Print

Mál nr. 195/2001

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Greiðslustöðvun
  • Aðild
  • Aðilaskipti
  • Hópuppsagnir
  • Evrópska efnahagssvæðið

Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. nóvember 2001.

Nr. 195/2001.

Kaupfélag Þingeyinga

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

gegn

Margréti Björnsdóttur

(Ástráður Haraldsson hrl.)

                                                   

Ráðningarsamningur. Uppsögn. Greiðslustöðvun. Aðild. Aðildaskipti að fyrirtækjum. Hópuppsagnir. Evrópska efnahagssvæðið.

 

K fékk heimild til greiðslustöðvunar 21. maí 1999 vegna greiðsluerfiðleika. Tíu dögum síðar var M sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Með kaupsamningi 27. júlí 1999 keypti H hf. tiltekinn hluta starfsemi K og tók við rekstrinum 1. september sama ár. M, sem ekki fékk endurráðningu hjá H hf., taldi K hafa brotið gegn lögvörðum rétti hennar með ólögmætri uppsögn. Ekkert lá fyrir um að skylda til að standa reikningsskap þeirrar gerðar hefði færst yfir á H og var hafnað kröfu K um sýknu á grundvelli aðildarskorts. Með hliðsjón af atvikum málsins var ekki talið, að lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 77/1993 hefðu staðið í vegi uppsagna starfsmanna K 31. maí 1999, sem voru til komnar af brýnum efnahagslegum ástæðum, sbr. einkum 2. málslið 1. mgr. 3. gr. laganna. Þegar litið var á aðstæður í heild og þá óvissu sem ríkti á þessum tíma um framtíð starfsemi K, var ekki talið, að framferði K gagnvart starfsmönnum, sem ekki var í fullu samræmi við fyrirmæli þágildandi laga um hópuppsagnir nr. 95/1992, ætti að leiða til þess, að uppsögn M yrði metin ólögmæt. Var K því sýknað af kröfu M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt ódagsett bréf sitt til Svæðisvinnumiðlunar Norðurlands eystra, Vinnumálastofnunar og Verslunarmannafélags Húsavíkur ásamt listum með nöfnum þeirra starfsmanna, sem sagt var upp störfum hjá félaginu 31. maí 1999. Í bréfinu sagði, að uppsagnirnar hefðu verið ráðnar, þar sem komin væri á greiðslustöðvun og sýnt væri, að starfsemin yrði endurskipulögð og kæmist að verulegu leyti í hendur annarra rekstraraðila. Þessi gögn voru send með símbréfi hinn 28. júlí 1999.

Stefnda hefur einnig lagt ný gögn fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra eru bréfaskipti Ágústs Óskarssonar formanns Verslunarmannafélags Húsavíkur og Ásgeirs Guðmundssonar í júlí 2001, þar sem sá síðarnefndi staðfestir, að hann hafi afhent áfrýjanda 1. júní 1999 kauptilboð í K.Þ. Smiðju eftir viðræður við stjórnarmenn áfrýjanda og forsvarsmenn Landsbanka Íslands hf. dagana á undan. Jafnframt hafi hann á þessum tíma haft vitneskju um, að Húsasmiðjan hf. hafi auk annarra sýnt kaupum á K.Þ. Smiðju áhuga.

II.

Atvikum málsins og málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram fékk áfrýjandi heimild til greiðslustöðvunar 21. maí 1999 vegna greiðsluerfiðleika. Tíu dögum síðar var stefndu sagt upp störfum með þriggja mánaða uppsagnarfresti ásamt öllum starfsmönnum félagsins. Þar sem hún tók áunnið orlof á þessu skeiði lét hún ekki af störfum fyrr en 10. september 1999 að beiðni áfrýjanda og hefur fengið greidd laun í uppsagnarfresti.

