Print

Mál nr. 298/2011

Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Tilkynning
  • Gjafsókn

                                     

Fimmtudaginn 26. janúar 2012.

Nr. 298/2011.

Sigurborg Fuglö Hlöðversdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Nesfiski ehf.

(Valgeir Pálsson hrl.)

Skaðabætur. Vinnuslys. Líkamstjón. Tilkynning. Gjafsókn.

S krafði N ehf. um bætur vegna afleiðinga slyss sem hún kvaðst hafa orðið fyrir við fiskverkun hjá félaginu. Í dómi Hæstaréttar kom m.a. fram að S hafi leitt líkur að því hún hafi meiðst við vinnu sína hjá N ehf. en á hinn bóginn ekki fært fram nein gögn um að hún hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni er rekja mætti til saknæmrar háttsemi félagsins eða starfsmanna þess. Þegar litið væri til þess tíma er leið frá atvikinu og þar til S skýrði N ehf. og T hf. frá slysinu var ekki talið að vanræksla N ehf. að sinna ekki lögboðinni skyldu sinni til að tilkynna slysið ylli því að skaðabótaskylda yrði felld á það.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2011. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.615.638 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 29. apríl 2006 til 29. apríl 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Tryggingamiðstöðinni hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi reisir skaðabótakröfu sína á hendur stefnda á afleiðingum slyss sem hún kveðst hafa orðið fyrir við fiskverkun hjá honum laugardaginn 15. janúar 2000. Fyrir dómi lýsti áfrýjandi slysinu á þá leið að hún hafi staðið við söltunarvél þegar lyftari í eigu stefnda hafi komið akandi. „Lyftarinn er að koma með nýtt kar og hann rennur með karið – hvort sem hann rennur á slori eða eitthvað, ég er ekki klár á því. Hann rennur og ég lendi á milli söltunarkersins og söltunarvélarinnar. Ég finn fljótlega til með verki og fer heim, ég átta mig ekki þannig á þessu, ég bara fór heim.“ Aðspurð hvort hún hafi látið einhvern vita á vinnustaðnum svaraði hún: „Mjög trúlega hef ég látið verkstjórann vita þegar ég fór, ég reikna fastlega með því.“ Árni Hrannar Hrólfsson undirritaði yfirlýsingu 28. mars 2008, þar sem hann lýsti því yfir að hann hafi séð slysið sem áfrýjandi hafi orðið fyrir í umrætt skipti. Hafi það viljað til með þeim hætti að eitt sinn þegar skipt var á körum „keyrði lyftaramaðurinn karið of langt og Sigurborg klemmdist á milli karsins og söltunarvélar.“ Árni kom sem vitni fyrir dóm og staðfesti yfirlýsinguna. Spurður af héraðsdómara hvort hann myndi atvikið vel sagðist hann ekki muna annað en að ekið hafi verið á áfrýjanda og hún klemmst þarna á milli. Kvaðst Árni ekki muna eftir hvað hafi gerst í framhaldi af slysinu, en aðstoðarverkstjóri stefnda hafi komið, að hann héldi, og verið látinn vita af þessu.

Tveimur dögum eftir það atvik, sem að framan greinir, mánudaginn 17. janúar 2000, varð áfrýjandi fyrir slysi. Samkvæmt skýrslu hennar fyrir dómi rann hún í þetta skipti fram á við á sama stað og áður segir og varð við það „svakalega aum í vinstri síðunni“, auk þess sem hún kvaðst ekki vera búin að jafna sig ennþá. Eftir slysið sagði hún að sér hafi verið ekið á sjúkrahús og sá, sem keyrði hana, hafi látið vita af því. Læknisvottorð 25. janúar 2000 bar með sér að áfrýjandi væri óvinnufær af völdum slyss 17. sama mánaðar. Samkvæmt  læknisvottorði 24. febrúar 2000 var hún enn óvinnufær vegna slyss sem átt hafði sér stað 17. janúar og var tilgreint sem vinnuslys. Í þessu síðara vottorði var slysinu og afleiðingum þess lýst svo: „Datt í vinnu. Marðist illa á baki.“ Fyrir liggja í málinu upplýsingar sem færðar hafa verið í sjúkraskrá áfrýjanda hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um heilsufar hennar á árunum 1999 til 2005. Þar er nokkrum sinnum á árunum 2000 og 2001 minnst á slys sem hún hafi orðið fyrir 17. janúar 2000. Í færslu 15. mars 2001 kemur til dæmis fram að áfrýjandi hafi komið vegna óþæginda frá baki eftir að hafa meiðst við vinnu umræddan dag þegar hún hafi dottið yfir fiskikar og fengið hnykk á sig.

