Print

Mál nr. 10/2018

Ákæruvaldið (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
Lykilorð
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Dómari
  • Stjórnsýsla
  • Réttlát málsmeðferð
  • Dómstóll
Reifun

X var sakfelldur í héraði og fyrir Landsrétti fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Fyrir Hæstarétti krafðist X aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms en til vara sýknu af kröfum ákæruvaldsins á þeim grundvelli að skipun eins dómara sem sat í dómi í málinu fyrir Landsrétti hefði ekki verið í samræmi við lög, svo sem áskilið væri í 59. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hefði þetta leitt til þess að fyrir Landsrétti hefði X ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, eins og honum væri tryggður réttur til í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. rakið að við skipun dómara við Landsrétt hefði verið fylgt formreglum III. kafla lag nr. 50/2016 um dómstóla, svo og ákvæðis IV til bráðabirgða við þau lög, en þó að því frátöldu að við meðferð Alþingis á tillögum dómsmálaráðherra hefðu ekki verið greidd atkvæði um skipun hvers dómara fyrir sig. Hefði það þó ekki verið annmarki sem vægi hefði. Því næst var rakið að rétturinn hefði í dómum í málum nr. 591/2017 og 592/2017 slegið því föstu að slíkir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar dómara við Landsrétt að skaðabótaskyldu hefði varðað úr hendi íslenska ríkisins. Þegar afstaða væri tekin til afleiðinga þessara annmarka yrði á hinn bóginn að líta til þess að ótímabundin skipun allra dómaranna fimmtán við Landsrétt hefði orðið að veruleika við undirritun skipunarbréfa þeirra 8. júní 2017. Þau hefðu öll fullnægt skilyrðum 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 til að hljóta skipun í embætti og hefðu frá þeim tíma notið þeirrar stöðu samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar að þeim yrði ekki vikið úr embætti nema með dómi. Frá því skipun þeirra hefði tekið gildi hefðu þau samkvæmt sama ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. og 1 mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016, jafnframt borið þá höfuðskyldu að fara í embættisverkum sínum einungis eftir lögum. Þeim hefði einnig verið áskilið með síðastnefndu lagaákvæði sjálfstæði í dómstörfum en jafnframt lagt þar á herðar að leysa þau á eigin ábyrgð og lúta í þeim efnum aldrei boðvaldi annarra. Að þessu virtu taldi Hæstiréttur að ekki væri næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að X hefði, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum. Var aðalkröfu og varakröfu X því hafnað. Þá var dómur Landsréttar staðfestur um sakfellingu X og ákvörðun refsingar hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari.

Að fengnu áfrýjunarleyfi 17. apríl 2018 skaut ríkissaksóknari málinu til Hæstaréttar 20. sama mánaðar í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur Landsréttar verði staðfestur.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð.

I

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði mál þetta með ákæru 31. janúar 2017, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa 24. október 2016 ekið tiltekinni bifreið sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna eftir nánar tilgreindri leið í Kópavogi og að endingu í veg fyrir aðra bifreið þannig að árekstur hafi orðið. Í ákærunni var vísað til þess að í blóðsýni úr ákærða hafi mælst 65 ng af kókaíni í millilítra blóðs og var háttsemi hans talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þess var krafist að ákærða yrði gerð refsing og hann sviptur ökurétti, sbr. 101. og 102. gr. sömu laga, svo og að hann yrði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Við þingfestingu málsins fyrir Héraðsdómi Reykjaness 2. mars 2017 fékk ákærði frest til að taka afstöðu til sakargifta, en í þinghaldi 10. sama mánaðar viðurkenndi hann „skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru“, svo sem fært var í þingbók. Af þessum sökum var farið með málið upp frá því eftir 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það dómtekið 16. mars 2017. Með dómi 23. sama mánaðar var ákærði, sem er fæddur 1985, sakfelldur samkvæmt ákæru. Í dóminum voru í einstaka atriðum rakin margítrekuð brot ákærða gegn umferðarlögum, sem ná allt aftur til ársins 2005 og hafa falist í ölvunarakstri, akstri undir áhrifum fíkniefna og akstri án ökuréttinda, svo og að hann hafi með brotunum, sem um ræddi í ákæru, rofið skilyrði reynslulausnar, sem honum var veitt 14. mars 2016 í tvö ár á 270 daga samanlögðum eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem hann hafði áður hlotið með fimm tilteknum dómum. Á þessum grunni var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í sautján mánuði og sviptingu ökuréttar ævilangt ásamt því að greiða allan sakarkostnað, samtals 275.808 krónur.

