Print

Mál nr. 248/2000

Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Neyðarvörn
  • Skaðabætur

Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. nóvember 2000.

Nr. 248/2000.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Þórði Þórðarsyni

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

                                                   

Líkamsárás. Skilorð. Neyðarvörn. Skaðabætur.

Þ var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa fingurbrotið G. Þ bar meðal annars fyrir sig neyðarvörn, en með skírskotun til framburðar vitna og Þ sjálfs var ekki fallist á refsileysi á grundvelli 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu var staðfest, en refsing Þ var milduð. Var litið til þess að upptök átakanna þóttu ekki frekar rakin til Þ en G, sbr. 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga. Þá þótti mega rekja tjónið til gáleysis Þ, auk þess sem tekið var tillit til þess að hann hefði ekki áður gerst sekur um brot, sem máli skipti við ákvörðun refsingar. Ákvæði 1. og 4. tölul. 74. gr. nefndra laga þóttu ekki eiga við. Kröfu G um miskabætur var vísað frá héraðsdómi, en niðurstaða héraðsdóms um skaðabótakröfu G var að öðru leyti staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson og Eiríkur Tómasson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins, svo og að kröfu um skaðabætur, sem honum var gert að greiða í héraði, verði aðallega vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

I.

Í málinu er ákærði, sem er fæddur 1966, borinn sökum um að hafa brotið gegn ákvæði 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og henni var breytt með 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 8. ágúst 1999 í Austurstræti í Reykjavík gripið um og snúið upp á þumalfingur hægri handar Gunnars Jóns Jónassonar, en af því hafi Gunnar, sem er fæddur 1965, hlotið brot á fingrinum.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi liggur fyrir í málinu að ákærði kom seint að kvöldi 7. ágúst 1999 á veitingahúsið Rex við Austurstræti í Reykjavík ásamt sambúðarkonu sinni, Sólveigu Þórarinsdóttur, svo og Arnari Stefánssyni og Sigrúnu Hólmgeirsdóttur. Þar hittu þau Fjölni Þorgeirsson, sem hafði fyrr um kvöldið verið á matsölustað með þeim, svo og Óliver Pálmason. Á veitingahúsinu voru einnig staddir Gunnar Jón Jónasson og Þórður Ásmundsson. Sá síðastnefndi var kunnugur Fjölni og Óliver og blönduðust þeir Gunnar í hóp annarra, sem hér hefur verið getið. Fram er komið að eftir nokkra stund varð ákærða og Gunnari sundurorða vegna ummæla, sem ákærði beindi til Gunnars. Leiddi þetta til átaka milli þeirra á veitingahúsinu, sem lauk á skömmum tíma með því að þeir voru skildir að og Gunnari vísað þaðan út. Fór þá Þórður einnig út af veitingahúsinu.

Þeir Gunnar og Þórður voru enn staddir fyrir utan veitingahúsið nokkru síðar þegar ákærði yfirgaf það ásamt öðrum, sem eru nafngreindir hér að framan. Kom þar aftur til átaka milli ákærða og Gunnars. Gengu þá Arnar og Þórður á milli þeirra. Í framhaldi af því vék Gunnar skyndilega af vettvangi og hélt í flýti að veitingahúsinu Óðali, sem einnig er við Austurstræti. Þangað fór hann inn ásamt Þórði, sem kom aftur út eftir skamma stund og greindi frá því að Gunnar hefði brotnað á fingri. Eftir nokkra bið á síðastnefndu veitingahúsi var Gunnari ekið í lögreglubifreið á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Voru þar kannaðir áverkar á þumalfingri hægri handar hans, sem samkvæmt læknisvottorði 31. ágúst 1999 reyndust vera „mölbrot á nærkjúku við kjúkulið þumalfingursins með tilfærslu og aflögun.“ Gunnar gekkst undir aðgerð á sjúkrahúsinu 9. ágúst 1999, sem í sama læknisvottorði er lýst þannig að skorið hafi verið inn í brotið, það rétt og fest niður með stálvírum, en sárið síðan saumað og gipsspelku komið fyrir á fingrinum. Í málinu liggja ekki fyrir frekari læknisfræðileg gögn um þennan áverka eða afleiðingar af honum.

Í hinum áfrýjaða dómi var með stoð í framburði ákærða og vitna lagt til grundvallar að Gunnar hefði átt frumkvæði að átökunum við ákærða inni á veitingahúsinu Rex eftir að ákærði hefði uppnefnt hann. Gunnar hefði staldrað við utan veitingahússins ásamt Þórði í fimmtán til þrjátíu mínútur á meðan reynt var að finna þar innan dyra farsíma, sem Gunnar hefði misst í átökunum. Hann hefði hins vegar ekki setið þar fyrir ákærða. Nokkuð harkaleg átök hefðu síðan orðið milli Gunnars og ákærða þegar sá síðarnefndi kom út af veitingahúsinu, en ekki væri unnt að slá föstu hvor þeirra hefði átt þar upptökin. Með framburði Gunnars og Þórðar, sem fengi stoð í áðurnefndu læknisvottorði, væri sannað að ákærði hefði gripið um þumalfingur Gunnars þegar reynt var að skilja þá að, snúið upp á fingurinn og brotið hann. Væri ósannað að ákærði hefði ekki átt annarra kosta völ til að verjast Gunnari. Á þessum grunni var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing.

II.

Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hélt ákærði fram að ekki fái staðist annað en að Gunnar Jón Jónasson hafi átt upptökin að átökum þeirra utan við veitingahúsið Rex. Verði þetta einkum ráðið af samhljóða frásögn ákærða og vitnanna Fjölnis Þorgeirssonar, Sólveigar Þórarinsdóttur, Arnars Stefánssonar og Sigrúnar Hólmgeirsdóttur um að ákærði hafi þegar hann kom út af veitingahúsinu gengið yfir Austurstræti og beðið á gangstétt sunnan götunnar uns samferðarfólk hans var þangað komið. Gunnar hafi hins vegar enn staðið þá norðan götunnar fyrir utan veitingahúsið. Átökin hafi byrjað sunnan götunnar, þar sem ákærði var staddur, og hljóti því Gunnar að hafa komið þangað gagngert til að stofna til þeirra.

