Print

Mál nr. 112/2010

Lykilorð
  • Verksamningur
  • Þjónustukaup
  • Matsgerð

Fimmtudaginn 11. nóvember 2010.

Nr. 112/2010.

Dögg Pálsdóttir

(Þórarinn V. Þórarinsson hrl.)

gegn

Saga verktökum ehf.

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

Verksamningur. Þjónustukaup. Matsgerð.

D og verktakinn S gerðu með sér munnlegan verksamning um niðurrif og endurbyggingu á tveimur íbúðum í eigu D. S höfðaði mál þetta gegn D til heimtu eftirstöðva reikninga fyrir efni og vinnu vegna verksins. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að D hefði ekki tekist sönnun um að S hefði gert henni verðáætlun um verkið á grundvelli 29. gr. laga nr. 42/2000, um þjónustukaup. Deila aðila laut einkum að því hvort verð það sem S krafði D um yrði talið sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún var í skilningi 28. gr. laga nr. 42/2000. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að þótt matsmaður hefði metið það sem tiltekið var í matsbeiðni af hálfu D lægi fyrir að hann hefði ekki metið hvort raunverulegt vinnuframlag verktakans við verkið og útlagður efniskostnaður hans væri sanngjarn, auk þess sem á matsgerðinni væru einnig nánar tilgreindir annmarkar. Af þeim sökum yrði matsgerðin ekki lögð til grundvallar við mat á því hvort hinn umkrafði verkkostnaður væri ósanngjarn. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, um að D bæri að greiða S eftirstöðvar reikninga vegna verksins. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 30. desember 2009. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 17. febrúar 2010 og áfrýjaði hún öðru sinni 25. febrúar 2010 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að krafa hans verði lækkuð og að kröfu um dráttarvexti verði vísað frá héraðsdómi. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi til heimtu eftirstöðva reikninga, sem hann gerði áfrýjanda fyrir efni og vinnu á grundvelli munnlegs verksamnings þeirra um niðurrif og endurbyggingu á tveimur íbúðum á níundu hæð hússins nr. 6 við Hátún í Reykjavík.

Aðilar deila ekki um að stefndi hafi tekið að sér að vinna verkið fyrir áfrýjanda í reikningsvinnu en ekki á grundvelli tilboðs. Áfrýjandi heldur því fram að á fundi hennar og sonar hennar, Páls Ágústs Ólafssonar, með Sumarliða Má Kristjánssyni, einum fyrirsvarsmanna stefnda, sem haldinn hafi verið haustið 2006 hafi verið rætt um líklegan kostnað við verkið. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst áfrýjandi hafa upplýst Sumarliða Má um að hún hefði kynnt sér kostnað við slík verk og verið sagt að hann yrði líklega um 150.000 krónur á hvern fermetra húsnæðis. Hafi Sumarliði Már þá sagt ,,ég held að þetta verði nær 180 þúsundum á fermetra með vsk.“ Innifalið í því væri allt nema rafmagnstæki. Hún kveður Sumarliða Má hafa útskýrt nánar þessa skoðun sína, meðal annars með vísan til þess að húsnæðið væri á níundu hæð og að talsverður kostnaður fylgdi því að fá krana til þess að flytja efni upp og úrgang niður. Áfrýjandi telur að í þessari yfirlýsingu Sumarliða Más hafi falist verðáætlun í skilningi 29. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, sem gildi um lögskipti hennar og stefnda. Hafi verki því, sem stefndi tók að sér, með þessu verið markaður verðrammi og kostnaður af því þess vegna ekki mátt fara verulega fram úr þeirri verðáætlun.

Í skýrslu Sumarliða Más fyrir héraðsdómi kveðst hann í framangreindu samtali við áfrýjanda hafa látið í ljós þá skoðun að verðið yrði ,,180 eða miklu meira þar sem engar teikningar voru til staðar og ekkert hægt að sjá hvað ætti nákvæmlega að fara í miklar framkvæmdir.“ Stefndi hafnar því að í samtali Sumarliða Más umrætt sinn við áfrýjanda hafi verið sett fram verðáætlun, enda hafi ekki verið ljóst hvað gera skyldi þar sem engar teikningar hafi legið fyrir á fundinum af íbúðunum eins og þeim átti að breyta.

Fallist er á með héraðsdómi að áfrýjandi hafi ekki sannað að stefndi hafi látið henni í té verðáætlun í verkið í skilningi 29. gr. laga nr. 42/2000.

Af framangreindu leiðir að ekki var samið um verð fyrir þá þjónustu sem stefndi skyldi láta áfrýjanda í té. Ber áfrýjanda því, samkvæmt 28. gr. laga nr. 42/2000 að greiða það verð sem stefndi krefst, enda verði það talið sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún var. Stefndi telur að fjárhæð sú, sem hann krefst fyrir verkið samkvæmt reikningum, sem hann hefur gert áfrýjanda, sé sanngjörn, en því andmælir áfrýjandi. Hún hefur sönnunarbyrði fyrir því að umkrafið verð sé ósanngjarnt.

Áfrýjandi óskaði dómkvaðningar matsmanns til að skoða og meta: ,,Hvaða heildarverð, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000, telst sanngjarnt og eðlilegt fyrir vinnu þá sem starfsmenn stefnanda og undirverktakar á hans vegum inntu af hendi í íbúðum stefndu og sonar hennar í húsinu nr. 6 við Hátún í Reykjavík, frá janúar til ágúst 2007 með hliðsjón af umfangi vinnunnar og hvers eðlis hún var. Allar matsfjárhæðir skulu miðast við verðlag framkvæmdatímabilsins ...“ Niðurstaða matsmannsins var sú að hæfilegur kostnaður vegna efnis og vinnu við verkið væri 29.402.000 krónur. Hann tók þó fram í matsgerðinni að vegna ýmissa tilgreindra atriða, svo sem biðtíma og smáverka sem gætu komið til, verði að gera ráð fyrir að verðið gæti verið hærra, sem nemi 20 til 25% eða lægra sem nemi 10 til 15%. 