Ákærði lýsti 6. apríl 2017 yfir áfrýjun framangreinds dóms til Hæstaréttar og gaf ríkissaksóknari út því til samræmis áfrýjunarstefnu sama dag. Í greinargerð ákærða til réttarins 31. maí 2017 var þess krafist að refsing hans yrði milduð, en í greinargerð ákæruvaldsins sama dag var krafist staðfestingar héraðsdóms. Að fram komnum þessum greinargerðum var málið tilbúið til munnlegs flutnings fyrir Hæstarétti, en með því að það var ekki flutt fyrir réttinum fyrir lok ársins 2017 færðist frekari meðferð þess til Landsréttar, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, svo sem þeim var breytt með 4. gr. laga nr. 53/2017.

Landsréttur tilkynnti ríkissaksóknara og verjanda ákærða 29. janúar 2018 að ákveðið hafi verið að málið yrði munnlega flutt þar fyrir dómi 6. febrúar sama ár og myndu sitja í dómi landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson. Í bréfi til Landsréttar 2. febrúar 2018 lýsti verjandi ákærða þeirri skoðun að nánar tilgreindir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við skipun fjögurra af fimmtán dómurum við þann dómstól og væri því unnt að líta svo á að þeir dómarar hafi ekki verið skipaðir í samræmi við lög, en meðal þeirra væri Arnfríður Einarsdóttir. Krefðist því ákærði þess að hún viki sæti í málinu. Að undangengnum munnlegum málflutningi um þessa kröfu 6. febrúar 2018 gekk úrskurður Landsréttar 22. sama mánaðar, þar sem henni var hafnað. Ákærði kærði þann úrskurð til Hæstaréttar, en með dómi 8. mars 2018 í máli nr. 5/2018 var því vísað frá réttinum.

Í framhaldi af því, sem að framan greinir, var málið munnlega flutt að efni til fyrir Landsrétti 13. mars 2018. Með hinum áfrýjaða dómi 23. sama mánaðar var héraðsdómur staðfestur og ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað að fjárhæð samtals 509.625 krónur.

II

1

Aðalkrafa ákærða fyrir Hæstarétti um að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur ásamt varakröfu hans um sýknu er reist á því að málsmeðferð við skipun Arnfríðar Einarsdóttur, sem eins og fyrr segir sat í dómi í máli þessu fyrir Landsrétti, í embætti dómara við þann dómstól hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 50/2016 um dómstóla og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem tillaga dómsmálaráðherra um skipun dómarans, sem forseti Íslands varð við, hafi verið andstæð þeirri óskráðu meginreglu að stjórnvaldi beri að skipa hæfasta umsækjandann í stöðu eða embætti. Því hafi þessi skipun ekki verið í samræmi við lög, svo sem gert sé að fortakslausu skilyrði um dómara í 59. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málslið 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Að auki hafi þetta leitt til þess að fyrir Landsrétti hafi ákærði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli, eins og honum sé tryggður réttur til í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. málslið 1. mgr. 6. gr. fyrrnefnds samnings.

