Print

Mál nr. 850/2015

Sveinn Rúnar Sigmundsson og Guðný Óskarsdóttir (Friðbjörn E. Garðarsson hrl., Daníel Pálmason hdl.)
gegn
íslenska ríkinu (Stefán A. Svensson hrl.)
Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Þjóðlenda
  • Afréttur
  • Gjafsókn
  • Aðfinnslur
Reifun

Í úrskurði Óbyggðanefndar var komist að þeirri niðurstöðu að landsvæðið Hólaafréttur að meðtöldum svonefndum Jórunnarstaðatungum væri þjóðlenda, svo og að nyrsti hluti landsvæðisins væri í afréttareign eigenda jarðanna Hóla og Jórunnarstaða í Eyjafjarðarsveit. Að úrskurðinum gengnum féllu eigendur Jórunnarstaða frá tilkalli sínu til Jórunnarstaðatungna og viðurkenndu að það svæði ætti réttilega undir jörðina Hóla samkvæmt þinglýstri heimild. Þáverandi eigendur Hóla höfðuðu mál til að fá úrskurði Óbyggðanefndar hnekkt vegna þessa landsvæðis í heild, en S og G tóku síðar við aðild að málinu á grundvelli kaupa á jörðinni. Fyrir Hæstarétti kröfðust S og G þess að úrskurður Óbyggðanefndar yrði felldur úr gildi að því er þann hluta Hólaafréttar varðaði, sem talinn hafði verið þjóðlenda í afréttareign Hóla, og að viðurkennt yrði að þar væri enga þjóðlendu að finna. Í dómi Hæstaréttar var greint frá frásögn í Landnámabók um landnám í Eyjafirði og tiltekið að þar væri syðst getið Villingadals, þaðan sem væru um 10 km suður til norðurmerkja Hólaafréttar. Vísaði rétturinn til þess að hvorki nyti við annarra ritheimilda um hugsanlegt landnám í Eyjafjarðardal né lægju fyrir gögn um fornleifarannsóknir innan merkja landsvæðisins eða í nálægð við það. Þetta taldi Hæstiréttur ekki standa því í vegi að leiða mætti á annan hátt nægilegar líkur að því að land hefði verið numið á svæðinu og þar með háð beinum eignarrétti. Við mat á því væri til þess að líta að norðurmerki landsvæðisins væru um 50 km frá sjó og þar væri Eyjafjarðardalur orðinn þröngur og umlukinn bröttum hlíðum, nýtanlegt land þar lítið, svo og að um 14 km skildu milli landsvæðisins og jarðarinnar Hóla og lægju margar jarðir þar á milli. Hæstiréttur taldi að álykta mætti af fyrirliggjandi heimildum að nánar tilgreindar jarðir í Eyjafirði, þar á meðal Hólar, væru fornar þótt þeirra hefði ekki verið getið í heimildum meðal fyrstu landnámsjarða, en gögn málsins veittu á hinn bóginn engar vísbendingar um að Hólar væri elst þessara jarða og upphaflega stærri en nú væri og að aðrar nánar tilgreindar jarðir austan og vestan Eyjafjarðarár hefðu byggst úr henni. Gegn því mælti og frásögn í Landnámabók um landnámssvæði í Eyjafjarðardal, en heimildir um eignarhald á áðurgreindum jörðum á 16. öld gætu ekki verið til marks um uppruna þeirra eftir landnám. Því taldi rétturinn ekki unnt að líta svo á að líklegt væri að land, sem nú væri innan Hólaafréttar, hefði í öndverðu verið syðsti hlutinn af stóru landnámi jarðarinnar Hóla og hefði síðar greinst frá henni með tilurð nýrra jarða í landi hennar. Þá taldi Hæstiréttur að jarðakaupabréf frá 1375 benti ekki til annars en að landsvæðið hefði verið upprekstrarland, sem fylgt hefði Hólum og verið háð umfangsmiklum ítaksréttindum annarra. Aðrar yngri heimildir ættu það sammerkt að vísa ýmist til afréttar Hóla á Eyjafjarðardal eða heimildar annarra til að reka þangað búfénað. Þegar heimildirnar væru virtar í heild komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að réttindi eigenda Hóla hefðu verið bundin við hefðbundin afréttarnot og var niðurstaða hins áfrýjaða héraðsdóms því staðfest um að nyrsti hluti Hólaafréttar væri þjóðlenda í afréttareign S og G.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 22. desember 2015. Þau krefjast þess að felld verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 19. júní 2009 í máli nr. 1/2008 um að landsvæði, sem þar er afmarkað á eftirfarandi hátt, sé þjóðlenda: „Frá trippagarði þeim, sem stendur vestan Eyjafjarðarár, á móti Klaufá, er dregin lína yfir Strangalækjarfjall og Kerlingarhnjúk, að mörkum Akrahrepps og Eyjafjarðarsveitar í suðurenda Urðarvatns nyrðra. Þaðan er sveitarfélagamörkum fylgt til suðurs þar til komið er ... í skurðpunkt við línu sem liggur milli syðsta hluta Urðarvatna og 975 m hæðarpunkts upp af Eyjafjarðardal. Þaðan er farið með fyrrnefndri línu til suðausturs í áðurnefndan 975 m hæðarpunkt. Úr þeim punkti er farið í norðaustur í 974 m hæðarpunkt í kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins. Þá er kröfulínunni fylgt til vesturs í Klaufá og með henni til vesturs og í fyrstnefndan punkt.“ Áfrýjendur krefjast þess einnig að viðurkennt verði að engin þjóðlenda sé innan þessara merkja. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur fóru á vettvang 1. september 2016.

I

Samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd 29. mars 2007 til meðferðar landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, sem náði yfir alla fyrrum Eyjafjarðarsýslu og Skagafjarðarsýslu ásamt Hofsjökli og Austur-Húnavatnssýslu austan Blöndu. Að beiðni stefnda ákvað nefndin 28. desember sama ár að skipta svæðinu í tvennt og taka að svo stöddu einungis til meðferðar syðri hluta þess. Sá hluti svæðisins var nánar afmarkaður þannig að til norðurs fylgdi hann norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar til hún fellur í Hörgá og síðan þeirri á til ósa í Eyjafirði. Austurmörk fylgdu Fnjóská frá ósum í sama firði til suðurs þar til hún sker sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar að austan, en þaðan var farið eftir þeim mörkum áfram til suðurs í Fjórðungakvísl. Að sunnan réðst svæðið af suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls. Til vesturs var Blöndu fylgt sunnan frá upptökum hennar í Hofsjökli til norðurmarka fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps.

Óbyggðanefnd bárust 14. mars 2008 kröfur stefnda um þjóðlendur á öllum þessum syðri hluta svæðisins og birti hún þær samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 ásamt því að skora á þá, sem teldu þar til eignarréttinda, að lýsa kröfum sínum. Nefndinni bárust af því tilefni fjölmargar kröfur, þar á meðal frá þáverandi eigendum jarðarinnar Hóla í Eyjafjarðarsveit og eigendum Jórunnarstaða í sama sveitarfélagi. Krafa þeirra fyrrnefndu tók til landsvæðis, sem nefnt var Hólaafréttur í úrskurði óbyggðanefndar, og þeirra síðarnefndu til svæðis með heitinu Jórunnarstaðatungur eða Torfur, en í báðum tilvikum kröfðust eigendur jarðanna að viðurkenndur yrði beinn eignarréttur þeirra að þessum svæðum. Fyrir óbyggðanefnd beindist krafa eigenda Hóla að landi, sem að norðan var afmarkað með hornpunkti til austurs í upptökum Klaufár, þaðan eftir henni vestur að mótum við Eyjafjarðará og síðan áfram handan síðarnefndu árinnar í sömu átt frá svonefndum trippagarði upp úr Eyjafjarðardal yfir Strangalækjarfjall og Kerlingarhnjúk allt til sveitarfélagamarka í suðurenda Urðarvatns nyrðra. Frá þeim hornpunkti að norðan var þess krafist að mörk landsins til vesturs fylgdu sveitarfélagamörkunum suður að upptakakvíslum Geldingsár og áfram þaðan allt til upptaka Jökulkvíslar í Hofsjökli. Frá þeim stað lægju merki landsvæðisins gegnt landi Möðruvalla eftir línu til norðausturs að upptökum Klaufár. Tekið var fram í kröfu eigenda Hóla að undanskilið væri landsvæðið Jórunnarstaðatungur, en það væri hluti af landinu innan þessara merkja. Samkvæmt kröfu eigenda Jórunnarstaða áttu merki Jórunnarstaðatungna til norðurs að ráðast af Fremri-Strangalæk frá upptökum hans austur að þeim stað, þar sem hann fellur í Eyjafjarðará, austurmörk þaðan af Eyjafjarðará suður til móta við Sandá, suðurmörkin síðan af Sandá vestur til upptaka hennar, en vesturmörkin af vatnaskilum.

Þegar kröfur höfðu borist á framangreindan hátt ákvað óbyggðanefnd að fjalla um syðri hluta vestanverðs Norðurlands í fimm aðskildum málum. Meðal þeirra voru mál nr. 1/2008, sem náði til Eyjafjarðarsveitar austan Eyjafjarðarár ásamt vestanverðum Bleiksmýrardal, og mál nr. 2/2008, sem tók til Eyjafjarðarsveitar vestan sömu ár. Ákveðið var að leysa úr kröfu eigenda Hóla, sem tók til lands bæði austan og vestan Eyjafjarðarár, í einu lagi í máli nr. 1/2008 og fylgdu þá einnig með Jórunnarstaðatungur þótt það svæði liggi að öllu leyti vestan árinnar. Óbyggðanefnd komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði í málinu 19. júní 2009 að allt land, sem framangreindar kröfur eigenda Hóla og Jórunnarstaða náðu til, teldist til þjóðlendu. Gerður var þó greinarmunur á þessu landi á þann hátt að Jórunnarstaðatungur skyldu teljast í afréttareign eigenda Jórunnarstaða samkvæmt 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Jafnframt teldist nyrðri hluti þess lands, sem krafa eigenda Hóla sneri að, á sama hátt í afréttareign þeirra, en syðri hlutinn á hinn bóginn ekki.

Að gengnum úrskurði óbyggðanefndar lýstu eigendur Jórunnarstaða því yfir 26. ágúst 2009 að þau hafi fallið frá tilkalli til lands innan áðurgreindra marka Jórunnarstaðatungna og viðurkenndu að það ætti með réttu undir jörðina Hóla samkvæmt þinglýstri heimild, sem þeim hafi ekki áður verið kunnugt um. Eigendur Hóla höfðuðu síðan mál þetta 20. janúar 2010 til að fá í einu lagi felld úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um að landið, sem þau og eigendur Jórunnarstaða höfðu gert tilkall til, væri þjóðlenda, en ekki er deilt um að málið hafi verið höfðað innan þess frests, sem um ræðir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Dómkröfur eigenda Hóla tóku aðallega til alls landsins, sem kallað hafði verið til fyrir óbyggðanefnd samkvæmt áðursögðu, til vara til landsvæðis, sem náði nokkuð skemur til suðurs, en til þrautavara til landsins, sem taldist vera í afréttareign þeirra og eigenda Jórunnarstaða samkvæmt úrskurði nefndarinnar. Undir rekstri málsins í héraði munu áfrýjendur hafa eignast Hóla með kaupsamningi 10. maí 2014 og tekið við aðild að málinu af forverum sínum í þinghaldi 18. ágúst sama ár. Í því þinghaldi var jafnframt fallið frá aðalkröfunni, sem gerð hafði verið í héraðsdómsstefnu. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af báðum kröfum áfrýjenda, sem þá stóðu eftir. Fyrir Hæstarétti halda áfrýjendur eingöngu uppi þeirri dómkröfu, sem upphaflega var gerð til þrautavara í héraði. Ekki er deilt um afmörkun landsins, sem lýst er í þeirri dómkröfu, en af þeim ástæðum, sem áður greinir, er hvorki þörf á að fjalla nánar um merki landsins, sem fyrri kröfur áfrýjenda sneru að, né að gera hér á eftir frekari greinarmun á landi, sem í úrskurði óbyggðanefndar taldist ýmist eiga undir Hólaafrétt eða Jórunnarstaðatungur.

II

Jörðin Hólar er í Eyjafjarðardal austan Eyjafjarðarár, en frá bæjarhúsum þar eru rúmlega 35 km í beinni loftlínu norður til sjávar í Eyjafirði. Í dalnum fyrir sunnan Hóla munu vera jarðirnar Hólakot, Vatnsendi, Jökull, Halldórsstaðir og Tjarnir. Handan Eyjafjarðarár en litlu sunnar eru Jórunnarstaðir og þar fyrir sunnan jarðirnar Leyningur, Ytri-Villingadalur, Syðri-Villingadalur, Torfufell, Hólsgerði og Úlfá, en síðan landsvæðið Arnarstaðatungur, sem deilt er um hvort teljist þjóðlenda í hæstaréttarmáli nr. 20/2016. Að Arnarstaðatungum frátöldum stendur ekki ágreiningur um að land fyrrgreindra jarða, sem liggur í Eyjafjarðardal, sé háð beinum eignarrétti. Fyrir sunnan öll þessi lönd tekur á hinn bóginn við landsvæðið, sem í máli þessu hefur verið nefnt Hólaafréttur, og eins og fyrr segir liggja Jórunnarstaðatungur eða Torfur innan þess. Frá bæjarhúsum á Hólum eru um 15 km í beinni línu suður til norðurmerkja Hólaafréttar, sem áður var lýst. Um þetta landsvæði, eins og það er nú afmarkað í dómkröfum áfrýjenda, liggur Eyjafjarðardalur um sem næst miðju þess á 9 km leið úr norðri til suðurs, en svæðið nær þó að auki nokkuð lengra inn til landsins en dalurinn, þannig að syðstu merki þess, sem eru á hornpunkti í ónefndu fjalli í 975 m hæð, eru um 13 km frá norðurmerkjum Hólaafréttar við Eyjafjarðará. Svæðið nær einnig upp til fjalla ofan við dalinn þegar norðar dregur og hefur það nokkuð óreglulega lögun, sem svipar þó helst til þríhyrnings, en milli ystu ummerkja að norðanverðu frá vestri til austurs eru einnig um 13 km.

Að norðurmerkjum Hólaafréttar liggja áðurnefndar Arnarstaðatungur að vestanverðu, en land jarðarinnar Tjarna að austan. Á stuttu bili til norðausturs eru merki Hólaafréttar gegnt landsvæðinu Þormóðsstaðaseli, sem er háð beinum eignarrétti samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2008. Til suðausturs liggur síðan Hólaafréttur að Möðruvallaafrétti allt til fyrrnefnds hornpunkts syðst á svæðinu, en sá afréttur er þjóðlenda samkvæmt dómi Hæstaréttar 19. september 2013 í máli nr. 656/2012. Loks liggja merki Hólaafréttar til suðvesturs og síðan vesturs að Nýjabæjarafrétti, sem einnig er þjóðlenda samkvæmt dómi réttarins 22. október 2015 í máli nr. 743/2014. Í úrskurði óbyggðanefndar er landi á Hólaafrétti utan Eyjafjarðardals lýst þannig að það liggi að mestu í meira en 900 m hæð yfir sjávarmáli og rísi skarpt upp frá dalnum, hæst í 1069 m í Torfufellshnjúki. Landið sé víðfeðmt, hallalítið, gróðursnautt og öldótt.

III

Eftir gögnum málsins virðist mega finna elstu rituðu heimild um jörðina Hóla í máldögum Auðunar biskups rauða Þorbergssonar fyrir Hólabiskupsdæmi frá 1318. Þar var greint frá því að „Kẏrckia ad ʜolum j ᴇẏiafirde“ ætti nánar tilgreinda lausafjármuni, en hvorki var þar né virðist í yngri heimildum um kirkjuna hafa verið rætt um að hún ætti jörðina eða hlut í henni.

Sex menn vottuðu í bréfi 14. mars 1375 að þeir hafi 13. apríl 1374 séð „uppa handlag gunnars bonda peturssonar oc jons olafssonar. undir þann skilmala. at gunnar seldi joni jỏrd at holum med þeim gỏgnum oc gædum sem hann vard eigandi at. ut aa midian markgard. þar med eyiafiardardal fram fra klifsaa jardareign. eiga jardir lambarekstr utan fra gerdi oc upp til tiarna. oc eigi verit at talit þo at farit hafi eldri saudir. torfskurd j arnarstadi sem landinu þarfnaz. selfỏr j tiarna land. svo morgu fe sem heima at holum fædiz þremr kuum oc hrossi. skogar part j leynings jord oc þar med selldi hann honum jord at ᴠatnsenda med þeim gognum ok gædum sem hann vard eigandi at. aa jỏrdin attfedminga skurd i ʟeynings jord.“ Að endurgjaldi lét Jón af hendi jörðina Auðbrekku í Hörgárdal.

Með bréfi 18. september 1501 staðfestu fimm menn að þeir hafi þremur dögum fyrr að Möðruvöllum í Eyjafirði séð og heyrt „aa ord og handaband þessarra manna þoruardz elleñdzsonar laugmanz sunnan og austan aa jslande af einne alfu en grims palssonar af annarre ath suo firir skildu. ath grimur og þoruardr keyptu og skiptu med handabañdi og fullu jayrde þessum eignum er suo heita. jn primis holar j eyiafirdi firir hundrad hundrada. arnarsteder firir fimtigi. c. uazender xx. c. jỏkull xx. c. tiarner fiorotige c. ulua xvj. c. torfufell fimtigi .c. villingadalerner bader xx. c. med aullum þeim gaugnum og gædum sem greindum jỏrdum fylger og fylgt hefer att fornu og nyiu og þoruardr uard fremzt eigande ath ordinn.“

Í bréfi 2. júní 1546 staðfestu fimm menn að þeir hafi séð og heyrt þegar „Þorleifur Bondi Grimsson gaf Grijme sẏne sinum til æfeñlegrar eignar jordena Hola i Eẏafijrdi og þar med xl Malnitu kugillde og þessar jarder med vj kugilldum hver Vatnsendi. Jokull. Halldorustader. Tiarner. Torfufell. Villingadaler ij. Joruñarstader. Skallstader. Kolgrijmastader og iij jarder nordur a Melrackaslettu ... med ollum þeim gỏgnum og giædum sem þessum jordum hefur filgt“.

Páll Stígsson höfuðsmaður og Ólafur biskup Hjaltason á Hólum tilefndu tólf menn á Möðruvöllum í Eyjafirði 2. september 1560 til að „giora riett lagaskipti ȁa þeim peningum og aullu arfagossi. huerir ad fiellu epter Þorleif Grimsson og hans son Grim. hverra saler ad gud nadi.“ Í bréfi um þetta var í byrjun greint frá því hvernig fara ætti með skuldir, sem „voru laugliga fram sagdar. og krafdar“, en þær skyldu goldnar með „fyrst .lxxx. og .v. kugilldi. med Holum og Hola jordum og þar til med .viijc. j jordvni Palmhollti.“ Síðan kom fram hvernig erfingjar hafi fengið einstakar jarðareignir í sinn hlut, þar á meðal „Hola fyrir .llc. Torfufell med Villingadal .lxc. ... Vatzeñda fyrir .xxc. Jokull .xxc. Halldorstader .xxc. Tiarner .xlc. Jorunnarstader .xlc. Kolgrimastader .xxc.“ Skipti þessi voru tekin upp og þeim lokið á nýjan leik með samkomulagi 5. júlí og 2. september 1569, þar sem meðal annars var kveðið á um ráðstöfun eftirtalinna jarðeigna: „Arnastader xvjc. ... Vatnsende xxc. ... Skalldstader xxxc. ... Holar fyrir llc. ... Jorunarstader xlc. ... Torfufell lc. Tiarner xlc. Jokull xxc. Villingadalur xc. Kolgrimastader xxc. ... Halldorstader xxxc. ... Fornhage med Ulfä lc.“

Í kafla um Hóla í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 sagði meðal annars: „Selstöðu með haga fyrir ásauð, sem elst í Hólum, iii kýr og i hest í stokki í Tjarnaland, hefur áður brúkast, en nú ekki í nokkur ár. Afrjett á staðurinn fram frá Tjarnalandi og botninn á Eyjafjarðardal. Þángað á Hóla kirkjusókn fyrir austan Eyjafjarðará skylduupprekstur fyrir afrjettartoll, brúkast stundum, stundum ei, sakir harðinda og grasleysis. Skógarhögg á staðurinn eður kirkjan í Leyníngsskógi á Hrafnsnesi á milli Járnhryggjar og Torfufellsár. Sá skógur er eyddur til kolgjörðar, en bjarglegur til tróðs og eldiviðar.“

Að ósk eiganda Hóla fór fram skoðun 12. nóvember 1765 á ástandi jarðarinnar, sem fram að því hafði verið metin til 100 hundraða. Í greinargerð um þessa skoðun var lýst verulegum spjöllum á landi jarðarinnar vegna skriðufalla, en síðan sagði: „Leingra frá liggur ad sönnu land under Þessa Jörd, sem kallast Eyafiardardalur, sem Abuendar vegna fiarlægdar gete ei notid sier nema til Beitar, fyrer Hross og gielldfie umm Ha Sumar, er þó stórum af sier geinged af margfollnum Skridum sem sijfelldt á þad falla.“ Virði jarðarinnar var fært niður í 60 hundruð.

Maður tilgreindur sem „geheime Jústits Sekretaire B: Stephensen“ seldi 29. maí 1809 „prestinum til Miklagards og Hóla herra H:E: Thorlacius“ jörðina Hóla með hjáleigunni Hólakoti og eyðihjáleigunum Kringlu og Geldingagerði. Í kaupbréfi sagði að jörðin væri 60 hundruð að dýrleika og var tekið fram hún væri seld „samt öllum þeim gögnum og giædum, húsum, Túni, Slægium, Landi og afrétti, sem þessari Torfu fylgt hefur og fylgia ber ad lögum frá aldödli, og ecki er að lögum frágeingid“.

Á manntalsþingi 5. júní 1822 var lesin upp svofelld lögfesta Hallgríms Thorlacius: „Eg, Proprietarius Hoola Torfu, Liggande innann Ejafiardar Syslu og Saurbæar Hrepps, Lögfeste hermed, under Nefnda Torfu allann Ejafiardar Dahl, til Jtstu Takmarka sem adrir Menn í móte eíga, og her med á nafn nefne. Vestann Ejafiardar ár adskilia So Kalladur Straungu lækur Hoola og Arnarstada Land, hvarum Næstumm samann falla i Ejtt ad Nedann, enn kliúfast umm graslausa meela ofann fialls, þó skal sú kvyslinn hvert þad er sú fremri eda nordari, sem stærri og rettari er, landamerkjum ráda, og þaðann frá allt Land, hveriu nafne sem hejtir framm í dragsbotn. Austann Ejafiardar ár adskilur Hoola og Tiarnaland, So nefnd Selskál, við hveria stendur nidur vid ána, frá aldödla so kallad heimara Hóla-sel, er hefur á Næstu Týmum nýtt nafn feíngid innann Hóla-sóknar af Tjarna-seli, skal klettabukta í midre Selskál þessare, first umm sinn, vera Landamerke mille Strax tedra Jarda. Beint i Ejafiardar á Nidur og þadann frá og framm, Klaufamyrar, Klaufá, Klifsheídi, Klifsá, Svýnheide, Svýná, Stakkar, allt i dragsbotn.“ Degi síðar var fært í þingbók að svofelld mótmæli hafi verið borin upp gegn lögfestunni: „Lögfestunni andæpti Proprietarius og ábúande Tiarna, Steinn Pálsson, ad hann varast skylde, en tiast hid forbodna Land ad yrkia; ad ödru leite qvadst hann protestera Lögfestunnar innihald, þar hann fyrir víst meinte ad land Tiarna sinna næde ad Klifsá, hvört Prótest lögfestandi siálfur var áheyrande.“

Hallgrímur Thorlacius og Steinn Pálsson mættu 1. júlí 1822 fyrir sáttanefnd vegna deilu um suðurmerki Tjarna gagnvart landi í Eyjafjarðardal, sem lögfestan fyrir Hóla 5. júní sama ár sneri að. Svo sem fram kom í fyrrgreindum andmælum Steins á manntalsþingi síðastnefndan dag taldi hann Tjarnir eiga land suður til Klifsár, en Hallgrímur taldi á hinn bóginn land Hóla ná lengra norður eftir dalnum. Um það vísaði Hallgrímur til ummæla gamalla manna og þess að Hólar ættu selstöðu í Eyjafjarðardal talsvert norðan við Klifsá. Á sáttafundinum gerðu Hallgrímur og Steinn samning, sem sáttanefnd færði í orð á eftirfarandi hátt: „Steinn fullkomliga samþyckir, ad Landamerki millum tédra jarda, Hóla- og Tjarna-Lands á Eyafjardardal, skuli hér eptir vera ecki Klífsá, heldur svo nefnd Klaufá, sem heimar liggur á dalnum, enn sú fyrri; svo Hóla afréttarland, aldeilis átølulaust, byrji strags fyrir framar sagda Klaufá, hvar Klífsárheidi tekur til eda byrjar. Þará móti áskilur Presturinn: a, ad Hólar eigi fría (þ.e. betalíngslausa:) Selstødu, til allrar brúkunar á dalnum, fyrir heiman nefnda Klaufá, þar sem hentast sýnist, allt heim ad Glerá. b, ad Tjarna ábúendur edur Eigari reki aldrei sínar Sképnur, saudfé edur Hross, geldfé edur Búsmala, sinn edur annara, framyfir nefnda Klaufá, og c, ad svo framarliga ad Presturinn, núverandi Hóla Proprietarius, edur adrir sídarmeir, géti, med Løggildum Skiølum edur Røkum, sannad þá ádur áminstu Sögn sumra gamallra manna: ad Hólar hafi átt og eigi Land heim í Glerá á Eyafjardardal, skuli þessi Forlíkunar Samníngur eckert hindra þess Lands Tilkall Hóla vegna; hvørju Prestsins uppástandi, svo vel sem þeim fyrri Póstum, Steinn er fullkomliga samþyckur.“ Samningur þessi var þinglesinn á manntalsþingi 5. júní 1850.

