Print

Mál nr. 71/2009

Lykilorð
  • Frelsissvipting
  • Líkamsárás
  • Borgaraleg handtaka
  • Skilorð

Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. október 2009.

Nr. 71/2009.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Elíasi Georgssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Frelsissvipting. Líkamsárás. Borgaraleg handtaka. Skilorð.

E var sakfelldur fyrir ólögmæta nauðung með því að hafa veist að A, þá 15 ára, og fært hann nauðugan í bifreið sína og á lögreglustöðina í R. A hafði rétt áður en E yfirbugaði hann fyrir utan heimili E verið í hópi drengja sem kastað höfðu skoteld inn í garð E. Talið var að ætlað brot A væri ekki nægilega alvarlegt til þess að E hefði verið heimil borgaraleg handtaka í skilningi 91. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þótt E hefði haft réttmæta ástæðu til að veita drengjunum eftirför og veita þeim tiltal, hefði hann farið offari. Við ákvörðun refsingar var litið til 4. tl. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þess að dráttur á málsmeðferð lögreglu yrði að telja ámælisverðan. Var ákvörðun refsingar E frestað skilorðsbundið í 2 ár og honum gert að greiða A skaðabætur að fjárhæð 239.850 krónur ásamt vöxtum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. febrúar 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og heimvísunar málsins, en til vara sýknu. Þá krefst hann „endurskoðunar á þeirri ákvörðun héraðsdóms að hafna kröfu verjanda um að „skoteldar“ sem lagt var hald á undir rannsókn máls væru lagðir fram í dómi.“ Loks krefst hann þess að skaðabótakröfu A verði vísað frá dómi.

Af hálfu A er gerð sú krafa að ákærði verði dæmdur til að greiða honum 614.430 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 509.850 krónum frá 2. janúar 2007 til 12. júlí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga af 614.430 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst ómerkingar héraðsdóms á þeim forsendum, að rannsókn málsins hafi verið ábótavant; að dómurinn hafi hafnað því að leggja fram skotelda sem brotaþoli hafði meðferðis; og loks að dómurinn sé órökstuddur og óljós að því er varðar annars vegar það mat hans að borgaraleg handtaka hafi verið óheimil, og hins vegar heimfærslu brotsins til refsiákvæða. Þótt rannsókn málsins hefði mátt vera ítarlegri að því er lýtur að vettvangskönnun við heimili ákærða og skýrslutökum af vitnum, þá þykir hún hafa verið fullnægjandi. Fallist er á með héraðsdómara að ekki hafi verið ástæða til að fresta máli í miðri aðalmeðferð til þess að leggja fram haldlagða skotelda, enda er þeim lýst í málsgögnum og myndir af þeim þar. Auk þess er upplýst að brotaþoli var ekki með þann skoteld sem hent var að húsi ákærða. Hins vegar verður miðað við að umræddir skoteldar hafi verið öflugir. Þá þykir rökstuðningur dómsins fullnægjandi þó að hann hefði mátt vera ítarlegri og ljóst er að varakrafa saksóknara kom ekki til álita. Er kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms því hafnað.

Upplýst er að brotaþoli var í hópi ungmenna sem kom að heimili ákærða og kastaði skoteldi að húsinu. Sú háttsemi að gera heimatilbúna skotelda og sprengja þá á almannafæri varðar við VI. kafla vopnalaga nr. 16/1998, sbr. 5. og 6. gr. reglugerðar um skotelda nr. 952/2003 og getur varðað sektum eða fangelsi allt að fjórum árum, sbr. 36. gr. laganna. Þykir ekki skipta máli þótt brotaþoli hafi ekki sjálfur kveikt í eða kastað skoteldinum, hann var með í hópnum og bar aðspurður fyrir dómi að gagngert hefði verið tilgangur hópsins að hrekkja ákærða.

