Print

Mál nr. 200/2012

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Rán
  • Tilraun
  • Skaðabætur
  • Sérálit

                                     

Fimmtudaginn 20. september 2012.

Nr.200/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Stefáni Þór Guðgeirssyni

(Brynjar Níelsson hrl.

Guðbjarni Eggertsson hdl.)

(Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Rán. Tilraun. Skaðabætur. Sérálit.

S var sakfelldur fyrir tilraun til brots gegn 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa á dvalarstað A boðið greiðslu fyrir vændi, lagt féð frá sér í íbúð hennar og óskað eftir kynlífsþjónustu. S var einnig sakfelldur fyrir 1. mgr. 194. gr. og 252. gr. sömu laga með því að hafa þröngvað A með ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka, er hún neitaði að verða við ósk S um kynlíf, og tekið fartölvu hennar er hann hafði sig á brott úr íbúðinni. Með broti S rauf hann skilorð samkvæmt eldri dómi og var refsing hans ákveðin fangelsi í fimm ár, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Þá var S dæmdur til að greiða A nánar tilgreindar miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. desember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar á sakfellingu ákærða, en refsing hans verði þyngd.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa 20. september 2009 á dvalarstað brotaþola greitt henni 20.000 krónur fyrir vændi, lagt féð á borð í íbúð hennar eftir að hann kom þangað inn og óskað eftir kynlífsþjónustu. Í ákæru er þetta talið varða við 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er honum gefið að sök er brotaþoli neitaði þeirri þjónustu að hafa þröngvað henni með ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka. Hafi ákærði meðal annars slegið brotaþola í andlitið, er hann hafi haft við hana munnmök, slegið hana með hálskeðju í læri, og haldið höndum hennar meðan hann hafði við hana samræði. Að því loknu hafi hann tekið um hár hennar, dregið hana á hárinu um íbúðina, brotið leirtau, hótað henni að svipta hana vegabréfi sínu, ógnað henni með hnífi, hótað henni lífláti, sprautað yfir hana og íbúðina úr slökkvitæki, neytt hana til að afhenda sér 20.000 krónur og tekið fartölvu hennar er hann hafði sig á brott úr íbúðinni. Er þessi háttsemi hans talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði var sýknaður í héraði af þeim sakargiftum að hafa slegið brotaþola í andlitið, dregið hana á hárinu og ógnað henni með hnífi. Ákæruvaldið unir við þá niðurstöðu.

Ákærði hefur viðurkennt við rannsókn málsins og fyrir dómi að hann hafi hringt í brotaþola og falast eftir kynlífi gegn greiðslu, komið í framhaldi þess á heimili hennar í því skyni og greitt henni 20.000 krónur fyrir „tott án smokks“. Hann hafi síðan viljað fá til baka peningana, sem hafi legið á hillu við rúm í íbúð brotaþola, þar sem hún hafi ekki viljað veita þá þjónustu sem hann bað um. Til stympinga hafi komið milli þeirra og „þegar við fórum að rífast og ég var að ná í peninginn og tölvuna og þá hélt ég henni bara frá mér.“ Nánar aðspurður um þetta kvaðst hann hafa ýtt henni frá til að komast að tölvunni og peningunum, sem hann hafi svo haft á brott með sér. Brotaþoli hefur neitað að um hafi samist með þeim að hún myndi veita ákærða kynlífsþjónustu þegar hann kæmi á heimili hennar. Hún hafi sagt honum að hún væri þreytt og beðið hann um að koma seinna. Hann hafi neitað því og tekið upp 20.000 krónur, sett á borðið og heimtað þjónustu. Í kjölfarið hafi hann neytt sig til kynmaka og sagt að hún hefði stolið 20.000 krónunum sem hann hafði sett á borðið og hún þá látið hann hafa úr veski sínu 20.000 krónur, þar sem hún hafi gert sér grein fyrir að ekki þýddi að öskra, þar sem enginn myndi heyra til hennar. Ákærði hefur hins vegar neitað að hafa haft á brott með sér aðra peninga en þá sem hann kom með í því skyni að fá kynlífsþjónustu hjá brotaþola.

Samkvæmt 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga er sú háttsemi refsiverð að greiða eða heita greiðslu fyrir vændi. Ljóst er af skýrslum ákærða og brotaþola að hann hét henni 20.000 króna greiðslu og lagði hana fram. Brotaþoli hefur neitað því að hún hafi orðið við ósk ákærða um kynlíf gegn greiðslu og hafi hún ekki tekið við greiðslunni. Samkvæmt þessu hefur ákærði ekki gerst sekur um fullframið brot gegn þessu ákvæði almennra hegningarlaga, en háttsemi hans fól í sér tilraun til slíks brots, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna. Hann verður því sakfelldur fyrir það, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Hæstaréttardómarinn Ingibjörg Benediktsdóttir gerir þá athugasemd að framangreind háttsemi ákærða hafi falið í sér fullframið brot gegn 1. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga.

Í skýrslu fyrir dómi kannaðist brotaþoli ekki við að ákærði hafi hótað henni lífláti og verður hann þegar af þeirri ástæðu sýknaður af þeirri háttsemi. Í forsendum hins áfrýjaða dóms er fullyrt að brotaþoli hafi ekki greint frá því í viðtali við lækni við réttarlæknisfræðilega skoðun á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis að ákærði hafi sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri hennar. Ljóst er af gögnum neyðarmóttökunnar að brotaþoli skýrði frá þessu og gætti því ekki misræmis í frásögn hennar um þetta atriði. Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti verður staðfest niðurstaða hans um að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa þröngvað brotaþola með líkamlegu ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka, slegið hana í læri, sprautað úr slökkvitæki og hótað henni að svipta hana vegabréfi hennar, allt eins og nánar er lýst í héraðsdómi.

Eins og að framan segir hefur ákærði játað að hann hafi beitt valdi þegar hann tók tölvu brotaþola á brott með sér ófrjálsri hendi og varðar sú háttsemi hans við 252. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur hins vegar neitað að hafa slegið eign sinni á þá peninga, sem brotaþoli kvaðst hafa tekið úr veski sínu. Hann hafi á hinn bóginn tekið þá peninga sem hann hafi lagt á borðið. Gegn neitun ákærða telst ósannað að hann hafi slegið eign sinni á peninga í eigu brotaþola og verður hann því sýknaður af þeirri háttsemi.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð gögn sem staðfesta að ákærði var með dómi héraðsdóms Nordhorn í Þýskalandi 22. nóvember 2007 dæmdur í 21 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir fíkniefnalagabrot. Ákærði hefur með brotum þeim sem hann er hér sakfelldur fyrir rofið skilorð dómsins og ber því að taka hann upp og dæma í einu lagi með máli þessu, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Er refsing hans með vísan til þeirra atriða sem um hana er fjallað í héraðsdómi og 77. gr. almennra hegningarlaga ákveðin fangelsi í 5 ár.

Í málinu krefst brotaþoli miskabóta að fjárhæð 1.800.000 krónur auk tilgreindra vaxta. Í greinargerð með bótakröfu hennar segir að brot ákærða hafi valdið henni gífurlegu andlegu tjóni og að hún hafi átt í andlegum erfiðleikum eftir brotið. Ljóst er að brot ákærða hefur valdið brotaþola miska en hún hefur ekki lagt fram viðhlítandi gögn um andlega líðan sína eftir að brotið var framið. Með hliðsjón af því eru miskabætur henni til handa ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Stefán Þór Guðgeirsson, sæti fangelsi í 5 ár.

Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 625.802 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 11. júlí 2011 á hendur Stefáni Þór Guðgeirssyni, kennitala [...], [...], Reykjavík, fyrir kynferðisbrot og rán með því að hafa þann 20. september 2009, á dvalarstað A, að [...],[...], greitt henni 20.000 krónur fyrir vændi, en ákærði kom inn í íbúð hennar, lagði peningana á borðið og óskaði eftir kynlífsþjónustu. Er A neitaði honum um það þröngvaði ákærði henni með ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka, en m.a. sló ákærði hana í andlit er hann hafði við hana munnmök, sló hana með hálskeðju í læri, og hélt höndum hennar meðan hann hafði við hana samræði. Að því loknu tók ákærði um hár hennar, dró hana á hárinu um íbúðina, braut leirtau, hótaði henni því að svipta hana vegabréfi sínu, ógnaði henni með hnífi, hótaði henni lífláti, sprautaði yfir hana og íbúð hennar úr slökkvitæki og neyddi hana til að afhenda sér 20.000 krónur auk þess sem hann tók fartölvu í eigu A með sér er hann hafði sig á brott. Af þessu hlaut A húðrispu á vinstra læri.

Er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 206. gr., 1. mgr. 194. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

A, kennitala [...], krefst miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. september 2009 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, auk kostnaðar vegna þóknunar við réttargæslu.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Sunnudaginn 20. september 2009 tilkynnti hjúkrunarfræðingur á Neyðarmóttöku lögreglu um að S, brotaþoli í máli þessu, hefði leitað aðstoðar á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar fyrr þann sama dag. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að rannsóknarlögreglumaður hafi þegar farið á Neyðarmóttöku og rætt þar við brotaþola. Auk brotaþola hafi verið á staðnum B, vinur brotaþola, en fram hafi komið að B hafi aðstoðað brotaþola eftir að atburðir hafi átt sér stað. Brotaþoli hafi verið þreytuleg að sjá en hún hafi gefið frásögn af atburðum. Fram kom að hún hafi auglýst svokallaða nuddþjónustu í [...]. Um hádegisbil á sunnudeginum hafi maður hringt í brotaþola úr farsíma og óskað eftir nuddi. Skömmu síðar hafi maðurinn komið en þá komið í ljós að brotaþoli hafi hitt manninn um fjórum vikum áður hjá kunningjafólki sínu. Brotaþoli hafi gert grein fyrir því að hún væri veik og gæti því ekki nuddað manninn. Maðurinn hafi gengið hart að henni og slegið hana í andlitið. Þá hafi hann sagt að hann þekkti fullt af fólki og að hann gæti látið vísa henni úr landi án vandkvæða. Þau hafi rifist í einhverja stund og maðurinn því næst ráðist á hana og lamið hana í andlitið. Einnig hafi hann dregið hana um á hárinu og ógnað henni með slökkvitæki. Maðurinn hafi tekið af henni 20.000 krónur í reiðufé og fartölvu í hennar eigu. Að því loknu hafi hann neytt hana til munnmaka við sig. Í frásögn brotaþola hafi einnig komið fram að maðurinn hafi lagt hníf að hálsi brotaþola, en þann hníf hafi maðurinn tekið úr hnífaskúffu í herbergi brotaþola. Hnífinn hafi maðurinn haft með sér af vettvangi. Maðurinn hafi slegið brotaþola fast á vinstra læri með gullkeðju sem hann hafi verið með um hálsinn. Maðurinn hafi síðan þröngvað henni til kynmaka og notað smokk við það. Kynmökin hafi farið fram í rúmi brotaþola.

Í skýrslu lögreglu kemur fram að í framhaldi af viðtali á Neyðarmóttöku hafi rannsóknarlögreglumaður farið á heimili brotaþola. Brotaþoli og B hafi verið með í för. Fram kemur að heimili brotaþola að [...]  í [...] hafi verið í herbergi nr. [...]. Á vettvangi hafi mátt sjá glerbrot víða í herberginu. Í frásögn brotaþola hafi komið fram að maðurinn hafi sprautað á hana úr slökkvitæki og ógnað henni með því. Á gólfi við fótagafl á rúmi hafi mátt sjá smokk og SIM-kort úr farsíma. Á náttborði hafi verið umbúðir utan af smokk. Lögreglumaður frá tæknideild hafi annast tæknirannsókn málsins. Að rannsókn á vettvangi lokinni kl. 18.30 hafi lögreglumenn farið að heimili Stefáns Þórs Guðgeirssonar, ákærða í máli þessu. Að sögn foreldra ákærða hafi ákærði verið úti alla nóttina en komið heim eftir kl. 12.30 á sunnudeginum. Hafi hann verið sóttur af vinkonu sinni um klukkustundu síðar. Án árangurs hafi verið reynt að ná sambandi við ákærða. Um kl. 19.15 hafi ákærði haft samband við lögreglu. Hafi honum verið gerð grein fyrir því að lögregla þyrfti að ná tali af honum. Ákærði hafi lofað að mæta til skýrslutöku en ekki verið mættur kl. 20.32.

Í skýrslu rannsóknarlögreglumanns frá 21. september 2009 kemur fram að brotaþoli hafi greint lögreglu frá því að ákærði hafi verið undir áhrifum fíkniefna og boðið brotaþola kókaín. Eftir að ákærði hafi yfirgefið íbúð brotaþola hafi brotaþoli haft samband við vinkonu sína og vinur hennar, maður að nafni B komið og aðstoðað brotaþola við að komast á Neyðarmóttöku. Þá hafi brotaþoli haft samband við C og hann ætlað að hringja í ákærða. C hafi greint brotaþola frá því að lögregla hafi tekið tölvu er ákærði hafi tekið frá brotaþola. Í skýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi hringt til lögreglu eftir að lögreglumenn hafi farið að heimili hans 20. september 2009. Hafi hann greint lögreglu frá því að hann væri á leið á lögreglustöð. Hafi ákærði fyrir mistök hringt í lögreglu og greint frá því að leigubifreiðastjóri væri á leið með fartölvu og 20.000 krónur að vídeóleigunni [...] í við [...]. Leigubifreiðastjóri hafi hringt í símanúmer lögreglu og talið sig vera að hringja í þann sem taka ætti við tölvunni. Skömmu síðar hafi leigubifreiðastjórinn komið á staðinn og verð með meðferðis fartölvu og 23.000 krónur í reiðufé. Hafi leigubifreiðastjórinn greint frá því að maður hafi komið að máli við sig og óskað eftir því að fartölvu ásamt peningum yrði skutla upp í [...]. Hafi maðurinn gefið upp farsímanúmer viðtakanda. Fyrir viðvikið hafi leigubifreiðastjórinn átt að fá 3.000 krónur. Símanúmer viðtakandans hafi hins vegar verið símanúmer hjá lögreglu. Er lögregla hafi verið stödd á gatnamótum [...] og [...] hafi C komið þangað. Hafi hann verið að tala í farsíma og sagt við viðmælanda sinn að hann sæi ekki neina leigubifreið. Hafi C verið færður á lögreglustöð. Hafi hann greint lögreglu frá því að brotaþoli hafi tjáð C að maður hafi ráðist á hana fyrr þennan dag og tekið frá henni fartölvu og 20.000 krónur í reiðufé. C hafi fengið símanúmer mannsins og hringt í hann. Hafi hann sagt manninum að hann yrði að skila tölvunni og fjármununum. Maðurinn hafi verið hræddur og lofað að senda tölvuna og peningana að vídeóleigunni [...] við [...]. Hafi C ætlað að ná í tölvuna er lögregla hafi haft afskipti af honum. Í niðurlagi skýrslu lögreglu kemur fram að ákærði hafi komið á lögreglustöð. Hafi hann í framhaldi verið færður í réttarlæknisfræðilega skoðun.

