Print

Mál nr. 442/2011

Lykilorð
  • Umboðssvik
  • Hlutdeild
  • Peningaþvætti
  • Fjármálafyrirtæki
  • Ómerking héraðsdóms að hluta

                                     

Fimmtudaginn 7. júní 2012.

Nr. 442/2011.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Jóni Þorsteini Jónssyni

(Reynir Karlsson hrl.)

Ragnari Zophoníasi Guðjónssyni og

(Ólafur Eiríksson hrl.)

X

(Ragnar H. Hall hrl.)

Umboðssvik. Hlutdeild. Peningaþvætti. Fjármálafyrirtæki. Ómerking héraðsdóms að hluta.

J, fyrrverandi stjórnarformaður B sparisjóðs, og R, fyrrverandi sparisjóðsstjóri sama sparisjóðs, voru ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa í störfum sínum veitt T ehf. lán frá B til að fjármagna að fullu kaup á stofnfjárbréfum í B, án fullnægjandi trygginga og í andstöðu við reglur sparisjóðsins. Lánin voru veitt til kaupa á stofnfjárbréfum í eigu J og nokkurra starfsmanna sparisjóðsins og  félags sem að hluta var í eigu R. S var aðallega ákærður fyrir hlutdeild í brotum J og R með því að hafa lagt á ráðin um umrædd viðskipti en til vara fyrir peningaþvætti. X hafði gegnt stöðu framkvæmdastjóra M banka hf. en seljendur stofnfjárbréfanna skulduðu þeim banka fé. Brot J og R þóttu sönnuð og voru þeir því dæmdir fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þótti 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ekki standa því í vegi, enda hafði niðurstaða héraðsdóms um sýknu J og R ekki verið reist á röngu mati um sönnun um atvik í skilningi lagaákvæðisins. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að umfang brota þeirra var verulegt, sakir miklar og að J hefði með verknaðnum losað sig undan persónulegum ábyrgðum á kröfum. Þá hefði brot R verið framið í skjóli stöðuumboðs. Voru þeir því dæmdir hvor um sig í 4 ára og 6 mánaða fangelsi. Dómur héraðsdóms var ómerktur að því er varðaði þátt X og þeim hluta hluta málsins vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. júlí 2011. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og þeir dæmdir til refsingar. Til vara er krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms og heimvísunar máls.

Ákærðu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar sem lög leyfa.

I

Samkvæmt gögnum málsins sendi MP fjárfestingarbanki hf., sem síðar hét MP banki hf., tölvubréf 2. október 2008 til ýmissa eigenda stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði, þar á meðal ákærða Jóns, sem var formaður stjórnar sparisjóðsins, og ákærða Ragnars, sem var þar sparisjóðsstjóri. Bréf þessi voru send í tengslum við lánssamninga, sem viðtakendur bréfanna höfðu gert við bankann í tengslum við stofnfjárbréf í sparisjóðnum, og sagði þar eftirfarandi: „Vegna markaðsaðstæðna sér MP Fjárfestingarbanki hf. sig knúinn til að gjaldfella lánssamninga þína ... hjá bankanum á grundvelli force majeure-ákvæðis 13. gr. samninganna. Í stað þess að beita ofangreindri gjaldfellingarheimild samningsins, er bankinn tilbúinn til þess að myntbreyta samningnum yfir í íslenskar krónur. Óskirðu eftir því að sú leið verði farin biðjum við þig vinsamlegast um að hafa samband við undirritaða fyrir kl. 14 á mánudaginn, 6. október. Að öðrum kosti verður samningurinn gjaldfelldur m.v. stöðu hans í lok dags á morgun.“ Umræddir lánssamningar voru staðlaðir og bar 13. gr. þeirra yfirskriftina: „Breyttar forsendur eða force majeure.“ Þar sagði: „Verði veruleg breyting á viðskiptakjörum lánveitanda vegna atvika sem honum verður ekki kennt um, svo sem vegna breytinga á lánamörkuðum, ákvarðana stjórnvalda, styrjalda, kjarnorkuslysa eða atriða sem talin verða falla undir force majeure tilvik, þannig að lánveitanda verði ómögulegt að afla lánsfjár til fjármögnunar á lánssamningi þessum á sambærilegum kjörum og gengið var út frá við gerð hans, getur hann að undangenginni tilkynningu til lántaka gjaldfellt eftirstöðvar lánsins með 30 daga fyrirvara. Sama gildir verði verulegar breytingar til hins verra á viðskiptakjörum ríkissjóðs á erlendum lánamörkuðum.“

Í kjölfarið áttu ákærðu Jón og Ragnar fund með ákærða X, sem var framkvæmdastjóri MP banka hf. Í héraðsdómi er rakinn framburður ákærðu og nokkur gögn um samskipti þeirra sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að stofnfjárbréf í Byr sparisjóði, sem voru meðal annars í eigu ákærða Jóns og Húnahorns ehf., yrðu seld með fjármögnun sparisjóðsins til Fleðu ehf., sem var félag í eigu MP banka hf. Ekki varð þó af því að það félag keypti bréfin, heldur Exeter Holdings ehf., er þá nefndist Tæknisetrið Arkea ehf., 13. október 2008. Stofnfjárhlutirnir voru samtals að nafnvirði 242.260.151 króna, en þar af voru hlutir að nafnvirði 20.871.253 krónur í eigu Húnahorns ehf., 54.109.865 krónur í eigu ákærða Jóns, 16.767.866 krónur í eigu A útibússtjóra hjá Byr sparisjóði, 4.219.342 krónur í eigu B, 27.047.068 krónur í eigu C og 119.244.757 krónur í eigu MP banka hf.

Húnahorn ehf. var í eigu ákærða Ragnars að 30%, en auk þess áttu hluti í félaginu M framkvæmdastjóri bankaþjónustu Byrs sparisjóðs, O framkvæmdastjóri fjármálasviðs sjóðsins, T útibússtjóri hjá sjóðnum, áðurnefnd A og C ehf., en það félag, er síðar nefndist É ehf., var í eigu P yfirmanns áhættustýringar sjóðsins. Exeter Holdings ehf. var að 62% í eigu E, sem var jafnframt framkvæmdastjóri þess, en hann hafði einnig verið stjórnarmaður í MP fjárfestingarbanka hf. allt fram til júlí 2008.

Gögn málsins eru ekki með öllu skýr um hvort MP banki hf. hafi leyst til sín hluta stofnfjárbréfa þeirra sem um ræðir áður en Exeter Holdings ehf. keypti þau. Á hinn bóginn er fram komið að 13. október 2008 veitti Byr sparisjóður Exeter Holdings ehf. 800.000.000 krónur í yfirdráttarlán fyrir kaupunum með veði í bréfunum sjálfum. Einnig lánaði MP banki hf. félaginu 43.916.385 krónur til þessara kaupa.

Samkvæmt gögnum málsins veitti Byr sparisjóður 29. desember 2008 Exeter Holdings ehf. 204.452.265 króna yfirdráttarlán til viðbótar hinu fyrra láni til kaupa sama dag á stofnfjárbréfum að nafnvirði 64.039.876 krónur. Höfðu þau bréf verið í eigu D, þáverandi varamanns í stjórn sparisjóðsins.

Með bréfi 7. september 2009 greindi Fjármálaeftirlitið sérstökum saksóknara frá rannsókn sem það hafði hafið á framangreindum viðskiptum. Í bréfinu kom meðal annars fram að Exeter Holdings ehf. hafi virst vera með neikvæða eiginfjárstöðu er viðskiptin áttu sér stað. Einnig var tiltekið að svokölluðum stofnfjármarkaði með stofnfjárbréf Byrs sparisjóðs hafi verið lokað í ágúst 2008 vegna fyrirhugaðrar breytingar sparisjóðsins í hlutafélag og samruna hans við Glitni banka hf. Viðskiptin hafi átt sér stað „yfir borðið“ þar sem bæði kaupandi og seljendur hafi vitað hverjir viðsemjendur þeirra væru. Stofnfjármarkaðurinn, sem MP banki hf. hafi haft umsjón með, hafi ekki verið skipulegur verðbréfamarkaður eða markaðstorg fjármálagerninga í skilningi laga heldur í raun venjuleg verðbréfamiðlun með óskráð verðbréf, þótt birt hafi verið á vefsíðu MP banka hf. hagstæðasta kaup- og sölutilboð sem í gildi hafi verið hverju sinni. Var þess getið að síðasta markaðsverð fyrir lokun stofnfjármarkaðarins hafi verið á genginu 1,6. Um viðskiptin í október 2008 sagði meðal annars: „Endurmatsstuðullinn fyrir nafnverð stofnfjárhluta sem notaður var í viðskiptunum var 2,1978. Framreiknað nafnverð í viðskiptunum var því 532.439.360. Kaupverð í viðskiptunum var kr. 1,585 per hlut, þ.e. samtals kr. 843.916.385. Rétt er að geta þess að endurmatsstuðullinn var í október orðinn 2,2386, en MP banki notar ágúst stuðulinn í viðskiptunum.“ Þá sagði um þetta atriði vegna viðskiptanna í desember 2008: „Endurmatsstuðull fyrir nafnverð stofnfjárhluta þegar viðskiptin áttu sér stað var 2,3065. Framreiknað nafnverð í viðskiptunum var því 147.710.684. Kaupverð í viðskiptunum var kr. 1,38 per hlut, þ.e. samtals kr. 203.840.743.“ Var veðhlutfall í stofnfjárbréfunum því sem næst 95% vegna viðskiptanna í október 2008, en 100% í desember það ár. Eins og rakið er í héraðsdómi báru ákærðu Jón og Ragnar að ákærði X hafi ákveðið gengi bréfanna vegna viðskiptanna í október 2008, en sá síðastnefndi sagði það hafa verið ákveðið með hliðsjón af því að MP banki hf. fengi fullar endurheimtur af lánunum, sem veitt voru til kaupa á stofnfjárbréfunum.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi er ágreiningur um hvort og með hvaða hætti framangreindar lánveitingar hafi verið kynntar fyrir stjórn Byrs sparisjóðs. Fyrir dómi kvað ákærði Jón lánveitingu þá sem um ræðir í I. kafla ákærunnar hafa verið kynnta á stjórnarfundi í sparisjóðnum 7. október 2008. Á hinn bóginn staðfestu hvorki aðrir stjórnarmenn í sparisjóðnum né ákærði Ragnar þennan framburð ákærða Jóns og var þessa heldur ekki sérstaklega getið í fundargerð frá stjórnarfundinum þennan dag. Um hina síðari lánveitingu var eftirfarandi bókað í fundargerð stjórnarfundar 19. desember 2008: „Lánamál yfir heimildum samkvæmt lánareglum: a. Stjórn samþykkir lánalínu allt að fjárhæð 1.400.000.000 til handa einkahlutafélaginu Tæknisetur Arkea/Exeter Holdings kt. 561002-2150. Trygging yrði í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, 100% veðsetning.“ Þrátt fyrir framburð stjórnarmanna sparisjóðsins um tilefni þessarar bókunar, sem rakinn er í héraðsdómi, verður um málavexti að miða við fundargerð hvað þetta varðar.

Þá er í héraðsdómi rakinn mismunandi framburður ákærða X og vitnisins G þáverandi formanns stjórnar MP banka hf. um þátt G í þeirri ákvörðun að Fleða ehf. kæmi ekki að kaupum á stofnfjárbréfunum sem um ræðir í I. kafla ákæru. Samkvæmt framburði þeirra beggja var á hinn bóginn talið að kaup Fleðu ehf. á bréfunum myndi hafa neikvæð áhrif á eiginfjárstöðu bankans þar sem félagið væri dótturfélag hans og að auki hafi fjármálafyrirtæki skort lausafé á þessum tíma.

Um málavexti hafa ákærðu sérstaklega vísað til þess að staða Byrs sparisjóðs hafi verið talin góð á þeim tíma sem framangreind viðskipti með stofnfjárbréf í honum voru gerð. Meðal annars hafi eigið fé sjóðsins verið rúmar 48.000.000.000 krónur samkvæmt efnahagsreikningi 30. september 2008, eftir að hafa aukist um rúmar 3.000.000.000 krónur frá júní það ár. Þá væru gögn í málinu um að sparisjóðurinn hafi áður lánað í allnokkrum mæli fyrir kaupum á stofnfjárbréfum eingöngu gegn veði í þeim.

Fjármálaeftirlitið ákvað 22. apríl 2010 að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar í Byr sparisjóði og víkja stjórn hans frá. Bú Exeter Holdings ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 3. maí 2011. Samkvæmt framburði skiptastjóra þrotabúsins fyrir héraðsdómi voru engar eignir í félaginu fyrir utan að það var skráður eigandi að stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði og muni því ekkert fást upp í lýstar kröfur.

II

 Í 1. gr. útlánareglna Byrs sparisjóðs frá 24. janúar 2008, sem voru í gildi þegar atvik málsins gerðust, sagði: „Sparisjóðsstjóri, framkvæmdastjórar og lánastjóri bera ábyrgð á því að útlánareglur séu í hávegum hafðar. Útlánareglum þessum er ætlað að taka til almennra lánveitinga og ábyrgða Byrs. Ef um er að ræða ákvarðanir um lánveitingu sem fellur ekki undir þessar reglur þarf að liggja fyrir ákvörðun frá sparisjóðsstjóra, lánanefnd eða eftir atvikum stjórn Byrs um lánveitinguna. Sama á við ef vafi leikur á um hvort útlán falli undir ákvæði þessara reglna. Upplýsingar um heimildir starfsmanna til að skuldbinda Byr sparisjóð við útlán og til að stofna til bindandi viðskipta í nafni Byrs er að finna í sérstakri reglu stjórnar þar að lútandi. Útlánareglur byggja á þeirri meginhugsun að útlánavald og ábyrgð fara saman. Þeir starfsmenn Byrs, sem hafa útlánaheimildir, bera jafnframt ábyrgð á að vinnubrögð við lánveitingar og innheimtu séu í samræmi við útlánamarkmið og útlánareglur Byrs á hverjum tíma.“ Þá sagði: „Meginreglan við ákvörðun um útlán er að meta áætlaða greiðslugetu og eignastöðu lánþega, framboðnar tryggingar og viðskipti við Byr með það fyrir augum að tryggja sem best að lántaki geti staðið við skuldbindingar sínar.“ Síðar í greininni kom fram að áður en lánveiting væri ákveðin skyldu liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar um lánþegann, þær skráðar og unnið skipulega úr þeim. Horfa skyldi sérstaklega til eftirtalinna þátta: „Viðskiptayfirlit lánþega ... Yfirlit yfir skuldbindingar og tryggingar. Vanskila- og lokanaskrá. Hlutafélagaskrá frá Lánstraust ef lánþegi er rekstraraðili. ... Fjárhagsyfirlit (FE-yfirlit) ef um nýjan lánþega er að ræða. Eignastaða. Gögn vegna greiðslumats.“ Í 2. gr. reglnanna var að finna ýmis ákvæði um útlánaheimildir og kom fram að sparisjóðsstjórar tækju ákvörðun um skipulag lánveitinga og aðkomu þeirra sem ynnu við þær. Þá sagði að sparisjóðsstjórar skyldu koma með tillögu að starfsreglu um útlánaheimildir, sem samþykkt skyldi af stjórn. Voru ákvæði um sérstaka lánanefnd sem skipuð skyldi sparisjóðsstjórum, lánastjóra, framkvæmdastjórum bankaþjónustu og fyrirtækjaviðskipta. Skyldi nefndin hafa sömu útlánaheimildir og sparisjóðsstjórar. Þá voru í greininni sérstök ákvæði um hæfi til að taka ákvörðun um lánveitingu og ylli það meðal annars vanhæfi ef „tengsl starfsmanns við viðskiptamann eru þess eðlis að almennt megi draga óhlutdrægni hans í efa.“ Í 5. gr. var fjallað um tryggingar þar sem fram kom að taka skyldi saman yfirlit um tryggingarstöðu við Byr við hverja lánveitingu og athuga hvort þörf væri á að auka tryggingar vegna veittra lána og ábyrgða. Um veðsetningarhlutföll trygginga var vísað til starfsreglna stjórnar þar um.

