Print

Mál nr. 299/2002

Lykilorð
  • Skattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Fyrning
  • Tómlæti
  • Stjórnsýsla

Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. desember 2002.

Nr. 299/2002.

Andrés F. Gíslason

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Skattar. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Fyrning. Tómlæti. Stjórnsýsla.

Hinn 24. janúar 1997 afhenti A tollstjóranum í Reykjavík skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda af launagreiðslum fyrir allt árið 1996. Ekki fylgdi greiðsla þessum skilagreinum, en báðir málsaðilar lögðu til grundvallar að þá hafi stofnast krafa á hendur A. Að kröfu tollstjóra var gert fjárnám hjá A 13. mars 1997 fyrir þeim hluta gjaldanna, sem tilheyrði fyrstu níu mánuðum ársins 1996, en 2. mars 2001 barst sýslumanni að nýju beiðni tollstjóra um fjárnám vegna þessara gjalda, sem þá tók til alls ársins 1996. Innheimtuaðgerðum lauk 25. maí 2001 með því að A greiddi kröfuna með fyrirvara, en höfðaði síðan mál til endurheimtu fjárins. Talið var að síðari fjárnámsbeiðnin hafi ekki getað rofið fyrningu kröfu vegna gjalda síðustu þriggja mánaða ársins 1996 nema annað kæmi til. Samkvæmt skýringum Í hafi gjöldin verið greidd að verulegu leyti þegar hinn 24. janúar 1997, auk þess sem nýr fyrningarfrestur hafi hafist með greiðslu A inn á skuld sína 9. apríl sama árs. Að þessu gættu varð fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að krafa Í hafi ekki verið fallin niður fyrir fyrningu. Ekki varð heldur fallist á að Í hafi glatað kröfu sinni með tómlæti. Með vísan til forsendna héraðsdóms var staðfest sú niðurstaða hans að tilteknar yfirlýsingar Gjaldheimtunnar í Reykjavík um skuldleysi A leiddu ekki til þess að taka bæti kröfu hans til greina. Var Í sýknað af kröfum A.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

          Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. júní 2002. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 494.495 krónur en til vara 236.984 krónur, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. maí 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

          Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I.

Hinn 24. janúar 1997 afhenti áfrýjandi tollstjóranum í Reykjavík skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda af launagreiðslum fyrir allt árið 1996. Ekki fylgdi greiðsla þessum skilagreinum, en báðir málsaðilar leggja til grundvallar að þá hafi stofnast krafa stefnda á hendur áfrýjanda. Að kröfu tollstjórans gerði sýslumaðurinn í Reykjavík fjárnám hjá áfrýjanda 13. mars 1997 fyrir þeim hluta gjaldanna, sem tilheyrði fyrstu níu mánuðum ársins 1996. Það leiddi þó ekki til þess að krafan yrði greidd, en 2. mars 2001 barst sýslumanni að nýju beiðni tollstjóra um fjárnám vegna þessara gjalda, sem nú tók til alls ársins 1996. Framgangi fjárnámsins er nánar lýst í héraðsdómi, en innheimtuaðgerðum lauk 25. maí 2001 með því að áfrýjandi greiddi kröfuna, 494.495 krónur, með fyrirvara um endurgreiðslu. Samkvæmt greiðslukvittun var krafan sundurliðuð þannig að höfuðstóll nam 240.201 krónu, kostnaður 17.310 krónum og vextir 236.984 krónum. Höfðaði áfrýjandi málið 27. nóvember 2001 til endurheimtu fjárins, sem hann telur stefnda hafa verið óheimilt að innheimta, en sjálfur hafi hann neyðst til að greiða vegna hótana um að ella yrði krafist gjaldþrotaskipta á búi hans. Felur aðalkrafan í sér að öll fjárhæðin verði endurgreidd, en varakrafan tekur til innheimtra dráttarvaxta. Málsástæður aðilanna eru raktar í héraðsdómi.

          Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti hélt áfrýjandi því fram að hvað sem öðru líði hafi krafa stefnda verið fallin niður að hluta fyrir fyrningu þegar fjárnáms var krafist að nýju 2. mars 2001. Fyrri fjárnámsbeiðnin hafi ekki tekið til gjalda þriggja síðustu mánaða ársins 1996 og þegar fjárnáms var beiðst í síðara skiptið hafi því verið liðin meira en fjögur ár frá því krafan stofnaðist, en skattkrafan fyrnist á fjórum árum samkvæmt 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Beri stefnda samkvæmt því að endurgreiða að minnsta kosti 63.196 krónur af höfuðstólnum, sem sé samtala gjaldanna samkvæmt framlögðum skilagreinum fyrir mánuðina október, nóvember og desember 1996. Sú fjárhæð nemi 26,3% af höfuðstól kröfunnar og nái þá skyldan til endurgreiðslu til sama hlutfalls af kostnaði og vöxtum, sem hann hafi neyðst til að greiða stefnda.

Af hálfu stefnda var í héraði lögð fram útskrift tollstjórans í Reykjavík um greiðslustöðu áfrýjanda hjá honum. Ber skjalið fyrirsögnina „Staðgreiðsla 1996“ og sýnir færslur í árslok 1996 og á árinu 1997. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti voru af hálfu stefnda gefnar skýringar á þessu skjali, sem ekki virðast hafa komið sérstaklega fram við meðferð málsins í héraði. Samkvæmt því sýni greiðslustöðuyfirlitið að áfrýjandi hafi átt inneign í byrjun árs 1997 að fjárhæð 52.892 krónur, sem hafi verið til komin vegna endurgreiðslu á virðisaukaskatti, sem tollstjóri ráðstafaði síðla árs 1996 sem inneign áfrýjanda upp í væntanlega staðgreiðslu skatta. Sama dag og áðurnefndar skilagreinar áfrýjanda bárust tollstjóra hafi hinn síðastnefndi ráðstafað allri inneigninni upp í gjöldin, sem greidd skyldu samkvæmt skilagreinunum. Hafi með því móti verið greidd að fullu skuld vegna desember 1996, 16.186 krónur, og nóvember sama árs, 20.147 krónur. Þeim 16.559 krónum, sem þá voru eftir af inneigninni, hafi verið ráðstafað upp í gjöld vegna október 1996 og hafi þá enn staðið eftir 10.304 króna skuld fyrir þann mánuð. Loks komi fram á greiðsluyfirlitinu 100.000 króna innborgun áfrýjanda 9. apríl 1997 inn á skuld ársins 1996.

II.

Fjárnám hjá áfrýjanda 13. mars 1997 tók til gjalda níu fyrstu mánaða ársins 1996. Beiðni um síðara fjárnámið barst sýslumanninum í Reykjavík 2. mars 2001, en þá voru liðin meira en fjögur ár frá því krafa stefnda stofnaðist. Gat síðari fjárnámsbeiðnin ekki rofið fyrningu kröfu vegna gjalda síðustu þriggja mánaða ársins 1996 nema annað kæmi til. Samkvæmt áðurnefndum skýringum stefnda fyrir Hæstarétti er hins vegar í ljós leitt að þau voru greidd að verulegu leyti þegar hinn 24. janúar 1997, auk þess sem nýr fyrningarfrestur hófst með greiðslu áfrýjanda inn á skuld sína hjá tollstjóra 9. apríl sama árs. Að þessu gættu verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að krafa stefnda hafi ekki verið fallin niður fyrir fyrningu. Ekki verður heldur fallist á að stefndi hafi glatað kröfu sinni með tómlæti. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að yfirlýsingar Gjaldheimtunnar í Reykjavík 10. október og 26. nóvember 1997 leiði ekki til þess að taka beri kröfu hans til greina.

Samkvæmt öllu framanröktu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2002.

I

Mál þetta var höfðað  27. nóvember sl. og dómtekið 19. mars sl.

Stefnandi er  Andrés Freyr Gíslason, Hlíðarhjalla 53, Kópavogi.

Stefndi er íslenska ríkið og er fjármálaráðherra stefnt fyrir þess hönd.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 494.495 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. maí 2001 til 1. júlí s.á. en í samræmi við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 236.984 krónur með sömu vöxtum og í aðalkröfu.  Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar en til vara að stefnukröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður.

