Print

Mál nr. 523/2015

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Pétri Jóhanni Kolbrúnarsyni (Björgvin Jónsson hrl.)
Lykilorð
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Ökuréttarsvipting
  • Dómstóll
  • Dómari
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað
Reifun

Með dómi héraðsdóms var P sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Við ákvörðun refsingar P var litið til þess að með brotinu rauf hann skilorð samkvæmt eldri dómi og var sá dómur því tekin upp og honum gerð refsing í einu lagi fyrir brotin. Var refsing P ákveðin fangelsi í fjóra mánuði en fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Auk þess var hann sviptur ökurétti ævilangt. Í málinu krafðist P aðallega ómerkingar héraðsdóms, en til vara að refsing hans yrði milduð. Reisti hann ómerkingarkröfuna á því að sú tilhögun á skipan dómsvalds í héraði, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, að heimila aðstoðarmönnum dómara meðferð og úrlausn sakamála sem dæmd væru á grundvelli 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála samrýmdist hvorki fyrirmælum 2. gr., V. kafla og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár né 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af ákvæðum 16. og 17. gr. laga nr. 15/1998 væri ljóst að ráðning og störf aðstoðarmanns dómara, þar með talin þau takmörkuðu dómstörf sem honum mætti fela, væru með öllu á ábyrgð og forræði dómstjóra héraðsdómstóls. Gætu handhafar framkvæmdarvalds hvorki skipt sér af störfum aðstoðarmanns né ráðið neinu um það ráðningarsamband sem þar lægi til grundvallar. Var ómerkingarkröfu P því hafnað og niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu hans staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að refsing hans verði milduð.

Ómerkingarkrafa ákærða er á því reist að sú tilhögun á skipan dómsvalds í héraði, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, að heimila aðstoðarmönnum dómara meðferð og úrlausn sakamála sem dæmd séu á grundvelli 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála samrýmist hvorki fyrirmælum 2. gr., V. kafla og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár né 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Í stjórnarskrá sé byggt á þrígreiningu ríkisvalds og fari dómarar með dómsvaldið, sbr. 2. gr. hennar. Jafnframt sé áskilið að dómarar séu óháðir öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Miði þrígreiningin jafnframt að því að tryggja sjálfstæði hvers þáttar ríkisvalds og afstýra því að þeir komi að verkefnum sem hinum tilheyra.

Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga nr. 15/1998 hefur dómstjóri meðal annars með höndum stjórn héraðsdómstóls, ber ábyrgð á starfsemi hans og skiptir verkum milli dómara. Hann ræður jafnframt aðra starfsmenn dómstóls en héraðsdómara og slítur ráðningu þeirra. Þá fer dómstjóri á eigin ábyrgð með fé það sem dómstólaráð leggur dómstólnum til, hann kemur að öðru leyti fram út á við í þágu dómstólsins og er í fyrirsvari um sérstök málefni hans. Í 1. mgr. 17. gr. laganna segir að til aðstoðar dómurum megi ráða lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2. til 6. töluliðar 2. mgr. 12. gr. Skuli þeir ráðnir til fimm ára og sé heimilt að endurnýja þá ráðningu einu sinni, en að öðru leyti gildi um þá almennar reglur um starfsmenn ríkisins. Það er dómstjóri, sbr. 5. mgr. 16. gr. laganna, sem fer að öllu leyti með vald vinnuveitanda í slíku ráðningarsambandi og tekur einn af hálfu ríkisins ákvörðun um stofnun þess og slit. Í 2. mgr. 17. gr. er síðan mælt fyrir um fyrrnefnda heimild dómstjóra til að fela aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Dómstjórinn ber ábyrgð á þessum störfum aðstoðarmanns og getur gefið honum fyrirmæli um hvað eina sem lýtur að rækslu þeirra.

Af framangreindum ákvæðum 16. og 17. gr. laga nr. 15/1998 er ljóst að ráðning og störf aðstoðarmanns dómara, þar með talin þau takmörkuðu dómstörf sem honum má fela samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laganna, eru með öllu á ábyrgð og forræði dómstjóra héraðsdómstóls. Geta handhafar framkvæmdavalds hvorki skipt sér af störfum aðstoðarmanns né ráðið neinu um það ráðningarsamband sem þar liggur til grundvallar. Að þessu gættu brýtur þessi skipan hvorki í bága við ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar um þrígreiningu ríkisvaldsins né fyrirmæli V. kafla hennar um skipan dómsvalds. Þá uppfyllir hún kröfur 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Með vísan til þessa er ómerkingarkröfu ákærða hafnað.

