- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
Fimmtudaginn 26. nóvember 2015. |
Nr. 152/2015.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Andra Tómasi Jónssyni (Guðbjarni Eggertsson hrl. Arnar Kormákur Friðriksson hdl.) (Jóhannes Ásgeirsson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
A var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft munnmök við B gegn vilja hans, en A notfærði sér að hann gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Var háttsemin talin varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing A ákveðin fangelsi í 2 ár auk þess sem honum var gert að greiða B 1.000.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, til vara sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.
B krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
Ákærði hefur ekki fært fram haldbær rök fyrir þeirri kröfu að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar hans.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð greinargerð H, sálfræðings, sem brotaþoli leitaði til, um ástand hans og batahorfur. Í greinargerðinni er lýst þeim áhrifum sem sálfræðingurinn telur að kynferðisbrotið hafi haft á brotaþola. Með hliðsjón af niðurstöðu sálfræðingsins og annars sem fram er komið í málinu verður ákærði dæmdur til þess að greiða brotaþola miskabætur eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði, svo og útlagðan kostnað réttargæslumanns.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er staðfestur um refsingu ákærða, Andra Tómasar Jónssonar, og sakarkostnað.
Ákærði greiði B 1.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.200.410 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur og 52.000 krónur vegna útlagðs kostnaðar hans.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. nóvember 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 31. f.m., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 2. júlí 2014, á hendur Andra Tómasi Jónssyni, kt. [...], [...] í [...], „fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 7. apríl 2012 að [...] í [...], haft munnmök við B gegn hans vilja með því að notfæra sér að hann gat ekki spornað við munnmökunum sökum svefndrunga og ölvunar.
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu er þess enn fremur krafist að ákærða verði gert að greiða B miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2013 til greiðsludags. Þá er krafist réttargæsluþóknunar.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi og að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.
I
Hinn 14. ágúst 2013 kom B, brotaþoli í máli þessu, á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík og tilkynnti um kynferðisbrot sem hann hefði orðið fyrir árið áður. Af því tilefni var tekin af honum lögregluskýrsla 27. sama mánaðar. Þar skýrði hann svo frá að hann hafi verið í eftirpartýi í íbúð að [...] í [...] aðfaranótt 7. apríl 2012. Það hafi verið hópur af fólki í íbúðinni. Þegar liðið var á nóttina hafi hann fengið leyfi hjá húsráðanda, sem sé vinur hans, til að gista í íbúðinni. Hann hafi verið ölvaður og lagst í sófa í stofunni og sofnað þar. Hann hafi síðan vaknað við það að ákærði hafi legið í klofinu á honum og verið með typpið á honum uppi í sér. Brotaþoli hafi verið með buxurnar á hælunum og einnig hafi verið búið að draga nærbuxurnar niður um hann. Þegar hann hafi gert sér grein fyrir því sem var að gerast hafi honum brugðið ofboðslega mikið. Hann hafi strax staðið upp og gengið í hringi og reynt að ná áttum, en síðan farið inn í herbergi vinar síns og lagst upp í rúm hjá honum. Ákærði hafi yfirgefið íbúðina skömmu síðar. Þá kom fram hjá brotaþola að hann hafi hitt ákærða um það bil hálfum mánuði áður en hann fór á lögreglustöð og tilkynnti brotið. Allan þennan tíma hafi hann reynt að gleyma þessu atviki, bæla það niður, en það hafi þó plagað hann reglulega. Þegar hann hafi séð ákærða með [...] sínum, en báðir séu þeir samkynhneigðir, hafi hann hugsað með sér að nú þyrfti hann að gera eitthvað í málinu. Kvaðst hann í umrætt sinn hafa verið staddur heima hjá sér þegar ákærði hafi komið þangað í fylgd [...] brotaþola. Viðbrögð hans hafi verið þau að reka ákærða út. Hann hafi í kjölfarið ákveðið að snúa sér til lögreglu.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 27. ágúst 2013 gekkst ákærði við því að hafa haft munnmök við brotaþola þar sem þeir voru staddir í íbúð við [...] í [...]