- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Forgangskrafa
- Fæðingarorlof
- Uppsögn
|
Miðvikudaginn 10. febrúar 2010. |
Nr. 11/2010. |
Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki hf. (Hörður Felix Harðarson hrl.) gegn Sigurgeiri Sigurpálssyni (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Forgangskrafa. Fæðingarorlof. Uppsögn.
S ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu SS um viðurkenningu á forgangskröfu hans að tiltekinni fjárhæð við slitameðferð á S ehf. Taldi SS að uppsögn hans frá S ehf. hafi farið í bága við 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Var fallist á það með S ehf. að vegna mikils taps af rekstri þess á árinu 2008 og hruns bankakerfisins þá um haustið, svo og nauðsynjar endurskipulagningar í rekstri, hafi honum verið heimilt, þrátt fyrir ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000, að segja SS upp störfum. Var kröfu SS um viðurkenningu á forgangskröfu við slitameðferð á S ehf. því hafnað
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. janúar 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um viðurkenningu á kröfu að fjárhæð 1.391.798 krónur sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., er hann lýsti við slitameðferð á sóknaraðila samkvæmt 101. gr. til 103. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að krafa sem hann lýsti á hendur sóknaraðila að fjárhæð 9.607.215 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til þrautavara að nefnd krafa verði viðurkennd sem almenn krafa. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og koma aðalkrafa hans og þrautavarakrafa af þeirri ástæðu ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði deila málsaðilar um hvort uppsögn varnaraðila með bréfi sóknaraðila 29. janúar 2009 hafi farið í bága við 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sem leggur bann við því að atvinnurekandi segi starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku slíks orlofs nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sóknaraðili heldur því fram að aðrar ástæður en fyrirhuguð taka feðraorlofs hafi ráðið ákvörðun um uppsögn varnaraðila. Er ágreiningslaust að sóknaraðili beri sönnunarbyrði um að svo hafi verið. Uppsögnin var skrifleg og var ástæða tilgreind samdráttur í rekstri sóknaraðila sem óhjákvæmilega hafi leitt til fækkunar starfsfólks, eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði. Verður fallist á með sóknaraðila að vegna þess mikla taps sem varð af rekstri hans á árinu 2008 og hruns bankakerfisins þá um haustið, svo og nauðsynjar endurskipulagningar í rekstri hans, liggi nægilega fyrir að honum hafi, þrátt fyrir ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000, verið heimilt að segja varnaraðila upp störfum. Verður því kröfu varnaraðila hafnað og hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Dómsorð:
Kröfu varnaraðila, Sigurgeirs Sigurpálssonar, um viðurkenningu á að krafa að fjárhæð 1.391.798 krónur njóti forgangs við slitameðferð á sóknaraðila, Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf., er hafnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2009.
Með bréfi slitastjórnar Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., mótteknu 1. september 2009, var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 21. september 2009 og tekið til úrskurðar 23. nóvember 2009.
Sóknaraðili er Sigurgeir Sigurpálsson, Glósölum 16, Kópavogi.
Varnaraðili er Straumur-Burðarás Fjárfestingarbanki hf.
Sóknaraðili krefst þess aðallega, að krafa sem hann lýsti í bú varnaraðila að fjárhæð 9.607.215 krónur, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Til vara að krafa sem hann lýsti í bú varnaraðila, að fjárhæð 9.607.215 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti.
I.
Sóknaraðili hóf störf hjá varnaraðila 3. september 2007 og starfaði hann sem verkefnastjóri á upplýsingatæknisviði. Honum var sagt upp 29. janúar 2009, en óumdeilt er í málinu að hann hafði þá tilkynnt um töku fæðingarorlofs og átti fyrsti hluti þess að hefjast 7. febrúar 2009 og vara í 15 daga, frá 1. júlí 2009 í 30 daga, frá 9. desember 2009 í 15 daga og í 30 daga frá 18. júní 2010. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi sóknaraðila á uppsagnartíma og fékk hann greidd laun í uppsagnarfresti. Fram er komið í málinu að mikill samdráttur varð í rekstri varnaraðila um þessar mundir og var nokkuð um uppsagnir starfsfólks á fyrstu mánuðum ársins. Þannig kemur fram í greinargerð varnaraðila að í janúar 2009 hafi 11 starfsmönnum verið sagt upp, 15 í febrúar og eftir að Fjármálaeftirlitið setti bankanum skilanefnd og hann fékk greiðslustöðvun 19. mars 2009, hafi 223 starfsmönnum til viðbótar verið sagt upp, flestum í marsmánuði.
II.
