Print

Mál nr. 729/2017

Nadine Guðrún Yaghi, Heimir Már Pétursson, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, Þórhildur Þorkelsdóttir og 365 miðlar hf. (Einar Þór Sverrisson lögmaður)
gegn
A og B (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)
Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá
  • Dagsektir
Reifun

A og B kröfðust ómerkingar á nánar tilgreindum ummælum í 32 liðum sem N o.fl. höfðu viðhaft í starfi sínu sem fréttamenn hjá tilteknum fjölmiðlum. Lutu öll ummælin að ætluðum kynferðisbrotum A og B sem þá voru til rannsóknar lögreglu, en málin á hendur þeim voru síðar felld niður. Héraðsdómur féllst á að ómerkja 13 af þeim ummælum sem um ræddi. Þá var N o.fl. gert að greiða A og B nánar tilgreindar miskabætur og jafnframt mælt fyrir um birtingu forsenda dómsins og dómsorðs í fjölmiðlum. Í dómi sínum rakti Hæstiréttur atvik málsins með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Þá fór rétturinn jafnframt yfir hin umþrættu ummæli og þau áhrif sem málið hafði haft á A og B. Staðfesti Hæstiréttur í öllum tilvikum niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu ummælanna, svo og niðurstöðu hans um rétt A og B til miskabóta. Þá kvað rétturinn sömuleiðis á um birtingu forsendna dómsins og dómsorðs í fjölmiðlum að viðlögðum dagsektum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Sigurður Tómas Magnússon landsréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 23. nóvember 2017. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfum stefndu, en til vara að ,,kröfur stefndu verði lækkaðar“. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í stefnu til héraðsdóms var 365 miðlum hf. stefnt til réttargæslu. Var það skýrt svo í stefnu að félagið væri fjölmiðlaveita, sem ætti fjölmiðlana Stöð 2, Bylgjuna, Fréttablaðið og vefmiðilinn Vísi. Réttargæslustefndi væri vinnuveitandi áfrýjenda og bæri samkvæmt  2. mgr. 50. gr. og 2. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla ábyrgð meðal annars á greiðslu skaðabóta sem starfsmanni hennar kynni að verða gert að greiða samkvæmt greininni. Með sama hætti væri kveðið á um það í 59. gr. sömu laga að fjölmiðlaveitu væri skylt að birta í prentmiðli eða gera ella grein fyrir forsendum og dómsorði þegar ummæli væru dæmd ómerk eða fébætur dæmdar. Þá var því lýst að um væri að ræða skyldur sem ættu stoð í skýrum lagaákvæðum og styddust að auki við dómvenju. Þess vegna væri ekki nauðsynlegt að stefna félaginu sem aðila í málinu. Væri engu að síður rétt að veita því kost á að gæta hagsmuna sinna og væri félaginu því stefnt til réttargæslu. 365 miðlar hf. gerðist ekki meðalgöngumaður í málinu, sbr. 20. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Félagið gat því ekki gert kröfu um annað en málskostnað sér til handa, sbr. 2. mgr. 21. gr. laganna. Af greinargerð áfrýjenda í héraði má ráða að félagið standi einnig að henni. Í greinargerðinni kemur fram að ekki séu gerðar athugasemdir við að niðurstaða dómsins verði birt í þeim fjölmiðlum fjölmiðlaveitunnar sem málið varðar, þótt því sé andmælt að ákveðið sé hvar niðurstaðan skuli birt. Þar sem aðild 365 miðla hf. fólst aðeins í réttargæslu í héraði gat félagið ekki staðið að áfrýjun dóms í því til Hæstaréttar, sbr. þágildandi 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og dóm Hæstaréttar frá 10. maí 2001 í máli nr. 370/2000, sem birtur er á bls. 1788 í dómasafni réttarins það ár.

II

Atvik málsins eru skilmerkilega rakin í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar kemur fram er mál þetta höfðað í héraði af hálfu stefndu hér fyrir dómi til ómerkingar ummæla sem tilgreind voru í 32 liðum. Áfrýjendurnir störfuðu sem fréttamenn hjá fjölmiðlaveitunni 365 miðlum hf., sem átti og rak fjölmiðlana; sjónvarpsstöðina Stöð 2, útvarpsstöðina Bylgjuna, Fréttablaðið og vefmiðilinn Vísi á þeim tíma, sem atvik málsins urðu. Ummælin, sem krafist var ómerkingar á, voru viðhöfð af áfrýjendum í áðurnefndum fjölmiðlum, eins og gerð er grein fyrir í héraðsdómi, á tímabilinu frá 4. til 11. nóvember 2015. Héraðsdómur féllst á að ómerkja 13 ummælanna, en hafnaði ómerkingarkröfunni að öðru leyti. Þar sem málinu hefur ekki verið gagnáfrýjað er dómurinn til endurskoðunar hér að því er framangreind 13 ummæli varðar, svo og um miskabætur og önnur atriði sem í dómsorði héraðsdóms greinir.

III

Ummæli þau sem ómerkt voru með héraðsdómi voru hluti af umfjöllun fjölmiðlanna fjögurra, sem áður greinir, um ætluð kynferðisbrot sem kærð höfðu verið til lögreglu. Tvær ungar konur höfðu kært stefndu fyrir slík brot. Önnur þeirra kærði báða stefndu fyrir ætlað kynferðisbrot aðfaranótt 17. október 2015 sem rannsakað var með hliðsjón af 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hin kærði annan stefndu fyrir brot sem átti að hafa verið framið að morgni sunnudagsins 19. september sama ár. Það kæruefni var rannsakað með hliðsjón af 2. mgr. 194. gr. áðurnefndra laga. Bæði brotin áttu að hafa verið framin í íbúð í Reykjavík sem annar stefndu bjó í. Ekki er upplýst í málinu hvenær brotin voru kærð til lögreglu og kærurnar hafa ekki verið lagðar fram. Fyrir liggja á hinn bóginn bréf héraðssaksóknara 5. og 18. febrúar 2016 þar sem stefndu var tilkynnt að gögn málanna hafi verið yfirfarin af embættinu og að rannsókn þeirra teldist lokið. Í báðum bréfunum var svofelld tilkynning: ,,Með hliðsjón af rannsóknargögnum, sbr. 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verður ekki talið að það sem fram er komið sé nægilegt eða líklegt til sakfellis og er málið því hér með fellt niður.“ Stefndu komu báðir fyrir dóm í héraði og neituðu því eindregið að hafa haft nokkur kynferðisleg samskipti við konurnar og annar stefndu kvaðst hafa frábeðið sér slík samskipti þegar önnur konan vildi hafa að þeim frumkvæði. Þá neituðu þeir báðir eindregið að hafa beitt konurnar nokkru ofbeldi. Hvorug kærenda gaf skýrslu fyrir dómi. Verður að leggja framangreindar staðhæfingar stefndu til grundvallar í málinu.

Áfrýjandinn Nadine Guðrún og Kristín Þorsteinsdóttir, sem gegndi starfi útgefanda og aðalritstjóra fjölmiðlaveitunnar 365 miðla hf., báru í skýrslum fyrir dómi að upplýsingar um að ætluð kynferðisbrot hefðu verið kærð til lögreglu hefðu borist ritstjórn fjölmiðlaveitunnar viku til tíu dögum áður en fyrsta frétt um þau var birt í Fréttablaðinu 4. nóvember 2015.

Umræða um kynferðisbrot, meðal annars um rannsókn slíkra brota af hálfu lögreglu og meðferð mála um þau fyrir dómstólum, hafði verið fyrirferðarmikil í opinberri umræðu á Íslandi síðustu misserin áður en atvik máls þessa gerðust. Hluti þessarar umræðu laut að því hvort stuðningur við brotaþola, einkum á frumstigi mála, væri nægilegur og hvort sönnunarstaða í slíkum málum fyrir dómi leiddi til þess að brotaþolar leituðu síður til lögreglu í því skyni að kæra slík brot. Í þessu ljósi var eðlilegt að málefnið vekti sérstakan áhuga hjá ritstjórn fjölmiðlaveitunnar og að um það væri fjallað í fjölmiðlum hennar. Þar sem ætluð brot höfðu verið kærð til lögreglu var slík umfjöllun tímabær og verða ekki gerðar athugasemdir við mat fjölmiðlaveitunnar á því hvaða rými í fjölmiðlum hennar málið fékk.

Við umfjöllun um slík mál vegast sem endranær á, annars vegar tjáningarfrelsið, sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar og réttur fjölmiðla til þess að gera almenningi grein fyrir málefnum af þessum toga og hins vegar réttur einstaklinga til verndar einkalífs síns, sem varið er af 71. gr. stjórnarskrárinnar. Við umfjöllun um það málefni sem hér um ræðir verður að játa fjölmiðlum ríkan rétt og svigrúm til að gera grein fyrir slíkum málum á rannsóknarstigi, en sem fyrr greinir varð við þá umfjöllun að gæta, eftir því sem kostur var, að friðhelgi einkalífs stefndu. Sú skylda er enda lögð á fjölmiðlaveitu í 26. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla að gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttaflutningi sínum og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram. Fjölmiðlaveitan hefur sett sér ritstjórnarreglur í samræmi við fyrirmæli 24. gr. laga nr. 38/2011. Þar sagði meðal annars í 2. grein: ,,Þeir sem fjallað er um eiga rétt á að koma sínum sjónarmiðum að í umfjöllun og skulu verndaðir gegn óréttmætri efnismeðferð.“ Í 6. grein reglnanna sagði: ,,Ritstjórn ber virðingu fyrir meginreglu réttarríkisins um að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð.“ Í 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands er mælt fyrir um sambærilegar skyldur blaðamanna.

Stefndu voru ekki svonefndar opinberar persónur, annar þeirra stundaði nám á frumstigi í háskóla en hinn starfaði á skrifstofu. Ekkert liggur fyrir um að þeir hafi áður tekið þátt í opinberri umræðu eða með öðrum hætti látið til sín taka í samfélaginu svo eftir væri tekið. Þegar í fyrstu frétt um málið, sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins 4. nóvember 2015, kom fram að annar mannanna ,,væri í [...] Háskólans í Reykjavík“ og að skólinn hefði gripið til aðgerða vegna málsins. Degi síðar var upplýst í fjölmiðlum fjölmiðlaveitunnar að hinn maðurinn væri starfsmaður tilgreinds [...] í Reykjavík og starfaði þar á skrifstofu en hefði verið sendur í leyfi vegna málsins. Við mat á því hvernig skuli draga mörk milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs verður að taka tillit til þess að í fámennu og opnu samfélagi eins og hér á landi, þar sem miklar upplýsingar um persónur fólks eru öllum tiltækar, nægja framangreindar upplýsingar til þess að vandalítið er fyrir þá sem vilja að komast að hvaða menn ættu hér í hlut. Var enda að framangreindum upplýsingum fengnum fjallað um það á samfélagsmiðlum hvaða menn væri hér um að ræða og 9. nóvember voru birtar af þeim myndir á samfélagsmiðlum. Í ljósi þess hve alvarleg hin ætluðu brot voru, sem kærð höfðu verið til lögreglu, og þeirrar skyldu áfrýjenda, sem áður er rakin, að fjalla um málið þannig að stefndu teldust saklausir af kæruefnum uns sekt þeirra væri sönnuð bar áfrýjendum  að sýna aðgæslu við umfjöllun um málið einkum þar sem fjölmiðlarnir höfðu ákveðið að birta framangreindar vísbendingar um stefndu.

Eins og áður greinir leið vika til tíu dagar frá því að ritstjórn fjölmiðlaveitunnar bárust upplýsingar um ætluð brot og þar til umfjöllun hófst 4. nóvember 2015. Áfrýjandinn Nadine Guðrún bar í skýrslu fyrir dómi að hún hefði aldrei rætt við stefndu í aðdraganda umfjöllunarinnar. Ekkert liggur heldur fyrir um að aðrir áfrýjenda hafi gert það. Hún kvaðst á hinn bóginn hafa aflað heimilda hjá fleiri en einum og fleirum en tveimur og talið þær traustar. Hið sama kom fram hjá útgefanda og aðalritstjóra fjölmiðlaveitunnar. Nadine Guðrún kvaðst ekki hafa vitað hverjir stefndu væru fyrr en eftir birtingu fyrstu fréttarinnar 4. nóvember 2015 og að hún hefði reynt án árangurs að hringja til stefndu ,,en það hafi verið slökkt á síma eða eitthvað“ auk þess sem hún hefði haft samband við þann lögmann sem upphaflega gætti hagsmuna þeirra. Stefndu andmæla því eindregið að haft hafi verið samband við þá með nokkrum hætti vegna málsins og verður að leggja til grundvallar að ósannað sé að það hafi verið gert áður en umfjöllunin hófst eða meðan á henni stóð. Eins og áður greinir höfðu áfrýjendur nægar upplýsingar til þess að finna út hvaða menn áttu hér í hlut. Af framangreindu verður dregin sú ályktun að áfrýjendur hafi ekki gætt þeirrar skyldu að afla upplýsinga frá stefndu til þess að freista þess að renna stoðum undir sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem birtar voru í fjölmiðlunum. Við rekstur máls þessa hefur heldur ekki verið reynt að afla upplýsinga, hvorki með gögnum eða skýrslum fyrir dómi, sem gætu orðið grundvöllur að ályktun um hvernig samskipti stefndu og þeirra kvenna, sem þá kærðu, voru í raun.

Fréttir af ætluðum brotum stefndu voru fluttar í fjórum fjölmiðlum 365 miðla hf. eins og áður greinir.  Hefur því ekki verið mótmælt að fréttir um efnið hafi verið fluttar meira en 30 sinnum frá 4. til 11. nóvember 2015, auk þess sem málið var rætt í ritstjórnargrein í Fréttablaðinu 12. nóvember, en samkvæmt gögnum lauk umfjölluninni þar með. Fréttaflutningur fjölmiðlanna af málinu hafði mikil áhrif og varð tilefni til mikillar umræðu á samfélagsmiðlum. Í Fréttablaðinu 9. nóvember var frétt um málið á forsíðu, sem rituð var af áfrýjandanum Nadine Guðrúnu, og bar fyrirsögnina: ,,Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ og undirfyrirsögnina: ,,Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir. Málið er í rannsókn.“ Sama frétt að efni til var lesin á útvarpsstöðinni Bylgjunni að morgni þessa dags og birt á vefmiðlinum Vísi. Í þeim fjölmiðli var svo upplýst um klukkan 13 að boðað hefði verið til mótmæla klukkan 17 þennan dag við lögreglustöðina við Hverfisgötu. Ómótmælt er að þangað mætti fjöldi manns og að mótmælin hafi einkum beinst að því að stefndu hafi ekki verið settir í gæsluvarðhald á meðan á rannsókn málsins stóð, en til þess taldi lögregla sig ekki hafa lagaheimild.

Málið hafði mikil áhrif á stöðu og hagi stefndu. Annar þeirra taldi sig þurfa að hverfa frá námi sínu og hinn frá starfi sínu. Þeim bárust fljótlega hótanir um alvarlegar líkamsmeiðingar og annan ófarnað og töldu sér ekki vært hér á landi þar sem allir þekktu þá vegna myndbirtinga á samfélagsmiðlum. Þeir fóru úr landi og hafa dvalist langdvölum erlendis. Annar þeirra kvaðst fyrir dómi þó eiga hér barn, sem hann vildi gjarnan sinna. Þeir hafa báðir verið atvinnulausir í lengri tíma og bar annar þeirra því við að hann gæti ekki sótt hér um vinnu þar sem málið kæmi strax upp þegar leitað væri eftir nafni hans með leitarvélum á netinu. Báðir lýstu þeir fyrir dómi andlegri vanlíðan og að þeir forðuðust samskipti við fólk. Kvaðst annar þeirra hafa leitað sér aðstoðar sálfræðings.

