Print

Mál nr. 229/2001

Lykilorð
  • Handtaka
  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur
  • Stjórnarskrá
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. nóvember 2001.

Nr. 229/2001.

Rögnvaldur Rögnvaldsson

(Jóhann Halldórsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Handtaka. Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Stjórnarskrá. Gjafsókn.

R var ásamt öðrum skipverjum á ms. G handtekinn og settur í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn opinbers máls vegna ólöglegs innflutnings á tollskyldum varningi. Rannsókn málsins leiddi ekkert í ljós er benti til þess að R væri við það riðinn og krafði R íslenska ríkið (Í) um skaðabætur á þeim grundvelli. Ekki varð af gögnum málsins ráðið að grunur hefði á frumstigi málsins beinst að tilteknum einstaklingum og fallist var á það með Í að rökstuddur grunur hafi leikið á því að R, sem og hinir tíu skipverjarnir á G, hefði átt þátt í refsiverðum verknaði og nauðsyn hafi borið til handtökunnar til að koma í veg fyrir að sakargögnum væri spillt. Var því talið að lögreglu hefði verið heimilt, eins og á stóð, að handtaka R. Fram var komið að mikilsverðar upplýsingar hefðu ekki verið lagðar fram þegar krafa var gerð um gæsluvarðhald R og talið var með öllu óvíst að héraðsdómur hefði úrskurðað R í gæsluvarðhald hefðu þessi gögn verið kynnt dóminum. Með hliðsjón af þessu var fallist á það með R að Í hefði ekki sýnt fram á að nauðsyn hafi borið til að halda honum eftir að gögn þessi fundust og setja hann í gæsluvarðhald. R var því talinn eiga rétt til bóta með vísan til 176. gr., sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. júní 2001 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.516.376 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. mars 1999 til 8. júní 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en hann nýtur gjafsóknar í málinu.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi var það upphaf afskipta lögreglu og tollgæslu af skipverjum á ms. Goðafossi 8. mars 1999 er tollverðir sáu tveimur trossum með plastbrúsum varpað frá borði skammt utan við innsiglinguna í Reykjavíkurhöfn og fundu skömmu síðar megna áfengislykt. Í annarri trossunni reyndust vera 29 tómir og gataðir 20 lítra plastbrúsar. Hin trossan sökk og fannst ekki þrátt fyrir leit. Vöknuðu grunsemdir um refsivert athæfi skipverja og að ólöglegur varningur kynni að leynast um borð í skipinu. Lögreglan varð við ósk tollvarða um aðstoð við rannsókn málsins eftir að skipið kom til hafnar. Allir skipverjar neituðu að hafa átt þann varning er fargað var og ekki verður af gögnum málsins ráðið að grunur hafi á frumstigi beinst að tilteknum einstaklingum. Þar sem álitið var að um verulegt magn áfengis væri að ræða mátti ætla að allir skipverjar væru við brotið riðnir eða að minnsta kosti um það kunnugt. Þegar framangreint er virt verður fallist á með stefnda að rökstuddur grunur hafi leikið á því að áfrýjandi, sem og hinir tíu skipverjarnir á Goðafossi, hafi átt þátt í refsiverðum verknaði og nauðsyn hafi borið til handtökunnar til þess að koma í veg fyrir að sakargögnum væri spillt. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 84/1996, og verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að lögreglu hafi verið heimilt, eins og á stóð, að handtaka áfrýjanda ásamt öðrum skipverjum.

II.

Við leit tollgæslu og lögreglu í ms. Goðafossi 8. mars 1999 fannst verulegt magn ýmiss tollskylds varnings falið í leynihólfi í málningargeymslu skipsins. Nokkrar umbúðanna um varninginn voru merktar nöfnum en hvergi var þar nafn áfrýjanda. Lögreglan tók skýrslu af áfrýjanda aðfaranótt þriðjudagsins 9. mars 1999 og hófst skýrslutakan kl. 03.55. Neitaði hann að hafa átt nokkra aðild að hinum ólöglega innflutningi og kvaðst enga vitneskju hafa haft um hann. Gerð var húsleit hjá hinum handteknu 9. mars 1999 að fengnum heimildum til þess, sbr. 1. mgr. 89. gr. og 1. mgr. 90. gr. laga nr. 19/1991. Leiddi sú leit ekkert í ljós er benti til þess að áfrýjandi væri við málið riðinn. Að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, sem taldi alla áhöfn skipsins liggja undir rökstuddum grun um aðild að umræddu broti, var áfrýjandi á miðnætti aðfaranótt 10. mars úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til mánudagsins 15. mars 1999 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Áfrýjandi, sem hafði við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar neitað allri aðild að brotinu, kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Aftur var tekin lögregluskýrsla af áfrýjanda 11. mars og ítrekaði hann þau ummæli er eftir honum voru höfð í fyrri skýrslunni. Ekki kom til endurskoðunar úrskurðarins fyrir Hæstarétti, þar sem áfrýjandi var látinn laus seinni hluta föstudagsins 12. mars 1999, þegar ekki þóttu lengur vera ástæður til gæslu.