Áfrýjandi telur að með matsgerðinni sé sýnt fram á að fjárhæð sú, sem stefndi krefst fyrir verkið, 60.895.854 krónur, sé ósanngjörn. Hún hafi þegar greitt 45.035.812 krónur og beri því að sýkna hana af kröfu stefnda.

Eftir að matsmaður hafði verið dómkvaddur boðaði hann til matsfundar sem fram fór 14. maí 2009. Til þess fundar mættu auk áfrýjanda og sonar hennar ráðgjafi hennar og verktaki, sem tekið hafði verkið yfir eftir að áfrýjandi rifti verksamningi við stefnda. Af hálfu stefnda mættu auk lögmanns félagsins fyrirsvarsmenn þess, Sumarliði Már Kristjánsson og Númi Orri Blöndal svo og ráðgjafi. Á matsfundinum lágu ekki fyrir teikningar af verkinu, en þeirra var aflað á meðan fundurinn fór fram. Matsmaðurinn bar fyrir héraðsdómi að fyrirsvarsmenn stefnda hefðu í upphafi verið tregir til þátttöku á matsfundinum, en þeir hefðu þó svarað þeim spurningum, sem matsmaðurinn beindi til þeirra. Spurður hvort hann hafi haldið annan matsfund til að afla frekari upplýsinga og skýringa, svaraði matsmaðurinn að hann hefði ekki talið þörf á því miðað við upplifun hans af fyrri matsfundi og ,,hvernig gekk að ná upplýsingum frá fyrst og fremst matsþola að þá sé ég ekki að það hefði breytt neinu ef það hefði verið haldinn annar fundur, þá hefðu þeir væntanlega hagað sér eins.“ Hann lýsti því einnig að hann hefði talið sig hafa nægar upplýsingar til þess að ljúka matinu og ,,aðilar óskuðu ekki eftir að upplýsa mig um neitt annað og þeir óskuðu ekki eftir að halda annan fund ...“

Matsmaður lýsti verklagi sínu við matsstarfann svo, að hann hefði farið rækilega yfir þá reikninga og vinnuskýrslur sem hann hefði fengið í hendur, en ekki getað lesið út úr þeim hvernig vinna og efni skiptist á einstaka verkþætti. Hann hafi því ekki notað tímaskýrslur og efnisreikninga við mat sitt heldur notast við teikningar og upplýsingar aðila á matsfundi til þess að áætla efnismagn og vinnustundir.

II

Í matsbeiðni er matsmanni hvorki falið að meta sérstaklega vinnu þá sem stefndi og undirverktakar á hans vegum inntu af hendi og hvort hún væri hæfileg né efniskostnað sem stefndi hafði af verkinu og hvort hann væri hæfilegur, heldur hvaða heildarverð teldist sanngjarnt og eðlilegt fyrir vinnu þá sem starfsmenn stefnda og undirverktakar á hans vegum inntu af hendi í íbúðunum. Eins og áður greinir áætlaði matsmaðurinn þá vinnu og það efni, sem hann taldi eðlilegt að færi í verkið. Hann taldi ekki unnt að leggja mat á framlagða vinnu, þar sem vinnuseðlar bæru ekki með sér við hvaða verkþátt hefði verið unnið.

Niðurstaða matsmanns er sú að hæfilegur efniskostnaður við verkið væri 13.504.000 krónur. Samanlagður efniskostnaður, sem stefndi hefur lagt út vegna verksins, án tillits til svonefnds 10% aðalverktakaálags, er 19.029.910 krónur. Matsmaður tekur í matsgerðinni ekki tillit til 10% aðalverktakaálags til stefnda, sem þóknun fyrir heildarumsjón með verkinu. Matsmaður áætlaði kostnað við einstaka þætti þótt fyrir lægju greiddir reikningar um þá. Þannig áætlaði hann kostnað af kranavinnu 774.000 krónur, en fyrir liggur að stefndi greiddi 1.259.078 krónur fyrir þá þjónustu, án tillits til 10% aðalverktakaálags. Þá áætlaði matsmaður kostnað af förgun 232.000 krónur, en greiddur kostnaður við þann þátt var 909.627 krónur. Á matsgerð hins dómkvadda manns eru samkvæmt framansögðu þeir annmarkar að hann leggur ekki mat á hvort efnismagn og kostnaður vegna efnis og ýmis konar þjónustu, sem lagður var út vegna þess, sé sanngjarn. Ef matsmaður taldi, að á skorti að hann hefði þær upplýsingar, eða sundurliðanir, sem nauðsynlegar væru, átti hann að óska eftir því að þær yrðu lagðar fram af þeim aðila matsmálsins, sem hafði þær undir höndum eða átti þess kost að afla þeirra. Aðila matsmáls er skylt að verða við slíkri ósk, sé það mögulegt, sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Synji aðili matsmáls matsmanni um upplýsingar eða gögn, getur sú synjun leitt til þess að hann eigi að bera hallann af því að matsmaður getur ekki lagt þær upplýsingar, sem hann óskaði eftir, til grundvallar í matsgerð sinni. Hann kaus að óska ekki eftir því við stefnda að hann legði fram sundurliðanir á vinnu einstakra verkþátta, né efniskostnað við þá.