Þegar metið er hvort háttsemi ákærða geti talist hafa verið lögmæt borgaraleg handtaka í skilningi 91. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. áður 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, ber að líta til þess hvort þvingunin hafi átt sér stað í beinu framhaldi af atviki og hvort háttsemin teljist brot sem varðað geti fangelsisrefsingu. Líta verður svo á að eftirför ákærða og þau atvik sem hann er ákærður fyrir hafi orðið í beinu framhaldi af því að skoteldur var sprengdur við heimili hans. Jafnvel þótt brotaþoli teljist þátttakandi í þeim verknaði þá gæti það ekki varðað hann fangelsisrefsingu. Brotið var því ekki nægilega alvarlegt til þess að ákærða væri heimil borgaraleg handtaka.

Þótt skiljanlegt sé að ákærða hafi brugðið og því haft réttmæta ástæðu til þess að veita drengjunum eftirför og veita þeim tiltal, þá fór hann offari. Samkvæmt vætti lögreglumannsins sem tók á móti þeim á lögreglustöðinni sá á drengnum, hann var úrvinda og á sokkaleistunum. Þykir mega leggja vottorð og vætti læknisins til grundvallar um áverka hans. Fallist er á að ákærði hafi beitt brotaþola ólögmætri nauðung með því að yfirbuga hann og færa nauðugan á lögreglustöðina og varðar sú háttsemi við 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en eins og hér háttar til tæmir það ákvæði sök gagnvart 217. gr. sömu laga. Við niðurstöðu málsins þykir mega líta til 4. töluliðar 74. gr. þeirra laga.

Brotið átti sér stað 2. janúar 2007, en skýrslur voru ekki teknar af vitnum og ákærða fyrr en í maí og júní sama ár og ákæra fyrst gefin út ári síðar eða 13. júní 2008 og dómur kveðinn upp 19. desember sama ár. Þykir þessi dráttur á málsmeðferð ámælisverður.

Þegar allt framangreint er virt þykir rétt að fresta ákvörðun refsingar á hendur ákærða, og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ekki eru rök til að vísa frá héraðsdómi kröfu brotaþola um skaðabætur og er niðurstaða héraðsdóms þar um staðfest enda hefur brotaþoli ekki lagt fram gögn sem styðja að grundvöllur sé til frekari miskabóta en þar voru ákveðnar. Samkvæmt þessum úrslitum eru ekki efni til að dæma honum málskostnað fyrir Hæstarétti.

Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins þar með talið málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Frestað er ákvörðun um refsingu ákærða, Elíasar Georgssonar, og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um greiðslu skaðabóta og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals nemur 273.399 krónum, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur, en helmingur greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. desember 2008.

Mál þetta, sem var dómtekið 21. nóvember sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 13. júní 2008, á hendur Elíasi Georgssyni, kennitala 250562-4469, Vatnsholti 7 d, Reykjanesbæ, fyrir brot gegn frjálsræði og líkamsárás, en til vara fyrir brot gegn barnaverndarlögum, þriðjudaginn 2. janúar 2007, með því að hafa veist með ofbeldi að A, þá 15 ára, skammt frá ofangreindu heimili sínu, en ákærði felldi drenginn og þrýsti andliti hans í jörðina, tók í hálsmál hans svo að hertist, dró hann að bifreið sinni og fleygði honum inn í hana, ók bifreiðinni að stað og hélt þá áfram um hálsmál drengsins, stöðvaði bifreiðina skammt frá Reykjaneshöll, þar sem hann dró drenginn út úr bifreiðinni og þrýsti honum niður í jörðina, skipaði  honum síðan að fara úr skónum og færði hann aftur inn í bifreiðina sem hann ók að lögreglustöðinni við Hringbraut 130, Reykjanesb. Við þetta hlaut drengurinn klórför í hársverði, á enni, á nefi, á höku og hálsi, hrufl á vinstri öxl, hægri sjalvöðva, vinstri mjaðmakamb og á framanverðum hálsi auk marbletta á vinstra læri og á vinstri kálfa og rispur á rassi.

