Print

Mál nr. 151/2017

Tryggingamiðstöðin hf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
A (Þorsteinn Einarsson lögmaður) og A gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)
Lykilorð
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Ábyrgðartrygging
  • Viðurkenningarkrafa
  • Gjafsókn
Reifun

A höfðaði mál á hendur T hf. og V hf. til viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta, óskipt úr ábyrgðartryggingu B ehf. hjá V hf. og úr ábyrgðartryggingu C hf. hjá T hf., vegna afleiðinga vinnuslyss sumarið 2012. A var á þeim tíma starfsmaður hjá B ehf. og var sendur til að vinna verk sem B ehf. hafði tekið að sér um borð í fiskiskipi í eigu C hf. Við verkið þurfti A að nota vinnupall og var fenginn pallur frá C hf. sem A setti upp sjálfur. Þegar hann hafði unnið í tiltekinn tíma við verkið þurfti hann að fara niður af pallinum og við það hrundi pallurinn saman og A féll niður og slasaðist. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að C hf. bæri bótaábyrgð vegna líkamstjóns þess sem A varð fyrir og var því viðurkennd bótaábyrgð T hf. B hf. var hins vegar sýknaður af kröfu A. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að hvorki B ehf. né C hf. hefðu tilkynnt um slysið til Vinnueftirlitsins á slysdegi eða í framhaldi af því og sá fyrrnefndi fyrst er liðnir voru um sex mánuðir frá því það varð. Engin rannsókn hefði því farið fram á atvikum slyssins á vegum Vinnueftirlitsins og atvik slyssins væru í ýmsum atriðum óljós. Tilkynningarskylda til Vinnueftirlitsins vegna vinnuslysa, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980, hvíli á vinnuveitanda starfsmanns sem slasast og hefði B ehf. því borið að tilkynna slysið. Miða yrði við að slík rannsókn hefði getað eytt óvissu þeirri sem væri um orsök slyssins og yrði því að snúa sönnunarbyrði um orsök við og fella skaðabótaábyrgð á B ehf. Var því viðurkennd bótaábyrgð V hf. á líkamstjóni A. Þá kom fram að þar sem orsök slyssins væri óupplýst væru ekki skilyrði til að láta A bera meðábyrgð á tjóni sínu. Af sömu ástæðu yrði ekki staðhæft að slysið yrði rakið til galla eða vanbúnaðar á verkpallinum og yrði því ekki felld skaðabótaábyrgð á C hf. vegna slyssins og T hf. því sýknaður af kröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu áfrýjandans, A, en til vara að hann ,,verði látinn bera tjón sitt sjálfur að verulegu leyti.“ Þá krefst félagið málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi þessa áfrýjanda.

A áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 7. mars 2017. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til skaðabóta, óskipt úr ábyrgðartryggingu B ehf. hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., og úr ábyrgðartryggingu C hf. hjá áfrýjandanum, Tryggingamiðstöðinni hf., vegna afleiðinga vinnuslyss 6. júní 2012. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnvart  áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf. krefst áfrýjandinn A staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að bótaréttur áfrýjandans Averði aðeins viðurkenndur að hluta. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi þessa áfrýjanda fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandinn A, sem er vélsmiður að mennt, var starfsmaður B ehf. er hann varð fyrir vinnuslysi 6. júní 2012. Félagið hafði tekið frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda. Aðdragandi vinnuslyssins var sá að Avar sendur til að vinna verk sem vinnuveitandi hans hafði tekið að sér um borð í skipinu […], sem lá við bryggju í Hafnarfirði. Skipið var í eigu C hf., sem hefur starfstöð í Grindavík, en það félag hafði tekið frjálsa ábyrgðartryggingu hjá áfrýjandanum Tryggingarmiðstöðinni hf. Verkið sem átti að vinna fólst í því að breyta umbúnaði lyftu sem ætlað var að flytja umbúðir frá millidekki og niður í lest skipsins. Við verkið þurfti áfrýjandinn A að nota vinnupall og var fenginn röraverkpallur frá C hf., sem þessi áfrýjandi setti sjálfur upp á trégrindum sem voru á lestargólfinu í skipinu þar sem hann athafnaði sig. Upplýst er að hann hafði oft áður sett upp slíka vinnupalla og taldi það einfalt verk. Þá hefur hann lýst því að hann hafi talið að lega trégrindanna á gólfinu hafi verið traust undirstaða fyrir vinnupallinn. Þegar hann hafði unnið í um það bil tvær klukkustundir við verkið þurfti hann að fara niður af pallinum, en það hafði hann reyndar gert nokkrum sinnum áður á meðan á verkinu stóð. Þegar hann var að fara niður hrundi pallurinn saman og féll áfrýjandinn við það niður á lestargólfið. Hefur hann, að því er kemur fram í áverkavottorði læknis, að líkindum klemmst illa milli vinnupallsins og sperru sem þarna mun hafa verið, en af þessu hlaut hann slæmt brot á hægri fæti við hné. Afleiðingar slyssins fyrir áfrýjandann voru alvarlegar. Samkvæmt álitsgerð læknis var hann algerlega óvinnufær frá slysdegi til 21. maí 2014, eða í tæplega tvö ár og hefur varanlegur miski hans vegna líkamstjónsins verið metinn 35 stig. Ekki liggur fyrir í málinu mat á því hver sé varanleg örorka hans vegna slyssins.