Í inngangi að starfsreglum stjórnar Byrs sparisjóðs um útlánaheimildir frá 24. janúar 2008 sagði: „Tilgangur reglna þessara er að lýsa útlánaheimildum ásamt því að leiðbeina starfsmönnum um fyrirkomulag útlánaheimilda og tegundir þeirra. Um útlánaheimildir er fjallað í útlánareglum Byrs sparisjóðs.“ Í reglunum sagði að gæta ætti „ýtrustu varfærni“ við lánastarfsemi og hafa samráð milli þeirra sem ynnu með útlán og þeirra sem eftirlit hefðu með þeim og skráningu og varðveislu upplýsinga. Síðan sagði: „Útlánaheimildum er skipt niður í nokkrar tegundir og starfsmenn því með mismunandi útlánaheimildir eftir því hvað Sparisjóðsstjóri og útlánareglur segja til um.“ Tegundir útlánaheimilda voru í sjö flokkum eftir fjárhæðum allt að 1.500.000.000 krónur, bæði hvað varðaði einstaka fyrirgreiðslu og svokallaða heildarfyrirgreiðslu. Hafði sparisjóðsstjóri heimild til að taka ákvörðun um lán samkvæmt 7. flokki með framangreindri hámarksfjárhæð. Þá var fjallað sérstaklega um mismunandi tegundir trygginga fyrir útlánum sparisjóðsins, en um hlutabréf sagði: „Við mat á veðandlagi í skráðum hlutabréfum skal skoða sérstaklega seljanleika hlutabréfanna og einungis taka að handveði þau hlutabréf, ef samtals viðskipti með þau síðustu 12 mánuði eru meiri en 5% af markaðsverði bréfanna.“ Þá skyldi veðsetning að jafnaði vera innan við 60% af verðmæti hlutabréfa sem skráð væru á aðallista Kauphallar og í skráðum erlendum sjóðum og fyrirtækjum. Þá sagði að almenna reglan skyldi vera sú að veita ekki lán í óskráðum hlutabréfum. Allar ákvarðanir um lán með veði í slíkum bréfum skyldu „teknar af lánanefnd og/eða sparisjóðsstjóra“ og skyldi veðsetningarhlutfall að jafnaði miðast við 30% af metnu andvirði þeirra. Þá sagði: „Meta verður sérstaklega verðmæti óskráðra hlutabréfa, sem tekin eru að handveði og staðfesta að leyfilegt sé að veðsetja hluti samkvæmt samþykktum viðkomandi félags.“

III

Eins og nánar greinir í I. og III. kafla ákæru eru ákærðu Jóni og Ragnari gefin að sök umboðssvik með því að hafa í október og desember 2008 með nánar tilgreindum hætti sameiginlega og í auðgunarskyni misnotað aðstöðu sína hjá Byr sparisjóði og stefnt fé hans í stórfellda hættu með því að fara út fyrir heimildir við lánveitingarnar. Þeir hafi hvorki gætt að greiðslugetu eða eignastöðu Exeter Holdings ehf. né fylgt reglum um veðsetningarhlutföll trygginga. Þá er sérstaklega tilgreint í I. kafla ákærunnar að ákærðu hafi ákveðið gengi bréfanna sem þar um ræðir nægilega hátt til að umrædd lán MP banka hf. yrðu greidd að fullu og að ákærðu Jón og Ragnar hafi verið vanhæfir til að koma að lánveitingunni.

Helstu varna ákærðu Jóns og Ragnars er getið í hinum áfrýjaða dómi. Ekki er ástæða til að rekja hér framburð ákærðu og vitna umfram það sem að framan greinir.

Niðurstöðu um sýknu ákærðu Jóns og Ragnars af sakargiftum í I. kafla ákæru reisir héraðsdómur einkum á því að lánveitingin í október 2008 hafi verið innan heimildar þess síðarnefnda sem um gat í framangreindum 7. lið lánareglna Byrs sparisjóðs og hafi lánveiting sem þessi áður tíðkast hjá sjóðnum. Þá kemst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að við mat á veðhæfni stofnfjárbréfa verði að miða við skráð hlutabréf á markaði og vísar dómurinn til þess að eiginfjárstaða sparisjóðsins hafi samkvæmt efnahagsreikningi í september 2008 verið jákvæð um rúmlega 48.000.000.000 krónur eftir að hafa rýrnað um 16,1% frá áramótum en aukist á ný um rúmar 3.000.000.000 krónur frá 30. júní 2008.

Um sýknu af sakargiftum í III. kafla ákæru vísar héraðsdómur einkum til þess að lánveitingin 29. desember 2008 hafi verið samþykkt af stjórn sparisjóðsins 19. sama mánaðar. Af þeim sökum verði hvorki talið að ákærðu Jón og Ragnar hafi farið út fyrir heimildir sínar með lánveitingunni né að lánið teljist hafa verið veitt án fullnægjandi trygginga. Skipti því engu máli þótt greiðslugeta og eignastaða Exeter Holdings ehf. hafi ekki verið könnuð og að telja verði að stjórn sjóðsins hafi með réttu mátt treysta því að ákærðu hefðu metið þessi atriði í samræmi við reglur sjóðsins.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu um ákæruatriði í I. kafla ákæru telur héraðsdómur að af sjálfu leiði að sýkna beri ákærða X af sakargiftum í II. kafla ákærunnar um hlutdeildarbrot og peningaþvætti.

IV

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ákærðu Jón og Ragnar hafi staðið saman að lánveitingum þeim sem um ræðir í málinu. Þá er staðfest niðurstaða héraðsdóms um að þessir tveir ákærðu hafi ekki gætt að því að lánin voru veitt án þess að áður hafi verið könnuð greiðslugeta og eignastaða Exeter Holdings ehf.

Á hinn bóginn verður hvorki fallist á með héraðsdómi að gögn málsins standi til þess að heimilt hafi verið að leggja verðmæti stofnfjárhlutanna og veðhæfni að jöfnu við skráð hlutabréf á markaði, né að ætluð eiginfjárstaða sparisjóðsins hafi átt að hafa þá þýðingu sem að framan greinir við mat á því hvort háttsemi ákærðu falli undir ákvæði 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki verður heldur fallist á með héraðsdómi að við mat á refsinæmi háttsemi ákærðu eigi að líta til formlegs umboðs ákærða Ragnars með þeim hætti sem þar var gert eða að samþykki stjórnar sparisjóðsins fyrir lánveitingu gegn lánareglum hans leiði til þess að ákærðu geti ekki hafa farið út fyrir umboð sitt í skilningi ákvæðisins. Þá eru gögn málsins ekki einhlít um fyrri lánveitingar vegna viðskipta með stofnfjárbréf í sjóðnum, en þótt dæmi séu um veigalítil fyrri viðskipti með sambærilegum hætti verður ekki af þeim dregin sú ályktun sem héraðsdómur gerir.

Eins og að framan er rakið vísaði MP banki hf. til verulegra breytinga á markaðsaðstæðum, óvissu á mörkuðum og óviðráðanlegra ytri atvika í framangreindu bréfi 2. október 2008. Voru þær ástæður tilgreindar sem grundvöllur fyrir boðaðri gjaldfellingu lána sem bankinn hafði veitt til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði. Af gögnum málsins verður ekki séð að bankinn hafi beitt veðkalli gagnvart þeim lánþegum sem tilgreindir eru í ákæru eða að lánþegarnir hafi andmælt innheimtu á þeim grundvelli sem vísað var til í bréfinu. Á þessum tíma var veruleg lausafjárþurrð hjá fjármálafyrirtækjum, hlutafjármarkaður í mikilli óvissu og þrír stærstu viðskiptabankar landsins féllu um líkt leyti. Verður því fallist á með ákæruvaldinu að með aðgerðum sínum hafi ákærðu Jón og Ragnar komið málum þannig fyrir að áhættu á tjóni vegna stofnfjárbréfanna var velt yfir á Byr sparisjóð. Þetta gerðu ákærðu án þess að kanna sérstaklega stöðu Exeter Holdings ehf. og án nægilegs stuðnings við gögn um raunverulegt verðgildi stofnfjárbréfanna. Þá voru ekki veittar frekari tryggingar fyrir láninu en veð í stofnfjárbréfunum sjálfum. Mat á tryggingargildi bréfanna var óviðunandi og í miklu ósamræmi við framangreindar reglur sjóðsins um veðsetningarhlutfall trygginga. Bar í þessu samhengi að taka mið af reglum sparisjóðsins um lán til kaupa á óskráðum bréfum á markaði. Auk þess er í ljós leitt að ákærðu voru vanhæfir samkvæmt reglum sjóðsins til að taka ákvörðun um lánveitingu þá sem um ræðir í I. kafla ákæru. Með umræddum lánveitingum losnuðu tilgreindir eigendur stofnfjárbréfa, þar á meðal ákærði Jón og félag sem ákærði Ragnar átti verulegan hlut í, undan skuldbindingum gagnvart MP banka hf. sem jafnframt fékk kröfur sínar á hendur eigendum bréfanna greiddar.

Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Samkvæmt því sem að framan er rakið er niðurstaða héraðsdóms um háttsemi ákærðu Jóns og Ragnars ekki reist á röngu mati um sönnun um atvik í skilningi 3. mgr. 208. gr. laganna heldur á rangri túlkun á því ákvæði almennra hegningarlaga sem háttsemi þeirra er færð undir. Með þeirri háttsemi ákærðu Jóns og Ragnars sem að framan er lýst misnotuðu þeir aðstöðu sína hjá Byr sparisjóði sem olli því að sparisjóðurinn varð bundinn við þá gerninga sem um ræðir og leiddu þeir til verulegrar fjártjónshættu sjóðsins, enda kom á daginn að fjármunir þessir eru sjóðnum glataðir. Samkvæmt öllu framansögðu verða ákærðu Jón og Ragnar sakfelldir fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga.

V

Um ætluð brot ákærða X er fjallað í II. kafla ákærunnar. Í a lið kaflans er ákærða gefin að sök hlutdeild í umboðssvikum ákærðu Jóns og Ragnars með því að hafa, eins og þar greinir nánar, lagt á ráðin um að fé það sem um ræðir í I. kafla ákæru yrði greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs til að fjármagna áðurnefnd viðskipti í október 2008, ákveðið gengi stofnfjárbréfanna í þeim viðskiptum ásamt meðákærðu og haft milligöngu um að Exeter Holdings ehf. keypti bréfin, sem voru að hluta í eigu MP banka hf., með 800.000.000 króna yfirdráttarláni Byrs sparisjóðs annars vegar og 43.916.385 króna fjármögnun MP banka hf. hins vegar. Með þessu hafi tjónshættu MP banka hf. verið velt yfir á Byr sparisjóð og hafi ákærða ekki getað dulist í ljósi aðdraganda viðskiptanna að féð var greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs með ólögmætum hætti. Í b lið er ákærða X gefið að sök peningaþvætti með því að hafa í stöðu sinni sem framkvæmdastjóri MP banka hf. tekið við framangreindum fjármunum þrátt fyrir að hafa mátt vera ljóst, að virtum öllum aðstæðum, að yfirdráttarlán það sem um ræðir hafi verið veitt með ólögmætum hætti.

Eins og áður er rakið var ákærði X sýknaður í héraði af báðum þessum ákæruliðum með þeim rökum einum að ákærðu Jón og Ragnar teljist ekki hafa framið það brot sem í I. kafla ákæru greinir. Tók héraðsdómur því ekki afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti meta þyrfti framburð fyrir dómi hvað varðar ætluð brot ákærða X. Að gættum framangreindum ákvæðum 208. gr. laga nr. 88/2008 verður því með hliðsjón af 2. mgr. 169. gr., sbr. 210. gr., laganna að ómerkja hinn áfrýjaða dóm hvað ákærða X varðar og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar sakarefnis samkvæmt II. kafla ákærunnar.

VI

Ákærðu Jón og Ragnar hafa unnið sér til refsingar samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga, en hvorugur þeirra hefur áður sætt refsingu. Við ákvörðun hennar verður einkum litið til þess að umfang brota þeirra var verulegt og sakir miklar. Þá verður að horfa til þess að við brotin losnaði ákærði Jón undan persónulegum ábyrgðum sínum, en ábyrgðum ákærða Ragnars var öðruvísi varið. Brotin voru á hinn bóginn framin í skjóli stöðuumboðs ákærða Ragnars. Verður refsing hvors þeirra ákveðin fangelsi í 4 ár og 6 mánuði.

Eftir þessum úrslitum verða ákærðu Jón og Ragnar dæmdir til að greiða hvor um sig verjendum sínum málsvarnarlaun eins og þau voru ákveðin í héraði og málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Þá verða ákærðu Jón og Ragnar dæmdir til að greiða óskipt ¾ hluta annars sakarkostnaðar en málsvarnarlauna verjanda ákærða X á báðum dómstigum. Sá sakarkostnaður er eftir stendur verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X eins og þau voru ákveðin í héraði og málsvarnarlaun verjandans fyrir Hæstarétti að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Einn þriggja dómenda í héraði skilaði sératkvæði með annarri niðurstöðu en hinir tveir. Það athugast að samkvæmt 2. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 er ekki gert ráð fyrir að héraðsdómari, sem verður í minnihluta um eitthvert atriði, skili atkvæði með þessum hætti, sbr. hins vegar 2. og 3. mgr. 209. gr. laganna, heldur er kveðið á um að ágreiningsatriðis skuli getið í dómi.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur að því er varðar ákærða X og er málinu að því leyti vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Ákærðu Jón Þorsteinn Jónsson og Ragnar Zophonías Guðjónsson sæti hvor um sig fangelsi í 4 ár og 6 mánuði.

Ákærði Jón greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Reynis Karlssonar hæstaréttarlögmanns, eins og þau voru ákveðin í héraði og málsvarnarlaun fyrir Hæstarétti, 1.882.500 krónur.

Ákærði Ragnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Eiríkssonar hæstaréttarlögmanns, eins og þau voru ákveðin í héraði og málsvarnarlaun fyrir Hæstarétti, 1.882.500 krónur.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, eins og þau voru ákveðin í héraði greiðast úr ríkissjóði sem og málsvarnarlaun hans fyrir Hæstarétti, 1.255.000 krónur.

Annan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 416.503 krónur, greiði ákærðu Jón og Ragnar óskipt að ¾ hlutum en ¼ þess kostnaðar greiðist úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2011.