. Bjó ákærði á þessum tíma í sama húsi en í annarri íbúð. Aðspurður kvaðst hann vera samkynhneigður. Aðdraganda munnmakanna lýsti hann þannig að þeir hafi verið svolítið drukknir og við það að sofna í sófa. Hann hafi spurt brotaþola hvort hann væri vakandi og brotaþoli þá kinkað kolli. Hann hafi þessu næst spurt brotaþola hvort hann væri graður og hafi brotaþoli svarað því játandi. Þá hafi hann spurt brotaþola hvort hann mætti „fara neðan á hann og hann kinkaði aftur kolli og ég fer neðan á hann og gaf honum munnmök“. Þessu næst skýrði ákærði svo frá: „Síðan þegar aðeins lengra er komið spyr ég hann „finnst þér þetta gott“ og hann segir „já“ og þá segi ég svona í gríni „já strákar kunna að gera þetta“ og hann segir „ég sé það“ og síðan segir hann „en ég held að þú þurfir að hætta“ og ég segi okey og hætti og er að reyna að sannfæra hann um að leyfa mér þetta aftur og hann leyfir mér það ekki og fer síðan inn til vinar síns og fer að sofa þar býst ég við og ég fer bara upp til mín.“ Þegar borin var undir ákærða frásögn brotaþola af atvikinu og þeim viðbrögðum hans að hann hafi ýtt ákærða frá sér var svar ákærða svohljóðandi: „Hann ýtti mér eða þú veist, ég veit það ekki eins og ég segi, hann gaf mér viðbrögð og hann var með hálfopin augun og gaf mér viðbrögð og horfði á mig þegar ég var að segja eitthvað, spyrja hann, en eins og ég segi það var náttúrulega áfengi til staðar.“
Við lögreglurannsókn málsins voru teknar skýrslur af vitnunum C, D, E, F og G.
II
Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að hann hafi verið í vinnu til klukkan tvö eða þrjú hina umræddu nótt en þá farið í samkvæmi að [...] í [...]. Hann hafi sjálfur búið í húsinu á þessum tíma en ekki í þeirri íbúð þar sem samkvæmið var haldið. Hann hafi verið búinn að drekka áfengi áður en hann fór í samkvæmið og haldið drykkju áfram þar. Talsverð ölvun hafi verið á staðnum. Brotaþoli hafi verið staddur í samkvæminu og kvaðst ákærði ekki hafa þekkt hann á þessum tíma. Að einhverjum tíma liðnum hefðu húsráðendur verið farnir að sofa og ákærði og brotaþoli verið einu gestirnir sem eftir voru í íbúðinni. Þeir hefðu setið í sófa í stofunni og vel geti verið að hann hafi dottað eitthvað aðeins þar. Hann hafi ekki veitt því athygli hvort brotaþoli hefði sofnað. Þegar hér var komið sögu hefðu þeir ekkert verið búnir að ræða saman. Kvaðst ákærði hafa fundið fyrir löngun til að eiga kynferðisleg samskipti við brotaþola. Þeir hefðu ekkert rætt um kynhneigð sína. Mál hefðu síðan þróast með þeim hætti að hann hafi haft munnmök við brotaþola. Lýsti hann aðdraganda þeirra og hvernig þeim lauk með svipuðum hætti og í skýrslu hjá lögreglu og svo sem áður er rakið. Kvaðst hann líta svo á að brotaþoli hafi verið því samþykkur að ákærði hefði við hann munnmök og vísaði þar um sérstaklega til þess að brotaþoli hafi svarað því játandi þegar ákærði hafi spurt hvort hann væri vakandi, hann hafi kinkað kolli þegar ákærði hafi spurt hvort hann væri graður og loks játað því þegar ákærði hafi spurt hvort hann mætti „fara niður á hann“. Þá hafi brotaþoli í góðu beðið hann um að hætta og ekkert hækkað róminn eða ýtt ákærða frá sér. Ekki eigi að skýra framburð ákærða um síðastnefnda atriðið í skýrslu hans hjá lögreglu á þann veg að þar sé um gagnstæðan framburð að ræða. Þegar ákærði var inntur eftir því hvort brotaþoli hafi verið með opin augu meðan á þessu stóð svaraði ákærði því til að brotaþoli hafi verið þreytulegur og með augun hálfopin. Nánar aðspurður um undanfara munnmakanna skýrði ákærði svo frá að hann hafi dregið buxur og nærbuxur, sem brotaþoli var klæddur í, niður að hnjám og að limurinn á brotaþola hafi verið í fullri reisn þegar ákærði var að hneppa frá buxunum. Brotaþoli hafi ekkert streist á móti þegar ákærði girti niður um hann. Þótt brotaþoli hafi verið eitthvað ölvaður hafi hann virst vera með fullum sönsum. Sjálfur kvaðst hann hafa verið ölvaður, en þó ekki „hauslaus eins og maður segir“. Að munnmökunum afstöðnum, en þau hefðu staðið yfir í 3-5 mínútur, hafi brotaþoli farið út til að reykja og kvaðst ákærði hafa fylgt honum þangað og fengið hjá honum sígarettu. Þeir hefðu mögulega rætt eitthvað saman. Í kjölfarið hafi brotaþoli farið inn í herbergi til félaga síns, annars húsráðenda, og ákærði yfirgefið íbúðina. Aðspurður kvaðst ákærði hafa rekist á brotaþola nokkrum sinnum eftir þetta atvik. Nefndi hann sérstaklega í því sambandi atvik sem varð á síðasta ári. Skýrði hann svo frá að hann hafi hitt [...] brotaþola og farið með honum heim. Þar hafi brotaþoli verið, brugðist ókvæða við þegar hann sá ákærða, sagt honum í tvígang „að drulla sér út“ og að hann myndi ganga í skrokk á ákærða ef hann sæi hann aftur.