II

Stefnandi, sem starfaði sem húsasmíðameistari, kveður málavexti vera þá að hann hafi á undanförnum árum lent ítrekað í vandræðum með að standa skil á opinberum gjöldum á réttum gjalddaga.  Síðla árs 1997 kveðst hann hafa haft í huga að bjóða í bygg­ingu á vegum Reykjavíkurborgar sem innkaupastofnun hennar hafi boðið út.  Þeir einir hafi verið gjaldgengir í útboði þessu, sem hafi verið í skilum með opinber gjöld hverjum nöfnum sem þau nefndust.  Í þeim tilgangi að geta tekið þátt í útboðinu kveðst stefnandi hafa gert upp öll ógreidd gjöld hjá hinu opinbera, þ.e. tollstjóranum í Reykjavík og Gjaldheimtunni.  Þegar hann hafi greitt þessi gjöld, sem fullyrt var að næmu heildarskuldum hans, óskaði hann eftir staðfestingu frá framangreindum em­bætt­um um að hann væri skuldlaus við ríkið.  Var orðið við þeirri beiðni hans og sendi hann Innkaupastofnun Reykjavíkur þessar yfirlýsingar í lok nóvember 1997.  Stefnandi kveðst fljótlega aftur hafa lent í vanskilum með opinber gjöld og tollstjórinn í Reykjavík, sem þá hafði tekið við innheimtu allra opinberra gjalda í Reykjavík, hafi knúið á um greiðslu vegna áranna 1997 til og með 2000.  Þegar stefnandi hugðist ganga frá málum sínum á útmánuðum árið 2001 hafi komið í ljós að meðal þeirra skulda, sem tollstjóri krafðist greiðslu á, hafi verið gjald sem skilgreint var sem KV A O211623889 1996.  Stefnandi kveðst hafa óskað skýringa á þessu gjaldi og honum hafi þá verið tjáð að um væri að ræða vangreiðslu á staðgreiðslu launamanna vegna ársins 1996.  Stefnandi kveður kröfu þessa hafa komið sér í opna skjöldu í ljósi fyrr­greindra samskipta sinna við innheimtumenn ríkissjóðs.  Taldi hann sig hafa gert hreint fyrir sínum dyrum við það tækifæri og að hann hefði haft réttmæta ástæðu til að treysta því að yfirlýsingar nefndra embætta væru réttar, enda þær settar fram af starfs­mönnum þeirra.

Af hálfu stefnanda er því lýst að á undanförnum árum hafi tollstjórinn í Reykja­vík krafist fjárnáma hjá honum vegna ógreiddra gjalda.  Fjárnáms hafi hins vegar ekki verið krafist né krafið um greiðslu vegna vangoldinna staðgreiðslu launamanna frá árinu 1996.  Innheimtuaðgerðum tollstjóra lauk með því að gert var fjárnám hjá stefn­anda án árangurs 11. apríl 2001.  Í framhaldi af því var stefnanda tilkynnt að unnt væri að krefjast gjaldþrotaskipta á búi hans ef kröfurnar yrðu ekki greiddar.  Stefnandi svar­aði þessu 10. maí 2001 þar sem innheimtu meintra skulda frá árinu 1996 var mótmælt.  Því var hafnað af hálfu tollstjóra og lauk viðskiptum þeirra þannig að stefnandi greiddi skuldina 25. maí 2001.

Í aðalkröfunni krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu alls þess, sem hann greiddi 25. maí 2001, en í varakröfunni er gerð krafa um þann hluta fjárhæðarinnar, sem stefnandi greiddi og nam dráttarvöxtum af hinni meintu skuld.

Af hálfu stefnda er gerð eftirfarandi grein fyrir málavöxtum.  Stefndi kveður stefnanda hafa skilað skilagreinum vegna launagreiðslna ársins 1996 24. janúar 1997 án greiðslu.  Fjárnám hafi verið gert hjá  stefnanda vegna fyrstu 9 mánaða ársins 1996 13. mars 1997 og hafi fjárnáminu verið þinglýst 10. apríl 1997.  Stefnandi hafi greitt 100.000 krónur inn á hina umþrættu kröfu 9. apríl 1997.  Tvær uppboðsbeiðnir hafi verið sendar en þær hafi ekki leitt til greiðslu kröfunnar.  Sýslumaðurinn í Kópavogi hafi tekið við aðfararbeiðni vegna kröfunnar 2. mars  2001 og hafi beiðnin verið tekin fyrir 28. mars s.á.  Þá hafi stefnandi mætt sjálfur og hafi verið bókað eftir honum að hann hefði ekkert við kröfuna að athuga en hann varð ekki við áskorun um að greiða hana og kvaðst engar eignir eiga.  Fjárnáminu hafi því lokið án árangurs en samþykkt hafi verið að fresta gerðinni til 11. apríl 2001 og var stefnanda leiðbeint um að fjár­námi yrði þá lokið án árangurs væri beiðnin ekki fallin niður.   Stefnandi hafi engar at­huga­semdir gert við þetta og undirritað gerðina.  Fjárnáminu hafi síðan lokið án árangurs 11. apríl 2001 og 25. maí 2001 hafi stefnandi greitt upp kröfuna. 