Samkvæmt gögnum málsins mun hafa komið fram í jarðamati 1849 að afréttur fyrir Hóla, og fáa aðra, væri á Eyjafjarðardal beggja megin.

Á fundi 16. júlí 1852 leystu ábúendur Hóla og Hólakots og Páll Steinsson bóndi á Tjörnum ágreining „útaf trippum þeim og ödrum géldpeníngi, sem í vor var rekid á Hóla og Tjarna afréttir“ með svohljóðandi samningi: „Fyrst er þad samkomulag med trippin, ad Msr. Páll hefur med því skilyrdi ad veita þeim eftirleidis fyrerstödu án borgunar, ad þau séu af allri Torfunni ei fleiri enn 8 og þarnæst ad þeir taki ei austanfram á Hóla afrétt fleira enn svarar hierumbil 50 roskid og 70 lömb, en í Torfurnar er ætlast til þeir taki svo sem svarar frá Vatnsenda og Haldórsstöðum. Þarámóti áskilur Msr. Páll sér ad hafa jafnmörg trippi á samlögum í dalnum, og eins fríheit fyrir lömb og géldfé sitt þann ársins tíma, sem honum kynni ad vera þad hagur, án þess ad taka af ödrum nokkurt géldfé í afréttina. Ad öllu því leiti, sem ekki hér ummrædir, er beggja málspartanna réttur óskértur.“

Landamerkjabréf var gert fyrir Hóla 23. maí 1889 og lesið á manntalsþingi degi síðar. Þar var lýst merkjum milli svonefndrar Hólatorfu til suðurs móti Vatnsenda og til norðurs móti Arnarstöðum, en til vesturs voru merki miðuð við Eyjafjarðará. Jafnframt sagði eftirfarandi: „Hólar eiga afrjett í Eyjafjarðardal að austan verðu árinnar fram frá Klaufá, við hana er byggður trippagarður, og að vestan verðu árinnar fram frá trippagarði þeim, sem byggður er rjett á móti garðinum að austan verðu árinnar og fram til jökla að austan og vestan til sýslumóta. Þess skal getið, að garðurinn að vestan verðu við Eyjafjarðará stendur framar en í miðju Stangalækjarfjalli, en Stangalækjarfjall hefur verið þrætuland milli Hóla og Arnarstaða, nú hafa hlutaðeigendur komið sjer saman um að láta merkin vera um trippagarðinn í móti Klaufá, og eiga Arnarstaða ábúendur að hafa frían upprekstur fyrir 2 trippi í Hólaafrjett með því að viðhalda trippagarðinum að vestan verðu Eyjafjarðarár (þá eru undan skildir gamlir og grimmir graðfolar). Hólar eiga þrjá betalingslausa selstöðu til allrar brúkunar í dalnum fyrir heiman nefnda Klaufá, þar sem hentast sýnist, allt heim að Glerá. Samkvæmt þinglýstum sáttagjörningi frá 1. júlí 1822.“ Bréfið var áritað um samþykki af hálfu Vatnsenda og Arnarstaða.

Í málinu liggur fyrir skjal, sem hefur að geyma skrá „um afrétti og fjárréttir í Eyjafjarðarsýslu, eins og hún er prentuð aftan við sýslufundargjörðina 1894.“ Þar sagði meðal annars: „Í Saurbæjarhreppi eru þessir afréttir: ... 8. Tjarnadalur frá Glerá. 9. Hóladalur.“

Í virðingargerð frá 25. maí 1903, þar sem lagt var mat á jörðina Hóla „með hjáleigunni Hólakoti og nýbýlinu Nýjabæ“, var eftirfarandi meðal annars tekið fram: „Búfjárhagar eigi miklir eptir jarðarstærð; en stór afrjettur fylgir jörðinni.“ Þá var tekið fram í virðingargerð um Hóla 14. nóvember 1916 að jörðinni „fylgir afrjettur Hólsdalur.“

Í bréfi til sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu 8. mars 1920 lýsti hreppstjóri Saurbæjarhrepps því að „allir afrjettir hjer í hreppi eru einstakra manna eign, en almenningar eru hjer engir.“ Þess var og getið um „öræfin fram af Eyjafirði“ að í landamerkjabréfi Möðruvalla stæði að sú jörð ætti „land fram öræfin, alt fram að „Laugarfelli“, en óvíst er hvort greinileg merki eru til umhverfis landeign þessa. Ekki er mjer kunnugt um, að aðrar jarðir hjer í hreppi tileinki sjer land þar suður frá.“ Sýslumaður lét þetta bréf fylgja svari sínu til stjórnarráðsins 27. september 1920, sem gert var í tilefni af fyrirspurn þess 29. desember 1919 um almenninga og afréttarlönd í Eyjafjarðarsýslu.

Nýtt landamerkjabréf var gert fyrir Hóla 15. júní 1923. Í bréfinu var fyrst lýst merkjum jarðarinnar að sunnan, vestan og norðan, en því næst sagði eftirfarandi: „Beitiland Hóla, Hólakots og Nýabæjar, liggur austan (ofan) við vörzlugirðingu jarðanna, út og suður það sem löndin ná og til fjalls, allt austur á miðja brún. Beitilandið er sameiginlegt fyrir áðurnefndar jarðir. Afréttarland er sem hér segir: Á Eyjafjarðardal austanverðum, er þverá, er Klaufá heitir. Við hana er hlaðin fyrirstöðugarður. Gegnt þessum garði, er annar garður vestan megin árinnar. Eiga Hólar afrétt frá Klaufá og garðinum vestan megin, og fram það, sem dalurinn nær, á efstu fjallsbrún að austan og að sýslumörkum að vestan.“ Í framhaldi af þessu voru ákvæði í bréfinu um vörslugirðingu „fyrir framan Tjarnir, norðan við svonefndan Glerárdal“, þar á meðal um kostnað af henni, og tekið fram að á meðan hún stæði „á sama stað, hafa Tjarnir og Hólatorfan (Hólar, Hólakot og Nýibær), gjaldfrían upprekstur fyrir afréttarpening sinn á Eyjafjarðardal austanverðum, eins og að undanförnu, framan við girðinguna ... Rétt til að taka fénað á dalinn af öðrum, hafa Tjarnir og Hólar að sínum helmingi hvor.“ Í niðurlagi bréfsins sagði síðan: „Með framanritaðri merkjalýsingu og samþykkt hlutaðeigenda um sameiginleg afnot Eyjafjarðardals, austan megin árinnar, eru allar eldri merkjalýsingar og samþykktir um landamerki á milli Tjarna og Hóla úr gildi numdar, og sömuleiðis ágreiningur sá, sem verið hefur, um ítök eða afnotarétt annarar hvorrar jarðarinnar í landi hinnar, fallinn niður.“ Bréfið var áritað um samþykki af hálfu Tjarna, Arnarstaða, Skáldstaða, Kolgrímsstaða, Vatnsenda og Þormóðsstaða og var það lesið á manntalsþingi 19. júní 1923.

Í málinu liggur fyrir afsal frá 26. júní 1944, sem virðist hafa verið gert í nafni eiganda Hóla, en þar sagði eftirfarandi: „Við undirritaðir gerum með bréfi þessu kunnugt, að við seljum og afsölum til Aðalsteins Tryggvasonar, bónda, Jórunnarstöðum, Saurbæjarhreppi, svonefndar „Torfur“, sem er afréttarsvæði, sem tilheyrt hefir jörðinni Hólum í Saurbæjarhreppi og takmarkast þannig: Að norðan af fyrirstöðugarði úr grjóti, gegnt Klaufá, að sunnan af Sandá, að vestan af fjallsbrún og að austan af Eyjafjarðará. Hinu selda fylgir tilheyrandi hluti í fyrirstöðugirðingu sunnan eyðibýlisins Úlfár.“ Afsali þessu var þinglýst 18. ágúst 1944, en eins og áður var getið er óumdeilt að landi þessu, sem einnig hefur verið nefnt Jórunnarstaðatungur, hafi aftur verið afsalað til eigenda Hóla 5. maí 1997 og var þeirri ráðstöfun þinglýst degi síðar.

Sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu sendi nafngreindum manni bréf 1. ágúst 1979 ásamt drögum að skrá um afrétti í sýslunni, sem virðast hafa verið gerð við embætti þess fyrrnefnda. Þar var að finna sérstakan lið um: „Afréttir á Eyjafjarðardal“, þar sem sagði meðal annars: „1. Glerárdalur að sunnan og Tjarnadalur fram að Trippagarði í Klifsheiði. Heyrir undir Tjarnir og Halldórsstaði. 2. Klifsheiði frá trippagarði, Svínheiði og Botn að austan og vestan að Sandá. Heyrir undir Hóla.“

Í bréfi, sem oddviti Saurbæjarhrepps ritaði til félagsmálaráðuneytisins 8. janúar 1990 í tilefni af fyrirspurn þess frá 20. febrúar 1989, var því lýst að engin afréttarlönd væru í hreppnum „önnur en fjallshlíðarnar ofan við girt heimalönd og dalskorur sem ganga inn í hálendið út frá byggðum dölum“ en þau væru öll „í einkaeigu“.

IV

Í dómi Hæstaréttar 29. apríl 1969 í máli nr. 128/1967, sem birtur er í dómasafni 1969 á bls. 510, var tekin afstaða til kröfu, sem Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps gerði á hendur eigendum jarðanna Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli í Akrahreppi í Skagafirði, um að viðurkennt yrði „að landamerki fyrir umráðasvæði félagsins, að vestan, gagnvart löndum Skagfirðinga á hálendinu vestan og sunnan Eyjafjarðardala verði viðurkennd og ákveðin þannig: Nyrzt ráði merkjum Fossá frá upptökum nyrðri kvíslar til ármóta hennar og Jökulsár eystri, síðan ráði Jökulsá eystri merkjum suður að ármótum hennar og Strangalækjar, þaðan ráði bein lína suður í Miklafell í Hofsjökli.“ Gagnaðilar upprekstrarfélagsins í málinu kröfðust þess á hinn bóginn að viðurkennt yrði að landamerki áðurnefndra jarða þeirra „og þar með talin sýslumörk Skagafjarðarsýslu á þessu svæði séu að austan vatnaskil á hálendinu og að endamark við Hofsjökul sé fjallið Klakkur.“ Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars: „Í máli þessu er deilt um eignarrétt að landsvæði því, sem um er að tefla, en eigi um upprekstrarrétt. Áfrýjandi, Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps, reisir kröfur sínar á því, að hann hafi tekið heimildir á landsvæði þessu frá fyrri eigendum jarðanna Möðruvalla og Hóla í Saurbæjarhreppi, sem frá fornu fari hafi talizt taka yfir landsvæðið. Stefndu, eigendur Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli, reisa dómkröfur sínar á afsali fyrir hálfri jörðinni Nýjabæ frá 29. janúar 1464, þar sem landið sé talið vera hluti jarðarinnar. Hvorki áfrýjandi né stefndu hafa fært fram gögn fyrir fullkominni eignatöku að fornu eða nýju á landsvæði því, sem um er að tefla í máli þessu. T.d. verður eigi séð, að eigendur Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli eða eigendur Möðruvalla og Hóla hafi fyrrum innt af hendi smölun og fjallskil á landsvæðinu, svo sem eigendum jarða var boðið að gera á jörðum sínum, sbr. Jónsbók, landsleigubálk 49. Yfirlýsingar í afsölum fyrr og síðar, sem eigi styðjast við önnur gögn, nægja eigi til að dæma öðrum hvorum aðilja eignarrétt til öræfalandsvæðis þessa. Verða því kröfur hvorugs aðilja í málinu teknar til greina.“

Af gögnum þessa máls verður ekki skýrlega ráðið í hvaða mæli Hólaafréttur, eins og áfrýjendur hafa afmarkað hann í dómkröfum sínum fyrir Hæstarétti, falli undir landsvæðið, sem framangreindur dómur 29. apríl 1969 snerist um, en ljóst er þó að svo er að einhverju leyti. Á hinn bóginn eru aðilar þessara tveggja mála hvorki þeir sömu né hafa aðilar þessa máls komið á einhvern hátt í stað aðila að máli nr. 128/1967. Dómkröfur í fyrra málinu lutu að ákvörðun landamerkja, en í þessu máli beinast þær að gildi úrskurðar óbyggðanefndar um að land innan tiltekinna merkja Hólaafréttar sé þjóðlenda. Dómur í máli nr. 128/1967 hefur því ekki þau áhrif hér, sem um ræðir í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en hann getur á hinn bóginn samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar haft sönnunargildi um atvik, sem í honum greinir.

V

Í Landnámabók er greint frá því að Helgi hinn magri hafi numið „allan Eyjafjǫrð milli Sigluness ok Reynisness“. Eftir fyrstu tvo veturna á Íslandi hafi hann fært bú sitt að Kristnesi, en síðan „tóku menn at byggja í landnámi Helga at hans ráði.“ Nánar um þetta segir meðal annars í Landnámabók að Helgi hafi gefið Hámundi mági sínum „land milli Merkigils ok Skjálgdalsár“ og hafi hann búið að „Espihóli enum syðra“. Sú jörð mun síðar hafa fengið nafnið Litlihóll, en Skjálgdalsá mun nú heita Skjólsdalsá og fellur hún úr vestri í Eyjafjarðará um 17 km fyrir sunnan strönd Eyjafjarðar við Akureyri. Einnig hafi Helgi gefið Þóru dóttur sinni og Gunnari manni hennar Úlfljótssyni „land upp frá Skjálgdalsá til Háls“ og hafi þau búið í Djúpadal. Sú jörð mun nú bera heitið Stóridalur, sem er nokkuð vestan við Eyjafjarðará, og er bærinn þar um 11 km fyrir sunnan Litlahól. Helgi hafi jafnframt gefið dóttur sinni Helgu og manni hennar Auðuni rotin Þórólfssyni „land upp frá Hálsi til Villingadals“ og hafi þau búið að Saurbæ, en hann er á vesturbakka Eyjafjarðarár, um 11 km fyrir sunnan Litlahól og 9 km fyrir norðan Hóla. Villingadalur skerst á hinn bóginn inn í landið til suðvesturs frá Eyjafjarðardal, um 4 km fyrir sunnan Hóla. Í Landnámabók segir síðan að Helgi hafi gefið Hrólfi syni sínum „ǫll lǫnd fyrir austan Eyjafjarðará frá Arnarhváli upp, ok hann bjó í Gnúpufelli“. Bærinn á Gnúpufelli er um 8 km fyrir norðan bæinn á Hólum, en Arnarhváll, nú Arnarhóll, mun vera skammt frá Öxnafelli, um 7 km fyrir norðan Gnúpufell. Loks kemur þar fram að Helgi hafi gefið syni sínum Ingjaldi „land út frá Arnarhváli til Þverár ennar ytri“, en hann mun hafa búið þar sem nú er Munkaþverá, um 6 km fyrir norðan Öxnafell og um 12 km sunnan sjávar í Eyjafirði.

Í framangreindri lýsingu á ráðstöfun lands úr landnámi Helga hins magra vestan við Eyjafjarðará er syðst getið Villingadals, en frá honum eru um 10 km suður til norðurmerkja Hólaafréttar. Ráðstöfun lands austan árinnar er á hinn bóginn ekki lýst á hliðstæðan hátt, en frá syðsta býlinu þar, sem nefnt er í Landnámabók, Gnúpufelli, eru nærri 23 km til norðurmerkja Hólaafréttar. Að öðru leyti en þessu eru engar beinar ritheimildir í málinu um hugsanlegt landnám í Eyjafjarðardal. Þá liggja ekki fyrir í málinu gögn um fornleifarannsóknir í landi sunnan Villingadals og Gnúpufells og hefur ekkert komið fram um að slíkar rannsóknar hafi verið gerðar innan merkja Hólaafréttar eða í nálægð við þau. Slíkra heimilda nýtur því heldur ekki við í málinu um upprunalega byggð sunnar í Eyjafjarðardal en að framan greinir, þótt í gögnum málsins sé vikið að því að til forna hafi verið til býlið Granastaðir, um 9 km fyrir sunnan Hóla, og enn sunnar Klaufárgerði. Þetta stendur því á hinn bóginn að engu leyti í vegi að leiða megi á annan hátt nægilegar líkur að því að land hafi verið numið á þessu svæði og þar með orðið háð beinum eignarrétti. Þegar metið er hvort slíkt hafi verið gert er óhjákvæmilegt að taka tillit til þess að þegar komið er að norðurmerkjum Hólaafréttar, sem eru um 50 km frá sjó, er Eyjafjarðardalur orðinn all þröngur og umlukinn bröttum hlíðum, en land er þar lítið, vart til annars nýtanlegt en beitar, og skorið af Eyjafjarðará, sem er nokkuð vatnsmikil. Ofan við dalinn mun innan merkja Hólaafréttar vera gróðursnautt hálendi. Þá verður ekki síður að taka tillit til þess að frá suðurmerkjum Hóla eru um 14 km til norðurmerkja Hólaafréttar og liggur þar á milli land fimm jarða, en milli Jórunnarstaða, sem eru sem fyrr segir vestan Eyjafjarðará, og Hólaafréttar liggja sex jarðir.

Varðandi þessa fjarlægð milli merkja Hóla og Hólaafréttar er þess að gæta að um þá jörð og þær, sem sunnar liggja austan og vestan Eyjafjarðarár, eru ekki eldri samtímaheimildir í málinu en frá 14. öld. Þótt þessara jarða hafi ekki verið getið í Landnámabók má finna í gögnum málsins tilvísanir til fornsagna og Sturlungu, þar sem vikið var að Jórunnarstöðum, Leyningi og Torfufelli. Í fyrrnefndri máldagabók frá 1318 var Hóla getið og síðan Tjarna og Vatnsenda að auki í jarðakaupabréfinu frá 14. mars 1375. Af þessu má álykta að fyrrnefndar jarðir og hugsanlega fleiri á þessu svæði séu fornar, þótt í heimildum hafi þeirra ekki verið getið meðal landnámsjarða. Gögn málsins veita á hinn bóginn engar vísbendingar um að Hólar sé af þessum jörðum elst, hún hafi upphaflega verið verulega stærri en nú er og allar hinar jarðirnar tólf, jafnt austan og vestan Eyjafjarðarár, byggst út úr henni, svo sem áfrýjendur hafa haldið fram í málinu. Gegn því mælir og að landnámssvæði í Eyjafjarðardal, sem getið var í Landnámabók, voru talin þar upp aðgreind af Eyjafjarðará svo langt til suðurs sem sú lýsing náði. Á móti þessu getur ekki vegið að flestar þessar jarðir hafi verið á einni hendi á 16. öld, svo sem má sjá af fyrrnefndu jarðakaupabréfi frá 18. september 1501, gjafabréfi 2. júní 1546 og gögnum um skipti eftir Þorleif Grímsson og Grím Þorleifsson frá 2. september 1560 og 5. júlí og 2. september 1569, enda getur slík aðstaða á sjöundu öld eftir ætlað landnám ekki verið höfð til marks um uppruna þrettán aðskilinna jarða. Ekki verður séð að nokkurt vægi geti haft í þessu sambandi að rætt hafi verið í skiptagerðinni 2. september 1560 um að tilteknar skuldir hafi verið gerðar upp með kúgildum „med Holum og Hola jordum“, en af texta skiptagerðarinnar er heldur ekki ljóst hvað nánar hafi verið átt við með Hólajörðum. Að þessu öllu virtu er ekki unnt að líta svo á að líklegt sé að land, sem nú er innan merkja Hólaafréttar, hafi í öndverðu verið syðsti hlutinn af stóru landnámi jarðarinnar Hóla og hafi síðar greinst frá henni með tilurð nýrra jarða í upphaflegu landi hennar.

Í áðurnefndu bréfi frá 13. mars 1375 um jarðakaup Gunnars Péturssonar og Jóns Ólafssonar 13. apríl 1374 er eftir gögnum málsins að finna elstu heimild um land, sem nú er innan merkja Hólaafréttar. Þar sagði sem fyrr greinir að Gunnar seldi Jóni jörðina Hóla með þeim gögnum og gæðum, sem Gunnar varð eigandi að, en meðal þeirra hafi verið Eyjafjarðardalur fyrir sunnan Klifsá, torfskurður í landi Arnarstaða, selför í landi Tjarna og skógarhögg í landi Leynings. Orðalagið í þessari lýsingu gefur ekki til kynna að landið sunnan Klifsár hafi verið hluti af jörðinni Hólum, heldur hafi það verið meðal þeirra gagna og gæða, sem fylgdu henni á sama hátt og ítaksréttindin í Arnarstöðum, Tjörnum og Leyningi. Um eðli þessa lands sunnan Klifsár er þess einnig að gæta að í bréfinu var tekið fram að jarðir í Eyjafjarðardal, frá „gerdi“, sem óvíst er hvaða jörð hafi verið, suður til Tjarna hafi átt rétt til að reka þangað lömb og átölulaust hafi verið látið að eldri sauðir færu einnig inn á landið. Bendir þetta til að landið sunnan Klifsár hafi verið upprekstrarland, sem hafi fylgt Hólum og verið háð umfangsmiklum ítaksréttindum annarra.

Í heimildum um Hóla, sem er að finna í áðurnefndum bréfum frá 16. öld um jarðakaup, gjöf og arfsskipti, var ekki vikið beint eða óbeint að Hólaafrétti. Eftir gögnum málsins var það á hinn bóginn næst gert í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 í upptalningu ítaksréttinda, sem fylgdu Hólum. Svo sem áður var getið kom þar fram að Hólar ættu skógarítak í landi Leynings og sel í landi Tjarna, en jafnframt: „Afrjett ... fram frá Tjarnalandi og botninn í Eyjafjarðardal.“ Á þennan afrétt ættu bændur í sókn Hólakirkju austan Eyjafjarðarár skylduupprekstur gegn afréttartolli, en vegna harðinda og grasleysis væri afrétturinn stundum notaður og stundum ekki. Í skoðunargerð frá 12. nóvember 1765 var vísað til þess að undir Hóla lægi land „sem kallast Eyafiardardalur“, en vegna fjarlægðar væri ekki unnt að nýta það nema til beitar um hásumar og sæi mjög á því vegna skriðufalla. Þá sagði í bréfi, sem gert var 29. maí 1809 um kaup Hallgríms Thorlacius á jörðinni Hólum, að hún væri seld meðal annars með „afrétti, sem þessari Torfu fylgt hefur og fylgia ber ad lögum frá aldödli“. Hallgrímur lýsti því síðan sem fyrr segir á manntalsþingi 5. júní 1822 að hann lögfesti undir Hólatorfu allan Eyjafjarðardal sunnan Strangalækjar að vestan og Selskálar að austan „allt i dragsbotn.“ Um þessa lögfestu er þess að gæta að slíkur einhliða gerningur getur almennt ekki haft nema takmarkað heimildargildi. Af orðum hennar er heldur ekki ljóst hvers eðlis þau eignarréttindi hafi átt að vera, sem hermt var að fylgdu Hólum, en óhjákvæmilegt er að meta efni lögfestunnar að þessu leyti með hliðsjón af fyrrgreindu orðalagi í kaupbréfi Hallgríms frá 29. maí 1809. Sátt sem hann síðan gerði 1. júlí 1822 við eiganda Tjarna um merki Hólaafréttar getur engu um það breytt. Yngri heimildir, sem áður hefur verið getið og eru einkum jarðamat 1849, samningur 16. júlí 1852, landamerkjabréf Hóla 23. maí 1889 og 15. júní 1923 og virðingargerðir um jörðina 25. maí 1903 og 14. nóvember 1916, eiga það jafnframt allar sammerkt að rætt var um afrétt Hóla á Eyjafjarðardal og eftir atvikum heimildir annarra til að reka þangað búfénað.