I

Málið, sem dómtekið var 1. júní síðastliðinn, er höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, útgefinni 25. júní 2010 á hendur „Jóni Þorsteini Jónssyni, kt. [...], Ragnari Zophoníasi Guðjónssyni, kt. [...], Hafnarfirði og X, kt. [...], fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum:

Á hendur ákærðu Jóni Þorsteini, þáverandi stjórnarformanni Byrs sparisjóðs, kt. [...] og Ragnari Zophoníasi, þáverandi sparisjóðsstjóra hjá sama sparisjóði, fyrir umboðssvik, með því að hafa í október 2008, misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í stórfellda hættu, með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga, er þeir í sameiningu veittu einkahlutafélaginu Tæknisetrinu Arkea (síðar Exeter Holdings), kt. [...], 800 milljón króna yfirdráttarlán, sem greitt var út af reikningi félagsins nr. [...], til að fjármagna að fullu kaup á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins þar sem ekki voru fyrir hendi aðrar tryggingar en veð í stofnfjárbréfunum sjálfum, sem braut í bága við starfsreglur sparisjóðsins um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga og án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþegans í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins, en eiginfjárstaða einkahlutafélagsins var þá neikvæð. Var yfirdráttarlánið veitt vegna kaupa einkahlutafélagsins Tæknisetursins Arkea á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, sem voru meðal annars í eigu ákærða Jóns Þorsteins og einkahlutafélagsins Húnahorns, kt. [...], sem var að hluta í eigu ákærða Ragnars, og stofnfjárbréfum annarra tiltekinna lykilstarfsmanna sparisjóðsins og aðilum þeim tengdum og voru þeir því vanhæfir til að taka ákvörðun um lánveitinguna.

MP Banki hf., [...], sem lánað hafði ákærðu og umræddum starfsmönnum Byrs sparisjóðs vegna kaupa þeirra á bréfunum, hafði hótað að gjaldfella lánin og ganga að umræddum stofnfjárbréfum, þar sem tryggingar væru ekki nægjanlegar. Gengi á stofnfjárbréfunum sem þannig voru seld Tæknisetrinu Arkea, með umræddri fjármögnun Byrs sparisjóðs, var ákveðið með samráði ákærðu Jóns Þorsteins og Ragnars Zophoníasar og meðákærða X, sem þá var [...] MP Banka og var nægjanlega hátt til að umrædd lán MP Banka til ákærða Jóns Þorsteins og einkahlutafélagsins Húnahorns, sem ákærði Ragnar Zophonías átti að hluta, yrðu greidd að fullu.

Yfirdráttarheimildin var veitt og umræddir fjármunir, sem telja verður að séu sparisjóðnum með öllu glataðir, færðir af reikningi Tæknisetursins Arkea nr. [...] á reikning MP Banka hf. nr. [...], þann 13. október 2008.

Stofnfjárbréfin sem einkahlutafélagið Tæknisetrið Arkea keypti með umræddri fjármögnun Byrs sparisjóðs voru í eigu eftirtalinna aðila:

1) Húnahorns ehf., kt. 460906-0160,

20.871.253 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

2) Jóns Þorsteins Jónssonar, kt. 240969-3439,

54.109.865 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

3) A

16.767.866 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

4) B

4.219.342 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

5) C

27.047.068 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

6) MP Banka hf., kt. [...]

119.244.757 stofnfjárhlutir að nafnvirði.

II

Á hendur X, þáverandi [...] MP Banka:

a)       fyrir hlutdeild í umboðssvikum ákærðu Jóns Þorsteins og Ragnars Zophoníasar sem lýst er í ákærulið I, með því að hafa ásamt meðákærðu lagt á ráðin um að umrætt fé yrði greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs til að fjármagna áðurnefnd kaup á stofnfjárbréfum ofangreindra aðila í október 2008, hafa ákveðið gengi bréfanna í þeim viðskiptum ásamt meðákærðu og hafa haft milligöngu um að einkahlutafélagið Tæknisetrið Arkea keypti stofnfjárbréfin á því verði sem hann hafði ákveðið ásamt meðákærðu, með 800 milljón króna yfirdráttarláni Byrs annars vegar og 43.916.385 króna fjármögnun MP Banka hins vegar. Þá seldi MP Banki Tæknisetrinu Arkea einnig 119.244.757 stofnfjárhluti í Byr sparisjóði í þessum viðskiptum og voru kaupin fjármögnuð á sama hátt með yfirdráttarláni Byrs sparisjóðs. Með þessu var tjónshættu MP Banka vegna lánanna komið yfir á Byr sparisjóð. Gat ákærða ekki dulist, í ljósi aðdraganda viðskiptanna og allra aðstæðna, að féð var greitt úr sjóðum Byrs sparisjóðs með ólögmætum hætti.

b)       fyrir peningaþvætti með því að hafa í stöðu sinni sem framkvæmdastjóri MP Banka  tekið við framangreindum fjármunum sem aflað var með umboðssvikum meðákærðu, þrátt fyrir að honum hefði mátt vera ljóst, í ljósi allra aðstæðna, að lán það sem meðákærðu útveguðu frá Byr sparisjóði til viðskiptanna var veitt með ólögmætum hætti.

III

Á hendur ákærðu Jóni Þorsteini og Ragnari Zophoníasi, fyrir umboðssvik, með því að hafa á ný í desember 2008, misnotað aðstöðu sína hjá Byr sparisjóði og stefnt fé hans í stórfellda hættu, með því að fara út fyrir heimildir sínar til lánveitinga fyrir hönd sparisjóðsins, er þeir í sameiningu veittu einkahlutafélaginu Exeter Holdings (áður Tæknisetrið Arkea), kt. 561002-2150, 204.452.265 króna yfirdráttarlán, til viðbótar 800 milljón króna láni sem lýst er í ákærulið I, sem greitt var af reikningi einkahlutafélagsins nr. [...], til að fjármagna að fullu kaup þess á stofnfjárhlutum að nafnvirði kr. 64.039.876 í Byr sparisjóði af D, þáverandi varamanni í stjórn Byrs sparisjóðs, án fullnægjandi trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins þar sem ekki voru fyrir hendi aðrar tryggingar en veð í stofnfjárbréfunum sjálfum, sem fór gegn starfsreglum sparisjóðsins um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga og án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþegans í samræmi við útlánareglur sparisjóðsins, en eiginfjárstaða einkahlutafélagsins var þá neikvæð. Yfirdráttarheimildin var hækkuð um umrædda fjárhæð og hún færð af reikningi Exeter Holdings  nr. [...] á reikning MP Banka hf. nr. [...], sem hafði milligöngu um viðskiptin, þann 29. desember 2008, en telja verður fjármuni þessa með öllu glataða sparisjóðnum.

IV

Brot ákærðu Jóns Þorsteins og Ragnars Zophoníasar samkvæmt I. og III. kafla ákæru varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot ákærða X samkvæmt II. kafla a) varðar við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga en brot samkvæmt II. kafla b) varðar við 1. mgr. 264. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

V

Af hálfu Byrs hf., kt. [...],  er gerð sú krafa að Jón Þorsteinn Jónsson og Ragnar Z. Guðjónsson verði dæmdir til að greiða Byr hf. óskipt kr. kr. 1.004.452.265,-  með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 800.000.000,- frá 13. október 2008 til 29. desember 2008 en af kr. 1.004.452.265,-  frá þeim degi til þingfestingardags sakar gegn þeim, en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi  til greiðsludags. Þess er krafist að X verði dæmdur til að greiða kr. 800.000.000,- með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. október 2008 til þingfestingardags sakar en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks er þess krafist að öllum þremur verði með dómi gert að greiða Byr hf.  málskostnað að skaðlausu.“

Ákærðu neita sök og krefjast sýknu.  Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.  Ákærðu krefjast þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi.  Þá krefjast þeir málskostnaðar úr hendi kröfuhafa.

II

Fjármálaeftirlitið ákvað 22. apríl 2010 að taka yfir vald stofnfjáreigenda Byrs sparisjóðs og víkja stjórn sjóðsins frá.  Skipuð var bráðabirgðastjórn auk þess sem Fjármálaeftirlitið tók ýmsar ákvarðanir sem það taldi nauðsynlegar, þar á meðal að ráðstafa öllum eignum sparisjóðsins til Byrs hf.  Þessi ákvörðun var byggð á VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009.

                Með bréfi 7. september 2009 vísaði Fjármálaeftirlitið til sérstaks saksóknara rannsókn sem það hafði hafið á kaupum Exeter Holdings ehf. á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði „vegna gruns um refsiverða háttsemi stjórnenda Byrs og MP banka hf. í tengslum við það ástand sem skapaðist á fjármálamarkaði við setningu laga nr. 125/2008“ eins og segir í bréfinu.  Þar segir og að viðskiptin hafi átt sér stað í byrjun október 2008 og í desember sama ár.  „Þau vekja grunsemdir þar sem Exeter fékk yfirdráttarlán frá Byr að fjárhæð rúmlega einum milljarði króna til að kaupa stofnfjárbréf í Byr af MP banka, á sama tíma og stærstu viðskiptabankar landsins eru að falla.  Engar tryggingar voru lagðar fram fyrir láninu, umfram stofnfjárbréfin sjálf og Exeter virðist hafa verið með neikvæða eiginfjárstöðu þegar lánið var veitt.  MP banki hafði eignast stóran hluta þessara bréf vegna veðkalla hjá tilteknum stjórnendum Byrs og tengdum aðilum.“   Í bréfinu segir enn fremur „að svokölluðum „stofnfjármarkaði“ með stofnfjárbréf Byrs, sem MP banki hafði umsjón með, hafði verið lokað í ágúst vegna fyrirhugaðrar hlutafjárvæðingar sparisjóðsins.  Viðskiptin eiga sér því stað „yfir borðið“, þ.e.a.s. Exeter mátti vita hver mótaðili sinn var í viðskiptunum.  Þá vekur athygli að kaupverð í fyrri viðskiptunum var kr. 1,585 per hlut, en síðasta viðskiptaverð á stofnafjármarkaðnum var kr. 1,6.“ 

Í ákærunni er gerð grein fyrir þeim sem seldu bréfin í þessum viðskiptum og hversu mikill hlutur hvers og eins var.  Þá segir enn fremur í bréfinu að hugsanlegt sé að MP banki hafi samþykkt að taka stofnfjárbréfin „upp í skuldir viðkomandi aðila á svo háu gengi, gegn því skilyrði að Byr myndi fjármagna þann aðila sem myndi kaupa bréfin af MP banka á sama gengi.  Með þessu móti komust viðkomandi skuldarar MP banka hjá því að tapa meiru en stofnfjárbréfum sínum, en sumir báru persónulega ábyrgð á skuldum sínum, án þess þó að MP banki yrði fyrir tjóni.“ 

Sérstakur saksóknari rannsakaði málið með yfirheyrslum og öflun annarra gagna og er ákæran byggð á þeirri rannsókn. 

Í greinargerðum ákærðu er málavöxtum lýst á nokkuð annan veg.  Í næsta kafla verður framburður þeirra við aðalmeðferð rakinn og verður því málavaxtalýsing þeirra ekki rakin hér.

III

Ákærði Jón Þorsteinn var stjórnarformaður Byrs sparisjóðs á þeim tíma sem hér um ræðir og hafði verið það frá árinu 2004.  Hann kvaðst hafa komið nálægt daglegum rekstri sjóðsins að því er snerti stærri mál, en ekki verið starfandi stjórnarformaður. Hann hafi hvorki haft vinnuaðstöðu í sparisjóðnum né aðgang að kerfum hans.  Hann og sparisjóðsstjórinn, meðákærði Ragnar, hafi þó verið mikið í sambandi.  Varðandi fyrra lánið kvað hann MP banka hafa kallað eftir frekari veðum 2. október og í framhaldinu hafi meðákærði sagt sér frá veðkallinu á sig og stjórnendur sparisjóðsins.  Þeir hafi ákveðið að hitta meðákærða X á fundi í MP banka og hafi hann lagt til að bankinn tæki bréfin á ákveðnu gengi og þau yrðu sett í hlutafélag að nafni Fleða sem þeir þekktu, enda hafi það átt í sparisjóðnum.  Bæði var um að ræða bréf frá fólki sem tengdist sparisjóðnum og eins bréf sem MP banki átti, en ákærði kvað meðákærða X hafa átt hugmyndina að því að þau bréf væru einnig höfð með.  Þá var rætt um að sparisjóðurinn myndi fjármagna félagið.  Ákærði kvað þá hafa tekið ágætilega í að fjármagna dótturfélag bankans, enda var hann traustur á þessum tíma.  Gengið í viðskiptunum átti að vera 1,58, en síðasta þekkta viðskiptagengi var 1,6.  Í samningaviðræðum við Glitni í lok september um sameiningu við sparisjóðinn hafi verið gengið út frá genginu 2,06.  Það var meðákærði X sem kom með hugmyndina um  gengið, en ákærði kvað það ekki hafa verið rætt að gengið hefði verið ákveðið með tilliti til þess að bankinn fengi lán sín greidd.  Lánið átti að vera yfirdráttarlán, sem ekki er óalgengt í viðskiptum, og svo er gengið frá lánamálum síðar, en ákærði kvaðst ekki hafa haft afskipti af því enda starfaði hann ekki við slíkt og hafði ekki heimildir til að lána fé.  Ákærði kvað stjórn sparisjóðsins hafa rætt lánið á fundi 7. október þegar stofnfjárviðskiptin voru samþykkt, en viðskipti með stofnfjárbréf þurfi að samþykkja í stjórn sparisjóðsins.   Meðákærði Ragnar  hafi haft sem sparisjóðsstjóri heimild til að lána þetta háa fjárhæð.  Það hafi svo verið hans að ræða við þá sem þurfti að ræða við hjá sparisjóðnum.  Eftir það hafi afskiptum ákærða af málinu lokið.  Ákærði kvað ekki aðra hjá MP banka en meðákærða X hafa komið að þessum málum.  Þá kvað hann Byr sparisjóð og bankann hafa átt farsælt samstarf lengi, enda átt hvor í öðrum.  Þá hafi bankinn vísað viðskiptum til sparisjóðsins á þessum tíma, enda hafi bankinn þá ekki verið viðskiptabanki. 

Nokkrum dögum eftir framangreindan fund kvaðst ákærði hafa fengið upplýsingar um að Fleða væri ekki lengur kaupandi heldur félag í eigu E.  Hann kvaðst hafa þekkt til E og vitað að hann tengdist MP banka og þess vegna litið svo á að þetta félag tengdist bankanum á sama hátt og Fleða.  Þess vegna hefði staða þessa nýja félags ekki verið könnuð að öðru leyti en því að hún hljóti að hafa verið könnuð á sama hátt og aðrir lántakendur.  Ákærði kvað sig og meðákærða Ragnar ekki hafa rætt það sérstaklega að áhættan af lánveitingunni færðist öll yfir á sparisjóðinn af MP banka, en hann benti á að sparisjóðurinn hefði verið eitt traustasta fyrirtæki landsins á þessum tíma og hann hefði metið áhættuna af þessu sama og enga.  Þá ítrekaði hann að hann hefði litið á Fleðu sem dótturfélag MP banka og talið áhættulaust að lána því. 

Varðandi síðara lánið bar ákærði að F og D hefðu óskað eftir fundi með sér og hafi erindið verið að spyrja hvort hægt væri að kaupa stofnfjárbréf af D.  Ákærði kvaðst mundu kanna málið og hafði samband við meðákærða X og spurði hvort félag E hefði áhuga á að bæta við sig bréfum.  Meðákærði tók vel í það.  Eftir það hafi þeir rætt saman, ákærði og meðákærði Ragnar, og hafi þeir verið sammála um að leggja málið fyrir stjórn, það er að hækka lánalínu félags E og samþykkja kaup á bréfunum.  Ákærði kvað meðákærða hafa kynnt málið fyrir stjórninni á þann hátt að verið væri að veita lán til að kaupa þessi stofnfjárbréf.  Ákærði kannaðist við að þeir F og D hefðu verið að „rukka inn greiða“, sem átti rót sína að rekja til sameiningar við Sparisjóð Kópavogs, með því að óska eftir að bréfin yrðu keypt.  Tillagan um þetta hafi komið frá F. 