III

Aðalkrafa stefnanda byggir á því að krafa stefnda hafi verið fyrnd þegar stefnandi greiddi hana. Krafan njóti lögtaksréttar og fyrnist því á 4 árum frá því að hún varð gjald­kræf samkvæmt 3. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu.  Krafan hafi gjald­fallið í upphafi ársins 1997 eins og fram komi í bréfi tollstjóra, sem sé meðal gagna málsins.  Stefndi hafi ekkert aðhafst til að viðhalda kröfunni fyrr en stefnandi hafi leitað til hans í kjölfar árangurslauss fjárnáms í apríl 2001 en þá hafi krafan verið fyrnd.  Stefnandi kveðst hafa verið þvingaður til að greiða skuldina, enda staðið and­spænis hótun um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  Þess vegna hafi krafan verið greidd og það með fyrirvara.

Verði ekki fallist á að krafan sé fyrnd byggir stefnandi á því að krafan sé fallin niður vegna tómlætis.  Stefndi hafi ekki haldið fram kröfunni um margra ára skeið og bendir stefnandi á að á sama tíma hafi stefndi verið að knýja á um greiðslu mun yngri skulda.   Stefnda hafi ítrekað gefist tilefni og tækifæri til þess að knýja á um greiðslu þessarar kröfu en því ekki verið sinnt.  Tómlæti stefnda hafi þau réttaráhrif að réttindi, sem hann annars hefði haft, séu niður fallin í samræmi við almennar reglur kröfu­réttarins. 

Þá byggir stefnandi á því, að eins og á stóð, hafi stefnda verið óheimilt að krefja um greiðsluna. Stefnandi bendir á í því sambandi að hann hafi leitað til stefnda í árs­lok 1997 í þeim tilgangi að gera upp öll ógreidd opinber gjöld, sem hann skuldaði á þeim tíma.  Í framhaldi af því hafi hann fengið upplýsingar um skuldastöðu sína hjá stefnda og gert upp í samræmi við það og í kjölfarið fengið yfirlýsingu um skuldleysi sitt.  Þessi yfirlýsing sé opinbert vottorð um skuldleysi stefnanda miðað við ákveðið tíma­mark.  Stefndi sé bundinn af yfirlýsingu sinni, sem gefin sé af þar til bærum em­bætt­ismanni, og þegar af þeirri ástæðu hafi verið óheimilt að gera löngu síðar kröfu um greiðslu skuldarinnar.  Byggir stefnandi á því að slíkri yfirlýsingu megi jafna við skil­yrðislausa greiðslukvittun eins og orðalag hennar beri með sér  Í þessu sambandi vekur stefnandi sérstaklega athygli á aðstöðumun aðila, annars vegar hann, sem er ein­stakl­ingur í rekstri, og hins vegar ríkið, með allar upplýsingar um skattlagningu og skatt­greiðslur.  Stefnda hafi því borið skylda til að upplýsa stefnanda um rétta skulda­stöðu þannig að hann gæti gert upp vangoldnar skuldir sínar.  Stefnandi kveður sér hafa verið rétt að treysta þessum upplýsingum og hafi þær verið rangar verði stefndi að bera ábyrgð á því tjóni sjálfur.