Þegar framangreindar heimildir, sem ná allar götur aftur til 13. mars 1375, eru virtar í heild verður ekki séð að eigendur Hóla hafi notið beins eignarréttar yfir landi innan merkja Hólaafréttar, heldur óbeinna eignarréttinda, sem hafi verið bundin við hefðbundin not á landi til upprekstrar búfjár og annars þess, sem afréttir hafa í aldanna rás almennt verið hafðir til. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Það athugast að mál þetta var þingfest í héraði 21. janúar 2010, en stefndi tók þar til varna með greinargerð, sem var lögð fram 8. apríl sama ár, og fékk síðan frest til frekari gagnaöflunar, sem hann lauk í þinghaldi 3. júní 2010. Málið var því næst tekið fyrir 28. júní 2010 og var farið á vettvang 7. september sama ár. Eftir það liðu nærfellt fjögur ár þar til málið var næst tekið fyrir 18. ágúst 2014 og var það þá munnlega flutt. Ekki var þó felldur dómur á málið í framhaldi af því, heldur var það tekið aftur til munnlegs flutnings meira en ári síðar 25. september 2015 og var hinn áfrýjaði dómur síðan kveðinn upp 30. sama mánaðar. Þessi málsmeðferð, sem tók samkvæmt framansögðu meira en hálft sjötta ár, er stórlega vítaverð.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Sveins Rúnars Sigmundssonar og Guðnýjar Óskarsdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 800.000 krónur.

 

               

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. september 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. september sl., eftir endurflutning, var höfðað með stefnu birtri 20. janúar 2010 á hendur íslenska ríkinu, kt. 550169-2829, Arnarhvoli, 150 Reykjavík.  Stefnendur eru Sveinn Rúnar Sigmundsson, kt. 090457-4629, og Guðný Óskarsdóttir, kt. 090250-4939, Vatnsenda, Eyjafjarðarsveit, en þau tóku við aðild málsins 10. maí 2013.

Endanlegar dómkröfur stefnenda eru:

Aðallega: „að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2008: Eyjafjarðarsveit austan Eyjafjarðarár ásamt vestanverðum Bleiksmýrardal, sem upp var kveðinn þann 19. júní 2009, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði innan neðangreindra marka:

Úr Eyjafjarðará (1) á móts við svonefndan Trippagarð sem hlaðinn er á mörkum Hóla og Arnarstaðatungna og þaðan í garðinn (2) og með garðinum þar til hann þrýtur (3) þaðan í Kerlingarhnjúk (4) og þaðan suðvestur á vatnaskil og sýslumörk í punkt við suðurenda Nyrðra-Urðarvatns (5) þaðan liggja merkin á sýslumörkum, sem skipta Syðra-Urðarvatni hér um bil í tvennt, að drögum nyrðri upptakakvíslar Geldingsár (6) þaðan eru merkin dregin því sem næst í hásuður um drög syðri upptakakvíslar Geldingsár (7) þaðan eru merkin dregin beint í norðaustur að landamerkjum Möðruvalla (8) þaðan liggja merki Hóla og Möðruvalla saman allt þar til komið er að hornmarki við Þormóðsstaðasel (9) þaðan liggja merki að upptökum Klaufár, sem er hornmark Hóla og Tjarna, (10) þaðan ræður Klaufá þar til hún fellur í Eyjarðará (11) og þaðan ræður Eyjafjarðará að punkti 1.

Stefnendur krefjast og viðurkenningar á því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.“

Til vara krefjast stefnendur þess að felldur verði úr gildi fyrrnefndur úrskurður óbyggðanefndar, í málinu nr. 1/2008, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði innan neðangreindra marka:

„Úr Eyjafjarðará (1) á móts við svonefndan Trippagarð sem hlaðinn er á mörkum Hóla og Arnarstaðatungna og þaðan í garðinn (2) og með garðinum þar til hann þrýtur (3) þaðan í Kerlingarhnjúk (4) og þaðan suðvestur á vatnaskil og sýslumörk í punkt við suðurenda Nyrðra-Urðarvatns (5) þaðan liggja merkin á sýslumörkum, sem skipta Syðra-Urðarvatni hér um bil í tvennt þangað til komið er að syðra hornmarki við Torfur (6) þaðan liggur línan suðaustur þangað til hún mætir landamerkjum Möðruvalla, (7), (sbr. m.a. dskj. 92), þaðan liggja merki Hóla og Möðruvalla saman í norðaustur allt þar til komið er að hornmarki við Þormóðsstaðasel (8) þaðan liggja merki að upptökum Klaufár, sem er hornmark Hóla og Tjarna, (9) þaðan ræður Klaufá þar til hún fellur í Eyjarðará (10) og þaðan ræður Eyjafjarðará að punkti 1.

Stefnendur krefjast og viðurkenningar á því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.

Stefnendur krefjast þess í öllum tilfellum, að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi lögmanns þeirra eða samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.“

Stefndi, íslenska ríkið, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að honum verði dæmdur hæfilegur málskostnaður.  Til vara krefst stefndi þess að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Málið varðar umþrætt landsvæði Hólaafréttar í Eyjafjarðardal og þar með talið svokallaðar Jórunnarstaðartungur.

I.

1.         Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignalanda, þjóðlendna og afrétta. Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls. Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd. Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri hlutann.  Var það svæði nefnt „vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A).“  Svæðið var afmarkað nánar þannig: Norðurmörk fylgja norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar sem hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa.  Austurmörk miðast við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagsmörk Eyjafjarðarsveitar að austan. Þeim mörkum er fylgt til suðurs í Fjórðungskvísl. Suðurmörk fylgja suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, þar sem jafnframt eru norðurmörk svæða 1 og 3 hjá óbyggðanefnd. Vesturmörk miðast við Blöndu, frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði, þ.e. á sunnanverðu Mið-Norðurlandi, svæði 7A, bárust óbyggðanefnd 14. mars 2008.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum stefnda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 28. mars 2008, en einnig 30. apríl sama ár, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Jafnframt var lýstu kröfusvæði íslenska ríkisins skipt í fimm mál, þ.e. 1-5/2008. Kynningargögn lágu frammi á skrifstofum sýslumanna og sveitarfélaga, en einnig á heimasíðu óbyggðanefndar. Athugasemdarfrestur var til 25. ágúst 2008.

Mál nr. 1/2008 var í fyrstu takmarkað við vestanverðan Bleiksmýrardal ásamt Eyjafjarðarsveit austan Eyjafjarðarár, en á síðari stigum var fremsti hluti Eyjafjarðardals vestan ár tekinn með að hluta, eins og nánar verður vikið að síðar.  Að öðru leyti var fjallað um landsvæði í Eyjafjarðarsveit vestan Eyjafjarðarár í máli nr. 2/2008.  Mál nr. 3/2008 er takmarkað við Hörgárbyggð austan Öxnadalsár, mál nr. 4/2008 er takmarkað við Skagafjörð austan Vestari-Jökulsár og mál nr. 5/2008 við Húnavatnshrepp austan Blöndu og Skagafjörð vestan Vestari-Jökulsár ásamt Hofsjökli.

Mál nr. 1/2008 var fyrst tekið fyrir hjá óbyggðanefnd og forsvarsmönnum aðila 25. ágúst 2008.  Óbyggðanefnd, sem skipuð var Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, Allan V. Magnússyni héraðsdómara og Sif Guðjónsdóttur framkvæmdastjóra og varamanni hjá óbyggðanefnd, tók málið fyrir að nýju 31. ágúst og síðan 1. september 2008.  Var þá vettvangur skoðaður, en jafnframt var lögð fram greinargerð af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, og fleiri gögn.  Málið var tekið fyrir 16. september og 13. október sama ár, en þá voru lagðar fram greinargerðir af hálfu gagnaðila íslenska ríkisins, þ. á m. forvera stefnenda. Við fyrirtöku hjá nefndinni þann 10. nóvember sama ár var tekin ákvörðun um að jörðin Hólar, sem liggur beggja vegna Eyjafjarðarár ásamt landsvæðinu Torfum, öðru nafni Jórunnarstaðatungur, sem liggur vestan megin Eyjafjarðarár, myndu í heild sinni fylgja málsmeðferð í máli nr. 1/2008.  Fór aðalmeðferð málsins fram hjá óbyggðanefnd 25. nóvember 2008 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi, en í framhaldi af því var málið tekið til úrskurðar.  Málið var endurupptekið 5. júní 2009 og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju.  Hinn 19. júní 2009 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, Hólaafréttur ásamt Jórunnarstaðatungum fremst í Eyjafjarðardal og hálendissvæðið þar fyrir framan, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að nyrsti hluti þess væri í afréttareign, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, líkt og hér að framan var lýst.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu 21. júlí 2009.

Mál þetta var höfðað af fyrri eigendum lögbýlisins Hóla innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna.

Aðilaskipti urðu að Hólajörðinni á árinu 2013 og hafa fyrrnefndir stefnendur tekið við aðild málsins, sem þinglýstir eigendur lögbýlisins og hins umþrætta landsvæðis Hólaafréttar og þar með talið svokallaðra Jórunnarstaðatungna.  Þeir una ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefjast því ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu og í hinni endanlegu kröfugerð þeirra hér fyrir dómi.  Breytti kröfugerð var lögð fyrir dóminn þann 18. ágúst 2014, en hún gengur talsvert skemur, m.a. til suðurs en forverar þeirra höfðu áður lýst fyrir óbyggðanefnd.

Óumdeilt er að landsvæði sem nefnt hefur verið Torfur/Jórunnarstaðatungur var skipt út úr landi lögbýlisins Hóla með afsalsgerningi árið 1944 til þáverandi eiganda Jórunnarstaða í Eyjafjarðarsveit, en sú jörð er vestan Eyjafjarðarár.  Var stofnuð um það sérstök síða í fasteignabók sýslumannsins á Akureyri undir heitinu Afréttarland. Torfur, Eyjafjarðarsveit, Eyjafjarðarsýsla. Með yfirlýsingu þáverandi eigenda Jórunnarstaða, sem dagsett er 26. ágúst 2009, var því lýst yfir að afréttarlandið Torfur/Jórunnarstaðatungur tilheyrði með réttu lögbýlinu Hólum.

Stefnendur eru þinglýstir eigendur lögbýlisins Hóla ásamt aðskildu landsvæði sem er fremst í Eyjafjarðardal og þar fyrir framan, en nefndar Torfur/Jórunnarstaðatungur eru þar á meðal.  Hólabýlið, sem er austan Eyjafjarðarár, tilheyrði áður Saurbæjarhreppi en er nú í sveitarfélaginu Eyjafjarðarsveit.

Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang hinn 6. september 2010, en einnig síðar og var þá m.a. flogið yfir landsvæðið.

2.         Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 1/2008, er samkvæmt framansögðu m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu umrædds landsvæðis, sem nefnt er afréttur lögbýlisins Hóla ásamt Torfum/Jórunnarstaðatungum í Eyjafjarðarsveit.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 143 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggjast á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi og sveitarmörkum, en einnig að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins.  Gerð er grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir og svæði, en að lokum eru úrskurðarorð.  Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004.  Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með árituðum merkja- og kröfulínum.

3.         Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði sé helst að finna í Sturlubók og Hauksbók Landnámu.  Í Sturlubók segir um landnám Helga magra og Þórunnar hyrnu:

Um várit gekk Helgi upp á Sólarfjöll;(Hámundarstaðafjall) þá sá hann, at svartara var miklu at sjá inn til fjarðarins, er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim, er þar lágu úti fyrir. Eptir þat bar Helgi á skip sitt allt þat, er hann átti, en Hámundr bjó eptir. Helgi lendi þá við Galtarhamar; (Festarklettur í Kaupangssveit) þar skaut hann á land svínum tveimr, ok hét gölturinn Sölvi. Þau fundusk þremr vetrum síðar í Sölvadal; váru þá saman sjau tigir svína. Helgi kannaði um sumarit herað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness (Gjögurtá)  ok gerði eld mikinn við hvern vatsós ok helgaði sér svá allt herað. Hann sat þann vetr at Bíldsá, en um várit færði Helgi bú sitt í Kristsnes.

Lýsing Hauksbókar um landnám nefndra landnámshjóna hljóðar svo:

Þann vetr bjó Helgi at Bíldsá, en um sumarit kannaði hann herað allt ok nam Eyjafjörð allan millim Sigluness ok Reynisness ok gerði eld mikinn við hvern vatsós við sjó ok helgaði sér svá allan fjörðinn nesa millim. Einum vetri síðar (færði Helgi bú sitt) í Kristnes.

Í úrskurðinum er vísað til þess að samkvæmt Landnámu hafi Helgi magri skipt landi milli ættingja sinna.  Austan Eyjafjarðarár hafi hann þannig gefið syni sínum Ingjaldi land upp frá Þverá hinni ytri til Arnarhvols. Hafi Ingjaldur reist bú sitt að Þverá hinni efri, en býlið var síðar nefnt Munkaþverá.  Þá hafi bróðir Ingjalds, Hrólfur, einnig fengið landsvæði frá föður þeirra austan ár, frá Arnarhvoli, en hann hafi reist bú sitt að Gnúpufelli, skammt austan Eyjafjarðarár, en sunnan Núpár.

4. Það landsvæði sem hér er til umfjöllunar, Hólaafréttur, ásamt Torfum/Jórunnarstaðatungum, er í fremsta og syðsta hluta Eyjafjarðardals og þar fyrir ofan.  Eru aðilar í aðalatriðum sammála um takmörk afréttarins til norðurs, vesturs og austurs, en ágreiningur er um takmörk hans til suðurs, þrátt fyrir breytta kröfugerð stefnenda hér fyrir dómi og takmörkun til suðurs.  Er þannig miðað við að landsvæðið markist til norðurs af Klaufá austan Eyjafjarðarár, við suðurmörk eignarlands lögbýlisins Tjarna, en af garði nærri Strangalæk vestan árinnar, við syðstu mörk svonefndrar Arnarstaðatungna í Tungnafjalli.  Til vesturs og suðvesturs er miðað við að svæðið nái að Urðarvötnum, hinu ytra og hinu syðra, og liggi að sýslumörkum gagnvart Skagafjarðarsýslu, og fari eftir það til suðurs og síðan til austurs með línum, eins og nánar er rakið í aðal- og varakröfum stefnenda og markalínum óbyggðanefndar.  Til suðausturs miða báðir aðilar við kröfulínu Möðruvalla fyrir óbyggðanefnd, en til norðausturs er miðað við að svæðið liggi að eignarlandi Núpufells sunnan Þormóðsdals/Gnúpufellsdals, en markist síðan nærri vatnaskilum að fyrrnefndri Klaufá, austan Eyjafjarðarár og sé þar á móti eignarlandi lögbýlisins Tjarna, eins og fyrrsagði. Er svæðið afmarkað nánar með punktum og línum á korti óbyggðanefndar.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir um hið umþrætta landsvæði, Hólaafrétt og Torfur/Jórunnarstaðatungur: Landsvæði það sem hér um ræðir liggur að mestu í yfir 900 m hæð yfirsjávarmáli og hefur leguna norður–suður. Liggur landsvæðið fram af Eyjafirði og uppaf Eyjafjarðardal. Nyrst á svæðinu, milli Sandár og Fremri-Strangalækjar, liggja Torfur. Rís svæðið skarpt til vesturs upp af Eyjafjarðará í um 1069 m hæð í Torfufellshnjúk og teygir sig vestur að Urðarvötnum (881m). Upp af Eyjafjarðardal er land víðfeðmt, hallalítið, gróðursnautt og öldótt.

Um vestur- og suðurmörk Eyjafjarðarsýslu, en einnig um fjallskil á svæðinu á næstliðnum öldum, er í úrskurðinum vísað til fræðiritsins Lýsing Eyjafjarðar I eftir Steindór Steindórsson náttúrufræðing, sem gefið var út árið 1949, en þar segir m.a.:

Suður frá Öxnadalsheiði liggja mörkin eftir háfjallinu milli Austurdals og Nýjabæjarafréttar í Skagafirði og Eyjafjarðardals. Kann ég þar ekki að rekja örnefni, sem þau séu við tengd, enda mun fátt um þau, ef nokkur eru. Liggja sýsluskilin hlykkjótt þar, engu að síður en norðar í fjallgarðinum. Þegar dregur inn fyrir byggðir, eru engar ákveðnar merkjalínur til, og mun gamalt sölubréf  Nýjabæjar í Austurdal frá 1464 vera hin eina heimild þar um, en þar segir svo: að Nýibær eigi land „að Tinná og svo langt á fjöll sem vötn draga“ Verður það varla skilið öðruvísi en svo, að vatnaskil ráði merkjum allt inn til jökla. Þó munu Urðarvötn ætíð vera talin til Eyjafjarðar, en samt segja kunnugir, að afrennsli þeirra sé til vesturs. Svo mun almennt talið nú, að öræfasvæðið inn af Eyjafirði sé almenningur frá Geldingsá, er fellur í Jökulsá austari og inn að Hofsjökli og suður á Sprengisand og austur undir drög Fnjóskár. En síðan tekið var að smala land þetta, sem ekki mun hafa verið fyrr en seint á síðastliðinni öld, hefir smalamennska einkum fallið í skaut Eyfirðinga, allt suður undir Fjórðungskvísl, þar sem mörk eru talin milli Norðlendinga- og Sunnlendingafjórðungs. Eftir þessu verður því ekki hægt að ákveða sýsluskil að sunnanverðu, en eftir því sem annars staðar hagar til, ættu þau að liggja á vatnaskilum þar sem vötn byrja að falla til Eyjafjarðar.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að heimildum um landsvæðið í fremsta hluta Eyjafjarðardals.  Þar um er m.a. vísað til ritsins Byggðir Eyfirðinga og hins kunna bókaflokks Braga Sigurjónssonar, Göngur og réttir.  Í fyrrnefnda ritinu segir m.a. um afréttinn og fjallskil á svæðinu:  ,,Afréttarsvæði Saurbæjarhrepps eru helst dalir og daladrög fram af byggðinni. Austast eru tveir aðaldalir og smærri afdalir fyrir innan Sölvadal. Mest landrými er í Æsustaðatungum og í vestari aðaldalnum sem heitir Þormóðsstaðadalur vestan við Þormóðsstaðaá en Gnúpufellsdalur austan við hana. Þar vestan og sunnan við er innsti hluti Eyjafjarðardals, þ.e. fram frá Tjörnum og Hólsgerði innstu byggðu bæja í dalnum. Vestar og norðar er svo Torfufells- og Leyningsdalur sem liggja sitthvoru megin Torfufellsár. Svarfdalur (Sverrisdalur) skerst svo til norðvesturs úr Leyningsdal. Allmiklu norðan við bæði Leynings- og Torfufellsdal skerst Gilsárdalur suðvestur í fjöllin en hann hefur nokkurt graslendi þótt lítill sé. Enn norðar og vestar má svo finna Djúpadali  ...  Göngur á þessa afrétti Saurbæjarhrepps taka fljótt af og er lokið á einum degi. Næsta dag eru heimalönd smöluð og lokadaginn er það fé sem ekki komst til skila á aukaréttum rekið til aðalréttar.

Í sveitarlýsingu Saurbæjarhrepps í ritinu Byggðum Eyjafjarðar frá árinu 1973 er vikið að nefndu landsvæði, en einnig er þar greint frá Hæstaréttarmáli nr. 128/1967, frá 29. apríl 1969, sem varðar svonefndan Nýjabæjarafrétt, Fjöll og Laugafellsöræfi sunnan Eyjafjarðardala. Segir í ritinu eftirfarandi, m.a. um staðhætti, afréttarmál og nefndan dóm:

Víðáttumikið hálendissvæði liggur suður af Eyjafjarðardölum, gróðurlítið, en kjarngott. Gekk þar nokkuð af fé úr Saurbæjarhreppi á sumrum, einkum úr Hólasókn. En síðan um fjárskipti 1950 hefur varla villzt þangað kind. Saurbæjarhreppur taldi sig eiga land þetta samkvæmt fornri hefð og sá lengi um leitir þar einn saman. Síðar tókust samningur við Skagfirðinga um að leita þetta að hálfu, eða nánar tiltekið árið 1920. Upprekstarfélag Saurbæjarhrepps hóf þarna gróðurtilraunir fyrir nokkrum árum. En er Skagfirðingum varð ljóst, að Eyfirðingar töldu sig eiga landið, gerðu þeir kröfu til þess líka. Spunnust af þessu landsfræg málaferli, sem lyktaði á þann veg, að land þetta á sig sjálft, þar eð hvorugum aðilanum var dæmdur eignarrétturinn. Afréttir Saurbæjarhrepps eru því aðeins í óbyggðum dölum, hvergi um langleiðir að ræða, og víðast er réttað samdægurs. Beztu afréttirnar eru, þar sem jarðir hafa farið í eyði við afréttarmörkin, svo sem í Sölvadal og Djúpadal.

Í sveitarlýsingu Saurbæjarhrepps í Byggðum Eyjafjarðar frá árinu 1990 er vikið nánar að hálendissvæðinu sunnan Eyjafjarðardals og í Austurdal í Skagafirði.  Segir þar m.a.:

Fjöllin eru land sem liggur vestar og mun sunnar en hefðbundnar fjárleitir Eyfirðinga ná. Þeir ganga þó þetta landsvæði í félagi við Skagfirðinga. Takmörk Fjalla eru frá Geldingsá, sem fellur í Jökulsá eystri í Skagafirði, og allt til Hofsjökuls, suður að Þjórsá og austur að leitarsvæðum Þingeyinga. Leitarmörk Eyfirðinga og Skagfirðinga eru við Fossá en þar er fé þeirra greint í sundur. Bragi Sigurjónsson telur umrætt landsvæði vera eða hafa verið eignarheimildalaust að því er best verður vitað. Samkvæmt munnmælum mun það þó hafa tilheyrt Eyfirðingum, einna helst Möðruvöllum í Eyjafirði eða e.t.v. Grund. Vegna fyrrnefndar óvissu um eignarheimildir þóttust hvorki Skagfirðingar né Eyfirðingar skyldugir til að fara í leitir á þessu landsvæði. Fyrstu lögskipuðu leitirnar munu því ekki hafa verið gerðar þar fyrr en í kringum 1850. Hugsanlega hafa Eyfirðingar stöku sinnum farið þangað í eftirleitir en víst er að Austurdalsmenn gerðu þangað eftirleitir á hverju hausti og fundu allmargt fé. Það fé var síðan boðið upp og helmingurinn tekinn í kostnað þannig að lítið varð eftir handa eigendunum. Það mun hafa verið ástæða þess að Eyfirðingar byrjuðu að fara í leitir á Fjöllin reglulega hvert haust og fóru þeir fyrst í félagi við Þingeyinga.

5.  Í úrskurði óbyggðanefndar eru að nokkru raktar heimildir um nokkrar jarðir fremst í Eyjafirði, austan Eyjafjarðarár.  Er þannig fjallað um býlin Möðruvelli, Gnúpufell, Æsustaði, Nýjabæ, Hóla og fremsta býlið Tjarnir.  Þá er sérstaklega fjallað um afréttarsvæði þessara jarða.  Einnig er í úrskurðinum vikið að jörðinni Jórunnarstöðum, sem er vestan ár, vegna kaupa þáverandi landeiganda hennar á fyrrnefndum Jórunnarstaðatungum árið 1944 af eigendum Hólajarðarinnar.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að kirkjan í Hólum í Eyjafirði hafi verið jarðeignalaus samkvæmt máldagabók Auðuns biskups rauða Þorbergssonar frá 1318.  Hið sama hafi verið uppi á teningnum samkvæmt máldagabók Péturs biskups Nikulássonar frá 1394 og síðar, í vísitasíubók Jóns biskups Vilhjálmssonar frá 1429 og í máldagabók Ólafs biskups Rögnvaldssonar frá 1461 og síðar.

Í úrskurðinum segir að heimildir greini frá því að Gunnar Pétursson hafi selt Jóni Ólafssyni jörðina Hóla í Eyjafirði með bréfi, árituðu 14. mars 1375.  Í kaupbréfinu segir að Hólajörðin hafi verið seld með svofelldum skilmálum:

–... med þeim gögnum oc gædum sem hann vard eigandi at. ut aa midian markgard. þar med eyiafiardardal fram fra klifsaa jardareign. eiga jardir lambarekstr utan fra gerdi oc upp til tiarna. oc eigi verit at talit þo at farit hafi eldri saudir. torfskurd i arnarstadi sem landinu þarfnaz. selför j tiarna land. svo morgu fe sem heima at holum fædiz þremr kuum og hrossi. skogar part j leynings jord ...