Sóknaraðili byggir á því að uppsögn hans hafi verið ólögmæt með vísan til 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að segja starfsmanni upp vegna þess að hann hafi tilkynnt fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða sé í slíku orlofi.
Uppsögn sóknaraðila hafi verið rökstudd með skipulagsbreytingum og samdrætti, en þrátt fyrir það hafi einungis örfáum starfsmönnum verið sagt upp á sama tíma og sóknaraðila var sagt upp. Horft hafi verið fram hjá rétti sóknaraðila samkvæmt 30. gr. laga nr. 95/2000 og uppsögn hans því verið ólögmæt. Við uppsögn hafi verið brotið á rétti sóknaraðila til verndar á grundvelli nefndra laga, en vernd þess sem hefur tilkynnt töku fæðingar- og foreldraorlofs haldist allt þar til töku orlofsins sé lokið, sem í tilviki sóknaraðila sé 10. júlí 2010. Fyrst þá hefði verið hægt að segja sóknaraðila upp og geri hann því kröfu til launa til þess tíma auk launa í uppsagnarfresti í 3 mánuði frá næstu mánaðamótum á eftir.
Kröfufjárhæðin byggist á launaseðlum sóknaraðila frá því tímabili sem honum voru greidd laun í uppsagnarfresti, í febrúar til mars 2009, en miðað er við tímabilið maí 2009 til október 2010, að frádregnum þeim tímabilum sem tilkynnt hafði verið um foreldraorlofstöku. Krafa sóknaraðila sundurliðast þannig:
Laun vegna maímánaðar 2009 kr. 640.481
Laun vegna júnímánaðar 2009 kr. 640.481
Laun vegna ágústmánaðar 2009 kr. 640.481
Laun vegna septembermánaðar 2009 kr. 640.481
Laun vegna októbermánaðar 2009 kr. 640.481
Laun vegna nóvembermánaðar 2009 kr. 640.481
Laun vegna 50% desembermánaðar 2009 kr. 320.240
Laun vegna janúarmánaðar 2010 kr. 640.481
Laun vegna febrúarmánaðar 2010 kr. 640.481
Laun vegna marsmánaðar 2010 kr. 640.481
Laun vegna aprílmánaðar 2010 kr. 640.481
Laun vegna maímánaðar 2010 kr. 640.481
Laun vegna 50% júnímánaðar 2009 kr. 320.240
Laun vegna júlímánaðar 2010 kr. 640.481
Laun vegna ágústmánaðar 2010 kr. 640.481
Laun vegna septembermánaðar 2010 kr. 640.481
Laun vegna októbermánaðar 2010 kr. 640.481
Uppsafnað orlof vegna maí 2009 okt. 2010 kr. 886.683
Samtals kr. 9.607.215
III.
Varnaraðili hafnar því að réttur hafi verið brotinn á sóknaraðila með uppsögn hans í lok janúar 2009. Í 30. gr. laga nr. 95/2000 sé tiltekið að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs, nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skuli þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Varnaraðili telur ljóst af atvikum málsins að uppsögn sóknaraðila hafi ekki komið til vegna tilkynningar um töku feðraorlofs. Uppsögnin hafi verið afleiðing efnahagslegra hamfara og tilheyrandi áhrifa á rekstur varnaraðila. Uppsögn sóknaraðila hafi verið rökstudd með vísan til samdráttar sem var afleiðing hruns íslenska fjármálamarkaðarins. Af orðalagi áðurnefnds lagaákvæðis sé ljóst að atvinnurekandi geti sagt upp starfsmanni sem fellur undir ákvæðið en á atvinnurekanda hvílir þá að sýna fram á að uppsögnina sé að rekja til annarra atvika en fyrirhugaðs orlofs starfsmannsins. Að mati varnaraðila geti enginn vafi leikið á því að varnaraðili hafi uppfyllt þau skilyrði.
Varnaraðili hafi ekki farið varhluta af þeim atburðum sem dunið hafi yfir íslenska fjármálakerfið haustið 2008, þótt bankinn hafi í fyrstu staðið af sér fall viðskiptabankanna þriggja. Hafi þar einkum komið til sterk eiginfjárstaða hans. Tap af rekstri varnaraðila á árinu 2008 hafi hins vegar verið nærri 600 milljónum evra og augljóst að grípa hafi þurft til endurskipulagningar og sparnaðaraðgerða. Slíkar aðgerðir höfðu raunar þegar hafist á árinu 2008 og síðari hluta þess nokkuð borið á uppsögnum. Í janúar 2009 hafi 11 starfsmönnum verið sagt upp og 15 í febrúar. Varnaraðili hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar í byrjun mars en það hafi leitt til þess að Fjármálaeftirlitið setti bankanum skilanefnd. Varnaraðili hafi verið í greiðslustöðvun frá 19. mars sl. Frá því að skilanefnd tók við stjórn bankans hafi 223 starfsmönnum til viðbótar verið sagt upp störfum, flestum í mars 2009.
