Print

Mál nr. 69/2012

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Meiðyrði
  • Ómerking ummæla
  • Skaðabætur

Fimmtudaginn 15. nóvember 2012.

Nr. 69/2012.

Jón Ásgeir Jóhannesson

(Ragnar H. Hall hrl.)

gegn

Svavari Halldórssyni

(Karl Axelsson hrl.)

Ærumeiðingar. Meiðyrði. Ómerking ummæla. Skaðabætur.

J höfðaði mál á hendur S og krafðist ómerkingar tiltekinna ummæla sem féllu í upphafi aðalfréttatíma RÚV 6. desember 2010 kl. 19 en þau voru hluti ummæla í frétt sem S flutti umrætt sinn. Taldi J að S hefði farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns með því að blanda honum í frétt um fyrirtækið F sem var í eigu P og aðkomu J að lánveitingu F til fyrirtækis í Panama ásamt þeim P og H. Hæstiréttur taldi að þegar efni fréttarinnar væri metið í heild og ummæli þau sem krafist væri ómerkingar á væru virt í samhengi við önnur ummæli í fréttinni og að teknu tilliti til myndrænnar framsetningar, yrðu þau ekki skilin á annan veg en þann að með þeim væri verið að bera J á brýn háttsemi sem væri refsiverð og félli undir ákvæði almennra hegningarlaga. S hafi engin gögn lagt fram um að ummælin ættu við rök að styðjast eða að hann hafi við vinnslu fréttarinnar leitað eftir upplýsingum frá J um efni hennar. Taldi Hæstiréttur því að S gæti ekki hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla sem í fréttinni fólust. Var fallist á kröfu J um ómerkingu ummælanna og S dæmdur til að greiða honum 300.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. janúar 2012. Hann krefst þess að ummælin „Jón Ásgeir Jóhannesson“ og „þremenninganna“ sem voru hluti ummæla sem stefndi viðhafði í aðalsjónvarpsfréttatíma Ríkisútvarpsins 6. desember 2010 kl. 19 verði dæmd dauð og ómerk og að stefndi greiði sér 3.000.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. desember 2010 til greiðsludags. Jafnframt krefst áfrýjandi þess að stefndi greiði sér 600.000 krónur til að kosta birtingu forsendna og dómsorðs í tveimur dagblöðum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu krefst áfrýjandi ómerkingar áðurgreindra ummæla sem féllu í upphafi aðalfréttatíma ríkissjónvarpsins 6. desember 2010 kl. 19 en þau voru hluti ummæla í frétt sem stefndi flutti umrætt sinn. Í fréttinni, sem lýst er í heild í hinum áfrýjaða dómi, kom fram að Fons, fyrirtæki Pálma Haraldssonar, hafi lánað fyrirtækinu Pace Associates í Panama 3.000.000.000 krónur og hafi féð verið millifært 24. apríl 2007. Hafi lánssamningur vegna þessa verið dagsettur 30. apríl sama ár, eða sex dögum síðar. Um hafi verið að ræða svokallað kúlulán sem var á gjalddaga þremur árum síðar, en sama dag og gengið hafi verið frá lánssamningnum hafi það verið afskrifað í bókhaldi Fons. Kom fram í fréttinni að fréttastofan hafi vikuna á undan reynt að ná sambandi við áðurnefndan Pálma til að spyrja hann út í þessi viðskipti. Þá sagði stefndi: „Fons er á hinn bóginn gjaldþrota og þrotabúið leitar fjárins. Það hafa yfirvöld hér á landi líka gert, eins og við höfum áður greint frá, og þau telja sig komin á slóð peninganna, enda hafa þau undir höndum gögn sem benda til þess að þeir Pálmi, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hafi skipulagt Panama-fléttuna fyrirfram. Það er að koma peningunum út til Panama en síðan hafi féð ratað aftur eftir krókaleiðum í vasa þremenninganna.“

II

Áfrýjandi telur að stefndi hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og brotið gegn friðhelgi einkalífs áfrýjanda með því að blanda honum í frétt þá sem um ræðir. Stefndi reisir vörn sína á því að hann njóti ríks tjáningarfrelsis við slíka umfjöllun sem fréttamaður á fjölmiðli þegar fjallað er um mikilvæg þjóðfélagsmál. Við mat á því hvar draga skuli mörkin milli tjáningarfrelsis, sem nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár, og friðhelgi einkalífs, sem varin er af 71. gr. hennar, skiptir miklu hvort það efni sem birt er geti talist þáttur í þjóðfélagslegri umræðu og eigi þannig erindi til almennings, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 1. júní 2006 í máli nr. 541/2005, 1. mars 2007 í máli nr. 278/2006, 10. nóvember 2011 í máli nr. 65/2011 og 24. nóvember 2011 í máli nr. 100/2011. Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna við miðlun upplýsinga og skoðana um þjóðfélagsleg málefni. Almenningur á rétt á að fá upplýsingar sem slík málefni varða og þurfa sérstaklega ríkar ástæður að vera fyrir því að skerðing á frelsi fjölmiðla geti talist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Það hrun sem varð í íslensku efnahagslífi við fall íslensku viðskiptabankanna þriggja haustið 2008 hefur haft mikil og almenn áhrif á alla starfsemi í landinu og kjör almennings. Opinber umræða og umfjöllun fjölmiðla hefur frá þeim tíma mjög snúist um að greina aðdraganda og orsakir þess hvernig fór og hefur umfjöllun um fjárhagsleg málefni einstakra manna oft verið nærgöngul.

Þegar efni þeirrar fréttar, sem hér er fjallað um, er metið í heild og ummæli þau sem krafist er ómerkingar á virt í samhengi við önnur ummæli í fréttinni og að teknu tilliti til myndrænnar framsetningar, verða þau ekki skilin á annan veg en þann að með þeim sé verið að bera áfrýjanda á brýn háttsemi sem er refsiverð og fellur undir ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur stefndi engin gögn lagt fram um að tilgreind ummæli um áfrýjanda eigi við rök að styðjast og verður hann að bera hallann af því, en það stóð honum nær en áfrýjanda að tryggja sér slíka sönnun. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann hafi við vinnslu fréttarinnar leitað eftir upplýsingum frá áfrýjanda um efni hennar. Gætti hann því ekki þeirrar skyldu sem fram kemur í 2. gr. reglna um fréttir og dagskrárefni tengt þeim í Ríkisútvarpinu frá 1. maí 2008 að leita „ ... upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og leitast við að kynna sjónarmið þeirra sem jafnast.“ Getur stefndi því ekki talist hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla um áfrýjanda sem í fréttinni fólust. Að þessu virtu verður fallist á kröfu áfrýjanda um ómerkingu tilvitnaðra ummæla með vísan til 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga.

Vegna hinna ærumeiðandi ummæla þykir áfrýjandi eiga rétt á miskabótum úr hendi stefnda samkvæmt b. lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á fjárhæð þeirra verður að líta til þess að með dómi um ómerkingu ummælanna er hlutur áfrýjanda verulega réttur. Þykir það ekki draga úr miska áfrýjanda að hann hafi áður látið yfir sig ganga ýmis ummæli, meðal annars sams konar ummæli og hér eru til umfjöllunar í frétt sem stefndi flutti í ríkissjónvarpinu 28. maí 2010. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði. Ekki eru efni til að dæma stefnda til greiðslu kostnaðar af birtingu dómsins í dagblöðum samkvæmt heimild í 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ummælin „Jón Ásgeir Jóhannesson“ og „þremenninganna“, sem voru hluti fréttar er stefndi, Svavar Halldórsson, flutti í sjónvarpsfréttatíma Ríkisútvarpsins 6. desember 2010 kl. 19, eru ómerkt.