Ákærði Ragnar sem var sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs á þessum tíma bar að meðákærði Jón Þorsteinn hefði komið allmikið að rekstri sparisjóðsins.  Sérstaklega hafi þar verið um að ræða sameiningarmál og stærri lánamál, en meðákærði hafi ekki komið að daglegum rekstri sjóðsins.  Meðákærði hafi ekki beint gefið fyrirmæli en stundum haft áhrif á að tiltekin lán væru veitt.  Meðákærði hafi þá gjarnan orðað það svo að gott væri fyrir sparisjóðinn að fá þennan eða hinn í viðskipti.  Varðandi fyrra lánið kvað ákærði sér hafa borist tölvupóstur frá MP banka um að lán til Húnahorns ehf., sem er í eigu nokkurra starfsmanna sparisjóðsins og þar á meðal ákærða, yrði gjaldfellt vegna force majeure ákvæðis í lánasamningi.  Í framhaldinu kvaðst ákærði hafa hringt í meðákærða X og rætt við hann um framlengingu lánsins.  Þessu næst hafi hann rætt við meðákærða Jón Þorstein og sagt honum frá þessu og eins því að MP banki væri að kalla eftir frekari veðum vegna lána starfsmanna sparisjóðsins.  Þetta væri farið að trufla störf þeirra, enda hafi meðákærði X verið verulega ágengur við starfsfólkið.  Þeir hafi því farið á fund meðákærða X og á fundinum kom fram hjá meðákærða X að hann hefði áhuga á að taka stofnfjárbréfin á genginu 1,585 sem hann sagði vera meðalgengi á bréfum sem bankinn hefði eignast síðastliðinn mánuð.  Niðurstaða fundarins varð sú að bankinn tæki bréfin á þessu gengi, en ekki kvaðst ákærði muna að fjármögnun hefði sérstaklega verið rædd.  Þá kannaðist ákærði ekki við að gengið hefði verið ákveðið með hliðsjón af því að lán ákærðu greiddust að fullu. Fyrir fundinn kvað ákærði MP banka hafa lýst áhuga á að fá fjármögnun hjá sparisjóðnum á þau stofnfjárbréf sem hann var búinn að eignast í honum og þau bréf sem hann kynni að eignast með veðköllum. Kvaðst ákærði hafa gefið vilyrði fyrir þessu. Þá kvaðst ákærði hafa tilkynnt hluthöfum í Húnahorni að bankinn myndi taka stofnfjárbréf þess með veðkalli. Hið sama tilkynnti hann öðrum starfsmönnum. Ákærði kvaðst hafa vitað að bankinn ætti stofnfjárbréf í sparisjóðnum og að bankinn hefði áhuga á að færa bréfin yfir í dótturfélag og þau bréf sem bankinn myndi eignast með veðköllum færu einnig þar inn. Sparisjóðurinn myndi svo fjármagna þessi kaup væntanlegs dótturfélags. Á stjórnarfundi í sparisjóðnum 7. október hafi framsölin verið lögð fyrir og daginn eftir hafi komið skilaboð frá bankanum um að þeir hefðu áhuga á að draga á lánalínu fyrir Fleðu ehf. sem var félagið sem átti að taka við bréfunum. Í framhaldinu kvaðst ákærði hafa beðið starfsmenn sparisjóðsins um að ganga frá málunum gagnvart þessu félagi. Ákærði kvaðst hafa litið svo á að um yrði að ræða peningamarkaðslán milli peningastofnana. Síðar átti svo að ræða hvort lánið yrði greitt niður eða fjármagnað með langtímaláni. Ákærði kvað sparisjóðinn hafa haft hagsmuni af því að lána peninga í þetta verkefni og hafa tekjur af þeim peningum. Ekki hafi hvarflað að sér að það væri tjónsáhætta í þessu, enda bréfin í sparisjóðnum mjög traust. Þá var ekki óeðlilegt að lánað væri með 100% veðtryggingu í stofnfjárbréfum. Það hefði verið gert áður, bæði til kaupa á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði og eins í öðrum sparisjóðum.  Starfsmenn sparisjóðsins hafi þekkt vel til, bæði í honum og eins hjá öðrum sparisjóðum. Ákærði kvað traust viðskiptasamband hafa verið milli sparisjóðsins og MP banka og kvaðst hann hafa talið bréfin myndu standa fyllilega undir láninu.  Þá hafi heldur ekki verið venja í viðskiptum fjármálafyrirtækja að kanna fjármálalegan áreiðanleika þeirra. Eftir á að hyggja hefði hins vegar verið heppilegra að bera lánið undir stjórn sparisjóðsins, enda hefði sér fundist óþægilegt að standa í þessu vegna tengslanna við Húnahorn. Þetta mál hafi hins vegar ekki verið lagt fyrir stjórnina fyrr en í desember, en ekki gat ákærði skýrt hvers vegna það var ekki gert fyrr. Hann kvaðst hins vegar hafa haft heimild samkvæmt reglum sparisjóðsins til að lána þessa fjárhæð og ganga við það gegn lánareglum. Nokkrum dögum eftir fundinn, eða 10. október, kvaðst ákærði hafa fengið símtal frá meðákærða Jóni Þorsteini þar sem hann hafi tilkynnt sér að MP banki hefði ákveðið að skipta um félag. Fleða ætli ekki að vera kaupandi bréfanna heldur félag sem heiti Tæknisetrið Arkea. Ákærði kvaðst hafa tilkynnt þetta til starfsmanna sinna sem hafi bakfært lánið til Fleðu og síðar fært lánið á nýja félagið.  Staða þess hafi ekki verið könnuð og heldur ekki af hverju MP banki væri að skipta um félag, en hann hafi skilið meðákærða þannig að nýja félagið væri í umsjón MP banka og því ekki um að ræða efnislega breytingu. Ákærði kvaðst hafa talið að tengslin við MP banka gerðu félagið traust og veðið í bréfunum nægði til að áhætta sparisjóðsins væri ekki meiri en gerist í viðskiptum. Ákærði kvað Húnahorn hafa átt stofnfjárbréf eftir í sparisjóðnum og eins hafi hann sjálfur átt stofnfjárbréf sem hafi verið fjármögnuð með láni frá Glitni.

Varðandi síðara lánið bar ákærði að meðákærði Jón Þorsteinn hafi komið til sín og sagt sér að Tæknisetrið Arkea hefði áhuga á að auka við bréf sín í sparisjóðnum og þyrfti þess vegna hærra lán. Ákærði kvað sér hafa fundist fyrirgreiðsla til félagsins vera orðin nógu há og viðbótin yrði að fara fyrir stjórnarfund, enda var hann farinn að gera sér grein fyrir því að efnahagshrunið gæti haft meiri afleiðingar fyrir sparisjóðinn en hann hafði talið fram að þessu. Ákærði kvað sér hafa fundist á meðákærða að búið væri að ákveða að lána þessa viðbót, en ekki hafi hann minnst á að þetta væri gert af greiðasemi við D. Á stjórnarfundinum hafi ákærði viljað að meðákærði kynnti málið og kvaðst ekki muna annað en hann hefði gert það. Á fundinum varð ekki mikil umræða um lánið og kvaðst ákærði hafa upplifað það þannig að allir vissu um hvað málið snerist, enda hefði meðákærði sagt sér að hann ætlaði að vera búinn að tala við stjórnarmenn um þetta.  Borið var undir ákærða það sem stjórnarmenn segja um þetta og kvaðst hann ekki vera sammála túlkun þeirra. Varðandi afdrif lánanna til Tæknisetursins Arkea kvað ákærði að forsvarsmaður þess hafi óskað eftir því í ársbyrjun 2009 að þeim yrði breytt í langtímalán, en ekki var orðið við því.  Lánið hafi svo farið í innheimtu og líklega hafi sparisjóðurinn svo tekið bréfin sem urðu verðlaus í apríl 2010 þegar sparisjóðurinn hrundi. 

Ákærði X var [...] MP banka á þessum tíma. Hann bar að eftir að bankinn hafði sent út tilkynningar um veðköll hafi verið haldinn fundur í bankanum um veðköllin eins og venja er þegar slíkt gerist til að reyna að finna lausn á málunum. En á þessum tíma var mikið um veðköll og eðlilegt að brugðist væri við þeim með því að ræðast við. Á fundinum kom það fram að ekki var áhugi á að leggja fram frekari tryggingar. Á þessum tíma kvaðst ákærði hafa talið að Byr sparisjóður væri í lykilstöðu á markaðnum þegar 3 stærstu bankar landsins væru að hrynja. Frá miðju ári 2008 til loka þess hafi sparisjóðurinn tvöfaldað innlán sín og segi það allt um hvert mat manna var á stöðu hans á þessum tíma. Þess vegna kvaðst hann hafa komið fram með þá hugmynd að Fleða, sem var dótturfélag bankans, myndi kaupa bréfin og sparisjóðurinn myndi lána fé til kaupanna. Hjá meðákærðu kom fram að þeir myndu skoða málið og það færi fyrir stjórnarfund.  Ákærði kvaðst hins vegar þurfa að ráðfæra sig við stjórnarformann bankans, G.  Væntanlegt gengi var fundið út af starfsmanni lánasviðs bankans og vildu meðákærðu fá hærra gengi en það sem endanlega var svo ákveðið. Á þessum tíma stóðu allar fjármálastofnanir frammi fyrir lausafjárskorti þótt eignaleg staða þeirra væri góð og skipti því ákvörðun gengisins verulegu máli. Ákærði kvað bréfin hafa farið beint frá eigendum til Fleðu og síðan til Tæknisetursins Arkea án þess að MP banki eignaðist þau í millitíðinni, en það hafi bara verið tæknilegs eðlis að hafa þann hátt á.  Þá bar ákærði að þótt staða bankans hefði verið góð á þessum tíma þá hrjáði lausafjárskortur hann og það hafi því verið mjög gott fyrir hann að geta selt bréf sín öðru félagi og þar með hafi þessi lausn, að Tæknisetrið Arkea keypti bréfin með fjármögnun frá Byr sparisjóði, verið bankanum mjög hagstæð. Það félag hafi komið sem kaupandi í stað Fleðu, enda hafi stjórnarformaður bankans ekki samþykkt að Fleða keypti bréfin. Fleða var dótturfélag bankans og kaup þess myndu hafa slæm áhrif á lausafjárstöðu bankans. Stjórnarformaðurinn kvaðst hins vegar hafa rætt við E og væri hann tilbúinn að kaupa bréfin. Ákærði kvaðst hafa hringt í forsvarsmenn sparisjóðsins og sagt þeim þetta og þar með að félag E vildi kaupa bréfin með fjármögnun frá sparisjóðnum. Hann kvaðst ekki hafa þekkt stöðu félags E. 

Varðandi seinna lánið tók ákærði fram að bankinn hefði haldið utan um markað með stofnfé í sparisjóðnum og ef einhver stór eigandi vildi selja stofnfjárbréf þá leitaði hann til bankans.  Í þessu tilfelli kvað ákærði D hafa hringt í sig og óskað eftir því að selja, en nokkru áður hefði E haft samband við bankann og sagt að hann vildi bæta við sig stofnfjárbréfum, enda teldi hann sparisjóðinn líklegan til að standa af sér hrunið og því væri þetta góður fjárfestingarkostur. E hefði einnig þurft á láni að halda fyrir verði bréfanna og kvaðst ákærði ætla að ræða við forsvarsmenn sparisjóðsins um það hvort þeir hefðu áhuga á að lána fyrir þeim og eftir það hafi málið verið úr sínum höndum. Á þessum tíma hafi ekki verið mikill markaður með stofnfjárbréf frekar en önnur verðbréf. Ákærði kvaðst ekki hafa gefið til kynna að félag E væri tengt MP banka. Þá neitaði hann því algerlega að hann hefði haft einhver tök á starfsmönnum sparisjóðsins á þessum tíma.  Sparisjóðurinn hefði haft 50 milljarða eigið fé en MP banki hefði verið lítill fjárfestingabanki með 5 til 6 milljarða eigið fé. Ákærði kvaðst ekki hafa haft samskipti við aðra en meðkærðu hjá sparisjóðnum. Hann kvaðst sjálfur enga fjárhagslega hagsmuni hafa haft í þessu máli. Þá tók ákærði fram að MP banki hafi fært öll bankaviðskipti sín til sparisjóðsins í hruninu og sýndi það enn betur hvert álit forsvarsmenn bankans hefðu haft á sparisjóðnum. 

F var stjórnarmaður í sparisjóðnum á þessum tíma. Hann bar að hafa ekki vitað af fyrra láninu fyrr en í desember.  Hann kannaðist ekki við að stjórnin hefði rætt um þessa lánveitingu. Varðandi framsöl stofnfjárbréfa bar hann að sparisjóðsstjóri hefði lagt fram lista um viðskipti með bréfin á stjórnarfundi og stjórnarmenn hefðu skrifað undir listann. Listinn hafi ekki verið skoðaður að því er hann vissi best. Þá kvaðst hann ekki muna eftir mörgum lánamálum sem fóru fyrir stjórnina, en lán að tiltekinni fjárhæð átti að bera undir stjórnina eftir því sem hann vissi best. Annars hafi það verið hlutverk lánanefndar að fjalla um lán. Varðandi seinna lánið kvaðst Jón ekki hafa verið á fundi þegar fjallað var um það.  Hann kvaðst ekkert vita um það og neitaði að hafa hringt í ákærða Jón Þorstein og „rukkað inn greiða“ og ekki setið á fundi með ákærða og D.

H var í stjórn sparisjóðsins á þessum tíma. Hann kvað fyrra lánið ekki hafa komið til umfjöllunar í stjórninni. Hann kvaðst fyrst hafa heyrt um það á fundi 19. desember 2008 þegar farið var fram á framlengingu yfirdráttarlánsins til Tæknisetursins Arkea um 6 mánuði og að auka heimildina til að mæta kostnaði. Talað var um að fara upp í 1400 milljónir og var samþykkt að framlengja þetta í 3 mánuði.  Þá hafi einnig verið samþykkt að lækka fjárhæðina í 1100 milljónir að því er hann minnti.  Hann kvað það hafa verið sinn skilning að verið væri að hækka yfirdráttinn til að mæta vöxtum og kostnaði. Ákærði Ragnar hafi kynnt þetta, en ekki mundi hann eftir umræðu um málið svo að hann gæti greint frá henni. Hann kannaðist ekki við að rætt hefði verið um að verið væri að lána til kaupa á stofnfjárbréfum í eigu D.  Þá kvað hann framsöl stofnfjárbréfa hafa verið undirrituð á stjórnarfundum. 

I var í stjórn sparisjóðsins þar til í byrjun desember 2008.  Hann kvaðst fyrst hafa frétt af fyrri lánveitingunni þegar farið var að fjalla um hana í fjölmiðlum.  Hann minntist þess ekki að hafa verið á stjórnarfundi þar sem fjallað var um hana.  Þegar stjórnin tók fyrir framsöl stofnfjárbréfa var lagður fram listi með nöfnum og kvaðst hann yfirleitt ekki hafa skoðað listann nákvæmlega, enda ekki kannast við þau nöfn er þar voru.  Sparisjóðsstjórinn var sá sem bar upp þessa lista, að því er hann minnti, og undirrituðu stjórnarmenn þá.  Fundargerðir voru yfirleitt undirritaðar á fundinum.  Þá sjaldan að lánamál bar á góma var það sparisjóðsstjórinn sem bar þau upp, en það var mjög sjaldgæft að það væri gert.  Stjórnin kannaði ekki sérstaklega lántakendur, enda hafði sparisjóðsstjórinn rúmar heimildir og eins fóru lán fyrir lánanefnd.  Þá var það hlutverk sparisjóðsstjórans að kanna lántakendur. 

