Print

Mál nr. 707/2017

Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Hafþór Ólafsson (Þórður Heimir Sveinsson hdl.)
gegn
Arion banka hf. (Karl Óttar Pétursson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Bókun
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Á og H um að felld yrði úr gildi nauðungarsala á tiltekinni fasteign þeirra sem fram fór að kröfu A hf. Á og H héldu því fram að við byrjun uppboðs á fasteigninni hefði ekki verið leitað boða í fasteignina og ekkert boð hefði komið fram þrátt fyrir að það kæmi fram í bókun í gerðabók sýslumanns. Um þetta vísuðu Á og H til þess að gerð hefði verið hljóðupptaka á síma Á og kæmi þetta hvergi fram. Hefði því ekkert boð verið gert í eignina við byrjun uppboðsins og sýslumanni af þeim sökum borið að fella nauðungarsöluna niður, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 90/1991. Vegna þessara málsástæðna Á og H ákvað Hæstiréttur að gefa aðilunum kost á að leggja fram nánar tiltekin gögn. Af þessu tilefni afhenti A hf. Hæstarétti ljósrit úr gerðabókinni sem bar ekkert með sér sem stutt gæti staðhæfingar Á og H um hvað þar hefði gerst. Taldi rétturinn að ekki yrði slegið föstu að áðurnefnd hljóðupptaka gæfi rétta mynd af því sem fram fór umrætt sinn. Á og H hefðu ekki neytt þess kosts sem þeim var gefinn á að afla vitnisburðar um þessi efni. Að því gættu hefðu Á og H ekki axlað sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum gagnstætt ákvæði 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 sem leiddi til þess að byggja yrði á því sem fulltrúi sýslumanns færði í gerðabók. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. október 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi nauðungarsala á fasteigninni Háhæð 1 í Garðabæ. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess að nauðungarsalan verði felld úr gildi og þeim dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins krafðist varnaraðili nauðungarsölu á fasteign sóknaraðila að Háhæð 1 og tilkynnti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu þeim 9. febrúar 2017 að við fyrirtöku á beiðni varnaraðila hefði verið ákveðið að uppboð á eigninni myndi byrja á skrifstofu sýslumanns á tilteknum tíma 27. mars sama ár. Í málinu liggur fyrir endurrit úr gerðabók sýslumanns frá byrjun uppboðsins þann dag, þar sem meðal annars var tiltekið að nafngreindur lögmaður hafi mætt af hálfu varnaraðila, svo og sóknaraðilar hafi bæði mætt og lagt fram yfirlýsingu, sem virðist hafa haft að geyma mótmæli gegn framgangi nauðungarsölunnar. Fulltrúi sýslumanns hafi hafnað mótmælum sóknaraðila og ákveðið að nauðungarsölunni yrði fram haldið, en þau hafi áskilið sér rétt til „að fara með ákvörðun sýslumanns fyrir héraðsdóm.“ Sóknaraðilum hafi verið kynnt framlögð gögn og leiðbeint um réttarstöðu sína og hafi jafnframt verið gætt að því, sem segir í 2. og 3. mgr. 31. gr. laga nr. 90/1991. Fulltrúi sýslumanns hafi síðan leitað boða í fasteignina og lögmaðurinn boðið 300.000 krónur af hálfu varnaraðila. Frekari boð hafi ekki komið fram og hafi verið ákveðið eftir kröfu varnaraðila að uppboðinu yrði fram haldið á eigninni sjálfri á tilteknum tíma 19. apríl 2017. Samkvæmt endurritinu undirrituðu sóknaraðilar þessa bókun ásamt fulltrúa sýslumanns og lögmanninum, sem mætti af hálfu varnaraðila. Eftir gögnum málsins mun uppboðinu síðan hafa verið fram haldið síðastnefndan dag og varnaraðili þá orðið hæstbjóðandi í eignina.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði halda sóknaraðilar því fram að áðurgreind bókun í gerðabók sýslumanns sé röng, því við byrjun uppboðs hafi ekki verið leitað boða í fasteign þeirra og ekkert boð komið fram. Um þetta vísa þau til þess að sóknaraðilinn Ásthildur hafi gert í síma hljóðupptöku af því, sem fram fór við byrjun uppboðsins, og komi þetta þar hvergi fram, en eftirgerð af upptökunni og endurrit af henni liggja fyrir í málinu. Hafi því ekkert boð verið gert í eignina við byrjun uppboðsins og sýslumanni af þeim sökum borið að fella nauðungarsöluna niður, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 90/1991.

