Print

Mál nr. 426/2017

Sjöfn Arnfinnsdóttir (Kristján Gunnar Valdimarsson hdl.)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Tekjuskattur
  • Ábyrgð
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S um að fellt yrði úr gildi fjárnám sem sýslumaður gerði hjá henni fyrir kröfu um opinber gjöld samkvæmt endurákvörðun ríkisskattstjóra á gjöldum fyrrverandi sambýlismanns hennar. Var talið að S og fyrrum sambýlismaður hennar hefðu verið samsköttuð á því tímabili sem um ræddi að eigin ósk. Þau bæru því óskipta ábyrgð á greiðslu skatta sem á þau hefðu verið lagðir og gæti innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja á grundvelli 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Þá var hvorki fallist á með S að krafan væri fallin niður fyrir fyrningu né að reglur stjórnsýslulaga hefðu verið brotnar gagnvart S við meðferð ríkisskattstjóra á máli fyrrum sambýlismanns hennar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gerði hjá henni 17. október 2016 að kröfu tollstjóra fyrir skuld að fjárhæð samtals 72.204.320 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreint fjárnám verði fellt úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og lýst er í hinum kærða úrskurði er mál þetta rekið um gildi fjárnáms, sem gert var hjá sóknaraðila 17. október 2016 fyrir kröfu um opinber gjöld samkvæmt endurákvörðun ríkisskattstjóra 12. júní 2014 á gjöldum Guðmundar Hreiðarssonar Viborg vegna tekjuráranna 2006 og 2007, en óumdeilt er að sóknaraðili hafi verið í óvígðri sambúð með honum við upphaflega álagningu gjalda hans á árunum 2007 og 2008. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili og Guðmundur hafi verið samsköttuð þau ár og beri hún þannig með honum óskipta ábyrgð á greiðslu skatta hans samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, en á þeim grunni megi gera fjárnám hjá sóknaraðila fyrir vangreiddum sköttum Guðmundar, sbr. 9. tölulið 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989.

Fjárnámið, sem málið snýst um, var sem fyrr greinir gert að kröfu tollstjóra, en hann hafði á hendi innheimtu áðurnefndra gjalda, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003. Í bréfi sóknaraðila 14. desember 2016 til héraðsdóms, þar sem hún krafðist úrlausnar um gildi fjárnámsins, var dómkröfum hennar þessu til samræmis beint að tollstjóra. Tekið var á hinn bóginn til varna gegn þeim kröfum með greinargerð, sem rituð var í nafni varnaraðila. Verður að þessu virtu ekki litið svo á að annmarki sé á aðild að málinu þótt það hefði að réttu lagi átt að beinast að gerðarbeiðandanum við fjárnámið.

Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem málið varðar, áttu karl og kona í óvígðri sambúð rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum væru, ef þau óskuðu bæði eftir því skriflega við skattyfirvöld. Eftir gögnum málsins skiluðu sóknaraðili og þáverandi sambúðarmaður hennar saman rafrænum skattframtölum 2007 og 2008 og var bæði skiptin merkt sérstaklega inn á viðeigandi reit í framtölum hvors þeirra að óskað væri eftir samsköttun. Í 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um að skattframtal skuli undirritað af þeim, sem framtalsskylda hvílir á, en eftir 4. mgr. sömu lagagreinar jafngilda skil á framtali í tölvutæku formi að fenginni heimild ríkisskattstjóra slíkri undirritun þess. Til þess má einnig líta að samkvæmt framlögðu bréfi ríkisskattstjóra 2. mars 2017 var framtölum sóknaraðila og þáverandi sambúðarmanns hennar árin 2007 og 2008 skilað með notkun á veflykli hennar á þjónustusíðu ríkisskattstjóra. Í þessu tilliti gat engu breytt þótt veflykill sambúðarmannsins hafi ekki jafnframt verið notaður. Þessi samsköttun gat heldur ekki hafa farið fram hjá sóknaraðila, enda var tiltekið í álagningarseðlum hennar 2007 og 2008 að skuldajafnað hafi verið frá maka inneign á staðgreiðslu opinberra gjalda. Að þessu öllu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sjöfn Arnfinnsdóttir, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 23. júní 2017

Mál þetta var þingfest 3. febrúar sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 30. maí sl. Sóknaraðili er Sjöfn Arnfinnsdóttir, kt. [...], Breiðuvík 35, Reykjavík, en varnaraðili er íslenska ríkið.

Sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, nr. 2016-022626, sem fram fór 17. október 2016, verði felld úr gildi. Jafnframt krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að áðurnefnd fjárnámsgerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu verði staðfest. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

I

Málavextir

Tildrög máls þessa eru þau að með aðfararbeiðni varnaraðila, 20. september 2016, var þess krafist að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila til tryggingar skuld fyrrverandi sambýlismanns hennar, að höfuðstól 55.344.693 krónur en samtals 72.185.220 krónur, auk áfallandi dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 til greiðsludags og alls kostnaðar af frekari fullnustugerðum kæmi til þeirra. Var skuldin þar sögð vera vegna vangoldinna opinberra gjalda fyrrverandi sambýlismanns sóknaraðila samkvæmt gjaldaseðli og greiðsluyfirliti. Um heimild til fjárnáms var vísað til 9. töluliðar 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. og 5. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003. Fjárnáminu lauk 17. október 2016 án árangurs.

