Print

Mál nr. 384/2005

Lykilorð
  • Ríkisstarfsmenn
  • Uppsögn
  • Áminning
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. mars 2006.

Nr. 384/2005.

Raimund Bernhard Brockmeyer Urbschat

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

og gagnsök

 

Ríkisstarfsmenn. Uppsögn. Áminning. Skaðabætur. Gjafsókn.

R starfaði á sambýli fatlaðra á Blönduósi þegar honum var sagt upp starfinu 1998. Var ástæða uppsagnarinnar ágreiningur, sem reis vegna afskipta hans af umsókn manns um starf á sambýlinu, en R var talinn hafa gerst brotlegur í starfi með framgöngu sinni. Þá var þar enn fremur vísað til tveggja áminninga, sem hann hafði fengið árið 1997, vegna atvika er vörðuðu útreikning launa. Talið var að á það hefði skort að fyrirmælum 44. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 21. gr. sömu laga, hefði verið fylgt áður en R var sagt upp þar sem áminningarnar frá 1997 voru veittar af tilefni, sem var óskylt þeim ástæðum, sem uppsögnin studdist við. Þá var meðferð málsins talin stangast á við andmælareglu 13. gr. laga nr. 37/1993. Áminningarnar voru enn fremur felldar úr gildi þar sem R hafði ekki verið veitt færi á að tala máli sínu áður en þær voru veittar. Þar sem ákvörðun um uppsögn var ekki tekin með lögmætum hætti átti R rétt á skaðabótum. Við ákvörðun bóta var meðal annars tekið tillit til þess að hann varð offari í framgöngu sinni, þegar hann leitaðist við að hindra ráðningu mannsins, sem leiddi til samskiptavanda á vinnustaðnum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2005 og krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 26.271.670 krónur með vöxtum samkvæmt II. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. desember 1998 til 1. júlí 2001 og II. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 14.  nóvember 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann 23.187.415 króna með vöxtum eins og í aðalkröfu. Þá krefst hann að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um að áminningar, sem honum voru veittar 30. maí 1997 og 20. júní sama ár, verði felldar úr gildi. Aðaláfrýjandi krefst loks málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 26. október 2005. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, til vara að bótafjárhæð samkvæmt héraðsdómi verði lækkuð, en að því frágengnu að stefnukrafa aðaláfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður á báðum dómstigum látinn falla niður.

I.

Með samningi 15. ágúst 1996 var aðaláfrýjandi ráðinn starfsmaður á sambýli fatlaðra á Blönduósi þar til honum var sagt upp starfinu 7. október 1998. Í uppsagnarbréfi var tekið fram að ekki væri óskað eftir frekara vinnuframlagi aðaláfrýjanda og að hann skyldi þegar láta af störfum. Voru honum greidd laun út uppsagnarfrest til 15. desember 1998.

Ástæða uppsagnarinnar var ágreiningur, sem reis vegna afskipta aðaláfrýjanda af umsókn manns um starf á sambýlinu. Lauk deilunni með því að aðaláfrýjanda var sagt upp vegna brota í starfi, sem yfirmenn hans töldu að hann hafi gerst sekur um. Á árinu 1997 hafði honum tvívegis verið veitt áminning vegna atvika, sem vörðuðu útreikning launa starfsmanna sambýlisins. Um málavexti og málsástæður aðilanna vísast að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar í héraðsdómi.

II.

Af hálfu aðaláfrýjanda er haldið fram að áðurnefndar áminningar hafi verið veittar af tilefni, sem var alls óskylt þeim atvikum, sem urðu um haustið 1998 og leiddu til starfsloka hans. Af þeim sökum hafi áminningarnar hvað sem öðru líður ekki getað orðið grundvöllur fyrrnefndrar uppsagnar, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Á þetta var fallist í héraðsdómi. Verður sú niðurstaða staðfest með vísan til forsendna hans.

Aðaláfrýjandi krefst þess jafnframt að áminningarnar verði felldar úr gildi, en þær hafi verið ólögmætar bæði að því er varðar form og efni. Óumdeilt er að honum var ekki veitt færi á að tala máli sínu áður en þær voru veittar svo sem þó var skylt, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Verður niðurstaða héraðsdóms um að fella áminningarnar úr gildi því staðfest. Reynir þá ekki sérstaklega á hvort þeim hafi einnig verið áfátt að efni til svo sem aðaláfrýjandi heldur fram.

Við uppsögn aðaláfrýjanda úr starfi 7. október 1998 var ekki gætt ákvæða 1. mgr. 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996, og honum ekki gefinn kostur á að tjá sig áður en ákvörðun um uppsögn var tekin, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hún var því ekki tekin með lögmætum hætti og á aðaláfrýjandi rétt á bótum vegna tjóns, sem hann hefur orðið fyrir af þeim sökum. Verður fjárhæð þeirra ákveðin í ljósi dómvenju með tilliti til allra aðstæðna, þar á meðal að aðaláfrýjanda voru greidd laun á umsömdum uppsagnarfresti. Áður var getið ástæðu uppsagnar aðaláfrýjanda, sem tengdist umsókn manns um starf á sambýlinu þar sem hann hafði starfað áður og grunsemdum hins fyrrnefnda um að maðurinn hafi þá gerst sekur um brot í starfi. Athugun yfirmanna stofnunarinnar leiddi ekkert í ljós, sem stutt gat staðhæfingar aðaláfrýjanda. Engu að síður hélt hann ásökunum sínum til streitu í viðleitni til að hindra ráðningu mannsins auk þess að rjúfa trúnað um viðkvæmt málefni, svo sem rakið er í héraðsdómi. Við ákvörðun bóta verður þannig einnig litið til þess að aðaláfrýjandi varð offari í framgöngu sinni í málinu, sem leiddi til samskiptavanda milli hans annars vegar og yfirmanna og annarra starfsmanna sambýlisins hins vegar. Að virtum öllum atvikum í málinu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um bótafjárhæð handa aðaláfrýjanda og að hafna jafnframt sérstakri kröfu hans um miskabætur. Verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða bótafjárhæðina með vöxtum eins og nánar segir í dómsorði og að því gættu að vextir, sem féllu til meira en fjórum árum fyrir höfðun málsins, eru fyrndir.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda verður staðfest. Gjafsóknarkostnaður hans fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Raimund Bernhard Brockmeyer Urbschat, 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. október 2000 til 1. júlí 2001 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 14. nóvember 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um að áminningar, sem aðaláfrýjanda voru veittar 30. maí 1997 og 20. júní sama ár, séu felldar úr gildi skal vera óraskað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda skal vera óraskað.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. maí sl., var höfðað 13. október 2004 af Raimund B. Brockmeyer Urbschat, Litla Búrfelli, Blönduósi, gegn íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða 26.271.670 krónur auk vaxta samkvæmt II. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. desem­ber 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt II. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 14. nóvember 2004, en ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 23.187.415 krónur auk vaxta og dráttarvaxta eins og í aðalkröfu. Þá er þess krafist að þær ætluðu áminningar sem stefnanda voru veittar 30. maí og 20. júní 1997 verði dæmdar ólögmætar, bæði hvað varðar form og efni, og þær felldar úr gildi. Krafist er málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn 19. desember 2002.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði látinn falla niður.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi starfaði við sambýli fatlaðra á Blönduósi frá miðjum ágúst 1996 þar til honum var sagt upp störfum 7. október 1998. Í uppsagnarbréfi þann dag kemur fram að laun verði greidd út uppsagnarfrest til 15. desember 1998, en ekki væri óskað eftir að stefnandi ynni þann tíma heldur léti af störfum frá og með móttöku uppsagnar­bréfsins og gerði hann það.

Stefnandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir uppsögninni samkvæmt 44. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 með bréfi 12. október 1998. Í rökstuðningi Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra Norðurlandi vestra 20. sama mánaðar segir meðal annars að með ógætilegum yfirlýsingum og ásökunum á samstarfsmann eða -menn og með því að gefa í skyn að starfsemi á sambýlinu sé saknæm án þess að geta rökstutt það hafi stefnandi varpað rýrð á starfsemina, sam­starfs­­fólk og yfirmenn. Viðræður við aðstandendur meðan athugun á málinu fór fram séu í hæsta máta ámælis­verðar og bæði brot á þeim trúnaði sem um hafi verið rætt á fundi 29. september að gilti um málið meðan það væri í athugun og um leið brot á fyrirmælum yfirboðara. Stefnandi hafi brotið gegn þagnarskyldu samkvæmt 18. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með því að ræða við starfsmenn svæðis­skrifstofu á öðrum sambýlum og við utanaðkomandi einstaklinga um málið. Einnig hafi stefnandi sýnt af sér vankunnáttu samkvæmt 21. gr. sömu laga með því að ræða við foreldra um sakargiftir, sem stefnandi hafi borið á annan starfsmann sambýlisins, áður en þær hefðu verið kannaðar. Stefnandi hafi unnið að „rannsókn” á meintum ávirð­ingum án samráðs við yfirmenn. Trúnaðarbrestur hafi orðið milli stefnanda og yfir­manns hans og samstarfsmanna á sambýlinu, sem hafi alfarið hafnað ásökunum stefn­anda, og hafi leitt til að fyrirsjáanlega yrði ekki um frekara samstarf milli stefnanda og þeirra að ræða. Þessar væru ástæður fyrir uppsögninni en stefnandi hefði áður fengið tvö áminningarbréf, dagsett 30. maí og 20. júní 1997, og einnig tvö önnur bréf varðandi starf stefnanda og með hvaða hætti honum bæri að sinna því vildi hann halda starfi. Í öðru þeirra, dagsettu 30. júní 1997, hafi verið bent á að áframhaldandi samstarfsörðugleikar vörðuðu uppsögn.

