Mál nr. 469/2011

Lykilorð
  • Tjáningarfrelsi
  • Meiðyrði
  • Miskabætur

                                     

Fimmtudaginn 24. maí 2012.

Nr. 469/2011.

 

Eggert Haukdal og

Guðrún Bogadóttir

(Ólafur Thóroddsen hrl

gegn

Benediktu Haukdal og

Runólfi Maack

(Jón Ögmundsson hrl.)

og

Benedikta Haukdal

gegn

Eggerti Haukdal og

Guðrúnu Bogadóttur

 

Tjáningarfrelsi. Meiðyrði. Ómerking ummæla. Miskabætur.

E og G kröfðust þess að tiltekin ummæli sem B viðhafði um þau á vefsvæði sínu á vefsamfélaginu MySpace á tímabilinu 21. febrúar til 6. júlí 2008 yrðu dæmd dauð og ómerk. Kröfðust þau þess að B yrði dæmd til refsingar og til þess að greiða þeim skaðabætur. B og R kröfðust þess aftur á móti að tiltekin ummæli sem E viðhafði um þau meðal annars í lesendabréfi sem birt var í dagblaðinu DV yrðu dæmd dauð og ómerk. Þá kröfðust þau þess að E yrði dæmdur til refsingar og til þess að greiða þeim skaðabætur. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði meðal annars að ummæli þau sem um ræddi væru ekki hluti af opinberri umræðu um samfélagsleg málefni, heldur ættu þau sér rót í persónulegum illdeilum milli aðila og ættu þau ekki sérstakt erindi á opinberan vettvang. Taldi Hæstiréttur að ummæli B í 9 stafliðum af 14 væru ærumeiðandi og óviðurkvæmileg og voru þau ómerkt með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá staðfesti Hæstiréttur einnig niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu hluta ummæla sem E viðhafði um B og R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 2. ágúst 2011. Þau krefjast þess að eftirtalin ummæli sem gagnáfrýjandi, Benedikta Haukdal, birti á vefsvæði sínu á vefsamfélaginu MySpace verði dæmd dauð og ómerk:

A.    „Hjálpi mér og öðrum þeim sem á annað borð lenda í klóm þeirra Eggerts Haukdal og Guðrúnar Bogadóttur. Við lendum öll á dauðalista ...“

B.     „Hleypur á snærið hjá hnýsnu Guddu.“

C.     „Á neðri hæðinni í húsinu okkar erum við með ómaga, gamlan karl og kerlingu hans, sem er svo hnýsin að hún hoppar hæð sína alveg upp að ökklum af kæti yfir því að geta framvegis grandskoðað kartöfluskrælinginn og tómu mjólkurfernurnar sem við skilum af okkur í sorpgagnið fína.“

D.    „... þegar hámark heimsóknar á Njáluslóðir og fyrrum stórbýlið Bergþórshvol verður að sjá kerlu með iljarnar upp úr ruslatunnu við rannsóknarvinnu á úrgangnum frá okkur. Já, pokakerlingar finnast víða.“

E.     „Eldur hefur oft komið upp í hugann þann tíma sem ófriðareldur þeirra Guddu og Gerta hafa logað hér.“

F.      „Mér finnst persónulega, gestir Eggerts heldur dónalegir, það er nú lágmark að fólk skíti úr sér heima við, áður en það leggst í heimsóknir.“

G.    „Bréfið byggir hann eingöngu á Gróum frá Guddu á leiti.“

H.    „Til er maður sem oftar en einu sinni hefur staðið við dauðans dyr en fyrir einhverja slembilukku hjarnar við og skríður hér á meðal okkar lifandi fólks í dag öllum til ama og leiðinda.“

I.       „Þegar komið að lið númer 967 sagði Skrattinn "nei, þú ert jafnvel of andskoti slæmur fyrir helvíti".“

J.       „Í þeim heimi munu vistast öll þau úrhrök sem eru of vond fyrir Helvíti. Staðurinn verður látinn heita "Í Neðra" og mun þar verða hvorki eldhús, þvottahús og baðaðstaða heldur klén. Ráðskonan mun ennfremur verða af lakari endanum, bæði afspyrnu ljót og sérlega ólöguleg.“

K.    „Þá er bara hvort Gudda, langeygð eftir ekkjutitli, hafi þolinmæði, hvað eftir annað búin að undirbúa jarðarför í kyrrþey ... Ég gæti í það minnsta ímyndað mér að hún sé tilbúin með eitursprautuna, ef færi gæfist.“

L.     „Síðan sögðu þau mér bæði að ég hafi verið send til að losa Vestur-landeyjar við náfrænda minn og reyndar son þeirra, það væri kominn tími til að bræðralag og friður ríki í sveitinni.“

M.   „Karlskröggur hér í sveit ...“

N.    „Nú hef ég heyrt sögur af því hvernig Skröggurinn eignaðist fyrrnefnda jörð ... Mér er sagt að Skröggurinn hafi farið til gamla mannsins, sem þótti sopinn góður, með brennivínsflösku og pappíra. Skröggurinn hellti gamla manninn fullan og lét hann síðan skrifa undir skjöl þar sem hann afsalaði jörðinni Skröggsins.“

Aðaláfrýjendur krefjast þess einnig að gagnáfrýjanda verði gert að greiða þeim hvoru um sig miskabætur að fjárhæð 4.000.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. júlí 2008 til 3. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk 800.000 króna „til að standa straum af birtingu forsendna dóms og dómsorðs í fjölmiðlum á Suðurlandi og fjölmiðlum á landsvísu.“ Aðaláfrýjendur krefjast þess að gagnáfrýjandi verði dæmd til refsingar vegna framangreindra ummæla samkvæmt 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Loks krefjast aðaláfrýjendur þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða þeim málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Aðaláfrýjandinn Eggert krefst þess að auki að hann verði sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda og stefnda Runólfs Maack.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 25. október 2011. Hún krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjenda, en að öðru leyti að „héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað.“ Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummæla aðaláfrýjandans Eggerts og skyldu hans til að greiða sér miskabætur verði staðfest og að aðaláfrýjendum verði gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjendur höfðu uppi kröfu fyrir héraðsdómi um að gagnáfrýjandi yrði dæmd til að greiða þeim 800.000 krónur til að standa straum af kostnaði við birtingu forsendna dóms og dómsorðs ,,í fjölmiðlum á Suðurlandi og fjölmiðlum á landsvísu.“ Þessari kröfu var vísað frá héraðsdómi. Aðaláfrýjendur hafa hana engu að síður uppi fyrir Hæstarétti án þess að hafa kært þá úrlausn sérstaklega. Þar sem krafan hefur ekki hlotið efnisúrlausn fyrir héraðsdómi kemur hún ekki til álita hér fyrir dómi.

