Print

Mál nr. 309/2002

Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Sjúkrahús
  • Vinnuslys
  • Húsbóndaábyrgð
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. janúar 2003.

Nr. 309/2002.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

gegn

dánarbúi Steinunnar Hafdísar Pétursdóttur

(Garðar Briem hrl.)

 

Skaðabætur. Örorka. Sjúkrahús. Vinnuslys. Húsbóndaábyrgð. Gjafsókn.

S, sem starfað hafði sem skurðhjúkrunarfræðingur á L, krafði Í um bætur vegna slyss sem hún varð fyrir í miðri aðgerð á skurðstofu 5 þegar hún hrasaði um skammel. Tekið var fram að aðdragandi slyssins og aðstæður á skurðstofunni hefðu ekki að öllu leyti verið skýrar. Nyti engra samtímagagna um hinn umdeilda atburð þar sem slysið hefði fyrst verið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins alllöngu síðar en það væri í brýnni andstöðu við fyrirmæli laga og stjórnvaldsreglna um tilkynningu vinnuslysa, sbr. 2. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og 1. og 2. gr. reglna nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa. Yrði að ætla að rannsókn þegar í kjölfar slyssins hefði verið til þess fallin að varpa skýrara ljósi á aðstæður og afstöðu starfsfélaga S og ef til vill taka fyrir þann vafa sem við blasti í málinu. Yrði Í sem vinnuveitandi S að bera halla af því, að ekki kom til slíkrar rannsóknar. Væri þannig óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar dómi, að um aðgæsluleysi einhvers eða einhverra starfsfélaga S hefði verið að ræða. Bar Í því bótaábyrgð á afleiðingum slyssins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var áfrýjað 4. júlí 2002. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á dómkröfu hins stefnda dánarbús. Í báðum tilvikum er þess krafist, að málskostnaður verði látinn falla niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Steinunn Hafdís Pétursdóttir lést 24. júlí 2002 og hefur dánarbú hennar tekið við aðild málsins samkvæmt bréfi sýslumannsins í Reykjavík 12. september 2002, sbr. 2. mgr. 18. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en búið sætir opinberum skiptum vegna ákvæðis 1. tl. 37. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

I.

Steinunn heitin varð fyrir slysi á skurðstofu 5 á Landspítalanum við Hringbraut 27. febrúar 1996, en þar hafði hún starfað sem skurðhjúkrunarfræðingur frá árinu 1986. Er atvikum að slysinu og aðstæðum á skurðstofunni umrætt sinn lýst í héraðsdómi, en þar fór þá fram hjartaaðgerð. Við hana störfuðu meðal annarra þrír hjúkrunarfræðingar, þær Steinunn Pétursdóttir sem aðstoðaði við að taka æð úr fæti sjúklingsins, Halldóra Jónsdóttir sem stóð við brjóstholsaðgerðina og Herdís Alfreðsdóttir sem var „í kring“, eins og það er kallað, og sinnti því meðal annars að rétta það sem vantaði í aðgerðinni.

Þegar aðgerð á fæti sjúklings var lokið kom það í hlut Steinunnar að fara með áhaldaborð frá fótagafli skurðarborðsins upp að vegg, telja öll verkfæri og bera saman við lista yfir áhöld í notkun, en hún sneri þá baki í það, sem fram fór á skurðstofunni. Ljóst má telja af gögnum málsins og einkum framburði Líneyjar Símonardóttur sérfræðings á hjarta- og lungnavél, sem var eini sjónarvotturinn að slysinu, að Steinunn hafi hrasað um skammel um leið og hún sneri sér við í því skyni að fara með hin notuðu verkfæri í sérstakri grind inn í þvottaherbergi. Þetta skammel hafði staðið við stórt og hátt áhaldaborð úti á gólfi skurðstofunnar og þurfti að stíga upp á það, þegar náð var í verkfæri. Að lokinni aðgerð á fæti sjúklingsins var þetta borð hins vegar dregið yfir fætur hans og var þá venja að ýta skammelinu upp að vegg, svo að það væri ekki í gangvegi. Virðist það hafa ráðist af aðstæðum hverju sinni, hver hjúkrunarfræðinganna þriggja framkvæmdi þessi verk. Umrætt sinn dró Halldóra Jónsdóttir áhaldaborðið yfir fætur sjúklings.

II.

Í málinu liggur fyrir bréf Bjarna Torfasonar yfirlæknis frá 13. október 1999 um aðstæður á skurðstofu 5 á Landspítalanum, en hann var ekki viðstaddur aðgerðina 27. febrúar 1996. Þar segir meðal annars, að á þessari skurðstofu fari fram hjartaskurðlækningar og aðrar brjóstholsskurðlækningar. Hún sé stærsta skurðstofan á deildinni, en þar sé oft mjög þröngt vegna fjölda starfsmanna og tækja. Hjartaskurðlækningar séu meðal hinna flóknustu skurðlækninga, sem fram fari í heiminum, skurðteymið 10 manns í flestum tilvikum og tæki og verkfæri mörg flókin og dýr. Ýmsir verkhlutar aðgerðarinnar krefjist margra handa og samhæfðs huga margra í skurðteyminu. Allir þurfi að vinna markvisst og skipulega og af fullkominni einbeitingu og hver einstakur að koma inn í flókið ferli á réttum tíma. Hver um sig treysti viðteknu verklagi og venju um það, hvenær bregðast skuli við, en með nákvæmri verkaskiptingu og samhæfingu sé andrúmsloftið í senn þægilegt og mjög agað. Þegar mikið liggi við eða líf sjúklings í hættu sé mikilvægt, að allir kunni til verka og þurfi sem minnsta munnlega tilsögn, enda geti óþarfa hávaði og samræður truflað aðgerðina og valdið varanlegum skaða fyrir sjúklinginn. Hvert eitt gáleysislegt frávik frá venju eða viðteknu verklagi geti leitt til slysa á sjúklingi eða starfsmanni. Steinunn Pétursdóttir hafi kunnað verklagið mjög vel, verið ósérhlífin og fyrst og fremst hugsað um líf og heilsu sjúklingsins.

III.

Í skriflegi lýsingu Herdísar Alfreðsdóttur 19. janúar 1999 á atburðum umrætt sinn segir meðal annars: „Það var venja hjá undirritaðri að fjarlægja skemil þennan þegar búið var að flytja verkfæraborð. Í þessu tilviki varð undirrituð að sinna beiðni um eitthvað sem vanhagaði um í aðgerðinni og almennt þurfa þær beiðnir að hafa forgang. Vegna þessa var ekki búið að fjarlægja skemil af miðju gólfi þegar Steinunn Pétursdóttir með þvottagrindina í höndunum sneri sér frá sínu verkfæraborði og gekk á skemilinn, hnaut og hlaut skaða sem hún býr enn við. ... Í þessu tilviki hafði ekki unnist tími til þess og því fór sem fór.“ Fyrir héraðsdómi var Herdís spurð nánar að því, hvers vegna hún hefði ekki fært skammelið og svaraði hún: „Ég man að það kom upp atvik, situasjón eða sem sagt bráðaatriði með sjúklinginn sem var í aðgerð og ég þurfti að sinna þeirri sem stóð í aðgerðinni og ég man það að ég er rétt nýbúin að gefa henni saum þegar þetta gerist.“ Sá hjúkrunarfræðingur, sem Herdís talar hér um, var Halldóra Jónsdóttir. Nánar aðspurð um bráðatilvikið sagði Herdís sig minna, að það hafi verið einhver blæðing eða slíkt, að minnsta kosti hafi hún þurft að gefa saum með hraði, en þessi sjúklingur hafi áður farið í hjartaaðgerð.