Í upphafi skýrslu sinnar fyrir dómi svaraði brotaþoli því til, þegar hann var spurður um kynhneigð sína, að hann væri gagnkynhneigður. Aðspurður kvaðst hann hafa komið í samkvæmið að [...] á milli klukkan 3 og 4 aðfaranótt 7. apríl 2012, en vinur hans G hafi verið gestgjafi. Hann hafi verið talsvert ölvaður þegar hann kom í samkvæmið, verið búinn að drekka 6 til 10 bjóra, og haldið áfram að drekka þar en mundi ekki hversu mikið það var. Hann hafi spjallað við gesti, vinnufélaga og einnig fólk sem hann hafði ekki hitt áður, þar á meðal ákærða. Þeir hefðu eitthvað rætt saman. Kynhneigð ákærða hafi ekkert borist í tal en brotaþola hafi fundist ákærði sýna sér kynferðislegan áhuga. Þannig hafi ákærði komið nálægt brotaþola og reynt við hann að því er honum fannst. Tiltók hann sérstaklega að ákærði hafi strokið á honum lærið. Hafi brotaþola fundist þetta óþægilegt. Í stað þess að vera vandræðalegur vegna þessa hafi brotaþoli ákveðið að vera léttur í lund. Hann hafi þó ekki sýnt ákærða kynferðislegan áhuga og alls ekki hafi staðið til að eiga einhver slík samskipti við hann. Hann hafi frekar reynt að forðast ákærða. Þegar talsvert var liðið á nóttina, en tímaskyn hans hafi á þessum tíma verið orðið nokkuð brenglað, hafi hann fengið samþykki húsráðanda fyrir því að fá að sofa á sófa í stofunni. Þar hafi hann sofnað en vaknað við það að búið var að draga buxurnar niður um hann og að ákærði var að sjúga á honum typpið. Honum hafi brugðið mikið þegar hann sá hvað var að gerast, ýtt ákærða frá sér og staðið upp. Hann hafi þessu næst ráfað um íbúðina en síðan farið út til að reykja. Ákærði hafi þá komið til hans og þeir átt einhver orðaskipti sem staðið hefðu í mjög skamman tíma og lokið með því að brotaþoli fór inn í herbergi til G. Þar hafi hann lagst til svefns þegar hann taldi sig hafa vissu fyrir því að ákærði hefði yfirgefið íbúðina. Aðspurður kvaðst brotaþoli hafi verið orðinn mikið ölvaður þegar hann fór að sofa í stofunni, nánast „áfengisdauður“. Hann hafi einnig verið mjög þreyttur. Sjokkið þegar hann vaknaði, að því er hann taldi nokkrum klukkutímum síðar, hafi verið gríðarlegt og það hafi tekið hann nokkrar sekúndur að átti sig á því sem var að gerast. Hann hafi staðið upp í flýti og orðið ofsahræddur. Hann hafi ekki haft hugmynd um hversu lengi þetta hafði staðið yfir. Getnaðarlimur hans hafi verið í fullri reisn þegar hann rankaði við sér. Í fyrstu hafi hann ekki vitað hvernig hann ætti að bregðast við þessu en byrjað á því að ýta ákærða frá sér. Morguninn eftir hafi hann svo farið í vinnu en sífellt verið að hugsa um þetta atvik. Hann hafi strax þennan morgun sagt vinnufélaga sínum, F, frá þessu og síðan mörgum fleirum, þ.e. kærustu, vinum og fjölskyldu. Aðspurður um ástæðu þess að hann lagði ekki fram kæru á hendur ákærða fyrr en rúmu ári eftir atvikið svaraði brotaþoli því til að hann hafi skammast sín. Vinur hans hafi svo lent í svipuðu atviki og hann hafi styrkt brotaþola í sínu máli. Kvaðst brotaþoli að endingu hafa gert sér grein fyrir því að hann þyrfti að loka þessu máli. Það þegar