Stefnandi telur uppsögnina ólögmæta og krefst skaðabóta vegna annmarka á henni. Stefnandi telur einnig að áminningarnar, sem honum voru veittar 30. maí og 20. júní 1997, hafi verið ólögmætar og því beri að fella þær úr gildi. Honum hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig áður en þessar ákvarðanir voru teknar og hafi því verið brotið á rétti hans til andmæla. Einnig hafi efnislegir annmarkar verið á ákvörðunum um að veita stefnanda áminningar, sem veittar hafi verið á röngum forsendum. Engin áminning hafi verið veitt áður en stefnanda var sagt upp, eins og skylt hafi verið að gera samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, en fyrri áminningar hafi ekkert gildi í þessu sambandi þar sem þær hafi verið veittar út af allt öðru.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að uppsögnin og áminningarnar hafi verið ólögmætar. Mótmælt er einnig að uppfyllt séu skilyrði bótaskyldu stefnda. Til vara er bótakröfum stefnanda mótmælt sem allt of háum, en forsendur sem stefnandi miði við í útreikningum á þeim eigi sér enga stoð í dómvenju.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að hann hafi starfað við sambýli fatlaðra á Blönduósi er atvik máls þessa hafi átt sér stað. Frá apríl 1997 til uppsagnardags hafi stefnandi einnig verið trúnaðarmaður starfsmanna á sambýlinu. Vegna starfa hans sem trúnaðar­manns hafi meðal annars komið upp ágreiningur milli hans og forstöðumanns sam­býlis­ins vegna aðferðar forstöðumanns við að reikna út laun starfsmanna. For­stöðu­maðurinn hafi ávallt viljað rúnna unnin brot úr klukkustund niður, t.d. þannig að starfsfólk sambýlisins færði 0,46875 klukku­stund sem 0,46 klukkustund í stað 0,47. Hafi starfsmönnum verið uppálagt að færa vinnuskýrslur sínar með þeim hætti. Stefnandi hafi hins vegar talið eðlilegra að færa þær þannig að námundað væri upp á við, þar sem það ætti við, en ekki ávallt niður á við. Stefnandi hafi sjálfur fyllt út sína vinnuskýrslu þannig. Stefnandi hafi síðan fært tillögu sína með þessum leiðréttingum inn á leiðbeiningarskjal forstöðumannsins til starfsmanna og hafi hann afhent skjal með breytingartillögum sínum á fundi yfirmanna Svæðisskrifstofu og trúnaðarmanna af svæðinu og formanna verkalýðs­hreyfinga. Forstöðumaður sambýlisins hafi verið í sumarfríi meðan á þessu stóð. Vegna þessa hafi forstöðumaðurinn veitt stefnanda áminningu 30. maí 1997 og aftur 20. júní sama ár vegna þess að hann hafði skilaði inn vinnuskýrslu fyrir sam­starfs­mann sinn samkvæmt beiðni hans, þar sem tölur hafi verið námundaðar upp á við en ekki niður þar sem það hafi átt við.

Auk þessara áminninga hafi framkvæmdastjóri svæðisskrifstof­unnar skrifað stefnanda bréf 30. júlí sama ár, þar sem bent hafi verið á að fleiri áminningar yrðu ekki veittar að fengnum þessum tveimur áminningum og skortur á vilja og hæfni til samstarfs hlyti að valda starfslokum. Í bréfi framkvæmda­stjóra svæðis­skrifstofunnar 27. ágúst s.á. hafi þetta verið áréttað. Bæði þessi bréf lúti að framan­greindum áminningum.

Haustið 1998 hafi stefnandi talið sig hafa ástæðu til að ætla að fyrrverandi starfs­maður sambýlisins hefði beitt einn heimilismanna líkamlegu ofbeldi. Er viðkomandi hugðist sækja um starf á ný við sambýlið hafi stefnandi greint trúnaðarmanni fatlaðra fyrir Norðurland vestra og félagsráðgjafa, er starfaði á svæðisskrifstofu um málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra, frá grunsemdum sínum. Framkvæmdastjóri svæðisskrifstofunnar hafi haldið fund með ýmsum aðilum 29. septem­ber sama ár og í kjölfar þess hafi hann hafið sjálfstæða athugun á því hvað hæft væri í grunsemdum stefnanda. Enn fremur hafi hann óskað eftir sjálfstæðri athugun trúnaðarmanns fatlaðra á málinu. Stefnandi hafi skrifað greinargerð 2. október s.á. vegna málsins þar sem hann reki þau atriði sem hann hafi talið að styddu fram komnar grunsemdir sínar. Niðurstaða athugunar þeirrar sem fram fór hafi verið sú að ásakanir stefnanda væru tilhæfulausar. Framkvæmdastjórinn hafi afhent stefnanda uppsagnar­bréf 7. október s.á. og gert honum að láta af störfum þá þegar. Stefnandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir uppsögninni með bréfi 12. október s.á. Í rökstuðningi framkvæmdastjórans 20. október s.á. komi m.a. fram að stefnandi hefði varpað rýrð á starfsemi sambýlisins, samstarfsfólk og yfirmenn með ásökunum sínum. Þá hafi það verið í hæsta máta ámælisvert og brot á trúnaði að ræða við aðstandendur viðkomandi heimilismanns á meðan málið væri í athugun. Framkvæmdastjórinn hafi talið framan­greint ærna ástæðu fyrir uppsögn stefnanda, en auk þess vísað til tveggja áminningar­bréfa, sem stefnandi hefði móttekið árið áður, og tveggja annarra bréfa sem honum hefðu verið send og vörðuðu það með hvaða hætti honum bæri að sinna starfi sínu. Í öðru þeirra hafi verið bent á að áframhaldandi samstarfsörðugleikar vörðuðu uppsögn.

Stefnandi hafi ritað félagsmálaráðuneytinu bréf 7. nóvember 1998 þar sem uppsagnarbréfi og rökstuðningi svæðisskrifstofunnar hafi verið mótmælt. Hann hafi gert ítarlega grein fyrir afstöðu sinni og talið uppsögnina og áminn­ingarnar á árinu 1997 ólögmætar.

Ráðuneytið hafi óskað eftir skýringum framkvæmdastjóra svæðisskrifstofunnar vegna erindis stefnanda. Í svarbréfi framkvæmdastjórans 19. nóvember 1998 komi fram frekari skýringar á því að stefnanda var sagt upp störfum. Þar segi meðal annars að stefnandi hefði haldið áfram dylgjum sínum án þess að virðast gera sér grein fyrir alvarleika málsins og án þess að geta rökstutt þær. Þar sem ljóst hafi verið að vakað hafi fyrir stefnanda að hindra með öllum ráðum að hinn fyrrverandi starfsmaður yrði ráðinn, án þess að geta rökstutt málatilbúnað sinn með öðru en dylgjum, hafi að mati framkvæmdastjóra ekki verið um annað að ræða en víkja stefnanda úr starfi.

Stefnandi hafi ritað félagsmálaráðuneytinu í annað sinn 17. janúar 1999 og kært formlega uppsögnina með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hann hafi talið ákvörðun svæðisskrifstofunnar bæði haldna formlegum og efnislegum annmörkum.  Tilskildar leiðbeiningar hefðu ekki fylgt við birtingu ákvörðunarinnar, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi hann gert athugasemdir við orðalag rökstuðningsins og enn fremur að í honum sé vísað til atvika sem gerst hefðu eftir að uppsögnin átti sér stað. Hann hefði ekki sýnt af sér vankunnáttu í starfi.

Í bréfi ráðuneytisins til stefnanda 18. mars 1999 komi fram að trúnaðar­brestur milli stefnanda og annarra starfsmanna á sambýlinu og svæðis­skrif­stofu og svæðisráðs hefði verið ástæða uppsagnar hans. Ráðuneytið hefði í fyrsta lagi vísað til þeirra aðferða sem stefnandi hafi viðhaft við að kanna launaútreikning forstöðumanns á sambýlinu á árinu 1997, sem hefðu leitt til þess að stefnanda voru veittar áminningar 30. maí og 20. júní 1997.  Í öðru lagi hafi ráðuneytið vísað til hins alvarlega áburðar stefnanda haustið 1998 um meint ofbeldi ákveðins starfsmanns á sambýlinu gagnvart tilteknum heimilismönnum þess, en rann­sóknir sem gerðar hefðu verið hefðu ekki reist stoðir undir áburð hans eða gefið tilefni til frekari aðgerða. Í framhaldi af þessum atburðum hafi stefnanda verið sagt upp. Þá hafi ráðuneytið talið að málið hefði verið kannað með eðlilegum hætti innan stjórn­sýslunnar og sjónarmið beggja aðila hefðu komið fram. Stefnandi hefði ekki komið til réttra aðila þeim ávirðingum sem hann hafi haft í frammi um meint ofbeldi starfsmanns sambýlisins gagnvart fötluðum heimilis­mönnum þrátt fyrir alvarlegar ásakanir. Að lokum hafi ráðuneytið tekið fram að mikilvægur liður í faglegri þjónustu við fatlaða heimilismenn væri að þar ríkti friður manna á milli, góður starfsandi og að fullur trúnaður ríkti á milli starfsmanna sambýlisins innbyrðis. Einnig að fullur trúnaður ríkti milli starfsmanna og eftirlitsaðila málaflokksins á svæðinu. Skortur á vilja eða hæfni til samstarfs meðal starfsmanna, sem leiddi til trúnaðarbrests og óróa á svo viðkvæmum og sérstökum vinnustað, bitnaði óhjákvæmilega á þjónustunni við fatlaða og gæti því ekki viðgengist. Með hliðsjón af framangreindu hafi ráðuneytið ekki gert efnislega athugasemd við uppsögn stefnanda og ekki talið grundvöll fyrir því að hann gæti snúið aftur til starfa á sam­býlinu.

Stefnandi hafi leitað til umboðsmanns Alþingis 14. nóvember 1999 og kvartað yfir meðferð félagsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukærum til ráðuneytisins. Kærur hans hafi annars vegar lotið að uppsögn hans úr starfi og hins vegar að meðferð réttargæslumáls vegna athugasemda hans um meint harðræði gagnvart heimilismanni á sambýlinu. Umboðsmaður hafi lokið málinu 27. febrúar 2001 með þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið leyst úr stjórnsýslukæru stefnanda vegna uppsagnar hans úr starfi í samræmi við lög þar sem ráðuneytið hafi ekki úr­skurð­að um lögmæti ákvörðunarinnar samkvæmt 44. gr. laga nr. 70/1996 og VII. kafla stjórnsýslulaga. Þá hafi umboðs­maður komist að þeirri niðurstöðu að staðhæfing í bréfi ráðuneytisins 18. mars 1999 til stefnanda, um að hann hafi ekki leitað til réttra aðila með erindi um að hann teldi að einn heimilismanna sambýlisins hefði sætt harðræði af hálfu fyrrverandi starfsmanns sambýlisins, samrýmdist ekki 37. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Í ljósi niðurstöðunnar hafi umboðsmaður beint þeim tilmælum til félagsmála­ráðuneytisins að það tæki mál stefnanda fyrir á ný kæmi fram ósk frá honum um það og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu. Með bréfi 26. júní 2001 hafi stefnandi óskað eftir því að félagsmálaráðuneytið tæki mál hans fyrir að nýju og hafi félagsmálaráðuneytið úrskurðað í málinu 6. febrúar 2002. Niður­staða ráðuneytisins hafi verið sú að Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra hafi ekki gætt ákvæða 44. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 um andmælarétt, sbr. reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um málsmeðferð er tekin var ákvörðun um uppsögn stefnanda úr starfi 7. október 1998.

