Print

Mál nr. 501/1998

Lykilorð
  • Vinnusamningur
  • Uppsögn

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 20. maí 1999.

Nr. 501/1998.

Íslandia og Bolur ehf.

(Jakob R. Möller hrl.)

gegn

Lovísu Sigurjónsdóttur

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Vinnusamningur. Uppsögn.

L var vikið fyrirvaralaust úr starfi hjá Í þar sem að hún hafði ásamt öðrum starfmanni fyrirtækisins fest kaup á prentvél og tekið á leigu húsnæði í því skyni að hefja sams konar rekstur og Í stundaði og stofnað félag um þessa starfsemi. Talið var að undirbúningur L að því að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri, sem hún leyndi Í, hafi verið ósamrýmanlegur þeim trúnaðarskyldum sem hún bar gagnvart vinnuveitanda sínum. Því var talið að Í hefði verið heimilt að víkja L úr starfi án viðvörunar eða fyrirvara og var Í sýknaður af kröfum L um laun í uppsagnarfresti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. desember 1998 og krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að stefndu var vikið fyrirvaralaust úr starfi hjá áfrýjanda í október 1997, svo sem rakið er í héraðsdómi. Af hálfu áfrýjanda er atvikum lýst svo, að hinn 8. eða 9. þess mánaðar hafi forráðamönnum félagsins borist vitneskja um að stefnda og annar starfsmaður áfrýjanda hafi fest kaup á prentvél í því skyni að hefja sams konar rekstur og áfrýjandi stundaði og í samkeppni við hann. Hafi þau jafnframt leigt húsnæði, þar sem vélin var geymd. Hinn 10. október 1997 hafi forráðamönnum áfrýjanda síðan orðið kunnugt um við lestur Lögbirtingablaðs, að starfsmennirnir hefðu stofnað félagið Aragon sf. um þessa starfsemi. Af þessum sökum hafi hinum síðastnefndu verið sagt upp störfum degi síðar, sem staðfest hafi verið með bréfi 15. sama mánaðar. Er hluti bréfsins tekinn upp orðréttur í héraðsdómi.

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því, að samkvæmt ólögfestum reglum íslensks réttar felist í trúnaðarskyldu starfsmanns bann við því að taka upp samkeppni við vinnuveitanda sinn. Sú háttsemi stefndu að stofna með öðrum félag, sem ætlað var að keppa við áfrýjanda meðan ráðningarsamband stóð, hafi falið í sér brot á trúnaðarskyldu og réttlætt uppsögn án fyrirvara eða aðvörunar. Af hálfu stefndu er því hins vegar mótmælt að gerðir hennar hafi falið í sér nokkurt brot á trúnaðarskyldu. Hún og samstarfsmaður hennar hafi að vísu verið búin að gera upp við sig að þau ætluðu ekki að starfa um alla framtíð hjá áfrýjanda. Undirbúningur að sjálfstæðum rekstri hafi hins vegar verið skammt á veg kominn og einungis verið keypt ein vél af fleiri, sem til þurfti, þegar áfrýjandi hafi með ólögmætum hætti sagt henni upp störfum. 

Meðal málsgagna eru tveir reikningar Aragon sf. til viðskiptamanns félagsins, sem dagsettir eru 20. nóvember 1997. Kveður stefnda þessa reikninga vera hina fyrstu, sem viðskiptamönnum hins nýja félags hafi verið gerðir fyrir selda þjónustu.

II.

Meðan stefnda vann að því að koma á fót sjálfstæðum atvinnurekstri í samkeppni við áfrýjanda var enn í gildi vinnusamningur með málsaðilum, sem hvorugur hafði sagt upp. Leyndi stefnda áformum sínum og markvissum gerðum, sem að þessu miðuðu. Sú háttsemi hennar, sem hér um ræðir, var ósamrýmanleg þeim trúnaðarskyldum, sem hún bar gagnvart vinnuveitanda sínum. Að þessu virtu verður fallist á með áfrýjanda að honum hafi verið heimilt að víkja stefndu úr starfi án aðvörunar eða fyrirvara. Verður sýknukrafa áfrýjanda samkvæmt því tekin til greina. Skal stefnda jafnframt greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Íslandia og Bolur ehf., er sýkn af kröfum stefndu, Lovísu Sigurjónsdóttur.

Stefnda greiði áfrýjanda samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 30. október 1998.

Ár 1998, föstudaginn 30. október, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Gunnari Aðalsteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. E-382/1998: Lovísa Sigurjónsdóttir gegn Islandia og Boli ehf.

Mál þetta var þingfest 28. apríl 1998 og tekið til dóms 28. október síðast liðinn. Stefnandi er Lovísa Sigurjónsdóttir, kt. 120764-2259, Laugavegi 49 Reykjavík. Stefndi er Íslandia og Bolur ehf., kt. 620987-1909, Smiðjuvegi 10, Kópavogi.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu 555.438 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1997 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

I.

Starfsemi stefnda er m.a. fólgin í að prenta merki og ýmsar áletranir á boli. Tækjakostur hans er tölva, framköllunartæki, prentvél og þurrkari til þess að þurrka bolina. Í stórum dráttum er vinnuferlið þannig að viðskiptavinurinn kemur með merki eða tölvudisk til stefnda. Áletrunin eða merkið er skannað inn á tölvuna, lagfært og e.t.v. litað, síðan prentað út á filmu og loks prentað á bol í sérstakri prentvél.