Rituð hefur verið skýrsla 20. september 2009 um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola. Fram kemur að brotaþoli hafi komið á Neyðarmóttöku þennan dag kl. 15.30. Í skýrsluna er færð frásögn brotaþola af atvikum. Fram kemur að brotaþoli hafi verið samhengislaus í framsetningu og fengið grátköst. Hafi hún verið í hnipri og með skjálfta. Þá hafi hún verið með vöðvaspennu. Hafi hún greinilega verið syfjuð og þreytt. Ekki hafi verið að sjá að hún væri undir áhrifum áfengis eða lyfja. Hafi hún verið hrædd þar sem árásarmaðurinn hafi hótað henni og sagt að hann ætlaði að sjá til þess að henni yrði vísað úr landi. Þá hafi hann hótað henni því að hann skyldi sjá til þess að hún myndi missa húsnæði sitt. Í skýrsluna er skráð að kynmök hafi átt sér stað um leggöng og að getnaðarlimur hafi verið settur í munn. Káfað hafi verið á kynfærum, brjóstum og rassi. Árásarmaðurinn hafi haft sáðlát á kvið. Við skoðun hafi komið fram húðrispa á vinstra læri ofan við hné. Tekin hafi verið sýni til DNA rannsóknar úr munni, af kvið, af vinstri eyrnasnepli, af ytri kynfærum, leggöngum og leghálsi. Fram kemur að aðskotahlutur, líklega pappír, hafi verið efst í ,,vagina“. Í niðurstöðu læknis kemur m.a. fram að árásarmaðurinn hafi neytt brotaþola til að hafa við sig munnmök. Hafi hann sleikt á henni kynfærin og nauðgað henni í leggöng. Þá hafi hann haft sáðlát á kvið brotaþola. Hafi hún þurrkað það af sér. Ekki hafi verið að sjá áverkamerki á kynfærum. Brotaþoli hafi ekki kannast við að hafa komið fyrir aðskotahlut efst í ,,vagina“.  

Á meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla tæknideildar lögreglu vegna rannsóknar á gögnum sem safnað var á Neyðarmóttöku. Fram kemur að sýni á fimm smásjárglerjum frá Neyðarmóttöku hafi verið tekin til skoðunar 24. september 2009. Hafi þau verið merkt vulva (ytri burðarbarmar), vagina (leggöng), cervix (legháls), kviður og munnur. Þekjufrumur hafi verið sjáanlegar í smásjá á öllum sýnum en sáðfrumur að því er varði sýni úr ytri burðarbörmum, leggöngum og legháls. Að skoðun lokinni hafi sýni verið varðveitt í tæknideild lögreglu. Sýni hafi aftur verið tekin til skoðunar 1. október 2009 og þá með sérstöku sæðisprófi. Sáðfrumur hafi verið greinanlegar í þeim sýnum er þau hafi áður verið greind í. Til viðbótar hafi sýni af kvið greinst með sáðfrumum. Ekki hafi sýni úr munni greinst með sáðfrumum. Sýni af eyra hafi ekki verið tekin til greiningar þar sem brotaþoli hafi greint frá því að árásarmaðurinn hafi sleikt á brotaþola eyrað. Til staðar hafi þar með getað verið þekjufrumur, sem ekki sé unnt að rannsaka í tæknideild lögreglu. Aðskotahlutur í leggöngum hafi verið skoðaður. Um hafi verið að ræða ljósbrúnan eða drapplitaðan köggul. Útlit hafi bent til að um væri að ræða einhvers konar pappír. Köggullinn hafi ekki verið tekinn til formlegrar rannsóknar.

Á meðal rannsóknargagna er skýrsla tæknideildar lögreglu vegna vettvangsrannsóknar að [...] í [...]. Fram kemur að herbergi nr. [...] sé um 9 m2 að stærð. Í herberginu hafi verið eldhúsinnrétting og aðstaða til eldunar. Einnig lítið snyrtiherbergi. Þá sé í herberginu eitt rúm, borð og fataskápur, auk innréttingar. Allt hafi herbergið verið hið snyrtilegasta að sjá og óreiða lítil. Svo virðist sem átök hafi átt sér stað inni í herberginu. Leirtau hafi verið brotið og brot legið á borði eldhúsinnréttingar og á gólfi. Þá hafi vatni verið sprautað úr slökkvitæki á borð og á gólf. Hafi slökkvitækið verið á borði í herberginu. Ljósmyndir af vettvangi eru í skýrslu tæknideildar.

 Á meðal rannsóknargagna er skýrsla tæknideildar lögreglu um læknisfræðilega skoðun á ákærða. Við skoðunina voru tekin sýni til DNA rannsóknar úr ákærða, auk þess sem ýmis önnur sýni voru jafnframt tekin. Sveinn Magnússon læknir er annaðist sýnatöku hefur ritað læknisvottorð 22. september 2009 vegna skoðunar á ákærða. Fram kemur að svo virðist sem ákærði hafi rakað af sér allt höfuðhár mjög stuttu fyrir skoðun. Það hafi augljóslega verið gert í flýti og af óvandvirkni og að því er virðist af ákærða sjálfum. Þá virðist öll kynhár nýlega hafa verið rökuð af. Ekki hafi verið sýnilegir áverkar á kynfærum. Vegna hárleysis hafi verið illgerlegt að taka hársýni af höfði og kynfærum.

Rituð hefur verið skýrsla vegna rannsóknar á gúmmíverju í poka merktum ,,smokkur haldlagður á vettvangi“. Sýni úr smokk hafi ekki gefið svörun við staðfestingarprófi. Í málinu liggur fyrir skýrsla 11. janúar 2001 um sýni úr málin sem send voru til DNA rannsóknar hjá Statens Kriminalteknisk Laboratorium í Svíþjóð. Um er að ræða sýni merkt ,,Vulva“, ,,Vagina“, ,,Cervix“, ,,Kviður“ og ,,V.eyra“. Niðurstöður Statens Kriminalteknisk Laboratorium liggja fyrir í gögnum málsins í skýrslu 11. febrúar 2011. Samkvæmt niðurstöðum hennar greindust DNA snið sem gáfu samsvörun við að vera úr ákærða í sýnum sem merkt voru ,,Vulva“, ,,Vagina“, ,,Cervix“ og ,,Kviður“. Sýni merkt ,,V.eyra“ hafi ekki verið tekið til rannsóknar.

Lögregla hefur aflað gagna um tengingar úr farsíma ákærða sunnudaginn 20. september 2009. Eru gögnin merkt IV/9.1. til IV/9.3. í rannsóknargögnum málsins. 