Tollstjóri hafði með greiðsluáskorun 16. september 2015 skorað á sóknaraðila að greiða kröfu samtals að fjárhæð 64.150.791 króna. Var í greiðsluáskoruninni tekið fram að samkvæmt 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 16. gr. laga nr. 137/1996, væri sóknaraðili ábyrg fyrir skuldum Guðmundar Hreiðarssonar Viborg. Væri umrædd skuld til komin vegna tiltekinna vangoldinna opinberra gjalda sambýlismanns sóknaraðila fyrir álagningarárin 2007 og 2008, þ.e. vegna gjaldáranna 2006 og 2007. Jafnframt sagði að yrði skuldin ekki greidd eða samið um greiðslu hennar innan tiltekins tíma yrði krafist fjárnáms hjá sóknaraðila án frekari tilkynninga samkvæmt 9. tölulið 1. mgr. 1. gr., sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Sóknaraðili krafðist þess með bréfi 8. janúar 2016 að varnaraðili félli frá innheimtu kröfunnar. Um væri að ræða skatta vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra álagningarárin 2007 og 2008 vegna tekjuáranna 2006 og 2007 hjá fyrrum sambúðaraðila sóknaraðila. Í bréfinu kom fram að sóknaraðili hefði verið í óvígðri sambúð með Guðmundi Hreiðarssyni Viborg fram á mitt ár 2008 en þá hafi þau slitið sambúðinni og lögheimili verið flutt 11. ágúst 2008. Skattframtali 2008, vegna tekna 2007, hafði verið skilað fyrri hluta árs og álagning farið fram í ágúst en þá hafi þau þegar verið búin að slíta sambúð sinni. Sóknaraðili hafi ekki vitað um stöðu skattamála fyrrverandi sambúðaraðila síns fyrr en henni barst áðurnefnd greiðsluáskorun. Þá sagði m.a. að ekki hefði verið réttilega staðið að endurákvörðun álagningar gagnvart sóknaraðila. Hún og Guðmundur Hreiðarsson Viborg hefðu ekki notið þess skattalega hagræðis sem samsköttun fylgdi og að óskað hefði verið eftir samsköttun fyrir misskilning. Þá hefði krafan borist sóknaraðila meira en sex árum eftir lok álagningar og því væri óheimilt að endurákvarða skatt gagnvart henni, sbr. 97. gr. laga nr. 90/2003.

Sóknaraðili óskaði eftir endurupptöku skattframtala 2007 og 2008 með bréfi til ríkisskattstjóra 27. janúar 2016 og fór fram á að samsköttun yrði felld niður. Því hafnaði ríkisskattstjóri með bréfi 3. febrúar 2016. Sóknaraðili óskaði þá, með bréfi 15. febrúar 2016, eftir endurupptöku þeirrar ákvörðunar ríkisskattstjóra. Embættið hafnaði því með bréfi 14. apríl 2016.

Í bréfi tollstjóra 14. október 2016 vegna erindis sóknaraðila 8. janúar 2016 var kröfu hennar um niðurfellingu ábyrgðar hafnað. Í bréfinu kom fram að umrædd skattskuld hefði verið lögð á með úrskurði ríkisskattstjóra 11. júní 2014 þar sem þing- og sveitarsjóðsgjöld álagningaráranna 2007-2008 voru endurákvörðun til hækkunar en sóknaraðili og Guðmundur Hreiðarsson Viborg hefðu verið samsköttuð álagningarárin 1991-2008. Þá sagði vegna sjónarmiða sóknaraðila að hún hefði ekki haft vitneskju um að skattamál væri í gangi gagnvart fyrrverandi sambúðaraðila hennar fyrr en innheimtukrafa hafi borist frá tollstjóra að samkvæmt birtingarvottorði hefði greiðsluáskorun verið birt fyrir sóknaraðila 3. október 2015. Innheimtu hefði í kjölfarið verið frestað vegna beiðni sóknaraðila meðan málið væri til skoðunar hjá ríkisskattstjóra og hafi frestur runnið út 1. júní 2016. Sóknaraðili hafi ekki undirritað greiðsluáætlun til að koma í veg fyrir að málið færi í frekari innheimtu. Ríkisskattstjóri hafi svo tekið ákvörðun í málinu 3. febrúar 2016 þar sem ósk um niðurfellingu samsköttunar og beiðni um endurupptöku skattálagningar 2007 og 2008 var synjað þar sem erindið hafði verið borið upp eftir að sex ára tímamörk endurupptökuheimildar 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 voru liðin. Ekki þætti ástæða til að víkja frá þeim tímamörkum sbr. 4. málslið þeirrar lagagreinar. Þá hafi ríkisskattstjóri hafnað 14. apríl 2016 beiðni sóknaraðila um endurupptöku áðurnefndrar synjunar. Þá eru rakin ákvæði laga nr. 90/2003 um óskipta ábyrgð hjóna og sambúðaraðila á greiðslu á sköttum þeirra beggja. Sóknaraðili hefði skilað inn sameiginlegu skattframtali með Guðmundi álagningarárin 2007-2008. Þannig bæri sóknaraðili ábyrgð á vangoldnum þing- og sveitarsjóðsgjöldum fyrrum sambúðaraðila síns vegna álagningaráranna 2007 og 2008. Þá kom þar fram að væri skattur endurákvarðaður til hækkunar yrði að ætla að báðir aðilar sem óskað hafi eftir samsköttun hafi vitað eða mátt vita að álagning hafi verið röng á því tímabili sem hún var fyrst gerð. Ákvörðun ríkisskattstjóra um álagningu skattsins væri gild krafa, sbr. 1. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003. Skilyrði makainnheimtu samkvæmt 116. gr. laganna væru uppfyllt og bæri tollstjóra því að innheimta kröfuna í samræmi við 1. mgr. 116. gr. og 1. mgr. 111. gr. sömu laga. Jafnframt kom fram að búið hafi verið að krefjast fjárnáms hjá sóknaraðila og því ekki heimilt að fresta eða afturkalla fjárnámið á meðan málið væri til stjórnsýslumeðferðar. Þá var því hafnað að krafan væri fyrnd. Almennur fjögurra ára fyrningarfrestur skattkrafna, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, takmarkaði ekki heimildir ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 til að endurákvarða skatt vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram. Endurákvörðun ríkisskattstjóra til hækkunar hafi fallið í gjalddaga 21. júní 2014, sbr. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003, og krafan ekki fyrnd, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007.

