Print

Mál nr. 24/2007

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Þjóðlenda
  • Aðild
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Nr

Nr. 24/2007.

Miðvikudaginn 16. maí 2007.

 

Héraðsnefnd Rangæinga

Héraðsnefnd V-Skaftafellssýslu

Sigurður Sigurjónsson

Ingimundur Vilhjálmsson og

Sigríður Júlía Jónsdóttir

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Eignarréttur. Fasteign. Þjóðlenda. Aðild. Kröfugerð. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.

Með úrskurði 10. desember 2004, þar sem fjallað var um mörk þjóðlendna og eignarlanda á Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra, komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að landsvæðið Skógafjall væri þjóðlenda. H o.fl., sem töldu til réttinda yfir landsvæðinu sem eigendur jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga, kröfðust þess meðal annars að úrskurður nefndarinnar yrði að þessu leyti felldur úr gildi. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að samkvæmt landamerkjabréfi frá 1885, sem gert var af eigendum Eystri-Skóga og Ytri-Sólheima, hefði Skógafjall verið innan merkja Eystri-Skóga. Það var þó ekki talið nægja eitt og sér til að sanna beinan eignarrétt H o.fl. að landsvæðinu, heldur yrðu önnur atriði að koma til sem stutt gætu sömu niðurstöðu. Af gögnum málsins varð hvorki ráðið að staðhættir né gróðurfar mæltu gegn því að landsvæðið hefði verið numið, að minnsta kosti að einhverju leyti, og beinn eignarréttur þannig stofnast að því. Vísað var til þess að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 536/2006 hefði verið lagt til grundvallar að lýsing á vesturmerkjum Ytri-Sólheimajarða í lögfestu frá 1789 og yfirlýsingu frá 1799 um merki þeirra gagnvart Eystri-Skógum hefðu náð allt til Mýrdalsjökuls. Samkvæmt þeim merkjum félli Skógafjall undir land Eystri-Skóga. Talið var að misvísandi efni tiltekinna heimildarskjala, sem stöfuðu frá eigendum Ytri-Skóga og Eystri-Skóga, stafaði af ágreiningi um hvað heyrði til hvorrar jarðarinnar og stöðu þeirra um margra alda skeið. Væri það því ekki til marks um að eigendur jarðanna hefðu litið á Skógafjall sem sérstakt landsvæði utan við merki þeirra beggja og var engu talið breyta að það hefði í heimild verið nefnt afréttur Ytri-Skóga. Í úrskurði óbyggðanefndar var fallist á með H o.fl. að land vestan við Skógafjall væri háð beinum eignarrétti allt til Mýrdalsjökuls og vesturmerkja Ytri-Skóga. Varð ekki séð hvað mælti með því að staðnæmst hefði verið við landnám þegar komið var að Skógafjalli. Að öllu virtu var tekin til greina krafa H o.fl. um að úrskurður óbyggðanefndar yrði felldur úr gildi að því er varðar þá niðurstöðu að Skógafjall væri þjóðlenda, en mörk landsvæðisins gagnvart þjóðlendu í Mýrdalsjökli voru talin ráðast af jaðri hans eins og hann var 1. júlí 1998.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2007. Þau krefjast þess aðallega að úrskurður óbyggðanefndar 10. desember 2004 í máli nr. 5/2003, Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra, verði felldur úr gildi að því leyti, sem þar var ákveðið að landsvæðið Skógafjall sé þjóðlenda, og verði viðurkennt að áfrýjendur eigi í nánar tilgreindum hlutföllum í óskiptri sameign beinan eignarrétt að landinu með tilteknum merkjum, sem hafi mörk gagnvart þjóðlendu í Mýrdalsjökli eins og jaðar hans er á hverjum tíma. Til vara krefjast áfrýjendur viðurkenningar á „fullkomnum afnotarétti áfrýjenda á hvers kyns gögnum og gæðum“ á landsvæðinu, að engum undanskildum. Í báðum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur gengu á vettvang 30. apríl 2007.

I.

Óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, gaf út tilkynningu 12. október 2000 um að hún hefði ákveðið að taka til meðferðar svæði, sem afmarkað var að vestan af Þjórsá og að austan af vesturmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi. Að sunnan náði svæðið til hafs, en að norðan að línu, sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands mun hafa notað við vinnu sína. Að fram komnum kröfum stefnda um þjóðlendur á þessu svæði og kröfum þeirra, sem töldu þar til eignarréttinda, ákvað óbyggðanefnd í janúar 2003 að fjalla um það í níu málum. Eitt þeirra, sem varð nr. 5/2003, tók til Eyjafjallasvæðis og Þórsmerkur í Rangárþingi eystra. Þetta svæði náði nánar tiltekið að vestan og norðan frá fyrrum mörkum Vestur-Eyjafjallahrepps annars vegar og Austur-Landeyjahrepps, Fljótshlíðarhrepps og Hvolhrepps hins vegar. Til austurs náði svæðið að fyrrum mörkum Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og til suðurs að hafi. Innan þess féll jafnframt allur Eyjafjallajökull, svo og hluti Mýrdalsjökuls frá þeim stað, þar sem Jökulsá á Sólheimasandi kemur undan suðvestur jaðri hans, og þaðan eftir nánar tilgreindum línum á jöklinum.

Fyrir óbyggðanefnd krafðist stefndi þess að mörk þjóðlendu og eignarlanda á framangreindu svæði yrðu dregin á nánar tiltekinn hátt úr austri frá punkti neðan við Skógafjall á mörkum fyrrum Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu gegnum land jarðanna Eystri-Skóga, Ytri-Skóga, Drangshlíðardals, Drangshlíðar, Skarðshlíðar og Hrútafells, svo og landsvæðin Borgartungur og Hólatungur. Þaðan dró stefndi kröfu sína um mörkin áfram til vesturs eftir línu sunnan við Eyjafjallajökul um land jarðanna Rauðafells, Raufarfells, Selkots, Seljavalla, Þorvaldseyrar og Núpakots, svokallaðra Holtshverfisjarða og Ásólfsskálajarða, og jarðanna Mið-Skála, Ysta-Skála og Núps, þar til komið var þar í hornpunkt í fjallinu Stórhöfða. Frá þeim punkti fylgdi krafa stefnda línu til norðausturs með Eyjafjallajökli gegnum land jarðanna Neðri-Dals, Mið-Dals, Stóra-Dals, Dalskots, Eyvindarholts, Syðstu-Merkur, Mið-Merkur og Stóru-Merkur uns komið var að þeim stað, sem Steinholtsá rennur út á Markarfljótsaura. Þaðan fylgdi krafa stefnda línu til norðurs um Öldustein í punkt í Fremra Kanastaðagili, þar sem komið var út fyrir mörk svæðisins. Í þessari kröfugerð stefnda fólst meðal annars að landsvæði, sem nefnd eru Steinsholt, Stakkholt, Merkurtungur, Goðaland, Múlatungur, Teigstungur, Þórsmörk og Almenningar, teldust til þjóðlendna ásamt Eyjafjallajökli og þeim hluta Mýrdalsjökuls, sem málið tók til. Eigendur jarðanna, sem hér var getið, svo og þeir, sem kölluðu til réttinda yfir öðrum þessum landsvæðum, andmæltu kröfu stefnda um þjóðlendumörk, sem þeir töldu að fylgja ættu jaðri Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls eins og hann yrði á hverjum tíma, en að öðru leyti yrðu engar þjóðlendur á svæðinu.

Í úrskurði óbyggðanefndar 10. desember 2004 var komist að þeirri niðurstöðu að mörk þjóðlendna og eignarlanda á þessu svæði yrðu dregin eftir jaðri Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls, eins og hann var 1. júlí 1998 við gildistöku laga nr. 58/1998, og væru jöklarnir innan þessara marka þjóðlendur. Að auki töldust landsvæðið Skógafjall, sem eigendur Eystri-Skóga og Ytri-Skóga kölluðu til réttinda yfir, fyrrnefndar Borgartungur og Hólatungur sunnan Eyjafjallajökuls og Steinsholt, Stakkholt, Merkurtungur, Goðaland, Múlatungur, Teigstungur, Þórsmörk og Almenningar norðan Eyjafjallajökuls og vestan Mýrdalsjökuls þjóðlendur með nánar tilgreindum merkjum ásamt tilteknu landsvæði norðvestan Entujökuls í Mýrdalsjökli. Útdráttur úr þessum úrskurði var birtur í Lögbirtingablaði 15. mars 2005. Áfrýjendur, sem vildu ekki una niðurstöðu hans varðandi Skógafjall, höfðuðu mál þetta 14. september sama ár. Jafnframt þessu máli eru rekin fyrir Hæstarétti mál nr. 22, 23, 25, 26 og 28/2007, sem höfðuð voru á hendur stefnda til að fá hnekkt niðurstöðum óbyggðanefndar um að landsvæðin Þórsmörk og Goðaland, Steinsholt, Almenningar, Merkurtungur og Stakkholt teldust þjóðlendur.

II.