Varakrafa stefnanda byggist á því að ólögmætt hafi verið í þessu tilviki að krefja hann um dráttarvexti.  Dráttarvextir séu refsivextir sem heimilt sé að innheimta þegar vanskil verði á kröfu.  Í þessu máli verði stefnanda ekki kennt um vanskilin heldur megi rekja þau til mistaka af hálfu starfsmanna stefnda.  Stefnandi hafi hins vegar leitast við að gera upp allar skuldir sínar í samræmi við upplýsingar sem hann fékk frá stofn­unum stefnda.  Hann hafi síðan fengið vottorð um skuldleysi eins og að framan var rakið.  Það hafi því verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta og beri stefnda að endur­greiða þá.

Stefndi byggir á því að krafa hans vegna ársins 1996 sé ófyrnd. Hann bendir á að stefnandi hafi skilað skilagreinum fyrir það ár 24. janúar 1997.  Fram að þeim tíma hafi starfsmenn stefnda ekki vitað að stefnandi skuldaði staðgreiðslu vegna launa­greiðslna ársins 1996.  Krafan hafi því aldrei getað stofnast fyrr en þá.  Fjárnám hafi verið gert 13. mars 1997 vegna launagreiðslna fyrstu 9 mánaða ársins 1996.  Höf­uð­stóll skilagreina fyrstu 9 mánaða ársins sé sá sami og fram komi á fjárnámsendurriti.  Stefndi byggir á því að með greiðslu inn á skattskuld vegna launagreiðslna ársins 1996, 100.000 krónur sem stefnandi greiddi 9. apríl 1997, hafi hann rofið fyrningu gagn­vart launagreiðsluskuld ársins 1996, sbr. 6. gr. fyrningarlaga, þ.e. með viður­kenn­ingu kröfunnar og þá hafi hafist nýr fjögurra ára fyrningarfrestur.  Fjár­náms­beiðni hafi verið móttekin vegna eftirstöðva launagreiðslna ársins 1996 2. mars 2001 og hafi móttaka beiðninnar rofið fyrningu og þá hafist nýr fyrningarfrestur, sbr. 52. gr. að­fararlaga nr. 90/1989, en af gögnum málsins sé augljóst að gerðinni hafi verið haldið fram án ástæðulauss dráttar.  Stefndi bendir á að stefnandi hafi hvorki mótmælt fjár­námsgerðunum 13. mars 1997 né fjárnámunum 28. mars og 11. apríl 2000, sem hafi verið vegna eftirstöðva skulda ársins 1996 svo sem honum hafi verið fært að gera.  Þá hafi stefnandi ekki skotið gildi fjárnámsgerðanna fyrir dóm eins og hann hefði get­að til að fá endurskoðaða greiðsluskyldu, sbr. ákvæði aðfaralaga.  Loks bendir stefndi á að eftirstöðvar kröfunnar hafi stefnandi greitt 25. maí 2001 en í því hafi falist við­ur­kenn­ing á henni og vísar í því sambandi til 6. gr. fyrningarlaga. 

Stefndi byggir á því að hann hafi ekki sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfunnar og vísar í því sambandi til innheimtusögu hennar, sem að framan hefur verið rakin.

Stefndi byggir á því að yfirlýsingar starfsmanna hans um skuldleysi stefnanda hafi ekki tekið til skulda ársins 1996.  Stefndi byggir enn fremur á því að þessar yfir­lýs­ingar hafi ekki verið viðurkenning á allsherjar skuldleysi stefnanda við stefnda og að stefndi hafi ekki getað orðið bundinn af slíkum yfirlýsingum.   Bendir stefndi á að stefn­andi hafi skilað inn greinargerðum án greiðslu 24. janúar 1997 fyrir allt árið 1996.   Samkvæmt skýrslum sem stefnandi hafi sjálfur útbúið og undirritað hafi hann skuldað vegna launagreiðsla ársins 1996 höfuðstól að fjárhæð 368.985 krónur.  Stefn­anda hafi því hlotið að vera fyllilega ljóst að hann hafði ekki greitt kröfu vegna ársins 1996 nema að litlum hluta þegar fjárnám var gert hjá honum 13. mars 1997.   Stefn­andi, sem var í atvinnurekstri, hafi átt að gera sér grein fyrir því að hann skuldaði af­dregna staðgreiðslu launa.  Þá byggir stefndi á því að það hafi hvorki verið á valdi starfs­manna gjaldheimtunnar né tollstjóra að breyta gjaldskyldu eða veita yfirlýsingu um skuldleysi hafi það ekki verið til staðar.  Stefndi byggir á því að kvittun starfs­manna hans vegna opinberra gjalda geti ekki verið fullnaðarkvittun ef til staðar er skuld sem aðilum er kunnugt um. 