J var í stjórn sparisjóðsins á þessum tíma.  Varðandi fyrra lánið kvað hún það ekki hafa komið fyrir stjórn í október.  Hún hafi fyrst vitað um það í desember þegar beðið var um framlengingu á láninu með vöxtum.  Þetta var kynnt þannig að um væri að ræða lán í vanskilum með áföllnum vöxtum og það þyrfti að framlengja það eins og önnur lán á þessum tíma þar sem ekki var gengið að veðum.  Þau voru framlengd um 3 til 6 mánuði.  Ekki hafi hins vegar verið rætt um lán vegna frekari stofnfjárkaupa og ekki að D væri að selja sín bréf.  Hún kvaðst ekkert frekar muna eftir umræðu um þessa lánveitingu, en það hafi annað hvort verið ákærði Ragnar eða ákærði Jón Þorsteinn sem kynnti hana.  Þá kvað hún ekki aðrar umræður hafa verið um lánveitinguna en þá að ekki væri ráðlegt á þessum tíma að fara í innheimtuaðgerðir þar sem óvissa væri um verðmæti veða.  Þess vegna væri betra að framlengja lánin.  Talað var um að þetta lán stæði í um 1100 milljónum með vöxtum og var verið að framlengja það, en ekki gat hún skýrt hvers vegna talan væri komin í 1400 milljónir, en hún kannaðist við að hafa undirritað fundargerð þar sem þessi tala kemur fram.  Einnig hafi verið rætt að hér væri um orðinn hlut að ræða og ekki væri verið að lána nýja peninga.  Varðandi framsöl stofnfjárbréfa sem afgreidd voru á stjórnarfundum kvað hún lista hafa verið lagða fram og var það í rauninni eins og formsatriði að afgreiða þá.  Ekki hafi verið farið yfir nöfnin og ekki hafi verið spurt hver var að kaupa af hverjum.  Stjórnarmenn hafi treyst því að starfsmenn sparisjóðsins hafi farið yfir þessi mál og gengið úr skugga um að þau væru í lagi.  Þá kvaðst hún ekki muna til þess að fjallað hafi verið um lánamál á stjórnarfundum.  J kvað sparisjóðinn hafa verið talinn traustan á síðustu mánuðum ársins 2008 og talið að hann myndi standa af sér hrunið.  Á fyrstu mánuðum ársins 2009 hafi svo komið í ljós að svo var ekki.  Henni var bent á að á fundi stjórnar 19. desember hafi verið kvittað fyrir framsali D á stofnfjárbréfum til Exeter Holdings og kvaðst hún ekki muna eftir að nafn þessa félags hefði komið upp á fundinum, heldur hafi verið talað um Tæknisetrið Arkea.  Hún kvaðst heldur ekki hafa tengt lánveitinguna við framsalið. 

D var varamaður í stjórn Byrs sparisjóðs og átti bréfin sem um er fjallað í III. kafla ákæru.  Hann kvaðst á sínum tíma hafa viljað selja stofnfjárbréfin og þar sem kaupandi hafi verið af þeim hafi hann gert það.  Hann kvaðst hafa haft samband við K starfsmann MP banka.  Honum var bent á að í gögnum málsins komi fram að K hafi haft samband við hann og sagt að sér hefði verið falið að halda áfram með málið.  D kvaðst ekki muna eftir að hafa haft samband áður við starfsmann bankans, en þessi maður hefði selt fyrir sig stofnfjárbréf áður.  Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um hver hefði keypt bréfin eða hvernig kaupin voru fjármögnuð.  Honum var bent á að í gögnum málsins kæmi fram að hann vissi meira um þessi mál en hann kvaðst ekki muna eftir þessu í smáatriðum.  Þá kvaðst hann ekkert geta sagt til um hvernig staðið var að lánveitingu Byrs sparisjóðs til kaupa á stofnfjárbréfum hans.

L var sparisjóðsstjóri Byrs sparisjóðs ásamt ákærða Ragnari þar til um miðjan nóvember 2008.  Hann kvaðst fyrst hafa frétt af fyrri lánveitingunni á gamlársdag 2008.  Þá hafi starfsmaður sparisjóðsins hringt í sig og spurt hvort hann kannaðist við Tæknisetrið Arkea.  L kvað þessa lánveitingu tvímælalaust hafa átt að fara fyrir lánanefnd.  Þá kvaðst hann ekki vita til þess að sparisjóðsstjóri hafi veitt svona hátt lán án þess að bera það undir stjórn og lánanefnd.  Hann kvað sparisjóðsstjórana hafa haft heimildir til lánveitinga samkvæmt reglum sparisjóðsins, en vinnureglan hafi verið sú að leggja öll mál fyrir lánanefnd þar sem þau voru afgreidd.  Þetta hafi ekki síst verið vegna þess að á þessum tíma var mikill lausafjárskortur og starfsmenn sparisjóðsins hafi passað hverja krónu.  Á þessum tíma hafi verið lítil viðskipti með stofnfjárbréf og ómögulegt að segja til um gengi þeirra.  Sparisjóðurinn hafi orðið fyrir miklu áfalli við bankahrunið og hafi það verið metið á um 17 milljarða.  Þá kvað hann meginregluna hafa verið þá að lána ekki út á stofnfjárbréf í sparisjóðnum, en það hafi þó komið fyrir að svo væri gert.  Þetta hafi verið óskráð bréf og nálægðin verið of mikil.  L var bent á að gögn málsins sýndu að á tímabilinu frá september 2007 og til október 2008 hafi verið veitt yfir 80 lán til kaupa á stofnfjárbréfum og kvaðst hann ekki geta svarað því hvort hann hafi vitað um þessi lán.  Varðandi lista yfir aðilaskipti að stofnfjárbréfum, sem lagðir voru fram á stjórnarfundum, þá kvaðst hann ekki hafa kynnt sér þá þar eð hann taldi það vera málefni stjórnar og sér óviðkomandi.  Kaupendur bréfa hafi snúið sér til regluvarðar sparisjóðsins sem hafi fært skrá yfir stofnfjáreigendur.  Þá bar hann að á stjórnarfundum hafi ekki verið farið nákvæmlega yfir þessa lista, enda hafi það verið stefna stjórnar að hefta ekki á nokkurn hátt viðskipti með stofnfjárbréf. 

M var framkvæmdastjóri bankaþjónustu sparisjóðsins á þessum tíma.  Hann var einn af eigendum Húnahorns, en það var félag í eigu fyrrum yfirmanna í Sparisjóði Vélstjóra.  Félagið hafi fengið að eignast stofnfjárbréf sem umbun fyrir vel unnin störf eigenda þess.  Hann kvaðst hafa haldið að tryggingaþekjan hjá MP banka væri í samræmi við skilmála og því hafi veðkallið komið á óvart.  Hann kvaðst fyrst hafa vitað um afdrif bréfanna þegar ákærði Ragnar hefði sagt honum að bankinn hefði leyst bréfin til sín. 

N var yfirmaður fyrirtækjasviðs sparisjóðsins.  Hann kvaðst hafa setið í lánanefnd sparisjóðsins og setið lánafundi.  Á slíkum fundi daginn fyrir gamlársdag hafi hann fyrst vitað að verið væri að hækka fyrirgreiðslu til félagsins Exeter úr 800 milljónum í 1000 milljónir.  Hann kvaðst ekki hafa heyrt um þetta félag áður og á fundinum, sem var að morgni, var ákveðið að funda aftur síðdegis.  Á þeim fundi kvaðst hann hafa spurt ákærða Ragnar um málið og hann hafi svarað að málið hefði komið í gegnum stjórnina, en væri ekki heppilegt mál.  Í fyrstu viku janúar kvaðst N hafa sent ákærða tölvupóst þar sem hann hafi látið í ljós megna óánægju sína með þessa lánveitingu og talið að ekki hefði verið rétt að henni staðið.  Hann kvaðst ekki hafa vitað á þessum tíma hverjir voru að selja stofnfjárbréf, en fljótlega áttað sig á því að seinna lánið var tengt D.  Almennt kvað hann engar forsendur hafa verið fyrir þessum lánum, enda hefði sparisjóðurinn nánast hætt að veita ný lán um sumarið.  Þá kvað hann stjórnendur og stjórnarmenn sparisjóðsins hafa átt að vita að hann hefði orðið fyrir miklu höggi við fall bankanna, en það hefði verið metið á 15 til 20 milljarða.  Þess vegna hefði virði stofnfjárbréfa fallið auk þess sem bréf í fjármálafyrirtækjum voru almennt ekki mikils virði á þessum tíma.  Hann kvaðst ekki vita dæmi þess að sparisjóðsstjóri hafi áður veitt svona hátt lán, það er 800 milljónir, en hann kvaðst hafa hafið störf í sparisjóðnum í desember 2007. Ástæða þess að lánið var til umræðu á lánanefndarfundi taldi hann vera að kerfið í sparisjóðnum réð ekki við að færa lánið sem lán, er sparisjóðsstjórinn hefði heimild til að afgreiða.  Lánið hefði verið veitt sem yfirdráttarlán.  Þá kvaðst hann hafa talið, eins og margir aðrir á þessum tíma, að vegna sterkrar stöðu sparisjóðsins myndi hann standa af sér hrunið.    

O var framkvæmdastjóri fjármálasviðs sparisjóðsins.  Hann átti hlut í Húnahorni og hafði keypt hlut í því sem starfsmaður Sparisjóðs Vélstjóra á sínum tíma.  Hann kvaðst hafa vitað af veðköllum MP banka og reiknað með því að bankinn tæki bréfin, en ekki var rætt að bankinn myndi ganga að félaginu með það sem yrði ógreitt eftir að hann hefði tekið bréfin.  Ekki hafi verið rætt meðal eiganda Húnahorns að setja frekari tryggingar.  Hann kvaðst ekki muna til þess að sér hefði verið sagt frá lokum málsins eða þessum viðskiptum að öðru leyti. 

P var yfirmaður áhættustýringar sparisjóðsins á þessum tíma.  Hann bar að fyrra lánið hefði ekki komið til umfjöllunar hjá áhættustýringunni og hefði í sjálfu sér ekkert verið athugavert við það og hefði hann ekki gert athugasemdir við það.  Samkvæmt reglum sparisjóðsins var ekki gert ráð fyrir að maður frá áhættustýringu sæti lánanefndarfundi og kvaðst hann hafa gert athugasemdir við það við ákærða Ragnar.  P kvaðst hafa átt C ehf. sem átti stofnfjárbréf í sparisjóðnum.  Hann kvað MP banka hafa tekið bréfin veðkalli og tilkynnt sér það í tölvupósti.  Í veðkallinu hafi bréfin verið metin á tilteknu verði, en ekki mundi hann hvert það var.  Um fyrra lánið almennt kvað hann það hafa verið mjög lítinn hluta af lánasafni sparisjóðsins, en það hafi talist áhættusamt lán vegna þess að veðið var í verðbréfum.  Þó kvaðst hann muna eftir lánveitingum á þessum tíma með veði í óskráðum verðbréfum, en stofnfjárbréf væru metin sem óskráð bréf.  Þau væru hvergi skráð þótt markaður hefði verið með þau. 

R var forstöðumaður innri endurskoðunar sparisjóðsins.  Hún kannaðist við að regluvörðurinn hefði sagt sér að hópur stjórnenda hefði óskað eftir því að framselja stofnfjárbréf sín til MP banka.  Hann spurði hana hvað hann ætti að gera og kvaðst hún hafa bent honum á að ræða þetta við ytri endurskoðanda sparisjóðsins vegna þess að meðal seljenda væru sparisjóðsstjórinn og stjórnarformaðurinn.  Regluvörðurinn eigi að heimila framsal á bréfum innherja og þess vegna taldi hún rétt að ræða þetta við endurskoðandann.  Hún kvaðst ekki hafa vitað að sparisjóðurinn fjármagnaði kaupin. 

A var útibússtjóri hjá Byr sparisjóði á þessum tíma og bar að hafa afgreitt fyrra lánið í útibúinu.  Hún kvaðst sjálf hafa átt stofnfjárbréf og verið að fá veðköll allt árið 2008.  Hún kvaðst hafa sett frekari tryggingar áður en til sölunnar kom.  Hún kvaðst hafa talið stöðu sparisjóðsins mjög sterka á þessum tíma og þess vegna hafi gengi bréfanna ekki komið sér á óvart.  Varðandi lánið sjálft kvað hún fyrst annað félag hafa ætlað að taka lánið og hafi hún farið með skjöl varðandi lántöku þess í MP banka.  Síðar hafi annað félag komið í staðinn og hafi forsvarsmenn þess komið í sparisjóðinn til að ganga frá skjölum.  Hún kvaðst hafa sagt ákærða Ragnari frá því að MP banki væri að kalla eftir frekari veðum en hún kvaðst ekki hafa vitað af því að Tæknisetrið Arkea hefði keypt hennar bréf fyrr en hún fékk kvittanir fyrir sölunni.  MP banki hafi haft bréfin að handveði og þess vegna hafi hún ekki vitað af sölunni fyrr.  Hún kvaðst ekki hafa framselt bréfin öðrum en MP banka. 

Q var regluvörður hjá Byr sparisjóði.  Hann bar að sér hefði verið brugðið þegar hann hefði fengið upplýsingar um að stjórnendur sparisjóðsins hafi verið farnir að selja hluti sína í október 2008.  Hann vakti athygli á því að ákveðnar reglur giltu um framsal stofnfjár og það sé í verkahring stjórnar að gæta þess að farið sé eftir þeim.  Hann kvaðst svo hafa haft samband við R hjá innri endurskoðun sparisjóðsins og voru þau sammála um að leita til ytri endurskoðandans.  Í svari hans kom fram að ekkert stæði á þessum tíma í vegi fyrir framsali stofnfjárbréfa.  Í upphafi kvaðst hann ekki hafa vitað að sparisjóðurinn myndi fjármagna kaupin, en hann vissi að gert var ráð fyrir að Fleða myndi kaupa og seljendur væru meðal annars ákærði Jón Þorsteinn og Húnahorn.  Þá staðfesti hann að hann myndi aldrei hafa „hleypt þessum kaupum í gegn“ hefði hann vitað að sparisjóðurinn ætti að fjármagna kaupin, þrátt fyrir að það hefði ekki beinlínis verið í hans verkahring.  Markaður með stofnfjárbréf hefði lokast í ágúst og þetta voru fyrstu viðskiptin með stofnfjárbréf eftir hrun bankanna.  Á þessum tíma voru stofnfjárbréfin ekki verðlaus og menn sáu ekki fyrir það sem síðar gerðist.  Q kvaðst hafa átt félag sem hafi verið skráð fyrir stofnfjárbréfum og kannaðist við að hafa sent tölvupóst til L, hins sparisjóðsstjórans, og óskað eftir láni.  Hann kvaðst hafa fengið það svar að miða ætti við gengið 0,5 í þeim viðskiptum. 

