Print

Mál nr. 106/2017

Arnar Helgi Lárusson og Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf. og Reykjanesbæ (Unnar Steinn Bjarndal lögmaður, Styrmir Gunnarsson lögmaður 4. prófmál)
Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Sveitarfélög
  • Málefni fatlaðra
Reifun

Í málinu kröfðust A og S þess að sveitarfélaginu R og eignarhaldsfélaginu E yrði gert að ráðast í nánar tilgreindar framkvæmdir og úrbætur á tveimur opinberum byggingum til að bæta aðgengi fyrir fatlaða. Reistu þeir kröfur sínar á því að byggingarnar fullnægðu hvorki alþjóðlegum skuldbindingum Íslands né þeim kröfum sem gerðar væru í stjórnarskrá og nánar tilgreindum lögum og reglugerðum um aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að R hefði fullnægt þeirri skyldu samkvæmt 34. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks að gera sér áætlun um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og skipulagslaga sem og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Þá hefði R hrundið áætluninni í framkvæmd með ráðstöfun fjár til málaflokksins og þeim breytingum á húsnæði í eigu sveitarfélagsins sem þegar hefði verið ráðist í. Vísað var til þess að með lögum nr. 152/2010 hefði sveitarfélögunum í landinu verið falið að annast málefni fatlaðra en sá málaflokkur hafði áður verið viðfangsefni ríkisins. Sveitarfélög hefðu samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar sjálfstjórn í þeim málum sem löggjafinn hefði falið þeim og þau færu sjálf með forræði eigin tekjustofna. Þau væru því ein samkvæmt stjórnarskrá og lögum bær til að taka ákvarðanir um þess háttar framkvæmdir og úrbætur sem dómkröfur A og S lytu að og hefðu á grundvelli tekjustofna sinna svigrúm til að ákveða forgangsröðun innan þess ramma sem játa yrði þeim við framkvæmd lögbundinna verkefna sem á þeim hvíldu. Voru R og E ehf. því sýknað af kröfum A og S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 15. febrúar 2017. Þeir krefjast þess í fyrsta lagi að stefnda Reykjanesbæ verði gert að koma fyrir hjólastólalyftu milli hæða í svonefndu Duushúsi við Duusgötu 2 í Reykjanesbæ, jafna hæðarskil milli sala á 1. hæð hússins með því að útbúa skábraut fyrir hjólastóla, og breyta aðalinngangsdyrum í Duushúsi, allt að viðlögðum 100.000 króna dagsektum frá 25. desember 2015 þar til skyldum stefnda hefur verið fullnægt. Í öðru lagi krefjast áfrýjendur þess að stefndu verði sameiginlega gert að koma fyrir hjólastólalyftu milli hæða í svonefndu 88 Húsinu við Hafnargötu 88 í Reykjanesbæ, jafna hæðarmun milli sala í húsinu með því að koma fyrir skábraut fyrir hjólastóla, útbúa skábraut fyrir hjólastóla frá bílastæði inn í húsið og útbúa bílastæði sérmerkt fötluðum sem næst inngangi hússins og eigi fjær honum en 25 metrar, allt að viðlögðum 100.000 króna dagsektum frá 25. desember 2015 þar til skyldum stefndu hefur verið fullnægt. Í þriðja lagi krefst áfrýjandinn Arnar Helgi þess að stefndu verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. desember 2015 til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Atvikum málsins sem eru að mestu óumdeild er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram hlaut áfrýjandinn Arnar Helgi mænuskaða í umferðarslysi á árinu 2002, lamaðist við það fyrir neðan brjóst og hefur upp frá því verið bundinn við hjólastól. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni í Reykjanesbæ og telur að lélegt aðgengi fyrir fatlaða standi því í vegi að hann geti tekið þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi í húsnæði á vegum sveitarfélagsins nema að mjög takmörkuðu leyti, hvort heldur er á eigin vegum eða til að fylgja börnum sínum. Nánar tiltekið kveðst hann hvorki geta sótt opna viðburði í lista- og menningarmiðstöð sveitarfélagsins í Duushúsi, sem er í eigu sveitarfélagsins, né í 88 Húsinu, sem er félags- og menningarmiðstöð fyrir ungmenni, en það hús leigir sveitarfélagið af hinu stefnda eignarhaldsfélagi.

Áfrýjendur kveðast ítrekað hafa bent stefnda Reykjanesbæ á að aðgengi fyrir fatlaða að byggingum sveitarfélagsins væri verulega ábótavant og hvorki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, stjórnarskrá lýðveldisins né nánar tilgreind ákvæði laga og reglugerða, svo sem ítarlega er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Ábendingarnar hafi á hinn bóginn ekki leitt til úrbóta og hafi áfrýjendum því verið nauðugur einn sá kostur að höfða mál þetta. Sé málsóknin á því reist að stefndi Reykjanesbær hafi brotið gegn þeirri lögbundnu skyldu sinni samkvæmt ofangreindum réttarheimildum að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að byggingum þeim sem um ræðir í málinu. Sveitarfélaginu sé lögum samkvæmt skylt að bæta úr þannig að byggingar á þess vegum verði aðgengilegar fyrir fatlaða til jafns við aðra og sé tilgangur málshöfðunarinnar að fá sveitarfélagið dæmt til efnda í samræmi við þær skyldur. Sama skylda hvíli á hinu stefnda eignarhaldsfélagi sem eiganda 88 Hússins. Varnir stefndu lúta í aðalatriðum að því að þeir hafi fullnægt skyldum sínum gagnvart áfrýjendum samkvæmt ofangreindum réttarheimildum, sveitarfélagið hafi á allan hátt hagað ákvörðunum sínum gagnvart áfrýjendum með málaefnalegum hætti og það sé ekki á forræði áfrýjenda að krefja stefndu um efndir með þeim hætti sem gert sé í dómkröfum áfrýjenda.

II

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Samkvæmt lögskýringargögnum er gengið út frá því í stjórnarskrárákvæðinu „að nánari reglur um félagslega aðstoð af þessum meiði verði settar með lögum, en með ákvæðinu er markaður sá rammi að til þurfi að vera reglur sem tryggi þessa aðstoð.“

Til samræmis við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar hafa verið sett í almenn lög ýmis ákvæði um málefni fatlaðra, sbr. lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem leystu af hólmi lög nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks sem giltu þegar atvik máls þessa urðu.  Síðastnefndu lögin voru sérlög um málefni fatlaðra og samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra höfðu þau að markmiði að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna og skapa þeim skilyrði til að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skyldi við framkvæmd laganna taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skyldu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðra og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðra. Í 7. gr. laganna sagði að fatlað fólk skyldi eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skyldi leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reyndist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni yrði fullnægt innan almennrar þjónustu skyldi hann fá þjónustu samkvæmt lögunum.

Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 30. mars 2007 og fullgilti hann 23. september 2016, sbr. þingsályktun nr. 61, sem samþykkt var á 145. löggjafarþingi, en ákvæði samningsins hafa ekki verið leidd í lög hér á landi. Í 9. gr. samningsins kemur meðal annars fram að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðum kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins. Þær ráðstafanir skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi og ná til bygginga og aðstöðu utan dyra og innan. Samkvæmt 30. gr. samningsins skulu aðildarríkin viðurkenna jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að greiða fyrir þessum rétti fatlaðs fólks, meðal annars til að njóta aðgengis að stöðum þar sem menningarefni eða þjónusta á sviði menningar fer fram. Þá segir einnig í 30. gr. að aðildarríkin skuli gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að fötluðu fólki sé kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda- frístunda- og íþróttastarfi með því meðal annars að tryggja fötluðum aðgang að stöðum þar sem slíkt starf fer fram. 

Með lögum nr. 152/2010 var sú breyting gerð á lögum nr. 59/1992 að sveitarfélögum var falið að annast málefni fatlaðra en sá málaflokkur hafði áður verið viðfangsefni ríkisins. Í 34. gr. laga nr. 59/1992, eins og henni var breytt með 31. gr. laga nr. 152/2010, kom fram að sveitarfélög skyldu sinna ferlimálum fatlaðra, meðal annars með gerð áætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010, skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerða settra á grundvelli þeirra.

Í bráðabirgðaákvæði XIII með lögum nr. 59/1992, sbr. 43. gr. laga nr. 152/2010, var mælt svo fyrir að ráðherra skyldi eigi síðar en 1. október 2011 leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðra. Þar skyldi setja fram stefnu í málefnum fatlaðra, skýra forgangsröðun verkefna, markvissa aðgerðaráætlun og skilgreinda árangursmælikvarða. Tímasetja skyldi meðal annars aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðra og samræmds mats á þjónustu.

Til samræmis við framangreint bráðabirgðaákvæði samþykkti Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011 til 2012 þingsályktun nr. 43 um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Þar sagði meðal annars að framkvæmdaáætlunin tæki mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk annarra mannréttindasáttmála sem Ísland væri aðili að. Áætlunin myndaði ramma utan um stöðumat og frekari áætlanagerð í málefnum fatlaðra og þjónaði mikilvægu hlutverki í samvinnu ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd og endurmat í þjónustu við fatlaða. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi skiptist framkvæmdaáætlunin í málefnasvið, þar á meðal um aðgengi, og um manngert umhverfi sagði að markmiðið væri að tryggja öllum jafnt aðgengi að því. Um framkvæmd sagði að í „hverju sveitarfélagi verði gerð úttekt á aðgengismálum hvað varðar aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Í framhaldinu verði gerð áætlun um úrbætur ef við á ... Úttekt verði lokið fyrir árslok 2012 og áætlun liggi fyrir um úrbætur fyrir árslok 2013 ... Kostnaður: Innan ramma“.