Við mat á þessum röksemdum ákærða er til þess að líta að Gunnar og Þórður Ásmundsson báru báðir fyrir dómi að þeir hafi verið á leið burt frá veitingahúsinu Rex og komnir langleiðina eða alveg yfir Austurstræti þegar ákærði hafi komið út af veitingastaðnum og ráðist að Gunnari. Standa að þessu leyti orð Gunnars og Þórðar gegn orðum ákærða og áðurnefndra vitna um aðdraganda átakanna. Héraðsdómari taldi sem fyrr segir ekki fært að slá föstu hvort ákærði eða Gunnar hafi átt upptök að átökunum. Þótt héraðsdómari hafi ekki komist að ákveðinni niðurstöðu í þessu efni verður að líta til þess að samkvæmt framburði Fjölnis Þorgeirssonar gekk hann með ákærða út af veitingahúsinu og yfir götuna, en þaðan kvaðst Fjölnir hafa séð til Gunnars, sem hafi verið órólegur handan götunnar og á tali við dyraverði veitingahússins. Hafi Fjölnir hvatt ákærða til að koma strax með sér í burtu, en ákærði hafi orðið um kyrrt og leiðir þeirra skilið. Af þessu verður ekki annað séð en að ákærði hafi að minnsta kosti látið fram hjá sér fara tækifæri til að víkja af vettvangi og komast þannig hjá frekari átökum við Gunnar, þrátt fyrir varnaðarorð samferðarmanns síns. Þá er þess enn frekar að gæta að samræmi er í frásögn vitna, sem báru um átök ákærða og Gunnars, um að þeir hafi ráðist hvor gegn öðrum með ryskingum, höggum og spörkum eftir að fundum þeirra bar saman. Var þá háttsemi hvors um sig orðin slík að hana má telja vísvitandi árás á líkama hins, svo sem um ræðir í upphafsorðum 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í því efni breytir engu hvor stofnaði til átakanna.

Þegar litið er til þeirrar lýsingar á beinbroti Gunnars, sem er að finna í áðurnefndu læknisvottorði frá 31. ágúst 1999, má telja útilokað að hann hafi orðið fyrir áverkanum áður en hann hitti ákærða í Austurstræti og gengið til átaka svo á sig kominn. Ákærða og vitnum ber öllum saman um að Gunnar hafi vikið af vettvangi og farið inn á veitingahúsið Óðal þegar í kjölfarið á því að Arnar og Þórður skildu hann og ákærða að. Ákærði hefur sjálfur borið fyrir dómi að Þórður hafi fylgt Gunnari, en komið strax aftur út af veitingahúsinu og sagt Gunnar vera fingurbrotinn. Af þessari lýsingu að dæma er með ólíkindum að Gunnar hafi orðið fyrir áverkanum eftir að átökunum lauk. Lýsing vitna á gerðum Arnars og Þórðar til að stöðva átök ákærða og Gunnars gefur ekkert tilefni til að ætla að sá síðastnefndi geti hafa af þeirra völdum orðið fyrir slíkum áverka, sem raun varð á. Gunnar og Þórður báru báðir fyrir dómi að ákærði hafi undir lok átakanna gripið um þumalfingur Gunnars, sem hafi brotnað í framhaldi af því. Í hinum áfrýjaða dómi taldi héraðsdómari sannað með þessum framburði að Gunnar hafi hlotið fingurbrotið á þann hátt, sem hér var greint. Að gættu öllu framangreindu eru engin skynsamleg rök til að ætla annað, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður því að leggja til grundvallar að ákærði hafi með vísvitandi árás valdið Gunnari slíku tjóni á líkama, sem um ræðir í 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Fyrir dómi báru Gunnar og Þórður að eftir að ákærði hafði gripið um þumalfingur Gunnars hafi hann af ráðnum hug snúið upp á fingurinn. Gegn eindreginni neitun ákærða er varhugavert að telja þetta sannað. Verður því að meta ákærða til gáleysis að fingur Gunnars brotnaði við þessi atvik.

Ákærði hefur haldið því fram að hvað sem öðru líði verði vegna ákvæðis 12. gr. almennra hegningarlaga að telja háttsemi hans gagnvart Gunnari refsilausa, enda hafi hún helgast af neyðarvörn. Samkvæmt 45. gr. laga nr. 19/1991 hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag. Leiðir þegar af þeim orðum að ekki hvílir á ákæruvaldinu að hnekkja staðhæfingu ákærða um atvik, sem horft gætu honum til refsileysis. Verður gagnstæð regla hvorki leidd af 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, né 2. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu með áorðnum breytingum, eins og henni hefur verið beitt í framkvæmd. Jafnvel þótt sönnunarbyrði væri á annan veg er þess og að gæta að fyrir dómi svaraði ákærði spurningu um hvort annar hvor þeirra Gunnars hafi haft undirtökin í átökum þeirra í Austurstræti með svofelldum orðum: „Nei, þetta var svona bara einhvern veginn krafs út í loftið. Mér fannst ég ekkert vera þannig séð að vera undir, mér fannst ég ekkert vera að taka hann sko.“ Framburður vitna gefur ekkert tilefni til að ætla að ákærða hafi verið búin frekari hætta af átökunum en hann hefur metið sjálfur með þessum orðum. Verður einnig að líta til þess, sem fyrr segir, að sannað er að Gunnar hlaut áverkann eftir að Arnar og Þórður höfðu gengið á milli hans og ákærða. Af þessum ástæðum kemur ákvæði 12. gr. almennra hegningarlaga ekki frekar til álita hér.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ákærði hafi með umræddri háttsemi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

III.