Á grundvelli þessarar niðurstöðu telji stefnandi sig eiga bótarétt á hendur stefnda vegna þeirra réttindabrota sem hann hafi sætt vegna uppsagnar úr starfi hjá Svæðis­skrifstofu um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra. Einnig telji stefnandi áminn­ing­arnar frá 30. maí og 20. júní 1997 ólögmætar, bæði að formi og efni.

Um ráðningarsamband málsaðila hafi gilt lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en uppsögnin hafi þurft að uppfylla skilyrði laganna til að hún gæti talist gild. Í 43. gr. laganna sé forstöðumanni stofnunar heimilað að segja starfs­manni upp störfum eftir því sem fyrir sé mælt í ráðningarsamningi. Í 1. mgr. 44. gr. segi að skylt sé að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt, áður en honum er sagt upp störfum, eigi uppsögn rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Áminning sé stjórnvalds­ákvörðun og fari um hana eftir al­mennum sjónarmiðum stjórnsýsluréttar auk þeirra máls­meðferðar­reglna, sem fram komi í lögum nr. 70/1996, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórn­sýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga og bein fyrirmæli 21. gr. laga nr. 70/1996 beri að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um fyrirhugaða áminningu og einstaka efnisþætti hennar, ef það er unnt. Til þess að andmælaréttur aðila verði virkur verði auk þess að vekja athygli aðila á því að mál hans sé til meðferðar, sbr. 14. gr. stjórn­sýslu­laga. Að öðrum kosti geti starfsmaður ekki gætt lögmætra hagsmuna sinna. Stefnanda hafi ekki verið tilkynnt um fyrirhugaða uppsögn og ástæður hennar áður en honum var afhent upp­sagnar­bréfið 7. október 1998. Honum hafi verið afhent það formála­laust og án þess að honum hafi verið veitt tæki­færi til að tjá sig um ástæður uppsagnarinnar. Við uppsögnina sjálfa hafi því ekki verið gætt formsatriða 44. gr., sbr. 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, sbr. úrskurður félagsmála­ráðu­neytisins frá 6. febrúar 2002.

Í rökstuðningi stefnda fyrir uppsögninni sé m.a. vísað til áminninga vegna óskyldra brota, en stefndi hefði þegar bætt úr þeirri háttsemi. Einnig sé stuðst við að stefnandi hafi brotið reglur með því að tilkynna trúnaðarmanni á svæðinu um grunsemdir sínar um að fyrrum starfsmaður hefði beitt vistmann líkamlegu ofbeldi, en umboðsmaður Alþingis hafi staðfest að stefnandi hafi borið sig rétt að með því að fara þá leið með tilkynningu sína. Þá sé vísað til samskipta stefnanda við fjölskyldu og forsvarsmenn þess vistmanns sem stefnandi hafi talið að brotið hafi verið gegn, en þau samskipti hafi átt sér stað eftir uppsögnina. Stefnandi mótmæli því að hann hafi brotið gegn reglum um þagnarskyldu eða brotið trúnað. Þannig hafi engin rök verið fyrir upp­sögninni og hún því ólögmæt. Að auki hefði þurft að áminna stefnanda sérstaklega áður en til hennar kom. Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga að stefnandi hafi verið trúnaðarmaður starfsmanna frá apríl 1997 til uppsagnardags, en trúnaðar­menn njóti almennt sérstakrar verndar í starfi samkvæmt 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og sakir þurfi að vera þó nokkrar til þess að hægt sé að segja trúnaðar­manni upp störfum.

Stefnandi eigi rétt til skaðabóta vegna þessara annmarka á uppsögninni, sem kostað hafi hann starfið hjá svæðisskrifstofunni, þrátt fyrir að honum hafi verið greidd laun í uppsagnarfresti. Stefnandi vísi því til stuðnings til dóma Hæstaréttar í dómabindi 1999 bls. 802, og í málum nr. 277/1999 og nr. 105/2000, en af þessum dómum verði ráðið að þegar ákvörðun um uppsögn ríkisstarfsmanns byggist á ólögmætum sjónarmiðum þá eignist starfsmaðurinn bótarétt á hendur ríkinu vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Þetta eigi við þrátt fyrir að í ráðningarsamningi starfsmanns sé kveðið á um gagnkvæman þriggja mánaða uppsagnarfrest og starfsmanni hafi verið greidd laun í uppsagnarfresti. Ólögmæti uppsagnar leiði til skaðabótaskyldu stefnda og bótaréttar starfsmanns.

Þá byggi stefnandi á því að áminningarnar 30. maí og 20. júní 1997 hafi verið ólögmætar, bæði hvað varði form og efni. Í fyrsta lagi hafi ekki verið tilefni til að veita honum þær. Fyrri áminningin eigi rætur að rekja til þess að stefnandi hafi komið á framfæri tillögum sínum um skráningu vinnuskýrslna starfsmanna og hafi hann fyllt vinnuskýrslu sína út samkvæmt þeim tillögum. Hann hafi talið launaútreikning forstöðumanns sambýlisins rangan og starfsmönnum til tjóns. Með tillögum sínum hafi hann talið að hann væri að leiðrétta meinlega villu og komast hjá umstangi síðar vegna réttmætra krafna um leiðréttingu. Áminning sú sem hann hlaut fyrir þetta hafi því ekki átt rétt á sér. Seinni áminninguna sé að rekja til þess að stefnandi hafi skilað inn vinnuskýrslu fyrir samstarfsmann sinn sem útfyllt hafi verið í samræmi við til­lögur stefnanda að beiðni starfsmannsins. Þessi sjálfsagða leiðrétting og greiða­semi réttlæti ekki að stefnandi sæti áminningum. Reikniaðferð stefnanda hafi síðar verið tekin upp sem hin almenna regla við útreikning launa, enda sú aðferð sem leitt hafi til réttmætrar niðurstöðu fyrir starfsmenn.

Áminningarnar hafi verið ólögmætar þar sem stefnandi hafi ekki fengið tækifæri til þess að tala máli sínu um efni þeirra áður en þær voru veittar. Þar sé um skýrt brot á 21. gr. laga nr. 70/1996 að ræða sem eigi að leiða til ógildingar þeirra og bótaréttar stefnanda.

Áminna hefði þurft stefnanda sérstaklega vegna þeirrar háttsemi sem honum hafi verið gefin að sök og vörðuðu hann uppsögn úr starfi. Stefnandi hafi áður en að upp­sögninni kom bætt úr þeirri háttsemi sem leitt hafi til þess að honum voru veittar áminningar í maí og júní 1997. Hann hafi ekki að nýju verið uppvís að því að eiga við launaútreikna þá sem áminningarnar lutu beinlínis að. Þær áminningar hafi þannig ekki haft þýðingu í aðdraganda uppsagnar vegna ætlaðra ólíkra brota í starfi. Þannig hefði þurft að veita stefnanda að nýju áminningu áður en gripið var til þess úrræðis að segja honum upp störfum vegna óskyldra brota í starfi. Uppsögnin hafi því brotið í bága við ákvæði 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996 og meðalhófsreglu stjórnsýslu­laga nr. 37/1993.

Stefnandi hafi verið búsettur í Húnavatnssýslu til fjölda ára. Hann sé af þýsku bergi brotinn, en hafi flutt hingað til lands fyrir 24 árum. Hann hafi haft að baki sjö ára háskólanám þegar hann fluttist til landsins og sé menntaður eðlis- og búfræðingur, auk þess sem hann hafi stundað nám til kennsluréttinda í Háskóla Akureyrar undanfarið. Í Húnavatnssýslu og á Blönduósi sé lítið starfsval fyrir langskólagengið fólk. Starfi sínu á Sambýli fatlaðra á Blönduósi hafi stefnandi sinnt af mikilli kostgæfni og af virðingu fyrir og væntumþykju til vistmanna þar. Hann hafi að mestu verið atvinnulaus frá því að honum var sagt upp störfum og hvergi fengið fast starf í sínu heimahéraði, hvorki almennt né sem hæfi hans menntun. Þar sem stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður hafi hann mátt vænta þess að geta haldið starfi sínu til venjulegra loka starfsævi ríkisstarfs­manna, svo lengi sem viðkomandi starfsemi yrði haldið áfram á vegum ríkisins og hann gerðist ekki brotlegur í starfi þannig að varðaði hann réttmætum starfslokum. Stefnandi hafi sótt um vinnu á tugum staða víðs vegar um landið en án árangurs. Hann hafi því gert allt sem í hans valdi hafi staðið til að lágmarka tjón sitt vegna uppsagnarinnar án árangurs. Hann sé nú á 49. aldursári og fari möguleikar hans til vinnu við hæfi nú mjög þverrandi sökum aldurs. Til að mynda hafi hann sótt um kennarastöðu í eðlisfræði við Menntaskólann á Akureyri, en starfið hafi hlotið minna menntaður en yngri maður.

Stefnandi krefst aðallega skaðabóta vegna fjártjóns að fjárhæð 25.521.670 krónur. Krafan skiptist þannig að 7.029.670 krónur séu tilkomnar vegna tímabilsins frá 1. janúar 1999 til 1. júní 2004, en sundurliðun sýni full laun stefnanda, þ.e. grunnlaun og álagsgreiðslur samkvæmt gildandi kjarasamningum auk mótframlags atvinnurekanda til lífeyrissjóðs, að frádregnum greiddum atvinnuleysisbótum og öðrum tekjum frá því að stefnandi hætti að þiggja laun frá stefnda í byrjun árs 1999 og til loka maí 2004. Hinn hluti kröfunnar, eða 18.492.000 krónur, sé miðaður við útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingastærðfræðings á höfuðstólsverðmæti framtíðartekna stefnanda frá 9. júní 2004 til 12. maí 2023 er stefnandi nái 67 ára aldri. Samtals nemi krafa stefnanda vegna beins fjárhagstjóns því 25.521.670 krónum.

Til vara krefjist stefnandi skaðabóta að fjárhæð 22.437.415 krónur. Krafan sé byggð á útreikningi sama tryggingastærðfræðings á höfuðstólsverðmæti framtíðar­tekna stefn­anda frá uppsagnardegi til 67 ára aldurs, miðað við tekjur hans eins og þær hafi verið á árinu 1998 en krafan sé þannig sundurliðuð:

 

Laun frá 7. október 1998 til 12. desember 2023

26.615.000 krónur

Töpuð lífeyrisréttindi

1.597.000 “

Frádráttur vegna atvinnuleysisbóta o.fl.