III

Dómkröfur áfrýjenda lúta að því að fá stefndu á grundvelli þeirra réttarheimilda sem málsóknin er reist á dæmda til að ráðast í nánar tilgreindar framkvæmdir og úrbætur á húsnæði því sem um ræðir í málinu og sveitarfélagið nýtir til samfélagslegra verkefna. Eins og áður greinir hefur Ísland undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en ekki leitt ákvæði hans í lög hér á landi. Þegar af þeirri ástæðu geta dómkröfur áfrýjenda í málinu ekki náð fram að ganga á grundvelli ákvæða þess samnings. Hins vegar er það viðurkennd regla að norrænum rétti að skýra skuli lög til samræmis við alþjóðasamninga sem ríki hefur staðfest eftir því sem unnt er, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 4. febrúar 1999 í máli nr. 177/1998 og 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000.

Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega gerð grein fyrir framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 sem samþykkt var á Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011 til 2012 og markmiðum hennar. Þar er og gerð grein fyrir úttekt þeirri sem stefndi Reykjanesbær réðst í á árinu 2012 á grundvelli framkvæmdaáætlunarinnar, fjármagni því sem sveitarfélagið ráðstafaði á árunum 2014 og 2015 til aðgengismála og því fé sem sveitarfélagið áætlaði að ráðstafa á árinu 2016 til bæta aðgengi að stofnunum sínum. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi munu fjárveitingar til áætlunarinnar hafa verið minni en væntingar stóðu til og mun gildistími hennar hafa verið framlengdur meðan unnið er að gerð nýrrar áætlunar. Samkvæmt framansögðu fullnægði stefndi Reykjanesbær þeirri skyldu samkvæmt 34. gr. laga nr. 59/1992 að gera sér áætlun um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og skipulagslaga sem og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Þá hefur sveitarfélagið hrundið áætluninni í framkvæmd með þeirri ráðstöfun fjár til málaflokksins sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi og þeim breytingum á húsnæði í eigu sveitarfélagsins sem þegar hefur verið ráðist í. Kemur næst til úrlausnar hvort kröfur áfrýjenda um úrbætur á umræddu húsnæði geti náð fram að ganga á grundvelli annarra þeirra réttarheimilda sem áfrýjendur styðja kröfur sínar við.

Sveitarfélögunum í landinu var eins og áður er rakið með lögum nr. 152/2010 falið að annast málefni fatlaðra en sá málaflokkur hafði áður verið viðfangsefni ríkisins. Sagði í 4. gr. laga nr. 59/1992 að sveitarfélög bæru ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögunum nema annað væri tekið fram eða leiddi af öðrum lögum. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar skulu sveitarfélög ráða málefnum sínum sjálf eftir því sem lög ákveða og samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skulu tekjustofnar sveitarfélaga ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Af ákvæðum 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 leiðir að sveitarfélögum er skylt að gera ráð fyrir útgjöldum sínum í árlegri fjárhagsáætlun. Sveitarfélög hafa samkvæmt ákvæðum 78. gr. stjórnarskrárinnar sjálfstjórn í þeim málum sem löggjafinn hefur falið þeim og þau fara sjálf með forræði  eigin tekjustofna. Þau ein eru samkvæmt stjórnarskrá og lögum bær til að taka ákvarðanir um þess háttar framkvæmdir og úrbætur sem dómkröfur áfrýjenda lúta að og hafa á grundvelli tekjustofna sinna svigrúm til að ákveða forgangsröðun innan þess ramma sem játa verður þeim við framkvæmd lögbundinna verkefna sem á þeim hvíla. Tilvísun 34. gr. laga nr. 59/1992 til ákvæða mannvirkjalaga, skipulagslaga sem og reglugerða settra samkvæmt þeim fær þeirri niðurstöðu ekki breytt. Þá geta þau ákvæði mannvirkjalaga, skipulagslaga og reglugerða, sem áfrýjendur vísa til dómkröfum sínum til stuðnings, ein sér og sjálfstætt ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að dómkröfur áfrýjenda á hendur stefndu verði teknar til greina.

Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Eftir atvikum er rétt að hver málsaðila beri sinn kostnað af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. nóvember 2016.

                Mál þetta var höfðað 19. nóvember 2015 og dómtekið 2. nóvember 2016. Stefnendur eru Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra, Sléttuvegi 3, Reykjavík, og Arnar Helgi Lárusson, Leirdal 1, Reykjanesbæ. Stefndu eru Reykjanesbær, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, og Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf., Dvergshöfða 2, Reykjavík.

Dómkröfur stefnenda eru í fyrsta lagi þær að stefnda Reykjanesbæ verði gert skylt: a) að koma fyrir lyftu fyrir hjólastóla milli hæða í Duushúsi við Duusgötu 2, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-7262, sem skal vera með hindrunarlaust innanmál að lágmarki 1,10 m x 2,10 m og burðargetu að lágmarki 1.000 kg, b) að jafna hæðarskil milli sala, Bátasalar og Gryfju, á 1. hæð Duushússins við Duusgötu 2, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-7262, með því að útbúa skábraut fyrir hjólastóla sem er ekki brattari en 1:20, minnst 0,9 m að breidd og án hindrana, og c) að breyta inngangi við inngangsdyr Upplýsingamiðstöðvar Reykjaness sem eru aðalinngangsdyr í Duushús við Duusgötu 2, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-7262, þannig að þröskuldur við útidyrnar verði ekki hærri en 25 mm og hæðarmunur milli svæðis framan við inngangsdyr og gólfs verði ekki meiri en 25 mm að meðtaldri hæð á þröskuldi. Allt að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 100.000 krónur til stefnenda sem falli á frá 25. desember 2015 hafi stefndi ekki orðið að öllu leyti við skyldum sínum fyrir þann tíma.

Í öðru lagi krefjast stefnendur þess að báðum stefndu verði sameiginlega gert skylt: a) að koma fyrir lyftu fyrir hjólastóla milli hæða í 88 Húsinu við Hafnargötu 88, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-8165, sem skal vera með hindrunarlaust innanmál að lágmarki 1,10 x 1,40 m, burðargetu að lágmarki 630 kg og breidd dyra að lágmarki 0,80 m, b) að jafna hæðarmun milli sala félagsmiðstöðvarinnar og menningar­miðstöðvarinnar, matshlutar 01 0101 og 01 0102, í 88 Húsinu við Hafnargötu 88, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-8165, með því að koma fyrir skábraut fyrir hjólastóla, sem ekki skuli vera brattari en 1:20 eða með lyftu fyrir hjólastóla sem skal vera með hindrunarlaust innanmál að lágmarki 1,10 x 1,40 m, burðargetu að lágmarki 630 kg og breidd dyra að lágmarki 0,80 m, c) að útbúa skábraut fyrir hjólastóla frá bílaplani inn í 88 Húsið við Hafnargötu 88, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-8165, sem er ekki brattari en 1:20, og d) að útbúa bílastæði sérmerkt fötluðu fólki sem næst inngangi 88 Hússins við Hafnargötu 88, 230 Reykjanesbæ, fastanúmer 208-8165, og eigi fjær inngangi hússins en 25 metrar. Allt að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 100.000 krónur til stefnenda sem falli á frá 25. desember 2015 hafi stefndu ekki orðið að öllu leyti við skyldum sínum fyrir þann tíma.

Í þriðja lagi krefst stefnandi Arnar Helgi þess að stefndu verði gert að greiða honum 1.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. desember 2015 til greiðsludags. 

Í fjórða lagi krefjast stefnendur þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnendum málskostnað.

Báðir stefndu gerðu aðallega kröfu um að öllum kröfum stefnenda á hendur þeim yrði vísað frá dómi, en til vara að stefndu yrðu sýknaðir af kröfum stefnenda. Í báðum tilvikum gera stefndu kröfu um málskostnað.

Með úrskurði dómara 10. maí 2016 var frávísunarkröfu stefndu hafnað.

I.

Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra voru stofnuð 27. september 1981. Félagsmaður getur hver orðið sem hefur hlotið varanlegan mænuskaða. Samkvæmt samþykktum félagsins er markmið þess að efla samhjálp mænuskaddaðra, vinna að auknum réttindum þeirra og bættri aðstöðu í þjóðfélaginu. Í félaginu munu vera um 300 einstaklingar.