Meðal málsskjala eru skýrslur rannsóknarlögreglumanns er bera fyrirsögnina ,,Upplýsingar“. Kemur þar fram, að 9. mars kl. 16.40 hafi heima hjá einum skipverja fundist tvö tölvuprentuð blöð með nöfnum manna er ætla mætti að væru starfsmenn á ms. Goðafossi. Við nöfn þessi er á öðru blaðinu getið um fjárhæðir í sambandi við tölur sem auðkenndar eru með viðskeytinu ,,L“. Þá er og tíundaður fjöldi ,,kúta“ og innihald þeirra miðað við mælieininguna L. Á hitt blaðið eru skráðar upplýsingar um nöfn og fjárhæðir, auk þess sem taldir eru upp ýmsir kostnaðarliðir, þar á meðal lásar og kútar. Hvergi er nafns áfrýjanda getið á skjölum þessum. Hins vegar eru þar nöfn sjö skipverja af þeim ellefu, sem handteknir höfðu verið.

Fram er komið að þessar upplýsingar voru ekki lagðar fram þegar krafa var gerð um gæsluvarðhald áfrýjanda. Af hálfu stefnda hefur ekki verið gerð grein fyrir hvers vegna það var ekki gert. Með öllu er óvíst að héraðsdómur hefði úrskurðað áfrýjanda í gæsluvarðhald hefðu þessi gögn verið kynnt dóminum. Með hliðsjón af þessu verður fallist á það með áfrýjanda að stefndi hafi ekki sýnt fram á að nauðsyn hafi borið til að halda honum eftir að síðastnefnd gögn fundust og að setja hann í gæsluvarðhald. Hann á því rétt til bóta með vísan til 176. gr., sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 með áorðnum breytingum. Eftir 2. mgr. 175. gr. laganna verður tekin til greina krafa hans um tapaðan orlofstíma, 16.376 krónur, og miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Um vexti af bótafjárhæðinni, 266.376 krónum, fer eftir því sem í dómsorði greinir, en dráttarvextir dæmast frá 6. júlí 2000, er mánuður var liðinn frá því að áfrýjandi krafði stefnda fyrst um bætur, sbr. 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Dæma ber stefnda til að greiða málskostnað og gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Rögnvaldi Rögnvaldssyni, 266.376 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 12. mars 1999 til 6. júlí 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júní 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var var 29. mars sl. en endurflutt og dómtekið að nýju í dag, er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 6. júní 2000 af Rögnvaldi Rögnvaldssyni, Hraunbæ 52, Reykjavík gegn íslenska ríkinu.

Dómkröfur

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til greiðslu miska- og skaðabóta að fjárhæð 1.516.376 króna með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 12. mars 1999 til 8. júní 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.  Loks er krafist málskostnaðar í samræmi við framlagðan málskostnaðar­reikning.

Stefndi krefst þess að að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins.

Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.

Málavextir

Hinn 8. mars 1999 fylgdust starfsmenn tollgæslu með ms Goðafossi, sem var þá á leið til Reykjavíkur frá Kanada.  Er skipið átti skammt eftir til Reykjavíkur sást til skipverja sem köstuðu frá borði tveimur trossum með plastbrúsum.  Tollgæslumenn á bát náðu umbúðunum sem lyktuðu af áfengi.  Þá sást vökvaflaumur koma frá síðu skipsins.  Einnig sást kastað frá borði tveimur uppblásanlegum pokum sem einnig lyktuðu af áfengi.