Af gögnum málsins verður ráðið að það hafi fyrst verið vorið 2005 að réttargæslustefnda var tilkynnt um slysið 15. janúar 2000 af hálfu áfrýjanda. Hinn 17. nóvember 2005 var stefnda síðan sent bréf, þar sem slysinu var lýst með þeim hætti, sem áður greinir, og hann  krafinn um upplýsingar um það. Heldur stefndi því fram að engum starfsmanni fyrirtækisins hafi verið kunnugt um þetta slys áfrýjanda. Þá hefur Þorsteinn E. Þorsteinsson, verkstjóri hjá stefnda, neitað því fyrir dómi að slysið hafi verið tilkynnt honum umræddan dag, en hann hafi frétt af því síðar. Áfrýjandi hafi hins vegar skilað stefnda læknisvottorðum. Ennfremur liggur fyrir í málinu að stefndi tilkynnti hvorki Vinnueftirliti ríkisins né Tryggingastofnun ríkisins um að áfrýjandi hafi orðið fyrir slysi við vinnu hjá honum í janúar 2000. Var því haldið fram af hálfu áfrýjanda við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að þessi vanræksla stefnda ætti að leiða til þess að við úrlausn málsins yrði lögð til grundvallar sú staðhæfing hennar að hún hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni 15. janúar 2000 sem stefndi beri bótaábyrgð á.

II

Sú meginregla gildir í íslenskum rétti að sá, sem krefst skaðabóta, þarf í fyrsta lagi að sanna að hann hafi orðið fyrir fjárhagstjóni, í öðru lagi að tjónið sé vegna háttsemi, sem sé skaðabótaskyld að lögum, og loks í þriðja lagi að tjónið sé afleiðing af þeirri háttsemi. Í samræmi við þetta verður almennt að leggja þá skyldu á herðar þeim, sem verður fyrir slysi við vinnu, að hann láti vinnuveitanda vita svo fljótt sem kostur er af slysinu og afleiðingum þess svo að honum sé unnt að bregðast við sem fyrst.

Eins og rakið er að framan er sú staðhæfing áfrýjanda, að hún hafi orðið fyrir slysi 15. janúar 2000 við það að klemmast milli kars og söltunarvélar af völdum lyftara, studd framburði eins vitnis auk frásagnar hennar sjálfrar. Lýsing þeirra beggja af þessu atviki er þó óljós, þar á meðal verður hvorki ráðið af henni hvort stjórnandi lyftarans hafi sýnt af sér gáleysi né hvort áfrýjandi hafi hlotið teljandi áverka umrætt sinn. Þótt ekki sé dregið í efa að hún hafi hætt störfum þennan dag, sem var laugardagur, mætti hún að nýju til vinnu á mánudegi þegar hún varð, að eigin sögn, fyrir slysi öðru sinni. Ekki er um það deilt að áfrýjandi slasaðist þann dag, 17. janúar 2000, við vinnu hjá stefnda. Einnig telst sannað að stefndi hafi fengið vitneskju um slysið skömmu eftir að það átti sér stað, en í kjölfarið varð áfrýjandi óvinnufær um nokkurra vikna skeið. Samkvæmt því var stefnda skylt að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins og Tryggingastofnunar ríkisins eða umboðsmanns hennar samkvæmt reglum nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa, sbr. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og 1. mgr. 23. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, sem þá giltu.

Samkvæmt framansögðu hefur áfrýjandi leitt líkur að því að hún hafi meiðst af völdum lyftara við vinnu sína hjá stefnda 15. janúar 2000. Á hinn bóginn hefur hún ekki fært fram nein gögn um það, ef frá er talinn framburður hennar sjálfrar, að við þetta hafi hún orðið fyrir  varanlegu líkamstjóni er rekja megi til saknæmrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans. Þegar litið er til þess að rúm fimm ár liðu frá þeim atvikum, sem áður greinir, og þar til áfrýjandi skýrði stefnda og réttargæslustefnda frá því að hún hefði orðið fyrir slysi umræddan dag verður ekki talið að sú vanræksla stefnda, að sinna ekki lögboðinni skyldu sinni til að tilkynna slysið 17. janúar 2000, valdi því að skaðabótaskylda verði felld á hann vegna þess atviks sem bótakrafa áfrýjanda er reist á. Samkvæmt því verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Með hliðsjón af málsatvikum er rétt að málskostnaður falli niður fyrir Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. febrúar 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. febrúar síðastliðinn, var höfðað 23. apríl 2010 af Sigurborgu Fuglö Hlöðversdóttur, Suðurgötu 24, Sandgerði, gegn Nesfiski ehf., Gerðavegi 32, Garði, og til réttargæslu Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykja­­vík.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni 2.615.638  krónur með 4,5% ársvöxtum frá 29. apríl 2006 til 29. apríl 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. maí 2010 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjaf­sóknarmál og að tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu eftir mati dómsins. 

