Print

Mál nr. 471/2010

Lykilorð
  • Samningur
  • Lán
  • Gengistrygging
  • Vextir

Fimmtudaginn 16. september 2010.

Nr. 471/2010.

Lýsing hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

gegn

Guðlaugi Hafsteini Egilssyni

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

 og gagnsök

Samningur. Lán. Gengistrygging. Vextir.

L og G gerðu með sér samning 21. nóvember 2007. Samningurinn bar fyrirsögnina „Bílasamningur Lýsingar“, en undir henni var tekið fram að þetta væri „gengistryggður samningur“. L var þar nefndur leigusali, G leigutaki, en samningurinn kaupleigusamningur. Í honum kom fram að leigutíminn væri til 5. nóvember 2013. Mánaðarlegar leigugreiðslur skyldi G greiða í 71 skipti og að leigutíma liðnum yrði hann eigandi bifreiðarinnar. Í samningnum var kveðið á um að fjárhæðir samkvæmt honum tækju breytingum í samræmi við gengi erlendra gjaldmiðla, að hálfu miðað við japönsk yen og að hálfu svissneskra franka. Aðila greindi ekki á um að umsamdir vextir hafi tekið mið af meðaltali af vöxtum á millibankamarkaði í London, svonefndum LIBOR vöxtum, af lánum í fyrrgreindum myntum á þeim degi, sem samningurinn var gerður, að viðbættu 2,9% álagi. Þá var L heimilt á lánstímanum að láta þessa vexti taka breytingum til samræmis við breytingar á LIBOR vöxtum af lánum í þessum erlendu myntum á hverjum tíma. Leigufjárhæðin var greind í íslenskum krónum og innheimt í íslenskum krónum. Þegar leið á samningstímann stóð G ekki skil á greiðslum og afhenti hann L bifreiðina 11. ágúst 2009, en L rifti samningi aðila miðað við þann dag. Með dómi Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 153/2010, sbr. einnig dóm réttarins sama dag í máli nr. 92/2010, var komist að þeirri niðurstöðu að samningur hliðstæður þeim, sem mál þetta varðaði, væri um lán í íslenskum krónum, sem bundið væri við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla, og að slík gengistrygging væri óheimil eftir ófrávíkjanlegum reglum laga nr. 38/2001, en af þeim sökum töldust ákvæði samningsins um það efni ekki skuldbindandi fyrir þann, sem þar var nefndur leigutaki. Í máli því sem nú var til umfjöllunar  var ekki ágreiningur á milli L og G um að af dómi Hæstaréttar í máli nr. 153/2010, sbr. mál nr. 92/2010 leiddi að ákvæði um gengistryggingu í samningi þeirra frá 21. nóvember 2007 væru ógild. Á hinn bóginn greindi aðila á um hvort og þá hvaða áhrif þetta hefði á vexti af láninu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að vextir samkvæmt samningi aðila væru tengdir beint við LIBOR vexti af lánum í þeim myntum, sem hin ógilda gengistrygging samkvæmt samningi aðilanna miðaðist við. Í þessu sambandi yrði að gæta að því að fullljóst væri að slík vaxtakjör af láninu gætu ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem nú lægi fyrir að óheimilt hafi verið að kveða á um. Einnig yrði að líta til þess að eftir að ákvæði í samningnum um gengistryggingu hefði verið metið ógilt væru skuldbindingar G við L, að öllu leyti í íslenskum krónum, og algerlega óháðar tengingu við hinar erlendu myntir, sem aðilarnir gengu út frá við gerð samningsins. Þegar virt væri að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna væri ógilt, og bein og órjúfanleg tengsl væru samkvæmt framansögðu milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hefðu aldrei verið skráðir vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa taldi Hæstiréttur óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess, að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Þar sem í samningi aðila væru ákvæði um vaxtahæð, sem samkvæmt framansögðu yrði ekki beitt, svari atvik til þess að samið hefði verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir vextirnir væru. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu skyldu vextir þegar svo stæði á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna. Var því fallist á þá kröfu L sem laut að því að skuld G við hann væri óverðtryggð og bæri vexti til samræmis við framangreint.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 2010. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér aðallega 1.306.867 krónur, til vara 1.023.584 krónur, til þrautavara 963.486 krónur, þá 845.373 krónur, að því frágengnu 795.944 krónur og loks 122.961 krónu, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. ágúst 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann þess að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 27. ágúst 2010. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

 Aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandi gerðu samning 21. nóvember 2007, sem bar fyrirsögnina „Bílasamningur Lýsingar“, en undir henni var tekið fram að þetta væri „gengistryggður samningur“. Aðaláfrýjandi var þar nefndur leigusali og gagnáfrýjandi leigutaki, en samningurinn var kallaður kaupleigusamningur um bifreið af gerðinni Jeep Grand Cherokee, sem fyrst hafi verið skráð í ágúst 2006. Leigutími skyldi vera frá 20. nóvember 2007 til 5. nóvember 2013. Samkvæmt 4. gr. samningsins var kaupverð bifreiðarinnar 3.582.000 krónur, en við það bættust „vextir frá útborgun“ að fjárhæð 6.481 króna og fékkst þannig svonefnd samningsfjárhæð, sem var 3.588.481 króna. Mánaðarlega átti að greiða leigu að fjárhæð 57.562 krónur í 71 skipti, í fyrsta sinn 5. janúar 2008. Að því búnu átti gagnáfrýjandi að verða eigandi bifreiðarinnar samkvæmt 8. gr. samningsins.

Í lok 4. gr. samningsins var svofellt ákvæði: „Vextir, verðtrygging og annað. Samningur þessi er gengistryggður og eru allar fjárhæðir bundnar erlendum/innlendum myntum í eftirfarandi hlutföllum og taka mið af þeim á hverjum tíma: JPY 50%, CHF 50%. Gengi/vísitala gjaldmiðla miðast við útborgunardag samnings. Leigugjald tekur breytingum á gengi og vöxtum skv. 7. grein samnings þessa.“ Síðastnefnd grein samningsins bar yfirskriftina „Vextir, verðtrygging, gengistrygging og stofngjald“ og sagði þar meðal annars eftirfarandi: „Í fyrirsögn samningsins sem og í 4. gr. hans hér að framan kemur fram hvort hann er verðtryggður, óverðtryggður eða gengistryggður. Ef samningurinn er óverðtryggður eru vextir við upphaf samnings tilgreindir í 4. gr. Leigugreiðslur eru þá óverðtryggðar. Lýsingu hf. er heimilt að endurreikna vaxtahluta þeirra sbr. meðfylgjandi greiðsluáætlun skv. gjaldskrá Lýsingar hf. á hverjum tíma. Á útgáfudegi leigureiknings skulu vextirnir endurskoðaðir og gilda þeir fyrir það tímabil sem reikningurinn hljóðar á. Leigugreiðslur taka því breytingum á leigutímanum í samræmi við það. Ef samningurinn er verðtryggður eru vextir við upphaf samnings tilgreindir í 4. gr. Leigan er þá skv. sömu grein bundin vísitölu neysluverðs og skal því á hverjum gjalddaga leigu eða lokagreiðslu bera vísitöluálag. Vísitöluálagið skal miðast við breytingu frá vísitölu neysluverðs sem er grunnvísitala samnings þessa skv. 4. gr. til þeirrar vísitölu sem í gildi er á hverjum gjalddaga. Aldrei skal þó miða við vísitölu, sem er lægri en grunnvísitala samnings þessa. Ef samningurinn er gengistryggður er Lýsingu hf. heimilt að endurreikna hina gengistryggðu leigu skv. breytingum sem verða á Libor-vöxtum þess erlenda eða þeirra erlendu gjaldmiðla sem leigan er greidd í. Leiga sú, sem er gengistryggð miðað við breytingar á gengi erlends og/eða erlendra gjaldmiðla gagnvart ÍSK er greind í íslenskum krónum. Leigugjald er innheimt í ÍSK. Við útreikning leigu skal leggja til grundvallar skráð sölugengi Seðlabanka Íslands á viðkomandi gjaldmiðli eða gjaldmiðlum við útgáfudag reiknings.“