Stefndi greiði áfrýjanda, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, 300.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 22. desember 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2011.

Mál þetta var þingfest 12. janúar 2011 og tekið til dóms 25. október sl. Stefnandi er Jón Ásgeir Jóhannsson, Bretlandi, en stefndi er Svavar Halldórsson, [...], Hafnarfirði.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur á hendur stefnda:

1.       Að ummælin „Jón Ásgeir Jóhannesson“ og „þremenninganna“, sem voru hluti í eftirfarandi ummælum, sem stefndi viðhafði í aðalfréttatíma ríkisútvarpsins kl. 19:00 hinn 6. desember 2010, verði dæmd dauð og ómerk:

„Það hafa yfirvöld hér á landi líka gert, eins og við höfum áður greint frá, og þau telja sig komin á slóð peninganna enda hafa þau undir höndum gögn sem benda til þess að þeir Pálmi, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hafi skipulagt Panama-fléttuna fyrirfram. Það er að koma peningunum út til Panama en síðan hafi féð ratað aftur eftir krókaleiðum í vasa þremenninganna.“

2.       Að stefndi verði dæmdur til refsingar vegna ofangreindra ummæla og birtingar þeirra, samkvæmt 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.

3.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.000.000 krónur í miskabætur auk dráttarvaxta af fjárhæðinni samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.

4.       Að stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum.

5.       Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi við aðalmeðferð eða samkvæmt mati dómsins. 

Af hálfu stefnda er krafist sýknu og málskostnaðar.

I.

Málavaxtalýsing stefnanda.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hann hafi verið forstjóri og stjórnarformaður Baugs Group hf., hér eftir nefnt Baugur. Hinn 18. júlí 2008 hafi stefnandi látið af stjórnarformennsku í Baugi og ekki gegnt formlegri stöðu hjá félaginu eftir það. Á árinu 2001 hafi Baugur farið að horfa til fjárfestingatækifæra í Evrópu, einkum á Bretlandi. Á árinu 2003 hafi Baugur breyst úr rekstrarfélagi með meginstarfsemi í verslunarrekstri á Íslandi í alþjóðlegt fjárfestingarfélag. Á árunum 2003 og fram að gjaldþroti félagsins í mars 2009 hafi Baugur byggt upp gríðarlega mikið eignasafn bæði hér heima og erlendis, einkum á sviði smásöluverslunar og fasteignaverkefna.

Vegna alþjóðlegrar fjármálakreppu á árinu 2008 hafi rekstur Baugs þyngst verulega og erfiðara orðið um vik að fjármagna félagið. Fjárhagslegir erfiðleikar Baugs hafi hafist fyrir alvöru þegar tilkynnt hafi verið um fyrirhugaða þjóðnýtingu á 75% hlutafjár Glitnis banka hf. hinn 29. september 2008 en í desember 2007 hafði Baugur aukið hlutafé FL Group hf. um u.þ.b. 60 milljarða. Í september 2008 hafi það hlutafé orðið verðlaust með öllu. Skýri það gjaldþrot Baugs Group hf. í mars 2009. Þá strax hafi hafist vinna við fjárhagslega endurskipulagningu Baugs sem gengið hafi undir nafninu „Project Sunrise“ og hafi falið í sér að kröfuhafar félagsins fengju fullar efndir krafna sinna á nokkrum árum. Sú vinna hafi ekki gengið eftir. Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. hafi óskað eftir því að dótturfélag Baugs, sem hafi haldið utan um verðmætustu eignir félagsins í Bretlandi, yrði sett í greiðslustöðvun þar í landi. Daginn eftir hafi  stjórn Baugs óskað eftir greiðslustöðvun fyrir félagið. Viðræður um fjárhagslega endurskipulagningu hafi reynst árangurslausar. Hinn 13. mars 2009 hafi stjórn Baugs óskað eftir því að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Stefnandi hafi frá upphafi hruns íslenska fjármálakerfisins verið umfjöllunarefni fjölmiðla. Þannig hafi ítrekað verið fluttar fréttir af þátttöku hans í íslensku atvinnulífi fram að hruni. Oft hafi verið hallað réttu máli í þeirri umfjöllun. Steininn hafi þó tekið úr í aðalfrétt ríkissjónvarpsins 6. desember sl. þegar sagt hafi verið að stefnandi hafi skipulagt lánaviðskipti Fons hf., sem lýst sé í fréttinni sem ólögmætum, og því til viðbótar að hann hefði móttekið fé tengt þeim viðskiptum. Hér sé lýst skýlausu auðgunarbroti stefnanda ef satt væri. Fréttin sé alröng hvað stefnanda varðar.

Fréttin er í heild sinni þannig:

„Þriggja miljarða króna lán afskrifað sama dag og samningur var undirritaður

Fons, fyrirtæki Pálma Haraldssonar, afskrifaði lán til fyrirtækisins Pace í Panama, þremur árum áður en það var á gjalddaga. Féð var millifært áður en gengið hafði verið frá lánasamningi.

Þrír milljarða króna fóru vorið 2007 frá Fons, fyrirtæki sem áður var hryggjastykkið í viðskiptaveldi Pálma Haraldssonar, í gegnum Landsbankan í Lúxemborg til fyrirtækisins Pace Associates í Panama. Pálmi sagði í yfirlýsingu vegna fyrri frétta Ríkisútvarpsins af þessum viðskiptum að Pace hafi verið kynnt sér sem áhættufjárfestingarsjóður sem fjárfesti meðal annars í fasteignaverkefnum á Indlandi og hygðist efla starfsemi sína, meðal annars með fjárfestingum í skráðum erlendum verðbréfum og fasteignum víða um heim. Féð var millifært til Panama 24. apríl 2007. Lánasamningur vegna þessa er dagsettur sex dögum síðar, 30. apríl. Þetta var svokallað kúlulán þar sem öll upphæðin var á gjalddaga nákvæmlega þremur árum síðar. Ekkert var óeðlilegt við lánveitinguna, segir í yfirlýsingu Pálma. Sama dag og gengið var frá lánasamningnum, þremur árum áður en lánið var á gjalddaga, var það hins vegar afskrifað í bókhaldi Fons. Fréttastofa hefur reynt að ná sambandi við Pálma Haraldsson síðustu viku til að spyrja hann út í málefni Pace. Hvað hafi orðið til þess, sama dag og menn undirrituðu lánasamninginn, að þeir hafi áttað sig á því að ekki væri hægt að innheimta lánið og ákveðið að afskrifa það? Á bak við eigendur og stjórnarmenn í Pace, ef marka má firmaskrá þar syðra, er frumskógur skúffufyrirtækja. Fons er á hinn boginn gjaldþrota og og þrotabúið leitar fjárins. Það hafa yfirvöld hér á landi líka gert, eins og við höfum áður greint frá, og þau telja sig komin á slóð peninganna, enda hafa þau undir höndum gögn sem benda til þess að þeir Pálmi, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hafi skipulagt Panama-fléttuna fyrirfram. Það er að koma peningunum út til Panama en síðan hafi féð ratað aftur eftir krókaleiðum í vasa þremenninganna.“

Stefnandi kveður Fons hf. hafa verið stefnanda með öllu óviðkomandi. Vegna þess sé stefnandi ekki í stöðu til að krefjast ómerkingar annars í fréttinni en birtingar á nafni sínu sem tengi hann með beinum hætti við fréttina. Í því felist ekki að önnur atriði fréttarinnar séu rétt. Um það hafi stefnandi einfaldlega ekki vitneskju.