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 21. september 2009, 8. september 2010 og 4. mars 2011. Þá gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Ákærði kvaðst hafa leitað sér að kynlífsþjónustu í auglýsingum á vefsvæðinu [...]. Þar hafi hann fundið auglýsingu frá brotaþola. Hafi ákærði hringt í brotaþola og innt hana eftir hvað slík þjónusta myndi kosta. Í framhaldi hafi hann farið á heimili brotaþola að [...] í [...]. Þessi atvik hafi átt sér stað sunnudaginn 20. september 2009. Ákærði hafi þá verið undir áhrifum áfengis og fíkniefnisins kókaín. Er ákærði kom að [...] hafi hann hringt í brotaþola. Í kjölfarið hafi hann farið inn til hennar. Hafi ákærði verið með 20.000 krónur meðferðis og gert samkomulag við brotaþola um að hún myndi veita ákærða munnmök án þess að ákærði myndi nota smokk. Fyrir það hafi ákærði átt að greiða 20.000 krónur, en venjulega væru greiddar 15.000 krónur fyrir munnmök með smokk. Ákærði kvaðst hafa tekið niður um sig buxurnar og brotaþoli þá sett á ákærða smokk. Hlutirnir hafi gengið hratt fyrir sig og ákærða orðið sáðlát í smokkinn. Ekki myndi ákærði hvað hafi orðið um smokkinn. Ákærða og brotaþola hafi ekki ,,komið vel saman“. Hafi þau farið að rífast og ákærði verið ósáttur við að greiða 20.000 krónur fyrir munnmök með smokk. Hafi hann talið að um brot á samningi væri að ræða. Hafi þau ,,misst sig“ á hvort annað. Engin sérstök átök hafi átt sér stað. Þau hafi staðið við rúmið í herberginu og ákærði ýtt brotaþola til. Ekki myndi ákærði hvort eitthvað hefði brotnað við aðfarirnar. Lítið borð hafi verið við rúmið í herberginu og eitthvað gæti hafa dottið af borðinu við rifrildið. Hafi þau hótað hvort öðru. Brotaþoli hafi hótað því að senda einhverja menn á ákærða. Þau hafi ,,sprungið“ hvort á annað. Ákærði hafi fengið nóg og ,,misst“ sig. Ákærði hafi tekið þær 20.000 krónur er hann hafi komið með og fartölvu er hafi verið í herberginu. Peningarnir hafi verið á hillu fyrir aftan rúm í herberginu og tölvan á borði. Allt hafi gerst mjög hratt. Þau hafi haldið áfram að rífast. Á leiðinni út hafi brotaþoli hótað fjölskyldu ákærða ófarnaði. Ákærði hafi ýtt henni frá sér þar sem hún hafi staðið í vegi fyrir útgöngu ákærða. Við það hafi brotaþoli dottið í rúmið. Ákærði hafi tekið slökkvitæki í íbúðinni og sprautað úr því inni í herberginu. Að því loknu hafi hann yfirgefið staðinn. Ákærði kvaðst í framhaldinu hafa farið heim til vinkonu sinnar. Ekki hafi hann velt neitt frekar fyrir sér þeirri tölvu er hann hafi tekið. Fljótlega hafi honum þó orðið ljóst að hann hafi ekki átt að taka tölvuna og peningana. Hafi hann ætlað að bæta úr því. Einnig hafi C vinir brotaþola hringt í ákærða. Eftir að áfengisáhrif hafi runnið af ákærða hafi hann orðið hræddur. Hafi hann reynt að fá einhvern til að fara með tölvuna aftur til brotaþola. Sömuleiðis hafi hann ákveðið að breyta um útlit og rakað af sér hár sitt og skegg. Ákærði hafi ákveðið að hitta C. Eftir að hann hafi lagt af stað hafi hann hins vegar ákveðið að fá leigubifreiðastjóra til að skila tölvunni og peningunum. Ákærði hafi rætt við leigubifreiðastjóra vegna þessa og lögreglumann í síma á svipuðum tíma. Hafi ákærði ruglast á símanúmerum sem leitt hafi til þess að málið hafi allt endað á lögreglustöð. 

Að því er varði símasamskipti milli ákærða og brotaþola kvaðst ákærði hafa hringt í brotaþola nokkrum sinnum til að kynna sér þjónustu hennar. Í þeim símtölum hafi komið fram hvar brotaþoli ætti heima. Gæti verið að símtöl ákærða við brotaþola sunnudaginn 20. september 2009 hafi verð frá kl. 11.47 þann dag til kl. 13.41. Ákærði kvaðst ekki hafa dvalið lengi inni hjá brotaþola. Um hafi verið að ræða einhverjar mínútur. Ákærði kvaðst hafa verið í símasambandi við vinkonu sína D er hann hafi yfirgefið staðinn. Hafi hún komið og sótt ákærða að heimili ákærða að [...] í [...]. Brotaþoli hafi einungis haft munnmök við ákærða. Ekki hafi verið um samfarir í leggöng að ræða. Ákærði kvaðst ekki geta gefið skýringar á því að sáðfrumur frá honum hafi fundist í lífsýnum sem tekin hafi verið af kvið brotaþola eða úr leggöngum hennar. Brotaþoli hljóti að hafa komið þeim sáðfrumum fyrir sjálf. Ákærði kvaðst ekki hafa slegið brotaþola í andlitið svo sem honum væri gefið að sök. Þá hafi hann ekki slegið hana í lærið. Ekki hafi ákærði hótað henni lífláti. Þær hótanir um líflát er ákærði viðurkenni í yfirheyrslu hjá lögreglu 10. september 2010 hafi verið barnslegar hótanir. Verið geti að hann hafi orðað hlutina þannig en engin ,,meining“ hafi búið þar að baki. Ákærði kvað rangt eftir sér haft í lögregluskýrslu 21. september 2009 þar sem fram komi að brotaþoli hafi verið til í að veita ákærða munnmök án smokks. Að því er varðar ummæli í sömu lögregluskýrslu að ákærði gæti hafa hótað henni því að taka af henni vegabréf og að hægt væri að láta vísa henni úr landi þá væri það einnig rangt. Hann hafi ekki hótað brotaþola slíku. Að því er varði sáðlátið hafi ákærði í fyrstu yfirheyrslu sagt að hann hafi fengið sáðlát og sæði farið á hendur brotaþola. Síðar hafi ákærði sagt að hann hafi fengið sáðlát í smokkinn. Um hafi verið að ræða misskilning hjá ákærða við upphaflega skýrslutöku hjá lögreglu. Hið rétta sé að ákærði hafi fengið sáðlát í smokkinn. Ákærði kvaðst í fyrstu lögregluyfirheyrslu ekki hafa munað eftir því að hafa tekið slökkvitæki í íbúðinni. Hafi hann einfaldlega gleymt því atriði. Það hafi hann leiðrétt síðar. Þá hafi ákærði í fyrstu yfirheyrslu ekki kannast við það að hafa tuskast við brotaþola. Hafi ákærði misskilið spurningu lögreglumannsins. Ákærði hafi verið með yfirgang. Ekki hafi verið ætlunin að meiða brotaþola. Brotaþoli hafi verið að tala í síma er ákærði hafi yfirgefið staðinn. Við yfirheyrslur hjá lögreglu kvaðst ákærði ekki hafa hótað brotaþola með því að bera hníf upp að hálsi hennar.    

