefði liðið vel en verið hræddur við sjálfan sig. Hann hafi verið að fara að drepa mann en samt hefði honum liðið svona vel. Vitnið sagði að þarna hefði verið sú undirliggjandi hugmynd ákærða að hann gæti ýtt A út úr heiminum og þá sæti hann einn að D. Á þessum tíma hafi D verið heima hjá honum en ekkert verið á milli þeirra. Ef þetta hefði verið reiði gagnvart A væri hún dulin og hefði komið fram með svona ofsalegum hætti undir lokin. Aðspurt hvort það gæti verið að ákærði væri bara að koma með eftir á skýringar sagði vitnið að það gæti verið en þetta væri mjög sjúkur hugsunarháttur og þessi ást til D hefði knúið ákærða áfram. 

Nánar um áhrif sjálfsvígs föður ákærða og framburð E geðlæknis, um að tilfinningalíf ákærða hafi orðið vanþroska vegna þess, sagði vitnið að ákærði hafi verið á þeim aldri sem börn geri sér grein fyrir því að dauðinn séu endalok. Ákærða hafi verið sagt að um slysaskot hefði verið að ræða en hann hafi ekki trúað því að faðir hans hafi verið látinn. Ákærði hefði búið til ímyndaðan veruleika og horfið inn í hugsunina um að hverfa til föður síns og njóta samvista með honum. Jafnframt sagði vitnið að E hefði lýst þessum heimi vel og yfirmatsmenn einnig gert það í yfirmatsgerð. Eftir að ákærði framdi verknað sinn hafi D verið komin inn í þennan heim sem hann hafi afmarkað í huga sínum og hann ekki komist þar inn. Honum hafi því fundist hann einn og berskjaldaður. Vitnið taldi að vegna þessa væri ákærði jafnvel enn hættulegri en ella, alla vega þar til ákærði hefði haft tækifæri til að vinna úr þessu. 

Lýst var fyrir vitninu að ákærði hefði verið yfirvegaður við handtöku hjá lögreglu og það hefði ekki verið fyrr en hann hafi verið kominn út í horn og neyðst til að játa verknaðinn sem hann hafi sýnt viðbrögð og grátið. Vitnið svaraði því til að ákærði væri mjög dulur og hefði verið það alla tíð og erfitt hafi verið fyrir móður hans að átta sig á því hvaða áhrif fráfall föður ákærða hafði á hann. Í fyrstu viðtölum vitnisins við ákærða hafi hann verið mjög rólegur og yfirvegaður. Hann hefði ekki borið nein merki kvíða. Ákærði hefði haldið að hann kæmist upp með glæpinn ef hann neitaði nægilega oft. Jafnframt sagði vitnið að margt annað væri sérkennilegt í málinu eins og áhugi ákærða á bardagalist, en þessi atriði væru til stuðnings því að ákærði hafi verið mikið veikur. Vitnið sagði að sú bardagalist sem ákærði hefði haft áhuga á væri stunduð af örlitlum hópi og snúist um að koma sér undan, fara í felur, skilja ekki eftir sig spor o.þ.h. Þá væri sérstök sú hugmynd ákærða að flytja til Japans og byrja þar nýtt líf. Aðspurt hvort hugsanlegt væri að viðbrögð ákærða í seinna viðtalinu, þegar ákærði brotnaði niður, hafi verið af reiði vegna þess að hann hafi náðst og verið kominn út í horn, kvaðst vitnið hafa orðið hálfhrætt við ákærða. Vitnið og F geðlæknir hefðu í þessu viðtali verið búnir að fá mynd af ákærða og gert honum grein fyrir þessum hugarheimi sem hann hafði verið í og þá hafi ákærði orðið mjög hræddur og verið skelfingu lostinn og brotnað niður. Vitnið kvaðst ekki vita hvort viðbrögð ákærða hefðu verið vegna þess að hann hefði brotnað niður eða hann hefði verið ofboðslega reiður líka. Þegar vitnið var spurt hvort ranghugmyndir ákærða hvað varðar D væru farnar sagði vitnið að á yfirborðinu hefðu þær verið horfnar þegar vitnið ræddi við hann í desember 2010, en vitnið kvaðst ekki vera visst um að svo væri. Ákærði væri hræddur um sjálfan sig, hvað hann gerði ef hann hitti D. Um það hvort ranghugmyndir, eins og hjá ákærða, gætu horfið snögglega sagði vitnið að ákærði gæti bælt þær niður en þær hyrfu kannski ekki alveg. Lyf gætu hjálpað til með að ýta þeim til hliðar en þær hyrfu ekki einn, tveir og þrír. Borið var undir ákærða það sem kom fram hjá E geðlækni, um að ákærða finnist óraunverulegt að hann hafi framið verknaðinn, og spurt hvort hugsanlegt væri að fram væri komin ný ranghugmynd hjá ákærða. Vitnið sagði að ekki væri hægt að segja til um það en hann gæti gert það, þróað með sér aðrar ranghugmyndir og því telji vitnið að ákærði sé enn verulega hættulegur og geti orðið það um töluverðan tíma.  