Við vinnslu fréttarinnar hafi ekki verið haft samband við stefnanda þrátt fyrir að starfsreglur RÚV kveði á um að slíkt skuli gert. Stefnandi telur að með fréttinni hafi verið vegið gróflega að æru sinni og heiðri. Stefndi hafi sagt opinberlega að hann standi við fréttina. Vegna þess hafi það enga þýðingu að gefa stefnda kost á að leiðrétta fréttina og biðjast afsökunar. Það sem geri fréttaflutninginn enn alvarlegri sé að stefndi hafi flutt nánast sömu frétt hinn 24. og 28. maí sl. Stefnandi telur sig ekki þurfa að sitja undir slíkum fréttaflutningi. Stefnandi eigi þann eina kost að höfða þetta mál og fá birtingu nafns síns í fréttinni dæmda dauða og ómerka.

Málsástæður stefnanda.

Almennt og um ómerkingu ummæla.

Stefnda sé stefnt sem flytjanda fréttarinnar með heimild í a-lið 1. mgr. 26. gr. útvarpslaga nr. 53/2000 en samkvæmt ákvæðinu beri flytjandi útvarpsefnis refsi- og fébótaábyrgð á því.

Stefnandi hafi á liðnum árum látið ýmislegt yfir sig ganga þegar komi að fréttaflutningi. Í fréttinni séu rakin einhver lánaviðskipti Fons hf. sem stefnandi hafi ekki komið nálægt né haft hagsmuni af. Rétt sé að taka fram að stefnandi hafi hvorki verið hluthafi í Fons hf. né stýrt því fyrirtæki. Stefnandi sætti sig ekki við að fréttamenn geti án ábyrgðar haldið hverju sem er fram um hann, sérstaklega ekki þegar um refsivert athæfi sé að ræða. Fréttin byggist á því einu að fréttamaðurinn fullyrði að yfirvöld telji sig komin á slóð peninga úr lánaviðskiptum Fons hf. og þau hafi undir höndum gögn sem bendi til að þrír aðilar, þ.m.t. stefnandi, hafi skipulagt lánaviðskiptin og fjármunir hafi runnið til stefnanda.

Stefndi vísi ekki til neinna gagna sem heimild fyrir fréttinni né virðist hann hafa nokkuð fyrir sér. Í þessu efni þurfi að hafa í huga að um er að ræða alvarlegar ásakanir um refsivert athæfi sem myndu leiða til margra ára fangelsisdóms yfir stefnanda ef sannar væru. Við slíkar fréttir verði að gera ríkari kröfur til fréttamanna, einnig þegar þeir fjalli um atriði sem þeir tengi við hrun íslensks efnahagslífs fyrstu vikuna í október 2008. Gera verði þá kröfu til fréttamanna að þeir sýni fram á sannleiksgildi fréttaflutnings síns með gögnum eða heimildarmönnum. Stefndi hafi hvorugt gert. Stefnandi þurfi ekki að sæta slíkum fréttaflutningi. Geti stefndi ekki sannað fullyrðingar sínar í fréttinni beri að dæma áfall á hendur honum. Ekki sé nægjanlegt fyrir fréttamann að vísa til þess að hann hafi einhverjar heimildir ef hann geti ekki lagt fram gögn þeim til sönnunar.

Sérstaklega eigi það við þegar fréttin sé sett fram sem sannindi. Hún feli ekki í sér gildisdóma um stefnanda eða skoðanir stefnda á honum. Fréttin, hvað stefnanda varðar, sé ósönn og beinlínis röng um atriði sem myndu varða stefnanda fangelsisrefsingu ef sönn væru. Beri að líta til þess við ákvörðun miskabóta. Ekki fari á milli mála að í fréttinni sé því haldið fram að um refsivert athæfi hafi verið að ræða. Með fréttinni sé dróttað að því að stefnandi hafi með auðgunarbroti haft fé af Fons hf. í félagi við aðra í skjóli einhverrar lánveitingar. Með málssókn þessari lýsi stefnandi því sérstaklega yfir að umræddir fjármunir hafi aldrei komið til stefnanda né til fyrirtækja á hans vegum, hvorki hér heima né erlendis, beint eða óbeint. Stefnandi hafi enga aðkomu átt að þessum lánaviðskiptum Fons hf. né átt þátt í að skipuleggja þau.

Ekki hafi verið haft samband við stefnanda við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir að stefnda hafi borið að gera það á grundvelli 2. og 3. gr. reglna um fréttir og dagskrárefni tengt þeim í Ríkisútvarpinu.

Málið sé sýnu alvarlega þegar fyrir liggi að stefnandi hafi flutt nánast sömu frétt 24. og 28. maí 2010. Í fyrri fréttinni hafi nafn stefnanda ekki verið nefnt en minnst sé á klíku sem eigi að hafa rænt Glitni banka hf. innan frá. Fari ekki á milli mála að átt sé m.a. við stefnanda, sbr. fjölmiðlaumfjöllun um stefnanda frá því slitastjórn Glitnis banka hf. hafi ákveðið að höfða tilhæfulaust dómsmál gegn honum fyrir dómstóli í New York ríki í Bandaríkjunum þar sem hann, ásamt sex öðrum einstaklingum, hafi verið krafinn um skaðabætur að fjárhæð 2 milljarðar bandaríkjadala. Málinu hafi verið vísað frá dómi 14. desember sl. Í fréttinni frá 28. maí 2010 hafi nafn stefnanda hins vegar verið nefnt í tvígang.

Sé því enn meiri ástæða fyrir málssókn stefnanda á hendur stefnda nú og beri að taka tillit til þess við ákvörðun miskabóta. Athygli sé vakin á því að nánast sama orðalag sé í fréttunum með ríflega sex mánaða fyrirvara án þess að nokkuð hafi gerst í málinu í millitíðinni. Sé því óskiljanlegt af hverju stefndi höggvi í sama knérunn án þess að neitt nýtt hafi komið fram. Bendi það til að annarlegar hvatir stefnda hafi ráðið för við fréttaflutning hans.

Kröfugerð.

Í kröfugerð séu tilfærð ummæli sem stefndi hafi viðhaft í tveimur setningum. Stefnandi krefjist ómerkingar á hluta þessara ummæla, þ.e. þeirra sem varði hann beint. Með þessu afmarki stefnandi kröfugerð sína við þann þátt ummælanna sem snúi að honum. Sé þetta byggt á þeirri afstöðu að stefnandi eigi ekki aðild að víðtækari kröfugerð um ómerkingu ummæla. Það varði eftir atvikum hinna einstaklinganna, sem nafngreindir séu, að bregðast við fréttinni að því er þá varði.

Krafa um miskabætur.