IV

Þau atvik málsins sem eru upplýst lúta að því að tvær konur höfðu kært stefndu fyrir alvarleg kynferðisbrot og lögregla hafið rannsókn á málunum. Lögregla hafði farið í íbúð annars stefndu þar sem ætluð brot áttu að hafa verið framin og lagt þar hald á gamla reiðsvipu, sem annar stefndu segist hafa fengið frá afa sínum, keðju sem notuð hafi verið til þess að hengja upp púða til að æfa sig í hnefaleikum og tölvu annars stefndu. Önnur atvik hafa ekki verið upplýst í málinu.

Við mat á sanngjörnu jafnvægi milli tjáningarfrelsis annars vegar og einkalífsverndar hins vegar verður í máli þessu einkum að líta til þess að fallist hefur verið á með áfrýjendum að umfjöllun um málefni eins og hér um ræðir hafi átt brýnt erindi í almenna þjóðfélagsumræðu og að fyrir hafi legið að kærur á hendur stefndu um ætluð kynferðisbrot hafi verið sendar lögreglu sem tekið hafði þær til rannsóknar. Á hinn bóginn verður ekki hjá því komist að líta til þess hvernig umrædd ummæli voru sett fram af hálfu áfrýjenda og lýsingar þeirra á ætluðum brotum stefndu sem samkvæmt fréttaflutningnum voru mjög alvarleg og hrottafengin. Hér hefur sérstaka þýðingu að birtar voru vísbendingar um hverjir hinir brotlegu væru sem leiddu til þess að auðvelt var að bera kennsl á þá þótt þeir væru ekki opinberar persónur í íslensku samfélagi. Þetta hafði þær afleiðingar að stefndu sættu alvarlegum hótunum og töldu sig þurfa að hverfa úr landi. Einnig hefur þýðingu við mat á sanngjörnu jafnvægi í þessu máli að ósannað er að áfrýjendur hafi sinnt þeirri skyldu sinni að gefa stefndu færi á því að koma að upplýsingum áður en fréttaflutningur af málinu hófst og meðan á honum stóð.

Að þessu gættu ræðst mat á því hvort staðfesta eigi niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ummæla meðal annars af þeim atriðum sem rakin eru í III. kafla þessa dóms og að hluta er beitt við mat héraðsdómara.

Ummæli, sem eru í kröfuliðum 3 og 19 í stefnu: ,,Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ voru ósönn og tilefnislaus. Á þeim var enginn fyrirvari og verður niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu þeirra staðfest.

Ummæli í kröfuliðum 5, 9, 14 og 20 í stefnu: ,,Samkvæmt heimildum [Frétta-] blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka“. Þótt í upphafi þessarar setningar sé vísað til heimilda blaðsins eru orðin sett í samhengi við að íbúð annars stefndu hafi verið útbúin til ofbeldisverka, sem enginn fótur var fyrir. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaðan um ómerkingu þessara ummæla.

Ummæli í kröfuliðum 8, 13, 18 og 25 í stefnu: ,,Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana“. Engum stoðum hefur verið rennt undir að slíkur útbúnaður hafi verið í íbúðinni. Ekkert kemur fram um það hver hafi haft þann grun, sem nefndur er í hinum tilvitnuðu orðum, sem hefði verið rétt að geta um, einkum í ljósi þeirra alvarlegu ásakana sem fram koma í lok setningarinnar. Verður niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu þessara ummæla því staðfest.

Ummæli í kröfulið 26 í stefnu: ,,Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar“. Verða þessi ummæli samkvæmt framansögðu og með vísan til forsendna héraðsdóms ómerkt.

Ummæli í kröfulið 30 í stefnu: ,,en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni nauðgað af báðum mönnunum í heimahúsi í Hlíðunum“. Þessi ummæli eru gróf og fyrirvaralaus og verður niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu þeirra staðfest með vísan til forsendna.

Ummæli í kröfulið 31 í stefnu: ,,Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar, sem lögregla gerði upptæk“. Þótt vísað sé til heimilda um eðli ætlaðra árása er fyrirvaralaust sagt að íbúðin hafi verið búin tækjum til ofbeldisiðkunar. Þótt engum úrslitum ráði, var það ónákvæmt að segja að lögregla hafi gert muni upptæka, en rétt mun vera að lögregla hafi lagt hald á í rannsóknarskyni gamla reiðsvipu, keðjur til að hengja upp hnefaleikapúða og tölvu. Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verða þessi ummæli einnig ómerkt.

Þá verður með vísan til forsendna staðfest niðurstaða héraðsdóms um brot áfrýjandans Þórhildar Þorkelsdóttur á friðhelgi einkalífs stefnda, B, með fréttaflutningi úr stigagangi þar sem heimili hans var.

Eins og áður greinir hafði mál þetta mikil áhrif á stefndu. Þótt gæta verði þess að setja frelsi fjölmiðla til umfjöllunar um einstök mál ekki takmörk með miskabótum sem geta verið íþyngjandi fyrir þá, verður að taka tillit til þess að áfrýjendur kusu að veita þær upplýsingar um stefndu sem nægðu þeim sem áhuga höfðu til þess að afla upplýsinga um hverjir þeir væru. Vakti umfjöllun um málið reiði á samfélagsmiðlum sem beindist harkalega gegn persónum stefndu. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um miskabætur úr hendi áfrýjenda til stefndu staðfest.

Þá skal birta og gera grein fyrir dómi þessum í samræmi við 2. mgr. 59. gr. laga nr. 38/2011 í fjölmiðlum þeim sem í dómsorði greinir að viðlögðum þeim dagsektum sem þar segir innan sjö daga frá uppkvaðningu dómsins.

Loks verður málskostnaðarákvæði héraðsdóms staðfest.

Áfrýjendur greiði óskipt hvorum stefnda um sig málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um ómerkingu ummæla og miskabætur, sem og um málskostnað.

Birta skal og gera grein fyrir forsendum dóms þessa og dómsorði innan sjö daga í eftirtöldum fjölmiðlum: Stöð 2, Bylgjunni, Fréttablaðinu og vefmiðlinum visi.is að viðlögðum 50.000 króna dagsektum.

Áfrýjendur, Nadine Guðrún Yaghi, Heimir Már Pétursson, Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Þórhildur Þorkelsdóttir, greiði óskipt stefndu, A og B, hvorum um sig 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2017

             Mál þetta sem var höfðað 19. janúar 2017 var dómtekið 28. september sl.

             Stefnendur eru A, [...], [...] og B, [...], Reykjavík.

             Stefndu eru Nadine Guðrún Yaghi, Stórholti 32, Reykjavík, Heimir Már Pétursson, Nýlendugötu 19b, Reykjavík, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, Meðalholti 4, Reykjavík, og Þórhildur Þorkelsdóttir, Sólvallagötu 43, Reykjavík. 365 miðlum ehf., Skaftahlíð 24, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.

             Stefnendur gera í fyrsta lagi hvor um sig þá kröfu að eftirfarandi ummæli í töluliðum 1-32, verði dæmd dauð og ómerk:

Bylgjan, 5. nóvember, fréttir kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

1.       „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum.“

2.       „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“

Fréttablaðið, 9. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

3.       „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“

4.       „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir“

5.       „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka.“

6.       „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum ...“

7.       „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

8.       „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

Bylgjan, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

9.       „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“

10.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“

11.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

12.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“

13.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

Bylgjan, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

14.    „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“

15.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“

16.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

17.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“

18.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

Vísir, 9. nóvember 2015, kl. 06.00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

19.    „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“

20.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“

21.    „Grunur um byrlun ólyfjan“

22.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“

23.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

24.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“

25.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

Fréttablaðið 11. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

26.    „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar.“

27.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

Bylgjan, 5. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, flytjandi stefndi, Heimir Már Pétursson.

28.    „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“

29.    „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamalegu ofbeldi.“

Fréttablaðið, 6. nóvember 2015, bls. 8, höfundar stefndu, Heimir Már Pétursson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson.

30.    „... en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnum í heimahúsi í Hlíðunum.“

Stöð 2, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 18:30, flytjandi stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir.

31.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“

32.    „Ég er stödd hérna í stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum.“

             Stefnendur gera í öðru lagi hvor um sig þá kröfu að:

             A) stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, verði dæmd til þess að greiða hvorum þeirra um sig miskabætur að fjárhæð 10.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. nóvember 2015 til 27. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             B) stefndi, Heimir Már Pétursson, verði dæmdur til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2015 til 27. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             C) stefndi, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, verði dæmdur til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2015 til 27. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             D) stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, verði dæmd til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. nóvember 2015 til 27. maí 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             Í þriðja lagi gera stefnendur hvor um sig þá kröfu að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birt á forsíðu Fréttablaðsins, í hádegisfréttum Bylgjunnar, í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og á vefsvæðinu www.visir.is, eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónur fyrir hvern dag sem líður umfram áðurgreindan frest, án þess að birting fari fram.

             Í fjórða og síðasta lagi krefjast stefnendur þess að stefndu verði hver um sig dæmd til að greiða stefnendum hvorum um sig málskostnað samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti eða mati héraðsdóms, auk virðisaukaskatts.

             Stefndu og réttargæslustefndi skiluðu sameiginlegri greinargerð í málinu. Stefndu krefjast þess öll sem einn að verða sýknuð af öllum kröfum stefnenda, en til vara að þær verði lækkaðar verulega.

             Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnenda að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

                                                                                              I

         Málavextir eru þeir að þann 4. nóvember 2015 hófu fréttamiðlar á vegum réttargæslustefnda, 365 miðla ehf., nánar tiltekið Fréttablaðið, Bylgjan, Stöð 2 og vefmiðillinn Vísir, að flytja fréttir af ætluðum kynferðisbrotum stefnenda gegn tveimur konum sem áttu að hafa verið framin í október sama ár. Stefnandi, A, var nemandi við [...] Háskólans í Reykjavík á þeim tíma og stefnandi, B, starfaði hjá [...]. Fjallað var um málið í morgun- og hádegisfréttum Bylgjunnar, í kvöldfréttum Stöðvar 2, í Fréttablaðinu og á Vísi dagana 4. til 11. nóvember 2015.

         Samkvæmt gögnum málsins birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins þann 4. nóvember 2015 sem stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, ritaði undir fyrirsögninni „Grunur um nauðgun á bekkjarskemmtun HR“. Í undirfyrirsögn kom fram að samkvæmt heimildum blaðsins rannsakaði lögreglan kynferðisbrot sem sagt var að hefði átt sér stað á bekkjarskemmtun nemenda við Háskólann í Reykjavík. Var nemandi sagður hafa nauðgað tveimur samnemendum sínum og að skólinn hefði gripið til aðgerða. Í megintexta fréttarinnar var síðan rakið að samkvæmt heimildum blaðsins hefði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til rannsóknar gróft kynferðisbrot sem sagt var að hefði átt sér stað á bekkjarskemmtun nemenda Háskólans í Reykjavík helgina [...] október sl. Meintur gerandi væri karlmaður á þrítugsaldri en tvær skólasystur mannsins í [...] Háskólans í Reykjavík, einnig á þrítugsaldri, væru taldar hafa orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi af hans hendi. Í yfirlýsingu af hálfu skólans var greint frá því að fram hefðu komið upplýsingar um alvarlegt atvik innan hóps nemenda í [...] skólans og að skólinn hefði veitt hlutaðeigandi nemendum alla þá aðstoð sem hann gæti veitt. Þá kom fram að lögreglan verðist allra fregna af málinu og vildi hvorki staðfesta það né neita því að umrætt kynferðisbrotamál væri til rannsóknar.

         Í morgunfréttum Bylgjunnar daginn eftir þann 5. nóvember 2015, sem stefnda Nadine Guðrún Yaghi flutti, var greint frá því að tvær kærur hefðu verið lagðar fram í nauðgunarmáli sem Fréttablaðið hefði greint frá deginum áður að væri til rannsóknar hjá lögreglunni. Í fréttinni, þar sem stefnendur voru ekki nafngreindir, kom fram að tveir karlmenn væru meintir gerendur í málinu, sem sagt væri gróft. Báðir mennirnir væru á fertugsaldri og annar þeirra stundaði nám við [...] Háskólans í Reykjavík. Hinn maðurinn væri starfsmaður [...]. Um tvö aðskilin tilvik væri að ræða sem átt hefðu sér stað sitt hvorn daginn í október. Tvær skólasystur hins fyrrnefnda hefðu lagt fram kæru í málinu en samkvæmt heimildum blaðsins hefði hann nauðgað skólasystur sinni eftir bekkjarskemmtun á skemmtistaðnum [...] í byrjun október það ár. Þá hefðu báðir mennirnir nauðgað hinni konunni 10 dögum síðar eftir bekkjarskemmtun á [...] en barinn væri rekinn í sama húsnæði og [...]. Í fréttinni greinir einnig frá því að meintir gerendur hafi verið á staðnum það kvöld og eigi að hafa farið með konunni í heimahús í Hlíðunum síðar um kvöldið, en hún hafi verið í annarlegu ástandi. Samkvæmt upplýsingum frá nemendum léki grunur á að meintir gerendur hefðu byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.

         Í hádegisfréttum Bylgjunnar sama dag, sem stefndi, Heimir Már Pétursson, flutti, var fréttinni frá því um morguninn fylgt eftir og hún í meginatriðum endurtekin, en auk þess greint frá því að sá mannanna sem starfaði hjá [...] og grunaður væri um aðild að hrottalegri nauðgun, hefði verið sendur í leyfi. Það hefði gerst um leið og [...] fékk veður af málinu en hann væri skrifstofumaður og hefði ekki starfað við þjónustu, hvorki á bar né við gesti samkvæmt heimildum fréttastofu. Þá kom fram að í Fréttablaðinu sama dag væri greint frá því að bekkjarbróðir annarrar konunnar við Háskólann í Reykjavík hefði átt að hafa nauðgað henni og báðir ætlaðir gerendur síðan nauðgað hinni konunni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefði fyrra atvikið átt sér stað 7. október 2015 en þá hefðu nemendur hist á svokölluðu pub quiz á skemmtistaðnum [...]. Umræddur nemandi hefði það kvöld átt að hafa nauðgað annarri stúlkunni. Þá var greint frá því í fréttinni að um það mál hefði ekki verið upplýst fyrr en eftir síðara atvikið, sem hefði átt sér stað eftir bekkjarskemmtun á [...].

         Þann 6. nóvember 2016 birtist frétt í Fréttablaðinu eftir stefndu, Stefán Rafn Sigurbjörnsson og Heimi Má Pétursson. Þar voru þau atriði rakin sem þegar höfðu komið fram í fjölmiðlum og greint frá því að nauðganirnar hefðu átt að hafa átt sér stað hvor í sínu lagi, aðra og þriðju helgina í október. Í fyrra tilfellinu hefði konu verið nauðgað af bekkjarbróður sínum en seinni konunni af báðum mönnunum í heimahúsi í Hlíðunum. Þá kom fram að samkvæmt upplýsingum frá nemendum skólans léki grunur á að konunum hefði verið byrluð ólyfjan.