Brotaþoli mætti á lögreglustöð mánudaginn 21. september 2009 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Við það tilefni var tekin skýrsla af brotaþola. Þá gaf hún skýrslu við meðferð málsins fyrir dómi. Brotaþoli kvaðst hafa þekkt ákærða í gegnum vinkonu sína E. Hafi hún verið búin að veita honum kynlífsþjónustu, en það hafi verið löngu fyrir þennan atburð. Aðfaranótt sunnudagsins 20. september 2009 hafi brotaþoli verið í samkvæmi. Að samkvæminu loknu hafi brotaþoli farið til síns heima og verið þreytt. Ákærði hafi hringt í brotaþola eftir að heim kom og óskað eftir því að fá nudd. Þar sem brotaþoli hafi þekkt til ákærða hafi hún leyft honum að koma heim til sín. Brotaþoli hafi verið í dýrum kjól þessa nótt og ákveðið að fara úr honum til að hann myndi ekki verða fyrir skemmdum. Hafi brotaþoli farið í bol og verið í nærbuxum. Er ákærði kom hafi brotaþoli séð að hann hafi verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hafi ákærði verið æstur, ,,gargað“ og viljað nudd. Hafi brotaþoli þá tjáð honum að hún væri þreytt og beðið hann um að koma síðar. Því hafi ákærði neitað. Hafi hann tekið upp 20.000 krónur í seðlum og viljað þjónustu. Þau hafi farið að rífast og brotaþoli tjáð ákærða að hún væri þreytt. Ákærði hafi þá ,,brjálast“ og lamið brotaþola. Hafi hann greint henni frá því að ef hún myndi ekki þjónusta hann myndi fara illa fyrir brotaþola. Ákærði hafi verið með keðju um hálsinn sem hann hafi tekið af sér og lamið brotaþola í læri. Einnig hafi hann tekið um hár hennar og dregið hana um gólf íbúðarinnar. Brotaþoli hafi verið mjög hrædd þar sem ákærði hafi verið alveg ,,brjálaður“. Hafi brotaþoli ákveðið að gefa eftir og veita ákærða munnmök. Hafi hún sett á hann smokk en ákærði tekið smokkinn af. Ákærði hafi síðar viljað kynmök en brotaþoli ekki viljað það og sagt ákærða það. Ákærði hafi þrátt fyrir það sett brotaþola í rúm íbúðarinnar, þrýst fótum hennar sundur og sett getnaðarlim sinn í leggöng hennar. Ákærði hafi fengið sáðlát inn í leggöng brotaþola. Um leið hafi ákærði kallað brotaþola ,,negrahóru“ og öðrum nöfnum. Hafi ákærði hótað brotaþola og sagt að hann gæti látið vísa henni úr landi. Brotaþoli hafi verið grátandi á þessari stundu. Ákærði hafi tekið slökkvitæki sem hafi verið í íbúðinni og sprautað úr því inn í herberginu. Hafi ákærði sagt að brotaþoli hafi stolið 20.000 krónum. Af hræðslu hafi brotaþoli látið ákærða fá 20.000 krónur í reiðufé er hún hafi verið með. Um leið og ákærði hafi rokið út hafi hann tekið fartölvu brotaþola með sér og sagt að hann ætlaði að gefa systur sinni tölvuna. Íbúðin hafi öll verið hræðileg á að líta eftir atvikið, en ákærði hafi brotið allt. Ofbeldi af hálfu ákærða hafi byrjað er brotaþoli hafi ekki viljað veita ákærða munnmökin. Þá hafi ákærði löðrungað brotaþola. Ákærði hafi lamið brotaþola með keðjunni eftir að hún hafi veitt honum munnmökin. Brotaþoli hafi verið með kjöthníf í eldhúsi íbúðarinnar. Ákærði hafi tekið hnífinn og hótað að skera brotaþola. Þau atvik hafi orðið eftir munnmökin. Strax eftir að ákærði hafi yfirgefið íbúðina hafi brotaþoli hringt í vin sinn B. B hafi komið strax til brotaþola og aðstoðað hana við að komast á Neyðarmóttökuna. Með B í för hafi verið E. Brotaþoli kvaðst strax eftir atburðinn hafa hringt í vin sinn C. Hafi hún lýst atvikum fyrir C sem hafi tjáð henni að hann þekkti manninn sem ákærða. C hafi í framhaldi hringt í ákærða og spurt hann um tölvuna. Hafi ákærði tjáð C að hann myndi senda tölvuna með leigubifreið. Lögregla hafi blandast í málið og C verið færður á lögreglustöð. Brotaþoli kvaðst hafa kannast við rödd ákærða í fyrsta símtalinu þeirra á milli þennan dag. Vel geti verið að þau hafi rætt saman í síma í tvígang áður en ákærði hafi komið inn í íbúð brotaþola. Fyrir dómi bar brotaþoli að atburðirnir hafi átt sér stað á heimili brotaþola um kl. 7.00 þennan dag. Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi brotaþoli hins vegar frá því að ákærði hafi komið á heimili brotaþola um hádegi þennan dag. Brotaþola hafi fundist atburðarásin taka langan tíma. Brotaþoli kvaðst ekki vita ástæðu þess að bréfsnifsi hafi fundist í leggöngum hennar á Neyðarmóttöku. Rangt væri er ákærði héldi fram að brotaþoli hafi komið sæði úr ákærða fyrir uppi í leggöngum brotaþola. Brotaþoli kvaðst aldrei áður hafa lent í neinu viðlíka því er komið hafi fyrir þennan dag. Atlagan hafi verið hræðileg. Hafi hún verið það hrædd eftir atvikið að hún hafi flutt til vinkonu sinnar. Hafi hún óttast mjög um líf sitt á meðan á atlögunni hafi staðið. Sé hún að reyna að gleyma málinu í dag en viti þó að því sé ekki lokið.   

E kvað brotaþola hafa hringt í sig sunnudaginn 20. september 2009. Grátandi hafi hún greint E frá því að maður hefði misnotað sig og að hún vissi ekki hvað hún ætti að gera. Hafi hún orðað það þannig að maðurinn hafi nauðgað sér og lamið sig. Ekki hafi þær farið nánar út í það. Gráturinn hafi verið mjög mikill. B, þá kærasti E, hafi farið á bifreið heim til brotaþola. Er B hafi farið með brotaþola á Neyðarmóttöku hafi E slegist með í för. Fyrir dómi kvaðst E ekki viss um hvaða leyti dags þetta hafi verið, en E hafi verið að skemmta sér nóttina fyrir atburðinn. Er lögregla ræddi símleiðis við E 23. janúar 2010 greindi hún frá því að brotaþoli hafi hringt í sig um kl. 14.00 og verið grátandi. Í því símtali greindi E lögreglu frá því að brotaþoli hafi greint frá því að maðurinn hefði haldið hnífi að hálsi brotaþola, nauðgað henni og tekið frá henni peninga og tölvu. Fyrir dómi kvaðst E muna eftir því að hafa lýst atvikum þannig fyrir lögreglu og væri sú lýsing rétt. E kvaðst ekki hafa þekkt ákærða á þessari stundu en þó hafa séð hann áður með öðru fólki.