Þótt matsmaður hafi metið það sem tiltekið var í matsbeiðni liggur samkvæmt framansögðu fyrir, að hann mat ekki hvort raunverulegt vinnuframlag stefnda við verkið og útlagður efniskostnaður hans væri sanngjarn, auk þess sem á matsgerðinni eru einnig þeir annmarkar, sem greinir að framan. Af þessum sökum verður hún ekki lögð til grundvallar við mat á því hvort hinn umkrafði verkkostnaður sé ósanngjarn. Hefur áfrýjandi ekki með öðrum hætti rennt stoðum undir málsástæður sínar að þessu leyti. Hinn áfrýjaði dómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, verður því staðfestur með framangreindum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hans.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Dögg Pálsdóttir, greiði stefnda, Saga verktökum ehf., málskostnað fyrir Hæstarétti, 700.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. nóvember sl., höfðuðu Saga verktakar ehf., Gauksási 8, Reykjavík, á hendur Dögg Pálsdóttur, Laugarnesvegi 89, Reykjavík, með stefnu birtri 26. febrúar 2008. Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð 31.860.042 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 11.847.238 krónum frá 15.06.2007 til 16.07.2007, af 21.026.886 krónum frá 16.07.2007 til 05.12.2007, af 31.774.768 krónum frá 05.12.2007 til 26.01.2008, en af 31.860.042 krónum frá 26.01.2008 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 7. júní 2007 að fjárhæð 9.000.000 króna og 17. júlí 2007 að fjárhæð 7.000.000 króna miðað við stöðu skuldarinnar á innborgunardegi. Stefnandi krefst og málskostnaðar að mati dómsins. 

Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær aðallega að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda en til vara að þær verði stórlega lækkaðar. Þess er og krafist að dráttarvaxtakröfu stefnanda verði vísað frá dómi. Þá krefst stefnda og málskostnaðar úr hendi stefnanda verði aðalkrafan tekin til greina, en að málskostnaður verði látinn niður falla verði varakrafan tekin til greina.

I.

Stefnandi tók að sér með munnlegu samkomulagi við stefnda, líklega undir lok ársins 2006, að annast umfangsmiklar breytingar á efstu hæð fjölbýlishússins að Hátúni 6, Reykjavík, jafnframt því að reisa viðbyggingu á  hæðinni. Um er að ræða tvær íbúðir á 9. hæð sem stefnda og sonur hennar, Páll Ágúst Ólafsson, höfðu þá nýlega keypt. Hófust framkvæmdir í janúar 2007. Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um greiðslu sex reikninga samtals að fjárhæð 15.860.041 króna sem hann kveður eftirstöðvar heildarkostnaðar við verkið sem alls hafi numið 60.895.854 krónum. Gaf stefnandi alls út tíu reikninga vegna verksins og voru greiðslur vegna þeirra með eftirgreindum hætti:

Reikn.nr.

Útgáfudagur

Fjárhæð

Greiðslur

14

15.03.2007

7.573.686

21.03.2007

8.517.993

15

03.04.2007

8.656.439

13.04.2007

7.712.132

17

05.05.2007

7.586.154

15.05.2007

7.586.154

19

10.06.2007   

11.847.238

07.06.2007

9.000.000

23

11.07.2007

9.179.648

17.07.2007

7.000.000

28

02.08.2007

5.219.534

09.08.2007

3.000.000

51

30.11.2007

498.579

15.08.2007

2.219.533

52

30.11.2007 

2.762.284

53

30.11.2007

7.487.019

67

21.01.2008

85.274

Samtals

60.895.854

45.035.812

Stefnda hefur mótmælt kröfum stefnanda og haldið því fram að hún sé með innborgunum sínum búin að fullgreiða skuldina.

II.

Undir rekstri málsins fór stefnda fram á að dómkvaddur yrði sérfróður matsmaður til að meta: „Hvaða heildarverð, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000, telst sanngjarnt og eðlilegt fyrir vinnu þá sem starfsmenn stefnanda og undirverktakar á hans vegum inntu af hendi í íbúðum stefndu og sonar hennar í húsinu nr. 6 við Hátún í Reykjavík, frá janúar til ágúst 2007 með hliðsjón af umfangi vinnunnar og hvers eðlis hún var. Allar matsfjárhæðir skulu miðast við verðlag framkvæmdatímabilsins sem var janúar til ágúst 2007.“ Kemur fram í matsbeiðni að það heildarverð sem stefnda sé búin að greiða, liðlega 45.000.000 króna, sé bæði sanngjarnt og eðlilegt fyrir þá vinnu sem starfsmenn stefnanda hafi innt af hendi í íbúðunum tveimur.

Til að framkvæma hið umbeðna mat var dómkvaddur Hjalti Sigmundsson, byggingartæknifræðingur og húsasmíðameistari. Í matsgerð hans, dags. 22. júní 2009, kemur fram, undir liðnum matsfundur, að farið hafi verið yfir það sem meta skyldi. Skuli matið, auk vinnuliðar, ná til efnisliðar verksins. Þá er í sérkafla lýst vettvangsskoðun og hvað komið hafi þar fram um það sem gert hafi verið í íbúð matsbeiðanda. 

Í  niðurstöðukafla matsins er meðal annars greint frá því að matsmaður hafi skoðað þá verkliði sem óskað hafi verið að metinn væri kostnaður við og vísað hafi verið til á matsfundi. Matsmaður hafi ekki séð það sem rifið hafi verið úr húsinu eða það sem verið hafi innan þilja. Sé við mat á umfangi stuðst við lýsingu matsbeiðanda og matsþola sem fram hafi komið á matsfundi og afrit af teikningum frá byggingarfulltrúa. Þá sé stuðst við verðupplýsingar frá efnissölum, verðbanka, s.s. Hannar og Hönnunar, og reynslutölur. Tekið hafi verið tillit til umfangs verks og aðstæðna á verkstað. Þá segir svo: „Það er háð ýmsum breytuþáttum hversu margar vinnustundir fara í verk s.s. afköstum þess sem vinnur verkið, reynslu og færni, líkamlegu atgervi o.fl. Aðstæður á verkstað ráða þar einnig miklu, t.d. hvort unnið er á jarðhæð eða á efri hæðum í húsi, hvort aðstæður eru þröngar eða ekki. Þá hefur það áhrif hvort unnið sé við eign þar sem gæta þarf þess að skaða ekki byggingarhluta sem á að nota áfram eða hvort ekkert slíkt sé til staðar. Vel er þekkt að viðhaldsverkefni og endurbyggingarverkefni eru tímafrekari en önnur verk. Þau vinnast oft ekki eins og nýbyggingarverkefni og oft þarf að stöðva vinnu við verkliði og kalla til aðra iðnaðarmenn og/eða hönnuði áður en hægt er að halda áfram, nema þá að viðkomandi sé nægilega fjölhæfur til að geta unnið sjálfur við það sem upp kemur. Engu að síður valda slíkar aðstæður töfum og því eðlilegt að gera ráð fyrir þeim. Einnig geta komið í ljós atriði sem ekki var búist við eða gerðar eru breytingar á eða bætt við verkefnin í miðju kafi. Í hverju verki er töluverður tími óvirkur vegna m.a. efnisútvegunar, útvegunar tækja og tóla, biðtíma vegna ákvarðana hönnuða/eiganda, samráð við hönnuði/eiganda o.s.frv. en einnig vegna eðlilegra biðtíma á milli verkþátta s.s. vegna þess að efni þurfa að þorna og/eða harðna. Í verki sem þessu koma upp ótal minni og stærri atriði sem ekki er hægt að sjá fyrir eða koma fram í sundurliðun í áætlun sem þessari. Tekið er tillit til þess við mat á kostnaði.