Engar kröfur eru gerðar í málinu á hendur réttargæslustefnda og af hans hálfu eru ekki gerðar kröfur.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi lýsir því að 15. janúar 2000 hafi hún verið í vinnu sinni við fiskverkun hjá stefnda. Hún hafi staðið við söltunarvél og snúið baki í hana þegar lyftari hafi skyndilega komið með tómt fiskikar sem hafi verið ætlunin að setja fyrir framan vélina. Lyftaranum hafi verið ekið allt of hratt og ekki hafi tekist að stöðva hann í tæka tíð með þeim afleiðingum að hann hafi klemmt stefnanda milli karsins og söltunar­­vélarinnar. Stefnandi kveðst hafa fundið mikið til í síðunni. Hún hafi farið heim úr vinnu stuttu eftir atvikið en komið aftur til vinnu 17. janúar. Þann dag hafi hún dottið í vinnunni og hafi vinnufélagi hennar ekið henni á Heibrigðisstofnun Suður­nesja.

Stefnandi krefst skaðabóta úr höndum stefnda vegna líkamstjóns sem hún kveðst hafa orðið fyrir vegna vinnuslyssins 15. janúar 2000.

Í málinu er deilt um það hvort atvik hafi orðið með þeim hætti sem stefnandi lýsir 15. janúar 2000. Stefnandi vísar til þess að annar starfsmaður stefnda hafi séð þegar hún klemmdist á milli karsins og söltunarvélarinnar og hafi hann lýst því með yfir­lýsingu, sem hann hafi gefið, og með framburði sínum fyrir dóminum. Af hálfu stefnda er því andmælt að til bótaskyldu hafi stofnast á hendur honum. Vísað er til þess af hálfu stefnda að engar upplýs­ingar liggi fyrir í málinu um að fyrirsvarsmönnum stefnda eða öðrum starfsmönnum hafi verið kunnugt um hið meinta slys fyrr en löngu síðar.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til atviksins 15. janúar 2000 þegar hún klemmdist á milli fiskikarsins og söltunar­vélarinnar. Lýsing stefnanda á tildrögum slyssins sé staðfest með yfirlýsingu og framburði Árna Hrólfssonar fyrir dóminum, en hann hafi verið vitni að slysinu. Stefnandi kveðst strax hafa fundið til í baki og stuttu síðar farið heim vegna þess. Hún hafi verið óvinnufær í kjölfarið og ekki komist til vinnu daginn eftir vegna eymsla frá baki. Hún hafi svo lent í öðru slysi tveimur dögum síðar þegar hún mætti aftur til vinnu 17. janúar en þá hafi einkennin eftir fyrra slysið ýfst upp. Í kjölfarið hafi hún svo leitað á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og þar hafi hún fengið vottorð til vinnuveitanda um óvinnufærni vegna vinnuslyss.

Í kjölfar slyssins hafi stefnandi verið með stöðuga verki við mót mjóhryggjar og spjaldhryggjar sem hafi versnað við allt álag og hreyfingar. Þá hafi hún fundið fyrir verkjum í brjósthrygg og hálsi. Hún hafi áfram fundið fyrir þessum einkennum og því hafi hún farið í sjúkraþjálfun sem borið hafi nokkurn árangur. Sjúkraþjálfuninni hafi lokið 11. maí 2001. Áfram hafi stefnandi þó fundið fyrir afleiðingum slyssins, en hún hafi harkað af sér og unnið með hléum. Einnig hafi hún verið í fæðingarorlofi og hafi henni þá liðið betur. Þegar einkennin versnuðu hafi hún leitað til Sigurjóns Sigurðs­sonar bæklunarlæknis, eins og fram komi í vottorði hans 11. október 2005.

Erfiðlega hafi gengið að afla upplýsinga frá stefnda, Nesfiski ehf., um slys stefnanda. Ekki hafi verið kallað á Vinnueftirlitið vegna slyssins og samstarfsmenn stefnda hefðu verið hættir í vinnu hjá honum og munað illa eftir atvikinu. Um síðir hafi tekist að hafa upp á Árna Hrólfssyni, sem hafi verið vitni að vinnuslysinu. Þegar matsgerð hafi loks legið fyrir hafi stefndu neitað endanlega greiðsluskyldu en hefðu áður fallið frá því að bera fyrir sig fyrningu. 

Stefnandi og réttargæslustefndi hafi í sameiningu falið Halldóri Baldurssyni bæklunarlækni og Ingvari Sveinbjörnssyni hrl. að meta afleiðingar vinnuslyssins. Í matsgerð þeirra 4. mars 2010 hafi niðurstöður verið þær að tímabundin óvinnufærni stefnanda vegna slyssins væri að fullu 15. og 16. janúar 2000 og að hálfu frá 17. janúar til 29. febrúar sama ár. Þá hafi matsmenn talið að þjáningartímabil stefnanda væri frá 15. janúar til 29. febrúar s.á. Varanlegur miski hafi verið metinn 7,5 stig og varanleg örorka 7,5%.