Vegna framangreindra málsástæðna sóknaraðila ákvað Hæstiréttur 23. nóvember 2017 að gefa aðilunum kost á að leggja annars vegar fram ljósrit úr gerðabók sýslumanns af því, sem þar var fært við byrjun uppboðsins 27. mars sama ár, og hins vegar að leiða fyrir dóm til skýrslugjafar fulltrúa sýslumanns, sem tók nauðungarsöluna þá fyrir, og lögmanninn, sem mætti af hálfu varnaraðila, til að bera um hvað hafi farið þar fram í einstökum atriðum eða afla eftir atvikum skriflegra yfirlýsinga þeirra um það efni. Af þessu tilefni afhenti varnaraðili Hæstarétti ljósrit úr gerðabókinni, sem er samhljóða áðurnefndu endurriti og ber ekkert með sér sem stutt getur staðhæfingar sóknaraðila um hvað þar hafi gerst. Að öðru leyti var ekki aflað gagna, sem kostur hafði verið gefinn á.

Rétt er, sem sóknaraðilar vísa til samkvæmt áðursögðu, að af framlagðri hljóðupptöku verður ekki ráðið að fulltrúi sýslumanns hafi leitað boða í fasteign þeirra við byrjun uppboðsins. Ekkert liggur á hinn bóginn fyrir til að slegið yrði föstu að upptakan gefi af þessu rétta mynd. Sóknaraðilar neyttu ekki kosts, sem þeim var gefinn á að afla vitnisburðar um þetta efni. Að þessu gættu hafa sóknaraðilar ekki axlað sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum gagnstætt ákvæði 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem leiðir þannig til að byggja verður á því sem fulltrúi sýslumanns færði í gerðabók. Niðurstaða hins kærða úrskurðar verður því staðfest.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Hafþór Ólafsson, greiði óskipt varnaraðila, Arion banka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, fimmtudaginn 26. október 2017

Sóknaraðilar, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, kt. [...], og Hafþór Ólafsson, kt. [...], til heimilis að [...], 210 Garðabæ, gera eftirfarandi kröfu: Að framhaldssala á fasteigninni Háhæð 1, Garðabæ, fastanúmer 207-0310, sem fram fór hinn 19. apríl 2017, verði dæmd ógild og felld niður. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Varnaraðili, Arion banki hf., kt. [...], Borgartúni 19, 105 Reykjavík, krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 19. apríl 2017, um að uppboðsmeðferð skyldi fram haldið á fasteigninni Háhæð 1, 210 Garðabæ, fastanúmer 207-0310, verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Munnlegur málflutningur fór fram þann 5. október sl. og málið tekið til úrskurðar.

I

Málavextir

Þann 9. febrúar 2017 var tekin fyrir hjá sýslumanni nauðungarsölubeiðni á fasteignina, Háhæð 1, Garðabæ, fastanr. 207-0310. Við þá fyrirtöku var ákveðið að  fresta málinu til 14. febrúar 2017 vegna mótmæla sóknaraðila en þá tók fulltrúi sýslumanns þá ákvörðun að byrjun uppboðs  skyldi fara fram þann 27. mars 2017.

Fram kemur í endurriti úr nauðungarsölubók sýslumanns þann 27. mars 2017 að sóknaraðilar hafi mótmælt en þeim mótmælum verið hafnað og að leitað hafi verið eftir boðum í eignina og hafi komið fram eitt boð frá varnaraðila að fjárhæð 300.000 krónur. Var jafnframt ákveðið að framhaldsala færi fram á eigninni sjálfri, miðvikudaginn 19. apríl 2017. Undir gerðabók rituðu fulltrúi sýslumanns, fyrirsvarsmaður varnaraðila og sóknaraðilar.