         Þá birtist frétt í Fréttablaðinu 9. nóvember 2015 með fyrirsögninni „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ ásamt undirfyrirsögninni „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir. Málið er í rannsókn“. Einnig birtist frétt sama dag með sömu fyrirsögn, þ.e. „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ á vefmiðlinum visir.is sem var efnislega samhljóða. Þá var sama frétt einnig flutt í morgun- og hádegisfréttum Bylgjunnar. Höfundur fréttarinnar í öllum tilvikum var stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, sem jafnframt flutti hana í útvarpi þennan dag. Stefnendur voru ekki nafngreindir í fréttinni en þar kom fram að rannsókn lögreglu í tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum beindist að húsnæði í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík þar sem talið væri að árásirnar hefðu átt sér stað. Þá staðfesti lögregla að tvær kærur hefðu verið lagðar fram í málunum. Einnig kom fram að samkvæmt heimildum blaðsins hefðu árásirnar verið hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar. Tveir karlar væru grunaðir um árásirnar og væri annar þeirra á fertugsaldri og stundaði nám við Háskólann í Reykjavík, þar sem fórnarlömb árásanna stunduðu báðar nám. Hinn maðurinn væri á svipuðum aldri og starfaði á [...] en hefði verið sendur í leyfi meðan á rannsókn málsins stæði. Þá var rakið í fréttinni hvar og hvenær nauðganirnar væru sagðar hafa átt sér stað og jafnframt kom fram að umráðamaður íbúðarinnar í Hlíðunum væri starfsmaður fyrrgreinds [...] sem ræki [...]. Þá var greint frá því að samkvæmt upplýsingum frá samnemendum kvennanna léki grunur á að mennirnir hefðu í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist hefði verið á hana. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins hefði lögreglan fundið ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir hefðu átt að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur. Þá hefðu verið hankar í loftinu sem grunur léki á að mennirnir hefðu notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist hefði verið á hana. Loks kom fram að lögregla vildi ekki staðfesta hvað hefði fundist við húsleit sem hefði verið gerð í kjölfar þess að mennirnir voru handteknir. Þá hefði mönnunum verið sleppt að lokinni frumrannsókn lögreglu en ekki verið farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim.

         Fyrir hádegið þennan sama dag, 9. nóvember 2015, birtist viðtal á Vísi við Guðrúnu Jónsdóttur, talskonu Stígamóta, þar sem hún lagði mat á stöðu málsins. Kvaðst hún taka það fram að hún vissi ekki hvað væri rétt í málinu en væri það rétt sem hún læsi, að þarna væri um að ræða hópnauðgun, lyfjanauðgun og raðnauðgun, gerðust málin ekki alvarlegri og væri þetta með þeim ljótari. Eftir hádegið þennan sama dag birtist önnur frétt á Vísi þar sem greint var frá því að boðað hefði verið til mótmæla við lögreglustöðina klukkan fimm sama dag. Tilgangur mótmælanna væri að mótmæla aðgerðaleysi lögreglunnar í kynferðisbrotamálum og sýna þolendum slíkra afbrota stuðning í verki í ljósi frétta um að ekki hefði verið krafist gæsluvarðhalds yfir tveimur mönnum, sem kærðir hefðu verið vegna nauðgana í Hlíðunum fyrir skemmstu. Sú ákvörðun lögreglunnar að krefjast ekki gæsluvarðhalds hefði sætt harðri gagnrýni á samfélagsmiðlum fyrr um daginn í kjölfar fréttaflutnings Fréttablaðsins. Þá var ætluð atburðarás málsins einnig rakin í stuttu máli á ný.

         Í kvöldfréttum Stöðvar 2 hinn 9. nóvember 2015 flutti stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, áfram fréttir af málinu. Í fréttinni var greint frá því að skortur á sönnunargögnum væri ástæða þess að ekki hefði verið óskað eftir gæsluvarðhaldi yfir tveimur mönnum sem kærðir hefðu verið í tveimur nauðgunarmálum og að mikil reiði hefði gripið um sig í samfélaginu vegna málsins. Þá kom fram að Fréttablaðið hefði greint frá því að lögreglan hefði gert húsleit í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í október þar sem talið væri að árásirnar hefðu átt sér stað. Samkvæmt heimildum blaðsins hefðu árásirnar verið hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar, sem lögregla gerði upptæk. Stefnda, Þórhildur, flutti fréttina af ætluðum brotavettvangi málsins þ.e. frá stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem hinar hrottafengnu nauðganir hefðu átt að hafa farið fram. Stefnda greindi frá því að annar meintra gerenda í síðara málinu hefði leigt íbúð „hér í húsinu“ en aðrir íbúar þess hefðu verið grunlausir um málið þar til þeir lásu um það í fjölmiðlum. Þá kom fram að mennirnir hefðu hvorki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald né hefði verið farið fram á farbann yfir þeim.

         Í sama kvöldfréttatíma tók stefnda, Þórhildur, viðtal við Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, þáverandi yfirlögfræðing lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Spurt var að því hvort þessi brot væru ekki talin nógu alvarleg til að farið væri fram á gæsluvarðhald eða farbann yfir mönnunum. Alda Hrönn kvaðst illa geta talað um þetta einstaka mál en almennt væru ströng skilyrði til að fara fram á almenna gæslu. Sterkan rökstuddan grun þyrfti til þess og hefðu dómstólar ályktað að nánast þyrfti að vera ljóst að sakfellt yrði í málinu. Því þyrfti sterkan rökstuðning sem væri dálítið annað en rökstuddur grunur. Þá var greint frá því að ekki væri sterkur rökstuddur grunur fyrir sakfellingu í málunum en rannsókn þeirra væri langt á veg komin. Einnig kom fram í máli Öldu Hrannar að ekki væri rétt að íbúðin hefði verið sérútbúin til nauðgana, eins og hún komst þar að orði, en hún neitaði því ekki að tæki til ofbeldisiðkunar hefðu verið gerð upptæk. Þá var greint frá því að málin hefðu vakið mikla reiði í samfélaginu og fjölmargir gagnrýnt verklag lögreglu í kynferðis-brotamálum. Spurð um hennar viðbrögð við hinni miklu reiði sem málin hefðu vakið ítrekaði Alda Hrönn að hún gæti ekki talað um einstök mál en lögregla gerði allt sem hún gæti og myndi reyna að gera betur, væru mistök fyrir hendi.

         Næst greindi stefnda, Þórhildur, frá því að boðað hefði verið til mótmæla „hér fyrir utan lögreglustöðina“ með mjög stuttum fyrirvara fyrr um daginn, en stefnda var á staðnum og var fréttin að hluta til send út í beinni útsendingu. Klukkan fimm um daginn hefðu 500 manns verið mættir og enn væri töluverður mannfjöldi viðstaddur klukkan hálfsjö. Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri hefði komið fram og talað við fólkið klukkan fimm. Þá kom fram í máli stefndu, Þórhildar, að ennþá væri rafmögnuð stemning á Hverfisgötu og fólk kæmi upp eitt af öðru til að tjá sig um sína reynslu og reynslu vina og fjölskyldumeðlima. Einnig tók stefnda viðtal við skipuleggjanda mótmælanna, Oddnýju Arnardóttur, og Gunnar Inga Jóhansson, hæstaréttarlögmann. Í máli stefndu Þórhildar, kom fram að meintir gerendur í málinu hefðu verið nafngreindir og myndir birtar af þeim. Ekki hefðu verið settir fyrirvarar við að mennirnir væru sekir og spurði stefnda lögmanninn út í hvaða lagalegar afleiðingar slíkar myndbirtingar gætu haft. Þá lauk útsendingunni á því að stefnda greindi frá því að rannsókn málsins væri ekki lokið og það ætti eftir að koma í ljós hvort ákært yrði í málunum. Áfram yrði fjallað um málið í Íslandi í dag um kvöldið.

         Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins kl. 22:00 sama dag, hinn 9. nóvember 2015 var greint frá því að aðalritstjóri Fréttablaðsins sæi ekki ástæðu til að leiðrétta forsíðufrétt blaðsins sama dag um meinta nauðgun og hrottaleg kynferðisbrot tveggja manna. Yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Alda Hrönn Jóhannsdóttir, segði fréttina ekki rétta í öllum efnisatriðum en meintir gerendur hefðu verið nafngreindir á samfélagsmiðlum fyrr um daginn og væri annar þeirra farinn úr landi. Greint var frá því að í forsíðufrétt Fréttablaðsins sama dag væri fjallað um rannsókn lögreglu á kynferðisbrotamálum sem hefðu átt sér stað í Hlíðunum í Reykjavík og hefði blaðið heimildir fyrir því að árásirnar hefðu verið hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar. Þá var einnig greint frá því að mönnunum hefði verið sleppt úr haldi eftir skýrslutökur og hefði fjöldi manna komið saman við lögreglustöðina fyrr um daginn til að mótmæla því. Enn fremur hefðu samfélagsmiðlar logað, myndir verið birtar af mönnunum tveimur og þeir nafngreindir. Að sögn Öldu Hrannar væri það ekki rétt sem fram hefði komið á forsíðu Fréttablaðsins að íbúðin í Hlíðahverfi hefði verið sérútbúin fyrir athafnir sem þessar, það væri orðum aukið. Sú mynd sem hefði verið dregin upp af málinu í fjölmiðlum væri gríðarlega alvarleg og teldi Alda Hrönn að væri hún rétt, hefði lögreglan farið fram á almannagæslu, ef fyrir hendi væri sérútbúin íbúð til þess að stunda þessa iðju eða brjóta gegn öðru fólki. Þá var Alda Hrönn spurð að því hvort hún segði þannig að svo væri ekki og játaði hún því, hún hefði sagt að þetta væri ekki rétt, íbúðin væri ekki sérútbúin til þessa.

         Í sama kvöldfréttatíma kom einnig fram að Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og aðalritstjóri 365 miðla ehf., segði ekkert gefa ástæðu til að bera efnisatriði fréttarinnar til baka. Það sem yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefði við hana að athuga væri að sagt hefði verið að íbúðin væri sérútbúin, eins og lögfræðingurinn sjálf hefði orðað það, en hvergi væri það orð að finna í fréttinni sjálfri, hvorki þennan sama dag né í fyrri fréttum um málið. Þá hefði Fréttablaðið staðfestar heimildir fyrir því að tól og tæki í íbúðinni hefðu verið gerð upptæk. Að sögn Kristínar væri það sem skipti máli að kærur sem staðfestu fréttirnar væru komnar fram.

         Sama dag, eða þann 9. nóvember 2015, sendi lögmaður stefnenda tvö bréf sem stíluð voru á réttargæslustefnda, 365 miðla ehf., og Kristínu Þorsteinsdóttur. Þar var þess krafist fyrir hönd umbjóðenda hans að þeir yrðu beðnir afsökunar og að nánar tilgreind ummæli, sem birst hefðu í forsíðufrétt Fréttablaðsins sama dag, yrðu leiðrétt. Þá var einnig gerð krafa um að afsökunarbeiðnin birtist á forsíðu blaðsins og að réttargæslustefndi, 365 miðlar ehf., greiddi stefnendum 10.000.000 króna í skaðabætur vegna fjártjóns og miska. Frestur til að birta afsökunarbeiðni var veittur til 11. nóvember 2015 og frestur til að greiða skaðabætur til 16. nóvember sama ár. Þá var réttur til málshöfðunar áskilinn án frekari viðvörunar.

         Í Fréttablaðinu daginn eftir, þann 10. nóvember 2015, birtist grein eftir stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, þar sem greint var frá atburðum næstliðins dags og að hinir grunuðu væri taldir vera farnir úr landi. Í fréttinni var greint frá því sem áður var fram komið um hagi hinna grunuðu, að tvær kærur hefðu verið lagðar fram vegna málsins hjá lögreglunni og að hún hefði gert húsleit hjá þeim hinna grunuðu sem hefði afnot af íbúðinni í Hlíðunum. Í fréttinni kom að öðru leyti fram að hart hefði verið sótt að lögreglu á samfélagsmiðlum vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins daginn áður um tvö kynferðisafbrotamál sem lögreglan hefði til rannsóknar. Þá var rakið að ekki hefði verið farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum og hefðu hundruð manns mætt fyrir framan lögreglustöðina við Hverfisgötu í því skyni að mótmæla því, sem og aðgerðaleysi lögreglunnar í kynferðisbrotamálum. Fjöldi fólks hefði stigið í pontu og sagt sögur af eigin reynslu af viðbrögðum lögreglu vegna kynferðisbrotamála og að lögreglustjóri hefði ávarpað hópinn og sagt lögregluna ætla að reyna að gera betur í þessum málum. Þá var efni fréttar blaðsins frá því daginn áður rakið um að árásirnar hefðu verið hrottalegar og íbúðin verið búin tækjum til að beita ofbeldi. Að sögn fyrrnefndrar Öldu Hrannar væri ekkert í gögnum lögreglunnar um málin sem hefði sýnt að íbúðin væri útbúin til nauðgana og gætu þau ekki fullyrt neitt um það. Þetta væri þó matskennt hugtak sem og önnur hugtök sem notuð hefðu verið í umræðunni. Þá kvað hún það eitt og sér að eiga tæki og tól ekki vera refsivert en vildi að öðru leyti ekki greina frá því hvað nákvæmlega hefði verið haldlagt við leit í íbúðinni. Jafnframt hefði engin afstaða verið tekin til þess hvort mistök hefðu verið gerð þegar ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum. Á mótmælafundinum hefðu jafnframt margir verið reiðir yfir því að báðir meintir gerendur væru farnir úr landi, sem samkvæmt heimildum Vísis væri raunin, og gagnrýnt hvers vegna farbanni hefði ekki verið beitt yfir þeim. Kvað Alda farbanni sjaldnast beitt á íslenska ríkisborgara, en Ísland væri aðili að alþjóðasáttmála sem gerði að verkum að mögulegt væri að fá íslenska ríkisborgara framselda vegna ætlaðra glæpa.

         Í Fréttablaðinu þann 11. nóvember 2015 birtist síðan frétt eftir stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, undir fyrirsögninni „Skýrsla kæranda lýsir notkun tóla“. Þar var greint frá því að í skýrslu annars brotaþola hjá lögreglu hefði komið fram að annar meintra gerenda hefði bundið hendur hennar saman með keðju. Þá hefði hún verið slegin með svipu. Þetta staðfestu heimildir Fréttablaðsins og hefði lögregla lagt hald á svipu og keðju við húsleit í íbúð í Hlíðunum. Þá var atburðarás málsins rakin enn á ný, greint frá högum hinna ætluðu gerenda og hvar og hvenær árásirnar áttu að hafa farið fram. Í lok fréttarinnar kom fram að ekki hefði verið krafist gæsluvarðhalds yfir mönnunum og hefði það vakið hörð viðbrögð í samfélaginu og hundruð manna krafist þess að þeir yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þá var haft eftir lögmönnum beggja hinna ætluðu gerenda að þeir neituðu alfarið sök í málunum og hefði annar lögmannanna lagt fram kæru á hendur konunum fyrir rangar sakargiftir.

         Í Fréttablaðinu þann 12. nóvember sama ár birtist leiðari eftir fyrrnefnda Kristínu Þorsteinsdóttur undir fyrirsögninni „Segja eða þegja“. Þar greindi hún meðal annars frá því að hún hefði fengið sent hótunarbréf í vikunni og vísaði þar til bréfa lögmanns stefnanda sem hann sendi henni 9. nóvember sama ár. Bréfin hefðu borist í kjölfar forsíðufréttar Fréttablaðsins þar sem fjallað hefði verið um íbúð sem kom við sögu í tveimur nauðgunarmálum sem lögreglan hefði til rannsóknar. Fram kom að lögreglan hefði gert tæki og tól upptæk sem grunur léki á að notuð hefðu verið í tengslum við meintar nauðganir. Fyrir þessu hefði Fréttablaðið traustar heimildir og ekkert hefði komið fram síðar sem rengdi efnisatriði fréttarinnar. Ekkert væri því til að biðjast afsökunar á. Þá kom einnig fram að Fréttablaðið hefði birt aðra frétt deginum áður þar sem finna mátti hluta úr skýrslu kæranda og hefði blaðið aldrei birt slíkt nema fyrir lægju traustar heimildir úr fleiri en einni átt. Þá var því mótmælt, eins og gefið væri í skyn í fyrrnefndu bréfi lögmannsins, að forsíða Fréttablaðsins 9. nóvember sama ár. hefði orðið til þess að mennirnir tveir hefðu verið nafngreindir á samfélagsmiðlum. Ekkert væri fjær sanni og væri það ekki á ábyrgð fjölmiðla að nöfn þeirra væru á allra vitorði og myndir birtar af þeim. Hefði það verið vilji fjölmiðla hefðu nöfn og myndir af þeim einfaldlega verið birt með fréttinni.