Vinnuveitandi stefnanda hafi verið stefndi, Nesfiskur ehf., þegar slysið átti sér stað. Stefndi hafi haft ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, Trygginga­mið­stöðinni hf., á slysdegi. Stefnandi telji vinnuveitanda sinn bera ábyrgð á slysinu á grundvelli sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Stefndi og réttar­gæslu­stefndi hafi ekki viðurkennt bótaskyldu vegna slyssins og hafi stefnandi höfðað málið til greiðslu bóta vegna líkamstjónsins sem hún hafi hlotið í kjölfar þe­ss.

Um bótagrundvöll dómkröfu stefnanda sé byggt á sakarreglunni (hinni almennu skaðabótareglu), reglunni um vinnuveitandaábyrgð og ströngum bótareglum um skaða­bóta­ábyrgð vegna hættulegs vinnuumhverfis. Krafa stefnanda byggist á því að stefndu beri ábyrgð á líkamstjóni stefnanda. Líkamstjón stefnanda sé afleiðing af sak­næmri og ólögmætri háttsemi stefnda.

Sök stjórnanda lyftarans, starfsmanns stefnda, sem ekið hafi á stefnanda með lyftara, sé augljós. Á því beri stefndi ábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitanda­ábyrgð. Stjórnendur ökutækja, þar með talið lyftara, beri ríka ábyrgð á því að ekki hljótist slys af þeim sérstöku hættueiginleikum sem fylgi umferð vél­knúinna ökutækja. Þessir hættulegu eiginleikar, sem óhjákvæmilega fylgi notkun ökutækja, væru megin­orsök þess að löggjafinn hafi mælt fyrir um það í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 að tjón, sem hljótist af notkun skráningarskylds vélknúins ökutækis, skuli bæta án tillits til sakar ökumannsins. Þar sé kveðið á um hlutlæga ábyrgð, þ.e. að sá sem ábyrgð beri á ökutækinu skuli bæta það tjón sem af því hljótist án tillits til þess hvort hann hafi orðið uppvís að saknæmri háttsemi. Að vísu taki lagaákvæðið ekki til lyftara þar sem slík ökutæki séu ekki skráningarskyld í skilningi greinarinnar. Samt sem áður sé ábyrgðin ströng sakarábyrgð vegna hættueiginleika ökutækisins.

Stjórnanda lyftarans hafi mátt vera ljóst að mikið tjón gæti hlotist af því að aka tækinu hratt við þessar aðstæður. Aðrir starfsmenn hafi verið að vinna við söltunar­vélina. Stjórnandanum hafi því borið að sýna sérstaka aðgæslu, enda hafi gólf fisk­vinnslu­hússins verið blautt og hált, eins og jafnan sé í slíkum húsum. Þar að auki hafi aðstæðum á vinnustaðnum verið háttað á þann veg að stjórnandinn hafi þurft að keyra um á sama svæði og aðrir starfsmenn hafi gengið um og þeir hafi staðið á. Honum hafi því borið að fara sérstaklega varlega. Ábyrgð ökumanns lyftarans sé sérstaklega rík því að hann hafi ekið rafmagns­lyftara sem hafi liðið áfram nær hljóðlaust. Þess vegna hafi verið mjög erfitt fyrir starfsmenn að vara sig á honum. Ökumaður lyftarans hafi sýnt af sér gáleysi þegar hann ók á stefnanda og sé það orsök vinnuslyssins. Stefndi beri því ábyrgð samkvæmt reglunni um vinnuveitanda­ábyrgð á saknæmri og ólögmætri háttsemi starfsmanns síns.

Stefndi beri auk þess ábyrgð á ófullnægjandi vinnuaðstöðu og skorti á verklags­reglum. Saknæm háttsemi stefnda felist einnig í því að hann hafi brotið gegn settum réttarreglum um aðbúnað og öryggi á vinnustað sínum. Í lögum um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum nr. 46/1980 séu ítarlegar hátternisreglur um aðbúnað á vinnustöðum. Með 13. gr. og 42. gr. sé sú skylda lögð á atvinnurekanda að tryggja að vinnustaður sé þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis. Af lögunum og reglum settum samkvæmt þeim sé ljóst að strangar skyldur hvíli á atvinnurekendum um að gæta að öryggi og hafa eftirlit með starfsmönnum sínum. Atvinnurekendur beri höfuðábyrgð á því vinnuumhverfi sem þeir búi starfsmönnum sínum og því hvernig vinnan sé framkvæmd. Ef vinnuveitandi vanræki að gefa starfsmönnum sínum fyrir­mæli um rétt vinnubrögð og gæta fyllsta öryggis þá sé það á hans ábyrgð, enda mun nær að vinnuveitandi beri tjónið en sá starfsmaður hans sem verði fyrir slysi.