Af þessum ástæðum telur matsmaður að eðlilegt verð fyrir verk af því tagi sem hér um ræðir geti verið hærra um 20 til 25% eða lægra sem nemur 10 til 15%. Frávik niður á við er lægra vegna þess að við mat á kostnaði er allt tekið til sem vitað er um og það sem ekki er vitað um eða sést við áætlanagerð er yfirleitt til viðbótar en ekki til minnkunar á verkum.

Þegar unnið er að verkum á tímagjaldi og verktaki leggur á efni er eðlilegt að öll vinna og kostnaður við efnisaðföng séu innifalin í álagningu en sé ekki greidd sérstaklega.

Niðurstaða matsmanns

Matsmaður telur að hæfilega metinn kostnaður við að framkvæma þá verkliði sem fram kom á matsfundi að hafi verið unnir sé eins og fram kemur í samantektartöflu hér á eftir. Verð getur verið 20 til 25% hærra eða 10 til 15% lægra og samt talist sanngjarnt og eðlilegt að áliti matsmanns.

Verkþáttur

@ efni og tæki

@ vinna

Upphæð

1.

Rif

1.1

Taka niður innréttingar, hurðir og tæki (eldhús, forstofa, svefnherbergi og baðherbergi)

4.000

232.000

236.000

1.2.

Taka niður forskallaða milliveggi.

4.000

217.000

221.000

1.3.

Taka niður forskallaða klæðningu af útveggjum

4.000

232.000

236.000

1.4.

Taka niður forskölluð loft ásamt einangrun úr þaki

4.000

263.000

267.000

1..

Taka niður steypta milliveggi

66.000

266.000

332.000

1.6

Taka úr glugga

6.000

130.000

136.000

1.7

Taka niður útvegg að norðanverðu og klæðningu af suðurvegg - timburgrind, asbestplötur að utan. Aukakostnaður vegna meðferðar asbests og förgunar.

40.000

297.000

337.000

1.8

Hreinsa upp gólfefni - dúkar.

13.000

294.000

307.000

1.9

Brjóta rásir í ílög fyrir stofnlögnum hitalagna að tengigrindum og neysluvatnslögnum að salernum og eldhúsi.

7.000

81.000

88.000

1.10

Brjóta upp ílög á gangi framan við lyftu.

3.000

31.000

34.000

1.11

Taka niður ofna og ofnalagnir og neysluvatnslagnir. Blinda lagnir.

2.000

93.000

95.000

1.12

Aftengja raflagnir og draga úr að tengidósum

39.000

39.000

1.13

Skera sundur járnhandrið á svölum og brjóta ofan af kanti þar sem viðbygging er ofan á.

2.000

39.000

41.000

1.14

Krani að lyfta niður rusli í sílói.

325.000

139.000

464.000

1.15

Förgun á rusli.

232.000

232.000

2.

Varsla og bráðabirgðalausnir

2.1

Setja upp knekti úr stáli á veggi fyrir vinnupall. Gert úr krana.

503.000

116.000

619.000

2.2

Byggja skýli úr timburstoðum og fjölum með ástrengdum plastdúk meðfram norðurhlið. Taka niður aftur.

77.000

139.000

216.000

2.3

Byggja skýli við suðurhlið yfir tengigrindur úr krossviði og trégrind. Taka niður aftur.

23.000

85.000

108.000

2.4

Seta upp bráðabirgðastoðir til að halda þaki uppi meðan burðarveggir voru fjarlægðir og nýr burður settur í þak. Reim var sett undir sperrur í norðurhlið og stoðir undir. Tveir vírar strengdir frá hverjum bita með strekkjara, festir í gólf og í bita.

23.000

62.000

85.000

2.5

Lyfta upp timbri, plötum, o.þ.h. með krana. Miðað er við að samnýta krana þegar hann er að fjarlægja rusl sbr. lið 1.

39.000

54.000

93.000

3.

Viðbygging, þak, frágangur að utan

3.1.

Breyta burðargrind í útvegg að sunnanverðu vegna glugga og hurða. Klæða að utan með 12 mm krossviði. Listar undir klæðningu.

77.000

116.000

193.000

3.2

Útveggir viðbyggingar til suðurs út á svalir. Trégrind klædd utan með 12 mm krossviði. Lista utan á krossvið undir endanlega klæðningu (ófullgert).

298.000

447.000

745.000

3.3

Þak á viðbyggingu til suðurs - sperrur, klæðning.

325.000

272.000

597.000

3.4

Þak á viðbyggingu til suðurs - þakpappi, þakjárn.

162.000

170.000

332.000

3.5

Setja upp IPE180 stálbiti undir þak í norðurhlið með RHS100x50x4 stoðum undir. Setja upp IPE120 bita í þak með RHS100x50x4 stoðum undir. Setja upp IPE160 bita í þak. Bitar sem fyrir voru rafsoðnir við nýjan bita þar sem þeir mætast.