Vitnið F geðlæknir sagði að niðurstaða sín og G geðlæknis væri byggð á því að ákærði væri með hugvilluröskun (delusional disorder). Í því felist ákveðnar ranghugmyndir eða ranghugmyndakerfi en kannski væri mjög erfitt að átta sig á því í hverju það hafi nákvæmlega falist. Ákærði hefði verið rekinn áfram af hugsunum sem hafi stjórnað gerðum hans og leitt hann á þá braut sem raun varð á. Aðspurt hvaða ranghugmynd hefði rekið ákærða áfram sagði vitnið að alltaf væri erfitt að segja til um hver væri „konkret“ hugmyndin. Ákærði hefði myndað ákveðna ástríðukennda hugsun til D og sú hugsun rekið hann áfram, en venjulegt fólk hefði áttað sig á að ekki væri um gagnkvæmar tilfinningar að ræða og stoppað sig af. Á köflum, þegar ákærði hafi verið í jafnvægi, hafi hann jánkað því að samband sem hefði mögulega verið á milli þeirra væri búið, en þær svo rekið hann áfram. Vitnið sagði enn fremur að það væri sláandi að ákærði virtist leita í hugarskjól, eins og lítið box í huganum, til að fá frið fyrir ásæknum og erfiðum hugsunum. Hugsunin hefði svo haldið áfram og rekið hann áfram, skref af skrefi, og ákærði ákveðið að fremja þetta ódæðisverk. Hugsunin hjá ákærða hafi orðið þráhyggjukennd og hann skipulagt allt í smáatriðum. Vitnið sagði að það væri áhugavert að við hvern verkþátt hafi verið eins og ákveðinn léttir hjá ákærða en svo hafi hann haldið áfram.

Vitnið sagði enn fremur að í almennum samskiptum við ákærða væri ekki hægt að átta sig á því að eitthvað væri að honum, eins og t.d. hafi komið fram í viðtali við vinnuveitanda hans. Ákærði kæmi fyrir sem aðeins óvenjulegur en að öðru leyti væri ekkert sérstakt athugavert við hann. Vandinn væri sá að ranghugmyndaheimur ákærða, sem feli í sér ógnarviðbrögð gagnvart öðru fólki, virðist vera mjög þröngur og erfitt að nálgast hann. Þess vegna væri erfitt að segja fyrir víst hverjar ranghugmyndirnar væru, en telja verði að ákærði sé viðvarandi hættulegur. Það gæti búið löng skipulagning að baki hjá ákærða, eins og í máli því sem hér um ræðir. Í vernduðu umhverfi, eins og t.d. á sjúkrastofnun eða fangelsi, yrði erfitt að átta sig á umfangi veikinda hans, vegna þess hversu dulur hann væri og gæfi lítið af sér nema við sérstök áreiti. Það hafi ekki verið fyrr en hlutir hafi verið settir í samhengi fyrir ákærða sem vitninu hafi orðið ljóst hversu dulinn heimur ákærða væri, ógnvekjandi og skelfilegur. Vitnið kvaðst hafa áhyggjur af því hvort hægt væri að sinna ákærða með kerfisbundnum lækningum. Í þeim tilvikum sem hugvilluröskun er á þröngu sviði væri mjög erfitt að glíma við hana því 95% af hegðuninni væri í lagi. Þessi mál væri óskaplega erfitt að meðhöndla því einstaklingurinn leyndi þessu fyrir umhverfinu, þ.m.t. læknum og heilbrigðis­starfsfólki. Það væri því erfitt að vita hvort einstaklingurinn sýndi batamerki eða ekki. Vitnið sagði að það hefði þess vegna áhyggjur af því hvernig eigi að standa að endurmati á ákærða, verði hann dæmdur til að sæta öryggisgæslu, þ.e. að meta hvort hann sé ekki lengur hættulegur umhverfi sínu. Þá sagði vitnið að einnig þurfi að hafa áhyggjur af ákærða sem einstaklingi vegna ættarsögu hans um sjálfsvíg.    