Í 1. mgr. 46. gr. laganna sé kveðið á um að vélar, tæki og annar búnaður skuli vera þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Þá segir í 2. mgr. sömu lagagreinar að fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Á þessum grundvelli hafi verið sett reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Þar komi fram lágmarkskröfur um öryggi og hollustu þegar starfs­menn noti tæki á vinnustöðum. Í 2. gr. II. viðauka reglugerðarinnar segi m.a. að ef tæki sé á ferð á vinnusvæði þurfi að setja viðeigandi ökureglur og fylgja þeim. Gera skuli ráðstafanir til að skipuleggja vinnu þannig að gangandi starfsmenn séu ekki á ferli inni á svæði þar sem sjálfknúin tæki eru notuð og að gerðar skuli viðeigandi ráð­stafanir til að koma í veg fyrir að gangandi starfsmenn, sem þurfi að koma þar að, hljóti skaða af tækinu. Ekkert liggi fyrir um að stefndi hafi reynt að gera viðeigandi ráðstafanir til að skipuleggja vinnuaðstöðu eða setja ökureglur þannig að ekki skapaðist hætta af umferð lyftarans. Þvert á móti virtust engar reglur hafa verið um umferð lyftarans og vinnuaðstaða starfsmanna hafi verið þannig að hætta skapaðist af.

Í reglugerð um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995 séu þessar skyldur atvinnu­rekanda ítrekaðar. Í grein 3.2. segi m.a. að vinnurými skuli skipulagt með hliðsjón af því starfi sem þar eigi að framkvæma. Allar umferðarleiðir manna og flutningstækja skuli vera greiðar og afmarkaðar. Vinnurýmið hafi ekki verið skipulagt af hálfu stefnda með hliðsjón af því að afmarka umferðarleiðir. Ef slíkt skipulag hefði verið fyrir hendi á slysdegi og skýrir verkferlar á vinnustaðnum hefði mátt koma í veg fyrir slysið. Öryggisreglur hafi verið brotnar þegar slysið átti sér stað. Það hafi leitt til vinnu­slyss stefnanda sem vinnuveitandi hennar beri því skaðabótaábyrgð á.

Stefndi verði að bera hallann af skorti á rannsókn á slysinu og tildrögum þess.  Samkvæmt 79. gr. laga nr. 46/1980 hvíli skýr lagaskylda á stefnda að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um vinnuslys. Slysið hafi hvorki verið rannsakað af hálfu Vinnu­eftirlitsins né lögreglu. Það sé viðurkennd venja fyrir því að dómstólar skýri vafa um málsatvik þeim í óhag, sem nær hafi staðið að rannsaka og upplýsa málsatvik. Þeirri reglu sé beitt af Hæstarétti um vinnuslys að vinnuveitandi, sem beri skylda til að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins, verði að bera hallann af því að tildrög slyss séu óljós, sérstaklega ef rannsókn á slysinu hefði getað leitt slík atriði í ljós. Þar sem stefndi hafi ekki sinnt þessari lagaskyldu hafi ekki verið hægt að tryggja sönnun.

Um bótafjárhæðir vísi stefnandi til þess að aðilar málsins hafi staðið sameiginlega að matsbeiðni til Halldórs Baldurssonar bæklunarlæknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. um að meta afleiðingar vinnuslyssins. Neðangreind kröfugerð taki mið af niður­stöðum matsgerðar þeirra frá 4. mars 2010 og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Miðað sé við lánskjaravísitölu fyrir eldri fjárskuldbindingar, sbr. 15. gr. skaðabóta­laga, fyrir mars 2010, 7045.

Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga reiknist þannig: Matsmenn telji að stefnandi hafi verið veik í 45 daga. Krafa hennar vegna þjáningabóta sé því 45 x 1.500  = 67.500 krónur.

Varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga reiknist þannig: Varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins sé metinn 7,5 stig. Krafan vegna varanlegs miska sé því 7,5% x 8.586.000 = 643.950 krónur.

Varanleg örorka samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga sé metin 7,5%. Miðað sé við lágmarksárslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna, 1.490.500 krónur. Stöðugleika­tíma­punktur sé 11. maí 2001. Stefnandi hafi verið 21 árs og 55 daga gömul á stöðugleikatímapunkti. Margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga sé því 55/365 af mismuninum á margföldunarstuðli 21 árs manns og 22 ára manns. Stuðullinn sé því 17,034 (17,106 - 16,626 = 0,48 x 55/365 = 0,072. 17,106 - 0,072 = 17,034). Vegna þessa þáttar sé því krafist 1.490.500 x 17,034 x 7,5% = 1.904.188 króna.