Landsvæðið, sem nefnt er Skógafjall, er samkvæmt dómkröfum áfrýjenda afmarkað að vestan af Fjallgilsá frá upptökum hennar í suðvestur jaðri Mýrdalsjökuls suður eftir Fjallgili þangað sem það mætir Jökulsárgili, en þaðan aftur til norðurs eftir því gili að upptökum Jökulsár á Sólheimasandi í sama jökli. Að norðan liggur landsvæðið að Mýrdalsjökli. Austan við Skógafjall er Hvítmaga, sem eigendur Ytri-Sólheimajarða í Mýrdalshreppi kalla til eignarréttar yfir, en ágreiningur um mörk þjóðlendu á því svæði er til úrlausnar fyrir Hæstarétti í máli nr. 536/2006. Skógafjall er á norðaustur horni lands, sem áfrýjendur telja að heyri til Ytri-Skóga og Eystri-Skóga í Rangárþingi eystra, en í samningi, sem eigendur þessara tveggja jarða gerðu 14. desember 1899, var kveðið á um að Skógafjall skyldi vera eign þeirrar fyrrnefndu að 4/5 hlutum og þeirrar síðarnefndu að 1/5. Áfrýjendurnir Héraðsnefnd Rangæinga og Héraðsnefnd V-Skaftafellssýslu eru samkvæmt gögnum málsins þinglýstir eigendur Ytri-Skóga og áfrýjandinn Sigríður Júlía Jónsdóttir þinglýstur eigandi Eystri-Skóga, en áfrýjendurnir Sigurður Sigurjónsson og Ingimundur Vilhjálmsson kveðast vera ábúendur Ytri-Skóga.

Nyrðri hluti lands Ytri-Skóga nær að vestan að Drangshlíð, Drangshlíðardal og Skarðshlíð. Í landamerkjabréfum 28. desember 1885 og 22. maí 1886 er merkjum Ytri-Skóga og þessara jarða lýst allt norður í vestanverðan jaðar Mýrdalsjökuls, en þau varða ekki frekar ágreiningsefni málsins. Eins og nánar greinir hér síðar var um árabil deilt um merki milli Ytri-Skóga og Eystri-Skóga, en sá ágreiningur var leiddur til lykta með áðurnefndum samningi 14. desember 1899. Að austan liggur land Eystri-Skóga að Ytri-Sólheimajörðum og eru merki jarðanna á mörkum Rangárþings eystra og Mýrdalshrepps. Þar voru áður mörk Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, svo og landsfjórðunga. Í landamerkjabréfi Eystri-Skóga 9. nóvember 1885 er þessum merkjum lýst frá tilteknum steini ofan við fjöru, sem einnig sé fjörumark, norður eftir farvegi og síðan gili, sem Jökulsá á Sólheimasandi mun hafa runnið um á öldum áður, þar til komið sé að mynni gilsins móts við suðvestur jaðar Sólheimajökuls. Þaðan fari merkin norður um Fjallgil vestan Litlafjalls og síðan með fjallinu til austurs um Votugjá að Jökulsá, þar sem hún rennur eftir nyrðra Jökulsárgili. Ánni sé svo fylgt þar til norðurs á mörkum Skógafjalls og Hvítmögu til upptaka hennar í Mýrdalsjökli.

Í úrskurði óbyggðanefndar var miðað við að merki Skógafjalls væru að vestan frá upptökum Fjallgilsár í Mýrdalsjökli og eftir gilinu suður að Votugjá, sem réði síðan merkjum til austurs að Jökulsárgili nyrðra, en þaðan fylgi merkin Jökulsá á Sólheimasandi norður í jökulinn og síðan jaðri hans, eins og hann var 1. júlí 1998, aftur að upptökum Fjallgilsár. Samkvæmt þessu lagði nefndin til grundvallar að suðurmörk Skógafjalls færu eftir fyrrgreindri lýsingu á merkjum Eystri-Skóga og Ytri-Sólheimajarða í landamerkjabréfinu frá 9. nóvember 1885. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Skógafjall væri þjóðlenda, sem teldist vera í afréttareign jarðanna Ytri-Skóga og Eystri-Skóga.

III.

Samkvæmt Hauksbók Landnámu nam Þrasi Þórólfsson land „millim Jõkulsár ok Kaldaklofsár ok bjó á Bjallabrekku“. Þessi bústaður hans er talinn hafa verið í námunda við núverandi bæjarstæði að Ytri-Skógum, en í Melabók og Sturlubók var hann sagður hafa búið í „Skógum enum eystrum“. Ekki var nánar greint frá mörkum þessa landnáms. Í öðrum heimildum virðist fyrst vera rætt um Skóga í kirknaskrá, sem Páll biskup Jónsson lét gera um 1200. Í máldaga Jóns biskups Halldórssonar frá 1332 fyrir Nikulásarkirkju í Skógum sagði að hún ætti þar heimaland hálft ásamt „þessum vtjordum. halfa drangshlyd. skardzhlyd. hordaskäle, backe oc berianes. oc eystre skogar.“ Þetta var endurtekið í yngri máldögum kirkjunnar frá 1371 og 1553, en í Gíslamáldaga frá því um 1570 var á hinn bóginn ekki vikið að þessum útjörðum.

Svokallaðar Skógaeignir munu hafa fallið til konungs á 15. öld og til þeirra þá talist Ytri-Skógar, Eystri-Skógar, Drangshlíð, Skarðshlíð, Bakkakot, Hörðuskáli, Lambafell og Berjanes. Eystri-Skógar eru taldir hafa verið gerðir að lénsjörð prestsins að Skarði í Meðallandi um 1580, en konungur mun hafa selt Henrik Bjelke ríkisaðmíráli Ytri-Skóga á árinu 1675. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var að finna athugasemd um að „Eystriskógar undir Eyjafjöllum þykjast menn hafa heyrt, að byggðir sé úr Ytriskógum og hafi prestinum í Meðallandi lagðir verið, nær prestunum voru lénsjarðir til uppheldis eftirlátnar, en nær vita menn ekki, og hafi Eystriskógar í fyrstu verið hjáleiga frá enum ytri, hvað og vera kann, því engin landamerki eru á millum þessara jarða. Þar til hefur og selstaða frá Ytriskógum brúkuð verið nærri upp undan Eystriskógum átölulaust af þeirrar jarðar meðeigendum.“ Deilur risu þegar á leið um merki milli Ytri-Skóga og Eystri-Skóga og gekk dómur um þau á árinu 1768. Ekki var þar vikið sérstaklega að Skógafjalli eða merkjum jarðanna svo að teljandi sé til norðurs.

Um merki Eystri-Skóga til austurs er að finna heimild í lögfestu, sem eigendur og ábúendur Ytri-Sólheima gerðu 3. júní 1789, en þar var merkjum síðarnefndu jarðarinnar lýst meðal annars með eftirfarandi orðum: „Landamerkin eru ad vestannverdu Jökulsáar gamli Farvegur frá Sjó og nordurí Jökul“. Prestur á Hofi í Álftafirði mun sem umráðamaður Eystri-Skóga hafa gert lögfestu 24. apríl 1796, þar sem merkjum jarðarinnar til austurs var lýst á þann hátt að þau réðust af Jökulsá. Hann gerði síðan yfirlýsingu 26. mars 1799 um ógildingu þessarar lögfestu, enda hafi hann sökum ókunnugleika gengið með henni á land Sólheima. Neðan við þessa yfirlýsingu var á sama skjali bætt við 27. maí 1799 lýsingu á vesturmörkum Ytri-Sólheima, sem eigendur þeirrar jarðar virðast hafa staðið að. Þar var lýst steini, sem réði mörkum í fjöru, en „frá nefndum Fjöru Marksteini ad sunnann rædur Jökuls Ár gamle Farvegur, upp med Öldu mille Skógaheide og Hestaþíngs Háls nordur ad Jokle.“

Eigendur Ytri-Skóga og Ytri-Sólheima gerðu markalýsingu 14. júní 1885, þar sem sagði að „mark milli afrjettanna, ytri Skóga hverra afrjettur kallaður er Skógafjall, og ytri Sólheima, sem kallaður er Hvítmaga, er Jökulsárgil, sem Jökulsá rennur nú framúr, og hefur runnið svo lengi sem elstu menn muna til.“ Þá gerðu eigendur Ytri-Skóga landamerkjabréf 22. maí 1886, þar sem merkjum jarðarinnar við Eystri-Skóga var lýst þannig að frá steinhrúgu í sjávarkambi væri sjónhending í miðjan Dalagilsfoss, en „Dalagil aðskilur síðan nokkuð langt til norðurs Ytri og Eystri-Skóga heiðarland hvort frá öðru; síðan beygist sama gilið til austurs og er úr því kallað Hnaukagil og ræður það mörkum millum áður nýnefndra Ytri og Eystri Skóga heiðarlanda meðan nokkur þess farvegsmerki eru, enn úr því bein stefna til landnorðurs inn á svo nefndan Bolagilstanga sem er í vesturbrún Fjallgils. Bolagil afmarkar Ytri-Skóga heiðarlönd ... frá Eystri-Skógaheiði austur að Fjallgili, frá Bolagilstanga er Fjallgilsáin, sem kemur undan jökli, mark milli Ytri-Skóga-afréttar, sem nefnist Skógafjall, og Eystri-Skógaheiðar; þangað til hún rennur aftur undir jökulinn við fremri enda Skógafjalls, og er fjallið þar umkringt jökli, að austan afmarkar Skógafjall eins og við höfum lýst frá Hvítmöguafrétti Ytri-Sólheima Jökulsárgil og svo nefnt Lónið sem liggur innan við falljökulinn.“