S, sérfræðingur við áhættustýringu hjá Byr sparisjóði, bar að umræddar lánveitingar hefðu komið til umfjöllunar hjá áhættustýringunni í nóvember eða desember 2008.  Hann kvaðst ekki hafa frétt af þessu fyrr og séð þetta fyrst á lista yfir stærstu skuldara og veitt því athygli að um nýjan lántaka var að ræða.  Þá hafði og vakið athygli hversu hátt lánið var og að það var veitt á þessum tíma.  Á þessum tíma hafi ekki verið um að ræða virkt verð á stofnfjárbréfum, en ekki gat hann borið um hversu áhættan var mikil fyrir sparisjóðinn.  Spurður um eðlilegt ferli svona hárrar lánveitingar kvað hann það hafa átt að fara fyrir lánanefnd sparisjóðsins og afgreiðast í samræmi við afgreiðslu hennar.  Heimildir nefndarinnar og sparisjóðsstjórans hefðu verið það miklar að ekki hefði þurft að vísa málinu til stjórnar sparisjóðsins.  Þá bar hann að stofnfjárbréf í sparisjóðnum hefði átt að meta sem hlutabréf við veðsetningu vegna þess að í sparisjóðnum var næg þekking til að meta raunverulegt verðmæti þeirra þar eð starfsmenn þekktu stöðu sparisjóðsins.  Öðru máli hefði gegnt um stofnfjárbréf í öðrum sparisjóðum sem starfsmenn hefðu þekkt minna til.  Þau hefðu frekar verið metin sem óskráð bréf.  Þá staðfesti hann að framboð á stofnfjárbréfum hefði á þessum tíma verið meira en eftirspurnin.  Gengið á stofnfjárbréfunum hafi verið miðað við 1,6 haustið 2008 og fram á vor 2009, en á þessum tíma hafi markaðurinn ekki verið virkur.  Þeir hefðu því líklega átt að meta gengið lægra. 

T var útibússtjóri [...] Byrs sparisjóðs á þeim tíma sem um ræðir.  Þá var hann og hluthafi í Húnahorni.  Hann kvaðst vita það eitt að MP banki hefði kallað eftir frekari veðum vegna láns sem félaginu hefði verið veitt til að kaupa bréfin og þegar þau voru ekki veitt hefði bankinn tekið bréfin.  Þá kvaðst ekki vita um afdrif Húnahorns, en hann viti ekki til þess að félagið hafi sinnt annarri starfsemi en að eiga þessi bréf.  Hann kvaðst ekki hafa lánað út á hlutabréf eða stofnfjárbréf í sínu starfi og telja að almennt ætti ekki að lána út á meira en 30% af verðmæti slíkra bréfa. 

G var stjórnarformaður MP banka.  Hann bar að stofnfjárbréf í sparisjóðnum hefðu verið til sölu með fjármögnun frá honum og borið var undir hann hvort hann þekkti einhvern fjárfesti sem hefði áhuga á að kaupa og hefði hann stungið upp á E.  Fleða hefði aldrei verið inni í myndinni sem kaupandi eftir því sem hann vissi best.  Hann kannaðist ekki við hafa stöðvað kaup Fleðu, enda hefði aldrei verið inn í myndinni að dótturfélag bankans færi að gerast stofnfjáreigandi í Byr sparisjóði.  Á þessum tíma var bankinn að hætta að kaupa hlutabréf og stofnfjárbréf.  G kvað E hafa verið með fjárfestingarfyrirtæki og verið reyndur fjárfestir.  Hann kannaðist ekki við að hætt hafi verið við að gjaldfella lán til fjárfestingarfyrirtækis E vegna þess að hann hefði ákveðið að kaupa stofnfjárbréfin.  G kvaðst hafa kynnt E að þarna væri möguleiki á að eignast stofnfjárbréf í sparisjóðnum með fjármögnun, að minnsta kosti að verulegum hluta.  Í framhaldinu hafi E haft samband við bankann og viðskiptin komust á, en hann kvaðst ekki hafa komið frekar að því.  G kvað ákærða X hafa skýrt sér frá því í september að sparisjóðurinn vildi taka yfir fjármögnun á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum.  Ástæðan var sú að lánin fyrir bréfunum höfðu hækkað, enda í erlendum myntum.  Áhættustýring MP banka var farin að kalla eftir frekari veðum og því vildi sparisjóðurinn taka þetta til sín.  Þess vegna kvaðst G hafa talið að frumkvæðið hefði komið frá sparisjóðnum, en hann kvaðst einu sinni hafa hitt ákærða Jón Þorstein vegna þessa í byrjun október.  G kvað eignarhluta fjármálafyrirtækja í öðrum fjármálafyrirtækjum eiga að dragast frá svonefndu CAD hlutfalli og þess vegna sé ekki æskilegt fyrir fjármálafyrirtæki að eiga hvert í öðru, hvort sem það er í gegnum dótturfélag eða með öðrum hætti.  Hann kvað erlenda banka hafa verið að kalla eftir frekari veðum á þessum tíma vegna þess að þeir hafi metið áhættu á Íslandi með öðrum hætti en áður og vildu ekki hafa nein íslensk bréf að veði.  Lausafjárstaða bankans hafi verið viðunandi en samt hafi forsvarsmenn hans haft áhyggjur af henni.  G kvaðst hafa verið sáttur við þessi viðskipti, enda hefðu þau lagað lausafjárstöðu bankans.  Þá kvaðst hann hafa metið stöðu sparisjóðsins mjög sterka á þessum tíma og hefði bankinn flutt innstæður viðskiptavina sinna þangað, enda treyst sparisjóðnum best fyrir þeim.          

U var forstöðumaður lögfræðisviðs MP banka og regluvörður hans.  Hann kvaðst ekkert hafa komið að þeim viðskiptum sem málið fjallar um heldur heyrt af þeim síðar.  Hann var spurður um efni tölvupósts til hans þar sem segir að „ÁSK var ekki gjaldfellt vegna Byrdílsins“, en hann gat ekkert um þetta borið og sagðist ekki vita um hvaða „díl“ væri verið að tala. 

V var forstöðumaður áhættustýringar MP banka á þessum tíma.  Hann var spurður um tölvupóst sem hann sendi 2. október 2008 til þeirra sem nefndir eru í ákærunni sem seljendur stofnfjárbréfa.  Í þessum tölvupóstum tilkynnti hann að bankinn sæi sig knúinn til að gjaldfella lánasamninga á grundvelli force majeure ákvæðis í þeim.  Í framhaldinu hefði ákærði Ragnar óskað eftir fundi, en eftir það hefði ákærði X tekið við málinu.  Hann kvaðst þó vita til þess að ekki voru boðnar fram auknar veðtryggingar.  Lánin voru í erlendum gjaldmiðlum með veði í íslenskum verðbréfum og vegna síversnandi stöðu krónunnar þurfti frekari veð.  Hann kvaðst hafa verið í sambandi við suma lántakendur áður og mundi meðal annars eftir A.  Niðurstaða málsins hefði orðið sú að bréfin voru seld Tæknisetrinu Arkea með milligöngu bankans, en bankinn hefði ekki eignast bréfin.  V kvað gengið á bréfunum hafa verið ákveðið á fundi ákærða X með forsvarsmönnum sparisjóðsins.  Á þessum tíma var óvissa um gengi á bréfunum og erfitt að ákveða hvert það var.  Í ágúst var lokað fyrir viðskipti með þau og svo hafi bankahrunið haft áhrif á það.  Þegar starfsmenn bankans voru að taka út tryggingastöðu annarra viðskiptavina, sem höfðu sett stofnfjárbréf að veði, hafi verið miðað við gengið 1,2 til 1,4.  Þá bar V að það hafi verið mat MP banka, og þar með hans, að staða sparisjóðsins á þessum tíma hafi verið góð og hafi bankinn verið að beina viðskiptavinum til hans með innlán, enda töldu starfsmenn bankans að sparisjóðurinn myndi lifa hrunið af.  Hann var spurður um efni tölvupósts til hans þar sem segir að „ÁSK var ekki gjaldfellt vegna Byrdílsins“, en hann gat ekkert um þetta borið og sagðist ekki muna um hvað hann hefði  verið að tala.  En ÁSK væri fyrirtæki E, en það hafi verið í svipaðri stöðu með erlend lán og framangreindir aðilar.          

K var miðlari hjá MP banka á þessum tíma.  Hann bar varðandi fyrra lánið að hann hefði fengið tölvupóst frá Y um þessi viðskipti.  Ekki hefði komið fram að bankinn hefði eignast bréfin með veðköllum.  Þá kvað hann ákærða X hafa komið til sín og spurst fyrir um viðskiptin og þeir rætt málin og þá hafi stofnfjárbréfum í eigu bankans verið bætt við listann yfir bréf sem verið var að selja.  K kvað það ekki hafa verið óeðlilegt að ákærði hefði komið og fylgst með miðlun viðskipta.  Hann var spurður um síðustu viðskipti með stofnfjárbréf, en þann dag voru þau 20 og gengi bréfanna frá 1,4 til 1,6.  Síðust eru skráð viðskipti með 30.000 hluti, en það voru lítil viðskipti miðað við önnur viðskipti dagsins, og gengið var 1,6 og bankinn var kaupandi.  K kvað ákærða X hafa komið til sín og sagt sér að kaupa þessi bréf á þessu gengi og hætta svo að kaupa en ekki gat K skýrt þetta frekar.  Hins vegar hafi gengið 1,6 verið skráð lokagengi dagsins vegna þessara viðskipta og var það skráð á heimasíðu bankans.  Varðandi viðskiptin, sem hér eru til umfjöllunar, kvaðst K hafa sent upplýsingar um þau til starfsmanna sparisjóðsins, enda hafi þau þurft að fara fyrir stjórn hans.  K kvaðst hafa haft samband við E eftir fyrri kaup Tæknisetursins Arkea og spurt hann hvort hann vildi kaupa fleiri bréf og svaraði hann því til að hann væri til í að skoða það.   

Y starfaði í útlánaeftirliti og áhættustýringu hjá MP banka á þessum tíma.  Hún var spurð um gjaldfellingu lána starfsmanna sparisjóðsins og kvað hún tryggingar ekki hafa verið nægar á þessum tíma, en ekki mundi hún við hvaða gengi var miðað á stofnfjárbréfunum og heldur ekki hver hefði gefið henni upplýsingar um við hvaða gengi hafi átt að miða.  Yfirleitt hafi hún fengið upplýsingar um gengi bréfanna frá miðlurum.  Þá kvaðst hún ekki hafa vitað hvernig þessir lántakendur brugðust við veðköllunum.  Almennt hafi það verið þannig að ef lántakendur settu ekki frekari tryggingar voru bréfin sett í sölu og á þessum tíma var verið að selja hjá öllum eins og hún orðaði það. 

E, hæstaréttarlögmaður og eigandi félagsins sem keypti stofnfjárbréfin, bar að hafa fjárfest í hlutabréfum frá 1991 og oft keypt í gegnum MP banka.  Varðandi fyrri kaupin taldi hann líklegt að G hefði sagt sér að ákærði X myndi hafa samband við hann vegna möguleika á kaupunum.  Ákærði hefði síðan spurt sig hvort hann hefði áhuga á að kaupa stofnfjárbréf í sparisjóðnum og kvaðst hann myndu athuga það.  Hann hefði síðan kannað stöðu sparisjóðsins komist að því að hann var með 50 milljarða eigið fé og því nokkuð traust félag.  Þá hafi aðrar upplýsingar bent til hins sama, meðal annars það að sparisjóðurinn væri ekki með vandamálafyrirtæki í viðskiptum.  Þá spilaði og inn í að sparisjóðurinn var eini bankinn sem var eftir í hruninu og kvaðst hann því hafa búist við að slagur yrði um bréfin.  Á þessum tíma var ekkert sem benti til annars en að þetta væri ákjósanlegur fjárfestingarkostur.  Hann kvaðst því hafa haft samband við ákærða og sagst vera til í þetta.  E kvað það ekki rétt að Tæknisetrið Arkea hefði verið með neikvæða eiginfjárstöðu, heldur hafi það verið „tómt félag“.  Þá hafi fjárfestingarfélag hans ÁSK ehf. lagt fram 50 milljónir sem hafi verið lán frá MP banka.  Stofnfjárbréfakaupin hafi átt að fjármagna með láni frá sparisjóðnum og hafi hann í upphafi rætt um það við ákærða X, enda bréfin keypt í gegnum bankann sem seldi flest stofnfjárbréf í sparisjóðnum.  Hann hafi þó undirritað skjöl varðandi lánið í sparisjóðnum. 

Varðandi seinni kaupin kvað hann þau hafa borið að með svipuðum hætti.  Ákærði X hafi haft samband við sig og spurt hvort hann hefði áhuga á að bæta við sig bréfum og kvaðst hann hafa haft það.  Ákærði hefði rætt við sig um fjármögnunina.  Hann kvaðst ekki hafa fengið upplýsingar um seljendur, hvorki vegna fyrri né síðari kaupanna.  Það sé ekki venja í hlutabréfaviðskiptum. 

Þ, sem var viðskiptafélagi E í Tæknisetrinu Arkea, bar að starfsemi félagsins hefði lagst af.  E hefði síðan fengið tilboð haustið 2008 um að kaupa stofnfjárbréf í Byr sparisjóði og spurt sig hvort væri í lagi að nota félagið til þess og hefði hann samþykkt það.  Þ kvaðst ekki hafa skipt sér af þessu, en farið með E á fund í Byr og skrifað undir lánasamning.  Einnig hefði hann farið í MP banka, en það hafi verið eftir að þeir fóru í Byr.  Í MP banka hittu þeir ákærða X sem hafi sagt þeim að hagnaðarvon væri í kaupunum á stofnfjárbréfunum.  Þ kvað þetta allt hafa gengið hratt fyrir sig og verið undirbúið í MP banka, en ekki vissi hann um hvaða starfsmenn var að ræða.  Hann tók fram að hann hefði ekki átt að koma að þessum kaupum, heldur hefði E ætlað að taka félagið til sín og eiga bréfin einn í gegnum það. 

Æ hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri Exeter Holdings ehf. bar að bú félagsins hefði verið tekið til skipta með úrskurði 3. maí 2011.  Hann kvað allt benda til þess að engar eignir væru í félaginu en það væri enn skráð eigandi að stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði.  Þótt kröfulýsingafrestur væri ekki liðinn þá kvað hann engar líkur á að krafa skiptabeiðanda greiddist.

Ö keypti stofnfjárbréf í Byr sparisjóði, í nafni einkahlutafélags, 19. september 2007.  Hann bar að hafa veðsett bréfin 100% til tryggingar kaupum á bréfunum.  Bréfin hafi verið mun meira virði samkvæmt gengi en yfirdrátturinn sem veittur var til kaupanna.   

IV

                Í I. kafla ákæru er ákærðu, Jóni Þorsteini og Ragnari, gefin að sök umboðssvik með því að hafa í október 2008 misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í stórfellda hættu, með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga, en í ákærunni er gerð nánari grein fyrir því.  Ákærðu eru ákærðir fyrir að hafa veitt lánið án fullnægjandi trygginga þar eð ekki hafi verið önnur veð fyrir því en stofnfjárbréfin sjálf, en það hafi brotið í bága við starfsreglur sparisjóðsins um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga.  Þá hafi þeir ekki metið greiðslugetu og eignastöðu lántakans, en eiginfjárstaða hans hafi verið neikvæð.  Loks hafi ákærðu verið vanhæfir til að ákveða lánveitinguna þar eð lántakinn var meðal annars að kaupa bréf í eigu ákærða Jóns Þorsteins og bréf í eigu einkahlutafélags er var að hluta í eigu ákærða Ragnars.    

                Ákærði Jón Þorsteinn byggir sýknukröfu sína meðal annars á því að hann hafi sem stjórnarformaður ekki haft heimildir til að lána fé.  Hann hafi því ekki staðið að lánveitingunni með meðákærða Ragnari eins og hann er ákærður fyrir.  Í III. kafla var aðkomu ákærða að lánveitingunni lýst og, eins og þar kom fram, var þáttur ákærða allverulegur í samningunum sem leiddu til þess að sparisjóðurinn lánaði Tæknisetrinu Arkea ehf. fyrir stofnfjárbréfunum.  Er þetta í samræmi við það sem ákærðu báru um hlutverk ákærða Jóns Þorsteins sem stjórnarformanns og aðkomu hans að stærri málum hjá sparisjóðnum.  Með vísun til þess er það niðurstaða dómsins að ákærðu hafi staðið í sameiningu að lánveitingunni eins og þeir eru ákærðir fyrir. 