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að árið 1501 hafi Hólajörðin verið metin á 120 hundruð að dýrleika í jarðaskiptabréfi Þorvarðar Erlendssonar frá Hlíðarenda í Fljótshlíð, lögmanns sunnan og austan, og Gríms Pálssonar sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu.  Þá er vísað til þess að í erfðaskiptum árið 1569, eftir andlát Þorleifs Grímssonar, hafi jörðin Hólar verið metin á 120 hundruð að dýrleika.  Í úrskurðinum er þess getið að ágreiningur um eignarhald á Leyningsdal vestan Eyjafjarðarár hafi verið á milli þáverandi eiganda Hóla og eiganda nágrannajarðarinnar Leynings.  Hafi þessi ágreiningur leitt til þess að Ormur Sturluson lögmaður þurfti að láta málið til sín taka.  Kemur fram í dómabókum að hann hafi úrskurðað árið 1571, m.a. í ljósi vitnisburðar og seljahalds, að dalurinn skyldi vera undir eignarhaldi eiganda Leyningsjarðarinnar.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að á héraðsþingi að Saurbæ í Eyjafirði þann 16. júní 1701 hafi verið lesin upp lögfesta Ara Þorkelssonar sýslumanns í Barðastrandarsýslu fyrir Hólajörðinni í Eyjafirði, en í henni kemur m.a. fram að jörðin hafi þá verið metin á 100 hundruð að dýrleika, en inntaks lögfestunnar er að öðru leyti ekki getið.  Þá er vísað til þess að í Jarðabók Árna og Páls frá árinu 1712 segir að kirkjustaðurinn Hólar sé „anecteraður með Miklagarði og Stóradal“. Þar er og greint frá því að afréttur jarðarinnar sé frá Tjarnalandi og í Eyjafjarðardal, en enn fremur að hjáleigur hennar séu tvær, Hólakot og Gieldingagerde, en að auki séu í landi hennar eyðihjáleigurnar Hólasteckur og Kringla. Hið sama kemur fram í jarðamati frá árinu 1804.

Í Jarðarbókinni er búskaparháttum á Hólum nánar lýst þannig: „[...] Selstöðu með haga fyrir ásauð, sem elst í Hólum, iii kýr og i hest í stokki í Tjarnaland, hefur áður brúkast, en nú ekki í nokkur ár. Afrjett á staðurinn fram frá Tjarnalandi og botninn á Eyjafjarðardal. Þángað á Hóla kirkjusókn fyrir austan Eyjafjarðará skylduupprekstur fyrir afrjettartoll, brúkast stundum, stundum ei, sakir harðinda og grasleysis. Skógarhögg á staðurinn eður kirkjan í Leyníngsskógi á Hrafnsnesi á milli Járnhryggjar og Torfufellsár. Sá skógur er eyddur til kolgjörðar, en bjarglegur til tróðs og eldiviðar.

Samkvæmt gögnum var svonefndri Hólatorfu, þ.e. lögbýlinu Hólum og fyrrnefndum hjáleigum hennar, skipt upp.  Er í Jarðabókinni því lýst að jarðgæði, kostir og ókostir Hólakots séu þeir sömu og heimajarðarinnar.  Fram kemur í gögnum að mat á virði Hólajarðarinnar hafi farið fram 12. nóvember 1765, og segir að tilefni þess hafi verið það álit þáverandi eiganda að verðmæti hennar hefði minnkað.  Í þessu mati er m.a. áréttað að jörðinni tilheyri land sem kallist Eyjafjarðardalur, en tekið er fram að það sé svo langt frá að ábúandi jarðarinnar nýti sér það aðeins til beitar fyrir hross og geldfé.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að þann 29. maí 1809 hafi Jón Jónsson, prestur í Möðruvallaklausturssókn, samþykkt, í umboði B. Stephensens, að selja E. Thorlacius, Miklagarðs- og Hólapresti, jörðina Hóla ásamt hjáleigunni Hólakoti og eyðihjáleigunum Kringlu og Geldingagerði með því landi og afréttarlandi sem torfunni tilheyrði.  Greint er frá því að þann 5. júní árið 1822 hafi þáverandi jarðeigandi Hóla, séra Hallgrímur Thorlacius, lesið upp lögfestu fyrir nefnda Hólatorfu og hennar afrétt í Eyjafjarðardal, en þar segir  m.a.:

Eg, Proprietarius Hoola Torfu, Liggande innann Ejafiardar Syslu og Saurbæar Hrepps, Lögfeste hermed, under Nefnda Torfu allann Ejafiardar Dahl, til Jtstu Takmarka sem adrir Menn í móte eíga, og her med á nafn nefne.

Vestann Ejafiardar ár adskilia So Kalladur Straungu lækur Hoola og Arnarstada Land, hvarum Næstumm samann falla i Ejtt ad Nedann, enn kliúfast umm graslausa meela ofann fialls, þó skal sú kvyslinn hvert þad er sú fremri eda nordari, sem stærri og rettari er, landamerkjum ráda, og þaðann frá allt Land, hveriu nafne sem hejtir framm í dragsbotn.

Austann Ejafiardar ár [ofan línu] adskilur Hoola og Tiarnaland, So nefnd Selskál, við hveria stendur nidur vid ána, frá aldödla so kallad heimara Hóla-sel, er hefur á Næstu Týmum nýtt nafn feíngid innann Hóla-sóknar af Tjarna-seli, skal klettabukta í midre Selskál þessare, first umm sinn, vera Landamerke mille Strax tedra Jarda. Beint i Ejafiardar á Nidur og þadann frá og framm, Klaufamyrar, Klaufá, Klifsheídi, Klifsá, Svýnheide Svýná, Stakkar, allt i dragsbotn. […]

Fram kemur í gögnum að ábúandi lögbýlisins Tjarna, Steinn Pálsson, hafi mótmælt lögfestunni, með svofelldri bókun:

[…] 4. ... Lögfestunni andæpti Proprietarius og ábúande Tiarna Steinn Pálsson, ad hann varast skyldi um simt [ógr. orð] hid forbodna Land ad brúka; ad ödru Leite qvadst hann prótistiera Lögfestunnar Innehald, þar hann fyrir víst meinti, ad Land Tiarna sinna nædi ad Klifsá, hvört Prötest Lögfestandi siálfr var áheyrande. […]

Fram kemur að með nefndum jarðeigendum hafi á fundi hjá sáttanefnd þann 1. júlí nefnt ár tekist sátt um merki milli lögbýla þeirra, Tjarna og lands Hóla fremst í Eyjafjarðardal og þá þannig að merkin skyldu vera við Klaufá í stað Klifsár.  Um efni sáttagjörðarinnar segir nánar:

Vid Samtal um efni þetta milli Partanna í Commissionarinnar nærveru, foreinudust Partarnir um sagdra jarda Landamerki á þann hátt, sem fylgir: ad Steinn fullkomliga samþyckir, ad Landamerki millum tédra jarda, Hóla- og Tjarna-Lands á Eyafjardardal, skuli hér eptir vera ecki Klífsá, heldur svo nefnd Klaufá, sem heimar liggur á dalnum, enn sú fyrri; svo Hóla afréttarland, aldeilis átølulaust, byrji strags fyrir framar sagda Klaufá, hvar Klífsárheidi tekur til eda byrjar. Þará móti áskilur Presturinn: a, ad Hólar eigi fría ( þ.e. betalíngslausa:) Selstødu, til allrar brúkunar á dalnum, fyrir heiman nefnda Klaufá, þar sem hentast sýnist, allt heim ad Glerá. b, ad Tjarna ábúendur edur Eigari reki aldrei sínar Sképnur, saudfé edur Hross, geldfé edur Búsmala, sinn edur annara, framyfir nefnda Klaufá, og C, ad svo framarliga ad Presturinn, núverandi Hóla Propietarius, edur adrir sídarmeir, géti, med Løggildum Skiølum edur Røkum, sannad þá ádur áminstu Sögn sumra gamallra manna: ad Hólar hafi átt og eigi Land heim í Glerá á Eyafjardardal, skuli þessi Forlíkunar Samníngur eckert hindra þess Lands Tilkall Hóla vegna; hvørju Prestsins uppástandi, svo vel sem þeim fyrri Póstum, Steinn er fullkomliga samþyckur. Þessum samníngi til réttrar Stadfestu, undirskrifa nefndir málspartar, nærst Commissioninni, sín eigin handar nøfn. Ut supra.J. Jónsson mpria, J. Sigurdsson, H.E. Thorlacius, Steirn Pálsson.

Sáttagjörðin var innfærð í Sáttabók Eyfirðinga 1799-1836, og er hún samhljóða þeirri uppskrift sem að ofan greinir.

Í jarðamati frá 1804 segir að Hólakoti tilheyri eyðihjáleigan Geldingagerði, en í jarðamatinu frá 1849 segir að Hólakot eigi frían upprekstur á Hólaafrétt.  Um jarðgæði Hóla segir í síðastnefnda jarðamatinu að jörðin eigi torfristu í landi fyrrum hjáleigu, Hólakots, en eigi að auki afrétt fyrir sig og fáar aðrar jarðir í Eyjafjarðardal beggja vegna.

Nýibær var byggður úr landi Hóla um miðja 19. öldina, en í landamerkjabréfi frá 1922 segir að jörðin eigi upprekstrarland á Hólaafrétt endurgjaldslaust.

Í jarðatali Johnsens segir um Tjarnarjörðina að í landi hennar eigi fjögur býli upprekstrarrétt fyrir lömb.

Þann 5. júní árið 1850 var á manntalsþingi að Saurbæ í Eyjafirði fyrrnefnd sáttagjörð frá 1. júlí 1822 þinglesin á milli eigenda jarðanna Tjarna og Hóla, um landamerki á Eyjafjarðardal, sem og vegna selstöðu Hóla í svonefndum Tjarnardal.  Síðarnefnda atriði er í samræmi við skrif yfirmatsmanna Eyjafjarðarsýslu, en þeir tiltaka það einnig að beitiland Hólakotshjáleigunnar sé óskipt með heimajörðinni Hólum.

Frá því segir í gögnum að á manntalsþinginu að Saurbæ þann 5. júní 1850 hafi prófasturinn H. Thorlacius lögfest svonefndar Hólagrundir vegna lögbýlisins Hóla út að landamerkjagarði fyrir utan Hólastekk.  Þá segir frá því að ábúendur Hóla og Hólakots hafi mælt sér mót við bóndann á Tjörnum þann 16. júlí 1852 til þess að reyna að leysa ágreining um rekstur trippa og annars geldfjár þá um vorið á Hóla- og Tjarnaafrétti og að í framhaldi af því hafi þeir komist að svohljóðandi niðurstöðu:

,,Fyrst er þad samkomulag med trippin, ad Msr. Páll vill hefur [ofan línu] med því skilyrdi ad [ofan línu] veita þeim eftirleidis [ofan línu] fyrerstödu án borgunar, ad þau séu af allri Torfunni ei fleiri enn 8 og þarnæst ad þeir taki ei austanfram fle á Hóla afrétt fleira enn svarar hierumbil 50 roskid og 70 lömb, en í Torfurnar er ætlast til þeir taki svo sem svarar frá Vatnsenda og Haldórsstöðum.Þarámóti áskilur Msr. Páll sér ad hafa jafnmörg trippi á samlögum í dalnum, og eins fríheit fyrir lömb og géldfé sitt þann ársins tíma, sem honum kynni ad vera þad hagur, án þess ad taka af ödrum nokkurt géldfé í afréttina. Ad öllu því leiti, sem ekki hér ummrædir, er beggja málspartanna réttur óskértur. Til stadfestu eru hlutade[i]ganda undirskrifud nöfn sama stad, ár og dag, sem upphaflegar greinir.Undir þetta skrifa Jón Jónsson, Sveinn Sveinsson, Abraham Hallgrímsson, Jón Sveinsson og P. Steinsson. Viðstaddir voru E.Thorlacius og Jón Thorlacíus.“

Landamerkjabréf fyrir Hólajörðina var útbúið 23. maí 1889 og þinglesið degi síðar.  Í bréfinu er lýst merkjum heimalandsins, en um merki afréttarlands jarðarinnar fremst í Eyjafjarðardal segir:

,,[…] Hólar eiga afrjett í Eyjafjarðardal að austanverðu árinnar fram frá Klaufá, við hana er byggður trippagarður, og að vestanverðu árinnar fram frá trippagarði þeim, sem byggður er rjett á móti garðinum að austanverðu árinnar og fram til jökla að austan og vestan til sýslumóta.

Þess skal getið að garðurinn að vestanverðu við Eyjafjarðará stendur framar en í miðju Stangalækjarfjalli, en Stangalækjarfjall hefur verið þrætuland milli Hóla og Arnarstaða, nú hafa hlutaðeigendur komið sjer saman um að láta merkin vera um trippagarðinn í móti Klaufá, og eiga Arnarstaðaábúendur að hafa frían upprekstur fyrir 2 trippi í Hólaafrjett […]

Hólar eiga þrjá betalingslausa selstöðu til allrar brúkunar í dalnum fyrir heiman nefnda Klaufá, þar sem hentast sýnist, allt heim að Glerá. Samkvæmt þinglýstum sáttagjörningi frá 1. júlí 1882.

Jón Ólafsson skrifaði undir bréfið vegna eigenda Hólatorfunnar. Það var samþykkt af Randveri Bjarnasyni, eiganda ½ Arnarstaða, Þorsteini Thorlacius í umboði Helgu Jóhannesdóttur eiganda ½ Arnarstaða og tæpl. ½ Vatnsenda, og Páli Sveinssyni, eiganda rúms helmings Vatnsenda.

Í mati á Hólum, sem gert var þann 25. maí 1903, ásamt með hjáleigunni Hólakoti og nýbýlinu Nýjabæ, segir að stór afréttur fylgi jörðinni.  Hið sama segir í fasteignamati frá 1916-1918 fyrir Hóla, en þar segir og að jörðinni fylgi afrétturinn Hóladalur.  Í þessu mati er þess getið að upplýsingar um landamerki Hólakots og Nýjabæjar, sem útbúin voru 1921, sé að finna í fyrrnefndri landamerkjaskrá Hóla frá 1889, en þar kemur m.a. fram að býlinu fylgi upprekstrarland á Hólaafrétt fyrir framan Klaufá endurgjaldslaust fyrir sínar skepnur.

Nýtt landamerkjabréf fyrir lögbýlið Hóla var útbúið 15. júní 1923, en því var þinglýst fjórum dögum síðar.  Í bréfinu er lýst merkjum jarðarinnar, en einnig er kveðið á um sameiginlegt beitiland með jörðunum Hólakoti og Nýjabæ og síðan afréttarlandi jarðarinnar.  Segir um þetta nánar í bréfinu:

„[...] Beitiland Hóla, Hólakots og Nýjabæjar, liggur austan (ofan) við vörslugirðingu jarðanna, út og suður það sem löndin ná og til fjalls, allt austur á miðja brún. Beitilandið er sameiginlegt fyrir áðurnefndar jarðir.

Afréttarland er sem hér segir: Á Eyjafjarðardal austanverðum, er þverá, er Klaufá heitir. Við hana er hlaðin fyrirstöðugarður. Gegnt þessum garði, er annar garður vestan megin árinnar. Eiga Hólar afrétt frá Klaufá og garðinum vestan megin, og fram það, sem dalurinn nær, á efstu fjallsbrún að austan og að sýslumörkum að vestan.[...]

Á meðan girðing þessi [vörslugirðing] stendur á sama stað, hafa Tjarnir og Hólatorfan (Hólar, Hólakot og Nýibær), gjaldfrían upprekstur fyrir afréttarpening sinn á Eyjafjarðardal austanverðum, eins og að undanförnu, framan við girðinguna. [...]

Með framanritaðri merkjalýsingu og samþykkt hlutaðeiganda um sameiginleg afnot Eyjafjarðardals, austan megin árinnar, eru allar eldri merkjalýsingar og samþykktir um landamerki á milli Tjarna og Hóla úr gildi numdar, og sömuleiðis ágreiningur sá, sem verið hefur, um ítök eða afnotarétt annarar hvorrar jarðarinnar í landi hinnar, fallinn niður.

Tómas Benediktsson – eigandi 11/20 úr Hólum –, Jón Sigurgeirsson – eigandi fimmtungs úr Hólum – og Magnús Kristjánsson – umráðamaður 9/40 úr Hólum – skrifuðu undir landamerkjabréfið. Það var samþykkt af Davíð Jónssyni – umboðsmanni eigenda Tjarna –, Jóni Tómassyni – eiganda hálfra Arnarstaða –, Júlíusi Jakobssyni – eiganda hálfra Skáldstaða –, Frímanni Jóhannessyni – umráðamanni hálfra Arnarstaða –, Ólafi Sigurðssyni – sem handsalaði sem eigandi hálfra Skáldstaða –, Sveinbirni Sigtryggssyni – eiganda Kolgrímsstaða –, Kristjáni Jósefssyni – eiganda þriðjungs úr Vatnsenda –, Jóni Jónssyni – eiganda 2/3 úr Vatnsenda.

Um Tjarnir segir í fasteignamatinu 1916-1918 að jörðinni fylgi upprekstrarlandið Tjarnadalur. Landamerkjabréf fyrir Tjarnir var útbúið 15. júní 1923 og þinglesið fjórum dögum síðar.  Er þar m.a. kveðið á um merki jarðarinnar til norðurs gagnvart Halldórsstöðum, en um suðurmerkin segir:

Að sunnan ræður merkjum á Eyjafjarðardal, á, milli Tjarna- og Hóla-afrétta, svonefnd Klaufá ...[…]Á meðan að girðing þessi stendur á sama stað, hafa Tjarnir og Hólatorfan (Hólar, Hólakot og Nýibær) gjaldfrían upprekstur fyrir afréttarpening sinn á Eyjafjarðardal, framan við girðinguna og ennfremur eiga Tjarnir þar gjaldfría beit fyrir nautgripi þá og brúkunarhross, sem tilheyra jörðinni. Rétt til að taka fénað á dalinn af öðrum, hafa Tjarnir og Hólar, að sínum helmingi hvor. Með framanritaðri merkjalýsingu og samþykkt hlutaðeiganda, um sameiginleg afnot Eyjafjarðardals, austan árinnar eru allar eldri merkjalýsingar og samþykktir um landamerki milli Tjarna og Hóla, úr gildi feldar, og sömuleiðis ágreiningur sá, [sá fyrir ofan línu] sem verið hefir, um ítök eða afnotarétt annar hvorrar jarðarinnar í land hinnar, fallin niður.

Landamerkjabréfið var áritað af landeigendum nefndra jarða, en einnig af eigendum jarðanna Arnarstaða, Úlfár og Þormóðsstaða.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að í afsals- og veðmálabók Eyjafjarðarsýslu sé svohljóðandi athugasemd um Hóla:

Land sunnan og vestan Eyjafjarðardals. Líði félagið [Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps er eignaðist land 1965] undir lok eða hættir að nota landið fellur það aftur til Hóla með ræktarlöndum og girðingum, en án annarra mannvirkja. [...]

Eins og fyrr sagði var „afréttarsvæðið“ „Torfur/Jórunnarstaðastungur“ selt frá Hólum til Jórunnarstaða vestan Eyjafjarðarár árið 1944.  Ágreiningslaust er að þetta landsvæði er nú á ný í eigu þinglýstra eigenda Hólajarðarinnar, stefnenda, en það er eins og áður var rakið óumdeilanlega innan marka Hólaafréttar.

6.  Í úrskurði óbyggðanefndar og framlögðum gögnum er nánar vikið að afréttarnotum landeigenda og ábúenda á hinu umþrætta landsvæði fremst í Eyjafjarðardal og á svæðinu þar fyrir ofan, en þar um vísast einnig til þess sem rakið var í kafla I.4 hér að framan.

Í sýslufundargjörð frá árinu 1894 er greint frá „skrá yfir afrétti og fjárréttir“ Fram-Eyjafjarðar.  Er þar m.a. getið um afrétti á Sölvadal og Hraunárdal, í Hraunártungum og Æsustaðatungum, en einnig á Núpufellsdal og Þormóðsstaðadal frá Langhólum, í Tjarnadal frá Glerá og í Hóladal.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að í gögnum vegna hæstaréttarmáls nr. 128/1967 (Nýjabæjarafrétt), sem lyktaði með dómi 26. apríl 1969, sé að finna samþykkt um fjárleitir á öræfunum millum Skjálfandafljóts að austan og Jökulsár eystri í Skagafirði að vestan, og að hún hafi verið samþykkt af sýslunefnd og sýslumanni Eyjafjarðarsýslu í mars 1912.  Þar stendur:

Ummerki leitarsvæðisins eru: Að austan Skjálfandafljót, að sunnan Tungnafellsjökull, Jökuldalur og sandarnir sunnan við þær hagateygjur, er liggja að Jökuldal (Fjórðungskvísl), og þaðan í Arnarfellsjökul. Að vestan Hofsjökull og Jökulsá hin eystri í Skagafirði. Að norðan Fossá og suðvesturmörk afréttanna, suður af Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslum, austur að Skjálfandafljóti.

Leitarsvæði þetta skiptist í tvær leitir.  Jökuldalsleit austan til og Laugafellsleit vestan til. Takmörk milli leita þessara eru:  Háöldurnar vestan við Kiðagilsdrög og suður fyrir botn þeirra, síðan suður háöldurnar austan við Bergsstaðakvísl (Þjórsárkvísl), og þaðan vestan Þjórsárkvíslar í Arnarfell.

Segir frá því að fjárleitarsamþykktin hafi gilt til fimm ára, og að notendur heimaafréttar Öngulstaðahrepps, Saurbæjarhrepps og sýslusjóðir Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslna hafi verið skyldir til að taka þátt í kostnaði við Laugafellsleit.

Stjórnarráð Íslands sendi öllum sýslumönnum landsins bréf 29. desember 1919, en þar var þeim tilkynnt að vegna þingsályktunar um rétt ríkisins til vatnsorku í „almenningum“ frá 27. september s.á. bæri þeim að skila skýrslu við fyrsta tækifæri um svæði í sýslum þeirra sem teldust vera „almenningar“ og um „afréttarlönd“ sem ekki sannanlega hefðu tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli.  Í svarbréfi Júlíusar Havsteen, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, dagsettu 27. september 1920, segir m.a. að hann hafi aflað umsagna hreppstjóra og borið svör þeirra saman við landamerkjabók sýslunnar.  Verður ráðið að til grundvallar svarbréfi sýslumanns hafi m.a. verið bréf Benedikts Einarssonar, bónda að Hálsi og hreppstjóra Saurbæjarhrepps, sem dagsett er 8. mars 1920, en þar segir m.a.:

„... allir afrjettir hjer í hreppi eru einstakra manna eign, en almenningar eru hjer engir. Um öræfin fram af Eyjafirði er það að segja, að í landamerkjabrjefi jarðarinnar Möðruvalla stendur, að sú jörð eigi land fram öræfin, alt fram að “Laugarfelli”, en óvíst er hvort greinileg merki eru til umhverfis landeign þessa.  Ekki er mjer kunnugt um, að aðrar jarðir hjer í hreppi tileinki sjer land þar suður frá.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands nr. 128/1967: Mál Upprekstrarfélags Saurbæjarhrepps (áfrýjanda) gegn eigendum Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli í Skagafirði (stefndir), sem kveðinn var upp 29. apríl 1969. Málið varðaði samkvæmt orðum Hæstaréttar eignarrétt á hinum umþrættu landsvæðum, en ekki upprekstrarrétt málsaðila.  Um dómkröfur aðila segir í dóminum að áfrýjandi, Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps í Eyjafirði, hafi krafist þess að landamerki fyrir umráðasvæði þess til vesturs gagnvart löndum stefndu á hálendinu vestan og sunnan Eyjafjarðardala og í Austurdal yrðu staðfest þannig fyrir dómi:

Nyrzt ráði merkjum Fossá frá upptökum nyrðri kvíslar til ármóta hennar og Jökulsár eystri, síðan ráði Jökulsá eystri merkjum suður að ármótum hennar og Strangalækjar, þaðan ráði bein lína suður í Miklafell í Hofsjökli.

Nefndir málsaðilar byggðu kröfur sínar og varnir m.a. á eftirfarandi rökum:

„Áfrýjandi, Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps, reisir kröfur sínar á því, að hann hafi tekið heimildir á landsvæði þessu frá fyrri eigendum jarðanna Möðruvalla og Hóla í Saurbæjarhreppi, sem frá fornu fari hafi talizt taka yfir landsvæðið.