Við ákvörðun refsingar verður að taka tillit til þess að ákærði gerðist sekur um áðurgreint brot í átökum við Gunnar Jón Jónasson, en upptökin að þeim verða sem fyrr segir ekki frekar rakin til ákærða en Gunnars. Ber því að gæta í þessu efni 3. mgr. 218. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981. Eins og atvikum málsins er háttað geta hins vegar ekki átt hér við ákvæði 1. eða 4. töluliðar 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga, svo sem ákærði hefur haldið fram. Líta verður til þess að rakið verður til gáleysis ákærða að átökin leiddu til þess líkamstjóns, sem raun varð á. Þá hefur ákærði ekki áður gerst sekur um brot, sem máli skiptir við ákvörðun refsingar nú. Að öllu þessu gættu er refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. Verður sú refsing skilorðsbundin, eins og nánar greinir í dómsorði.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða gert að greiða Gunnari Jóni Jónassyni skaðabætur að fjárhæð alls 271.636 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá uppsögudegi dómsins. Var þar nánar tiltekið um að ræða miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, að fjárhæð 150.000 krónur og útlagðan sjúkrakostnað, 21.636 krónur, auk 100.000 króna vegna kostnaðar af störfum lögmanns. Í yfirlýsingu ákærða um áfrýjun héraðsdóms var ekki getið um að málskot hans ætti auk annars að taka til þessarar einkaréttarkröfu, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991, eins og henni var breytt með 11. gr. laga nr. 37/1994. Í samræmi við þetta var ekki að því vikið í áfrýjunarstefnu að áfrýjun ákærða tæki til niðurstöðu um einkaréttarkröfuna, svo sem annars hefði orðið að gera samkvæmt c. lið 2. mgr. 153. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1994. Af þessum sökum getur krafan ekki komið til úrlausnar fyrir Hæstarétti að efni til, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 19/1991. Á hinn bóginn verður að líta til þess að í bréfi lögmanns Gunnars 30. nóvember 1999 til lögreglustjórans í Reykjavík, þar sem einkaréttarkrafan var sett fram, var þess sérstaklega getið að áskilinn væri réttur til að gera á síðari stigum skaðabótakröfu á hendur ákærða, þegar aflað hefði verið örorkumats vegna áverka Gunnars, en á þessu stigi væri gerð krafa um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Sú krafa var þar lítt rökstudd, en þó öðrum þræði með skírskotun til þess að fyrirsjáanlegt væri að Gunnar hafi orðið fyrir varanlegu tjóni vegna áverkans. Eins og skaðabótakrafan var að þessu leyti sett fram skortir mjög á skýrleika um hvort henni var ætlað að ná til slíks miska, sem um ræðir í 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 3. gr. laga nr. 37/1999, eða hvernig skilið yrði annars á síðari stigum á milli hans og þess háttar miska, sem ákvæði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga tekur til. Að þessu virtu verður að vísa kröfu Gunnars um miskabætur sjálfkrafa frá héraðsdómi. Einkaréttarkrafa hans er að öðru leyti ekki haldin formgalla, sem valdið gæti frávísun hennar. Verður niðurstaða héraðsdóms um önnur atriði hennar því að standa óröskuð.

Eftir þessum úrslitum málsins verður ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað staðfest og ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Þórður Þórðarson, sæti fangelsi í 30 daga, en fullnustu þeirrar refsingar er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Gunnari Jóni Jónassyni 121.636 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. maí 2000 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2000.

Málið er höfðað með ákæru 22. febrúar 2000 á hendur Þórði Þórðarsyni, kt. 141066-3239, Melseli 9, Reykjavík, “fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 8. ágúst 1999 í Austurstræti í Reykjavík, gripið um hægri þumalfingur Gunnars Jóns Jónassonar, kt. 070765-3819, og snúið upp á fingurinn, með þeim afleiðingum að þumalfingurinn brotnaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.  Þá krefst nefndur Gunnar Jón Jónasson þess að ákærða verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur, samtals að fjárhæð 1.195.011 kr. með hæstu lögleyfðu vöxtum.”

I.

Um klukkan korter fyrir tvö aðfararnótt sunnudagsins 8. ágúst 1999 kom Gunnar Jón Jónasson að máli við lögreglumenn sem voru að aka frá miðborgarstöð og sagði að ráðist hefði verið á sig á skemmtistaðnum Rex við Austurstræti.  Í frumskýrslu Sigurðar Sigurbjörnssonar segir að Gunnar Jón hafi verið með áverka á þumalfingri hægri handar og að lögreglan hafi ekið honum á Slysadeild sjúkrahúss Reykjavíkur.  Þar segir jafnframt að Gunnar Jón hafi ekki vitað nafn árásarmannsins en ætlaði að grennslast fyrir um það og leggja fram kæru síðar.

Þann 12. ágúst 1999 lagði Gunnar Jón svo fram kæru á hendur Þórði Þórðarsyni.  Við það tilefni var tekin skýrsla af Gunnari Jóni.  Hann hefur borið við þá yfirheyrslu og fyrir dómi, að hann hafi setið við borð á veitingastaðnum Rex ásamt nokkrum kunningjum.  Þá hafi ákærði sest við borðið hjá þeim og verið með leiðindi við hann.  Ákærði hafi kallað hann “flöffer” sem vakið hafi mikla kátínu á meðal annarra sem við borðið sátu.  Einn af þeim er þar sat hafi útskýrt fyrir honum hvað “flöffer” merkti, en það væri stelpa sem hitaði upp fyrir samfarir hjá öðrum.  Hann hafi því verið talinn “pervert” af þeim sem við borðið sátu.  Gunnar Jón kveðst hafa beðið ákærða um að hætta en hann ekki sinnt því.  Hann hafi því tekið um hönd ákærða sem ráðist hafi á sig í framhaldi af því.  Dyraverðir hafi síðan gripið inn í og hent honum út úr húsinu.  Hann taldi skýringu þess að sér hefði verið vísað út en ekki ákærða vera þá að hann hafi staðið nær dyrunum. 