Miskabótakrafa sé gerð vegna birtingar á nafni stefnanda í frétt sem fjalli um refsivert athæfi. Í fréttinni hafi verið haldið fram meiðandi fullyrðingum um stefnanda þess efnis að hann hafi annars vegar lagt á ráðin um viðskipti, sem séu refsiverð, og hins vegar fengið til sín ólögmæta fjármuni að hluta úr sömu viðskiptum. Fréttin verði ekki skilin á annan veg en að dróttað hafi verið að stefnanda um glæpsamlegt og siðferðislega ámælisvert athæfi. Í því felist ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda og persónu. Á því beri stefndi miskabótaábyrgð samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Við fjárhæð þeirra beri að miða við að um alvarlegt brot á æru stefnanda sé að ræða, framin í Ríkissjónvarpinu. Stefnandi telur rétt að taka fram að þrátt fyrir mikil rangindi í fréttaflutningi um hann á liðnum árum, einkum tveimur síðustu, njóti hann enn æruverndar í samfélaginu. Fréttamenn, eins og stefndi, hafi með margítrekuðum röngum fréttaflutningi ekki svipt hann æruverndinni.

Stefndi starfi hjá Ríkissjónvarpinu sem starfi á grundvelli laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. Samkvæmt 5. tl. 2. mgr. 3. gr. laganna skuli gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Samkvæmt 7. tl. 2. mgr. 3. gr. laganna skuli Ríkisútvarpið veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar. Brotið hafi verið alvarlega gegn þeim skyldum sem lög um Ríkisútvarpið leggi stefnda á herðar.  Beri að taka tillit til þess við ákvörðun miskabóta.             

Krafa um refsingu.

Stefnandi telur að lagaskilyrði séu til að dæma stefnda refsingu í málinu þar sem framsetning fréttarinnar og rangindi hafi verið með þeim hætti. Um það vísi stefnandi til 234. og 235. gr. alm. hgl., en að öðru leyti sé vísað til málsatvika og málsástæðulýsinga hér að framan.

Krafa um greiðslu birtingar dómsorðs í fjölmiðlum.

Verði dæmt áfall á hendur stefnda í málinu byggir stefnandi á því að skilyrði séu til að dæma stefnda til greiðslu birtingar dóms í tveimur dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. alm. hgl. Fjárhæð kröfunnar sé byggð á gjaldskrá Fréttablaðsins um birtingu auglýsingar á hálfri síðu nr. 5.  Miðað sé við eina auglýsingu í Morgunblaðinu og eina í Fréttablaðinu, 300.000 krónur í hvoru blaði, en lagt sé til grundvallar að verð á þessum tveimur prentmiðlum sé sambærilegt.

Lagarök aðalkröfu.

Stefnandi styður kröfur sínar einkum við ákvæði 234. og 235. gr. alm. hgl. Krafa um ómerkingu er byggð á 1. mgr. 241. gr. alm. hgl. og greiðsla á kostnaði vegna birtingar dómsins er byggð á 2. mgr. 241. gr. Krafa um miskabætur er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Þá er einnig vísað til 26. gr. útvarpslaga nr. 50/2000 og laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

II.

Málavaxtalýsing stefnda.

Stefndi kveðst starfa sem fréttamaður hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins (Rúv). Í kvöldfréttum Rúv kl. 19:00 þann 6. desember 2010 hafi birst frétt sem stefndi hafi unnið og hafi hún varðað fyrst og fremst lánaviðskipti Fons hf. Í forsvari fyrir Fons hf. hafi verið Pálmi Haraldsson en félagið hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í fréttinni hafi komið fram að Fons hf. hefði vorið 2007 veitt þriggja milljarða króna lán til fyrirtækisins Pace Associates í Panama en lánið hafi verið veitt í gegnum Landsbankann í Lúxemborg. Lánasamningur hafi verið útbúinn sex dögum eftir að millifærsla fjárhæðarinnar hafi átti sér stað og að um hafi verið að ræða svokallað kúlulán þar sem öll fjárhæðin hafi verið á gjalddaga þremur árum eftir gerð lánasamningsins. Í fréttinni hafi ennfremur verið sagt frá því að sama dag og gengið hafi verið frá lánasamningnum, þremur árum fyrir gjalddaga, hafi lánið í heild verið afskrifað í bókhaldi Fons hf. Í lok fréttarinnar komi fram að yfirvöld rannsaki slóð fjárhæðarinnar og að þau hafi undir höndum gögn sem bendi til þess að fjárhæðin hafi ratað frá Panama til Íslands, meðal annars til stefnanda. Fréttina hafi stefndi byggt á upplýsingum frá heimildarmönnum sem stefndi meti trúverðuga.

Stefnandi haldi því fram í málavaxtalýsingu í stefnu að í fréttinni sé stefnandi vændur um skýlaust auðgunarbrot og að vera skipuleggjandi ólögmætra lánaviðskipta Fons hf. Þetta sé rangt. Í engu hafi verið getið um eða ýjað að auðgunarbroti eða annarri refsiverði háttsemi í fréttaflutningnum, hvorki af hálfu stefnanda eða annarra. Sem fyrr segi sé í fréttinni fjallað um lánveitingu Fons hf., afskrift lánsins í bókum félagsins og vísað í upplýsingar frá heimildarmönnum þess efnis að yfirvöld hafi málið til rannsóknar. Í fréttinni sé því ekki haldið fram eða gefið til kynna á nokkurn hátt að umrædd lánveiting og aðgerðir tengdar henni séu refsiverðar. Raunar sé sérstaklega vísað í yfirlýsingu Pálma Haraldssonar um málið þar sem hann segi ekkert óeðlilegt hafa verið við lánveitinguna.

Líkt og fram komi í stefnu hafi stefndi flutt fréttir af lánveitingu Fons hf. til Pace Associates dagana 24. og 28. maí 2010. Tilefni fréttarinnar þann 6. desember 2010 hafi verið nýjar upplýsingar frá heimildarmönnum stefnda þess efnis að lánið hefði verið afskrifað í bókum Fons hf. sama daginn og gengið hafi verið frá lánasamningi.

Við vinnslu fréttarinnar hafi stefndi gert tilraun til að hafa samband við stefnanda símleiðis. Það sé því rangt sem komi fram í stefnu að ekki hafi verið haft samband við stefnanda. Sú tilraun hafi hins vegar verið árangurslaus. Raunar hafi stefndi orðið þess var að afar erfitt geti verið að ná sambandi við stefnanda í tengslum við vinnslu frétta.

Daginn eftir að fréttin hafi verið flutt, þann 7. desember 2010, hafi birst á vefmiðlinum Pressunni tilvitnun í stefnanda þar sem hann hafi vísað fréttinni á bug. Ennfremur hafi stenandi skorað á stefnda að leggja fram gögn til stuðnings fréttinni eða vísa til heimildarmannsins sem hann hefði fyrir fréttinni en ella draga fréttina til baka. Stefndi hafi lýst því yfir þann sama dag að hann hygðist ekki verða við kröfum stefnanda. 