Með kaupsamningi 27. júlí 1999 keypti Húsasmiðjan hf. rekstur og allar vörubirgðir K.Þ. Smiðju af áfrýjanda og tók við rekstrinum 1. september sama ár. Í 6. gr. samningsins kom fram, að kaupandi myndi bjóða öllum starfsmönnum yfirtekinnar starfsemi áfrýjanda forgang að störfum við þá starfsemi, sem rekin yrði á hans vegum í Smiðjunni. Áfrýjandi var önnur tveggja starfsmanna áfrýjanda, sem ekki fengu endurráðningu hjá Húsasmiðjunni hf. Engra gagna nýtur í málinu um það, hvernig þeim verkefnum, sem stefnda hafði fengist við á skrifstofu, var fyrir komið í höndum hins nýja eiganda, en í málflutningi fyrir Hæstarétti kvað lögmaður áfrýjanda þeim sinnt í starfsstöð Húsasmiðjunnar hf. á Akureyri eða í Reykjavík.

III.

Dómkrafa stefndu er á því reist, að áfrýjandi hafi brotið gegn lögvörðum rétti hennar með ólögmætri uppsögn. Ekkert liggur fyrir um það, að skylda til að standa reikningsskap þeirrar gerðar hafi færst yfir til Húsasmiðjunnar hf. við kaup félagsins á rekstri og vörubirgðum áfrýjanda. Verður ekki fallist á sýknukröfu áfrýjanda á grundvelli aðildarskorts.

IV.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 77/1993 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gilda þau um aðilaskipti eða samruna fyrirtækja, atvinnurekstrar eða hluta atvinnurekstrar á hinu Evrópska efnahagssvæði að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heyrir undir íslenska lögsögu. Lögin gilda þó ekki, þegar bú fyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta, og heldur ekki um haffær skip. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er sagt, að aðilaskipti, sbr. 1. gr., geti ein sér ekki verið ástæða fyrir uppsögn starfsmanna af hálfu atvinnurekanda, hvorki fyrir né eftir aðilaskipti. Ákvæði þetta komi þó ekki í veg fyrir uppsagnir starfsmanna af efnahagslegum, tæknilegum eða skipulagslegum ástæðum, sem hafi í för með sér breytingar á starfsmannahaldi. Þessi lög voru sett með hliðsjón af lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið í því skyni að lögfesta reglur, sem fram koma í tilskipun ráðsins nr. 77/187/EBE.

Af gögnum málsins er ljóst, að rekstrarerfiðleikar áfrýjanda vorið 1999 hafi átt sér nokkurn aðdraganda en þá hafi hins vegar stefnt í þrot. Við blasir, að óhjákvæmilegt hafi verið að selja eignir og rekstur áfrýjanda í ríkum mæli og gera verður ráð fyrir, að ýmsar hugmyndir í þessum efnum hafi verið til umræðu, bæði innan félagsins og utan, en málefni þess voru mjög til umræðu í fjölmiðlum. Við þessar aðstæður var öllu starfsfólki sagt upp störfum 31. maí 1999 með lögboðnum uppsagnarfresti. Þann dag héldu forráðamenn áfrýjanda fund með starfsmönnum og kynntu þeim stöðu mála. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að telja ósannað, að á þessum fundi hafi verið gerð grein fyrir formlegum tilboðum í rekstur og eignir kaupfélagsins. Verður ekki séð, að nokkur vissa hafi verið fyrir því í lok maí 1999, að starfsemi félagsins yrði haldið áfram, þótt eignir yrðu seldar, né hvernig henni yrði þá hagað. Á þessum tíma lá því ekki fyrir með óyggjandi hætti, að til aðilaskipta kæmi að rekstri áfrýjanda á þann veg, að starfsmenn mættu vænta áframhaldandi ráðningar. Að þessu virtu verður ekki talið, að lög nr. 77/1993 hafi staðið í vegi uppsagna starfsmanna áfrýjanda 31. maí 1999, sem voru til komnar af brýnum efnahagslegum ástæðum, sbr. einkum 2. málslið 1. mgr. 3. gr. laganna.

V.