Sóknaraðili kærði áðurnefnda niðurstöðu tollstjóra til fjármála- og efnahagsráðuneytisins 24. október 2016 að falla frá innheimtu skattskuldar sambúðaraðila hjá sóknaraðila. Krafðist sóknaraðili þess að ráðuneytið felldi úr gildi úrskurð tollstjóra og legði fyrir hann að taka málið til löglegrar meðferðar. Yrði ekki á þá kröfu fallist krafðist sóknaraðili þess að ráðuneytið tæki til efnisúrlausnar kröfu sóknaraðila í málinu og felldi niður innheimtu skattskuldar vegna meintrar ábyrgðar sóknaraðila á skattskuldum fyrrverandi sambúðaraðila. Í úrskurði ráðuneytisins 29. september 2016 kom fram að það væri ekki bært til að fjalla um málsmeðferð ríkisskattstjóra í máli að því er varðaði fyrrum sambúðaraðila sóknaraðila. Röksemdarfærsla sóknaraðila fæli í sér að ráðuneytið tæki til endurskoðunar ákvörðun ríkisskattstjóra í máli sem hefði verið kæranlegt til yfirskattanefndar af hálfu fyrrum sambúðarmaka sóknaraðila. Því væri ráðuneytinu ekki stætt á að meta hvort málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar hefðu verið brotnar. Þá var því hafnað að skattkrafan væri fyrnd. Þá var það niðurstaða ráðuneytisins að ekki yrði annað séð en að skilyrði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 hefði verið uppfyllt til samsköttunar og hvergi hafi verið vikið frá ákvæðum laganna við innheimtuferli tollstjóra og ákvörðun tollstjóra frá 14. október 2016 staðfest.

Tollstjóri sendi aðfararbeiðni til héraðsdóms til áritunar 17. ágúst 2016 og 20. september sama ár var aðfararbeiðni send til sýslumanns þar sem krafist var fjárnáms hjá sóknaraðila fyrir kröfu að fjárhæð 72.204.320 krónur. Var beiðnin tekin fyrir 17. október 2016. Mætt var af hálfu sóknaraðila við gerðina, henni mótmælt og óskað eftir fresti þar sem málið væri í ágreiningi hjá skattstjóra. Því var hafnað af hálfu tollstjóra sem gerðarbeiðanda og ákvað sýslumaður að gerðin færi fram. Engar eignir var að finna hjá sóknaraðila og var fjárnáminu lokið án árangurs með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989.

Af hálfu sóknaraðila var því ekki lýst yfir við gerðina að lögmæti hennar yrði borið undir dómstóla. Beiðni sóknaraðila um úrlausn dómsins barst 14. desember 2016 og var þá liðinn hinn 8 vikna frestur sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Við þingfestingu málsins 3. febrúar sl. samþykkti varnaraðili að ágreiningurinn yrði lagður fyrir dóminn með vísan til 2. mgr. áðurnefndrar lagagreinar.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerð sem lauk 17. október 2016 með árangurslausu fjárnámi fyrir skuld að fjárhæð 72.204.320 krónur, auk dráttarvaxta og áfallins kostnaðar, verði felld úr gildi. Um sé að ræða skattskuld fyrrverandi sambýlismanns sóknaraðila, Guðmundar Hreiðarssonar Viborg, álagningarárin 2007 og 2008 vegna tekjuáranna 2006 og 2007.

Sóknaraðili byggir á því að hún hafi ekki samþykkt samsköttun tekjuárin 2006 og 2007. Þá byggir hún einnig á því að hún hafi ekki haft vitneskju um endurákvörðun ríkisskattstjóra og hafi ekki fengið að sjá neinar forsendur fyrir þeim skatti sem hún sé krafin um. Þá hafi ekki verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra þar sem henni hafi ekki verið tilkynnt um meðferð máls eða hún notið andmælaréttar.

Sóknaraðili greinir svo frá í greinargerð sinni að eftir því sem hún komist næst hafi áðurnefndur Guðmundur Hreiðarsson Viborg verið tekinn til skattrannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins sem muni hafa áframsent lokaskýrslu sína til ríkisskattstjóra er hafi svo í framhaldinu hækkað skatta Guðmundar. Úrskurði ríkisskattstjóra muni hafa verið skotið til yfirskattanefndar og virðist máli Guðmundar vera ólokið hjá nefndinni. Ekkert af þessu hafi sóknaraðili haft vitneskju um. Því hafi hún ekki vitað um skattkröfu yfirvalda gagnvart Guðmundi fyrr en henni hafi borist innheimtutilkynning og greiðsluáskorun tollstjóra. Engar upplýsingar hafi þó komið þar fram. Sóknaraðili hafi því engar upplýsingar fengið um málið hjá skattyfirvöldum. Varnaraðili hafi ekki gert viðhlítandi grein fyrir því á hverju krafan byggist og hvort krafan sem beinist að sóknaraðila sé lögleg krafa. Framangreindar upplýsingar séu byggðar á munnlegri frásögn og ekki víst að þær séu réttar.

Sóknaraðili kveðst hafa verið í óvígðri sambúð með Guðmundi Hreiðarssyni Viborg fram á mitt ár 2008 en þá hafi sambúðinni verið slitið og lögheimili flutt 11. ágúst 2008. Skattframtali 2008 vegna tekna ársins 2007, hafi verið skilað fyrri hluta árs 2008 og álagning farið fram í ágúst sama ár en þá hafi þau þegar slitið sambúð sinni.

Um ábyrgð sóknaraðila á skattskuld Guðmundar hafi tollstjóri vísað til 116. gr. laga nr. 90/2003 en þar komi m.a. fram að reglur um ábyrgð hjóna gildi með sama hætti um samskattað sambúðarfólk. Sóknaraðili telur að skoða verði áðurnefnt ákvæði í samhengi við önnur ákvæði laganna. Ekki sé hægt að horfa á það sem einangrað lagaákvæði. Vísar sóknaraðili um þetta til dóms Hæstaréttar í máli nr. 66/2006 þar sem fram hafi komið að ábyrgð sambúðaraðila væri tengd því að sambúðaraðilar hefðu „notið þess hagræðis sem samsköttun fylgir“. Hagræði samsköttunar sé m.a. að finna í því að heimilt sé að millifæra persónuafslátt sambúðaraðila, sbr. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003. Á hinn bóginn séu einnig til reglur um þvingaða samsköttun sambúðarfólks, þ.e. þegar sambúðaraðilar óska ekki eftir samsköttun, en vaxtabætur skuli samt sem áður ákvarðaðar eins og um samskattað sambúðarfólk sé að ræða, sbr. 4. og 7. mgr. B-liðar 68. gr. laganna. Hið sama eigi við um barnabætur, sbr. A-lið sömu greinar.