Gagnáfrýjandi birti ummæli um aðaláfrýjendur í bloggfærslum á svæði sínu á vefsamfélaginu MySpace frá 21. febrúar til 6. júlí 2008. Hún kveður þá birtingu ekki vera opinbera, heldur hafi skrif hennar einungis verið ætluð fjölskyldu hennar og nánustu vinum. Hún heldur því fram að aðgangur að bloggfærslunum hafi verið læstur og aðrir en þeir, sem hún hafi sérstaklega veitt þar aðgang, hafi ekki átt þess kost að kynna sér þær þar. Engu skiptir fyrir refsinæmi ummæla hvort birting þeirra telst opinber eða er einungis fyrir takmarkaðan hóp manna. Á hinn bóginn kann slíkt að hafa þýðingu við ákvörðun refsingar og fjárhæð miskabóta. Gagnáfrýjandi hefur þó hvorki upplýst hverjir né hve margir áttu aðgang að bloggfærslum hennar. Verður fallist á með héraðsdómi að birting ummælanna sé opinber í þeim skilningi að þeim hafi verið beint til ótilgreinds hóps fólks. Ummæli gagnáfrýjanda, sem hér um ræðir, svo og ummæli aðaláfrýjandans Eggerts Haukdal um gagnáfrýjanda og stefnda, eru ekki hluti af opinberri umræðu um samfélagsleg málefni, heldur eiga þau sér samkvæmt gögnum málsins rót í persónulegum illdeilum þeirra sem staðið hafa um skeið. Eiga þau ekki sérstakt erindi á opinberan vettvang. 

Fallist er á með héraðsdómi að ummæli gagnáfrýjanda í staflið A feli í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð aðaláfrýjenda og séu brot á 235. gr. almennra hegningarlaga.

Ummæli í staflið B eru yfirskrift færslu gagnáfrýjanda á bloggi hennar 7. júní 2008. Þau ummæli verður að meta í samhengi við önnur ummæli í þessari færslu, sem að hluta eru tilgreind í stafliðum C og D. Uppnefni á aðaláfrýjandanum Guðrúnu og í framhaldinu sú staðhæfing að hún sé hnýsin er móðgandi og felur í sér ærumeiðingu, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga. Ummælin í staflið C um að aðaláfrýjandinn Eggert sé ómagi eru móðgandi og sú lýsing á aðaláfrýjandanum Guðrúnu, sem þar er að finna, felur í sér aðdróttun, sbr. 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Eru ummælin ærumeiðandi og umfram það sem aðaláfrýjendur þurfa að þola. Ummælin í staflið D eru einnig móðgandi fyrir aðaláfrýjandann Guðrúnu, sbr. 234. gr. laganna.

Fallist er á með héraðsdómi að ekki sé nægilegt tilefni til að líta svo á að hin tilvitnuðu ummæli í staflið E séu í heild sinni ærumeiðandi fyrir aðaláfrýjendur og verður því kröfu um ómerkingu þeirra ummæla hafnað. Þá verða ummælin í staflið F ekki talin beinast að aðaláfrýjendum á þann hátt að þau geti krafist ómerkingar þeirra. Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um kröfu vegna ummæla í staflið G.

Ummæli í stafliðum H, I, J og K koma öll fram í bloggfærslu 23. mars 2008. Af samhenginu er ljóst að í þremur fyrstu stafliðunum á gagnáfrýjandi við aðaláfrýjandann Eggert. Í ummælunum eru stóryrði um þennan aðaláfrýjanda, sem eru meiðandi fyrir hann, svo og það samhengi sem þau eru sett fram í. Hin tilvitnuðu ummæli eru í heild sinni móðgandi og fara í bága við 234. gr. almennra hegningarlaga. Ummæli um aðaláfrýjandann Guðrúnu í staflið J eru móðgandi fyrir hana og fara einnig í bága við síðastgreint ákvæði. Fallist er á með héraðsdómi að ummæli um þennan aðaláfrýjanda í staflið K feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð hennar, sem fara í bága við 235. gr. almennra hegningarlaga.

Fallist er á niðurstöðu héraðsdóms um ummæli þau, sem tilgreind eru í stafliðum L og M.

Þá er fallist á með héraðsdómi að ummæli þau um aðaláfrýjandann Eggert, sem tilgreind eru í staflið N, séu sérlega meiðandi og feli í sér aðdróttun í hans garð, sem fari í bága við 235. gr. almennra hegningarlaga.

Ummæli þau, sem tilgreind eru í stafliðum A, B, C, D, H, I, J, K og N, eru óviðurkvæmileg og verða þau ómerkt, sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummæla þeirra, sem aðaláfrýjandinn Eggert hafði um gagnáfrýjanda og stefnda og tilgreind eru í kröfuliðum 1.1 og 1.2 í hinum áfrýjaða dómi, verður staðfest.

Ummæli aðaláfrýjandans Eggerts, sem ómerkt voru í hinum áfrýjaða dómi, komu annars vegar fram í bréfi 27. maí 2007 til gagnáfrýjanda og stefnda og fimm annarra einstaklinga og hins vegar í lesendabréfi, sem hann fékk birt í dagblaðinu DV 19. desember 2007. Ummæli gagnáfrýjanda, sem birtust síðar, komu fram á vefsvæði hennar í framangreindu vefsamfélagi. Með vísan til þessa og forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti verður niðurstaða hans um niðurfellingu refsingar og um miskabætur og dráttarvexti staðfest.

Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms verður staðfest.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða aðilar látnir bera hver sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Ummæli í stafliðum A, B, C, D, H, I, J, K og N, eru ómerkt.

Niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummæla í liðum 1.1 og 1.2 skal vera óröskuð.

Ákvæði héraðsdóms um niðurfellingu refsingar, miskabætur, dráttarvexti og málskostnað í héraði skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. maí 2011.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 7. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 22. janúar 2010, af Eggerti Haukdal, kt. [...], og Guðrúnu Bogadóttur, kt. [...], báðum búsettum að Bergþórshvoli 2, 861 Hvolsvelli, gegn Benediktu Haukdal, kt. [...], einnig búsettri að Bergþórshvoli 2, 861 Hvolsvelli.

Með stefnu útgefinni 2. mars 2010, höfðaði aðalstefnda ásamt Runólfi Maack, kt. [...], einnig búsettum að Bergþórshvoli 2, gagnsök í málinu á hendur aðalstefnanda Eggerti Haukdal.  Með úrskurði upp kveðnum 28. júní 2010 var gagnsök gagnstefnandans Runólfs vísað frá dómi og höfðaði hann því mál á hendur aðalstefnanda Eggerti með stefnu birtri 5. október sl., mál nr. E-574/2010, en það mál var sameinað máli því sem hér er til meðferðar.

Dómkröfur aðalstefnenda eru þær að ummæli, sem aðalstefnda birti á vefsvæði sínu á vefmiðlinum MySpace, verði dæmd dauð og ómerk. Umrædd ummæli eru þessi:

A.      „Hjálpi mér og öðrum þeim sem á annað borð lenda í klóm þeirra Eggerts Haukdal og Guðrúnar Bogadóttur. Við lendum öll á dauðalista…“ (A. Birt sunnudaginn 6. júlí 2008)

B.      „Hleypur á snærið hjá hnýsnu Guddu.“

C.      „Á neðri hæðinni í húsinu okkar erum við með ómaga, gamlan karl og kerlingu hans, sem er svo hnýsin að hún hoppar hæð sína alveg upp að ökklum af kæti yfir því að geta framvegis grandskoðað kartöfluskrælinginn og tómu mjólkurfernurnar sem við skilum af okkur í sorpgagnið fína.“

D.      „… þegar hámark heimsóknar á Njáluslóðir og fyrrum stórbýlið Bergþórshvol verður að sjá kerlu með iljarnar upp úr ruslatunnu við rannsóknarvinnu á úrgangnum frá okkar. Já, pokakerlingar finnast víða.“