Framangreind brot ákærða eru í ákæru talin varða við 225. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A, kt. [...], er í málinu krafist skaðabóta að fjárhæð krónur 614.430 ásamt vöxtum af krónum 509.850 samkvæmt 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. janúar 2007 til 12. júlí 2007 en frá þeim degi með dráttarvöxtum af krónum 614.430 samkvæmt IV. kafla, sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að honum verði ekki gerð sérstök refsing og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi eða krafan lækkuð. Þá krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.

I.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu kom ákærði þriðjudaginn 2. janúar 2007 kl. 22:13 á lögreglustöðina í Keflavík ásamt drengnum A sem ákærði hafði handsamað og fært nauðugan á lögreglustöðina. Kvaðst ákærði vilja kæra drenginn fyrir að henda kínverja að stofuglugga á heimili sínu að Vatnsholti 7d.

Í frumskýrslu lögreglu segir að ljóst hafi verið að nokkuð mikið hafi gengið á við að koma drengnum á lögreglustöðina þar sem hann hafi verið rauðþrútinn á hálsi, enni og kinnum eftir átökin. Ákærði hafi haldið á skóm drengsins sem hafi verið á sokkunum við komuna á stöðina. Ákærði hafi skýrt svo frá á lögreglustöðinni að hann hafi verið inni í stofu á heimili sínu er hann heyrði sprengingu fyrir utan stofugluggann. Honum hafi brugðið við og litið út þar sem hann hafi séð hóp drengja hlaupa burt frá húsinu. Hann hafi þá farið út í bifreið sína og keyrt um en séð hópinn skömmu síðar og hlaupið uppi einn drengjanna, þ.e. A, sem hafi barist um og veitt mikla mótspyrnu. Hann hafi síðan ekið A á lögreglustöðina þar sem hann hafi viljað leggja fram kæru vegna kínverjans sem hent var að húsi hans. Hann væri orðinn leiður á einelti drengja í hverfinu.

Við komu á lögreglustöðina var drengurinn A með bakpoka og lagði lögregla hald á 4 kínverja sem voru í pokanum. A kvaðst ekki hafa kastað kínverjanum að húsi ákærða, þar hefði annar strákur verið að verki. A kvað ákærða hafa verið með hótanir um að henda honum ofan í djúpan skurð og skilja hann þar eftir.

Faðir A kom á lögreglustöðina og sótti son sinn og fór með hann til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Í áverkavottorði Daða Jónssonar aðstoðarlæknis dagsettu 2. janúar 2007 segir:

Klukkan 22:45 þriðjudaginn 2. janúar 2007 kemur 15 ára piltur í fylgd föður síns til að fá áverkavottorð þetta. Á höfði piltsins eru í hársverði á hnakka (nuchal svæði) vinstra megin (svo) er klórfar sem er 2x2 cm. Ennið er allt þakið grunnu hrufli eða klórförum á nefinu er 5 mm klórfar og á hökunni er klórfar 5 mm x 10 mm. Á hálsinum er klórfar 2-3 mm breitt og 24,5 cm langt og nær frá sjalvöðva (trapezius) vinstra megin (svo) og umhverfis hálsinn að miðlínu að framanverðu. Á vinstri öxl framanverðri er hrufl 2 x 3 cm og á hægri sjalvöðva (trapezius) framanverðum eru tvö hrufl annað 2 cm x 0,5 cm og hitt 2,5 cm x 0,5 mm Á framanverðum hálsi er hrufl 3 cm langt og 0,2 cm breitt og annað 2 cm x 0,2 cm. Á utanverðu vinstra læri er marblettur 0,5 x 1,5 cm og á vinstri kálfa aftan verðum er marblettur 2 x 2 cm Á rassi eru rispur 7 frá 0,5 cm og uppí 3 cm Yfir vinstri mjaðmarkambi er grunnt hrufl 2 x 2 cm.” Læknirinn staðfesti vottorð sitt fyrir dómi.