Stefndu, eigendur Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli, reisa dómkröfur sínar á afsali fyrir hálfri jörðinni Nýjabæ frá 29. janúar 1464, þar sem landið sé talið vera hluti jarðarinnar.“

Röksemdir og dómsniðurstaða Hæstaréttar í málinu var sem hér segir: „Hvorki áfrýjandi né stefndu hafa fært fram gögn fyrir fullkominni eignatöku að fornu eða nýju á landsvæði því, sem um er að tefla í máli þessu. T.d. verður eigi séð, að eigendur Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli eða eigendur Möðruvalla og Hóla hafi fyrrum innt af hendi smölun og fjallskil á landsvæðinu, og svo sem eigendum jarða var boðið að gera á jörðum sínum, sbr. Jónsbók, landsleigubálk 49. Yfirlýsingar í afsölum fyrr og síðar, sem eigi styðjast við önnur gögn, nægja eigi til að dæma öðrum hvorum aðilja eignarrétt til öræfalandsvæðis þessa. Verða því kröfur hvorugs aðilja í málinu teknar til greina.

Í úrskurðinum er vísað til svarbréfs sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu, dagsetts 1. ágúst 1979, vegna fyrirspurnar um afréttarlönd í sýslunni.  Í bréfinu segir um afréttarlönd í Saurbæjarhreppi að þeir séu í Sölvadal og Þormóðsdal/Gnúpufellsdal og er í framhaldi af því tíundað hvaða býlum hann tilheyrir, en þar á meðal eru Möðruvellir, Æsustaðir og Gnúpufell í Saurbæjarhreppi.  Þá segir eftirfarandi um afrétti í Eyjafjarðardal:

1.    Klifsheiði frá trippagarði, Svínheiði og Bo(t)n að austan og vestan að Sandá. Heyrir undir Hóla.

2.    Torfur frá Sandá að Trippagarði í Lækjarfjalli. Heyrir undir Jórunnarstaði.

3.    Arnarstaðatungur frá Trippagarði í Lækjarfjalli að Hafrá. Heyrir undir Arnarstaði og Arnarfell.

4.    Úlfárheiði, frá Hafrá að Úlfá. Heyrir undir Hólsgerði.

Vegna fyrirspurnar félagsmálaráðuneytisins þann 20. febrúar 1989 til sveitarstjórna, m.a. um fjallskil, afrétti og eignarrétt á slíkum svæðum, svaraði hreppsnefnd Saurbæjarhrepps með bréfi þann 8. janúar 1990, en þar segir m.a.:  „[...] Hér eru engin afréttarlönd önnur en fjallshlíðarnar ofan við girt heimalönd og dalskorur sem ganga inn í hálendið út frá byggðum dölum.  Öll þessi afréttarlönd eru í einkaeigu og er annað ekki til. [...]

7.  Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla, er að nokkru vísað til framangreindra heimilda, að því er varðar sögu, afmörkun, ráðstöfun að eignarrétti og nýtingu á hinu umþrætta landsvæði í Eyjafirði fram og á hálendissvæðinu þar fyrir ofan.  Vísað er sérstaklega til kafla sem ber heitið Almennar niðurstöður óbyggðanefndar, en einnig til dómafordæma Hæstaréttar Íslands í þjóðlendumálum og um landnám.  Þá er vikið að ágreiningsefni varðandi þjóðlendukröfu íslenska ríkisins vegna jarðarinnar Tjarna, sem er fremsta jörðin í Eyjafjarðardal austan Eyjafjarðarár, þ.e. um suður- og austurmörk hennar.  Í rökstuddri niðurstöðu vísar óbyggðanefnd til þess að Tjarnir hafi um aldir verið sjálfstæð jörð með þinglýstum landamerkjum og nýtt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma.  Að þessu sögðu var kröfu íslenska ríkisins um þjóðlendu hafnað.

Í úrskurðinum vísar óbyggðanefnd til þess sem rakið var hér að framan um sögu, afmörkun og ráðstöfun að eignarrétti og nýtingu Hólaafréttar og Jórunnarstaðatungna, en einnig er þar vikið að fyrrgreindri umfjöllun um afrétti og afréttarnot. Bent er á að Hólaafréttar sé fyrst sérstaklega getið í heimild frá 14. öld, en að elstu heimildina um merki Jórunnarstaðatungna sé að finna í fyrrnefndu afsali frá 1944, sem þá hafi verið kallaðar Torfur, en nú Jórunnarstaðatungur.  Hafi það svæði þá verið selt úr Hólaafrétti til Jórunnarstaðabænda.

Í úrskurðinum er bent á að jörðin Hólar liggi utan við ágreiningssvæði í máli þessu, aðskilin frá afréttinum af öðrum jörðum og landsvæðum. Sama verður sagt um jörðina Jórunnarstaði. Bent er á að í landamerkjabréfi Hóla, frá 23. maí 1889, sé annars vegar lýst merkjum „heimalandsins“ og hins vegar merkjum „afrjettar“ jarðarinnar. Sama komi fram í síðara landamerkjabréfi fyrir Hóla frá árinu 1923. Vísað er til þess að minnst sé á Hólaafrétt í fjölmörgum eldri heimildum, þ. á m. í sölubréfi frá 1375, Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, og lögfestu Hólatorfu og sáttagjörðar við landeigendur á lögbýlinu Tjörnum og jarðamötum frá 1822. Staðhæft er að af þessum heimildum megi ráða að landið hafi haft stöðu afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram að gildistöku þjóðlendulaga.  Að þessu sögðu fjallar óbyggðanefnd um það álitaefni hvort í því hafi falist bein eða óbein eignarréttindi til landsvæðisins, þ.e. hvort þar sé eignarland eða þjóðlenda samkvæmt skilgreiningum í 1. gr. þjóðlendulaga.  Til grundvallar að úrlausn fjallar óbyggðanefnd um það hvernig merkjum Hólaafréttar sé lýst í landamerkjabréfum Hólajarðarinnar, en einnig fjallar hún um merki aðliggjandi landsvæða og þá með hliðsjón af fyrrnefndum heimildum, kröfum aðila og framlögðum kortum.  Eins og fyrr sagði takmörkuðu stefnendur fyrir dómi kröfugerð sína um landsvæðið nokkuð til suðurs miðað við upphaflegar kröfur sem þeir höfðu gert fyrir óbyggðanefnd.  Í niðurstöðu sinni vísar óbyggðanefnd til þess að norðan landsvæðisins, vestan Eyjafjarðarár, liggi svæðið að Arnarstaðatungum, sbr. mál nefndarinnar nr. 2/2008, en austan ár liggi svæðið að eignarlandi Tjarna, en einnig að eignarlandi Gnúpufells í Þormóðsstaðadal, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 1/2008, sem ekki var skotið til dómstóla. Þá segir í niðurstöðunni að til austurs liggi Hólaafréttur að kröfusvæði Möðruvalla og til suðurs og vesturs að kröfusvæði sem kennt er við svonefndan Nýjabæjarafrétt, sbr. mál nefndarinnar nr. 4/2008.

Í úrskurði sínum fjallar óbyggðanefnd nánar um mörk Hólaafréttar og áréttar að samkvæmt eldra landamerkjabréfi Hóla sé landsvæðinu þannig lýst: „Hólar eiga afrjett í Eyjafjarðardal að austanverðu árinnar fram frá Klaufá, við hana er byggður trippagarður, og að vestanverðu árinnar fram frá trippagarði þeim, sem byggður er rjett á móti garðinum að austanverðu árinnar og fram til jökla að austan og vestan til sýslumóta“. Tekið er fram að bréfið hafi einungis verið áritað um samþykki vegna Arnarstaða. Í úrskurðinum er áréttað að í síðara landamerkjabréfi Hóla sé merkjum „afréttarlands“ Hóla lýst svo: „Á Eyjafjarðardal austanverðum, er þverá, er Klaufá heitir. Við hana er hlaðinn fyrirstöðugarður. Gegnt þessum garði, er annar garður vestan megin árinnar. Eiga Hólar afrétt frá Klaufá og garðinum vestan megin, og fram það, sem dalurinn nær, á efstu fjallsbrún að austan og sýslumörkum að vestan.“  Vísað er til þess að bréfið hafi verið áritað um samþykki vegna jarðanna Tjarna, Arnarstaða og Þormóðsstaða.

Í úrskurði er að ofangreindu sögðu að nokkru áréttað efni eldri heimilda um landsvæðið og þar á meðal eftirfarandi lýsing Hóla úr Jarðabókinni frá 1712 þar sem segir: „Afrjett á staðurinn fram frá Tjarnalandi og botninn á Eyjafjarðardal.“  Enn fremur er vikið að áðurrakinni sátt landeigenda frá 1822 um merki Tjarna og Hóla, þ.e. að merkin séu um svonefnda Klaufá en ekki „Klífsá“ svo sem eigandi Tjarna hélt fram um tíma. Einnig er í úrskurðinum vísað til fyrrnefndrar lögfestu landeigenda jarðanna frá 1822 fyrir Hólatorfu og „hennar afrétt í Eyjafjarðardal“ og loks um það sem fram kemur í jarðamatinu 1849 um að afréttur Hóla sé „á svokölluðum Eyjafjarðardal beggja megin.“  Loks er það áréttað að eina heimildin um afmörkun á „afréttarsvæðinu“ „Torfum“ eða Jórunnarstaðatungum sé í afsalsbréfi frá 1944, þar sem segir um afmörkun þess: „Að norðan af fyrirstöðugarði úr grjóti, gegnt Klaufá, að sunnan af Sandá, að vestan af fjallsbrún og að austan af Eyjafjarðará.

Að því er varðar merki aðliggjandi kröfusvæða er í úrskurðinum vísað til þess að samkvæmt landamerkjabréfi Arnarstaða, ódagsettu en þinglýstu 20. maí 1890, séu suðurmerki „afrjettarlands í Arnarstaðatungum“ í samræmi við merki Hólaafréttar og þau miðuð við trippagarð vestan Eyjafjarðarár.  Tiltekið er að bréfið hafi ekki verið áritað vegna Hóla og að engar eldri merkjalýsingar hafi fundist fyrir Arnarstaðatungur. Um merki Tjarnajarðarinnar til suðurs segir að þau miðist samkvæmt árituðu landamerkjabréfi frá 15. júní 1923 við Klaufá, en það sé í samræmi við fyrrgreind merki afréttarsvæðis Hóla til norðurs, en einnig sé þetta í samræmi við sáttagjörð landeigenda frá 1822.  Þá segir í úrskurðinum að í landamerkjabréfi Þormóðsstaðasels í Sölvadal, frá 10. maí 1890, séu merki til suðurs, gagnvart kröfusvæði Hóla, miðuð við dalsdragið og að vestan „fjallið“.  Tekið er fram að bréfið hafi ekki verið áritað vegna Hóla, en að eldri heimildir um Þormóðsstaðadal séu í samræmi við þetta. Þá segir að merkjum „afrjettarlands Möðruvalla“ sé lýst í landamerkjabréfi fyrir Möðruvelli frá 28. apríl 1886 til suðurs, gagnvart kröfusvæði Hóla:  „... suður á fjall, að svonefndu „Laugafelli““. Tekið er fram að bréfið hafi ekki verið áritað vegna Hóla, en jafnframt er staðhæft að eldri heimildir um Möðruvelli lýsi merkjum skemur til suðurs en landamerkjabréfið.  Loks segir að til vesturs liggi Hólaafréttur að kröfusvæði Nýjabæjar í Austurdal, sbr. mál nefndarinnar nr. 4/2008, en tekið er fram að um síðarnefnda svæðið finnist engar merkjalýsingar fyrir utan afsal frá 1464 þar sem segir: ath tinnaa. ok suo langt aa fioll fram sem votn dragha.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að í áðurröktum landamerkjabréfum Hóla frá 1889 og 1923 sé afmörkun á „afrjetti“ jarðarinnar í Eyjafjarðardal lýst með svipuðum hætti til norðurs og vesturs, þ.e. að mörkin til norðurs séu við Klaufá, en að sýslumörkum til vesturs.  Hins vegar séu lýsingar í bréfunum ólíkar til suðurs og austurs að nokkru leyti.  Er vísað til þess að í eldra landamerkjabréfinu segir: „... fram til jökla að austan“, en í hinu yngra bréfi sé miðað við að farið sé „á efstu fjallsbrún að austan“. Bent er á að ekkert sé minnst á suðurmerki afréttarins í eldra bréfinu fyrir utan að þar segi að Hólar eigi „afrjett í Eyjafjarðardal“ og megi af því álykta að þar sé átt við fram allan dalinn, sbr. að því leyti fyrrnefndar lýsingar í Jarðabókinni og jarðamati frá 1849, en ekki upp á hásléttuna sem þar taki við. Aftur á móti sé í yngra bréfinu miðað við að afrétturinn nái „fram það, sem dalurinn nær“.

Það er niðurstaða nefndarinnar að ofangreindu sögðu að líklegt sé að afréttarlandið ná fram allan Eyjafjarðardal til suðurs og til austurs á efstu fjallsbrún.  Að því er varðar vesturmörk afréttarlandsins er það niðurstaða óbyggðanefndar að þar sé miðað við sýslumörk Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu, en jafnframt er sagt að óljóst sé hvernig þeim hafi verið skipað á þeim tíma sem landamerkjabréfin voru gerð. Bent er á að í fyrrnefndri lögfestu fyrir Hóla frá 1822 sé minnst á Strangalæk, sem renni í Eyjafjarðará á milli Arnarstaðalands og afréttarlands Hóla. Þá segir að vísbendingu um það hvernig eigendur Hóla hafi litið á vesturmörk Hólaafréttar megi eftir atvikum finna í afsalinu fyrir „Torfum“ eða Jórunnarstaðatungum frá árinu1944, en þar sé miðað við að merkin að vestan séu „fjallsbrúnin“.

Það er niðurstaða óbyggðanefndar að öllu ofangreindu sögðu að heimildir mæli því í mót að Hólaafréttur nái svo langt til suðurs sem fyrrnefndar kröfur stefnenda fyrir nefndinni hafi miðað við, en að heimildir styðja það að vesturmerkin nái að sýslumörkum og austurmerkin nái að norðan til upptaka Klaufár en fylgi síðan „efstu fjallsbrún“.  Það er því niðurstaða nefndarinnar af öllu framanröktu að merkjum Hólaafréttar sé réttilega lýst í landamerkjabréfum Hóla og nái svo langt suður „sem dalurinn nær“, þ.e. Eyjafjarðardalur.

Í úrskurðinum segir að hluti af því landsvæði sem samkvæmt framangreindri niðurstöðu sé innan landamerkja Hólaafréttar, sunnan og vestan vatnaskila á hálendinu, hafi verið til umfjöllunar í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar Íslands frá 29. apríl 1969, í máli nr. 128/1967 (Nýjabæjarafréttur).  Því sé landsvæðið að nokkru innan kröfusvæðis stefnenda. Er í því sambandi vísað til afmörkunar á ágreiningssvæði aðila dómsmálsins, en einnig er bent á legu vatnaskila á uppdrætti sem óbyggðanefnd aflaði frá vatnamælingum Veðurstofu Íslands.  Niðurstaða nefnds dómsmáls er áður rakin, en í úrskurði óbyggðanefndar er tekið til umfjöllunar hvaða þýðingu hún hafi við úrlausn þessa máls og segir um það eftirfarandi:

Enda þótt kröfur málsaðila í umræddu dómsmáli hafi ekki lotið að viðurkenningu beins eignarréttar telur óbyggðanefnd ljóst að rétturinn hafi hafnað því að málsaðilar hefðu sýnt fram á beinan eignarrétt sinn til umrædds landsvæðis, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu. Í því sambandi er sérstaklega vísað til orða dómsins, þar sem segir: „Í máli þessu er deilt um eignarrétt að landsvæði því, sem um er að tefla, en eigi upprekstrarrétt“ og „Hvorki áfrýjandi né stefndu hafa fært fram gögn fyrir fullkominni eignatöku að fornu eða nýju á landsvæði því sem um er að tefla í máli þessu.“ Óbyggðanefnd hefur ekki heimild til að hnekkja eða breyta niðurstöðum dóma, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Til þess ber þó að líta að dómurinn felur ekki í sér úrlausn um eignarréttarlega stöðu svæðisins samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, með síðari breytingum. Til athugunar hlýtur því að koma hjá óbyggðanefnd hvaða áhrif aðild að máli því sem hér er til umfjöllunar, gögn eða önnur þau atriði sem dómstólar hafa ekki þegar tekið afstöðu til, hafi á eignarréttarlega stöðu svæðisins samkvæmt lögum nr. 58/1998.

Krafa um beinan eignarrétt að landsvæði því sem hér um ræðir stafar frá þinglýstum eigendum Hóla og Jórunnarstaða. Svo sem áður greindi átti Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps aðild að dómsmáli nr. 128/1967 og reisti þar kröfur sínar á því, að hafa tekið heimildir frá fyrri eigendum jarðanna Möðruvalla og Hóla í Saurbæjarhreppi, sem frá fornu fari hafi talist taka yfir landsvæðið.

Að ofangreindu sögðu tekur óbyggðanefnd til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands innan ágreiningssvæðis stefnda, íslenska ríkisins, og stefnenda og þ. á m. hvort fyrir liggi gögn eða önnur atriði sem dómstólar hafi ekki tekið afstöðu til, er sýni fram á beinan eignarrétt eða önnur réttindi málsaðila innan eða utan merkja Hólaafréttar.  Segir um þetta eftirfarandi í úrskurðinum:

Um þýðingu landamerkjabréfa við mat á sönnun um eignarhald á landi vísast til fyrirliggjandi umfjöllunar Hæstaréttar og óbyggðanefndar um það efni ...  Þannig liggur fyrir sú niðurstaða Hæstaréttar að við mat á gildi landamerkjabréfa og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem þar er lýst, skipti almennt máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði. Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig t.d. afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt. Þá hafi menn ekki eingöngu markað sér landsvæði háð beinum eignarrétti, heldur einnig mörk ítaka, afrétta og allra annarra réttinda í lönd sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.

Í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882 var gert landamerkjabréf þar sem lýst er „afrjetti í Eyjafjarðardal“ og síðar aftur í kjölfar setningar landamerkjalaga nr. 41/1919. Svo sem áður var rakið benda fyrirliggjandi gögn til þess að landamerkjum landsvæðisins sé þar rétt lýst, svo langt sem þær lýsingar ná en mörk landsvæðisins til suðurs og austurs eru ekki nákvæmlega tilgreind. Innan þess svæðis hafa síðan svokallaðar Torfur eða Jórunnarstaðatungur verið afmarkaðar sérstaklega og seldar úr landinu. Verður ekki betur séð en að sú afmörkun rúmist innan lýsingar í landamerkjabréfum fyrir Hóla. Umrædd landamerkjabréf voru þinglesin og færð í landamerkjabók sýslumanns. Að því er varðar suðurmörk Hólaafréttar telur óbyggðanefnd ekki í ljós leitt að land sunnan Eyjafjarðardals hafi verið innan landamerkja afréttarins fyrir gerð landamerkjabréfsins árið 1889.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu fjallar óbyggðanefnd m.a. um það sem áður var rakið um landnám í Fram-Eyjafirði og þ. á m. á hinu umþrætta landsvæði. Segir þar um í úrskurðinum:  „... er því ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði náði. Verða því engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnar. Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja fremur líklegt að nyrsti og láglendasti hluti þessa landsvæðis hafi verið numinn en vafi um þetta atriði hlýtur að vaxa eftir því sem sunnar dregur og land hækkar. Ekkert liggur hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til. Þannig kann beinn eignarréttur að hafa fallið niður og landsvæðið hafi í kjölfarið verið tekið til takmarkaðra nota annarra. Þess skal einnig getið að á þeim landsvæðum sem nærri landsvæðinu liggja eru þjóðlendur til allra átta nema norðurs og norðausturs, sé litið heildstætt á niðurstöður í málum nr. 1, 2 og 4/2008 hjá óbyggðanefnd.

Um réttindi Hóla í Eyjafjarðardal er fjallað í fjölda heimilda. Í sölubréfi fyrir Hóla frá 14. mars 1375 er minnst á Eyjafjarðardal. Þar segir: „þar med eyiafiardardal fram fra klifsaa jardareign.“ Í umfjöllun um Hóla í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 greinir síðan frá afrétt „fram frá Tjarnarlandi og botninn á Eyjafjarðardal.“ Í jarðabréfi frá 1765 kemur þetta fram um Hóla: „Leingra frá liggur ad sönnu Land under Þessa Jörd, sem kallast Eyafiardardalur, sem Abuendur [svo] vegna fiarlægdar gete ei notid sier nema til Beitar, fyrer Hross og gielldfie umm Ha Sumar“. Síðan kemur fram í jarðamatinu 1849 Hólar eigi afrétt á svokölluðum „Eyjafjarðardal beggja megin.“ Í skrá um afrétti og fjárréttir í Eyjafjarðarsýslu frá 1894 er minnst á „Hóladal“. Í umfjöllun um afrétti Fram-Eyfirðinga í ritinu Göngur og réttir IV. bindi segir frá Eyjafjarðardal fram frá Tjörnum að það muni „vera lengsti dalurinn sem Saurbæjarhreppi tilheyrir, allt að 20 km að lengd.“  Fyrir svæðið er sérstök lýsing í landamerkjabréfum Hóla og þar er það nefnt „afrjett í Eyjafjarðardal“ í eldra bréfi Hóla en síðan kallað „afréttarland“ í því yngra.

Óbyggðanefnd telur að þær heimildir sem raktar hafa verið sýni ótvírætt að Eyjafjarðardalur sunnan Klaufár og landsvæðið vestan hans að sveitarfélagamörkum og að austan til fjalla tilheyri Hólaafrétti frá fornu fari og sé afréttur í þeim skilningi að jarðirnar Hólar og Jórunnarstaðir eigi þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Ekki liggur fyrir hvernig eigendur Hóla eru komnir að rétti sínum til þeirra. Í máli þessu er ekki sýnt fram á annað en að hann hafi, eftir atvikum, orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar.  Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.

Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar er að framangreindu sögðu sérstaklega vikið að því landsvæði sem liggur utan merkja Hólaafréttar og þá í ljósi niðurstöðu nefndarinnar á túlkun á fyrrgreindum landamerkjabréfum Hóla, þ.e. sunnan og vestan við svæðið, en eins og áður var rakið takmörkuðu stefnendur hér fyrir dómi dómkröfur sínar við það að eignarréttur þeirra næði skemur til suðurs en forverar þeirra höfðu gert kröfu um fyrir óbyggðanefnd.  Vegna þessa hefur umfjöllun óbyggðanefndar um umrætt hálendissvæði og dóm Hæstaréttar Íslands frá 29. apríl 1969, í máli nr. 128/1967, takmarkaðri þýðingu við úrlausn málsins.  Í úrskurði óbyggðanefndar er um álitaefnið að nokkur vísað til áðurrakinna heimilda um fjallskil, m.a. bókaflokksins Göngur og réttir, IV. bindi, en áréttað er að samkvæmt nefndri heimild hafi eiginlegar göngur Eyfirðinga á svæðinu fyrst hafist eftir miðja 19. öldina.  Síðan segir í úrskurðinum:  Engar heimildir benda ... til þess að landsvæðið sunnan Hólaafréttar hafi tilheyrt Hólum. Fær sú niðurstaða stuðning af skýrslum aðila sem gefnar voru fyrir óbyggðanefnd. Verður að öðru leyti ekki talið að fjárleitir Eyfirðinga á „Fjöllunum“, sem munu hafa lagst af á fyrri hluta síðustu aldar, hafi skapað eigendum Hóla og Jórunnarstaða bein eða óbein eignarréttindi yfir því svæði sem liggur sunnan Hólaafréttar samkvæmt framangreindu. Með vísan til 3. mgr. 13. gr. laga nr. 58/1998 skal tekið fram hér að á fyrri stigum málsmeðferðar voru kröfur aðila sérstaklega kynntar viðkomandi sveitarfélögum, þ. á m. Eyjafjarðarsveit, .... Þannig tók þáverandi sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit þátt í vettvangsferð í máli þessu, en af hálfu sveitarfélagsins voru ekki lagðar fram neinar kröfur. Fyrir liggja dómafordæmi Hæstaréttar um að óbyggðanefnd sé bundin af kröfugerð aðila, hvort heldur er íslenska ríkisins eða annarra, og verði að leysa úr málum á þeim grundvelli. Það hvort á því landsvæði sem hér um ræðir kunni að vera samnotaafréttur jarða í sveitarfélaginu kemur því ekki til frekari skoðunar fyrir nefndinni.

Í landamerkjabréfi Nýjabæjar í Eyjafjarðarsveit er gerð grein fyrir upprekstrarétti í Hólaafrétt. Af gögnum málsins verður ekki séð að sérstökum réttindum hafi verið lýst samkvæmt lögum nr. 113/1952 um lausn ítaka af jörðum. Að öðru leyti hafa eigendur þeirrar jarðar ekki lagt fram frekari gögn um afréttarnot sín á svæðinu. Er því ekki fallist á að eigendur Nýjabæjar eigi afréttareign í Hólaafrétti.

Lokaorðin í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar um hið umþrætta landsvæði eru sem hér segir:

Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á að Hólaafréttur og landsvæðið sunnan hans sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Heimildir benda hins vegar til að Eyjafjarðardalur sunnan Klaufár og landsvæðið vestan hans að sveitarfélagamörkum og að austan til fjalla sé í afréttareign Hóla og svokallaðar Torfur eða Jórunnarstaðatungur liggja innan þess.