Við skoðun á ábyrgð á skattskuldum vegna sambúðaraðila þurfi því að skoða lögin í samhengi og ljóst sé því að ábyrgð eins skattaðila á skuldum hins geti ekki stofnast nema farið sé að ákvæðum laganna við ákvörðun skatts. Þar sem um algjöra undantekningu sé að ræða um ábyrgð aðila á skuldum annarra verði að túlka ákvæðið þröngt.

Þá liggi fyrir að gagnvart sóknaraðila hafi ekki verið gætt að ákvæðum laga nr. 90/2003 um endurákvörðun álagningar á sköttum Guðmundar. Hún hafi ekki haft hugmynd um að það væri skattamál í gangi fyrr en innheimtukrafa hafi borist frá tollstjóra 2. október 2015. Skattar fyrrverandi sambúðaraðila hennar hafi verið hækkaðir í kjölfar skattrannsóknar á honum. Henni hafi þó aldrei borist nein fyrirspurnar- eða boðunarbréf eða úrskurður ríkiskattstjóra og hafi því enga möguleika haft á því að verjast endurákvörðun skattanna. Ljóst sé því að málsmeðferð samkvæmt reglum skatta- og stjórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt gagnvart sóknaraðila og því beri að fella fjárnámsgerðina niður. Slík framkvæmd hafi verið talin ólögmæt af yfirskattanefnd, sbr. úrskurð nr. 536/1998. Af honum megi ráða að ábyrgð samkvæmt 116. gr. laga nr. 90/2003 geti ekki orðið virk nema uppfyllt séu skilyrði laganna um rétta álagningu skatta og gjalda. Um gilda skattkröfu þurfi því að vera að ræða en svo sé ekki í tilviki sóknaraðila sem ekki hafi verið tilkynnt um meðferð málsins, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ekki átt rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt 15. gr. laganna og ekki fengið andmælarétt um skattálagningu eða stofnun kröfu, sbr. 13. gr. þeirra. Ákvörðunin hafi hvorki verið birt henni, sbr. 20. gr. laganna, né hafi hún verið rökstudd, sbr. 21. gr. þeirra.

Sóknaraðili bendir á að hún og Guðmundur hafi einskis notið af því hagræði sem samsköttun fylgi. Virðist Guðmundur af misskilningi hafa merk í reitinn „óska eftir samsköttun“ en hann virðist hafa talið sér það skylt þar sem þau voru í sambúð. Hann virðist ekki hafa vitað að reglur um þvingaða samsköttun myndi engu að síður gilda um þau, þ.e. að þau hefðu verið samsköttuð vegna bótagreiðslna þótt þau óskuðu ekki eftir því. Þá hafi þau ekki notið millifæranlegs persónuafsláttar þar sem þau hafi bæði verið með tekjur umfram skattleysismörk. Tekur sóknaraðili sérstaklega fram að hún hafi ekki séð um framtalsgerðina og það hafi ekki verið hennar ákvörðun að óska eftir samsköttun, hún hafi aldrei samþykkt samsköttun og aldrei skrifað undir slíkt. Hafnar sóknaraðili því að samsköttun hafi verið fyrir hendi.

Þá byggir sóknaraðili á því að þar sem krafan hafi borist henni meira en sex árum eftir lok álagningar hafi verið óheimilt að endurákvarða skatta gagnvart henni, sbr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Fyrningartíma endurákvörðunar hafi ekki verið slitið gagnvart henni samkvæmt þeim reglum er umrætt ákvæði mæli fyrir um. Annað hvort sé fresturinn rofinn með endurákvörðun innan tímamarkanna eða tilkynningu um að skattrannsókn sé hafin. Það hafi því verið óheimilt að leggja þennan skatt á sóknaraðila og innheimta hjá henni þar sem frestur til endurákvörðunar hafi verið liðinn og fresturinn ekki rofinn gagnvart henni.

Enn fremur sé hinn almenni fjögurra ára fyrningarfrestur skattkröfu liðinn frá því álagning viðkomandi ára átti sér stað. Um sé að ræða skatta vegna áranna 2007 og 2008 og á árinu 2015 hafi þeir verið fyrndir gagnvart sóknaraðila, bæði hvað varðar fjögurra ára fyrningu samkvæmt 3. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007 og sex ára fyrningarfrest samkvæmt 97. gr. laga nr. 90/2003. Gjalddagi kröfunnar geti ekki verið sá tími þegar endurákvörðun á sér stað gagnvart fyrrverandi sambúðaraðila enda hafi hún engar upplýsingar haft um málið. Liðin hafi verið rúm sjö ár frá álagningarárinu þegar hún hafi fyrst fengið að vita af málinu. Því sé hér farið á svig við málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar og fyrningarreglur skattaréttar vegna endurákvörðunar og fyrningar kröfuréttar. Áréttar sóknaraðili að lög nr. 37/1993 hafi að geyma lágamarkskröfur til málsmeðferðar. Ákvæði sem hafi að geyma strangari reglur um málsmeðferð haldi því gildi sínu.

Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um gerð skattframtala segi m.a. í lið 1.2 að einstaklingar í óvígðri sambúð eigi rétt á að telja fram og vera skattlagðir sem hjón, sem samvistum séu, enda sé þess óskað skriflega af báðum. Í málinu liggi ekki fyrir að sóknaraðili hafi farið þess á leit skriflega að þau yrðu samsköttuð þótt sambúðaraðili virðist hafa notað veflykil hennar til að skrá skattframtalið. Ríkisskattstjóri hafi hafnað því að taka mál sóknaraðila til meðferðar þar sem meira en sex ár séu frá því að atvik áttu sér stað. Embættið hafi því verið með skattframtal fyrrverandi sambúðaraðila hennar til meðferðar en lætur hana ekki vita og ber svo fyrir sig fyrningu þegar óskað sé leiðréttingar.