2

Atvikum þeim varðandi skipun dómara við Landsrétt, sem ákærði vísar til samkvæmt framansögðu, er ítarlega lýst í dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 í málum nr. 591/2017 og 592/2017. Í meginatriðum snúa þau að því að með lögum nr. 50/2016 var mælt fyrir um stofnun nýs áfrýjunardómstóls á millidómstigi, Landsréttar, sem taka skyldi til starfa við gildistöku laganna 1. janúar 2018 að teknu tilliti meðal annars til sérstakra reglna í ákvæði IV til bráðabirgða við þau. Í 1. mgr. þess bráðabirgðaákvæðis var nánar tiltekið mælt svo fyrir að ljúka skyldi skipun allra fimmtán dómara við Landsrétt ekki síðar en 1. júlí 2017, en lagt var í hendur dómnefndar samkvæmt 4. gr. a. þágildandi laga nr. 15/1998 um dómstóla að meta hæfni umsækjenda um þau embætti og láta ráðherra í té umsögn um þá. Tekið var fram í sömu málsgrein bráðabirgðaákvæðisins að ráðherra væri óheimilt að skipa í embætti mann, sem nefndin hefði ekki metið hæfastan meðal umsækjenda, nema því aðeins að Alþingi samþykkti tillögu ráðherra um skipun annars nafngreinds umsækjanda, sem fullnægði öllum skilyrðum samkvæmt 2. og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016. Þá var að auki mælt svo fyrir í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins að þegar ráðherra gerði tillögur um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skyldu þær lagðar fyrir Alþingi til samþykkis. Ef Alþingi samþykkti tillögur ráðherra bæri honum að leggja þær fyrir forseta Íslands til skipunar í embættin, en í gagnstæðu tilviki skyldi ráðherra leggja nýjar tillögur fyrir Alþingi.

Í samræmi við framangreint var birt auglýsing 10. febrúar 2017 eftir umsækjendum um laus embætti fimmtán dómara við Landsrétt og skyldi umsóknarfresti ljúka 28. sama mánaðar. Áðurnefnd Arnfríður Einarsdóttir var meðal umsækjenda um þessi embætti. Dómnefndin lauk mati á 33 umsækjendum með umsögn 19. maí 2017, sem hafði meðal annars að geyma ítarlegar upplýsingar um hvert þeirra og samanburð á þeim með tilliti til hæfni til að gegna embætti dómara við Landsrétt, en um þetta viðfangsefni nefndarinnar voru nánari fyrirmæli í áðurnefndri 4. gr. a. laga nr. 15/1998 og reglum nr. 620/2010 um störf dómnefndar sem fjallar um hæfni umsækjenda um dómaraembætti. Í niðurstöðum nefndarinnar, sem fram komu í ályktarorði umsagnarinnar, voru talin upp fimmtán af umsækjendunum og þau sögð vera hæfust úr hópi þeirra. Arnfríður Einarsdóttir var ekki meðal þeirra. Hvorki var í ályktarorði né annars staðar í umsögninni vikið að stöðu þessara fimmtán umsækjenda innbyrðis í þeirra hópi eða stöðu hinna átján í hæfnisröð, en fram kom að öll hafi þau verið talin hæf til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Fyrir liggur á hinn bóginn að dómnefndin hafi í störfum sínum beitt sérstakri stigatöflu, þar sem tólf nánar tilteknir matsþættir, sem fjallað var um í umsögn nefndarinnar, hafi hver um sig fengið fyrir fram ákveðinn hundraðshluta heildarstiga og hverjum umsækjanda síðan verið metin stig innan ramma hvers þáttar. Samanlagður fjöldi stiga hvers umsækjanda hafi svo ráðið niðurstöðu um röðun þeirra. Að loknu þessu verki dómnefndarinnar mun dómsmálaráðherra hafa fengið frá henni sundurliðaðar upplýsingar um stigafjölda hvers umsækjanda.