E.       „Eldur hefur oft komið upp í hugann þann tíma sem ófriðareldur þeirra Guddu og Gerta hafa logað hér.“ (B.–E. Birt laugardaginn 7. júní 2008)

F.       „Mér finnst persónulega, gestir Eggerts heldur dónalegir, það er nú lágmark að fólk skíti úr sér heima við, áður en það leggst í heimsóknir.“ (F. Birt laugardaginn 7. júní 2008)

G.      „Bréfið byggir hann eingöngu á Gróum frá Guddu á leiti.“ (G. Birt laugardaginn 10. maí 2008)

H.      „Til er maður sem oftar en einu sinni hefur staðið við dauðans dyr en fyrir einhverja slembilukku hjarnar við og skríður hér á meðal okkar lifandi fólks í dag öllum til ama og leiðinda.“

I.           „Þegar komið að lið númer 967 sagði Skrattinn “ nei, þú ert jafnvel of andskoti slæmur fyrir helvíti“.“

J.          „ Í þeim heimi munu vistast öll þau úrhrök sem eru of vond fyrir Helvíti. Staðurinn verður látinn heita “ Í Neðra“ og mun þar verða hvorki eldhús, þvottahús og baðaðstaða heldur klén. Ráðhúskonan mun ennfremur verða af lakari endanum, bæði afspyrnu ljót og sérlega ólöguleg.“

K.      „Þá er bara hvort Gudda, langeygð eftir ekkjutitli, hafi þolinmæði, hvað eftir annað búin að undirbúa jarðarför í kyrrþey… Ég gæti í það minnsta ímyndað mér að hún sé tilbúin með eitursprautuna, ef færi gæfist.“ (H.–K. Birt sunnudaginn 23. mars 2008)

L.       „Síðan sögðu þau mér bæði að ég hafi verið send til að losa Vestur-landeyjar við náfrænda minn og reyndar son þeirra, það væri kominn tími til að bræðralag og friður ríki í sveitinni.“ (L. Birt miðvikudaginn 12. mars 2008)

M.     „Karlskröggur hér í sveit…“

N.      „Nú hef ég heyrt sögur af því hvernig Skröggurinn eignaðist fyrrnefnda jörð… Mér er sagt að Skröggurinn hafi farið til gamla mannsins, sem þótti sopinn góður, með brennivínsflösku og pappíra. Skröggurinn hellti gamla manninn fullan og lét hann síðan skrifa undir skjöl þar sem hann afsalaði jörðinni Skröggsins.“ (L.–N. Birt fimmtudaginn 6. mars. 2008)

Þá krefjast aðalstefnendur þess, að aðalstefnda verði dæmd til þess að greiða þeim hvorum um sig 4.000.000 króna í miskabætur og beri sú fjárhæð dráttarvexti (svo) skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. júlí 2008 til þingfestingardags, en skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þingfestingardegi, 3. febrúar 2010, til greiðsludags. Þá krefjast aðalstefnendur þess að aðalstefnda verði dæmd til þess að greiða þeim 800.000 krónur til að standa straum af birtingu forsendna dóms og dómsorðs í fjölmiðlum á Suðurlandi og fjölmiðlum á landsvísu. Aðalstefnendur krefjast þess að aðalstefnda verði dæmd til refsingar vegna ofangreindra ummæla skv. 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Loks krefjast aðalstefnendur þess að aðalstefnda verði dæmd til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti á málsþóknun.

Aðalstefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum aðalstefnenda. Til vara krefst aðalstefnda niðurfellingar á refsingu og annarra dómkrafna aðalstefnenda. Til þrautavara krefst aðalstefnda verulegrar lækkunar á kröfum aðalstefnenda. Auk þess krefst aðalstefnda þess í öllum tilvikum að aðalstefnendur verði dæmdir til að greiða sér málskostnað samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins komi til hennar.

Dómkröfur gagnstefnenda í gagnsök eru þær að eftirfarandi ummæli sem gagnstefndi viðhafði verði dæmd dauð og ómerk. Umrædd ummæli eru þessi:

1.1.        Ummæli sem gagnstefndi viðhafði í bréfi til gagnstefnenda, lögmanna aðila   og fleiri, dags. 27. maí 2007:

1.1.1.         „Formlega hafði ég ekki afhent búféð, kaupanda til ráðstöfunar. Þau eignuðu sér búpeninginn með smánar verði. Eins og fram hefur komið er ég ekki með fulla heilsu, og það notuðu þau sér það.“

1.1.2.         „Í sextíu ára búsetu minni í Landeyjum hef ég ekki orðið var við sauðaþjófnað fyrr en nú. Það er vissulega saga til næsta bæjar og þyrfti að segja allri þjóðinni.“

1.1.3           „Ég hafði sagt þeim hjónum frá kindum Valdimars meðan allt var í lagi. Þau virðast hafa gleymt því og tóku ófrjálsri hendi eins og annað. Græðgin og mannvonskan bar þau ofurliði.“

1.2.        Ummæli sem gagnstefndi viðhafði um gagnstefnendur í lesendabréfi í DV þann 19.  desember 2007:

1.2.1.         „Það liggur fyrir málskjal, þar sem sýnt er fram á að Benedikta og Runólfur tóku ófrjálsri hendi fjórar ær og átta lömb af eldri manni (þessar kindur voru í minni umsjón). En hann hjálpaði mér við sauðburð og hafði gaman af að eiga nokkrar kindur. Fénu hefur ekki verið skilað. Er þetta ekki kallað sauðaþjófnaður? Ýmislegt bendir til að fyrrgreint málskjal hafi ekki komið til dóms og þar með sauðaþjófnaði og fleiru verið slepp.“

1.3.        Ummæli sem gagnstefndi viðhafði um gagnstefnendur í fréttablaðinu Sunnlenska þann 28. ágúst 2008:

1.3.1.         „Þau véluðu jörðina af mér á hálfvirði.“

Gagnstefnendur krefjast þess einnig að gagnstefndi verði dæmdur til þess að greiða gagnstefnendum hvorum um sig 1.500.000 króna í miskabætur. Skiptist miskabótakrafan svo: 500.000 krónur vegna ummæla er gagnstefndi viðhafði 27. maí 2007, beri hún vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. maí 2007 til þingfestingardags, 3. mars 2010 en dráttarvexti skv. 9. gr. sömu laga frá þingfestingardegi til greiðsludags. 500.000 krónur vegna ummæla er gagnstefndi viðhafði 19. desember 2007, beri hún vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. desember 2007 til þingfestingardags, 3. mars 2010 en dráttarvexti skv. 9. gr. sömu laga frá þingfestingardegi til greiðsludags. 500.000 krónur vegna ummæla er gagnstefndi viðhafði 19. desember 2007, (svo virðist eiga að vera 28. ágúst 2008), beri hún vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. ágúst 2008 til þingfestingardags, 3. mars 2010 en dráttarvexti skv. 9. gr. sömu laga frá þingfestingardegi til greiðsludags. Þá krefjast gagnstefnendur þess að gagnstefndi verði dæmdur til þess að greiða þeim 500.000 krónur til þess að standa straum af kostnaði við birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna í fjölmiðlum á Suðurlandi og á landsvísu. Gagnstefnendur gera einnig kröfu um að gagnstefndi verði dæmdur til refsingar vegna ummælanna skv. 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Gagnstefndi krefst sýknu og málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Málavextir.