Með ólíkindum sé að lesa útskýringar í bréfi tollstjóra frá 14. október 2016. Ekki sé ljóst hvað tollstjóri eigi við með því að sóknaraðili skyldi hafa frumkvæði að upplýsingaöflun um skattamál fyrrverandi sambúðaraðila sem hún hafi ekki haft samband við í mörg ár. Auk þess hafi hún ekkert vitað um það skattamál sem var í gangi gegn honum fyrr en innheimta beindist að henni. Hún hafi því ekki haft neitt tilefni til að hafa frumkvæði að nokkurri upplýsingaöflun. Líklega hefði skattyfirvöldum heldur ekki verið heimilt að veita slíkar upplýsingar. Sóknaraðili viti ekki enn í dag hvort um sé að ræða áætlun eða lokaálagningu eða hvort mál fyrrverandi sambúðarmaka hennar sé til kærumeðferðar hjá yfirskattanefnd.

Á grundvelli framangreindra sjónarmiða og málsástæðna byggir sóknaraðili á því að fallast beri á kröfu hennar um að fellt verði úr gildi fjárnám það er fram fór þann 17. október 2016.

Sóknaraðili kveðst vísa til laga um tekjuskatt nr. 90/2003, einkum 62., 67., 68., 96., 97. og 116. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og fyrningarlaga nr. 150/2007, einkum 3. gr., auk laga nr. 90/1989 um aðför, einkum 27. gr. og 15. kafla um úrlausn ágreinings eftir lok aðfarargerðar. Um málskostnað vísar hann til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt á málskostnað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili krefst þess að fjárnámsgerð sú sem fram fór 3. október 2016 í máli nr. 2016-022151 verði staðfest. Byggir varnaraðili á því að öll skilyrði laga nr. 90/1989 um aðför séu uppfyllt.

Varnaraðili kveður sóknaraðila byggja á því að 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 hafi ekki getað verið virk þegar innheimta hófst þar sem ekki hafi verið gætt ákvæða laga nr. 90/2003 við endurákvörðun þing- og sveitarsjóðsgjalda fyrrverandi sambýlismanns sóknaraðila. Ekkert í gögnum málsins bendi á hinn bóginn til þess að umrædd þing- og sveitarsjóðsgjöld hafi verið lögð á með ólögmætum hætti eða að umræddir sambúðaraðilar hafi ekki talið fram til sameiginlega til skatts þau skattár sem um sé deilt. Beiting áðurnefnds ákvæðis laga nr. 90/2003 hafi verið fyllilega lögmæt.

Ljóst sé að samsköttun sóknaraðila og þáverandi sambýlismanns hennar hafi hafist við álagningu opinberra gjalda á skattframtali ársins 1987 og hafi hún staðið fram yfir skattskil árin 2007 og 2008, þ.e. vegna gjaldáranna 2006 og 2007, sem séu þau tímabil sem um er deilt í málinu. Þetta sé ljóst af vélrænni skráningu álagningar gjalda. Af skýringum sem fylgdu erindum lögmanns sóknaraðila hafi ekki verið unnt að ráða annað en að samsköttun hafi verið með vitund og vilja sóknaraðila, a.m.k. fram til ársins 2006.

Varnaraðili kveður áritun fjölskyldustöðu rafræna framtalsins gjaldárin 2007 og 2008 hafa byggst á skattlagningarmáta áranna á undan. Sá möguleiki hafi verið fyrir hendi að fyrrverandi sambýlismaður sóknaraðila hafi skilað skattframtölum 2007 og 2008 með ósk um samsköttun án vilja og vitundar skattaðila. Hafi því verið litið sérstaklega til skilamáta hinna rafrænu framtala 2007 og 2008 og aðkomu sóknaraðila og fyrrverandi sambýlismanns að þeim skilum. Samkvæmt skrá um innskráningu á þjónustusíðu skattaðila, www.skattur.is, hafi framtal skattaðila vegna framtalsskila árið 2007 fyrst verið opnað 6. mars 2007 kl. 22.00 af sóknaraðila, þ.e. innskráning hafi farið fram með kennitölu og veflykli sóknaraðila. Nokkrar innskráningar hafi verið gerðar frá þeim degi til skiladags framtals 19. mars 2007 kl. 23.09 og hafi þær ávallt verið gegnum aðgang sóknaraðila, þ.e með kennitölu hennar og veflykli.

Samkvæmt sömu skráningu vegna framtalsskila 2008 hafi fyrsta innskráning verið gerð af sóknaraðila 3. mars 2008. Nokkrar innskráningar hafi verið skráðar frá þeim degi til skiladags framtals 26. mars 2008 kl. 22.39. Hafi þær ávallt verið í gegnum aðgang sóknaraðila, þ.e. kennitölu hennar og með veflykli hennar fyrir utan eina skráningu 4. mars 2008 kl. 21.55 sem gerð hafi verið með kennitölu og veflykli fyrrverandi sambýlismanns sóknaraðila.

Af þessu verði ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi verið meðvituð um að framtalsskil 2007 og 2008 hafi verið með ósk um samsköttun með þáverandi sambýlismanni. Verði því að telja að sóknaraðili og þáverandi sambýlismaður hennar hafi óskað eftir samsköttun við framtalsgerð 2007 og 2008, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 og að þau hafi verið samsköttuð þau ár. Sóknaraðili þurfi því að sanna með haldbærum rökum að skattframtöl frá árunum 2007 og 2008 hafi ekki verið réttilega útfyllt enda hafi þau verið unnin a.m.k. að hluta til á veflykli sóknaraðila eins og hún viðurkenni.