Í skriflegri lýsingu Halldóru Jónsdóttur 7. október 1999 segir hún svo frá: „Langt er síðan umfjallandi atvik átti sér stað en við eftirgrennslan kom í ljós að umræddan dag var reop eða endurtekin hjartaaðgerð. Í þannig aðgerðum er oft um mikla samvexti að ræða og jafnvel hjartað samgróið bringubeininu, eru þá frekar líkur á acut (bráðri) blæðingu. Við hjartaaðgerðina þann 27. feb. 1996 kom sú staða upp, því undirrituð man eftir því að hafa sótt „standinn“ til að ná í verkfæri sem var þar á og þörf var við aðgerðina og beðið um líklegast saum, sem Herdís, sem var „í kring“ rétti. Þar sem bráðatilvik kom upp í aðgerðinni og hugurinn við það, hef ég í gáleysi ætlað að spyrna skammelinu upp að vegg, svo það væri ekki í gangveginum, en það lenti fyrir aftan Steinunni og hún síðan hrasar um það. Við upprifjun á atburðinum, minnir mig að ég hafi ætlað að hafa orð á því að skammelið væri ekki á sínum venjulega stað, en það fórst fyrir. Eftir að Steinunn er dottin um skammelið var mín fyrsta hugsun sú, gleymdi ég að láta vita af skammelinu?“

Fyrir héraðsdómi staðfesti Halldóra þessa skriflegu lýsingu, sem rituð var þremur og hálfu ári eftir slysið, „eins og ég gat best munað á þessum tíma.“ Lýsing hennar fyrir dóminum á atvikum umrætt sinn er hins vegar með nokkuð öðrum blæ. Þar kvaðst hún ekki muna eftir að hafa sparkað í skammelið, en trúlegast hefði það dregist með áhaldaborðinu, þegar hún færði það yfir fætur sjúklingsins. Hin skriflega lýsing hennar væri „meira vangaveltur vegna þess að yfirleitt þá reyndi ég að muna eftir því að ýta skammelinu úr gangvegi ...“ Halldóra var spurð að því, af hverju það hefði verið hennar fyrsta hugsun, eins og í yfirlýsingunni greindi, að láta Steinunni vita um staðsetningu skammelsins, og svaraði hún þá: „Sko af því að ég man ekki eftir því hvort ég ýtti við skammelinu eða ekki en ég man eftir því að þegar ég færði stóra standinn að þá er skammelið í gangveginum þó að ég hafi ekki gert ráð fyrir og ekki átt von á að það væri svona mikið í gangveginum.“

IV.

Hjartaskurðstofa er sérstakur vinnustaður, þar sem ríkar kröfur eru gerðar til aga og verklags og minnstu frávik geta leitt til óhappa eða slysa. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að leggja til grundvallar, að Steinunn heitin Pétursdóttir hafi hnotið um skammelið, sem færst hafði aftur fyrir hana án þess að hún yrði þess vör, í sömu mund og hún sneri sér við með verkfærabakka í fanginu, er hún hugðist fara með í þvottaherbergi. Aðdragandi slyssins og aðstæður á skurðstofunni eru hins vegar ekki að öllu leyti skýrar. Þannig liggur ekki ljóslega fyrir, hvers konar bráðatilvik var upp komið í aðgerðinni og hvers það krafðist í raun af þeim hjúkrunarfræðingum, sem höfðu það bæði fyrir venju og starfsskyldu að sjá til þess að fjarlægja skammelið um leið og stóra áhaldaborðið var dregið yfir sjúkling. Þá er nokkurt misræmi í skriflegri lýsingu Halldóru Jónsdóttur, sem rituð var þremur og hálfu ári eftir slysið, og framburði hennar fyrir dómi tveimur og hálfu ári þaðan í frá.

Engra samtímagagna nýtur um hinn umdeilda atburð 27. febrúar 1996, en slysið var fyrst tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins alllöngu síðar, að öllum líkindum ekki fyrr en í maí 1997, en tilkynningin er ódagsett. Er það í brýnni andstöðu við fyrirmæli laga og stjórnvaldsreglna um tilkynningu vinnuslysa. Í 1. mgr. 81. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segir, að ráðherra skuli setja reglur um tilkynningar- og skráningarskyldu hvers konar vinnuslysa og meiðsla, en í 2. mgr. er atvinnurekanda gert að koma slíkum tilkynningum á framfæri við lögreglustjóra og Vinnueftirlit ríkisins svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en innan sólarhrings. Er þetta áréttað í 1. gr. reglna nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa, sem settar voru samkvæmt 81. gr. fyrrnefndra laga, en í 2. gr. reglnanna segir jafnframt, að slys eða eitrun, sem valda fjarveru frá vinnu í einn eða fleiri daga og falla ekki undir 1. gr., skuli tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins svo fljótt sem kostur er og ekki síðar en innan 14 daga. Í málinu er engin gögn að finna um viðbrögð vinnueftirlitsins svo löngu eftir slysið, sem það var tilkynnt. Hins vegar verður að ætla, að rannsókn þegar í kjölfar slyssins hefði verið til þess fallin að varpa skýrara ljósi á aðstæður og afstöðu starfsfélaga Steinunnar en nú er kostur á og ef til vill taka fyrir þann vafa, sem við blasir í málinu. Verður áfrýjandi sem vinnuveitandi Steinunnar að bera halla af því, að ekki kom til slíkrar rannsóknar. Er þannig óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar dómi, að um aðgæsluleysi einhvers eða einhverra starfsfélaga Steinunnar hafi verið að ræða, er skammelið lenti aftur fyrir fætur hennar og stóð þar sem hún mátti ekki eiga þess von, er hún sneri sér við. Ber áfrýjandi því bótaábyrgð á afleiðingum slyssins.

V.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir meiðslum Steinunnar Pétursdóttur í slysinu og fyrra heilsufari hennar. Fyrir liggja nokkrar matsgerðir um miska hennar og örorku fyrir og eftir slysið, þar á meðal álitsgerð örorkunefndar 16. janúar 2001, matsgerð tveggja dómkvaddra lækna 16. maí 2001 og yfirmatsgerð þriggja dómkvaddra matsmanna 29. október 2001, tveggja lækna og eins lögfræðings. Mátu hinir síðastnefndu afleiðingar slyssins þannig, að af því hefði Steinunn heitin hlotið 10% varanlegan miska og 35% varanlega örorku. Örorkunefnd og undirmatsmenn höfðu metið varanlega örorku hennar vegna slyssins 15%, en varanlegan miska mat nefndin 8% og undirmatsmenn 15%. Þótt gert sé ráð fyrir því í 10. gr. skaðabótalaga að leita megi álits um miskastig og örorkustig hjá örorkunefnd, sem skipuð er tveimur læknum og einum lögfræðingi, er ekkert því til fyrirstöðu að afla megi annarra sönnunargagna um þessi atriði, þar á meðal matsgerðar dómkvaddra manna, eins og hér hefur verið gert, og kemur sönnunargildi slíkra gagna til skoðunar hjá dómstólum eftir almennum reglum, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þessu máli verður að telja matsgerð hinna dómkvöddu yfirmatsmanna ítarlegast rökstudda og verður við hana miðað, en fyrir matsmönnunum lágu nokkur gögn, sem örorkunefnd hafði ekki, þar á meðal sneiðmyndataka af lendhrygg tjónþola 2. maí 2001 og endurtekið kraftmælingarpróf af lærvöðvum, sem undirmatsmenn hlutuðust til um að láta fara fram.