Aðalstefnendur lýsa málsatvikum í stefnu í aðalsök svo að aðalstefnandinn Eggert hafi selt aðalstefndu Benediktu Haukdal og maka hennar jörðina Bergþórshvol 2, með þeirri kvöð að hann hefði til lífstíðar búseturétt í íbúðarhúsinu á jörðinni. Eftir undirritun kaupsamnings hafi deilur hafist með aðilum og séu þær deilur vísast hvatinn að þeim skrifum aðalstefndu sem mál þetta tekur til. Hafi aðalstefnda birt hin ærumeiðandi ummæli sín á vefmiðlinum MySpace Blogg Benediktu Haukdal í 9 færslum, á tímabilinu 21. febrúar 2008 til 6. júlí 2008. Skrifin séu í heild rætin og illfýsin, en þó sé einungis krafist ómerkingar á því sem þar sé svæsnast. Hafi umrædd skrif valdið aðalstefnendum hugarangri og þjáningum

Gagnstefnendur lýsa málsatvikum svo að í tengslum við illdeilur og málaferli sem aðilar hafi átt í vegna kaupa gagnstefnanda á jörðinni Bergþórshvoli 2, hafi gagnstefndi Eggert viðhaft fjöldann allan af ummælum bæði opinberlega og í einkabréfum um gagnstefnendur. Hafi ummælin iðulega tengst fyrri deilum aðila. Gagnstefndi hafi ritað bréf þann 27. maí 2007 sem hann hafi sent gagnstefnendum, lögmönnum aðila og fleirum, þar sem hann hafi haldið ýmsu fram er varðaði kaup gagnstefnenda á fyrrnefndri jörð. Hafi hann í bréfinu meðal annars sakað gagnstefnendur um sauðaþjófnað og að hafa notfært sér slæma heilsu hans við gerð kaupsamnings. Þann 19. desember sama ár hafi lesendabréf gagnstefnda verið birt í DV þar sem gagnstefndi hafi á ný sakað gagnstefnendur um sauðaþjófnað. Þá hafi gagnstefndi, í viðtali er birtist í fréttablaðinu Sunnlenska þann 28. ágúst 2008, lýst deilum aðila og ætluðu hátterni gagnstefnenda í samskiptum þeirra.

Málsástæður og lagarök aðalstefnenda.

Aðalstefnendur lýsa því í stefnu í aðalsök að aðalstefnandinn Eggert Haukdal sé þjóðþekktur maður vegna opinberra starfa sinna og hafi vegna þeirra staðið til umfjöllunar og gagnrýni í þjóðfélagsumræðu. Aðalstefnandinn Guðrún Bogadóttir hafi hins vegar ekki látið til sín taka á opinberum vettvangi en athygli hafi engu að síður beinst að Guðrúnu vegna sambands hennar við Eggert og opinberra starfa hans. Sú refsiverða meingerð, sem aðalstefnda hafi beint að aðalstefnendum, risti því dýpra og hafi vakið meiri athygli en ef um lítið þekkt eða óþekkt fólk væri að ræða.

Aðalstefnandi Eggert hafi selt aðalstefndu Benediktu og maka hennar jörðina Bergþórshvol 2 með þeirri kvöð að hann hefði til lífstíðar búseturétt í íbúðarhúsinu á jörðinni.  Eftir undirritun kaupsamnings hafi hafist deilur milli aðila og hafi aðalstefnda Benedikta farið langt yfir mörk leyfilegs tjáningarfrelsis og gerst sek um refsiverða meingerð í garð aðalstefnanda með skrifum sínum á vefmiðlinum MySpace.  Skrifin séu í heild sinni rætin og illfýsin og hafi þau valdið aðalstefnendum hugarangri og þjáningum.   Ummæli sem tíunduð eru í A-lið í stefnu í aðalsök feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð aðalstefnenda að mati þeirra og ummæli í B-lið feli í sér móðgun með nafngiftinni „Gudda“ og auk þess aðdróttun um hnýsni aðalstefnandans Guðrúnar.  Í C-lið felist móðgun í garð aðalstefnandans Eggerts með því að kalla hann ómaga og aðdróttun í garð aðalstefnandans Guðrúnar um hnýsni.  Í D-lið séu móðgandi ummæli í garð aðalstefnandans Guðrúnar og í E-lið séu móðgandi ummæli og aðdróttanir í garð beggja aðalstefnenda.  Ummæli í F-lið séu sérstaklega meiðandi og særandi fyrir aðalstefnandann Eggert en þar hafi verið vikið að 75 ára afmæli hans og þeirri niðurlægjandi aðstöðu sem hann hafi orðið að bjóða gestum sínum upp á í íbúðarhúsinu að Bergþórshvoli.  Aðalstefnendur segja ummæli aðalstefndu Benediktu í G-lið sprottna af umfjöllun séra Gunnars Björnssonar um deilur kaupenda og seljanda Bergþórshvols 2.  Feli skrifin í sér móðgun og aðdróttun í garð aðalstefnanda Guðrúnar um að hún sé söguberi.  Með ummælum í H-lið sé ljóst að aðalstefnda Benedikta sé að skrifa um aðalstefnanda Eggert og felist í skrifunum móðgun í garð hans með því að fullyrða að hann sé öllum til ama og leiðinda.  Í I-lið felist frekleg móðgun í garð aðalstefnanda Eggerts og í J-lið sé fólgin frekleg móðgun í garð hans með því að kalla hann úrhrak sem sé of vont fyrir helvíti.  Þá séu ummæli um aðstöðu sem séu særandi svigurmæli og með ummælum um ráðskonuna sé átt við aðalstefnanda Guðrúnu og séu orðin um hana sérstaklega særandi og móðgandi.  Í K-lið komi fram sérstaklega rætin illyrði og alvarleg brigsl og aðdróttanir í garð aðalstefnanda Guðrúnar.  Með skrifum í L-lið láti aðalstefnda Benedikta sem hún hafi orðið fyrir yfirnáttúrulegri reynslu og hafi henni birst afi hennar og amma, séra Sigurður Haukdal og frú Benedikta Haukdal.  Sé þetta sérstaklega sárt fyrir aðalstefnanda Eggert enda verið að ræða um látna foreldra hans sem alls staðar hafi verið vel virt.  Þá felist í ummælunum aðdróttanir í garð aðalstefnanda Eggerts.  Ummæli í M-lið séu móðgandi fyrir aðalstefnanda Eggert og í N-lið séu freklegar aðdróttanir í garð aðalstefnanda Eggerts um að hann hafi beitt mann misneytingu sem verið hafi í áfengisvímu.

