Print

Mál nr. 488/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald

                               

Mánudaginn 27. júlí 2015.

Nr. 488/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Hrafnhildur Gunnarsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Guðmundína Ragnarsdóttir hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. ágúst 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að vægari úrræðum verði beitt.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er varnaraðili undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er á frumstigi og af því sem fram er komið má ætla að varnaraðili, sem hefur ekki tengsl við landið og hefur gefið misvísandi upplýsingar um persónuhagi sína, muni reyna að hafa áhrif á vitni eða koma sér undan málsókn. Eru því uppfyllt skilyrði gæsluvarðhalds á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Af þeim sökum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 23. júlí 2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að erlendur ríkisborgari sem kveðst heita X, fd. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. ágúst 2015, kl. 16.00. Þá er þess krafist að hann sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan hafi nú til rannsóknar mál er varði grun um vísvitandi útbreiðslu smitsjúkdómsins HIV. Ætlað brot sé talið geta varðað við 1. mgr. 175. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 og jafnframt við 4. mrg. 220. gr. hegningarlaga.

                Lögreglustjóri upplýsir að samkvæmt gögnum málsins hafi kærði komið til landsins í september 2014 og óskað eftir hæli á lögreglustöðinni Hverfisgötu þann 9. sama mánaðar. Við það tilefni hafi hann gefið upp nafnið X og kvæðist vera [...] ríkisborgari, fæddur [...]. Tekin hafi verið skýrsla af kærða hjá lögreglu þann 11. september 2014 og þá hafi komið fram hjá kærða að hann hefði ferðast frá heimalandi sínu til [...] í febrúar 2014 þar sem hann hefði dvalið í fimm til sex mánuði en síðan farið til Noregs þar sem hann hefði dvalið í um tvo mánuði uns hann hefði komið hingað til lands í september 2014. Jafnframt hafi komið fram að hann hefði verið með falsað vegabréf þegar hann hafi farið til Noregs. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 22. september sl. hefði kærði sagst hafa sótt um hæli bæði í Sviss og Ítalíu en því hefði í báðum tilvikum verið hafnað. Eftir það hefði hann farið á flakk. Við rannsókn lögreglu hafi ekki verið unnt að staðfesta hvenær kærði hafi komið til landsins. Lögregla hafi þó upplýsingar um að hann hafi áður sótt um hæli á Ítalíu þann 19. maí 2011 og í Sviss 6. ágúst 2012. Kærða muni hafa verið vísað brott með endurkomubanni frá Sviss þann 16. október 2012. Hjá heilbrigðisyfirvöldum hér á landi hafi kærði gefið upp nafnið [...], fd. [...]. Samkvæmt upplýsingum lögreglu, sem lögregla hafi erlendis frá, hafi kærði einnig gefið upp nafnið [...], fd. [...], en mögulegur fæðingardagur í [...] einnig talinn geta verið [...]. Þann 4. mars sl. hafi kærða verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna hælisumsókn hans. Hann hafi þá kært þá ákvörðun og sé málið enn til meðferðar hjá Kærunefnd útlendingamála.

                Þá er þess getið að kærði hafi verið sendur í læknisskoðun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir komu hans til landsins en muni hvorki hafa mætt í blóð- né berklapróf. Í nóvember 2014 hafi hann komið á heilbrigðisstofnunina og kvæðist vera smitaður af Clamydiu vegna stúlku sem hann hefði átt samneyti við hér á landi. Ekki sé á þessari stundu vitað hver sú stúlka sé. Kærða hafi verið ávísað lyfi vegna þessa en hafi ekki leyst það út. Þá hafi kærði hvorki mætt í blóðpróf vegna þessa né í endurkomu.

                Að sögn lögreglustjóra mun kærði hafa hafið samband við íslenska konu (A) sem staði hafi í um tvo mánuði. Upp úr því sambandi hafi slitnað og hann þá hafið samband við aðra íslenska konu (B). Fyrir um þremur vikum síðan hafi kona frá [...] hringt í A og upplýst hana um að kærði væri smitaður af HIV. Umrædd kona kvæðist hafa átt í sambandi við kærða í [...] og hann hefði ásakað hana um að hafa smitað sig af HIV. Í kjölfarið af upplýsingunum sem A hafi borist frá svissnesku konunni hafi A farið í próf og reynst smituð af HIV. Í kjölfarið hafi kærði verið boðaður í smitsjúkdómapróf á Landspítala sem staðfest hafi að hann sé kominn með annað stig sjúkdómsins, Alnæmi (Aids). Þá hafi B einnig gengist undir smitsjúkdómapróf og einnig reynst smituð. Samkvæmt læknabréfi, dags. 20. júlí 2015, sé áætlað að smit kærða sé um fimm til sjö ára eða jafnvel tíu ára gamalt. Jafnframt komi þar fram að kærði hafi að öllum líkindum átt samneyti við fleiri konur hér á landi.