         Þann 5. febrúar 2016 tilkynnti embætti héraðssaksóknara stefnandanum, A, bréflega að mál sem embættið hefði rannsakað á hendur honum og stefnandanum B með hliðsjón af 194. gr. almennra hegningarlaga gegn nánar tilgreindri konu, hefði verið fellt niður. Þá var stefnandanum, A, sent sams konar bréf þann 18. febrúar sama ár þar sem tilkynnt var að rannsókn máls vegna ætlaðs brots hans gegn 194. gr. almennra hegningarlaga væri lokið og málið fellt niður. Lögmaður stefnenda sendi stefndu, Nadine Guðrúnu, Þórhildi, Heimi Má og Stefáni Rafni, einnig bréf þann 27. apríl 2016 þar sem farið var fram á afsökunarbeiðni, leiðréttingu á nánar tilgreindum ummælum og greiðslu miskabóta að viðlagðri málshöfðun. Þar sem stefndu urðu ekki við þeim kröfum sem þar voru gerðar var mál þetta höfðað í kjölfarið eða þann 19. janúar 2017.

                                                                                              II

         Stefnendur byggja á því að með hinum umstefndu ummælum í fjölmiðlum réttargæslustefnda hafi þeim verið gefin að sök refsiverð háttsemi sem varði við XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 194. gr. laganna. Stefndu hafi ekki sparað lýsingarorðin í umfjöllun sinni. Brotum stefnenda hafi verið lýst sem hrottalegum árásum þar sem konum hafi verið byrluð eiturlyf og ólyfjan áður en þeim hafi verið nauðgað í íbúð sem búin hafi verið tækjum til ofbeldisverka og nauðgana.

         Stefnendur byggja á því að í öllum hinum umstefndu ummælum í töluliðum 1 til 32 í dómkröfukafla stefnu felist ásakanir um að þeir hafi gerst sekir um hrottaleg hegningarlagabrot sem enga stoð hafi átt sér í raunveruleikanum, eins og stefndu hefðu komist að, hefðu þau vandað til verka. Öll ummælin séu til þess fallin að meiða æru stefnenda. Hér á eftir verði gerð grein fyrir því hvers vegna hver og ein hinna umstefndu ummæla séu ærumeiðandi aðdróttanir sem beri að ómerkja.

Bylgjan, 5. nóvember, fréttir kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

 

1.       „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum.“

 

             Hér sé því haldið fram að stefnendur hafi byrlað konu ólyfjan og eiturlyfjum áður en þeir brutu gegn henni kynferðislega. Það sé alrangt. Stefnendur hafi ekki byrlað neinum ólyfjan og eiturlyf og séu ummælin uppspuni frá rótum.

 

2.       „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“

 

             Stefnendur halda því fram að þeir hafi hvorki haft samfarir né önnur kynferðismök við umrædda konu. Hvað þá heldur hafi þeir beitt hana ofbeldi. Á nýjan leik fari stefnda því með staðlausa stafi.

 

Fréttablaðið, 9. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.

 

3.       „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“

 

             Íbúðin sem hér sé vísað til hafi verið heimili stefnandans B á þeim tíma sem ummælin hafi verið látin falla, en um hafi verið að ræða litla risíbúð að [...], Reykjavík. Íbúðin hafi ekki verið útbúin til nauðgana, enda séu fasteignir sjaldan gerendur í kynferðisbrotamálum. Að mati stefnenda séu ummælin því hvort tveggja rökleysa og þvættingur.

 

4.       „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir“

 

             Af hálfu stefnenda kemur fram að þeir hafi verið kærðir fyrir kynferðisbrot. Lögreglan hafi rannsakað málin og héraðssaksóknari fellt þau niður, enda hafi ásakanir meintra brotaþola verið tilhæfulausar. Staðhæfing stefndu þess efnis að hin meintu kynferðisbrot hafi verið hrottaleg eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

 

5.       „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka.“

 

             Stefnendur árétti að enginn hafi sætt árásum af þeirra hálfu, hvorki hrottalegum né annars konar árásum. Þá hafi íbúð stefnandans B ekki verið búin tækjum til ofbeldisverka og séu ummælin skáldskapur stefndu.

 

6.       „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum ...“

 

             Stefnendur hafi hvorki haft samfarir né önnur kynferðismök við umrædda konu. Af því leiði að þeir hafi ekki nauðgað henni. Hér sé því um tilhæfulausar ásakanir stefndu að ræða um að stefnendur hafi brotið gegn 194. gr. laga nr. 19/1940.

 

7.       „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

             Hér sé því haldið fram á nýjan leik að stefnendur hafi byrlað konu ólyfjan og eiturlyfjum áður en þeir hafi brotið gegn henni kynferðislega. Það sé alrangt og einnig það að stefnendur hafi ráðist á konuna. Stefnendur hafi ekki byrlað neinum ólyfjan og eiturlyf og ekki ráðist á neinn. Ummælin séu uppspuni frá rótum.

 

8.       „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

 

             Stefnendur hafi ekki hengt neinn upp og ekki ráðist á neinn. Ásakanir stefndu séu því rangar og tilhæfulausar.

 

Bylgjan, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 08:00, höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.

 

9.       „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“

 

Vísað er til rökstuðnings í tölulið 5 hér að ofan.

 

10.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“

 

Vísað er til rökstuðnings í tölulið 6 hér að ofan.

 

11.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

Vísað er til rökstuðnings í tölulið 7 hér að ofan.

 

12.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“

 

             Stefnendur ítreki enn á ný að þeir hafi ekki nauðgað neinum. Þar af leiði að lögregla hafi ekki fundin nein tól og tæki heima hjá stefnandanum B notuð hafi verið við nauðganir. Enn á ný ásaki stefnda stefnendur um refsiverða háttsemi sem enginn fótur sé fyrir. Á heimili stefnandans B hafi verið keðjur af boxpúða og gömul reiðsvipa sem afi hans hafi átt. Stefnandanum B hafi verið fullfrjálst að hafa þessa muni í vörslum sínum án afskipta og aðdróttana misvitra blaðamanna.

 

13.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

 

Vísað sé til rökstuðnings í tölulið 8 að ofan.

 

Bylgjan, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.

 

14.    „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“

 

Vísað sé til rökstuðnings í töluliðum 5 og 9 að ofan.

 

15.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“

 

Vísað sé til rökstuðnings í töluliðum 6 og 10 að ofan.

 

16.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

Vísað sé til rökstuðnings í töluliðum 7 og 11 að ofan.

 

17.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“

 

Vísað sé til rökstuðnings í tölulið 12 hér að ofan.

 

18.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

 

Vísað sé til rökstuðnings í töluliðum 8 og 13 hér að ofan.

 

Vísir, 9. nóvember 2015, kl. 06.00, höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi. 

 

19.    „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“

 

Vísað sé til umfjöllunar um tölulið 3 hér að ofan.

 

20.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“

 

Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 5 og 9 hér að ofan.

 

21.    „Grunur um byrlun ólyfjan“

 

Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 7 og 11 hér að ofan.

 

22.    „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“

 

Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 6 og10 hér að ofan.

 

23.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 7, 11 og 21 hér að ofan.

 

24.    „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“

 

Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 12 og 17 hér að ofan.

 

25.    „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

 

Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 8, 13 og 18 að ofan.

 

Fréttablaðið 11. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.

 

26.    „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar.“

 

Að breyttu breytanda sé vísað til umfjöllunar um töluliði 5, 9 og 14 hér að framan.

 

27.    „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

Vísað sé til umfjöllunar um töluliði 7, 11, 21 og 23 að framan.

 

Bylgjan, 5. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, flytjandi stefndi Heimir Már Pétursson.

 

28.    „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“

 

             Stefnendur benda á að hér sé því haldið fram að þeir hafi nauðgað konu með hrottalegum hætti. Stefnendur hafi ekki haft samræði eða önnur kynferðismök við umrædda konu. Þegar af þeirri ástæðu hafi engin nauðgun verið framin, hvað þá heldur að hún hafi verið framin með samverknaði. Ummælin séu því úr lausu lofti gripin.

 

29.    ... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“

 

             Stefnendur hafi ekki byrlað neinum ólyfjan og alls ekki umræddri konu. Þá hafi þeir ekki beitt konuna ofbeldi af neinu tagi, ekki líkamlegu og þaðan af síður kynferðislegu ofbeldi. Ummælin séu því röng.

 

Fréttablaðið, 6. nóvember 2015, bls. 8, höfundar stefndu Heimir Már Pétursson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson.

 

30.    „... en í fyrra tilfellinu var annari þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnum í heimahúsi í Hlíðunum.“

 

             Hér sé fullyrt án nokkurs fyrirvara að annar stefnenda, A, hafi nauðgað bekkjarsystur sinni. Með sama hætti sé fullyrt fyrirvaralaust að stefnendur hafi nauðgað annarri konu í félagi, en sem fyrr séu ummælin úr lausu lofti gripin.

 

Stöð 2 þann 9. nóvember 2015, fréttir kl. 18:30, flytjandi stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir.

 

31.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“

 

             Hér sé því enn haldið fram að stefnendur hafi gerst sekir um hrottalegar kynferðisárásir, en af samhenginu sé ljóst að hér sé verið að ásaka stefnendur um nauðganir. Sömuleiðis sé því haldið fram að íbúð stefnandans B hafi verið búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem gerð hafi verið upptæk. Í fyrsta lagi hafi ekki verið nein tæki til ofbeldisiðkunar í íbúðinni. Í öðru lagi hafi lögreglan ekki gert nein tæki eða tól upptæk hjá stefnandanum B. Stefnda fari því með staðlausa stafi í fréttinni.

 

32.    „Ég er stödd hérna í stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum.“

 

             Að mati stefnenda sé með ólíkindum að stefnda hafi leyft sér að fara heim til stefnandans B og flytja fréttina þaðan. Það sé óþarfi að fara mörgum orðum um að sú háttsemi stefndu feli í sér brot á réttarreglum sem ætlað sé að vernda friðhelgi heimilis, einkalífs og fjölskyldu stefnandans B, sbr. 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sem fyrr ítreki stefnendur að þeir hafi ekki nauðgað neinum heima hjá stefnandanum B eða annars staðar. Af því leiði að ummæli stefndu um hrottafengnar nauðganir stefnenda séu tilhæfulaus.

             Það séu grundvallarmannréttindi í réttarríki að hver sá sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus uns sekt hans sé sönnuð að lögum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskri réttarskipan, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það séu handhafar opinbers valds, sem til þess séu bærir, sem annist rannsókn og saksókn í sakamálum. Það sé síðan hlutverk dómstóla að dæma um sekt eða sakleysi manna sem ákærðir hafi verið fyrir refsiverða háttsemi. Einhverra hluta vegna hafi stefndu kosið að svipta stefnendur þessum grundvallarmannréttindum og úthrópa þá sem nauðgara og ofbeldismenn án þess að stefnendur hafi verið ákærðir fyrir slíka háttsemi, hvað þá heldur dæmdir.

             Öll hin umstefndu ummæli, í töluliðum 1-32 í dómkröfukafla í stefnu, feli í sér ásökun um refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi. Öll ummæli stefndu séu ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnendur. Hagsmunir þeirra af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

             Hvað kröfur um miskabætur snerti byggi stefnendur á því að stefndu hafi vegið með alvarlegum hætti að æru þeirra. Með því hafi þau framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnendum sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem séu bæði rangar og bornar út og birtar opinberlega gegn betri vitund. Það sé ljóst að virðing stefnenda hafi beðið hnekki, sem og æra þeirra og persóna. Réttur stefnenda til æruverndar og friðhelgi einkalífs njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

             Það sé hlutverk handhafa opinbers valds, en ekki fjölmiðla, að rannsaka, ákæra og dæma menn fyrir refsiverða háttsemi. Með umfjöllun sinni hafi stefndu haldið því fram að stefnendur hafi gerst sekir um margvísleg hegningarlagabrot sem enginn fótur sé fyrir. Slagkraftur umfjöllunar stefndu hafi verið slíkur að stefnendur hafi óttast um líf sitt vegna múgæsingsins sem umfjöllun stefndu hafi skapað. Þeir hafi hrökklast úr landi þar sem þeir hafi dvalið meira og minna næstu níu mánuði. Stefnandinn B hafi misst vinnuna í kjölfar umfjöllunar stefndu og stefnandanum A hafi verið gert að hætta námi við Háskólann í Reykjavík. Hvorugur hafi átt afturkvæmt í fyrra starf og nám. Þeir hafi báðir glímt við langvarandi kvíða og þunglyndi vegna umfjöllunar stefndu. Umfjöllunin hafi leitt til þess að nöfnum og myndum af þeim hafi verið dreift mörg þúsund sinnum á samfélagsmiðlunum þar sem þeir hafi verið úthrópaðir sem nauðgarar og þeim hótað líkamsmeiðingum og lífláti. Í beinu framhaldi af forsíðufrétt Fréttablaðsins, 9. nóvember 2015, hafi verið boðað til mótmæla við lögreglustöðina á Hverfisgötu þangað sem hundruð mættu og hafi ástandið verið mjög eldfimt.

             Af öllu framansögðu sé ljóst að umfjöllun stefndu um stefnendur hafi verið afdrifarík. Stefnendur eigi því rétt á háum miskabótum úr hendi stefndu. Stefnendur telja að miski hvors þeirra um sig vegna umfjöllunar stefndu sé hæfilega metinn 12.500.000 krónur. Stefndu beri mismikla ábyrgð á miskatjóni stefnenda með hliðsjón af fjölda og alvarleika ummæla. Þá sé ljóst að stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, hafi jafnframt brotið alvarlega gegn friðhelgi einkalífs stefnandans B með því að birta myndir af heimili hans.

             Með hliðsjón af framangreindu sé miskabótakrafa hvors stefnanda um sig á hendur hverjum stefnda um sig eftirfarandi:

             A) Stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, verði dæmd til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 10.000.000 króna.

             B) Stefndi, Heimir Már Pétursson, verði dæmdur til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna.

             C) Stefndi, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, verði dæmdur til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur.

             D) Stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, verði dæmd til þess að greiða hvorum stefnanda um sig miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna.

             Kröfur um miskabætur byggist á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda séu fyrir hendi skýr og ótvíræð brot á réttarreglum, sem ætlað sé að vernda æru stefnenda og friðhelgi einkalífs stefnandans B, sbr. 229. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnendur bendi sérstaklega á að birting og dreifing ærumeiðandi ummæla sé sjálfstætt brot samkvæmt 2. mgr. 236. gr. laga nr. 19/1940.

             Um aðild og ábyrgðargrundvöll í málinu taki stefnendur fram að stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, beri refsi- og fébótaábyrgð á hinum umstefndu ummælum í töluliðum 1-27 í dómkröfukafla í stefnu. Annars vegar á ummælunum í töluliðum 1-2, 9-13 og 14-18, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, en stefnda hafi samið og flutt fréttirnar sem hafi haft að geyma hin umstefndu ummæli og beri því á þeim ábyrgð. Hins vegar á ummælunum í töluliðum 3-8, 19-25 og 26-27 á grundvelli 1. málsliðar a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, en stefnda sé nafngreindur höfundur fréttanna og beri því ábyrgð á efni þeirra og framsetningu. Kröfum stefnenda vegna ofangreindra ummæla sé því réttilega beint að stefndu.