Samningnum fylgdi greiðsluáætlun, sem var dagsett sama dag og undirrituð af aðilunum, en við fyrirsögn þessa skjals var tekið fram að það varðaði „lán nr. 70062877 – 70062878“, svo og að „höfuðstóll skiptist í JPY 50%, CHF 50%“. Í áætluninni var yfirlit um greiðslur á hverjum gjalddaga, sem var skipt upp í afborganir og vexti, auk þess sem staða höfuðstóls á hverjum gjalddaga var tilgreind. Ofan við þetta yfirlit kom fram að „lengd láns“ væri 71 mánuður og væru vextir „JPY 3,53%“ og „CHF 5,15%“ eða að meðaltali 4,34%, en einnig var við fyrirsögnina „Vaxtaálag“ tekið fram að það væri „Vildarkjör.“

Ekki er ágreiningur með aðilunum um að í framangreindu hafi falist að vextir samkvæmt samningi þeirra myndu svara til meðaltals svonefndra LIBOR vaxta af þeim tveimur myntum, sem tilgreindar voru til viðmiðunar gengistryggingu í samningnum, með 2,9% álagi, sem svari til þeirra vildarkjara sem vísað var til í honum. Samkvæmt gögnum málsins eru LIBOR vextir kenndir við London Interbank Offered Rate og ráðast af viðskiptum þar á millibankamarkaði, en þeir munu vera birtir hvern dag af samtökum breskra banka fyrir 10 gjaldmiðla. Þeirra á meðal eru japönsk yen og svissneskir frankar, en ekki íslenskar krónur.

Í málinu hafa ekki verið lögð fram gögn um hvernig samskiptum aðilanna vatt fram, en óumdeilt er að þegar leið á samningstímann hafi gagnáfrýjandi ekki staðið skil á greiðslum og hafi hann afhent bifreiðina 11. ágúst 2009 til aðaláfrýjanda, sem rifti samningnum miðað við þann dag með stoð í 21. gr. hans. Í 23. gr. samningsins voru ákvæði um uppgjör ef til riftunar kæmi, þar sem meðal annars kom fram að leigutaka bæri þá að standa leigusala skil á öllum gjaldföllnum leigugreiðslum ásamt dráttarvöxtum, allri ógjaldfallinni leigu og tilteknum kostnaðarliðum. Til lækkunar þessu öllu skyldi meðal annars koma eftir nánar tilgreindum reglum söluverð bifreiðarinnar að frádregnum áætluðum viðgerðarkostnaði samkvæmt ástandsskoðun, sem leigusalinn léti gera, og 3% sölulaunum. Fyrir liggur að gjaldfallnar og ógreiddar afborganir á riftunardegi hafi samtalið numið 481.574 krónum og ógjaldfallnar eftirstöðvar höfuðstóls 6.108.314 krónum miðað við upphaflega umsamin kjör. Bifreiðin var seld 31. desember 2009 fyrir 2.800.000 krónur. Aðaláfrýjandi hefur lagt fram í málinu reikninga frá 6. nóvember og 30. desember 2009, þann fyrri að fjárhæð 161.290 krónur auk virðisaukaskatts vegna viðgerðar á bifreiðinni og þann síðari að fjárhæð 107.652 krónur vegna kostnaðar af sölu hennar, en þessa liði telur hann að draga eigi frá söluverði bifreiðarinnar eftir framangreindu samningsákvæði í uppgjöri við gagnáfrýjanda. Fram er komið að aðaláfrýjandi höfðaði eftir riftun samningsins mál á hendur gagnáfrýjanda með stefnu 10. febrúar 2010, þar sem sá fyrrnefndi krafðist greiðslu á 5.243.679 krónum með nánar tilgreindum dráttarvöxtum, en það mál var fellt niður og þetta mál höfðað í framhaldi af því 29. júní sama ár.

II

Eins og að framan var rakið var í samningi aðilanna kveðið á um að fjárhæðir samkvæmt honum tækju breytingum í samræmi við gengi erlendra gjaldmiðla, að hálfu miðað við japönsk yen og að hálfu svissneska franka. Með dómi Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 153/2010, sbr. einnig dóm réttarins sama dag í máli nr. 92/2010, var komist að þeirri niðurstöðu að samningur hliðstæður þeim, sem mál þetta varðar, væri um lán í íslenskum krónum, sem bundið væri við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla, og að slík gengistrygging væri óheimil eftir ófrávíkjanlegum reglum laga nr. 38/2001, en af þeim sökum töldust ákvæði samningsins um það efni ekki skuldbindandi fyrir þann, sem þar var nefndur leigutaki. Aðilana greinir ekki á um að af þessum dómi leiði að ákvæði um gengistryggingu í samningi þeirra frá 21. nóvember 2007 séu ógild, en deila þeirra lýtur á hinn bóginn að því hvort og þá hvaða áhrif þetta hafi á vexti af láninu, sem samkvæmt samningnum áttu að ráðast af millibankavöxtum í London af þeim myntum, sem hin ólögmæta gengistrygging tók mið af.

Aðaláfrýjandi telur að ógildi gengisviðmiðunar höfuðstóls lánsins valdi því að líta verði fram hjá ákvæðum samningsins um vexti, sem byggst hafi á þeirri viðmiðun, og eru aðalkrafa hans og fyrstu fjórar varakröfur á því reistar. Í kröfum hans er gengið út frá því að við uppgjör milli aðilanna verði að gefnum nánar tilteknum forsendum um vexti og eftir atvikum verðtryggingu að reikna út á nýjan leik stöðu lánsins 11. ágúst 2009, þegar hann rifti samningi þeirra, að teknu tilliti til þess, sem gagnáfrýjandi hafði þá greitt af því, og bæta síðan þar við kostnaði af viðgerð og sölu á bifreiðinni að frádregnu söluverði hennar. Í aðalkröfu og fyrstu varakröfu aðaláfrýjanda er lagt til grundvallar að höfuðstóll lánsins taki frá öndverðu breytingum miðað við vísitölu neysluverðs, en í öðrum varakröfum að höfuðstóllinn sé óverðtryggður. Allar eru kröfurnar síðan reiknaðar eftir mismunandi vaxtakjörum, sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Frá samtölu gjaldfallinna afborgana og vaxta og ógjaldfallinna eftirstöðva höfuðstóls á riftunardegi, sem þannig er reiknuð í einstökum tilvikum, dregur aðaláfrýjandi ávallt fjárhæðina, sem hann kveður gagnáfrýjanda hafa í raun greitt af láninu, alls 1.128.938 krónur. Þegar aðaláfrýjandi hefur samkvæmt framansögðu fundið í hverju tilviki mismuninn á því, sem hann telur að greiða beri, og fjárhæðarinnar, sem gagnáfrýjandi hafði greitt af láninu, dregur hann frá 2.531.058 krónur, sem er söluverð bifreiðarinnar að teknu tilliti til kostnaðar af viðgerð og sölu hennar. Þessi fjárhæð hefur misritast bæði í málatilbúnaði aðaláfrýjanda og hinum áfrýjaða dómi, en við útreikning á einstökum kröfum hans hefur þó verið tekið mið af réttri fjárhæð.

Gagnáfrýjandi reisir á hinn bóginn kröfu sína á því að ógildi gengisviðmiðunar í samningi aðilanna hafi engin áhrif á vexti af láninu. Fellur sýknukrafa hans saman við fimmtu varakröfu aðaláfrýjanda að öðru leyti en því að gagnáfrýjandi andmælir því að fjárhæð reikninga vegna kostnaðar af viðgerð og sölu bifreiðarinnar verði dregin frá söluverði hennar. Að þessu leyti er forsendum dómkröfu gagnáfrýjanda ranglega lýst í III. kafla hins áfrýjaða dóms.

Í málinu er ekki ágreiningur milli aðilanna um fjárhæðir.