Stefnandi Arnar Helgi er búsettur í Reykjanesbæ, ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum. Hann lenti í mótorhjólaslysi í september árið 2002 og hlaut við það mænuskaða, með þeim afleiðingum að hann er alveg lamaður fyrir neðan brjóst og hefur verið bundinn við hjólastól eftir það. Sem íbúi í Reykjanesbæ vill hann taka þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi bæjarins, auk þess að sækja opna menningarviðburði, hvort sem er á eigin vegum eða til þess að fylgja börnum sínum eftir. Hann telur að lélegt aðgengi fyrir fatlaða í bænum valdi því að hann geti ekki tekið þátt í slíku starfi nema að mjög takmörkuðu leyti. Hið sama gildi um aðra hreyfihamlaða og fatlaða einstaklinga. Nánar tiltekið geti hann ekki sótt opna viðburði í lista- og menningarmiðstöð bæjarins í Duushúsi, þar sem aðgengi sé hamlað bæði inn í húsið og innan þess. Þá geti hann ekki nýtt sér þá þjónustu sem sé í boði í 88 Húsinu, félags- og menningarmiðstöð fyrir ungmenni, né fylgt börnum sínum þangað, t.d. þegar haldin séu þar barnaafmæli, þar sem aðgengi sé hamlað bæði inn í húsið og innan þess.

Duushús er í eigu stefnda Reykjanesbæjar en 88 Húsið er í eigu stefnda Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. Stefndi Reykjanesbær leigir af félaginu síðarnefndu fasteignina.

Undir rekstri málsins var að beiðni stefnenda dómkvaddur matsmaður, Bæring Sæmundsson matstæknir, til að framkvæma ýmsar mælingar í umræddum húsum. Verður vísað síðar til matsgerðarinnar eftir því sem ástæða er til.

II.

Stefnendur telja að stefndi Reykjanesbær hafi brotið gegn þeirri athafnaskyldu sem hvíli á sveitarfélaginu til að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að byggingum í eigu þess. Stefnendur telja að stefnda sé skylt að bæta úr þannig að byggingarnar verði aðgengilegar fyrir fatlað fólk til jafns við aðra. Þá beri stefndi Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. einnig ábyrgð sem eigandi 88 Hússins.

Stefnendur byggja á því að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki beri sveitarstjórn ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna. Byggingarfulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð innan sveitarfélagsins, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Byggingarfulltrúi fari yfir byggingarleyfisumsókn og gangi úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli viðkomandi ákvæði laga og reglugerða og gefi út byggingarleyfi til framkvæmda, samkvæmt 10. og 11. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna beri eigandi ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. hafi útgefandi byggingarleyfis eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði laganna og reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim og að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gildi.

Stefndi Reykjanesbær sé eigandi Duushúss ásamt því að fara með eftirlit og vera útgefandi byggingarleyfis beggja mannvirkjanna sem mál þetta lýtur að. Stefndi Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. sé eigandi 88 Hússins en leigi það til stefnda Reykjanesbæjar sem rekur starfsemi á vegum sveitarfélagsins í húsinu.

Stefnendur telja að það leiði af ákvæðum stjórnarskrár, settra laga og byggingarreglugerða að eigandi byggingar skuli tryggja aðgengi fatlaðra og hreyfihamlaðra inn í bygginguna sem og innan hennar, sér í lagi þegar um sé að ræða byggingu sem ætluð sé öllum almenningi. Hið sama verði ráðið af alþjóðlegum sáttmálum á þessu sviði.

Stefnendur vísa til þess að samkvæmt 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar skuli allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skuli öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í framangreindum ákvæðum felist m.a. að fatlað fólk skuli eiga raunhæfan rétt, til jafns við annað ófatlað fólk, til aðgengis að opinberum byggingum. Þetta sé mikilvægt til þess að fatlað fólk geti tekið þátt í menningu og félagslífi til jafns við aðra.

Ísland hafi undirritað Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þann 30. mars 2007, og hafi Ísland fullgilt samninginn. Markmið samningsins sé að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns á við aðra.

Samkvæmt 9. gr. samningsins skuli aðildarríki gera viðeigandi ráðstafanir sem miði að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem veitt sé almenningi. Þessar ráðstafanir skuli m.a. felast í því að útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu innan dyra sem utan.

Samkvæmt 19. gr. samningsins viðurkenni aðildarríkin jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu með sömu valkosti og aðrir. Gera skuli árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að greiða fyrir þessum rétti fatlaðs fólks til þess að það geti tekið fullan þátt í samfélaginu án aðgreiningar. Meðal annars skuli tryggja að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þeirra, sbr. c-lið 19. gr. samningsins.

Samkvæmt 30. gr. samningsins skuli aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, m.a. með því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að stöðum þar sem slík starfsemi fer fram.

Þá vísa stefnendur til laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, en markmið laganna sé að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafi gengist undir, m.a. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. 

Samkvæmt 7. gr. laganna skuli fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt 34. gr. laganna skuli sveitarfélög sinna ferlimálum fatlaðs fólks með skipulögðum hætti, m.a. með gerð á landi innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar. erða settra atvika. ptember 1981 af nokkrum einstaklingum sem höfðu orðið fyrætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og skipulagslaga sem og reglugerða settra á grundvelli þeirra.

Jafnframt vísa stefnendur til laga um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslaga nr. 123/2010, en þau gildi um öll mannvirki sem reist séu á Íslandi, sbr. 2. gr. laganna. Eitt af meginmarkmiðum laganna sé að tryggja aðgengi fyrir alla, sbr. e-lið 1. mgr. 1. gr. laganna.

Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. sé með „aðgengi fyrir alla“ átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda, og það geti með öruggum hætti komist inn í og út úr mannvirkjum. Jafnframt skuli sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra, en samkvæmt 3. tölulið 3. gr. sé með „algildri hönnun“ átt við hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geti nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útiloki þó ekki hjálpartæki, sé þeirra þörf.

Í athugasemdum með 1. gr. í frumvarpi til mannvirkjalaga segi um aðgengi: „Að lokum er tekið í e-lið upp það mikilvæga markmið að stuðlað sé að aðgengi fyrir alla. Á það ekki síst við um setningu ákvæða reglugerðar þar sem settar eru kröfur um gerð og frágang mannvirkja og mögulegt að setja þar kröfur um útbúnað og frágang mannvirkja í því skyni að allir hafi aðgang. Með aðgengi er átt við að fólk sem á við fötlun eða veikindi að stríða geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í bruna, en jafnframt að við hönnun og útfærslu mannvirkja séu hafðar í huga mismunandi þarfir og geta fólks með tilliti til sjónar og heyrnar, [...]. Í þessu sambandi má m.a. nefna að 30. mars 2007 undirritaði Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og valfrjálsa bókun við samninginn. Í samningnum er sérstaklega kveðið á um aðgengi.“

Eigandi mannvirkis beri ábyrgð á því að við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkisins sé farið að kröfum laganna um aðgengi, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Eigandi skuli hafa virkt innra eftirlit með því að þeir sem hann ræður til að hanna, byggja og reka mannvirkið fari eftir ákvæðum laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra, sbr. 2. mgr. 15. gr. Eigandi beri einnig ábyrgð á því að fram fari lögboðið eftirlit með byggingu mannvirkis í samræmi við ákvæði laganna, sbr. 3. mgr. 15. gr.

Skipulagslög hafi að geyma sams konar markmið um aðgengi fatlaðra og sams konar skilgreiningar, sbr. e-lið 1. gr. og 2. og 3. tölulið 2. gr. laganna.

Stefnendur kveða að allt frá árinu 1979 hafi verið ákvæði í byggingarreglugerð um að tryggja skuli aðgengi fyrir hreyfihamlað fólk og fólk í hjólastólum að opinberum byggingum, sbr. reglugerð nr. 292/1979. Slík ákvæði hafi síðan verið til staðar allt frá þeim tíma, nánar tiltekið í reglugerðum nr. 177/1992, nr. 441/1998 og núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Reglugerð nr. 441/1998 gildi um 88 Húsið og reglugerð nr. 112/2012 gildi um Duushúsið xx. r ﷽﷽﷽um sem höfðu orðið fyrsh1/1998 um 88 Hnyrir hreyfihamlað f fgr. er með algildri hönnun nstaklingum sem höfðu orðið fyr/Bryggjuhúsið. Báðar þessar reglugerðir kveði skýrlega á um að tryggja skuli aðgang fyrir hreyfihamlaða í hjólastól og aðra fatlaða einstaklinga inn í og innan bygginga sem almenningur hafi aðgang að, sbr. einkum 10. kafla í reglugerð nr. 441/1998 og 6. hluta, kafla 6.1, í reglugerð nr. 112/2012. Báðar reglugerðir gangi út frá því að eigandi mannvirkis beri ábyrgð á því að farið sé að ákvæðum þeirra.

Stefnendur telja ljóst samkvæmt öllu framangreindu að eigandi byggingar beri ábyrgð á því að fatlað fólk eigi greiðan aðgang inn í bygginguna og innan hennar. Sú skylda sé sérstaklega rík þegar um sé að ræða byggingu sem ætluð sé öllum almenningi, líkt og umræddar byggingar.

Nánar varðandi kröfu stefnenda er lýtur að Duushúsi, og er eingöngu beint að stefnda Reykjanesbæ, segja stefnendur að húsið hafi verið tekið í notkun sem hluti af lista- og menningarmiðstöð stefnda Reykjanesbæjar árið 2014 eftir umfangsmiklar endurbætur. Það hýsi m.a. aðalsýningarsal byggðasafns stefnda sem sé opið allt árið um kring fyrir almenning. Reglugerð nr. 112/2012 gildi um Duushúsið, sbr. gr. 6.1.5, en þar segi að við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja, sem almenningur hafi aðgang að, skuli tryggja aðgengi í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar eftir því sem unnt sé. Stefnendur telja ljóst að það hafi ekki verið gert í tilfelli Duushússins, þrátt fyrir að það sé unnt.