                Meðal gagna málsins eru útlánareglur Byrs sparisjóðs, samþykktar af stjórn hans 24. janúar 2008.  Þar kemur meðal annars fram sú meginregla að við útlán skuli „meta áætlaða greiðslugetu og eignastöðu lánþega, framboðnar tryggingar og viðskipti við Byr með það fyrir augum að tryggja sem best að lántaki geti staðið við skuldbindingar sínar.“  Reglurnar eru allnákvæmar um það hvernig staðið skuli að útlánum af hálfu sparisjóðsins og hverjir hafi heimildir til að lána.  Í kafla um útlánaheimildir er sett fram sú almenna regla að sparisjóðsstjórar komi „með tillögu að starfsreglu um útlánaheimildir sem samþykkt er af stjórn.“  Útlánaheimildir voru samþykktar af stjórn sparisjóðsins sama dag og útlánareglurnar.  Um tilgang þessara reglna segir að hann sé „að lýsa útlánaheimildum ásamt því að leiðbeina starfsmönnum um fyrirkomulag útlánaheimilda og tegundir þeirra.“  Ábyrgð á verklagsreglunni er í höndum sparisjóðsstjóra.  Tegundir útlánaheimilda eru síðan flokkaðar í 7 flokka sem eru að mismunandi fjárhæðum, bæði hvað varðar einstaka fyrirgreiðslu og heildarfyrirgreiðslu.  Þá er einnig mismunandi hvort starfsmaður má taka ákvörðun um lánveitingu einn og þá hversu háa fjárhæð hann megi lána.  Þá er og tilgreint að ákvarðanir varðandi 5 lánaflokka megi ganga þvert gegn lánareglum.  Ákærðu, Jón Þorsteinn og Ragnar, byggja vörn sína meðal annars á því að samkvæmt þessari útlánaheimild hafi ákærði Ragnar, sem sparisjóðsstjóri, haft heimild til að taka einn ákvörðun um að lána allt að 1.500.000.000 króna og ganga þvert gegn lánareglum við þá ákvörðun.  Lánið, sem fjallað er um í þessum kafla ákærunnar, var innan þessarar heimildar og er því ekki hægt að fallast á það með ákæruvaldinu að ákærðu hafi farið út fyrir lánaheimildir þegar það var veitt.      

                Eins og áður segir var lánið veitt til kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum og var ekki tekin önnur trygging en veð í bréfunum sjálfum.  Í veðsamningnum segir að Tæknisetrið Arkea ehf. setji Byr sparisjóði að veði stofnfjárhluti sína í sparisjóðnum, „kr. 242.260.151 nafnverðseiningar að framreiknuðu nafnverði kr. 867.700.465 hinn 13. október 2008“.  Því er haldið fram í ákæru að veðið hafi ekki verið fullnægjandi og það brotið í bága við starfsreglur sparisjóðsins um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga að taka ekki frekari veð.  Í starfsreglum um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga fyrir sparisjóðinn er getið um eignir sem taka má veð í og hversu hátt veðsetningarhlutfallið má vera af áætluðu verðmæti, sem nánar er tilgreint hvernig skuli fundið út.  Í reglunum er ekki getið um stofnfjárbréf, hvorki í Byr sparisjóði né öðrum sparisjóðum.  Þar eru hins vegar nefnd hlutabréf, bæði skráð og óskráð.  Veðsetningarhlutfall í skráðum hlutabréfum átti að jafnaði að vera innan við 60%.  Almenna reglan varðandi óskráð hlutabréf var hins vegar sú að taka ekki veð í þeim, en væri það gert átti að meta verðmæti þeirra sérstaklega og veðsetningarhlutfall mátti að jafnaði vera 30% af matsverði.  Stofnfjárbréf voru ekki skráð á markaði og er því haldið fram af hálfu ákæruvaldsins að þau hafi átt að meta sem óskráð hlutabréf þegar sparisjóðurinn tók veð í þeim.  Af hálfu ákærðu er byggt á því að bréfin hafi verið fullnægjandi veð þar eð sparisjóðurinn hafi verið sterk fjármálastofnun á þessum tíma og allt bent til þess að hann myndi standa af sér hrunið á fjármálamarkaði haustið 2008.  Þá byggja ákærðu og á því að þótt bréfin hafi ekki verið skráð hafi verið viðskipti með þau og í þeim viðskiptum hafi myndast ákveðið gengi sem sagði til um verðmæti þeirra.  Þá verði að líta til þess að ákærðu og starfsmenn sparisjóðsins hafi þekkt stöðu hans og innviði og því verið færir um að leggja mat á raunverulegt verðmæti bréfanna.  Í útlánareglum sparisjóðsins sagði um lán með tryggingum að leggja skuli „áherslu á að fá góðar tryggingar fyrir útlánum og veittum ábyrgðum.  Byr metur hverju sinni hvort framboðnar tryggingar standist kröfur sem hann setur“ og síðan er vísað nánar í framangreindar starfsreglur sparisjóðsins um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga.  Meðal gagna málsins eru efnahagsreikningar Byrs sparisjóðs.  Samkvæmt efnahagsreikningi 30. september 2008 var eigið fé sparisjóðsins þá rúmir 48 milljarðar og hafði það rýrnað um 16,1% frá áramótum.  Eigið fé sparisjóðsins hafði þó aukist um rúma þrjár milljarða frá 30. júní 2008.  Þá eru og gögn um það í málinu að sparisjóðurinn hafi lánað allnokkuð fyrir kaupum á stofnfjárbréfum í sjóðnum og eingöngu tekið veð í bréfunum sjálfum.  Þegar litið er til sterkrar stöðu sparisjóðsins á þessum tíma, þekkingar ákærðu á starfsemi hans og þess að stofnfjárbréfin gengu kaupum og sölu á markaði er ekki hægt að fallast á með ákæruvaldinu að meta hafi átt bréfin eins og óskráð hlutabréf þegar þau voru tekin að veði.  Verður að fallast á það með ákærðu að starfsmenn sparisjóðsins hafi haft nægar upplýsingar um stöðu hans, auk þess sem ákveðið gengi var á bréfunum, til að meta sjálfstætt hvers virði bréfin voru sem veð.  Þá verður og að hafa í huga, auk þess sem rakið var, að nokkuð virðist hafa verið um það í starfsemi sparisjóðsins að lána fyrir kaupum á stofnfjárbréfum og þá eingöngu með veði í bréfunum sjálfum.  Samkvæmt framansögðu leikur verulegur vafi á hvort stofnfjárbréfin hafi verið ófullnægjandi trygging fyrir láninu á þeim tíma þegar það var veitt.  Þennan vafa verður að skýra ákærðu í hag, sbr. 108. og 109. gr. laga nr.  88/2008 og er niðurstaðan sú að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna að þeir   hafi brotið gegn reglum sparisjóðsins um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga með því að taka stofnfjárbréfin að veði.            

Þá er ákærðu gefið að sök að hafa veitt lánið án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lántakans.  Af gögnum málsins, þar með töldum skýrslum ákærðu, er ljóst að þessi atriði voru ekki athuguð.  Í útlánareglum sparisjóðsins kemur fram að meginreglan „við ákvörðun um útlán er að meta áætlaða greiðslugetu og eignastöðu lánþega, framboðnar tryggingar og viðskipti við Byr með það fyrir augum að tryggja sem best að lántaki geti staðið við skuldbindingar sínar.“  Af skýrslum má helst ráða að ákærðu hafi talið Tæknisetrið Arkea ehf. í svo sterkum tengslum við MP banka að jafna mætti stöðu þess við dótturfélag bankans og þess vegna hefði ekki þurft að athuga þessi atriði, enda sé það ekki gert í viðskiptum fjármálafyrirtækja.  Ákærðu hefði þó mátt vera ljóst við lágmarksathugun að þessi tengsl voru ekki milli bankans og einkahlutafélagsins.  Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákærðu hafi veitt lánið án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu lántakans og með því brotið gegn útlánareglum sparisjóðsins. 

                Loks er því haldið fram í ákærunni að ákærðu hafi verið vanhæfir til að taka ákvörðun um lánveitinguna vegna tengsla sem rakin eru í ákærunni.  Í siðareglum, sem eru í útlánareglum sparisjóðsins segir að starfsmenn hans eigi „ekki að taka þátt í meðferð mála er varða viðskipti þeirra sjálfra, viðskipti fyrirtækja eða einstaklinga sem þeir eru persónulega eða fjárhagslega tengdir nema þeir hafi sérstakt umboð sparisjóðsstjóra til þess.“  Samkvæmt þessu hefði ákærði Ragnar, sem hluthafi í Húnahorni ehf., ekki átt að koma að lánveitingunni og ákærði Jón Þorsteinn ekki heldur.  Þótt hann hafi ekki verið starfsmaður sparisjóðsins leiðir það af almennum reglum um vanhæfi að menn í hans stöðu eiga ekki að koma að ákvörðunum um eigin málefni eins og hér voru til umfjöllunar.  Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákærðu hafi verið vanhæfir til að ákveða lánveitinguna eins og haldið er fram í ákæru.  Það verður hins vegar ekki séð að þeir hafi verið vanhæfir til að taka ákvörðun að því er varðaði málefni annarra starfsmanna sparisjóðsins eða félaga tengdum þeim.

                Þegar lagt er mat á hvort ákærðu hafi misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum eins og þeir eru ákærðir fyrir verður að skera úr um hvort ásetningur þeirra hafi staðið til þess.  Hér að framan var gerð grein fyrir heimild ákærða Ragnars, sem sparisjóðsstjóra, til að lána allt að 1.500.000.000 króna og mátti hann við ákvörðun um lánveitingu ganga þvert gegn lánareglum.  Þá var og komist að því að óvarlegt væri að líta svo á að ákærðu hefðu ekki tekið fullnægjandi veð fyrir láninu.  Þegar litið er til þessa er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að ákærðu hefði á einhvern hátt mátt eða getað verið ljóst í byrjun október 2008 að þeir myndu með lánveitingunni binda sparisjóðinn þannig að hann biði fjártjón af.  Þeir hnökrar sem voru á lánveitingunni, og varða mat á greiðslugetu og eignastöðu lántakans og vanhæfni ákærðu til að koma að lántökunni, breyta ekki þeirri niðurstöðu.  Ákærðu brutu vissulega gegn verklagsreglum sparisjóðsins, en það eitt leiðir ekki til þess að ályktað verði að ásetningur þeirra hafi staðið til þess að misnota aðstöðu sína og stefna fé sparisjóðsins í stórfellda hættu eins og þeir eru ákærðir fyrir.  Samkvæmt þessu verður að sýkna ákærðu af I. kafla ákærunnar.

                Ákærði X er í a lið II. kafla ákærunnar ákærður fyrir hlutdeild í broti meðákærðu og með því að þeir hafa verið sýknaðir verður hann og sýknaður.  Í b lið er hann ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við fjármunum sem meðákærðu áttu að hafa aflað með umboðssvikum.  Meðákærðu hafa verið sýknaðir af ákæru fyrir umboðssvik og leiðir af því að ákærði verður einnig sýknaður af ákæru fyrir peningaþvætti. 

                Í III. kafla ákæru er ákærðu Jóni Þorsteini og Ragnari gefið hið sama að sök og í I. kafla varðandi lánveitinguna, sem nánar er lýst í kaflanum, að því frátöldu að þeir eru ekki taldir hafa verið vanhæfir.  Með vísun til þess sem segir í upphafi þessa kafla telur dómurinn sannað að ákærðu stóðu einnig sameiginlega að þessari lánveitingu.  Í II. kafla var rakinn framburður ákærðu um þessa lánveitingu og hvernig beiðnin um hana var lögð fyrir stjórn sparisjóðsins.  Fundur var haldinn í stjórn sparisjóðsins 19. desember 2008 og voru mættir ákærði Jón Þorsteinn stjórnarformaður, J, H og Ý.  Þá var ákærði Ragnar á fundinum.  Í fundargerð af þessum fundi kemur fram að tekinn er fyrir liður sem ber yfirskriftina:  Lánamál yfir heimildum samkvæmt lánareglum.  Þar segir meðal annars:  „Stjórn samþykkir lánalínu allt að fjárhæð 1.400.000.000 til handa einkahlutafélaginu Tæknisetur Arkea/Exiter Holdings kt. [...].  Trygging yrði í stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði, 100% veðsetning.“  Á sama fundi samþykkti stjórnin framsöl á stofnfjárbréfum D, sem í ákæru getur, til framangreinds félags.  Framburður J og H var rakinn í II. kafla en Ý var látinn þegar aðalmeðferð fór fram.  Af framburði þeirra H og J má ráða að ekki hefur mikið verið fjallað um þetta mál á fundinum og hvorugt þeirra mundi eftir að greina frá umræðum á þann hátt að á því sé byggjandi við úrlausn málsins.  Það kann að eiga sér þá skýringu sem fram kom í framburði L, fyrrum sparisjóðsstjóra, að ekki hafi verið farið nákvæmlega yfir lista um kaup og sölu stofnfjárbréfa á stjórnarfundum, enda hafi það verið stefna stjórnarinnar að hefta ekki á nokkurn hátt viðskipti með stofnfjárbréf.  Með vísun til framanritaðs er ekki annað hægt við úrlausn málsins en að byggja á hinni rituðu fundargerð og þar með því að stjórn sparisjóðsins hafi á fundinum samþykkt lánveitingu til framangreinds félags eins og rakið var.  Það er því ekki hægt að fallast á það með ákæruvaldinu að ákærðu hafi farið út fyrir heimildir með þessari lánveitingu og heldur ekki að lánið hafi verið veitt án fullnægjandi trygginga, þar eð stjórnin hafði samþykkt að hafa þennan hátt á.  Hins vegar má fallast á að lánið hafi verið veitt án þess að greiðslugeta og eignastaða lántakans hafi verið könnuð og vísast um það til umfjöllunar um I. kafla ákæru hér að framan.  Lítur dómurinn svo á að stjórnin hafi með réttu mátt treysta því að ákærðu hefðu metið þessi atriði í samræmi við reglur sparisjóðsins.  Þrátt fyrir að ákærðu hafi í þessu atriði brotið gegn verklagsreglum sparisjóðsins er ekki fallist á það með ákæruvaldinu að þeir hafi á þann hátt misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í stórfellda hættu eins og þeim er gefið að sök.  Ákærðu verða því einnig sýknaðir af þessum kafla ákærunnar.   

                Samkvæmt framangreindum málsúrslitum, og með vísun til 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, er skaðabótakröfu Byrs hf. vísað frá dómi.

                Sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði svo og málsvarnarlaun verjenda ákærðu sem tilgreind eru með virðisaukaskatti í dómsorði. 

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg dómsformaður og Ragnheiður Harðardóttir og Einar Ingimundarson héraðsdómslögmaður og hagfræðingur.

D Ó M S O R Ð :

                Ákærðu, Jón Þorsteinn Jónsson, Ragnar Zophonías Guðjónsson og X, eru sýknaðir af kröfu ákæruvaldsins.

                Skaðabótakröfu Byrs hf. er vísað frá dómi.

                Sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjenda ákærðu sem hér segir:  Reynir Karlsson hrl., 4.400.000 krónur, Ólafur Eiríksson hrl., 4.000.000 króna og Ragnar H. Hall hrl., 2.500.000 krónur.