Drengurinn A mætti á lögreglustöðina í Keflavík daginn eftir atvikið í fylgd móður sinnar og var þá lögð fram kæra á hendur ákærða fyrir líkamsárás. A lýsti atvikum svo að er hann og vinur hans B gengu áleiðis heim eftir að einhvers konar sprengju hafði verið kastað að heimili ákærða, hefði bifreið allt í einu komið á fullri ferð að þeim og stöðvað. Út úr bifreiðinni hefði komið maður, sem reyndist vera ákærði og hefði hann öskrað á þá. Þeir hefðu þá hlaupið og hefði ákærði hlaupið á eftir honum inn í garð, kastað sér á hann og fellt í jörðina. Hann hefði síðan haldið í hnakka hans og þrýst andliti hans niður í jörðina. Ákærði hefði síðan tekið aftan í hálsmálið á peysu hans og dregið hann þannig langa leið í áttina að bifreið sinni. Við þetta hefði peysan herst að hálsi hans svo honum hefði legið við köfnun. Hann hefði sagt ákærða að hann væri að kafna og hann svarað því til að honum væri alveg sama og haldið áfram að draga í hann á sama hátt. Þegar komið var að bifreið ákærða hefði ákærði kastað honum inn í bifreiðina ökumannsmegin og yfir í farþegasætið. Við það hefði hann skollið með höfuðið í hurð bifreiðarinnar. Ákærði hefði síðan ekið af stað og haldið um hálsmálið á peysu hans um leið og hann ók. Hann hefði síðan ekið að Reykjaneshöllinni og þar eitthvað út í móa. Ákærði hefði sagt að þar væru djúpir skurðir og þar gæti enginn fundið drenginn. Allan tímann hefði hann sagt ákærða að hann hefði ekki kastað neinu í hús ákærða og væri því alsaklaus. Ákærði hefði þá sagt við hann: “Ég á eftir að drepa þig.” Ákærði hefði spurt hver hafi kastað sprengjunni og hann sagt að hann vissi það ekki. Þessu næst hefði ákærði dregið hann út úr bifreiðinni og kastað honum í móann, lagst ofan á hann og troðið andliti hans niður í móann. Ákærði hefði svo skipað honum að fara úr skónum, dregið hann inn í bifreiðina og farið með hann á lögreglustöðina.