Stefndi telur mikilvægt að fara örfáum orðum um forsögu málsins og þann jarðveg sem fréttin sé sprottin úr. Telur stefndi forsöguna og aðstæðurnar varða málið miklu, bæði við skýringu á ummælunum og við mat á ímynd og orðspori stefnanda. Eins og alkunnugt sé hafi orðið miklar hörmungar í íslensku efnahagslífi haustið 2008 sem hafi gert það að verkum að allt umhverfi í viðskiptalífinu og þjóðfélaginu almennt sé gjörbreytt frá því sem áður var. Stærstu viðskiptabankarnir hafi hrunið og verið teknir yfir af íslenska ríkinu, gengi krónunnar hrapaði, holskefla gjaldþrota fyrirtækja og einstaklinga gengið yfir, og vofi raunar enn yfir, mótmæli orðið daglegt brauð og sviptingar orðið í ríkisstjórn landsins svo fátt eitt sé nefnt. Allt frá haustmánuðum 2008 hafi fjölmiðlar verið undirlagðir fréttum um bankahrunið, kreppuna og helstu þátttakendur í viðskiptalífinu í aðdraganda þessara atburða. Alþingi hafi skipað sérstaka rannsóknarnefnd sem skyldi leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Rannsóknarnefndin hafi loks birt skýrslu sína þann 12. apríl 2010. Stefnandi, ásamt fyrirtækjum sem honum tengdust, hafi fengið talsverða umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, enda hafi stefnandi verið afar áberandi í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár, fyrst og fremst sem aðaleigandi og forsvarsmaður hlutafélagsins Baugs Group. Baugur Group hf. hafi átt stóran hluta í FL Group hf., en það félag hafi verið stærsti eigandi Glitnis banka hf. þegar bankinn hafi fallið í október 2008. Þá hefur stefnandi um árabil einnig tengst fjölmiðlarekstri hérlendis.

Stefnandi hafi verið fastagestur í fjölmiðlum síðastliðin ár, ýmist í jákvæðu eða neikvæðu ljósi, en umfjöllun eftir bankahrun hafi þó fremur verið í anda þess síðarnefnda. Baugur Group hf., sem stefnandi hafi verið í forsvari fyrir, hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2009. Samkvæmt fréttum fjölmiðla hafi skiptastjóri þrotabús félagsins haft til skoðunar að krefja fyrrum stjórnendur félagsins, þar á meðal stefnanda, um skaðabætur. Þá hafi skiptastjóri Fons hf. höfðað riftunarmál á hendur stefnanda þar sem hann er krafinn um endurgreiðslu á einum milljarði króna, sem Fons hf. hafi greitt inn á einkareikning stefnanda sumarið 2008. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 385/2007 hafi stefnandi verið fundinn sekur um brot gegn 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, en brotið hafi hann framið í starfi sínu sem forstjóri Baugs hf. Stefnandi hafi þá verið dæmdur í fangelsi í 3 mánuði, skilorðsbundið í tvö ár. Stefnandi hafi þannig ítrekað verið í fréttum undanfarin ár og misseri sem hafi varðað alvarlegri hluti en lántökur og flóknar viðskiptafléttur.

Þann 18. janúar sl., þ.e. eftir að stefnandi hafi höfðað mál þetta, hafi stefndi unnið að frétt sem meðal annars hafi varðað stefnanda. Þegar stefndi hafi sent stefnanda tölvupóst og óskað eftir hans sjónarmiðum um þá frétt hafi stefnandi hafnað því að eiga samskipti við stefnda á meðan á meðferð máls þessa stæði. Í tölvupósti stefnanda til stefnda komi meðal annars fram að hann telur stefnda ekki trúverðugan til að fjalla um málefni tengd stefnanda sem hlutlaus aðili.

Málsatvikalýsingu stefnanda er mótmælt að því leyti sem hún fer í bága við málavaxtalýsingu stefnda hér að framan.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Krafa um sýknu.

Af hálfu stefnda er öllum kröfum og málsástæðum stefnanda mótmælt. Byggir stefndi einkum á þeim málsástæðum sem hér fara á eftir til stuðnings sýknukröfu sinni.

1.       Umfjöllun um tjáningarfrelsi, ólögmæta meingerð, mannorð og ímynd stefnanda.

Stefndi byggir á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi, sem lögvarin sé af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Tjáningarfrelsið sé einnig varið af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Nauðsynlegt sé að taka mið af ákvæðum um tjáningarfrelsi við úrlausn málsins, enda ljóst að verði fallist á kröfu stefnanda að hluta eða að öllu leyti sé um að ræða takmörkun á tjáningarfrelsi stefnda. Öll skerðing á tjáningarfrelsi verði að hafa stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. byggjast á lögum, þjóna lögmætu markmiði og vera nauðsynleg. Þá megi ráða af framkvæmd dómstóla, bæði hér á landi og Mannréttindadómstóls Evrópu, að allar takmarkanir á tjáningarfrelsi verði að skýra þröngt og að varlega beri að fara við að hefta umræður í lýðræðislegu þjóðfélagi með refsikenndum viðurlögum. Úrlausn í meiðyrðamálum felist í því að finna hæfilegt jafnvægi á milli tjáningarfrelsis og æruverndar þar sem lögð sé áhersla á að takmarkanir á tjáningarfrelsi verði að uppfylla hin stjórnarskrármæltu skilyrði fyrir slíkum takmörkunum.

Stefndi hafnar því að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að skilyrði takmörkunar á tjáningarfrelsi stefnda séu uppfyllt í málinu, þ.e. með því að brotið hafi verið gegn æru stefnanda. Stefndi bendir á að fjölmiðlar hafi mikilvægu hlutverki að gegna í nútímaþjóðfélagi og nauðsynlegt sé að blaðamenn hafi frelsi til tjáningar. Við mat á því hvort hagsmunir skarist, þ.e. tjáningarfrelsi og meint brot gegn æru manna, beri að líta til margs konar atriða, til dæmis þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr, stöðu þeirra aðila sem um ræðir og þess hvort hið birta efni geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings.

Fjölmiðlar hafa það hlutverk að flytja fréttir af því sem telja megi fréttnæmt og brenni á þjóðinni hverju sinni. Meðal slíkra frétta séu fréttir af lánveitingum og fjármagnsflutningum á milli landa í aðdraganda bankahrunsins. Afar mikilvægt sé, ekki síst á tímum sem þessum þar sem efnahagslíf þjóðarinnar hafi nánast hrunið til grunna, að til staðar séu fjölmiðlar sem rannsaki mál sem tengist aðdraganda bankahrunsins. Líkt og nánar sé vikið að hér að neðan verði að fara afar varlega í að gera stefnda skylt að sanna ummæli sín eða benda á heimildarmenn en slík sönnunarfærsla sé í raun ómöguleg nema að heimildarmaður gefi skýrslu fyrir dóminum. Ef heimildarmenn, sem miðla upplýsingum um fréttnæmt efni, ættu síðar á hættu að þurfa að koma fram myndi það leiða til þess að öflun gagna og upplýsinga yrði nánast ógerleg og hætta á því að komið yrði í veg fyrir brýna þjóðfélagsumræðu sem ætti erindi til almennings.