Eigendur Eystri-Skóga stóðu að hvorugu þeirra skjala, sem að framan greinir. Ábúandi þeirrar jarðar hafði 22. nóvember 1839 gert lögfestu, þar sem merki hennar til austurs voru sögð „ur Fjörumarki nordur ad Fjallgili og þadan sýdann nordur í Jökul, ad vestann: ur fjörumarki í Dalagilsfoss, og so rædur Dalagil til Jökuls sem og líka med öllum Brúnum vestur ad Kvarnarhólsgili“. Eigendur Eystri-Skóga og Ytri-Sólheima gerðu bréf um landamerki jarðanna 9. nóvember 1885, þar sem tilgreint var að þau réðust við hafið af steini, sem hafður væri fyrir fjörumark, en „úr honum er bein lína í Jökulsárgil, svo ræður gilið upp undir svonefnt Skóga-fjall þá liggur merkjalínan austur úr votugjá, fyrir framan Skóga-fjall og austur í gilgljúfrið sem er á milli Hvítmögu og Skógafjalls, svo ræður áin sem er í síðastnefndu gljúfri marki norður í jökul. Allt það land sem er fyrir vestan nefnda markalínu tilheyrir Eystri-Skógum, allt út að mörkunum sem eru á milli Eystri og Ytri Skóga.“ Þá gerði eigandi Eystri-Skóga annað landamerkjabréf 14. desember 1885, þar eingöngu var lýst merkjum jarðarinnar við Ytri-Skóga, en þau voru sögð liggja í beinni línu frá tiltekinni vörðu við fjöru útnorður að tilteknu kennileiti, síðan um Kvarnarhólsá að efri Þverbrekknabrúm og eftir þeim til austurs um tilgreind kennileiti, en „úr því ræður dalagil þangað til að það fer að beygjast austur í við vestan við svonefnda hrauka, þá liggur markalínan í laufatungugilið og það áfram sem næst í hánorður, norður í jökul. Allt það land sem er fyrir austan hér nefnda markalínu frá jökli til sjóar að mörkunum á milli Eystri-Skóga og Ytri-Sólheima tilheyrir allt Eystri-Skógum.“ Þessi skjöl voru ekki samþykkt af eigendum Ytri-Skóga.

Ábúendur Ytri-Skóga munu hafa höfðað mál 27. júlí 1894 gegn eiganda Eystri-Skóga, þar sem þeir kröfðust þess meðal annars að Skógafjall yrði dæmt „eign bændakirkjujarðarinnar Ytri-Skóga“. Því máli mun hafa verið vísað frá dómi. Deilum um merki milli jarðanna lauk loks með samningi 13. desember 1899, sem áður var getið, en samkvæmt honum voru merki jarðanna að norðanverðu miðuð við Dalá „upp að fossi, og svo áfram austan við svo nefndan Hnauka, alt innað Kambfjöllum“, en þaðan norður í Mýrdalsjökul. Svo sem fyrr greinir var þar jafnframt samið um að Skógafjall yrði sameign jarðanna í nánar tilgreindum hlutföllum.

IV.

Áfrýjendurnir Sigurður Sigurjónsson og Ingimundur Vilhjálmsson kveðast sem áður segir vera ábúendur Ytri-Skóga, en aðrir áfrýjendur eru þinglýstir eigendur þeirrar jarðar og Eystri-Skóga. Ekki hefur verið skýrt sérstaklega í málatilbúnaði áfrýjenda hvers vegna aðild er þannig háttað að máli þessu, sem varðar eignarréttindi að landi, sem þau telja eiga undir umræddar jarðir. Stefndi hefur ekki krafist sýknu vegna aðildarskorts áfrýjendanna Sigurðar og Ingimundar og verður því tekin afstaða til krafna þeirra til jafns við kröfur annarra áfrýjenda.

Í málinu krefjast áfrýjendurnir þess annars vegar að úrskurður óbyggðanefndar 10. desember 2004 í máli nr. 5/2003 verði felldur úr gildi að því er varðar það ákvæði hans að landsvæðið, sem kennt er við Skógafjall, sé þjóðlenda og hins vegar að viðurkennt verði að þetta land með nánar tilgreindum merkjum sé í óskiptri sameign áfrýjendanna allra, þar með talinna ábúendanna að Ytri-Skógum. Til málsóknar um fyrrgreindu dómkröfuna, sem felur í sér að viðurkennt verði að engin þjóðlenda sé á þessu landsvæði, stendur heimild í 19. gr. laga nr. 58/1998, enda var slík krafa gerð fyrir óbyggðanefnd. Um síðarnefndu dómkröfuna er á hinn bóginn til þess að líta að áfrýjendur lýsa þar mörkum landsins, sem hún tekur til, að nokkru leyti á annan veg sér í hag en gert var í landamerkjabréfi 9. nóvember 1885, sem eigendur Eystri-Skóga og Ytri-Sólheima stóðu að, en við lýsinguna í landamerkjabréfinu miðaði óbyggðanefnd eins og áður kom fram við afmörkun lands í úrskurði sínum. Eigendum Ytri-Sólheimajarða hefur ekki verið gefinn kostur á að taka til andsvara í málinu gegn þessari kröfu, svo sem átt hefði við eftir orðalagi hennar. Verður því að vísa henni af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

V.

Í áðurgreindu landamerkjabréfi frá 9. nóvember 1885, sem gert var af eigendum Eystri-Skóga og Ytri-Sólheima, var merkjum jarðanna lýst þannig að þau væru í beinni línu frá tilteknum steini í fjöru að syðra Jökulsárgili, sem Jökulsá á Sólheimasandi rann áður eftir, að Skógafjalli til norðurs réði gilið svo merkjum, sem færu eftir það í austur fyrir framan fjallið um Votugjá í nyrðra Jökulsárgil, en þaðan lægju merkin um ána í gilinu allt norður í Mýrdalsjökul. Eftir þessari lýsingu var Skógafjall innan merkja Eystri-Skóga. Þetta landamerkjabréf var gert í samræmi við ákvæði þágildandi landamerkjalaga nr. 5/1882, áritað af eigendum jarðanna, sem áttu land saman, þinglesið og fært í landamerkjabók. Eftir þetta gerðu eigendur Ytri-Skóga og Eystri-Skóga samning 14. desember 1899, þar sem ákveðið var að Skógafjall yrði sameign jarðanna, og var hann staðfestur 14. september 1901 af svokölluðum stiftsyfirvöldum Íslands. Verður að líta svo á að þessi skjöl hafi til samans sönnunargildi um mörk eignarlands Ytri-Skóga og Eystri-Skóga að því er Skógafjall varðar. Til þess verður á hinn bóginn að líta að ekki var á valdi þeirra, sem stóðu að þessum ráðstöfunum, að auka með því við land sitt eða annan rétt umfram það, sem áður var. Gegn andmælum stefnda nægja þessar heimildir því ekki einar og sér til að sanna beinan eignarrétt eigenda Ytri-Skóga og Eystri-Skóga að Skógafjalli, heldur verða önnur atriði að koma til, sem stutt geta sömu niðurstöðu. Er þetta í samræmi við það, sem ítrekað hefur verið í dómum Hæstaréttar í málum varðandi mörk þjóðlendna og eignarlanda, sbr. meðal annars dóm í máli nr. 48/2004, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 3796.