5.774.585 

Samtals:

22.437.415 

 

Auk skaðabóta geri stefnandi bæði í aðal- og varakröfu kröfu um miskabætur að fjárhæð 750.000 krónur með vísan til 26. gr. laga nr. 50/1993 vegna ólögmætrar meingerðar sem uppsögnin feli í sér í hans garð. Ekki aðeins hafi uppsögnin og uppsagnarástæðan haft í för með sér verulegan ærumissi heldur telji stefnandi einnig að þau atvik hafi gert honum erfitt fyrir með að fá vinnu þar sem hann hafi að ósekju fengið þann stimpil á sig að vera erfiður í samstarfi og hafa brugðist starfsskyldum sínum. Miskabótakrafan sé að þessu virtu hófleg. Samtals nemi kröfur stefnanda því aðallega 26.271.670 krónum en til vara 23.187.415 krónum.

Stefnandi hafi hafið störf hjá Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra 19. ágúst 1996, sem hafi verið rekin á ábyrgð stefnda og hafi stefnandi því verið ríkisstarfsmaður. Skömmu eftir uppsögnina 7. október 1998 hafi þjónusta við fatlaða á Norðurlandi vestra hins vegar færst úr höndum Svæðisskrifstofunnar til Byggða­samlags um málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra, sem rekið sé á ábyrgð nánar til­greindra sveitarfélaga á Norðurlandi, sbr. samninga 23. mars 1999 og 3. maí 2002, en í þeim sé ekki gert ráð fyrir að eldri skuldbindingar vegna reksturs sambýlisins á Blönduósi eða vegna annarra mála er varði málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra færðust yfir til byggðasamlagsins. Máli þessu sé beint á hendur stefnda sem vinnu­veitanda stefnanda á þeim tíma sem honum hafi verið sagt upp störfum.

Kröfur stefnanda séu reistar á almennu skaðabótareglunni og 26. gr. laga nr. 50/1993. Þá sé vísað til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, einkum 44., sbr. 21. gr., og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einkum 13. og 14. gr. Um vexti og dráttarvexti sé vísað til II. og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en dráttarvaxta sé krafist frá þeim degi er mánuður var liðinn frá þing­fest­ingu málsins. Stefnandi styðji kröfur um málskostnað við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. Um varnarþing vísist til 3. mgr. 33. gr. sömu laga og krafa um virðis­aukaskatt á málskostnað sé reist á 1ögum nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðis­aukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi verið ráðinn starfsmaður á sambýli fyrir fatlaða á Blönduósi frá 19. ágúst 1996 með ráðningar­samningi 20. sama mánaðar og hafi farið um kjör hans samkvæmt kjarasamningi stéttarfélagsins Samstöðu. Stefnandi hafi verið kosinn trúnaðarmaður starfs­manna í apríl 1997. Hann hefði ekki áður verið trúnaðarmaður né sótt námskeið það varðandi og hafi ágreiningur risið milli hans og forstöðumanns sambýlisins, m.a. um launaútreikning á svokallaðri 25 mínútna reglu. Fljótlega að loknum kjarasamn­ingum Alþýðusambands Norðurlands og fjármálaráðherra hafi verið kallaður saman sam­starfs­fundur trúnaðarmanna, formanna verkalýðsfélaganna og svæðis­skrifstofu 22. maí 1997 þar sem farið hafi verið yfir samskiptamál. Á fundinum hafi aðilar verið sammála um það verklag að trúnaðarmaður ætti að bera upp erindi sitt við yfirmenn og ef það dygði ekki þá bæri honum að snúa sér til stéttarfélags og yrði lausn fundin milli framkvæmdastjóra svæðisskrifstofu og viðkomandi verkalýðsfélags. Á fundinum hafi komið skýrt fram að svæðisskrifstofan tæki ákvörðun um útreikninga á 25 mínútum, hve margir aukastafir væru notaðir við útreikninginn, tveir eða fleiri samkvæmt venjum og hefðbundnum vinnureglum.

Í áminningarbréfi Ástríðar Erlendsdóttir, þáverandi forstöðumanns sambýlisins, 30. maí 1997, sé vísað til fundarins 22. maí sama ár með yfirmönnum Svæðis­­skrif­stofu, stefnanda, öðrum trúnaðarmönnum og formönnum verkalýðs­félaganna á Blöndu­­­ósi og Siglufirði. Samkomulag hafi orðið um að trúnaðarmenn skyldu hafa starfs­aðstöðu sem trúnaðarmenn á Iðjum eða Þjónustumiðstöðvum. Í áminningar­bréfinu greini að þremur dögum eftir fundinn hafi stefnandi farið í tölvu forstöðu­mannsins á skrifstofu hennar þar sem skráðar væru vaktaskýrslur og út­reikn­ingar og breytt skjali með útreikningi á 25 mínútna reikningsforsendum sem forstöðumaður hafi notað í sam­­ráði við skrifstofuna. Hann hefði ekki aðeins breytt þeim heldur prentað út sína eigin útgáfu, sett hana yfir útreikning forstöðumannsins í möppu sem starfsmenn noti og sett neðanmáls að þetta væri ekki síðasta orðið í þessu máli af hans hálfu. Í lok bréfs forstöðumannsins segi orðrétt: „Þrátt fyrir að ég sem yfirmaður þinn vilji hafa sem allra best samstarf við starfsmenn og taki fullt tillit til þín sem trúnaðarmanns er nauðsynlegt að þú virðir þær leikreglur sem gilda á vinnustaðnum. Ef þú ert óánægður með einstakar túlkanir þá ber þér að ræða þær við mig sem yfirmann þinn, ef það kemur þér ekki að gagni þá ber þér að leita til verkalýðsfélagsins. Þau vinnubrögð að ganga í þau gögn sem ég sem yfirmaður nota og breyta þeim og dreifa síðan er með öllu óásættanlegt og ætti þér að vera með öllu ljóst. Af þessum sökum er þér veitt áminning."

Forstöðumaðurinn hafi veitti stefnanda áminningu öðru sinni 20. júní sama ár. Í bréfi stefnanda til félagsmálaráðuneytisins 13. febrúar 1999 komi fram að áður en hún var veitt hafi forstöðumaður óskað eftir því að hann kæmi á hennar fund til að ræða málið en hann hafi ekki viljað koma. Í áminningarbréfinu sé vísað til þess að honum sem trúnaðarmanni væri full kunnugt um það samkomulag sem gert hafi verið á fundi með yfirmönnum Svæðisskrifstofu stefnanda og öðrum trúnaðarmönnum og for­mönnum verkalýðsfélaganna á fundi 22. maí. Á fundinum hafi verið rætt um hvernig reikna ætti út 25 mínútur til að samræma milli vinnustaða á svæðinu. Stefnanda hafi sem trúnaðarmanni verið fullkunnugt um að málið hefði verið afgreitt þannig á fundinum að það væri í höndum Svæðisskrifstofu að ákveða hvaða form yrði notað. Í bréfinu segi síðan að forstöðumaður hafi tilkynnt stefnanda hvaða reikningsform ætti að nota sem hann hafi síðan ekki farið eftir, sbr. vinnuskýrslu frá 16. maí til 15. júní 1997 þar sem hann hafi notað eigin reikningsforsendur. Bent sé á að þetta sé í annað sinn sem áminnt sé um þetta. Hlutverk forstöðumanns í starfsmannahaldi sé að vinna og halda utan um vinnuskýrslur starfsmanna og skila þeim til launaskrifstofu. Vinnu­reglan sé sú að starfsmenn fylli sjálfir út sínar skýrslur og skili til forstöðu­manns. Það sé ekki hlutverk trúnaðarmanns að fylla út eða bæta við eða breyta vinnuskýrslum annarra starfsmanna sem stefnandi hafi gert án vitundar og samráðs við forstöðu­mann. Af þessum sökum sé stefnanda veitt áminning.

Í bréfi framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu 27. ágúst 1997 sé vitnað til fundar, sem framkvæmdastjóri hafi átt 30. júlí það ár með stefnanda, forstöðumanni sambýlisins og formanni verkalýðsfélaga Húnavatnssýslu, þar sem stefnanda hafi verið gerð grein fyrir stöðunni. Í þeim viðræðum hafi verið farið yfir vinnubrögð hans sem starfsmanns á sambýlinu og bent á hvað yrði að lagast til að hann héldi vinnunni. Þar hafi einnig komið fram að ekki væri ágreiningur um að hann sinnti störfum sem trúnaðarmaður svo framarlega sem reglum væri fylgt. Honum hafi verið afhent bréf framkvæmda­stjóra, dagsett sama dag og fundurinn var haldinn, þ.e. 30. júlí 1997, með ábendingu um að hann yrði að taka sig á ef hann vildi halda vinnunni. Í bréfinu sé vakin athygli hans á því að hann hefði fengið tvær áminningar fyrir brot í starfi og blasti við að ekki verði fleiri áminningar veittar heldur hljóti áframhaldandi samstarfsörðugleikar við hann að valda brottrekstri hans. Í bréfinu segi síðan: „Það er von mín að til þess komi ekki og jafnhliða fer ég fram á það við þig sem starfsmann Svæðisskrifstofu að sýna með breyttri framkomu í vinnunni að þú hafir áhuga á starfi þínu og að þú rækir það af alúð. - Þá minni ég þig á að næsti yfirmaður þinn í starfi er Ástríður Erlendsdóttir, forstöðumaður, og ber þér að fara eftir fyrirmælum hennar hvað varðar starfið í hvívetna.”

Stefnandi hafi með bréfi 20. ágúst 1997 óskað eftir því að áminningarnar yrðu afturkallaðar á þeim grundvelli að breytingar hafi orðið á launaútreikningum og þar af leiðandi verði að álíta áminningar vegna ágreinings um þá tilefnislausar. Varðandi færslur á vinnuskýrslur samstarfsmanna sinna hefði hann haft umboð þeirra. Í bréfi fram­kvæmda­stjóra Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra til stefnanda 27. ágúst s.á. sé áréttað að áminningar sem stefnandi hafi fengið sneru ekki að efnislegum atriðum þess ágreinings sem hefði verið varðandi út­reikninga á 25 mínútum heldur um vinnubrögð hans og brot á eðlilegum samskiptum við yfirmann sinn. Ekki sé ástæða til að draga þær áminningar sem hann hafi fengið til baka. Fullt samráð hafi verið við verkalýðsfélögin um verklagsreglur þegar upp hafi komið ágreiningur milli stéttarfélags og svæðisskrifstofu um túlkun samninga og útreikning launa. Í bréfinu sé áréttað að ágreiningurinn lúti að vinnubrögðum stefnanda inni á sambýlinu og með hvaða hætti hann gengi í gögn forstöðumanns án samráðs við hann. Áréttað sé að stefnandi hafi ekki goldið starfs síns sem trúnaðarmaður og ekki standi til að segja honum upp vegna trúnaðarmannsstarfans. Ekki sé ágrein­ingur um að hann sinnti eðlilegum störfum sem trúnaðarmaður svo framarlega sem störfin væru unnin eftir eðlilegum reglum og trufluðu ekki daglega starfssemi sambýlisins sem sé fá­mennur og viðkvæmur vinnustaður. Í lok bréfsins árétti framkvæmdastjóri við stefn­anda að hann sinnti starfi sínu af álúð og gerði sér grein fyrir að hann starfaði á við­kvæmum vinnustað þar sem nauðsynlegt væri að allir legðust á eitt til að hlutirnir gengju upp.