ákærði kom heim með [...] hans hafi einnig haft sitt að segja, það hafi orðið til þess að endurvekja minningar hans um atvikið. Í lok skýrslu sinnar gerði brotaþoli grein fyrir erfiðleikum sem hann hafi þurft að glíma við að undanförnu og sem hann rekur í öllu falli að stærstum hluta til þess atviks sem hér er til umfjöllunar. Hann eigi við þunglyndi að stríða, áfengisdrykkja hans hafi aukist frá því sem áður var og hann hafi byrjað að neyta fíkniefna. Hann hafi leitað sér sálfræðiaðstoðar vegna þessa í nóvember 2013 og alls sótt þrjá tíma hjá sálfræðingi.
Vitnið C, sem er vinur ákærða, skýrði svo frá í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi farið í samkvæmi í íbúð að [...] í [...] aðfaranótt 7. apríl 2012. Hann hafi sofnað á sófa í stofunni, klukkan þrjú að því er hann taldi. Þá verður framburður hans ekki skilinn á annan veg en þann að ákærði og brotaþoli hafi þá setið í sófanum líka. Þeir hefðu allir verið frekar drukknir. Þegar hann vaknaði um það bil þremur klukkustundum síðar hefðu ákærði og brotaþoli verið sofandi í sófanum, þeir þrír hefðu legið þarna í einni kös. Kvaðst hann telja að hann hafi verið fyrstur til að sofna. Í skýrslunni kvaðst hann ekki minnast þess að hann hafi vaknað af einhverri sérstakri ástæðu. Þegar borinn var undir hann framburður hans hjá lögreglu rifjaðist upp fyrir honum að hann hafi verið á milli ákærða og brotaþola. Þegar hann vaknaði hafi ákærði haldið utan um hann og verið að knúsa hann. Hafi honum fundist þetta óþægilegt, en ekki hugsað frekar út í þetta og talið að ákærði væri sofandi og gerði sér ekki grein fyrir þessu. Hann hafi staðið upp og yfirgefið íbúðina.
Vitnið F kvaðst í skýrslu sinni hafa verið vinnufélagi brotaþola í apríl 2012. Þeir hefðu þá unnið saman á veitingastaðnum [...]. Einn morguninn þegar þeir voru nýmættir til vinnu hafi brotaþoli sagt vitninu frá því að hann hefði verið að koma úr samkvæmi, hann hefði sofnað þar og vaknað við það að strákur var með typpið á honum uppi í sér. Honum hafi brugðið og ýtt gerandanum frá sér. Kvaðst F hafa séð það á brotaþola að honum leið ekki vel.
Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði vitnið G svo frá að þegar lokið var samkvæmi sem haldið var í íbúð hans að [...] í [...] aðfaranótt 7. apríl 2012 hafi brotaþoli komið inn í herbergi hans, skriðið upp í rúm til hans og sofnað þar. Honum hafi fundist þetta skrýtið enda hafi þetta ekki gerst áður. Hann hafi þó ekki orðið var við neitt óeðlilegt þegar brotaþoli kom inn í herbergið og lagðist við hlið hans. Nokkrum vikum síðar, líklega þremur til fjórum, hafi brotaþoli sagt honum frá því að þessa nótt hafi hann sofnað á sófa í stofu íbúðarinnar og vaknað við það að búið var að klæða hann úr buxunum og að ákærði hafi verið að hafa við hann munnmök án hans samþykkis. Hafi brotaþoli verið í uppnámi út af þessu. Aðspurður um ölvunarástand brotaþola svaraði G því til að hann hafi verið talsvert ölvaður, hann hafi í öllu falli sofnað í íbúðinni í stað þess að fara heim til sín. Þá gat hann ekkert sagt um ölvunarástand ákærða.