III

Í áðurnefndum dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 var sem fyrr segir komist að þeirri niðurstöðu að ógilt væri ákvæði um bindingu fjárhæðar láns í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla í samningum, sem hliðstæðir voru samningnum sem mál þetta varðar. Sú niðurstaða var reist á því að slík gengistrygging bryti í bága við ófrávíkjanlegar reglur laga nr. 38/2001, en var hvorki byggð á ákvæðum laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum né ólögfestum reglum fjármunaréttar um ógildingu samninga. Eins og að framan er rakið er óumdeilt að vextir af láni samkvæmt samningi aðilanna áttu að taka mið af meðaltali svonefndra LIBOR vaxta af lánum í japönskum yenum og svissneskum frönkum á þeim degi, sem samningurinn var gerður, að viðbættu 2,9% álagi. Þá er ljóst að aðaláfrýjanda var samkvæmt 4. gr. og 7. gr. samningsins heimilt á lánstímanum að láta þessa vexti taka breytingum til samræmis við breytingar á LIBOR vöxtum af lánum í þessum erlendu myntum á hverjum tíma. Vextirnir voru þannig tengdir beint við vexti á millibankamarkaði í London af lánum í þeim myntum, sem hin ógilda gengistrygging samkvæmt samningi aðilanna miðaðist við. Í þessu sambandi verður að gæta að því að fullljóst er að slík vaxtakjör af láninu gátu ekki komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem nú liggur fyrir að óheimilt hafi verið að kveða á um. Einnig verður að líta til þess að eftir að ákvæði í samningnum um gengistryggingu hefur verið metið ógilt eru skuldbindingar gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda að öllu leyti í íslenskum krónum og algerlega óháðar þeirri tengingu við japönsk yen og svissneska franka, sem aðilarnir gengu út frá við gerð samningsins. Þegar virt er að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna er ógilt og bein og órjúfanleg tengsl eru samkvæmt framansögðu milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti er hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda liggur fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hafa aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa er óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiði til þess að líta verði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð.

Í samningnum 21. nóvember 2007 var ekki mælt fyrir um að skuldbinding gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda ætti að fylgja breytingum á vísitölu neysluverðs, svo sem aðaláfrýjandi hefur lagt til grundvallar í aðalkröfu sinni og fyrstu varakröfu, og er hvorki unnt að gefa samningnum það inntak með skýringu né geta lög leitt til þeirrar niðurstöðu. Í samningnum var ákveðið að skuld gagnáfrýjanda bæri vexti. Með því að þar greindum fyrirmælum um hæð þeirra verður samkvæmt framansögðu ekki beitt er óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 skulu vextir þegar svo stendur á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna. Fjárhæð fjórðu varakröfu aðaláfrýjanda er reist á því að skuld gagnáfrýjanda við hann sé óverðtryggð og beri vexti þessu til samræmis. Með vísan til forsenda héraðsdóms eru engin efni til að taka til greina andmæli gagnáfrýjanda gegn því að fjárhæð reikninga vegna viðgerðar og sölu bifreiðarinnar komi til frádráttar söluverði hennar við uppgjör milli aðilanna. Að gættu þessu öllu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Lýsing hf., greiði gagnáfrýjanda, Guðlaugi Hafsteini Egilssyni, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júlí 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. júlí sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 29. júní 2010.

Stefnandi er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík, en stefndi er Guðlaugur Hafsteinn Egilsson, Eiðismýri 14a, Seltjarnarnesi.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Aðallega að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.306.867 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11.08.2009 til greiðsludags. 

Varakröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 1.023.584 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. ágúst 2009 til greiðsludags. 

Í öðru lagi, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 963.486 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. ágúst 2009 til greiðsludags.  

Í þriðja lagi, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 845.373 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. ágúst 2009 til greiðsludags. 

Í fjórða lagi, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 795.944 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. ágúst 2009 til greiðsludags.  

Í fimmta lagi, að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 122.961 króna auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. ágúst 2009 til greiðsludags.  

Málskostnaðar er ekki krafist af hálfu stefnanda

Af hálfu stefnda eru dómkröfur þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

I.

Málavextir eru þeir helstir, að þann 21. nóvember 2007 gerði stefndi samning við stefnanda um að taka á leigu bifreiðina TP-969 sem er af gerðinni  Jeep Grand Cherokee árgerð 2006. Var framkvæmd viðskipanna með þeim hætti, að stefnandi keypti umrædda bifreið af fyrrverandi eiganda hennar og leigði bifreiðina á þann hátt, að kaupverð bifreiðarinnar, 3.582.000 krónur auk vaxta frá útborgun 6.481 króna, myndaði höfuðstól samningsins eða svokallað samningsverð, 3.588.481 krónur. Var samningurinn nefndur kaupleigusamningur en í því fólst, að stefndi skyldi endurgreiða stefnanda samningsverðið með mánaðarlegum leigugreiðslum á leigutímabilinu sem standa skyldi frá 20. nóvember 2007 til 5. nóvember 2013 og hann eignast bifreiðina í lok leigutímans. Samkvæmt 3. gr. samningsins skyldi gjalddagi leigu vera fimmti hvers mánaðar og leigan innheimtast eftir á.

Í 4. gr. samningsins kemur fram að mánaðarlegt viðmið leigugreiðslu var ákveðið 57.562 krónur en endanleg fjárhæð leigugreiðslu var ákveðin á þann hátt að endanleg leigufjárhæð í hverjum mánuði skyldi ráðast af gengi myntkörfu þar sem JPY skyldi hafa 50% vægi og CHF 50% vægi. Var virkni myntkörfunnar með þeim hætti að leigufjárhæðin í íslenskum krónum var á fyrsta samningsdegi umreiknuð í hina erlendu mynt í ofangreindum hlutföllum, sem síðar voru umreiknaðar að nýju í íslenskar krónur á hverjum gjalddaga samningsins, sbr. 7. gr. almennra skilmála samnings aðila, og höfuðstóll leigugreiðslunnar reiknaður með þeim hætti. Þá skyldi einnig við ákvörðun fjárhæðar leigugreiðslu taka tillit til umsaminna vaxta, sem í þessu tilfelli voru Libor vextir á gjalddaga leigugreiðslunnar af mynt þeirri, sem myndaði myntkörfuna. Kemur þetta fram í svokallaðri greiðsluáætlun, undirritaðri af báðum aðilum 21. nóvember 2007, sem fylgdi bílasamningnum.

Stefndi greiddi í samræmi við samninginn þar til í apríl 2009 og skilaði hann bifreiðinni 28. júlí 2009. Vegna vanefnda stefnda rifti stefnandi samningnum 11. ágúst 2009. Samkvæmt samningnum bar stefnda að standa stefnanda skil á þeim leigugreiðslum sem fallið höfðu í gjalddaga fram til riftunar, auk áfallinna dráttarvaxta. Jafnframt bar stefnda, að standa skil á ógjaldföllnum leigugreiðslum fyrir þann tíma, sem eftir var af samningstímanum, auk sérstaks uppgjörsgjalds. Skyldi í því sambandi reikna höfuðstól leigugreiðslnanna á þann hátt sem segir í 4. gr. samnings aðila miðað við riftunardagsetningu og margfalda þá tölu með fjölda þeirra afborgana sem þá eftir voru af samningi aðila án þess að tekið væri tillit til þeirra samningsvaxta sem ella hefðu átt að koma til greiðslu á hinum ógjaldföllnu gjalddögum.

Bifreiðin TP 969 var síðar seld fyrir 2.800.000 krónur og er gert ráð fyrir þeirri fjárhæð í kröfugerð stefnanda, að frádregnum ýmsum kostnaði við söluna, þ.m.t. sölulaun að fjárhæð 107.652 krónur og viðgerðarkostnaður fyrir sölu, sem samkvæmt framlögðum reikningi nam 161.290 krónum. 

Með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010, vegna sambærilegra samninga og mál þetta snýst um, var komist að þeirri niðurstöðu að í raun og veru væri verið að veita peningalán og lagt til grundvallar að um hefði verið að ræða lánasamninga í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá var talið að þeir samningar, sem fjallað var um í dómunum, bæru með sér að vera lán í íslenskum krónum.  Samningarnir voru því taldir brjóta í bága við 13. og 14. gr. framangreindra laga og talið að þau gengisviðmið, sem notuð voru, væru ekki heimil og m.a. vísað til þess að 13. gr. og 14. gr. laganna væru ófrávíkjanleg ákvæði, sbr. 2. gr. laganna, og gengistryggingin því ekki skuldbindandi fyrir stefndu í áðurnefndum dómsmálum.