Að teknu tilliti til þess að ákæruvaldið krefst staðfestingar refsingar ákærða verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Pétur Jóhann Kolbrúnarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 508.833 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 2. júlí 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. síðasta mánaðar, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 14. apríl síðastliðinn, á hendur Pétri Jóhanni Kolbrúnarsyni, kt. [...], Hvammsdal 14 í Vogum, „fyrir umferðarlaga­brot, með því að hafa miðvikudaginn 14. janúar 2015 ekið bifreiðinni YD-169 sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 3,9 ng/ml) norður Grensásveg í Reykjavík, við hús nr. 9, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn“ og hafa þannig brotið gegn 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu sakarkostnaðar og  að sæta sviptingu ökuréttar.

Um málsatvik er skírskotað til ákæru.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað brot sín og var því farið með málið samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og skipuðum verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um laga­atriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í sam­ræmi við framlögð sakar­gögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem saksókn á hendur honum tekur til samkvæmt framansögðu og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Ákærði er fæddur í júní 1981. Samkvæmt því sem greinir á framlögðu saka­vottorði á hann að baki nokkurn sakaferil sem nær aftur til ársins 2000, en þar af hafa eftir­greind brot áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu. Með dómi 10. mars 2009 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og tímabundið sviptur ökurétti fyrir líkams­árás og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Fullnustu þeirrar fangelsisrefsingar var frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum. Með dómi 13. desember 2010 var hann dæmdur til greiðslu sektar og tímabundinnar sviptingar ökuréttar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og akstur undir áhrifum slíkra efna. Um var ræða hegningarauka við fyrrgreindan dóm frá 10. mars 2009. Með dómi Hæstaréttar Íslands 19. júní 2013 var ákærði svo dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og til að sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár og sex mánuði fyrir ýmis brot gegn almennum hegningar­lögum nr. 19/1940, lögreglulögum nr. 90/1996 og umferðarlögum nr. 50/1987, þar á meðal fyrir að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Brotin framdi ákærði 23. júlí 2010. Með dómnum var refsing samkvæmt dómnum frá 10. mars 2009, tekin upp og dæmd með þeirri refsingu sem ákærða var gerð vegna þeirra brota sem hann var sak­felldur fyrir í dómi Hæstaréttar. Jafnframt var refsing hans ákveðin sem hegningarauki við fyrrgreindan dóm 13. desember 2010. Áfrýjað var héraðsdómi frá 20. nóvember 2012.

Auk framangreinds hefur ákærði tvívegis áður ekið sviptur ökurétti og af þeim sökum verið dæmdur til sektar­refsinga. Annars vegar með dómi 17. október 2005 og hins vegar með dómi 30. desember 2009. Þar sem meira en fimm ár liðu frá því að síðari dómurinn gekk þar til ákærði ók að nýju sviptur ökurétti, verður refsing fyrir það brot hans nú, með vísan til dómvenju, ákveðin líkt og hann hafi ekki áður brotið af sér með þeim hætti. Hins vegar hefur ákærði nú einnig gerst sekur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, í þriðja sinn að teknu tilliti til framangreindra hegningaauka, án þess að fimm ár líði á milli og stendur dómvenja því til að refsa fyrir það brot hans nú með óskilorðs­bundinni fangelsisvist. 

Með þeim brotum sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann rofið skilyrði fyrir frestun á fullnustu þriggja mánaða refsingar dómsins frá 19. júní 2013. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga verður fangelsisrefsing samkvæmt þeim dómi því tekin upp og dæmd með þeirri refsingu sem ákærða verður nú gerð, sbr. 77. gr. sömu laga. Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfi­lega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði og verður hún að hluta bundin skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir.

Á grundvelli 3. mgr., sbr. 1. mgr. 101. gr. og upphafsákvæðis 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, verður ákærði sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.  

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað málsins, sem er 87.938 krónur vegna blóðtökuvottorðs og matsgerðar Háskóla Íslands og 80.600 krónur, að meðtöldum virðis­aukaskatti, vegna þóknunar skipaðs verjanda síns, Gísla Tryggvasonar héraðsdóms­lögmanns.

Hákon Þorsteinsson, aðstoðarmaður dómara, dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Pétur Jóhann Kolbrúnarson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu þriggja mánaða refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

                Ákærði greiði 168.538 krónur í sakarkostnað, þar með talið 80.600 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Gísla Tryggvasonar héraðsdóms­lögmanns.