1.097.000

691.000

1.788.000

3.6

Byggja nýjan útvegg að norðanverðu. Timburgrind og krossviðarklæðning.

153.000

230.000

383.000

3.7

Steypa undir glugga á vesturhlið og austurhlið, múrhúða að utan og ganga frá vatnshöllum. Steypa járnbent. Efni lyft upp með bílkrana. Steypa undir glugga á svölum á norðurhlið.

77.000

310.000

387.000

3.8

Setja nýja glugga í íbúðir. Álgluggar frá Gluggasmiðjunni í suðurhlið. Gluggar í norðurhlið eru frá JG-gluggum. Á austur- og vesturhlið eru gluggar settir í stein en festir við trégrind í suður- og norðurvegg. Gluggum og gleri lyft upp með krana.

3.406.000

697.000

4.103.000

3.9

Þakgluggi settur á baðherbergi í báðum íbúðunum. Rafdrifnir Velux gluggar. Frágangur við þakklæðningu úti er ekki hluti af verkinu.

170.000

46.000

216.000

3.10

Smíða trékassa fyrir loftstokka fyrir útblástur þar sem stokkar ganga upp úr þaki viðbyggingar. Klæða með blikki.

39.000

116.000

155.000

3.11

Lyfta upp timbri, plötum, stálbitum með krana.

39.000

39.000

78.000

4.

Frágangur að innan

4.1

Einangra útveggi norðan og sunnan og viðbyggingu með steinull í trégrind veggja. Rakavörn, lagnagrind og klæða með 2x13 mm gifsplötum.

201.000

362.000

563.000

4.2

Einangra útveggi austan og vestan með steinull í blikkgrind sem fest er á steypta veggi. Rakavörn, lagnagrind og klæða með 2x13 mm gifsplötum.

156.000

330.000

486.000

4.3

Síkka sperrur með 50x50 cm listum sem skrúfaðir voru neðan á sperrur.

105.000

186.000

291.000

4.4

Einangra þak með þakull. 25x25 mm listar ofan við til að mynda loftbil. Rakavörn. Lagnagrind úr blikki fest upp í sperrur með vinklum og klætt í loft með 2x13 mm gifsplötum. Skuggafúga með öllum veggjum.

1.006.000

1.805.000

2.811.000

4.5

Setja upp innveggi. 70 mm blikkgrind (90 mm í baðherbergi vegna lagna), klætt með 2x13 mm gifsi á báðar hliðar.

293.000

691.000

984.000

4.6

EI-60 veggir við geymslur og stigahús. Grind, 2x13 gifsklæðning.

106.000

236.000

342.000

4.7

EI-90 veggur milli geymsla og klæðning á loftstokka. Grind, 2x13 gifsklæðning, steinull fest í grind.

108.000

248.000

356.000

4.8

Klæða veggi að stigahúsi með 2x13 mm gifsplötum á blikkgrind  yfir lagnir.

54.000

104.000

158.000

4.9

Smíða hillur fyrir innfelld ljós. Klæða skot yfir innréttingar. Gera stokka fyrir rafdrifnar gardínur.

39.000

348.000

387.000

4.10

Klæða með gifsplötum á blikkgrind kringum eldstæði.

12.000

77.000

89.000

4.11

Byggja út veggi yfir salerniskassa og gera úrtök í vegg aftan við baðker. Klæða aukalega vegg bakvið baðker vegna eldvarna. Íbúð 902.

23.000

70.000

93.000

4.12

Leggja í raufar með stofnlögnum með sementsbundinni flotílögn sem hrærð er á staðnum.

15.000

38.000

53.000

4.13

Leggja í gólf með anhydrid ílögn 5-7 cm yfir gólfhitalagnir.

488.000

232.000

720.000

4.14

Byggja undir gólf í sturtu og þvottarými í íbúð 0901 með vikurhellum. Tekið úr hellum fyrir lögnum að tækjum.

35.000

39.000

74.000

4.15

Bera inn sandspartl með málurum.

23.000

23.000

4.16

Lyfta upp timbri, plötum, stálbitum með krana.

62.000

77.000

139.000

5.

Lagnir

5.1

Stofnlagnir hita og neysluvatns lagðar frá tengiklefa í kjallara hússins upp eftir lagnaskakti við lyftukjarna og upp í tengigrindur fyrir íbúðir. Samtals eru 6 stofnlagnir frá kjallara.

271.000

274.000

545.000

5.2

Bora 6ø60 mm göt í hver hæðarskil og í gegnum veggi í kjallara fyrir lögnum.

31.000

255.000

286.000

5.3

Viðgerðir á raflögnum sem borað var í.

Ekki áætlað - umfang óþekkt.

5.4

Gólfgeislalögn lögð á ílögn sem fyrir var undir flotílögn.

464.000

584.000

1.048.000

5.5

Tengikistur gólfhitalagna

155.000

170.000

325.000

5.6

Tengigrindur eru frá Danfoss. Neysluvatn á forhitara.

1.429.000

116.000

1.545.000

5.7

Segullokar og stoppkranar á stofna hitakerfis og neysluvatnskerfis.

116.000

35.000

151.000

5.8

Ganga frá frárennslislögnum út úr veggjum tilb. til tenginga.

23.000

116.000

139.000

5.9

Neysluvatnslagnir að tengistöðum frá tengigrindum.

356.000

263.000

619.000

5.10

Innbyggðir salerniskassar.

155.000

39.000

194.000

5.11

Ídráttarpípur og tengidósir fyrir raflagnir og smáspennulagnir. Töfluskápar. 85% ídregið.

542.000

1.982.000

2.524.000

6.

Annað

6.1

Álag vegna aðstæðna.

1.100.000

1.100.000

6.2

Aðstaða fyrir starfsmenn.

39.000

155.000

194.000

Samtals metinn kostnaður kr. með vsk.