Áfrýjandinn A höfðaði málið gegn áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf. og stefnda með heimild í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og krefst viðurkenningar á rétti til skaðabóta óskipt úr hendi þeirra, auk málskostnaðar.

II

Eins og fram er komið var áfrýjandinn A starfsmaður B ehf. er slysið varð og sinnti því starfi sínu við verkefni sem vinnuveitandi hans hafði tekið að sér sem verktaki um borð í […]. Þótt áfrýjandanum A væri falið að sinna starfi sínu fjarri starfstöð B leysti það ekki vinnuveitanda hans undan þeim skyldum sem lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglur settar samkvæmt þeim, leggja á félagið gagnvart starfsmanninum, sbr. 41. gr. laganna. B bar því ábyrgð á að gætt væri fyllsta öryggis við framkvæmd þess starfs sem áfrýjandinn A sinnti í hennar þágu, sbr. 37. gr. nefndra laga og einnig á því að sá búnaður sem notaður var við verkið, þar með talinn verkpallurinn, væru þannig úr garði gerður að gætt væri fyllsta öryggis, sbr. 1. mgr. 46. gr. þeirra. Undan þessum skyldum varð B ekki leyst þótt fenginn væri að láni röraverkpallur frá verkkaupa, C hf.

Í lögum nr. 46/1980 er í ýmsum tilvikum ráð fyrir því gert að aðrir en vinnuveitandi geti bakað sér ábyrgð vegna líkamstjóns sem starfsmenn verða fyrir í vinnuslysum. Þannig er mælt fyrir um það í 17. gr. laganna að þar sem fleiri atvinnurekendur eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað, skuli þeir og aðrir sem þar starfa sameiginlega stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað, heilsusamleg og örugg starfskilyrði á vinnustaðnum. Þessar skyldur eru nánar útfærðar meðal annars í 22. gr. reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, sbr. einkum 6. og 7. mgr. greinarinnar. Samkvæmt þessu getur annar en vinnuveitandi starfsmanns einnig borið afmarkaðar skyldur gagnvart starfsmanninum og getur leitt til skaðabótaskyldu, ef þær eru vanræktar. Þá ber sá, sem lánar eða afhendir ella meðal annars vélar, verkfæri, áhöld, tæki og annað það sem ætlað er til notkunar við atvinnurekstur samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 46/1980 ábyrgð á því að það sé útbúið með tilskildum hlífðar- og öryggisbúnaði og að notkun þess leiði ekki af sér slysa- eða sjúkdómshættu. Samkvæmt þessu bar C hf. ábyrgð á því að röraverkpallur sá, sem félagið afhenti áfrýjandanum A til notkunar við verkið, væri með tilskilinn hlífðar- og öryggisbúnað og væri í lagi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. desember 2005 í máli nr. 265/2005, sem birtur er á síðu 4912 í dómasafni réttarins það ár.

III

Vinnuslys það sem áfrýjandinn A varð fyrir 6. júní 2012 var tilkynnt lögreglu sem kom á staðinn. Í skýrslu lögreglu um atvik kemur fram að óskað hafi verið eftir starfsmanni frá Vinnueftirlitinu á staðinn og er jafnframt upplýst að það hafi verið Neyðarlínan, sem það gerði. Lögregla tók nokkrar ljósmyndir af slysstað og tók skýrslu af áfrýjandanum A í lok ágúst 2012 og af verkstjóra hjá B ehf. í september það ár. Í bréfi Vinnueftirlitsins 3. desember 2012 kom fram að samkvæmt skrám stofnunarinnar hafi slysið ekki verið tilkynnt þangað, en að óskað yrði eftir því við ,,atvinnurekanda“ að tilkynning um slysið yrði send. Í öðru bréfi Vinnueftirlitsins 12. desember 2012 kom fram að tilkynning hefði þá borist og væri hún dagsett 5. sama mánaðar. Jafnframt var tekið fram að starfsmaður Vinnueftirlitsins hefði farið á vettvang á slysdegi en þar hafi þá enginn hist fyrir.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að hvorki B ehf. né C hf. tilkynntu um slysið á slysdegi eða í framhaldi af því og sá fyrrnefndi fyrst er liðnir voru um sex mánuðir frá því að það varð. Engin rannsókn fór fram á atvikum slyssins á vegum Vinnueftirlitsins. Atvik að slysinu eru í ýmsum atriðum óljós. Ekki er upplýst hvort skástífa sú, sem notuð var á pallinum hafi verið haldinn göllum eða biluð en samkvæmt því sem fram kom í skýrslu lögreglu hafði læsing hennar losnað. Þá kom fram í myndatexta við ljósmyndir sem lögregla tók á vettvangi slyssins að trégrind sem pallurinn stóð á væri óstöðug og hreyfðist til þegar þungi var settur ofan á hana. Af ljósmyndum lögreglu af pallinum verður ályktað að engar fótplötur hafi verið á honum og þunga hans heldur ekki dreift með því að reisa hann á plönkum eða með öðrum hætti, svo sem boðið er í 10. gr. reglna nr. 331/1989 um röraverkpalla. Búnaður pallsins var því ekki í samræmi við fyrirmæli í þeim reglum.