II.

Stefnandi lítur svo á að með dómum Hæstaréttar Íslands hafi því verið slegið föstu að sambærilegir kaupleigusamningar séu allir í íslenskum krónum og skuli því lúta þeim kjörum sem um slíka samninga hafa verið gerðir.

Stefnandi byggir á því að þar sem Hæstiréttur Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu varðandi sambærilega samninga, að gengistrygging þeirra hafi verið óheimil og lán til stefndu í þeim málum hafi verið í íslenskum krónum, þá séu önnur kjör samnings aðila einnig ógild og forsendur brostnar fyrir þeim vöxtum sem taka mið af gengistryggingu lánsins. Samningarnir beri einnig með sér að ætlunin hafi verið að tengja þá ákveðinni verðvísitölu, í þessu tilviki gengisvísitölu, og sé því eðlilegt að tekið verði tillit til hækkana eftir íslenskum vísitölum eins og þær séu heimilaðar með lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi byggir kröfur sínar á þeirri málsástæðu, að almennt sé litið svo á að samningsaðili eigi ekki að geta hagnast óeðlilega vegna atvika sem leiði til þess að gerningur sé ógildanlegur, þar með talið til að öðlast rétt sem sé í engu samræmi við þær forsendur sem gengið hafi verið út frá við gerð samningsins. Ef láninu sé breytt í íslenskar krónur og vextirnir miðaðir við erlendar myntir sé ljóst að stefndi sé að tryggja sér umtalsvert lægri fjármögnun en öðrum aðilum stóð til boða á þeim tíma sem samningurinn var undirritaður og gengið var út frá við gerð samningsins. Þeir vextir séu auk þess úr takti við allan raunveruleika varðandi íslensk lánakjör og geti ekki gilt í uppgjöri aðila þessa máls.

Stefnandi vísar jafnframt til þeirra meginreglu samningaréttarins, að ekki sé hægt að bera fyrir sig skuldbindingu sem móttakandi veit eða má vita að er gefin vegna villu um aðstæður og hefur verulega þýðingu fyrir þann samning sem um ræðir. Forsenda stefnanda fyrir þeim vaxtakjörum sem veitt voru var að samningarnir væru gengistryggðir. Það var jafnframt ástæða þess að vaxtakjörin voru umtalsvert lægri en í samningum, sem voru ekki gengistryggðir. Ákvörðun um vaxtakjör samninganna hafi því byggst á röngum forsendum.

Þá vísar stefnandi til þess að þau viðskipti, sem hér um ræðir, hafi átt sér stað að frumkvæði stefnda sjálfs og hafi að því að fjármagna bílakaup í erlendri mynt. Stefnandi hafi keypt bifreiðina og fjármagnað kaupin með erlendu láni í þeim myntum sem stefndi tilgreindi og endurlánaði síðan í formi kaupleigusamnings til stefnda. Forsendur kaupleigusamningsins séu þær, að stefndi greiði til baka fjármagnskostnað stefnanda auk sanngjarnar þóknunar. Stefnandi byggir á því að ákvörðun um vexti eigi að taka mið af þessari forsendu, sem þessi og öll önnur lánaviðskipti hvíla á og stefnda sé fullkunnugt um. Sanngirnisrök leiði til sömu niðurstöðu. 

Aðalkrafa stefnanda um að miðað verði við að samningsfjárhæð sé verðtryggð og beri auk þess vexti samkvæmt gjaldskrá stefnanda á hverjum tíma, byggir á því að samningurinn beri með sér að ætlunin hafi verið að tengja hann ákveðinni verðvísitölu, í þessu tilviki gengisvísitölu, og því sé eðlilegt að tillit verði tekið til hækkana eftir íslenskum vístölum eins og þær séu heimilaðar samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Í stað Libor vaxta og vaxtaálags eins og samningurinn geri ráð fyrir, sé miðað við verðtryggða vexti eins og þeir séu ákveðnir í gjaldskrá stefnanda af verðtryggðum skuldbindingum. Á riftunardegi hafi krafa stefnanda numið 3.837.925 krónum og sé þá tekið tillit til inneignar stefnda vegna ofgreiðslu á tímabilinu frá 24. apríl 2008 til 24. febrúar 2009 samtals með vöxtum að fjárhæð 24.317 krónur. Reiknaðir séu vextir samkvæmt 4 gr. vaxtalaga nr. 38/2001 á ofgreiddar innborganir. Bifreiðin TP 969 hafi síðar verið seld fyrir 2.800.000 krónur og sé sú fjárhæð að frádregnum sölulaunum að fjárhæð 107.652 krónur og viðgerðarkostnaði að fjárhæð 161.290 krónur, samtals 2.431.058 krónur. Niðurstaðan nemi þá samtals 1.306.867 krónum, sem sé stefnufjárhæð aðalkröfunnar auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi þann 11. ágúst 2009. 

Fyrsta varakrafa stefnanda um að miðað verði við að samningsfjárhæð sé verðtryggð og beri verðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, byggir á því að samningurinn beri með sér að ætlunin hafi verið að tengja hann ákveðinni verðvísitölu, í þessu tilviki gengisvísitölu, og því eðlilegt að tillit verði tekið til hækkana eftir íslenskum vístölum eins og þær eru heimilaðar samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Samkvæmt 3 gr. laganna skuli greiða vexti ef það leiði af samningi, lögum eða venju. Í 7. gr. samnings aðila og í sérstökum samningsskilmálum sé sérstaklega vísað til vaxta. Skylda til greiðslu vaxta sé því fyrir hendi í samningi aðila en óljóst sé við hvaða vexti eigi að miða. Samkvæmt 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 skuli þá miða við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum, almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og sem birtir séu skv. 10. gr. vaxtalaga. Á riftunardegi hafi krafa stefnanda numið 3.554.642 krónum og sé þá tekið tillit til inneignar stefnda vegna ofgreiðslu á tímabilinu frá 24. mars 2008 til 24. febrúar 2009, samtals með vöxtum 150.587 krónur. Reiknaðir séu vextir samkvæmt 4 gr. vaxtalaga á ofgreiddar innborganir. Bifreiðin TP 969 hafi síðar verið seld fyrir 2.800.000 krónur og sé sú fjárhæð að frádregnum sölulaunum 107.652 krónur og viðgerðarkostnaði 161.290 krónur samtals 2.431.058 krónur. Niðurstaðan sé þá samtals 1.023.584 krónur sem sé stefnufjárhæð fyrstu varakröfu auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi þann 11. ágúst 2009. 

Önnur varakrafa stefnanda byggir á því að um óverðtryggða kröfu í íslenskum krónum hafi verið að ræða og séu vextir af samningsfjárhæð þá miðaðir við óverðtryggða vexti samkvæmt gjaldskrá stefnanda. Krafan byggi á 2. mgr. 7. gr. samningsins sem heimili stefnanda að endurreikna vaxtahluta hans samkvæmt gjaldskrá stefnanda á hverjum tíma ef leigugjaldið er ákveðið í íslenskum krónum. Leigugreiðslur taki því breytingum á leigutímanum í samræmi við það. Dómar Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 feli í sér að „samningur aðilanna var um skuldbindingu í íslenskum krónum“ eins og segir orðrétt í dómsniðurstöðu. Önnur varakrafa stefnanda byggi því á umsömdu ákvæði um vaxtaútreikning í samningi aðila þegar skuldbinding sé ákveðin í íslenskum krónum. Á riftunardegi hafi krafa stefnanda numið 3.494.544 krónum og sé þá tekið tillit til vangreiðslu stefnda á tímabilinu frá 24. desember 2007 til 24. febrúar 2009 án vaxta, 136.654 krónur. Bifreiðin TP 969 hafi síðar verið seld fyrir 2.800.000 krónur og sé sú fjárhæð að frádregnum sölulaunum  107.652 krónum og viðgerðarkostnaði 161.290 krónum samtals 2.431.058 krónur. Niðurstaðan sé þá samtals 963.486 krónur sem sé stefnufjárhæð annarrar varakröfu auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi þann 11. ágúst 2009.