Er skipið lagðist að bryggju leitaði lögreglan eftir vitneskju skipstjóra og annarra skipverja um það hverjir hefðu staðið að því að kasta frá borði umræddum umbúðum, en enginn vildi kannast við neitt slíkt. 

Stefnandi hefur um árabil starfað sem skipverji um borð í farskipum Eimskipafélags Íslands hf.  Upphaflega starfaði stefnandi sem háseti en síðustu sex ár hefur hann gengt starfi vélavarðar um borð í ms Goðafossi.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að þegar skipið lagðist að bryggju í Sundahöfn að kvöldi dags þann 8. mars 1999 hafi hann verið að störfum niðri í vélarúmi við þrif og málningarvinnu.  Samkvæmt venju gangi skipverjar til híbýla sinna vegna tollskoðunar þegar skip kemur að landi erlendis frá.  Stefnandi kveðst þá hafa nýlokið störfum og hafa farið beint upp í klefa sinn í vinnugallanum.  Skömmu síðar hafi tveir tollverðir komið og tollskoðað klefann og hafi þeir engar athugasemdir gert við stefnanda.

Stuttu eftir að fyrrnefndir tollverðir hurfu á braut hafi þriðji tollvörðurinn birst.  Sá hafi tilkynnt stefnanda að öll skipsáhöfn ætti að koma niður á lögreglustöð til skýrslugjafar.  Framangreint hafi komið stefnanda mjög á óvart enda hafi tollskoðun á varningi hans lokið athugasemdalaust örstuttu áður.  Aðspurður hafi umræddur tollvörður neitað að greina stefnanda frá ástæðum þess að færa ætti hann á lögreglustöð.  Stefnanda hafi ekki verið tilkynnt um handtöku þrátt fyrir að honum væri gert að hlíta umræddri skipun.  Á hafnarbakkanum hafi hann verið látinn setjast inn í ómerkta bifreið og um leið hafi honum verið tilkynnt að hann væri handtekinn. 

Í handtökuskýrslu á dskj. nr. 4 er skráð að stefnandi hafi verið handtekinn kl. 20.25 um borð í ms Goðafossi vegna gruns um áfengissmygl og fluttur í fangamóttöku á aðalstöð.  Ellefu aðrir skipverjar voru handteknir.  Þá var gerð leit í skipinu og húsleit hjá skipverjum að fengnum heimildum til þess, sbr. l. mgr. 89. gr. og 1. mgr. 90.gr. laga nr. 19/1991.  Stefnandi samþykkti húsleit hvað varðar þann hluta íbúðar að Hraunbæ 52 sem hann hafði forræði á.  Ekkert fannst við leitina

Skýrslutaka af stefnanda hófst kl. 03.55 hinn 9. mars.  Hafði hann þá gist fangaklefa í rúmar sjö klukkustundir, án nokkurra skýringa að því er stefnandi heldur fram.  Þá hafði allnokkurt magn af smygluðu áfengi, tóbaki og öðrum varningi fundist í skipinu, en ekki var upplýst um eigendur hans.  Alls fundust í skipinu tæpir 660 lítrar af áfengi, en ekki tókst að gera grein fyrir u.þ.b. 235 lítrum af því magni.

Sama dag eða hinn 9. mars 1999 var krafist gæsluvarðhalds á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 yfir allri áhöfn skipsins og þeir allir taldir vera undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem sætt gæti fangelsisrefsingu.  Stefnandi var færður fyrir dómara kl. 20:00 þann dag.  Hann neitaði allri aðild að meintum ólöglegum innflutningi á tollskyldum varningi.  Héraðsdómur féllst á að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi allt til 15. mars 1999, kl. 16:00.  Stefnandi kærði úrskurðinn með kæru dag. 10. mars 1999.

Fyrstu tvo næstu daga var stefnandi vistaður í fangaklefa á Hverfisgötu 114-116 en á þeim tíma var hann í tvígang færður til yfirheyrslu.  Fyrri yfirheyrslan átti sér stað kl: 03:55 þann 9. mars 1999 en hin síðari kl: 15:15 þann 11. mars 1999.  Þá kveður stefnandi að farið hafi verið með sig þrjár ferðir í Héraðsdóm Reykjavíkur.  Allan þann tíma, sem hann hafi verið í vörslu lögreglunnar hafi hann verið í vinnugalla þeim, sem hann hafi verið handtekinn í um borð í ms Goðafossi.  Stefnandi heldur því fram að honum hafi verið meinað að fara í sturtu þann tíma sem hann var vistaður á Hverfisgötu og hafi því ekki farið í bað fyrr en hann hafi verið fluttur austur að Litla-hrauni á þriðja degi.  Þangað hafi hann verið fluttur í járnum þann 10.  mars 1999.