Í greinargerð um rannsókn sérfræðings, sem gerð var að tilhlutan óbyggðanefndar, er staðháttum og gróðurfari á svæðinu, sem málið varðar, lýst þannig að heiðarnar ofan Ytri-Skóga og Eystri-Skóga séu gott dæmi um hvernig neðanverðar hlíðar Eyjafjalla séu víða vel grónar, þar sem berggrunnur, landslag og jarðvegur leyfi, og um þær gróðurfarsbreytingar, sem verði með vaxandi hæð landsins. Sá hluti heiðanna, sem sé í gróðurfarslegu láglendisbelti upp undir 150 til 200 m hæð yfir sjávarmáli, sé að mestu vel gróið graslendi, en þó víða með þykkum rofabörðum. Þegar komi upp í hlíðabelti, sem nái í 400 m hæð, breytist gróðurfar smám saman, því minna verði um graslendi og taki við mosagróður, sef-, star- og lyngmóar og lítils háttar votlendi. Gróðurþekjan verði gisnari þegar ofar dragi þar til hún þeki í heild um helming af yfirborði landsins. Í fjallbelti heiðanna, sem taki þá við upp í 600 til 700 m hæð, verði mosagróður stöðugt meira áberandi og tegundum hans fækki, en gróður þeki þar að jafnaði um þriðjung yfirborðsins. Ofan 500 m hæðar taki einnig við snjódældagróður, einkum grasvíðir og snjómosi, sem finnist á vissum stöðum upp í 800 til 900 m hæð. Af öðrum gögnum málsins verður ráðið að land í Skógafjalli sé með nokkuð jöfnum halla frá láglendi við suðurrætur þess á um 7 km leið norður að jaðri Mýrdalsjökuls í um 900 m hæð, en breidd landsvæðisins er mest um 1½ km. Frá bæjarstæði Eystri-Skóga eru um 3 km í beinni loftlínu að suðurmörkum Skógafjalls. Þótt engar heimildir séu í málinu um að byggð hafi nokkru sinni verið á þessu landi eða það haft til teljandi annarra nota en beitar fyrir búfénað mæla hvorki staðhættir né gróðurfar gegn því að það hafi verið numið, að minnsta kosti að einhverju leyti, og beinn eignarréttur þannig stofnast að því.

Í dómi Hæstaréttar, sem kveðinn er upp í dag í máli nr. 536/2006 og varðar mörk þjóðlendu og eignarlanda í Hvítmögu austan Skógafjalls, er lagt til grundvallar að lýsing á vesturmerkjum Ytri-Sólheimajarða í áðurnefndri lögfestu 3. júní 1789, þar sem sagði að þau væru „Jökulsáar gamli Farvegur frá Sjó og nordurí Jökul“, hafi náð allt til Mýrdalsjökuls. Einnig er lagt þar til grundvallar að fyrrgreind yfirlýsing 27. maí 1799, sem eigendur Ytri-Sólheima virðast hafa staðið að og rituð var á sama skjal og yfirlýsing umráðamanns Eystri-Skóga um afturköllun lögfestu hans frá 24. apríl 1796, lýsi merkjunum með svipuðu orðalagi og megi ætla að sammæli hafi þá verið um þessi merki jarðanna. Samkvæmt þeim merkjum féll Skógafjall undir land Eystri-Skóga.

Í áðurgreindri lögfestu, sem ábúandi Eystri-Skóga gerði 22. nóvember 1839, voru austurmerki jarðarinnar sögð liggja um Fjallgil norður í Mýrdalsjökul. Skógafjall, sem stendur austan við þetta gil, var því ekki talið til lands Eystri-Skóga í þessari heimild. Eigendur Ytri-Skóga gerðu eins og fyrr segir landamerkjabréf 14. júní 1885 og 22. maí 1886, sem eigendur Eystri-Skóga stóðu ekki að, þar sem þeir fyrrnefndu kölluðu til réttinda yfir Skógafjalli, sem væri „afrjettur“ Ytri-Skóga. Eigendur Eystri-Skóga gerðu gagnstætt þessu landamerkjabréf 9. nóvember 1885, eingöngu með samþykki eigenda Ytri-Sólheima, þar sem Skógafjall var talið innan merkja Eystri-Skóga. Þegar mat er lagt á þessar heimildir verður að gæta að því að Eystri-Skógar töldust öldum saman vera svokölluð útjörð Ytri-Skóga og virðast engin merki hafa verið milli jarðanna fram á 18. öld, en eftir það reis ágreiningur um hvað heyrði til hvorrar þeirra og var honum fyrst lokið með samningnum 13. desember 1899, þar sem kveðið var á um landamerki og sameign um Skógafjall. Verður að ætla að misvísandi efni heimildaskjalanna, sem hér var getið, stafi af þessum ágreiningi, svo og stöðu jarðanna um margra alda skeið áður en hann reis. Verður það því ekki haft til marks um að eigendur jarðanna hafi litið á Skógafjall sem sérstakt landsvæði utan við merki þeirra beggja og breytir þar engu að það hafi í heimild verið nefnt afréttur Ytri-Skóga.

Í úrskurði óbyggðanefndar var fallist á með áfrýjendum að land vestan við Skógafjall væri háð beinum eignarrétti þeirra allt til Mýrdalsjökuls og vesturmerkja Ytri-Skóga. Að því er varðar gróðurfar og staðhætti að öðru leyti verður ekki séð hvað mæli með að litið verði svo á að staðnæmst hefði verið við landnám þegar komið var að Skógafjalli, sem hefur glögg náttúruleg mörk að austanverðu í Jökulsá á Sólheimasandi, en eldri farvegur hennar ræður óumdeilanlega merkjum Eystri-Skóga og Ytri-Sólheimajarða þegar sunnar dregur.

Að athuguðu öllu því, sem að framan greinir, verður að taka til greina kröfu áfrýjenda um að úrskurður óbyggðanefndar 10. desember 2004 verði felldur úr gildi að því er varðar þá niðurstöðu hans að Skógafjall, með þeim merkjum sem greindi í úrskurðinum, sé þjóðlenda. Mörk þessa landsvæðis gagnvart þjóðlendu í Mýrdalsjökli ráðast af jaðri hans eins og hann var 1. júlí 1998, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 11. maí 2006 í máli nr. 345/2005.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 10. desember 2004 í máli nr. 5/2003 um að landsvæðið Skógafjall í Rangárþingi eystra sé þjóðlenda með merkjum frá upptökum Fjallgilsár í Mýrdalsjökli suður eftir Fjallgili að Votugjá, til austurs eftir þeirri gjá að Jökulsá á Sólheimasandi, til norðurs eftir Jökulsárgili að upptökum Jökulsár og þaðan eftir jaðri Mýrdalsjökuls vestur að Fjallgilsá.

Vísað er frá héraðsdómi kröfu áfrýjenda, Héraðsnefndar Rangæinga, Héraðsnefndar V-Skaftafellssýslu, Sigurðar Sigurjónssonar, Ingimundar Vilhjálmssonar og Sigríðar Júlíu Jónsdóttur, um að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra að Skógafjalli.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns þeirra, samtals 1.000.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 17. október 2006.

          Mál þetta, sem dómtekið var 24. ágúst s.l., er höfðað með stefnu birtri 14. september 2005.

          Stefnendur eru Héraðsnefnd Rangæinga, Héraðsnefnd V-Skaftafellssýslu, Sigurður Sigurjónsson og Ingimundur Vilhjálmsson, eigendur og ábúendur að Ytri-Skógum og Sigríður Júlía Jónsdóttir, eigandi Eystri-Skóga.

          Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er fjármálaráðherra stefnt.

          Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi: Að felld verði úr gildi sú niðurstaða  óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003 um Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra í úrskurði frá 10. desember 2004, að landið Skógafjall í Rangárþingi eystra teljist þjóðlenda.  Jafnframt er þess krafist að stefnendur eigi í óskiptri sameign í hlutföllunum 4/5 (Ytri-Skógar) og 1/5 (Eystri-Skógar) beinan eignarrétt að afréttarlandi þessu, sem afmarkast þannig:

Frá upptökum Fjallgilsár við Mýrdalsjökul og eftir Fjallgili þangað sem það mætir Jökulsárgili.  Þaðan er Jökulsárgili fylgt að upptökum við Mýrdalsjökul. Á milli tveggja framangreindra punkta er miðað við jökuljaðarinn eins og hann er á hverjum tíma. 

          Verði ekki fallist á að stefnendur eigi beinan eignarrétt að Skógafjalli er krafist viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti stefnenda til hvers kyns gagna og gæða á afréttarlandinu að engum afnotum undanskildum.  Stefnendur krefjast þess að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnendur fengu gjafsókn í máli þessu með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettu 20. júní 2005.

          Dómkröfur stefnda eru þær að staðfestur verði úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í máli nr. 5/2003 hvað varðar eignarréttarlega stöðu Skógafjalls sem þjóðlendu og stefndi þannig sýknaður af kröfum stefnenda.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.  Ekki eru af hálfu stefnda gerðar athugasemdir við aðild málsins.

Málavextir.

          Með bréfi dagettu 12. október 2000 var fjármálaráðherra tilkynnt með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 að óbyggðanefnd hefði á fundi ákveðið að taka til meðferðar sem svæði 3 landsvæðið vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar.  Þetta svæði afmarkaðist til austurs af austurmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi og að sunnan afmarkaðist svæðið af hafinu, til norðurs í samræmi við tillögu starfshóps um stjórnsýslumörk á miðhálendinu frá 1996, en á Vatnajökli við línu þá sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína.  Til vesturs náði kröfusvæðið að kröfusvæði 1, Árnessýslu.  Fjármálaráðherra var veittur frestur til að lýsa kröfum sínum um þjóðlendur á svæðinu og eftir að kröfulýsingum hafði verið skilað var landeigendum og öðrum rétthöfum veittur frestur til að skila inn kröfugerðum.  Stefnendur í máli þessu sendu inn kröfur til óbyggðanefndar um höfnun þjóðlendukrafna ríkisins og gerðu kröfu um beinan eignarrétt að Skógafjalli.  Stefnendur tóku þátt í málarekstri fyrir óbyggðanefnd, en sérstakt mál var rekið um þjóðlendur á Eyjafjallasvæði og Þórsmörk sem mál nr. 5/2003.  