Í samræmi við áðurnefnt ákvæði IV til bráðabirgða við lög nr. 50/2016 sendi dómsmálaráðherra forseta Alþingis bréf 29. maí 2017 með tillögum um skipun fimmtán dómara við Landsrétt. Ellefu af þeim voru í hópi þeirra fimmtán umsækjenda, sem dómnefnd hafði metið hæfust, en fjórir úr þeim hópi voru á hinn bóginn ekki teknir upp í tillögur ráðherra. Voru þetta nánar tiltekið fjórir karlar og gegndi einn þeirra starfi prófessors í lögum, annar var héraðsdómari og hinir tveir hæstaréttarlögmenn, en dómnefnd hafði í stigatöflu sinni skipað þessum umsækjendum í 7., 11., 12. og 14. sæti. Í stað þessara fjögurra gerði ráðherra tillögur um að jafn margir héraðsdómarar, tvær konur og tveir karlar, yrðu skipuð í embætti landsréttardómara, en í stigatöflu dómnefndarinnar höfðu þau hafnað í 17., 18., 23. og 30. sæti meðal umsækjenda. Mun Arnfríður Einarsdóttir hafa verið sá umsækjandi, sem var í 18. sæti. Í bréfi ráðherrans var vikið að ástæðum þess að tillögurnar væru ekki í öllum atriðum í samræmi við niðurstöður dómnefndarinnar og sagði meðal annars í því sambandi: „Í umsögn dómnefndar er reynsla af dómarastörfum lögð að jöfnu við reynslu af lögmannsstörfum og reynslu af störfum í stjórnsýslunni. Ef lögð er saman reynsla af fræðistörfum og kennslu ásamt menntun þá vegur það jafn þungt og þrír fyrrgreindu þættirnir. Þrír matsþættir, sem sérstaklega er vikið að í reglum nr. 620/2010, eru hins vegar látnir liggja milli hluta með því að gera ekki upp á milli umsækjenda hvað þá þætti varðar. Um er að ræða matsþætti er lúta að stjórn þinghalda, samningu og ritun dóma og almenna starfshæfni. Með því að gera ekki tilraun til þess að leggja tvo fyrrnefndu þættina til grundvallar heildarmati verður ekki annað ráðið en að reynsla dómara fái ekki það vægi sem tilefni er til og gert er ráð fyrir í reglum nr. 620/2010 ... Eftir að hafa farið yfir öll gögn málsins, þ.m.t. umsóknir, umsögn dómnefndar, andmæli umsækjenda og vinnugögn nefndarinnar, sem ráðherra kallaði sérstaklega eftir, er það niðurstaða ráðherra að fleiri umsækjendur hafi komið til greina heldur en tilteknir hafi verið í ályktarorðum dómnefndar. Þannig hafi þeir fimmtán umsækjendur sem nefndin tiltók allir komið til greina sem og aðrir sem búa yfir áralangri dómarareynslu, alls 24 umsækjendur.“