Að teknu tilliti til staðhátta telur óbyggðanefnd rétt að túlka heimildir um afmörkun Hólaafréttar þannig að merki miðist við fjallstinda austur og suður af innstu dalsdrögum Eyjafjarðardals og síðan dregin lína til sveitarfélagamarka við Urðarvötn. Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hefur verið fjallað um og talið þjóðlenda í afréttareign eru misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taka þó breytingum, auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld. Land það sem hér er til umfjöllunar verður því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að kröfusvæði eigenda Hóla og Jórunnarstaða sé þjóðlenda. Með vísan til þess sem að framan greinir, skiptist sú þjóðlenda í þrjú svæði sem afmörkuð verða hér á eftir en tvö þeirra eru í afréttareign. Landsvæði það sem hér að framan er lýst, þ.e. Hólaafréttur, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7 .gr. laga nr. 58/1998:

Frá trippagarði þeim, sem stendur vestan Eyjafjarðarár, á móti Klaufá, er dregin lína yfir Strangalækjarfjall og Kerlingarhnjúk, að mörkum Akrahrepps og Eyjafjarðarsveitar í suðurenda Urðarvatns nyrðra. Þaðan er sveitarfélagamörkum fylgt til suðurs þar til komið er að hornmarki við kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins vegna Jórunnarstaðatungna. Þeirri línu er þá fylgt til norðausturs í Fremri- Strangalæk sem fylgt er í Eyjafjarðará. Eyjafjarðará er fylgt til suðurs í Sandá. Þá er Sandá fylgt í suðvestur í skurðpunkt við línu sem liggur milli syðsta hluta Urðarvatna og 975 m hæðarpunkts upp af Eyjafjarðardal. Þaðan er farið með fyrrnefndri línu til suðausturs í áðurnefndan 975 m hæðarpunkt. Úr þeim punkti er farið í norðaustur í 974 m hæðarpunkt í kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins. Þá er kröfulínunni fylgt til vesturs í Klaufá og með henni til vesturs og í fyrstnefndan punkt.

Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Hóla, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Landsvæði það sem hér að framan er lýst, þ.e. Jórunnarstaðatungur eða Torfur, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Fremri-Strangalæk er fylgt úr Eyjafjarðará til upptaka. Þaðan er farið í sveitarfélagamörk milli Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps. Þaðan er sveitarfélagamörkum fylgt til suðurs í syðsta hluta Urðarvatna. Úr þeim punkti er dregin lína í suðaustur í kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins og þeirri línu fylgt til norðausturs í Sandá. Síðan er farið með Sandá í Eyjafjarðará og henni fylgt til norðurs í fyrstnefndan punkt þar sem Fremri-Strangilækur rennur í Eyjafjarðará.

Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Jórunnarstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Sá hluti kröfusvæðis eigenda Hóla og Jórunnarstaða sem liggur sunnan Hólaafréttar og Jórunnarstaðatungna, svo sem svæðin eru afmörkuð hér að framan, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

Í niðurstöðukaflanum vísar óbyggðanefnd að endingu til fyrri úrslausna sinna, annars vegar að því er varðar landsvæðið sunnan afréttar á Bleiksmýrardal, vestan Fnjóskár og hins vegar varðandi landsvæðið þar vestan við og þar á meðal innan kröfusvæðis eigenda Möðruvalla.  Er vísað til þess að bæði þessi landsvæði hafi verið úrskurðuð þjóðlendur, sbr. nú dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 413/2012 og 656/2012. Að þessu sögðu segir í úrskurðinum að þjóðlendur sunnan fyrrnefndra afrétta afmarkist í heild sinni þannig:

Sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar gagnvart Akrahreppi er fylgt til suðurs úr syðsta hluta Urðarvatna að drögum nyrðri upptakakvíslar Geldingsár. Þaðan er farið beina línu í suður í fyrrnefnd sveitarfélagamörk sunnan við Laugafell í Hnjúkakvísl. Sveitarfélagamörkum er áfram fylgt suður í 1008 m hæðarpunkt í fjallinu Klakki. Þá er sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar fylgt til suðausturs gagnvart Árnes- og Rangárvallasýslum og síðan áfram til norðvesturs gagnvart Þingeyjarsveit þar til Fnjóská sker umrædd sveitarfélagamörk. Fnjóská er fylgt í punkt skammt sunnan við Einstökutorfu gegnt 930 m hæðarpunkti í vestri. Þá er farið í fyrrnefndan hæðarpunkt til vesturs og síðan beina stefnu í norður í punkt þar sem vatnaskil Eyjafjarðarár og Fnjóskár fara að beygja til vesturs á sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar. Þaðan er farið til norðvesturs í skurðpunkt við línu sem dregin er á milli 916 m hæðarpunkts og 974 m hæðarpunkts. Síðastnefndri línu er þá fylgt til suðvesturs í 975 m hæðarpunkt upp af Eyjafjarðardal. Þaðan er síðan farið til norðvesturs í fyrstnefndan punkt í syðsta hluta Urðarvatna.

II.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Stefnendur byggja aðalkröfu sína á því, að hið umþrætta land, Hólaafréttur og Jórunnarstaðatungur, öðru nafni Torfur, sé eignarland samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58, 1998 og að það hafi verið röng niðurstaða hjá óbyggðanefnd að telja það landsvæði til þjóðlendu.

Stefnendur benda á að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum komist að þeirri niðurstöðu, að líklegt megi teljast að hið umþrætta land hafi verið numið í öndverðu, í það minnsta hvað varðar Eyjafjarðardal beggja vegna ár.

Stefnendur byggja á því að hið umþrætta landsvæði hafi verið hluti landnáms Helga hins magra og telja að sú staðhæfing þeirra hafi verið staðfest í úrskurði óbyggðanefndar, í það minnsta að því er varði Eyjafjarðardal beggja vegna ár.  Í því sambandi vísa þeir til þess að í ritinu Fornleifaskráning í Eyjafirði XI bindi:  Fornleifar í Saurbæjarhreppi sunnan Djúpadalsár og vestan Eyjafjarðarár, sé sú kenning sett fram að Jórunnarstaðir (forn jörð vestan Eyjafjarðarár gegnt Hólum) hafi verið hluti landnámskjarna með miðstöð að Hólum.  Jörðum hafi síðan með tíð og tíma verið skipt út úr landnámskjarnanum uns núverandi jarðaskipan komst á.  Benda stefnendur á að þannig sé samhengi á milli eignarhalds á Hólum og jörðum og jarðgæðum vestan Eyjafjarðarár sem og í Eyjafjarðardal báðum megin árinnar og hafi það verið frá öndverðu.

Stefnendur benda á að elstu varðveittu heimildina um landamerki Hóla sé að finna í áðurröktu kaupbréfi frá 14. mars 1375.  Þeir vísa til þess að í kaupbréfinu komi m.a. fram að Eyjafjarðardalur fyrir framan Klifsá hafi verið seldur með jörðinni Hólum og verði ekki ráðið af samhenginu að um hafi verið að ræða framsal á óbeinum eignarréttindum.  Þá sé í kaupbréfinu tekið fram hvaða jarðir eigi lambarekstur á þann hluta jarðarinnar sem liggi framan við Klifsá en það séu jarðir frá Gerði til Tjarna.  Bendi heldur ekkert til annars en að jarðirnar Vatnsendi, Jökull, Halldórsstaðir og Tjarnir hafi áður verið hluti af Hólum.  Raunar hafi jörðin Vatnsendi verið seld ásamt og með Hólum og megi því ætla að um sjálfstæða jörð hafi verið að ræða.  Þá benda stefnendur á að í upptalningu á óbeinum eignarréttindum sem fylgt hafi jörðinni Hólum sé talin upp selför í Tjarnalandi, torfskurður í Arnarstöðum og skógur í Leyningsjörðinni.  Telja þeir að þetta bendi til þess að fyrrnefndar jarðir hafi áður verið hluti Hólajarðarinnar, en við landskipti hafi þau landgæði sem ekki fylgdu jörðinni verið tryggð með óbeinu eignarhaldi á sérstökum réttindum innan merkja annarra jarða sem til urðu við landskiptin, en slík aðferð sé algeng enn þann dag í dag.

Stefnendur vísa til þess að í landskiptabréfi frá 18. september 1501, sem áður er rakið, komi fram að alls átta jarðir hafi verið í eigu Þorvarðar lögmanns Erlendssonar, þ.e.: Hólar, Arnarstaðir, Vatnsendi, Jökull, Tjarnir, Úlfá, Torfufell og Villingadalsjarðirnar báðar.  Verðmæti jarðanna hafi verið tíundað frá sextán hundruðum til eins hundraðs hundraða.  Þeir benda og á að í skiptum á eignum Þorleifs Grímssonar og Gríms, sonar hans, í skiptabréfi frá 2. september 1560, komi fram að allar þessar jarðeignir hafi verið komnar í eigu þess fyrrnefnda.  Í skiptabréfinu sé notað orðalagið Hólar og Hólajarðir vegna skipta á próventuskuldum Þorleifs og hafi jarðir þessar fengið í sinn hlut áttatíu og fimm af níutíu og þremur hundraða próventuskulda hans.  Stefnendur benda á að í þeim deilum sem risu í kjölfar skipta eftir Þorleif Grímsson hafi verið leyst úr málum með sáttargerð og nýjum skiptum í júlímánuði 1569.  Í hinum nýju skiptum hafi verið tekið fram að einhverjar eignir búsins hafi farið forgörðum milli skiptanna, en þær jarðir sem eftir hafi verið hafi verið þessar: Hólar, Arnarstaðir, Jórunnarstaðir, Villingadalir báðir, Torfufell, Vatnsendi, Jökull, Halldórsstaðir og Tjarnir.  Þeir benda á að þrátt fyrir þetta hafi ekki skapast endanleg sátt vegna jarðaskiptanna því að árið 1571 hafi Ormur Sturluson lögmaður dæmt í deilu milli eiganda Hóla annars vegar og eiganda Leynings, vestan Eyjafjarðarár, hins vegar um beinan eignarrétt á Leyningsdal og hafi hann fallið hinum síðarnefndu í vil með útrýmandi hætti fyrir eiganda Hóla.  Hafi sú skipan haldist allt þar til úrskurður óbyggðanefndar í þessu máli féll.

Stefnendur byggja á því að þær jarðir sem nefndar hafa verið Hólajarðir í fyrrnefndu skiptabréfi frá 1560 hafi a.m.k. verið, auk Hóla, jarðirnar Vatnsendi, Jökull, Halldórsstaðir, Tjarnir, Arnarstaðir, Torfufell, Villingadalirnir báðir og Jórunnarstaðir.  Telja þeir að það eitt útskýri aðild og aðkomu eigenda Hóla að dómsmálinu um Leyningsdal, auk þess sem þar segi beinlínis berum orðum í dómnum, að dalurinn tilheyri Leyningi en ekki Hólum.  Vegna þessa sé það röng nálgun af hálfu óbyggðanefndar í þessu máli að telja það sem eina af röksemdum fyrir því að hluti af landi Hóla sé þjóðlenda, að aðrar jarðir séu í milli hins óumdeilda hluta jarðarinnar og hins umdeilda hluta hennar.  Byggja stefnendur á því að óbyggðanefnd hafi þannig látið undir höfuð leggjast að rannsaka tengsl Hólajarðarinnar við fyrrnefndar jarðir og það landsvæði sem sé í milli nefndra eignarhluta.

Stefnendur benda á og árétta að Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segi um jörðina Hóla: „... afrétt á staðurinn fram frá Tjarnarlandi og botninn á Eyjafjarðardal ...“  Að auki benda stefnendur á áðurnefnda virðingargjörð um Hóla frá 12. nóvember 1765, en þeir byggja á því að af orðum hennar megi ráða að nytjar af hinu umdeilda landi hafi áður og fyrr verið önnur en beitarnot.  Komi þar helst til greina engjasláttur, sem samkvæmt gjörðinni hafi minnkað um helming, en í því samhengi benda þeir á að samkvæmt ákvörðun Jónsbókar hafi verið óheimilt að slá í afrétt eins og þau landsvæði hafi þar verið skilgreind.

Máli sínu til stuðnings vísa stefnendur enn fremur til síðari heimilda og þ. á m. til kaupbréfs um Hólajörðina frá 29. maí 1809 þar sem vísað sé til afréttar og einnig lögfestu jarðarinnar frá 5. júní 1822.  Þeir benda á að eigandi Tjarna hafi mótmælt lögfestunni, en hann hafi talið land sitt ná að Klifsá.  Í kjölfar þessa ágreinings hafi verið gerð sátt um landamerki jarðanna, en með henni hafi aðilar sæst á að Klaufá skildi lönd þeirra í Eyjafjarðardal.

Stefnendur byggja á að áðurraktar heimildir beri það allar með sér að hið umdeilda land jarðarinnar Hóla hafi frá öndverðu fylgt jörðinni við aðilaskipti og ekki hafi verið gerður greinarmunur á því og öðru landi hennar.  Hið umdeilda land hafi verið metið til verðs og af því greidd tíund og síðar fasteignaskattur.  Vegna þessa alls andmæla stefnendur þeirri staðhæfingu óbyggðanefndar að ekkert liggi fyrir um yfirfærslu þeirra beinu eignaréttinda sem óbyggðanefnd viðurkenni að til hafi stofnast við landnám.

Stefnendur byggja á því að hið umdeilda land hafi verið afmarkað í áðurröktum landamerkjabréfum.  Eldra bréfið fyrir jörðina, frá 23. maí 1889, hafi verið gert í samræmi við landamerkjalög frá 1882, en því hafi og verið þinglýst 24. maí sama ár. Þá hafi ný landamerkjalýsing verið gerð fyrir jörðina, sbr. landamerkjabréfið frá 15. júní 1923, en með því hafi verið fylgt þeirri lagaskyldu sem landamerkjalög hafi sett á landeigendur.  Stefnendur leggja á það þunga áherslu að um hafi verið að ræða landamerkjabréf fyrir jörð en ekki afrétt eins og látið sé í veðri vaka í úrskurði óbyggðanefndar í þessu máli.

Stefnendur vísa til þess að ef svo hagaði til að hið umdeilda land væri samhangandi við hið óumdeilda land jarðarinnar hefði niðurstaða óbyggðanefndar orðið þveröfug en raunin varð á, þ.e. þeim í hag.  Benda þeir á í því sambandi að þau landsvæði sem óbyggðanefnd hafi úrskurðað sem þjóðlendur á svæði 7 A hafi öll verið því marki brennd að vera aðskildir hlutar jarða og hafi það eitt og sér virst nægja til þess að tiltekin landsvæði hafi verið úrskurðuð sem þjóðlendur jafnvel þó svo að heimildir um eignarhald og nýtingu hafi í sumum tilfellum verið a.m.k. jafngóðar og þær sem til umfjöllunar hafi verið í máli nr. 448/2006 fyrir Hæstarétti um Stórhöfða í Mýrdal.  Byggja stefnendur á að ekki verði annað séð en að staða jarða á svæði 7A sé sambærileg í því máli sem hér sé til umfjöllunar.  Í því viðfangi bendi þeir og á að í tilfelli jarðarinnar Leynings sé til staðar dómur frá 1571 er staðfesti eignaréttarlega stöðu landsins.  Vegna þessa alls telja stefnendur að niðurstaða óbyggðanefndar í þessu máli sé í ósamræmi við fyrrnefndan dóm Hæstaréttar en einnig jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Stefnendur vísa enn fremur máli sínu til stuðnings til þess að stefndi, íslenska ríkið, hafi fallið frá kröfum sínum í Hóladal/Steinstaðadal undir meðferð máls nr. 3 hjá óbyggðanefnd á svæði 7A, en Steinstaðadalur sé aðskilinn frá heimajörðinni Steinsstöðum í landi Þverár í Öxnadal.

Stefnendur benda á að svo virðist sem óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum gengið út frá því að hið umdeilda landsvæði hafi verið samnotaafréttur frá fornu fari.  Andmæla stefnendur þessari ályktun nefndarinnar og benda á þau gögn og heimildir sem hér að framan hefur verið vísað til, en því til viðbótar benda þeir á áðurrakið svarbréf hreppstjóra Saurbæjarhrepps við fyrirspurn félagsmálaráðuneytisins frá 8. janúar 1990.  Í því samhengi vísa þeir einnig til áðurrakinnar skrár yfir afrétti í Saurbæjarhreppi.  Stefnendur byggja á því að ekkert í þessum gögnum bendi til þess að um samnotaafrétt hafi verið að ræða, heldur þvert á móti.

Stefnendur byggja á því að staðhættir og gróðurfar sé nú til dags með allt öðrum hætti en í fyrri tíð og því beri að miða við gróðurfar eins og það hafi verið þegar landið var tekið til eignar.  Að því leyti andmæla þeir orðum óbyggðanefndar í nefndum úrskurði um að hið umdeilda land sé í dag misjafnlega gróið og að hluta til gróðursnautt.

Stefnendur benda á að í dómsmálum sem varða það álitaefni hvort land sé þjóðlenda eða eignarland hafi við úrlausn málanna verið á það litið hvort réttmætar væntingar eigenda um eignarrétt sinn nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62, 1994.  Byggja stefnendur á því að eigandi verði ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem felist í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greini í umræddu eignarréttarákvæði.  Benda þeir líka á að athugasemdir við það frumvarp sem varð að lögum nr. 58, 1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlan löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa um það efni.

Stefnendur byggja á að í gegnum tíðina hafi þeir haft réttmætar ástæður til að ætla að land innan landamerkja jarðarinnar væri undirorpið fullkomnum eignarrétti þeirra og hafi aðgerðir stefnda, íslenska ríkisins, fram til þessa aðeins styrkt þá í þeirri trú.

Stefnendur vísa til þess að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum talið að hún væri bundin af niðurstöðu áðurrakins dóms Hæstaréttar í málinu nr. 128/1967.  Þeir andmæla þessari ályktun óbyggðanefndar og byggja og á því að nefndur dómur Hæstaréttar hafi ekki svokölluð res judicata áhrif og eigi því ekki að binda hendur nefndarinnar.  Rökstyðja stefnendur þá málsástæðu sína með því að umrætt dómsmál hafi varðað landamerki milli eigenda og umráðamanna tiltekinna jarða og hafi málið verið rekið sem slíkt fyrir landamerkjadómi Eyjafjarðarsýslu.  Þeir benda á að dómkröfur aðila í umræddu dómsmáli hafi annars vegar lotið að viðurkenningu ákveðinna landamerkja en hins vegar að staðfestingu héraðsdóms.  Efnisleg niðurstaða Hæstaréttar hafi aftur á móti verið sú að kröfur hvorugs aðila dómsmálsins hafi verið teknar til greina.  Stefnendur byggja á því að þessi niðurstaða Hæstaréttar og forsendurnar fyrir henni hafi í raun verið einsdæmi og telja vafa leika á að heimilt hafi verið að lögum að dæma málið á þennan hátt.

Að ofangreindu sögðu fjalla stefnendur um hlutverk dómstóla og benda á að þeim beri að leysa úr þeim ágreiningi sem til umfjöllunar sé hverju sinni, enda hafi aðilar dómsmáls fullt forræði á kröfugerð sinni.  Verði dómstólar heldur ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem nauðsynlegt sé til úrlausnar um ákveðna kröfu.  Stefnendur vísa til þess að þeir geri verulegar athugasemdir við áðurraktar forsendur dóms Hæstaréttar í nefndu dómsmáli nr. 128/1967.  Benda þeir m.a. á að í dómsmálinu hafi aðilar ekki deilt um inntak eignarréttar á svæðinu, enda hafi kröfur þeirra ekki verið settar fram með þeim hætti.  Þá hafi aðilar málsins gengið út frá því sem vísu að landið væri beinum eignarrétti undirorpið, líkt og jafnan sé gert í landamerkjamálum.  Að þessu sögðu byggja stefnendur á því í fyrsta lagi að með dómi sínum í nefndu máli hafi Hæstiréttur algjörlega breytt sakarefninu, án lagaheimildar og þannig farið á svig við málsforræðisreglu einkamálaréttarfars.  Í öðru lagi byggja stefnendur á því að aðilar dómsmálsins hafi ekki lagt fram gögn til stuðnings fullkominni eignatöku að fornu eða nýju, enda hafi þeir ekki talið þörf á því, líkt og málarekstri þeirra var háttað og tíðkast hafði í sambærilegum málum.  Hið sama hafi gilt um gögn sem vörðuðu smölun og fjallskil á landsvæðinu.  Hæstiréttur hafi heldur ekki krafist slíkra sönnunargagna af málsaðilum, en um það atriði vísa stefnendur til eldri ákvæða einkamálalaga nr. 85, 1936, 113. gr. svo og 111. gr. núgildandi laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991.  Stefnendur benda líka á að Hæstiréttur hafi ekki gert athugasemdir við formhlið málsins, þar á meðal um aðild.  Stefnendur árétta að í dómsniðurstöðu sinni í nefndu dómsmáli hafi Hæstiréttur farið langt út fyrir kröfur aðila, en af þeim sökum sé dómurinn að engu hafandi.  Byggja stefnendur á því að vegna þess sé dómurinn á engan hátt bindandi um úrslit sakarefnis þessa máls og því séu res judicata áhrif hans heldur ekki fyrir hendi né heldur jákvæð áhrif hans á önnur mál.

Stefnendur byggja á því að nefndur dómur Hæstaréttar nr. 128/1967 hafi ekki meira fordæmisgildi en hver annar frávísunardómur.  Í því sambandi benda þeir á að óbyggðanefnd hafi metið fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í máli nr. 368/1999 ekkert að því er varðaði úrlausn nefndarinnar á eignarréttarlegri stöðu heiðarbýlisins Víðihóla.  Telja stefnendur að hið sama eigi að gilda um dóm Hæstaréttar í máli nr. 128/1967, að hann feli ekki í sér efnislega niðurstöðu um eignarréttarlega stöðu þess landssvæðis, sem hér sé til umfjöllunar, og árétta að dómurinn sé því hvorki formlega né efnislega bindandi.  Stefnendur benda enn fremur á tilgreiningu Hæstaréttar í nefndum dómi til þrætugeirans sem öræfalandsvæðis.  Þeir byggja á því að slík tilgreining eigi einungis við landsvæðið sunnan Eyjafjarðardals og telja að verði dómurinn talinn bindandi um sakarefnið þá eigi það ekki við Eyjafjarðardal, enda sé dalurinn vel gróinn enn þann dag í dag og hafi vafalaust verið algróinn fyrrum. Samkvæmt öllu framangreindu byggja stefnendur á því að slíkir annmarkar séu á úrskurði óbyggðanefndar í þessu máli að varði ógildingu hans.

Stefnendur byggja varakröfu sína á sömu málsástæðum og lagarökum og varðandi aðalkröfuna.  Þeir vísa til þess að munurinn á umfangi krafnanna byggist á annarri túlkun á landamerkjalýsingu jarðarinnar, sem fyrir liggi.

Stefnendur byggja á því að lög nr. 58, 1998 verði ekki skýrð á þá leið að þeir þurfi að sýna frekar fram á en þegar hafi verið gert, að umrætt landsvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu.  Telja þeir það ekki ráða úrslitum þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um hið umþrætta land, enda geti afréttur verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár.  Þá ráði ekki úrslitum um eignarhaldið þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar líkt og fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

Stefnendur byggja á því að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis.  Byggja stefnendur á því að til að stefndi, íslenska ríkið, geti öðlast þann rétt, sem skilgreindur sé í þjóðlendulögum, verði hann að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar og sömuleiðis þinglesnar landamerkjaskrár, en það hafi hann ekki gert á nokkurn hátt.  Að auki þurfi stefndi að sýna fram á að afréttur sé samnotaafréttur en ekki einkaafréttur eða hluti jarðar, en það hafi hann ekki heldur gert og hafi það mikið að segja við ákvörðun um inntak eignarréttarins, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

Stefnendur byggja á því, að verði eignarréttur þeirra ekki viðurkenndur á grundvelli þinglýstra heimilda, hafi þeir öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir hefð, en þar um vísa þeir til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46, 1905.  Þeir benda á að eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi.  Hafi stefnendur og fyrri eigendur verið í góðri trú enda haft umráð landsins í árhundraðaraðir.  Vegna þessa sé fullnægt öllum skilyrðum hefðar um eignarhaldstíma, virk umráð og huglæga afstöðu.  Því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðinni, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46, 1905 um hefð, að því er varðar hið umþrætta landsvæði.  Og með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingu þeirra verði líka að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.