Sóknaraðilar lögðu fram í málinu hljóðupptöku, sem þau segja vera frá fyrirtöku málsins þann 27. mars 2017, ásamt texta sem þau unnu upp úr þeirri hljóðupptöku. Í skýrslutöku fyrir dómi kom fram að Ásthildur hefði séð um upptökuna á síma sem hún hefði lagt á borð í sama herbergi og fyrirtaka málsins fór fram. Viðstöddum hafi ekki verið tilkynnt að upptaka væri í gangi, né var leitað eftir samþykki þeirra.

Þann 19. apríl 2017 fór fram framhaldssala á fasteigninni þar sem sóknaraðilar lögðu fram mótmæli. Ekki var fallist á þau mótmæli og nauðungarsölunni var fram haldið. Hæsta boð kom frá varnaraðila að fjárhæð 60 milljón krónur. Sóknaraðilar lýstu því yfir að þau myndu skjóta ákvörðun sýslumanns til Héraðsdóms Reykjaness. Var krafa þeirra móttekin þann 16. maí 2017 ásamt endurritum úr gerðabókum sýslumanns og þeim gögnum sem lágu fyrir við nauðungarsölu fasteignarinnar.

Samkvæmt 3. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu telst Garðabær til aðila málsins þar sem bærinn hafði lýst kröfu vegna fasteignagjalda. Garðabær ákvað í tölvupósti til dómsins að láta málið ekki til sín taka.

Með vísan til 3. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991 var sýslumanni sent afrit af kröfu sóknaraðila. Sýslumaður kom eftirfarandi athugasemdum á framfæri í tölvupósti: „Sýslumaður vísar til endurrits úr gerðabók frá 27. mars 2017 þar sem fram kemur að við byrjun uppboðs hafi komið boð að fjárhæð kr. 300.000 frá Berki Hrafnssyni hdl. fyrir hönd Arion banka hf. Er því hafnað að gerðin 27. mars sl. hafi farið fram með öðrum hætti en greinir í gerðabók, sem undirrituð var af aðilum.“

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðilar telja að engin boð hafi komið fram við byrjun uppboðs á eigninni þann 27. mars 2017, á meðan þau hafi verið þar stödd. Skráð boð, 300.000 krónur, sem komi fram í staðfestu endurriti sýslumanns, komi ekki fram á hljóðupptöku þeirra. Engu að síður hafi sýslumaður ákveðið að framhald uppboðs skyldi fara fram.

Sóknaraðilar byggja á því að ógilda beri nauðungarsöluna þar sem sýslumanni hefði borið að fella niður allar aðgerðir og tilkynna gerðarbeiðanda að uppboðsbeiðni hans væri fallin niður þar sem engin boð hefðu borist í eignina við byrjun uppboðs í samræmi við 34. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Hafi það verið skýlaus lagaskylda sýslumanns samkvæmt framangreindu að fella niður nauðungaruppboð á fasteigninni í heild sinni, enda nauðungarsalan árangurslaus, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991, með þeirri afleiðingu að sýslumanni hefði verið óheimilt að auglýsa og halda framhaldsuppboð þann 19. apríl 2017. Útilokað hafi verið að uppfylla skilyrði 4. mgr. 36. gr. laganna þar sem engin boð höfðu komið fram við byrjun uppboðs.

Sóknaraðilar telja að fulltrúi sýslumanns hafi síðar bætt inn í endurritið boði í eignina að fjárhæð 300.000 krónur fyrir hönd varnaraðila. Þetta staðfesti hljóðupptaka þeirra og endurrit hennar en skýrt hafi heyrst í fulltrúa sýslumanns á henni og skipti það mestu máli. Benda sóknaraðilar á að lögmaður varnaraðila sem hafi verið viðstaddur nauðungarsöluna og sá fulltrúi sýslumanns sem hana framkvæmdi hafi ekki komið fyrir dóminn til að gefa skýrslu og sé endurrit sýslumanns því ekki trúverðugt. Þá komi ekki fram nein undirritun starfsmanns sýslumanns á endurritin.