Vitnið var spurt hvort það gæti verið að ákærði hefði banað A út af reiði, en ákærði hefði áður beitt ofbeldi að því er virtist þegar viðkomandi hefði gert eitthvað á hlut hans. Vitnið sagði að það væri erfitt að segja til um hvaða þáttur það var sem kveikti í ákærða hvað varðar A. Það sé ekki endilega skiljanlegt og erfitt að átta sig á því hvað það hafi verið. Það gæti hafa verið eitthvað í samskiptum ákærða og A og fólks sem tengdist honum. Það væri erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvaða þáttur það var sem leiddi til þess að ákærði framdi verknaðinn. Ljóst væri að eitthvað í þessum samskiptum hefði kveikt í ákærða. Vitnið tók sem dæmi að samstarfsmaður ákærða hefði agnúast út í það að ákærði horfði á myndbönd í vinnunni og erfitt væri að segja nákvæmlega hvað það hafi verið sem olli viðbrögðum hjá ákærða. Þegar um ranghugmyndir væri að ræða brotni hefðbundnar hugsanir og ranghugmyndirnar samrýmist ekki hugsunum daglegs lífs. Aðspurt hvernig ranghugmynd væri skilgreind sagði vitnið að um væri að ræða „fixed false believe“, þ.e. föst hugmynd eða þanki sem viðkomandi trúir einarðlega þrátt fyrir að umhverfi manns og raunveruleiki bendi til annars.

Vitnið D kvaðst hafa búið með A að H í Hafnarfirði frá apríl 2009 en þau hefðu ekki verið skráð í sambúð. Vitnið kvaðst hafa verið með skráð lögheimili hjá foreldrum sínum og ástæða þess að vitnið hefði ekki skráð lögheimili sitt hjá A væri sú að vitnið hefði ekki talið að það skipti máli. Aðspurt hver hefðu verið framtíðaráform vitnisins og A sagði vitnið að þau hefðu rætt eitt og annað en vitnið vildi ekki tjá sig nánar um það. Þá sagði vitnið að allar eigur þess hefðu verið fluttar að H og ekkert verið eftir hjá foreldrum þess. Vitnið kvaðst hafa flutt frá H eftir lát A með heilan sendiferðabíl. Þá sagði vitnið að þetta hefði verið hús A en hún hefði búið hjá honum. Fyrstu mánuði sambúðar þeirra hefði hún alltaf sagt „heima hjá honum“ en svo þegar leið á sambandið hafi hún litið á heimilið sem „okkar“ og hún farið „heim til sín“. Þegar vitnið var spurt hvort það hefði vitað að A eignaðist barn í Eistlandi meðan hann var í sambandi við vitnið kvaðst vitnið ekki hafa vitað það. Jafnframt sagði vitnið að það hefði sennilega verið seinasta manneskjan sem komst að því.

Um líðan sína eftir lát A sagði vitnið að það gæti ekki afmáð myndina af aðkomunni að A úr huga sér. Vitnið ætti erfitt með svefn og dreymdi ógeðslega drauma. Vitnið kvaðst hafa misst sjö kíló og ekki þekkja sjálft sig. Sú manneskja sem vitnið var væri horfin. Vitnið kvaðst lítið fara út og líða illa í margmenni. Sér liði eins og fólk horfði á sig og dæmdi sig. Vitnið sagði einnig að því hefðu borist skilaboð frá fólki sem það þekki ekki um að þetta hafi verið vitninu að kenna og það tekið þátt í þessu. Þá kom fram hjá vitninu að það hefði hætt námi og treysti sér ekki til að vinna.

V.

Ákærði hefur skýlaust játað að hafa veist að A og banað honum. Játning ákærða á sér stoð í gögnum málsins og er sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru. Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákærunni.   

Samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er sakhæfi afdráttarlaust skilyrði refsiábyrgðar einstaklinga. Í máli þessu liggur fyrir álit þriggja geðlækna sem rannsökuðu geðheilbrigði ákærða E geðlækni var falið að framkvæma geðrannsókn á ákærða og svo voru dómkvaddir tveir yfirmatsmenn, geðlæknarnir  F  og G. Er það niðurstaða þeirra allra að ákærði hafi sökum svæsins geðrofs verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum er hann framdi verknað þann sem í ákæru greinir og sé því ósakhæfur. Ákæruvaldið telur að þrátt fyrir þessi álit eigi að dæma ákærða til refsingar þar sem forsendur þær sem liggi til grundvallar niðurstöðu E og yfirmatsmanna séu ekki samhljóða. Þá liggi ekki fyrir orsakatengsl milli andlegs ástands ákærða og verknaðar hans. Á þetta er ekki fallist.

Eins og rakið hefur verið varð ákærði fyrir miklu áfalli er faðir hans svipti sig lífi, í næsta herbergi við ákærða. Ákærði var þá á viðkvæmum aldri en hann var níu ára gamall. Svo virðist sem ákærði hafi verið í afneitun og ekki áttað sig á því fyrr en nýlega að faðir hans framdi sjálfsmorð. E lýsir því í matsgerð sinni að fráfall föður ákærða hafi markað líðan og hegðun hans. Þetta áfall hafi stuðlað að innilokun ákærða í eigin hugarheimi og félagslegri einangrun og hjá ákærða hafi þróast djúpstætt hugrof. Í matsgerðinni er því lýst að ákærði hafi búið til skjól í huga sér með minningunni um föður sinn og þegar ákærði hafi mætt mótlæti, eins og þegar jafnaldrar hafi gert eitthvað á hlut hans eða hann skammaður í vinnu, hafi hann leitað í þessa „veröld“ sem hefði orðið til í huga hans. 

Fram kemur í gögnum málsins að móðir ákærða fór með hann til viðtals á BUGL um tveimur vikum eftir fráfall föður hans. Hún lýsti því m.a. að ákærði vildi ekkert tala um föður sinn, hann vildi ekki fara í jarðarförina eða kistulagningu og móðirin hefði af þessu áhyggjur. Ekki varð um neitt eiginlegt meðferðarferli að ræða. Á árinu 2000, þegar ákærði var 13 ára gamall, var honum vísað til BUGL vegna andlegra og félagslegra vandamála sem einkenndust af miklum geðsveiflum og skapofsaköstum. Einnig átti ákærði í erfiðleikum með tengsl og samskipti við jafnaldra. Í gögnum málsins segir jafnframt að þegar ákærði var tólf ára hafi hann reiðst út í skólabróður sinn, hann hlaupið heim, sótt fiskrotara og lamið strákinn ítrekað í höfuð. Ákærði sótti í kjölfar þessa hópmeðferð á BUGL í um 10 skipti og á árinu 2003, þá 15 ára gamall, kom hann aftur á BUGL eftir að hafa misst stjórn á sér er skólafélagi réðst aftan á hann. Þá hefur komið fram að ákærði hafi eitt sinn tekið með sér hníf í skólasund eftir að hafa orðið fyrir áreiti og sagt að hann myndi beita honum ef áreitið héldi áfram. Í yfirmatsgerð F og G er skýrt frá því að ákærði hefði í viðtali við þá lýst ofbeldishugsunum gagnvart samstarfsmanni sem hefði pirrast yfir því að ákærði horfði á vefsíðuna Youtube í vinnunni. Einnig hafi ákærði greint frá því að í gæsluvarðhaldinu sem ákærða var gert að sæta á Litla-Hrauni hafi hann áfram verið með ofbeldishugsanir og viljað meiða fanga sem hefði verið vondur við hann. Ákærði væri hræddur við þessar hugsanir.

Ákærði hefur greint frá því að hafa hitt D, fyrrverandi skólasystur sína, í byrjun árs 2009 og hún í framhaldinu boðið honum í samkvæmi. Á þessum tíma hafi D ekki verið með A, en þau hefðu fljótlega eftir þetta byrjað saman. Ákærði hafi farið að umgangast D, A og vini þeirra. E geðlæknir lýsir því í matsgerð sinni að ákærði hafi ekki staðið undir því álagi og breytingum sem urðu á lífi hans við þessar breyttu félagslegu aðstæður. Ákærði hafi orðið ástfanginn af D og ást hans til hennar hafi orðið að sjúklegri þráhyggju með umtalsverðum ranghugmyndablæ. Þessi fantasía hafi þróast yfir í það að A væri fyrir og hún væri dæmigerður hluti hugrofs. Ákærði hafi hagað sér sem tveir ólíkir persónuleikar og þeir togast á. Ákærði hafi hafið undirbúning að því að bana A, með því að sanka að sér hlutum til verksins, og við það hafi verið eins og ákærði hafi náð að sefa þessa togstreitu, en á endanum hafi geðrofið orðið ráðandi og hinn sturlaði hluti ákærða, sem hafi mótast eftir áfallið við að missa föðurinn, hafi haft yfirhöndina.