Varðandi varakröfu stefnanda, byggir stefndi á því að starfsmenn hans hafi ekki gert mistök.  Stefnandi fullnægi ekki skilyrðum 13. gr. vaxtalaga til að losna undan greiðslu­skyldu á vöxtum, enda verði stefnanda einum kennt um vanskil.  Hann hafi auk þess verið grandsamur eins og lýst hafi verið hér að framan og kveður stefndi það ekki andstætt góðri viðskiptavenju að innheimta dráttarvexti af kröfu sem þessari.

IV

Stefnandi skilaði 24. janúar 1997 til Gjaldheimtunnar í Reykjavík skilagreinum vegna launagreiðslna og tilgreindi þar fjárhæðir, er hann hafði haldið eftir af launum starfs­manna sinna á árinu 1996, en án þess að greiða þær.  Hann greiddi þær síðan 25. maí 2001 eins og að framan er rakið. 

Það er meginmálsástæða stefnanda að skuld hans við stefnda hafi verið fyrnd þegar hann greiddi hana og því beri stefnda að endurgreiða hana.  Krafa stefnanda stofn­aðist 24. janúar 1997 þegar stefnandi skilaði skilagreinunum.  Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði fjárnám í bifreið stefnanda 13. mars 1997 til tryggingar umræddri skuld og hófst þá nýr fyrningarfrestur.  Ekki varð af sölu bifreiðarinnar, þrátt fyrir beiðni þar um, og verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en sýslumaður hafi fellt beiðn­ina niður  með vísun til 1. mgr. 60. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1989.  Toll­stjóri krafðist aftur fjárnáms hjá stefnanda vegna skuldarinnar og var beiðni um það mót­tekin af sýslumanninum í Kópavogi 2. mars 2001.  Krafan á hendur stefnanda var þá ófyrnd, sbr. 3. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905, og við móttöku beiðninnar hófst nýr fyrningarfrestur, sbr. 52. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.  Samkvæmt þessu var krafan ófyrnd þegar stefnandi greiddi hana og er þessari málsástæðu hans hafnað.

Um skattkröfur gilda ákvæði settra laga en ekki almennar óskráðar reglur kröfu­rétt­arins.  Það er því ekki fallist á það með stefnanda að krafan á hendur honum hafi fallið niður fyrir tómlæti, enda var hún ófyrnd, sbr. framanritað.

Eins og að framan var rakið var stefnandi atvinnurekandi á árinu 1996 og hafði menn í vinnu.  Honum bar því í samræmi við ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að reikna staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna sinna og skila til innheimtumanns ríkissjóðs.  Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. tilvitnaðra laga átti stefnandi að gera þetta ótilkvaddur og hafði til þessa ákveðna fresti sam­kvæmt ákvæðum laganna.  Stefnandi skilaði inn skilagreinum, eins og áður sagði, en greiddi ekki staðgreiðsluna, sem hann hefur þó væntanlega haldið eftir af launum starfs­manna sinna.  Engum átti því að vera betur ljóst en stefnanda að hann hafði ekki greitt þessi gjöld til innheimtumanns ríkissjóðs, enda er því ekki haldið fram af hans hálfu að hann hafi nokkurn tíma greitt gjöldin.  Það er því útilokað annað en stefnanda hafi verið ljóst að vottorð innheimtumanna stefnda um skuldleysi hans voru röng, auk þess sem þá brast vald til að gefa stefnanda eftir opinber gjöld hans.  Með vísun til þessa og þess, sem að framan sagði um gildi almennra reglna kröfuréttarins á þessu sviði, er því hafnað að vottorðin séu skuldbindandi fyrir stefnda á þann hátt sem stefn­andi heldur fram.

Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi verið grandsamur um skuld sína við stefnda og verður því einnig að hafna varakröfu hans um end­ur­greiðslu dráttarvaxta. 

Samkvæmt öllu framanrituðu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda en máls­kostn­aður þykir mega falla niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Andrésar Freys Gísla­sonar, en málskostnaður skal falla niður.