Stefnandi var látinn laus úr haldi seinni hluta dags þann 12. mars 1999 en þá þóttu ekki lengur vera efni til að hann sætti gæsluvarðhaldi.  Kveðst stefnandi hafa þurft að taka leigubifreið til Reykjavíkur.  Samtals var stefnandi í gæsluvarðhaldi í rúma fjóra sólarhringa.  Stefnandi var ekki ákærður og var honum tilkynnt um það hinn 5. maí 2000.  Nokkrir skipverjar voru hins vegar ákærðir eftir að rannsókn málsins lauk.

Stefnandi kveðst, skömmu eftir að hann var látinn laus úr gæsluvarðhaldi, hafa leitað aðstoðar lögmanns til þess að fá fram staðfestingu þess efnis að rannsókn á hendur honum væri lokið.  Hafi embætti lögreglustjórans í Reykjavík verið ritað bréf vegna þessa þann 26. maí 1999.  Þann 3. júní 1999 hafi jafnframt verið óskað eftir því að lögmanni stefnanda yrðu afhent afrit af gögnum málsins.  Með bréfi embættis lögreglustjórans í Reykjavíkur, dags. 3. júní 1999, var tilkynnt að rannsókn væri ekki lokið.  Erindi stefnanda hafi verið ítrekuð þann 15. júní 1999, 29. október 1999, og 20. desember 1999.  Svar hafi loks borist þann 5. maí 2000 þar sem tilkynnt hafi verið að rannsókn á hendur stefnanda hefði verið hætt og málið fellt niður.  Þann 23. maí 2000 hafi lögmanni stefnanda borist munnleg tilkynning þess efnis að gögn málsins væru tilbúin til afhendingar á lögreglustöðinni í Reykjavík.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir málsókn sína á því að stefnda sé að lögum skylt að standa stefnanda skil á umkröfðum bótum vegna þess miska og fjártjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna ólögmætra athafna rannsóknaraðila og starfsmanna lögreglustjórans í Reykjavík og tollstjóra ríkisins.  Grundvöllur kröfugerðar stefnanda byggi á því að stefndi hafi með ólögmætum hætti brotið gegn persónufrelsi stefnanda.  Þannig byggi krafa stefnanda á eftirfarandi forsendum.

Ólögmælti athafna rannsóknaraðila

Í fyrsta lagi sé byggt á því af hálfu stefnanda að handtaka hans um borð í ms Goðafossi hafi verið ólögmæt.  Í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 sé því lýst svo að lögreglu sé rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur sé á að hann hafi framið brot sem sætt gæti ákæru.  Þegar stefnandi hafi verið handtekin hafi fráleitt fallið á hann grunur um refsivert athæfi.  Því sé hvergi lýst í sönnunargögnum lögreglu að stefnandi hafi verið grunaður um refsivert athæfi á því tímamarki sem hann var handtekinn.  Jafnvel þótt rannsóknaraðilar hafi haft grunsemdir um að einhver skipverji kynni að tengjast ólögmætu eða refsiverðu atferli þá hafi það verið það fráleit og ólögmæt ráðstöfun að handtaka alla skipverja á ofangreindum forsendum.  Að mati stefnanda beri sérstaklega að líta til þess að á því tímamarki sem stefnandi var handtekinn hafi engin smyglvarningur fundist í skipinu.  Þannig hafi engin þau sönnunargögn verið í höndum lögreglu sem hafi gefið tilefni til þess að ætla að rökstuddur grunur hafi beinst að stefnanda.  Þá hafi skýrslutaka af stefnanda ekki hafist fyrr en liðnar hafi verið rúmar sjö klukkustundir frá því að handtaka hafði farið fram.  Loks liggi fyrir að stefnandi hafi ekki verið leiddur fyrir dómara fyrr en liðnar hafi verið rétt tæpar 24 stundir frá því að hann var handtekin.  Hafi ekki komið fram neinar skýringar hvers vegna svo lengi hafi verið beðið með að færa stefnanda fyrir dómara.  Þá hafi stefnanda jafnframt verið meinað að hafa samband við vandamenn til þess að tilkynna þeim um viðkomandi atburði, andstætt því sem fram komi í handtökuskýrslu.  Af öllu framansögðu telji stefnandi ljóst að handtaka hans um borð í ms Goðafossi þann 8. mars 1999 hafi verið ólögmæt, sbr. tilvitnuð ákvæði 1. nr. 19/1991 og ákvæði 67. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, sbr. 1. nr. 33/1944.