Sóknaraðilar byggja á því að fyrir liggi sönnun þess að endurrit sýslumanns sé ekki rétt um nefnt atvik, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Upptaka þeirra sé lögmæt, enda varði hún hagsmuni þeirra sjálfra og varnaraðili hafi ekki bent á nein lagaákvæði því til sönnunar að upptakan sé ólögmæt.

Um lagarök er vísað til 34.-36. gr. og XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, og um málskostnað er vísað til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir kröfu sína á því að öll skilyrði nauðungarsölulaga hafi verið uppfyllt. Hafi sýslumanni ekki verið annað fært en að taka ákvörðun um að gerðinni skyldi framhaldið eins og hann gerði þann 27. mars 2017, enda hafi við byrjun uppboðs komið fram boð í eignina að fjárhæð 300.000 krónur frá varnaraðila, sbr. staðfest endurrit úr gerðabók sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Sóknaraðilar hafi sjálfir ritað nafn sitt í þá gerðabók þar sem þau staðfesti að gerðin hafi farið fram með þeim hætti sem þar komi fram.

Varnaraðili bendir á 71. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála en þar komi m.a. fram, að þar til annað sannast skal telja íslenskt opinbert skjal ófalsað ef það stafar frá embættis- eða sýslunarmanni eftir formi sínu og efni. Sé dómari bundinn af því við úrslausn málsins, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga. Þar til annað sannast skal efni opinbers skjals talið rétt ef það varðar tiltekið atvik sem er sagt að hafi gerst í embætti eða sýslan útgefanda. Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila um að fulltrúi sýslumanns hafi bætt inn í endurritið eftir á afar ótrúverðugan og ósannaðan.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðilar hafi lagt fram óskýra og ólögmæta hljóðupptöku sem þau segi vera úr sal sýslumanns. Samkvæmt reglum nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga og lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sé upptaka sóknaraðila ólögmæt. Ekki hafi verið fengið samþykki þeirra sem fram komi á henni og staðfest sé að upptakan hafi farið fram án vitundar þeirra. Varnaraðili fari því fram á að upptökunni verði vísað frá dómi og henni eytt, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 77/2000. Þá telur varnaraðili að auk þess að vera ólögmæt sé upptakan afar óskýr og óljós og ekki ljóst að upptakan sé af allri gerðinni, né að á henni komi allt fram sem sagt hafi verið. Varnaraðili telur því að sóknaraðilar hafi ekki hnekkt staðfestu endurriti sýslumanns, og beri þau sönnunarbyrðina fyrir fullyrðingum sínum skv. almennum reglum einkamálaréttarfars.

Um lagarök er vísað til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jafnframt er vísað til laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem til verða við rafræna vöktun. Varðandi kröfu um máls­kostnað er vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Um meðferð þessa máls fyrir dómi fer eftir XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og eftir því sem við getur átt eftir lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Sóknaraðilar byggja á því að við byrjun uppboðs á fasteigninni þann 27. mars 2017 hafi ekkert boð komið fram í eignina og beiðni varnaraðila þar með fallið niður, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 90/1991. Hafi því ekki verið lagaskilyrði um framhald uppboðs á eigninni þann 19. apríl 2017.

Í málinu liggur fyrir endurrit úr gerðabók sýslumanns um fyrirtöku málsins þann 27. mars 2017. Endurritið er staðfest með embættisstimpli sýslumanns. Telst endurritið opinbert skjal í skilningi 1. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í endurritinu kemur fram að varnaraðili hafi boðið 300.000 krónur í fasteignina. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 telst framangreint endurrit og efni þess ófalsað þar til annað sannast. Sönnun fyrir því að skjalið sé falsað eða ekki rétt hvílir á sóknaraðilum.