 Með þessum athugasemdum verður fallist á niðurstöðu héraðsdóms um bótafjárhæð, enda hefur hún ekki sætt rökstuddum andmælum áfrýjanda, og gerir hann heldur ekki athugasemdir við forsendur tjónsútreiknings, þótt Steinunn Pétursdóttir hafi andast eftir uppsögu héraðsdóms, sbr. til hliðsjónar H.1989.131. Rétt þykir einnig að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um vexti og gjafsóknarkostnað. Ekki eru efni til að kveða á um málskostnað fyrir Hæstarétti, en allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir dóminum greiðist úr ríkissjóði, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur gjafsóknarkostnaður hins stefnda dánarbús Steinunnar Hafdísar Pétursdóttur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns búsins, 500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2002.

Mál þetta var höfðað 5. apríl 2000 og dómtekið 3. þ.m.

Stefnandi er Steinunn Hafdís Pétursdóttir, kt. 151048-6849, Sporhömrum 12, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að upphæð 10.127.516 krónur með 2% vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 27. febrúar 1996 til 22. febrúar 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Allt að frádregnum greiðslum að upphæðum 757.400 krónur 28. ágúst 1997 og 1.033.400 krónur 29. janúar 1999.  Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi 14. mars 2000.

Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar en til vara lækkunar á kröfum hennar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

I

Stefnandi starfaði sem hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum við Hringbraut þar sem hún hóf störf árið 1973.  Frá árinu 1986 starfaði stefnandi sem skurð­hjúkrunar­fræðingur og frá árinu 1989 á skurðstofu 5 þar sem aðallega eru fram­kvæmdar hjartaaðgerðir.  Mál þetta varðar slys sem stefnandi varð fyrir á þeirri skurðstofu 27. febrúar 1996 er hún vann við kransæðaaðgerð.  Slysið varð við það að hún rak vinstri fót í skemil sem var á gólfi skurðstofunnar.  Við það missti hún fótanna og féll utan í skáp og borð.  Af þessu hlutust meiðsl í hægra hné og læri en fyrir slysið var til staðar veikleiki í hægri ganglim.

Frammi liggur svohljóðandi lýsing Bjarna Torfasonar, yfirlæknis hjartaskurð­deildar Landspítalans, dags. 13. október 1999, á aðstæðum á skurðstofu 5:

“Þar fara fram hjartaskurðlækningar og aðrar brjóstholsskurðlækningar.  Umrædd skurðstofa er stærsta skurðstofan á deildinni enda þaf þar að koma fyrir mestum fjölda tækja og stærsta skurðteyminu.  Þrátt fyrir stærðina er því oft mjög þröngt á skurðstofu 5.

Hjartaskurðlækningar eru meðal flóknustu skurðlækninga sem fram fara í heiminum í dag, skurðteymi er 10 manns í flestum tilfellum og tæki og verkfæri sem notuð eru mörg, flókin og dýr.  Oftar en ekki er líf sjúklingsins og heilsa í veði ef eitthvað kynni að fara úrskeiðis. . . .

Ýmsir verkhlutar aðgerðarinnar krefjast margra handa og samhæfðs huga margra í skurðteyminu en breytilegt er hverjir vinna nánast saman hverju sinni eftir því sem aðgerðinni miðar áfram.  Allt teymið þarf því að vinna markvisst og skipulega og af fullkominni einbeitingu og hver einstakur að koma inn í flókið ferlið á réttum augnablikum þegar þeirra sérhæfing á við hverju sinni.  Hver einstakur starfsmaður treystir viðteknu verklagi og venju varðandi það hvenær bregðast skuli við en fær annars áminningu um að bregðast við frá þeim sem stjórnar aðgerðinni.  Ætlast er til að sem allra flestir í skurðteyminu kunni verklagið og þurfi ekki áminningu nema í undantekningartilfellum. . . .

Misjafnt er hve hverjum einstökum starfsmanni er fært að fylgjast með því sem fram fer hjá hinum samstarfsmönnunum og fer það eftir ýmsu, til dæmis því hvernig aðgerðin gengur og hvar í ferli aðgerðarinnar verkið stendur á því augnabliki.  Hvert eitt gáleysislegt frávik frá venjunni eða viðteknu verklagi getur leitt til slysa á sjúklingi eða starfsmanni. . . .”

Bjarni Torfason staðfesti framangreinda lýsingu sem vitni fyrir dóminum.  Hann kvaðst ekki hafa verið að störfum í umrætt sinn.  Hann kvað starfsfólk á skurðstofunni yfirleitt allt vera “rútinerað” enda mikið í húfi.  Aðspurður kvað hann mikilvægt vegna þrengsla að gangvegir séu hindrunarlausir.  Aðspurður um það hvort verklagi hafi verið breytt eftir slysið kvað hann það ekki heyra til verklags að neinar hindranir séu í vegi.  “Ef slíkt gerist er það slys-óvart.”

Aðstæður þær, sem hér um ræðir, verklag og aðdragandi slyssins eru sérstæð og framandleg.  Verður því hér á eftir tilgreind í heild ítarleg lýsing þessa í stefnu:

 “Í upphafi aðgerðar skiptir starfsfólk sér í tvö lið.  Einn hjúkrunarfræðingur (stefnandi-innskot dómara) og einn læknir vinna við að taka æð úr fæti sjúklingins sem síðan er notuð til að tengja við æðar hjartans þegar aðgerðin er komin lengra á veg.  Á meðan starfa hinn læknirinn og einn hjúkrunarfræðingur (Halldóra Jónsdóttir) við hjartað sjálft, m.a. við að opna líkama sjúklingsins að hjartanu.  Þriðji hjúkrunar­fræðingurinn (Herdís Alfreðsdóttir) er í kring og er þessum tveimur liðum til aðstoðar og felst aðstoð hans m.a. í því að rétta verkfæri, sauma og gera annað sem til þarf.  Þessi hjúkrunarfræðingur er ekki steríl, þ.e.a.s. eins og hinir tveir.  Auk þess voru við aðgerðina 1 tæknir á hjarta- og lungnavél (Líney Símonardóttir), 2 svæfingalæknar í upphafi aðgerðar og 1 svæfingahjúkrunarfræðingur sem stendur alla aðgerðina.

Í umrætt sinn vann stefnandi ásamt öðrum lækninum við að taka æð úr fæti sjúklings.  Við þá aðgerð eru notuð verkfæri sem höfð eru á áhaldaborði sem stendur við fótagafl sjúklingsins.  Þetta verkfæraborð er eingöngu með verkfærum sem notuð eru við þennan þátt aðgerðarinnar og því er það haft alveg upp við fótagafl sjúklings­ins svo þægilegt sé fyrir þá sem vinna við þennan hluta aðgerðarinnar að ná til þeirra.