Um lagarök vísa stefnendur til 25. og 26. gr. þinglýsingarlaga nr. 39, 1978 um rétt þinglýsts eiganda og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, er lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62, 1994.  Að auki vísa þeir til óskráðra reglna eignarréttarins um beinan eignarrétt, til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58, 1998, að því er varðar skilgreiningu á eignarlöndum, og 1. gr. laga um landamerki nr. 41, 1919, sbr. eldri lög um sama efni.  Stefnendur vísa einnig til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46, 1905, til venju, þ.e. að land, sem að fornu hafi verið notað eingöngu af landeigendum, sé með vísan til venjuréttar talið eignarland þeirra án takmarkana, enda hafi nýting þeirra gefið slíkt til kynna.  Þá vísa stefnendur til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma, sbr. og núgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 91, 1991.  Loks vísa stefnendur til málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar, sem m.a. séu lögfestar í stjórnsýslulögum nr. 37, 1993.  Um varnarþing vísa stefnendur til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91, 1991.  Stefnendur byggja málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91, 1991 og á gjafsóknarleyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 15. mars 2010.

Málsástæður og lagarök stefnda, íslenska ríkisins.

Af hálfu stefnda er á því byggt að hið umþrætta landsvæði, þ.e. Hólaafréttur, með Jórunnarstaðatungum ásamt landsvæði sunnan Eyjafjarðardala, sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. gr. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Byggir stefndi á því að fullljóst sé af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti.  Að áliti stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum, að sýna fram á tilvist eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.

Stefndi bendir á að óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn í málinu á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum.  Sé niðurstaða nefndarinnar byggð á kerfisbundinni rannsókn á fjölda gagna, sem fram hafi komið við gagnaöflun nefndarinnar eða verið lögð fram af málsaðilum.  Að auki hafi nefndin byggt á skýrslum, sem gefnar hafi verið við meðferð málsins fyrir nefndinni.  Hafi það verið niðurstaða óbyggðanefndar, að við gildistöku þjóðlendulaga nr. 58, 1998 hafi landsvæði það sem um sé deilt í málinu verið þjóðlenda sem skiptist í þrjú svæði, þ.e. Hólaafrétt, Jórunnarstaðatungur og landsvæði sunnan Hólaafréttar og Jórunnarstaðatungna.  Hafi nefndin úrskurðað að Hólaafréttur og Jórunnarstaðatungur væru í afréttareign, sbr. c-lið 7. gr. laga nr. 58, 1998, en landsvæðið þar suður af ekki.  Stefndi gerir niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu sinni, auk þeirra málsástæðna sem hér á eftir verða raktar.

Á því er byggt af hálfu stefnda að þótt landamerkjabréfi eða skrá sé til að dreifa beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland.  Og þrátt fyrir að þessum bréfum hafi verið þinglýst þá takmarkist gildi þinglýsingar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn því ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 (Úthlíð).  Stefndi bendir enn fremur á að það skipti almennt meginmáli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi, eða annað landsvæði.  Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig önnur svæði, svo sem afréttarsvæði, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Almennt feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, þó með hliðsjón af eldri heimildum, enda er við slíkt mat verið að meta gildi hvers landamerkjabréfs sérstaklega.

Stefndi byggir á því að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt inn til lands landnám á umræddu svæði náði.  Telur stefndi ólíklegt að land á hinu umþrætta landsvæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að svæðið sé hálent, en um sé að ræða öræfalandsvæði, langt frá byggðum bólum.  Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varðar leiða til þess, að álitið verður ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu, en þetta sé í samræmi við þá reglu, sem ráðin verði af dómum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verði ósannað að slík svæði hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóm Hæstaréttar í málunum nr. 67, 1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 48/2004 (Úthlíð).  Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim er haldi slíku fram.

Stefndi byggir á því að ekki verði af áðurröktum heimildum annað ráðið en að hið umþrætta landsvæði hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti.  Þar um vísar stefndi til umfjöllunar í úrskurði óbyggðanefndar, sbr. það sem hér að framan var rakið.  Stefndi bendir enn fremur á að svæðið sé umlukið eigendalausum svæðum í allar áttir nema til norðurs.

Stefndi bendir á að ekki verði annað séð en að réttur til hins umþrætta landsvæðis hafi upphaflega orðið til á þann veg, að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og e.t.v. annarrar takmarkaðrar notkunar.

Stefndi byggir á því, verði talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, að það hafi þá ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Vísar hann til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.  Um þetta atriði bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).

Verði hins vegar talið að svæðið kunni að hafa að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggir stefndi á því til vara, að allar líkur séu á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður, en svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Og þó að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu liggi heldur ekkert fyrir um, að sá réttur hafi haldist gegnum aldirnar.

Þá er á því byggt af hálfu stefnda, að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess, að landið hafi ekki verið numið í öndverðu, eða teljist lúta beinum eignarrétti.  Að því leyti áréttar stefndi það sem segir í úrskurði óbyggðanefndar, að hið umþrætta land sé að mestu í yfir 900 m hæð yfir sjávarmáli, og liggi fram af Eyjafirði og upp af Eyjafjarðardal.  Nyrst á svæðinu, milli Sandár og Fremri-Strangalækjar, liggi Torfur, en þar rísi landið skarpt til vesturs upp af Eyjafjarðará í um 1069 m hæð í Torfufellshnjúk, en síðan teygi landið sig vestur að Urðarvötnum (881m).  Stefndi bendir einnig á að landið sé víðfeðmt upp af Eyjafjarðardal en einnig hallalítið, gróðursnautt og öldótt.

Stefndi byggir á því að engin gögn liggi fyrir um að umþrætt svæði hafi nokkru sinni verið nýtt að staðaldri til annars en sumarbeitar fyrir búfé, enda liggi það fjarri byggð, og sé að auki að mestu hálent og gróðursnautt öræfasvæði.  Stefndi bendir á að elstu heimildina sem liggi fyrir um ágreiningssvæðið sé að finna í áðurröktu kaupbréfi frá 14. mars 1375 fyrir jörðina Hóla.  Þar sé vikið að lambarekstri á Eyjafjarðardal.  Stefndi bendir enn fremur á að í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 sé svæðinu frá Tjarnalandi og fram í botn dalsins lýst sem afrétt.  Stefndi vísar til þess að þann 12. nóvember 1765 hafi verið lagt mat á virði Hólajarðarinnar að beiðni þáverandi eiganda, sem hafi ætlað að verðmæti hennar hefði minnkað.  Í mati þessu hafi það komið fram að jörðinni tilheyrði land sem kallaðist Eyjafjarðardalur en það sagt að það sé svo langt frá að ábúandi Hóla geti aðeins nýtt sér það til beitar fyrir hross og geldfé.  Af hálfu stefnda er því sérstaklega andmælt sem fram komi í stefnu varðandi engjaslátt á þessu landsvæði og ákvæði Jónsbókar og byggja þeir á því að bann lögbókarinnar við slætti í afréttum hafi einungis tekið til samnotaafrétta en ekki afrétta sem heyrt hafi einstökum jörðum eða stofnunum.

Stefndi bendir á að þann 29. maí 1809 hafi Jón Jónsson, prestur í Möðruvallarklaustursókn, samþykkt í umboði B. Stephensen að selja E. Thorlacius, Miklagarðs- og Hólapresti, jörðina Hóla ásamt hjáleigunni Hólakoti og eyðihjáleigunum Kringlu og Geldingsgerði með því landi og afréttarlandi sem torfunni hafi tilheyrt.  Þá bendir stefndi einnig á að áðurrakið jarðamat frá 1849 lýsi afrétt fyrir Hóla og fáar aðrar jarðir að svokölluðum Eyjafjarðardal, beggja vegna.  Í þessu samhengi bendir stefndi á áðurgreind landamerkjabréf Hólajarðarinnar frá 1889 og 1923 þar sem lýst sé merkjum afréttar til norðurs (Klaufá) og vesturs (sýslumörk).  Á hinn bóginn séu lýsingarnar að nokkru leyti ólíkar til suðurs og austurs, en stefndi telur líklegt að þau lýsi sömu merkjum og nái afréttarlandið þannig fram allan Eyjafjarðardal til suðurs og til austurs á efstu fjallsbrún.  Auk þessara heimilda vísar stefndi til mats Hóla ásamt hjáleigunni Hólakoti og nýbýlinu Nýjabæ frá 1903 og til umfjöllunar um Hóla í fasteignamati frá 1916-18 þar sem komi fram að jörðinni fylgi afréttarsvæði (Hóladalur), en í landamerkjabréfi fyrrnefndrar jarðar Nýjabæjar frá 1922 sé gerð grein fyrir upprekstri á Hólaafrétt.  Loks bendir stefndi á að fyrir liggi að landsvæði, sem nefnt sé Jórunnarstaðatungur eða Torfur, sé hluti af því svæði sem hafi talist til Hólaafréttar fram til ársins 1944, en í afsali frá því ári hafi mörkum afréttarlands verið lýst.  Við flutning var af hálfu stefnda til þess vísað að umrætt landsvæði tilheyri nú ágreiningslaust Hólajörðinni.

Stefndi byggir á því að allar framangreindar heimildir mæli gegn því að hið umþrætta svæði sé háð beinum eignarrétti.  Telur stefndi að heimildirnar bendi til þess að Hólaafréttur hafi almennt einungis verið undirorpinn takmörkuðum notum, þ.e. til upprekstrar, en að auki bendi heimildirnar til þess að Hólaafréttur hafi verið aðskilinn frá Hólajörðinni og lotið sjálfstæðri afmörkum.  Telur stefndi að allt þetta bendi til þess að um þjóðlendu sé að ræða, en því til stuðnings vísar hann til dóma Hæstaréttar í eldri málum nr. 497/2005 (Hoffellslambatungur) og nr. 133/2006 (Hrunaheiðar).

Stefndi andmælir þeim röksemdum stefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði.  Segir hann að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnenda.  Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, en þar um vísar hann m.a. til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta, gróðurfars og eldri heimilda.  Stefndi áréttar að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 103/1952 (Landmannaafrétt), 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004.

Stefndi bendir á og áréttar að þinglýsing heimildarskjals fyrir svæði feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins, að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti.  Stefndi vísar til þess að ekki liggi fyrir hvernig eigendur Hóla séu komnir að rétti sínum til landsvæðisins.  Það er og álit stefnda að heimildir bendi til þess, að tilkall jarðarinnar feli ekki annað í sér og meira en tilkall til óbeinna eignarréttinda (afréttar), og að sá réttur hafi, eftir atvikum, orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og e.t.v. annarrar takmarkaðrar notkunar.

Af hálfu stefnda er sérstaklega vísað til áðurnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 128/1967 um Nýjabæjarafrétt.  Byggir stefndi á því að dómurinn feli í sér res judicata áhrif að því er varði eignarréttarlega stöðu hins umþrætta svæðis.  Að því leyti feli dómurinn í sér bindandi niðurstöðu um eignarréttarlega stöðu svæðisins, enda hafi hluti af því landsvæði sem kröfugerð stefnanda taki til verið til umfjöllunar í nefndum dómi.  Tekur stefndi að því leyti undir áðurrakin sjónarmið óbyggðanefndar og byggir á því að enda þótt kröfur málsaðila í því máli hafi ekki lotið að viðurkenningu beins eignarréttar sé engu að síður ljóst að rétturinn hafi hafnað því að málsaðilar hafi sýnt fram á beinan eignarrétt sinn til umrædds landsvæðis, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu.  Vísar stefndi í því sambandi einkum til orða dómsins þar sem segir:  „Í máli þessu er deilt um eignarrétt að landssvæði því, sem um er að tefla, en eigi upprekstrarrétt ...“ og enn fremur „hvorki áfrýjandi né stefndu hafa fært fram gögn fyrir fullkominni eignartöku að fornu eða nýju á landssvæði því sem um er að tefla í máli þessu.“

Stefndi andmælir varakröfu stefnenda með sömu rökum og hér að framan eru rakin.  Stefndi andmælir sérstaklega þeim sjónarmiðum stefnenda að takmörkuð not geti leitt til þess að fullkominn eignarréttur teljist hafa unnist á grundvelli hefðar, hvorki að hluta til né að öllu leyti.

Með vísan til þess, sem hér að framan er rakið telur stefndi að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á eignarrétt sinn á hinu umdeilda landsvæði.  Telur stefndi ljóst að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taki þó breytingum, en auk þess séu þau ekki endilega samfelld.  Byggir stefndi á því að ágreiningssvæðið, Hólaafréttur, með Jórunnarstaðatungum, verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58, 1998.  Byggir stefndi á því að landsvæðið svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnanda, sem fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist allt þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.

Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í umræddu máli, nr. 1/2008.  Auk þess byggir stefndi á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem hann setti fram í kröfugerðinni fyrir óbyggðanefnd og krefst hann þess að úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009, í nefndu máli nr. 1/2008, verði staðfestur og að því leyti sem hann varðar ágreiningssvæði þessa máls.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944.  Hann byggir á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar.  Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905, en vísar einnig til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil.  Þá vísar stefndi til ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr.

III.

1.  Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“  Þá er afréttur í lagagreininni skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“

Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998 voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að.  Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar, sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga, sem kölluð hafa verið þjóðlendulög, segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé.  Þá segir að tilgangur laganna sé að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hafi verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins.  Tekið er fram að eigi sé áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og beri eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar.  Loks segir í athugasemdunum að til þess beri að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu geti verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raski ekki slíkum réttindum.  Þannig eigi þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, að halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Þjóðlendulögin veiti þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda.  Niðurstaðan ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.  Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

2.  Samkvæmt framansögðu er upphaf þessa máls það að óbyggðanefnd ákvað í mars 2007 að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998.  Við meðferð málsins var svæðið nánar afmarkað og skipt upp í fimm aðskilin mál.  Var eitt þeirra það mál sem hér er til umfjöllunar, nr. 1/2008, er varðar m.a. landsvæði fremst í Eyjafirði, en einnig hálendisins þar fyrir sunnan, austan og vestan.  Eftir atvikum tekur svæðið því að nokkru til landsvæða sem nefnd hafa verið Laugafellsöræfi/Fjöllin og Nýjabæjarafréttur og þá með kröfusvæðum fremstu jarða í Eyjafirði, m.a. Hóla, Torfufells og Möðruvalla, sbr. að því leyti dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 656/2012. Samkvæmt nefndum dómi er syðsti hluta Möðruvallarafréttar hrein þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998. Aftur á móti er nyrsti hlutinn, í Sölvadal, þjóðlenda í afréttareign landeiganda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga og hins vegar afréttarland Gnúpufells í Þormóðsdal/Gnúpufellsdal eignarland.

Í máli þessu krefjast stefnendur þess að úrskurður óbyggðanefndar að því er varðar Hólaafrétt, en einnig svonefndar Jórunnarstaðatungur, sem óumdeilanlega er hluti afréttarins, verði felldur úr gildi með áðurröktum rökum.  Samkvæmt því sem áður er rakið drógu stefnendur nokkuð úr þeirri kröfugerð sem þeir höfðu haft uppi við meðferð málsins hjá óbyggðanefnd, en þeir andmæla rökum nefndarinnar líkt og öllum málatilbúnaði stefnda hér fyrir dómi.  Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er tekið undir niðurstöðu óbyggðanefndar.  Hann hafnar því málatilbúnaði og rökum stefnenda hér fyrir dómi og krefst sýknu.

Hólaafréttur dregur nafn sitt af jörðinni Hólum í Eyjafjarðarsveit, sem er austan Eyjafjarðarár, en Jórunnarstaðatungur draga nafn sitt af samnefndu býli, sem er vestan árinnar, en spölkorn fyrir sunnan Hólabýlið.  Nefndar jarðir voru báðar fyrrum í Hólasókn, en kirkja er á Hólajörðinni.  Jarðirnar voru fyrrum í Saurbæjarhreppi, en hann er víðlendastur af hreppum í Eyjafirði og var áður einnig fjölmennastur.  Þessi fremsta byggð í Eyjafirði er stundum nefnd Eyjafjarðardalur, en byggðin tilheyrir nú Eyjafjarðarsveit.

Eyjafjarðará rennur eftir Eyjafjarðardal og endilöngu héraðinu.  Upptök hennar eru í botni dalsins.

Hólaafréttur er á landsvæði sem er syðst og fremst í Eyjafjarðardal og eftir atvikum einnig á hálendinu þar fyrir ofan. Nyrsti hluti afréttarins er við svonefndan Trippagarð, nærri Strangalæk og Klaufá og því beggja vegna Eyjafjarðarár.  Um 13 km eru frá þessum nyrstu mörkum afréttarins að syðstu landamerkjum Hólajarðarinnar í Hólavatni, en þar í milli, austan Eyjafjarðarár, eru eignarlönd jarðanna Tjarna, Halldórsstaða, Jökuls og Vatnsenda.  Frá nefndum nyrstu mörkum afréttarins er svipuð vegalengd að innstu dalsdrögum í botni Eyjafjarðardals, um 13 km.

Í úrskurði óbyggðanefndar er ítarlega fjallað um afmörkun Hólaafréttar.  Í aðalatriðum segir þar að norður- og vesturmerki hans fari um Strangalækjarfjall og Kerlingarhnjúk og þaðan að syðri enda Urðarvatns nyrðri, og þannig að sýslumörkum Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu, í fjalllendinu vestan Eyjafjarðardals.  Eftir það fari mörkin til suðurs og yfir Urðarvatn syðra og síðan áfram í suðaustur í 975 m hæðarpunkt upp af Eyjafjarðardal.  Um austurmörk afréttarins segir að þau fari með Klaufa til upptaka, en fylgi síðan „efstu fjallsbrún“ allt að hornmarki eignarlanda Gnúpufells á Þormóðsdal. Það er þannig niðurstaða nefndarinnar, líkt og stefnendur halda fram, að nefndum mörkum afréttarins sé að þessu leyti rétt lýst í áðurröktum landamerkjabréfum Hólajarðarinnar.  Að því er varðar suðurmörk afréttarins er það niðurstaða óbyggðanefndar að þau nái svo langt „sem dalurinn nær“.  Er þar átt við fremsta hluta Eyjafjarðardals, en farið nokkuð framan fyrir efstu dalsdrögin til suðurs eins og hér að framan var lýst.

Stefnendur byggja á því að afrétturinn nái talsvert lengra inn til landsins.

Um staðhætti fyrir sunnan Eyjafjarðardal er það segja, að þar er landið hálent, um og yfir 900 m yfir sjávarmáli.  Þá er landið þar víðfeðmt, hallalítið, gróðursnautt og öldótt, sbr. m.a. það sem áður var rakið um fjallskil og fram kom við vettvangsskoðun dómsins.

Í úrskurði óbyggðanefndar er m.a. vikið að sögu, nýtingu og staðháttum Hólaafréttar, en í þeim gögnum sem aðilar lögðu fram við meðferð málsins fyrir dómi er enn frekar fjallað um þessi atriði.

Samkvæmt framansögðu nær byggðin langt fram Eyjafjarðardal, en eftir það skerst dalurinn langt inn í óbyggðir.  Heitir nú Tjarnir fremsti bærinn austan Eyjafjarðarár, en Hólgerði vestan ár, eftir að jörðin Úlfá fór í eyði.  Sunnar í dalnum og í dalbotninum eru afréttarlönd, þ.m.t. Hólaafréttur með Jórunnarstaðatungum, en þar er einnig afréttarlandið Arnarstaðatungur.  Óumdeilt er að fé slæðist oft upp á grjótin á þessu svæði, líkt og fyrrgreindar heimildir um fjallskil vitna um.

Nyrsta jörðin í Hólasókn á austurkjálka er býlið Æsustaðir, en þar fyrir utan, í Möðruvallasókn, er landnámsbýlið Gnúpufell, en norðan Núpár er hið forna höfuðbýli Möðruvellir. 

Fjallið fyrir ofan Gnúpufell og Hólajörðina er Hólafjall, en nyrst á fjallinu er Gnúpufellshnjúkur.  Þar fyrir sunnan er Selfjall, sem einnig er nefnt Tjarnafjall, og nær það fram að Stóruskriðugili.  Þar í milli er m.a. Glerárdalur með samnefndri á.  Sunnan í Gleráreyrum er eyðibýlið Granastaðir, sem var byggt á söguöld samkvæmt Reykdælasögu. Bæjarstæðið er um 250 m yfir sjávarmáli.  Er talið að býlið hafi farið í eyði, líkt og eyðibýlið Másstaðir sunnan Glerár, eigi síðar en í svartadauða.  Glerárhnjúkur er suður og upp af Gleráröxl. Þar fyrir sunnan en nærri árfarvegi Eyjafjarðarár er Selgrundin, en þar nærri var sel frá Hólajörðinni.  Þar fyrir sunnan er Selgil og Ytri-Gjá, en fjallið þar fyrir ofan og suður að Illaskurði er kennt við síðastnefnda örnefnið.  Illiskurður er þröngt klettagil illfært, en Mýrarfjall er frá Illaskurði að Klaufá.  Mýrafjallshnjúkurinn er uppi á Mýrarfjalli, en undirlendið á þessu svæði heita Mýrar, en þar yst er Háihryggur.  Við Eyjafjarðará gegnt Ytra-Strangalækjargili, er Vaðhóllinn.  Skammt sunnan Vaðhóls eru grundir.  Munnmæli herma að þar hafi verið býli, sem Klaufárgerði hét, en þar sést móta fyrir tóftabrotum.  Klaufá er rétt sunnan við tóftirnar, en þar eru líka Klaufárskriða og Klaufárgil.  Eins og áður er lýst eru ystu mörk Hólaafréttar, austan og vestan Eyjafjarðarár, á landsvæðinu fyrir sunnan Klaufá, en mörkin eru við svonefndan Trippagarð.  Er garðurinn á nesi við ána á móti Syðri-Strangalækjargili.  Þar fyrir sunnan, austan ár, er Klifsárheiði og nær hún að Klifsá með samnefndu gili.  Upp af er Klifsárdrag, suðaustur á fjall.  Þar fyrir sunnan er Svínsheiði og nær hún að Svíná.  Í fræðiritinu Lýsing Eyjafjarðar I segir Steindór Steindórsson náttúrufræðingur að síðastnefnda örnefnið bendi ótvírætt til þess að þar hafi gengið svín fyrrum. Neðarlega í Svínsheiði er hjalli, sem er kallaður Fossar, vegna þess hve margir lækir renna niður heiðina og fossa fram af hjallanum. Svínárhnjúkur er sunnan við dragið.  Þá taka við Svínárstallar, Sveigur og Botn og loks svonefnd Runa, en þar utarlega eru Lambatorfur.  Runan nær að fremstu drögum dalsins, en þá er eigi alllangur vegur suður á Sprengisand.

Vestan Eyjafjarðarár syðst í dalnum er fyrrnefndur Botn og nær hann frá upptökum árinnar norður að Sandá og nefnist svæðið Runa, líkt og austan ár. Sandáröxl liggur sunnan Sandárgils.  Milli Sandár og Fremri-Strangalækjar heita Torfur.  Eftir það tekur við Brattahlíð, en vestur af hlíðinni á fjall upp heitir Torfnahnjúkur.  Rennur Eyjafjarðará þarna í gljúfri sem nefnist Torfnaklif, en eftir það rennur hún þar á eyrum og eru í henni grónir hólmar.  Heitir þar Brúsahvammur.  Svæðið frá Fremri-Strangalæk og norður að Heimari-Strangalæk heitir Strangalækjarfjall, giljum skorin hlíð, en gróður er þar nokkuð upp á fjallið.  Milli lækjanna, miðja vegu, er hlaðinn garður, sem verja átti hrossastóði að fara norður dalinn.  Fyrrgreindur Fremri-Strangalækur kemur úr samnefndu gili, en drag lækjarins nær vestur undir Urðarvötn, en þar skammt frá er Kerlingarhnjúkur.  Vestur undir hnjúknum er Vatnahjalli en um hann liggur Eyfirðingavegur.  Norðan Fremri-Strangalækjar að Hafrá er afréttarlandið Arnarstaðatungur, en þar eru gamlar seltóftir, Arnarstaðasel.  Hafráin fer um Hafrárgil, sem er djúpt klettagil, vel gróið, sem gengur þvert upp Tungnafjallið.  Þar er Hafrárdalur og ofar Tungnahnjúkur.  Ná drög Hafrár langleiðina að Ytra-Urðarvatni.  Frá Hafrárgili að merkjum býlisins Úlfár, sem fór í eyði 1925, kallast Úlfheiði og er þar nokkurt undirlendi, en þar norðan við er syðsta býlið vestan Eyjafjarðarár, Hólsgerði.  Er fjöldi örnefna á þessu svæði, m.a. Hafrárhólmar, Beitarhúsagrundir og Úlfárhólmar.  Fjallið þar fyrir ofan nefnist Úlfárskál og Úlfárjökull, en þar vestur af er fjallið hæst, 1240 m, og nefnist Torfufellshnjúkur. Fyrrgreindur fjallahringur, sem umlykur Eyjafjarðardal, er hálendur, um 900-1200 m.