Tilkynningarskylda til Vinnueftirlitsins vegna vinnuslysa, sbr. 79. gr. laga nr. 46/1980, hvílir á vinnuveitanda starfsmanns sem slasast. Eins og atvikum var háttað í því tilviki sem hér um ræðir bar því B ehf. að tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins á þann hátt sem mælt er fyrir um í lagagreininni. Rannsókn Vinnueftirlitsins beinist samkvæmt 81. gr. laganna að orsökum slysa sem tilkynnt eru, meðal annars samkvæmt 79. gr. Miða verður við að slík rannsókn hefði getað eytt þeirri óvissu sem er um hvort slysið verði rakið til ágalla eða vanbúnaðar á vinnupallinum sem áfrýjandinn A notaði eða hvort undirstaða hans, uppsetning eða annað hafi verið orsök slyssins. Þar sem óvissa er um orsök vinnuslyssins, sem leggja verður til grundvallar að ráðist af því að B ehf. hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni, verður að snúa sönnunarbyrði um orsökina við og fella skaðabótaábyrgð á tjóni áfrýjandans A á B ehf.

Þar sem orsök þess að verkpallurinn féll saman og áfrýjandinn A varð fyrir slysinu er, sem fyrr greinir, óupplýst eru ekki skilyrði til þess að láta hann bera meðábyrgð á tjóni sínu, sbr. 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Af sömu ástæðu verður ekki staðhæft að slysið verði rakið til galla eða vanbúnaðar á verkpallinum og verður því ekki felld skaðabótaábyrgð á C hf. vegna slyssins.

Samkvæmt framansögðu verður viðurkenndur réttur áfrýjandans A til bóta úr hendi stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í vinnuslysinu 6. júní 2012. Áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. verður sýknaður af kröfu áfrýjandans A.

Stefndi verður dæmdur til að greiða íslenska ríkinu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. beri sjálf kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms verður staðfest.

Um gjafsóknarkostnað áfrýjandans A fyrir Hæstarétti fer sem í dómsorði greinir.ritað kauptilboðið aftur 30. september 2015 eftir að kaupverð fasteignarinnar g annarrar tj

Dómsorð:

Viðurkennd er bótaábyrgð stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., á líkamstjóni því sem áfrýjandinn A varð fyrir í vinnuslysi 6. júní 2012.

Stefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 2.000.000 krónur.

Málskostnaður gagnvart áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf. í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjandans A fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.

                                                                           

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2016.

I.

Mál þetta var höfðað 19. nóvember 2014 og dómtekið 29. nóvember 2016.

                Stefnandi er A, til heimilis að […] en stefndu eru Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík, og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta in solidum úr ábyrgðartryggingu B ehf., hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., og ábyrgðartryggingu C hf., hjá Tryggingamiðstöðinni hf., vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir þann 6. júní 2012. Þá er krafist málskostnaðar.

                Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefnandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfur að verulegu leyti. Þá krefst stefndi málskostnaðar.

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar, en til vara er þess krafist að bótaréttur stefnanda verði aðeins viðurkenndur að hluta og málskostnaður felldur niður.

II.

Stefnandi var starfsmaður hjá B ehf. þegar hann slasaðist á fæti þann 6. júní 2012 við vinnu að viðgerð á skipinu […] sem lá við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn. Skipið er eigu útgerðarfélagsins C hf. í Grindavík. Við vinnuna notaði stefnandi vinnupall í eigu C hf. Þegar stefnandi fór niður af vinnupallinum að lokinni vinnu sinni hrundi pallurinn. Féll stefnandi niður með pallinum og hlaut slæmt brot á hægri fæti.

                Stefnandi var 59 ára á slysdegi, vélsmiður að mennt, og hafði starfað hjá B ehf. við almennar viðgerðir og rafsuðu í um 13 ár þegar slysið varð.

                Lögregla var kvödd samdægurs á vettvang slyssins. Samkvæmt vettvangsskýrslu lögreglunnar, sem dagsett er sama dag og slysið varð, þ.e. þann 6. júní 2012, skoðaði lögregla vinnupallinn og tók myndir af honum. Segir í vettvangsskýrslu lögreglu að stefnandi hafi verið að vinna við breytingar á skipinu. Hann hafi verið á pallinum í einhvern tíma þegar hann færði sig til. Pallurinn hafi þá fallið saman og stefnandi fallið á gólfið. Segir í skýrslu lögreglu að við skoðun á pallinum þá er hann samsettur með 4 þverstífum 2 neðarlega og 2 ofarlega og einni skástífu. Læsing er á efri hluta skástífunnar og hefur hún losnað. Segir í lögregluskýrslunni að óskað hafi verið eftir starfsmanni frá Vinnueftirlitinu á vettvang.

                Samkvæmt skýrslu lögreglu, þann 28. ágúst 2012, lýsir stefnandi aðstæðum þannig að hann hafi verið við vinnu á pallinum í tvo og hálfan tíma. Að lokinni vinnu þegar hann hafi verið á leið niður af pallinum hafi hann dottið í sundur. Kvaðst hann ekki vita hvers vegna pallurinn datt í sundur. Hann hafi sjálfur sett pallinn saman og það hafi hann gert hundrað sinnum og kunni alveg á þetta. Þetta væri mjög einfalt.