  Yfirmatsmenn lýsa ákærða með svipuðum hætti. Sjálfsvíg föður ákærða hafi haft mikil áhrif á hann og hann hafi búið sér til hugarheim þar sem hann hafi átt griðastað með föður sínum. Ákærði hafi verið félagslega einangraður og sú einangrun rofnað er hann hitti D. Hjá ákærða hafi þróast ást til D og honum fundist A  standa í vegi fyrir því að ákærði og hún yrðu saman. Í huga ákærða hafi lausnin verið sú að losna við A og ákærði farið að undirbúa glæpinn. Ákærði hafi verið rekinn áfram af þráhyggju sem verði að ranghugmynd. Í ímynduðum fantasíuheimi ákærða hafi A ekki verið til staðar, heldur bara ákærði og D. Yfirmatsmenn hafa jafnframt greint frá því, eins og E, að ákærði hafi losnað við þráhyggjuna í hvert sinn sem hann hafi sankað að sér hlutum til þess að bana A, en á endanum hafi hugmynd ákærða um að drepa A orðið ákveðnari og stjórnlaus. Yfirmatsmenn tala jafnframt um að ákærði hafi upplifað sig eins og í draumi er hann framdi verknaðinn og er það í samræmi við það sem E sagði um að ákærði hefði óraunveruleikatilfinningu gagnvart verknaði sínum. Kemur þetta og glögglega fram á myndbandsupptöku af ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu 3. september 2010.

Þá rekja yfirmatsmenn nánar í matsgerð sinni að ákærði hafi alla tíð, eftir að faðir hans féll frá, horfið í heim ímyndunar. Hinn ímyndaði heimur og hugsun til D  hafi þróast yfir í þráhyggju, með þeim hætti að tengslin við raunveruleikann hafi rofnað. Ákærði hafi ítrekað notað þennan hugarheim, þar sem hann hafi haft griðastað í huga sér með föður sínum, til að leita að hugarró þegar hann hafi verið beittur rangindum eða til að öðlast styrk gegn reiði sinni og löngun til að meiða aðra. Þegar þessum hugarheimi sé ógnað hafi ákærði enga stjórn á sér og þeim ógnarhugmyndum sem hann fái. Er þetta í samræmi við það sem hefur komið fram hjá E geðlækni og fyrri ofbeldisverk ákærða.

Samkvæmt öllu því sem rakið hefur verið er að mati dómsins ljóst að sömu rök og sjónarmið liggja að baki niðurstöðu E og yfirmatsmanna. Ekki er hægt að leggja of mikið upp úr orðalagi E í matsgerð um tvískiptan persónuleika ákærða, enda lýsti hann því fyrir dómi að „nánast“ væri eins og um tvær persónur væri að ræða. Kannski ekki raunverulegar persónur heldur tvö tilfinningaleg öfl sem hafi togast á. Þá sagði E að hann væri sammála yfirmatsmönnum um að ranghugmyndir hefðu orðið til þess að ákærði framdi verknaðinn og samband ákærða viðD væri af tegundinni „erotomania“, en hann hefði notað annað orðalag. Enn fremur verður að líta til þess að í niðurstöðu yfirmatsmanna segir afdráttarlaust að þeir séu sammála mati E um að ákærði hafi „sökum svæsins geðrofs verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum“ er hann banaði A.

Í vitnisburði geðlæknanna hefur komið fram að ranghugmynd ákærða sé á þröngu sviði. Ákærði sé lokaður og virki mjög yfirvegaður. Þess vegna sé skiljanlegt að margir telji hann ábyrgan gerða sinna. Af fyrirliggjandi matsgerðum geðlæknanna er hins vegar ljóst að hugarheimur ákærða er mjög sjúkur og er ekkert fram komið sem getur réttlætt það að litið verði fram hjá áliti geðlæknanna þriggja. Verður að telja vafalaust að ákærði hafi sökum geðveiki (geðrofs) verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Ákærði telst því ósakhæfur og ber að sýkna hann af kröfu ákæruvaldsins um refsingu, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði er af  E og yfirmatsmönnum talinn hættulegur og hann hefur sjálfur lýst ofbeldisfullum hugsunum gagnvart fanga meðan hann hefur sætt gæsluvarðhaldi. Þykir því nauðsynlegt vegna réttaröryggis að gera ráðstafanir til að varna því að háski verði af ákærða. Skal hann því sæta öryggisgæslu samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 á viðeigandi stofnun. Áfrýjun dóms þessa skal ekki fresta framkvæmd öryggisgæslu, sbr. 5. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

VI.