Dalbotn Eyjafjarðardals þrengist verulega þegar kemur fram fyrir Saurbæ, en samt er þar allbreitt undirlendi.  Samkvæmt heimildum er allskriðuhætt beggja vegna Eyjafjarðarár.  Rúmlega 10 km fyrir framan Saurbæ og Möðruvelli gengur hólagirðing mikil yfir þveran dalinn, en þar norðan við eru bæjarhús jarðarinnar Hóla.  Nokkru sunnar eru Hólahólar, sem er annað hólahrúgald í vestanverðum dalnum.  Er það fyrir mynni Villingadals, svonefndir Leyningshólar, en þar er samnefnd jörð.  Fyrir innan Hóla er dalurinn strjálbýlli en fyrr, en þar eru nú fjögur býli að austan, en þrjú að vestan.  Undirlendi er þarna lítið og skriðuhætt.  Fyrir utan fremstu jarðirnar Hólsgerði og Tjarnir gengur jökulalda yfir þveran dalinn.  Þá er enn hólagarður inni í afrétt og loks er fjórða jökulaldan inn hjá Sandá.  Í fremsta hluta Eyjafjarðarár, framan byggðar, er stórgrýti og fellur áin þar þröngt og er í raun ekkert undirlendi þar í dalnum.  Eftir að áin kemur niður í byggð, hjá Tjörnum, er hún lengst af fremur lygn.

Í úrskurði óbyggðanefndar segir að samkvæmt Landnámu hafi Helgi magri skipt landi milli ættingja sinna, en hann reisti bú sitt í Kristnesi, nærri miðju héraði.  Í úrskurðinum segir einnig frá því að austan Eyjafjarðarár hafi Helgi gefið syni sínum Ingjaldi land upp frá Þverá hinni ytri til Arnarhvols. Hafi Ingjaldur reist bú sitt að Þverá hinni efri, en býlið heitir nú Munkaþverá.  Þá segir í úrskurðinum að öðrum syni sínum, Hrólfi, hafi Helgi gefið land frá Arnarhvoli og að hann hafi reist bú sitt að Gnúpufelli, skammt austan Eyjafjarðarár, en sunnan Núpár, sem kemur úr Sölvadal.  Á nágrannajörðinni, norðan Núpár, reisti bú einn af sonum Hrólfs, Hafliði inn örvi, en hann seldi í elli sinni jörðina Eyjólfi Valgerðarsyni Einarssyni, sem lengi hafði búið á Jórunnarstöðum vestan Eyjafjarðarár.  Var Eyjólfur afkomandi Auðuns rotins og Helgu Helgadóttur í Saurbæ, sem er vestan Eyjafjarðarár.  Synir Eyjólfs voru Guðmundur ríki á Möðruvöllum og Einar Þveræingur, sem fyrst bjó í Saurbæ, en síðar á Munkaþverá austan ár.  Samkvæmt heimildum bjuggu ættmenni og venslafólk Eyjólfs um aldir á Möðruvöllum, en býlið verður að telja eitt mesta höfðingjasetur Íslands.

Því er við að bæta að samkvæmt Landnámu reisti Hrólfur Helgason hof í Gnúpufelli, en landnám hans virðist hafa verið stórt.  Tók sonur hans Ingjaldur við landnámsbýlinu, en aðrir synir hans bjuggu í næsta nágrenni, m.a. á Möðruvöllum, eins og fyrr sagði, en einnig í Sölvadal og í Þingeyjarsýslum.  Þá er talið að einn af sonum Hrólfs, Grani, hafi búið að áðurnefndum Granastöðum á Gleráreyrum, framarlega í Eyjafjarðardal.  Samkvæmt heimildum fór þetta fornaldarbýli snemma í eyði, en þar hafa farið fram alþekktar fornleifarannsóknir undir handleiðslu Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar og síðar dr. Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings.

Samkvæmt Landnámu gaf Helgi mági sínum Hámundi lönd vestan Eyjafjarðarár milli Merkigils og Skjóldalsár.  Bjó Hámundur og afkomendur hans á Espihóli, en einnig á höfuðbýlunum Grund og Möðrufelli.  Þá gaf Helgi Þóru dóttur sinni og eiginmanni hennar, Gunnari Úlfljótssyni, frá Bæ í Lóni, lönd upp frá Skjóldalsá og suður til Háls, en þau bjuggu í Djúpadal/Stóradal.  Enn fremur gaf Helgi fyrrnefndri dóttur sinni Helgu og eiginmanni hennar, Auðuni rotin, land upp frá Hálsi og til Villingadals.  Þau bjuggu, eins og fyrr sagði, í Saurbæ, skammt vestan Eyjafjarðarár, en handan árinnar var um aldir höfuðbýlið í byggðinni, Möðruvellir.

Þegar framangreind atriði eru virt í heild, m.a. frásögn Landnámu um landnám, en einnig aðrar heimildir Íslendingasagna og þar á meðal um fornbýlið Granastaði, er að áliti dómsins líklegt að það landsvæði sem nefnt er Hólaafréttur, með Jórunnarstaðatungum, hafi verið numið við upphaf Íslandsbyggðar.

Samkvæmt framansögðu gaf Helgi magri í landnámi sínu helstu bújarðir til náinna ættmenna sinna.  Eftir það gengu jarðir til arfs, en einnig eru margar heimildir um að jarðir hafi gengið kaupum og sölum.  Eftir landnámsöldina urðu eignaskipti á jörðum við kaup tíðari og þar á meðal í jarðaskiptum.

Áðurnefnd höfuðbýli, Möðruvellir og Gnúpufell, en einnig jörðin Hrísar, sem er þar fyrir sunnan, voru í hinni fornu Möðruvallasókn.  Fremsta byggðin í Eyjafjarðardal tilheyrði hins vegar Hólasókn, en á síðari öldum var kirkjan annexía frá Miklagarðskirkju, vestan Eyjafjarðarár, sem árið 1871 var lögð undir Saurbæjarkirkju.

Nyrsta jörðin í hinni fornu Hólasókn á austurkjálka, er Æsustaðir, sem nú nefnist Grænahlíð.  Þar fyrir sunnan var samkvæmt Jarðabókinni jörðin Gerði eða Æsustaðagerði, sem byggð var úr Æsustöðum, en þar fyrir sunnan er jörðin Arnarstaðir, en út úr henni skiptist síðar jörðin Arnarfell.  Þar sunnan við var jörðin Nýibær, sem byggð var úr Hólajörðinni, sem liggur þar fyrir sunnan.  Hólar er ein af stærri jörðum í Eyjafjarðarbyggðum.  Þar fyrir sunnan er jörðin Vatnsendi, en landamerki hennar og Hóla eru norðarlega í Hólavatni.  Sunnan Vatnsenda er jörðin Jökull, sem fór í eyði eftir snjóflóð á síðustu öld, en þar fyrir sunnan er jörðin Halldórsstaðir.  Fremsta jörðin í sókninni að austan er Tjarnir.  Syðsta jörðin vestan Eyjafjarðarár er eyðibýlið Úlfá, sem fór í eyði eftir skriðuföll, en þar norðan við er jörðin Hólsgerði.  Norðan við Hólsgerði eru jarðirnar Torfufell, Leyningur og Jórunnarstaðir, en ysta forna jörðin á vesturkjálka, sem tilheyrði Hólasókn er Skáldstaðir.

Af heimildum verður helst ráðið að kirkja hafi verið á Hólum allt frá upphafi kristni á Íslandi, en hún var jarðeignalaus samkvæmt elstu kirkjubókum eins og segir í úrskurði óbyggðanefndar.  Eins og áður sagði er Hólajörðin ein stærsta jörð í hinum forna Saurbæjarhreppi og var þar oft margbýlt, en jörðinni fylgdu hjáleigur.  Jarðarinnar er getið í ýmsum Íslendingasögum, þ. á m. í Víga-Glúms sögu.  Bjó þar á 10. öld Þorsteinn, elsti sonur Ingjalds á Þverá syðri (Munkaþverá), en hann hafði verið leystur frá arfi.  Hólajörðin kemur einnig við sögu vegna jarðaskipta Þórðar Hallssonar riddara, en hann bjó á Möðruvöllum í byrjun 14. aldar.  Samkvæmt heimildum bjó á jörðinni eftir þetta Sturla Geirsson, en hann var bróðir Þorsteins bónda í Auðbrekku í Hörgárdal, en þeir áttu m.a. ættir sínar að rekja til höfuðbýlisins Möðruvalla í Eyjafjarðardal.  Í úrskurði óbyggðanefndar segir að heimildir greini einnig frá því að Gunnar Pétursson hafi selt Jóni illa Ólafssyni jörðina Hóla, en einnig Vatnsendajörðina í Eyjafirði með bréfi, árituðu 14. mars 1375, og fengið Auðbrekku í Hörgárdal fyrir, en bréfið er áritað þar.  Gunnar var bróðir Ólafs hirðstjóra í Gnúpufelli, en afkomandi þess fyrrnefnda kom síðar verulega við sögu í svokölluðum Möðruvallamálum.  Í nefndu kaupbréfi er elsta heimildin um afrétt Hóla.  Segir þar að jörðin hafi verið seld með tilteknum hlunnindum, þ.e.:

„... med þeim gögnum oc gædum sem hann vard eigandi at. ut aa midian markgard. þar med eyiafiardardal fram fra klifsaa jardareign. eiga jardir lambarekstr utan fra gerdi oc upp til tiarna. oc eigi verit at talit þo at farit hafi eldri saudir. torfskurd i arnarstadi sem landinu þarfnaz. selför j tiarna land. svo morgu fe sem heima at holum fædiz þremr kuum og hrossi. skogar part j leynings jord ...

Að líkindum seldu afkomendur Jóns Ólafssonar Hólajörðina Þorvarði Loftsyni á Möðruvöllum, en samkvæmt heimildum var jörðin á meðal eigna hans þegar erfðaskipti urðu við dauða hans árið 1446.  Eftir þetta virðist Hólajörðin hafa verið í eigu Möðruvellinga a.m.k. fram á 17. öldina.  Auk Möðruvalla og Hóla voru á meðal eigna Þorvarðar stórbýlin Eiðar á Austurlandi, Hlíðarendi í Fljótshlíð og Strönd í Selvogi.  Hólajörðin var í umsjá eða eigu Margrétar Vigfúsdóttur, ekkju Þorvarðar, eftir að dóttir hennar og tengdasonur, Páll Brandsson sýslumaður, höfðu tekið við búsforráðum á Möðruvöllum, en þau féllu frá í lok 15. aldar.  Eftir það hófust harðvítugar deilur um Möðruvallaauðinn, annars vegar á milli erfingja sonar Páls sýslumanns, þ.e. Gríms sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu og sona hans, og hins vegar Erlendar Erlendssonar frá Hlíðarenda í Fljótshlíð, lögmanns sunnan og austan, en hann var tengdasonur Margrétar og Þorvarðar.  Lentu Hólar í þeirri hringiðu.  Eru heimildir um að sonur Erlendar, Þorvarður, hafi ungur fengið að gjöf frá ömmu sinni Margréti jarðir og þar á meðal Hóla, en hann varð síðar sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og var þá búsettur á Möðruvöllum.  Enn síðar varð Þorvarður lögmaður sunnan og austan.  Kom hann mjög við sögu í þessum erfðadeilum, en einnig aðrir ættingjar og afkomendur Margrétar og Þorvarðar á Möðruvöllum.  Má þar m.a. nefna Þorleif, son Gríms sýslumanns, og Jón Marteinsson sýslumann, sem var giftur Guðbjörgu Erlendsdóttur lögmanns frá Strönd.  Bjuggu Grímur og Jón báðir um tíma á Hólum.  Einnig komu við sögu Ormur Sturluson lögmaður, tengdasonur Þorleifs sýslumanns, og Páll Jónsson frá Svalbarði, sem kvæntur var Helgu Jónsdóttir lögmanns Arasonar biskups, en hún var einnig afkomandi Möðruvellinga.  Síðar kom við sögu m.a. Ari Þorkelsson, sýslumaður í Haga á Barðaströnd, en hann var einnig afkomandi Möðruvellinga. Urðu deilur þessar langvinnar og féllu dómar þar um ítrekað á víxl.  Drógust aðrar jarðeignir í byggðinni inn í deilurnar, þ. á m. Leyningur og Tjörn, eins og vikið er að í úrskurði óbyggðanefndar.  Samkvæmt alþekktum fræðiritum, m.a. í ritgerð eftir Pál Briem, síðasta amtmann norður og austur, frá árinu 1900, Hundraðtal á jörðum, mun jarðamat tíðum hafa verið málum blandið í þessum ágreiningi, sem nefnd hafa verið Möðruvallamál, m.a. að því er varðaði jörðina Hóla, en einnig Auðbrekku í Hörgárdal og Möðruvelli.  Eins og fyrr sagði spruttu þessar deilur fyrst upp við erfðaskipti Páls sýslumanns árið 1501, en þær héldu síðan áfram m.a. vegna gjafagernings Þorleifs sýslumanns til sonar síns Gríms árið 1560, en einnig vegna síðari erfðaskipta árið 1569 og var þá tíðum grautað í dómum.  Lauk þessum deilumálum ekki fyrr en á 17. öldinni.

Af gögnum verður ekki annað ráðið en að auk landnámsjarðanna Gnúpufells og Möðruvalla hafi jarðir í fremsta hluta Eyjafjarðardals, vestan og austan ár, verið sjálfseignarjarðir. Þannig munu m.a. Tjarnir hafa byggst þegar á landnámsöld, en einnig Arnarstaðir, sem getið er um í Ljósvetningasögu.  Þá er Vatnsendajarðarinnar sérstaklega getið í fyrrnefndu jarðasölubréfi frá 1375.  Enn fremur verður jörðin Jórunnarstaðir, vestan ár, talin til landnámsjarða, en eins og áður er rakið bjó þar um tíma Eyjólfur Valgerðarson, afkomandi Auðunar rotins, en hann og afkomendur hans reistu síðar stórbú að Möðruvöllum handan Eyjafjarðarár.  Af heimildum verður ráðið að Hólajörðin hafi einnig ætíð verið sjálfseignarjörð og í bændaeign.  Margar þessara jarða komust um síðir í eigu Möðruvellinga, en gengu síðan kaupum og sölum, líkt og Hólajörðin.

Eins og fyrr var rakið var oft margbýlt í Hólum, en jörðinni fylgdu hjáleigur, sem sumar urðu síðar bújarðir, eins og rakið var í kafla I.5 hér að framan.  Þekktasta hjáleigan var Hólakot, en hennar er m.a. getið í manntalinu 1703 og í Jarðabókinni 1712.  Samkvæmt áðurröktum heimildum, m.a. í áðurröktum eldri jarðamötum, en einnig í sölubréfi frá 1809 og lögfestum frá 1822, svo og í landamerkjabréfi Hóla frá 1923, eru nefnd býli ásamt jörðinni Nýjabæ, sem byggð var úr landi Hóla skömmu eftir miðja 19. öld, nefnd einu lagi Hólatorfan.  Aðrar jarðir í nágrenninu hafa ekki fallið þarna undir og er þeirri málsástæðu stefnenda hafnað.

Í gögnum málsins eru engar heimildir um að búseta hafi verið í fremsta hluta Eyjafjarðardals sunnan Klaufár og þar í mót, í Strangalækjarfjalli, þ.e. framan norðurmarka Hólaafréttar.  Er til þess að líta að á þessum slóðum, en einnig þar fyrir norðan, er skriðuhætt, en snjófljóð og skriður eyddu byggð á býlunum Úlfá og Jökli.  Heimildir eru um að fyrir framan þessi býli hafi á söguöld verið byggð sem hafi farið í eyði.  Þannig voru Granastaðir við dalverpið Glerárdal, en óljósar heimildir eru einnig um að býlið Másstaðir hafi verið þar skammt fyrir framan.  Þar fyrir framan, í landi Tjarna, við Selgrund var forðum sel frá Hólajörðinni, en að auki eru tóftarbrot rétt sunnan við Klaufá.  Eru bæjarhús Hóla, eins og fyrr sagði, um 13 km frá nefndum afréttarmörkum, en þar í milli eru áðurnefnd sjálfseignarbýli.

Elsta heimildin, sem tekur til þessa landsvæðis, er fyrrnefnt kaupbréf um jarðirnar Hóla og Vatnsenda frá 1375 þar sem sagt er að Hólar eigi Eyjafjarðardal fram frá Klifsá, en í því samhengi er í bréfinu einnig vikið að upprekstrarrétti annarra jarða á austurkjálka allt frá Æsustaðagerði til Tjarna.  Ekkert liggur fyrir í málinu hvernig þessi réttindi komu í hlut Hóla eða hver kunni áður að hafa haft þau á hendi, en nefnd afréttarmörk eru um 26 km frá landnámsjörðinni Gnúpufelli.

Eins og fyrr er rakið er auk kaupbréfsins frá 1375 fjallað um réttindi Hóla í Eyjafjarðardal í fjölda heimilda.  Má þar nefna Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, jarðabréf frá 1765, kaupbréf frá 1809, jarðamat frá 1849, afréttarskrá frá 1894 og jarðamat frá 1903.  Þá er vikið að þessum réttindum í sáttagjörðum þáverandi landeigenda Tjarna og Hóla frá 1822 og í landmerkjabréfum jarðanna frá árum 1899 og 1923, en einnig í nýlegri heimildum. Vísa allar þessar heimildir að mati dómsins til nýtingar landsvæðisins og þá þannig að um hafi verið að ræða afréttar- og beitarland.

Í dómum sínum hefur Hæstiréttur Íslands í sambærilegum málum margoft vikið að gildi landamerkjabréfa og annarra álíka gagna, m.a. í máli nr. 48/2004.  Er það niðurstaða réttarins að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæði, beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því, að þau fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli teljast óskorað eignarland.  Þá segir í nefndum dómi að við mat á gildi landamerkjabréfa skuli m.a. líta til þess hvort eldri heimildir styðji efni þess.  Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig t.d. afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð.  Landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt.  Þá hafi menn ekki eingöngu markað sér landsvæði háð beinum eignarrétti, heldur einnig mörk ítaka, afrétta og allra annarra réttinda í lönd sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.

Auk ofannefndra atriða ber að áliti dómsins að líta til þess að landmerkjabréf er í eðli sínu samningur, ef það er samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða um þau atriði sem þeir hafa forræði á að ráðstafa með löggerningi.

Hólaafréttur er fremur hálent landsvæði með mjög takmörkuðu undirlendi í dalbotni í fremsta hluta Eyjafjarðardals.  Fer landið hækkandi allt að dalsdraginu, en hálent fjalllendi umlykur dalinn.

Að mati dómsins eru engar heimildir, sem benda til þess að landsvæðið sunnan Hólaafréttar, þ.e. á hálendissvæðinu austan og sunnan við syðstu dalsdrög Eyjafjarðardals, eins og hann er afmarkaður í lýstum landamerkjabréfum, hafi tilheyrt Hólajörðinni.  Eins og áður er rakið var, í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 128/1967: Mál Upprekstarfélags Saurbæjarhrepps gegn eigendum Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli í Skagafirði, sem kveðinn var upp 29. apríl 1969, m.a. fjallað um hálendissvæðið ofan Sölvadals og Eyjafjarðardals, á svonefndum Nýjabæjarafrétti, á Fjöllum/Laugafellsöræfum, og allt að Hofsjökli.  Það var niðurstaða Hæstaréttar að málið varðaði eignarrétt á hinum umþrættu landsvæðum, en ekki um upprekstrarrétt.  Í úrskurði óbyggðanefndar er sérstaklega fjallað um niðurstöðu þessa dóms og þá í ljósi kröfugerða aðila fyrir nefndinni, en þær eru að nokkru sambærilegar, en þó takmarkaðri vegna kröfugerðar stefnenda hér fyrir dómi, eins og áður var rakið, sbr. kafla I.4.  Í úrskurðinum rökstyður óbyggðanefnd, eftir að hafa fjallað um aðild og gagnaöflun, þá niðurstöðu að dómur Hæstaréttar í nefndu dómsmáli sé bindandi um úrslit sakarefnisins fyrir aðila málsins og þá sem koma í þeirra stað.

Í dómi Hæstaréttar Íslands nr. 656/2012 í máli íslenska ríkisins gegn eiganda Möðruvalla í Eyjafirði vegna Möðruvallaafréttar er vikið að nefndum dómi réttarins í umræddu máli nr. 128/1967 og segir þar m.a.:  „Af dóminum (mál nr. 128/1967) má meðal annars draga þá ályktun að ekki hafi verið talið sannað, að sá málsaðili sem leiddi rétt sinn frá eiganda Möðruvalla, hefði „fært fram gögn fyrir fullkominni eignatöku að fornu eða nýju á landsvæði því, sem um er að tefla í máli þessu.“  Í þessum dómi vísar rétturinn sérstaklega til þeirra orða í hinum eldri dómi um að yfirlýsingar í afsölum fyrr og síðar, sem eigi hafi stuðst við önnur gögn, hafi ekki nægt til að dæma öðrum hvorum aðila eignarétt „til öræfalandsvæðis þessa“.

Það er álit dómsins að með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 128/1967 hafi verið leyst úr ágreiningi um eignarréttindi á öræfunum millum Skjálfandafljóts að austan og Jökulsár eystri í Skagafirði að vestan og þar með um eignarrétt á hluta þess landsvæðis sem til umfjöllunar var fyrir óbyggðanefnd í því máli sem hér er til meðferðar, þ.e. á hálendissvæðinu fyrir framan fremstu drög Eyjafjarðardals.  Að því leyti er dómurinn ásamt dómi réttarins nr. 656/2012 skýrt fordæmi um eignarréttarlega stöðu þessa hálendissvæðis.  Er því tekið undir málsástæður stefnda að þessu leyti, en röksemdum stefnenda hafnað.

Að virtum staðháttum, vegalengdum, örnefnum, gróðurfari og því sem hér að framan var rakið, varðandi nýtingu, og þá einnig því að landsvæði Hólaafréttar er aðskilið frá öðru landi Hóla, líkt og glöggt kemur m.a. fram í áðurröktum landamerkjabréfum, er það niðurstaða dómsins að gegn andmælum stefnda og að virtum röksemdum hans, m.a. varðandi réttmætar væntingar, hafi stefnendur ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að þeir eigi beinan eignarrétt á hinu umþrætta svæði, eins og það var afmarkað hér að framan.

Að þessu virtu og þar sem kröfur og heimildir stefnenda styðjast ekki við önnur gögn en þegar hefur verið greint frá, en einnig í ljósi þeirra röksemda sem ítrekað hafa komið í dómum Hæstaréttar, þ. á m. í fyrrnefndum dómi réttarins um land Möðruvalla í Sölvadal nr. 656/2012, verður fallist á með stefnda að allt deilusvæðið sé þjóðlenda með þeirri afmörkun sem greinir í úrskurði óbyggðanefndar.  Er Hólaafréttur, með nefndum mörkum, því þjóðlenda en í afréttareign stefnenda, enda hafa þeir ekki sýnt fram á að landsvæðið sé eignarland þeirra, hvorki fyrir löggerninga né með öðrum hætti.

Stefnendur hafa að áliti dómsins ekki fært fram sönnur um að skilyrðum eignarhefðar á hinu umþrætta landsvæði hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem þeir hafa haft af því.  Liggur einnig fyrir að Hólaafréttur hefur um aldir aðallega verið nýttur til sumarbeitar búfénaðar jarðeigenda Hóla og Tjarna, en samhliða því hafa nokkrir aðrir jarðeigendur og ábúendur í Eyjafjarðardal haft þar upprekstrarrétt fyrir búfénað sinn.

Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að Hólaafréttur, eins og hann er nánar afmarkaður í úrskurði hennar, sé þjóðlenda því staðfest, en jafnframt, og eins og áður sagði, að hann sé í afréttareign stefnenda, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58, 1998.

Verður stefndi samkvæmt öllu því sem að framan er rakið sýknaður af aðal- og varakröfum stefnenda.

Eftir atvikum þykir rétt að málsaðilar beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar hæstaréttarlögmanns.

Með hliðsjón af hagsmunum og umfangi málsins, en einnig vinnuframlagi, m.a. vegna vettvangsferðar og endurflutnings, er nefnd þóknun ákveðin 1.423.000 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar þeirra í dómi.

Í máli þessu hefur málmeðferð dregist mun lengur en dómari ætlaði og er það miður.  Kemur þar helst til annir við önnur dómsmál, nokkur fjöldi annarra þjóðlendumála, en einnig aðrar aðstæður.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar hæstaréttarlögmanns, 1.423.000 krónur.

                                                                                  Ólafur Ólafsson.

Dómsorðið er lesið í heyranda hljóði að viðstöddum Arnari Sigfússyni hdl. v/ Indriða Þorkelssonar hrl. og er honum afhent afrit dómsins.  Lögmaður stefnenda boðaði lögmæt forföll.