Farið var á Alþingi með framangreindar tillögur dómsmálaráðherra eftir ákvæðum 5. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis með því að á þingfundi 29. maí 2017 greindi þingforseti frá því að erindi þetta hafi borist, svo og að því væri vísað til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Dómsmálaráðherra beindi til þeirrar þingnefndar minnisblaði 30. maí 2017, þar sem að nokkru var fjallað nánar um tillögur ráðherrans, en í minnisblaðinu sagði meðal annars: „Fyrir liggur að skipa þarf 15 nýja dómara í einu vetfangi. Brýnt er að tryggja skilvirkni dómstólsins frá fyrsta degi svo og eðlilegan málsmeðferðartíma fyrir réttinum. Er það mat ráðherra að nauðsynlegt sé að gera reynslu af dómarastörfum hærra undir höfði en gert var í mati dómnefndar þannig að tryggt sé að meirihluti dómenda við Landsrétt hafi haldgóða reynslu af dómarastörfum. Var vægi þessa matsþáttar því aukið frá því sem var í heildarmati dómnefndar. Það að veita dómarareynslu aukið vægi gerði það að verkum að neðangreindir umsækjendur, sem ráðherra gerir tillögu til Alþingis um að skipaðir verði í embætti landsréttardómara voru að mati ráðherra einnig hæfastir til viðbótar við þá sem dómnefnd hafði áður metið hæfasta ... Slík sjónarmið eru bæði málefnaleg og lögmæt. Þá liggur fyrir að lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gilda um tillögu ráðherra ... Ráðherra er í mati sínu bundinn af því að velja þá sem hæfastir eru til að gegna embætti landsréttardómara. Í fyrirliggjandi máli eru að mati ráðherra ofangreindir fjórir umsækjendur að auki hæfastir til að gegna embætti dómara við Landsrétt. Byggist það mat ráðherra á ítarlegri yfirferð á gögnum málsins, þ.m.t. umsókna, umsagnar dómnefndar, andmæla umsækjenda, vinnugagna nefndarinnar og með þau málefnalegu sjónarmið að leiðarljósi sem áður hafa verið rakin. Ráðherra hefur ekki gert athugasemd við undirbúning málsins af hálfu dómnefndar. Ráðherra telur dómnefnd hafa upplýst málið nægilega og fullnægjandi rannsókn farið fram á þeim matsþáttum sem eru til grundvallar niðurstöðu. Ráðherra telur rétt að vægi dómsstarfa sé þyngra en dómnefnd gerði ráð fyrir. Nefndin hefur nú þegar lagt mat á þennan matsþátt og allar upplýsingar um dómarareynslu umsækjenda liggja fyrir í gögnum málsins. Engar nýjar upplýsingar eða gögn hafa legið til grundvallar tillögu ráðherra.“ Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis klofnaði í afstöðu sinni til tillagna ráðherra. Í áliti meiri hluta nefndarinnar 31. maí 2017 var lagt til að Alþingi ályktaði að samþykkja tillögur dómsmálaráðherra um að fimmtán nafngreindir menn yrðu skipaðir dómarar við Landsrétt, en í áliti minni hlutans sama dag var á hinn bóginn lagt til að málinu yrði vísað frá. Á þingfundi 1. júní 2017 voru fyrst greidd atkvæði um tillögu minni hluta þingnefndarinnar, sem felld var með 31 atkvæði gegn 30, en síðan um tillögu meiri hlutans, sem var samþykkt með 31 atkvæði gegn 22. Voru þannig í raun greidd í einu lagi atkvæði um tillögur dómsmálaráðherra um skipun allra dómaranna fimmtán.

Samkvæmt tillögu dómsmálaráðherra ritaði forseti Íslands 8. júní 2017 undir skipunarbréf þeirra fimmtán dómara við Landsrétt, sem ráðherra hafði gert tillögur um og Alþingi samþykkt. Meðal þeirra dómara var Arnfríður Einarsdóttir.

Tveir umsækjendanna, sem voru meðal þeirra fimmtán sem dómnefnd hafði metið hæfasta en hlutu samkvæmt tillögum dómsmálaráðherra ekki embætti dómara við Landsrétt, höfðuðu í júní 2017 mál gegn íslenska ríkinu. Þeir kröfðust hvor fyrir sitt leyti að ógilt yrði ákvörðun dómsmálaráðherra 29. maí 2017 um að leggja ekki til að þeir yrðu skipaðir í stöðu dómara við Landsrétt „og jafnframt eða til vara“ að ógilt yrði sú ákvörðun að leggja til við forseta Íslands að þeir yrðu ekki meðal þeirra fimmtán, sem skipaðir yrðu. Einnig kröfðust þeir þess að viðurkenndur yrði réttur þeirra til skaðabóta vegna fjártjóns, sem leitt hafi af þessum ákvörðunum ráðherra, svo og að þeim yrðu hvorum dæmdar 1.000.000 krónur í miskabætur „vegna þeirrar ólögmætu meingerðar gegn æru ... sem fólst í framangreindum ákvörðunum.“ Með dómum Hæstaréttar 31. júlí 2017 í málum nr. 451/2017 og 452/2017 var fyrstnefndri dómkröfu beggja umsækjendanna vísað frá héraðsdómi. Til hinna krafnanna tveggja var á hinn bóginn tekin efnisleg afstaða í áðurnefndum dómum réttarins 19. desember 2017 í málum nr. 591/2017 og 592/2017. Í báðum tilvikum var íslenska ríkið sýknað af kröfum umsækjendanna um viðurkenningu á rétti til skaðabóta fyrir fjártjón, en dæmt til að greiða hvorum þeirra 700.000 krónur í miskabætur ásamt málskostnaði á báðum dómstigum.