             Stefndi, Heimir Már Pétursson, beri refsi- og fébótaábyrgð á umstefndum ummælum í töluliðum 28-30 í dómkröfukafla í stefnu. Annars vegar á ummælunum í töluliðum 28 og 29, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011, en stefndi hafi flutt fréttina sem hafi haft að geyma hin umstefndu ummæli og beri því á þeim ábyrgð. Hins vegar á ummælunum í tölulið 30 á grundvelli 1. málsliðar a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, en stefndi sé nafngreindur höfundur fréttarinnar, ásamt stefnda, Stefáni Rafni Sigurbjörnssyni, og beri því ábyrgð á efni hennar. Kröfum stefnenda vegna ofangreindra ummæla sé því réttilega beint að stefnda.

             Stefndi, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, beri refsi- og fébótaábyrgð á hinum umstefndu ummælum í tölulið 30 í dómkröfukafla í stefnu á grundvelli 1. málsliðar a-liðar 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, en stefndi sé nafngreindur höfundur fréttarinnar ásamt stefnda Heimi Má Péturssyni og beri því ábyrgð á efni hennar. Kröfum stefnenda vegna ofangreindra ummæla sé því réttilega beint að stefndu.

             Stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, beri refsi- og fébótaábyrgð á umstefndum ummælum í töluliðum 31-32 í dómkröfukafla í stefnu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 38/2011, en hún hafi flutt fréttina sem geymt hafi hin umstefndu ummæli og beri því á þeim ábyrgð sem og friðarbroti gagnvart stefnandanum B. Kröfum stefnenda vegna ofangreindra ummæla sé því réttilega beint að stefndu.

             Réttargæslustefndi, 365 miðlar ehf., eigi og reki fjölmiðlana þar sem hin umstefndu ummæli hafi birst, nánar tiltekið Stöð 2, Bylgjuna, Fréttablaðið og Vísi. Réttargæslustefndi sé jafnframt vinnuveitandi stefndu. Þá beri réttargæslustefndi ábyrgð á greiðslu fésekta, skaðabóta o.fl. samkvæmt 3. mgr. 50. gr. og 3. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, sem stefndu kunni að vera gert að greiða í málinu. Með sama hætti sé kveðið á um skyldu réttargæslustefnda til að birta dóm að viðlögðum dagsektum í 59. gr. laga nr. 38/2011. Þar sem framangreindar skyldur hvíli á réttargæslustefnda samkvæmt skýrum og ótvíræðum lagareglum og dómvenju sé ekki nauðsynlegt að stefna réttargæslustefnda til þess að þola dóm í málinu. Engu að síður sé rétt að gefa honum kost á því að gæta hagsmuna sinna í málinu og því sé honum stefnt til réttargæslu.

             Stefnendur hafi með sér samlagsaðild í málinu sóknarmegin enda eigi kröfur þeirra rætur sínar að rekja til sömu atvika og aðstöðu, sbr. 1. málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Með sama hætti séu skilyrði fyrir samlagsaðild stefndu varnarmegin uppfyllt sbr. 2. málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

             Vegna kröfu um birtingu dóms geri stefnendur hvor um sig þá kröfu að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birtar á forsíðu Fréttablaðsins, í hádegisfréttum Bylgjunnar, í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og á vefsvæðinu www.visir.is, eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 50.000 krónur fyrir hvern dag sem líði umfram áðurgreindan frest án þess að birting fari fram. Um lagastoð fyrir kröfu um birtingu er vísað til 59. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.

             Hvað varði kröfu um vexti og dráttarvexti á dómkröfur vísi stefnendur til IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en krafa um vexti byggist á 1. málslið 4. gr. laganna, sbr. 8. gr. sömu laga, þar sem segi að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað. Krafa um dráttarvexti byggist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr., þar sem segi að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn sé mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi hafi lagt fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í þessu tilviki sé miðað við dagsetningu kröfubréfa í málinu, þann 27. apríl 2016, og því sé krafist dráttarvaxta frá 27. maí 2016 til greiðsludags.

                                                                                              III

             Stefndu byggja á því að þau hafi ekki brotið neinn rétt á stefnendum. Þau hafi verið að sinna störfum sínum sem blaðamenn í samfélaginu en hlutverk þeirra sé að miðla og flytja fréttir af því sem gerist hverju sinni. Þau hafni því alfarið að hafa gerst sek um brot á nefndum ákvæðum hegningarlaga þannig að skilyrði séu til að dæma ummælin dauð og ómerk eða taka aðrar kröfur stefnenda til greina.

             Stefndu hafni því að stefnendum hafi verið gefin að sök refsiverð háttsemi með hinum umstefndu ummælum, enda hafi einungis verið fluttar fréttir af kærum sem sannanlega hafi verið lagðar fram gegn þeim. Í þeim kærum hafi kærendur borið stefnendur sökum um refsiverða háttsemi, sem fréttastofa 365 miðla ehf., hafi síðan flutt fréttir af eins og almennt tíðkist með slík mál. Allur fréttaflutningurinn hafi verið settur fram í góðri trú stefndu, enda byggi hann á trúverðugum heimildum, sem meðal annars hafi komið frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem hafi borið ábyrgð á rannsókn málsins. Stefndu geti hins vegar ekki upplýst um nöfn heimildarmanna sinna eða leitt þá fyrir dóm vegna ákvæðis 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.

             Stefndu hafni því að með hinum umstefndu ummælum hafi verið dróttað að stefnendum með ólögmætum hætti og að í þeim hafi falist ólögmæt meingerð gegn æru þeirra. Ummælin hafi verið sönn á þeim tíma sem þau hafi fallið. Yrðu kröfur stefnenda teknar til greina fælist í því að dómstólar væru í raun að leggja bann við flutningi frétta af sakamálum sem til rannsóknar séu hjá lögreglu, sérstaklega af kærumálum sem varði kynferðisbrot en hátt í 90% þeirra séu felld niður hjá ríkissaksóknara eða lögreglu og ákæra því ekki gefin út. Þá séu ótalin öll þau brot sem aldrei séu kærð. Hafa þurfi í huga að þótt mál sé fellt niður á rannsóknarstigi segi það ekkert til um það hvort verknaður hafi átt sér stað eða ekki, einungis að það sem fram sé komið við rannsókn máls sé ekki líklegt eða nægjanlegt til sakfellis í refsimáli.

             Stefndu reisi sýknukröfur sínar á grundvallarreglunni um tjáningarfrelsi sem lögvarið sé af 73. gr. stjórnarskrárinnar. Tjáningarfrelsið sé einnig varið af 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966, sbr. lög nr. 10/1979.

             Stefndu hafni því alfarið að með ummælunum sem krafist sé ómerkingar á hafi þau brotið gegn æru og mannorði stefnenda þannig að skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar séu uppfyllt og að takmarka megi tjáningarfrelsi þeirra, auk þess sem ummælin séu sönn. Verði kröfur stefnenda teknar til greina að hluta eða að öllu leyti felist í því alvarleg aðför að frjálsri fjölmiðlun í lýðfrjálsu landi. Fréttaflutningurinn hafi ekki að neinu leyti verið óhefðbundinn í svona málum. Sagt hafi verið frá því sem heimildir hafi staðfest að hefði átt sér stað og það hafi verið sett fram með hefðbundnum fyrirvörum. Ítrekað hafi verið að „grunur léki á“, um „meintan“ verknað væri að ræða o.s.frv., allt eins og almennt tíðkist um fréttaflutning af slíkum málum. Stefnendur hafi ekki verið nafngreindir, öfugt við það sem skilja megi af stefnu. Það samfélagslega rót sem hafi orðið vegna málsins sé því ekki að neinu leyti runnið undan rótum stefndu í málinu en ábyrgð á dreifingu mynda af stefnendum og nöfnum þeirra á samfélagsmiðlum sé stefndu með öllu óviðkomandi. Það hafi hins vegar þótt eðlilegt að birta fréttir af mótmælum gegn kynferðisbrotum og rannsóknum þeirra, en mótmælin hafi átt sér stað við lögreglustöðina við Hverfisgötu 9. nóvember og skýrst af uppsafnaðri reiði í samfélaginu gegn slíkum afbrotum.

             Í stefnu sé gerð sérstök grein fyrir aðild og ábyrgðargrundvelli. Stefnendur byggi á a-liðum 1. mgr. 50. og 51. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, sem sé sama efnislega reglan en vísi annars vegar til hljóð- og myndefnis og hins vegar til ábyrgðar á prentefni. A-liðurinn byggist á því að einstaklingur sem tjái sig í eigin nafni, flytji eða miðli efni sem hann hafi sjálfur samið eða flytji efni samið af öðrum samkvæmt eigin ákvörðun beri á því ábyrgð, sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli. Samkvæmt c-lið beri ábyrgðarmaður fjölmiðils í öðrum tilvikum ábyrgð á efni sem miðlað sé. Ábyrgðarmaður 365 miðla ehf. sé Kristín Þorsteinsdóttir, sem ekki sé stefnt í málinu.

             Það að ekki hafi verið skilyrði til útgáfu ákæru, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, geri fréttaflutninginn ekki rangan. Þótt fjallað sé í fjölmiðlum um kærur og lögreglurannsóknir í samfélaginu leiði það ekki til þess að kærðir einstaklingar, eigi rétt til að fá allan fréttaflutning dæmdan dauðan og ómerktan þegar í ljós komi síðar að þeir sem fari með saksóknarvald telji ekki skilyrði til útgáfu ákæru. Stefna málsins virðist byggð á einhverri slíkri hugsun, sem að mati stefndu sé vitaskuld af og frá og standist ekki. Sannindi ummæla leiði til sýknu á grundvelli almennra reglna um ærumeiðingar og meiðyrði. Nú verði vikið að hverjum og einum hinna umstefndu ummæla og rök færð fyrir því af hverju þau hafi verið innan marka leyfilegrar tjáningar.

 

I.                    Einstök ummæli.

I.                    Bylgjan 5. nóvember, fréttir kl 08:00, höfundur Nadine Guðrún Yaghi.

  1. „Leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum.“

 

             Stefndu byggi á því að þetta hafi verið þær upplýsingar sem fyrir hafi legið á sínum tíma. Í kæru sem lögð hafi verið fram á hendur stefnendum hafi verið byggt á því að meintu fórnarlambi hefði verið byrlað sljóvgandi lyf. Því hafi verið sagt að „grunur“ léki á því. Miðað við þær upplýsingar sem fyrir hafi legið á þeim tíma sem fréttin hafi verið flutt sé ekkert í henni rangt eða sett fram með þeim hætti að skilyrði séu fyrir ómerkingu ummælanna. Stefndu mótmæli því, sem haldið sé fram í stefnu, að því sé haldið fram að stefnendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyf. Einungs sé sagt að grunur leiki á því.

 

  1. „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“

 

             Hér sé ekkert fullyrt af hálfu stefndu, heldur einungis sagt að eitthvað muni mögulega hafa átt sér stað. Fréttin sé sett fram með hefðbundnum fyrirvörum, sem undirstriki að um kæru sé að ræða og að enginn hafi enn verið dæmdur fyrir meintan verknað. Það skipti því engu máli hvað hafi gerst, eins og stefnan virðist byggjast á, heldur til hvers framlögð kæra hafi vísað og hverjar sakargiftirnar samkvæmt henni hafi verið.

 

II.                  Fréttablaðið 9. nóvember 2015 (forsíða), höfundur Nadine Guðrún Yaghi.

  1. „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“

 

             Framangreind fyrirsögn sé fyrirsögn Fréttablaðsins. Hlíðarnar séu stórt svæði í Reykjavík og ekki hafi verið vísað til [...], eins og halda mætti af stefnu eða sérstaklega til heimilis stefnandans B. Eins og um önnur ummæli málsins liggi fyrir að heimildir blaðsins hafi byggst á því að um hrottafengnar nauðganir væri að ræða og hafi málið verið rannsakað hjá lögreglu með tilliti til þess og að tólum og/eða tækjum hefði verið beitt við verknaðina. Fyrirsögnin hafi því verið í samræmi við þann raunveruleika sem hafi legið fyrir í málinu í upphafi. Telji virðulegur dómur hins vegar að með fyrirsögninni hafi verið farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar, sé byggt á því að réttum aðila sé ekki stefnt í málinu og því ekki skilyrði til að dæma ummælin dauð og ómerk.

             Greinin sé merkt stefndu Nadine, en hún hafi ekki komið nálægt fyrirsögninni, enda séu fyrirsagnir á ábyrgð ritstjóra. Stefnda Nadine vísi til a-liðar 1. mgr. 51. gr. fjölmiðlalaga, þar sem fram komi að einstaklingur beri ábyrgð á því efni sem hann riti í eigin nafni eða merki sér með augljósum hætti, sé hann heimilisfastur hér á landi eða lúti íslenskri lögsögu á öðrum grundvelli. Greinin á forsíðu hafi verið merkt stefndu Nadine og gangist hún við henni en ekki fyrirsögninni. Höfundur fyrirsagnarinnar hafi verið Óli Kr. Ármannsson, sem ekki sé stefnt í málinu, en hann hafi verið vaktstjóri Fréttablaðsins þann dag. Ábyrgðarmaður Fréttablaðsins sé Kristín Þorsteinsdóttir en væri talið að þessi fyrirsögn hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar hefði átt að stefna henni vegna ummælanna á grundvelli c-liðar 1. mgr. 51. gr. fjölmiðlalaga. Það hafi ekki verið gert og beri stefnendur hallann af því. Af þeim sökum beri að sýkna stefndu Nadine í þessum lið.

 

  1. „Tveir karlar grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir“

 

             Stefndu benda á að fyrir liggi að stefnendur hafi verið kærðir fyrir nauðgun og þar með grunaðir. Þeir hafi ekki verið hnepptir í gæsluvarðahald vegna rannsóknar málsins og því gengið lausir. Ummælin séu því rétt og með öllu óskiljanlegt hvað stefnendum gangi til með að krefjast ómerkingar þeirra. Stefndu ítreki að samkvæmt heimildum þeirra og ritstjórnar 365 miðla ehf. á þessum tíma hafi meint brot átt að vera hrottaleg.

 

  1. „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka.“

 

             Hér ítreki stefndu að samkvæmt heimildum blaðsins og miðað við framlagðar kærur hafi þetta verið veruleikinn. Hér sé því enginn skáldskapur fyrir hendi heldur fréttaflutningur af máli, sem lögregla hafi rannsakað sem kynferðisglæp á sínum tíma. Tækin sem vísað hafi verið til hafi samkvæmt heimildum fréttastofu meðal annars verið reipi, keðja og svipur eða tæki sem notuð séu til iðkunar á svokölluðu BDSM-kynlífi. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafi tæki og tól sem hafi átt að vera notuð við meintan verknað verið gerð upptæk við rannsókn lögreglu.

 

  1. „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum ...“

 

             Stefndu bendi á að hér hafi frásögnin aftur verið sett fram með fyrirvörum um það hvort atvik hafi átt sér stað, sbr. orðalagið „á ... að hafa verið“. Hvað raunverulega hafi gerst skipti engu máli í þessu samhengi. Það eina sem skipti máli séu þær sakir sem á stefnendur hafi verið bornar og hvernig fjölmiðlar réttargæslustefnda og þar með stefndu hafi unnið úr því. Fráleitt sé að halda því fram að um tilhæfulausar ásakanir stefndu hafi verið að ræða um að stefnendur hafi brotið gegn 194. gr. almennra hegningarlaga þegar fyrir liggi í skjölum málsins að kærurnar hafi verið rannsakaðar með hliðsjón af 1. og 2. mgr. þess ákvæðis.