Þriðja varakrafa stefnanda um að höfuðstóll lánsins beri Reibor vexti auk umsamins 2,9% álags sé í samræmi við 7 gr. samningsins sem vísi til Libor vaxta þeirra erlendu mynta sem fram komi í samningnum. Með Libor vöxtum sé átt við London Interbank Offered Rate eða millibankavexti í London í þeim myntum sem samningurinn vísar til. Reibor vextir séu millibankavextir með íslenskar krónur og birtir á vefsíðu Seðlabanka Íslands og í upplýsingakerfi Reuters, sbr. reglur nr. 805/2009 um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum. Krafa stefnanda um að  miðað verði við Reibor vexti sé í samræmi við þær samningsforsendur stefnanda og stefnda að við vaxtaútreikninga sé miðað við millibankavexti í þeim myntum sem samningurinn samanstandi af, auk umsamins álags. Á riftunardegi hafi krafa stefnanda numið 3.376.431 krónu og sé þá tekið tillit til vangreiðslu stefnda á tímabilinu frá 24. desember 2007 til 24. febrúar 2009 án vaxta 98.083 krónur. Bifreiðin TP 969 hafi síðar verið seld fyrir 2.800.000 krónur og sé sú fjárhæð að frádregnum sölulaunum 107.652 krónum og viðgerðarkostnaði 161.290 krónum samtals 2.431.058 krónur. Niðurstaðan sé þá samtals 845.373 krónur sem sé stefnufjárhæð þriðju varakröfu auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi þann 11. ágúst 2009. 

Fjórða varakrafa stefnanda um að miðað verði við að samningsfjárhæðin beri óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands byggir á því að samningurinn geri ráð fyrir skyldu til greiðslu vaxta. Samkvæmt 3 gr. vaxtalaga skuli greiða vexti ef það leiðir af samningi, lögum eða venju. Í 7. gr. samningsins og í sérstökum samningsskilmálum sé sérstaklega vísað til vaxta. Skylda til greiðslu vaxta sé því fyrir  hendi í samningnum en óljóst við hvaða vexti eigi að miða. Samkvæmt 4. gr. vaxtalaga skuli þá miða við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga. Á riftunardegi hafi krafa stefnanda numið 3.327.002 krónum og sé þá tekið tillit til vangreiðslu stefnda á tímabilinu frá 24. desember 2007 til 24. febrúar 2009 án vaxta 70.383 krónur. Bifreiðin TP 969 hafi síðar verið seld fyrir 2.800.000 krónur og sé sú fjárhæð að frádregnum sölulaunum 107.652 krónum og viðgerðarkostnaði 161.290 krónum samtals 2.431.058 krónur. Niðurstaðan sé þá samtals 795.944 krónur sem sé stefnufjárhæð fjórðu varakröfu auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi þann 11. ágúst 2009. 

Fimmta varakrafa stefnanda um að miðað verði við upphaflega vexti lánsins byggi á því að fallist verði á aðalkröfu stefnda um að miða við upphaflega vexti samningsins sem tekið hafi mið að vöxtum á þeim erlendu myntum sem vísað hafi verið til í samningnum. Á riftunardegi hafi krafa stefnanda numið 2.654.019 krónum og sé þá tekið tillit til þess, að inneign stefnda á tímabilinu frá 24. janúar 2008 til 24. febrúar 2009 auk vaxta komi til lækkunar á stefnufjárhæð. Bifreiðin TP 969 hafi síðar verið seld fyrir 2.800.000 krónur og sé sú fjárhæð að frádregnum sölulaunum 107.652 krónum og viðgerðarkostnaði 161.290 krónum samtals 2.431.058 krónur. Niðurstaðan sé þá samtals 122.961 krónur sem sé stefnufjárhæð fimmtu varakröfu auk vaxta frá riftunar- og gjaldfellingardegi þann 11. ágúst 2009. 

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu samninga- og kröfuréttar um að samninga beri að efna og almennt til samningsskuldbindinga varðandi ákvæði í samningi aðila um vexti af verðtryggðum og óverðtryggðum lánum og til gjaldskrár. Þá er byggt á meginreglum samningaréttar varðandi rangar forsendur og áhrif þeirra á efndaskyldu svo og sjónarmiða um óeðlilegan hagnað og jafnframt á sanngirnissjónarmiðum. Þá er vísað til 4 gr., sbr. 10. gr., vaxtalaga nr. 38/2001 um almenna vexti af peningakröfum þegar vaxtaprósenta er ekki tiltekin og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um að verðtryggingu skuldbindinga.  Loks er vísað til reglna nr. 805/2009 um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum sem settar eru með stoð í 4. gr. laga nr. 38/2001. Dráttarvaxtakrafa stefnanda er studd við ákvæði III. kafla vaxtalaga.

III.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að hann hafi nú þegar greitt upp andvirði umrædds samnings aðila. Verðtrygging höfuðstóls lánsfjárhæðarinnar með því að tengja lánsfjárhæðina við gengi ýmissa erlendra gjaldmiðla sé ólögmæt, eins og komi fram í lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og staðfest hafi verið í dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-7206/2009 þann 12. febrúar sl. og síðar með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 92/2010 hafi því verið slegið föstu, að það sé óheimilt að verðtryggja lán í íslenskum krónum með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Í þessu felist, að reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verði því ekki samið um verðtryggingu, sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Í dóminum komi fram að fyrrnefnd ákvæði í hinum umdeilda samningi um gengistryggingu séu því í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og ekki skuldbindandi.

Í dómi Hæstaréttar felist, að samningurinn standi að öðru leyti en því að ákvæði hans um gengistryggingu séu ógild. Þar sem önnur ákvæði samningsins séu ekki ógild, gildi ákvæði hans um vexti. Þar af leiðandi beri að dæma mál þetta þannig, að stefnda verði gert að greiða af óverðtryggðum og ógengistryggðum höfuðstól lánsins í samræmi við gild vaxtaákvæði samningsins, 4,34% eða breytilega Libor vexti með 2,9% álagi.

Stefndi byggir einkum á þeim málsástæðum í þessu máli, að samningar skuli standa og að út frá sjónarmiðum um neytendavernd sé ekki unnt að líta svo á að samningurinn sé ósanngjarn eða að honum eigi að víkja til hliðar. Ákvæði samningalaga og sjónarmið um brostnar forsendur leiði ekki til þeirrar niðurstöðu eins og stefnandi haldi fram. Ákvæði vaxtalaga um leiðréttingar og breytingar á samningsskilmálum megi ekki vera neytandanum í óhag. Til þess að unnt sé að gera breytingar á vaxtaákvæði samningsins þurfi stefnandi að sýna fram á að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða reglna kröfuréttar um brostnar forsendur eigi við í þessu máli en þar sem stefnandi sé fyrirtæki, sem hafi lánastarfsemi að atvinnu, geti umræddar reglur ekki verið honum til hagsbóta í þessu tilfelli.

Stefndi kveðst mótmæla þeirri málsástæðu stefnanda, að taka eigi tillit til hækkana eftir íslenskum vísitölum. Þá liggi ekkert fyrir um ætlaðan óeðlilegan hagnað stefnda og sé því mótmælt. Þá sé því jafnframt mótmælt að viðskiptin hafi verið að frumkvæði stefnda, enda séu allir samningsskilmálar staðlaðir og samdir af stefnanda. Loks mótmælir stefndi viðgerðarkostnaði og sölulaunum samkvæmt uppgjöri stefnanda, enda hafi sá kostnaður verið einhliða ákvarðaður af hálfu stefnanda og án alls samráðs við stefnda.

Í 2. gr. vaxtalaga segi að ákvæði II. og IV. kafla laganna gildi því aðeins að ekki leiði annað af samningnum, venju eða lögum. Þó sé ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara. Þetta beri að túlka þannig, að kveði samningur á um betri rétt fyrir skuldara en ákvæði laganna, þar á meðal vaxtaákvæði, séu þau frávíkjanleg. Með öðrum orðum megi slá því föstu, með vísan til þessa ákvæðis og athugasemda um einstakar greinar frumvarpsins, að kveði samningur aðila á um betri rétt fyrir skuldara verði lögum um vexti og verðtryggingu ekki beitt honum í óhag. Niðurstaða Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010, þar sem sambærilegir samningar voru til umfjöllunar, hafi verið á þann veg að samningarnir væru ekki ógildir í heild sinni, þrátt fyrir að ákvæði um gengistryggingu lánanna teldist ekki vera skuldbindandi fyrir stefndu.

