Print

Mál nr. 156/2002

Lykilorð
  • Kærumál
  • Virðisaukaskattur
  • Málshöfðunarfrestur
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Mánudaginn 22

 

Mánudaginn 22. apríl 2002.

Nr. 156/2002.

Jens Valgeir Óskarsson

(Sigurbjörn Þorbergsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Kærumál. Virðisaukaskattur. Málshöfðunarfrestur. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Frávísunarsúrskurður staðfestur.

J höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu þar sem hann krafðist þess að úrskurður yfirskattanefndar í máli hans yrði felldur úr gildi. Héraðsdómari vísað málinu frá dómi á þeim grundvelli að sex mánaða frestur til að höfða málið samkvæmt 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt væri liðinn. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms. Í dómi Hæstaréttar segir að ákvæði 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 séu skýr og ótvíræð og ekki á valdi málsaðila að semja um lengri frest en þar sé mælt fyrir um. Geti sá fyrirvari, sem J hafi gert um lögmæti skattsins er hann stóð skil á honum, engu breytt í þessu sambandi. Þá verði hvorki fallist á að ákvæðin séu svo óskýr né fresturinn svo skammur að það stríði gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 eða 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Til vara krefst hann þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.

I.

Mál þetta á rætur að rekja til endurákvörðunar skattstjórans í Reykjanesumdæmi 16. desember 1996 á virðisaukaskatti sóknaraðila árið 1993. Af hálfu sóknaraðila var endurákvörðunin kærð 3. janúar 1997 til skattstjóra sem staðfesti hana með úrskurði 10. mars sama árs. Sóknaraðili skaut úrskurðinum 8. apríl 1997 til yfirskattanefndar sem vísaði kærunni frá að svo stöddu með úrskurði nr. 627 frá 27. ágúst sama árs. Með bréfi 29. september 1997 fór sóknaraðili þess á leit að skattstjóri tæki málið upp að nýju, en hinn síðarnefndi hafnaði þeirri beiðni 10. október sama árs. Að fenginni niðurstöðu skattstjóra óskaði sóknaraðili eftir því með bréfi 3. nóvember 1997 að yfirskattanefnd endurupptæki úrskurð nefndarinnar í málinu. Með úrskurði nr. 881 frá 30. september 1998 féllst yfirskattanefnd á beiðni sóknaraðila um að endurupptaka málið, en hafnaði kröfu hans um breytingu á virðisaukaskatti árið 1993.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta 7. september 2001 þar sem hann krafðist þess að áðurnefndur úrskurður yfirskattanefndar nr. 881 frá 30. september 1998 yrði felldur úr gildi. Þá krafðist hann þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér 1.893.605 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum frá 10. september 1997 til greiðsludags auk málskostnaðar. Með hinum kærða úrskurði vísaði héraðsdómari málinu frá á þeim grundvelli að frestur til að höfða málið samkvæmt 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt hafi verið liðinn.

II.

Krafa sóknaraðila um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi er reist á því að í bréfi fjármálaráðuneytisins 29. júní 2001 sé bent á að honum sé heimilt að leggja málið undir úrlausn dómstóla. Telur sóknaraðili að hann hafi mátt skilja bréfið svo að varnaraðili myndi ekki bera fyrir sig að frestur til að höfða málið samkvæmt 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 væri liðinn. Ákvæðið eigi heldur ekki við í málinu þar sem það gildi aðeins um ákvörðun á virðisaukaskatti samkvæmt 25. gr. laga nr. 50/1988, en ekki endurákvörðun samkvæmt 26. gr. sömu laga með áorðnum breytingum. Ákvæðið brjóti enn fremur í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni hafi verið breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu með áorðnum breytingum. Þá vísar sóknaraðili til þess að hann hafi greitt umræddan virðisaukaskatt með 1.593.605 krónum 10. september 1997 með fyrirvara um lögmæti skattsins og áskilnaði um endurheimtu hans. Krafa hans sé í eðli sínu krafa um endurgreiðslu ofgreidds fjár, sem fyrnist á fjórum árum samkvæmt ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, og geti ákvæði 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 ekki skert endurkröfurétt hans að því leyti. Auk þess feli ákvæðið aðeins í sér verklagsreglu, sem skattyfirvöld hafi ítrekað virt að vettugi.