Við mat á því hvort efni fréttarinnar skuli teljast þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings verði að hafa í huga að stefnandi sjálfur, sem og þau félög sem hann hafi verið í fyrirsvari fyrir, hafi um árabil verið mikið í fjölmiðlum og umræðu manna á milli. Stefnandi hafi ennfremur um árabil verið mjög áberandi í viðskiptalífi hérlendis og erlendis, ýmist í jákvæðu eða neikvæðu ljósi. Þá verði ekki hjá því litið að Baugur Group hf., sem stefnandi hafi verið í forsvari fyrir, hafi um tíma verið stór hluthafi í FL Group hf. (síðar Stoðir hf.) sem farið hafi með virkan eignarhlut í Glitni banka hf. Fréttir um stefnanda hafi því oftar en ekki snúið að hans hlutverki í bankahruninu en eftir hrun íslensku bankanna haustið 2008 hafi fjölmiðlar verið undirlagðir fréttum um bankahrunið og kreppuna, orsakir þeirra og tengd atriði. Almenningur í landinu hafi allt frá hruninu krafist þess af fjölmiðlum að þeir miðli öllu efni sem varðað geti almenning, sér í lagi þegar efnið sé til þess fallið að varpa ljósi á þætti sem varði aðila sem gegnt hafi lykilhlutverkum í íslensku efnahagslífi.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafi bent á að tjáning njóti mestrar verndar ef um þátttöku í svokölluðum pólitískum umræðum sé að ræða eða framlag til umræðu um málefni sem varði almenning. Þannig verði stjórnmálamaður að una harkalegri gagnrýni, ekki síst ef hann hafi sjálfur látið orð falla sem séu til þess fallin að vekja viðbrögð. Að mati stefnda eigi framangreint fullum fetum við það efni sem birst hafi í fréttinni þann 6. desember 2010. Þá telur stefndi að stefnandi verði, líkt og stjórnmálamenn, að þola harkalegri gagnrýni heldur en almenningur sem ekki hafi látið á sér bera í fjölmiðlum og viðskiptalífi undanfarin ár.

Stefndi telur í ljósi framangreinds að efni fréttarinnar hafi átt fullt erindi við almenning og hafi verið þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu. Stefndi telur jafnframt mikilvægt að missa ekki sjónar á inntaki fréttarinnar og aðalatriðum hennar. Grundvallaratriðið í frétt stefnda sé viðskiptafléttan, þ.e. að Fons hf. hafi lánað félagi í Panama 3 milljarða, lánasamningur gerður eftir að peningarnir höfðu verið millifærðir og að fjárhæðin hafi verið afskrifuð í bókum Fons hf. sama dag og lánasamningurinn hafi verið gerður, þremur árum fyrir gjalddaga. Um þessi meginatriði fréttarinnar geri stefnandi engan ágreining og það geri reyndar ekki heldur Pálmi Haraldsson, sem einnig hafi höfðað mál á hendur stefnda vegna sömu efnisatriða í niðurlagi fréttar. Það að yfirvöld hafi slóð fjármunanna til rannsóknar sé ekki það sama og að halda því fram að stefndi hafi framkvæmt auðgunarbrot eða aðra refsiverða háttsemi. Um það liggi ekkert fyrir og ekki á nokkurn hátt verið ýjað að slíku í fréttinni.

Stefndi hafnar því að tilvísun til stefnanda að því leyti að yfirvöld hafi til rannsóknar meinta þátttöku hans í fjármagnsflutningunum feli í sér ærumeiðandi ummæli fyrir stefnanda sem skuli teljast vera brot gegn 234. eða 235. gr. alm. hgl. Stefndi bendir á að tilgangur með ummælum skipti máli við mat á því hvort skilyrði fyrir því að takmarka tjáningarfrelsi séu fyrir hendi. Tilgangur stefnda með fréttinni hafi verið að draga athygli að málefni sem verðskuldi athygli almennings.

Stefndi vísar á bug málatilbúnaði stefnanda þess efnis að fréttin hafi verið til þess fallin að rýra stefnanda í áliti og gera hann ótrúverðugan í viðskiptum. Stefndi bendir á að staðhæfing stefnanda að þessu leyti sé vart í samhengi við það orðspor og ímynd sem ætla megi að stefnandi hafi meðal almennings á Íslandi nú um stundir. Stefnandi hafi um langt skeið verið í hópi svokallaðra „útrásarvíkinga“ en umfjöllun um þá í fjölmiðlum og meðal almennings hafi verið í neikvæðu ljósi allt frá hruni bankanna. Stefndi bendir á samantekt frétta um stefnanda frá október 2008 til febrúar 2011 sem lögð hafi verið fram. Sé þar aðeins um að ræða brotabrot af umfjöllun um stefnanda í fjölmiðlum undanfarin misseri og eins og sjá megi af samantektinni hafi ekki verið skortur á umfjöllun um stefnanda í neikvæðu ljósi. Því sé vandséð hvernig frétt sú, er mál þetta varði, hafi verið til þess fallin að rýra stefnanda enn frekar í áliti.

Til viðbótar við framangreint bendir stefndi á að í nauðsynlegri og frjálsri umræðu í lýðræðislegu þjóðfélagi geti komið fyrir að einhver einföldun finnist í fréttum. Í almennum fréttatímum sé jafnan leitast við að setja flókna hluti fram á einfaldan og skiljanlegan hátt á máli sem allur almenningur skilji. Stefndi telur slíkt hins vegar ekki eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að sá, sem fréttin varði, eignist refsi- og/eða miskabótakröfu vegna meiðyrða.

Stefndi telur einsýnt að tilgangur stefnanda með málshöfðun sé að fæla stefnda, Ríkisútvarpið og eftir atvikum aðra fjölmiðla frá því að fjalla um viðskipti stefnanda og annarra í hópi útrásarvíkinga frá því að fjalla um aðdraganda og orsakir hrunsins á beittan og gagnrýninn hátt. Komi þessi tilgangur greinilega fram í því að stefnandi neiti að tjá sig við stefnda í tengslum við fréttir sem stefndi hafi unnið að eftir að mál þetta hafi verið höfðað. Stefnandi telur sig þannig geta stjórnað því hvaða fréttamenn hjá Ríkisútvarpinu sinni umfjöllun um fréttir er snerti hann. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að stefnandi hafi um árabil verið áberandi á sviði fjölmiðlarekstrar hér á landi. Þá sé eiginkona stefnanda langstærsti eigandi eins stærsta fjölmiðlafyrirtækis landsins, 365 miðla ehf., sem reki meðal annars fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis, auk þess sem félagið gefi út Fréttablaðið, útbreiddasta dagblað landsins. Um þetta bendir stefndi á athugun CreditInfo á umfjöllun fjölmiðla frá hruni fjármálakerfisins. Þar komi fram að þeir fjölmiðlar, sem stefnandi tengist, þ.e. Fréttablaðið og Stöð 2, hafi fjallað hlutfallslega minna um stefnanda en aðra úr hópi þeirra sem mest hafi verið fjallað um af fjölmiðlum. Með hliðsjón af þessu telur stefndi afar mikilvægt að til staðar sé fjölmiðill sem sinni hlutlausri umfjöllun um mikilvæg þjóðfélagsmálefni. Stefndi njóti mikils trausts hjá Ríkisútvarpinu og hafi meðal annars verið valinn fréttamaður ársins 2010 á fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Hvað sem öllu öðru líður telur stefndi nauðsynlegt að litið sé heildstætt á það efni sem birtist í fréttinni þann 6. desember sl. og það virt í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu hér á landi undanfarin ár og misseri. Hafa beri í huga að í fréttinni sé ekki verið að drótta að stefnanda um að hafa gerst sekur um lögbrot eða refsivert athæfi, síður en svo. Orðalag sé ekki þess háttar að það keyri úr hófi fram og efni fréttarinnar varði óumdeilt málefni almennings. Að taka kröfur stefnanda til greina yrði til þess fallið að draga úr opinni umræðu um málefni sem varði almannahag, þ.e. viðskiptahætti þeirra sem hafi verið mest áberandi í íslensku efnahagslífi fyrir hrunið. Sem fyrr segi séu þröng skilyrði fyrir því að heimilt sé að takmarka tjáningarfrelsi. Röksemdir stefnanda dugi ekki til að sýna fram á að það sé nauðsynlegt í lýðfrjálsu þjóðfélagi að takmarka tjáningarfrelsi stefnda með þeim hætti að fallast á kröfur stefnanda. Þegar lagt sé heildarmat á aðstæður allar í málinu og þær virtar í samhengi sé ljóst að hin umstefndu ummæli séu ekki ærumeiðandi gagnvart stefnanda. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

2.       Sannindi ummæla leiða til sýknu.

Stefndi byggir á því að þau ummæli sem mál þetta varði hafi verið sannleikanum samkvæm og byggt á áreiðanlegum heimildarmönnum. Sannindi ummælanna leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda á grundvelli almennra reglna um ærumeiðingar og meiðyrði.