Duushúsið sé alls þrjár hæðir og aðalsýningarsalur byggðasafns stefnda sé á 2. hæð hússins. Hins vegar sé engin lyfta upp á 2. og 3. hæð hússins, hvorki hefðbundin fólkslyfta né annars konar lyfta fyrir fólk í hjólastól.

Samkvæmt 4. tölul. í gr. 6.4.12 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli að lágmarki vera ein lyfta í öllum byggingum sem sé tvær eða fleiri hæðir og hýsa opinbera starfsemi og starfsemi sem almenningur hefur aðgang að. Burðargeta lyftu skuli vera að lágmarki 1.000 kg og með hindrunarlaust innanmál minnst 1,10 m x 2,10 m, sbr. 7. tölul. ákvæðisins. Hið sama gildi um byggingar sem séu þrjár hæðir eða hærri, sbr. 5. tölul. Greið leið skuli vera að lyftum og þær skuli þannig hannaðar og frágengnar að þær henti til notkunar fyrir alla, þ. á m. gönguskerta og hjólastólanotendur, sbr. 3. tölul. 6.4.12 gr. og 6.1.2 gr.

Þegar um sé að ræða áður byggt húsnæði, þar sem erfitt sé að koma fyrir hefðbundinni stokkalyftu, sé heimilt að leysa aðgengi milli hæða með hjólastólapallslyftu, stigalyftu fyrir hjólastól eða sætislyftu sem komið sé fyrir í stiga, sbr. 2. tölul. gr. 6.4.12. Þá skuli þær þannig gerðar að notandi geti nýtt sér búnaðinn án aðstoðar. Umfang flatarins (virka svæðisins) á hjólastólapallslyftu skuli vera minnst 0,90 x 1,40 m og á stigalyftu fyrir hjólastól skuli það vera minnst 0,80 x 1,20 m. Þess beri þó að geta að í Duushúsi sé þegar gert ráð fyrir lyftu enda sé búið að koma fyrir lyftustokki. 

Það sé því ljóst að skortur á lyftu upp á 2. og 3. hæð Duushússins sé skýrt brot á framangreindum ákvæðum byggingarreglugerðarinnar. Þá sé skortur á lyftu jafnframt brot á þeim réttarheimildum sem raktar eru að framan og tryggja eiga aðgang fatlaðra inn í og innan bygginga sem almenningur hefur aðgang að.

Þá halda stefnendur því fram að skábraut á 1. hæð/jarðhæð sé of brött. Á 1. hæð/jarðhæð Duushússins, þar sem gert sé ráð fyrir gestastofu, sé skábraut fyrir hjólastóla sem sé 4,27 metrar að lengd. Brattinn á skábrautinni sé minnstur 13,5% en mestur um 14%.

Samkvæmt gr. 6.4.11 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli skábrautir hannaðar þannig að þær séu þægilegar í notkun og öruggar. Þær skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:20 (5%). Ef umferðarleið er styttri en 3 metrar, sem eigi þó ekki við hér, sé heimilt að halli sé mest 1:12 (8,3%). Samkvæmt leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar með ákvæðinu skuli forðast eins og unnt er að hafa skábrautir brattari en 1:20 (5%) á leiðum undir 3 metrar að lengd, og sé það ekki unnt þá skuli hallinn í öllu falli ekki vera meiri en 1:12 (8,3%). Það sé því ljóst að 8,3% sé hámarkshalli skábrautar.

Þannig sé skábrautin allt of brött og brjóti gegn framangreindu ákvæði reglugerðarinnar, auk þeirra réttarheimilda sem raktar séu að framan og tryggja eiga aðgang fatlaðra inn í og innan bygginga sem almenningur hafi aðgang að. Nægjanlegt rými sé til þess að lengja brautina og minnka halla hennar.

Einnig telja stefnendur að þröskuldar í útidyrum séu of háir. Við inngangsdyr í Duushúsið sé hæð upp á þröskuld að utanverðu 366 mm og engin skábraut sé til að auðvelda aðgengi fólks í hjólastól. Samkvæmt d-lið í gr. 6.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli þröskuldur við inngangsdyr/útidyr ekki vera hærri en 25 mm. Hæðarmunur milli svæðis framan við inngangsdyr/útidyr og gólfs skuli ekki vera meiri en 25 mm, að meðtalinni hæð á þröskuldi. Gólf svala og veranda megi mest vera 100 mm lægra en gólf byggingar, að þröskuldi meðtöldum, að því tilskildu að skábraut sé komið fyrir að utanverðu upp að þröskuldi, skv. d-lið gr. 6.4.2 í reglugerðinni.

Samkvæmt leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar með ákvæðinu geti verið erfitt að vera innan hámarkshæðar þegar um sé að ræða svala- og útgangsdyr. Í slíkum tilfellum sé heimilt að leysa þetta með því að leggja eins konar rennu meðfram sökklinum og brúa yfir hana með hallandi riffluðum stálplötum, rist eða öðru þess háttar, að hámarki 300 mm langri, þar sem halli sé að hámarki 1:8 (12,5%).

Það sé því ljóst að þröskuldurinn við inngangsdyr í Duushúsið fari langt yfir hámarkshæð og brjóti gegn umræddu ákvæði reglugerðarinnar, auk þeirra réttarheimilda sem raktar eru að framan.

Þá byggja stefnendur á því að engin undanþága hafi verið veitt frá kröfum reglugerðar nr. 112/2012.

Samkvæmt 3. mgr. gr. 6.1.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli taka sérstakt tillit til mannvirkja sem falli undir ákvæði laga um menningarminjar, þ.e. leyfisveitandi geti heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar ef það er sérstökum erfiðleikum bundið að uppfylla ákvæðin án þess að breyta að verulegu leyti megingerð, útliti eða öðrum sérkennum mannvirkis sem vert er að varðveita.

Ef um slíkt sé að ræða skuli hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum 6. hluta sé óskað eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki sé unnt að uppfylla ákvæðin og hvort unnt sé með öðrum hætti að tryggja aðgengi að mannvirkinu þannig að markmið 6. hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt.

Engin slík undanþága hafi verið veitt við endurbætur á Duushúsinu, enda hafi engri greinargerð verið skilað inn með beiðni um slíka undanþágu eða rökstuðningi um ástæður þess að ekki væri unnt að uppfylla ákvæði 6. hluta. Enda sé það svo að í öllum framangreindum tilvikum sé um að ræða kröfur sem unnt sé að uppfylla með auðveldu móti og án þess að slíkt breyti megingerð, útliti eða sérkennum hússins að nokkru leyti. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir öðru.

Hvað varðar kröfur stefnenda vegna 88 Hússins, sem er beint að báðum stefndu sameiginlega, segja stefnendur að húsið hafi verið tekið í notkun sem félags- og menningarmiðstöð árið 2004, en hafi áður gegnt hlutverki sem vélsmiðja og bílasala. Byggingarreglugerð nr. 441/1998 gildi um húsið, enda hafi verið sótt um leyfi fyrir breytta notkun þess í gildistíð hennar, sbr. gr. 2.2. Reglugerðin geri ráð fyrir því að tryggður sé aðgangur fyrir alla inn í og innan bygginga, þ.m.t. hreyfihamlaða í hjólastól, sbr. t.d. gr. 199.1. Stefnendur telja ljóst að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt í tilfelli 88 Hússins.

88 Húsið sé kjallari og tvær hæðir og m.a. sé snyrting fyrir fatlaða á 2. hæð hússins (þ.e. efstu hæð). Hins vegar sé engin lyfta upp á 2. hæð hússins eða niður í kjallara, hvorki hefðbundin stokkalyfta né annars konar lyfta fyrir fólk í hjólastól.

Samkvæmt gr. 201.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli vera lyfta í öllum byggingum sem séu 2 hæðir eða meira og hýsa opinbera starfsemi. Lyfta skuli vera a.m.k. 1,10 x 1,40 m að innanmáli, burðargeta skuli vera 630 kg og breidd dyra a.m.k. 0,80 m. Samkvæmt gr. 201.7 í reglugerðinni skuli lyftur í opinberum byggingum og byggingum ætluðum almenningi hannaðar þannig að a.m.k. ein þeirra henti hreyfihömluðu fólki í hjólastól. Þá skuli við hönnun á lyftum og lyftuhúsum gætt rýmisþarfa hreyfihamlaðra, sbr. gr. 201.8 í reglugerðinni. 

Það sé því ljóst að skortur á lyftu í 88 Húsinu sé skýrt brot á framangreindum ákvæðum byggingarreglugerðarinnar, auk þeirra réttarheimilda sem raktar eru að framan og tryggja eiga aðgang fatlaðra inn í og innan bygginga sem almenningur hefur aðgang að. 

Þá segja stefnendur að hvorki lyfta né skábraut sé milli álma. Fimm brattar tröppur séu á milli tveggja sala í 88 Húsinu, þ.e. milli þeirra hluta hússins sem hýsi annars vegar Menningarmiðstöð ungs fólks í Reykjanesbæ og hins vegar Félagsmiðstöð Fjörheima. Þessi hæðarmunur sé hvorki jafnaður með skábraut né viðeigandi lyftubúnaði og fólk í hjólastól komist því ekki þarna á milli.