Er út var komið hafi honum orðið ljóst að hann hefði glatað síma sínum inni á Rex.  Hann hafi því dokað við nokkra stund og reynt að ná sambandi við dyraverðina í því skyni að fá símann aftur.  Á meðan á því stóð hafi kunningjar hans komið út og ákærði rétt á eftir.  Gunnar Jón kveður ákærða fljótlega hafa ráðist að sér með karatespörkum.  Hann hafi þó náð að grípa í jakka ákærða en við það hafi menn reynt að ganga á milli þeirra.  Einhver hafi náð að halda honum en þá hafi ákærði náð taki á þumalfingri hans og brotið hann.  Hann hafi þá farið inn á skemmtistaðinn Óðal í því skyni að hringja á lögregluna.  Aðspurður kvaðst Gunnar Jón hvorki hafa sparkað í né kýlt ákærða og ekki kunna skýringu á glóðarauga hans.    Gunnar Jón kvaðst hafa drukkið 3-4 bjóra umrætt kvöld en ekki verið undir miklum áhrifum. 

Fyrir dómi var Gunnar Jón spurður að því hvort ákærði hefði farið úr jakka sínum áður en átökin hófust.  Hann sagði hann hafa gert svo.  Þá var hann spurður að því hvernig hann hefði getað gripið í jakka ákærða hafi hann verið farinn úr honum.  Gunnar Jón kvaðst þá hafa gripið í þá flík sem ákærði hafi verið í.

Samkvæmt vottorði Guðmundar Más Stefánssonar, lýtalæknis á bæklunardeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, dagsettu 31. ágúst 1999, kom Gunnar Jón Jónasson á slysadeildina þann 8. ágúst 1999 vegna áverka á hægri þumalfingri.  Í vottorðinu segir:  “Við skoðun á slysadeild Reykjavíkur þessa sömu nótt kom í ljós aflögun á hægri þumalfingri með vægri bólgu.  Röntgenmynd var tekin af þumalfingrinum sem sýndi mölbrot á nærkjúku við kjúkulið þumalfingursins með tilfærslu og aflögun. 

Gangur og meðferð:  Undirritaður gerði síðan aðgerð á brotinu á nærkjúku þumalfingurs hægri handar þann 09.08.  Aðgerðin fólst í því að skorið var inn á brotið, það rétt og það síðan fest niður með stálvírum.  Sár var síðan saumað og komið fyrir gipsspelku á þumalfingrinum.  Hann verður síðan til eftirlits hjá undirrituðum þar sem nokkrar vikur tekur fyrir brotið að gróa, að minnsta kosti 4-6 og að þeim tíma liðnum verða stálvírar fjarlægðir úr fingrinum. 

Álit:  Afleiðingar áverka sem slíks til langs tíma eru að sjálfsögðu ekki komnar í ljós þar sem stutt er liðið frá slysi og aðgerð.  Brot sem þessi eru þó alltaf talin nokkuð alvarleg þar sem þau liggja í liðfletinum en brot sem slík geta valdið því að hreyfigeta um fingurlið sem brotnar verður oft skert til langframa.  Það mun koma í ljós á nokkrum mánuðum hvort að slík hreyfiskerðing verður í þessu tilfelli en það má telja frekar líklegt.”

Þá liggur frammi vottorð Anne Malén sjúkraþjálfara 29. nóvember sl. um það að Gunnar Jón hafi verið í sjúkraþjálfun hjá henni vegna fingurbrotsins frá 17. september sl. í 7 skipti.  Kemur þar fram að hann geti beygt MCP- lið þumalfingurs 50° og IP-lið 28° og lítil breyting hafi verið á hreyfigetu undanfarnar 3 vikur.

II.

Verður nú gerð grein fyrir framburði annarra vitna við rannsókn og meðferð málsins.  Vitnin Arnar Stefánsson, Þórður Ásmundsson, Sólveig Þórarinsdóttir voru fyrst yfirheyrð í nóvember og desember.  Vitnin Fjölnir Þorgeirsson og Sigrún Hólmgeirsdóttir voru ekki yfirheyrð fyrr en fyrir dómi.

Vitnið Arnar Stefánsson hefur borið bæði við yfirheyrslu hjá lögreglu og fyrir dómi, að hann hafi verið að skemmta sér umrætt kvöld ásamt kærustunni sinni, ákærða og fleira fólki, en þau hafi lagt leið sína á skemmtistaðinn Rex um miðnætti.  Er þau komu þangað hafi þau sest við borð þar sem fyrir sátu Gunnar Jón og fleiri.  Nokkru síðar hafi Gunnar Jón og vinur hans, Þórður Ásmundsson, staðið upp og byrjað að syngja.  Er þeir höfðu lokið söngnum hafi hann ásamt ákærða klappað fyrir söngnum og sagt “Doddi og flöfferinn”, en það orð hafi verið í hávegum haft þetta kvöld.  Við þessi ummæli hafi Gunnar Jón brugðist ókvæða við og gripið þéttingsfast með vinstri hendi aftan í háls ákærða.  Ákærði hafi þá gripið um innanvert læri Gunnars Jóns til að losa takið eða fá hann til að sleppa.  Upp úr því hafi Gunnar Jón stokkið á ákærða og þeir oltið í gólfið.  Dyraverðirnir hafi snarlega skilið þá að og vísað Gunnari Jóni út af staðnum.  Þórður Ásmundsson vinur hans hafi yfirgefið staðinn með honum. 

Arnar sagði sig og föruneyti sitt hafa setið áfram inni nokkra stund, u.þ.b. 15 mínútur.  Þau hafi síðan yfirgefið staðinn, en hann gengið út nokkru á eftir hinum.  Er hann hafi komið út hafi Gunnar Jón staðið fyrir utan, rifið í hann og sagt:  “Hvar er helvítis fíflið?  Ég ætla að ganga frá honum.”  Arnar kveðst hafa talið víst að Gunnar Jón ætti við ákærða.  Hann hafi sagt Gunnari Jóni að gleyma þessu og fara.  Þá kveðst hann hafa komið auga á ákærða ásamt öðrum úr hópnum hinum megin við götuna.  Hann hafi gengið á áttina til þeirra en Gunnar Jón hafi elt hann hrópandi ókvæðisorð að ákærða og ákærði svarað í sömu mynt.  Gunnar Jón hafi svo rifið sig úr jakkanum, hlaupið yfir götuna og ráðist að ákærða.  Þá hafi upphafist högg og spörk á milli þeirra án þess að hann hafi séð hvor hafði undirtökin.  Slagsmálin hafi borist yfir götuna og eftir skamma stund hafi hann ásamt Þórði Ásmundssyni, vini Gunnars Jóns, reynt að ganga á milli þeirra til að stöðva átökin.  Hann hafi síðan séð þar sem Gunnar Jón hafi tekið ákærða hálstaki áður en Gunnar Jón skyndilega hljóp í burtu.  Aðspurður kvaðst Arnar hvorki hafa séð né heyrt þegar fingur Gunnars Jóns brotnaði.  Arnar taldi fingurinn þó ekki hafa getað brotnað af völdum þeirra Þórðar er þeir reyndu að skilja þá Gunnar Jón og ákærða að. 