Varnaraðili reisir kröfu sína um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur á því að málshöfðunarfrestur 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 hafi verið liðinn er sóknaraðili höfðaði málið. Sóknaraðili hafi ekki mátt skilja áðurnefnt bréf fjármálaráðuneytisins á þann hátt að varnaraðili myndi ekki bera fyrir sig að málshöfðunarfrestur væri liðinn, enda sé það ekki á færi málsaðila að semja um slíkt. Þá mótmælir varnaraðili því að umræddur frestur brjóti í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994.

III.

Í máli þessu er deilt um heimild sóknaraðila til að bera úrskurð yfirskattanefndar nr. 881 frá 30. september 1998 undir úrlausn dómstóla. Með úrskurðinum hafnaði nefndin að fella niður þá hækkun á virðisaukaskatti sóknaraðila árið 1993, sem leiddi af endurákvörðun skattstjóra 16. desember 1996. Í 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um að bera megi ágreining um skattskyldu og skatthæð undir dómstóla, enda hafi áður verið úrskurðað um hann af yfirskattanefnd. Það skuli þó gert innan sex mánaða frá því að yfirskattanefnd úrskurði í málinu. Ákvæðið á við um endurákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1988, sbr. dóm Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1998 bls. 829. Sóknaraðili höfðaði mál þetta 7. september 2001 svo sem áður er getið. Samkvæmt því var frestur sóknaraðila til að bera úrskurð nefndarinnar undir dómstóla löngu liðinn er hann höfðaði málið. Ákvæði 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 eru skýr og ótvíræð og ekki á valdi málsaðila að semja um lengri frest en þar er mælt fyrir um. Sá fyrirvari, sem sóknaraðili kveðst hafa gert um lögmæti skattsins er hann stóð skil á honum, getur engu breytt í þessu sambandi. Þá verður hvorki fallist á að ákvæði 5. mgr. 29. gr. laganna séu svo óskýr né fresturinn svo skammur að það stríði gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 eða 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Jens Valgeir Óskarsson, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 40.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2002.

Stefnandi málsins er Jens Valgeir Óskarsson, kt. 200141-2459, Iðavöllum 8, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi höfðaði málið með stefnu áritaðri af ríkislögmanni um birtingu hinn 7. september 2001 til þingfestingar hér í dómi 18. sama mánaðar.

Dómkröfur

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1.   Að úrskurður yfirskattanefndar nr. 881/1998 verði felldur úr gildi.

2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.893.605, ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. september 1997 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 7. september 2001 og af kr. 1.883.695 frá þeim degi til greiðsludags.

3. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.

Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

Til þrautavara gerir stefndi kröfu til þess, að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

Málið var munnlega flutt um frávísunarkröfu stefnda 27. febrúar sl.

Stefndi krafðist þess, að málinu verði vísað frá dómi og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.  Til vara er þess krafist, að málskostn­aður verði látinn bíða efnisdóms.

Stefnandi krafðist þess að vera sýknaður af frávísunarkröfu stefnda og málið verði tekið til efnisúrlausnar, auk þess sem stefnda verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu  í þessum þætti málsins.

Málavextir, málsástæður og lagarök:

Í hnotskurn fjallar mál þetta um það, að stefnandi seldi Fiskmarkaði Suðurnesja hf. sjávarafla á árinu 1993 og fékk hluta af andvirði hans greiddan með aflaheim­ild­um.  Stefnandi tekjufærði ekki þann hluta aflaverðmætisins, sem greiddur var með aflaheimildum og kom sá hluti því ekki fram í bókhaldi hans, að því er virðist.  Þessi bókhaldstilhögun varð þess valdandi, að framtaldar tekjur stefnanda urðu lægri og lækkaði grunn fyrir skilum virðisaukaskatts að sama skapi, svo og grunn fyrir álagn­ingu tekjuskatts.

Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi endurákvarðaði virðisaukaskatt stefnanda vegna ársins 1993 með úrskurði dags. 16. desember 1996. Ástæða þess var sú, að sögn skattstjóra, að í framtali stefnanda fyrir umrætt ár var verðmæti selds afla talið nema 23.407.856 krónum, en gögn Fiskistofu bentu til aflaverðmætis að fjárhæð 27.184.318 krónur.  Ógreiddur virðisaukaskattur af mismuninum 3.776.462 kr. næmi 925.233 kr. að viðbættu 20% álagi. Sama dag endurákvarðaði skattstjóri tekju- og eignaskatt stefn­anda vegna þessa mismunar. Stefnandi kærði báða úrskurðina með bréfi dags. 3. janúar 1997.  Skattstjóri Reykjanesumdæmis felldi úr gildi boðaða hækkun á tekju- og eignaskatti stefnanda með úrskurði uppkveðnum 10. mars s.á. Í aðfararorðum að niðurstöðu úrskurðarins segir m.a. svo: ,,Að réttu lagi hefði því átt að hækka tekjur í rekstrarreikningi um kr. 3.776.462 og færa sömu fjárhæð til gjalda sem kvótakaup. Þessar breytingar hefðu ekki haft áhrif á niðurstöðutölu ársreikningsins. Í ljósi þessa þykir rétt að fella endurákvörðun skattstjóra frá 16. desember 1996 úr gildi."

Afstaða skattstjóra var óbreytt að því er endurákvörðun virðisaukaskattsins snerti. Í niðurlagskafla úrskurðar hans frá 10. mars 1997 segir. svo: ,,Eins og fram kemur hér að framan virðist skýringa á umræddu misræmi að leita í því að hluti af verði þess fisks sem kærandi seldi gegnum Fiskmarkað Suðurnesja var greiddur með aflaheimildum. Að réttu lagi hefði því átt að hækka tekjur í rekstrarreikningi um kr. 3.776.462 og færa sömu fjárhæð til gjalda sem kvótakaup. Þessar breytingar hefðu ekki haft áhrif á niðurstöðutölu ársreikningsins. Samkvæmt framansögðu er ljóst að virðisaukaskattsskyld velta kæranda á árinu 1993 er vantalin um framangreinda fjárhæð og útskattur kæranda þar af leiðandi vantalinn. Þar sem kaup á aflaheimildum bera ekki innskatt kemur engin innskattshækkun á móti þessari hækkun á útskatti. Þó að hluti af verðmæti afla sé greiddur með veiðiheimildum breytir það engu varðandi það að þetta aflaverðmæti á að teljast með virðisaukaskattsskyldri veltu. Þá telst kærandi eigi hafa fært nein rök fyrir því að haga beri virðisaukaskattsskilum hans á annan veg en skattstjóri gerir í hinni kærðu endurákvörðun."

Stefnandi kærði úrskurð skattstjóra Reykjanessumdæmis til yfirskattanefndar með bréfi dags. 8. apríl s.á.  og krafðist fullrar niðurfellingar á endurákvörðuðum virðisaukaskatti. Kærunni var vísað frá á þeirri forsendu, að umboðsmaður kæranda hefði ekki sinnt áskorun nefndarinnar um að senda gögn og rökstuðning fyrir ástæðum kærunnar. Málið var síðan endurupptekið í yfirskattanefnd að beiðni stefnanda (mál nr. 881/1998) og því lokið með úrskurði uppkveðnum 30. september 1998.  Niðurstaða yfirskattanefndar varð á þá leið, að ,,kröfu kæranda um niðurleggingu á viðbótarvirðisaukaskatti árið 1993 að fjárhæð 925.233 kr. auk 20% álags 185.047 kr. er hafnað."

Stefnandi greiddi álagðan virðisaukaskatt, auk álags hinn 10. september 1997, samtals 1.593.605 krónur.