Þágildandi lög nr. 95/1992 um hópuppsagnir áttu við um framangreindar uppsagnir, enda verður c. lið 1. mgr. 5. gr. þeirra um starfslok, þegar starfsemi fyrirtækis stöðvast vegna dómsúrskurðar, ekki beitt með lögjöfnun í þessu tilviki, sem ekki verður öldungis jafnað til slíkrar aðstöðu. Í 2. og 3. gr. laganna er mælt fyrir um samráð við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna um fyrirhugaðar hópuppsagnir og skriflega tilkynningu um þær til stjórnar vinnumiðlunar í umdæminu, sbr. nú 5.-7. gr. laga nr. 63/2000 um hópuppsagnir. Með nýjum gögnum fyrir Hæstarétti hefur verið sýnt fram á, að tilkynning samkvæmt 3. gr. eldri laganna var ekki send fyrr en 28. júlí 1999 eða tveimur mánuðum eftir uppsagnirnar. Þá liggur ekkert fyrir um það, að formlegt samráð hafi verið haft við umboðsmann starfsmanna fyrir fundinn 31. maí 1999, þar sem uppsagnir voru kynntar. Hins vegar er þess að gæta, að Ágúst Óskarsson, sem bæði var formaður Verslunarmannafélags Húsavíkur og starfsmaður á skrifstofu stéttarfélaganna, sýnist hafa fylgst náið með framvindu mála hjá áfrýjanda vorið 1999 og haft þá vitneskju, sem skipt gat máli um hagsmuni starfsmanna. Hann sat jafnframt fundinn 31. maí fyrir þeirra hönd að beiðni trúnaðarmanns. Þegar litið er á aðstæður í heild og þá óvissu, sem ríkti á þessum tíma um framtíð starfsemi áfrýjanda, verður ekki talið, að framferði hans gagnvart starfsmönnum að þessu leyti, sem ekki var í fullu samræmi við fyrirmæli laga nr. 95/1992 um samráð og tilkynningarskyldu, eigi að leiða til þess, að uppsögn stefndu verði metin ólögmæt.

VI.

Samkvæmt öllu framansögðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu. Með hliðsjón af framvindu mála við uppsögnina verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn falla niður.

                                                    Dómsorð:

Áfrýjandi, Kaupfélag Þingeyinga, er sýkn af kröfu stefndu, Margrétar Björnsdóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 8. desember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 10. nóvember s.l., hefur Margrét Björnsdóttir, kt. 051063-2609, Hjarðarbóli 4, Húsavík, höfðað hér fyrir dómi gegn Kaupfélagi Þingeyinga, kt. 680169-2099, Garðarsbraut 5, Húsavík, og Húsasmiðjunni hf., kt. 520171-0299, Súðavogi 3-5, Reykjavík, með stefnu birtri þann 17. febrúar 2000.

Stefnandi gerir  þær dómkröfur, að stefndu verði in solidum dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 217.425,- með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25, 1987, frá 10. september 1999 til greiðsludags.  Krefst stefnandi þess jafnframt, að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 10. september 2000.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum.

Stefndu gera þær dómkröfur, að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda í málinu.  Þá krefjast stefndu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, stefnda Kaupfélag Þingeyinga samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, en stefnda Húsasmiðjan hf. að mati dómsins

Málsatvik samkvæmt gögnum málsins eru þau, að stefnandi starfaði hjá stefnda Kaupfélagi Þingeyinga við skrifstofustörf í K.Þ. Smiðju.  Vorið 1999 komst stefnda Kaupfélag Þingeyinga í greiðsluþrot og gjaldþrot vofði yfir.  Á aðalfundi félagsins þann 18. maí 1999 var ákveðið að leita eftir heimild til greiðslustöðvunar sem fékkst þann 21. maí 1999.  Þann 31. maí 1999 var stefnanda ásamt öðrum starfsmönnum K.Þ. Smiðju sagt upp störfum.  Um sumarið hófust viðræður við ýmsa aðila, þ. á m. stefnda Húsasmiðjuna hf., um kaup á rekstri K.Þ. Smiðju og var kaupsamningur á milli stefndu, Húsasmiðjunnar hf. og Kaupfélags Þingeyinga, undirritaður þann 27. júlí 1999.  Hinn 1. september 1999 tók stefndi Húsasmiðjan hf. síðan við rekstri K.Þ. Smiðju. 