Þá tók Arnar fram að kærasta hans hefði fundið síma á gólfinu inni á Rex og talið það vera hans síma.  Síðar hafi komið í ljós að um síma Gunnars Jóns hafi verið að ræða.

Vitnið Þórður Ásmundsson var yfirheyrður bæði við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi.  Hann kveðst hafa verið í heimahúsi umrætt kvöld ásamt vini sínum Gunnari Jóni.  Þeir hafi drukkið nokkuð áfengi og haldið síðan niður í miðbæ.    Hann telur þá hafa komið á skemmtistaðinn Rex um miðnætti.  Hann segir þá hafa sest við borð þar sem fyrir sátu ákærði, Fjölnir Þorgeirsson og fleiri, en hann hafi kannast við nokkra þeirra er þar sátu.  Stuttu síðar hafi ákærði byrjað að uppnefna Gunnar Jón með því að kalla hann stöðugt “flöffer”.  Hafi þetta vakið kátínu á meðal annarra er við borðið sátu.  Hann sagði sér hafa virst sem ákærði hefði verið að reyna að æsa Gunnar Jón upp.  Þetta hafi endað með því að ákærði og Gunnar Jón hafi rokið saman, dyraverðir skilið þá að og vísað Gunnari Jóni út í kjölfar þess.  Þórður kveðst hafa farið út á eftir Gunnari Jóni. 

Er út kom hafi Gunnar Jón staðið þar og verið að reyna að ná tali af dyravörðunum þar sem hann hafi glatað síma sínum í átökunum.  Annar dyravörðurinn hafi farið inn og leitað að símanum en ekki fundið hann.  Í sama mund hafi ákærði komið út ásamt vinum sínum.  Þórður kveðst þá hafa sagt við Gunnar Jón að þeir skyldu ganga í burtu til að forðast frekari vandræði sem þeir og hafi gert.  Þeir hafi gengið af stað yfir Austurstræti í átt að ÁTVR og er þangað var komið hafi ákærði rokið á eftir þeim, byrjað að klæða sig úr jakkanum og kalla ókvæðisorð að Gunnari Jóni.  Ákærði hafi komið askvaðandi yfir götuna og tekið að sparka í áttina að Gunnari Jóni.  Gunnar Jón hafi beðið ákærða að hætta og láta sig í friði.  Hann segir Gunnar Jón hvorki hafa verið með tilburði til að hefja átök né hafa ögrað ákærða á nokkurn hátt.  Þórður segir ákærða síðan hafa sparkað í Gunnar Jón sem hafi borið hendur fyrir sig til varnar.  Hann segir Gunnar Jón hafa haldið í ákærða og reynt að ýta honum frá.  Honum fannst hvorugur hafa undirtökin en tók þó fram að Gunnar Jón hafi greinilega verið að reyna að verja sig.  Því næst hafi hann og Arnar Stefánsson reynt að skilja þá ákærða og Gunnar Jón að.  Gunnar Jón hafi verið búinn að sleppa ákærða og staðið stutt frá honum þegar ákærði hafi gripið í hendi Gunnars Jóns og tekið í þumalputtann og hreinlega mölvað hann.  Kvaðst hann aldrei hafa séð annað eins.  Mikill eymdarsvipur hafi komið á Gunnar Jón sem hafi hlaupið inn á skemmtistaðinn Óðal.  Hann segist hafa elt Gunnar Jón inn á Óðal og muna eftir því að ákærði hafi kallað á eftir þeim ókvæðisorð.  Hann kveðst hafa skoðað fingur Gunnars Jóns þar og hann hafi augljóslega verið mölbrotinn.  Aðspurður taldi Þórður útilokað að fingur Gunnars Jóns hefði getað brotnað er þeir Arnar Stefánsson voru að reyna að skilja þá ákærða og Gunnar Jón að.  Þórður kveðst hafa skilið við Gunnar Jón á Óðali og haldið áfram að skemmta sér þar sem hann nennti ekki með Gunnari Jóni upp á slysadeild.  Aðspurður sagði Þórður að bæði hann og Gunnar Jón hefðu verið undir áhrifum áfengis umrætt kvöld en hvorugur þó ölvaður. 

Vitnið Sólveig Þórarinsdóttir, sambýliskona ákærða, var bæði yfirheyrð við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi.  Hún lýsir aðdraganda málsins á sama veg og ákærði.  Þá segir hún að þeir Gunnar Jón og Þórður Ásmundsson hafi komið að borði hópsins inni á Rex.  Þeir félagarnir hafi verið fremur háværir en hún þó ekki veitt þeim sérstaka eftirtekt fyrr en hún hafi séð þar sem Gunnar Jón reif ákærða upp og felldi hann í gólfið.  Dyraverðirnir hafi svo slitið þá í sundur og vísað Gunnari Jóni út en ákærða aftur í sæti sitt. 

