Print

Mál nr. 361/2009

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti

Miðvikudaginn 8

 

Miðvikudaginn 8. júlí 2009.

Nr. 361/2009.

Proventus ehf., starfsmannaþjónusta

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Gildi-lífeyrissjóði 

(Karl Ó. Karlsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

Úrskurður héraðsdóms um að bú P yrði tekið til gjaldþrotaskipta var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Hjördís Hákonardóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2009, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

         Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Proventus ehf., starfsmannaþjónusta, greiði varnaraðila, Gildi-lífeyrissjóði, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2009.

                Með beiðni dags. 16. mars 2009 krafðist sóknaraðili, Gildi lífeyrissjóður, kt. 561195-2779, þess að bú varnaraðila, Proventus ehf., starfsmannaþjónustu, kt. 620207-1010, Hrísateigi 17, Reykjavík, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. 

                Varnaraðili krefst þess að kröfu um gjaldþrotaskipti verði hafnað.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

                Í beiðni sóknaraðila kemur fram að hann telur varnaraðila skulda sér samtals 42.066.014 krónur.  Vísar hann til þess að gert hafi verið fjárnám hjá varnaraðila þann 6. mars 2009.  Gerðin hafi reynst árangurslaus.  Vísað er til 65. gr. laga nr. 21/1991. 

                Varnaraðili lagði fram mótmælabréf, sem líta verður á sem greinargerð.  Þar er því lýst að aðfarargerð sú sem sóknaraðili vísi til sé með öllu röng og geti ekki orðið grundvöllur gjaldþrotabeiðni.  Segir varnaraðili að gerðin hafi að öllu leyti verið spunnin upp af starfsmönnum sýslumanns og lögmanni sóknaraðila.  Sá sem skráður sé mættur af hálfu varnaraðila hafi ekki verið viðstaddur.  Það sem bókað sé eins og það hafi verið haft eftir þessum aðila sé ekki frá honum komið. 

                Varnaraðili segir að gerðin hafi ekki farið fram á svokölluðu lögheimili sínu. 

                Varnaraðili segir að sá sem sagður er mættur af sinni hálfu sitji ekki lengur í stjórn félagsins.  Hann hafi því ekki haft neitt umboð til að gefa yfirlýsingar um stöðu þess. 

                Varnaraðili lagði fram afrit af bréfi Sverris Einars Eiríkssonar til Lögreglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu.  Þar kærir hann sýslumanninn í Reykjavík og tvo starfsmenn hans fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. 

                Í munnlegum málflutningi benti varnaraðili að auki á það að gerðin gæfi ekki glögga mynd af fjárhag félagsins.  Þar væri fyrrverandi stjórnarmaður sagður mættur og yfirlýsing hans hafi miðað við hvernig fjárhag félagsins hefði verið komið löngu áður en gerðin fór fram. 

                Við munnlegan málflutning mótmælti sóknaraðili sjónarmiðum varnaraðila.  Hann vísaði jafnframt til þess að stjórnarformaður félagsins væri erlendur ríkisborgari sem hefði óþekkt heimilisfang í Póllandi.  Taldi hann að hann hefði flúið land vegna skulda og vísaði til 1. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.  Mótmælti varnaraðili þessari tilvísun sem of seint fram kominni. 

                Forsendur og niðurstaða

                Í gjaldþrotabeiðni er vitnað til 65. gr. laga nr. 21/1991, án þess að getið sé hvort byggt sé á 1. eða 2. mgr., og þá hvaða tölulið 2. mgr. ef hún ætti við.  Í rök­stuðningi kemur ekkert fram, en þó er vitnað til endurrits fjárnámsgerðar frá 6. mars 2009 sem heimildarskjals.  Verður að skilja beiðnina svo að byggt sé á 1. tl. 2. mgr. 65. gr.  Ekkert kemur hins vegar fram sem vísað getur til reglu 1. mgr. 65. gr. eða annarra töluliða 2. mgr. 

                Sóknaraðili lagði fram staðfest endurrit umræddrar fjárnámsgerðar.  Varnar­aðili hefur ekki freistað þess að fá hnekkt þessu skjali, en það verður ekki gert með afriti af kærubréfi einu saman.  Verður að leggja til grundvallar úrskurði að endurritið hafi að geyma rétta frásögn af því er fram fór við gerðina. 

                Við gerðina var bókað svo: 

                „Á lögheimili gerðarþola hittist fyrir Sverrir Eiríksson sem er fyrrverandi stjórnarmaður félagsins og fer gerðin þar fram.  Fyrirsvarsmanni gerðarþola er tjáð að leitað sé til hans þar sem núverandi stjórnarmaður gerðarþola sé pólskur og sé skráður með lögheimili í Póllandi.  …  Fyrrverandi fyrirsvarsmaður gerðarþola segir gerðar­þola engar eignir hafa átt þegar hann var stjórnarmaður …“  Gerðinni var síðan lokið sem árangurslausri. 

                Samkvæmt vottorði um skráningu varnaraðila í hlutafélagaskrá er Slawomir Hallan Kondonikolau, kt. 130378-3159, til heimilis í Póllandi, einn í stjórn félagsins.  Það hefur ekki framkvæmdastjóra, en nefndur Sverrir Einar hefur prókúruumboð.  Þessi skipan var ákveðin á fundi 15. september 2008.  Sóknaraðili lagði fram eldra vottorð um skráningu varnaraðila.  Þar kemur fram að á fundi 30. ágúst 2007 hafi Sverrir Einar verið kjörinn formaður stjórnar. 

                Sverrir Einar sat ekki í stjórn þegar umrædd gerð fór fram.  Hann virðist hins vegar kunnugur rekstri félagsins og hefur enn prókúru.  Varnaraðili hefur ekki freistað þess að sýna fram á að hann eigi í raun eignir er duga myndu til lúkningar skuldum hans við sóknaraðila.  Verður að telja að með umræddri gerð sé fram komin næg vísbending um ógjaldfærni varnaraðila.  Verður að telja að skilyrðum 1. tl. 2. mg. 65. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt og verður bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Bú varnaraðila, Proventus ehf., starfsmannaþjónustu, kt. 620207-1010, er tekið til gjaldþrotaskipta.