Hann höfðaði mál á hendur Íslandsmarkaði hf., móðurfélagi Fiskmarkaðs Suðurnesja hf. að því er virðist, og krafðist aðallega greiðslu á 1.593.605 krónum, auk dráttarvaxta frá 10. september 1997 en til vara, að stefnda, Íslandsmarkaði hf., verði gert að gefa út sérstaka reikninga fyrir öllum þeim afla, sem fyrirtækið seldi í umboði stefnanda á árinu 1993, 43 að tölu, og álagður virðisaukaskattur sundurliðaður á hverjum einstökum reikningi.  Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 26. janúar 2000 (mál nr. 124/2000).  Dómur féll í málinu 15. febrúar 2001 og var stefndi sýknaður.  Í niðurstöðukafla dómsins segir m.a. svo: ,,Með úrskurði skattstjórans í Reykjanes­umdæmi frá 10. mars 1997 um endurákvörðun á virðisaukaskattsskyldri veltu stefnanda vegna rekstrarársins 1993 og greiðslu stefnanda á viðbótarvirðis­aukaskatti er samkvæmt framansögðu ljóst að ríkissjóður hefur fengið tvígreiddan virðisauka­skatt af sem svarar verðmæti umrædds þorskkvóta.”   Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Stefnandi höfðar mál þetta á hendur stefnda til endurheimtu ofgreidds virðisaukaskatts á grundvelli forsendna Héraðsdóms Reykjaness. Stefnandi byggir á því, að Fiskmarkaður Suðurlands hf. hafi selt allan afla hans, óháð því, hvort hann var veiddur samkvæmt eigin aflaheimildum eða aðkeyptum. Stefnandi hafi gert skil á virðisaukaskatti af því aflaverðmæti, sem fært hafði verið honum til tekna, en Fiskmarkaður Suðurnesja annast greiðslu skattsins af andvirði þess afla, sem félagið hafi látið stefnanda í té í formi veiðiheimilda og selt í hans nafni. Því hafi virðisaukaskattur verið greiddur af öllum afla ársins 1993 og stefndi því fengið virðisaukaskattinn tvígreiddan  að hluta.

Málsástæður og lagarök stefndu:

Stefndi vísar til 5. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt (eftirleiðis vskl.) til stuðnings frávísunarkröfu sinni. Tilvitnuð lagagrein er svohljóðandi: ,,Ágreining um skattskyldu og skatthæð má bera undir dómstóla, enda hafi áður verið um hann úrskurðað af yfirskattanefnd. Það skal þó gert innan sex mánaða frá því að yfirskattanefnd úrskurðar í málinu."  

Stefndi bendir á í þessu sambandi, að úrskurður yfirskattanefndar hafi verið kveðinn upp 30. september 1998 eða nær þremur árum áður en stefna málsins hafi verið birt fyrir ríkislögmanni.  Stefnandi hafi valið að lögsækja Íslandsmarkað hf., móðurfélag Fiskmarkaðs Suðurnesja hf., til heimtu þeirrar fjárhæðar, sem skatt­yfirvöld hafi gert honum að greiða vegna vantalins virðisaukaskatts í stað þess að nýta sér það úrræði, sem tilvitnuð lagagrein veiti, innan lögmælts frests. 

Lagagreinin sé skýr og fortakslaus og ekki verði séð að það sé á valdi málsaðila að víkja frá fyrirmælum hennar um málshöfðunarfrest. Því sé ekki um annað að ræða en fallast á kröfu stefnda og vísa málinu frá dómi.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir kröfu sína um sýknu af frávísunarkröfu stefnda í fyrsta lagi á því, að stefndi hafi lýst því skriflega yfir, að hann myndi ekki bera fyrir sig, að máls­höfðunarfrestur væri útrunninn. Stefnandi vísar í þessu sambandi til svarbréfs fjár­málaráðuneytisins, dags. 29. júní 2001, til þáverandi lögmanns síns. (dskj. nr. 20).  Í niðurlagi bréfsins, sé vísað til forsendna í úrskurði yfirskattanefndar en síðan segir svo í næstu málsgrein: ,,Ráðuneytið bendir á, að úrskurður yfirskattanefndar er fullnaðarúrskurður um skattfjárhæð en ágreining um skattskyldu og skattstofna má bera undir dómstóla, sbr. 15. gr. laga nr. 30/1992 með síðari breytingum. Ráðuneytið getur ekki tekið upp úrskurði yfirskattanefndar eða gefið lægra settum stjórnvöldum fyrirmæli um að víkja frá úrskurði nefndarinnar.”  Stefnandi telur að í þessum ummælum fjármálaráðu­neytisins felist bindandi yfirlýsing af hálfu stefnda um að ekki yrði byggt á ákvæði 5. mgr. 29. gr. vskl., ef stefndi kysi að leita réttar síns fyrir dómi.  Líta verði á yfirlýsingu stefnda sem stjórnvaldsákvörðun eða ígildi hennar, sem ekki sé hægt að afturkalla, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Stefndi mótmælti þessari málsástæður stefnanda við munnlegan flutning máls­ins, og taldi að líta bæri á ummæli í bréfi fjármálaráðuneytisins sem almenna tilvísun í lög, án þess að í því fælist nokkur skuldbinding af stefnda hálfu.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því, að málshöfðunarfrestur samkvæmt 29. gr. vskl. eigi ekki við um endurákvarðanir samkvæmt 26. gr. vskl., heldur einungis um leiðréttingar skv. 25. gr. sömu laga.  Regla 15. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd eigi við um endurákvörðun skatta m.a. virðisaukaskatt. Þar segi, að úrskurður yfir­skatta­nefndar sé fullnaðarúrskurður um skattfjárhæð, en ágreiningi um skattskyldu og skattstofna megi þó ber undir dómstóla. Á hinn bóginn eigi 5. mgr. 29. gr. vskl. alfarið við um skattskyldu og skattfjárhæð og verði því ekki beitt í máli þessu gagnvart stefnanda.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því, að umrætt ákvæði þrengi óhóflega þá almennu viðurkenndu grundvallarreglu, sem felst í því, að allir skuli eiga þess kost að fá úrlausn dómstóla um réttarágreining.  Því verði að skýra slíka takmörkun þröngt. Í þessu sambandi heldur stefnandi fram, að krafa hans sé í eðli sínu endurgreiðsla ofgreidds fjár og byggist á skaðabótasjónarmiðum. Hún fyrnist því á fjórum árum.  Stefnandi vísar til laga nr. 29/1995 til stuðnings þessari málsástæðu sinni.