B kvaðst hafa verið í [...] er brotaþoli hafi hringt og talað við E. Hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi og grátið mikið. Hafi B skynjað að eitthvað mikið væri að. Hafi B í beinu framhaldi farið á heimili brotaþola. Hafi brotaþoli verið uppi í rúmi, verið grátandi og með handklæði vafið um sig. Hafi hún greint B frá því að ráðist hafi verið á sig og sér nauðgað. Hafi B boðið fram aðstoð sína og í framhaldi hringt á Neyðarmóttöku. Hafi hjúkrunarfræðingur rætt við brotaþola í síma. Í kjölfarið hafi B ekið brotaþola á Neyðarmóttöku. Brotaþoli hafi talað um að maðurinn hafi stolið tölvu af heimili brotaþola. Aðkoma að heimili brotaþola hafi bent til þess að einhver átök hafi átt sér stað. Smokkur hafi legið á gólfi. B hafi áður komið á heimili brotaþola og þá yfirleitt verið snyrtilegt um að líta. Þennan dag hafi allt verið á rúf og stúfi. Sennilega hafi einhverjir hlutir legið brotnir á gólfi. Við lögregluyfirheyrslu greindi B frá því að hann hafi séð að eitthvað hafi gengið á í herberginu því þar hafi verið brotnir diskar eða glös. B kvað það sína skoðun að brotaþoli hafi hegðað sér öðruvísi eftir þessa atburði en fyrir þá. Hafi honum virst eins og brotaþoli hafi orðið fyrir áfalli þennan dag. Er undir B var borin sú staðhæfing hans í lögregluskýrslu að brotaþoli hafi hringt umræddan dag um kl. 14.00 kvað B það geta staðist. Hafi B verið kominn til brotaþola um 20 til 30 mínútum síðar. Á Neyðarmóttöku hafi þau verið komin innan við klukkustundu eftir það. B kvaðst hafa verið ákærða reiður eftir atburðinn. Hafi hann í bræði hringt í ákærða og sagt eitthvað við hann, sem hann myndi ekki í dag hvað hafi verið. 

C kvaðst hafa þekkt brotaþola frá árinu 2008. Fyrir þann atburð er mál þetta fjalli um hafi hann ekki þekkt ákærða persónulega en þó hafi hann vitað hver ákærði var. Umræddan dag hafi brotaþoli hringt í C og greint honum frá því að ákærði hafi komið á heimili hennar, ráðist á hana og misnotað hana. Er hann hafi yfirgefið húsnæðið hafi hann tekið frá brotaþola bæði peninga og tölvu. Er brotaþoli hafi lýst manninum hafi C kannast við þá lýsingu og áttað sig á því að þar hafi ákærði verið á ferð. Hafi C í framhaldi hringt í ákærða og sagt honum að ákærði yrði að skila bæði tölvunni og peningunum. Ákærði hafi í kjölfarið sent tölvuna og peningana með leigubifreið. Hafi C ætlað að taka á móti varningnum en lögregla blandast í málið og yfirheyrt C vegna málsins. C og brotaþoli hafi verið góðir vinir á þessum tíma. Hafi brotaþola greinilega liðið illa eftir atburðinn.

D kvaðst ekki muna nákvæmlega eftir 20. september 2009. Hún myndi þó að um þetta leyti hafi hún komið að máli við ákærða og innt hann eftir því hvort hún gæti keypt af honum tölvu. Ákærði hafi verið ölvaður þennan dag og D einnig. Ákærði hafi verið með tölvu meðferðis. Ekki myndi hún eftir því hvernig ákærði hafi lýst því hvernig hann hafi komist yfir umrædda tölvu. Er undir D var borin framburður hennar hjá lögreglu um að ákærði hafi lýst því að tölvuna hafi hann stolið frá einhverjum ,,hórum“ kvað D þann framburð réttan.

Fyrir dóminn komu rannsóknarlögreglumennirnir Þórður Geir Þorsteinsson og Guðjón Grétarsson. Staðfestu þeir þátt sinn í rannsókn málsins og gerðu grein fyrir einstökum atriðum í henni. Þórður Geir kvaðst hafa farið á vettvang með brotaþola sama dag og atvik hafi átt sér stað. Hafi brotaþoli verið slöpp og greinilega í sjokki. Hafi verið eins og hún hafi verið orðin veik. Frásögn brotaþola hafi Þórður Geir skráð niður, en hann hafi talið sig skilja brotaþola nokkuð vel. Er brotaþoli hafi gert grein fyrir málinu hafi skort nokkuð á að röð atvika væri rétt. Það hafi þó legið nokkuð fyrir að lokum.  Af vettvangi að dæma hafi átök augljóslega átt sér stað þar. Glerbrot hafi verið á gólfi og önnur atriði sem hafi gefið það til kynna. Smokkur hafi  legið á gólfi og slökkvitæki verið á vettvangi. Guðjón Grétarsson kvaðst hafa rannsakað vettvang. Á vettvangi hafi eldhúsáhöld og leirtau verið brotið. Slökkvitæki hafi verið á borði og greinilegt að sprautað hafi verið úr því vatni yfir borð og gólf. Á gólfi hafi verið verja sem hafi verið tekin til rannsóknar.

Björgvin Sigurðsson sérfræðingur frá tæknideild lögreglu staðfesti skýrslu um lífsýni. Hafi hann fengið gögn frá Neyðarmóttöku og annast rannsókn á þeim. Þá hafi hann sent sýni til Svíþjóðar til DNA rannsóknar. Köggull sem fundist hafi í leggöngum brotaþola hafi ekki verið rannsakaður sérstaklega þar sem ekki hafi verið unnt að sjá hvað hafi verið hægt að rannsaka frekar í sambandi við hann. Um hafi verið að ræða einhvers konar pappír. Björgvin staðfesti að ekki hafi fundist merki um sæði í smokk sem tekinn hafi verið til rannsóknar vegna málsins.   

Kristin Andersen læknir staðfesti skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola. Brotaþoli hafi greinilega verið í uppnámi er hún hafi komið á Neyðarmóttöku. Eftir brotaþola hafi verið skráð að árásarmaðurinn hafi haft sáðlát á kvið brotaþola. Hafi brotaþoli greint frá því að hún hafi þurrkað sæðið af. Sýni hafi verið tekið af kvið brotaþola. Varðandi hugtök í skýrslunni þá merki ,,vulva“ ytri burðarbarma, ,,vagina“ leggöng og ,,Cervix“ legháls. Þegar sýni hafi verið tekið úr leghálsi hafi það verið tekið eins ofarlega og hægt sé að fara. Afar ósennilegt sé að brotaþoli hafi komið sæði fyrir í eigin leghálsi. Til að svo sé hafi þurft að sprauta því þangað upp með einhvers konar sprautu. Brotaþoli sé hörundsdökk. Ekki hafi sést ummerki um marbletti eða alvarlega áverka á andliti. Hún hafi komið á Neyðarmóttöku strax eftir atburðinn og gætu áverkar hafa komið í ljós síðar. Erfitt sé að skoða hörundsdökkt fólk m.t.t. áverka eftir árás eins og þá er brotaþoli hafi lýst. Eigi það við um hártog og annars konar árás. Aðskotahlutur í leggöngum hafi virst vera bréfþurrka. Húðrispa á læri hafi verið grunn. Hafi hún virst vera fersk. Ekki hafi verið um stórvægilegan áverka að ræða. Ósennilegt sé að hálskeðja valdi slíkum áverka nema ef vera skyldi að eitthvað oddhvasst hafi verið á henni. Fremur hafi mar átt að koma eftir keðjuna.  

Niðurstaða:

Ákærða er gefið að sök kynferðisbrot og rán, með því að hafa sunnudaginn 20. september 2009 að [...] í [...], greitt brotaþola fyrir vændi, að hafa þröngvað henni með ofbeldi til samræðis og annarra kynferðismaka, að hafa slegið hana og dregið um á hárinu, hótað henni og ógnað með hnífi, sprautað yfir hana úr slökkvitæki, neytt hana til að afhenda sér 20.000 krónur, auk þess að hafa tekið fartölvu í eigu brotaþola. Áverkar samkvæmt ákæru eru húðrispa á vinstra læri brotaþola. 

