Print

Mál nr. 205/1999

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldskröfu hafnað
  • Farbann
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991

                                                         

Fimmtudaginn 27. maí 1999.

Nr. 205/1999.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Kio Alexander Ayobambele Briggs

(Helgi Jóhannesson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhaldskröfu hafnað. Farbann. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

K hafði sætt gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn og meðferð máls hans fyrir dómstólum stóð, meðal annars á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Litið var til þess að héraðsdómur í máli K hafði verið ómerktur með dómi Hæstaréttar og meðferð málsins þar með tafist verulega án þess að K yrði um kennt. Að þessu gættu var ekki fallist á að almannahagsmunir væru svo ríkir að þeir réttlættu að K væri lengur sviptur frelsi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Var niðurstaða héraðsdóms um að K sætti farbanni á grundvelli b. liðs 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. maí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. maí 1999, þar sem kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi var hafnað, en varnaraðila bönnuð brottför af landinu allt til 15. september nk. kl. 16. Kæruheimild er í 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 15. september nk. kl. 16.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Varnaraðili var handtekinn við komu til landsins 1. september 1998 með 2031 töflu af fíkniefninu MDMA í farangri sínum. Með ákæru 17. desember 1998 var hann sóttur til saka fyrir að hafa brotið með þessari háttsemi gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999 var varnaraðili sakfelldur samkvæmt ákærunni og dæmdur til að sæta fangelsi í 7 ár. Með dómi Hæstaréttar 20. maí 1999 var héraðsdómurinn ómerktur og málinu vísað heim til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar. Varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi samfleytt frá 2. september 1998 þar til hinn kærði úrskurður var kveðinn upp.

Samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 má úrskurða mann í gæsluvarðhald ef sterkur grunur er fyrir hendi um að hann hafi framið afbrot, sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þetta ákvæðið verður að skýra í samræmi við 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, svo og 5. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt því verður að meta eftir eðli brots hverju sinni hvort gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og þess hvort mál geti að virtum öllum atvikum talist vera rannsakað og síðan rekið fyrir dómi innan hæfilegs tíma.

Varnaraðili sætti sem áður segir gæsluvarðhaldi frá 2. september 1998, þar á meðal á grundvelli ákvæðis 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. dóm Hæstaréttar 4. desember 1998. Meðferð máls hans fyrir héraðsdómi hefur nú verið ómerkt frá og með þinghaldi 25. janúar 1999, þar sem það var til aðalmeðferðar. Er sýnt að með þessu tefst meðferð málsins verulega, en um það verður varnaraðila ekki kennt. Þeir almannahagsmunir, sem áður hafa talist leiða til nauðsynjar gæsluvarðhalds yfir varnaraðila, kunna út af fyrir sig að vera enn fyrir hendi. Að gættu öllu framangreindu verður hins vegar ekki fallist á að þeir séu nægir til að svipta varnaraðila lengur frelsi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Varnaraðili er í ákæru borinn sökum, sem geta varðað fangelsi allt að 10 árum. Verður á það fallist með héraðsdómara að nauðsyn beri til að tryggja návist varnaraðila, sem er breskur ríkisborgari og búsettur á Spáni, á meðan málið er til lykta leitt fyrir dómi. Eins og atvikum er háttað er nægilegt í þessu skyni að honum verði bönnuð för úr landi, sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. maí 1999.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í gær barst dóminum í gær með bréfi ríkissaksóknara dagsettu s.d., þar sem krafist er að ákærði í málinu ákæruvaldið gegn Kio Alexendars Ayobambele Briggs verði úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans í héraði, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. september n.k. kl. 16:00.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði þegar látinn laus, en til vara að hann verði úrskurðaður í farbann samkvæmt 110. gr. laga nr. 19, 1991.

Samkvæmt gögnum málsins var ákærði handtekinn á Keflavíkurflugvelli 1. september 1998 við komu til landsins frá Spáni, þegar umtalsvert magn fíkniefna fannst í farangri hans. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan.

Hinn 17. desember s.l. gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur ákærð þar sem hann var sakaður um brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með því að hafa í ágóðaskyni flutt til landsins umtalsvert magn af MDMA töflum.

Hinn 11. mars s.l. var ákærði fundinn sekur um framangreint athæfi og dæmdur í 7 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar að ósk ákærða og gekk dómur í Hæstarétti í gær þess efnis að meðferð málsins frá og með aðalflutningi í héraði var ómerkt og málinu vísað heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar.

Af þeim sökum hefur ákæruvaldið haft uppi framangreinda kröfu í þessu máli. Rökstyður ákæruvaldið kröfu sína á þann hátt að ákærði hafi verið ákærður fyrir að standa að innflutningi mikils magns stórhættulegra fíkniefna, sem hefðu getað stofnað lífi og heilsu fjölda fólks í hættu hefðu þau komist í dreifingu hér á landi. Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis þyki nauðsynlegt, með tilliti til almannahagsmuna, að ákærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengur í málinu.

Er af ákæruvaldsins hálfu byggt á 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1999.

Þá bendir ákæruvaldið ennfremur á að ákærði sé útlendingur og hafi ekki haft fasta búsetu hér á landi, því megi ætla að hann reyndi að komast úr landi ef hann gengi laus. Sé því einnig fullnægt skilyrðum b liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Af hálfu ákærða er því mótmælt að nokkur nauðsyn beri til þess að ákærði sitji í gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans. Almannahagsmunir krefjist þess engan veginn. Þá sé engin hætta á því að hann reyni að komast úr landi, þar sem það sé nánast ómögulegt þar sem vegabréf hans hafi verið tekið af honum, auk þess sem hann hafi engan áhuga á því að koma sér undan að mæta fyrir dóm í málinu.

Í máli þessu hafa verið lögð fram endurrit af framangreindum dómi Hæstaréttar, svo og héraðsdóminum, en annarra gagna nýtur eigi við í málinu. En samkvæmt þessum gögnum hefur ákærði aldrei sætt refsingu.

Svo sem að framan greinir er ákærði ákærður fyrir brot á 173. gr. a almennra hegningarlaga, en samkvæmt þeirri lagagrein getur refsing orðið allt að 10 ára fangelsi og er því skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 fullnægt að því leyti.

Hér fyrir dóminum hafa hins vegar eigi verið færð fram nein sérstök rök fyrir því að almannahagsmunir krefjist þess að ákærði sitji í gæsluvarðhaldi uns endanlegur dómur gengur, svo sem tilskilið er í framangreindri lagagrein. Lítur dómarinn því svo á að gæsluvarðhald verði ekki byggt á þeirri lagagrein.

Fallast verður á það að nokkur hætta geti verið á því að ákærði reyni að koma sér úr landi ef hann gengur laus, sbr. skilyrði b liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991. Telja verður þó að vægara úrræði svo sem farbann skv. 110. gr. laga nr. 19, 1991 sé nægjanlegt til að ná sama markmiði, þ.e. að koma í veg fyrir að ákærði fari af landinu. Þykir eins og mál þetta liggur hér fyrir nægjanlegt að beita því ákvæði og ber samkvæmt því að úrskurða ákærða í bann við brottför af landinu uns dómur gengur í máli hans í héraði, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 15. september n.k. kl. 16:00 eins og kröfugerð máls þessa háttar.

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstóri.

Úrskurðarorð:

Ákærði, Kio Alexanders Ayobambele Briggs, er bönnuð brottför af landinu þar til dómur gengur í máli hans í héraði, þó ekki lengur en til 15. september n.k. kl. 16:00.