Varnaraðili telur því ljóst að fullkomlega málefnalegar ástæður hafi legið að baki uppsögn sóknaraðila. Aðstæður á mörkuðum, gríðarlegur samdráttur og tap hafi gert það að verkum að uppsagnir hafi verð óhjákvæmilegar. Varnaraðili hafi verið einn 11 starfsmanna sem sagt hafi verið upp störfum í janúar sl., tveir af upplýsingatæknisviði á Íslandi og einn af sama sviði í London. Í febrúar hafi 3 starfsmönnum af upplýsingatæknisviði verið sagt upp störfum í London. Frá því að skilanefnd hafi tekið við rekstri bankans í mars hafi 8 starfsmönnum af þessu sama sviði verið sagt upp á Íslandi og 15 í London. Í dag sé einn starfsmaður við störf á þessu sviði í Kaupmannahöfn og tveir á Íslandi.
Varnaraðili telur, með vísan til framangreinds, að ástæðu uppsagnar sóknaraðila hafi sannanlega verið að rekja til samdráttar í rekstri og nauðsynlegra skipulagsbreytinga en ekki persónu sóknaraðila eða þess að hann hafði tilkynnt um töku feðraorlofs. Ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000 veiti starfsmönnum ekki vernd gegn uppsögnum við þessar aðstæður, en fyrir liggi að fjölmörgum starfsmönnum hafi verið sagt upp störfum af sömu ástæðu, þar á meðal starfsmönnum á sama sviði og sóknaraðili.
Varnaraðili mótmælir tilvísunum sóknaraðila til þess að starfsmaður hafi verið ráðinn í sambærilega stöðu í London á sama tíma. Hið rétta sé að gengið hafi verið frá ráðningu umrædds starfsmanns áður en til uppsagna kom í janúar. Varnaraðili hefði þá nýverið tekið yfir starfsemi fjármálafyrirtækisins Teathers í London. Við það hafi 76 starfsmenn frá Teathers flust á starfsstöð varnaraðila í London. Til að upplýsingatæknisvið í London gæti með fullnægjandi hætti uppfyllt þarfir þessa nýja hluta starfseminnar var nauðsynlegt að afla sérþekkingar sem var ekki fyrir hendi hjá neinum starfsmanna bankans. Krafist hafi verið þekkingar á einstökum tegundum fjármálagerninga og viðskipta, auk tæknikunnáttu, en ljóst hafi verið að viðkomandi starfsmaður yrði staðsettur í útibúi bankans í London. Enginn starfsmanna á upplýsingatæknisviði Straums hafi uppfyllt þessi skilyrði. Ráðinn hafi verið einstaklingur sem hafði 8 ára reynslu af sambærilegum störfum og viðeigandi menntun.
Með vísan til framangreinds telur varnaraðili að hafna beri kröfum sóknaraðila. Telji dómurinn hins vegar, að uppsögn sóknaraðila hafi verið ólögmæt telur varnaraðili að krafa sóknaraðila sé skaðabótakrafa sem njóti ekki forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Þá telur varnaraðili ljóst að allar tekjur sem sóknaraðili kann að hafa haft á því tímabili sem krafa hans tekur til eigi að koma til frádráttar bótakröfu hans. Þá telur varnaraðili að sóknaraðila hafi verið skylt að takmarka tjón sitt með því að afla eða leitast við að afla sér vinnu annars staðar á tímabilinu. Loks telur varnaraðili að líta beri til þess við ákvörðun bóta að meirihluta starfsmanna bankans var sagt upp störfum í febrúar og marsmánuði 2009. Því sé ljóst að sóknaraðili geti ekki hafa átt kröfu til þess að halda starfi sínu eftir það tímamark.
IV.
Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort með uppsögn starfssambands aðila, sem fór fram með bréfi dagsettu og afhentu 29. janúar 2009, hafi verið brotinn réttur á sóknaraðila á grundvelli 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Í nefndu bréfi er ástæða uppsagnar sögð samdráttur í rekstri sem óhjákvæmilega hafi kostað endurskipulagningu á upplýsingatæknisviði félagsins og leitt til nokkurra uppsagna.
