Print

Mál nr. 250/2008

Lykilorð
  • Kærumál
  • Lögregluaðgerð
  • Hundahald

Mánudaginn 19

 

Mánudaginn 19. maí 2008.

Nr. 250/2008.

Lögreglustjórinn á Selfossi

(Gunnar Örn Jónsson, fulltrúi)

gegn

X

(Sigurður Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Lögregluaðgerð. Hundahald.

L krafðist þess að hundur sem talinn var í eigu X yrði afhentur sér vegna ætlaðs brots gegn samþykkt um hundahald í Árborg og lögreglusamþykkt fyrir Árnessýslu. Héraðsdómur féllst á kröfu L án þess að X væri gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við meðferð málsins. Í dómi Hæstaréttar var vísað til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og sagt að þessi ákvæði fælu í sér staðfestingu á meginreglu sem ótvírætt gilti á Íslandi. Til hennar heyrði, að eigandi þeirra réttinda og hagsmuna, sem fjallað væri um fyrir dómi, ætti þess kost að gæta þeirra við meðferð máls, nema sérstakar ástæður mæltu samkvæmt eðli máls gegn því, svo sem rannsóknarhagsmunir í opinberu máli. Með því að X hafði ekki verið gefinn kostur á því að gæta hagsmuna sinna í málinu var ekki talið að fyrrgreindrar meginreglu hefði verið gætt nægjanlega. Var því óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. apríl 2008, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila væri skylt að afhenda sóknaraðila hundinn A. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að kröfu um kærumálskostnað verði hafnað.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði krafðist sóknaraðili þess með bréfi 29. apríl 2008 til Héraðsdóms Suðurlands að varnaraðila yrði með úrskurði gert að afhenda sóknaraðila hundinn A, sem væri í eigu varnaraðila. Var tekið fram að tilgangur erindisins væri að lóga hundinum. Í bréfinu var vísað til 74. gr. laga nr. 19/1991 um heimild héraðsdómsins til að úrskurða um kröfuna. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp samdægurs án þess að varnaraðila væri gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við meðferð málsins.

Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir dómi. Hið sama kemur fram í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þessi ákvæði fela í sér staðfestingu á meginreglu sem ótvírætt gildir á Íslandi um þetta efni. Til hennar heyrir, að eigandi þeirra réttinda og hagsmuna, sem fjallað er um fyrir dómi, eigi þess kost að gæta þeirra við meðferð máls, eftir atvikum með því að andmæla kröfum sem að honum beinast. Gildir reglan þegar leitað er atbeina dómstóla við rannsókn opinberra mála, nema sérstakar ástæður mæli samkvæmt eðli málsins gegn því, svo sem ef það er talið geta hamlað rannsókn að gefa viðkomandi aðila kost á að gæta réttinda sinna eða ekki er vissa um hver eigi þá hagsmuni sem rannsókn beinist að.

Í því máli sem hér er til úrlausnar gerði sóknaraðili kröfu um að hundur, sem talinn var í eigu varnaraðila, yrði afhentur sóknaraðila vegna ætlaðs brots gegn samþykkt um hundahald í sveitarfélaginu Árborg og lögreglusamþykkt fyrir Árnessýslu. Kröfunni er beint að eignarréttindum varnaraðila eða eiginkonu hans, en varnaraðili hefur við meðferð málsins fyrir Hæstarétti sagt hana eiga hundinn. Ekki verður séð að hagsmunir sem tengjast hinni opinberu rannsókn mæli því gegn, að varnaraðili eða eiginkona hans fái sjálf að gæta réttar síns, þegar tekin er afstaða til þess fyrir dómi hvort verða beri við kröfu sóknaraðila. Verður ekki talið að fyrrgreindrar meginreglu teljist nægilega gætt með því að eiganda hundsins gefist kostur á að bera síðar lögmæti aðgerða sóknaraðila undir dóm, enda verða hagsmunir eigandans þegar í stað skertir ef orðið verður við kröfu sóknaraðila. Með því að eiganda hundsins hefur ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna í málinu og um er að ræða atriði sem dómstólum ber að gæta af sjálfsdáðum er óhjákvæmilegt þegar af þessari ástæðu að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og vísa málinu heim til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný.

Með vísan til 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar á ný.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 29. apríl 2008.

Dóminum hefur borist krafa lögreglustjórans á Selfossi, dagsett í dag, um að X, kt. [...] til heimilis að Y, verði með úrskurði gert að afhenda lögreglustjóranum á [...], óskráða hundinn „A“, sem er í hans eigu og er til heimilis á sama stað.

Í greinargerð með kröfunni segir að síðdegis sunnudaginn 27. apríl sl.  hefði lögreglan fengið tilkynningu þess efnis að umræddur hundur hefði bitið barn í garði fyrir utan Y á [...].  Umrætt barn bar þess merki að hundurinn hefði glefsað í það, greinileg bitför hafi verið á hendi og gat verið á peysu barnsins.  X hafi ekki undanþágu frá bæjaryfirvöldum til hundahalds, þannig að umræddur hundur sé óskráður. 

Þá segir jafnframt í greinagerðinni að samkvæmt 47. gr. lögreglusamþykktar fyrir Sveitarfélagið Árborg skuli þegar í stað fjarlægja og lóga hundum er ráðast á menn eða skepnur.  Sambærilegt ákvæði sé einnig að finna í 4. gr. samþykktar um hundahald í Sveitarfélaginu Árborg. 

Rökstuddur grunur liggi fyrir um brot X á samþykkt um hundahald í Sveitarfélaginu Árborg, þar sem umræddur hundur sé óskráður.  X hafi neitað í gærkvöldi að afhenda lögreglu hundinn, nema gegn dómsúrskurði er lögregla hugðist framfylgja skýrum fyrirmælum lögreglusamþykktarinnar en X hafði áður verið gefinn frestur til að fara sjálfur með hundinn til aflífunar hjá dýralækni. 

Lögregla telur nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, sbr. 3. gr. laga um lögreglusamþykktir nr. 36/1998 að framfylgja skýru ákvæði 47. gr. lögreglusamþykktar fyrir Sveitarfélagið Árborg og lóga umræddum hundi, þar sem ljóst er að eigandi hundsins mun ekki gera það, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um lögreglusamþykktir.  Með vísan til ofangreinds fer lögreglustjórinn á Selfossi, því fram á að Héraðsdómur Suðurlands, úrskurði með vísan til 74. gr. laga um meðferð opinberra mála að X sé skylt að afhenda lögreglu hundinn “A”.

Með vísan til þess sem að ofan er rakið, 74. gr. laga nr. 19/1991, 47. gr. lögreglusamþykktar Árborgar nr. 53 frá 12. janúar 2004, 3. mgr. 4. gr. samþykktar um hundahald í Sveitarfélaginu Árborg og gagna málsins er fallist á kröfu lögreglustjórans á Selfossi, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

                                                                                  Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                X, kt. [...], [heimilisfang] er skylt að afhenda lögreglustjóranum á Selfossi, hundinn A.