13.504.000

15.898.000

29.402.000

Metinn kostnaður innifelur allan kostnað verktaka við að vinna viðkomandi verklið og innifelur virðisaukaskatt. Miðað er við að verkið sé unnið í einum áfanga og sé unnið af faglærðum mönnum með aðstoðarmönnum. Tekið er tillit til umfangs verkliða og aðstæðna á verkstað. Metinn kostnaður er á verðlagi janúar til ágúst 2007 í samræmi við það sem farið er fram á í matsbeiðni.

III.

Stefnandi kveður skuld sína byggða á eftirgreindum sex reikningum vegna framkvæmda við íbúðirnar að Hátúni 6:

Nr.

Útgáfudagur

Gjalddagi

Fjárhæð

1

10.06.2007

15.07.2007

11.847.238

2

11.07.2007

16.07.2007

9.179.648

3

30.11.2007

05.12.2007

2.762.284

4

30.11.2007

05.12.2007

7.487.019

5

30.11.2007

05.12.2007

498.579

6

21.01.2008

26.01.2008

85.274

Verkið hafi hafist í janúar 2007 og lokið í september sama ár. Heildarkostnaður við verkið hafi numið 60.895.854 krónum og hafi stefnda greitt 45.035.813 krónur. Eftirstöðvar skuldarinnar séu því 15.860.041 króna.

Framangreindir reikningar séu byggðir á munnlegu samkomulagi við stefndu um að verkið yrði unnið á grundvelli tímagjalds. Þá hefði um það samist að stefnanda væri heimilt að innheimta 10% álag ofan á efniskaup og vinnu undirverktaka. Stefnda hefði greitt reikninga stefnanda, útbúna á þessum forsendum, án athugasemda allt þar til í júní 2007. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og hafi því verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu þeirra.

Stefnandi mótmælir mati hins dómkvadda matsmanns og telur það haldið slíkum ágöllum að það hafi ekkert sönnunargildi um hvað teljist vera sanngjarnt og eðlilegt heildarverð fyrir verk stefnanda og undirverktaka hans í þágu stefndu. Í matsbeiðni sé vísað til 28. gr. laga um þjónustukaup en það lagaákvæði nái eingöngu til vinnu en ekki til kostnaðar vegna efniskaupa. Matsmaður hafi hins vegar tekið það fram á matsfundi að einnig yrði metinn kostnaður vegna efniskaupa. Matsmaður hafi þó ekki tekið mið af raunverulegum útlögðum kostnaði vegna efniskaupa, með hliðsjón af þeim nótum vegna efniskaupa sem fyrir liggi. Á sama hátt hefði verið langeðlilegast að horfa til fyrirliggjandi gagna um fjölda vinnustunda við verkið. Ljóst sé að matið sé eingöngu byggt á upplýsingum sem matsmaður hafi fengið á matsfundi. Ómögulegt hafi verið fyrir stefnanda að lýsa því á einum matsfundi hvað gert hefði verið þar sem um mjög umfangsmikla og flókna framkvæmd væri að ræða. Þá hefðu ekki verið þar á staðnum allir þeir undirverktakar sem að verkinu komu. Þannig hafi pípulagningarmeistarinn og rafvirkjameistarinn ekki verið á þeim fundi til að veita upplýsingar hvað þetta varði. Hafi stefnandi staðið í þeirri trú að matsmaður myndi meta verkið með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og að hann myndi verða í sambandi við stefnanda til frekari upplýsingagjafar.

Um lagarök vísar stefnandi til reglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga auk þess að vísa til laga um þjónustukaup nr. 42/2000, einkum VI. og VII. kafla laganna.

IV.

Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína á því að um samningssamband málsaðila gildi VII. kafli laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Telji stefnda að stefnandi hafi við upphaf verksins gefið upp bindandi verðáætlun, sbr. 29. gr. laganna. Stefnda sé þegar búin að greiða stefnanda kostnað í samræmi við þá verðáætlun og meira til. Fyrir liggi að stefnda hafi þegar greitt stefnanda 45.035.812 krónur vegna þeirrar vinnu sem stefnandi hafi innt af hendi áður en stefnda sagði upp samningi sínum við stefnanda. Sé kostnaður vegna vinnu stefnanda þá orðinn liðlega 176.000 kr./m2. Sé það umtalsvert hærri upphæð en verðáætlun stefnanda hafi hljóðað upp á því ekki sé inni í því kostnaður vegna innréttinga, málningar og gólfefna. Þá liggi fyrir að þótt stefnandi krefji stefndu um kostnað vegna raflagna upp á sjöundu milljón króna þá hafi vantað mikið upp á framkvæmdir við raflagnir þegar stefnda hafi sagt upp samningi aðilanna. Hafi stefnda síðan þá þurft að greiða á fjórðu milljón króna vegna raflagna. Miðað við kröfur stefnanda og síðari kostnað stefndu vegna raflagna sé kostnaður vegna þeirra þannig orðinn kringum tíu milljónir króna í íbúðunum tveimur, án ljósa. Miðað við mat tæknifræðings sem stefnda hafi leitað til ætti heildarkostnaður raflagna með ljósunum að nema samtals fjórum milljónum króna. Sama komi í ljós þegar kostnaður við pípulagnir sé skoðaður. Umkrafinn kostnaður undirverktaka stefnanda sé talsvert hærri en verðmat verkfræðings þess sem teiknað hafi pípulagnir geri ráð fyrir.

Ljóst sé af 29. gr. laga um þjónustukaup að láti seljandi þjónustu neytanda í té verðáætlun megi verðið ekki fara verulega fram úr þeirri áætlun. Stefnanda hafi borið að gera stefndu aðvart um að kostnaður væri að fara fram úr verðáætlun þeirri sem stefnandi hafi gefið í upphafi, sbr. 31. gr. tilvitnaðra laga. Engar þær breytingar hafi verið gerðar á verkinu eftir að stefnandi setti fram verðáætlun sína sem orðið hafi til þess að áætlunin raskaðist, enda hafi stefnandi aldrei gert fyrirvara þar um þótt breytingar væru gerðar.