                Á ljósmyndum á bls. 2, sem lögregla tók á slysstað þann 6. júní 2012, er tiltekið að trégrind undir pallinum hafi verið „óstöðug og hreyfðist til ef þungi var settur ofan á hana þar sem fóturinn var.“ Á ljósmynd á bls. 4, sem er nærmynd tekin af pallinum, segir eftirfarandi: „... efri festing stífunnar var laus frá grind pallsins. Ekkert athugavert var að sjá við skoðun á festingunni.“

                Í slysatilkynningu B ehf. til Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. ágúst 2012, segir í reit 20 um lýsingu á tildrögum og orsökum slyssins m.a. eftirfarandi: „Rýmið var þröngt hjá honum og þurft hann að smogra sér af stillansinum og niður stigann á hliðinni. Þegar hann stígur svo þar á skiptir engum togum en að stillansinn byrjar að falla með honum og datt megnið af stillansinum ofaná hann og braut á honum hnéð.“

                B ehf. tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins um slysið þann 5. desember 2012. Segir m.a. í tilkynningu að vinnueftirlitið hafi verið kallað til þegar slysið varð en hafi fyrst neitað að koma þar sem slysið hafi orðið um borð í skipi. Segir í tilkynningunni að stefnandi hafi verið á vinnupalli í lest […]. Þegar hann hafi farið niður af pallinum hafi hann þurft að „smokra“ sér af honum og hafi festingar losnað, því þegar hann stígi niður á þrepin til að komast niður hafi pallurinn hrunið. Hafi stefnandi dottið niður um 2,5-3 metra og pallurinn ofan á hann.

                Samkvæmt því sem greinir í tölvuskeyti Vinnueftirlits ríkisins til lögmanns stefnanda, dags. 3. september 2015, fékk vinnueftirlitið tilkynningu um slysið sama dag og það gerðist. Segir þar að vinnueftirlitið hafi farið á slysstaðinn, en þegar þangað var komið hafi enginn verið á staðnum. Er tekið fram í tölvuskeytinu að erfitt sé að rannsaka slys sem þetta án þess að ná sambandi við einhvern sem þekki aðstæður vel og/eða hafi orðið vitni af slysinu. Því hafi verið tekin ákvörðun um að ræða við vitni síðar og skoða lögregluskýrslu þegar hún lægi fyrir. Eftirlitsmaður sem kom á staðinn tók ljósmyndir af vettvangi slyssins sem liggja fyrir í gögnum málsins. Á greindum ljósmyndum eru engar myndir af vinnupallinum.     

                Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dóminum. Einnig gáfu skýrslu fyrir dóminum þeir Ómar Davíð Ólafsson, verkstjóri hjá B ehf. og Jón Halldór Gíslason, fyrrverandi verkstjóri á vélaverkstæði C hf.

                Stefnandi kvaðst hafa verið að breyta umbúðaliftu þegar slysið varð. C hf. hafi afhent honum vinnupall til þess að vinna verkið. Pallurinn hafi verið hífður ofan í lest skipsins og kom í bútum. Hann hafi notað allar einingar sem hafi fylgt pallinum til þess að setja hann saman. Ein skástífa hafi fylgt pallinum og hana setti stefnandi undir miðjan pallinn. Þverböndin setti hann í lárétt bönd pallsins og herti vel með lykli. Engar leiðbeiningar hafi verið á staðnum hvernig bæri að setja pallinn upp. Enginn verkstjóri hafi verið á staðnum til að leiðbeina honum um uppsetningu. Starfsmenn C hf. hafi verið uppi, en stefnandi niðri í lest þegar hann setti upp pallinn. Enginn hafi tekið pallinn út áður en hann hafi verið tekinn til notkunar. Hann kvaðst margoft hafa sett upp vinnupalla og uppsetning þessa vinnupalls hafi ekki verið á annan hátt en hann var vanur að setja þá saman. Hann tók fram að gólfið undir pallinum væri trégólf og að það hafi ekki verið laust í sér. Hann kvaðst hafa verið að vinna í tvo tíma á pallinum þegar pallurinn lagðist á hliðina. Hann hafi verið búinn að fara oft upp og niður af honum áður en hann hrundi. Stefnandi kvað þann pall sem skoðaður var á vettvangi með dóminum ekki vera sama pall og hann notaði umrætt sinn. Stefnandi tók fram að enginn á vegum B hafi fylgt honum á vinnustað í skipinu hjá C hf. Hann tók fram að Ómar Davíð, verkstjóri hjá B ehf. hafi ekkert komið að málinu. Verkfyrirmæli hafi verið  gefin af Jóni Gíslasyni. Hann hafi sett upp pallinn einn og taldi sig ekki þurfa á aðstoð vegna þess.

                Ómar Davíð Ólafsson, verkstjóri hjá B tók fram að  unnið væri reglulega fyrir C. Stefnandi hafi verið sendur í afmarkað verk í lest skipsins. Hann hafi ekki skoðað sérstaklega vinnuaðstæður í skipinu og í þessu tilviki hafi starfsmaður unnið undir verkstjórn C. B hafi ekki skipt sér sérstaklega af verkinu. Almennt væru vinnuaðstæður ekki teknar út áður en starfsmenn B færu til vinnu á einstaka staði. Hann tók fram að öryggisfulltrúi væri í fyrirtækinu. Hann tók fram að það væri allur gangur á því hvernig pallar væru settir upp og hvort þverbönd væru sett í láréttu böndin eða lóðréttu stoðina. Hann vissi ekki hvernig þessu hefði verið háttað með umræddan vinnupall þar sem hann hefði ekki séð hann. Hann taldi sig ekki þurfa að leggja neinar leiðbeiningar fyrir stefnanda um það hvernig vinnupallar væru settir upp.