Um það bil hálftíma síðar hafi hópurinn gengið út. Arnar hafi orðið eftir á tröppunum en hin gengið yfir götuna og beðið hans þar.  Þá hafi Gunnar Jón komið æðandi yfir götuna og virst vera í miklum vígamóð.  Hann hafi klætt sig úr jakkanum á leið sinni til þeirra og síðan ráðist að ákærða.  Því næst hafi Gunnar Jón reynt að slá til ákærða og átök hafist á milli þeirra.  Átökin hafi staðið þar til þeir Arnar og Þórður Ásmundsson gengu á milli. Gunnar Jón hafi verið “agressívur” mjög en ákærði hins vegar reynt að koma sér undan slagsmálum.  Aðspurð kveðst vitnið ekki hafa tekið eftir hvernig fingur Gunnars Jóns brotnaði.  Þá tók hún fram að henni hafi ekki virst sem Gunnar Jón hafi verið þjáður en hann hafi hlaupið í burtu er búið var að skilja þá að.  Enn fremur fullyrti hún að ákærði hafi ekki farið úr jakkanum áður eða um það bil sem átökin hófust.  Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa neytt áfengis umrætt kvöld.

Vitnið Sigrún Hólmgeirsdóttir var fyrst yfirheyrð fyrir dómi.  Framburður hennar er efnislega samhljóða framburði vinkonu hennar, Sólveigar Þórarinsdóttur.

Vitnið Fjölnir Þorgeirsson var fyrst yfirheyrður fyrir dómi.  Hann var yfirheyrður í sérstöku þinghaldi að kröfu verjanda með vísan til 2. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar sem hann var erlendis þegar aðalmeðferð málsin fór fram.  Hann ber á sama veg og önnur vitni um aðdraganda málsins.  Lýsing hans á upphafi átakanna inni á Rex er þó nokkuð nákvæmari.  Fjölnir segir að eftir að ákærði hafi kallað Gunnar Jón “flöffer” hafi hann gripið í innanvert læri ákærða.  Ákærði hafi á móti tekið í læri Gunnars Jóns.  Er þeir hafi haldið í læri hvors annars í 5-10 sekúndur hafi Gunnar Jón tekið ákærða hálstaki og hent honum af stólnum aftur á bak.  Eftir örskamma stund hafi hann og dyraverðirnir skilið þá að.  Gunnari Jóni hafi þá verið vísað út en ákærða aftur til sætis síns. 

Hópurinn hafi svo farið út 15-30 mínútum síðar.  Þá hafi þeir Fjölnir og ákærði gengið saman yfir götuna og hinkrað þar eftir Sólveigu.  Þar hafi þeir komið auga á Gunnar Jón sem hafi verið fremur órólegur fyrir utan Rex að tala við dyraverðina.  Hann hafi því sagt við ákærða að þeir skyldu drífa sig í burtu.  Að svo búnu kveðst Fjölnir hafa gengið af stað í átt að Skuggabarnum.  Fjölnir kvaðst ekki hafa neytt áfengis umrætt kvöld.  Þá kvaðst Fjölnir þekkja bæði ákærða og Þórð Ásmundsson en ekki Gunnar Jón.  Aðspurður kvaðst Fjölnir ekki hafa orðið vitni að þeim átökum sem síðar áttu sér stað fyrir utan Rex á milli ákærða og Gunnars Jóns. 

Ákærði var ekki yfirheyrður um sakarefnið hjá lögreglu fyrr en 25. nóvember 1999.  Hann var einnig yfirheyrður fyrir dómi.  Ákærði skýrði frá fyrri hluta umrædds kvölds á sama hátt og þau vitni sem að framan getur.  Hann kveðst hafa setið við borð ásamt sambýliskonu sinni og fleirum er þeir Gunnar Jón og Þórður Ásmundsson hafi komið syngjandi þar að.  Þeir hafi áður verið með leiðindi í sambandi við sæti við borðið og  sagst hafa setið í þeim sætum sem ákærði og samferðafólk hans sátu í.  Að söngnum loknum hafi hann spurt hvort þetta hafi verið “Doddi og flöfferinn”.  Þá hafi Gunnar Jón þrifið í háls hans með þeim afleiðingum að bolur hans rifnaði.  Hann kvað Gunnar hafa haldið fast um háls hans og spurt hvað “flöffer” þýddi.  Hann hafi því ýtt í fót Gunnars Jóns til þess að losna undan þessu taki.  Gunnar Jón hafi þá ráðist á hann með þeim afleiðingum að þeir hafi báðir oltið niður á gólf.  Ekki hafi verið um högg og spörk að ræða.  Engin frekari átök hafi átt sér stað þar sem dyraverðir og fólk sem sat við borðið hafi gengið á milli.  Í kjölfar þess hafi Gunnari Jóni verið vísað út af Rex.  Aðspurður taldi hann orðið “flöffer” vera heiti yfir aðstoðarkonur við gerð klámmynda.  Þá taldi hann sig ekki hafa æst Gunnar Jón upp á neinn hátt. 

Eftir þessar stimpingar hafi hann setið inni á Rex í u.þ.b. 30 mínútur en farið svo út ásamt sambýliskonu sinni og fleirum úr hópnum.  Þau hafi farið yfir götuna og beðið þar nokkra stund eftir Arnari.  Er hann hafi séð Arnar koma út hafi hann jafnframt orðið var við Gunnar Jón.  Í sama mund hafi Gunnar Jón komið auga á hann, rokið af stað í áttina til þeirra og rifið sig úr jakkanum á leiðinni.  Gunnar Jón hafi ráðist á hann og einhver handalögmál orðið þeirra á milli.  Hann kvaðst ekki geta lýst því nákvæmlega hvað hafi gerst.  Ljóst sé þó að einhver högg og spörk hafi gengið á milli þar sem hann hafi verið með glóðarauga eftir átökin.  Eftir skamma stund hafi Arnar og Þórður Ásmundsson skilið þá að.  Gunnar og Þórður Ásmundsson hafi svo hlaupið inn á skemmtistaðinn Óðal.  Skömmu síðar hafi Þórður Ásmundsson komið út og tilkynnt að Gunnar Jón væri fingurbrotinn.  Hann kvaðst ekki minnast þess að í átökunum hafi hann fundið fyrir því að fingur Gunnars Jóns brotnaði eða að hann hafi gripið í hann á þann hátt að til þess gæti leitt.  Þar sem þeir hafi verið skildir að, hefði alveg eins eitthvað getað gerst við það, sem leiddi til þess að fingurinn brotnaði.  Aðspurður kvað hann hvorugan hafa haft undirtökin.  Fremur hafi verið um krafs út í loftið að ræða en átök.  Þá kvaðst hann ekki hafa verið áfjáður í átök þessi.  Ennfremur neitaði hann því staðfastlega að hafa átt upptök að átökunum fyrir utan skemmtistaðinn Rex.  Þá neitaði hann því alfarið að hann hafi gripið um hönd Gunnars Jóns og snúið upp á hana með þeim afleiðingum að fingur Gunnars Jóns brotnaði.  Hann kvaðst ekki hafa verið undir miklum áhrifum áfengis umrætt kvöld.  Aðspurður kvaðst hann hafa lagt stund á baradagaíþróttir um skeið.