          Í úrskurði óbyggðanefndar er greint frá elstu ritheimildum um landnám á hinu umdeilda svæði og síðan rakin í stórum dráttum saga afmörkunar, ráðstafana að eignarrétti og nýtingar á svæðinu frá öndverðu til uppkvaðningar úrskurðar.  Kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að af frásögn Landnámu megi ráða að landnám á Eyjafjallasvæðinu hafi náð frá Jökulsá í austri að Markarfljóti í vestri og norðaustur með því.  Hafi land undir Eyjafjöllum að öðru leyti verið afmarkað af Eyjafjallajökli, Mýrdalsjökli og hafinu.  Nefndin telur vafalaust að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á svæðinu verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú sé og jöklar minni.   

          Þá kemur fram í úrskurðinum að 27. júlí 1894 hafi ábúendur Ytri-Skóga, Bárður Bergsson og Gyðríður Guðmundsdóttir, höfðað mál á hendur Jóni Hjörleifssyni hreppstjóra í Eystri-Skógum og krafist þess að Skógafjall yrði dæmt „eign bændakirkjujarðarinnar Ytri-Skóga og að stefndi yrði dæmdur til að borga sanngjarnan hagatoll fyrir hvert ár, sem hann heimildarlaust hefur beitt umþráttað fjall…“.  Málinu var vísað frá héraðsdómi með þeim rökum að þess hefði eigi verið gætt að krefjast útnefningar meðdómsmanna eins og fyrirskipað væri í landamerkjalögum 17. mars 1882. Að auki var bent á að einungis annar stefnandinn hefði heimtað hagatoll og enginn vissa væri fyrir því að spurningin um hagatoll hefði verið lögð fyrir sáttanefnd eins og málið sjálft á sínum tíma.  Deilum þessum mun hafa lokið með svohljóðandi samningi í lok árs 1899:

Ár 1899, hinn 13. des. mán. gjörðu þeir hreppstjóri Jón Hjörleifsson, búandi Eystri-Skóga, í von um samþykki kirkjustjórnarinnar, Bárður Bergsson eigandi og ábúandi Ytri-Skóga, og Ísleifur Oddsson ráðamaður móður sinnar Gyðríðar Guðmundsdóttur, eiganda og ábúanda Ytri-Skóga, þann samning milli sín er nú skal greina:

1.          Hið svonefnda Skógafjall, afréttarland Skóga, sem liggur milli Jökulsár og Fjallgilsár, skal hér eftir vera eign Ytri- og Eystri-Skóga þannig, að Ytri-Skógar eiga 4/5 nefnds afréttarlands, en Eystri-Skógar 1/5. Tekið skal það fram að engar aðrar jarðir en Ytri- og Eystri-Skógar eiga rétt til upprekstrar í téð Skógafjall. ......

          Árið 1839 mun ábúandinn í Eystri-Skógum hafa gefið út svofellda lögfestu:

Lángholts-kyrkju prestakalli innann Vestur Skaptafellssýslu tillagda mensal Jörd Eystri Sköga vid Eyafjöll innann Rángárvallasýslu. Lögfesti eg hér undirskrifadur í dag ad ordfullu og lögmáli réttu ábílisjörd mína Eystri Sköga til lands og vatns og ytstu takmarka, sem adrir menn í möti eiga, og eru þessi ad austan: ur Fjörumarki nordur ad Fjallgili og þadan sýdann nordur í Jökul, ad vestann: ur fjörumarki í Dalagilsfoss, og so rædur Dalagil til Jökuls sem og líka med öllum Brúnum vestur ad Kvarnarhólsgili, úr því sudur í sand á milli austustu og Mid Fitjar, – fyrirbíd eg öllum mönnum þettad mitt leiguland ad brúka nema mitt sé lof eda leifi til undir lagasektir. Enn óskil af nábílismönnum, sem hafa lögfest undir sig af mínu leigulandi, sem eru studjos Einar Högnason, síra Kjartan Jónsson, Sveinn Ísleifsson, ad þeir þá þessa mína lögfestu innann lagatermíns afríi med fimtarstefnu og þeir þá vid Fimtardöminn framleggi þaug skilríki og Document, sem þeir hafa kinni hér á möti, þar eg tjái mig fúsann til ens sama. Til stadfestu er mitt undirskrfad nafn.

        Eystri Skögum þann 22. Novembris 1839

        H. Jonsson

          Lögfestan mun hafa verið lesin upp við Skógakirkju 24. nóvember 1839 að söfnuðinum áheyrandi.

          Landamerkjabréf Eystri-Skóga var undirritað 9. nóvember 1885 og er þannig:

Skrásetning um landamerki jarðarinnar Eystri-Skóga í Austur-Eyjafjallahreppi í Rangárvallasýslu að fornu mati 12c enn eftir jarðabókinni 1861 23.2c. – Einungis er hér lýst mörkum á milli nefndrar jarðar Eystri-Skóga og Ytri-Sólheima í Dyrhólahreppi í Vestur-Skaftafellssýslu, bæði eftir sögu núlifandi manna og svo líka eftir þeim skjölum og skilríkjum sem ég undirritaður í höndum hefi. Fjöru á jörðin fyrir sínu landi, fjörumark er nú brúkað samkvæmt forlíkun sem gjörð er af undirrituðum ábúanda, að stórsteinn rétt ofan við fjöruna með hlaðinni vörðu á, á að bera við vestasta heiðarhornið á Ytri-Sólheimaheiði. Landmarkið. Hinn nefndi stóristeinn, sem brúkaður er fyrir fjörumark. Úr honum er bein lína í Jökulsárgil, svo ræður gilið upp undir svonefnt Skóga-fjall þá liggur merkjalínan austur úr votugjá, fyrir framan Skógafjall og austur í gilgljúfrið sem er á milli Hvítmögu og Skógafjalls, svo ræður áin sem er í síðastnefndu gljúfri marki norður í jökul. Allt það land sem er fyrir vestan nefnda markalínu tilheyrir Eystri-Skógum, allt út að mörkunum sem eru á milli Eystri og Ytri Skóga, sem skjal merkt Nr. 2. skýrir frá.

        Eystri-Skógum dag 9. nóvember 1885.

        Jón Hjörleifsson (ábúandi í Eystri-Skógum.)

Undirritaðir ábúendur og eigendur Ytri-Sólheima eru samþykkir framanskrifaðri markalýsingu.

E. Eyólfsson (h.s.) S. Magnússon (h.s.) G. Eyólfsdóttir (h.s.) Ejnar Guðmundsson

Sæmundur Árnason Guðmundur Ólafsson (h.s.) Jón Ólafsson (handsalað) G. Ólafsson

Sveirn Sigurðsson (handsalað)

          Landamerkjabréfið mun hafi verið lesið upp og bókað á manntalsþingi að Steinahelli 21. maí 1890 og ritað í landamerkjabók Rangárvallasýslu.

          Í úrskurðinum er hinu umdeilda landsvæði lýst svo að Ytri-Skógar liggi að Eystri-Skógum  til vesturs og suðurs og til austurs séu Skógafjall og Ytri-Sólheimar, þegar sunnar dregur.  Austan Skógafjalls sé Hvítmaga, afréttur Ytri-Sólheima og að norðanverðu Mýrdalsjökull.  Syðsti hluti landsvæðisins sé flatt undirlendi en fjalllendi og heiðarlönd að norðanverðu.  Til suðurs sé marflatur Skógasandurinn og til norðurs ofan byggðar rísi gróið heiðarland.  Þar sé Flatheiðin, sem liggi austan Dalárgils, í um 200-300 metra hæð yfir sjávarmáli.  Skógafjall sé landfræðilega aðskilið frá Eystri-Skógum með Fjallgili og frá Hvítmögu með Jökulsárgili.

          Óbyggðanefnd kemst að þeirri niðurstöðu að elstu heimildir bendi til þess að Skógafjall hafi verið talið sérstakt landsvæði, utan við eiginleg landamerki jarðanna og staðfesti yngsta heimildin, þ.e. samningur fyrirsvarsmanna Eystri- og Ytri-Skóga um Skógafjall og merki Skógajarða 1899 þann skilning.  Beri aðrar heimildir með sér ágreining eigenda jarðanna og tilraunir hvorra um sig til að telja Skógafjall innan eigin merkja.  Í úrskurði nefndarinnar segir svo orðrétt:

„Svo sem áður greinir er Skógafjall landfræðilega aðskilið frá Eystri-Skógum með Fjallgili og frá Hvítmögu með Jökulsárgili. Um Skógafjall er fyrst og fremst fjallað í tengslum við deilur eigenda Eystri- og Ytri-Skóga um merki jarða sinna og rétt til fjallsins. Í elstu fyrirliggjandi heimild um þetta efni, landamerkjalýsingu Skógafjalls og Hvítmögu frá 1885, er Skógafjall nefnt „afrjettur“ Ytri-Skóga og sama máli gegnir um landamerkjabréf Ytri-Skóga 1886. Í landamerkjabréfum Eystri-Skóga frá 1885 er hins vegar enginn greinarmunur gerður á Skógafjalli og öðru landi innan merkja þeirrar jarðar. Þá er allt land vestan tilgreindrar markalínu sagt tilheyra Eystri-Skógum. Áður var hins vegar gerð grein fyrir lögfestu Eystri-Skóga frá 1839 þar sem ekki er gert ráð fyrir að fjallið sé innan merkja jarðarinnar og ekkert um það fjallað. Í samningi fyrirsvarsmanna Eystri- og Ytri-Skóga um Skógafjall og merki Skógajarða frá 1899, í kjölfar málshöfðunar ábúenda Ytri-Skóga 1894, er fjallið nefnt „afréttarland Skóga“ og kveðið á um að Ytri-Skógar skyldu „eiga 4/5 nefnds afréttarlands, en Eystri-Skógar 1/5“. Þá segir svo: „Tekið skal fram að engar aðrar jarðir en Ytri- og Eystri-Skógar eiga rétt til upprekstrar í téð Skógafjall.“ Áður var komist að þeirri niðurstöðu að heimildir bendi til þess að Skógafjall falli utan landamerkja jarðanna Eystri- og Ytri-Skóga. Þá telur óbyggðanefnd að umfjöllun um fjallið í samningi þessara aðila frá 1899 bendi fremur til afréttareignar jarðanna en beins eignarréttar. Landamerkjalýsing Skógafjalls og Hvítmögu frá 1885 og landamerkjabréf Ytri-Skóga 1886 styðja þá ályktun. Þá verður að líta svo á að með samkomulaginu 1899 dragi fyrirsvarsmenn Eystri-Skóga til baka þá lýsingu á austurmörkum sem fram kemur í landamerkjabréfum jarðarinnar 1885 enda í ósamræmi við eldri heimild um sömu jörð. Þegar fjallað er um Skógafjall í heimildum er það í tengslum við upprekstur og afréttarnot. Engin gögn liggja fyrir um að Skógafjall hafi nokkurn tímann verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé. Óbyggðanefnd telur ekki hægt að útiloka að Skógafjall sé innan upphaflegs landnáms undir Eyjafjöllum eða hafi á annan hátt orðið undirorpið beinum eignarrétti. Í því efni brestur hins vegar sönnun, samhengi eignarréttar og sögu liggur ekki fyrir. Af hálfu eigenda Eystri- og Ytri-Skóga hefur ekki verið sýnt fram á að Skógafjall sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað, hefur ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Fyrirliggjandi gögn benda hins vegar til þess að jarðirnar Eystri- og Ytri-Skógar hafi átt þar upprekstrarrétt. Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að land Eystri-Skóga, svo sem því er að framan lýst, að jökuljaðri eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, teljist ekki til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58/1998. Það er jafnframt niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem nefnt er Skógafjall, svo sem það er afmarkað hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: Frá upptökum Fjallgilsár við Mýrdalsjökul og eftir Fjallgili [að Votugjá, síðan í þeirri gjá allt til enda og þaðan í Jökulsárgil. Síðan er] Jökulsárgili fylgt að upptökum við Mýrdalsjökul. Á milli framangreindra tveggja punkta við jaðar Mýrdalsjökuls er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.

Sama landsvæði er í afréttareign eigenda jarðanna Eystri- og Ytri-Skóga, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“

Tekið skal fram að því er varðar þann hluta úrskurðarorðs sem er innan hornklofa, að við endurupptöku málsins hjá nefndinni 6. september 2005 var bókað um svohljóðandi tilgreiningu úrskurðarlínu á þessu svæði, án þess að í því fælist efnisleg breyting.                                       

          Óbyggðanefnd taldi ljóst að ákvarða þyrfti mörk afréttarins að því leyti sem hann liggur að jökli til frambúðar, sbr. b-lið 7. gr. l. nr. 58/1998. Með hliðsjón af því að hér var um einhliða ákvörðun afréttarmarka að ræða en ekki mörk tveggja afrétta eða afréttar og eignarlands taldi óbyggðanefnd þó fullnægjandi að miða einfaldlega og án nánari afmörkunar við jaðar jökulsins eins og hann var við gildistöku laga nr. 58/1998, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Ekki varð séð að frekari rannsókn á þessu atriði hefði hagnýta þýðingu í þessu sambandi enda eingöngu um beitarréttindi að ræða sem ráðist af gróðurfari og hafi ekki þýðingu í öðru sambandi.     

          Stefnendur undu ekki þessari niðurstöðu óbyggðanefndar og krefjast því ógildingar úrskurðarins að því er hið umdeilda landsvæði varðar.

          Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003 sem kveðinn var upp 10. desember 2004, var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58/1998. og er málshöfðun þessi því í samræmi við ákvæði 19. gr. sömu laga.        

Málsástæður og lagarök stefnenda.

          Stefnendur benda á að hið umdeilda landsvæði hafi verið kostaríkt af skógum og beitiland bæði til sumar- og vetrarbeitar og sé svo enn þó landgæðum hafi hrakað m.a. vegna breytts veðurfars.   Lengst framan af hafi skógarnytjar verið mikilvægari en önnur not og beri nafnið með sér hver hafi verið helstu einkenni fjallsins.

           Stefnendur segja ágreining hafa verið á milli eigenda Eystri- og Ytri-Skóga um það innan landamerkja hvorrar jarðarinnar Skógafjall lægi.  Hafi ágreiningurinn verið leystur með framangreindum samningi frá 13. desember 1899 og hafi hann verið staðfestur af stiftsyfirvöldum 14. september 1901.  Megi af orðalagi samningsins ráða að samningsaðilar séu að semja um eignarland en afréttarlandið sé sagt eign jarðanna.  Á hinn bóginn sé tekið fram að engir aðrir eigi rétt til upprekstrar á fjallið og þá sé verið að fjalla um afnot fjallsins sem beitarlands.  Hafi merkjum Skógafjalls verið lýst í þessum samningi og hafi hann verið þinglesinn 29. maí 1902 og færður í landamerkjabók.

          Stefnendur byggja á því að Skógafjall hafi verið numið í öndverðu og háð beinum eignarrétti.  Sá eignarréttur hafi ekki fallið niður síðan og sé afrétturinn nú í óskiptri sameign stefnenda.   Þeir hafi frá 1890 og 1892 þinglýsta fyrirvaralausa eignarheimild að landinu, þar sem merkjum þess sé lýst.  Þinglýsing eignarréttar og landamerkja hafi verið þeim heimil af því að þeir hafi átt beinan eignarrétt að afréttinum og hafi fulltrúi ríkisvaldsins gengið úr skugga um að svo væri og staðfest með skráningu í landamerkjabók og þinglýsingu.  Hvorki hafi hinn beini eignarréttur byggðarmanna né landamerki afréttarins verið vefengd og hafi íslenska ríkið með margvíslegum hætti löghelgað og viðurkennt hinn beina eignarrétt.  Hafi stefndi sönnunarbyrðina um að hin lögformlega eignarheimild sé röng og að upphaflegur eignarréttur hafi fallið niður.  Stefndu geti að vísu ekki sýnt fram á óslitna röð framsalsgerninga frá landnámi til þessa dags en það sé ekki kleift um neina fasteign hér á landi.

          Stefnendur og forverar þeirra hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að beinn eignarréttur þeirra að landinu yrði vefengdur af einkaaðilum eða opinberum aðilum og þeir hafi haft réttmætar væntingar um lögverndaðan eignarrétt sinn að landinu.  Beinn eignarréttur að landinu hafi verið forsenda þess að unnt væri að reka kvikfjárbúskap um aldir á jörðum stefnenda.  Samkvæmt fornum rétti hafi afréttir verið háðir beinum eignarrétti byggðarmanna í hverri byggð.  Hugtakið afréttur merki land í óskiptri sameign tveggja eða fleiri manna, sem nýtt sé með ýmsum hætti, svo sem til skógarnytja, kvikfjárbeitar sumar og vetur, dýraveiða og fiskveiða í vötnum og ám á landinu, svo og til allra annarra mögulegra nota, að engum notum undanskildum, allt eftir aðstæðum á hverjum afrétti og aðstæðum hvers tíma.  Minnt er á að óheimilt sé að lögum að gera tiltekin afnot eða tíðni afnota að skilyrði eignarréttar.  Enginn „grunneignarréttur“ eða yfireignarréttur hafi verið eftirlátinn öðrum.  Engar heimildir finnist í íslenskum rétti um að afréttur merki annað en landsvæði.  Þess séu engin dæmi að það hugtak hafi verið notað um annað, svo sem rétt til að reka sauðfé á fjarlæga staði.  Þá séu þess engin dæmi í íslenskum, germönskum eða rómverskum rétti að unnt sé að stofna til takmarkaðra réttinda í einskis manns landi.  Ekki sé vefengt af stefnda að hvorki hafi hann né aðrir en viðkomandi byggðarmenn hingað til átt neitt tilkall til réttar yfir afréttarlöndum.  Á því sé byggt að stefndi geti ekki í nafni fullveldisréttar íslenska ríkisins án stjórnarskrárbreytingar svipt eigendur bótalaust þeim beina eignarrétti yfir afréttinum, sem hann hafi sýnt fram á, að tilheyri honum.               Stefnendur byggja á því að fulltrúar ríkisvalds hér á landi hafi um aldir viðurkennt eignarrétt byggðarmanna að afréttum landsins og engin sú breyting hafi orðið á gildandi rétti að leiði til brottfalls þeirrar afstöðu.  Verði ekki fallist á að þær eignarheimildir sem stefnendur hafi sýnt fram á séu fullnægjandi, sé verið að mismuna eigendum afrétta með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi.  Jafngildi sú íþyngjandi sönnunarbyrði bótalausri sviptingu eignarréttar. 

          Stefnendur vísa auk fyrrgreindra sönnunargagna um eignarrétt þeirra að afréttinum til hefðar almennt og sérstaklega til ómunahefðar, sem sé viðbótarsönnun um eignarrétt stefnenda að afréttinum og hvernig til hans hafi verið stofnað.  Hafi hefðarreglur verið í gildi í íslenskum rétti um aldir.  Landið hafi verið í vörslum byggðarmanna og aðrir, þar með stefndi, hafi virt eignarrétt þeirra og verndað hann með því að koma í veg fyrir að aðrir nýttu land þeirra heimildarlaust.  Þá styðjist eignarréttur stefnenda við venjurétt.  Sé óheimilt að líkja landsgæðum nú við landsgæði fyrstu aldir Íslandsbyggðar þegar afréttirnir urðu til. 

          Þá byggja stefnendur á því að unnt að hafi verið nema land eftir gildistöku Jónsbókar 1281 og fallast ekki á þann skilning að lagt hafi verið bann við frekara landnámi.  Hins vegar hafi ekki verið unnt að nema afrétti, sem þegar hafi verið fyrir hendi, vegna þess að þeir hafi verið háðir beinum eignarrétti.  Stefnendur segjast viðurkenna almennar takmarkanir á eignarrétti eða landi sem eigi sér stoð í lögum sem samræmast stjórnarskrá.

                      Stefnendur benda á að það hafi verið afstaða ríkisvaldsins fyrir tvö hundruð árum að afrétturinn Þórsmörk væri háður beinum eignarrétti og að byggðarmenn væru eigendur afréttarins.  Því hafi bóndi nokkur, sem sótt hafi um leyfi árið 1801 til að stofna nýbýli í Þórsmörk skv. nýbýlatilskipuninni frá 1776, ekki getað eignast býli á afréttinum þrátt fyrir ákvæði tilskipunarinnar, en hann hefði getað orðið leiguliði byggðarmanna.  Telja stefnendur að ríkisvaldið á þessum tíma hafi litið svo á að héraðsmenn eða byggðarmenn ættu beinan eignarrétt að afréttunum og haldi stefndi öðru fram hafi hann sönnunarbyrðina um það.

          Stefnendur telja óbyggðanefnd hafa metið sönnunargögn málsins ranglega og ekki beitt lögum um réttarágreininginn með réttum hætti. Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.  Jafnframt hafi stefnendur sýnt fram á að þeir eigi beinan eignarrétt að afréttinum en stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi með réttum lögum í samræmi við stjórnarskrá eignast landið.  Það eitt að kveða á um í dómsorði að afrétturinn sé þjóðlenda fullnægi ekki skilyrðum réttarfarslaga um skýrleika í dómsniðurstöðum, þar sem með öllu sé óljóst hver réttur stefnda og stefnenda sé, verði þeim aðeins dæmdur réttur til sumarbeitar fyrir sauðfé og önnur takmörkuð afnot.  Verði því ekki unnt að fullnusta dóminn lögum samkvæmt.

          Stefnendur vísa um lagarök til réttarreglna um stofnun eignarréttar, hefð, réttarvenju og tómlæti, svo og þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, ákvæða stjórnarskrár um vernd eignarréttar, réttláta málsmeðferð og jafnræði borgaranna.  Þá er vísað í lög um Mannréttindasáttmála Evrópu, sáttmálann sjálfan og viðauka, um réttláta málsmeðferð, jafnræði og vernd eignarréttinda og í alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um sama.  Þá vísa stefnendur til réttarreglna um stofnun nýbýla og um sönnun og sönnunarbyrði er vísað til laga um meðferð einkamála.

          Stefnendur byggja málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísa til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 20. júní 2005.

Málsástæður og lagarök stefnda.

           Stefndi byggir á því að Skógafjall sé landfræðilega aðskilið frá Eystri-Skógum með Fjallgili og frá Hvítmögu með Jökulsárgili og sé fyrst um það fjallað í tengslum við deilur eigenda Eystri- og Ytri-Skóga um merki jarða sinna og rétt til fjallsins.  Í landamerkjalýsingu Skógafjalls og Hvítmögu frá 1885 sé Skógafjall nefnt afréttur Ytri-Skóga og sama máli gegni um landamerkjabréf Ytri-Skóga 1886.  Í landamerkjabréfum Eystri-Skóga frá 1885 sé hins vegar enginn greinarmunur gerður á Skógafjalli og öðru landi innan merkja þeirrar jarðar.  Þá sé allt land vestan tilgreindrar markalínu sagt tilheyra Eystri-Skógum.  Þá geri lögfesta Eystri-Skóga frá 1839 ekki ráð fyrir að fjallið sé innan merkja jarðarinnar og ekkert um það fjallað.

          Í samningi fyrirsvarsmanna Eystri- og Ytri-Skóga um Skógafjall og merki Skógajarða frá 1899 sé landið nefnt afréttarland Skóga og kveðið á um að Ytri-Skógar skyldu eiga 4/5 hluta þess en Eystri-Skógar 1/5 hluta.  Tekið sé fram að engar aðrar jarðir eigi rétt til upprekstrar í Skógafjall.

          Stefndi vísar til þeirra niðurstöðu óbyggðanefndar að heimildir bendi til þess að Skógafjall falli utan landamerkja áðurgreindra jarða.  Þá telji nefndin að umfjöllun um fjallið í umræddum samningi bendi frekar til afréttareignar jarðanna en beins eignarréttar og styðji landamerkjalýsing Skógafjalls og Hvítmögu frá 1885 og landamerkjabréf Ytri-Skóga 1886 þá ályktun.  Þá líti nefndin svo á að með samkomulaginu frá 1899 dragi fyrirsvarsmenn Eystri-Skóga til baka þá lýsingu á austurmörkum sem fram komi í landamerkjabréfum jarðarinnar 1885, enda í ósamræmi við eldri heimild um sömu jörð.  Þá byggir stefndi á því að þegar fjallað sé um Skógafjall í heimildum sé það í tengslum við upprekstur og afréttarnot og liggi engin gögn fyrir um að það hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé.

          Stefndi vísar til þeirrar niðurstöðu nefndarinnar að ekki væri hægt að útiloka að Skógafjall væri innan upphaflegs landnáms á svæðinu eða hafi á annan hátt orðið undirorpið beinum eignarrétti, en í því efni skorti sönnun.  Hafi samhengi eignarréttar og sögu ekki verið talið liggja fyrir.  Byggir stefndi á því að stefnendur hafi ekki náð að sýna fram á að Skógafjall væri eignarland, hvorki fyrir nám né með löggerningum eða öðrum hætti.  Þá hefði ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hefði verið unnin á landinu eins og notum af því hefði verið háttað.  Ekki sé um jörð að ræða og enginn sé þinglýstur eigandi og ekki vitað til þess að landið hafi verið nýtt til búskapar frá þeim jörðum sem nú geri eignartilkall.  Þar sem ekki sé um jörð að ræða hvíli sönnunarbyrðin um að landið sé undirorpið beinum eignarrétti á stefnendum.

          Stefndi vísar til þjóðlendulaga nr. 58/1998, laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986 og landamerkjalaga nr. 41/1919 og eldri laga frá 1882.  Þá er vísað til ákvæða lögbókanna Grágásar og Jónsbókar sem fjalla um afréttarmál.

Niðurstaða.

           Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.  Með bréfi dagsettu 12. október 2000 tilkynnti nefndin fjármálaráðherra að tekin yrðu til meðferðar nánar tilgreind landsvæði í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu, þ.e.a.s. vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar og austan Þjórsár, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna, en þetta svæði var hið þriðja sem til meðferðar kom hjá nefndinni.  Að fengnum kröfulýsingum fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins gerðu stefnendur í máli þessu þá kröfu fyrir nefndinni að viðurkenndur yrði beinn eignarréttur þeirra að Skógafjalli. Mál, sem varðaði Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra, var rekið sem mál nr. 5/2003 hjá nefndinni og var úrskurður kveðinn upp 10. desember 2004.  Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að sá hluti svæðisins, sem til meðferðar var í málinu, þ.e.a.s. Skógafjall, teldist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laganna.  Er nánari grein gerð fyrir afmörkun þessa landsvæðis í úrskurðarorði.  Þá var komist að þeirri niðurstöðu að sama landsvæði væri afréttareign eigenda jarðanna Eystri- og Ytri-Skóga, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laganna. 

          Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003 var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, og er mál þetta því höfðað innan lögmælts málshöfðunarfrests, sbr. 19. gr. þjóðlendulaga.

          Samkvæmt framansögðu hefur óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að Skógafjall sé þjóðlenda í afréttareign stefnenda í skilningi c-liðar 7. gr. laganna.  Stefnendur krefjast þess að viðurkenndur verði beinn eignarréttur þeirra að afréttarlandinu en verði ekki á það fallist er krafist viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti stefnenda til hvers kyns gagna og gæða á afréttarlandinu að engum afnotum undanskildum.   Af  hálfu stefnda er krafist staðfestingar á úrskurði óbyggðanefndar.  Ekki virðist ágreiningur um mörk hins umdeilda svæðis.  Dómarinn fór á vettvang ásamt lögmönnum aðila og kynnti sér aðstæður. 

          Í 1. gr. þjóðlendulaga er eignarland þannig skilgreint að um sé að ræða landsvæði sem háð sé eignarrétti þannig að eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma.  Þá er þjóðlenda þannig skilgreind að um sé að ræða landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Afréttur er skilgreindur sem landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.  Eins og að framan er rakið skal hlutverk óbyggðanefndar vera m.a. að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur, sbr. b-lið 7. gr. laganna og jafnframt að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. c-lið 7. gr. laganna.  Í úrskurðum óbyggðanefndar, sem gengið hafa fram að þessu, kemur fram að úrskurður um afrétt jarða í tilteknu sveitarfélagi byggi á b-lið 7. gr. laganna en þegar úrskurður er byggður á c-lið 7. gr. laganna er rætt um afréttareign tiltekinna jarða.  Eins og áður er vikið að komst nefndin að þeirri niðurstöðu að um hið umdeilda landsvæði giltu ákvæði c-liðar 7. gr. laganna.

          Í Hauksbók Landnámabókar greinir frá því að Þrasi Þórólfsson hafi farið af Hörðalandi til Íslands og numið landið milli Jökulsár og Kaldaklofsár og búið á Bjallabrekku, en hún er sögð vera fyrir ofan bæinn í Ytri-Skógum.  Samkvæmt Melabók og Sturlubók bjó Þrasi í „Skógum enum eystrum“   Stefndi telur ekki útilokað að hið umdeilda landsvæði hafi verið innan upphaflegs landnáms undir Eyjafjöllum eða hafi á annan hátt orðið undirorpið beinum eignarrétti, en telur sönnun skorta í því efni. 

 Í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt væri að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig til dæmis afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Var þar sagt að landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland væri að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þá var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands.

          Lögfesta hefur verið skilgreind þannig að um sé að ræða skriflegt bann eiganda eða ábúanda fasteignar gegn því að aðrir noti landið innan ákveðinna ummerkja. Hafa dómstólar  haft tilhneigingu til þess að taka lítið mark á lögfestum þar sem þær hafi að geyma einhliða lýsingu á merkjum og hafa einar sér ekki verið taldar fullnægjandi gögn fyrir beinum eignarrétti.  Eru því ekki efni til að gefa lögfestum aukið vægi í málum af því tagi sem hér um ræðir, það er þegar tekist er á um mörk eignarlands og þjóðlendu.

Í greinargerð með þjóðlendulögunum er að því vikið að með afrétti sé almennt átt við tiltekið, afmarkað landsvæði, en skiptar skoðanir séu um hvort einungis geti verið um beitarrétt eða annan afnotarétt að ræða, þ.e. hvort slíkt landsvæði geti ýmist verið undirorpið beinum eða óbeinum eignarrétti.  Samkvæmt athugasemdum við 1. gr. laganna er hugtakið afréttur skilgreint út frá beitarnotum fyrir búfé og ráðast mörk afréttar þannig af því landsvæði sem sannanlega hafi verið nýtt til sumarbeitar fyrir búpening.

           Þeim heimildum sem greina frá austurmerkjum jarðarinnar Eystri-Skóga ber ekki saman um það hvort Skógafjall sé innan eða utan merkja jarðarinnar.  Samkvæmt lögfestunni frá 1839 liggur Skógafjall utan merkja og er ekkert á það minnst þar.  Samkvæmt landamerkjabréfum frá 1885 er fjallið hins vegar talið innan merkja Eystri-Skóga og er enginn greinarmunur gerður á fjallinu og öðru landi.  Fyrir liggur að árið 1885 undirrituðu fyrirsvarsmenn Ytri-Skóga og Ytri-Sólheima lýsingu á merkjum Skógafjalls og Hvítmögu, en eigendur Eystri-Skóga áttu ekki aðild að því samkomulagi.  Þá liggur fyrir landamerkjabréf Ytri-Skóga frá 1886 þar sem gert er ráð fyrir að merki jarðarinnar liggi þvert yfir það landsvæði sem lýst er í lögfestunni og landamerkjabréfum Eystri-Skóga og er sérstaklega fjallað um merki Skógafjalls.  Eins og áður er getið lauk deilum fyrirsvarsmanna Eystri- og Ytri-Skóga með samningi um Skógafjall, sem nefnt er afréttarland Skóga og tekið er sérstaklega fram að engar aðrar jarðir eigi rétt til upprekstrar í fjallið.  Fallast ber á þann skilning óbyggðanefndar að framangreind gögn bendi til þess að Skógafjall hafi verið talið sérstakt landsvæði utan við eiginleg landamerki jarðanna.

          Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 58/1998, var tekið fram að ekki verði að lögum settar sérstakar sönnunarreglur eða lagaskilyrði fyrir því að land teljist eignarland í merkingu laganna, heldur ráðist það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar eru fram í einstöku tilviki. Gildir sú regla því sem endranær að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu sé það dregið í efa.

           Eins og rakið var hér að framan var gerður samningur milli fyrirsvarsmanna jarðanna Eystri- og Ytri-Skóga um Skógafjall árið 1899 og verður hann ekki skilinn á annan veg en þann að þar hafi verið samið um afréttareign fremur en beinan eignarrétt jarðanna.  Að mati dómsins kemur hvergi fram í þeim heimildum sem fyrir liggja í máli þessu að svo hafi verið litið á að svæðið hafi verið undirorpið beinum eignarrétti jarðanna.

          Fallast ber á þá niðurstöðu óbyggðanefndar að líkur bendi til þess að Skógafjall hafi verið innan upphaflegs landnáms undir Eyjafjöllum en ljóst er að aldrei hefur verið búið á fjallinu.  Engin gögn hafa hins vegar verið lögð fram í málinu um það með hvaða hætti sá eignarréttur, er þá kann að hafa stofnast, yfirfærðist til stefnenda.  Þegar virtar eru heimildir um nýtingu hins umdeilda svæðis, gróðurfar og staðhættir að öðru leyti, þykir verða að líta svo á með hliðsjón af öllu framansögðu og sérstaklega með vísan til fordæma Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum að stefnendum hafi ekki tekist að sanna að Skógafjall sé eignarland þeirra.  Þá verður ekki talið að eignarhefð hafi unnist á svæðinu eins og notkun þess hefur verið háttað.  Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda í máli þessu og úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í ofangreindu máli um að hið umdeilda svæði sé þjóðlenda staðfestur.  Með vísan til fordæma Hæstaréttar í sambærilegum málum ber að miða við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998. Jafnframt er staðfestur sá úrskurður nefndarinnar að sama landsvæði sé í afréttareign eigenda jarðanna Eystri- og Ytri-Skóga, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998 

          Málskostnaður fellur niður.

          Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., 200.000 krónur.  Samkvæmt yfirliti lögmannsins nam útlagður kostnaður hans 24.285 krónum.

          Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mikilla embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

          Úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 5/2003 frá 10. desember 2004 að því er varðar þjóðlendu á landsvæði því sem nefnt er Skógafjall í Rangárþingi Eystra er staðfestur og viðurkennt að svæði innan neðangreindra marka sé  þjóðlenda: 

 Frá upptökum Fjallgilsár við Mýrdalsjökul og eftir Fjallgili [að Votugjá, síðan í þeirri gjá allt til enda og þaðan í Jökulsárgil. Síðan er] Jökulsárgili fylgt að upptökum við Mýrdalsjökul. Á milli framangreindra tveggja punkta við jaðar Mýrdalsjökuls er miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðll.

          Þá er staðfest nú niðurstaða nefndarinnar að sama landsvæði sé í afréttareign eigenda jarðanna Eystri- og Ytri-Skóga, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998

          Málskostnaður fellur niður.

          Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., 200.000 krónur.