Ákærði hefur viðurkennt hluta háttseminnar samkvæmt ákæru. Þannig hefur hann viðurkennt að hafa greitt brotaþola fyrir vændi, en hann hefur lýst því að hann hafi greitt brotaþola fyrir að veita ákærða munnmök. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa tekið frá brotaþola 20.000 krónur og fartölvu. Ákærði hefur staðhæft að til snarpra orðaskipta hafi komið á milli ákærða og brotaþola í íbúðinni en ástæða þess hafi verið sú að ákærði hafi ekki talið sig fá þá kynlífsþjónustu frá brotaþola sem hann hafi samið um og greitt fyrir. Ekki sé loku fyrir það skotið að einhverjir munir hafi brotnað er ákærði og brotaþoli hafi ýtt hvort við öðru. Að því er hótanir varðar hefur ákærði lýst því að hann hafi látið einhver orð falla í garð brotaþola í íbúðinni. Ekki hafi verið nein ,,meining“ að baki þeim orðum ákærða. Ákærði hefur neitað annarri háttsemi samkvæmt ákæru. Hefur hann neitað að hafa þröngvað brotaþola með ofbeldi til samræðis eða annarra kynferðismaka. Þá hafi hann ekki slegið brotaþola í andlitið. Hann hafi ekki slegið brotaþola í læri með hálskeðju eða dregið brotaþola á hári um íbúðina. Ekki hafi hann heldur ógnað brotaþola með hnífi eða hótað henni lífláti.

Ákærði var í þrígang yfirheyrður hjá lögreglu vegna sakarefnisins, auk þess sem hann gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Að því er framburð ákærða við þessar skýrslugjafir varðar hefur ekki verið fullt innra samræmi í honum. Ákærði hefur lýst því að hann hafi verið undir áhrifum áfengis og kókaín er atburðir áttu sér stað. Ber frásögn hans þess nokkur merki og verður ráðið að einstakir þættir í atburðarásinni séu ákærða að einhverju leyti huldir. Þannig kannaðist ákærði t.a.m. í fyrstu ekki við að hafa sprautað úr slökkvitæki á heimili brotaþola, en viðurkenndi það við síðari yfirheyrslur. Frásögn brotaþola af atvikum á Neyðarmóttöku og hjá lögreglu er þannig að brotaþoli rekur atvikin ekki í einni samfellu. Er atvikum fremur lýst á þann veg að borið er niður á mismunandi stöðum í atburðarásinni. Þó myndar frásögnin á endanum nokkuð samfellda mynd. Brotaþoli var illa á sig kominn við komu á Neyðarmóttöku og grét mikið. Hin sálræna líðan hennar var án nokkurs vafa ástæða þess að brotaþoli rekur sögu sína með þeim hætti er hún gerði. Að sumu leyti ber framburði ákærða og brotaþola saman. Ber þeim saman um aðdraganda þess að ákærði kom á dvalarstað brotaþola þennan dag og tilgang ákærða með för þangað. Þeim ber einnig saman um að brotaþoli hafi veitt ákærða munnmök. Þá ber þeim saman um að komið hafi til átaka, þó svo verulegt misræmi sé í framburði þeirra um hvers eðlis átökin hafi verið. Einnig greina þau bæði frá því að ákærði hafi sprautað úr slökkvitæki í íbúðinni áður en ákærði yfirgaf hana og að ákærði hafi haft á brott með sér bæði 20.000 krónur í reiðufé og fartölvu í eigu brotaþola.    

Ástæða er til að huga að ákveðnum atriðum í framburði ákærða og brotaþola, en þau verða ekki alls kostar skýrð með vísan til sálræns eða líkamlegs ástands þeirra. Í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu lýsti ákærði því að honum hefði orðið sáðfall sem komið hefði á hendur brotaþola, en í síðari yfirheyrslum lýsti ákærði því að honum hefði orðið sáðfall í smokk. Er hér um verulegt misræmi að ræða. Þá var ákærði í fyrstu yfirheyrslu spurður að því hvort hann hefði hótað brotaþola ofbeldi. Neitaði hann því staðfastlega. Í síðari yfirheyrslum hjá lögreglu viðurkenndi hann að hafa hótað brotaþola lífláti. Einnig viðurkenndi hann að hafa hótað brotaþola því að taka af henni vegabréfið og að hann gæti látið vísa brotaþola úr landi. Hér er einnig um verulegt misræmi að ræða. Þá var í fyrstu yfirheyrslu borið undir ákærða ástand íbúðarinnar eftir að ákærði hvarf þaðan á brott. Kvaðst ákærði þá enga skýringu hafa á því hvernig umhorfs var er lögreglu bar að garði. Í næstu yfirheyrslu hjá lögreglu lýsti ákærði því að hann hefði verið mjög pirraður eftir samskipti sín við brotaþola og ruslað til. Augljóst misræmi er í framburðum ákærða um öll ofangreind atriði. 

Niðurstöður DNA rannsóknar leiddu í ljós lífsýni úr ákærða í leggöngum og efst í leghálsi brotaþola. Eins og áður sagði hefur ákærði neitað því að hafa haft samræði við brotaþola og talið líklegast að brotaþoli sjálf hafi komið sæði úr ákærða þar fyrir. Til að brotaþola hafi átt að auðnast að koma sæðisfrumum frá ákærða fyrir efst í leghálsi sínum hefði brotaþoli þurft að hafa sáðfrumur úr ákærða við höndina. Lögregla rannsakaði smokk er fannst á gólfi íbúðarinnar við hliðina á rúminu með tilliti til þess hvort sæðisfrumur væri að finna í smokknum. Umbúðir utan af smokknum voru á borði í herberginu. Rannsókn tæknideildar lögreglu leiddi í ljós að engar sæðisfrumur var að finna í verjunni. Tilgáta ákærða miðar við að brotaþoli sé að tilefnislausu að bera á ákærða sakir um nauðgun í von um fjárhagslegan ávinning. Hún miðar við að brotaþoli sé reiðubúinn að undirgangast nákvæma réttarlæknisfræðilega skoðun á Neyðarmóttöku og yfirheyrslur hjá lögreglu og fyrir dómi sem jafnan eru þungbærar. Þegar til þeirrar aðstöðu er litið sem brotaþoli í kynferðisbrotamáli er í telur dómurinn tilgátu ákærða fráleita. Með hliðsjón af því, niðurstöðum úr DNA rannsókn og þeirri staðreynd að engar sæðisfrumur var að finna í smokk við hliðina á rúmi brotaþola telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að sæði í leggöngum og efst í leghálsi brotaþola stafi af því að ákærði hafi í samræði fellt sæði til brotaþola.    