Samkvæmt gr. 200.2  í reglugerð nr. 441/1998 skuli jafna hæðarmun á göngum, allt að 0,35 m, með skábraut, en hæðarmun sem fari yfir 0,35 m skuli jafna með skábraut eða lyftubúnaði. Hæðarmunurinn í tröppunum sem hér um ræðir sé meiri en 0,35 m.

Um lyftur gildi sömu kröfur og raktar eru hér að framan, sbr. 201. gr. Skábrautir fyrir umferð í hjólastól skuli uppfylla kröfur 203. gr. en þar komi fram að þær skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:20 (5%).

Það sé því ljóst að skortur á hvoru tveggja skábraut og lyftu til að jafna hæðarmun milli álma í 88 Húsinu sé skýrt brot á framangreindum ákvæðum byggingarreglugerðarinnar, auk annarra réttarheimilda sem raktar eru að framan.

Þá byggja stefnendur á því að skábraut úti sé of brött og of hátt upp á hana frá bílaplani. Skábrautin sé 8,81 m og minnst 10,1% brött en mest 12,1%.

Samkvæmt gr. 199.2  í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli umferðarleiðir í byggingum sem almenningur hefur aðgang að þannig gerðar að hreyfihamlaðir í hjólastól geti notað þær. Samkvæmt gr. 199.3 skuli jafna hæðarmismun út á þægilegan hátt og samkvæmt gr. 199.4 skuli aðkoman að byggingum ætluðum almenningi vera þannig að unnt sé fyrir fólk í hjólastól að komast þar inn og út hjálparlaust.

Samkvæmt gr. 203.1 í reglugerðinni skuli skábrautir fyrir hjólastóla að jafnaði ekki vera brattari en 1:20.

Stefnendur telja því ljóst að skábrautin sé allt of brött. Þá sé einnig of hátt upp á skábrautina frá bílaplaninu, þannig að fólk í hjólastól komist ekki upp á hana hjálparlaust, líkt og það eigi rétt til.

Að lokum kveða stefnendur að ekkert sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða sé næst inngangi að 88 Húsinu. Samkvæmt gr. 64.5-64.7 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli vera að lágmarki eitt bílastæði sérstaklega merkt og gert fyrir hreyfihamlaða við opinberar byggingar, samkomuhús, félagsheimili, og önnur sambærileg hús.

Samkvæmt gr. 64.11 í reglugerðinni skuli bílastæði sérmerkt fötluðu fólki vera sem næst inngangi. Samkvæmt leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar séu orðin „sem næst“ túlkuð þannig að bílastæði séu ekki fjær en að hámarki 25 metra frá inngangi.

Það sé því ljóst að skortur á bílastæði sérmerktu fötluðum sem næst inngangi 88 Hússins sé skýrt brot á framangreindum ákvæðum, auk þeirra réttarheimilda sem raktar eru að framan og tryggja eiga aðgang fatlaðra inn í byggingar sem almenningur hefur aðgang að.

Stefnendur telja samkvæmt framangreindu að aðbúnaði og aðgengismálum fasteignanna tveggja sé verulega ábótavant. Stefnendur geri því kröfu um að stefndu breyti fasteignunum og bæti úr framangreindum vanköntum þannig að fasteignirnar uppfylli viðeigandi kröfur laga og reglna um aðgengi fatlaðs fólks. Stefndu sé skylt að bæta úr framangreindum vanköntum enda beri þeir, sem eigendur og umráðamenn, ábyrgð á því að bæta úr því sem áfátt er, skv. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Krafa stefnenda um dagsektir eigi stoð í 4. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga um mannvirki. Verði stefndu ekki við skyldum sínum til úrbóta sé þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða dagsektir frá og með mánuði eftir þingfestingu, 25. desember 2015, en það sé hæfilegur tími til þess að koma aðgengismálum í lögmætt horf. Upphæð dagsektanna sé hófleg og sanngjörn í ljósi þess að fasteignirnar séu notaðar í þágu almennings, stefndu sé hægt um vik að bæta úr og þeim hafi margoft verið bent á framangreinda vankanta. Upphæðin sé vel innan þeirra marka sem 2. mgr. 56. gr. laga um mannvirki geri ráð fyrir. Rétt sé að dagsektir renni til stefnenda samkvæmt meginreglu laga um meðferð einkamála enda séu þær hvorki lagðar á af byggingarfulltrúa né Mannvirkjastofnun. Auk þess væri óeðlilegt ef þær rynnu til annars stefnda.

Verði ekki unnt að fallast á kröfur stefnenda um skyldu til úrbóta benda stefnendur á að í kröfunum felist allar kröfur sem ganga skemur. Meðal þeirra sé krafa um að viðurkennt verði að aðgengi að framangreindum byggingum sé ófullnægjandi og ólögmætt enda sé núverandi ástand þeirra ekki í samræmi við lög um mannvirki ásamt viðkomandi byggingarreglugerðum.

Auk krafna um úrbætur gerir stefnandi Arnar Helgi kröfu um að stefndu verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.000.000 kr., auk dráttarvaxta frá 25. desember 2015 en þá hafi verið liðinn mánuður frá þingfestingu málsins.

Miskinn felst í því að stefnandi Arnar Helgi hafi ekki átt kost á því að sækja menningarviðburði og félagslíf í húsum á vegum stefnda Reykjanesbæjar. Stefnandi Arnar Helgi greiði skatta og gjöld eftir sömu reglum og aðrir íbúar sveitarfélagsins og eigi auk þess rétt á jöfnu aðgengi að byggingum, félagslífi, menningu og öðru því sem sveitarfélagið bjóði almennt upp á. Þá séu börn hans tíðir gestir í 88 Húsinu en stefnandi Arnar Helgi hafi ekki getað fylgt þeim þangað eins og aðrir foreldrar. Miskabótakrafan eigi stoð í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 enda felist í framangreindu ólögmæt meingerð gegn stefnanda Arnari Helga. Ferðafrelsi hans sé skert og einnig sé brotið gegn friðhelgi einkalífs hans og fjölskyldu. Þá felist í öllu framangreindu ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda Arnars Helga.

Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, laga um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslaga nr. 123/2010. Að auki byggja stefnendur kröfur sínar á byggingarreglugerðum nr. 441/1998 og 112/2012. Loks byggja stefnendur kröfur sínar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og mannréttindasáttmála Evrópu. 

Krafa um dráttarvexti byggist á 9. gr., sbr. III. kafla, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvextir miðast við 1. mgr. 6. gr. laganna og upphafstími þeirra sé mánuður eftir þingfestingu málsins en þá hafi sannanlega verið lagðar fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

Málskostnaðarkrafa stefnenda byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Stefndu byggja báðir sýknukröfu sína á sömu málsástæðum. Byggt er á því að stefndi Reykjanesbær hafi í nokkur ár unnið skipulega að aðgengismálum, með það að leiðarljósi að bæta og auka aðgengi fatlaðs fólks að stofnunum og mannvirkjum sveitarfélagsins sérstaklega. Árið 2008 hafi verið gerð sérstök úttektarskýrsla á aðgengismálum fasteigna á Hafnargötu. Árið 2012 hafi stefndi Reykjanesbær gert samning við Gott aðgengi ehf. og í framhaldinu hafi verið sent bréf á allar stofnanir sveitarfélagsins, þar sem hver og ein stofnun hafi fengið sína úttektarskýrslu og leiðarvísi ásamt því sem kynnt hafi verið fyrirhugað verklag við að bæta úr þeim atriðum sem úttektir höfðu leitt í ljós að væri ábótavant.

Framangreindar úttektir hafi verið unnar árin 2012 og 2013 og í framhaldi af þeim hafi verið gerð fjárhagsáætlun vegna kostnaðar við að bæta aðgengi fatlaðra að stofnunum stefnda Reykjanesbæjar. Á undanförnum árum hafi stefndi Reykjanesbær varið allverulegum fjárhæðum í endurbætur á aðgengi fyrir fatlaða. Árið 2014 hafi kostnaður stefnda vegna aðgengismála verið 24.000.000 kr. en árið 2015 hafi hann verið um 2.000.000 kr. Þá sé áætlað að um 10.000.000 kr. verði varið í úrbætur m.t.t. betra aðgengis að stofnunum sveitarfélagsins á árinu 2016. Á síðastliðnum tveimur árum hafi stefndi Reykjanesbær ráðist í framkvæmdir til að bæta aðgengi fatlaðra í og við grunn- og leikskóla, sund- og íþróttamannvirkjum, ráðhúsinu og umræddu Duus-húsi.

Stefndi Reykjanesbær hafi eðlilega þurft að forgangsraða ráðstöfun fjármuna til aðgengismála og hafi mest áhersla verið lögð á að tryggja aðgengi að og inn í stofnanir. Til marks um það hversu skipulega stefndi Reykjanesbær vinni að bættu aðgengi vísa stefndu til yfirlits yfir kostnað framkvæmda, bæði þeirra sem lokið er og þeirra sem ólokið sé, sundurliðað eftir sviðum sveitarfélagsins.