Í skýrslu vitnisins D kom fram að nokkrum dögum eftir að umrætt atvik átti sér stað hafi brotaþoli viljað fá að tala við hann einslega til að segja honum frá einhverju, en þeir hafi lengi verið vinir. Brotaþoli hafi verið lengi að koma sér að því að segja það sem hann vildi segja, litið út eins og hann hefði séð draug, en að endingu skýrt frá því að hann hefði sofnað í samkvæmi og vaknað við það að strákur var að hafa við hann munnmök. Hann hafi frosið, en svo ýtt stráknum frá sér, staðið upp og ráfað um íbúðina og ekki vitað hvað hann átti að gera. Brotaþoli hafi ekki nafngreint þennan strák en D hafi síðar komist að því hver þetta væri.
Í skýrslu sinni rakti vitnið E, sem er unnusta og barnsmóðir brotaþola, frásögn brotaþola af því með hvaða hætti hafi verið brotið gegn honum í umrætt sinn og viðbrögð hans. Var sú lýsing í fullu samræmi við vitnisburð brotaþola. Fram kom hjá E að hún og brotaþoli hafi tekið upp samband í ársbyrjun 2013 og að hann hafi sagt henni frá atvikinu sumarið 2013 í kjölfar þess að ákærði kom heim til þeirra í fylgd [...] brotaþola. Þegar brotaþoli sá ákærða hefðu viðbrögð hans orðið mjög sérstök. Hann hafi öskrað, farið að gráta og sagt að þetta væri maðurinn sem hefði nauðgað honum. Hún hafi hvatt hann til að kæra málið til lögreglu og leita sér aðstoðar.
III
Í málinu er ákærði borinn sökum um nauðgun með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 7. apríl 2012 í íbúð að [...] í [...] haft munnmök við B gegn vilja hans með því að notfæra sér að hann gat ekki spornað við þeim sökum svefndrunga og ölvunar.
Fyrir liggur að samkvæmi var í íbúðinni þessa nótt og að ákærði og brotaþoli voru þar gestkomandi ásamt fleira fólki. Framburður brotaþola hefur verið á þá leið að hann hafi verið orðinn mjög ölvaður og þreyttur þegar leið á nóttina og að hann hafi sofnað í sófa í stofunni. Hann hafi síðan vaknað við það að ákærði var að sjúga á honum typpið. Það hafi tekið hann nokkra stund að átta sig á því sem var að gerast en þegar það rann upp fyrir honum hafi hann ýtt við ákærða og staðið upp. Ákærði hefur gengist við því að hafa haft munnmök við brotaþola en staðhæfir að brotaþoli hafi veitt samþykki sitt fyrir þeim.
Fyrir liggur með vætti vitnanna F, G og D að brotaþoli skýrði þeim frá því atviki sem saksókn á hendur ákærða tekur til stuttu eftir að það gerðist. Þá hefur brotaþoli gefið trúverðuga skýringu á þeim drætti sem varð á því af hans hálfu að leggja fram kæru á hendur ákærða. Í ljósi þessa verður það ekki metið brotaþola í óhag að kæra var ekki lögð fram fyrr en raun varð á. Vitnisburður hans um atvikið sjálft og það hvernig hann brást við því er og trúverðugur og fær frásögn hans um samskipti hans og ákærða fyrr um nóttina, sem hann fyrst greindi frá fyrir dómi, ekki haggað því mati dómsins. Þá fær vitnisburður brotaþola um ölvunarástand hans stoð í vitnisburði C og húsráðanda, G. Fram er komið að ákærði var ölvaður.
Í vitnisburði C, sem var á meðal gesta í samkvæminu og kom þangað í fylgd ákærða, kom fram að hann hafi sofnað í sófa í stofu íbúðarinnar um klukkan þrjú um nóttina. Þegar hann hafi vaknað um það bil þremur klukkustundum síðar hefðu ákærði og brotaþoli líka legið í sófanum og verið sofandi. Þeir hefðu legið þarna í einni kös og hann verið á milli þeirra. Ákærði hafi haldið utan um hann. Hann hafi staðið upp og yfirgefið íbúðina og ákærði og brotaþoli þá enn verið sofandi. Af þessum vitnisburði og framburði ákærða og brotaþola um atvik í kjölfar þess að munnmökunum lauk má telja í ljós leitt að þau hafi átt sér stað eftir að C skildi við þá sofandi í sófa í stofu íbúðarinnar, en svo sem að framan greinir telur hann að þá hafi verið komið fram undir morgun. Samræmist þessi vitnisburður fyllilega framburði brotaþola um málsatvik og rennir þannig stoðum undir hann. Í framburði sínum kvaðst ákærði á hinn bóginn ekki minnast þess að hann hafi sofnað í íbúðinni, en taldi sig þó ekki geta útilokað að hann hafi dottað aðeins. Þá rak hann ekki minni til þess að brotaþoli hafi sofnað.