3

Í málatilbúnaði ákærða er því meðal annars borið við til stuðnings fyrrgreindri aðalkröfu hans fyrir Hæstarétti og varakröfu að það leiði af 59. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að skipun manns í embætti dómara þurfi í hvívetna að fara að lögum. Sé á því misbrestur og skipunin þar með ólögmæt „sé viðkomandi dómari ekki með réttu handhafi dómsvalds og dómsúrlausnir dóms sem hann skipar teljist þar með dauður bókstafur“, svo sem segir í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti. Ályktun sú, sem dregin er í tilvitnuðum orðum, fengi ekki staðist nema litið yrði svo á að skipun manns í embætti dómara við aðstæður sem þessar væri markleysa að lögum, en ekki aðeins að annmarkar á skipuninni gætu valdið ógildingu hennar. Til þess verður að líta að í fyrrgreindri umsögn dómnefndar 19. maí 2017 var komist að þeirri niðurstöðu að umsækjendurnir þrjátíu og þrír fullnægðu öll skilyrðum laga til að gegna embætti dómara við Landsrétt og hafa ekki verið bornar brigður á það. Við skipun dómaranna var fylgt formreglum III. kafla laga nr. 50/2016, svo og ákvæðis IV til bráðabirgða við þau lög, en þó að því frátöldu að við meðferð Alþingis á tillögum dómsmálaráðherra um skipun dómaranna var ekki farið að fyrirmælum 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins að því leyti að greiða bar atkvæði um skipun hvers dómara fyrir sig en ekki þá alla í senn, svo sem gert var. Um þetta atriði hefur á hinn bóginn þegar verið fjallað í áðurnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 591/2017 og 592/2017 og komist þar að þeirri niðurstöðu að ekki væri um að ræða annmarka á málsmeðferð sem vægi hefði. Að virtu þessu ásamt því að allir dómararnir fimmtán voru skipaðir í embætti með bréfum forseta Íslands 8. júní 2017, sem dómsmálaráðherra undirritaði ásamt honum, er ekki unnt að líta svo á að skipun Arnfríðar Einarsdóttur hafi verið markleysa og úrlausnir Landsréttar, sem hún stendur að ásamt öðrum, af þeim sökum „dauður bókstafur.“

Þegar metið er hvort ákærði hafi vegna setu Arnfríðar Einarsdóttur í dómi fyrir Landsrétti ekki notið réttlátrar meðferðar þessa máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli í samræmi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verður að gæta að því að í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 591/2017 og 592/2017 hefur þegar verið slegið föstu að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landsréttardómaranna fimmtán að skaðabótaskyldu hafi varðað úr hendi íslenska ríkisins. Í máli þessu hefur því í engu verið hnekkt og hafa þeir dómar þannig í þessu efni sönnunargildi hér samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um þetta verður jafnframt sérstaklega að árétta að ekki gat það staðist, sem byggt var á í fyrrnefndu minnisblaði dómsmálaráðherra 30. maí 2017, að með því einu að auka vægi dómarareynslu frá því, sem dómnefnd hafði lagt til grundvallar í stigatöflu að baki umsögn sinni 19. sama mánaðar, en byggja að öðru leyti á „fullnægjandi rannsókn“ nefndarinnar á einstökum matsþáttum, gæti fengist sú niðurstaða að fjórir tilteknir umsækjendur um embætti dómara við Landsrétt féllu allir, en aðrir ekki, brott úr hópi þeirra fimmtán hæfustu og í stað þeirra færðust upp í þann hóp fjórir tilteknir umsækjendur öll með tölu öðrum fremur. Þegar afstaða er tekin til afleiðinga þessara annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra verður á hinn bóginn að líta til þess að ótímabundin skipun allra dómaranna fimmtán við Landsrétt, sem í engu hefur verið ógilt með dómi, varð að veruleika við undirritun skipunarbréfa þeirra 8. júní 2017. Þau fullnægðu öll sem áður segir skilyrðum 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 til að hljóta skipun í þessi embætti, þar á meðal því skilyrði 8. töluliðar þeirrar málsgreinar að teljast hæf til að gegna þeim í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar. Frá þeim tíma hafa þessir dómarar notið þeirrar stöðu samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar að þeim verður ekki vikið úr embætti nema með dómi. Frá því að skipun þessara dómara tók gildi hafa þau samkvæmt sama ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 43. gr. laga nr. 50/2016, jafnframt borið þá höfuðskyldu að fara í embættisverkum sínum einungis eftir lögum. Þeim hefur einnig verið áskilið með síðastnefndu lagaákvæði sjálfstæði í dómstörfum en jafnframt lagt þar á herðar að leysa þau á eigin ábyrgð og lúta í þeim efnum aldrei boðvaldi annarra. Er að þessu öllu virtu ekki næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hafi, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, fengið notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum. Verður því aðalkröfu ákærða og varakröfu hafnað.