Í 80. gr. laga nr. 90/2003 segi m.a. að tveir einstaklingar í sambúð sem óskað hafi eftir samsköttun samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laganna skuli telja fram allar eignir sínar og skuldir. Í 90. gr. laganna sé svo fjallað um skyldu til framtalsskila. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar skuli skattframtöl vera undirrituð af þeim sem framtalsskylda hvíli á. Í 4. mgr. greinarinnar komi skýrt fram að skil á skýrslu í tölvutæku formi að fenginni heimild ríkisskattstjóra jafngildi undirritun skýrslunnar, samkvæmt 2. og 3. mgr. Þegar sóknaraðili sendi inn skattframtöl 2007 og 2008 hafi því verið litið svo á að hún hefði undirritað skýrslurnar í framangreindum skilningi og að þar væru tilgreindar tekjur á síðastliðnu ári og eignir í árslok, að viðlögðum drengskap, svo og önnur atriði sem máli skiptu við skattálagningu. Sé hafið yfir allan vafa að rétt og eðlilegt hafi verið að samskatta sóknaraðila með fyrrverandi sambýlismanni bæði í skattframtali 2007 og 2008. Þau hafi notið samsköttunar og þess hagræðis sem af því hljótist í hartnær 20 ár. Enda mótmæli sóknaraðili aðeins samsköttun áranna 2007 og 2008 en ekki öll hin árin.

Hvað varði framkvæmd á endurákvörðun gjalda maka, samskattaðs aðila eða aðila í hjúskap sé það að segja að almennt séu ekki samskipti við hinn makann nema þegar um gjaldabreytingu hjá honum sé að ræða, svo sem vegna millifærslu persónuafsláttar eða breytingar á vaxtabótum eða barnabótum. Þetta gildi hvort heldur sem samvistir eru með aðilum og þegar um fyrrverandi maka er að ræða ef samsköttun er á annað borð fyrir hendi. Í því máli sem hér um ræði hafi skattendurskoðun snúið að fyrrum sambýlismanni sóknaraðila en engar breytingar hafi orðið á gjöldum sóknaraðila. Þegar úrskurðað hafi verið í máli fyrrum sambýlismanns hennar 11. júní 2014 höfðu þau slitið samvistir. Samkvæmt sóknaraðila hafi lögheimili verið flutt 11. ágúst 2008. Um sambærilegt tilvik sé fjallað í dómi Hæstaréttar í máli nr. 66/2006. Þar hafi verið um að ræða samsköttun til langs tíma og engar athugasemdir verið gerðar. Það hafi verið metið sóknaraðila til tómlætis.

Tilvísun sóknaraðila til úrskurðar yfirskattanefndar í máli nr. 536/1998 eigi á hinn bóginn ekki við í máli þessu því þar hafi m.a. verið fjallað um breytingar á álagningu opinberra gjalda kæranda með þeim hætti að vaxtabætur og barnabótaauki hennar féllu niður og því hafi verið talið rangt í meðferð málsins að henni hafi ekki verið boðið að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar áður en álögð opinber gjöld kæranda voru tekin til endurákvörðunar. Í því máli sem hér sé til umfjöllunar hafi ekki verið um að ræða breytingar á gjöldum sóknaraðila.

Þá hafi fjölmargir dómar gengið í Hæstarétti þar reynt hafi á þann tíma sem ríkisskattstjóri hafi til að endurákvarða skatta og gjöld. Sé það í samræmi við 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram komi að heimild til endurákvörðunar skatts samkvæmt 96. gr. sömu laga nái til skatts vegna tekna og eigna síðustu sex ár sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Skattkrafa geti ekki fyrnst á meðan enn er unnt að endurákvarða skatta líkt og í þessu tilviki. Sé öllum málsástæðum varðandi fyrningu hafnað.

Þá tekur varnaraðili fram að sóknaraðili hafi ekki verið aðili að endurákvörðun skatta fyrrverandi sambúðaraðila. Í samræmi við 5. gr. laga nr. 90/2003 sé um að ræða sjálfstæðan skattaðila þó að sóknaraðili beri sameiginlega ábyrgð á greiðslu skatta vegna endurákvörðunar. Því hafi ekki verið um það að ræða að veita sóknaraðila andmælarétt samkvæmt 13. gr. laga nr. 37/1993 eða tilkynna henni um meðferð máls samkvæmt 14. gr. sömu laga.

Jafnvel þótt dómurinn féllist á að ekki hafi verið farið að fullu samkvæmt stjórnsýslulögum breyti það ekki þeirri niðurstöðu að álögð gjöld fyrrum sambýlismanns sóknaraðila hafi verið lögð á samkvæmt lögum og reglum þar að lútandi og hefði sóknaraðili ekki getað breytt þeirri niðurstöðu.

Leggi dómurinn á málið hinn sérstaka mælikvarða valdi hann því ekki ógildingu nema sannanlegt sé að annmarki hafi í raun haft áhrif á efni niðurstöðunnar. Hugsanlegur annmarki hafi því ekki haft nein áhrif á niðurstöðu skattendurákvörðunar sem sneri aðeins að gjöldum fyrrverandi sambýlismanns sóknaraðila sem átti þess kost að koma að mótmælum og athugasemdum við þá endurákvörðun fyrir sitt leyti. Skattrannsóknin og skattamálið sjálft, og síðar endurákvörðunin, hafi snúið að öðrum skattaðila, þ.e. fyrrverandi maka sóknaraðila, brotum á lögum um bókhald og lögum um ársreikninga. Engin ástæða sé til að ætla annað en að sú rannsókn hafi farið fram með lögmætum hætti.

Sóknaraðili hafi fengið senda greiðsluáskorun 16. september 2015. Með bréfi 8. janúar 2016 hafi lögmaður sóknaraðila gert þá kröfu gagnvart tollstjóra að fallið yrði frá innheimtu skuldarinnar hjá sóknaraðila. Innheimtuferli hafi verið frestað þar sem sóknaraðili freistaði þess að fá fram breytingu á ákvörðun ríkisskattstjóra um endurákvörðun vegna áranna 2007 og 2008 sem ríkisskattstjóri hafi hafnað með bréfum 3. febrúar 2016 og 14. apríl 2016. Tollstjóri hafi með bréfi 14. október 2016 hafnað því að fella ábyrgð sóknaraðila niður. Sóknaraðili hafi kært úrskurð tollstjóra til ráðuneytisins 24. október 2016 sem staðfesti ákvörðun tollstjóra 29. desember 2016. Fjárnámsbeiðni hafi verið send til sýslumanns 20. september 2016 eða ári eftir að greiðsluáskorun var send.

