Print

Mál nr. 89/2001

Lykilorð
  • Kærumál
  • Upplýsingaskylda
  • Fjarskipti
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá

Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. mars 2001.

Nr. 89/2001.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði

(Hólmsteinn Gauti Sigurðsson fulltrúi)

gegn

Tali hf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Upplýsingaskylda. Fjarskipti. Friðhelgi einkalífs. Stjórnarskrá.

Sýslumaðurinn í Hafnarfirði krafðist þess að T hf. yrði gert skylt að upplýsa lögregluna í Hafnarfirði um alla umferð símnotenda fyrirtækisins um endurvarpsstöðvar þess við Linnetsstíg og Miðvang í Hafnarfirði á tilteknu tímabili. Kröfu sinni til stuðnings vísaði sýslumaður til b. liðar 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991. Í málinu var ekki fyrir hendi rökstuddur grunur um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hefði verið notað í tengslum við refsivert brot og ekki var því borið við að sérstakt tilefni væri til að ætla að notendur tiltekinna símtækja hjá T hf. tengdust broti því er til rannsóknar var hjá lögreglunni í Hafnarfirði. Beindist krafa sýslumanns þvert á móti að því að veittar yrðu upplýsingar um notkun ótiltekinna símtækja, sem ekkert lá heldur fyrir um hversu mörg væru. Við úrlausn málsins þótti verða að leggja til grundvallar að heimildum til að beita rannsóknarúrræðum samkvæmt 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 væru settar þröngar skorður vegna tillits til friðhelgis einkalífs manna, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Með kröfu sýslumanns væri gengið lengra en rúmaðist innan þessara heimilda og var henni því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. mars 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. mars 2001, þar sem varnaraðila var gert skylt „að upplýsa lögregluna í Hafnarfirði um alla umferð símnotenda fyrirtækisins um endurvarpsstöðvar fyrirtækisins við Linnetsstíg og við Miðvang í Hafnarfirði”. Kemur jafnframt fram í úrskurðinum að hann taki til öflunar gagna er varða símtöl og símanúmer, sem hringt var í og úr, og skráðra kennitalna rétthafa þeim tilheyrandi, sem fóru um nefndar endurvarpsstöðvar á tímabilinu frá kl. 17.00 mánudaginn 26. febrúar 2001 allt til þriðjudagsins 27. febrúar sama árs kl. 08.00. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess, að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi. Hann krefst jafnframt kærumálskostnaðar.

I.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði rannsakar lögreglan nú innbrot, sem framið var 26. eða 27. febrúar 2001 í flutningsgám, sem stóð við Hafnarfjarðarhöfn. Var þar stolið fjölmörgum raftækjum, svo sem fram kemur í úrskurði héraðsdóms. Segir í greinargerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti að lögreglan hafi engar vísbendingar við að styðjast um það, hver eða hverjir hafi þar verið að verki. Með því að kanna símtöl, sem fóru um tvær endurvarpsstöðvar varnaraðila í Hafnarfirði á því tímabili, sem verknaðurinn var framinn, og athuga jafnframt hverjir séu skráðir rétthafar umræddra símtækja, verði lögreglu gert kleift að halda áfram eðlilegri rannsókn málsins. Telur sóknaraðili að ríkir almannahagsmunir og einkahagsmunir krefjist þess að umræddar upplýsingar verði veittar í þágu rannsóknar málsins og því séu skilyrði 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 uppfyllt til að veita umbeðna heimild.

Í málatilbúnaði varnaraðila fyrir Hæstarétti kemur fram að um áðurnefndar tvær endurvarpsstöðvar hafi á því tímabili, sem um ræðir, farið 22.189 „uppköll“. Mótmælir hann því sérstaklega að skilyrði b. liðar 86. gr. laga nr. 19/1991 séu uppfyllt, þar sem ekki sé um að ræða að afla upplýsinga um símtöl við tiltekinn síma. Önnur skilyrði laganna séu heldur ekki uppfyllt. Telur hann kröfu sóknaraðila vera of óákveðna og víðtæka til að vera dómtæka.

II.

Svo sem áður greinir vísar sóknaraðili til stuðnings kröfu sinni til b. liðar 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt þessum ákvæðum getur lögregla krafist upplýsinga hjá yfirvöldum um símtöl við tiltekinn síma eða fjarskipti við tiltekið fjarskiptatæki að fengnum dómsúrskurði um skyldu þeirra til að veita slíkar upplýsingar, enda sé fullnægt skilyrðum 2. mgr. 87. gr. laganna. Skyldu til að veita slíkar upplýsingar er unnt að leggja á einkaaðila, sem rekur fjarskipti, jafnt sem yfirvöld, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 3740.