 

  1. „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

             Stefndu vísi aftur til þess að í kærunum hafi verið byggt á því að stefnendur hefðu að minnsta kosti í öðru tilvikinu byrlað meintum fórnarlömbum sínum sljóvgandi lyf. Þess vegna hafi verið flutt frétt um að „grunur“ léki á því, en þetta virðist vera í samræmi við skjöl málsins þar sem fram komi að málið hafi verið rannsakað meðal annars með hliðsjón af 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

 

  1. „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

 

             Það eina sem sé fullyrt í þessari framsetningu sé að hankar hafi verið í loftinu. Stefnendur krefjist ekki ómerkingar á þeirri fullyrðingu, heldur einungis því að þeir hafi ekki hengt neinn upp. Í fréttinni hafi það ekki verið fullyrt, heldur einungis að „grunur“ léki á að hankarnir hafi verið notaðir til upphengingar, þ.e. að stúlkan hefði verið bundin í þá. Engin skilyrði séu því til þess að dæma ummælin dauð og ómerk.

 

  1. „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 5 hér að framan.

 

  1. „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 6 hér að framan.

 

  1. „... leikur grunur á að að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 7 hér að framan.

 

  1. „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“

 

             Stefndu vísi á ný til þess hvernig kæran hafi verið sett fram og þess hvaða brot hafi verið rannsökuð. Því hafi hvergi verið haldið fram að þessir hlutir væru ólögmætir. Það eigi hins vegar við um svipur, reipi, keðjur og fleiri hluti að þeir séu ekki ólögmætir sem slíkir en geti verið nýttir í ólögmætum tilgangi. Á rannsóknarstigi málsins hafi staðan verið sú, en samkvæmt heimildum blaðsins hafi lögregla lagt hald á nokkra slíka hluti við rannsókn þess.

 

  1. „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 8 hér að framan.

 

  1. „Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 5 og 9 að framan.

 

  1. „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum ...“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 6 og 10 hér að framan.

 

  1. „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 7 og 11 hér að framan.

 

  1. „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 12 hér að framan.

 

  1. „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 8 og 13 hér að framan.

 

III.               Vísir 9. nóvember 2015, kl. 06:00, höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.

 

  1. „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í tölulið 3 að framan.

 

  1. „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 5 og 9 hér að framan.

 

  1. „Grunur um byrlun ólyfjan“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 7 og 11 hér að framan.

 

  1. „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað í sömu íbúð af báðum mönnunum.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 6 og 10 hér að framan.

 

  1. „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 7, 11 og 21 að framan.

 

  1. „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögreglan í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 12 og 17 hér að framan.

 

  1. „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 8, 13 og 18 hér að framan.

 

IV.                Fréttablaðið 11. nóvember 2015 (forsíða), höfundur stefnda Nadine Guðrún Yaghi.

 

  1. „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 5, 9 og 14.

 

  1. „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“

 

Stefndu vísi til rökstuðnings í töluliðum 7, 11 og 23 hér að framan.

 

V.                  Bylgjan, 5. nóvember 2015, fréttir kl 12:00, flytjandi stefndi Heimir Már Pétursson.

 

  1. „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“

 

             Stefndu vísi enn á ný til þess að málið hafi verið rannsakað sem meint brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun. Í fréttinni hafi ekkert verið fullyrt um að nauðgun hefði átt sér stað, heldur einungis að grunur léki á nauðgun. Eins og gefi að skilja sé þar um alls óskylda hluti að ræða. Annar hinna grunuðu hafi verið starfsmaður [...], en stefndi Heimir Már hafi fengið staðfest í samtölum við starfsmann [...] að starfsmaður þess hefði látið af störfum tímabundið vegna málsins. Það hafi verið fréttnæmt og ekki rangt að neinu leyti.

 

  1. „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“

 

             Þetta hafi verið staðreynd málsins og hafi kæra kvennanna tveggja lotið að þessu. Málið hafi verið rannsakað út frá þessum sakargiftum og um fullkomlega eðlilega fréttamennsku hafi því verið að ræða.

 

VI.                Fréttablaðið 6. nóvember 2015, bls. 8, höfundar stefndu Heimir Már Pétursson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson.

 

  1. „... en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjabróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnunum í heimahúsi í Hlíðunum.“

 

             Fyrir mistök hafi fyrirvarar við þessa setningu í fréttinni fallið niður og harmi stefndu það. Aftur á móti sé um að ræða ónákvæmni sökum mistaka sem að mati stefndu geti ekki leitt til þess að ummælin verði dæmd dauð og ómerk, eins og krafist sé. Þá byggi stefndu á því að stefndi Heimir Már hafi ekki verið höfundur fréttarinnar, heldur einungis stefndi, Stefán Rafn. Ástæðan fyrir því að fangamark stefnda Heimis sé við fréttina sé að vinnulag innan 365 miðla ehf. sé með þeim hætti að þegar fréttamenn vinni smáfrétt í Fréttablaðið, sem að hluta til byggi á annarri frétt, í þessu tilfelli frétt sem stefndi, Heimir Már, hafi flutt í útvarpi, sé hún merkt bæði þeim sem skrifi fréttina og þeim sem hafi skrifað þá frétt sem hluti hennar sé fenginn úr. Stefndi Stefán Rafn, hafi alfarið skrifað þessa frétt í Fréttablaðinu, fyrir utan að hann vísi í setningu í frétt á Bylgjunni daginn áður, þar sem þess sé getið að annar stefnenda hafi samkvæmt heimildum verið látinn hætta tímabundið störfum á [...]. Það skýri af hverju stafir beggja stefndu, Stefáns Rafns og Heimis Más, séu undir henni.

             Eins og fram komi í fréttinni hafi verið settir fyrirvarar á öllum stöðum í henni, þar með talið í fyrirsögn, að framangreindri setningu undanskilinni, en það skýrist af mistökum sem beðist sé velvirðingar á. Sé litið til annarra fyrirvara í greininni sé ljóst að enginn ásetningur hafi staðið til þess að smána mannorð stefnenda en skoða verði greinina heildstætt hvað þetta varði.

 

VII.             Stöð 2, 9. nóvember 2015, fréttir kl. 18:30, flytjandi Þórhildur Þorkelsdóttir.

 

  1. „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“

 

             Enn og aftur ítreki stefndu að þær upplýsingar sem legið hafi fyrir, hafi falið í sér að um hrottalegar kynferðislegar árásir væri að ræða og meðal annars hafi tæki og tól verið notuð. Því sé mótmælt að stefndu hafi sakað stefnendur um nauðganir. Staðreyndin sé hins vegar sú að stefnendur hafi verið kærðir fyrir nauðgun og af því verið fluttar fréttir, rétt eins og um slíkt tíðkist.

 

  1. „Ég er stödd hérna í stigangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum.“

 

             Stefndu halda því fram að ekkert í þessum ummælum sé rangt. Stefnda, Þórhildur, hafi verið stödd í stigaganginum á heimili stefnandans B, en þar hafi meintar nauðganir átt að hafa gerst, eins og meðal annars sé viðurkennt í stefnu. Hins vegar hafi hvorki heimilisfang né nafn stefnanda verið tilgreint eða húsið verið auðkennanlegt út frá stigaganginum. Fréttir hafi verið fluttar af meintum vettvangi, rétt eins og almennt tíðkist um slíkan fréttaflutning og tekið fram að nauðganirnar hafi átt að eiga sér stað á þessum stað. Engin sakfelling hafi þannig falist í þeim orðum af hálfu stefndu, eins og ranglega sé haldið fram í stefnu. Meðal gagna málsins séu fréttir, sem staðfesti að lögmaður annars stefnenda hafi deilt myndupptöku úr íbúðinni á samfélagsmiðlum. Í því ljósi verði ekki séð hvað sé athugavert við að hafa flutt frétt úr þessum stigangi, sem ekki hafi einu sinni verið staðsettur í fréttaflutningnum.

             Þá hafi stefnda, Þórhildur, ekki staðsett húsið við [...] heldur í Hlíðunum. Aðrir fjölmiðlar hafi hins vegar staðsett það við [...]. Það hafi því ekkert verið nýtt í þessum fréttaflutningi. Fréttin sem hafi verið flutt úr stigaganginum hafi í raun ekki verið annað en endursögn á frétt Fréttablaðsins og vísað í hana, sbr. þessi ummæli: „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“

             Í stefnu sé vikið að því að um hafi verið að ræða brot á réttarreglum sem ætlað sé að vernda friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, sbr. 229. gr. almennra hegningarlaga, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnda, Þórhildur, hafni því að um friðhelgisbrot hafi verið að ræða, en veki samt athygli á því að engin krafa sé gerð af því tilefni. Í stefnu sé einungis gerð krafa um að þessi ummæli verði dæmd dauð og ómerk en engin forsenda sé fyrir því þar sem þau séu rétt. Verði talið að brot á friðhelgi hafi verið framið geti það ekki haft neinar afleiðingar fyrir þetta dómsmál, eins og stefnendur byggi það upp, enda engin krafa gerð þar um.

             Stefndu hafni því öll sem einn að þau hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar í fréttaflutningi sínum. Þau hafi ekki sakfellt stefnendur opinberlega fyrir þá háttsemi sem rannsóknin gegn þeim hafi beinst að. Fyrirvari hafi verið gerður við allar fréttirnar þótt mistök hafi verið gerð eða ónákvæmni gætt vegna ummælanna í kröfulið nr. 30. Dómafordæmi leiði hins vegar til þess að smávegis ónákvæmni eigi ekki að leiða til ómerkingar ummæla.

             Þá byggist öll ummælin á staðreyndum frá þeim tíma sem atvik hafi gerst. Þótt rannsókn lögreglu hafi ekki leitt til útgáfu ákæru sé ekkert sem banni fjölmiðlum að flytja fréttir af rannsóknum sakamála. Stefndu hafni því að ummælin hafi verið höfð gegn betri vitund þeirra. Þvert á móti hafi þau verið sett fram í góðri trú, en dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu hnígi í þá átt að ekki séu skilyrði til að dæma ummæli ómerk, hafi svo verið. Ekki hafi því verið um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem hafi falið í sér brot gegn 235. gr. og 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga, þannig að skilyrði séu til að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Með vísan til þess mótmæli stefndu því að greind ummæli hafi falið í sér brot á ákvæðum 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga þar sem þau séu sönn. Réttargæslustefndi hafi ekki látið málið sérstaklega til sín taka að öðru leyti en því að hann taki undir öll sjónarmið stefndu sem haldið sé fram í málinu.

             Þá byggi stefndu sýknukröfur sínar af miskabótakröfum stefnenda á þeim röksemdum sem að framan hafi verið raktar. Krafist sé sýknu af ómerkingarkröfunum en gangi sú krafa eftir leiði hún til þess að skilyrði miskabóta séu ekki fyrir hendi.

             Verði ómerkingarkröfurnar teknar til greina, þvert gegn væntingum stefndu, hvort sem sé í heild eða að hluta sé kröfum um miskabætur mótmælt sem allt of háum og án nokkurra tengsla við dæmdar miskabætur í sambærilegum málum hér á landi. Þá mótmæli stefndu því að brotin hafi verið framin af ásetningi þótt niðurstaða dómsins yrði sú að taka ómerkingarkröfu til greina. Stefndu krefjast þess að miskabætur verði ekki dæmdar, en til vara að þær verði lækkaðar verulega frá dómkröfum. Í þessu efni verði að hafa í huga að æra stefnenda og virðing hafi ekki beðið hnekki vegna fréttaflutnings stefndu, heldur vegna þess að kæra hafi verið lögð fram gagnvart þeim fyrir alvarlegan glæp, hvort sem fótur hafi verið fyrir henni eða ekki. Stefndu hafi ekki birt nöfn stefnenda og geti því ekki með nokkru móti borið ábyrgð á því að einhverjir einstaklingar á samfélagsmiðlum hafi ákveðið að birta nöfn þeirra, hvorki með beinum né óbeinum hætti.

             Stefndu mótmæli vaxtakröfu og byggi á því að ekki sé tilefni til að dæma vexti fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu.

             Hvað kröfu stefnenda um birtingu dómsins varði geri stefndu ekki athugasemd við að niðurstaða dómsins verði birt í miðlum réttargæslustefnda. Ekki verði hins vegar séð að lagaskilyrði séu til þess að dæma hvar í fjölmiðlunum umfjöllunin eigi að birtast, eins og krafist sé í stefnu. Dómstólar geti ekki tekið að sér ritstjórnarvald yfir fjölmiðli.

                                                                                              IV

             Mál þetta snýst um ummæli sem fram komu í fréttaflutningi ýmissa ljósvakamiðla á vegum réttargæslustefnda, 365 miðla ehf., dagana 4.-11. nóvember 2015 af tveimur málum, sem kærð höfðu verið til lögreglu sem nauðgun fyrr um haustið og sögð voru hafa átt sér stað í Hlíðahverfi í Reykjavík. Eins og rakið hefur verið krefjast stefnendur ómerkingar 32 nánar tilgreindra ummæla sem látin voru falla bæði munnlega og skriflega í fréttum sem stefndu fluttu af lögreglurannsókn málanna en hin umstefndu ummæli komu nánar tiltekið fram í Fréttablaðinu, á vefmiðlinum visir.is, á útvarpsstöðinni Bylgjunni og í kvöldfréttum Stöðvar 2. Í dómkröfukafla í stefnu er ítrekað krafist ómerkingar sömu ummæla sem höfð eru eftir stefndu ýmist í ræðu eða riti á fyrrgreindum miðlum. Að endurtekningum slepptum er krafist ómerkingar á eftirfarandi 16 ummælum:

             Ummæli á Bylgjunni, þann 5. nóvember 2015 í fréttum kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

1.       „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 1 í stefnu.

2.       „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 2 í stefnu.

             Ummæli á forsíðu Fréttablaðsins þann 9. nóvember 2015, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

3.       „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“. Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 3 og 19 í stefnu.

4.       „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 4 í stefnu.

5.       „Samkvæmt heimildum [Frétta]blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 5, 9, 14 og 20 í stefnu.

6.       „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum ...“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 6, 10, 15 og 22 í stefnu.

7.       „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 7, 11, 16, 23 og 27 í stefnu.

8.       „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 8, 13, 18 og 25 í stefnu.

             Ummæli á Bylgjunni, 9. nóvember 2015 í fréttum kl. 08:00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

9.       „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfuliðum 12, 17 og 24 í stefnu.

             Ummæli í Vísi, 9. nóvember 2015, kl. 06.00, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

10.    „Grunur um byrlun ólyfjan.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 21 í stefnu.

             Ummæli á forsíðu Fréttablaðsins 11. nóvember 2015, höfundur stefnda, Nadine Guðrún Yaghi.

11.    „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 26 í stefnu.

             Ummæli á Bylgjunni, 5. nóvember 2015, fréttir kl. 12:00, flytjandi stefndi, Heimir Már Pétursson.

12.    „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 28 í stefnu.

13.    „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 29 í stefnu.

             Ummæli í Fréttablaðinu, 6. nóvember 2015, bls. 8, höfundar stefndu, Heimir Már Pétursson og Stefán Rafn Sigurbjörnsson.

14.    „... en í fyrra tilfellinu var annari þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnum í heimahúsi í Hlíðunum.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 30 í stefnu.

             Ummæli á Stöð 2, þann 9. nóvember 2015 í fréttum kl. 18:30, flytjandi stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir.