Af þessu sé ljóst að sóknaraðili hafi fengið tækifæri innan stjórnsýslunnar til að fá endurskoðun á því sem snýr að innheimtu kröfunnar og því ekki unnt að halda fram að stjórnsýslulög hafi verið brotin í ferli innheimtumálsins.

Að öllu þessu virtu beri að hafna öllum kröfum sóknaraðila í máli þessu og staðfesta aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í máli nr. 2016-022626, sem fór fram þann 17. október 2016.

Um lagarök vísar sóknaraðili til aðfararlaga nr. 90/1989, laga nr. 90/2003 og laga nr. 37/1993. Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

IV

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför er aðilum að aðfarargerð heimilt að krefjast úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð, ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan átta vikna frá því að gerðinni var lokið. Þeirri aðfarargerð sem hér um ræðir lauk 17. október 2016 og var krafa sóknaraðila um úrlausn dómsins móttekin 14. desember 2016. Var þá liðinn framangreindur frestur. Við þingfestingu málsins 3. febrúar sl. samþykkti varnaraðili að ágreiningurinn yrði lagður fyrir dóminn með vísan til 2. mgr. áðurnefndrar lagagreinar. Er málið því réttilega lagt til dómsins.

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að aðfarargerð, sem lauk með árangurslausu fjárnámi 17. október 2016, verði felld úr gildi. Í málinu liggur fyrir að sóknaraðila var send greiðsluáskorun frá innheimtumanni ríkissjóðs 16. september 2015 þar sem hún var krafin um greiðslu skuldar, eða að um hana yrði samið, samtals að fjárhæð 64.150.794 krónur á grundvelli 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 16. gr. laga nr. 137/1996, vegna ábyrgðar sóknaraðila á skattskuld fyrrverandi sambúðaraðila hennar. Var skuldin til komin vegna endurálagningar þing- og sveitarsjóðsgjalda áranna 2007 og 2008, þ.e. tekjuáranna 2006 og 2007, fyrrum sambúðaraðila sóknaraðila. Fram kemur í kæru sóknaraðila til dómsins að hún hafi ekki haft vitneskju um umrædda skuld fyrr en henni barst áðurnefnd greiðsluáskorun. Þá kemur fram í gögnum að sóknaraðili óskaði eftir því við tollstjóra að fallið yrði frá innheimtu skuldarinnar gagnvart sér sem var hafnað og höfnunin síðar staðfest í úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins 24. október 2016. Þá beindi sóknaraðili einnig erindi til ríkisskattstjóra um endurupptöku skattframtala 27. janúar 2016 sem var hafnað 3. febrúar 2016. Þá fór sóknaraðili einnig fram á endurupptöku þeirrar synjunar sem einnig var hafnað með bréfi ríkisskattstjóra 14. apríl 2016. Síðarnefndu ákvörðununum hefur ekki verið hnekkt og kemur gildi þeirra sem slíkra ekki til úrlausnar hér fyrir dómi er varðar gildi fjárnáms sem gert var að beiðni tollstjóra.

Málatilbúnaður sóknaraðila verður skilinn svo að hún byggi á því að hún hafi ekki samþykkt samsköttun með sambúðaraðila sínum fyrir skattframtöl árin 2007 og 2008 en jafnvel þótt svo yrði talið hafi þau ekki notið þess skattalega hagræðis sem af samsköttun leiði. Þannig geti ekki verið um það að ræða að hún beri ábyrgð á skattskuldum fyrrverandi sambúðaraðila síns. Þá hafi málsmeðferð skattyfirvalda varðandi endurálagningu brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga hvað sig varðar, m.a. um tilkynningu um meðferð máls og andmælarétt. Ekki geti því verið um gilda skattkröfu gagnvart sér að ræða. Þá byggir sóknaraðili einnig á því að krafan sé fyrnd. Varnaraðili hefur hafnað öllum sjónarmiðum sóknaraðila og á því byggt að um gilda kröfu gagnvart henni sé að ræða og í einu og öllu hafi verið farið samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003. Enginn vafi sé á því að sóknaraðili og fyrrum sambúðaraðili hennar hafi verið samsköttuð um árabil og notið þess hagræðis sem því fylgi. Þá verði að ætla að rafræn undirritun og skattskil hinna sameiginlegu skattframtala þeirra hafi verið með fullri vitund og samþykki sóknaraðila. Sóknaraðili geti ekki skýlt sér á bak við það að einhver annar en hún hafi fyllt út og skilað framtölum þegar gögn og rafrænar færslur sýni fram á annað. Þá hefur varnaraðili á það bent að endurákvörðun umræddra gjalda hafi eingöngu beinst að fyrrum sambúðaraðila hennar. Hún hafi ekki verið aðili að því máli og því hafi ekki borið að tilkynna henni um meðferð þess eða afdrif eða veita henni andmælarétt. Þá hafnar varnaraðili öllum sjónarmiðum sóknaraðila um fyrningu.

Hvað varðar málatilbúnað aðila að öðru leyti tekur dómurinn fram að við munnlegan flutning málsins hafi, af hálfu sóknaraðila, verið á því byggt að rafrænar undirskriftir samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003 væru ekki í samræmi við 38. gr. stjórnsýslu laga nr. 37/1993 og lög nr. 28/2001 um rafrænar undirskriftir. Af hálfu varnaraðila var þessu mótmælt sem nýrri og of seint fram kominni málsástæðu. Dómurinn tekur fram að málsástæða þessi er ekki reifuð í málskoti sóknaraðila til dómsins og kemur, gegn mótmælum varnaraðila, ekki til álita við úrlausn máls þessa.

Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili og þáverandi sambýlismaður hennar voru samsköttuð við álagningu opinberra gjalda á skattframtölum allt frá árinu 1987 til og með 2008, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 en sambúð þeirra mun hafa lokið á miðju ári 2008. Í málinu er deilt um endurálagningu gjalda vegna skattframtala 2007 og 2008, þ.e. gjaldárin 2006 og 2007. Í 90. gr. laga nr. 90/2003 er fjallað um skyldu til framtalsskila. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar skulu skattframtöl vera undirrituð af þeim sem framtalsskylda hvíli á. Í 4. mgr. greinarinnar kemur fram að skil á skýrslu í tölvutæku formi að fenginni heimild ríkisskattstjóra jafngildi undirritun skýrslunnar, samkvæmt 2. og 3. mgr. Dómurinn telur ekkert það fram komið í málinu sem bendi til þess að framtalsskil sóknaraðila hafi verið í andstöðu við áðurnefnd ákvæði og verður sjónarmiðum þar að lútandi hafnað. Það sama á við um sjónarmið sóknaraðila er lúta að innskráningu á veflykli sóknaraðila og að öðru leyti hvað varðar útfyllingu skattframtalanna. Verður því út frá því gengið í máli þessu að framtalsskil hennar 2007 og 2008 hafi verið með ósk um samsköttun með þáverandi sambýlismanni hennar og að skattskil hafi verið gerð með vitund hennar og vilja.

Dómurinn tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 bera hjón óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Þessi regla gildir einnig um samskattað sambúðarfólk, sbr. lokamálslið áðurnefnds ákvæðis. Er því um lögbundna sjálfskuldarábyrgð að ræða í slíkum tilvikum, sbr. 6. mgr. þessarar lagagreinar. Samskattað sambýlisfólk skilar inn sameiginlegu skattframtali, sbr. 80. gr. laganna, og er hver og einn gjaldandi ábyrgur fyrir eigin framtalsskilum. Því skal ákveðinn tekjuskattur hvoru í sínu lagi, sbr. 5. gr. þeirra, en ábyrgðin er þó sameiginleg og samkvæmt fyrstnefnda ákvæðinu ber sambúðaraðili ábyrgð á vangoldnum sköttum hins. Er regla 1. mgr. 116. gr. laganna afdráttarlaus hvað þetta varðar.

Sóknaraðili hefur haldið því fram að sú ábyrgð sem hér hefur verið lýst geti ekki átt við um hana þar sem hún og fyrrum sambúðaraðili hennar hafi ekki notið þess skattalega hagræðis sem hljótist af samsköttun. Hefur af hennar hálfu verið vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 66/2006 þar að lútandi. Þetta leiði til þess að hún eigi ekki að þurfa að sæta því að bera fjárhagslega ábyrgð á vangoldnum sköttum fyrrum sambúðaraðila síns.

Af þessu tilefni tekur dómurinn fram að úrræði laga nr. 90/2003 til samsköttunar sambúðaraðila felur í sér bæði réttindi og skyldur. Því er það svo að það hvort sambúðaraðilar njóta hverju sinni þess skattalega hagræðis sem leiða kann af samsköttun hefur ekki úrslitaáhrif um beitingu reglu áðurnefndra laga um óskipta ábyrgð sambúðaraðila á greiðslu skatta sem á þau hafa verið lögð en regla þessi er skýr og ótvíræð. Verður framangreindur dómur Hæstaréttar ekki skilinn á þann hátt er sóknaraðili heldur fram. Raunar tekur dómurinn fram að þrátt fyrir að sóknaraðili og fyrrum sambúðaraðili hennar hafi ekki nýtt ónýttan persónuafslátt hins og ekki notið barna- eða vaxtabóta á því tímabili er um ræðir er ljóst af framlögðum skattframtölum og álagningarseðlum að við ákvörðun staðgreiðslu umrædd ár var inneign skuldajafnað til maka. Skiptir þá ekki máli þótt ekki sé um háar fjárhæðir að ræða.

Að þessu sögðu er það því niðurstaða dómsins að sóknaraðili og fyrrum sambýlismaður hennar hafi verið samsköttuð að eigin ósk á því tímabili er um ræðir í þessu máli og að því er virðist allt frá árinu 1998 og að það hafi verið vilji þeirra að þau væru samsköttuð enda liggur ekkert fyrir um að þau hafi óskað eftir að svo yrði ekki. Er því fullnægt áskilnaði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt þessu bera þau óskipta ábyrgð á greiðslu skatta sem á þau hafa verið lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru þeirra um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003.

Þá er heldur ekki unnt að fallast á sjónarmið sóknaraðila um fyrningu. Tekur dómurinn fram að ekki sé unnt að líta svo á að almennur fjögurra ára fyrningarfrestur kröfuréttinda, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, takmarki heimildir ríkisskattstjóra samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 til að endurákvarða skatt vegna tekna og eigna síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram. Hafa fjölmargir dómar gengið í Hæstarétti þar sem reynt hefur á þann tíma sem ríkisskattstjóri hefur til að endurákvarða skatta og gjöld. Ríkisskattstjóri endurákvarðaði til hækkunar þing- og sveitarsjóðsgjöld fyrrum sambýlismanns sóknaraðila vegna álagningaráranna 2007-2008 með úrskurði 11. júní 2014. Krafan stofnaðist því á hendur sóknaraðila og fyrrverandi sambúðaraðila hennar þann dag og féll hún í gjalddaga 10 dögum síðar, sbr. 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003 einnig gagnvart sóknaraðila. Innheimta gagnvart sóknaraðila hófst 16. september 2015 með sendingu greiðsluáskorunar. Er krafan því ekki fyrnd, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007, heldur gild skattkrafa gagnvart sóknaraðila.

Þá verður ekki talið að við meðferð ríkisskattstjóra á máli fyrrum sambúðaraðila sóknaraðila hafi reglur stjórnsýslulaga verið brotnar gagnvart sóknaraðila enda verður að telja ljóst að endurálagning gagnvart honum sem sjálfstæðum skattaðila fól ekki í sér gjaldabreytingu gagnvart sóknaraðila og sóknaraðili var ekki aðili þess stjórnsýslumáls. Breytir regla 1 mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 ekki þeirri niðurstöðu.

Með vísan til alls framangreinds er fallist á kröfu varnaraðila í málinu og hin umþrætta aðfarargerð sem fram fór 17. október 2016 staðfest eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 á varnaraðili rétt á málskostnaði úr hendi sóknaraðila, sbr. 94. gr. laga nr. 90/1989, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 6. mars sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er aðfarargerð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í máli nr. 2016-022626 sem fram fór 17. október 2016.

Sóknaraðili, Sjöfn Arnfinnsdóttir, greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í málskostnað.