Í 18. gr. vaxtalaga sé settur fyrirvari fyrir aðila um hvernig leyst verði úr þeirri stöðu sem upp komi ef samningur teljist ógildur. Óumdeilt sé að samningur aðila sé ekki ógildur í heild, þrátt fyrir að ákvæði hans um gengistryggingu sé óskuldbindandi, og þar af leiðandi geti sjónarmið vaxtalaga átt við. Aðilar hafi samið um vexti þegar samningurinn var gerður og skyldu þeir taka mið af Libor vöxtum hvers gjaldmiðils um sig að viðbættu 2,9% álagi.  Að sami skapi segi í 4. gr. vaxtalaga, að þegar greiða beri vexti samkvæmt 3. gr., en hundraðshluta þeirra eða vaxtaviðmiðun sé að öðru leyti ekki tiltekin í samningi aðila, skuli vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum, óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir samkvæmt 10. gr.  Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða verðtryggðar kröfur, skuli vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum, verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. Hér sé því átt við samninga, þar sem ekki sé tilgreindur vaxtafótur.

Af því sem ofan segir sé ljóst, að vaxtalög heimili ekki breytingu á samningsákvæðum skuldara í óhag. Vaxtaákvæðum samningsins verði því aðeins breytt með beitingu 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og aðeins neytanda í hag.

Ákvæði 36. gr. samningalaga, sbr. a.-c. liðir 36. gr. sl., beri með sér að ákvæðum samnings verði ekki breytt neytanda í óhag. Þar sem Hæstiréttur Íslands hafi dæmt gengistryggingu lánanna ólögmæta og jafnframt staðfest að samningarnir séu ekki ógildir að öðru leyti, sé ljóst að hækkun á umsömdum vöxtum sé neytandanum í óhag. Þar af leiðandi sé ekki hægt að beita ákvæðum 36. gr. samningalaga í þessu máli stefnda í óhag.

Komist dómstóllinn samt sem áður að þeirri niðurstöðu að hægt sé að breyta vaxtaákvæðum samninganna, telji stefndi ekki unnt að fallast á, að það sé eðlilegt að þau séu miðuð við vexti Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem lánið var tekið. Opinbert markmið Seðlabankans hafi verið að draga úr lántökum með því að hækka vexti mikið. Svo háir hafi vextir verið á tímabili, að lægstu vextir á óverðtryggðum lánum voru 20,9% en hafi t.d. numið 12,48% að meðaltali frá því að vaxtalög tóku gildi. Þegar stefndi hafi tekið lán hjá stefnanda hafi lægstu óverðtryggðu vextir Seðlabankans verið 16,65% og meðaltal vaxtanna 18,2% á þeim tíma sem greitt var af láninu. Í dag séu þessir vextir 8,5%.

Eigi sanngirnissjónarmið samninga- og kröfuréttar að leiða til þess að vaxtaákvæðum samningsins verði breytt, hljóti sömu sanngirnissjónarmið að leiða til þess, að önnur leið en að hafa ákvæði vaxtalaga til hliðsjónar við ákvörðun vaxta samningsins, verði valin. 

Stefndi bendir á að hann hafi í samningssambandi sínu við stefnanda stöðu neytanda og sé ljóst að lánveitingin eigi undir skilyrði laga nr. 121/1994, um neytendalán. Þegar svo hátti til, hvíli þær skyldur á lánveitanda að skýrlega komi fram í samningi hverjir vextir á láni séu og hver heildarkostnaður við lánveitinguna sé. Ennfremur að ekki verði lagðir á hærri vextir en leiða megi af samningi og að heildarkostnaður af láninu verði ekki hærri en sem ráða megi af samningi.

Samningalög verndi með skýrum hætti stöðu neytenda í samningum. Ákvæði 36. gr., sbr. ákvæði 36. a.-d., feli með ótvíræðum hætti í sér að samningum verði aðeins vikið til hliðar í heild eða að hluta hafi neytandinn borið skarðan hlut frá borði. Með lögfestingu þessara ákvæða hafi með skýrum hætti verið kveðið á um rétt neytenda í þeim tilfellum þar sem hann hafi enga aðkomu haft að gerð samningsins, t.d. þegar staðlaðir samningsskilmálar eiga í hlut. Þegar svo sé ástatt, verði lánveitandinn að taka á sig hallann af mistökum við samningsgerð eða þeim atvikum og breytingum sem upp kunni að koma eftir að samningurinn var gerður.

Í þessu máli liggi fyrir að sú aðferðarfræði, sem lánveitandi byggði á í stöðluðum skilmálum við að verðtryggja höfuðstól lánsins, þ.e. með því að gengistryggja hann, hafi verið metin ólögmæt. Það hafi staðið stefnanda að öllu leyti nær að ganga úr skugga um lagagrundvöll samningsins að þessu leyti, enda starfi stefnandi sem fjármálafyrirtæki í skjóli leyfa frá Fjármálaeftirlitinu og hafi tugi starfsmanna í vinnu, sem hafi þekkingu á þessu sviði. Því geti stefnandi ekki með neinum hætti byggt á því, að samningurinn hafi verið ósanngjarn eða að honum eigi að breyta, þar sem hann verði, lögum samkvæmt, að taka á sig hallann af því að hafa lagt upp með ólögmætt ákvæði í samningnum. Samningurinn geti vel staðið að öðru leyti og gangi röklega upp að öllu leyti. 

Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 14/1995, um breytingu á samningalögum, segi m.a. um ákvæði 36. gr. c: „Í 3. mgr. fyrirhugaðrar 36. gr. c er mælt fyrir um réttaráhrif þess að samningur falli undir ákvæði tilskipunarinnar en jafnframt felst í þessari málsgrein eitt mikilvægasta ákvæði frumvarpsins. Í málsgreininni segir: Ef einum eða fleiri samningsskilmálum er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur óbreyttur enda stríði skilmálinn eða skilmálarnir gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna réttindum og skyldum samningsaðila neytanda í óhag“.

Ljóst sé því að það var mikilvæg forsenda samkvæmt lögskýringargögnum með lögfestingu þessa ákvæðis að horfa skyldi til hagsmuna neytenda en ekki kröfuhafa.

Stefnandi byggi á því að forsendur séu brostnar fyrir þeim vöxtum sem samið var um í upphafi í kjölfarið á dómi Hæstaréttar. Á þetta verði ekki fallist af hálfu stefnda, enda eigi hinar óskráðu meginreglur samningaréttar um brostnar forsendur ekki við í þessu máli þar sem ekki séu efni til að ógilda samninginn að hluta eða í heild.

Jafnvel þótt talið yrði unnt að breyta samningum á grundvelli meginreglna um brostnar forsendur, þurfi að uppfylla ströng skilyrði til að um forsendubrest teljist vera að ræða. Í fyrsta lagi þurfi forsendan að vera ákvörðunarástæða fyrir loforðsgjafann, í öðru lagi þurfi loforðsmóttakandinn að hafa vitað eða mátt vita að loforðið var gefið vegna forsendunnar og í þriðja lagi þurfi það að vera sanngjarnara að leggja áhættuna af því að forsendan bresti, á loforðsmóttakandann en loforðsgjafann. Uppfylla þurfi öll skilyrðin til að um forsendubrest sé að ræða. Ljóst sé, að skilyrðin séu ekki uppfyllt í þessu máli, einkum hvað varðar þriðja skilyrðið, enda sé áhættan af forsendubresti að öllu leyti hjá stefnanda.