Aðalstefnendur byggja á því að ummæli aðalstefndu varði við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga, enda séu þau illfýsin og rætin og til þess fallin að sverta mannorð aðalstefnenda. Þá hafi ummælin fallið aðalstefnendum mjög þungt og valdið þeim andlegum þjáningum. Virðing aðalstefnenda hafi beðið hnekki, einkum þar sem þau séu bæði þekkt fólk. Krafa aðalstefnenda um miskabætur er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og er við mat á miskabótum vísað til grunnraka að baki 234., 235. og 236. gr. laga nr. 19/1940 og því hversu ummæli aðalstefndu eru illfýsin, rætin, heiftúðug og jafnvel hatursfull. Dráttarvaxtakröfu sína byggja aðalstefnendur á 8. gr. og 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Kröfu  sína um fjárhæð til að standa straum af kostnaði vegna birtingar á forsendum dóms og dómsorði reisa aðalstefnendur á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og benda á að um fyrri deilur aðila hafi verið fjallað í fjölmiðlum, bæði sunnlenskum og á landsvísu og sé þeim því nauðsynlegt að birta forsendur dóms og dómsorð í fjölmiðlum. Varðandi refsikröfu vísa aðalstefnendur til ákvæða 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Aðalstefnendur byggja á því að skrif aðalstefndu hafi verið birt sem blogg á vefmiðli sem  hafi verið opinn öllum sem hafi viljað kynna sér þau.  Aðalstefnda sé höfundur ummælanna og beri því sem slík ábyrgð á þeim og því réttur aðili að málinu, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.  Skrif aðalstefndu um aðalstefnendur séu mjög samþætt og eigi þau því óskipta sóknaraðild.  Aðalstefnendur byggja á því að ummæli stefndu njóti ekki verndar skv. 73. gr. stjórnarskrárinnar þar sem því séu takmörk sett, m.a. með ákvæðum stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs og fyrrnefndum ákvæðum almennra hegningarlaga. Kröfu um málskostnað byggja aðalstefnendur á 130. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á ákvæðum laga nr. 50/1988 með síðari breytingum.

Málsástæður og lagarök aðalstefndu.

Aðalstefnda Benedikta byggir sýknukröfu sína á því að ekkert hafi komið fram í málatilbúnaði aðalstefnenda sem sýni fram á að hún hafi viðhaft þau ummæli sem tilgreind séu í stefnu.  Þá sé ekki um ærumeiðandi ummæli að ræða í skilningi 234.-236. gr. almennra hegningarlaga.  Við meðferð málsins fyrir dómi var því hins vegar ekki andmælt að umrædd skrif væru frá henni komin en ekki hafi verið um opinbera birtingu að ræða heldur skrif sem einungis hafi verið ætluð fjölskyldu hennar og nánustu vinum.  Hafi síðan verið læst og einungis þeir sem aðalstefnda hafi samþykkt sérstaklega hafi getað lesið skrif hennar, en aðalstefnendur hafi ekki verið með aðgang að síðunni og skrifum aðalstefndu.

Aðalstefnda byggir sýknukröfu sína á því að skrif hennar feli í sér tjáningu í skilningi 73. gr. stjórnarskrárinnar og í 1. og 2. mgr. sé tjáningu um hvaða málefni sem er veitt vernd í ríkum mæli.  Því þurfi skilyrði um takmarkanir á tjáningarfrelsinu að vera uppfyllt.  Í máli þessu vegist á sjónarmið um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs og hafi í dómum verið lögð áhersla á að tjáningarfrelsið verði ekki takmarkað nema nauðsyn standi til þess og skipti sjónarmið um meðalhóf miklu í því sambandi.  Hafi þessu fylgt aukin vernd tjáningarfrelsis og það orðið mun rýmra og sum ummæli sem áður hafi talist refsiverð á seinni hluta síðustu aldar séu nú talin rúmast innan marka tjáningarfrelsis.  Sé mikilvægt að gera greinarmun á staðreyndum og gildisdómum en í gildisdómi felist mat á staðreynd en ekki miðlun staðreynda og hljóti slíkt mat alltaf að vera huglægt.  Hafi mannréttindadómstóll Evrópu og dómstólar á Íslandi talið það óheimila skerðingu á tjáningarfrelsi að refsa manni fyrir meiðandi gildisdóm á þeirri forsendu að sannleiksgildi ummæla hans hafi ekki verið staðreynt.  Hafi íslenskir dómstólar skýrt gildisdóma með rúmum hætti og gengið langt í að flokka ummæli sem slík jafnvel þó þau hafi visst yfirbragð fullyrðingar um staðreyndir.  Þá hafi einnig verið litið á ummæli í heild sem gildisdóm þótt inn á milli séu staðhæfingar sem út af fyrir sig mætti krefjast beinnar sönnunar á.  Þá bendir aðalstefnda á að einstaklingar sem séu í sviðsljósinu séu taldir þurfa að þola nærgöngula og hvassyrta umræðu um verk sín og einnig að nokkru marki um persónu sína án þess að það varði ábyrgð.  Hafi aðalstefnendur sjálf staðfest að þau séu opinberar persónur eins og fram komi í stefnu.  Þá virðist aðalstefnendur líta svo á að ummælin séu hluti af opinberri umræðu, bæði í sunnlenskum fjölmiðlum og fjölmiðlum á landsvísu.   Sé því ljóst að aðalstefnendur séu bæði opinberar persónur og ummælin hluti af opinberri umræðu.  Þurfi þau því að þola harðorðari ummæli um sig en ella og því njóti ummælin ríkari verndar tjáningarfrelsisins.  Ummælin teljist ekki harðorð eða meiðandi og séu þau innan marka tjáningarfrelsisins. 

Aðalstefnda hafnar því að ummæli sem tilgreind eru í A-lið stefnunnar feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð aðalstefnenda og sé ekki með neinu móti rökstutt hvernig ummælin geti falið slíkt í sér.  Um sé að ræða gildismat sem falli án vafa innan marka tjáningarfrelsis.

Að því er varðar ummæli í B-lið segir aðalstefnda með öllu óskiljanlegt hvernig nafngiftin „Gudda“ geti falið í sér móðgun og þá bendi ekkert til þess að átt sé við aðalstefnanda Guðrúnu.  Samkvæmt íslenskri orðabók sé orðið Gudda einungis stuttnefi á sérnafninu Guðrúnu eða Guðríði og feli sem slíkt á engan hátt í sér móðgun.  Þá merki orðið „hnýsinn“ forvitinn eða fróðleiksgjarn og fráleitt um refsiverð meiðyrði að ræða.  Jafnvel þótt litið væri á orðið sem neikvætt hafi fyrri háttsemi aðalstefnanda Guðrúnar gefið aðalstefndu fullt tilefni til að líta á hana sem hnýsna.

Að því er varðar ummæli í C-lið um ómaga telur aðalstefnda hvergi koma fram að átt sé við aðalstefnendur og þá hafnar hún því alfarið að orðið geti í þessu samhengi talist móðgun og sérstaklega sé það ekki meiðyrði í skilningi hegningarlaganna og því innan marka tjáningarfrelsisins.

Aðalstefnda hafnar því alfarið að ummæli í D- og E-lið geti talist meiðandi eða móðgandi og þá komi hvergi fram í textanum að átt sé við aðalstefnanda Guðrúnu.

Aðalstefnda hafnar því einnig að ummæli í F-lið séu meiðandi og særandi fyrir aðalstefnanda Eggert.  Verið sé að lýsa persónulegri skoðun og væri litið svo á að ummælin væru móðgandi að einhverju leyti sé um gildisdóm að ræða sem falli innan marka tjáningarfrelsisins.

Að því er varðar ummæli í G-lið byggir aðalstefnda á því að hvergi komi fram að átt sé við aðalstefnanda Guðrúnu og þá verði ekki séð hvernig ummælin geti verið móðgandi eða falið í sér aðdróttanir.

Aðalstefnda hafnar því að með ummælum í H-lið sé átt við aðalstefnanda Eggert og þá sé einungis verið að lýsa þeirri skoðun að einhver geti verið til ama eða leiðinda.  Sú skoðun sé ekki sett fram á meiðandi eða móðgandi hátt og teljist því ekki meiðyrði. 