Fram hefur komið í málinu að verulegar uppsagnir voru hjá varnaraðila í byrjun ársins. Ljóst er að þær voru langflestar, eða um 220, í marsmánuði eða tveimur mánuðum eftir að sóknaraðila var sagt upp. Skýrslur voru teknar við aðalmeðferð málsins af sóknaraðila og tveimur starfsmönnum varnaraðila, Davíð F. Oddssyni og Dröfn Guðmundsdóttur. Þar kom fram að áætlun hefði verið gerð á árinu 2008 um niðurskurð og uppsagnir starfsmanna. Fram kom að samtals séu nú starfandi hjá varnaraðila 52 starfsmenn, en þeir hafi verið nálægt 590 þegar mest var. Þá kom fram að í dag séu 3 starfsmenn á upplýsingatæknisviði, en eftir júní 2009 hafi engir verkefnastjórar verið starfandi þar. Fram hefur komið að 15 var sagt upp í þeim mánuði þegar sóknaraðila var sagt upp, janúar 2009, og við skýrslutökur kom fram að af þeim voru 5 á upplýsingatæknisviði og 2 þeirra á Íslandi, en samtals hafi 12 starfsmenn verið í deildinni í byrjun árs 2009.
Nokkuð er fjallað um það í málinu að á nánast sama tíma og sóknaraðila var sagt upp störfum, hafi nýr starfsmaður verið ráðinn á upplýsingatæknisvið skrifstofu varnaraðila í London. Fram kom af hálfu sóknaraðila við skýrslutöku að hann teldi sig hafa haft þá getu og reynslu sem til þurfti í það starf, en starfsmenn varnaraðila töldu hins vegar að þar hefði þurft mjög sérhæfða þekkingu, enda tengdist sú ráðning yfirtöku varnaraðila á stóru þarlendu fjármálafyrirtæki. Fram kom að sá aðili sem ráðinn var í umrætt starf hefði hætt störfum eftir nokkra mánuði.
Óumdeilt er í málinu að sóknaraðili hafði tilkynnt um töku fæðingarorlofs áður en honum var sagt upp störfum hjá varnaraðila í lok janúar 2009. Í uppsagnarbréfi sem virðist hafa verið afhent sóknaraðila í tveimur útgáfum, á íslensku og á ensku, sem eru ekki alveg samhljóða, eru gefnar tilteknar ástæður fyrir uppsögninni og hefur varnaraðili haldið því fram í málinu að fyrirhugað fæðingarorlof sóknaraðila hafi þar ekki skipt máli. Ganga verður út frá því að vinnuveitandi beri sönnunarbyrði fyrir því gagnvart starfsmanni, sem sagt er upp nokkrum dögum fyrir töku fæðingarorlofs, að uppsögnin sé ekki vegna orlofsins, í skilningi 30. gr. laga nr. 50/2000. Ekki verður séð að varnaraðila hafi tekist sú sönnun í þessu máli að því er varðar tímasetningu uppsagnar sóknaraðila, enda einungis 2 af starfsmönnum á sama sviði hér á landi sagt upp á þeim tíma. Hins vegar verður að telja að sýnt hafi verið fram á að eðlilegt hefði verið að til uppsagnar sóknaraðila kæmi í marsmánuði 2009, þegar mjög víðtækar uppsagnir voru framkvæmdar hjá varnaraðila og með hliðsjón af því að engir verkefnastjórar eru lengur starfandi á upplýsingatæknisviði varnaraðila.
Ekki verður litið svo á að ráðning sérfræðings á upplýsingatæknisviði varnaraðila í London, á sama tíma og sóknaraðila var sagt upp störfum, breyti þessari niðurstöðu, einkum vegna þess að fram hefur komið, og ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila, að sá starfsmaður var ekki við störf hjá varnaraðila nema í um tvo mánuði.
Með hliðsjón af framangreindu þykir mega taka til greina aðalkröfu sóknaraðila að hluta, og viðurkenna þannig að hann eigi rétt á launagreiðslum til loka júní 2009, eða 1.280.962 krónur, auk 110.836 króna (886.683/16 x 2) í orlof vegna maí og júní 2009, eða samtals 1.391.798 krónur og viðurkenna að ofangreindar fjárhæðir njóti forgangs, við slitameðferð varnaraðila, í samræmi við 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Með hliðsjón af ofangreindri niðurstöðu málsins og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað, sem ákveðst 170.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Sóknaraðili, Sigurgeir Sigurpálsson, á kröfu á hendur Straumi-Burðarás fjárfestingarbanka hf., sem nemur 1.391.798 krónum og nýtur hún forgangs við slitameðferð varnaraðila, Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 170.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.