Krafan sé því þannig:

Þjáningabætur

67.500 krónur

Bætur vegna varanlegs miska

643.950 krónur

Bætur vegna varanlegrar örorku

1.904.188 krónur

                                                                                 

Samtals                                                       

2.615.638  krónur

Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga og 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Vaxta sé krafist frá 29. apríl 2006 til þingfestingar stefnu, en dráttarvaxta frá mánuði eftir að stefna í málinu var þingfest samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Þá hafi legið fyrir öll gögn, sem stefndu hafi þurft til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta vegna tjóns stefnanda.

Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutnings­þóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að ágreiningur málsins snúist um það hvort talið verði sannað að stefnandi hafi slasast 15. janúar 2000 í starfi hjá stefnda, Nesfiski ehf., og hvort sannað sé að stefndi beri skaðabótaábyrgð á afleiðingum slyssins. Stefndi telji ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir því slysi og með þeim hætti sem stefnandi lýsi. 

Stefndi hafi ekki haft upplýsingar um hið meinta slys 15. janúar 2000 en hann hafi fyrst heyrt um það á árinu 2005 þegar meira en fimm ár voru liðin frá þeim degi sem það hafi átt að eiga sér stað. Athugað hafi verið og leitað staðfestingar á hinum meinta tjónsatburði. Í ljós hafi komið að enginn þeirra starfsmanna sem voru við vinnu 15. janúar 2000 hjá stefnda hafi getað staðfest að stefnandi hefði þá orðið fyrir slysi. Réttargæslustefndi hafi því ekki getað samþykkt bótaskyldu, sbr. bréf hans til lög­manns stefnda 29. apríl 2005. Ekkert hafi síðan gerst í máli stefnanda fyrr en 31. mars 2008, þegar réttargæslu­stefnda hafi borist frá lögmanni stefnanda yfirlýsing Árna Hrólfs­sonar sem hafi lýst því yfir 28. s.m. að hann hefði verið vitni að slysi stefnanda 15. janúar árið 2000. Réttargæslustefndi hafi þá hlutast til þess að afla upplýsinga eða staðfestingar um slysið hjá stefnda en niðurstaðan hafi orðið sú sama og áður. Réttar­gæslustefndi hafi því talið óhjákvæmilegt að hafna bótaskyldu þar sem ósannað væri að slysið hefði orðið. Bótaskyldu hafi verið hafnað með bréfi 13. janúar 2009.

Stefndi vísi til upplýsinga um slysið í læknisfræðilegum gögnum málsins. Í stefnu sé því lýst að stefnandi hafi strax fundið fyrir verkjum í baki og farið síðar úr vinnu vegna þeirra. Hún hafi ekki komist til vinnu daginn eftir en degi síðar hafi hún lent í öðru slysi. Í sjúkraskrá Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja (HSS) sé getið um komu hennar þangað 17. janúar 2000. Þess sé getið að hún hafi verið að vinna hjá Nesfiski og dottið einhvern veginn yfir fiskikar. Álitið hafi verið að hún hefði tognað í baki. Næst sé getið um komu hennar þangað 25. janúar s.á. og sagt að hún hefði meiðst við vinnu 17. janúar s.á. Í sjúkraskránni sé eftir þetta nokkrum sinnum á árunum 2000-2001 getið um slysið. Hvergi sé þar getið að um tvö slys hafi verið að ræða með dags millibili né sé þar að finna lýsingu á slysinu sem síðar hafi komið fram, þ.e. að stefnandi hafi slasast er lyftari ók á hana. Einvörðungu sé getið slyss 17. janúar er hún datt yfir fiskikar eða að stefnandi viti ekki nákvæmlega hvað gerðist. Ekki sé frekar minnst á afleiðingar slyssins í sjúkraskránni eftir 15. mars 2001.

Stefnandi hafi leitað til Sigurjóns Sigurðssonar læknis á árinu 2005, sbr. vottorð hans 11. október það ár. Þar sé fyrst í læknisfræðilegum gögnum getið slyss 15. janúar 2000 og að það hafi atvikast með þeim hætti að lyftara hefði verið ekið á stefnanda er hún var við vinnu sína hjá stefnda. Í vottorðinu sé hins vegar hvergi getið um slysið 17. janúar 2000. Stefndu hafi ekki upplýsingar um að til frekari læknisheimsókna eða meðferðar hefði komið eftir skoðun og mat Sigurjóns á árinu 2005 fyrr en réttargæslu­stefndi og lögmaður stefnanda hafi sammælst um að meta afleiðingar slyssins, sbr. matsgerð Halldórs Baldurssonar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. 4. mars 2010.