15.    „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar sem lögregla gerði upptæk.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 31 í stefnu.

16.    „Ég er stödd hérna í stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum.“ Krafist er ómerkingar á þessum ummælum í kröfulið 32 í stefnu.

 

             Krafa stefnenda um ómerkingu er reist á 235. og 236. gr., sbr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá krefjast stefnendur einnig miskabóta vegna þess tjóns sem hin umstefndu ummæli hafi valdið þeim á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 26/1993. Enn fremur er byggt á því að með hluta hinna umstefndu ummæla hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs annars stefnandans samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga, 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Loks byggja stefnendur á því að stefndu beri ábyrgð á hinum umstefndu ummælum með vísan til 50.-51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Af hálfu stefndu er krafist sýknu með vísan til tjáningarfrelsisákvæðis 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá árinu 1966, sbr. lög nr. 10/1979.

             Í 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveðið á um að drótti maður að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða beri slíka aðdróttun út, þá varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári. Í 1. mgr. 236. gr. sömu laga er mælt fyrir um að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varði það fangelsi allt að tveimur árum. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári. Þá kemur fram í 1. mgr. 241. gr. laganna að óviðurkvæmileg ummæli megi dæma ómerk í meiðyrðamáli, krefjist sá sem misgert var við þess. Í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 26/1993 er mælt fyrir um að heimilt sé að láta þann sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

             Í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Þá er mælt fyrir um það í 2. gr. að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en hann verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má aðeins setja tjáningarfrelsi skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þannig er ljóst að tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar verndar einhver mikilvægustu réttindi manna og brýnt að allar takmarkanir á því eigi sér skýra stoð í settum lögum og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur gengist undir. Verður XXV. kafli almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs skýrður með hliðsjón af þessu.

             Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðissamfélagi og ber skylda til að sinna upplýsingarétti gagnvart almenningi í þágu hinnar þjóðfélagslegu umræðu. Af þeim sökum verður að játa þeim ríkt svigrúm til tjáningar svo þeim sé kleift að gegna þessu hlutverki. Dómurinn tekur undir það sjónarmið stefndu að mikilvægt sé að flytja fréttir af rannsókn lögreglu í kynferðisbrotamálum eins og af rannsóknum annarra sakamála. Hins vegar er einnig til þess að líta að þrátt fyrir að óumdeilt megi telja að 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar um, að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar, sé ætlað að veita hinni þjóðfélagslegu umræðu hámarksvernd, ber einnig að líta til 3. mgr. sömu greinar um þær takmarkanir sem lög mega setja tjáningarfrelsinu og eiga sér meðal annars stoð í 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Þar sem andstæðir hagsmunir tjáningarfrelsis og einkalífsverndar mætast er mikilvægt að fjölmiðlar gæti hófs og ábyrgðar í fréttaflutningi sínum og gangi ekki lengra en nauðsyn ber til hverju sinni í því skyni að þjóna upplýsingahlutverki sínu gagnvart almenningi. Um þetta er vísað til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla þar sem mælt er fyrir um að fjölmiðlaveita skuli í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skuli virða mannréttindi og jafnrétti og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.

             Í málinu liggur fyrir og er óumdeilt að tvær konur lögðu fram kærur til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hendur stefnendum málsins haustið 2015 fyrir nauðgun. Jafnframt liggur fyrir að málin voru felld niður í febrúar árið eftir hjá embætti héraðssaksóknara með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem rannsóknargögn þóttu ekki sýna fram á að það sem fram væri komið í málunum væri nægilegt eða líklegt til sakfellis. Eins og að framan greinir var mikið fjallað um málið í ljósvakamiðlum réttargæslustefnda fyrri hluta nóvembermánaðar 2015. Í kjölfar umfjöllunarinnar var boðað til mótmæla fyrir framan lögreglustöðina á Hverfisgötu þann 9. nóvember sama ár, meðal annars til að mótmæla því að ekki hefði verið farið fram á gæsluvarðhald yfir stefnendum vegna ætlaðra brota þeirra.

             Stefnendur gáfu aðilaskýrslur fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og kváðust báðir hafa átt erfitt með að fóta sig eftir þá umfjöllun sem mál þeirra hlaut í fjölmiðlum. Stefnandinn B bar fyrir dómi að til hefði staðið að hann og stefnandinn A færu til Noregs í nóvember 2015 til að heimsækja móður hins síðarnefnda sem þar er búsett. Þeir hefðu flýtt för þangað að ráðleggingu lögreglumanns og farið út mánudaginn 9. nóvember. Stefnandinn kveðst fyrst hafa snúið aftur hingað til lands fyrir tæpu ári þar sem hann hefði ekki talið sér vært hér á landi. Það geri hann ekki enn, enda ætlaði hann aftur út hið fyrsta. Hann hafi verið í vinnu sem innkaupastjóri fyrir [...] á þeim tíma er málið komst í hámæli en hafi ekki verið í vinnu síðan þá. Stefnandinn hafi sjálfur látið [...] vita af því að málið væri í fjölmiðlum og fengið leyfi frá störfum í kjölfar þess. Hann hafi verið í sjúkraleyfi síðan og treysti sér ekki til að sækja um vinnu þar sem nafn hans sé spyrt við málið sé því flett upp á netinu. Þá kvaðst stefnandinn hafa einangrað sig, sætt hótunum og vilji helst ekki hafa samskipti við fólk í kjölfar málsins. Hann hafi enn ekki komið í íbúðina að [...] sökum ónæðis sem hann varð fyrir þar, eftir að hann fór til Noregs. Spurður um þá muni sem haldlagðir voru á heimili hans kvað stefnandinn að meðal þeirra hefðu verið hestasvipa sem hann erfði frá afa sínum, keðjur af boxpúða, síminn hans og tölva.

             Stefnandinn A bar fyrir dómi að rétt væri að rannsókn hefði staðið yfir hjá lögreglu vegna málanna en hún hefði alls ekki verið með þeim hætti sem fjölmiðlar greindu frá. Hann hefði hætt í skólanum þegar málið komst í fjölmiðla og verið í nokkrum störfum hér á landi síðan en þurft að hætta í þeim, þar sem hann ætti erfitt með að umgangast Íslendinga. Hann hefði búið hjá ættingjum á þessum tíma og ekki komist í sitt eigið húsnæði. Stefnandinn kvaðst hafa flutt til Noregs fyrir nokkrum vikum í því skyni að vinna, enda væri hann skuldugur eftir þessa atburði, þar sem hann hefði þurft að lifa á lánum frá fjölskyldu sinni síðan þeir áttu sér stað. Stefnandinn kvaðst nú vera kominn með vinnu úti í [...]. Ástæðu þess að stefnandi hefði farið út í nóvember 2015 kvað hann vera þá að hann hefði verið búinn að ákveða að fara út til að hitta móður sína og bróður um það leyti sem hann ætti afmæli sem væri [...] nóvember. Hann hefði boðið stefnandanum B að koma með og þeir ætlað í helgarferð. Þeir hefðu hins vegar flýtt ferðinni og stefnandi ekki komið aftur heim fyrr en um jólin. Ástæðu þess að hann hefði komið aftur hingað til lands kvað stefnandi meðal annars hafa verið þá að hann ætti hér ungt barn sem hann hefði ekki viljað yfirgefa. Eftir fjölmiðlaumfjöllun um málið hefði hann ekki treyst sér til að sækja barn sitt á leikskólann og þurft að láta sækja það fyrir sig. Aðspurður hvers vegna stefnendur hefðu flýtt för sinni til Noregs kvað stefnandi ástæðuna hafa verið þá að fregnir af málinu hefðu verið byrjaðar að birtast og þeir þá haft samband við lögregluna. Stefnendur hefðu spurt hvort þeim væri heimilt að fara af landi brott og beðið um það leyfi, enda væru mál á hendur þeim til rannsóknar hjá lögreglu. Stefnandinn bar að lögreglan hefði heimilað það og hvatt þá til að flýta för sinni. Þá bar stefnandinn að hann hefði átt erfitt uppdráttar persónulega í kjölfar málanna og verið til meðferðar hjá sálfræðingi.

             Stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, kvaðst, í skýrslu fyrir dóminum, vera höfundur allra þeirra ummæla sem krafist væri ómerkingar á í kröfuliðum 1-27 í stefnu fyrir utan að hún hefði ekki samið fyrirsögnina „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ sem birtist í Fréttablaðinu 9. nóvember 2015 og krafist er ómerkingar á í kröfulið 3 og 19 í dómkröfukafla. Í framburði stefndu kom meðal annars fram að hún hefði haft áreiðanlegar heimildir fyrir málsatvikum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefði ekki haft lögregluskýrslur í málunum undir höndum en hefði þó komist í tæri við hluta lögregluskýrslu. Stefnda kvaðst ekki geta útskýrt nánar hvernig það bar að garði án þess að ljóstra upp um heimildarmann sinn í leiðinni. Þá kom fram í máli stefndu að hún hefði reynt að hafa samband við stefnendur símleiðis til að fá fram þeirra sjónarmið en ekki náð sambandi.

             Við úrlausn á því hvort stefndu hafi með ummælum sínum vegið að mannorði stefnenda með ólögmætum hætti með því að birta og dreifa ærumeiðandi ummælum verður að líta til þess á hvaða hátt hin umdeildu ummæli voru sett fram, hvað fyrir liggur um sannleiksgildi þeirra og hvaða gildi þau höfðu fyrir opinbera umræðu. Þá þykir ljóst að öll hin umstefndu ummæli fólu í sér staðhæfingar um staðreyndir en ekki gildisdóma. Verður nú fjallað sérstaklega um hver hinna umstefndu ummæla, sbr. liði 1-16 eins og þeir eru tilgreindir hér að framan.

             Ummæli í lið 1 „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og eiturlyfjum“, lið 2 „Þá munu þeir hafa beitt konuna kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi“, lið 6 „Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum“, lið 7 „... leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana“ og lið 10 „Grunur um byrlun ólyfjan“ eru öll eignuð stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, og hefur hún gengist við því að vera höfundur þeirra. Ummæli í lið 13 „... leikur grunur á að meintir gerendur hafi byrlað konunni ólyfjan og beitt hana kynferðislegu og öðru líkamlegu ofbeldi“ eru eignuð stefnda, Heimi Má Péturssyni, en hann lét þau falla í hádegisfréttum Bylgjunnar þann 5. nóvember 2015. Þau ummæli eru nokkurn veginn samhljóða ummælum í liðum 1 og 2 og eru eins konar samsetning úr þeim.

             Að mati dómsins er með öllum framangreindum ummælum í liðum 1, 2, 6, 7, 10 og 13 ekki farið út fyrir það svigrúm sem 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar veitir til tjáningar, enda eru fyrirvarar hafðir á í öllum tilvikum með því að vísa til gruns, meintra gerenda o.s.frv. Í málinu liggur einnig fyrir og er óumdeilt að stefnendur voru kærðir til lögreglu fyrir ætluð brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um nauðgun, en samkvæmt verknaðarlýsingu ákvæðisins gerist hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung sekur um nauðgun. Rannsókn málanna var síðar hætt og málin felld niður hjá lögreglu eins og rakið hefur verið. Fyrir dómi kom fram hjá stefnendum að í kærum kvennanna tveggja til lögreglu hefði þeim jafnframt verið gefið að sök að hafa byrlað þeim eiturlyf og ólyfjan. Ágreiningslaust er því í málinu að það var hluti af kæruefni til lögreglu. Þar sem nægilega þykir sýnt fram á að mati dómsins að framangreind ummæli í fréttum stefndu hafi átt við rök að styðjast verður ekki fallist á ómerkingarkröfu stefnenda hvað þau varðar. Hvað lið 6 varðar sérstaklega þá liggur fyrir í gögnum málsins að um tvær kærur var að ræða vegna tveggja atvika sem áttu sér stað með u.þ.b. mánaðar millibili. Þrátt fyrir að þannig sé ekki rétt með farið að níu dagar hafi liðið á milli atvikanna þykir sú ónákvæmni ekki leiða ein og sér til þess að ómerkja beri ummælin.

             Hvað varðar svohljóðandi lið 3: „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“, sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins 9. nóvember 2015, og eignuð eru stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, vísa stefndu til þess að málið hafi verið rannsakað hjá lögreglu með hliðsjón af því að um hrottafengnar nauðganir væri að ræða þar sem tækjum og tólum hefði verið beitt. Fyrirsögnin hefði því verið í samræmi við þann raunveruleika sem hafi legið fyrir í málinu. Á þetta getur dómurinn ekki fallist. Í málinu liggur fyrir að þáverandi aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu lýsti því í viðtali að það væri rangt að íbúðin hefði verið „sérútbúin“ til nauðgana, eins og hún komst að orði. Þykir í þessu samhengi ekki vera ástæða til þess að gera sérstakan greinarmun á orðunum „sérútbúin“ og „útbúin“.

             Stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, hefur jafnframt mótmælt því að vera höfundur hinnar umstefndu fyrirsagnar heldur hafi annar starfsmaður Fréttablaðsins samið hana. Að öðru leyti gengst stefnda við texta þeirrar fréttar sem fyrirsögninni fylgdi. Óli Kr. Ármannsson sem var vaktstjóri eða svokallaður „lokari“ í umrætt skipti greindi frá því fyrir dóminum að hann hafi samið fyrirsögnina sem lið í lokafrágangi blaðsins. Þegar fréttin er lesin í heild sinni þykir fyrirsögnin vera í það nánum tengslum við efni hennar að óhjákvæmilegt sé að líta á hana sem órjúfanlegan hluta fréttarinnar. Þar sem fréttin er merkt stefndu, Nadine Guðrúnu Yaghi, ber hún því ábyrgð á fyrirsögninni samkvæmt a-lið 1. mgr. 51. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011, jafnvel þótt annar starfsmaður blaðsins hafi samið hana. Málsástæðu stefndu um að henni sé ekki réttilega stefnt vegna þeirra ummæla sem fyrirsögnin fól í sér er því hafnað.

             Þá þykir efni fyrirsagnarinnar jafnframt fela í sér fullyrðingu um að stefnendur hafi gerst sekir um alvarlegt refsivert athæfi sem brjóti í bága við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, jafnvel ítrekað, þrátt fyrir að málið hefði ekki verið fullrannsakað hjá lögreglu þegar fréttin birtist og þannig ekkert legið fyrir með vissu um þær alvarlegu sakir sem stefnendum voru bornar á brýn. Enn fremur þykir fyrirsögnin að mati dómsins hafa verið sett fram með ósmekklegum hætti í því skyni að ná fram sem sterkustum viðbrögðum hjá lesendum blaðsins. Var sú framsetning ekki nauðsynlegur þáttur í fréttaflutningi af málinu. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið þykja ummælin sem fyrirsögnin innihélt fela í sér aðdróttun gagnvart stefnendum samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga. Ber því að ómerkja hana, sbr. 241. gr. sömu laga.

             Hvað varðar ummælin í lið 4 „Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir“ sem stefnda, Nadine Guðrún Yaghi er höfundur að, þá liggur fyrir í málinu að lögregla fór ekki fram á gæsluvarðhald yfir stefnendum og gengu þeir þar af leiðandi lausir. Þrátt fyrir að sterkt sé tekið til orða um að ætluð brot stefnenda hafi verið hrottaleg þykir stefnda ekki hafa farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar með þessum ummælum, enda fyrirvari sleginn um að stefnendur hafi framið þau. Verður því ekki fallist á kröfu um ómerkingu þeirra.