Sératkvæði Ragnheiðar Harðardóttur héraðsdómara

I. kafli ákæru

Ég er sammála niðurstöðu meirihluta dómara um að ákærðu Jón Þorsteinn og Ragnar hafi staðið saman að lánveitingunni, án þess að meta greiðslugetu og eignastöðu lántakanda og að þeir hafi verið vanhæfir til að ákveða lánveitinguna. Ég tel hins vegar að sýnt hafi verið fram á að ákærðu hafi jafnframt farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og að lánið hafi verið veitt án fullnægjandi trygginga.

                Hinn 2. október 2008 sendi forstöðumaður áhættustýringar MP fjárfestingarbanka ákærða Ragnari Z. Guðjónssyni tölvupóst þar sem kom fram að vegna markaðsaðstæðna sæi bankinn sig knúinn til að gjaldfella lánssamninga hans á grundvelli force majeure-samningsákvæðis. Lánið hafði verið veitt einkahlutafélaginu Húnahorni sem var í eigu ákærða Ragnars og nokkurra annarra lykilstarfsmanna Byrs sparisjóðs, og gekk féð til að fjármagna kaup þeirra á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Fram er komið að starfsmenn MP banka höfðu, er þetta var, gengið eftir frekari tryggingum vegna láns sem ákærða Jóni Þorsteini Jónssyni hafði verið veitt til kaupa á stofnfjárbréfum og var persónulega ábyrgur fyrir. Í kjölfarið áttu ákærðu fund með meðákærða X og varð niðurstaðan sú að dótturfélag MP banka, Fleða ehf., myndi kaupa bréf þeirra aðila sem í ákæru greinir, m.a. bréf í eigu MP banka. Ákærðu Jóni Þorsteini og Ragnari ber saman um að meðákærði X hafi ákveðið gengi bréfanna og bar X fyrir dóminum að það hefði verið ákveðið með hliðsjón af því að MP banki fengi fullar endurheimtur á lánunum. Kvaðst X jafnframt hafa óskað eftir því að Byr lánaði til kaupanna. Hann kvað það síðan hafa gerst að stjórnarformaður bankans hefði hafnað því að dótturfélag bankans keypti bréfin og hefði orðið úr að Tæknisetrið Arkea ehf., sem var í eigu E, gengi inn í kaupin. Hinn 13. október var gengið frá 800.000.000 króna yfirdráttarláni Byrs til Tæknisetursins Arkea ehf. til kaupa á bréfunum og var lánið tryggt með 100% veði í þeim. Fyrir liggur að ákærðu Jón Þorsteinn og Ragnar könnuðu ekki stöðu félagsins eða greiðslugetu. Þá liggur fyrir að aldrei var greitt af láninu.

                Ákærði Jón Þorsteinn bar fyrir dóminum að lánveitingin hefði verið kynnt á fundi stjórnar Byrs 7. október 2008. Ákærði Ragnar bar hins vegar að lánveitingin hefði ekki verið borin undir stjórnina, en viðurkenndi að það myndi hafa verið heppilegra, einkum vegna tengsla hans við Húnahorn. Stjórnarmenn sem sátu fundinn hafa alfarið hafnað því að lánveitingin hafi verið borin undir þau og ekki kemur fram í fundargerð að það hafi verið gert. Er framburður ákærða Jóns Þorsteins um þetta í andstöðu við framburð annarra og gögn málsins og verður honum hafnað. Þá liggur fyrir að málið var ekki lagt fyrir lánanefnd bankans.

                Í atkvæði meirihluta dómsins er gerð ítarleg grein fyrir útlánareglum Byrs og starfsreglu stjórnar um útlánaheimildir frá janúar 2008. Svo sem þar er rakið kemur m.a. fram í útlánareglum að við hverja lánveitingu til stærri rekstraraðila skuli mat lagt á rekstur, efnahag og greiðslugetu lántakanda, svo og tryggingarstöðu. Þá er vísað til starfsreglu um veðsetningarhlutföll tryggingaandlaga þar sem m.a. kemur fram að við mat á veðandlagi í skráðum hlutabréfum skuli veðsetning að jafnaði vera innan við 60%, en innan við 30% við mat á óskráðum hlutabréfum. Í starfsreglu stjórnar um útlánaheimildir kemur m.a. fram að við lánastarfsemi skuli gætt ýtrustu varfærni á öllum sviðum. Gagnaöflun er tengist ákvörðunartöku skuli vandlega unnin og fylgt fyrirmælum útlánareglna. Í töflu um útlánaheimildir kemur fram að sparisjóðsstjóra og lánanefnd sé heimilt að veita lán allt að fjárhæð 1,5 milljarði króna og megi ganga þvert gegn lánareglum við þá ákvörðun. Í málinu liggur fyrir listi sparisjóðsins vegna lánveitinga með veði í stofnfjárbréfum frá desember 2006 til og með desember 2008 og verður af honum ráðið að krafa um tryggingarhlutfall hafi verið verulega hærri en við lánveitinguna sem hér um ræðir og veðhlutfall talsvert umfram 100% af lánsfjárhæð.

Ákærðu Jón Þorsteinn og Ragnar byggja vörn sína m.a. á því að ákærði Ragnar hafi sem sparisjóðsstjóri haft heimild til að taka einn ákvörðun um að lána allt að 1,5 milljarði króna og ganga þvert gegn lánareglum við þá ákvörðun. Er sú túlkun í andstöðu við það sem kom fram hjá ákærða Ragnari við skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara 26. apríl 2010 er ákærði kvaðst ekki hafa haft heimild til að veita lán í andstöðu við lánareglur. Þá bar R, innri endurskoðandi Byrs sparisjóðs á þessum tíma, að í starfsreglu stjórnar væri einvörðungu verið að vísa til innbyggðra lánareglna í tölvukerfi sparisjóðsins þar sem lánaheimildir eru skráðar. Jafnvel þótt svo yrði litið á að ákærði Ragnar hefði mátt ganga gegn lánareglum var kveðið á um það með skýrum hætti í starfsreglu stjórnar að við lánastarfsemi skyldi gætt ýtrustu varfærni á öllum sviðum og gagnaöflun er tengdist ákvörðunartöku skyldi vandlega unnin.      

Af framburði vitna verður ráðið að mikil óvissa var um gengi stofnfjárbréfa í Byr á þeim tíma sem lánið var veitt og að um áhættusama lánveitingu var að ræða. Vísast þar einkum til framburðar vitnanna L sparisjóðsstjóra, N, sem sat í lánanefnd sparisjóðsins, og P, yfirmanns áhættustýringar. Er þetta var blasti við algjört hrun á fjármálamarkaði í landinu, en þremur stærstu viðskiptabönkunum voru skipaðar skilanefndir dagana 7. og 9. október. Hafði það víðtæk áhrif á viðskipti með hlutabréf. Fram kom hjá fyrrnefndum L og N, að fall stóru bankanna hefði haft í för með sér fjárhagslegt áfall fyrir Byr og hafi sparisjóðsstjórarnir komið að vinnu við að meta tjón bankans, sem á þessum tíma hafi verið áætlað 15 til 20 milljarðar. Samkvæmt 10 mánaða uppgjöri frá 31. október 2008, sem liggur fyrir í málinu, hafði eigið fé sparisjóðsins lækkað um 13 milljarða frá því í lok september, eða um 27%. Þótt menn hafi almennt bundið vonir við að sparisjóðurinn myndi standa af sér áfallið gat það ekki farið fram hjá stjórnendum að fjárhagslegt tjón var mikið, sem hlaut að hafa áhrif á virði stofnfjárbréfa. Til marks um þá óvissu sem var um gengi bréfanna er tölvupóstur L, dags. 16. október, til Q, regluvarðar Byrs sparisjóðs, sem hafði óskað eftir láni með veði í stofnfjárbréfum sínum. Í tölvupóstinum kemur fram að miðað hafi verið við gengið 1 á bréfunum og að lánið yrði veitt með 50% veði í þeim. Q bar fyrir dóminum að þessi samskipti endurspegluðu mat hans á verðmæti bréfanna á þessum tíma. Þá kom fram hjá honum að þótt sparisjóðsstjórar hefðu haft útlánaheimild samkvæmt starfsreglu stjórnar hefði verið fylgt þeirri verklagsreglu að leggja öll mál fyrir lánanefnd og hafi það ekki síst átt við á þeim tíma sem hér um ræðir, en lausafjárskortur hefði verið hjá sparisjóðnum.  

                Við þessar aðstæður tóku ákærðu ákvörðun um og veittu 800.000.000 króna yfirdráttarlán til félags sem þeir þekktu ekki til, án þess að kanna stöðu þess eða greiðslugetu, en félagið reyndist hafa neikvæða eiginfjárstöðu. Lánið var veitt til kaupa á stofnfjárbréfum gegn veði í bréfunum sjálfum en engum tryggingum öðrum. Lánveitingin var ekki í samræmi við útlánareglur Byrs um mat á greiðslugetu og eignastöðu lántakanda og veðsetningarhlutföll tryggingaandlaga, auk þess sem mikil óvissa var um verðmæti bréfanna, svo sem rakið hefur verið. Lánið var veitt til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í eigu MP banka, ákærðu og lykilstarfsmanna Byrs, eða félögum þeim tengdum. Með lánveitingunni losnuðu þeir síðarnefndu undan skuldbindingum við MP banka, sem sumir báru persónulega ábyrgð á, en MP banki fékk lánin að fullu greidd og söluandvirði eigin bréfa að auki. Þegar framangreint er virt verður að líta svo á að ákærðu hafi með lánveitingunni misnotað aðstöðu sína í sparisjóðnum sjálfum sér og öðrum til ávinnings með þeim hætti að þeim hlaut að vera ljóst að veruleg fjártjónshætta stafaði af fyrir sparisjóðinn, sem kom á daginn, því lánið fékkst ekki endurheimt. Tel ég að ákærðu hafi með þessu gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar við 249. gr. almennra hegningarlaga.

II. kafli ákæru

Ég er sammála niðurstöðu meirihlutans um að sýkna ákærða X, en niðurstaða mín um sakfellingu samkvæmt I. kafla ákæru leiðir til þess að forsendur fyrir sýknu ákærða eru aðrar en í atkvæði meirihlutans greinir.             

Ákærða X er í a. lið II. kafla ákæru gefin að sök hlutdeild í broti meðákærðu samkvæmt I. ákærulið. Þá er ákærða í b. lið gefið að sök peningaþvætti með því að taka við fjármunum sem aflað hafi verið með umboðssvikum meðákærðu. Er brot hans samkvæmt síðari ákæruliðnum talið varða við 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, en málið var jafnframt flutt fyrir dóminum með hliðsjón af 4. mgr. sömu lagagreinar.

                  Aðkomu ákærða X að málinu hefur áður verið lýst. Ákærði var forstjóri MP banka og gætti hagsmuna hans við þá samningsgerð sem um ræðir. Hann var hins vegar ekki í stöðu til að ákveða hvernig staðið yrði að lánveitingunni af hálfu Byrs sparisjóðs og hafði enga aðkomu að afgreiðslu málsins þar. Hefur ekki verið sýnt fram á að ákærða hafi ekki getað dulist að meðákærðu stóðu með ólögmætum hætti að lánveitingunni. Með vísan til 108. og 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 telst ósannað að ákærði hafi gerst sekur um hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu. Samkvæmt framansögðu telst jafnframt ósannað að ákærða hafi mátt vera ljóst að fjármunum sem hann tók við fyrir hönd MP banka hefði verið aflað með umboðssvikum meðákærðu, svo að hann teljist hafa gerst sekur um peningaþvætti af ásetningi eða gáleysi. Verður ákærði sýknaður af báðum ákæruliðum.

III. kafli ákæru

Ákærði Jón Þorsteinn hefur lýst aðdraganda að síðari lánveitingunni þannig að F og D hafi farið fram á það við hann að Byr sparisjóður veitti honum lán til kaupa á stofnfjárbréfum í eigu D, sem fjármögnuð hefðu verið með láni frá Glitni banka, en D var í persónulegum ábyrgðum fyrir láninu. Kvað ákærði D með þessu hafa verið að „rukka inn greiða“. Í framhaldinu kvaðst ákærði hafa rætt það við meðákærða Ragnar að hækka lánalínu til félags E, sem nú bar heitið Exeter Holdings, til að fjármagna kaup félagsins á bréfunum. Hafi þeir verið sammála um að leggja málið fyrir stjórn sparisjóðsins. Á stjórnarfundi 19. desember 2008 kveðst ákærði Jón Þorsteinn hafa kynnt málið þannig að verið væri að veita umræddu félagi lán til að kaupa stofnfjárbréf. Ákærði Ragnar bar að lítil umræða hefði verið um málið á fundinum og hefði hann talið að allir vissu um hvað það snerist, enda hefði meðákærði sagst ætla að ræða það við stjórnarmenn fyrir fundinn.

Stjórnarmennirnir H og J, sem sátu fundinn, hafa borið að málið hafi verið kynnt með þeim hætti að verið væri að framlengja yfirdráttarlán í nokkra  mánuði með hækkun til að mæta vöxtum og kostnaði. Á sama veg bar Ý stjórnarmaður við skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara. Vitnið er nú látið, en skýrsla hans verður tekin til greina sem sönnunargagn, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Vitnin vísuðu því alfarið á bug að hafa á fundinum veitt ákærðu heimild til að veita umræddu félagi lán til kaupa á stofnfjárbréfum, en fundargerð þar sem um þetta er bókað, var lögð fram til undirritunar eftir að lánið hafði verið veitt. Samkvæmt því verður ekki á því byggt að samþykki stjórnar hafi legið fyrir lánveitingunni, enda er framburður ákærðu um þetta ekki ótvíræður.

Hinn 29. desember 2008 var afgreitt ríflega 204.452.265 króna viðbótar yfirdráttarlán til einkahlutafélagsins Exeter Holdings til kaupa á stofnfjárbréfunum og voru tryggingar sem fyrr alfarið með veðum í bréfunum sjálfum. Samkvæmt því sem rakið hefur verið var óvissa um gengi stofnfjárbréfanna á þessum tíma. Kom fram hjá ákærða Ragnari að hann hafi, er þetta var, gert sér grein fyrir því að efnahagshrunið gæti haft meiri afleiðingar fyrir sparisjóðinn en hann hefði áður talið. Samkvæmt samstæðureikningi Byrs, sem undirritaður var af stjórn í mars 2009, nam eigið fé sparisjóðsins 16,2 milljörðum króna í árslok 2008, og hafði þá lækkað um 66% frá í lok september. Eiginfjárhlutfall var 8,3%, en mátti ekki vera lægra en 8% samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki. Svo sem ákærðu hafa sjálfir borið þekktu þeir stöðu sparisjóðsins manna best. Ákærðu lögðu ekki frekar en í fyrra skiptið mat á greiðslugetu og eignastöðu lántakanda í samræmi við útlánareglur og sem fyrr var lánveitingin ekki í samræmi við reglur um veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga. Hafði D augljósa fjárhagslega hagsmuni af viðskiptunum sem lánað var til. Með þeim röksemdum sem raktar eru varðandi ákærulið I tel ég að ákærðu hafi einnig með háttsemi sinni samkvæmt þessum ákærulið gerst sekir um brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. 

Þar sem meirihluti dómsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að sýkna beri ákærðu Jón Þorstein og Ragnar er ekki ástæða til að fjalla um refsingu ákærðu eða greiðslu skaðabóta, en dómendur eru sammála um að sýkna beri ákærða X.

Að fenginni niðurstöðu meirihluta dómsins er ég sammála honum um sakarkostnað, þ.m.t. ákvörðun málsvarnarlauna skipaðra verjenda ákærðu.