Við mat á samningnum verði að líta til stöðu aðilanna við samningsgerðina, sbr. 2. mgr. 36. gr. samningalaganna. Hún hafi augljóslega verið ójöfn, enda sé stefnandi með yfirburðarþekkingu á því sviði sem samningurinn tekur til. Stefnandi sé einnig aðili að Samtökum fjármálafyrirtækja og hafi honum mátt vera ljóst að hann tæki áhættu með því að reyna að sniðganga þá breytingu, sem varð á vaxtalögum um að óheimilt væri að gengistryggja lán. Í umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, nú Samtök fjármálafyrirtækja, vegna frumvarps til vaxtalaga nr. 38/2001, dagsettri 24. apríl 2001, komi í umfjöllun um breytingar á verðtryggingarákvæðum laganna m.a. fram eftirfarandi texti: „Ekki verður séð hvaða rök eru fyrir því að takmarka verðtrygginguna við þessar vístölur [innsk. vísitölu neysluverðs og hlutabréfavísitölu]. Það gengur gegn almennu samningafrelsi, enda getur verið fullkomlega eðlilegt að viðsemjendur fái að nota aðrar viðmiðanir sem þeir koma sér saman um. Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánasamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur“.

Þegar umrædd lagabreyting hafi orðið, hefðu hagsmunasamtök þau, sem stefnandi er aðili að, gert sér fulla grein fyrir þýðingu og inntaki þeirra breytinga sem urðu með lögum nr. 38/2001. Það sé því í öllu falli ljóst að stefnanda hefði, sem fjármálafyrirtæki sem sérhæfir sig í lánasamningum, mátt vera fullkunnugt um að þau ákvæði lánasamninga um gengistryggingu, sem nú hafa verið dæmd ólögleg, orkuðu tvímælis.

Stefnandi hafi reynt að koma sér hjá afnámi gengistryggingar með samningi sínum við stefnda. Eftir dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 sé ljóst að slík sniðganga gangi ekki, enda um ófrávíkjanlega lagareglu að ræða og umrætt samningsákvæði sé því ólöglegt. Með hliðsjón af stöðu aðila og því, að stefnandi hafi samið skilmála samningsins einhliða, sé ljóst að áhættutakan af því að umrætt samningsákvæði haldi gildi sínu, sé að öllu leyti á höndum stefnanda og því sé það ósanngjarnt að stefndi þurfi að bera þá byrði að stefnandi skuli hafa tekið slíka áhættu með viðskiptaháttum sínum, enda hafi stefndi verið í góðri trú um að ákvæðið væri lögum samkvæmt.

Það verði að teljast óeðlilegt að stefnandi, sem fjármálafyrirtæki, geti velt áhættunni af því að sniðganga ófrávíkjanlegt lagaákvæði yfir á grandlausan viðsemjanda sinn með þeim hætti sem gert sé í samningnum við stefnda og ætlast til þess að fá samningnum breytt með atbeina dómstóla, t.d. með því að láta samninginn bera vexti samkvæmt gjaldskrá sinni sem eigi við um annars konar samninga en stefndi gerði.

Stefndi telur óljóst til hvers stefnandi vísar með röngum forsendum í stefnu. Um rangar forsendur sé fjallað í 32. gr. samningalaga og sé ljóst, að slíkt eigi ekki við í máli þessu þar sem stefnandi vissi, eða hefði mátt vita, að umrædd gengistrygging var ólögleg og verði hann að bera áhættuna af því. Þá sé einnig ljóst að stefnandi var grandsamur um það hvort gengistryggingin var ólögmæt og því sé fráleitt að halda því fram, að samningurinn hafi verið byggður á röngum forsendum. Þrátt fyrir að samningur stefnanda og stefnda hafi verið gengistryggður og því fylgi áhætta varðandi gengi gjaldmiðla, sem stefndi hefði hugsanlega átt að eða mátt vita um, sé ekki hægt að gera kröfu um að hann hafi vitað, eða mátt vita, að umrædd gengistrygging var ólögmæt. Þetta verði einnig að skoða í ljósi stöðu aðila samningsins.

Stefnandi vísi til reglna um óeðlilegan hagnað í stefnu sinni en í því tilliti verði að hafa í huga að um sé að ræða samningsskilmála sem stefnandi samdi. Raunar sé óvíst til hvers nákvæmlega stefnandi vísi með þessu hugtaki en sé hann að vísa til reglna um óréttmæta auðgun þá sé því hafnað. Krafa geti stofnast vegna slíkrar auðgunar og í auðgunarkröfu felist að sá, sem hlotið hefur óréttmæta auðgun á kostnað annars manns, skuli skila honum ávinning sínum. Hins vegar sé vandséð hvernig reglan verði heimfærð til sakarefnis þessa máls, enda geri stefnandi ekki eiginlega auðgunarkröfu í málinu. Stefnandi virðist telja að byggja eigi á þessari reglu þar sem stefndi tryggi sér annars umtalsvert lægri fjármögnun en öðrum aðilum stóð til boða. Til þess að þetta ætti við, þyrfti að vera sýnt fram á að um tjón annars sé að ræða og auðgun hins sé í beinum tengslum við það tjón. Ekki sé hægt að líta svo á, að stefndi hafi hagnast, enda hafi Hæstiréttur Íslands dæmt gengistrygginguna ólögmæta og geti það því ekki verið grundvöllur útreikninga um ætlaðan hagnað. Þá sé ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Loks hefðu stefnanda vel mátt vera ljós áhrif ákvæða vaxtalaga á þá stöðluðu samningsskilmála, sem hann setti fram í samningnum. Sé þessari málsástæðu því mótmælt.

Aðaldómkrafa stefnanda, auk fjögurra fyrstu varakrafna, gangi allar út á að víkja megi til hliðar skýrum ákvæðum samningsins um vexti og setja með afturvirkum hætti aukavexti eða verðtryggingu inn í samninginn, sem aldrei hafi verið samið um og engin lög eða reglur heimili. Kröfur stefnanda séu útfærðar með ýmsum hætti en ekki sé ástæða til að fara ofan í þær hverja fyrir sig, að öðru leyti en því að vísa til þeirra sjónarmiða, sem rakin hafi verið hér að framan um að óheimilt sé að breyta samningsákvæðum neytanda í óhag. Þá sé áréttað að gjaldskrá stefnanda hafi aldrei verið kynnt fyrir stefnda og hafi ekki sérstakt gildi fyrir túlkun þessa samnings.

Stefndi kveðst ekki andmæla forsendum að baki fimmtu varakröfu stefnanda um að samningur aðila verði reiknaður með þeim hætti, að ákvæði hans standi óbreytt hvað varðar vexti auk kostnaðar við sölulaun og viðgerð á bifreiðinni.

Verði niðurstaða dómsins á þá leið, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti sé þess krafist, að þeir leggist á dómkröfur stefnanda frá dómsuppsögudegi að telja og vísar stefndi að þessu leyti til 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.     

Um lagarök vísar stefndi til almennra meginreglna samninga- og kröfuréttar, einkum til 36. gr. og 36. gr. a.- d. samningalaga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 14/1995 og laga nr. 121/1994, um neytendalán, einkum 1., 2. og 5. kafla laganna. Varðandi ákvæði um vexti af kröfum, gengistryggingu og verðtryggingu er vísað til laga nr. 38/2001, um vexti og verðlag, einkum 3., 4., 10., 13., 14. og 18. gr. Þá er vísað til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi réttarfarsleg atriði. Um ákvörðun málflutningsþóknunar vísist til 130. gr. laganna og um virðisaukaskatt af málsþóknun til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar í málinu.

IV.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því, hvernig túlka beri fyrrgreindan samning aðila í ljósi nýfallinna dóma Hæstaréttar Íslands um að sambærilegir samningar séu samningar um lán í íslenskum krónum og að gengistrygging slíkra samninga sé óheimil og óskuldbindandi fyrir lánþegann þar sem hún sé í andstöðu við fyrirmæli ófrávíkjanlegra ákvæða 13. og 14. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, sem heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila í málinu og gerir stefndi ekki athugasemdir við útreikninga stefnanda á kröfum sínum. Þá er óumdeilt að vanskil urðu á greiðslum af hálfu stefnda eins og greinir í málavaxtalýsingu.