III.

Niðurstaða

Fram er komið að lögregla hafi ekið Gunnari Jóni Jónassyni á Slysadeild sjúkrahúss Reykjavíkur aðfararnótt sunnudagsins 8. ágúst 1999 vegna áverka á þumalfingri hægri handar.  Haft er eftir honum sjálfum, ákærða sem og vitnunum, Arnari Stefánssyni, Þórði Ásmundarsyni, Sólveigu Þórarinsdóttur og Sigrúnu Hólmgeirsdóttur að hann hafi lent í átökum við ákærða umrætt kvöld fyrir utan skemmtistaðinn Rex við Austurstræti.

Gunnari Jóni, ákærða, vitninu Fjölni Þorgeirssyni sem og framangreindum vitnum ber í megindráttum saman um aðdraganda umræddra átaka.  Þeir Gunnar Jón og ákærði hafi setið ásamt öðru fólki við borð inni á skemmtistaðnum Rex.  Þar hafi Gunnar Jón og kunningi hans Þórður Ásmundsson verið með háreysti.  Ákærði hafi í kjölfar þess kallað Gunnar Jón “flöffer”.  Gunnari Jóni hafi sárnað við þessi ummæli en þau hins vegar vakið kátínu annarra við borðið.  Þeir Gunnar Jón og Þórður Ásmundsson hafa báðir borið að Gunnar Jón hafi beðið ákærða vinsamlega um að hætta en hann ekki orðið við því.  Þá ber Gunnari Jóni, ákærða og öðrum vitnum saman um að til átaka hafi komið milli þeirra Gunnars Jóns og ákærða í kjölfar þessa.  Þeim ber hins vegar ekki saman um upptök þeirra.  Gunnar Jón kveður ákærða hafa rokið á sig eftir að hann hafi gripið í hönd ákærða, vitnið Þórður Ásmundarson segir þá hafa rokið saman en vitnin Arnar, Sólveig, Sigrún og Fjölnir segja Gunnar Jón hafa rokið á ákærða og tekið hann hálstaki.  Öllum ber þeim saman um að Gunnari Jóni hafi verið vísað út af Rex er dyraverðir höfðu gengið á milli.  Telja verður fram komið, þrátt fyrir framburð Gunnars Jóns, með stoð í vætti framangreindra vitna, að átökin innan dyra hafi hafist að hans frumkvæði í framhaldi þess að ákærði kallaði hann því óviðurkvæmilega uppnefni „flöffer”.

Gunnar Jón, ákærði og önnur vitni eru ekki á einu máli um það sem gerðist utan dyra.  Sannað þykir, með stoð í framburði vitnisins Arnars, að frásögn Gunnars Jóns um að hann hafi orðið þess áskynja að hafa glatað síma sínum eftir að út kom og beðið fyrir utan Rex nokkra stund sökum þess sé rétt.  Ekki er því hægt að leggja til grundvallar að hann hafi setið fyrir ákærða.  Sannað þykir, með stoð í framburði vitna, að ákærði hafi komið út 15-30 mínútum eftir að Gunnari Jóni var vísað út.  Það sem síðan gerðist er hins vegar nokkuð á reiki.  Ljóst er að til átaka kom á milli þeirra Gunnars Jóns og ákærða.  Gunnari Jóni, ákærða og öðrum vitnum ber hins vegar ekki saman um upptök þeirra.  Þeir Gunnar Jón og Þórður Ásmundsson segja ákærða hafa ráðist að Gunnari Jóni með nokkru offorsi eftir að ókvæðisorð höfðu gengið á milli.  Ákærði sem og vitnin Arnar, Sólveig og Sigrún eru hins vegar á öndverðum meiði.  Þau segja Gunnar Jón hafa ráðist að ákærða.  Vitnið Arnar segir Gunnar Jón hafa spurt sig, eftir að hann kom út, hvar „helvítis fíflið” væri og taldi hann víst að Gunnar Jón hefði átt við ákærða.  Framburður framangreindra vitna hefur verið trúverðugur og stöðugur.  Hins vegar ber þeim ekki saman um hvor hafi átt upptök átakanna í Austurstrætinu.  Við mat á vætti vitnanna verður að líta til þess að vitni að átökunum eru ýmist vinir ákærða eða kæranda og eitt þeirra er sambýliskona ákærða.  Verður því ekki unnt að slá því föstu hvor átti upptökin.  Telja verður að átökin hafi verið allharkaleg högg og spörk hafi gengið á milli en báðir aðilar hafa lagt stund á bardagaíþróttir.  Sýnt er að ákærði hafi hlotið glóðarauga í átökunum með vísan til framlagðs læknisvottorðs.  Ljóst er að eftir að umrædd átök höfðu staðið skamma stund gengu þeir Arnar Stefánsson og Þórður Ásmundsson á milli og stöðvuðu þau.  Þrátt fyrir neitun ákærða og að önnur vitni hafi ekki orðið þess vör, þykir sannað með vísan til framburðar Gunnars Jóns og Þórðar Ásmundssonar, sem fær stoð í framangreindu læknisvottorði, að á meðan Arnar og Þórður voru að skilja þá að, hafi ákærði gripið um fingur Gunnars Jóns snúið upp á og brotið hann.  Ákærða mátti vera það ljóst að fingurbrot gæti hlotist af þessum aðförum hans.  Ekkert er framið komið í málinu sem bendir til þess að annar þeirra hafi haft undirtökin í átökunum og ósannað er að ákærði hafi ekki átt annars úrkosta til að verjast kæranda.