Ákærði og brotaþoli þekktust ekki þegar fundum þeirra bar saman hina umræddu nótt. Varðandi tjáskipti þeirra í aðdraganda þess að ákærði hafði munnmök við brotaþola og meðvitundarástand brotaþola á þeim tíma skýrði ákærði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi, eins og og áður er nánar rakið, að hann hafi beint þremur spurningum til brotaþola sem brotaþoli hafi ýmist brugðist við með því einu að kinka kolli eða segja já, en ekki var fullt samræmi í framburði ákærða hvað þetta varðar. Samkvæmt þeirri frásögn ákærða sem að þessu snýr sá hann ástæðu til að inna brotaþola sérstaklega eftir því hvort hann væri vakandi. Þá bar ákærði á þann veg fyrir dómi að brotaþoli hafi verið með hálfopin augu og hann hafi verið þreytulegur. Við skýrslugjöf hjá lögreglu orðaði ákærði þetta svo að „[brotaþoli] var með hálfopin augun og gaf mér viðbrögð og horfði á mig þegar ég var að segja eitthvað, spyrja hann, en eins og ég segi það var náttúrulega áfengi til staðar“. Loks er til þess að líta að ekki verður annað séð en að ákærði hafi í skýrslu sinni hjá lögreglu gengist við því að brotaþoli hafi ýtt við honum um það bil sem munnmökunum lauk. Hann dró þetta reyndar til baka síðar í skýrslutökunni og áréttaði þann framburð sinn fyrir dómi.
Þegar ákærði fékk löngun til að eiga kynferðislegt samneyti við brotaþola hafði hann síður en svo ástæðu til að ætla að brotaþoli væri því samþykkur. Þá felur lýsing ákærða á ætluðu samþykki brotaþola og atvikum að öðru leyti í aðdraganda munnmakanna í besta falli í sér að það hafi verið óljóst.
Að því virtu sem að framan er rakið er það mat dómsins að ákærða hafi í öllu falli hlotið að vera ljóst að hann væri að ganga lengra en hann hafði ástæðu til að ætla sér heimilt og notfært sér þannig svefndrunga brotaþola vegna þreytu og undanfarandi áfengisdrykkju til að hafa við hann munnmök. Er samkvæmt þessu talið nægilega sannað, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. til hliðsjónar dómur Hæstaréttar frá 30. janúar 2014 í máli nr. 439/2013.
IV
Ákærði er fæddur í [...]. Hann hefur ekki áður hlotið refsidóm. Samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga skal sá sem gerist sekur um kynferðisbrot af því tagi, sem ákærði er sakfelldur fyrir, sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Með lögfestingu 3. gr. laga nr. 61/2007, en hún fól í sér breytingu á tilvitnuðu ákvæði almennra hegningarlaga, hefur löggjafinn metið slíkt kynferðisbrot alvarlegt og ekki gert greinarmun á af hvoru kyni brotaþoli sé. Að framangreindu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár.
V
Með þeirri háttsemi sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér skyldu til að greiða brotaþola miskabætur, sbr. b. liður 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Engra gagna nýtur um miska brotaþola og haldbærar upplýsingar þar að lútandi liggja ekki fyrir með öðrum hætti. Þetta breytir því á hinn bóginn ekki að verknaður af því tagi sem hér um ræðir er ótvírætt til þess fallinn að valda þeim sem fyrir verður nokkrum miska. Er því rétt að dæma brotaþola bætur úr hendi ákærða, sem þykja hæfilega ákveðnar 800.000 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.
Þorgeir Ingi Njálsson, Bogi Hjálmtýsson og Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómarar dæma mál þetta.
D ó m s o r ð
Ákærði, Andri Tómas Jónsson, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði B 800.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2013 til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðbjarna Eggertssonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 188.250 krónur.