Aðalstefnda fær ekki séð hvernig ummæli í I-lið geti talist meiðandi þar sem ekki megi ráða af þeim að átt sé við aðalstefnanda Eggert.

Aðalstefnda hafnar því að með ummælum í J-lið sé átt við aðalstefnendur og þá fái ekki staðist að líta á „úrhrök“ sem meiðyrði þar sem einungis sé um skemmtisögu að ræða. 

Aðalstefnda vísar til þess að ummæli í K-lið séu sett fram í viðtengingarhætti og sé því ekki um meiðyrði að ræða.

Aðalstefnda telur rakalaust að ummæli í L-lið geti með einhverju móti talist meiðandi og þá sérstaklega falið í sér aðdróttanir í garð aðalstefnanda Eggerts.  Í stefnu sé vísað til þess að ummælin eigi við um látna foreldra hans sem jafnframt hafi verið afi og amma aðalstefndu.

Að því er varðar ummæli í M-lið taka aðalstefndu fram að hvergi komi fram að samkvæmt íslenskri orðabók sé „karlskröggur“ gamall maður og verði ekki séð að slík ummæli séu meiðandi.  Þá komi hvergi fram að átt sé við aðalstefnanda Eggert.

Aðalstefnda hafnar því að ummæli í N-lið séu meiðandi í skilningi almennra hegningarlaga.  Hvergi komi fram við hvern sé átt og ómögulegt að lesa það út úr textanum.  Jafnvel þó slíkt væri hægt séu ummælin vel innan marka tjáningarfrelsisins.

Aðalstefnda telur því ljóst að efnisskilyrði 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga séu ekki uppfyllt þar sem ummælin séu ekki meiðandi í skilningi ákvæðanna.  Þá verði ekki séð að ásetningur hafi staðið til þess að viðhafa meiðandi ummæli i garð annars aðila, sbr. 18. gr. sömu laga og beri því að sýkna aðalstefndu af öllum kröfum aðalstefnenda. 

Varakrafa aðalstefndu um niðurfellingu refsingar og annarra dómkrafna er  byggð á 239. gr. almennra hegningarlaga og jafnframt ólögfestri reglu sem sé víðtækari en reglan í 239. gr. og leiði til þess að sjónarmið um orðhefnd eða ótilhlýðilega háttsemi „hins meidda“ geti leyst undan refsiábyrgð og skyldu til greiðslu miskabóta.  Skoða verði ummælin í ljósi þeirrar umræðu og deilna sem verið hafi milli aðila og þeirra ummæla sem aðalstefnendur hafi viðhaft um aðalstefndu og eiginmann hennar, gagnstefnanda Runólf.  Hafi þau mátt þola mikið áreiti og ásakanir í sinn garð frá aðalstefnendum frá því deilurnar hófust vorið 2007, m.a. ásakanir um sauðaþjófnað og misneytingu

Þrautavarakrafa aðalstefndu um lækkun á dómkröfum er á því byggð að hin ætluðu ummæli eiga að hafa birst á bloggsíðu hennar sem hafi einungis verið aðgengileg þröngum hópi fólks og því hafi útbreiðslan verið lítil sem engin.  Þá sé miskabótakrafa aðalstefnenda allt of há og órökstudd með öllu.  Einnig sé krafa um greiðslu til að standa straum af kostnaði vegna birtingar á forsendum dóms og dómsorði í besta falli óeðlileg með hliðsjón af útbreiðslu ummælanna og eðli þeirra.

Málskostnaðarkrafa er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök gagnstefnenda.

Gagnstefnendur vísa til þess að dómkröfur í aðalsök og gagnsök varði ummæli sem eigi að hafa verið viðhöfð vegna illdeilna milli aðila. Kröfur gagnstefnenda séu samkynja kröfum stefnanda Eggerts í aðalsök, auk þess sem kröfurnar eigi rætur að rekja til sömu aðstöðu, það er illdeilna og málaferla aðila í millum. Telja gagnstefnendur því að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Enn fremur vísa gagnstefnendur, um heimild sína til að höfða sameiginlega gagnsök í málinu, til ákvæða 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Byggja gagnstefnendur á því að ummæli gagnstefnda varði við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og beri að ómerkja á grundvelli 1. mgr. 241. gr. sömu laga, enda séu þau bersýnilega til þess fallin að sverta mannorð gagnstefnenda. Ummæli gagnstefnda hafi falið í sér opinberar ásakanir og hafi gagnstefnendur hlotið andlegt tjón af.

Gagnstefnendur byggja á því að ummælin varði við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga og beri að ómerkja þau á grundvelli 1. mgr. 241. gr. sömu laga.  Felist í þeim staðhæfingar um að gagnstefnandi Runólfur hafi í félagi við eiginkonu sína framið alvarleg refsiverð hegningarlagabrot sem séu bersýnilega til þess fallin að sverta mannorð þeirra.

Gagnstefnendur telja ummæli sem rakin eru í lið 1.1. fela í sér staðhæfingu um að gagnstefnandi Runólfur hafi stundað sauðaþjófnað sem varðað geti refsingu samkvæmt auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga.  Séu ummælin sérstaklega meiðandi og særandi fyrir þau þar sem þau séu sökuð um mjög alvarleg lögbrot.  Sé um að ræða staðhæfingu sem enginn fótur sé fyrir og njóti ummælin ekki verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá saki gagnstefndi gagnstefnanda Runólf einnig um misneytingu sem varðað geti allt að tveggja ára fangelsi skv. 253. gr. almennra hegningarlaga.   Sé grafalvarlegt að koma með slíkar ásakanir og til þess fallið að sverta mannorð gagnstefnanda.

Gagnstefnendur byggja á sömu sjónarmiðum og að ofan greinir varðandi ummæli í lið 1.2.  Gagnstefndi hafi haldið því fram í dagblaði sem dreift sé um allt land að gagnstefnandi Runólfur hafi í félagi við eiginkonu sína gerst sekur um sauðaþjófnað.  Hafi ummælin verið mjög meiðandi og sérstaklega vítavert að gagnstefndi skuli hafa haldið því fram að hann hefði sannanir fyrir ásökunum sínum sem geri hinar haldlausu staðhæfingar hans enn áhrifameiri. 

Gagnstefnendur byggja á því að ummælin í lið 1.3. feli í sér ásakanir um svik af hálfu gagnstefnenda þegar þau hafi keypt jörðina Bergþórshvol 2 af gagnstefnda.  Séu ummælin afar meiðandi og feli í sér staðhæfingu um hegningarlagabrot.

Krafa gagnstefnenda um miskabætur er byggð á b- lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Gagnstefnendur séu flekklaust fólk og óopinbert sem hafi ekkert gert til að verðskulda jafnmikið áreiti og lygar á opinberum vettvangi og þau hafi mátt þola af hálfu gagnstefnda.  Hafi gagnstefndi með framangreindum ummælum svert mannorð gagnstefnenda sem hafi sætt því að vera margoft ásökuð um sauðaþjófnað og misneytingu.  Hið andlega tjón sem gagnstefnendur hafi orðið fyrir sé eðli málsins samkvæmt töluvert.