Stefnandi hafði unnið í um fimm ár hjá stefnda þegar henni var sagt upp störfum ásamt vitninu Erni Sævari Hilmarssyni, kt. 050877-3969, sem starfaði við tölvuna. Stefnandi vann við prentvélina. Óumdeilt er að ástæða uppsagnarinnar var sú að stefnandi og Örn Sævar höfðu stofnað fyrirtækið Aragon sf., sem skyldi hafa sömu starfsemi og stefndi.

Fyrir dómi kom fram hjá forsvarsmönnum stefnda, þeim Ástu Jóhannsdóttur, kt. 030250-4359 og Bjarna Jóhannessyni, kt. 241146-3759, að ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að stefnandi og Örn Sævar voru komin í samkeppni við stefnda. Sagði Bjarni hafa frétt að þau væru komin með tæki til prentunar í bílskúr úti í bæ. Hafi hann samstundis sent þau heim þegar hann frétti það og sagt þeim upp störfum stuttu síðar þegar hann las í Lögbirtingablaði að þau höfðu stofnað fyrirtæki í samskonar rekstri. Í bréfi stefnda til stefnanda 15. október 1997 segir m.a.: ,,Þar með braust þú gróflega gegn trúnaðarskyldu þinni og vegna stöðu þinnar kom ekki annað til greina en að segja þér upp störfum. Var það gert munnlega 11. okt. sl. og staðfestist það hér með. Þar sem þú ert í samkeppni við fyrirtækið falla launagreiðslur í uppsagnarfresti niður.”

II.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að henni hafi verið sagt upp störfum án fyrirvara og með ólögmætum hætti. Engar gildar ástæður hafi verið færðar fram fyrir uppsögninni. Stefnandi mótmælir því að hún hafi brotið trúnaðarskyldu gagnvart stefnda. Stefnandi hafi ekki haft aðgang að trúnaðarupplýsingum fyrirtækisins enda óbreyttur starfsmaður. Stefnandi heldur því fram að engin starfsemi hafi verið farin í gang hjá Aragon sf. þegar henni var sagt upp störfum. Starfsemi hafi ekki byrjað fyrr en um einum mánuð eftir uppsögn.

Laun stefnanda voru 130.875 krónur á mánuði. Hún sundurliðar kröfu sína þannig:

1. Laun fyrir hálfan október 1997

kr. 65.438,00

2. Laun í þrjá mánuði.

kr. 392.625,00

3. Oftekið af launum í október 1997

kr. 48.790,00

4. Orlof 10,17% á ógreidd laun

kr. 46.585,00

Samtals

kr. 555.438,00

Stefndi reisir kröfu sýna um sýknu á því að stefnandi hafi brotið trúnað við sig með því að stofna fyrirtæki í samkeppni við stefnda meðan stefnandi var á launum hjá stefnda. Uppsögn sé því réttmæt og leiði af eðli máls.

III.

Eins og framan er rakið sagði stefndi stefnanda upp störfum án fyrirvara. Ástæða uppsagnarinnar var sú að stefnandi var að hefja rekstur eigin fyrirtækis á sama sviði og stefndi og í samkeppni við stefnda.

Við aðalmeðferð féll stefndi frá varakröfu sinni um lækkun stefnukrafna. Kröfur stefnanda hafa ekki sætt tölulegum andmælum og ágreiningslaust er að stefnandi hafði áunnið sér þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur og vinnuveitenda. Í máli þessu er því einungis til úrlausnar hvort stefnandi vanefndi ráðningasamning sinn svo verulega að það réttlæti uppsögn án fyrirvara og án bóta.

Í vinnusambandi aðila var gagnkvæmur þriggja mánaða uppsagnarfrestur, sem báðum aðilum bar að virða. Þau skilyrði geta þó skapast að atvinnurekandi hafi fullan rétt til þess að segja starfsmanni upp á stundinni. Atvinnurekanda ber eftir sem áður að greiða starfmanni bætur sem samsvara launum í uppsagnarfresti. Brottrekstur án fyrirvara og bótalaust á því aðeins rétt á sér ef starfsmaður hefur vanefnt ráðningarsamning verulega og atvinnurekandi hefur aðvarað starfsmann áður.

Í íslenskum rétti eru engar takmarkanir settar við því að starfsmaður fyrirtækis setji á stofn annað fyrirtæki í samskonar rekstri. Í munnlegum ráðningarsamningi stefnanda komu slíkar takmarkanir ekki til tals. Stefnandi hafði ekki heldur aðgang að neinum trúnaðarupplýsingum eða atvinnuleyndarmálum í starfsemi stefnanda, heldur var hún aðeins ein af almennum starfsmönnum fyrirtækisins. Verður því talið að ekki hafi verið sýnt fram á neitt það sem réttlætt geti fyrirvaralausa og bótalausa uppsögn án aðvörunar. Verða því dómkröfur teknar til greina að öllu leyti og stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur. Ekki er þá tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt. Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Íslandia og Bolur ehf., greiði stefnanda, Lovísu Sigurjónsdóttur, 555.438 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 1. nóvember 1997 til greiðsludags og 100.000 krónur í málskostnað.