II.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði setið í sólstofu á heimili sínu og verið að lesa er hann heyrði allt í einu að einhverju var kastað í gluggann. Hjá honum hefðu verið  átta ára gömul tvíburabörn hans og eldri sonur. Mikill hávaði hefði orðið. Hann hefði litið út og séð tvo menn standa álengdar eins og þeir væru í sakbendingu. Þeir hefðu báðir verið klæddir í skræpótt áberandi föt. Allt í einu hefði kveðið við mikil sprenging við húsið með blossa. Hlutir hefðu hreyfst til inni. Við það hefðu tvímenningarnir hlaupið í burtu. Öllum hefði orðið hverft við. Hann hefði farið út og viljað kanna þetta nánar. Hann hefði ekið af stað og séð tvímenningana í Þverholti. Hann hefði ekið framhjá þeim, tekið U-beygju og ekið til baka og lagt bílnum og gengið á móti þeim. Er hann hefði átt 5-10 metra að þeim hefði annar strákurinn séð hver hann var og hlaupið í burtu. Hinn pilturinn A hefði orðið seinni til en hlaupið í burtu. Ákærði kvaðst hafa hlaupið hann uppi og náð honum. Hann hefði sagst vilja vita hver hann væri og hver hinn maðurinn væri, en engin svör fengið. Hefðu þá upp hafist mikil átök og A reynt að losna frá honum. Hann hefði sparkað og slegið til ákærða. Ákærði kvaðst aðeins hafa sagt að hann vildi vita hvað þeir hefðu verið að gera. Hann hefði þá ákveðið að fara með A á lögreglustöðina, en A hefði ekki viljað fara með honum. Ákærði kvaðst aldrei hafa ráðist á A. Aðspurður kvaðst ákærði hafa haldið í öxlina á A sem hefði verið lemjandi og sparkandi og farið með hann í bíl sinn sem hefði verið í 20 til 30 metra fjarlægð. Hann hefði gripið í öxlina á A en aldrei slegið hann. Alltaf sagst vilja ræða málin. Hann hefði aldrei tekið piltinn kverkataki. Ákærði kannaðist ekki við að hafa haldið á skóm A er þeir komu á lögreglustöð eða að hafa skipað honum að fara úr skónum. Langt væri um liðið og hann minntist þessa ekki. Þá kannaðist ákærði ekki við að hafa tekið A úr bílnum við Reykjaneshöll og farið með hann út í móa eins og í ákæru væri lýst. Nánar aðspurður kvaðst ákærði hafa sagt A að hann vildi upplýsa málið og beðið A um það. Hann hefði viljað fá skýringu á því af hverju þeir réðust á heimili hans. A hefði ekki viljað skýra frá því. Hann hefði þá sagt A að þá færi hann með hann á lögreglustöðina. Hann hefði talið sig hafa handtekið A og fært hann á lögreglustöð. Ákærði kvað það rangt sem í ákæru greindi að hann hefði fellt drenginn í jörðina. Sjálfur hefði hann hins vegar fallið á jörðina en ekki pilturinn. Ákærði kvaðst hafa togað A á eftir sér að bifreiðinni. A hefði streist á móti þannig að ákærði varð að draga hann að bifreiðinni. Á leiðinni hefði hann þurft að verja sig fyrir spörkum A sem vildi sleppa. Hefði hann haldið A frá sér upp að bílstjórahurðinni  meðan hann ók. Hann hefði haldið í treyju A við öxl hans Ákærði kvaðst ekki hafa viljað meiða A og kvaðst hann harma hvernig þetta fór. Hann hefði aðeins haldið A en þetta hefðu verið mikil átök. Fyrir honum hefði vakað að handtaka piltinn og fara með hann á lögreglustöðina. Er ákærði var spurður hvort einhverjir af áverkum A gætu verið af hans völdum svaraði ákærði því til að hann hefði aðeins tekið í treyju piltsins en þeir hefðu ekki verið í neinum fangbrögðum. Ákærði þvertók ekki fyrir að A kynni að hafa fengið áverkana af átökunum

Vitnið A gaf skýrslu fyrir dómi. Var skýrslan mjög á sömu lund og skýrslan sem vitnið gaf er hann lagði fram kæruna. Kvaðst hann hafa verið  fyrir utan heimili ákærða ásamt 12-13 strákum í janúar 2007. Einhver hefði tekið upp á því að kasta sprengju inn í garðinn. Hann hefði gengið í burtu með félaga sínum B. A hefði heyrt í bíl sem stöðvaði fyrir aftan þá og hlaupið í burtu og vitnið aðeins seinna. Maðurinn sem var í bílnum og reyndist vera ákærði hefði hlaupið hann uppi. Ákærði hafi gargað er hann kom út úr bílnum, verið hálfbrjálaður. Vitnið kvaðst hafa hlaupið inn í garð og staðið þar. Þá hefði ákærði allt í einu stokkið á hann og hrint honum á jörðina, þrýst andlitinu á jörðina og sett hné sitt á bak hans. Svo hefði hann tekið í hálsmálið á vitninu svo hann náði ekki andanum og dregið hann langa leið að bílnum, hent honum inn bílstjóra megin og yfir í farþegasætið þar sem hann skallaði hurðina. Ákærði hefði spurt af hverju hann hefði gert þetta. Hann hefði ekki getað talað meðan ákærði var að draga hann með því að halda í hálsmálið. Í bílnum hefði ákærði spurt alls kyns spurninga m.a hver hefði gert þetta. Hann hefði ekki getað svarað því. Ákærði hefði komið við í móa við Reykjaneshöllina og hótað að drepa hann og sagt að enginn myndi finna hann. Ákærði hefði hent honum í jörðina og sett hné á bakið á honum. Þá hefði ákærði skipað honum að fara úr skónum. Ákærði hefði síðan farið með hann á lögreglustöðina. Vitnið kvaðst hafa sagt lögreglu frá öllu sem gerðist. Nánar aðspurt kvað vitnið ákærða hafa fellt sig tvisvar og haldið í hálsmálið á peysu hans þannig að hertist að. Ákærði hafi aldrei beðið hann að koma með sér á lögreglustöðina. Vitnið kvaðst hafa verið mjög hrætt. Taldi vitnið þetta geta hafa tekið 20 mínútur til hálftíma. Vitnið kvaðst ekki hafa átt hlut að máli er kínverja var kastað inn á lóð ákærða. Hann hefði séð er sprengjunni var kastað og minnti hann að sá heiti C sem henti sprengjunni.