Kröfur stefnanda byggja á svonefndum bílasamningi Lýsingar sem aðilar gerðu sín í milli 21. nóvember 2007. Með samningnum lánaði stefnandi stefnda 3.588.481 krónu til kaupa á bifreiðinni TP 969. Mánaðarlegar afborganir námu 57.562 krónum en í 4. gr. samningsins segir að samningurinn sé gengistryggður og að allar fjárhæðir hans séu bundnar erlendum/innlendum myntum og taki mið af þeim á hverjum tíma: JPY 50%, CHF 50%. Jafnframt er þar mælt fyrir um að leigugjaldið taki breytingum á gengi og vöxtum samkvæmt 7. gr. samningsins. Þar segir að í fyrirsögn samningsins og í 4. gr. hans komi fram hvort hann er verðtryggður, óverðtryggður eða gengistryggður. Er síðan rakið í ákvæðum 7. gr. samningsins hvernig með skuli fara í hverju tilviki fyrir sig. Er í upphafi samningsins tekið fram að hann sé gengistryggður og þá er í svokallaðri greiðsluáætlun, sem fylgdi með samningnum og undirrituð var af báðum aðilum 21. nóvember 2007, mælt fyrir um að greiða skuli Libor vexti af mynt þeirri, sem myndaði myntkörfuna.

Af hálfu stefnanda er byggt á því að í ljósi framangreindrar niðurstöðu Hæstaréttar um gengistryggingu í samningi aðila séu vaxtaákvæði ógild þar sem það hafi verið forsenda vaxtaákvörðunarinnar að lánið væri gengistryggt en sú forsenda hafi verið röng og því brostið. Ákveðið samhengi er milli vaxta og grunns verðtryggingar og er fallist á það með stefnanda að umsamdir vextir hafi verið ákvarðaðir með hliðsjón af gengistryggingunni, sem nú hefur verið dæmd óheimil. Um er að ræða lága vexti, svonefnda Libor vexti, sem taka mið af gjaldmiðlum í myntkörfu lánsins. Þykir ljóst að gengistryggingin hafi af hálfu lánveitanda verið ákvörðunarástæða þess að samið var um framangreinda vexti, auk þess sem telja verður að um hafi verið að ræða verulega forsendu umsaminna vaxta. Í 7. gr. samningsins segir að fram komi bæði í fyrirsögn hans og í 4. gr. hvort hann sé verðtryggður, óverðtryggður eða gengistryggður. Liggur því fyrir að stefnandi bauð lán með þrenns konar kjörum og er ljóst að um vexti fer eftir því hvort samið var um einhvers konar verðtryggingu eða ekki og jafnframt að vextir voru ekki þeir sömu þegar um var að ræða annars vegar gengistryggingu og hins vegar það, sem í 7. gr. samningsins er nefnt verðtrygging. Verður því að telja, að stefnda hafi verið fullljóst að umrætt lán frá stefnanda bæri vexti sem tækju mið af umsaminni verðtryggingu í erlendri mynt.

Að þessu virtu og með hliðsjón af efni umrædds samnings er ljóst að aðilar hafa við gerð hans tekið mið af því að lánið yrði verðtryggt með ákveðnum hætti og að jafnframt yrðu greiddir vextir sem tækju mið af umsaminni gengistryggingu sem dæmd hefur verið óheimil. Vegna þessara forsendna, sem taldar verða verulegar og ákvörðunarástæða fyrir lánveitingunni og báðum aðilum máttu vera ljósar, en reyndust vera rangar, verður að fallast á það með stefnanda að samningur aðila bindi hann ekki að því er vaxtaákvörðunina varðar. Á stefnandi því rétt á, að stefndi greiði honum þá fjárhæð, sem ætla má að aðilar hefðu ellegar sammælst um, án tillits til villu þeirra beggja. Þykja hvorki neytendasjónarmið né staða aðila við samningsgerðina breyta þeirri niðurstöðu.

Stefndi heldur því fram í greinargerð, að hann hafi nú þegar greitt upp andvirði umrædds samnings án þess að rökstyðja þá fullyrðingu frekar. Engin gögn liggja þessari málsástæðu til grundvallar og verður því ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu. Í greinargerð mótmælir stefndi viðgerðarkostnaði og sölulaunum samkvæmt uppgjöri stefnanda með þeim rökum að sá kostnaður hafi verið ákveðinn einhliða af stefnanda án samráðs við stefnda. Kröfugerð stefnanda fær að þessu leyti stuðning í gögnum málsins, bæði í samningi aðila sem og reikningum vegna viðgerðarkostnaðar og sölulauna og er ekkert fram komið í málinu að öðru leyti sem bendir til þess að kröfugerðin sé röng. Er þessum mótmælum stefnda því hafnað.

Við mat á því hvernig ákvarða beri þá fjárhæð, sem stefnda ber að greiða stefnanda samkvæmt framansögðu, verður að líta til þeirra atriða sem lágu til grundvallar samningum aðila umrætt sinn. Fram er komið og ljóst af ákvæðum 7. gr. samningsins, að stefnandi bauð neytendum lán með þrenns konar kjörum, þ.e. óverðtryggð, verðtryggð eða gengistryggð. Aðilar máls þessa sömdu um gengistryggingu og því ljóst að þeir gengu út frá því að lánið yrði verðtryggt með ákveðnum hætti. Bæði í aðalkröfu og annarri varakröfu stefnanda er gert ráð fyrir vöxtum samkvæmt gjaldskrá stefnanda, í aðalkröfu af verðtryggðri kröfu en í annarri varakröfu af óverðtryggðri kröfu í íslenskum krónum. Þessu hefur stefndi mótmælt sérstaklega enda hafi honum hvorki verið kynnt sú gjaldskrá né um þau kjör samið. Fallist verður á þau sjónarmið, enda er ekkert fram komið um að vextir samkvæmt gjaldskrá stefnanda hafi verið kynntir stefnda eða að um þá hafi verið samið. Að þessu virtu og með hliðsjón af sjónarmiðum um neytendavernd verður ekki fallist á það með stefnanda, að við vaxtaákvörðun verði tekið mið af gjaldskrá stefnanda eins og krafist er í aðalkröfu hans og annarri varakröfu. Verður því kröfum stefnanda á þeim grundvelli hafnað þegar af þeirri ástæðu.

Eins og áður er komið fram, verður að líta svo á að aðilar hafi ætlað sér að tengja samninginn ákveðinni verðvísitölu sem í þessu tilviki var gengisvísitala. Vegna þessa byggir stefnandi fyrstu varakröfu sína á því að miða beri við að samningsfjárhæð sé verðtryggð og beri verðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að stefnda stóðu til boða lán frá stefnanda með þrenns konar kjörum, þ.e. óverðtryggð, verðtryggð og gengistryggð. Ekki verður fullyrt um hvort stefndi hefði kosið að taka verðtryggt lán eða óverðtryggt. Þykir því með vísan til grunnraka samningaréttarins um sanngirni, sem og til neytendasjónarmiða, sem m.a. koma fram í 36. gr. c laga nr. 7/1936, að skýra þann vafa stefnda í hag og miða við þau samningskjör sem eru honum hagfelldari. Er óumdeilt að samningskjör miðað við verðtryggt lán eru stefnda óhagfelldari en þau kjör sem miðast við óverðtryggt lán. Af því leiðir að hafna ber fyrstu varakröfu stefnanda. Þá verður ekki séð að þriðja varakrafa stefnanda um Reibor vexti eigi sér stoð í samningi aðila og verður því heldur ekki á hana fallist.

Að öllu framanrituðu virtu er það niðurstaða dómsins að við úrlausn málsins verði að líta til ákvæða 4. gr., sbr. 3. gr., vaxtalaga nr. 38/2001 og reikna vexti af umræddu láni til samræmis við þá vexti, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum af nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga. Verður því fallist á fjórðu varakröfu stefnanda. Eins og áður segir, er ekki uppi í málinu tölulegur ágreiningur um útreikning kröfunnar. Verður stefnda því gert að greiða stefnanda 795.944 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá riftunar- og gjaldfellingardegi 11. ágúst 2009 til greiðsludags.

Eins og mál þetta er vaxið og með vísan til ákvæða 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að dæma stefnanda til að greiða hluta málskostnaðar stefnda sem er hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Guðlaugur Hafsteinn Egilsson, greiði stefnanda, Lýsingu hf., 795.944 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 11. ágúst 2009 til greiðsludags.

Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.