Sem fyrr segi liggi upplýsingar frá heimildarmönnum að baki frétt stefnda. Stefndi meti umrædda heimildarmenn trúverðuga og áreiðanlega. Réttur fréttamanna og fréttastofa til að standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmönnum, sem hafðir séu fyrir fréttum, sé hornsteinn lýðræðislegrar og frjálsrar fréttamennsku. Þessi réttur sé meðal annars lögfestur í 2. mgr. 119. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og staðfestur með dómsúrlausnum Hæstaréttar.

Stefndi hafi lagt sjálfstætt og hlutlægt mat á upplýsingarnar og metið trúverðugleika heimildanna í samræmi við almennt viðurkenndar starfsreglur fréttamanna, enda hafi hann engra hagsmuna haft að gæta sjálfur. Með allt þetta í huga, auk mats stefnda á fréttagildi upplýsinganna, hafi stefndi talið sig sem fréttamann bera skyldu til að flytja fréttir af umræddu málefni, enda ættu upplýsingarnar fullt erindi við almenning. Stefndi hafi því flutt fréttina í góðri trú. Það hafi líka verið mat fréttastjóra Ríkisútvarpsins og vaktstjórans umræddan dag sem hafi skipulagt fréttatímann og lagt mat á hvaða fréttir ættu þar heima og í hvaða röð þær skyldu lesnar. 

Stefndi byggir á því að ekki megi gera óhóflegar kröfur til hans um sönnun á sannleiksgildi hinna umstefndu ummæla. Yrði stefnda gert að sanna umstefnd ummæli myndi það reynast honum óhæfilega íþyngjandi. Slíkar kröfur myndu fela í sér ósanngjarnar takmarkanir á tjáningarfrelsi hans sem verndað sé af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944 með síðari breytingum. Stefndi byggir á því að ummælin teljist réttlætanleg, sérstaklega með hliðsjón af atvikum í heild, jafnvel þrátt fyrir að virðulegur dómur fallist ekki á að sannleiksgildi þeirra teljist sannað.

Stefnandi hafi ekki með nokkrum hætti fært sönnur á að hin umstefndu ummæli séu ekki sönn. Slíkt hljóti þó að standa honum nær heldur en stefnda, til dæmis með því að leita til yfirvalda um staðfestingu á því að stefnandi sé ekki til rannsóknar í tengslum við þá lánveitingu og fjármagnsflutninga sem um ræðir. Það eina sem stefnandi hafi gert sé að standa í hótunum við stefnda um að hann eigi að upplýsa um heimildarmann sinn en það sé stefnda óheimilt að gera eins og komi fram að framan.

Krafa um refsingu.

Stefndi krefst sýknu af refsikröfu stefnanda samkvæmt kröfulið 2. Stefndi mótmælir refsikröfunni alfarið og telur ekki grundvöll fyrir henni. Eins og færð hafi verið rök fyrir hafi stefndi hvorki brotið gegn 234. né 235. gr. almennra hegningarlaga með ummælum sínum í frétt sjónvarpsins þann 6. desember 2010. Stefndi hafi þannig ekki með neinu móti meitt æru stefnanda með móðgun í orðum eða athöfnum eða borið slíkt út í skilningi 234. gr. laganna. Þaðan af síður hafi fréttin falið í sér aðdróttun sem myndi verða virðingu stefnanda til hnekkis í skilningi 235. gr. laganna. Um þetta vísar stefndi til umfjöllunar um málsástæður hér að framan.

Fari svo ólíklega að stefndi verði talinn hafa brotið gegn 234. gr. og/eða 235. gr. alm. hgl. krefst hann samt sem áður sýknu af refsikröfu stefnanda. Stefndi bendir á að tilvitnun stefnanda til refsiákvæða sé of almenns eðlis og skorti með öllu að sýnt sé fram á með hverjum hætti þau ummæli sem krafist er ómerkingar á geti bakað stefnda refsiábyrgð samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum. Verði því ekki hjá því komist að sýkna stefnda af refsikröfu stefnanda.

Krafa um miskabætur.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af miskabótakröfu stefnanda á því sem fram hefur komið hér að framan. Jafnframt byggir stefndi á því að saknæmisskilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hafi ekki verið uppfyllt við fréttaflutning hans. Stefndi bendir á að ákvæði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga geri að skilyrði fyrir greiðslu miskabóta að tjónvaldur hafi gerst sekur um „ólögmæta meingerð“. Krafa um ólögmæta meingerð sé samofin saknæmisskilyrðinu og feli í sér að miskabætur verði ekki dæmdar nema að um ásetning eða verulegt gáleysi hafi verið að ræða þegar umrædd ummæli hafi verið viðhöfð. Skilyrði þetta sé ekki uppfyllt í tilfelli stefnda, enda hafi hann flutt fréttina í góðri trú og stuðst við heimildir sem hann telji traustar og áreiðanlegar. Beri því að sýkna stefnda af miskabótakröfu stefnanda.

Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð í skilningi 26. gr. skaðabótalaga mótmælir stefndi kröfu stefnanda um greiðslu á miskabótum að fjárhæð 3.000.000 króna. Í ljósi aðstæðna telur stefndi kröfuna allt of háa og ekki í samræmi við dómvenju.

Aukinheldur telur stefndi mannorð og æru stefnanda ekki hafa orðið fyrir tjóni vegna fréttar stefnda. Í ljósi umfjöllunar um stefnanda undanfarin misseri og sér í lagi frá hausti 2008 telur stefndi að umfjöllun stefnda um stefnanda þann 6. desember sl. hafi ekki valdið stefnanda neinu tjóni á æru hans eða mannorði en nánar um neikvæða umfjöllun um stefnanda vísist til umfjöllunar hér að framan. Í öllu falli sé algjörlega ósannað að hálfu stefnanda að fréttaflutningur stefnda hafi valdið honum nokkrum álitsspjöllum. Telji dómurinn stefnanda hins vegar engu að síður hafa orðið fyrir tjóni vegna fréttar stefnda, telur stefndi slíkt tjón svo smávægilegt að dómur í málinu hljóti að teljast nægilegur til að rétta hlut stefnanda. Því séu ekki efni til að dæma miskabætur í málinu.