Í ágústlok 1998 hafi verið auglýstar stöður við sambýlið á Blönduósi. Einn af umsækjendum hafi verið Ásgeir fyrrum starfsmaður, en hann hefði hætt störfum í sama mánuði vegna fyrirhugaðs náms í Þroskaþjálfaskólanum. Honum hafi snúist hugur og hafi hann sótt um sitt gamla starf aftur. Stefnandi hafi þá hringt í Herbjörtu, trúnaðar­mann fatlaðra, og Jófríði félagsráðgjafa og borið upp sakir á hendur Ásgeiri um að hann hefði misþyrmt íbúum sambýlisins. Þessar sakargiftir hafi hann rökstutt með ýmsum tilgátum og dylgjum. Trúnaðarmaður og félagsráðgjafi hafi beðið stefnanda að hafa samband við forstöðumann sambýlisins, forstöðumann búsetumála og/eða fram­kvæmda­­stjóra sem hann hafi ekki gert. Framkvæmdastjóri svæðis­skrifstofu hafi verið erlendis fyrstu tvær vikur septembermánaðar og hafi orðið að samkomulagi milli trúnaðarmanns fatlaðra og formanns svæðisráðs, sem hafi rætt málið sín í milli, að bíða þar til framkvæmdastjórinn kæmi að utan. Stefnandi hafi viljað taka málið upp á starfsmannafundi 24. september og hafi þær Jófríður, Gréta Sjöfn, for­stöðu­maður búsetumála, og Sæunn, afleysingaforstöðumaður sambýlisins, rætt um málið við hann. Stefnandi hafi ekki viljað meina að hann væri að ákæra Ásgeir en hann hafi lagst gegn því að hann yrði ráðinn. Gréta Sjöfn hafi bent honum á að ásakanir hans væru mjög alvarlegar og að ekki væri um annað að ræða en að kanna ítarlega réttmæti þeirra. Mánudaginn 28. september hafi hún gert framkvæmdastjóra grein fyrir málinu og 29. september hafi hann boðað til fundar með stefnanda, Ásgeiri, Jófríði, Sæunni og Grétu Sjöfn.

Á fundinum hafi verið farið yfir ásakanir stefnanda og Ásgeiri gefinn kostur á að svara þeim. Hann hafi talið þær fullkomna firru. Ekkert hafi komið fram sem hafi getað stutt tilgátu stefnanda, hvorki á þessum fundi né í framhaldinu þegar fram­kvæmda­stjóri hafi rætt einslega við starfsmenn. Í framhaldi af fundinum hafi framkvæmdastjóri rætt við Herbjörtu og beðið hana að kanna málið sjálfstætt. Hann hafi jafnframt rætt við heilsugæslulækni á Blönduósi og beðið hann að fara yfir sjúkraskrá íbúa sambýlisins með það í huga hvort áverkar, sem hefðu komið fram hjá þeim, gætu verið af manna völdum. Læknirinn hafi að lokinni könnun svarað að það væri harla ólíklegt, áverkarnir væru ekki þess eðlis, en erfitt væri að fullyrða nokkuð. Framkvæmdastjóri hafi rætt óformlega við sýslumann Húnvetninga um möguleika á opinberri rannsókn, en hann hafi talið að rannsókn myndi ekki leiða annað í ljós en þegar væri komið fram.

Stefnandi hafi haldið áfram sjálfstæðri rannsókn sinni. Hann hafi haft samband við framkvæmdastjóra 2. október og í kjölfarið hafi hann áréttað skriflega sama dag sakargiftir sína á hendur Ásgeiri vegna fimm atvika á árunum 1997 og 1998. Í fram­haldi af þessum skriflegu sakargiftum hafi framkvæmdastjórinn fundað ásamt Grétu Sjöfn með Ásgeiri þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að svara þeim sakar­giftum sem á hann voru bornar. Hann hafi borið af sér allar sakir og neitað að hafa beitt skjólstæðinga ofbeldi. Samstarfsfólki á sambýlinu hafi verið lesnar sakar­giftirnar og þrátt fyrir að engum gæti dulist alvarleiki málsins hafi samstarfsmenn Ásgeirs gefið honum ágætustu meðmæli. Þeir hafi talið hann mjög góðan starfsmann og fráleitt að hann beitti íbúa ofbeldi. Stefnandi hafi haldið áfram ásökunum sínum án þess að virðast gera sér grein fyrir alvarleika málsins og án þess að geta rökstutt þær. Ljóst hafi verið að fullkominn trúnaðarbrestur hefði verið milli stefnanda og annarra starfs­manna í þessu máli. Þar sem ljóst hafi verið að vakað hafi fyrir stefnanda að hindra með öllum ráðum að Ásgeir yrði ráðinn, án þess að geta rökstutt málatilbúnað sinn með öðru en dylgjum, hefði að mati framkvæmdastjóri ekki verið um annað að ræða en víkja stefnanda úr starfi. Boðað hafi verið til fundar 7. október með stefnanda og Valdimar, formanni verkalýðsfélagsins, og hafi stefnanda verið afhent bréf þar sem honum hafi verið sagt upp starfi frá 1. nóvember 1998.

Boðað hafi verið til starfsmannafundar 9. október s.á. þar sem allir starfsmenn sam­býlis­ins og fleiri hafi mætt. Farið hafi verið yfir málið einu sinni enn og hafi þá komið í ljós að málið hafi verið helsta slúðrið á sláturhúsinu og fleiri vinnustöðum. Ákveðið hafi verið að boða alla aðstandendur íbúanna til fundar og gera þeim grein fyrir málinu.

Tveir fundir hafi verið haldnir með aðstandendum íbúa sambýlisins 17. og 19. októ­ber s.á. og hafi þar verið farið yfir málsatvik. Heilsugæslulæknir hafi gert grein fyrir áverkunum, sem sakargiftir lutu að, og skýrt sína skoðun á málinu. Þegar rætt var við aðstandendur hefði komið í ljós að stefnandi var þegar búinn að tala við aðstand­endur og að minnsta kosti við eitt foreldri áður en honum var sagt upp.

Uppsögnin hafi verið rökstudd með bréfi framkvæmdastjóra 20. október s.á. eins og stefnandi hafi krafist að gert yrði með bréfi 12. sama mánaðar. Vísað sé til 14. gr. laga nr. 70/1996 og segi að með ógætilegum yfirlýsingum og ásökunum á samstarfs­mann/menn og með því að gefa í skyn að starfsemi sem fari fram á sambýlinu sé saknæm án þess að geta rökstutt það, hafi hann varpað rýrð á starfsemina, samstarfs­fólk og yfirmenn. Þá segi að það að ræða við aðstandendur meðan athugun á málinu fór fram sé í hæsta máta ámælisvert og bæði brot á þeim trúnaði sem um hafi verið rætt á fundi 29. september að gilti um málið á meðan það væri athugun og um leið brot á fyrirmælum yfirboðara. Að hann hafi rætt við starfsmenn svæðisskrifstofu á öðrum sambýlum og utanaðkomandi einstaklinga um málið og ákæruatriði sín sé annað brot á 18. gr. um þagnarskyldu. Honum hafi verið bent á að teldi hann sig geta rökstutt þær ávirðingar, sem hann hefði sett fram og gefið í skyn bæri honum að kæra málið. Samkvæmt 21. gr. hafi hann sýnt af sér vankunnáttu með því að ræða við foreldra um þær sakargiftir sem hann hefði borið á Ásgeir áður en þær hefðu verið kannaðar. Sem starfsmaður sambýlisins og einn af umönnunaraðilum íbúa þess mætti honum vera ljóst að aðstandendur yrðu að treysta honum, en þeir stæðu óvarðir gagn­vart þeim ásökunum sem hann bæri fram og yrðu að trúa þeim þar til annað kæmi í ljós. Aðstandendur hafi treyst starfsmönnum sambýlis­ins fyrir börnum sínum eða öðrum skyldmennum og þeir séu háðir því og eigi rétt á að fá réttar upplýsingar um skjólstæðinga sína. Dylgjur og órökstuddur grunur, sem hann legði fram sem sannindi, væri ekki til þess fallið að styrkja samband aðstandenda og starfsmanna sambýlisins. Í „rannsókn" sinni á meintum ávirðingum Ásgeirs hafi stefn­andi kosið að vinna án samráðs við yfirmenn sína og sá trúnaðarbrestur sem hafi orðið milli hans og yfirmanns hans og samstarfsmanna á sambýlinu, sem hafi alfarið hafnað ásökunum hans, hafi leitt til þess að fyrirsjáanlegt hafi verið að ekki yrði frekara samstarf milli hans og þeirra. Honum mætti því vera ljóst að ærin ástæða hafi verið fyrir uppsögn hans. Í lokin sé minnt á tvö áminningarbréf, sem hann hafi fengið á síðasta ári, dagsett 30. maí og 20. júní, svo og tvö önnur bréf sem honum hafi verið send varðandi starf hans og með hvaða hætti honum bæri að sinna því vildir hann halda starfi. Í öðru þeirra, dagsettu 30. júlí, hafi honum verið bent á að áframhaldandi samstarfs­örðugleikar vörðuðu uppsögn.