 Varðandi kröfu sína um fjárhæð til að standa straum af kostnaði vegna birtingar á forsendum dóms og dómsorði vísa gagnstefnendur til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og benda á að hluti ummæla gagnstefnda hafi verið birt í fjölmiðli er dreift sé um allt land og sé þeim því nauðsynlegt að birta forsendur dóms og dómsorð í fjölmiðlum. Varðandi refsikröfu vísa gagnstefnendur til ákvæða 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991. 

Málsástæður og lagarök gagnstefnda.

Gagnstefndi bendir á að ummæli í lið 1.1. hafi verið borin fram í bréfi sem ekki hafi verið ætlað til opinberrar birtingar og hafi þau verið sett fram í tengslum við verulega harkaleg samskipti aðila.  Þá bendir gagnstefndi á að yfirskrift bréfsins sé Sauðaþjófar? en orðið sauðaþjófur eða sauðaþjófnaður hafi yfir sér fyrnda merkingu sem vísi til allt annarra þjóðhátta en nú séu.  Það dragi úr þunga orðsins sem þannig fái á sig allt að því óraunverulegan blæ.  Þá verði að skoða ummælin í því ljósi að þau hafi verið sett fram í þröngum hópi og í tengslum við deilur um uppgjör.  Gagnstefndi vísar til sömu raka að því er varðar ummæli í lið 1.2. að öðru leyti en því að þau hafi verið birt í dagblaði.  Ummælin hafi hins vegar verið í tengslum við tilteknar deilur og verði að skoðast sem slík.  Að því er ummæli í lið 1.3. varðar bendir gagnstefndi á að Hæstiréttur hafi staðfest með dómi að á sínum tíma hafi verð jarðarinnar Bergþórshvols 2 verið undir markaðsverði.  Gagnstefndi fellst þó á að orðin „véla“ og „hálfvirði“ séu nokkuð litsterk en þau verði að skoða í samhengi við harkalegar deilur aðila.

Gagnstefndi byggir á því að hin umstefndu ummæli hafi fallið í beinum tengslum við tiltekin atvik þar sem á hann hafi verið hallað og hafi þau ekki verið að tilefnislausu.  Séu ummæli, þótt nokkuð dimmlit séu, ekki refsiverð samkvæmt ákvæðum 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga.  Þá megi túlka ummælin sem orðhefnd þess sem lotið hafi í lægra haldi.

Gagnstefndi byggir á því að miskabótakrafa sé vanreifuð svo og krafa um greiðslu til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms og beri að vísa þessum kröfum frá dómi.

Krafa um málskostnað er reist á 130., gr. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Samkvæmt gögnum málsins hafa aðilar máls þessa undanfarin ár átt í harðvítugum deilum og málaferlum sem eiga rætur að rekja til þess er aðalstefnandi Eggert seldi aðalstefndu jörðina Bergþórshvol 2.  Var svo um hnútana búið að aðalstefnandi skyldi hafa búseturétt til lífstíðar í íbúðarhúsinu án þess að nánar væri kveðið á um inntak þess réttar.  Virðist sambýlið hafa gengið vægast sagt illa og ýmislegt gengið á  í samskiptum aðila.   Aðalstefnda hefur kannast við að hafa birt ummæli þau sem rakin eru í aðalsök á vefmiðlinum MySpace í 9 færslum á tímabilinu frá 21. febrúar 2008 til 6. júlí sama ár.   Hins vegar hafi ekki verið um opinbera birtingu að ræða heldur skrif sem einungis hafi verið ætluð fjölskyldu hennar og nánustu vinum.  Hafi síðan verið læst og einungis þeir sem aðalstefnda hafi samþykkt sérstaklega hafi getað lesið skrif hennar, en aðalstefnendur hafi ekki verið með aðgang að síðunni og skrifum aðalstefndu.  Ekki hefur verið í ljós leitt hvernig ummælin komust til vitundar aðalstefnenda en ljóst er að aðalstefnda hefur ekki búið svo um hnútana að tryggt væri að þau breiddust ekki út.  Ber hún því fulla ábyrgð á þeim birtingarhætti sem hún valdi ummælum sínum og hafi þau brotið gegn æruvernd aðalstefnenda ber hún refsi- og fébótaábyrgð á þeim samkvæmt áðurgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga og skaðabótalaga.  Í því sambandi verður einnig að skoða stjórnarskrárvarinn rétt hennar til tjáningar.

Kemur þá til skoðunar hvort aðalstefnda hafi gerst sek um refsiverða meingerð gagnvart aðalstefnendum með ummælum þeim sem rakin eru í aðalsök í þeirri röð er í stefnu greinir í stafliðum A-N, en það athugast að ummælin eru þar rakin í öfugri tímaröð.

Ummæli í A-lið fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir í garð aðalstefnenda að mati þeirra en aðalstefnda byggir því að ekki sé rökstutt með hvernig ummælin geti falið slíkt í sér.  Sé um gildismat að ræða sem falli án vafa innan marka tjáningarfrelsins.  Umrædd ummæli lúta að því að þeir sem lendi í klóm aðalstefnenda lendi allir á dauðalista.  Að mati dómsins eru ummæli af þessum toga óviðurkvæmileg og fráleitt að aðalstefnendur þurfi að sæta slíku orðavali af hálfu aðalstefndu.  Hefur aðalstefnda því með þessum ummælum farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og eru ummælin ærumeiðandi og ber að ómerkja þau.

Ummæli í B-lið fela að mati aðalstefnenda í sér móðgun með nafngiftinni Gudda og auk þess aðdróttun um hnýsni aðalstefnandans Guðrúnar.  Aðalstefnda byggir á því að einungis sé um stuttnefni að ræða sem feli ekki á neinn hátt í sér móðgun og þá sé fráleitt að notkun orðsins hnýsinn, sem þýði forvitinn, feli í sér meiðyrði.  Að mati dómsins er framangreind orðanotkun aðalstefndu innan marka þess tjáningarfrelsis er hún nýtur og verður ekki fallist á að um ærumeiðingar sé að ræða.

Telja verður nægilega upplýst að með ummælum sínum í C-lið hafi aðalstefnda átt við aðalstefnendur en þar er vikið að því að aðalstefnandi Eggert sé ómagi en aðalstefnda Guðrún hnýsin.  Með sömu rökum og að framan greinir ber að hafna því að aðalstefnda hafi gerst sek um meiðyrði með því að nota orðið hnýsin um aðalstefndu Guðrúnu.  Samkvæmt íslenskri orðabók er ómagi persóna sem getur ekki unnið fyrir sér sjálf, t.d. barn eða gamalmenni.  Verður því ekki talið að sú nafngift sé ærumeiðandi fyrir aðalstefnanda Eggert.

Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt nægilega fram á að aðalstefnda hafi með ummælum sínum í D-lið átt við aðalstefnanda Guðrúnu og verður hún hún því sýknuð af kröfugerð aðalstefnenda að því er þennan lið varðar.

Að mati dómsins hafa aðalstefnendur ekki rökstutt nægilega með hvaða hætti ummæli í E-lið eiga að vera móðgandi aðdróttun í garð þeirra.  Verður þessum kröfulið því hafnað.

Ummæli sem rakin eru í F-lið sýnast snúa að gestum aðalstefnanda Eggerts en ekki honum persónulega.  Verður því ekki séð hvernig ummælin geta verið meiðandi og særandi fyrir hann og verður aðalstefnda því sýknuð af þessum kröfulið.