Að tvennu þarf að gæta varðandi framburð brotaþola. Annað varðar tímasetningu atburðarins en hitt staðhæfingar brotaþola um hvar ákærði hafi fellt til hennar sæði. Að því er fyrra atriðið varðar staðhæfði brotaþoli við yfirheyrslur hjá lögreglu að ákærði hafi komið á heimili brotaþola eftir hádegi sunnudaginn 20. september 2009. Fyrir dómi fullyrti brotaþoli hins vegar að atburðurinn hefði átt sér stað að morgni dags. Gögn málsins þykja benda til þess að ákærði hafi komið á heimili brotaþola eftir hádegi þennan dag. Í fyrsta lagi benda símagögn um samtöl ákærða og brotaþola eindregið til þess. Í annan stað hefur ákærði miðað við að hafa komið á heimili brotaþola eftir hádegi. Í þriðja lagi lýsti brotaþoli því að hún hafi haft samband við vinkonu sína um leið og ákærði yfirgaf íbúðina og B komið til hennar í beinu framhaldi. Í kjölfarið hafi þau farið á Neyðarmóttöku. Þangað kom brotaþoli kl. 16.00 þennan dag. Langt er um liðið síðan atburðurinn átti sér stað. Getur það atriði eitt og sér skýrt misminni brotaþola um tímasetninguna. Að mati dómsins dregur þetta atriði ekki úr trúverðugleika framburðar hennar. Hitt atriðið lýtur að því hvar ákærða varð sáðfall. Á Neyðarmóttöku lýsti brotaþoli því að ákærði hafi haft sáðlát á kvið brotaþola. Af þeirri ástæðu var tekið sýni af kvið brotaþola sem sáðfrumur greindust í. Við skýrslugjöf hjá lögreglu næsta dag lýsti brotaþoli atvikum þannig að er ákærði hafi verið við það að fá sáðlát hafi ákærði tekið getnaðarlim sinn út úr kynfærum brotaþola og haft sáðlát sem komið hafi yfir maga brotaþola. Fyrir dómi lýsti brotaþoli atvikum þannig að ákærði hefði haft sáðlát inn í leggöngum brotaþola. Sæði úr ákærða greindist bæði á kvið brotaþola, í leggöngum og leghálsi. Samkvæmt því og miðað við þá niðurstöðu dómsins að ótrúverðugt sé að brotaþoli hafi sjálf komið sæði fyrir í leggöngum sínum hefur ákærði tekið getnaðarlim sinn út úr kynfærum brotaþola á þeirri stundu er honum varð sáðfall. Er þetta í samræmi við framburð brotaþola hjá lögreglu. Brotaþoli greindi lækni ekki frá því við réttarlæknisfræðilega skoðun á Neyðarmóttöku að ákærði hafi sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri brotaþola en til þess verður að líta að brotaþoli var miður sín við komu á Neyðarmóttöku og grátandi. Þá hafði hún ekkert sofið nóttina á undan. Er misræmi í framburði brotaþola um þetta atriði ekki slíkt að það varpi rýrð á trúverðugleika framburðar hennar svo teljandi sé.  

Að gættum þeim atriðum er hér að framan eru rakin er framburður brotaþola að öðru leyti trúverðugur að mati dómsins og styðst hann við ýmis sönnunargögn í málinu. Framburður ákærða er hins vegar ótrúverðugur um þau atriði málsins að hann hafi ekki beitt brotaþola ofbeldi og haft kynmök við hana, sérstaklega þegar til þess er litið að sæði úr ákærða fannst í leggöngum og leghálsi brotaþola. Fullyrðingar ákærða um að ekki hafi komið til átaka að ráði í íbúðinni þykja ekki trúverðugar þegar litið er til framburðar þeirra lögreglumanna er fóru á vettvang og skýrslu tæknideildar lögreglu um vettvang brotsins. Þá er misræmi í framburðum ákærða um hótanir af hans hálfu í garð brotaþola. Lögregla fór að heimili ákærða þennan dag kl. 18.30 og ræddi við foreldra hans. Síðar sama dag, eða kl. 22.30 um kvöldið, fór fram læknisfræðileg skoðun á ákærða. Hafði hann þá rakað af sér öll höfuðhár og kynhárin. Leiddi það til þess að við réttarlæknisfræðilega skoðun var illgerlegt að taka hársýni af höfði ákærða og kynfærum. Er líkleg skýring ótti ákærða við réttarlæknisfræðileg skoðun. 

Framburðir vitna leiða í ljós að brotaþoli var miður sín í kjölfar atviksins. Hún leitaði strax á Neyðarmóttöku og lagði næsta dag fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Með vísan til trúverðugs framburðar brotaþola og þeirra sönnunargagna annarra er hér að framan er vísað til þykir dóminum hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi þröngvað brotaþola til samræðis og annarra kynferðismaka með líkamlegu ofbeldi. Læknisrannsókn leiddi ekki í ljós áverka er gefa til kynna að ákærði hafi slegið brotaþola í andlit eða togað hana um á hárinu. Verður ákærði sýknaður af þeirri háttsemi. Brotaþoli var með ferskan áverka á læri. Styður það framburð brotaþola um að ákærði hafi slegið brotaþola í lærið með grófri hálskeðju. Verður við það miðað í niðurstöðu málsins. Þá telst sannað að ákærði hafi hótað brotaþola lífláti og því að hafa hótað því að svipta hana vegabréfi. Einnig telst sannað að ákærði hafi sprautað yfir brotaþola og íbúðina úr slökkvitæki. Að því er varðar hótun með hnífi er til þess að líta að hnífur fannst ekki á vettvangi og getur staðist staðhæfing brotaþola um að ákærði hafi haft hnífinn á brott með sér af vettvangi. Gegn mótmælum ákærða telst hins vegar ekki sannað að ákærði hafi hótað henni með hnífi. Ákærði beitti brotaþola ofbeldi. Í beinu framhaldi tók hann 20.000 krónur í reiðufé og fartölvu frá brotaþola og hafði á brott með sér. Er með því fullnægt skilyrðum 252. gr. laga nr. 19/1940 til að sakfella ákærða fyrir rán. Að gættum þeim atriðum sem hér að framan hefur verið fjallað um verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir kynferðisbrot og rán og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.        

Ákærði er fæddur í nóvember 1981. Á hann að baki nokkurn sakaferil. Frá árinu 2002 hefur hann fjórum sinnum verið dæmdur fyrir brot á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þá hefur hann alls 9 sinnum gengist undir sáttir og viðurlagaákvarðanir fyrir brot á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði var með dómi undirréttar í AG Nordhorn í Þýskalandi 30. september 2007, dæmdur í fangelsi í 21 mánuð, sem bundið var skilorði til 3ja ára. Endurrit þess dóms liggur ekki frammi í málinu, en það verður að telja forsendu þess að unnt sé að dæma skilorðsdóminn upp. Ákærði hefur hér að framan verið sakfelldur fyrir kaup á vændi, nauðgun og rán. Á hann sér engar málsbætur. Þá verður horft til þess við ákvörðun refsingar að töluverður dráttur hefur orðið í meðförum málsins hjá lögreglu. Með hliðsjón af öllu þessu, sbr. og 1., 2., 5. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 4 ár.  

Réttargæslumaður hefur fh. brotaþola krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist miskabóta að fjárhæð 1.800.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að verknaðurinn hafi leitt til verulegs tjóns fyrir brotaþola. Hafi brotaþoli óttast mjög um líf sitt. Brotin hafi verið alvarleg en ákærði hafi beitt líkamlegum yfirburðum og þvingað brotaþola til að hafa við sig munnmök og síðar kynferðismök og á meðan beitt hana ofbeldi. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 

Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir kynferðisbrot og rán er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða greint sinn hafi valdið brotaþola miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Brotaþoli og vitni hafa lýst líðan brotaþola eftir atburðinn. Í ljósi atvika málsins og dómvenju á réttarsviðinu eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur. Fjárhæð dæmdra skaðabóta ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákærði greiði allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakar­kostnað, ásamt tildæmdum málsvarnarlaunum og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðisaukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari.

Símon Sigvaldason og Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómarar og Þórður S. Gunnarsson settur héraðsdómari kváðu upp þennan dóm.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Stefán Þór Guðgeirsson, sæti fangelsi í 4 ár.

Ákærði greiði A, 1.200.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. september 2009 til 30. september 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 1.066.735 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdóms­lögmanns, 338.850 krónur.