III

Með vísan til forsendna dóms Landsréttar, svo og forsendna dóms Héraðsdóms Reykjaness í máli þessu frá 23. mars 2017, verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Með tilliti til þess að ákvörðun Hæstaréttar um að verða við umsókn ákærða um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í málinu var í öllu verulegu reist á því að nauðsyn bæri til að eyða óvissu um áðurgreind atriði, sem bjuggu að baki aðalkröfu hans um ómerkingu dómsins og varakröfu um sýknu, verður að fella kostnað af áfrýjun þessari á ríkissjóð. Skal því allur sakarkostnaður hér fyrir dómi greiðast á þann hátt, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Dómur Landsréttar skal vera óraskaður.

Allur kostnaður af áfrýjun dómsins til Hæstaréttar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, 1.240.000 krónur.

 

Dómur Landsréttar 23. mars 2018.

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar Íslands 6. apríl 2017 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Gögn málsins bárust Landsrétti 2. janúar 2018 en samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016 og 4. gr. laga nr. 53/2017, hefur málið verið rekið fyrir Landsrétti frá þeim tíma. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2017 í málinu nr. S-49/2017.

2        Í greinargerð sinni til Hæstaréttar 31. maí 2017 krafðist ákærði þess að refsing hans yrði milduð, auk þess sem hann krafðist málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Í upphafi aðalmeðferðar 13. mars 2018 lagði ákærði fram bókun þar sem kemur fram breytt kröfugerð hans. Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst ákærði málsvarnarlauna fyrir Landsrétti úr ríkissjóði.

3        Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

      Niðurstaða

4        Í framangreindri bókun kemur fram að þar sem ákærði telji að við skipun dómara í Landsrétt hafi verið brotið gegn 59. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, hafi hann ákveðið að breyta kröfugerð sinni frá því sem greinir í áfrýjunaryfirlýsingu og greinargerð hans til Hæstaréttar og krefjast aðallega sýknu í málinu.  

5        Fyrir liggur að við meðferð málsins fyrir héraðsdómi játaði ákærði þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og hann var dæmdur fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Sú afstaða ákærða var áréttuð af verjanda hans við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Að þessu gættu hefur ákærði ekki fært fram haldbær rök fyrir sýknukröfu sinni.

6        Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

7        Dæma ber ákærða til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Landsrétti, sem verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

      Héraðsdómur skal vera óraskaður.

      Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 509.625 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, 496.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2017.

Mál þetta, sem var dómtekið 16. þessa mánaðar, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 31. janúar síðastliðinn, á hendur X, kt. [...], […], „fyrir brot á umferðarlögum með því að hafa mánudaginn 24. október 2016 í Kópavogi ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist kókaín 65 ng/ml) austur Hlíðarhjalla og inn á gatnamót Hlíðarhjalla og Dalvegar og í veg fyrir bifreiðina [...], þannig að árekstur varð“ og að hafa þannig brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006 og 3. gr. laga nr. 24/2007.

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.

Um málsatvik er skírskotað til ákæru.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök og var farið með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga um meðferð saka­mála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig í stuttu máli um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í sam­ræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þau brot sem honum eru gefin að sök og eru þau rétt heimfærð til refsiákvæðis. Ákærði hefur því unnið sér til refsingar.

Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og gerir verjandi hans kröfu um þóknun vegna starfa sinna á rannsóknarstigi og fyrir dómi. Af hálfu ákærða hafa færð fyrir dóminn gögn um að hann sé í fastri vinnu, í sambúð og með börn á framfæri.

Fyrir liggur að ákærði á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2004, en þar af hafa eftir­greind brot hans áhrif við ákvörðun refsingar í máli þessu, sbr. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940. Með sátt hjá lögreglustjóra [...] það ár, samþykkti ákærði greiðslu sektar og tímabundna sviptingu öku­réttar fyrir ölvunar­akstur. Með dómi […] 2005 var hann dæmdur til sektargreiðslu og tímabundinnar sviptingar ökuréttar fyrir sams konar brot. Með dómi […] sama ár var hann dæmdur í þrjátíu daga fangelsi, til sektargreiðslu og sviptur ökurétti ævi­langt, fyrir ölvunar- og hraðakstur. Með sátt hjá lögreglustjóra […] 2006 sam­þykkti hann sektargreiðslu fyrir sviptingar- og hraðakstur. Með dómi […] 2006 var hann dæmdur í 65 daga fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð, vegna ölvunar- og sviptingaraksturs. Með dómi […] 2006 var hann dæmdur í þrjátíu daga fang­elsi fyrir sams konar brot, sem hann framdi […] 2006, en um var að ræða hegningar­auka við fyrr­greindan dóm frá […] sama ár. Með dómi […] 2010 var hann dæmdur í 45 daga fangelsi og ævilöng ökuréttar­svipting hans áréttuð, vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkni­efni, aksturs undir áhrifum slíkra efna og aksturs sviptur ökurétti. Með dómi […] 2011 var hann dæmdur í sextíu daga fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti. Með dómi […] 2012 var hann dæmdur í fimm mánaða fang­elsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð, vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni, akstur undir áhrifum þess háttar efna og akstur sviptur ökurétti. Með dómi […] 2013 var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttar­svipting hans áréttuð, vegna hraðaksturs, aksturs undir áhrifum ávana- og fíkni­efna og aksturs sviptur ökurétti, en um var að ræða hegningarauka við fyrrgreindan dóm frá […] 2012. Með dómi […] 2013 var hann dæmdur í sjö mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttarsvipting hans áréttuð, vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna og sviptur ökurétti. Með dómi […] 2014 var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og ævilöng ökuréttar­svipting hans áréttuð, fyrir sams konar brot, en um var að ræða hegningarauka við fyrrgreindan dóm frá […] 2013.

Þann 14. mars á síðasta ári var ákærða veitt reynslulausn í tvö ár af eftir­stöðvum 270 daga refsingar samkvæmt framan­greindum dómum frá […] 2011, […] 2012, […] 2013, […] sama ár og […] 2014. Með brotum þeim sem hann er sakfelldur fyrir í máli þessu, hefur hann rofið ­skil­yrði þeirrar reynslulausnar og er hún því tekin upp og dæmd með í máli þessu með vísan til 1. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, sbr. 60. gr. almennra hegningar­laga. Samkvæmt því, að framan­greindu virtu og eftir 77. gr. sömu laga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sautján mánuði. Ekki eru efni til að skil­orðsbinda refsinguna.

Með vísan til 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga, er ævilöng ökuréttar­svipting ákærða áréttuð.

Á grundvelli 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, er ákærði dæmdur til að greiða sakar­kostnað málsins, sem samkvæmt yfirliti um slíkan kostnað og með stoð í öðrum framlögðum gögnum, nemur 105.928 krónum vegna rannsóknar málsins, og þóknun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttar­lögmanns, á rannsóknarstigi og fyrir dómi, sem þykir hæfilega ákveðin 169.880 krónur, að meðtöldum virðisauka­skatti.

Hákon Þorsteinsson, aðstoðarmaður dómara, dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í sautján mánuði. 

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði 275.808 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns fyrir dómi og á rannsóknarstigi, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttar­lögmanns, 169.880 krónur.