Að mati dómsins hafa aðalstefnendur ekki rökstutt nægilega með hvaða hætti ummæli í G-lið eiga að vera móðgandi aðdróttun í garð aðalstefnanda Guðrúnar.  Verður þessum kröfulið því hafnað.

Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt nægilega fram á að aðalstefnda hafi með ummælum sínum í H-, I og J-liðum átt við aðalstefnanda Eggert og verður hún hún því sýknuð af kröfugerð aðalstefnenda að því er þessa liði varðar.

Með ummælum í K-lið lætur aðalstefnda að því liggja að aðalstefnandi Guðrún bíði í ofvæni eftir dauða aðalstefnanda Eggerts og sé tilbúin með eitursprautu  ef færi gefst.  Að mati dómsins fela þessi ummæli í sér ærumeiðandi brigsl og aðdróttanir í garð aðalstefnanda Guðrúnar og hefur aðalstefnda með þessum ummælum farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og eru ummælin ærumeiðandi og ber að ómerkja þau.

Ummæli sem rakin eru í L-lið eru tekin úr færslu sem ber yfirskriftina „Vitrun“ og lýsir aðalstefnda þar yfirnáttúrulegum samskiptum sínum við afa sinn og ömmu, sem bæði munu vera látin og telur ummælin frá þeim komin.  Þau munu einnig vera foreldrar aðalstefnanda Eggerts og telur hann að í ummælunum felist aðdróttanir í garð hans.  Að mati dómsins hafa aðalstefnendur ekki rökstutt nægilega með hvaða hætti þessi ummæli eiga að vera aðdróttun í garð aðalstefnanda Eggerts.  Verður þessum kröfulið því hafnað.

Ekki verður fallist á að í nafngiftinni „karlskröggur“ felist móðgun eins og aðalstefnendur halda fram í M-lið og verður þessi kröfuliður ekki tekinn til greina.

Ummæli sem rakin eru í N-lið lúta að því að aðalstefnandi Eggert hafi eignast jörð með þeim hætti að hella gamlan mann fullan og látið hann síðan skrifa undir skjöl þar sem hann afsalaði jörðinni til aðalstefnanda Eggerts.  Að mati dómsins eru ummæli af þessum toga sérstaklega óviðurkvæmileg og fráleitt að aðalstefnandi Eggert þurfi að sæta slíkum sakaráburði af hálfu aðalstefndu.  Hefur aðalstefnda því með þessum ummælum farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og eru ummælin ærumeiðandi og ber að ómerkja þau.

Þá kemur til skoðunar hvort gagnstefndi hafi gerst sekur um refsiverða meingerð gagnvart gagnstefnendum með ummælum þeim sem rakin eru í gagnsök, töluliðum 1.1, 1.2 og 1.3.

Í liðum 1.1. og 1.2. er látið að því liggja að gagnstefnendur hafi stundað sauðaþjófnað og eru slík ummæli að mati dómsins óviðurkvæmileg og fráleitt að þau þurfi að sæta slíkum sakaráburði af hálfu gagnstefnda.  Hefur gagnstefndi því með þessum ummælum farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og eru ummælin ærumeiðandi og ber að ómerkja þau.

Ummæli í lið 1.3. lúta að viðskiptum aðila þegar gagnstefnendur keyptu umrædda jörð af gagnstefnda en hann hefur freistað þess með málaferlum að kaupsamningi um jörðina yrði breytt með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 þannig að kaupverð hennar yrði ákveðið annað og hærra.  Telja verður að gagnstefndi hafi með þessum ummælum sínum verið að vísa til þessa málatilbúnaðar síns og verður ekki talið að hann hafi með þeim farið út fyrir mörk leyfilegs tjáningarfrelsins og verður hann því sýknaður af kröfugerð að því er þennan lið varðar.

Í aðalsök og gagnsök er krafist refsingar fyrir þau ummæli sem þar eru rakin.  Eins og að framan er rakið hafa aðalstefnda Benedikta og gagnstefndi Eggert gerst sek um brot gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.  Rétt þykir með vísan til 239. gr. sömu laga að láta refsingu þeirra falla niður.

Aðalstefnendur gera hvort um sig kröfu um miskabætur úr hendi aðalstefndu að fjárhæð 4.000.000 krónur.  Fallast ber á það að í þeim ummælum sem ómerkt verða felist meingerð gegn persónu og æru aðalstefnenda sem aðalstefnda ber ábyrgð á og henni beri að bæta með miskabótum í samræmi við ákvæði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þykja miskabætur til aðalstefnenda hæfilega ákveðnar 300.000 krónur fyrir hvort um sig.  Eftir atvikum þykir mega ákveða að bæturnar beri dráttarvexti frá uppkvaðningu dómsins til greiðsludags.

Aðalstefnendur gera kröfu um að aðalstefndu verði gert að greiða þeim 800.000 krónur til að standa straum af kostnaði við birtingu forsendna dóms og dómsorðs í fjölmiðlum á Suðurlandi og á landsvísu.  Engin grein er gerð fyrir því hvernig þessi fjárhæð er fundin og engar verðskrár hafa verið lagðar fram er sýna gjaldtöku vegna slíkrar birtingar.  Er þessari kröfu því vísað frá dómi ex officio.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður í aðalsök.

Gagnstefnendur gera hvort um sig kröfu um miskabætur úr hendi gagnstefnda að fjárhæð 1.500.000 krónur.  Fallast ber á það að í þeim ummælum sem ómerkt verða felist meingerð gegn persónu og æru gagnstefnenda sem gagnstefndi ber ábyrgð á og honum beri að bæta með miskabótum í samræmi við ákvæði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þykja miskabætur til gagnstefnenda hæfilega ákveðnar 300.000 krónur fyrir hvort um sig.  Eftir atvikum þykir mega ákveða að bæturnar beri dráttarvexti frá uppkvaðningu dómsins til greiðsludags.

Gagnstefnendur gera kröfu um að gagnstefnda verði gert að greiða þeim 500.000 krónur til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna í fjölmiðlum á Suðurlandi og á landsvísu.  Engin grein er gerð fyrir því hvernig þessi fjárhæð er fundin og engar verðskrár hafa verið lagðar fram er sýna gjaldtöku vegna slíkrar birtingar.  Er þessari kröfu því vísað frá dómi ex officio.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður í gagnsök.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp þennan dóm. Uppkvaðning hans hefur dregist fram yfir lögbundinn frest, en dómari og lögmenn aðila voru sammála um að endurflutnings væri ekki þörf.

DÓMSORÐ :

Framangreind ummæli sem rakin eru í stafliðum A, K og N í aðalsök skulu vera dauð og ómerk.

Framangreind ummæli sem rakin eru í töluliðum 1.1. og 1.2. í gagnsök skulu vera dauð og ómerk.

Aðalstefnda, Benedikta Haukdal, greiði aðalstefnendum, Eggerti Haukdal og Guðrúnu Bogadóttur hvoru um sig 300.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá uppkvaðningu dómsins til greiðsludags.

Gagnstefndi, Eggert Haukdal, greiði gagnstefnendum, Benediktu Haukdal og Runólfi Maack, hvoru um sig 300.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá uppkvaðningu dómsins til greiðsludags.

Í aðalsök og gagnsök er vísað frá dómi ex officio kröfum um greiðslu kostnaðar vegna birtingar dóms.

Málskostnaður í aðalsök og gagnsök fellur niður.