             Verður þá næst vikið að ummælum í lið 5 „Samkvæmt heimildum [Frétta]blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka“ sem stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, er höfundur að og birtust í Fréttablaðinu 9. nóvember 2015 og ummælum í lið 15 „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka, sem lögregla gerði upptæk“ sem stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttur, lét falla í sjónvarpsfréttatíma um kvöldið sama dag. Með ummælum þessum, sem eru nánast samhljóða, þykir að mati dómsins hafa verið farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar með því að fullyrða án nokkurra fyrirvara að árásirnar hafi verið hrottalegar og sterklega gefið í skyn að þeir munir, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málanna, hafi verið notaðir eða séu vel til þess fallnir að fremja ofbeldisverk. Stefnda, Nadine Guðrún, bar fyrir dómi að hún hefði þær upplýsingar sem hún byggði fréttirnar á frá fleiri en einum mjög áreiðanlegum heimildarmanni. Þá hefði hún einnig komist í tæri við hluta lögregluskýrslu í málinu og byggt fréttirnar á henni. Að öðru leyti liggja ekki fyrir í málinu nein gögn sem styðja framangreindar fullyrðingar stefndu. Fyrir liggur að við rannsókn lögreglu var lagt hald á svipu og keðjur af boxpúða í eigu stefnandans B. Engin tæki voru gerð upptæk. Líta verður til þess að þegar stefndu annars vegar rituðu og hins vegar fluttu fréttir sem innihalda hin umstefndu ummæli stóð rannsókn lögreglu á ætluðum brotum stefnenda enn yfir. Var því ótímabært og óvarlegt að setja ummælin fram með þeim hætti sem gert var. Þrátt fyrir að ekki sé sagt berum orðum að stefnendur hafi notað þá muni sem lögregla haldlagði til að fremja ofbeldisverk þá þykir með hinum umstefndu ummælum nægilega gefið í skyn að þeir hafi notað þá í því skyni. Þykja framangreind ummæli af þeim sökum fela í sér ærumeiðandi aðdróttun um refsiverða háttsemi stefnenda samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður því fallist á ómerkingu þeirra, sbr. 241. gr. sömu laga.

             Með sömu rökum verður fallist á ómerkingu ummæla í lið 11 „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar“ sem stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, skrifaði í Fréttablaðið þann 11. nóvember 2015 þar sem vitnað er beint í hin umstefndu ummæli í lið 5 sem hún skrifaði í frétt blaðsins tveimur dögum fyrr.

             Verður þá næst vikið að ummælum í lið 8 „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana“ sem stefnda Nadine Guðrún Yaghi lét falla í skrifum sínum í Fréttablaðið þann 9. nóvember 2015. Hvað sannleiksgildi þeirrar fullyrðingar varðar um að hankar hafi verið í lofti íbúðar stefnandans B þykir það að mati dómsins ekki liggja ljóst fyrir hvort svo hafi verið í reynd. Sú fullyrðing stefndu að hankar hafi verið í loftinu telst því ósönnuð. Þrátt fyrir að stefnda slái ákveðinn fyrirvara með ummælunum þykir að mati dómsins með þeim vegið að æru stefnenda á ólögmætan hátt með því að gefa sterklega til kynna að þeir hafi gerst sekir um mjög gróft ofbeldi og þar með refsiverða háttsemi, sem ekkert liggur fyrir um að hafi átt sér stað og hvað þá með þeim hætti sem lýst er í hinum umstefndu ummælum. Eins og fyrr greinir voru ætluð brot stefnenda hjá lögreglu ekki fullrannsökuð þegar fréttin var skrifuð og þannig óvarlegt að setja þau fram með þessum hætti. Í ljósi þessa þykir stefnda þannig hafa farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar með framangreindum ummælum og verða þau því dæmd ómerk samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 241. gr. sömu laga.

             Verða þá næst tekin til skoðunar ummælin í lið 9 „Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla ýmis tól og tæki í íbúðinni sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur“. Í málinu liggur fyrir og er ágreiningslaust að lögregla lagði hald á ákveðna muni í eigu stefnandans B við húsleit sem gerð var á heimili hans við rannsókn málanna. Meðal þeirra muna voru reiðsvipa og keðjur af boxpúða. Ekkert liggur þó fyrir í málinu um að reipi hafi verið haldlagt. Þá staðfesta gögn málsins að stefnendur voru kærðir til lögreglu fyrir nauðgun. Í ljósi þess að með hinum umstefndu ummælum er lýst atriðum sem eru í meginatriðum óumdeild og fyrirvari sleginn um ætlaða notkun hinna haldlögðu muna af hálfu stefnenda, þykir stefnda ekki með þeim hafa farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki verður því fallist á kröfu ómerkingu þeirra.

             Ummæli í lið 12 „Starfsmaður [...] sem grunaður er um aðild að hrottalegri nauðgun á konu í félagi við annan ...“ eru eignuð stefnda, Heimi Má Péturssyni, en hann lét þau falla í hádegisfréttum Bylgjunnar þann 5. nóvember 2015. Í málinu er ágreiningslaust að stefnandinn B starfaði hjá [...] á þessum tíma og að kæra fyrir nauðgun á hendur honum og stefnandanum A var lögð fram hjá lögreglu. Þrátt fyrir að fært sé í stílinn með því að fullyrða að nauðgunin hafi verið hrottaleg þykir með þessari fullyrðingu, sem að öðru leyti er sönn, ekki hafa verið farið út fyrir mörk heimillar tjáningar, sbr. 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Verður þannig ekki fallist á ómerkingu þeirra.

             Vegna ummæla stefndu, Þórhildar Þorkelsdóttur, í lið 16, sem hún lét falla í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 þann 9. nóvember 2015 „Ég er stödd hérna í stigagangi hússins í Hlíðunum þar sem tvær hrottafengnar nauðganir eiga að hafa átt sér stað í október síðastliðnum“ þá verður jafnframt sýknað af ómerkingarkröfu vegna þeirra með sama rökstuðningi og á við um ummæli í lið 12. Stefnda var stödd á heimili stefnandans B, sem staðsett er í þessu tiltekna hverfi í Reykjavík þegar fréttin var flutt og fyrirvarar voru gerðir um hinn ætlaða verknað.

             Hins vegar verður fallist á það með stefnendum að með því að fara inn á stigagang á heimili stefnandans B og flytja þaðan fréttir af ætluðum brotavettvangi, án þess að rannsókn málanna væri lokið hjá lögreglu og því ekkert ljóst á því stigi málsins hvort grundvöllur væri til útgáfu ákæru, hafi hún rofið friðhelgi einkalífs hans sem varið er með 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að játa verði fjölmiðlum ríkt svigrúm til að flytja fréttir og að þær séu iðulega fluttar af vettvangi sakamála þykir stefnda með þessu hátterni hafa gengið of nærri einkalífi hans og ekki gætt hófs í fréttaflutningi sínum. Þá verður ekki séð að slíkur fréttaflutningur hafi eins og sakir stóðu verið nauðsynlegur þáttur í því að sinna upplýsingaskyldu gagnvart almenningi og geti vart talist hefðbundinn þegar rannsókn kynferðisbrotamála er annars vegar.

             Hvað ummæli í lið nr. 14 snertir „... en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnunum í heimahúsi í Hlíðunum“ þá eru stefndu, Stefáni Rafni Sigurbjörnssyni og Heimi Má Péturssyni, eignuð þau í sameiningu, þar sem frétt sem birtist í Fréttablaðinu 10. nóvember 2015 og innihélt hin umstefndu ummæli er merkt fangamarki þeirra beggja. Fyrir dómi bar stefndi, Heimir Már, að hann hefði ekki skrifað fréttina og bæri því ekki ábyrgð á henni. Eina ástæða þess að fréttin væri merkt honum væri sú að Fréttablaðið nýtti sér stundum fréttir sem fluttar hefðu verið áður á Vísi eða á Bylgjunni sem viðbót við fréttir sem skrifaðar væru í Fréttablaðið. Skýring þess að fangmark hans væri að finna við fréttina væri þannig tenging við frétt sem hann hefði flutt um málið í útvarpi daginn áður. Stefndi kvaðst þó aðspurður ekki hafa gert athugasemd við að fréttin væri merkt honum. Stefndi, Stefán Rafn, bar fyrir dómi að hann hefði skrifað fyrrgreinda frétt og enginn annar hefði komið að ritun hennar. Skýring þess að fréttin væri einnig merkt fangamarki stefnda, Heimis Más, væri sú að samkvæmt vinnureglum réttargæslustefnda, 365 miðla ehf. væru fréttir, sem alfarið byggðu á fréttaflutningi annarra, í til dæmis útvarpi eða sjónvarpi, einnig merktar viðkomandi eins og hér væri tilfellið. Hvað skort á fyrirvörum í fréttinni varðaði bar stefndi, Stefán Rafn, fyrir sig að hann teldi sig hafa sett næga fyrirvara við ritun fréttarinnar almennt.

             Samkvæmt meginreglu a-liðar 1. mgr. 51. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 ber einstaklingur ábyrgð á því efni sem hann ritar í eigin nafni eða merkir sér með augljósum hætti. Ljóst er því að stefndi, Stefán Rafn, sem skrifaði fréttina, ber á henni ábyrgð. Þá þykir stefndi, Heimir Már, jafnframt bera ábyrgð á fréttinni í samræmi við framangreinda meginreglu þar sem hún er einnig merkt honum en stefndi gerði ekki neinar athugasemdir við það. Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að fyrirvarar við hin umstefndu ummæli hafi fallið út vegna mistaka við vinnslu fréttarinnar og að nægir fyrirvarar hafi verið gerðir annars staðar í fréttinni. Líta yrði heildstætt á fréttina hvað það varðaði. Þrátt fyrir að mistök kunni að hafa verið gerð við vinnslu fréttarinnar þykja framangreind ummæli í lið 14 að mati dómsins fela í sér aðdróttun gagnvart stefnendum, en með þeim er fullyrt að þeir hafi gerst sekir um alvarlega refsiverða háttsemi, án þess að tekið sé tillit til þess að rannsókn málsins stóð enn yfir hjá lögreglu og var ekki til lykta leidd. Í ljósi málaloka hjá lögreglu þykir því ekki vera efni til annars en að verða við ómerkingarkröfu stefnenda hvað þessi ummæli varðar, sbr. 235. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

         Að mati dómsins þykja stefnendur eiga rétt á miskabótum samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi allra stefndu vegna hinna ærumeiðandi aðdróttana sem í hinum ómerktu ummælum felast. Þá þykir stefnandi B jafnframt eiga rétt til miskabóta úr hendi stefndu Þórhildar vegna brots gegn friðhelgi einkalífs hans. Við ákvörðun fjárhæðar bótanna er óhjákvæmilegt að líta til þess þunga sem var í fjölmiðlaumfjöllun réttargæslustefnda þar sem stefnendur voru ítrekað bornir þungum sökum, en yfir 30 fréttir voru fluttar af málinu á rúmlega viku. Þá þykir jafnframt sýnt fram á að umfjöllun stefndu hefur haft víðtæk áhrif á stefnendur en í framburði þeirra fyrir dómi kom fram að þeir hefðu hrökklast af landi brott í kjölfarið og flosnað bæði upp úr vinnu og námi. Þrátt fyrir að stefnendur hafi aldrei verið nafngreindir í framangreindri umfjöllun þykja stefndu með framsetningu þeirra ummæla, sem fallist hefur verið á að ómerkja, hvorki hafa sýnt nægjanlega hófsemi né þá ábyrgð sem þeim var skylt og þannig ekki uppfyllt þær kröfur sem gera má til þeirra um vandaðan og hlutlausan fréttaflutning. Þá verður ekki séð að lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu eða upplýsingaréttur almennings hafi krafist þessarar framsetningar þrátt fyrir mikilvægi þess að fjalla almennt um rannsókn sakamála, þ.m.t. kynferðisafbrota, í fjölmiðlum. Að mati dómsins gengu stefndu því með umfjöllun sinni of nærri stefnendum og virtu þannig ekki friðhelgi einkalífs þeirra eins og áskilið er í 26. gr. laga nr. 38/2001 um fjölmiðla, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Með hliðsjón af öllu framangreindu þykja miskabætur til stefnenda hæfilega ákveðnar þannig að stefnda, Nadine Guðrún, greiði hvorum stefnanda um sig, 700.000 krónur, stefndi, Heimir Már, greiði hvorum stefnanda um sig, 50.000 krónur, stefndi, Stefán Rafn, greiði hvorum stefnanda um sig, 50.000 krónur, og stefnda, Þórhildur, greiði stefnanda A, 100.000 krónur, en stefnanda B 200.000 krónur, allt með nánar tilgreindum vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði.

             Stefnendur krefjast þess að lokum að dómur þessi verður birtur samkvæmt 59. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 í viðkomandi fjölmiðlum. Stefndu mótmæla kröfunni ekki sérstaklega en telja ekki lagaskilyrði til þess að kveða á um hvar í viðkomandi fjölmiðlum umfjöllunin eigi að birtast. Samkvæmt framangreindu ákvæði fjölmiðlalaga má ákveða, að viðlögðum dagsektum, eftir kröfu þess sem misgert er við, að forsendur og dómsorð skuli birt þegar um ritmiðil er að ræða eða grein gerð fyrir þeim í dagskrá þegar um hljóð- eða myndmiðil er að ræða. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal, þegar um ritmiðil er að ræða birta dómshlutann með sama hætti og annað efni viðkomandi miðils og á þeim stað að eftir verði tekið og þegar um hljóð- eða myndmiðil er að ræða skal grein gerð fyrir honum á þeim tíma þegar hlustun eða áhorf er mest. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu stefnenda um birtingu að því undanskildu að ekki verður kveðið sérstaklega á um hvernig birtingunni skuli háttað, heldur fer um hana samkvæmt lögum.

             Stefndu greiði stefnanda óskipt málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 900.000 krónur.

             Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

                                                                              D Ó M S O R Ð :

         Eftirfarandi ummæli skulu vera dauð og ómerk:

         Ummæli í kröfuliðum 3 og 19 í stefnu „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“.               Ummæli í kröfuliðum 5, 9, 14 og 20 í stefnu „Samkvæmt heimildum [Frétta]blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisverka“.

         Ummæli í kröfuliðum 8, 13, 18 og 25 í stefnu „Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana“.

         Ummæli í kröfulið 26 í stefnu „Fréttablaðið greindi frá því á mánudag að íbúðin væri búin tækjum og tólum til ofbeldisiðkunar“.

         Ummæli í kröfulið 30 í stefnu „... en í fyrra tilfellinu var annarri þeirra nauðgað af bekkjarbróður hennar en seinni konunni var nauðgað af báðum mönnum í heimahúsi í Hlíðunum“.

         Ummæli í kröfulið 31 í stefnu „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar, sem lögregla gerði upptæk“.

         Að öðru leyti eru stefndu sýknuð af ómerkingarkröfum stefnenda.

         Stefnda, Nadine Guðrún Yaghi, greiði hvorum stefnanda um sig, A og B, 700.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

         Stefndi, Heimir Már Pétursson, greiði hvorum stefnanda um sig, 50.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

         Stefndi, Stefán Rafn Sigurbjörnsson, greiði hvorum stefnanda um sig, 50.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

         Stefnda, Þórhildur Þorkelsdóttir, greiði stefnanda, A, 100.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

         Stefnda, Þórhildur, greiði stefnanda, B, 200.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. nóvember 2015 til 27. maí 2016 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

         Birta skal forsendur og dómsorð dóms þessa eigi síðar en sjö dögum eftir dómsuppsögu í Fréttablaðinu og á vefsvæðinu www.visir.is og gera grein fyrir þeim í útvarpsfréttum Bylgjunnar og sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 að viðlögðum 50.000 króna dagsektum.

Stefndu greiði óskipt stefnendum 900.000 krónur í málskostnað.