Formaður og varaformaður svæðisráðs hafi ákveðið í samráði við trúnaðarmann fatlaðra og að ósk framkvæmdastjóra að gera sjálfstæða úttekt á málinu þar sem svæðis­ráði sé ætlað að vera eftirlitsaðili með stofnunum fatlaðra. Í greinargerð þeirra 23. október 1998 segi að ljóst sé, að um svo alvarlegar ávirðingar hafi verið að ræða að leita yrði allra leiða til að komast að hinu sanna í málinu. Athygli veki að um samansöfnuð atvik sé hér að ræða, en starfsmönnum beri skilyrðislaust að tilkynna þegar í stað ef grunur kvikni um eitthvað þessu líkt. Vitnað sé til funda 17. og 19. október með forráðamönnum íbúa sambýlisins ásamt starfs­mönnum þar sem komið hafði fram mikil ánægja með starfsemina frá forráða­mönnum en mikil undrun á þessu máli. Hinn 17. október hafi þeir átt viðtöl við starfsmenn einslega og óskað eftir að þeir skýrðu frá ef þeir hefðu ein­hverjar minnstu grunsemdir um að þessi áburður hefði við rök að styðjast. Allir starfs­menn hafi talið fráleitt að þetta hefði getað gerst og með öllu óskiljanlegt að stefnandi héldi þessu fram. Fram hafi komið hjá starfsmönnunum að Ásgeiri og stefnanda hefði samið illa og átt í erfiðleikum með að vinna saman. Hjá starfsmönnum hafi einnig komið fram miklar áhyggjur vegna þessa atviks, bæði hvað varðaði rekstur sambýlis­ins, tiltrú á rekstur þess og einnig á stöðu starfsmanna þegar svona gerðist. Í greinar­gerðinni komi fram að báðir hafi talað við stefnanda í síma og hjá honum hafi komið fram sömu sjónarmið og í greinargerð hans til framkvæmda­stjóra. Þó hafi komið fram að hann hefði ekki kært neinn. Einnig hafi stefnandi skýrt frá ýmsu sem hann hafi verið ósáttur við í stjórnun, þar á meðal áminningarbréf sem hann hefði fengið. Auk þess hafi þeir talað við Ástríði, fyrrverandi forstöðumann, sem hafi gefið Ásgeiri hina bestu umsögn og talið alveg fráleitt að þessar ávirðingar ættu við nokkur rök að styðjast. Svæðisráð hafi komist efnislega að sömu niðurstöðu og framkvæmdastjóri, þ.e. að ekkert í ásök­unum stefnanda virtist byggja á staðreyndum heldur aðeins á dylgjum og tilgátum hans og fengi áburður hans ekki staðist, sbr. fundur ráðsins 24. október 1998.

Stefnandi hafi kært uppsögnina til félagsmála­ráðuneytisins 7. nóvember 1998. Hann hafi talið að samkvæmt lögum um málefni fatlaðra væri ekki gert ráð fyrir að yfirmenn á stofnunum fatlaðra blönduðu sér í rannsókn máls. Þá hafi brottrekstur hans verið hluti af einelti. Hann hefði haft gildar ástæður til að fara þá leið að kjósa að vinna án samráðs við yfirmenn sína að rannsókn málsins þar sem hann hafi verið lagður í einelti á vinnustaðnum af fyrrverandi forstöðukonu með aðstoð og samþykki yfirmanns hennar, Sveins Allan Morthens. Þá hafi stefnandi staðfest að tilgangur hans með sakargiftum á hendur Ásgeiri hafi verið sá að koma í veg fyrir endurráðningu hans.

Stefnanda hafi ekki verið sagt upp störfum vegna starfa sinna sem trúnaðarmaður. Stefndi mótmæli því að af 11. gr. laga nr. 80/1938 leiði að önnur viðmið gildi fyrir trúnaðarmenn við mat á brotum í starfi en fyrir aðra starfsmenn.

Í bréfi framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofunnar 30. júlí 1997 hafi stefnandi verið upplýstur um að áframhaldandi (ítrekaðir) samstarfsörðugleikar myndu ekki leiða til áminninga heldur valda brottrekstri. Enda þótt tilefni áminninganna hafi verið að stefnandi hafi átt við tiltekna launaútreikninga/vinnuskýrslur og gengið í gögn for­stöðu­manns sé ekki fallist á að réttaráhrif þeirra takmarkist við nákvæmlega sams­konar atvik. Þvert á móti verði að líta til eðli atvikanna og meta hvort ávirðingarnar séu af sama tagi og lúti að sambærilegum starfsháttum svo sem trúnaði og samstarfs­vilja. Tilefni áminninganna tveggja og uppsagnarinnar hafi verið eðlislík og snúist um að hafa eðlilega samvinnu og trúnað milli starfsmanna og yfirmanna.

Uppsögn stefnanda hafi verið réttmæt og nauðsynleg vegna alvarlegra brota stefnanda á ábyrgðar- og trúnaðarskyldum sínum sem hafi réttlætt uppsögn án undangenginnar áminningar. Um verulega samstarfsörðugleika hafi verið að ræða og tilhæfulausar ásakanir um ofbeldi starfsmanna gagnvart heimilismönnum á sambýlinu sem hafi valdið trúnaðarbresti og hlutu að leiða til þess að stefnanda yrði sagt upp störfum. Ábyrgðar- og trúnaðarskyldur taki mið af eðli þess starfs sem um ræði hverju sinni. Í þessum skyldum felst m.a. að starfsmanni beri að gæta réttsýni og forðast að hafast nokkuð það að sem sé honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað geti rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinni við og taka tillit til hagsmuna stofnunar í starfi og utan starfs. Hagsmunir stofnunar felast meðal annars í því að starfsmenn leggi sig fram við að eiga gott samstarf við samstarfsmenn sem og yfirmenn og sýni þeim tilhlýðilegan trúnað.

Á sambýlinu á Blönduósi, sem stefnandi starfaði á, hafi búið fimm mikið van­gefnir einstaklingar sem hafi þarfnast stöðugrar viðveru eins eða fleiri starfsmanns í senn. Mikilvægur liður í faglegri þjónustu við fatlaða heimilismenn í því lokaða samfélagi sem sambýli fyrir fatlaða sé, þar sem heimilismenn séu augljóslega háðir nærveru og þjónustu starfsmanna og eigi rétt á sem bestri mögulegri þjónustu, sé að þar ríki friður manna á milli. Einn liður í friði á jafn viðkvæmum vinnustað sé góður starfsandi og að fullur trúnaður sé á milli starfsmanna sambýlisins innbyrðis og milli starfsmanna og stjórnenda og eftirlitsaðilum málaflokksins á svæðinu. Skortur á vilja eða hæfni til samstarfs meðal starfsmanna, sem leiði til trúnaðarbrests og óróa á svo viðkvæmum og sérstökum vinnustað, bitni óhjákvæmi­lega á þjónustunni við fatlaða og geti því ekki viðgengist.

Stefnandi hafi greint trúnaðarmanni fatlaðra og félagsráðgjafa á svæðis­skrif­stofunni frá grunsemdum sínum um að fyrrverandi starfsmaður sambýlisins hefði beitt einn heimilismanna líkamlegu ofbeldi þegar viðkomandi aðili hugðist sækja á ný um starf við sambýlið. Þeir hafi báðir beðið stefnanda að leita til forstöðumanns sambýlis­ins, forstöðumanns búsetumála og/eða framkvæmdastjóra svæðis­skrif­stofunnar með grunsemdir sínar. Það hafi stefnandi ekki gert þótt tilefni þess að hann setti fram grunsemdir sínar væri að hann legðist gegn ráðningu viðkomandi aðila og ráðningarmálið væri í höndum forstöðumanns sambýlisins og framkvæmdastjóra svæðis­ráðs. Athugun framkvæmdastjóra svæðisskrifstofu hafi ekki leitt til þess að nokkuð kæmi fram er styddi ásakanir stefnanda. Í skriflegri greinargerð 2. október 1998 hafi stefnandi haldið til streitu grunsemdum um ofbeldi, m.a. með vísan til samtala við ýmsa aðila ásamt eigin ályktunum. Líkt og áður hafi ekkert komið fram við frekari athugun sem gæti stutt ásakanir stefnanda. Þvert á móti hafi allt bent til hins gagnstæða og hafi niðurstaða fram­kvæmda­stjóra verið sú að stefnanda hafi gengið það eitt til að koma í veg fyrir að starfsmaðurinn fyrrverandi yrði ráðinn aftur til starfa á sambýlið. Að svo búnu hafi orðið alger trúnaðarbrestur milli stefnanda annars vegar og yfirmanna hans og samstarfsmanna hins vegar.

Með ógætilegum yfirlýsingum og ásökunum á samstarfsmann/menn og með því að gefa í skyn að starfsemi sem fram færi á sambýlinu væri saknæm, án þess að geta rökstutt það, hafi stefnandi varpað rýrð á starfsemina sem þar fari fram, samstarfsfólk og yfirmenn og hafi hann brotið gegn 14. gr. laga nr. 70/1996. Þrátt fyrir að framangreind athugun og rannsókn framkvæmdastjóra hafi verið í fullum gangi og öllum hlutaðeigandi kunnugt um það og þeir bundnir trúnaði í málinu hafi stefnandi kosið að vinna áfram og án samráðs við yfirmenn sína að sjálfstæðri athugun sinni á málinu. Honum hafði verið bent á að kæra til réttra yfirvalda ef hann teldi sig geta rökstutt þær ávirðingar sem hann hafi sett fram, en hann hafi frekar kosið að rannsaka málið á eigin spýtur. Stefnandi hafi rætt meint ofbeldi á sambýlinu við aðila sem ekki hafi komið að rannsókn málsins og hafi hann þar með brotið þagnarskyldu samkvæmt 18. gr. sömu laga. Stefnandi hafi rætt við foreldra vistmanna á sambýlinu um sakargiftir sínar áður en þær voru kannaðar til hlítar þ.á m. 4. október eða fyrir uppsögnina, eins og fram komi í bréfi stefnanda til félagsmálaráðuneytisins 17. janúar 1999. Þau viðhorf sem fram hafi komið hjá stefnanda að ásættanlegt sé að setja fram dylgjur og tilgátur um refsiverða háttsemi og að ekki þurfi að styðja þær frekari rökum og gögnum heldur færðist skylda til að afsanna órökstuddan rógburð yfir á þann sem sökum er borinn, hafi skýrlega vitnað um að stefnandi hafi ekki hirt um þær ábyrgðar- og trúnaðar­skyldur sem á honum hvíldu sem starfsmanni og því ófært að hafa stefnanda áfram í starfi á sambýlinu.