                Jón Halldór Gíslason var verkstjóri hjá C hf. 2012, þegar slysið varð. Hann tók fram að hann hefði óskað eftir því að umrætt verk yrði unnið og sýnt starfsmanninum hvaða verki væri óskað eftir. C hf. hefði átt umræddan vinnupall. Hann kvaðst hafa híft pallinn um borð í skipið og síðan hafi stefnandi sett pallinn saman. Einingar pallsins hafi verið tvær endagrindur, fjórar langstífur, tvær skástífur og tveir pallar sem unnið væri á og að pallarnir húkkuðust upp á endagrindurnar. Hann taldi að langstífur virkuðu betur ef þær væru settar á lóðréttar stoðir pallsins. Þá hefði pallurinn verið settur upp aftur eftir slysið og annar starfsmaður komið til að ljúka verkinu. Hann taldi að pallurinn væri enn í notkun. Hann taldi að fleiri starfsmenn B hefðu verið að vinna um borð í skipinu þennan dag.  Hann sjálfur og starfsmenn C hefðu farið heim klukkan fimm þennan sama dag. Hann taldi að Vinnueftirlit hefði haft greiðan aðgang að skipinu og lest þess þar sem væri stigi niður. Þá tók hann fram að hann hefði haft verkstjórn yfir stefnanda meðan hann var að vinna um boð í skipinu. Hann taldi að honum hefðu ekki verið veittar leiðbeiningar um uppsetningu pallsins og að engar leiðbeiningar hafi verið til staðar um uppsetningu pallsins.

                Þann 28. nóvember 2016, gekk dómurinn ásamt lögmönnum málsaðila á vettvang þar sem skoðaður var vinnupallur sem stillt hafði verið upp á starfsstöð C ehf. í Grindavík. Með samanburði á ljósmyndum sem liggja fyrir í gögnum málsins og teknar voru af lögreglu á slysstað þann 6. júní 2012, og þeim palli sem stillt hafði verið upp til skoðunar á vettvangi, kom í ljós að ekki var að öllu leyti um sömu pallaeiningar að ræða. Þannig mátti sjá að þverstífur við skoðun á vettvangi voru  aðrar en þær sem komu fram á ljósmyndum lögreglu.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að slysið megi rekja til vanrækslu og vanbúnaðar sem B ehf. og C hf. beri sameiginlega skaðabótaábyrgð á. B ehf. hafi verið vinnuveitandi stefnanda og þannig borið ábyrgð á öryggi á vinnustað. C hf. hafi verið eigandi vinnupallsins og lagt stefnanda hann til við vinnuna. Það sé skylda vinnuveitanda að tryggja öruggt starfsumhverfi fyrir starfsmenn sína, hvort sem starfsmenn séu að vinna fyrir vinnuveitanda á starfsstöð hans eða annars staðar, auk þess að útvega starfsmönnum fullnægjandi og örugg tæki til að vinna vinnuna. Bæði B ehf. og C hf. hafi borið að fylgja lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og öryggisreglum, en þá skyldu hafi báðir vanrækt. Því beri þeir bótaábyrgð á tjóni stefnanda.

                Stefnandi vísar til 13., 14., 37., 42. og 65. gr. a í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hafi ofangreindir aðilar ekki gætt að nefndum lagaákvæðum, enda brotið gegn skráðum hátternisreglum. Stefnandi vísar einnig til 8. gr. reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996, sem mælir fyrir um að atvinnurekandi eða verktaki skuli við framkvæmd verks hverju sinni sjá til þess að skipulag á byggingarvinnustað sé fullnægjandi, sbr. einnig d-lið 3. tölul. sömu greinar. Þá vísar stefnandi til greinar 3.2. í reglum um röraverkpalla nr. 331/1989 þar sem segir að atvinnurekandi skuli sjá til þess að þeir sem noti verkpalla fái nauðsynlegar leiðbeiningar um notkun þeirra. Samkvæmt grein 4.1. í sömu reglum skuli aldrei taka verkpall í notkun fyrr en frá honum hafi verið gengið á fullnægjandi hátt. Enginn hluti í verkpalli megi geta losnað við notkun hans, sbr. grein 5.2.

                Stefnandi telur ljóst að orsök slyssins sé að rekja til þess að skrúfa eða læsing hafi losnað á vinnupallinum með þeim afleiðingum að pallurinn féll saman undir honum. Þetta komi fram í lögregluskýrslu sem gerð hafi verið eftir slysið og einnig í tilkynningu vinnuveitanda stefnanda til Vinnueftirlitsins þann 5. desember 2012. Því sé ljóst að vinnupallurinn hafi ekki uppfyllt lögbundnar öryggiskröfur og að skyldum B ehf. og C hf. hafi ekki verið fullnægt.