Í fjórða lagi byggir stefnandi á því, að regla 5. mgr. 29. gr. vskl. sé verklagsregla og hafi verið túlkuð sem slík af dómstólum. Hún bindi báða aðila. Skattyfirvöld hafi á hinn bóginn vanvirt þessa reglu, þegar þeim henti, sbr. dóma Hæstaréttar, H. 1998: 3781, H.1997:3242 og H. 1998:1094, en síðastnefnt mál varði ekki virðisaukaskatt. Það hljóti að teljast brot á jafnræðisreglu, ef skattborgarar séu ekki jafnsettir skattyfirvöldum, að því er tímamörk varðar.  Þá sé afstaða stefnda einnig brot á jafnræðisreglu gagnvart stefnanda, þar sem stefndi hafi ekki borið fyrir sig tímafresti í mörgum málum og bendir stefnandi á dóm Hæstaréttar nr. 155/2001 í því sambandi. Þar hafi stefndi ekki borið fyrir sig tímafresti, enda sé ákvæði 5. mgr. 29. gr. ekki fortakslaust, heldur háð afstöðu stefnda hverju sinni.

Í fimmta lagi byggir stefnandi á því, að málshöfðunarfrestur 5. mgr. 29. gr. vskl. feli í sér brot á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 62/1994 um lögfestingu Mannréttindasáttmála Evrópu, (MSE), sbr. 1. mgr. 70 gr. og 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Ísland.  Í MSE séu sett fram þau sjónarmið varðandi málshöfðunarfesti, að óheimilt sé að skerða aðgengi manna að dómstólum, þannig að fari í bága við almenn réttlætissjónar­mið. Takmörkunin verði að byggjast á lögmætum sjónarmiðum og ekki megi ganga lengra en nauðsynlegt sé til að ná því markmiði, sem að sé stefnt. Ljóst sé, að ákvæði regla 5. mgr. 29. gr. vskl. uppfylli ekki þetta skilyrði, enda sé vandséð, hvaða rök liggi að baki ákvæðinu. Í þessu tilliti beri einnig að líta til þess, að hvorki ákvæði MSE eða 70. gr. stjórnarskrárinnar geri mun á einkarétti og opinberum rétti.

Í sjötta lagi byggir stefnandi á því, að réttarregla hliðstæð ákvæði 5. mgr. 29. gr. vskl. hafi upphaflega verið sett í lög um söluskatt nr. 10/1960 og hugsað sem réttarbót. Í greinargerð með lögunum segi, að þetta ákvæði sé nýmæli í söluskattslögum. Ákvæðið hafi síðan verið tekið upp athugasemdalaust við allar breytingar á sölu­skatts­lögum og síðan verið sett í lög um virðisaukaskatt, þegar þau voru lögtekin á árinu 1988.  Hér sé sýnilega um nátttröll að ræða, sem dagað hafi uppi gagnrýnislaust í skatta­lögum og sé í andstöðu við alla réttarþróun og mannréttindasjónarmið.

Stefnandi styður málskostnaðarkröfu sína eftirfarandi rökum. Skattyfirvöld hafi ranglega gert honum að greiða virðisaukaskatt, sem Fiskmarkaður Suðurnesja hf. hafði áður staðið skil á. Stefndi hafi þannig fengið fjárhæðina tvígreidda.  Eftir að niðurstaða yfirskattanefndar lá fyrir í lok september 1998 hafi stefnandi farið þess á  leit við Fiskmarkað Suðurnesja hf., að félagið greiddi honum sömu fjárhæð og honum var gert að greiða stefnda,  þar sem ljóst hafi verið, að fyrirtækið gæti nýtt sér greiðslu umrædds virðisaukaskatts sem innskatt. Þegar þessu var hafnað af hálfu Fiskmarkaðs Suðurnesja hf. hafi stefnandi talið rétt að höfða mál á hendur félaginu til heimtu fjárins og tæma þennan möguleika til endurgreiðslu, svo að því yrði ekki borið við af hálfu stefnda, ef nauðsynlegt reyndist að sækja mál á hendur stefnda, ríkinu. Stefndi, Íslandsmarkaður hf. hafi verið sýknaður með dómi Héraðsdóms Reykjaness, sem fallið hafi 15. febrúar 2001. Þar hafi því aftur á móti verið slegið föstu, að úrskurður yfirskattanefndar væri ekki á rökum reistur og að stefndi hafi fengið umræddan virðisaukaskatt tvígreiddan. Í kjölfar dómsins hafi stefnandi ítrekað leitað eftir því við stefnda að fá leiðréttingu sinna mála, en alls staðar komið að luktum dyrum. Ljósasta dæmið um ósanngjörn viðbrögð stefnda, sé frávísunarkrafa stefnda.  Enn eitt dæmið um óbilgirni stefnda, sé neitun ríkislögmanns um að falla frá fyrningu, ef stefnandi fengi heimild yfirskattanefndar til endurupptöku málsins þar, en þyrfti síðan í kjölfarið að höfða dómsmál á hendur stefnda. 

Stefnandi byggir málskostnaðarkröfu sína á því, að löng og erfið barátta hans við ýmsar stofnanir stefnda hafi útheimt mikinn kostnað og fyrirhöfn, sem rétt sé og eðlilegt að stefndi beri kostnað af.

Niðurstaða:

Verður hér á eftir tekin afstaða til málsástæðna málsaðila, eftir því sem ástæða þykir.

Stefndi styður frávísunarkröfu sína með vísan til 5. mgr. 29. gr. vskl., eins og áður er getið.  Ekki þykir ástæða til að fjalla frekar um rökstuðning stefnda en vísað er til texta lagaákvæðisins, hér að framan.

Stefnandi á hinn bóginn styður sýknukröfu sína ýmsum málsástæðum og rökum, sem lýst hefur verið.

Verður nú afstaða tekin til málflutnings stefnanda.

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því, að fyrir liggi bindandi yfirlýsing af hálfu stefnda um að bera ekki fyrir sig sex mánaða málshöfðunarfrestinn, sem mælt er fyrir um í 5. mgr. 29. gr. vskl. 

Dómurinn fær ekki séð að unnt sé að leggja þann skilning í tilvitnað efni bréfs fjármálaráðuneytisins frá 29. júní 2001, að stefndi hafi skuldbundið sig í þá veru, sem stefnandi byggir á. Í bréfinu segir aðeins, að bera megi ágreining um skattskyldu og skattstofna undir dómstóla, sbr. 15. gr. laga nr. 30/1992. Hér er ekki um ákvörðun að ræða, sem lýtur ákvæðum 25. gr. stjórnsýslulaga, eins og stefnandi heldur fram, heldur einungis ábending um efni lagaákvæðis.

Þessari málsástæðu stefnanda er því hafnað.