Aðspurt kvað vitnið ákærða hafa spurt hann að nafni og með hverjum hann hefði verið. Hann hefði sagt ákærða frá nafni sínu og foreldra sinna. Hann hefði ekki þorað öðru. Þá hefði hann ekki reynt að streitast á móti er ákærði dró hann að bílnum og sagðist ætla með hann á lögreglustöðina. Hann kvaðst ekki hafa viljað fara með ákærða í bílinn, en ekki þorað að streitast á móti. Hann kvaðst oft óttast að hitta ákærða aftur.

Vitnið B gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa verið  með A og  um það bil 20 strákum að sprengja kínverja. Kínverja hefði verið  hent inn í garðinn hjá ákærða. Einhver hefði ákveðið að henda kínverja inn í garðinn hjá ákærða. Langað að fíflast í ákærða. Vitnið kveðst hafa gengið í burtu áleiðis heim ásamt A. Þá hefði ákærði komið á bíl og stoppað við hliðina á þeim og komið út úr bílnum hlaupandi og hefðu þeir orðið hræddir og hlaupið í burtu. Vitnið kvaðst hafa farið heim en 10-20 mínútum síðar hefði A hringt í hann og sagst vera á lögreglustöðinni. Vitnið kvaðst hafa verið um 5 mínútur  á leiðinni heim. Aðspurt kvað vitnið hugsanlega lengri tíma hafa liðið þangað til A hringdi en 10 til 20 mínútur. Vitnið kvað strák er heitir D hafa hent sprengjunni að húsi  ákærða, en vitnið hefði borið eld að sprengjunni. Vitnið kvaðst ekki vita hvernig sprengja þetta var eða hve öflug hún var.

Vitnið Guðbergur Theódórsson lögreglumaður gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið skráði frumskýrslu lögreglu í málinu og staðfesti vitnið skýrsluna. Vitnið kvaðst hafa verið að störfum á varðstofu er hann varð var við læti í anddyri lögreglustöðvarinnar. Ákærði hefði verið kominn þangað inn  með drenginn A og hefði greinilega mikið verið búið að ganga á miðað við útlit drengsins. Ákærði hefði haldið á skóm drengsins er hann kom inn með hann. Ákærði hefði sagst vilja kæra drenginn fyrir að hafa hent sprengju að heimili sínu. Ákærði hefði kvartað yfir einelti við heimilið. Ákærði hefði verið æstur. Drengurinn hefði verið rauður og úrvinda af þreytu. Drengurinn hefði neitað að hafa hent sprengju að heimili ákærða, það hefði annar úr hópnum gert. Vitnið kvað kínverja hafa fundist í bakpoka A. Vitnið kvað krakka oft vera með rakettur að sprengja á þessum árstíma. Oft væri hringt í lögreglu vegna þess. Vitnið kvað ákærða hafa rifið piltinn inn á stöðina; sagt að hann skyldi koma þarna inn. Hann hefði haldið í piltinn og togað hann inn.

III.

Eins og að framan er rakið varð það atvik að einhvers konar sprengju var kastað inn í garð við hús ákærða og að húsi hans til þess að ákærði fór út og reyndi að hafa upp á þeim sem þarna voru að verki. Leiddi það til þess að hann náði piltinum A á hlaupum. Ákærði hefur viðurkennt að hafa handtekið piltinn A, dregið hann nauðugan inn í bifreið sína og farið með hann nauðugan á lögreglustöðina í Keflavík. Ákærði kannast hins vegar ekki við að hafa fellt piltinn, þrýst andliti hans í jörðina, tekið í hálsmál hans svo að hertist og fleygt honum inn i bifreið sína eftir að hafa dregið hann að bifreiðinni. Þá kannast ákærði ekki við að hafa farið með piltinn út í móa við Reykjaneshöllina, þrýst honum niður í jörðina og skipað honum að fara úr skónum.  Að þessu leyti standa orð A gegn orðum ákærða. Ákærði hefur á hinn bóginn borið að um mikil átök hafi verið að ræða milli hans og piltsins, sem reynt hefði að losna frá ákærða.