Sá sem krefjist skaðabóta vegna slyss verði að sanna að hann hafi orðið fyrir slysi, að það hafi leitt til þess tjóns sem bóta er krafist fyrir og að það megi rekja til atvika sem gagnaðilinn beri ábyrgð á með þeim hætti að bótaskyldu varði. Í málinu greini aðila á um það hvort stefnandi hafi uppfyllt sönnunarskyldu sína um þessi atriði.

Engra samtímaheimilda njóti við um slysið. Stefnandi hafi hvorki látið yfirmenn né samstarfsfólk sitt vita um það. Þess vegna hafi ekki gefist tilefni til að rannsaka vettvang og fá framburð mögulegra sjónarvotta strax eða fljótlega, sérstaklega meints tjónvalds, stjórnanda lyftarans, sem stefnandi haldi fram að hafi ekið á hana.

Læknisfræðileg frumgögn skjóti heldur engum stoðum undir málatilbúnað stefnanda. Við komur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, fyrst 17. janúar 2000, sé ekkert að finna um slys 15. janúar s.á. eða að það hafi atvikast með þeim hætti sem stefnandi byggi nú á. Einungis sé getið um slysið 17. janúar sem hafi atvikast með öðrum hætti.

Alltof langur tími hafi liðið frá hinu meinta slysi þar til stefnandi gat um það við lækni og stefndu fengu upplýsingar um að slys hefði orðið. Á árinu 2005 hafi stefndu borist upplýsingar um slysið en þar sem hvorki hafi verið hægt að staðfest tilurð þess né annað, þrátt fyrir athugun, hafi stefnanda verið tilkynnt um þá niðurstöðu.

Enn hafi árin liðið og 2008 hafi komið fram maður sem hafi sagst hafa verið vitni að slysinu. Þá hafi verið liðin þrjú ár frá því að réttargæslustefndi og stefndi upplýstu um afstöðu sína til málsins og að athugun þá hefði leitt í ljós að enginn gæti staðfest slysatilvikið eða aðdraganda þess.

Eftir að slyssins 15. janúar 2000 var getið í gögnum málsins hafi stefnandi lýst því að hún hefði fengið allslæma verki í bakið eftir slysið. Vegna slyssins 17. janúar s.á. kvaðst stefnandi hafa dottið og fengið hnykk á bak, vinstri síðu og háls.  Þessa slyss sé getið í sjúkraskrá Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Áverkanum sé lýst en einkennin séu þau sömu og einkenni annars slyss sem samtímagögn liggi fyrir um. Lýsing og greining á áverka og einkennum síðar meir geti ekki gefið nein líkindi eða verið til sönnunar á meintu slysi.  

Af sönnunargögnum málsins verði ráðið að ósannað sé að stefnandi hafi slasast við vinnu sína hjá stefnda, Nesfiski ehf., 15. janúar 2000.

Tilurð slyssins sé ekki eingöngu ósönnuð heldur einnig aðdragandi slyssins og þar með hvort stefndu beri skaðabótaábyrgð á því á grundvelli almennu sakar­reglunnar og vinnuveitandaábyrgðar. Ekki sé hlutlæg ábyrgð á slysum sem rekja megi til vinnu­tækja eins og lyftara. Ósannað sé að slys hafi orðið og að það sé að rekja til gáleysis stjórnanda lyftarans. Ekki liggi fyrir hver stjórnandinn var og þar með ekki frásögn hans. Þá njóti heldur ekki við annarra trúverðugra frásagna eða gagna um atburðinn sjálfan, akstur og stjórnun lyftarans eða aðstæður að öðru leyti.

Tilvísun stefnanda í reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja, sem grundvöll skaðabótaábyrgðar eða mat á bótaskyldu, sé haldlaus enda talið að slysið hafi átt sér stað á árinu 2000. Fullyrðing um að vinnuaðstaða hafi talist ófullnægjandi með tilliti til afmörkunar á umferðarleiðum manna og tækja sé ekki studd neinum rökum eða gögnum. Stefndi mótmæli því að hafa brotið gegn reglugerð um húsnæði vinnustaða þannig að bótaskyldu varði.

Stefnandi byggi á því að stefndi eigi að bera hallann af skorti á rannsókn á slysinu og tildrögum þess og vísi til 79. gr. laga nr. 46/1980 um það. Stefndi mótmæli þessu og telji ekki skilyrði til að skýra vafa um málsatvik stefnda í óhag. Til þess að vinnuveitandi geti sinnt tilkynningarskyldu sinni verði hann að hafa upplýsingar um slysaatburðinn og alvarleika hans. Stefnandi hafi hvorki látið yfirmenn né samstarfs­fólk sitt vita um slysið og því hafi ekki gefist tilefni til að rannsaka vettvang og orsakir þess þegar í stað. Stefnandi haldi því fram að hún hafi slasast með tilteknum hætti 17. janúar 2000 og eftir það verið óvinnufær. Þau óvinnu­færnivottorð sem borist hafi stefnda síðar hafi ekki gefið tilefni til að bregðast sérstaklega við, enda ekkert þar sem benti til að slys hefði orðið 15. janúar 2000 eða með þeim hætti sem stefandi hafi síðar lýst. Stefnandi hafi fljótlega eftir slysið látið af störfum hjá stefnda og að auki hefði mæting fyrir meint slys verið stopul. Það hafi ekki verið fyrr en löngu síðar að stefndi hafi fyrst heyrt af meintu slysi. Allt tómlæti sé því af hálfu stefnanda sem verði að bera hallann af sönnunar­skorti.