Kröfu stefnanda um dráttarvexti af kröfu um miskabætur frá stefnubirtingardegi er mótmælt. Stefndi telur að dráttarvextir verði fyrst dæmdir af kröfum stefnanda frá dómsuppsögudegi og vísar hann að þessu leyti til sjónarmiða að baki 9. gr. laga nr. 38/2001.

Krafa um kostnað vegna birtingar dóms.

Stefndi mótmælir kröfu stefnanda samkvæmt kröfulið nr. 4 um greiðslu á 600.000 krónum vegna kostnaðar við birtingu dóms í tveimur dagblöðum og krefst sýknu af kröfunni. Um rökstuðning vegna kröfu um sýknu af þessum kröfulið vísar stefndi til umfjöllunar hér að framan. Stefndi bendir jafnframt á að krafa stefnanda að þessu leyti sé of há og ekki í samræmi við dómvenju. Þá hafi stefnandi ekki fært rök fyrir því hvers vegna þörf sé á birtingu dóms í tveimur dagblöðum.

Lagarök.

Um lagarök er vísað til 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 með síðari breytingum sem og til 6. og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefndi vísar jafnframt til almennra reglna um ærumeiðingar og meiðyrði, sem og 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá vísar stefndi til framangreindrar umfjöllunar eftir því sem við á. Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr. laganna.

III.

Niðurstöður.

Stefndi starfar sem fréttamaður á fréttastofu Ríkisútvarpsins og í kvöldfréttum sjónvarps þann 6. desember 2010 birtist frétt, sem stefnandi hafði unnið að, og er efni fréttarinnar rakið hér að framan í heild sinni. Megininntak fréttarinnar fjallar um lánaviðskipti Fons hf., sem var fyrirtæki Pálma Haraldssonar. Sagt var að félagið hefði vorið 2007 veitt þriggja milljarða lán til fyrirtækisins Pace Associates í Panama og að lánið hafi verið veitt í gegnum Landsbankann í Lúxemborg. Lánasamningur hafi verið útbúinn sex dögum eftir að millifærsla fjárhæðarinnar hafi  átti sér stað og að um hafi verið að ræða svokallað kúlulán þar sem öll fjárhæðin hafi verið á gjalddaga þremur árum eftir gerð lánasamningsins. Í fréttinni var ennfremur sagt frá því að sama dag og gengið hafi verið frá lánasamningnum, þremur árum fyrir gjalddaga, hafi lánið í heild verið afskrifað í bókhaldi Fons hf. Fons hf. sé nú gjaldþrota og þrotabúið leiti nú fjárins. Í lok fréttarinnar segir síðan eftirfarandi: „Það hafa yfirvöld hér á landi líka gert, eins og við höfum áður greint frá, og þau telja sig komin á slóð peninganna, enda hafa þau undir höndum gögn sem benda til þess að þeir Pálmi, Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason, hafi skipulagt Panama-fléttuna fyrirfram. Það er að koma peningunum út til Panama en síðan hafi féð ratað aftur eftir krókaleiðum í vasa þremenninganna.“

Stefnandi telur að fréttin verði ekki skilin á annan hátt en að hann hafi gerst sekur um auðgunarbrot og séu þau ummæli ærumeiðandi. Hvorki hann né fyrirtæki á hans vegum hafi á nokkurn hátt komið að umræddri lántöku eða fjármagnsflutningum. Ummælin brjóti því gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má tjáningarfrelsi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins til verndar heilsu eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsi eru samkvæmt þessu mikilvæg grundvallarréttindi sem vernduð eru af stjórnarskránni og verða takmarkanir á því að eiga sér örugga stoð í settum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum um mannréttindi sem Ísland hefur gengist undir. Verður því að skýra ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, með hliðsjón af þessu.

Þegar framangreindir hagsmunir skarast, rétturinn til tjáningar annars vegar og æruvernd hins vegar, ber m.a. að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr, stöðu þeirra aðila sem hlut eiga að máli og til þess hvort hið birta efni geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi því erindi til almennings.

Við bankahrunið í október 2008 varð mikil breyting á viðskiptalífinu og í þjóðfélaginu almennt. Hrina gjaldþrota reið yfir fyrirtæki og einstaklinga, gengi krónunnar hrundi og sviptingar urðu í ríkisstjórn landsins svo fátt eitt sé nefnt. Fjölmiðlar hafa fjallað um þessa atburði allt frá því er kreppan hófst og ennfremur fjallað um þá einstaklinga sem komu við sögu, þ. á m. stefnanda. Við mat á því hvort efni fréttarinnar skuli teljast þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings verður að hafa í huga að stefnandi sjálfur, sem og þau félög sem hann hefur verið í fyrirsvari fyrir, hefur um árabil verið mikið í fjölmiðlum og umræðu manna á milli. Stefnandi hefur ennfremur um árabil verið mjög áberandi í viðskiptalífi hérlendis og erlendis, ýmist í jákvæðu eða neikvæðu ljósi. Þá var Baugur Group hf., sem stefnandi var í forsvari fyrir, um tíma stór hluthafi í FL Group hf. (síðar Stoðir hf.) og fór með virkan eignarhlut í Glitni banka hf. Fréttir um stefnanda hafa því oftar en ekki snúið að hans hlutverki í bankahruninu en eftir hrun íslensku bankanna haustið 2008 hafa fjölmiðlar verið undirlagðir fréttum um bankahrunið og kreppuna, orsakir hennar og tengd atriði. Gerðar hafa verið kröfur til fjölmiða um að þeir miðli öllu efni sem varðað geti almenning, sér í lagi þegar efnið er til þess fallið að varpa ljósi á þætti sem varðar aðila sem gegnt hafi lykilhlutverki í íslensku efnahagslífi. Í ljósi þeirra aðstæðna sem sköpuðust eftir bankahrunið verður stefnandi að þola nærgöngula umræðu um verk sín og þátttöku sína í viðskiptalífinu. Lánveitingar og fjármagnsflutningar í aðdraganda bankahrunsins eru mikilvægar fréttir og eiga brýnt erindi til almennings. Ber að fara varlega við að hefta slíka umræðu með refsikenndum viðurlögum.

Stefndi hefur lýst því yfir að fréttin byggist á heimildum, munnlegum og skriflegum, sem hann meti trúverðugar. Verður ekki lagt á stefnda að færa fram sönnun fyrir þessum ummælum en réttur fréttamanna til að standa vörð um og halda leynd yfir heimildum og heimildarmönnum hefur verið staðfestur í dómsúrlausnum. Þá þykir stefndi hafa sýnt nægilega fram á að hann hafi reynt að ná til stefnanda áður en fréttin var flutt og hefur hann því ekki brotið starfsreglur Ríkisútvarpsins að þessu leyti.

Ekki verður fallist á með stefnanda að hann sé sakaður um refsiverða háttsemi í fréttinni. Skoða verður fréttina í heild sinni en ekki út frá einstökum ummælum. Eins og áður sagði ber jafnframt að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr og til nauðsynlegrar umræðu í þjóðfélaginu um orsakir og afleiðingar bankahrunsins og jafnframt hafa í huga að einhverrar ónákvæmni geti gætt þegar fjallað er um flóknar lánveitingar og viðskiptafléttur. Þegar ummælin um stefnanda eru metin í þessu ljósi þykja þau ekki brjóta í bága við ákvæði 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Stefndi verður því sýknaður af kröfu stefnanda í málinu. Eftir þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða aðalstefnda 1.000.000 króna í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Svavar Halldórsson, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað.