Print

Mál nr. 128/2010

Lykilorð
  • Opinberir starfsmenn
  • Uppsögn
  • Kjarasamningur
  • Stjórnsýsla
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 9. desember 2010.

Nr. 128/2010.

Stykkishólmsbær 

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Jóhönnu Jónu Guðbrandsdóttur

(Gísli Guðni Hall hrl.)

og gagnsök

Opinberir starfsmenn. Uppsögn. Kjarasamningur. Stjórnsýsla. Fjártjón. Miskabætur.

Í málinu krafðist J forfallalauna og skaðabóta úr hendi S vegna starfsloka hennar sem forstöðumaður dvalarheimilis aldraðra í S. Talið var að ráðningarsamningi J hafi verið slitið á fundi aðila 30. september 2008 og var í því sambandi vísað til tveggja bréfa frá S. Þá var talið að S hefði borið að rannsaka þær ávirðingar sem á J voru bornar og gefa henni færi á að neyta andmælaréttar vegna þeirra áður en lengra yrði gengið. Jafnframt hafi S samkvæmt kjarasamningi borið að áminna J fyrst skriflega og veita henni færi á að bæta ráð sitt áður en gripið var til uppsagnar. Með þessum hætti hafi S brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Uppsögn J var því talin ólögmæt og fallist á rétt hennar til greiðslu skaðabóta af þeim sökum. Þar sem J var óvinnufær vegna veikinda er uppsögnin fór fram og til 23. janúar 2009 var talið að hún nyti réttar til forfallalauna til þess tíma, en sá réttur lengdi þó ekki rétt hennar til launa í uppsagnarfresti. Framganga S við slit ráðningarsamningsins var talin meiðandi í garð J og talin hafa falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart henni. Voru skaðabætur vegna fjártjóns til J ákveðnar 3.000.000 og miskabætur 800.000 krónur.   

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2010. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 19. maí 2010 og krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 10.319.974 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. febrúar 2009 til greiðsludags   og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í máli þessu er deilt um rétt gagnáfrýjanda til forfallalauna og skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda vegna starfsloka hennar sem forstöðumanns Dvalarheimilis aldraðra í Stykkishólmi. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en Dvalarheimili aldraðra sé ein af stofnunum aðaláfrýjanda og það sé rekið af sveitarsjóði, sem meðal annars greiddi gagnáfrýjanda laun fyrir forstöðumannsstarfann. Um starfskjör gagnáfrýjanda, sem er sjúkraliði að mennt, gilti, auk ákvæða í ráðningarsamningi hennar 19. febrúar 2002, kjarasamningur launanefndar sveitarfélaga við Sjúkraliðafélag Íslands.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er ágreiningur með málsaðilum um hvort ráðningarsamningi gagnáfrýjanda var slitið á fundi hennar með bæjarstjóra og formanni stjórnar Dvalarheimilis aldraðra 30. september 2008. Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu aðaláfrýjanda að líta beri svo á að gagnáfrýjanda hafi verið sagt upp með bréfi bæjarstjóra 2. október sama ár, en í því sagði meðal annars: ,,... ákvörðun Stykkishólmsbæjar um uppsögn ... verður ekki dregin til baka.“ Þrátt fyrir þetta verður að leggja til grundvallar, eins og gert er í héraðsdómi, að miða beri við að uppsögn hafi átt sér stað á fundinum 30. september. Er það beinlínis tekið fram í bréfi þáverandi lögmanns aðaláfrýjanda 31. október 2008 og fær stuðning í framangreindu bréfi bæjarstjóra.

Aðdragandi uppsagnarinnar frá sjónarhóli gagnáfrýjanda var sá að hún var boðuð til framangreinds fundar 30. september 2008 með skömmum fyrirvara, án þess að fundarefni væri tilgreint. Í hinum áfrýjaða dómi er því lýst, hvað fram fór á fundinum. Uppsögn aðaláfrýjanda á ráðningarsamningnum við gagnáfrýjanda var stjórnvaldsákvörðun, sem var hluti af stjórnsýslu aðaláfrýjanda. Við undirbúning og ákvörðun um uppsögn bar bæjarstjóra því að fara eftir reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 1. gr. þeirra. Er fallist á með héraðsdómi að aðaláfrýjandi hafi hvorki gætt þess að rannsaka þær ávirðingar sem hluti starfsfólks hafði þá komið fram með á hendur gagnáfrýjanda, né gefa henni nægilega kost á að neyta andmælaréttar vegna þeirra. Auk þess var aðaláfrýjandi bundinn af ákvæði 11.1.6.1 í kjarasamningi þeim, sem ákvarðaði starfskjör gagnáfrýjanda, en það hljóðar svo: ,,... Ef talið er að fyrir liggi ástæður til uppsagnar sem rekja megi til starfsmannsins sjálfs, er skylt að áminna starfsmanninn fyrst skriflega og veita honum tíma og tækifæri til að bæta ráð sitt áður en gripið er til uppsagnar.“ Með uppsögn ráðningarsamningsins, án undangenginnar áminningar, braut aðaláfrýjandi því einnig meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt framansögðu var uppsögn aðaláfrýjanda því ólögmæt og veitir gagnáfrýjanda rétt til skaðabóta vegna fjártjóns hennar.

Gagnáfrýjanda naut þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt ráðningarsamningi og ákvæði 11.1.3.2 í kjarasamningnum. Fallist er á með héraðsdómi að hún hafi sannað að hún var óvinnufær vegna veikinda þegar ráðningarsamningi hennar var slitið með framangreindum hætti. Réttur hennar til forfallalauna varð ekki skertur með uppsögn. Er fallist á, að hún hafi verið óvinnufær vegna veikinda til 23. janúar 2009 og njóti réttar til forfallalauna til þess tíma. Sá tími lengir þó ekki rétt hennar til launa í uppsagnarfresti. Við mat á fjárhæð bóta vegna hinnar ólögmætu uppsagnar verður því að taka tillit til þess að stefnda naut launagreiðslna út janúar 2009. Þá hafði hún samkvæmt framansögðu tæmt þann rétt, sem hún átti til skaðabóta sem jafngiltu launum í umsömdum uppsagnarfresti, en hann skyldi samkvæmt ráðningarsamningi miðast við mánaðarmót og lauk því 31. desember 2008. Réttur hennar til skaðabóta er rýmri, en sem nemur framangreindum tíma. Ber við ákvörðun á fjárhæð skaðabóta vegna fjártjóns að taka tillit til þess að gagnáfrýjandi var 55 ára þegar atvik málsins áttu sér stað og hafði sinnt starfi sínu átölulaust frá því í maí 2001. Hún býr á litlu atvinnusvæði þar sem erfitt er fyrir hana að takmarka tjón sitt með því að ráðast til annarra starfa sem hún er menntuð til og afar ólíklegt að hún fái sambærilegt starf og hún gegndi hjá aðaláfrýjanda. Þá ber einnig að líta til þess að upplýst er að hún naut atvinnuleysisbóta frá 1. júní 2009 og réðst í 80% starf sem sjúkraliði á Heilbrigðisstofnun Vesturlands frá 26. september 2010, en laun hennar í því starfi eru verulega lægri en hún naut í starfinu hjá aðaláfrýjanda. Eru skaðabætur vegna fjártjóns gagnáfrýjanda hæfilega ákveðnar 3.000.000 krónur.

Fallist er á með héraðsdómi að framganga aðaláfrýjanda við slit ráðningarsamningsins, sem eins og áður greinir fól í sér brot á ákvæðum stjórnsýslulaga og skýrum fyrirmælum um rétt gagnáfrýjanda til áminningar samkvæmt kjarasamningi, hafi verið meiðandi í hennar garð og falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart henni. Hún á því rétt til miskabóta samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja þær hæfilega ákveðnar í héraðsdómi.

Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

          Aðaláfrýjandi, Stykkishólmsbær, greiði gagnáfrýjanda, Jóhönnu Jónu Guðbrandsdóttur, 3.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. febrúar 2009 til greiðsludags.

          Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.200.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 7. desember 2009.

Mál þetta var höfðað 11. febrúar 2009 og dómtekið 18. nóvember sama ár. Stefnandi er Jóhanna Jóna Guðbrandsdóttir, Hjallatanga 30 í Stykkishólmi, en stefndi er Stykkishólmsbær, Hafnargötu 3 í Stykkishólmi.

Stefnandi gerir aðallega þær kröfur á hendur stefnda að honum verði gert að greiða sér:

1.          Laun í veikindaforföllum og orlof að fjárhæð 2.087.287 krónur.

2.          Skaðabætur að fjárhæð 7.232.687 krónur.

3.          Miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna.

Verði ekki fallist á kröfuliði 1 og 2 krefst stefnandi þess til vara að stefnda verði gert að greiða lægri fjárhæð.

Þá krefst stefnandi þess að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá því málið var þingfest 11. febrúar 2009 til greiðsludags. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað. Til vara krefst stefnandi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla. 

I.

Hinn 28. maí 2001 hóf stefnandi störf hjá stefnda sem forstöðumaður Dvalarheimilis aldraðra í Stykkishólmi. Ráðningarsamningur var gerður við stefnanda 19. febrúar 2002 og var ráðningin ótímabundin. Stefnandi er félagsmaður í Sjúkraliðafélagi Íslands og fóru starfskjör hennar eftir kjarasamningum þess félags við Launanefnd sveitarfélaga. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur var þrír mánuðir samkvæmt ráðningarsamningi. Ekki var gerð starfslýsing fyrir forstöðumannsstarfið en það mun hafa verið sambærilegt og tíðkast hjá stjórnendum dvalarheimila fyrir aldraða. Fólst starfið meðal annars í því að sjá um starfsmannamál, innkaup og önnur tilfallandi dagleg stjórnunarstörf. Bar stefnandi ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn dvalarheimilisins sem skipuð er af stefnda.

Árið 2003 greindist stefnandi með alvarlegan sjúkdóm sem þurfti að meðhöndla með skurðaðgerð auk lyfja- og geislameðferðar. Af þessum sökum þurfti stefnandi að vera frá vinnu um skamma hríð. Stefnandi er talin hafa náð sér af þessum sjúkdómi. Haustið 2005 var stefnandi stödd erlendis og hlaut alvarlega matareitrun. Telur stefnandi að hún hafi enn ekki náð fullum bata af þeim veikindum.

Síðsumars 2008 hafði Erla Friðriksdóttir, bæjarstjóri, samband við Landlæknisembættið og tilkynnti að sá grunur hefði vaknað að stefnandi misnotaði lyf og hefði tekið lyf bæði frá heimilinu og íbúum þess. Samkvæmt minnisblaði Landlæknisembættisins 10. mars 2009 var bæjarstjóra ráðlagt að leita leiða til að staðfesta grun sinn og bent á að hafa síðan samband við embættið.

Hinn 22. september 2008 komu átta starfsmenn dvalarheimilisins til fundar við bæjarstjóra til að kvarta yfir störfum stefnanda. Lýstu starfsmennirnir mikilli vanlíðan vegna langvarandi samstarfsörðugleika við stefnanda. Einnig kom fram að starfmenn töldu sig hafa fundið áfengislykt af stefnanda þegar hún mætti til starfa.

Stefnandi var frá störfum vegna veikinda frá sunnudeginum 21. september 2008 og fram til 29. þess mánaðar en þá mætti hún aftur til starfa. Stefnandi heldur því þó fram að hún hafi ekki verið búin að ná góðri heilsu og hafi þurft frá að hverfa þann dag.

Hinn 30. september 2008 var stefnandi boðuð á fund með bæjarstjóra og Róbert Jörgensen, formanni stjórnar dvalarheimilisins. Stefnanda var ekki kynnt tilefni fundarins en þar voru stefnanda kynntar ýmsar ávirðingar í hennar garð sem forstöðumanns dvalarheimilisins. Með málsaðilum er ágreiningur um hvað fór frekar fram á þessum fundi. Heldur stefnandi því fram að þar hafi hún staðið frammi fyrir þeim valkosti að segja sjálf upp starfi eða verða sagt upp starfi. Einnig fullyrðir stefnandi að henni hafi verið veittur frestur til næsta dags til að taka ákvörðun í þeim efnum. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að stefnanda hafi eingöngu verið kynntar ætlaðar ávirðingar og verið veittur frestur til að bregðast við þeim. Stefndi kannast þó við að rætt hafi verið um að stefnandi segði sjálf upp störfum til að hlífa henni við óþægindum. Einnig liggur fyrir að stefndi samþykkti ekki að stefnandi færi á dvalarheimilið nema í fylgd bæjarstjóra til að sækja persónulega muni sína.

Eftir umræddan fund leitaði stefnandi sér aðstoðar hjá stéttarfélagi sínu. Með bréfi lögmanns stefnanda 1. október 2008, sem barst sama dag með tölvupósti, var uppsögninni harðlega mótmælt sem og málsmeðferðinni. Jafnframt var þess krafist að uppsögnin yrði dregin til baka. Bréfi þessu var svarað 2. sama mánaðar með tölvubréfi bæjarstjóra en þar sagði svo:

Það tilkynnist hér með að ákvörðun Stykkishólmsbæjar um uppsögn umbjóðanda yðar Jóhönnu Guðbrandsdóttur sem forstöðumanns Dvalarheimilis aldraðra í Stykkishólmi verður ekki dregin til baka.

Því miður telur Stykkishólmsbær uppsögnina óumflýjanlega í ljósi ávirðinga sem fram eru komnar.

Engu að síður er Stykkishólmsbær reiðubúinn til að greiða Jóhönnu laun í uppsagnarfresti sem skv. kjarasamningi og ráðningarsamningi er 3 mánuðir en ekki verður óskað eftir vinnuframlagi hennar.

Stefnandi ritaði bréf 25. október 2008 til Bæjarráðs Stykkishólms, auk þess sem hún sendi afrit af erindinu til stjórnar dvalarheimilisins og þjónustuhóps aldraðra í Stykkishólmi. Í bréfinu fer stefnandi yfir málið í heild sinni eins og það horfði við henni og svaraði í einstökum atriðum ávirðingum í sinn garð.

Lögmaður stefnanda ritaði lögmanni stefnda bréf 29. október 2008 þar sem áréttað var að ráðningarsamningi hefði enn ekki verið sagt upp með þeim hætti sem áskilið er í lögum. Einnig var tekið fram að stefnandi væri í veikindaleyfi og því yrðu starfslok ekki ákveðinn nema að teknu tilliti til þess hvenær stefnandi yrði vinnufær á ný eða veikindaréttur tæmdur. Þessu erindi svaraði lögmaður stefnda með bréfi 31. sama mánaðar, en þar var áréttað að stefndi liti svo á að stefnanda hefði verði sagt upp störfum 30. september 2008.

Hinn 14. nóvember 2008 var auglýst laust til umsóknar starf forstöðumanns dvalarheimilisins. Í kjölfarið var nýr forstöðumaður ráðinn.

II.

Stefnandi fékk greidd laun frá stefnda fyrir tímabilið október 2008 til janúar 2009. Að viðbættum 50 tímum í fastri yfirvinnu samkvæmt ráðningarsamningi, auk bifreiðastyrks, orlofs og desemberuppbótar námu laun samtals í október 502.848 krónum, í nóvember voru þau 568.252 krónur, í desember 501.648 krónur og í janúar 452.995 krónur eða alls 2.025.743 krónur.

Stefnandi krefst launa í veikindaforföllum fyrir tímabilið febrúar til apríl 2009 að báðum mánuðum meðtöldum. Miðar stefnandi við 532.823 króna mánaðarlaun að meðtalinni fastri yfirvinnu og mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð og sérstakan lífeyrissparnað, auk orlofsuppbótar, eða samtals 1.651.747 krónur (3 x 532.823 kr. + 23.600 kr.). Jafnframt krefst stefnandi orlofs fyrir tímabilið maí 2008 til apríl 2009 samtals að fjárhæð 435.540 krónur. Alls nemur þessi kröfuliður stefnanda því 2.087.287 krónum, en um hann er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum.

Krafa stefnanda um skaðabætur vegna slita á vinnusamningi svarar til launa í 12 mánuði miðað við föst mánaðarlaun að fjárhæð 602.724 krónur að meðtöldu orlofi og mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð og sérstakan lífeyrissparnað. Samtals nemur þessi kröfuliður því 7.232.687 krónum og er heldur ekki tölulegur ágreiningur um þennan útreikning. 

III.

Stefnandi leggur áherslu á að starfsmissir sé afar íþyngjandi ákvörðun sem varði ríka hagsmuni viðkomandi starfsmanns. Því verði að gera þá kröfu að gætt sé viðeigandi reglna við töku slíkra ákvarðana og eigi það sérstaklega við þegar um er að ræða opinbert stjórnvald eins og í þessu tilviki.

Stefnandi heldur því fram að stefnda hafi borið að fara að meginreglum stjórnsýsluréttar við töku ákvörðunar um uppsögnina, enda sé óyggjandi að lausn frá starfi sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessa hafi ekki verið gætt í neinu tilliti, heldur hafi verið tekin órökstudd og haldlaus ákvörðun um að taka starfið af stefnanda með valdi og ráðstafa því annað.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi að minnsta kosti brotið þrjár grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins. Í fyrsta lagi hafi málið ekki verið upplýst áður en ákvörðun var tekin, sbr. meginregluna um rannsóknarskyldu í 10. gr. stjórnsýslulaga. Í öðru lagi hafi ekki verið gætt að meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Loks hafi í þriðja lagi andmælaréttur stefnanda ekki verið virtur, sbr. IV. kafli laganna. Fyrir utan þetta hafi ýmsar aðrar reglur verið brotnar og nefnir stefnandi í því sambandi birtingarreglu 20. gr. laganna, auk lögmætis- og réttmætisreglu íslensks réttar.

Stefnandi tekur fram að allar þær ávirðingar sem á hana hafa verið bornar séu rangar og ósannaðar. Einnig bendir stefnandi á að henni hafi ekki verið gefinn viðhlítandi kostur til að tjá sig um ávirðingarnar áður en ákvörðun var tekin, auk þess sem fyrirliggjandi upplýsingar hafi að öðru leyti verið ófullnægjandi. Með þessu hafi réttaröryggi stefnanda verið fyrir borð borið í samskiptum hennar við hlutaðeigandi stjórnvald og öll stjórnsýslan verið einkar meiðandi og óvönduð.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt gildandi kjarasamningi milli Sjúkraliðafélags Íslands og Launanefndar sveitarfélaga, sem eigi við um lögskipti málsaðila, beri að veita starfsmanni kost á að tjá sig ef ástæða er talin til að veita áminningu. Einnig beri samkvæmt kjarasamningi að áminna starfsmann skriflega og veita honum tækifæri til að bæta ráð sitt áður er gripið er til uppsagnar vegna ástæðna sem rekja megi til starfsmannsins. Þá skuli uppsögn vera skrifleg og óheimilt sé að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna. Stefnandi heldur því fram að öll þessi ákvæði kjarasamnings hafi verið virt að vettugi.

Til stuðnings kröfu um laun í veikindaforföllum vísar stefnandi til þess réttar sem hún hafi áunnið sér samkvæmt kjarasamningi. Einnig telur stefnandi vafalaust með vísan til læknisvottorða að veikindaleyfi hafi byrjað að líða áður en til ólögmætrar uppsagnar kom. Stefnandi vísar til þeirrar rótgrónu venju á vinnumarkaði að uppsögn vinnuveitanda á ráðningarsambandi geti ekki skert veikindarétt starfsmanna, enda færi slíkt í bága við kjarasamning. Því sé viðtekið að starfsmaður haldi veikindarétti þrátt fyrir uppsögn þar til hann sé vinnufær á ný eða veikindaréttur tæmdur. Af þessu leiðir að veikindaréttur framlengi ráðningartímann ef uppsagnarfrestur líður áður en sá tími líður sem starfsmaður á rétt á launum í veikindaforföllum. 

Kröfu um skaðabætur vegna slita á vinnusamningi reisir stefnandi á því að hún hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna uppsagnarinnar. Í því sambandi bendir stefnandi á að atvinnuleit muni fyrirsjáanlega reynast henni mjög erfið þegar litið er til aldurs stefnanda, heilsufars og hvernig horfur eru á atvinnumarkaði. Að þessu gættu sé stefnandi ekki í aðstöðu til að takmarka tjón sitt.

Til stuðnings miskabótakröfu vísar stefnandi til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Telur stefnandi að bæjarstjórinn í Stykkishólmi hafi með framgöngu sinni gagnvart stefnanda brotið gegn starfsheiðri hennar að ófyrirsynju. Jafnframt hafi þetta verið til þess fallið að rýra álit annarra á stefnanda. Þetta hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda og á því beri stefndi miskabótaábyrgð. Einnig tekur stefnandi fram að lítt grunduð geðþóttaákvörðun hafi valdið henni miklum sárindum og stórlega skaðað möguleika hennar á að finna sér starf við sitt hæfi í sinni heimabyggð.

IV.

Stefndi andmælir því að stefnanda hafi verið sagt upp starfi sínu sem forstöðumaður á fundi með bæjarstjóra og formanni stjórnar dvalarheimilisins 30. september 2008 heldur hafi hún sjálf kosið að hverfa úr starfi án þess að segja formlega upp störfum. Á umræddum fundi hafi eingöngu verið ákveðið að stefnandi færi heim og kæmi ekki aftur til starfa fyrr en málið hefði verið til lykta leitt. Í stað þess að setja fram sín sjónarmið og verjast ætluðum ávirðingum hefði stefnandi leitað til stéttarfélags með frásögn sem átti sér enga stoð í raunveruleikanum.

Stefndi heldur því fram að öll framganga sveitarfélagsins hafi verið í fullu samræmi við kjarasamning og lög um réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Telur stefndi að engin breyting hafi orðið á réttarstöðu stefnanda við það eitt að hafa verið boðuð til kynningarfundar 30. september 2008 þar sem engar kröfur voru gerðar um viðbrögð af hennar hálfu fyrr en að athuguðu máli. Þegar hér var komið í upphafi málsmeðferðar hefðu hvorki legið fyrir svör um ætlaðar ávirðingar né niðurstaða landlæknis vegna ætlaðs lyfjamisferlis. Öll þessi málsmeðferð hafi í hvívetna verið bæði lögleg og málefnaleg. Mótmælir stefndi því að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu, andmælareglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Hvað síðastnefnda reglu varðar bendir stefndi á að engin ákvörðun hafi verið tekin og því hafi hvorki andmælaregla né meðalhófsregla verið brotin.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi sjálf brotið starfsskyldur sínar með því að taka ákvörðun um að mæta ekki til vinnu framar nema málið yrði dregið til baka. Með þessu hafi stefnandi hamlað að forstöðumaður starfaði við dvalarheimilið en það hafi valdið vandkvæðum í starfseminni þar sem stofnunin hafi um hríð verið stjórnlaus. Því hafi stefnandi í raun slitið ráðningarsambandi sínu við stefnda sem leitt hafi til þess að auglýsa þurfti stöðuna lausa til umsóknar.

Stefndi andmælir því að stefnandi hafi verið veik frá 21. september 2008, enda hafi hún mætt til starfa 29. sama mánaðar og mætt til fundar með bæjarstjóra og formanni stjórnar dvalarheimilisins daginn eftir. Vefengir stefndi læknisvottorð sem stefnandi hefur aflað eftir á um veikindi sín, en þau vottorð byggi eingöngu á frásögn stefnanda.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir tjóni þótt stefndi hafi sent hana heim að loknum fundi 30. september 2008. Telur stefndi ósannað að það sem fram fór á fundinum hafi kastað rýrð á orðstír stefnanda, auk þess sem ekki hafi verið sýnt fram á orsakasamband milli fundarins og meints álitshnekkis. Einnig mótmælir stefndi miskabótakröfu og bendir á í því sambandi að frásögn af kvörtun samstarfsmanna um ætlaðar ávirðingar stefnanda í starfi geti ekki talist ólögmæt meingerð heldur nauðsynleg viðbrögð af gefnu tilefni.

Verði fallist á að stefndi beri bótaábyrgð gagnvart stefnanda telur stefndi að lækka beri fjárkröfur stefnanda verulega. Bendir stefndi á að kröfugerðin sé ekki í neinu samræmi við kjarasamning eða ætlað tjón stefnanda, en henni hafi verið greidd full laun í fjóra mánuði eftir að hún hætti störfum. Þá sé þess að gæta að stefnandi hafi aflað sér menntunar og starfsreynslu en það ætti að auðvelda henni að finna starf við sitt hæfi.

V.

Stefnandi hóf störf hjá stefnda 28. maí 2001 sem forstöðumaður Dvalarheimilis aldraðra í Stykkishólmi. Dvalarheimilið er rekið á vegum sveitarfélagsins og gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 um lögskipti málsaðila sem lúta að ráðningarsambandinu.

Hinn 30. september 2008 var stefnandi boðuð á fund með Erlu Friðriksdóttur, bæjarstjóra, og Róbert Jörgensen, formanni stjórnar dvalarheimilisins. Í málinu hefur komið fram að stefnanda var ekki kynnt fyrirfram fundarefnið. Á fundinum voru ræddar ávirðingar í garð stefnanda, en þær lutu einkum að því að framkomu hennar gagnvart starfsfólki og vistmönnum dvalarheimilisins væri ábótavant, auk þess sem hún mætti illa og sinnti störfum slælega. Einnig var rætt við hana um ætlað lyfjamisferli og að hún hefði mætti til vinnu undir áhrifum áfengis. Tilefnið var fundur sem bæjarstjóri hafði átt með hópi starfsmanna 22. sama mánaðar þar sem kvartað var undan störfum stefnanda. Þá hafði skömmu áður vaknað grunur um lyfjamisferli og hafði landlæknisembættinu verið gert viðvart um það mál. Stefndi hefur kannast við að stefnanda hafi að svo komnu verið meinað að fara á dvalarheimilið nema í fylgd með bæjarstjóra í því skyni að sækja sína persónulega muni. Einnig hefur komið fram af hálfu stefnda að sá möguleiki hafi verið ræddur við stefnanda að hún segði sjálf upp starfi sínu til að hlífa sér og fjölskyldu sinni við óþægindum. Hins vegar andmælir stefndi því að stefnanda hafi verið settir þeir afarkostir að segja annað hvort sjálf upp starfi sínu eða verða sagt upp störfum eins og stefnandi heldur fram.

Á umræddum fundi var ekki rituð fundargerð en í stað hennar geta ekki komið einhliða minnisblöð sem bæjarstjóri og formaður stjórnar dvalarheimilisins hafa ritað eftir að þau sátu fundinn með stefnanda. Hinn 1. október 2008, eða daginn eftir að fundurinn var haldinn, ritaði lögmaður stefnanda bréf til stefnda þar sem þess var krafist að dregin yrði til baka uppsögn sem talin var hafa farið fram á fundinum. Þessu bréfi svaraði bæjarstjóri með tölvubréfi 2. sama mánaðar þar sem tilkynnt var afdráttarlaust að uppsögnin yrði ekki dregin til baka. Jafnframt var tekið fram að stefnanda yrðu greidd laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti og að ekki væri óskað eftir vinnuframlagi hennar á því tímabili. Hafi leikið nokkur vafi á því hvort stefnanda var í raun sagt upp starfi á fundi 30. september 2008 var hann með öllu tekinn af með þessum viðbrögðum bæjarstjórans. Verður ekki tekin til greina sú skýring bæjarstjórans í aðilaskýrslu sinni hér fyrir dómi að hún hafi átti við að málið yrði ekki látið niður falla, enda hefði þá legið beint við að leiðrétta lögmanninn með ábendingu um að ákvörðun hefði enn ekki verið tekin í málinu. Þar fyrir utan var staðfest með bréfi lögmanns stefnda 31. október 2008 að stefnanda hefði verið sagt upp störfum 30. september sama ár. Samkvæmt öllu þessu er ótvírætt að stefnanda var endanlega sagt upp starfi sínu hjá stefnanda nefndan dag. Er því haldlaus með öllu sú málsástæða stefnda að stefnandi hafi sjálf slitið ráðningunni með því að hverja úr starfi sínu.     

Samkvæmt rannsóknarreglunni í 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu felst meðal annars að afla ber nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik til undirbúnings ákvörðun. Jafnframt skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, sbr. 13. gr. sömu laga um andmælarétt.

Þegar stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda sem forstöðumaður dvalarheimilisins lágu fyrir ýmsar ávirðingar í hennar garð sem undirmenn hennar höfðu þá nýlega sett fram munnlega á fundi með bæjarstjóra. Í málinu hefur ekki komið fram að þessar aðfinnslur hafi verið kannaðar nánar en í því skyni var meðal annars nauðsynlegt að fá athugasemdir og skýringar frá stefnanda. Var það einnig réttur hennar að fá hæfilegt svigrúm til að tala sínu máli áður en tekin var ákvörðun sem snerti starf hennar hjá stefnda. Í þeim efnum var alls ófullnægjandi að boða stefnanda til fundar, án þess að gera nokkra grein fyrir því sem ræða átti á fundinum, og segja stefnanda við svo búið upp störfum. Auk umræddra ávirðinga höfðu vaknað grunsemdir sem beindust að stefnanda um lyfjamisferli á dvalarheimilinu og hafði stefndi leitað atbeina landlæknis við athugun á því máli. Þegar ákvörðun var tekin um uppsögnina var rannsókn þess máls rétt á frumstigi og gátu því þær óstaðfestu grunsemdir með engu móti réttlætt að þegar í stað yrði gripið til uppsagnar. Að öllu þessu virtu fór málsmeðferð stefnda bæði í bága við rannsóknarregluna og andmælarétt stefnanda. Þar fyrir utan bar stefnda samkvæmt gildandi kjarasamningi að veita stefnanda skriflega áminningu og gera henni kleift að bæta ráð sitt áður en gripið yrði til uppsagnar. Samkvæmt öllu þessu var ákvörðun stefnda um að segja stefnanda upp störfum ólögmæt. Eftir almennum reglum skaðabótaréttar ber stefndi fébótaábyrgð gagnvart stefnanda á þeirri ráðstöfun.    

VI.

Með því að stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda 30. nóvember 2008 var vinnusambandinu slitið. Við ákvörðun bóta verður þess gætt að stefnandi fari ekki á mis við rétt sem hún hafði öðlast til launa í veikindaforföllum og orlofs. Verða stefnanda ákveðnar í einu lagi skaðabætur vegna fjártjóns sem svara til liða 1 og 2 í kröfugerð stefnanda.

Stefnandi var veik frá 21. september 2008 en mætti til vinnu 29. sama mánaðar. Eftir að stefnanda var sagt upp störfum leitaði hún daginn eftir á heilsugæsluna í Stykkishólmi og fékk veikindavottorð. Samkvæmt vottorði Friðriks Jónssonar, læknis, 23. janúar 2009 var stefnandi enn óvinnufær og segir að auki í vottorðinu að hún verði það væntanlega eitthvað áfram. Ekki nýtur við gagna í málinu um heilsufar stefnanda frá þessum tíma og fram til 1. júní sama ár en þann dag var hún metin vinnufær samkvæmt læknisvottorði 11. sama mánaðar. Að þessu gættu er ekki sannað að stefnandi hafi verið veik á umræddu tímabili frá 23. janúar 2009.

Við ákvörðun bóta er þess að gæta að stefnanda voru greidd laun á tímabilinu október 2008 til janúar 2009, en á þeim tíma voru mánaðarlaun hennar að viðbættri fastri yfirvinnu samtals 449.418 krónur. Þá hefur komið fram að stefnandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 1. júní 2009. Stefnandi var 55 ára að aldri þegar hún missti starf sitt eftir að hafa starfað sem forstöðumaður dvalarheimilisins um ríflega sjö ára skeið. Áður hafði stefnandi starfað sem sjúkraliði í 18 ár á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi. Frá því stefnanda var sagt upp störfum hefur hún verið atvinnulaus. Ætla má að tækifæri fyrir stefnanda til að fá vinnu við hennar hæfi, þar sem þekking hennar og reynsla geti komið að notum, séu takmörkuð í hennar heimabyggð. Þá verður ekki talið, með hliðsjón af því hvernig stefndi stóð að uppsögninni, að neinar þær málsbætur komi til álita sem haft gætu áhrif til lækkunar bóta. Þegar allt þetta er virt þykja skaðabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 5.000.000 króna.

Svo sem hér hefur verðið rakið var ákvörðun stefnda um að segja stefnanda upp starfi ólögmæt. Með hliðsjón af því að uppsögnin var reist á ætluðum ávirðingum, sem ekki höfðu verið kannaðar nægjanlega, auk þess sem stefnanda var ekki gefið svigrúm til að tjá sig áður en ákvörðunin var tekin, verður stefnandi talin hafa orðið fyrir ólögmætri meingerð á æru sinni og persónu. Með þessu hefur stefndi fellt á sig miskabótaábyrgð gagnvart stefnanda samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Þegar virt er hvaða áhrif uppsögnin hefur haft á stefnanda og stöðu hennar í litlu samfélagi þykir fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 800.000 krónur.

Krafa stefnanda um dráttarvexti af dæmdri fjárhæð verður tekin til greina en upphafsdegi vaxta frá þingfestingu málsins er ekki mótmælt.              

Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Stykkishólmsbær, greiði stefnanda, Jóhönnu Jónu Guðbrandsdóttur, 5.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 11. febrúar 2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.