Dómurinn fær heldur ekki séð, að mismunandi reglur skuli gilda eftir því hvort um leiðréttingar sé að ræða, sbr. 25. gr. vskl. eða endurákvörðun samkvæmt 26. gr. sömu laga, eins og stefnandi heldur fram.  Að mati dómsins er hér um að ræða mismunandi orðalag á sömu hugsun. Skatthæð verður ekki ákveðin, nema skattstofnar séu kannaðir, sbr. 29. gr. vskl. og skatthæð hlýtur fyrst og fremst að ráðast af skattskyldu og skattstofni.

Dómurinn hafnar því þessari málsástæðu stefnanda

Þá byggir stefnandi á því, að málshöfðunarfrestur 5. mgr. 29. gr. sé í andstöðu við grundvallarsjónarmið um aðgengi að dómstólum og lúti því þröngri lögskýringu. 

Að mati dómsins þrengir tilvitnað lagaákvæði ekki aðgengi að öðrum leyti en hvað tímamörk varðar.  Séu tímamörk virt eiga allir skattþegnar jafnan rétt til að fá  endurmat dómstóla um niðurstöðu yfirskattanefndar. Ákvæðið er gagnkvæmt og snýr einnig að stefnda. 

Stefnandi byggir ennfremur á því, að umrætt ákvæði eigi ekki við í máli þessu, þar sem krafa hans varði endurgreiðslu ofgreidds fjár, sem fyrnist á fjórum árum, sbr. ákvæði laga nr. 29/1995.

Telja verður, að fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda verði því aðeins virk, ef dómurinn fellst á meginkröfu stefnanda um ógildingu úrskurðar yfirskattanefndar frá 30. september 1998. Álit dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. 124/2000, sem vísað er til að framan, (sjá skáletrun bls. neðarlega á 3) bindur hvorki dóminn né stefnda í þessu máli, þar sem hann var ekki aðili að máli stefnanda á hendur Íslandsmarkaði hf.

Því er hafnað þriðju málsástæðu stefnanda í þessum þætti málsins.

Stefnandi byggir enn fremur á því, að 5. mgr. 29. gr. vskl. sé verklagsregla, sem skattyfirvöld hafi ítrekað brotið, þegar það henti og vísar til nokkurra Hæstaréttardóma í því sambandi. Til að jafnræðis sé gætt verði því að skýra slík lögmælt tímamörk sem viðmiðunarreglu, sem víkja megi frá við sérstakar aðstæður, eins og þær sem snerti stefnanda í þessu máli.

Skattyfirvöld hafa að sönnu ítrekað farið yfir þau tímamörk, sem þeim hafa verið sett. Dómstólar hafa á hinn bóginn ekki talið þennan annmarka, einan og sér, eiga að valda ógildingu ákvarðana skattyfirvalda.

Í þessu máli reynir ekki á lögbundin tímamörk, sem skattyfirvöldum eru sett, heldur snýr ágreiningur málsaðila að því, hvort málshöfunarfrestur 5. mgr. 29. gr. vskl. sé afdráttarlaus. Því hefur framkvæmd skattyfirvalda enga þýðingu við mat á því, hvort umræddu lagaákvæði verði beitt.

Þessari málsástæður stefnanda er því einnig hafnað.

Í fimmta lagi telur stefnandi að 5. mgr. 29. gr. vskl. fari í bága við ákvæði 1. mgr. 6 gr. laga nr. 62/1992 og 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Dómurinn fær ekki séð, að þær tímaskorður, sem lagaákvæðið setur, feli í sér slíka skerðingu að varði við tilgreind ákvæði stjórnarskrár eða Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum nr. 62/1992.  Öllum skattþegnum er opin leið til málshöfðunar innan 6 mánaða og sá ætti sá frestur að vera nægur til ákvörðunar og undirbúnings málsóknar til ógildingar eða breytinga á ákvörðun yfirskattanefndar.

Ástæðulaust þykir að fjalla um sjöttu og síðustu málsástæðu stefnanda, enda verður lögum ekki vikið til hliðar fyrir það eitt að þau séu komin til ára sinna og hafi verðið sett til að mæta ákveðnum þörfum, sem kunni að hafa breyst í áranna rás.

Ákvæði 5. mgr. 29. gr. vskl. er fortakslaust og ótvírætt, að mati dómsins, og ekki á valdi málsaðila að víkja frá skýru orðalagi þess.

Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, þykir verða að fallast á kröfu stefnda og vísa málinu frá dómi.

Rétt þykir þó, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.