                Þá er þess getið að í gær hafi kærði verið handtekinn á heimili sínu og yfirheyrður vegna málsins. Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað sök. Hann segðist ekki hafa vitað af smitinu fyrr en nýverið. Þá hafi reynst erfitt að fá uppgefið hjá honum hjá hve mörgum íslenskum konum hann hefði sængað frá því hann kom til landsins og hafi aðeins nafngreindi A og B. Þó komi fram hjá kærða að konurnar væru fleiri.

                Lögreglustjóri bendir á að samkvæmt reglugerð um skýrslugerð vegna sóttvarna nr. 221/2012 teljist Alnæmi og HIV- veiran til sjúkdóma sem ógni almannaheill og séu tilkynningaskyldir, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar sem sett sé með stoð í 3. gr. laga nr. 19/1997 um sóttvarnir. Sjúkdómurinn smitist við kynmök og sé smithætta mikil, sérstaklega þegar komið sé á stig alnæmis. Samkvæmt landlækni sé HIV alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur, þróist sjúkdómurinn án meðferðar. Engin lækning sé til við honum og hún sé heldur ekki í augsýn.

                Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til gagna málsins, telji lögregla að kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa af ásetningi gerst brotlegur við ákvæði 1. mgr. 175. gr., sbr. 7. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 og 4. mgr. 220. gr. hegningarlaga nr. 19/1944. Brotin geti varðað allt að 4 ára fangelsi. Jafnframt áréttar lögreglustjóri að rannsókn málsins sé á byrjunarstigi og teygi anga sína til annarra landa. Enn sé óljóst um raunverulegt nafn kærða og afla þurfi gagna erlendis frá um kærða og heilsufarssögu hans. Hafa þurfi uppi á þeim konum sem tengist málinu og taka af þeim skýrslur. Það sé og mat lögreglu að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hann laus, auk þess sem hætta sé á að kærði reyni að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Miðað við þá háttsemi sem kærði sé grunaður um að hafa viðhaft hingað til, þ.e. að stunda óvarin kynmök við konur vitandi að hann sé haldinn svo alvarlegum smitsjúkdómi, sé það jafnframt mat lögreglu að hætta sé á að kærði viðhaldi sömu hegðun verði hann látinn laus. 

                Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, a-, b-., c-. og d-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála og 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. ágúst 2015, kl. 16.00. Ætluð brot kærða beinist að ótilgreinum hópi einstaklinga sem kærði hafi verið í nánu samneyti við. Sé það mat lögreglu að fyrir hendi sé hætta á að kærði geti sett sig í samband við þessa einstaklinga og með því torveldað rannsókn málsins. Af þeim sökum sé farið fram á að kærði sæti einangrun á meðan á gæslu standi.

Niðurstaða:

                Til rannsóknar hjá lögreglu er mál er varðar grun um vísvitandi útbreiðslu smitsjúkdómsins HIV, en samkvæmt reglugerð um skýrslugerð vegna sóttvarana nr. 221/2012 telst HIV veiran til sjúkdóma er ógna almannaheill og eru tilkynningar-skyldir. Fyrir liggur að staðfest hefur verið að kærði sé smitaður af HIV veirunni og sjúkdómurinn sé á 2. stigi, alnæmi. Ætluð brot, sem rannsókn beinist að og kærði er grunaður um, eru talin geta varðað við 1. mgr. 175. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 og jafnframt við 4. mrg. 220. gr. hegningarlaga. Brotin geta varðað allt að 4 ára fangelsi. Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn framangreindum ákvæðum eins og grein er gerð fyrir í kröfugerð lögreglu. Kærði bar fyrir dómi að sér hefði fyrst verið kunnugt um að hann væri smitaður af eyðni sl. mánudag. Með hliðsjón af málavöxum er það mat dómara hætta sé á að kærði muni halda áfram brotum meðan rannsókn á málum hans er ekki lokið. Rannsókn málsins er á frumstigi og eftir er að afla gagna erlendis frá og hafa upp á aðilum sem kærði hefur haft samskipti við. Með hliðsjón af því verður ekki fallist á kröfu verjanda að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærði gefið upp annað nafn hjá erlendum lögregluyfirvöldum og virðist hafa komið sér undan læknisskoðun eftir komu hingað til lands. Fallist er á með sóknaraðila að skilyrði  a-, b-, c-. og d-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála og 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, séu uppfyllt. Krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald er því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði,  X, að sögn fæddur [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. ágúst 2015, kl. 16.00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.