Ákærði hefur viðurkennt bótaskyldu gagnvart foreldrum A heitins, B og C, en hann mótmælir bótakröfu þeirra sem of hárri. Ekki er unnt að reisa miskabótakröfu á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1993, þar sem í ákvæðinu er það skilyrði sett að dauða hafi verið valdið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Ákærða verður hins vegar gert að greiða þeim bætur á grundvelli 8. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281, um óðs manns víg. Í greinargerð ákærða segir að við ákvörðun bóta verði að taka nokkurt tillit til fjárhagsstöðu ákærða og er í því sambandi vísað til þess að í téðu ákvæði segir „skal bæta af fé hans … ef til er…“. Engin gögn hafa verið lögð fram um fjárhagsstöðu ákærða og hann hefur ekki upplýst um hana fyrir dómi. Ákærði verður að bera hallann af því. Að þessu virtu og þar sem hrottafenginn verknaður ákærða hefur án efa valdið foreldrum A heitins miklu áfalli og langvarandi andlegri áþján þykja miskabætur til hvors þeirra um sig hæfilega ákveðnar 1.800.000 krónur. Fallist er á dráttarvaxtakröfu eins og hún er fram sett, en krafist er dráttarvaxta frá þeim tíma er mánuður var liðinn frá því bótakrafan var kynnt fyrir ákærða, sem var við þingfestingu málsins 19. nóvember 2010. 

Krafa vegna útfararkostnaðar, 1.261.863 krónur, er studd gögnum og upplýst hefur verið að ákærði sé ekki krafinn um allan kostnað sem til hafi fallið vegna útfararinnar. Ákærði mótmælir kröfunni sem of hárri og vísar í því sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 24/2001 þar sem föður voru dæmdar 226.288 krónur vegna útfararkostnaðar. Ekki er unnt að líta á dóm þennan sem fordæmi hér, enda var í máli nr. 24/2001 ekki farið fram á hærri bætur. Þá voru t.d. í dómum Hæstaréttar í málum nr. 127/2002 og 611/2010 dæmdar hærri bætur. Að þessu virtu og eins og atvikum er hér háttað verður fallist á kröfu um útfararkostnað að fjárhæð 1.261.863 krónur.

Með hliðsjón af 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða foreldrum A  heitins málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

Ákærði hefur hafnað bótakröfu D þar sem hún geti ekki talist maki í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Eins og áður segir um bótakröfu foreldra A  heitins á téð ákvæði ekki við í máli þessu, heldur fer um skaðabótaskyldu ákærða eftir bótareglunni um óðs manns víg í Jónsbók. Þótt D og A hafi ekki verið í skráðri sambúð þykir rétt að dæma henni miskabætur, en þau höfðu verið saman í um eitt og hálft ár og búið í eign A heitins að H, Hafnarfirði. Ekki er nokkur vafi á því að verknaður ákærða hefur verið henni þungbær og aðkoman sem blasti við henni þegar ákærði keyrði hana að H, skömmu eftir að hafa ráðið A bana, hefur verið hryllileg. Að öllu þessu virtu þykja bætur til hennar hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur, ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærða með hliðsjón af 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 gert að greiða henni málskostnað sem er ákveðinn 500.000 krónur. 

VII.

Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 skal greiða allan sakarkostnað úr ríkissjóði, þar með talda þóknun verjanda ákærða, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 1.637.775 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Gunnar Rúnar Sigurþórsson, skal sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og frestar áfrýjun dómsins ekki framkvæmd hennar.

Ákærði greiði B og C, hvoru um sig 1.800.000 krónur og þeim báðum 1.261.836 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 3.600.000 krónum frá 15. ágúst 2010 til 19. desember 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 4.861.836 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B og C 500.000 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði D 1.200.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001, frá 15. ágúst 2010 til 19. desember 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði D 500.000 krónur í málskostnað.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun verjanda ákærða, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, fjárhæð 1.637.775 krónur.