Árið 2014 hafi verið opnaður fyrir almenning sá hluti Duushúsanna sem nefnist Bryggjuhúsið. Bryggjuhúsið hafi verið byggt árið 1879. Aðgengi sé að mati stefnda Reykjanesbæjar gott norðanmegin í húsinu, þ.e. við Kaffi Duus. Þá hafi verið komið fyrir tveim hjólastólalyftum til að vinna á mishæðóttu gólfinu. Aðgengi í húsinu sé því að stórum hluta viðunandi.

Endurbygging Duushúsa hafi staðið yfir í áföngum frá árinu 2000. Þegar sé lokið flestum fyrirhuguðum breytingum og séu framkvæmdir við Bryggjuhúsið síðasti áfanginn í endurbyggingu hússins. Mikilvægt sé að hafa í huga að framkvæmdum við Bryggjuhúsið sé ekki endanlega lokið og lokaúttekt byggingarfulltrúa á húsnæðinu hafi því ekki enn farið fram. Þannig sé t.d. gert ráð fyrir fólksflutningalyftu frá jarðhæð á þriðju hæð í húsinu í hönnunargögnum. Lyftustokkur sé nú kominn, en eftir eigi að koma fyrir lyftu, sem til standi að gera.

Stefndi Reykjanesbær tekur fram varðandi Bryggjuhúsið sjálft að stefndi hafi tekið þá ákvörðun að fara ekki strax í að lyfta upp gangstéttinni við nýjan inngang í áðurnefnda gestastofu, þar sem það hefði töluverð áhrif á ásýnd hússins, sem sé orðið 136 ára gamalt. Að auki sé um áveðurshlið hússins að ræða og þegar flötur sé færður upp að klæðningu húsa geti það haft töluverð áhrif og jafnvel eyðilagt klæðningar.

Félagsstarf í 88 Húsinu hafi hafist árið 2004 í gamalli vélsmiðju að Hafnargötu 88. Eins og gefi að skilja hafi lítið verið hugað að aðgengismálum í húsnæðinu áður en félagsstarf hófst, vegna eðlis húsnæðisins og þeirrar staðreyndar að það hafi verið byggt árið 1963. Frá árinu 2004 hafi breytingar verið gerðar á húsnæðinu í þeim tilgangi að bæta aðgengi fatlaðra að því, m.a. hafi hurðir verið breikkaðar, aðbúnaður fyrir fatlaða settur upp á salernum og skábraut sett upp við austurinngang.

Stefndu byggja á því að á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XIII í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, sbr. lög nr. 152/2010, hafi Alþingi samþykkt þann 11. júní 2012 þingsályktun nr. 43/140 um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Ákveðið hafi verið að framlengja gildistíma þingsályktunarinnar meðan unnið væri að nýrri framkvæmdaáætlun, en vinna við nýja framkvæmdaáætlun sé nú hafin. Í áætluninni séu tilgreind 43 verkefni á átta málasviðum, þar af einu sem lúti að aðgengi. Í áætluninni segi m.a. að markmiðið sé að tryggja öllum jafnt aðgengi að manngerðu umhverfi. Um framkvæmd segi að í hverju sveitarfélagi verði gerð úttekt á aðgengismálum hvað varðar aðgengi að opinberum byggingum, umferðar­mannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hafi aðgang að. Í framhaldinu verði gerð áætlun um úrbætur ef við á. Ábyrgðin sé hjá sveitarfélögunum og að úttekt verði lokið fyrir árslok 2012 og áætlun liggi fyrir um úrbætur fyrir árslok 2013. Um kostnað segi: „Innan ramma.“ Mælikvarði sé: „Hlutfall sveitarfélaga sem hafa lokið úttekt og gert áætlun.“

Stefndi Reykjanesbær hafi því á undanförnum árum unnið með markvissum og skipulegum hætti að endurbótum á aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum og þjónustustofnunum sveitarfélagsins. Sú vinna hafi að öllu leyti verið í samræmi við fyrirmæli 34. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks auk áðurnefndrar framkvæmdaáætlunar sem í gildi sé og Alþingi hafi samþykkt á grundvelli sömu laga.

Á yfirstandandi löggjafarþingi hafi félags- og húsnæðismálaráðherra borist munnleg fyrirspurn um úttekt á aðgengi að opinberum byggingum. Í svari ráðherra (Þingskjal 441  —  215. mál) komi fram að ráðuneytið hafi í júlí 2015 auglýst eftir styrkumsóknum frá sveitarfélögum, þjónustusvæðum eða ferlinefndum til að gera úttektir á aðgengi að opinberum byggingum, umferðarmannvirkjum og öðrum stöðum sem almenningur hafi aðgang að. Hafi 16 sveitarfélög og þjónustusvæði sótt um styrk, þ. á m. stefndi Reykjanesbær. Hafi styrkumsóknir numið 30.700.000 kr. en einungis hafi 5.000.000 kr. verið varið í verkefnið.

Stefndu telja að þeir hafi uppfyllt allar lagaskyldur sínar gagnvart stefnendum og að stefndi Reykjanesbær hafi á allan hátt hagað ákvörðunum sínum og gerðum gagnvart stefnendum með málefnalegum hætti.

Þá telja stefndu að í heild skorti alfarið á að stefnendur hafi fært fram sannanir á þeim staðreyndum sem byggt er á í málinu af þeirra hálfu.

Stefndu byggja á því að ákvæði e-liðar 1 mgr. 1. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og e-liðar 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, ásamt 34. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks, feli í sér markmið sem stjórnvöldum beri að stefna að, en mæli ekki fyrir um þá skyldu að mannvirki, þ. á m. opinberar byggingar, fullnægi þegar í stað öllum ýtrustu kröfum og að aðgengi fyrir alla sé þegar tryggt með fullkomnum hætti. Framangreind lagaákvæði, og þá sérstaklega 34. gr. laga nr. 59/1992, geri beinlínis ráð fyrir því að aðgengi fatlaðs fólks að opinberum byggingum sé víða ábótavant. Því sé aðeins mælt fyrir um að sveitarfélög skuli vinna að endurbótum með skipulögðum hætti. Umrædd lagaákvæði geti því ekki verið grundvöllur kröfugerðar stefnenda. Framangreind umfjöllun um stöðu aðgengismála á landinu renni frekari stoðum undir það að enn megi bæta aðgengi í mörgum sveitarfélögum úti um allt land.

Stefndi Reykjanesbær vinni eftir fremsta megni að úrbótum er varði aðgengi fatlaðs fólks að byggingum stofnana og fylgi í því tilliti öllum þeim opinberu viðmiðum sem í gildi séu. Stefndu telja ljóst að þegar sveitarfélögum sé gert skylt að gera og vinna eftir áætlunum um úrbætur, sé á sama tíma ekki hægt að gera kröfu um að aðgengi fyrir alla sé fullkomlega tryggt í öllum mannvirkjum þegar í stað. Forgangsröðun sveitarfélaga í þessum efnum sé óhjákvæmileg og um það hafi stefndi Reykjanesbær fullt svigrúm og ákvörðunarvald í samræmi við 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944.

Jafnræðisreglur, þ.m.t. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, breyti hér engu um og í stefnu málsins sé ekki leitast við að sýna fram á hvernig stefndu hafi mismunað stefnendum og sé ósannað að stefndu hafi á nokkurn hátt gert það. Málatilbúnaður stefnenda sé óljós hvað meint brot stefndu á framangreindum lagaákvæðum varðar.

Stefndu telja með vísan til framangreinds að allar ráðstafanir hans í endurbótum á fasteignum hans hafi verið í samræmi við lagaskyldu hans og aðrar réttarreglur, þær hafi verið málefnalegar og að þær hafi ekki brotið gegn lögvörðum mannréttindum stefnenda.

                Um einstaka kröfuliði stefnenda varðandi Duushús segja stefndu, hvað varðar lyftu milli hæða í Bryggjuhúsi, að framkvæmdum við Bryggjuhúsið sé ekki endanlega lokið og lokaúttekt byggingarfulltrúa á húsnæðinu, samkvæmt kafla 3.9 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, hafi því ekki enn farið fram. Gert sé ráð fyrir fólksflutningalyftu frá jarðhæð á þriðju hæð í húsinu í hönnunargögnum, lyftustokki hafi þegar verið komið fyrir og ekki standi annað til en að koma lyftu endanlega fyrir á næstunni.

Um hæðarskil milli sala á 1. hæð segir stefndi Reykjanesbær, þ.e. um fullyrðingu stefnenda um að skábraut sú sem þegar sé til staðar sé of brött, að samkvæmt ákvæði 6.4.11 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé meginreglan sú að skábrautir fyrir hjólastóla skuli hannaðar þannig að þær séu þægilegar í notkun og öruggar. Í greininni séu svo taldar upp viðmiðunarreglur í 13 töluliðum, þ. á m. varðandi halla/bratta skábrauta. Samkvæmt leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar með ákvæðinu sé meginreglan ófrávíkjanleg, en viðmiðunarreglurnar frávíkjanlegar ef sýnt er að skilyrði meginreglunnar sé fullnægt. Stefnendur byggi dómkröfu sína á frávíkjanlegum viðmiðunarreglum í gr. 6.4.11 í reglugerðinni. Í áðurnefndri áætlun stefnda Reykjanesbæjar um bætt aðgengi fyrir fatlað fólk sé síðan þegar að finna fyrirætlanir um það að koma fyrir hjólastólalyftu í stað umræddrar skábrautar. Slíkt sé í samræmi við þá stefnu stefnda að bæta aðgengismál jafnt og þétt eins og kostur er.