Þó ekki hafi verið gætt þeirra formsatriða samkvæmt 44. gr. laga nr. 70/1996 að gefa stefnanda tækifæri til að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún kom til framkvæmda hafi uppsögnin sjálf verið í eðlilegu framhaldi af þeim atburðum sem áður hefðu átt sér stað og nauðsynleg til að starfsemi sambýlisins gæti gengið eðlilega fyrir sig. Um hafi verið að ræða svo ámælisverða háttsemi stefnanda og alvarlegan trúnaðarbrest að óhjákvæmilegt hafi verið að segja honum upp störfum. Stefnandi hafi komið að sjónarmiðum sínum gagnvart uppsögninni í kæru sinni til félagsmála­ráðuneytisins samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996. Þar hafi hann staðfest að tilgangur hans með sakargiftum á hendur Ásgeiri, sem hann hafi þó ekki séð ástæðu til að vekja fyrr athygli á, hafi verið sá að koma í veg fyrir endurráðningu hans. Samstarfsörðugleikar hefðu verið milli hans og Ásgeirs og stefnandi hafi hafnað öllum þeim rökum um brot á starfsskyldum sem færð hefðu verið fram í rökstuðningi framkvæmdastjóra fyrir uppsögn hans og talið aðferðir sínar og vinnubrögð í málinu vera í lagi. Í kæru stefnanda til ráðuneytisins hefðu verið settar fram enn frekari dylgjur og tilgátur um ámælisverða háttsemi á hendur öðrum starfsmönnum sambýlis­ins, yfirmönnum þar og á Svæðisskrifstofu og í svæðisráði.

Að mati ráðuneytisins hafi hinn alvarlegi áburður um meint ofbeldi starfsmanns/ starfsmanna gagnvart heimilismönnum sambýlisins verið órökstuddur og óstaðfestur. Könnun framkvæmdastjóra, upplýsingar fengnar frá heilsugæslulækni og rannsókn svæðisráðs hafi hvorki reist stoð undir áburð stefnanda né gefið tilefni til frekari aðgerða. Að áliti ráðuneytisins hafi verið um svo alvarlegan trúnaðarbrest að ræða að óhjákvæmilegt hafi verið að segja stefnanda upp störfum. Sá annmarki á uppsögninni að stefnanda var ekki gefinn kostur á að tjá sig áður en til hennar kom hafi því í engu getað breytt um niðurstöðuna og geti ekki stofnað til bótaábyrgðar vegna uppsagnar­innar.

Stefndi vísi því eindregið á bug að ekki hafi verið tilefni til að veita stefnanda áminningar 30. maí 1997 og 20. júní 1997 eða að þær hafi verið haldnar formann­mörkum þar sem stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að tala máli sínu áður en þær voru veittar, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Stefnanda hafi verið fullkomlega ljóst hvernig standa skyldi að útreikningi launa á sambýlinu og í hvaða farveg mál skyldu fara risi ágreiningur um túlkun á kjarasamningum. Stefnandi hafi ekki sætt sig við það og hafi sú afstaða hans komið skýrt fram þegar hann hafi sett neðanmáls í skjal, sem hann hefði breytt með útreikningi á 25 mínútna reikningsforsendum og prentað út, að þetta væri ekki síðasta orðið í þessu máli af hans hálfu. Afstaða hans hafi þannig legið fyrir en hún hafi hins vegar ekki verið í samræmi við það sem yfirmenn hefðu ákveðið. Áminningin 30. maí hafi snúist um vinnubrögð stefnanda og brot á eðli­legum samskiptum við yfirmann. Hann hefði með broti sínu gerst sekur um að sinna ekki starfsskyldum sínum og fara ekki eftir löglegum boðum yfirmanns síns. Þegar við viðtöku áminningarinnar hefði hann átt að gera sér grein fyrir alvarleika málsins. Hann hafi hins vegar ekki látið segjast og haldið sjónarmiðum sínum áfram til streitu þrátt fyrir að forstöðumaður sambýlisins hefði tilkynnt honum hvaða reiknisform ætti að nota. Hann hafi notað áfram eigin reikningsforsendur við vinnuskýrslu sína fyrir tímabilið 16. maí til 15. júní 1997 og hafi hann ítrekað verið áminntur fyrir það atriði með áminningarbréfi 20. júní 1997 og enn á ný áminntur fyrir að ganga í gögn forstöðumanns sambýlisins, þegar hann án vitundar og samráðs við forstöðu­mann hafi breytt vinnuskýrslum annarra starfsmanna. Af hálfu stefnanda sé viður­kennt í bréfi til félagsmálaráðuneytisins 7. nóvember 1998 að hann hafi fært vinnu milli starfsmanna. Samkvæmt framansögðu hafi stefnandi ekki virt forræði svæðis­­­skrif­stofunnar varð­andi túlkun kjarasamningsákvæða og hann hafi beitt í því sam­bandi aðferðum sem hafi verið til þess fallnar að leiða til trúnaðarbrests og sam­starfs­örðugleika. Tilefni áminninganna hafi verið vinnubrögð stefnanda inni á sam­býlinu og með hvaða hætti hann hefði gengið í gögn forstöðumanns án samráðs við hann. Því fái ekki á nokkurn hátt staðist að efnislegt tilefni hafi skort til að veita stefnanda áminn­ingu.

Þar sem öll gögn og upplýsingar hafi legið fyrir í málinu svo og afstaða stefnanda hafi ekki verið skylt samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 að gefa stefnanda sérstaklega kost á að tjá sig um málið áður en áminning 30. maí var veitt. Áður en til áminningar kom 20. júní hafi forstöðumaður gefið stefnanda kost á að ræða málið á fundi en hann hafi hafnað því.

Þá liggi fyrir að stefnandi hafi komið að sjónarmiðum sínum er haldinn var fundur með honum 30. júlí s.á. og er hann ritaði bréf 20. ágúst þar sem hann hafi krafist afturköllunar þeirra. Rökstudd afstaða hafi verið tekin til þess hvort afturkalla bæri áminningarnar með bréfi framkvæmdastjóra svæðisskrifstofunnar 27. ágúst s.á. þar sem kröfum stefnanda um að draga áminningarnar til baka hafi verið hafnað. Þær séu því ekki haldnar slíkum formannmörkum vegna skorts á að gæta andmælaréttar að varðað geti ógildingu þeirra.

Loks sé á því byggt til stuðnings sýknu af þessari kröfu að stefnandi hafi með tómlæti sínu, hvað svo sem öðru líði, fyrirgert rétti til að fá áminningarnar felldar úr gildi.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu sé varakrafa byggð á því að framanrakin sjónarmið leiði að minnsta kosti til þess að sýknað verði annað hvort af bótakröfum stefnanda eða af kröfu stefnanda um ógildingu áminninganna.

Miskabótakröfu stefnanda að fjárhæð 750.000 krónur sé harðlega vísað á bug og krafist sýknu af henni. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í uppsögninni hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans í skilningi 26. gr. skaða-bótalaga nr. 50/1993. Lagaheimild skorti því til að krefja stefnda um miskabætur vegna uppsagnar úr starfi. Ljóst er að tilefni uppsagnarinnar og ástæður hennar hafi alfarið verið að rekja til framferðis stefnanda sjálfs, þ.e. hvernig hann hafi farið offari í framgöngu sinni vegna meintra grunsemda í garð fyrrum samstarfsmanns/starfsmanna um refsiverða háttsemi og valdið alvarlegum trúnaðarbresti. Til vara sé krafist stórkostlegrar lækkunar á miskabótakröfu stefnanda.

Kröfum stefnanda um bætur vegna fjártjóns sé mótmælt en til vara sem allt of háum og krafist stórkostlegrar lækkunar þeirra. Stefnandi hafi verið ráðinn með gagnkvæmum uppsagnarfresti samkvæmt kjarasamningi og hafði áunnið sér 1½ mánaðar uppsagnarfrests. Geti stefnandi þannig ekki borið því við að hann hafi mátt treysta því að geta gegnt áfram störfum um ókominn tíma. Stefnandi hafi verið á 43. aldurs­ári er honum var sagt upp starfi, sé háskóla­menntaður eðlisfræðingur og bú­fræði­kandídat og hafi að baki langa starfsreynslu sem framhaldsskólakennari áður en hann hóf störf á sambýlinu. Hann ætti því að hafa góða möguleika á því að fá annað og jafnvel betur launað starf. Með öllu sé ósannað að atvinnuleysi stefnanda verði rakið til aðstæðna sem varða kynnu stefnda bóta­ábyrgð að lögum.

Í kröfugerð stefnanda séu bætur miðaðar við tapaðar tekjur til 1. júní 2004 og frá þeim tíma eða alfarið, sbr. varakröfu hans, miðað við núvirðisreiknuð laun til ætlaðra starfsloka. Þessi kröfugerð sé fjarri lagi og eigi enga stoð í dómvenju um bætur til handa þeim er sæti ólögmætri uppsögn eða frávikningu úr starfi. Auk framangreinds beri að líta til þess að stefnandi hafi fengið laun út uppsagnarfrest og hafi ýmist haft atvinnutekjur eða notið atvinnuleysisbóta eftir að greiðslum til hans í uppsagnarfresti lauk, alls að fjárhæð 5.774.585 krónur. Enn fremur hafi stefnandi átt með framferði sínu sök á því að honum var sagt upp starfi og beri að virða það til stórkostlegrar lækkunar bóta samkvæmt almennu skaðabótareglunni og dómvenju sbr. og til hlið-sjónar 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996.

Kröfum stefnanda um vexti samkvæmt II. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og II. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 sé harðlega mótmælt. Stefnandi hafi fyrst með stefnu í máli þessu sett fram kröfu um skaðabætur. Hann geti því ekki átt rétt til vaxta annarra en dráttarvaxta að liðnum mánuði frá þingfestingu málsins. Til vara sé kröfum stefnanda um vexti á tímabilinu 15. desember 1998 til 14. október 2000 mótmælt sem fyrndum.

Niðurstaða

Stefnanda var sagt upp störfum 7. október 1998 sem starfsmanni á sam­býli fatlaðra á Blönduósi eins og hér að framan hefur verið rakið. Í rökstuðningi Svæðis­skrifstofu málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra fyrir uppsögninni 20. október sama ár segir að stefnandi hafi samkvæmt 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins sýnt af sér vankunnáttu, meðal annars með því að ræða við foreldra um sakargiftir sem hann hefði borið á fyrrum starfsmann sambýlisins áður en þær hefðu verið kannaðar. Einnig hafi hann unnið í rannsókn á meintum ávirðingum án samráðs við yfirmenn og trúnaðarbrestur milli stefnanda annars vegar og yfirmanns og samstarfsmanna á sambýlinu hins vegar hafi leitt til þess að ekki gæti orðið um frekara samstarf að ræða á milli stefnanda og þeirra. Vísað er til tveggja áminninga og tveggja annarra bréfa á árinu áður um það með hvaða hætti stefnanda bæri að sinna starfi sínu vildi hann halda því. Bent hafi verið á að áframhaldandi samstarfs­örðugleikar vörðuðu uppsögn.