                Stefnandi vísar til þess sem fram kemur í lögregluskýrslu um að vinnupallurinn hafi staðið á trégrind sem hafi verið óstöðug og hreyfst ef þungi var settur ofan á hana. Slíkur aðbúnaður sé ófullnægjandi, sbr. grein 4.3.3. í viðauka með reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Í greindu ákvæði komi fram að tryggja skuli að burðareiningar vinnupalls renni ekki til, með því að festa þær við undirstöðuna eða með búnaði sem hindri að þær renni til eða á einhvern annan hátt með sömu áhrifum. Auk þess verði undirstöður og gólfeiningar að hafa nægilegt burðarþol og að tryggja verði að vinnupallur sé stöðugur. Á þeim vanbúnaði beri B ehf. og C hf. ábyrgð.

      Stefnandi vísar til skyldna verkstjóra í 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980. Hafi áðurgreindir aðilar vanrækt að hafa verkstjóra á staðnum til að tryggja öryggi á vinnustað í samræmi við greindar reglur. Þá vísar stefnandi til 5. og 7. gr. reglugerðar nr. 367/2006, varðandi ráðstafanir atvinnurekanda til að tryggja að tæki hæfi því verki sem verið sé að vinna að og um upplýsingaskyldu varðandi notkun tækja. Stefnandi vísar einnig til 10. gr. sömu reglugerðar um skoðunarskyldu atvinnurekanda eftir að tæki hafi fyrst verið sett upp.

                Stefnandi tekur fram að kallað hafi verið eftir lögreglu þegar slysið átti sér stað og að hún hafi mætt á slysstað. Vinnuveitandi hafi ekki tilkynnt slysið til vinnueftirlitsins samdægurs eins og lög geri ráð fyrir og því hafi engin rannsókn farið fram á tildrögum þess og á því hvers vegna festingin losnaði eða gaf sig með þeim afleiðingum að pallurinn hrundi. Stefnandi vísar til 79. gr. laga nr. 46/1980 þar sem fram kemur að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlitsins slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Telur stefnandi að sinnuleysi gagnvart lögbundinni tilkynningarskyldu hafi komið í veg fyrir að Vinnueftirlit og lögregla könnuðu tildrög slyssins. Beri stefndu hallann af þeim sönnunarskorti.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti. Ekkert samningssamband hafi verið á milli stefnda og Útgerðarfélagsins C hf. og hafi félagið ekki borið vinnuveitandaábyrgð á stefnanda þegar hann vann verk sín. Bendir stefndi á að B ehf. hafi tekið umrætt verk að sér fyrir útgerðarfyrirtækið C hf. og sinnt því verki sem sjálfstæður verktaki. Stefnandi hafi verið starfsmaður þessa sjálfstæða verktaka. Fram komi í lögregluskýrslu, dags. 28. ágúst 2012, sem tekin var af stefnanda þann sama dag, að verkstjóri og yfirmaður stefnanda hafi verið Ómar Davíð Ólafsson, starfsmaður B ehf. Stefnandi hafi því sjálfur litið svo á að hann starfaði undir verkstjórn B. Hafi vinnuveitanda hans borið að sjá honum fyrir öruggu starfsumhverfi.

                Þá bendir stefndi á að tilkynningu til vinnueftirlitsins hafi verið fullnægt, sbr. það sem segir í lögregluskýrslu, dags. 6. júní 2012. Starfsmaður þess hafi komið á vettvang.

                Stefndi tekur fram að ekkert sé komið fram sem bendi til þess að vinnuumhverfi á slysstað hafi ekki verið forsvaranlegt. Þá telur stefndi að slysið verði fyrst og fremst rakið til rangrar uppsetningar vinnupallsins. Stefnandi hafi einn unnið að uppsetningu hans. Stefndi telur að eignarhald á vinnupallinum skipti engu máli í tengslum við mat á bótaskyldu í máli þessu. Það sem skipti máli sé hvort pallurinn hafi verið forsvaranlegur og hvort hann hafi verið settur saman á réttan hátt. Samkvæmt gögnum málsins hafi pallurinn verið í fullkomnu ástandi. Það sem hafi orsakað slysið hafi verið röng uppsetning hans og hann því óstöðugri en annars hefði verið, sem stefnandi beri einn ábyrgð á. Hann beri því alla ábyrgð á eigin tjóni og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum.

                Varakrafa stefnda um eigin sök stefnanda byggir á því að stefnandi hafi sjálfur sett upp vinnupallinn og það hafi hann í þessu tilviki gert með röngum hætti. Stefnanda hafi borið að kanna styrkleika vinnupallsins áður en hann hóf störf á honum og með því að gera það ekki hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Á því beri hann einn ábyrgð og eigi hann að bera verulegan hluta tjónsins sjálfur.

3. Helstu málsástæður og lagarök stefnda, Vátryggingarfélags Íslands hf.

Krafa stefnda um sýknu er í fyrsta lagi byggð á því að B ehf. eigi enga sök á slysi stefnanda, þar sem B hafi hvorki haft umráðarétt yfir þeim vinnustað sem slysið varð á, þ.e. um borð í togaranum […], né heldur verkstjórnarvald á staðnum. Það hafi verið í höndum eiganda og útgerðarmanns togarans. Þá átti B ehf. ekki rörapallinn eða lét stefnanda hann í té. Þannig hafi B ekki borið ábyrgð á vinnustaðnum og vinnuörygginu þar sem slysið varð eða tækjum og tólum sem þar voru notuð. Telur stefnandi það meginreglu í íslenskum rétti að vinnuveitandi beri ekki bótaábyrgð á öðrum vinnustað en sínum eigin. Eigi staðhæfingar stefnanda um meint brot B ehf. á tilvísuðum lögum og reglum um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum, um rörapalla og um notkun tækja sér því enga stoð.