Um hæð þröskulds við útidyr/inngang segir stefndi Reykjanesbær að aðgengi sé gott norðanmegin í húsinu að mati stefnda og þaðan sé unnt að komast í gegnum húsið. Varðandi umræddan inngang þá hafi verið tekin sú ákvörðun að lyfta ekki strax upp gangstéttinni þar sem það hefði töluverð áhrif á ásýnd hússins, en það sé orðið 136 ára gamalt. Að auki gæti slíkt skemmt klæðningu hússins. Í áætlun stefnda um bætt aðgengi sé einnig gert ráð fyrir því að þröskuldar á útihurðum verði lækkaðir eða hæðarjöfnun framkvæmd með öðrum hætti.

Hvað varðar kröfuliði stefnenda varðandi 88 Húsið segja báðir stefndu að í áætlun stefnda um bætt aðgengi hafi 88 Húsið verið tekið út og metið hvaða framkvæmdir þurfi að ráðast í til að tryggja sem best aðgengi, auk kostnaðar við þær. Meðal þess sem sé í umræddri áætlun sé lyfta milli hæða. Einnig sé gert ráð fyrir að til komi hjólastólalyfta milli álmanna.

Hvað varðar fullyrðingar stefnenda um að skábraut utandyra sé of brött segja stefndu að ákvæði 199.2, 199.3 og 199.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 mæli á almennan hátt fyrir um greiðar umferðarleiðir og aðkomu fyrir fólk í hjólastólum að byggingum ætluðum almenningi. Samkvæmt gr. 203.1 í reglugerðinni skuli svo skábrautir fyrir hjólastóla að jafnaði ekki vera brattari en 1:20.

Stefndu vísa til þess að reglan um hámarksbratta skábrautar sé ekki fortakslaus samkvæmt gr. 203.1, sbr. orðalag ákvæðisins, þ.e. „að jafnaði ekki brattari en 1:20“. Samkvæmt úttekt á aðgengi m.t.t. fólks sem notar hjólastóla í 88 Húsinu sé umrædd skábraut ekki fyrirstaða í þurru veðri. Þá taka stefndu fram að í framangreindri áætlun sé gert ráð fyrir því að aðalinngangur 88 Hússins verði færður í lágbyggingu.

Þá sé í framangreindri áætlun gert ráð fyrir sérmerktu bílastæði, sem næst inngangi 88 Hússins.

Stefndu benda á, vegna tilvísunar stefnenda til 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, að ákvæðið kveði skýrt á um að það sé hlutverk byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, opinberrar stofnunar, að meta hvort byggingum sé ábótavant samkvæmt ákvæðinu og þá eftir atvikum gera eiganda viðvart. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þessir aðilar hafi gert neinar slíkar athugasemdir á grundvelli ákvæðisins vegna þeirra bygginga sem um ræðir í máli þessu. Með hliðsjón af framangreindu mótmæla stefndu því að stefnendum sé kleift að vísa til 1. mgr. 56. gr. laganna, dómkröfum sínum til stuðnings.

Stefndu mótmæla eindregið kröfum stefnenda um greiðslu dagsekta til handa þeim frá 25. desember 2015, verði ekki brugðist við kröfum þeirra til athafna. Stefndu hafi fært fyrir því margvísleg rök að dómkröfur stefnenda um skyldu stefndu til athafna séu óréttmætar og að útilokað sé fyrir dómstóla að kveða á um slíka athafnaskyldu.

Að auki byggja stefndu á því að stefnendur geti ekki byggt kröfu sína á 2. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, því að þar komi skýrt fram að eingöngu Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að beita dagsektum samkvæmt lögunum. Dagsektir sem byggingarfulltrúi leggi á renni í sveitarsjóð en í ríkissjóð ef Mannvirkjastofnun leggi þær á. Stefnendur geti því ekki krafist dagsekta sem til þeirra sjálfra skuli renna, á grundvelli ákvæðisins.

Stefndu telja að ekkert réttarsamband ríki milli stefndu og stefnanda Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra. Það sé því óeðlilegt að dagsektir vegna máls á borð við þetta myndu renna til samtakanna. Þá geti stefnandi Arnar Helgi ekki talist eiga sérstakra hagsmuna að gæta umfram aðra hjólastólanotendur sveitarfélagsins hvað umræddar byggingar varðar. Verði því einnig að telja óeðlilegt að mögulegar dagsektir í málinu myndu renna til hans.

Loks telja stefndu kröfu stefnenda um fjárhæð dagsekta vera allt of háa og í engu samræmi við það hvernig mál þetta sé vaxið í heild sinni.

Stefndu hafna kröfu stefnanda Arnars Helga um greiðslu miskabóta. Stefnandi hafi ekki á nokkurn hátt sýnt fram á að í meintu athafnaleysi stefndu hafi falist ólögmæt meingerð gegn honum. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að hið meinta athafnaleysi hafi verið gert af ásetningi eða verulegu gáleysi, líkt og b-liður 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 áskilji. Engin tæk sönnunargögn liggi að baki málsgrundvelli stefnanda, meintu tjóni hans og atburðum í málinu.

Stefndu telja sig hafa fullnægt öllum sínum lagaskyldum og vinni stefndi Reykjanesbær að úrbótum á opinberum byggingum sveitarfélagsins m.t.t. aðgengismála á skipulegan hátt, í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 og önnur opinber viðmið. Verði því að telja útilokað að um ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda Arnars Helga sé að ræða.

Stefndu telja enn fremur að fjárhæð miskabótakröfunnar sé allt of há og úr samhengi við meintan miska sem stefnandi Arnar Helgi kynni mögulega að hafa orðið fyrir vegna þess að aðgengi sé ekki fullkomið í og við umræddar byggingar.

Loks mótmæla stefndu þeim fullyrðingum stefnenda að kröfur byggingarreglugerðar nr. 112/2012 gildi um Duushúsið/Bryggjuhúsið og að byggingarreglugerð nr. 441/1998 gildi, að sama skapi, um 88 Húsið. Báðar byggingar hafi verið reistar talsvert fyrir gildistöku framangreindra byggingarreglugerða. Jafnvel þó að verulegar endurbætur hafi farið fram á húsunum þá leiði það ekki sjálfkrafa til þess að ákvæði núgildandi byggingarreglugerðar eigi við um húsin. Þá geti reglugerðin aldrei átt við um húsin í heild sinni heldur taki þær aðeins til þeirra endurbóta sem ráðist er í hverju sinni.

Um lagarök vísa stefndu til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992,  laga um mannvirki nr. 160/2010, skipulagslaga nr. 123/2010, sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá er byggt á byggingareglugerðum nr. 441/1998 og 112/2012.

Málskostnaðarkrafa stefndu er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 130. gr. þeirra laga. Þá styðst krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.

IV.

                Í máli þessu gera stefnendur kröfu um tilteknar breytingar á tveimur fasteignum, þar sem þær uppfylli ekki kröfur laga og reglna um aðgengi fatlaðs fólks. Um er að ræða annars vegar Duushús sem er í eigu stefnda Reykjanesbæjar og hins vegar 88 Húsið sem er í eigu stefnda Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf., en stefndi Reykjanesbær leigir það af félaginu. 

                Duushús er röð húsa, byggð á mismunandi tímum, hið elsta frá 1877 og hið yngsta frá 1970. Húsið var upphaflega byggt sem pakkhús og vörugeymsla en endurbætur voru gerðar á árunum 2008-2014, en þá var húsið opnað sem lista- og menningarmiðstöð Reykjanesbæjar. Ekki liggur fyrir í málinu í hverju endurbæturnar fólust eða hvort þær voru leyfisskyldar. Stefnendur gera í fyrsta lagi kröfu um að lyftu fyrir hjólastóla verði komið fyrir milli hæða í Duushúsi, í öðru lagi að komið verði fyrir skábraut fyrir hjólastóla sem sé ekki brattari en 1:20 og í þriðja lagi að inngangi verði breytt þannig að þröskuldur verði ekki hærri en 25 mm.

88 Húsið, sem er fasteign við Hafnargötu 88, var upphaflega byggt sem vélsmiðja, á árinu 1963, en var tekið í notkun sem félags- og menningarmiðstöð í janúar 2004, eftir endurbætur og breytingar. Ekki liggur fyrir í málinu hvaða endurbætur voru gerðar og hvort þær voru leyfisskyldar. Stefnendur gera í fyrsta lagi kröfu um að komið verði fyrir lyftu milli hæða, í öðru lagi að komið verði fyrir skábraut eða lyftu milli sala félagsmiðstöðvarinnar og menningar­miðstöðvarinnar, í þriðja lagi að útbúin verði skábraut frá bílaplani sem sé ekki brattari en 1:20 og í fjórða lagi að útbúið verði bílastæði sérmerkt fötluðu fólki.

                Eitt af markmiðum laga um mannvirki nr. 160/2010 er að tryggja aðgengi fyrir alla. Með aðgengi fyrir alla er í lögunum átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum. Jafnframt séu sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra. Með algildri hönnun er átt við hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki hjálpartæki fyrir fatlað fólk sé þeirra þörf.