Stefndi vísi til almennra reglna um sönnun og sönnunarmat í skaðabótarétti, auk reglna um hina almennu sakarreglu og vinnuveitandaábyrgð. Málskostnaðarkrafa stefndu styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Stefnandi hefur ekki getað stutt frásögn sína af hinu meinta vinnuslysi 15. janúar 2000 öðrum gögnum en vitnisburði sjónarvotts sem lýsir því í yfirlýsingu 28. mars 2008 að hann hafi séð þegar slysið átti sér stað. Þar lýsir hann tildrögum slyssins þannig að stefnandi hafi verið við vinnu sína hjá stefnda. Hún hafi staðið við söltunarvél og hafi verið nýbúin að fylla fiskikar. Lyftari hafi verið notaður til að taka karið frá henni og koma nýju fyrir í staðinn. Eitt sinn þegar karaskipti áttu sér stað hafi lyftaramaðurinn keyrt karið of langt og hafi stefnandi klemmst á milli karsins og söltunarvélarinnar. Í skýrslu sem vitnið gaf fyrir dóminum staðfesti það framangreinda lýsingu. Vitnið kvaðst hafa verið statt um það bil metra frá þeim stað þar sem þetta gerðist. Vitnið mundi að keyrt var á stefnanda og að hún hafi klemmst á milli. Vitnið hélt að aðstoðarverkstjóri hefði komið og vitað af þessu. Karið hafi lent á lærinu á stefnanda. Lyftarastjórinn hafi strax bakkað í burtu. Vitnið kvaðst ekki vita af öðru slysi stefnanda í vinnu hjá stefnda. Verkstjóri stefnda kom einnig fyrir dóminn en hann kvaðst ekkert hafa vitað af hinu meinta vinnuslysi.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndi verði að bera hallann af sönnunar­skorti í málinu þar sem hann hafi ekki tilkynnt Vinnueftirlitinu um slysið. Forsenda fyrir því að stefndi gæti orðið við þessari skyldu er augljóslega sú að honum hafi verið kunnugt um slysið. Engin nægilega traust gögn í málinu styðja að svo hafi verið. Ályktun stefnanda, sem fram kom við munnlegan málflutning, þess efnis að stefndi hefði átt að tilkynna um slysið 17. janúar og að þá hefðu komið fram upplýsingar um slysið 15. janúar, er ekki byggð á nægilega traustum grunni og getur því ekki skipt máli í þessu samhengi.

Samkvæmt framangreindu verður að leggja sönnunarbyrði á stefnanda fyrir því að hún hafi orðið fyrir því líkamstjóni sem hún lýsir og krafa hennar í málinu er byggð á. Lýsingar hennar á atvikinu eru ekki studdar viðhlítandi gögnum en frásögn vitnis af því verður ekki talin sönnun um að atburð­urinn hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda. Í læknisfræðilegum gögnum málsins er fjallað um líkamstjón stefnanda. Í einhverjum þeirra er stuðst við frásagnir stefnanda af því að hún hefði orðið fyrir líkamstjóni í vinnu sinni hjá stefnda 15. janúar 2000, eins og hún hefur lýst, en ekki er að sjá að byggt sé á öðrum upplýsingum eða gögnum um það. Af læknisvottorðum til stefnda vegna fjarvista stefnanda frá vinnu á þessum tíma verða ekki dregnar ályktanir um vitneskju fyrirsvarsmanna stefnda um slysið eða hið meinta líkamstjón stefnanda vegna þess. Gögn málsins veita að teknu tilliti til þessa ekki næga sönnun fyrir því að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni með þeim hætti sem hún hefur lýst og bótakrafa hennar í málinu er reist á. Með vísan til þessa ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 583.045 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., sem þykir hæfi­lega ákveðin 350.000 krónur án virðisaukaskatts, en kostnaður vegna matsgerðar, sem þegar hefur verið greiddur úr ríkissjóði er að fjárhæð 233.045 krónur.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að máls­kostnaður milli málsaðila falli niður.

Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Nesfiskur ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Sigurborgar Fuglö Hlöðversdóttur, í máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, samtals 583.045 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 350.000 krónur án virðisaukaskatts, og matskostnaður 233.045 krónur.

Málskostnaður milli málsaðila fellur niður.