Hinn læknirinn og sá hjúkrunarfræðingur, sem unnu við hjartað í upphafi aðgerðar, höfðu jafnframt hjá sér á sérstöku áhaldaborði þau verkfæri sem þau þurftu að nota í byrjun aðgerðar.  Úti á gólfi skurðstofunnar er hins vegar látið standa stórt og hátt áhaldaborð þar sem á eru hin ýmsu verkfæri, nálar og saumar og er það verkfæraborð haft til taks fyrir þá sem vinna við hjartað sjálft í upphafi aðgerðarinnar þar sem fyrir getur komið að þá vanti eitthvað sem á því borði er.  Við þetta stóra og háa áhaldaborð, sem stendur úti á gólfi skurðstofunnar meðan liðin tvö vinna við sjúklinginn, er ætíð hafður skemill, sem stigið er upp á þegar ná þarf í verkfæri af borðinu, sökum hæðar borðsins.

Þegar búið er að taka æðina úr fæti sjúklingsins verða ákveðin kaflaskil í aðgerðinni.  Sá hjúkrunarfræðingur sem við það verk hefur starfað, í þessu tilviki stefnandi, fer þá með það áhaldaborð, sem staðið hefur við fótagafl sjúklingsins, til hliðar og upp að vegg.  Þar þarf þessi hjúkrunarfræðingur að telja öll verkfærin nákvæm­lega og gæta þess vel að fjöldi nála,  hnífsblaða og annarra áhalda stemmi við tölur á lista sem fylgdi bakkanum og sem tékkaður var af fyrir aðgerðina.  Þetta verk krefst mikillar einbeitingar því það þarf að telja nálarnar, hnífsblöðin og verkfærin og ganga frá þessu með ákveðnum hætti svo öruggt sé að ekkert hafi orðið eftir í skurðsári sjúklingsins.  Jafnframt þarf að gæta þess vel að þessi notuðu áhöld komist ekki í snertingu við verkfæri sem eru steríl.  Sá hjúkrunarfræðingur, sem þetta verkefni vinnur, snýr baki í sjúklinginn á skurðarborðinu og annað starfsfólk skurð­stofunnar enda er þetta verk unnið upp við vegg skurðstofunnar.  Notuðu verkfærin eru síðan sett í grind sem síðan þarf að ganga með inn í sérstaka þvottaaðstöðu.

Á meðan stefnandi er að vinna við að telja og ganga frá verkfærunum verða einnig ákveðin kaflaskil hjá því liði sem vinnur við hjartað.  Fyrsti hlutinn er að baki og annar hluti tekur við en við þann hluta aðgerðarinnar eru notuð önnur verkfæri því þá eru notuð þau verkfæri sem staðið hafa á stóra áhaldaborðinu á gólfi skurð­stofunnar.  Er þá ýmist að sá hjúkrunarfræðingur, sem vinnur við hjartað, fer og nær í það áhaldaborð og setur það yfir sjúklinginn eða að sá hjúkrunarfræðingur, sem er í kring, nær í áhaldaborðið og setur það yfir sjúklinginn.  Sá, sem áhaldaborðið sækir, hefur það jafnframt fyrir venju að ýta skammelinu, sem staðið hefur við áhaldaborðið, til hliðar svo það sé ekki í gangveginum.

Í umrætt sinn var verið að skera sjúkling sem áður hafði gengist undir hjartaaðgerð, þ.e. svokölluð reop hjartaaðgerð.   Í slíkum tilvikum eru meiri líkur á að upp komi blæðing sem þá þarf að stöðva sem allra fyrst. Í umrætt sinn þurfti sá hjúkrunarfræðingur sem stóð við hjartað að ná í verkfæri af stóra áhaldaborðinu og setti stóra áhaldaborðið því næst yfir sjúklinginn sem næst aðgerðarsvæðinu.  Þar sem um endurtekna hjartaaðgerð var að ræða hjá viðkomandi sjúklingi þurfti að hafa hraðan á og sparkaði hjúkrunarfræðingurinn skammelinu frá og ætlaði að sparka því úr gangveginum.  Vegna augnabliks gáleysis lenti skammelið beint fyrir aftan fætur stefnanda þar sem hún stóð við að telja og ganga frá notuðu áhöldunum og sneri við það verk baki í skurðarborðið.  Ætlaði sá hjúkrunarfræðingur, sem skammelinu sparkaði, að láta stefnanda vita að skammelið væri ekki á sínum venjulega stað en það fórst fyrir. 

Þegar stefnandi var búin að setja óhreinu verkfærin í grindina sneri hún sér við og ætlaði að ganga með grindina í áttina að þvottaherbergi.  Grindin, sem hún hélt á með verkfærunum, byrgði henni sýn og datt stefnandi um skammelið strax í fyrsta skrefi enda hafði skammelinu verið sparkað þannig að það lenti beint fyrir aftan fætur hennar án hennar vitundar og í algjöru ósamræmi við þá vinnuvenju sem viðhöfð var á skurðstofunni. Við það að stefnandi rak vinstri fótinn í skammelið missti hún fótanna og féll utan í skáp og borð með þeim afleiðingum að hún hlaut vöðvaslit á innanlærisvöðva hægra læris, rétti- og adduktorvöðva, en vöðvi þessi stjórnar bæði hreyfingum í mjöðm og hné.”

Framangreindri málavaxtalýsingu er af hálfu stefnda mótmælt að því leyti sem þar segi að Halldóra hafi sparkað í skemilinn sem við það hafi lent fyrir aftan fætur stefnanda.  Af frásögn Herdísar Alfreðsdóttur hjúkrunarfræðings verði hins vegar ráðið að skemillinn hafi staðið óhreyfður á miðju gólfi á upprunalegum stað og Herdísi hafi ekki gefist tími til að fjarlægja hann úr gangvegi skurðstofunnar sökum eigin anna.  Er um þetta vísað til framlagðrar lýsingar Herdísar, dags. 19. janúar 1999, þar sem segir:  . . .”Hjúkrunarfræðingur sem aðstoðar á stofunni (undirrituð)  keyrir stórt verkfæraborð að skurðarborði og það er staðsett yfir fótum sjúklings það sem eftir er aðgerðar.  Meðan enn er verið að taka æð úr fæti stendur þetta verkfæraborð til hliðar í stofunni og fyrir framan það er skemill til að auðveldara sé að ná til verkfæra á því er þörf krefur.  Það er venja hjá undirritaðri að fjarlægja skemil þennan þegar búið var að flytja verkfæraborð. Í þessu tilviki varð undirrituð að sinna beiðni um eitthvað sem vanhagaði um í aðgerðinni og almennt þurfa þær beiðnir að hafa forgang.  Vegna þessa var ekki búið að fjarlægja skemil af miðju gólfi þegar Steinunn Pétursdóttir með þvottagrindina í höndum sér sneri sér frá sínu verkfæraborði og gekk á skemilinn, hnaut og hlaut skaða sem hún býr enn við.  Það var einstaklingsbundið hvort hjúkr­unar­fræðingar á skurðstofu 5 fjarlægðu skemilinn þegar búið var að flytja verkfæra­borð og um það var ekki rætt.  Undirrituð var deildarstjóri  hjartaaðgerða á skurðdeild Landspítalans í 8 ár og hafði ætíð fyrir venju að fjarlægja umræddan skemil eins fljótt og hægt var.  Þetta var venja sem undirrituð hafði tamið sér.  Í þessu tilviki hafði ekki unnist tími til þess og fór sem fór.”

Um það, sem  hér ber á milli samkvæmt framangreindu, er í stefnu, auk frásagnar stefnanda sjálfrar, augljóslega byggt á framlagðri lýsingu Halldóru Jóns­dóttur hjúkrunarfræðings, dags. 7. október 1999, þar sem segir m.a.:  ”Þar sem bráða­tilvik kom upp í aðgerðinni og hugurinn við það hef ég í gáleysi ætlað að spyrna skammelinu upp að vegg svo það væri ekki í gangveginum en það lenti fyrir aftan Steinunni og hún síðan hrasar um það.  Við upprifjun á atburðinum minnir mig að ég hafi ætlað að hafa orð á því að skammelið væri ekki á sínum venjulega stað en það fórst fyrir.  Eftir að Steinunn er dottin um skammelið var mín fyrsta hugsun sú, gleymdi  ég að láta vita af skammelinu?”

Við aðalmeðferð málsins kvaðst stefnandi, að lokinni æðatöku úr fæti sjúklingsins, hafa farið með áhaldaborðið (-standinn) upp að gluggavegg og gengið síðan þvert yfir að vegg hinum megin til að ná í áhaldagrind og litla “netlu” undir fínu áhöldin.  Enginn skemill hafi verið í gangveginum þegar hún gekk þessa leið og síðan aftur til baka að áhaldastandinum.  Þar hafi hún síðan einbeitt sér við að telja áhöldin, snúið baki í alla aðra á stofunni og ekki orðið vör við að skemillinn væri kominn aftan við fætur sínar sem hafi verið rangur staður og frávik frá verklagi á skurðstofunni.  Hún hafi, er hún hafi snúið sér við með grindina í  höndum, dottið í fyrsta skrefi og grindin þeyst úr höndum hennar með þeim afleiðingum að áhöld, s.s. nálar og hnífsblöð, dreifðust um gólfið.   Hægri fótur hennar hafi spennst út í loftið,  hún hafi fundið skerandi sársauka og henst yfir gólfið þannig að hún lenti á borði og skáp.  Hún skýrði svo frá að mikil regla hefði verið á skurðstofunni og festa með það að hver hlutur væri á sínum stað og alltaf eins.  

II

Í stefnu greinir frá því að stefnandi hafi fengið samdægurs skoðun hjá lækni en verið send heim og ráðlögð hvíld.  Líðan hennar hafi verið mjög slæm, hún hafi haft mikla verki og viku síðar hafi verið tappað út gömlu blóði.  Verkir og tognanir hafi haldið áfram að hrjá stefnanda og hafi hún verið í veikindafríi allt til 2. janúar 1997 er hún hafi byrjað í 50% starfi.  Sú vinna hafi reynst henni mjög erfið en hún hafi þraukað til 7. júlí 1997, unnið þrjá-fjóra daga í viku og tekið sumarfrísdaga þegar henni hafi liðið sem verst.  Þann 7. júlí 1997 hafi stefnandi mætt til Boga Jónssonar læknis sem hafi úrskurðað hana óvinnufæra með öllu.

Frammi liggur vottorð Boga Jónssonar læknis, dags. 20. mars 2000, um skoðun á stefnanda á bæklunardeild Landspítalans vegna áverka á læri.  Segir þar adductorvöðva og rectusvöðva hafa verið til athugunar og hafi þeir verið þaktir þrymlum. Afleiðingar þess vöðvaslits sem hún hafi hlotið er hún hafi dottið á skurð­stofu 5 á skurðdeild Landspítalans við Hringbraut í febrúar 1996.  Í vottorði sama læknis, dags. 14. september 1998, segir að stefnandi hafi haft fulla starfsorku fram að þeim degi er hún datt og tognaði illa á fæti.  Þessi tognun hafi verið það alvarleg að hún hafi leitt til þess að hún hafi verið óvinnufær eftir þetta.  Í vottorði sama læknis, dags. 29. september 1998, segir að stefnandi geti ekki gengið til fyrri starfa og sé ófær til allrar vinnu, þ.m.t. heimilisstarfa.

Amalía Svala Jónsdóttir, deildarstjóri skurðdeildar Landspítalans, vottar í bréfi 31. ágúst 1998 að stefnandi hafi starfað við skurðdeildina frá 1986 og unnið 100% vinnu auk þess að sinna útkallsvöktum.  Hún hafi iðulega tekið aukavaktir ef þörf krafðist og ekki verið með fleiri veikindadaga en aðrir starfsmenn þar til hún lenti í vinnuslysi sem hafi farið með heilsu hennar.

Í vottorði Guðrúnar Brynjólfsdóttur, löggilts sjúkraþjálfara á Sjúkraþjálfun Reykjavíkur, dags. 7. september 1998, segir að stefnandi hafi byrjað þar í meðferð 7. júní 1996 vegna vöðvaatrophiu í hægra Quatricepsvöðva.  Ástand hennar er sagt sveiflast frá “status quo” ástandi þar sem hún geti farið í göngutúra (1-2x á dag 30-60 mín.) eða tognunarástands þar sem hún rétt geti sinnt sjálfri sér.  Því megi segja að þjálfunin hafi ekki skilað þeim árangri, sem vonast hafi verið eftir, og mjög litla líkur á að hægt verði að auka vöðvastyrk í hægra læri.  Markmiðið hljóti því að vera að stefnandi geti sinnt daglegum þörfum sínum til að forðast frekari tognanir. 

Halldór Baldursson læknir mat örorku stefnanda 26. júní 1997.  Í skýrslu hans segir um fyrra heilsufar að stefnandi hafi haft töluverð vandræði af hægra hné og svæðinu ofan við hnéð allt frá 1971 en þá hafi hún snúið hægra hné og hlotið áverka á innlæga liðþófann í hnénu sem hafi verið fjarlægður.  Nokkrum mánuðum síðar hafi ytri liðþófi í sama hné skaddast og verið fjarlægður.  Leifar eða endurvöxtur af liðþófum hafi verið fjarlægðir úr hægra hné nokkru síðar og vegna brjóskmeyru hafi verið skafið upp úr liðfleti hnéskeljarinnar 1974.  Um ár 1977 hafi hægri hnéskel síðan verið tekin.  Á árinu 1992 hafi stefnandi fengið spelku og notað hana öðru hvoru vegna ófullnægjandi stjórnar á hægra hné.  Því er síðan lýst að komið hafi fram hnútar á hægra læri og ómskoðun og tölvusneiðmyndir bent til að um blæðingu væri að ræða.  Þann 14. febrúar 1996 hafi verið gerð skurðaðgerð og fjarlægð blaðra úr fjórhöfða­vöðva á hægra læri.  Niðurstaða læknisins var sú að fyrir áverkann 27. febrúar 1996 hafi ástand hnésins samsvarað “óstöðugu hné eftir minni háttar liðbanda­áverka” og jafngilt 5% örorku.  Eftir áverkann teljist ástandið samsvara “mjög óstöðugu hné” og samsvarað 20% örorku.  Örorka vegna óhappsins 27. febrúar 1996 er  samkvæmt þessu metin 15% frá 2. janúar 1997.

Halldór Baldursson læknir mat örorku stefnanda að nýju 11. janúar 1999 og segir í skýrslu hans að mál hafi þróast þannig að stefnandi hafi verið með öllu óvinnufær frá miðju ári 1997 og fengið endurteknar tognanir í hægra læri.  Endur­skoðuð örorka er metin 35%, þar af 5% vegna fyrri skaða og 30% vegna vinnuslyss 27.  febrúar 1996.

Ríkislögmaður innti af hendi greiðslu 757.400 króna 28. ágúst 1997 og 1.033.400 króna 29. janúar 1999 til stefnanda sem slysatryggingabætur samkvæmt kjarasamningi.

Lögmaður stefnanda ritaði forstjóra Ríkisspítala bréf 22. janúar 1999 þar sem því var lýst  yfir að stefnandi teldi Ríkisspítalana bera skaðabótaábyrgð á tjóni sínu.  Eftir nokkrar bréfaskriftir tilkynnti ríkislögmaður með bréfi 8. nóvember 1999 að bótakröfu stefnanda væri hafnað.

Eftir höfðun máls þessa aflaði lögmaður stefnanda mats örorkunefndar á varanlegri örorku hennar og miskastigi.  Í álitsgerð nefndarinnar 16. janúar 2001 segir að varanlegur miski vegna fyrri meiðsla á hægri ganglim teljist vera hæfilega metinn 20%.  Við óhappið 27. febrúar 1996 hafi stefnandi að öllum líkindum tognað á aðfærum hægra læris og er varanlegur miski vegna þess metinn 8%.  Um varanlega örorku segir að líklegt þyki að þau vandamál sem stefnandi hafi átt við að stríða hefðu dregið úr vinnugetu hennar síðar á starfsævinni þótt umrætt óhapp komi ekki til.  Örorkunefndin telur einnig að stefnandi eigi þrátt fyrir afleiðingar óhappsins að geta unnið ýmis störf sem hjúkrunarfræðingur þó svo að hún geti ekki tekið að sér störf á skurðstofum.  Að öllu athuguðu sé varanleg örorka hennar vegna afleiðinga slyssins metin 15%.

Að beiðni lögmanns stefnanda voru Hjördís Jónsdóttir endurhæfingarlæknir og Brynjólfur Jónsson bæklunarlæknir dómkvödd 15. febrúar 2001 til að skoða og endurmeta heilsufarslegt ástand stefnanda og láta í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:

1)  Hver sé varanleg örorka stefnanda af völdum þess vinnuslyss er hún varð fyrir þann 27. febrúar 1996, þ.e. hver sé varanleg skerðing á getu stefnanda til að afla vinnutekna af völdum slyssins.

2)  Hver hafi verið varanleg örorka stefnanda fyrir vinnuslysið, þ.e. fyrir 27. febrúar 1996 .

3)  Hver sé varanlegur miski stefnanda vegna þess vinnuslyss er hún varð fyrir þann 27. febrúar 1996.

4)  Hver hafi verið varanlegur miski stefnanda fyrir vinnuslysið, þ.e. fyrir 27. febrúar 1996.

5)  Láta í ljós rökstutt álit um það hvort stefnandi geti stundað það starf er hún gegndi er slysið varð eða önnur störf þar sem starfsmenntun hennar nýtist.

Við mat á ofangreindu var þess óskað að matsmenn hefðu hliðsjón af 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Niðurstöður matsmanna samkvæmt matsgerð 16. maí 2001 eru sem hér segir:

Um atr. 1:  15%.  Um atr. 2:  5%.  Um atr. 3:  15%.  Um atr. 4:  15%.  Um atr. 5. segir:  “Matsmenn telja að stefnandi komist ekki til fyrri starfa og ólíklegt er á þessu stigi að hún komist til annarra og léttari starfa.  Ósennilegt má telja að læknisaðgerðir, þar á meðal endurhæfing í víðustum skilningi, muni hafa áhrif á framtíðarvinnugetu tjónþola.” 

Við aðalmeðferð málsins staðfesti matsmaðurinn Brynjólfur Jónsson framan­greint mat.  Aðspurður kvað hann mat á varanlegri örorku hafa byggst á læknis­fræðilegum mælikvarða.

Á dómþingi 26. júní 2001 voru Valgeir Pálsson hæstaréttarlögmaður, Jón Ingvar Ragnarsson bæklunarlæknir og Stefán Ingvarsson endurhæfingarlæknir   dómkvaddir til að meta öll hin sömu atriði sem fyrr voru talin.  Yfirmatsgerð þeirra er dagsett 29. október 2001.

Um varanlega örorku stefnanda fyrir slysið 27. febrúar 1996 segir m.a. í yfirmatsgerðinni að telja verði víst að stefnandi hefði ekki til langframa getað sinnt þeim krefjandi störfum sem felast í skurðstofuhjúkrun.  Um verulega starfsorku­skerðingu sé að ræða sem rekja megi til sjúkdómseinkenna fyrir slysið í lok febrúar  1996 og er varanleg örorka af þeim sökum hæfilega metin 40%.

Um varanlega örorku stefnanda af völdum umrædds slyss segir m.a. að draga megi þá ályktun af gögnum málsins að starfsendurhæfing á sviði hjúkrunar hafi ekki verið fullreynd og ekki heldur varðandi starfsgetu  stefnanda í öðrum störfum en þar virðist helst koma til álita líkamlega létt störf sem viðbúið sé að gefi almennt af sér lægri laun en hjúkrunarstörf.  Þá verði að telja að afleiðingar áverkans hafi leitt til þess að stefnandi geti einungis unnið hluta úr degi og að endanleg starfslok yrðu fyrr en annars hefði orðið.  Að þessu virtu og að teknu tilliti til þeirrar örorku, sem rekja megi til fyrri sjúkdómseinkenna, er það álit yfirmatsmanna að varanleg örorka matsbeið­anda af völdum slyssins 27. febrúar 1996 sé 35%.

Um varanlegan miska fyrir slysið 27. febrúar  1996 segir m.a. að brottnám hnéskeljar ein og sér sé talið nema 10% í viðmiðunartöflum örorkunefndar og í dönskum örorkutöflum.  Telja yfirmatsmenn miskann hæfilega metinn 15%.

Um varanlegan miska af völdum umrædds slyss segir m.a. að ljóst sé að talsverðan hluta þess, sem markvert finnist við skoðun, verði að skrifast á hinn fyrri miska.  Yfirmatsmenn telja að heildarmiski stefnanda vegna einkenna í hægri ganglim sé umtalsverður og teljist hann hæfilega metinn 25 hundraðshlutar.  Með vísun til mats á fyrri miska teljist miski vegna slyssins 27. febrúar 1996 hæfilega metinn 10%.

Að lokum segir að áverki á hægra læri, sem stefnandi hafi hlotið í slysinu 27. febrúar 1996, hafi haft enn afdrifaríkari áhrif á starfsmöguleika hennar en telja verði að annars hefði orðið.  Þyki ljóst að áverkinn og einkenni, sem komu fram þegar eftir slysið, hafi bundið endi á möguleika stefnanda til starfa við skurðstofuhjúkrun.  Eftir slysið sé hún vart fær nema til mjög léttra hjúkrunarstarfa eða annarra sambærilegra starfa þar sem menntun og reynsla hennar gæti nýst en þó einungis í hlutastarfi.

Yfirmatsmennirnir staðfestu matið fyrir dómi.

III

Höfuðstóll dómkröfu stefnanda samkvæmt frumstefnu málsins nam 9.108.717 krónum á grundvelli tjónsútreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings 7. desember 1999.  Útreikningurinn var byggður á mati Halldórs Baldurssonar læknis á varanlegri örorku stefnanda vegna slyssins, 30%, og gaf tryggingafræðingurinn sér að varanlegt miskastig væri einnig 30%.  Með 2% vöxtum og vaxtavöxtum frá slysdegi til útreikningsdags (707.618 krónur) nemur niðurstaða útreikningsins hins vegar 9.816.335 krónum.

Höfuðstóll endanlegrar dómkröfu var hækkaður um 1.018.797 krónur með framhaldsstefnu sem lögð var fram 22. nóvember 2001.  Byggt var á nýjum tjónsút­reikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings sem reistur var á yfirmati Valgeirs Pálssonar, Jóns Ingvars Ragnarssonar og Stefáns Yngvasonar.  Útreikningur­inn, sem var gerður 21. nóvember 2001, sýnir niðurstöðu að upphæð samtals 11.854.638 krónur. Samkvæmt skattframtölum voru vinnutekjur stefnanda árið 1985 3.339.708 krónur, árið 1996 3.650.386 krónur og 1997 1.552.269 krónur.  Tjónið var reiknað á grundvelli tekna árið 1996 og samkvæmt venju bætt við 6% vegna framlags í lífeyrissjóð. Að beiðni lögmanns stefnanda reiknaði tryggingafræðingurinn út sama dag hverjar hefðu orðið niðurstöður fyrri útreiknings síns, sem gerður var 7. desember 1999, hefði þá verið reiknað með 10% miska og 35% örorku.  Niðurstaðan er 10.127.514 krónur (þjáningabætur 398.913 kr., miskabætur 465.204 kr., örorkubætur 8.533.224 kr. og vextir 730.173 kr.).  Síðan segir:  “Ef reiknað hefði verið með 10% miska og 35% örorku þann 7/12 1999 hefði niðurstaðan orðið 10.127.516 kr. í stað 9.816.335.”

- - - - -

Kröfugerð stefnanda er reist á því að stefndi beri bótaábyrgð á því tjóni sem hún hafi orðið fyrir á grundvelli reglunnar um vinnveitendaábyrgð.  Hún hafi verið við störf sín á skurðstofu Landspítalans er slysið átti sér stað og verði það rakið til gáleysis eins af samstarfsmönnum hennar sem í umrætt sinn hafi vikið frá þeim föstu vinnu- og verklagsreglum sem afar nauðsynlegt sé að fylgt sé út í þaula á skurðstofum.

Við sakarmat verði að hafa hinar sérstöku vinnuaðstæður, sem þar ríkja og eru viðhafðar, í huga og sé gáleysismatið bundið við hvað góður og gegn skurðstofuhjúkrunarfræðingur hefði gert í því tilviki sem hér um ræðir.

Engin rannsókn hafi farið fram á vettvangi eftir slysið og engin skýrsla verið útfyllt af hálfu stefnda vegna þess.  Slysið hafi hvorki verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins né Tryggingastofnunar ríkisins fyrr en ári eftir að slysið átti sér stað og þá að frumkvæði stefnanda.  Skráningu af hálfu stefnda um slysið hafi því verið ábótavant og telur stefnandi að leiði skortur upplýsinga til þess að aðstaða til sönnunar verði erfiðari en ella beri að leggja sönnunarbyrði á stefnda eða slaka verulega á kröfum um sönnun sakar og orsakatengsl.

- - - - -

Af hálfu stefnda er tekjuforsendum stefnanda, sbr. ákvæði 7. gr. laga nr. 50/1993, og vaxtaforsendum mómælt sem röngum.

Stefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að stefnandi beri sjálf ábyrgð á því slysi sem hún varð fyrir 27. febrúar 1996.  Hún hafi ekki getað treyst því að skemill sá, sem hún hnaut um, hefði verið fjarlægður.  Um hann hafi engar samræmdar reglur gilt og ósannað sé að frávik hafi orðið á samræmdu verklagi við fjarlægingu hans.

Stefndi byggir á atvikalýsingu Herdísar Alfreðsdóttur um að skemillinn hafi aldrei verið færður úr stað en jafnvel þótt hann hefði af slysni lent fyrir aftan fætur stefnanda hefði hún hvort sem var þurft að gæta að fótum sínum og kanna hvort gangvegur væri hindrunarlaus.

Stefndi telur slys stefnanda vera óhappatilviljun og að ósannað sé að einhver starfsmaður Landspítalans hafi stuðlað að því með saknæmri háttsemi.

IV

Líney Símonardóttir, sérfræðingur á hjarta- og lungnavél, og hjúkrunarfræð­ing­arnir Herdís Alfreðsdóttir og Halldóra Jónsdóttir báru vætti við aðalmeðferð málsins.

Líney Símonardóttir kvaðst hafa staðið við hjarta- og lungnavélina sem hafi verið staðsett vinstra megin við sjúklinginn í 1 - 1½ m fjarlægð frá stefnanda þar sem hún stóð og var að ganga frá verkfærunum. Hún kvaðst hafa séð þegar stefnandi datt og muna mjög vel eftir því.  Hún hafi dottið um skemil sem hafi verið beint fyrir aftan hana, í mesta lagi 20 sm frá henni.  Hún hafi ekki haft tök á að sjá skemilinn þar sem hún var að snúa sér við með grindina í höndum og enn verið að snúa sér þegar hún datt, í fyrsta eð öðru skrefi.  Hún kvaðst aldrei áður hafa séð skemilinn á þessum stað og hafi staðsetning hans verið frávik frá því verklagi sem ríkti á skurðstofunni.  Í stað þess að vera færður til hægri upp að vegg eins og venja hafi verið hafi hann verið færður í öfuga átt út á gólf þannig að munað hafi 1-1½ m.  Hún kvaðst sjálf mundu hafa getað dottið um skemilinn þar sem hann var kominn.

Herdís Alfreðsdóttir kvaðst ekki muna hver færði stóra standinn yfir sjúkling­inn í umrætt sinn.  Hún taldi að hún hefði ekki gert það en sú sem stóð við hjarta­aðgerðina (Halldóra Jónsdóttir) hefði getað gert það.  Oftast hafi skemillinn verið tekinn fljótlega og færður upp að vegg en annars staðið áfram þar sem hann hafði staðið í upphafi aðgerðar, þ.e.  fyrir framan stóra standinn.  Hún kvaðst muna eftir umræddu atviki án þess að hafa séð þegar stefnandi datt enda hafi hún verið í hvarfi bak við standinn.  Vitninu var sýnd mynd sem sýnir staðsetningu skemilsins eins og hún er talin hafa verið við slysið, þ.e. rétt aftan við fætur stefnanda.  Hún kvaðst ekki muna eftir að hafa séð skemilinn á þeim stað sem væri mjög óeðlilegur og fæli í sér brot á verklagi.  Þangað hefði enginn fært skemilinn vísvitandi. Venjulega sé það sá hjúkrunarfræðingur sem “er í kring” (í þessu tilviki Herdís-innskot dómara) sem færi skemilinn.  Upp hafi hins vegar komið bráðatilvik, blæðing, og hafi hún verið nýbúin að rétta Halldóru saum þegar stefnandi datt.  Hún gat sér þess til að í hamagangi hafi verið spyrnt við skemlinum eða hann dregist með standinum.  Hún skýrði svo frá að hefði skemillinn verið óhreyfður þar sem hann hafði verið, þ.e. fyrir framan stóra standinn, hefði hann ekki verið í gangvegi stefnanda þegar hún þurfti að fara með verkfæragrindina áleiðis út af skurðstofunni.  Hún kvað áður tilvitnaða lýsingu sína frá 19. janúar 1999 vera að mestu leyti almenna lýsingu á framkvæmd hjartaaðgerða.

Halldóra Jónsdóttir staðfesti áður tilvitnaða lýsingu sína.  Hún kvaðst ekki hafa verið sjónarvottur að slysinu.  Kvaðst hún muna hvar skemillin var í upphafi aðgerðar en ekki þegar stefnandi datt.  Hún vefengdi ekki að hann hefði verið staðsettur aftan við fætur stefnanda því að “annars hefði hún ekki dottið”.  Hún kvað skemilinn aldrei hafa átt að færast í átt þangað.  Staðsetningin hafi verið brot á því verklagi sem ríkti á skurðstofunni, þ.e. þeim vinnubrögðum sem starfsfólkið hefði tamið sér þótt ekki hafi verið um að ræða skriflegar eða fastmótaðar reglur.  Stefnandi hafi mátt treysta því að skemillinn yrði ekki settur þannig fyrir aftan fætur sína.  Hún kvað slysahættu leiða af því ef skemillin væri ekki færður þaðan sem hann stóð  fyrir framan stóra standinn því að hann væri þá í gangvegi.   Hún kvað það vera venju að færa skemilinn eftir að stóri standurinn hefði verið færður yfir sjúkling en mismunandi væri hvenær það væri gert.  Af því leiddi slysahættu væri hann ekki færður heldur látinn vera í gangvegi.  Hún kvaðst hins vegar ekki hafa gert ráð fyrir að hann væri eins mikið í gangvegi og raun ber vitni.  Venja væri að skemillinn væri færður upp að þeim vegg sem stóri standurinn hafði staðið við.  Hún kvaðst hafa farið að stóra standinum til að sækja verkfæri og þurft að stíga á skemilinn til að ná upp á standinn og um leið hafi hún dregið standinn yfir sjúklinginn þar sem þar hafi verið komið í aðgerðinni að þurft hafi að færa hann þangað.  Hún kvaðst hafa átt það til að ýta (spyrna) við skemlinum um leið og hún færði standinn en mundi ekki hvort hún gerði það í umrætt sinn.  Hún gat sér þess til að annað hvort hafi hún ýtt við skemlinum og ætlað honum að færast upp að vegg eða hann hafi dregist með stóra standinum og taldi hún hið síðara vera líklegra vegna þess að hann hafi verið kominn svo langt út á gólf.  Hún kvaðst ekki muna eftir bráðatilviki í aðgerðinni en um endurtekna hjartaaðgerð hafi verið að ræða og þá sé líklegra en ella að slík tilvik komi upp.  Aðspurð sagði hún að hefði skemillinn staðið á þeim stað þar sem hann hafði verið, fyrir framan stóra standinn, hefði hann ekki verið í gangvegi stefnanda þegar hún þurfti að fara með grindina sína í þvott.  Lýsti hún aðstæðum –og ástæðu þess- þannig að skurðborðið hefði verið stefnanda á hægri hönd og hún hefði þá þurft að beygja til vinstri til að detta um skemilinn en það hefði hún aldrei gert því að þá væri hún komin of nálægt bar-(verkfæra-)borðinu.

V

Fyrir slysið 27. febrúar 1996 bjó stefnandi við  töluverða færniskerðingu í hægra hné.  Hnéskel hafði verið fjarlægð, báðir liðþófar, og breytingar voru á brjóskhæð á röntgenmyndum.  Þá voru lýti í kjölfar fyrri aðgerða og óþægindi við allt álag.  Í kjölfar slyssins fékk stefnandi umtalsverð einkenni frá hægra hné en einnig í mjaðmasvæði og læri.  Þar virðist einkum hafa verið um að ræða tognunaráverka með  umtalsverðum áhrifum á mjúkvefi hægri ganglims.  Ljóst er að stefnandi gat stundað fyrra starf sitt með ákveðinni færniskerðingu í ganglimum fyrir slysið en eftir það verður veruleg breyting til hins verra.  Að læknisfræðilegum gögnum málsins athug­uðum verður að telja að læknismeðferð og endurhæfingartilraunum sé lokið, að minnsta kosti að sinni.  Stefnandi hefur ekki stundað atvinnu frá miðju ári 1997.

Af því sem rakið hefur verið um atvik málsins, sbr. einkum  IV. kafla dómsins, er ljóst að slys stefnanda varð við það að hún datt um skemil sem var rétt aftan við fætur hennar.  Um þá staðsetningu vissi stefnandi ekki og mátti treysta því að skemillinn væri þar ekki enda um að ræða brot á viðteknu verklagi á skurðstofunni þar sem reglufesta í hvívetna er einkar nauðsynleg.  Skemillinn hafði færst þangað sem hann var kominn vegna þess að Halldóra Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur hafði í ógáti annað hvort spyrnt við honum eða það sem er líklegra að hann hafi dregist með áhaldaborði (stóra standinum) er hún færði það yfir fætur sjúklingsins.  Á afleiðingum þessa aðgæsluleysis ber stefndi bótaábyrgð eftir reglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð.  Stefnandi hafði ekkert ráðrúm auk þess sem bakki með lækn­inga­áhöldum sem hún hélt á byrgði henni sýn og verður ekki talið að slysið verði að neinu leyti rakið til eigin sakar hennar.

Að þessari niðurstöðu fenginni um ábyrgð stefnda á tjóni stefnanda verður niðurstaða málsins um fjárhæð reist á ítarlegri og vel rökstuddri yfirmatsgerð og tjóns­út­reikningi tryggingafræðings sem á henni er byggð enda sætir grundvöllur máls­sóknar­innar ekki að því leyti andmælum stefnda að öðru leyti en um tekjuforsendur útreiknings en á þær er fallist.

Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til greiddra slysatryggingabóta samtals að upphæð 1.790.840 krónur er niðurstaða málsins sú að stefnda beri að greiða stefnanda 8.336.684 (10.127.524–1.790.840)krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði en 2% ársvextir frá slysdegi til  7. desember 1999 eru innifaldir í niðurstöðufjárhæð tryggingafræðingsins, sbr. III. kafla dómsins, sem dómkrafa stefnanda er reist á.  Allur gjafsóknarkostnaður málsins, þar með talin laun lögmanns stefnanda 850.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði en vegna þess hvernig háttar um varnaraðild málsins eru ekki efni til þess að frekar verði kveðið á um greiðslu málskostnaðar.

Mál þetta dæma Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Guðmundur Björnsson endurhæfingarlæknir og Stefán Carlsson bæklunarskurðlæknir.

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Steinunni Hafdísi Pétursdóttur, 8.336.684 krónur með 2% ársvöxtum frá 7. desember 1999 til 5. apríl 2000 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin laun lögmanns hennar 850.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.