Í grein 6.1.1 í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 er sérstaklega kveðið á um að ávallt skuli „leitast við“ að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar. Sérstakt ákvæði er í grein 6.1.5 um breytingar á þegar byggðu mannvirki eða breytta notkun. Samkvæmt 1. mgr. skal við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja sem almenningur hefur aðgang að tryggja aðgengi í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Þá segir í 2. mgr. að við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða skuli „eftir því sem unnt er“ byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar.  

Stefndi Reykjanesbær hefur á undanförnum árum unnið að því að tryggja aðgengi fyrir fatlaða að fasteignum sem almenningur hefur aðgang að. Ýmislegt hefur verið gert hvað varðar Duushús, m.a. með því að sérmerkja bílastæði, setja upp pallalyftur og skábraut úr timbri. Aðgengi er að mestu leyti gott en þarfnast úrbóta.

Í fyrirliggjandi matsgerð kemur fram að halli á skábrautinni sé minnstur 13% og mestur 14,6% (u.þ.b. 1:7), en samkvæmt grein 6.4.11 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem stefnendur byggja á, skulu skábrautir „að jafnaði“ ekki vera brattari en 1:20 (5%). Skábrautin er því brattari en skábrautir eiga að jafnaði að vera en er ekki ónothæf. Rými fyrir neðan skábrautina er mjög gott og því ætti að vera unnt að lagfæra skábrautina með litlum tilkostnaði. Í matsgerðinni kemur einnig fram að þröskuldur við inngangsdyr sé 51 mm en 31 mm framan við dyrnar. Samkvæmt d-lið í grein 6.4.2 í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 skal þröskuldur við inngangsdyr ekki vera hærri en 25 mm. Þröskuldurinn er því samkvæmt þessu of hár en er ekki fyrirstaða. Þetta virðist unnt að lagfæra með litlum tilkostnaði, án þess að það hafi áhrif á ásýnd hússins eða skemmi klæðningu. Hluti byggðasafnsins er ekki aðgengilegur fötluðu fólki þar sem ekki er lyfta upp á 2. hæð, eins og byggingarreglugerð nr. 112/2012 kveður á um. Lyftustokki hefur verið komið fyrir og er það á áætlun hjá stefnda Reykjanesbæ að setja lyftu þar, en kostnaður við það mun hlaupa á milljónum.

Það sem gert hefur verið í 88 Húsinu varðandi aðgengi fyrir fatlað fólk er að koma fyrir skábraut frá bílaplani inn í húsið að framanverðu, en skábrautin er með mestan halla 13% (u.þ.b. 1:9) og er því of brött samkvæmt grein 199.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem stefnendur vísa til máli sínu til stuðnings. Gott rými er fyrir neðan skábrautina og því ætti að vera unnt að lagfæra skábrautina með litlum tilkostnaði. Ekki eru sérmerkt bílastæði fyrir fatlað fólk, eins og kveðið er á um í gr. 64.5-64.7 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Um er að ræða auðvelda og kostnaðarlitla framkvæmd. Eftir að mál þetta var höfðað hefur verið komið fyrir skábraut á austurhlið hússins og aðgengi í húsið þannig verið bætt. Hins vegar er enn ekki unnt að komast innanhúss á milli menningar­miðstöðvarinnar og félags­miðstöðvarinnar þar sem fara þarf um álmu þar sem eru fimm tröppur en þar er hvorki lyfta né skábraut, sbr. áskilnað í grein 200.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Þá er ekki lyfta upp á 2. hæð hússins, eins og gert er ráð fyrir samkvæmt grein 201.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, og er hæðin því ekki aðgengileg fötluðu fólki. Hægt er að koma fyrir lyftu í húsinu og er það á áætlun hjá stefnda Reykjanesbæ. Upplýst hefur verið að það sé til lyfta í húsið en kostnaður við að koma henni fyrir nemi um 13-14 milljónum króna. Við vettvangsgöngu kom fram að framtíð menningar- og félagsmiðstöðvarinnar væri óljós og að uppi væru hugmyndir um að færa starfsemina í skólana.     

Samkvæmt 34. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, skulu sveitarfélög sinna ferlimálum fatlaðs fólks með skipulögðum hætti, m.a. með gerð áætlana um endurbætur á aðgengi opinberra bygginga og þjónustustofnana í samræmi við ákvæði mannvirkjalaga og skipulagslaga sem og reglugerða settra á grundvelli þeirra. Í bráðabirgðaákvæði XIII með lögunum var mælt fyrir um að ráðherra skyldi eigi síðar en 1. október 2011 leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þar átti að setja fram stefnu í málefnum fatlaðs fólks, skýra forgangsröðun verkefna, markvissa aðgerðaráætlun og skilgreinda árangursmælikvarða.

Á grundvelli framangreinds bráðabirgðaákvæðis var framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 samþykkt á Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011-2012. Málasvið áætlunarinnar eru átta og er eitt af þeim aðgengi. Framkvæmda­áætlunin tekur mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks auk annarra alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Velferðar­ráðuneytið hefur heildarumsjón með framkvæmd áætlunarinnar og einnig umsjón með tilteknum aðgerðum, en önnur ráðuneyti, þjónustusvæði, sveitarfélög og eftir atvikum aðrir aðilar bera ábyrgð á öðrum einstökum aðgerðum og leggja mat á þær í samræmi við mælikvarða sem tilgreindir eru innan hverrar aðgerðar. Í áætluninni segir um aðgengi að markmiðið sé að tryggja öllum jafnt aðgengi að manngerðu umhverfi. Um framkvæmd áætlunarinnar segir að í hverju sveitarfélagi verði gerð úttekt á aðgengismálum hvað varðar aðgengi að opinberum byggingum, umferðar­mann­virkjum og öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að. Í framhaldinu verði gerð áætlun um úrbætur ef við ætti. Ábyrgðin væri hjá sveitarfélögunum og að úttekt ætti að vera lokið fyrir árslok 2012 og áætlun að liggja fyrir um úrbætur fyrir árslok 2013. Um kostnað segir: „Innan ramma.“ Mælikvarði er: „Hlutfall sveitarfélaga sem hafa lokið úttekt og gert áætlun.“ Gildistími framkvæmdaáætlunarinnar mun hafa verið framlengdur meðan unnið er að nýrri áætlun, en fjárveitingar til hennar voru minni en væntingar stóðu til.

Á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks fór stefndi Reykjanesbær á árinu 2012 í verkefnið: „Gott aðgengi.“ Úttekt var gerð á öllum stofnunum og kostnaðarmetin voru innkaup og framkvæmdir. Stefndi Reykjanesbær gerði fjárhagsáætlun og voru á árinu 2014 settar tæplega 24 milljónir króna í aðgengismál. Á árinu 2015 sótti stefndi Reykjanesbær um styrk sem velferðarráðuneytið auglýsti vegna framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks. Fram kemur í svari félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn á 145. löggjafarþingi 2015-2016, þingskjali 441 – 215. mál, um úttekt á aðgengi að opinberum byggingum, að 16 þjónustusvæði og sveitarfélög sóttu um styrk til úttekta, samtals 30.700.000 kr., þ. á m. stefndi Reykjanesbær, en velferðarráðuneytið varði aðeins 5 millj. kr. í verkefnið á árinu 2015. Stefndi Reykjanesbær setti um 2 millj. kr. í aðgengismál á árinu 2015 en áætlar að setja 10 millj. kr. í að bæta aðgengi að stofnunum á árinu 2016.

Í samræmi við fjárhagsáætlun stefnda Reykjanesbæjar hefur verið bætt aðgengi fyrir fatlað fólk við byggingar sem almenningur hefur aðgang að, s.s. skóla og einnig við umræddar fasteignir, Duushús og 88 Húsið. Duushús er eins og áður segir byggt á löngu tímabili eða allt frá 1877 til 1970, löngu fyrir gildistöku núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og 88 Húsið var byggt árið 1963, þ.e. fyrir byggingarreglugerð nr. 441/1998, en stefnendur vísa til þeirra kröfum sínum til stuðnings. Samkvæmt 2. mgr. í grein 6.1.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skal við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða „eftir því sem unnt er“ byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar. Byggingar­reglugerð nr. 441/1998 kvað ekki á um að mannvirkjum sem byggð voru fyrir gildistöku reglugerðarinnar bæri að breyta í samræmi við ákvæði hennar. Í dómaframkvæmd hefur verið litið svo á að almennt sé ekki unnt að gera ríkari kröfur til fasteigna en fyrirmæli voru um á þeim tíma sem fasteignin var byggð. Þá hefur verið litið svo á að dómstólar geti almennt ekki mælt fyrir um athafnaskyldu stjórnvalda, vegna valdmarka dómstóla og stjórnvalda, einkum þegar stjórnvöld hafa svigrúm til mats við ákvörðun. Samkvæmt 34. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, sbr. lög nr. 152/2010, og framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks, hafa sveitarfélög ákveðið svigrúm við það verkefni að bæta aðgengi að opinberum byggingum og sveitarfélög þurfa að forgangsraða verkefnum þar sem fjárhagur setur þeim skorður. Að öllu þessu virtu, og eins og atvikum er hér háttað, verða stefndu sýknaðir af kröfum stefnenda.   

Eftir atvikum þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

                Stefndu, Reykjanesbær og Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf., eru sýkn af kröfum stefnenda, Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra og Arnars Helga Lárussonar.

                Málskostnaður fellur niður.