Stefnandi lét af störfum hjá stefnda Kaupfélagi Þingeyinga þann 10. september 1999.  Við launauppgjör fékk stefnandi greidd laun fyrir vinnu til 10. september 1999 og uppgjör á orlofsgreiðslum.  Stefnandi leitaði fulltingis Verkalýðsfélags Húsavíkur vegna meintra vangreiddra launa á uppsagnarfresti og var stefnda Kaupfélagi Þingeyinga sent bréf dags. 16. nóvember 1999 þar sem óskað var leiðréttingar á launum stefnanda.  Innheimtutilraunir reyndust árangurslausar og sendi lögmaður stefnanda því báðum stefndu bréf þann 3. janúar 2000.  Þær innheimtutilraunir reyndust árangurslausar og höfðaði stefnandi því mál þetta.

Stefnandi kveðst byggja málatilbúnað sinn á því, að ekki hafi verið farið að lögum nr. 77, 1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum þegar stefnda Kaupfélag Þingeyinga sagði stefnanda upp þann 31. maí 1999.  Samkvæmt 3. gr. ofangreindra laga geti aðilaskipti ekki ein og sér verið ástæða fyrir uppsögn af hálfu atvinnurekanda, hvorki fyrir né eftir aðilaskipti.  Verði að telja að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 95, 1992, um hópuppsagnir með uppsögn starfsmanna þann 31. maí 1999.  Samkvæmt 2. gr. laga nr. 77, 1993, taki nýr atvinnurekandi við öllum réttindum og skyldum sem fyrri atvinnurekandi hafi borið gagnvart starfsmönnum að því er snerti m.a. áunnin réttindi og starfsskilyrði á þeim degi sem aðilaskiptin verði.  Sé því ljóst, að stefndi Kaupfélag Þingeyinga hafi með ólögmætri uppsögn sinni brotið gegn réttindum stefnanda og rétti hans til launa á uppsagnarfresti.

Með lögum nr. 77, 1993, hafi verið lögfestar reglur sem settar séu fram í tilskipun Evrópubandalagsins nr. 77/187/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar.  Lögin séu sett með vísan til 8. gr. tilskipunarinnar og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.  Um gildissvið samningsins hafi EFTA-dómstóllinn gefið leiðbeinandi álitsgerð í máli nr. E-3/96 Tor Angeir Aks and Others and ABB Offshore Technology AS and Aker Offshore Partner AS.  Ljóst sé af ofangreindri álitsgerð, að í samningi stefndu vorið 1999 hafi falist aðilaskipti, sem falli undir gildissvið laga nr. 77, 1993.  Verði því að telja, að réttarstaða stefnanda hafi flust yfir til stefnda Húsasmiðjunnar hf. á þeim degi sem aðilaskiptin hafi orðið eða 1. september 1999 og beri henni því þriggja mánaða uppsagnarfrestur frá þeim degi að telja.

Stefnandi kveðst reisa málatilbúnað sinn á ákvæðum laga nr. 95, 1992, og laga nr. 77, 1993.  Um greiðsluskyldu stefndu vísist til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til að efna samninga auk laga nr. 30, 1987 um orlof.  Þá styðji stefnandi kröfu sína við lög nr. 55, 1980, lög nr. 19, 1979 og lög nr. 80, 1938.  Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjist við III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987.

Kröfu um málskostnað kveðst stefnandi styðja við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991.  Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðjist við lög nr. 50, 1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefndu.

Stefnda Kaupfélag Þingeyinga kveðst í fyrsta lagi byggja kröfu um sýknu á því, að félagið sé ekki réttur aðili málsins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91, 1991.  Stefnda Kaupfélag Þingeyinga hafi sagt stefnanda upp þann 31. maí 1999 með þriggja mánaða uppsagnarfresti eins og áskilið hafi verið í ráðningar- og kjarasamningum starfsfólks og greitt henni laun meðan á uppsagnarfresti stóð.  Þann 1. september 1999 hafi nýr aðili tekið við rekstrinum, en þá hafi stefnda Kaupfélag Þingeyinga þegar fullnægt skyldum sínum sem atvinnurekandi.  Kröfu stefnanda um solidaríska ábyrgð síðari og fyrrverandi rekstraraðila sé harðlega mótmælt sem órökstuddri.  Krafa um framlengingu samningsbundins uppsagnarfrests úr þremur mánuðum í sex mánuði sé verulega íþyngjandi fyrir atvinnurekanda.  Verði því ótvíræð lagaheimild að vera fyrir hendi samkvæmt meginreglum íslensks réttarfars,  en stefnandi hafi ekki sannað að svo sé.

Kveðst stefnda Kaupfélag Þingeyinga í annan stað byggja sýknukröfu á því, að uppsögn stefnanda hafi ekki verið í neinum tengslum við kaup Húsasmiðjunnar hf. á K.Þ. Smiðju, heldur hafi stefnanda verið sagt upp vegna greiðsluþrots kaupfélagsins og óljósra framtíðarhorfa.  Þegar stefnanda hafi verið sagt upp störfum hafi ekkert legið fyrir um að rekstur K.Þ. Smiðju yrði seldur öðrum.  Lög nr. 77, 1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti eigi því ekki við í málinu.  Aukin heldur skuli samkvæmt 2. gr. laganna miða við réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi þann dag sem aðilaskipti verði, en þann 1. september 1999 hafi stefnandi verið búinn að ljúka vinnuskyldu sinni samkvæmt samningsbundnum uppsagnarfresti.

Verði ekki fallist á að lög nr. 77, 1993, eigi ekki við, þá kveðst stefnda Kaupfélag Þingeyinga benda á seinni málslið 3. gr. sömu laga, sem kveði á um heimild til uppsagna vegna m.a. efnahagslegra ástæðna þrátt fyrir aðilaskipti.  En eins og að ofan sé rakið hafi greiðsluerfiðleikar og greiðsluþrot stefnda Kaupfélags Þingeyinga verið ástæður uppsagnarinnar en ekki aðilaskiptin.

Stefnda Kaupfélag Þingeyinga  kveðst jafnframt telja, að tilvísun stefnanda til laga nr. 95, 1992, um hópuppsagnir, eigi ekki við rök að styðjast í málinu.  Miðað við tilgang og eðli laganna þá eigi þau við um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar innan fyrirtækis, en ekki neyðarráðstafanir vegna hugsanlegrar rekstrarstöðvunar eins og háttað hafi til hjá stefnda Kaupfélagi Þingeyinga, sbr. einnig c-lið 5. gr. laga nr. 95, 1992.

Jafnvel þótt talið yrði að lög nr. 95, 1992, giltu í umþrættu tilviki þá mótmæli stefnda Kaupfélag Þingeyinga því, að félagið hafi brotið gegn ákvæðum þeirra laga, enda komi ekkert fram í stefnu hvaða brot sé um að ræða.  Sé því ekki unnt að byggja á slíkri málsástæðu.  Auk þess telji stefnda, að þar sem lög um hópuppsagnir kveði á um hagsmuni hóps samkvæmt orðanna hljóðan þá sé samaðild skilyrði málshöfðunar af þessu tagi.

Stefnda Kaupfélag Þingeyinga kveður, að stefnanda hafi verið sagt upp með löglegum uppsagnarfresti og á fyllilega lögmætan hátt, enda hafi stefnandi ekki sannað, að um ólögmæta uppsögn hafi verið að ræða.

Uppsögn stefnanda verði að teljast eðlileg í ljósi þeirrar stöðu er blasað hafi við stefnda Kaupfélagi Þingeyinga vorið 1999, en það hafi hvorki haft fjárhagslega burði né möguleika til að halda starfseminni gangandi í óbreyttri mynd.  Áður tilvitnuð lög nr. 95, 1992, og 77, 1993, hafi verið sett til að uppfylla reglur á hinu evrópska efnahagssvæði og til að vernda starfsmenn gegn m.a. órökstuddum uppsögnum, en ekki til að hindra atvinnurekendur í að leita leiða til að koma í veg fyrir gjaldþrot og reyna að takmarka tjón fyrirtækis eftir megni, sbr. tilvísun laganna og greinargerðar í undanþágureglur vegna gjaldþrotaskipta svo og ákvæða tilskipunar EB nr. 187/1977, 4. gr. a eins og henni hafi verið breytt með tilskipun nr. 50, 1998.

Kveðst stefnda Kaupfélag Þingeyinga styðja sýknukröfu sína við meginreglur vinnuréttarins.  Jafnframt vísi félagið til laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, sérstaklega 2. mgr. 16. gr. þeirra og 18. gr.  Þá styðjist málskostnaðarkrafa við XXI. kafla laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr.

Stefnda Húsasmiðjan hf. kveðst í fyrsta lagi byggja kröfu um sýknu á því, að félagið sé ekki réttur aðili málsins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91, 1991.  Stefnda Húsasmiðjan hf. hafi aldrei gert ráðningarsamning við stefnanda og hafi því ekkert ráðningarsamband stofnast.

Kveðst stefnda Húsasmiðjan hf. hafa keypt rekstur KÞ Smiðju með kaupsamningi dags. 27. júlí 1999.  Í 6. gr. samningsins segi:  „Kaupandi (Húsasmiðjan hf.) mun bjóða öllum starfsmönnum seljanda, sem nú eru í starfi við þá starfsemi sem er yfirtekin af kaupanda forgang að starfi við þá starfsemi, sem rekin verður á hans vegum í Smiðjunni.“.   Hafi stefnda Húsasmiðjan hf. gert nýja ráðningarsamninga við þá aðila sem ráðnir hafi verið til starfa hjá félaginu eftir að reksturinn hafði verið afhentur.  Ekki hafi verið gerður ráðningarsamningur við stefnanda og hafi því ekkert samningssamband stofnast milli umræddra aðila fyrr eða síðar.

Stefnda Húsasmiðjan hf. kveðst einnig byggja sýknukröfu sína á því, að uppsögn stefnanda hafi ekki verið í neinum tengslum við kaup stefnda Húsasmiðjunnar hf. á K.Þ. Smiðju, heldur hafi stefnanda verið sagt upp vegna greiðsluþrots kaupfélagsins og óljósra framtíðarhorfa.  Þegar stefnanda hafi verið sagt upp störfum hafi ekkert legið fyrir um að rekstur K.Þ. Smiðju yrði seldur öðrum.  Lög nr. 77, 1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti eigi því ekki við í málinu og sé greindri málsástæðu stefnanda því mótmælt sem rangri og ósannaðri.

Kveður stefnda Húsasmiðjan hf. að fram komi í 3. gr. laga nr. 77, 1993, að lögin nái ekki til uppsagna vegna efnahagslegra ástæðna, þrátt fyrir að aðilaskipti eigi sér stað.  Engin aðilaskipti hafi átt sér stað í málinu, auk þess sem greiðsluerfiðleikar og greiðsluþrot stefnda Kaupfélags Þingeyinga hafi legið að baki sem ástæður uppsagnarinnar, en ekki aðilaskipti.

Stefnda Húsasmiðjan hf. kveðst telja, að tilvísun stefnanda til laga nr. 95, 1992, um hópuppsagnir eigi ekki við rök að styðjast í málinu.  Miðað við tilgang og eðli laganna þá eigi þau við um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar innan fyrirtækis, en ekki neyðarráðstafanir vegna hugsanlegrar rekstrarstöðvunar eins og háttað hafi hjá stefndu, sbr. einnig c-lið 5. gr. laga nr. 95, 1992.

Þá hafi stefnanda verið sagt upp með löglegum uppsagnarfresti og á fyllilegan lögmætan hátt.

Kveðst stefnda Húsasmiðjan hf. einnig byggja á því, að uppsögn stefnanda af hendi stefnda Kaupfélags Þingeyinga verði að teljast eðlileg í ljósi þeirrar stöðu er blasað hafi við kaupfélaginu vorið 1999 og að engin heimild eða lagastoð sé fyrir því, að stefna stefnda Húsasmiðjunni hf. til greiðslu bóta vegna ólögmætrar uppsagnar.

Stefnda Húsasmiðjan hf. kveður lög nr. 95, 1992, og 77, 1993, hafa verið sett til að uppfylla reglur á hinu  evrópska efnahagssvæði og sé tilgangur þeirra að vernda starfsmenn þegar um samruna sé að ræða á viðskiptalegum grunni, en mjög sé orðið algengt að samruni verði á milli fyrirtækja.  Sé því tilgangur laganna að vernda launþega undir þeim kringumstæðum þannig að þeir haldi áunnum réttindum, sem þeir hafi áunnið sér hjá atvinnurekanda.  Atvinnurekendur geti þannig ekki nauðbeygt launþega til að afsala sér áunnum réttindum eða vera sagt upp ella.  Slíkt sem hér um ræði eigi engan vegin við í tilviki stefnanda.

Um lagarök kveðst stefnda Húsasmiðjan hf. aðallega vísa til laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, sérstaklega 2. mgr. 16. gr. þeirra, og meginreglna vinnuréttarins.  Málskostnaðarkröfu styðji stefnda Húsasmiðjan hf. við XXI. kafla laga nr. 91, 1991, um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr.

Skýrslur fyrir dómi gáfu, Sigrún Marinósdóttir fyrrverandi starfsmaður í K.Þ. Smiðju, Ágúst Sigurður Óskarsson formaður Verslunarmannafélags Húsavíkur, Gísli Baldur Garðarsson hæstaréttarlögmaður, Jón Snorrason stjórnarformaður stefnda Húsasmiðjunnar hf., Þorgeir Hlöðversson fyrrverandi kaupfélagsstjóri stefnda Kaupfélags Þingeyinga, Axel Aðalgeirsson fyrrverandi deildarstjóri K.Þ. Smiðju, Halldóra Jónsdóttir fyrrverandi stjórnarformaður stefnda Kaupfélags Þingeyinga og Trausti Aðalsteinsson fyrrverandi starfsmaður kornvörudeildar Kaupfélags Þingeyinga.

Fyrir liggur að vorið 1999 komst stefnda Kaupfélag Þingeyinga í greiðsluþrot og leitaði kaupfélagið í kjölfarið eftir heimild til greiðslustöðvunar, sem fékkst þann 21. maí s.á.  Öllum starfsmönnum K.Þ. Smiðju var síðan sagt upp störfum frá og með 31. s.m.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 77, 1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, gilda lögin um aðilaskipti eða samruna fyrirtækja, atvinnurekstrar eða hluta atvinnurekstrar á hinu Evrópska efnahagssvæði að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heyrir undir íslenska lögsögu. 

Gísli Baldur Garðarsson hæstaréttarlögmaður, sem ráðinn var aðstoðarmaður stefnda Kaupfélags Þingeyinga meðan á greiðslustöðvun stóð, sbr. 10. gr. laga nr. 21, 1991, um gjaldþrotaskipti ofl., bar fyrir dómi, að uppsagnir starfsmanna K.Þ. Smiðju hafi komið til vegna efnahagslegs ástands félagsins.  Þá bar Gísli Baldur einnig, að þann 31. maí 1999 hafi ekki verið komið fram neitt tilboð frá stefnda Húsasmiðjunni hf. í eigur kaupfélagsins, einungis hafi verið komnar fram hugmyndir frá heimamönnum á Húsavík um kaup á K.Þ. Smiðju, en ekki hafi legið fyrir raunhæft tilboð.

Jón Snorrason, Axel Aðalgeirsson og Halldóra Jónsdóttir báru fyrir dómi, líkt og Gísli Baldur Garðarsson, að þann 31. maí 1999 hafi ekki legið fyrir tilboð frá stefnda Húsasmiðjunni hf. í eignir stefnda Kaupfélags Þingeyinga.  Bar Jón Snorrason jafnframt, að viðræður milli stefndu um hugsanleg kaup stefnda Húsasmiðjunnar hf., hafi ekki hafist fyrr en um miðjan júlí 1999.

Þykir mega slá því föstu, með vísan til framburðar ofangreindra aðila, að þann 31. maí 1999, hafi ekkert legið fyrir um framtíð þess rekstrar, sem stefnda Kaupfélag Þingeyinga hafði staðið fyrir í K.Þ. Smiðju.  Er það því álit dómsins, að uppsögn stefnanda hafi ekki staðið í tengslum við aðilaskipti að rekstri K.Þ. Smiðju, heldur hafi hún verið tilkomin vegna rekstrarerfiðleika stefnda Kaupfélags Þingeyinga og óvissu um framtíð rekstrarins.  Lög nr. 77, 1993, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eiga því að mati dómsins ekki við í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 95, 1992, um hópuppsagnir, skal atvinnurekandi, áformi hann uppsagnir skv. 1. gr. laganna, þ.e. hópuppsagnir, hafa samráð við trúnaðarmann starfsmanna eða annan fulltrúa sem þeir hafa til þess valið svo fljótt sem auðið er með það fyrir augum að ná samkomulagi.  Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna skal atvinnurekandi, áformi hann hópuppsagnir starfsmanna að höfðu samráði skv. 2. gr., tilkynna skriflega þær uppsagnir sem fyrirhugaðar eru til stjórnar vinnumiðlunar í umdæminu.

Á fundi 31. maí 1999, en á fundinum fékk stefnandi uppsagnarbréf í hendur, var staddur Ágúst Sigurður Óskarsson, formaður Verslunarmannafélags Húsavíkur og starfsmaður á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.  Fyrir dómi kvaðst Ágúst Sigurður hafa verið staddur á fundinum að ósk trúnaðarmanns hlutaðeigandi starfsfólks stefnda Kaupfélags Þingeyinga.  Bar hann jafnframt, að hann hafi á fundinum komið þeirri skoðun sinni á framfæri við stjórnendur stefnda Kaupfélags Þingeyinga, að hann teldi uppsagnir starfsfólksins ólögmætar, m.a. þar sem ekki hefði verið gætt ákvæða laga nr. 95, 1992, um hópuppsagnir, er kvæðu á um samráð.  Þá kvað Ágúst Sigurður aðspurður, að Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra hafi á umræddum tíma haft svokallaða skráningarstöð á skrifstofum verkalýðsfélaganna á Húsavík.

Ekkert hefur komið fram í málinu þess efnis, að stefnda Kaupfélag Þingeyinga hafi ritað bréf til vinnumiðlunar í umdæminu og tilkynnt um umræddar uppsagnir, en slíkt var þeim skylt, sbr. 3. gr. laga nr. 95, 1992.  Viðveru Ágústs Sigurðar Óskarssonar á áðurnefndum fundi verður ekki með nokkru móti jafnað til tilkynningar samkvæmt 3. gr. laga nr. 95, 1992, enda eru í lögunum skýr ákvæði um form og efni slíkrar tilkynningar.  Er því að mati dómsins ljóst, að stefnda Kaupfélag Þingeyinga gætti ekki framangreindra ákvæða 3. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 95, 1992, er það sagði stefnanda og samstarfsfólki hennar upp störfum þann 31. maí 1999.  Uppsögn stefnanda var því ólögmæt og ber stefnda Kaupfélagi Þingeyinga að greiða bætur vegna hennar.

Stefnda Húsasmiðjan hf. átti ekki aðild að hinni ólögmætu uppsögn og hefur ekki verið sýnt fram á, að félagið hafi síðar tekið á sig ábyrgð á uppsögninni.  Þykir þegar af þeirri aðstæðu verða að sýkna stefnda Húsasmiðjuna hf. af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Þykja bætur til handa stefnanda úr hendi stefnda, Kaupfélags Þingeyinga, vegna hinnar ólögmætu uppsagnar, hæfilega ákvarðaðar í kröfu stefnanda, kr. 217.425,-, enda hefur krafa hennar ekki sætt tölulegum mótmælum.  Dæmist stefnda Kaupfélag Þingeyinga því til að greiða stefnanda greinda fjárhæð ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 10. september 1999 til greiðsludags og leggist dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 10. september 2000.

Rétt þykir, að málskostnaður falli niður milli stefnanda og stefnda Húsasmiðjunnar hf., en stefnda Kaupfélag Þingeyinga greiði stefnanda, með vísan til úrslita málsins, kr. 125.000,- í málskostnað og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Kaupfélag Þingeyinga, greiði stefnanda, Margréti Björnsdóttur, kr. 217.425,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 10. september 1999 til greiðsludags og leggist dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 10. september 2000.

Stefnda, Húsasmiðjan hf., skal sýkn af öllum kröfum stefnanda.

Stefnda, Kaupfélag Þingeyinga, greiði stefnanda kr. 125.000,- í málskostnað.