Samkvæmt áverkavottorði Daða Jónssonar læknis var A með sýnilega áverka eftir samskiptin við ákærða. Kemur það einnig fram í frumskýrslu lögreglu og framburðarskýrslu Guðbergs Theódórssonar lögreglumanns. Kom fram í frumskýrslu lögreglu að við komu á lögreglustöð hefði A verið rauðþrútinn á hálsi, enni og kinnum eftir átökin við ákærða og að ljóst þætti að nokkuð mikið hefði gengið á við að koma drengnum á lögreglustöðina. Vitnið Guðbergur bar að greinilegt hafi verið að mikið hefði gengið á miðað við útlit piltsins sem hefði verið rauður og úrvinda af þreytu.

Dómurinn telur áverkavottorðið og lýsingu lögreglu á áverkum A styðja framburð piltsins um atvik og að áverkar piltsins samrýmist þeirri lýsingu. Telur dómurinn því sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum vafa, komna fram fyrir því ákærði hafi þriðjudaginn 2. janúar 2007 veist með ofbeldi að A skammt frá heimili sínu, fellt drenginn og þrýst andliti hans í jörðina, tekið í hálsmál hans svo að hertist, dregið hann að bifreið sinni og fleygt honum inn í hana og ekið bifreiðinni af stað og haldið þá áfram um hálsmál drengsins og ekið að lögreglustöðinni í Keflavík.

Á hinn bóginn þykir gegn eindreginni neitun ákærða ekki komin fram lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi á leið sinni til lögreglustöðvarinnar stöðvað bifreiðina skammt frá Reykjaneshöll, þar sem hann hafi dregið drenginn út úr bifreiðinni og þrýst honum niður í jörðina og skipað honum síðan að fara úr skónum. Verður því að sýkna ákærða af þeirri háttsemi.

Sú háttsemi sem ákærði er sakfelldur fyrir er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ekki er fallist á að skilyrði hafi verið til þess að ákærði mætti handtaka A borgaralegri handtöku samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði en eftir atvikum og í ljósi hreins sakaferils ákærða þykir rétt að ákveða að fullnustu refsingarinnar skuli frestað að refsingin skuli niður falla að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Skaðabótakrafa A á hendur ákærða að fjárhæð 614.430 krónur sundurliðast þannig:

 

1. Miskabætur

500.000 krónur

2. Útlagður kostnaður

9.850 krónur

3. Lögmannsaðstoð

84.000 krónur

4, Virðisaukaskattur

20.580 krónur

Samtals

614.430 krónur

 

Með vísan til læknisvottorðs og atvika málsins að öðru leyti er fallist á að brot ákærða hafi verið til þess fallin að valda A miska og þykir því rétt á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga að ákvarða honum miskabætur úr hendi ákærða sem, þykja hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Þá er krafa A um bætur vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 9.850 krónur tekin til greina. Þá ber að dæma ákærða til að greiða A kostnað vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni uppi og þykir sá kostnaður hæfilega ákveðinn 80.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Verður ákærði því dæmdur til að greiða A samtals 239.850 krónur í bætur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Finnbogi H. Alexandersson, Ragnheiður Bragadóttir og Sandra Baldvinsdóttir. Dómsuppsaga hefur aðeins dregist vegna embættisanna dómsformanns.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Elías Georgsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A 239.850 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 af 159.850 krónu frá 2. janúar 2007 til 12. júlí 2007, en af 239.850 krónum frá þeim degi samkvæmt IV. kafla, sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.