                Þá hafi B ehf. ekki haft neitt verkstjórnarvald á umræddum vinnustað. Verkstjórnarvald hafi verið í höndum C hf. Auk þess hafi engin þörf verið fyrir sérstaka eða viðvarandi verkstjórn af hálfu verkstjóra við að setja saman rörapallinn, þegar litið sé til fagþekkingar og starfsreynslu stefnanda og þess að um einfalt verk hafi verið að ræða.

                Stefndi mótmælir því að vinnuveitandi hafi ekki tilkynnt slysið strax til vinnueftirlitsins og að stefndi beri af þeim sökum ábyrgð á tjóni stefnanda. Sé staðhæfing þessi röng og bótaregla þar að lútandi ekki til í íslenskum rétti. Slysið var tilkynnt strax til vinnueftirlitsins eins og fram kemur í vettvangsskýrslu lögreglu og slysatilkynningu B ehf.

                Þá telur stefndi ósannað að slysið megi rekja til saknæmrar vinnuaðstöðu um borð í togaranum, skorts á viðhaldi með búnaði og tækjum eða til bilunar eða galla í rörapallinum, skorts á leiðbeiningum við uppsetningu, skorts á verkstjórn eða skorts á áhættumati. Það eina sem liggi fyrir um orsök slyssins sé að skrúfa eða læsing á efri hluta skástífunnar hafi losnað, sbr. það sem fram kemur í lögregluskýrslu, og að pallurinn hafi hrunið af þeim ástæðum. Hvergi sé í skýrslum lögreglu minnst á bilun eða galla í pallinum eða búnaði hans. 

                Telur stefndi að orsök slyss stefnanda sé ekki að rekja til annars en að skrúfa eða læsing á efri hluta skáskífunnar hafi losnað og pallurinn þess vegna hrunið. Um það hafi stefnandi hins vegar ekki við aðra að sakast en sjálfan sig. Stefnandi hafi sett saman rörapallinn og staðið einn að því verki. Átti stefnandi í ljósi reynslu og fagþekkingu sinnar að vita manna best, hvað þyrfti til að skrúfan eða læsingin losnaði ekki meðan hann væri að vinna á pallinum. B ehf. og C hf. áttu ekki að þurfa að vaka yfir og leiðbeina stefnanda um þetta. Leiði þetta einnig til sýknu stefnda.

                Varakrafa stefnda sé byggð á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að búa ekki svo um hnútana að skrúfan eða festingin á skáskífunni gæti ekki losnað, en það hafi verið mjög brýnt þar sem unnið hafi verið í mikilli hæð. Beri því að skerða rétt stefnanda til bóta verulega og viðurkenna aðeins bótarétt að hluta, sbr. 1. mgr. 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993. Telur stefndi að skerða beri rétt stefnanda til bóta eigi minna en að hálfu, verði fallist á bótaskyldu.

IV.

Niðurstaða

Fyrir liggur í máli þessu að þegar stefnandi slasaðist á fæti þann 6. júní 2012 var hann starfsmaður hjá B ehf. Stefnandi er vélsmiður að mennt og hafði unnið hjá B í um 13 ár þegar slysið varð. Hann var sendur til vinnu um borð í togara sem er í eigu útgerðarfélagsins C hf. Við vinnu sína um borð í skipinu notaði hann vinnupall sem var í eigu C hf. Stefnandi setti vinnupallinn sjálfur saman um borð í skipinu og liggur fyrir að hann hafi oft áður reist slíka vinnupalla. Við uppsetningu pallsins í umrætt sinn setti hann þverstífurnar á láréttu böndin eins og hann hafði ávallt gert þegar hann reisti vinnupalla. Þá setti hann hann upp eina skástífu sem hann festi undir miðjan pallinn. Í skýrslu lögreglu sem kom á slysstað í kjölfar slyssins segir, m.a. að pallurinn sé samsettur með fjórum þverstífum og einni skástífu og að læsing á efri hluta skástífunnar hafi losnað. Vinnueftirlit ríkisins var kvatt á staðinn af lögreglu sama dag og slysið varð. Á þeim tíma þegar eftirlitið kom á staðinn til að kanna slysstað var enginn á vettvangi til þess að taka á móti fulltrúa þess og því var slysið ekki rannsakað af vinnueftirlitinu, hvorki þá né síðar. Í skýrslum fyrir dóminum hefur komið fram að fleiri menn hafi verið að vinna um borð í skipinu þegar slysið varð og síðustu menn yfirgefið það í lok vinnudags klukkan fimm og því hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að eftirlitið skoðaði aðstæður um borð í skipinu. Ekki liggur fyrir nákvæm tímasetning um það hvenær eftirlitið kom á slysstað. Telur dómurinn því ósannað að á þeim tíma sem eftirlitið kom hafi starfsmenn frá stefnda, C ehf. eða B ehf. verið um borð í skipinu.

                Ekki liggja fyrir gögn í málinu um hver hafi verið rétt uppsetning á umræddum rörapalli. Stefnandi kvaðst hafa sett þverstífur í lárétt bönd vinnupallsins og hert vel með lykli. Á hinn bóginn telur vitnið Jón Halldór Gíslason að þverstífur virki betur ef þær eru festar á lóðréttar stoðir pallsins. Vitnið Ómar Davíð Ólafsson telur að allur gangur sé á því hvernig pallar væru settir upp og þar með hvort þverstífur væru settar á lárétt bönd eða lóðréttar stoðir vinnupalla.

                Samkvæmt framansögðu er í máli þessu deilt um tilurð slyssins. Er einkum deilt um hvað hafi orðið þess valdandi að vinnupallurinn féll saman þegar stefnandi steig niður af pallinum. Stefnandi telur ljóst að slysið sé að rekja til þess að skrúfa eða læsing hafi losnað af vinnupallinum með þeim afleiðingum að pallurinn féll saman undir stefnanda, sbr. skýrslu lögreglu. Stefndu telja að slysið verði fyrst og fremst rakið til rangrar uppsetningar vinnupallsins, með vísan til sömu lögregluskýrslu, enda séu engin gögn eða upplýsingar um bilun eða galla í umræddum vinnupalli.           

                Úrlausn málsins ræðst af því hvort tildrög slyssins hafi verið nægjanlega upplýst við skoðun lögreglu á slysadegi og þar með hvort rannsókn vinnueftirlitsins á vinnupallinum hefði varpað öðru ljósi á orsök þess ef hún hefði farið fram strax eftir slysið.

                Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um skyldu vinnuveitanda að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins. Eins og þar kemur fram er skylda þessi tengd við alvarleika slyss. Samkvæmt ákvæðinu skal atvinnurekandi, m.a. tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Eins og áður segir var slysið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins samdægurs af lögreglu, en eftirlitið sá sér ekki kleift að rannsaka slysstað, þar sem enginn var um borð í skipinu við komu þess. Því liggja ekki fyrir aðrar upplýsingar um vinnupall þennan en þær sem fram koma í skýrslu lögreglu. Telja verður að með skoðun vinnueftirlitsins hefði mátt fá nánari upplýsingar um orsök slyssins og þar með hvað hafi orðið þess valdandi að skrúfa eða læsing losnaði af vinnupallinum, hvort ein eða tvær skástífur hafi fylgt pallinum, hvort tryggara væri að festa þverstífur á lárétt bönd eða lóðrétta stoð pallsins eða hvort e.t.v. aðrar ástæður kunni að hafa valdið slysinu. Þá hefur ekki verið upplýst nákvæmlega hvaða tegund vinnupalls var um að ræða, en uppsetning þeirra getur verið breytileg eftir tegundum.

                C hf. var eigandi vinnupallsins sem stefnandi féll af og lagði honum til pallinn í því skyni að hann notaði hann við störf sín um borð í skipi félagsins. Telur dómurinn með vísan til fyrrgreinds ákvæðis að sú skylda hafi hvílt á C hf. að tilkynna um slysið til vinnueftirlitsins og sjá til þess að vinnueftirlitinu væri gert kleift að skoða slysstað um borð í skipi félagsins.

                Verður því að leggja til grundvallar í málinu að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni umrætt sinn sem rekja megi til bilunar í festingum pallsins eða öðrum búnaði hans eða skorts á leiðbeiningum við uppsetningu hans og frágang. Ber C hf. því skaðabótaábyrgð á tjóni sem stefnandi varð fyrir og rekja má til ófullnægjandi búnaðar pallsins. Í ljósi þessa telur dómurinn ósannað að stefnandi hafi viðhaft rangt verklag við uppsetningu vinnupallsins umræddan dag. Er því viðurkenndur réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu C hf. hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir þann 6. júní 2012. Samkvæmt framansögðu er varakröfu stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um að bótaréttur stefnanda verði aðeins viðurkenndur að hluta hafnað. 

                Sem fyrr segir var C hf. eigandi vinnupallsins sem stefnandi notaði um borð í skipi félagsins. B ehf. hafði því hvorki boðvald yfir stefnanda við það verk, auk þess sem B ehf. hafði engan umráðarétt yfir starfsaðstöðu stefnanda um borð í skipi C hf. Með vísan til þeirrar meginreglu íslensks réttar og dómafordæma að vinnuveitandi beri ekki ábyrgð á öðrum vinnustað en sínum eigin, verður stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf. því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf. gert að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð, samtals 1.830.000 krónur.

                Málskostnaður á milli stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Þorsteins Einarssonar hrl., 1.800.000 krónur.

                Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari og  meðdómsmennirnir Ásmundur Ingvarsson byggingaverkfræðingur og Björn Marteinsson, byggingaverkfræðingur og arkitekt.

DÓMSORÐ:

Viðurkenndur er réttur stefnanda, A til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu C hf. hjá Tryggingamiðstöðinni hf., vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir þann 6. júní 2012.

                Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknað af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

                Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf. greiði 1.830.000 krónur í málskostnað sem rennur í ríkissjóð.

                Málskostnaður á milli stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., fellur niður.

                Allur málskostnaður stefnanda fyrir héraðsdómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Þorsteins Einarssonar hrl., 1.800.000 krónur.