Fallist dómurinn ekki á framangreinda málsástæðu um verðáætlun vísar stefnda til 28. gr. laganna um þjónustukaup til stuðnings sýknukröfu sinni. Komi þar fram að hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu skuli neytandi greiða það verð sem teljast megi sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan hafi verið mikil og hvers eðlis hún hafi verið. Ljóst sé að kröfur stefnanda geti með engu móti talist sanngjarnar miðað við þekktan og viðurkenndan kostnað á hvern fermetra við endurbyggingar á þessum tíma. Þessu til stuðnings vísar stefnda til matsgerðar dómkvadds matsmanns sem hún aflaði undir rekstri málsins. Hafi matsmaðurinn komist að þeirri niðurstöðu að sanngjarnt heildarverð, sbr. 28. gr. laga nr. 42/2000, vegna vinnu stefnanda og undirverktaka hans við íbúðirnar, auk efniskostnaðar við framkvæmdina, nemi alls 29.402.000 krónum. Matsgerð þessari hafi ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð og beri því að leggja hana til grundvallar við mat á því hvaða endurgjald skuli teljast sanngjarnt í skilningi framangreinds ákvæðis. Stefnda hafi samtals greitt stefnanda 45.035.812 krónur. Samkvæmt því hafi hún ofgreitt verulega til stefnanda en ekki öfugt og beri því að sýkna hana af kröfum stefnanda.

Stefnda kveðst styðja varakröfu sína, um að lækka beri kröfur stefnanda stórlega, við sömu málsástæður um verðáætlun og sanngirnissjónarmið sem sýknukrafa hennar byggist á og rakin hafi verið. Stefnda vísar einnig til þess að lækka beri dómkröfur stefnanda vegna 10% aukaálags sem félagið hafi lagt á allan efniskostnað undirverktaka. Um það hafi aldrei verið samið og stefnanda því verið óheimilt að innheimta það hjá stefndu. Þá hafi hún ekki fengið að njóta afsláttar hjá efnissölum sem hún hefði sjálf getað samið um.

Stefnda kveðst loks mótmæla sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda og krefjast þess að henni verði vísað frá dómi þar sem hún sé hvorki mörkuð með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót né með vísun til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.

V.

Niðurstöður

Fram er komið að málsaðilar gerðu með sér munnlegt samkomulag, síðla hausts eða í lok ársins 2006, um að stefnandi tæki að sér að annast viðbyggingu og breytingar á tveimur íbúðum stefndu og sonar hennar á 9. hæð hússins að Hátúni 6. Heldur stefnda því fram að Sumarliði Már Kjartansson, annar forsvarsmanna stefnanda, hafi þá gefið henni bindandi verðáætlun, sbr. 29. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Kostnaður við verkið hafi farið fram úr þeirri áætlun af ástæðum sem stefnandi beri einn ábyrgð á án þess að forsvarsmenn hans hafi gert stefndu aðvart um í hvað stefndi.

Í skýrslu stefndu fyrir dómi kom fram að Sumarliði Már hefði lýst því yfir að stefnandi ynni eingöngu samkvæmt tímagjaldi og því gæti félagið ekki tekið verkið að sér á grundvelli tilboðs. Hún hefði þá spurt hvort verðið yrði nálægt 150.000 kr./m2 en hann svarað því til að það yrði nær 180.000 kr./m2. Sonur stefndu, Páll Ágúst Ólafsson, sem jafnframt er eigandi annarrar íbúðarinnar, bar á sama veg. Sumarliði Már og Orri Blöndal, stjórnarmaður stefnanda, báru hins vegar að stefnda hefði spurt ítrekað hver kostnaðurinn yrði á m2 en Sumarliði sagst ekki geta svarað því. Stefnda hefði spurt hvort kostnaðurinn yrði nærri 150.000 kr./m2 en hann þá svarað að kostnaðurinn yrði að lágmarki 180.000 kr./m2 og líklega vel yfir það. Verður ekki annað ráðið af skýrslum aðila og öðrum gögnum en að á þeim tíma sem fundurinn var haldinn hafi nánast eingöngu legið fyrir að fjarlægja ætti allt úr íbúðunum tveimur, endurnýja þær frá grunni og reisa viðbyggingu. Engar teikningar að innréttingum eða önnur hönnunargögn hafi þá legið fyrir um í hverju verkið yrði í raun fólgið. Virðist sem umræddar endurnýjunarframkvæmdir hafi verið hannaðar eftir að stefnandi tók verkið að sér. Þannig kom fram hjá stefndu að endanleg útfærsla sérteikninga hefði fyrst verið afhent í byrjun mars. Þar sem engra annarra gagna nýtur við en framburðar stefndu sjálfrar og sonar hennar um þá staðhæfingu stefndu að stefnandi hafi gefið henni verðáætlun í skilningi tilvitnaðrar 29. gr. þjónustukaupalaga verður ekki talið að fyrir liggi sönnun þar um. Verður heldur ekki séð að unnt hafi verið á faglegan máta að gera slíka áætlun þegar haft er í huga hve lítið lá fyrir á framangreindum fundi um umfang og eðli framkvæmdanna.