Fingur Gunnars Jóns þríbrotnaði eins og fram kemur í áverkavottorði Guðmundar Más Stefánssonar lýtalæknis.  Ennfremur hafði brotið þær afleiðingar í för með sér að Gunnar Jón gat lítið beitt fingrinum um nokkurt skeið og þurfti að gangast undir sjúkraþjálfun.  Enn er ekki ljóst hvort afleiðingar þessar eru varanlegar.  Varðar háttsemi ákærða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.  Við ákvörðun refsingar ákærða ber að hafa til hliðsjón af því að verknaður hans var unnin í átökum, sem óljóst er hvor hafði frumkvæði að, svo og þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum.  Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Jón Egilsson héraðsdómslögmaður hefur lagt fram kröfu fyrir hönd Gunnars Jóns á hendur ákærða, dags. 30. nóvember sl., sem barst lögreglustjóranum í Reykjavík 3. desember sl., samtals að fjárhæð samtals 1.195.011 krónur.

Krafan er vegna tímabundins fjártjóns og miskabóta og sundurliðast sem hér segir:

1)             Tímabundið atvinnutjón fyrir ágúst 1999, 120.000 krónur, september sama ár, 140.000 krónur og október sama ár, 120.000 krónur.

2)             Aðkeypt vinna vegna þrifa og hreinsunar á Borgartúni 19, Reykjavík,

100.000 krónur. 

3)              Útlagður lækniskostnaður, samtals 21.636 krónur.

4)               Bætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga fyrir ólögmæta meingerð, 600.000 krónur.

5)               Lögmannsþóknun, 75.000 krónur auk virðisaukaskatts, samtals 93.375.

Þá er krafist hæstu lögleyfðra vaxta af öllum kröfuliðum, samtals 1.195.011 krónur.  Ekki er getið upphafstíma vaxta.

Fram kemur í kröfugerðinni og öðrum gögnum er henni fylgja svo og gögnum málsins að kærandi er kerfisfræðingur.  Þá kemur fram í kröfugerðinni að hann hafi getað mætt í fasta vinnu, en orðið að hætta aukastörfum vegna fingurbrotsins.  Þess er og getið að endanlegt tjón sé ekki komið fram og því liggi örorkumat ekki fyrir. Samkvæmt yfirlýsingu AX hugbúnaðar- húss 24. nóvember sl. gat ákærði ekki sinnt reglubundinni þjónustu við uppsetningar og viðhald á handtölvubúnaði, strikamerkja- og prentbúnaði hjá viðskiptavinum fyrirtækisins í ágúst-október sl., en þessa þjónustu hafi fyrirtækið keypt reglubundið af Gunnari Jóni og hafi umfang vinnu hans verið áætlað í ágúst 1999, 120.000 krónur, september sama ár, 140.000 krónur og október sama ár, 120.000 krónur.  Engin frekari gögn fylgja til rökstuðnings kröfunni í 1. lið, hvorki skattframtöl Gunnars Jóns né gögn framangreinds fyrirtækis sem sýna hvaða greiðslur hann hafi áður fengið hjá fyrirtækinu.  Krafan er byggð á áætlun.  Verður samkvæmt framansögðu að vísa þessum kröfulið frá dómi. 

Krafan í 2. lið er á því byggð, að Gunnar Jón hafi þurft að greiða kaupanda að Borgartúni 19, byggingarfélaginu Eykt ehf., 100.000 krónur vegna þrifa á  húsnæðinu.  Er því haldið fram að Gunnar Jón hefði ella sjálfur þrifið eignina, ef hann hefði haft „greipar í lagi”. Til stuðnings kröfunni er lögð fram yfirlýsing Dan Wiium fasteignasala 30. nóvember sl. þess efnis, að Gunnar Jón hafi innt þessa greiðslu af hendi vegna þrifa á umræddu húsnæði í september, svo og greiðslukvittun Eyktar ehf. vegna móttöku þessa fjár.  Kvittunin ber hins vegar hvorki með sér hver greiddi fjárhæðina né fyrir hvað er greitt.   Ákærði hefur hvorki sýnt fram á það að hann hefði sjálfur annast umrædd þrif og hreinsun á húsnæðinu þótt hann hefði getað það né að hann hefði sparað sér fárhæðina sem hann greiddi með því að annast þetta sjálfur, enda sýnir framangreind greiðslukvittun ekki hvort eingöngu var um vinnu eða einnig efniskaup að ræða.  Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af þessum kröfulið.

Krafan í 3. lið er studd gögnum og ber að taka hana til greina. 

Gunnar Jón Jónasson er kerfisfræðingur.  Ljóst er að hann hefur orðið fyrir tímabundnum miska af ólögmætri meingerð ákærða gegn persónu hans.  Ber ákærða því að greiða honum miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem þykja hæfilega ákveðnar 150.000 krónur.  

Leitt hefur verið í ljós að kærandi hafði kostnað af því að halda frammi kröfu sinni í málinu vegna lögmannsaðstoðar bæði við gerð bótakröfu og meðferð máls þessa.  Telst kostnaður hans vegna þessa hæfilega ákveðinn 100.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldrar þjónustu lögmannsins.  Með vísan til 4. mgr. 172. gr.laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, ber að dæma ákærða til að greiða Gunnari Jóni þennan kostnað.

Samkvæmt framansögðu ber ákærða að greiða Gunnari Jóni Jónassyni, samtals 271.636 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. 

Ákærði er loks dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Heimis Arnar Herbertssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.

Katrín Hilmarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið af hálfu ákæruvalds.

Ingibjörg Benediktsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Þórður Þórðarson, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði Gunnari Jóni Jónassyni, kt. 070765-3819, 271.636 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. maí 2000 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Heimis Arnar Herbertssonar héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur.