Print

Mál nr. 309/2007

Lykilorð
  • Samkeppni
  • Skaðabætur
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta

         

Miðvikudaginn 30. apríl 2008.

Nr. 309/2007.

Ker hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.

 Óðinn Elísson hdl.)

gegn

Sigurði Hreinssyni

(Steinar Þór Guðgeirsson hrl.

 Herdís Hallmarsdóttir hdl.)

og gagnsök

 

Samkeppni. Skaðabætur. Kröfugerð. Frávísun máls frá Hæstarétti að hluta.

S krafðist skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir við kaup sín á bensíni hjá K á tímabilinu frá 10. ágúst 1995 til 18. desember 2001 vegna ólögmæts verðsamráðs K og tveggja annarra olíufélaga. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var einungis tekist á um kröfu S um að skaðabætur yrðu ákveðnar að álitum. Í dómi Hæstaréttar sagði að ágreiningslaust væri að með samráðinu hefði K brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993. Af gögnum málsins væri ljóst að samráðið hefði meðal annars tekið til verðlagningar á bensíni. K hefði ekkert fært fram í málinu sem staðið gæti í vegi þeirri ályktun að tilgangur samráðsins hefði verið að hækka tekjur hans með því að selja bensín á hærra verði en annars hefði verið. Þá hafi honum ekki tekist að sýna fram á að slíkur ágóði hefði ekki í reynd hlotist af samráðinu. Var niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð skaðabótanna staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2007 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 21. ágúst 2007. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér „bætur að álitum sem nemi hærri fjárhæð en dæmd var í héraði“, en til vara að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um fjárhæð skaðabóta. Í báðum tilvikum krefst hann dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. júlí 2005 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Með framangreindri aðalkröfu leitar gagnáfrýjandi dóms fyrir hærri fjárhæð en aðaláfrýjanda var gert að greiða með héraðsdómi, en þó án þess tiltaka fjárhæð kröfunnar. Slík kröfugerð er í andstöðu við d. lið 1. mgr. 80. gr., sbr. d. lið 1. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu verður aðalkröfu gagnáfrýjanda vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti, en af því leiðir að ekki kemur til álita að dæma honum hærri fjárhæð en ákveðin var með hinum áfrýjaða dómi.

I.

Í héraðsdómsstefnu krafðist gagnáfrýjandi þess aðallega að aðaláfrýjanda yrði gert að greiða sér 212.406 krónur, til vara 37.379 krónur, til þrautavara 26.069 krónur, en að því frágengnu yrðu skaðabætur ákveðnar að álitum. Í öllum tilvikum var þess krafist að fjárhæðirnar bæru nánar tilgreinda vexti og dráttarvexti. Við aðalmeðferð málsins í héraði 16. nóvember 2006 lækkaði gagnáfrýjandi fjárhæð krafna sinna þannig að aðalkrafa nam 180.005 krónum, varakrafa 34.976 krónum og þrautavarakrafa 26.069 krónum, en krafa um skaðabætur að álitum stóð óbreytt. Þá bar gagnáfrýjandi því við að í dómkröfum hans fælist að auki krafa um viðurkenningu á rétti hans til skaðabóta, þótt honum yrði ekki dæmd ákveðin fjárhæð. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2006 var aðaláfrýjandi sýknaður af aðalkröfu og varakröfu gagnáfrýjanda, en öðrum kröfum hans var vísað frá dómi. Ákvæði dómsins um frávísun voru kærð til Hæstaréttar, sem með dómi 18. janúar 2007 í máli nr. 654/2006 staðfesti niðurstöðu héraðsdómsins um það efni að öðru leyti en því að fellt var úr gildi ákvæði hans um að vísað væri frá þeirri kröfu gagnáfrýjanda að bætur yrðu dæmdar að álitum. Var lagt fyrir héraðsdóm að taka þá kröfu til efnismeðferðar, sem gert var með hinum áfrýjaða dómi, en aðilarnir una niðurstöðu dómsins 6. desember 2006 um aðalkröfu og varakröfu gagnáfrýjanda.

II.

Í málinu krefst gagnáfrýjandi skaðabóta vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir við kaup sín á bensíni hjá aðaláfrýjanda á tímabilinu frá 10. ágúst 1995 til 18. desember 2001 vegna ólögmæts verðsamráðs þess síðarnefnda og tveggja annarra olíufélaga. Ágreiningslaust er að með samráðinu hafi aðaláfrýjandi brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993. Af gögnum málsins er ljóst að það samráð tók meðal annars til verðlagningar á bensíni. Aðaláfrýjandi hefur ekkert fært fram í málinu, sem staðið getur í vegi þeirri ályktun að tilgangur samráðsins hafi verið að hækka tekjur hans með því að selja bensín á hærra verði en annars hefði verið. Þá hefur honum ekki tekist að sýna fram á að slíkur ágóði hafi ekki í reynd hlotist af samráðinu. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem skírskotaði jafnframt til niðurstöðu héraðsdóms 6. desember 2006 um hluta málsins, er aðaláfrýjandi skaðabótaskyldur við gagnáfrýjanda.

          Meðal gagna sem liggja fyrir í málinu er matsgerð sem aðaláfrýjandi hefur aflað í tengslum við annað dómsmál, sem hann á aðild að, en í henni er meðal annars fjallað um hugsanlegan ávinning hans af áðurnefndu samráði. Aðaláfrýjandi kaus að leggja fram matsgerðina þótt hún varði annars ekki sakarefni þessa máls og ætti því með réttu ekkert erindi í það. Vegna þessa málatilbúnaðar hans geta þó komið til álita þau atriði í matsgerðinni, sem kunna að reynast gagnáfrýjanda í hag. Í henni var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að ávinningur aðaláfrýjanda af samráði við önnur olíufélög um verðlagningu á bensíni á árunum 1995 til 2001 hafi numið 7,8% af framlegð. Gagnáfrýjandi hefur ekki lagt fram nein gögn í málinu, sem frekara hald gæti verið í til að ákveða honum skaðabætur að álitum innan marka þeirrar fjárhæðar, sem dómkrafa hans fyrir Hæstarétti telst nema samkvæmt áðursögðu. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, ákvað gagnáfrýjanda skaðabætur með tilliti til þessa. Án þess að nokkur afstaða sé tekin til sönnunargildis þessarar matsgerðar að öðru leyti verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þetta. Um vexti af kröfu gagnáfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Málinu er vísað frá Hæstarétti að því er varðar aðalkröfu gagnáfrýjanda, Sigurðar Hreinssonar.

Aðaláfrýjandi, Ker hf., greiði gagnáfrýjanda 15.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2002 til 7. júlí 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2007.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 29. júní 2005. Stefnandi er Sigurður Hreinsson, Árholti 18, Húsavík. Stefndi er Ker hf., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík.

          Málið var dómtekið 16. nóvember 2006 og dómur kveðinn upp 6. desember 2006. Með dómi Hæstaréttar 18. janúar 2007 í máli nr. 654/2006 var það ákvæði héraðs­dóms er laut að frávísun þrautaþrautavarakröfu sóknaraðila fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Málið var endurupptekið í þessu skyni 7. febrúar sl. og tekið að nýju til dóms að loknum munnlegum málflutningi.

          Þrautaþrautavarakrafa stefnanda, sem lagt hefur verið fyrir héraðsdóm að taka til efnismeðferðar, er að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að álitum, vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir, sem beri dráttarvexti og skaða­bótavexti samkvæmt lögum um vexti nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989, og lögum um vexti og verðbætur nr. 38/2001, eftir því sem við eigi. Stefnandi krefst enn sem fyrr málskostnaðar.

          Stefndi krefst enn sem fyrr sýknu auk málskostnaðar.

          Atvik málsins, sem og málsástæður og lagarök aðila, eru rakin í dómi héraðs­dóms 6. desember 2006.

Niðurstaða

          Með þrautaþrautavarakröfu sinni krefst stefnandi skaðabóta að álitum vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þátttöku stefnda í ólögmætu verðsam­ráði við sölu á bensíni á árunum 1995-2001. Í dómi héraðsdóms 6. desember 2006 var talið að jafnvel þótt á það yrði fallist að stefnandi hefði gert líklegt að hann hefði orðið fyrir einhverju tjóni, væri það ótvírætt skilyrði þess að bætur yrðu dæmdar að álitum að stefnandi hefði gert allt sem í hans valdi stæði til að sýna fram á tjón sitt. Var það enn fremur álit héraðsdóms, í samræmi við ítrekuð fordæmi Hæstaréttar, að það væri hlutverk héraðsdóms, sem skipaður væri sérfróðum meðdómsmanni, að yfirfara og gagn­rýna matsgerðir dómkvaddra matsmanna, sem aflað hefði verið í samræmi við áður tilvitnuð ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en ekki vinna slíkar mats­gerðir milliliðalaust við úrlausn dómsmáls. Taldi dómurinn því að það gæti ekki rúmast innan hlutverks hins sérfróða meðdómsmanns að leggja mat á tjón stefnanda á grundvelli þeirra gagna sem lögð höfðu verið fram í málinu. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 18. janúar 2007 var hins vegar fallist á með stefnanda að „líkur bendi ekki til að með matsgerð yrði unnt að koma málinu í þann búning að komast mætti hjá að dæma um kröfuna að álitum.“ Dómurinn lítur svo á að með framangreindri niðurstöðu Hæstaréttar sé nú lagt fyrir héraðsdóm, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmanni, að leggja mat á ætlað tjón stefnanda á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins.

A

Eins og fram kemur í dómi héraðsdóms 6. desember 2006 er það álit dómsins að þau skilyrði fyrir skaðabótaskyldu, sem lúta að saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda, séu uppfyllt. Sem fyrr verður því að taka afstöðu til þess hvort, og þá að hvaða marki, stefnandi hafi sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni. Í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar ber við það mat að líta annars vegar til þess verðs sem stefnandi greiddi í raun fyrir það bensín sem hann keypti af stefnda. Hins vegar ber að horfa til þess verðs sem stefnandi hefði greitt fyrir sama magn af bensíni á sama tíma, ef ekki hefðu komið til brot stefnda á 10. gr. laga nr. 8/1993. Eins og nánar greinir í dómi héraðsdóms 6. desember 2006 verður að gera ráð fyrir því að ríkt hefði fákeppni á íslenskum olíumarkaði á árunum 1993-2001, hefði ekki komið til ólögmætt samráð og samvinna íslensku olíufélaganna. Þessi forsenda leiðir þó, ein og sér, ekki til þess að tjón stefnanda teljist ósannað, enda gera samkeppnislög ótvírætt ráð fyrir því að samkeppni geti verið til staðar við aðstæður sem þessar. Af þessu leiðir hins vegar að stefnanda ber að sýna fram á að hann hefði greitt annað og lægra verð fyrir bensín í því fákeppnisumhverfi, sem allt að einu hefði verið fyrir hendi, ef samráð og sam­vinna stefnda og annarra olíufélaga hefði ekki komið til.

B

Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til skýrslu hagfræðingsins Johns M. Connor frá 2003 um miðgildi svokallaðs yfirverðs í samráðsmálum. Eins og fram kemur í dómi héraðs­dóms 6. desember 2006 er óumdeilt að umrædd rannsókn var hvorki unnin með hliðsjón af atvikum á íslenska olíumarkaðinum á framangreindu tímabili né náði hún til hans með nokkrum hætti. Án tillits til fræðilegs gildis umræddrar rannsóknar leiðir hún ekki líkur að því að stefnandi hefði greitt lægra verð fyrir bensín á því tímabili sem hér um ræðir, ef samráð og samvinna stefnda og annarra olíufélaga hefði ekki komið til.

          Af hálfu stefnanda hefur einnig verið vísað til gagna sem sýna hækkanir á álagningu á bensíni á árunum 1998-2001 samanborið við meðaltalsálagningu í krónu­tölu á svonefnt tafið kostnaðarverð á tímabilinu frá nóvember 1996 til og með apríl 1997. Af hálfu stefnanda hafa engin viðhlítandi rök verið færð fyrir því að þær forsendur sem réðu álagningu á fyrra tímabilinu hafi verið þær sömu og frá 1. janúar 1998 til 18. desember 2001, þannig að sama álagning í krónum hafi átt að haldast óbreytt allan þann tíma. Fela umrædd gögn því ekki í sér líkur fyrir því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna brotastarfsemi stefnda.

C

Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til aukningar á einingarframlegð við sölu hvers bensínlítra á tímabilinu 1998-2001 samanborið við tímabilið 1993-1995. Líkt og fram kemur í dómi héraðsdóms 6. desember 2006 er á það fallist að ólögmætt verðsamráð sé almennt til þess fallið að auka, eða komast hjá, lækkun á framlegð við sölu á vöru, enda þótt samráð kunni til skemmri tíma litið að beinast að öðrum þáttum en verði. Þess verður hins vegar að gæta að ýmis önnur atriði geta haft áhrif á framlegðina bæði til hækkunar og lækkunar. Svo hagar til í máli þessu að um þessa orsakavalda nýtur ekki við annarra sérfræðilegra gagna en matsgerðar dómkvaddra matsmanna, Guðmundar Magnússonar prófessors og Heimis Haraldssonar löggilts endur­skoðanda, sem gerð var að beiðni stefnda vegna máls sem hann hefur höfðað gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 29. janúar 2005. Af hálfu stefnanda hefur hins vegar ekki verið aflað neinna sérfræðilegra gagna um raunveruleg áhrif hins ólögmæta samráðs á verð­myndun á bensíni í því skyni að sýna fram á tjón stefnanda af þeim völdum.

          Í umræddri matsgerð hinna dómkvöddu manna er sérstaklega vikið að sölu á bensíni. Kemur þar fram að ávinningur stefnda vegna sölu á bensíni á árunum 1996 til 2001 hafi numið 467 milljónum króna, eða 7,8% af framlegð, miðað við framlegð af bensínsölu á árunum 1993-1995, eins og matsmenn telja hana rétt metna, þegar tekið hafi verið tillit til ýmissa þátta, sem þeir segja samkeppnisyfirvöld ekki hafa gert í útreikningum sínum. Við útreikninga beggja aðila, þ.e. dómkvaddra matsmanna og samkeppnisyfirvalda, var notuð svokölluð „fyrir og eftir aðferð“. Niðurstaða mats­manna er jafnframt sú að 7,8% hlutfall „reiknaðs ávinnings af bensínsölu“ verði að teljast svo óverulegt að ekki sé ástæða til að líta svo á að reiknaður ávinningur af bensín­sölu á árunum 1996-2001 geti með óyggjandi hætti talist afleiðing samráðs­aðgerða.

          Eins og málið liggur fyrir fellst dómurinn á framangreindar niðurstöður hinna dómkvöddu matsmanna. Jafnframt er það þá álit dómsins að stefnandi hafi ekki, með þeim gögnum sem hann hefur lagt fram í málinu, sýnt fram á frekara tjón en ráðið verður af umræddri matsgerð, enda þótt ekki sé hægt að útiloka að um slíkt frekara tjón sé að ræða. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar að verulegar líkur séu á að framlegð á hvern seldan lítra bensíns á tímabilinu 1996 til 2001 hafi verið a.m.k. 7,8% hærri en ella vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda. Enda þótt fram komi í niðurstöðum dómkvaddra matsmanna að þetta hlutfall sé svo lágt að það teljist innan skekkjumarka verður hér, enn sem fyrr, að líta til þess að verðsamráð er almennt til þess fallið að auka, eða komast hjá, lækkun á framlegð við sölu á vöru, enda þótt samráð kunni til skemmri tíma litið að beinast að öðrum þáttum en verði. Verður því stefndi að bera hallann af óvissu um áhrif samráðsins að þessu leyti. Er þá jafnframt litið til þess að öll nauðsynleg gögn um verðmyndun á bensíni er að finna í fórum stefnda og stendur það honum nær en stefnanda samkvæmt almennum reglum réttarfars að sýna fram á að hið ólögmæta samráð hafi ekki haft þýðingu fyrir aukningu á framlegð við sölu á bensíni á umræddum tíma. 

          Samkvæmt öllu framangreindu verður lagt til grundvallar að framangreint hlutfall framlegðar stefnda við sölu á bensíni svari til tjóns stefnanda þegar skaða­bætur hans eru metnar að álitum. Að virtu því magni af bensíni sem stefnandi keypti af stefnda á tímabilinu 1996 til og með 2001 þykja bætur stefnanda samkvæmt þessu hæfilega ákveðnar 15.000 krónur. Er þá miðað við verðlag í árslok 2001. Vextir sam­kvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verða því dæmdir frá 1. janúar 2002, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Með vísan til 2. málsliðar 9. gr. sömu laga verða dráttarvextir dæmdir frá dómsuppsögu.

          Við ákvörðun málskostnaðar er óhjákvæmilegt, þrátt fyrir úrslit málsins, að líta til þess að kröfum og málsástæðum stefnanda hefur verið hafnað í veigamiklum atriðum. Verður stefndi því aðeins dæmdur til að greiða stefnanda hluta af máls­kostnaði stefnanda sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

          Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Sigrúnu Guðmunds­dóttur héraðsdómara og Birgi Þór Runólfssyni, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

DÓMSORÐ

Stefndi, Ker hf., greiði stefnanda, Sigurði Hreinssyni, 15.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2002 og dráttarvöxtum frá dóms­uppsögu.

          Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.

 

Sératkvæði

Sigrúnar Guðmundsdóttur, héraðsdómara.

Mál þetta snýst um smásöluviðskipti á bensíni og olíuvörum. Á þeim tíma er við­skiptin gerðust var frjálst verð á umræddum vörum þ.e. verðið var einhliða ákveðið af olíufélögunum, en samráð þeirra á milli bannað.

          Í III. kafla í dómi málsaðila frá 6. desember 2006 segir svo: „Í stefnu málsins er 38 sinnum vísað í ákvörðun Samkeppnisráðs frá 24. október 2004. Er þar um að ræða beina tilvitnun í skjöl, sem stafa frá olíufélögunum, s.s. fundargerðir, minnisblöð og tölvupóst. Þá er og vitnað til bókana sem skráðar voru á fundum Samkeppnis­stofnunar með ýmsum starfsmönnum stefnda og hinna olíufélaganna. Þannig er vísað til þriggja tilvika á árunum 1993-1994, fjögurra á árinu 1995, fimm á árinu 1996, tíu á árinu 1997, fjögurra á árinu 1998, fjögurra á árinu 1999, fimm á árinu 2000 og þriggja á árinu 2001.

          Við meðferð málsins var því lýst yfir af hálfu stefnda að ekki væri dregið í efa að í þessum tilvitnuðu gögnum væri rétt farið með staðreyndir og eru þær því óumdeildar. Af þessum sökum telur dómurinn þarflaust að lýsa þeim nánar. Dómurinn telur ljóst af gögnunum að stefndi hefur á tímabilinu frá því í mars 1993 til 18. desember 2001 tekið þátt í ólögmætu athæfi, þ.e. ólögmætu samráði og samstilltum aðgerðum olíufélaganna, og stefndi viðurkennir að svo hafi verið. Dómurinn telur einnig ljóst að þetta hafi verið gert í þeim megintilgangi að selja vörur félaganna, þ.á m. bensín, á hærra verði en annars hefði verið. Eins og síðar greinir í niðurstöðum telur dómurinn samkvæmt þessu að leitt hafi verið í ljós að fyrir hendi séu þau skilyrði almennu skaðabótareglunnar fyrir bótaskyldu að um sé að ræða saknæma athöfn, ásetning í því tilviki sem hér um ræðir, og ólögmæta, þ.e. brot gegn samkeppnis­lögum, sem til þess voru fallin að valda stefnanda tjóni.“

          Á það ber að líta að öll gögn og vitneskju er aðeins að finna í fórum stefnda. Stefnandi hefur ekki annað í höndum en reikninga eða kvittanir sem greina keypt vörumagn og verð við hver kaup. Þegar litið er til stefnda, á í hlut aðili þaulvanur stórviðskiptum áratugum saman, sem um gilda tiltölulega skýrar reglur samkeppnis­laga nr. 8/1993. Stefndi styður mál sitt fyrst og fremst almennum mótmælum en sýnir ekki fram á hvernig verðlagningu var hagað á mismunandi tímum og í einstökum atriðum. Ber því að leggja á stefnda ríkari sönnunarbyrði en ella. Telja verður að samráðið og hinar samstilltu aðgerðir olíufélaganna hafi verið gerðar í tekju­öflunarskyni, beint eða óbeint, enda ekki aðrar fullnægjandi skýringar fyrir hendi. Þá þykir fákeppni ekki skipta hér máli því hún er með sama hætti háð ákvæðum 10. gr. laga nr. 8/1993.

          Samkvæmt þessu aflaði stefndi sér ólögmæts ávinnings með því að fella ávinninginn inn í söluverð á bensíni og olíu. Svarar þessi ólögmæti ávinningur til tjóns stefnanda. Með því að stefndi býr einn yfir vitneskju til að ákveða ávinninginn verður að meta hann að álitum. Með hliðsjón af gögnum stefnanda og þegar yfir alla málavexti er litið, telst hann hæfilega ákveðinn 36.000 kr. Stefnda ber því að greiða stefnanda 36.000 kr. Vextir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu verða dæmdir frá 1. janúar 2002. Með vísan til 2. málsliðar 9. gr. sömu laga verða dráttarvextir dæmdir frá þingfestingu málsins. Ég er sammála ákvörðun meirihluta um málskostnað.