Í samræmi við meginreglu kröfuréttar ber stefndu að greiða það verð fyrir verkið sem stefnandi setur upp nema það verði talið ósanngjarnt, sbr. 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 og 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Hefur stefnda vísað til framangreinds ákvæðis 28. gr. til stuðnings sýknukröfu sinni. Með beiðni sinni um dómkvaðningu matsmanns hinn 24. júní 2008 leitaðist stefnda við að undirbyggja sýknukröfu sína með því að fá mat á því hvað teldist sanngjarnt og eðlilegt heildarverð fyrir þá vinnu sem innt var af hendi í greint sinn. Ekki er þó að finna í matsbeiðni nákvæma lýsingu á þeim verkþáttum sem fólust í verki stefnanda og undirverktaka hans í umræddum íbúðum. Var það þó brýnt þegar litið er til umfangs og sérstöðu þess verks sem hér um ræðir. Hefur stefnandi vísað til þess að því fari fjarri að matsmaður hafi tekið tillit til allra þátta verksins í mati sínu. Fram kom í skýrslu matsmanns fyrir dómi að ekki hefði verið tekið tillit til kostnaðar við hönnunar raflagnar íbúðanna sem stefnandi annaðist, enda ekkert um það upplýst á matsfundi. Þá virðist mega ráða af framburði hans að ekki hafi í matinu verið tekið tillit til álags aðalverktaka á vinnu og efni undirverktaka, svokallað aðalverktakaálags, sem matsmaðurinn kannaðist þó við að væri viðtekin venja í slíkum tilvikum.

Fyrir liggur að við mat á umfangi verks stefnanda hafi matsmaður einungis stuðst við þá lýsingu málsaðila sem fram kom á matsfundi auk teikninga frá byggingarfulltrúa. Kvaðst matsmaðurinn við matið í engu hafa horft til reikninga stefnanda vegna aðkeypts efnis og vinnu og þeirra tímaskýrslna stefnanda sem fyrir liggja í málinu eða borið þessi gögn saman við verkið sjálft. Var það þó að mati dómsins nauðsynlegt til upplýsingar um það hvernig verkinu vatt fram, sérstaklega þegar til þess er litið að í upphafi þess virðast ekki hafa legið fyrir neinar hönnunarteikningar og verklýsingar og þær virðast hafa borist stefnanda smám saman eftir því sem á verktímann leið, auk fyrirmæla um breytingar og aðlaganir. Hafa hönnunarteikningar vegna verksins reyndar ekki verið lagðar fram í málinu.

Niðurstaða matsgerðarinnar er sú að hæfilega metinn kostnaður vegna efnis, tækja og vinnu við „þá verkliði sem fram kom á matsfundi“ sé 29.402.000 krónur, en stefnda kvaðst sjálf í matsbeiðni sinni byggja á því „að það heildarverð sem hún sé þegar búin að greiða stefnanda, liðlega 45.000.000 kr., sé bæði sanngjarnt og eðlilegt fyrir þá vinnu sem starfsmenn stefnanda inntu af hendi í íbúðunum“. 

Þegar framangreint er virt telur dómurinn að umrædd matsgerð gefi ekki rétta mynd af umfangi og eðli verks stefnanda sem um er deilt í máli þessu. Sé því ekki unnt að horfa til hennar við mat á því hvort endurgjald stefnanda sé sanngjarnt og eðlilegt fyrir þá þjónustu sem félagið lét stefndu í té í greint sinn.

 Ekki verður talið að stefnanda hafi verið óheimilt að leggja 10% álag, svokallað aðalverktakaálag, ofan á efniskaup undirverktaka. Telja sérfróðir meðdómendur  það viðtekna venju að aðalverktaki verks innheimti slíkt álag á efni og vinnu undirverktaka og nemi það yfirleitt frá 10% og upp í 20%. Sé þar meðal annars um að ræða þóknun fyrir yfirverkstjórn, umsjón og ábyrgð á verki, samningsgerð við undirverktaka, kostnað við vinnuaðstöðu og tryggingar. Þá verður, gegn andmælum stefnanda, ekki talin komin fram sönnun um að stefnda hafi gefið stefnanda þau fyrirmæli að efni til verksins yrði eingöngu keypt þannig að hún nyti þeirra afsláttarkjara sem hún hefði sjálf í tilgreindum byggingavöruverslunum, enda greiddi stefnda reikninga stefnanda athugasemdalaust, meðal annars vegna efniskaupa, allt þar til í júní 2007.

Samkvæmt framangreindu og vegna þeirrar sönnunarbyrði sem stefnda ber í málinu verður ekki talið að það endurgjald, samtals 60.895.854 krónur, sem stefnandi áskildi sér samkvæmt reikningum sínum fyrir efni og vinnu við umræddar íbúðir, sé svo ósanngjarnt að því verði hrundið. Verður því fallist á dómkröfur stefnanda um að stefnda greiði honum eftirstöðvar kröfu hans samkvæmt reikningum á hendur stefndu.

Stefnda hefur mótmælt dráttarvaxtakröfu stefnanda og krefst þess að henni verði vísað frá dómi þar sem stefnandi hafi einungis vísað í III. kafla laga nr. 38/2001 en ekki 1. mgr. 6. gr. laganna. Stefnandi leiðrétti framangreinda lagatilvísun við aðalmeðferð málsins gegn mótmælum stefndu. Enda þótt framangreind lagatilvísun í stefnu hafi ekki verið svo nákvæm sem skyldi þykja ekki efni til að vísa dráttarvaxtakröfunni frá dómi af þeim sökum. Verður stefnukrafan dæmt með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Stefnda verður dæmd til að greiða stefnanda málskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsuppsaga hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en lögmenn töldu endurflutning óþarfan.

Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari sem dómsformaður, ásamt meðdómendunum Frey Jóhannessyni byggingartæknifræðingi og Jóni Ágústi Péturssyni, byggingartæknifræðingi og húsasmíðameistara.

Dómsorð:

Stefnda, Dögg Pálsdóttir, greiði stefnanda, Saga verktökum ehf., 31.860.042 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 11.847.238 krónum frá 15.06.2007 til 16.07.2007, af 21.026.886 krónum frá 16.07.2007 til 05.12.2007, af 31.774.768 krónum frá 05.12.2007 til 26.01.2008, en af 31.860.042 krónum frá 26.01.2008 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 7. júní 2007 að fjárhæð 9.000.000 króna og 17. júlí 2007 að fjárhæð 7.000.000 króna.

Stefnda greiði stefnanda 1.400.000  krónur í málskostnað.