Skilyrði þess að greindum lagaákvæðum verði beitt er að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að tiltekinn sími eða fjarskiptatæki hafi verið notað í tengslum við refsivert brot. Sú aðstaða er hér ekki fyrir hendi og ekki er borið við að sérstakt tilefni sé til að ætla að notendur tiltekinna símtækja hjá varnaraðila tengist áðurnefndum þjófnaði. Beinist krafa sóknaraðila þvert á móti að því að veittar verði upplýsingar um notkun ótiltekinna símtækja, sem ekkert liggur heldur fyrir um hversu mörg séu.

Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar að heimildum til að beita rannsóknarúrræðum samkvæmt 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 eru settar þröngar skorður vegna tillits til friðhelgis einkalífs manna, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Með kröfu sóknaraðila er gengið lengra en rúmast innan þessara heimilda og verður henni því hafnað.

Varnaraðila verður tildæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði, sem ákveðinn verður eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

            Hafnað er kröfu sóknaraðila, sýslumannsins í Hafnarfirði, um að varnaraðila, Tali hf., verði gert skylt að upplýsa lögregluna í Hafnarfirði um alla umferð símnotenda fyrirtækisins um endurvarpsstöðvar þess við Linnetsstíg og Miðvang í Hafnarfirði á tímabilinu frá kl. 17.00 mánudaginn 26. febrúar 2001 til kl. 8.00 þriðjudaginn 27. febrúar sama árs.

Kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, 50.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness  6.  mars 2001

                Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með beiðni dagsettri 5. mars 2001 að síma- og fjarskiptaþjónustufyrirtækinu TAL hf., kt. 660397-2729, Síðumúla 28, Reykjavík, verði með úrskurði gert skylt að upplýsa lögregluna í Hafnarfirði um alla umferð símnotenda fyrirtækisins um endurvarpsstöðvar fyrirtækisins við Linnets­stíg og við Miðvang í Hafnarfirði, en stöðvar þessar eru í eigu Tals hf.  Er gerð krafa um að afhent verði gögn er varða símtöl og símanúmer sem hringt var í og úr og skráðra kennitalna rétthafa þeim tilheyrandi, sem um áðurnefnda endurvarpsstöð fóru á tímabilinu frá kl. 17:00 mánudaginn 26. febrúar 2001, og allt til þriðjudagsins 27. febrúar 2001, kl. 08:00 árdegis.

                Lögreglustjórinn kveður málavexti þá að á áðurgreindu tímabili hafi verið brotist inn í 40 feta flutningagám í eigu flutningamiðlunarinnar Jónar hf., sem staðsettur hafi verið á norðurbakka Hafnarfjarðarhafnar.  Í gámnum hafi verið raftæki og tölvur í eigu Elko og sé áætlað innflutningsverðmæti munanna vel á sjöundu milljón króna.  Engar haldbærar vísbendingar hafi fundist á vettvangi um það hver eða hverjir hafi verið að verki og ekkert af þýfinu hafi fundist. 

                Lögreglan telur ekki ólíklegt að einhver símtöl hafi farið um áðurnefnda endurvarpsstöð sem kunni að varpa ljósi á málið.  Því sé ljóst að hinar umkröfðu upplýsingar skipti miklu máli fyrir áframhaldandi rannsókn málsins.  Þá sé ljóst að um alvarlegt brot sé að ræða sem geti varðað allt að 6 ára fangelsi. Vísað er til b-liðar 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

                Eins og að framan er rakið stendur yfir rannsókn lögreglu á stórfelldu broti gegn 244. gr. almennra hegningarlaga.  Almennahagsmunir krefjast þess að brot þetta upplýsist ef kostur er.  Þá er einnig mikil fjárhagsleg verðmæti í húfi.  Umbeðin gögn gætu gengt lykilhlutverki í rannsókn lögreglu og stuðlað að því að málið upplýstist.  Verður því krafa lögreglustjórans í Hafnarfirði tekin til greina með vísan til b-liðar 86. gr. og 87. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Tali hf., Síðumúla 28, Reykjavík, er skylt að upplýsa lögregluna í Hafnarfirði um alla umferð símnotenda fyrirtækisins um endurvarpsstöðvar fyrirtækisins við Linnetsstíg og við Miðvang í Hafnarfirði.

                Nær úrskurður þessi til öflunar gagna er varða símtöl og símanúmer sem hringt var í og úr, og skráðra kennitalna rétthafa þeim tilheyrandi, sem um áðurnefnda endurvarpsstöð fóru á tímabilinu frá kl. 17:00, mánudaginn 26. febrúar 2001 og allt til þriðjudagsins 27. febrúar 2001, kl. 08:00, árdegis.