Ástæður uppsagarinnar var samkvæmt þessu að rekja til meintrar vankunnáttu stefnanda og trúnaðarbrests í hans garð af hálfu yfirmanns og annarra starfsmanna sambýlisins. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var skylt að veita stefnanda áminn­ingu samkvæmt 21. gr. laganna og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en til uppsagnar kom. Af hálfu stefnda er vísað til þess að áminningar hafi verið veittar 30. maí og 20. júní 1997 sem voru vegna ætlaðrar misnotkunar stefnanda á vinnublöðum varðandi út­reikninga á yfirvinnu starfsmanna á sambýlinu úr tölvu forstöðumanns. Í fyrri áminn­ingunni er vísað til þess að stefnandi hafi gengið í gögn forstöðumanns, breytt þeim og dreift og sé það með öllu óásættanlegt. Í síðari áminningunni er vísað til þeirrar vinnureglu að starfs­mönnum beri að fylla sjálfir út sínar vinnuskýrslur og skila þeim til forstöðu­manns. Það sé ekki hlutverk trúnaðar­manns að fylla út eða bæta við eða breyta vinnu­skýrslum annarra starfsmanna sem stefnandi hafi gert án vitundar og samráðs við forstöðumann. Stefnandi heldur því fram að hann hafi fyllt út vinnu­skýrslu annars starfsmanns fyrir einn dag að hans beiðni. Þessar áminningar voru veittar af allt öðru tilefni en því sem varð til að stefnanda var sagt upp störfum og löngu áður en til þess kom. Þær verða því ekki taldar í nægum tengslum við framan­taldar ástæður fyrir uppsögninni til þess að með þeim hafi verið fullnægt þeirri lagaskyldu að veita stefnanda áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en til uppsagnar kom, sbr. 1. mgr. 44. gr. framangreindra laga. Af hálfu stefnda er því haldið fram að uppsögn stefnanda hafi verið réttmæt og nauðsynleg vegna alvarlegra brota stefnanda á ábyrgðar- og trúnaðar­skyldum sínum sem hafi réttlætt uppsögn án undangenginnar áminningar. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 70/1996 skal víkja starfsmanni fyrirvaralaust úr starfi ef hann hefur verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna því eða ef hann hefur játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga. Þetta á augljóslega ekki við hér og verður ekki fallist á þau rök stefnda að víkja hafi mátt stefnanda úr starfi eins og gert var án þess að gætt væri ákvæða 1. mgr. 44. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Stefnanda var heldur ekki gefinn kostur á að tjá sig áður en ákvörðun um uppsögnina var tekin eins og skylt var að gera samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en sú ákvörðun varðaði greinilega mikilvæga hagsmuni og réttindi stefnanda.

Ákvörðun um uppsögnina var af þessum ástæðum ekki tekin með lögmætum hætti og hefur stefn­andi öðlast rétt til bóta úr hendi stefnda vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir vegna þessa. Ekki verður þó fallist á að stefnandi eigi rétt á bótum er nemi fullum launum til starfslokaaldurs eins og hann fer fram á. Bætur verður að ákveða að álitum samkvæmt dómvenju þar sem tekið er tillit til aðstæðna, starfs­möguleika stefnanda og launa, þar með talið þess að hann fékk greidd laun á uppsagnarfresti. Einnig verður að telja réttmætt að taka tillit til þess við ákvörðun bóta að upplýsingar, sem stefnandi veitti um grunsemdir sínar er hann taldi vera misfellur í starfseminni á sambýlinu, leiddu til samskiptavandamála milli stefn­anda annars vegar og forstöðumanns sambýlisins og annarra starfsmanna þess hins vegar sem bregðast þurfti við með viðeigandi hætti. Stefnanda var samkvæmt þessu sagt upp vegna erfið­leika og tortryggni, sem upp kom af þessu tilefni, en óljóst verður að telja hvort unnt hefði verið að leysa að öllu leyti til frambúðar úr vandamálum sem þessu tengdust með því að veita stefnanda áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt. Hin skriflega áminning hefði því, ef það hefði ekki skilað árangri, engu breytt fyrir stefnanda að öðru leyti en því að hann hefði væntanlega haldið starfinu í takmarkaðan tíma eftir það. Að teknu tilliti til alls þessa þykja bætur hæfilega ákveðnar 800.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. desem­­ber 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 14. nóvember 2004, og dráttar­vöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, en vextirnir eru hluti af skaðabótakröfu stefn­anda og fyrnast á 10 árum samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfu­réttinda nr. 14/1905 og eru því ófyrndir.

Þegar litið er til þess sem hér að framan segir um ástæður uppsagarinnar verður ekki fallist á að í uppsögninni hafi falist ólögmæt meingerð í garð stefnanda þannig að hann eigi rétt til miskabóta úr hendi stefnda samkvæmt 26. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1993. Verður miskabótakrafa stefnanda því ekki tekin til greina. 

Fyrri áminningin, sem þáverandi forstöðumaður sambýlisins á Blönduósi veitti stefnanda 30. maí 1997 og hann krefst að felld verði úr gildi, var veitt í tilefni af meintum brotum stefnanda á reglum vinnustaðarins. Vísað er til þess að stefnandi hafi gengið í gögn yfirmanns, breytt þeim og dreift. Í áminningarbréfinu segir enn fremur að stefnandi hafi brotið vinnureglur, en óljóst er til hvers þar er vitnað og engar slíkar reglur hafa af hálfu stefnda verið lagðar fram í málinu. Af stefnda hálfu er hins vegar vísað til þess að stefnandi hafi ekki virt forræði svæðisskrifstofu varðandi túlkun kjara­­­­samningsákvæða og hafi hann beitt í því sambandi aðferðum sem hafi verið til þess fallnar að leiða til trúnaðarbrests og samstarfsörðugleika, en stefnandi hafi gengið í gögn forstöðumanns án samráðs við hann. Fram hefur komið að stefnandi prentaði út úr tölvu á skrifstofu forstöðumanns útskýringablað til notkunar við að fylla út vinnu­skýrslur. Ekki er um að ræða að stefnandi hafi breytt skjalinu, eins og fram kemur í hinni skriflegu áminningu að stefnandi hafi gert, heldur færði hann inn á það tillögu sína um útreikninga eins og þar kemur greinilega fram. Stefnandi hefur lýst því að hann og aðrir starfsmenn hafi haft heimild til að nota skrifstofuna, en þar hafi þeir unnið að skýrslugerðum og öðru þess háttar. Stefnandi kvaðst hafa farið í tölvuna og prentað blaðið út með tillögum sínum daginn fyrir fund sem haldinn var á Sauðár­króki 22. maí 1997 þar sem þessir útreikningar hafi verið til umfjöllunar, en forstöðumaður hafi þá verið í sumarfríi og hafi stefnanda ekki fundist ástæða til að ónáða hana af þessu tilefni. Tilgangur fundar­ins hafi verið að ræða efni kjarasamnings frá apríl sama ár, sem þá hafði tekið gildi, og samræma hvernig ætti að reikna út yfir­vinnu­tíma. Stefnandi kvaðst einnig hafa lagt þetta blað ofan á blað forstöðumanns í möppu sem starfsmenn hafi haft aðgang að. Á blaðinu er yfir­­­vinna reiknuð í tuga­brotum með tveimur aukastöfum, en stefnandi setti til hliðar við þessar útskýringar tillögur um að útreikningar með tveimur aukastöfum leiddu til að síðasta tala yrði hækkuð upp um einn þegar næsta tala og sú fyrsta af þeim sem felld væri brott væri hærri en fimm eins og gert er samkvæmt almennum reiknireglum. Síðari áminningin var, samkvæmt því sem fram hefur komið, veitt í tilefni af því að stefnandi hafði fyllt út vinnuskýrslu annars starfsmanns að hans beiðni en án samráðs við forstöðumann. Ekki hefur komið fram í málinu með skýrari hætti en hér að framan hefur verið lýst hvernig framangreind háttsemi stefnanda var brot á vinnureglum eða öðrum reglum, enda er af stefnda hálfu ekki vísað til tiltekinna eða skráðra reglna í þessu sambandi.

Efni áminn­inganna verður að telja óskýrt og tilefnið óljóst enda skortir fullnægj­andi upplýsingar til að unnt sé að meta hvort raunverulegt tilefni hafi verið til að veita stefnanda þær og verður stefndi að bera hallann af því. Stefn­anda var ekki gefinn kostur á að tala máli sínu áður en áminningarnar voru veittar eins og hann átti rétt á samkvæmt 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þegar síðari áminningin var veitt var stefnandi í sumarfríi og gat því ekki komið til fundar við forstöðumann þegar eftir því var leitað við hann. Verður ekki séð að óþarft hafi verið að veita stefnanda tækifæri til að tjá sig, enda var það nauðsynlegt til að stefnandi gæti gætt hagsmuna sinna. Ekki verður heldur fallist á að afstaða stefnanda hafi legið nægilega skýrt fyrir eins og stefndi heldur fram.

Með vísan til þessa verður að telja að ekki hafi verið sýnt nægilega fram á af hálfu stefnda að tilefni hafi verið til að veita stefnanda hinar umdeildu áminningar eða að andmæla­réttar stefnanda hafi verði gætt samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Á árunum 1998 og 1999 leitaði stefnandi til félagsmálaráðuneytisins vegna uppsagnar­innar sem ráðuneytið svaraði 18. mars 1999. Stefnandi leitaði einnig til umboðsmanns Alþingis 16. nóvember sama ár en álit hans er frá 27. febrúar 2001. Stefnandi beindi á ný erindi til félagsmálaráðuneytisins 26. júlí sama ár en úrskurður ráðuneytisins er frá 6. febrúar 2002. Viðamikilla gagna hefur verið aflað í málinu og málssóknina hefur þurft að undirbúa vandlega. Þegar litið er til þessa verður ekki fallist á sjónarmið stefnda um að stefnandi hafi með tómlæti fyrirgert rétti sínum til að fá áminningarnar felldar úr gildi. Samkvæmt framangreindu ber að fella umræddar áminn­­­ingar úr gildi.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 826.770 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 800.000 krónur án virðisaukaskatts, og útlagður kostnaður stefn­anda, samtals 26.770 krónur, en málskostnaður fellur að öðru leyti niður.

Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

DÓMSORÐ:

Stefnda, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Raimund B. Brockmeyer Urbschat, 800.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. desem­ber 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verð­tryggingu frá þeim degi til 14. nóvember 2004 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Áminningar sem stefnanda voru veittar 30. maí og 20. júní 1997 eru felldar úr gildi. 

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 826.770 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 800.000 krónur án virðisaukaskatts. Málskostnaður fellur að öðru leyti niður.