Sóknaraðilar byggja mál sitt á því, að á hljóðupptöku, sem þau tóku sjálf upp við byrjun uppboðs þann 27. mars 2017, komi ekki fram að leitað hafi verið eftir boðum í eignina og hafi verið bætt úr því eftir að fyrirtökunni lauk.

Um hljóðupptöku sóknaraðila er ekki við annað að styðjast en frásögn þeirra sjálfra, hvernig sú upptaka átti sér stað, hverjir voru viðstaddir og hverjir tóku til máls. Í skýrslu sóknaraðila Hafþórs fyrir dómi kom fram að hann myndi ekki nákvæmlega hverjir hefðu verið viðstaddir og í skýrslum beggja sóknaraðila kom fram að þeir sem voru viðstaddir hafi ekki vitað að hljóðupptaka væri í gangi og því hafi ekki verið leitað eftir samþykki þeirra. Sóknaraðili Ásthildur bar fyrir dómi að upptakan hafi byrjað fljótlega eftir að mál þeirra var tekið fyrir. Á upptökunni heyrist að nokkur munur er á hljóðstyrk eftir því hver er að tala og heyrist vart í sumum en alls ósannað er hverjir yfirleitt taka til máls. Þá eru þagnir í upptökunni og óvíst hvað þá fór fram auk þess sem ekki liggur fyrir hvort fyrirtökunni hafi verið lokið þegar upptöku lauk.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd eiga lögin við um sérhverja vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu slíkra upplýsinga, enda sé um að ræða upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, sbr. 1. tl. 2. gr. laganna. Í 7. og 8. gr. laganna kemur síðan fram að vinnsla upplýsinga skuli vera með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að afla skuli ótvíræðs samþykkis fyrir þeirri vinnslu. Úrskurðarvald um það hvort upptaka sóknaraðila samrýmist lögum um persónuvernd, og eftir atvikum um eyðingu þeirra upplýsinga, heyrir undir Persónuvernd. Ekki liggur fyrir að Persónuvernd hafi fjallað um eða úrskurðað um framangreint. Ekki er því hægt að vísa upptökunni frá dómi á þeirri forsendu að hún sé ólögmæt, en af öllu því sem að framan greinir um hvernig staðið var að upptökunni og vinnslu hennar, þá rýrir það verulega sönnunargildi hennar.

Þá ber jafnframt til þess að líta að í skýrslu sinni fyrir dómi bar sóknaraðili Ásthildur að hafa ritað undir í gerðabók sýslumanns þann 27. mars 2017, en kvaðst ekki muna hvort búið hafi verið að skrá inn framangreint boð. Í skýrslutöku fyrir dómi bar sóknaraðili Hafþór að hafa skrifað undir gerðabók sýslumanns í umrætt sinn, en hann hafi ekki lesið yfir alla bókunina áður en hann skrifaði undir hana.  

Með vísan til alls framangreinds hafa sóknaraðilar að mati dómsins ekki sýnt fram á það að endurrit úr þingbók sýslumanns frá 27. mars 2017 sé falsað eða að efni þeirrar þingbókar sé ekki rétt. Var því fullnægt skilyrðum 34.-36. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu til þess að framhaldssala gæti farið fram.

Samkvæmt framangreindu er ekki hægt að fallast á það með sóknaraðilum að ógilda beri nauðungarsölu á fasteigninni Háhæð 1 í Garðabæ, fastanúmer 207-0310, sem fram fór þann 19. apríl 2017, og verður því fallist á kröfu varnaraðila um viðurkenningu á gildi þeirrar framhaldssölu.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991, verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem hæfilega þykir ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurðinn kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð.

Að kröfu varnaraðila, Arion banka hf., er viðurkennt gildi nauðungarsölu á fasteigninni Háhæð 1 í Garðabæ, fastanúmer 207-0310, sem fram fór þann 19. apríl 2017.

Sóknaraðilar, Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Hafþór Ólafsson greiði varnaraðila, Arion banka hf., 250.000 krónur í málskostnað.