Í öðru lagi sé á því byggt af hálfu stefnanda að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn hafi verið upp þann 9. mars 1999, hafi verið rangur að efni til þar sem hann hafi byggt á bæði röngum og ólögmætum forsendum.  Eins og rakið hafi verið hér að framan hafi stefnandi verið handtekin að ófyrirsynju og án þess að rökstuddur grunur hafi fallið á hann.  Þrátt fyrir að rannsóknaraðilar hafi síðar fundið varning um borð í ms Goðafossi, hafi ekkert verið sem hafi gefið þeim tilefni til að ætla að sá varningur tilheyrði eða tengdist stefnanda á nokkurn hátt.  Þvert á móti hafi umræddur varningur kyrfilega verið merktur öðrum skipverjum í nokkrum tilfellum.  Þannig sé það mat stefnanda að því grundvallarskilyrði sem úrskurðurinn hafi byggst á, þ.e. að rökstuddur grunur hafi fallið á stefnanda, hafi ekki verið fullnægt.  Þá telji stefnandi að umræddur gæsluvarðhaldsúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur hafi verið kveðin upp á ólögmætum forsendum.  Eins og fram komi í kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald, hafi krafa rannsóknaraðila um gæsluvarðhald yfir stefnanda ekki verið byggð á eða rökstudd með tilvísun til atriða er vörðuðu stefnanda.  Þannig byggi krafa rannsóknaraðila eingöngu á því að ótilteknir aðilar hafi framið afbrot.  Að mati stefnanda beri rannsóknaraðila að lágmarki að beina rökstuðningi sínum að tilteknum mönnum vegna tiltekinna afbrota þeirra.  Þá sé byggt á því af hálfu stefnanda að rannsóknaraðilar hafi orðið þess áskynja, strax á öðrum degi rannsóknar, að stefnandi hafi verið alsaklaus af öllum sakargiftum.  Allt að einu hafi þeir dregið lausn stefnanda úr gæsluvarðhaldi um tvo daga.  Að öðru leyti sé vísað til málsástæðna er fram komi í afriti af kæru þeirri sem stefnandi lagði fyrir Hæstarétt Íslands, en hana hafi stefnandi orðið að afturkalla þann 15. mars 1999 við lausn úr varðhaldi, án þess að fengin yrði efnisúrlausn Hæstaréttar Íslands á lögmæti gæsluvarðhaldsins.

Í þriðja lagi sé á því byggt af hálfu stefnanda að hann hafi verið látin sitja í gæsluvarðhaldi að ósekju.  Annars vegar hafi rannsóknaraðilum orðið það ljóst á öðrum degi varðhalds að stefnandi hafi ekki verið viðriðinn meintar tilraunir til brota á tolla- og áfengislögum.  Hins vegar hafi rannsóknaraðilar viðurkennt þá staðreynd í verki að stefnandi hafi verið vistaður alsaklaus í gæsluvarðhaldi með því að málið á hendur stefnanda hafi verið látið falla niður.  Í þeirri niðurfellingu hafi falist viðurkenning rannsóknaraðila á sakleysi stefnanda og um leið á ólögmæti þeirra þvingunaraðgerða sem beitt hafi verið gegn stefnanda.

Í fjórða lagi telur stefnandi að málsmeðferð rannsóknaraðila hafi í veigamiklum atriðum, sbr. framangreint, brotið gegn þeim réttindum sem íslenska ríkið hafi skuldbundið sig til að virða með aðild sinni og löggildingu á mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. nr. 62/1994.  Sé sérstaklega vísað til 5. og 6. gr. í meginsamningi Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og jafnframt 67. gr. og 70 gr. stjórnarskrárinnar, sbr. l. 33/1944.

Grundvöllur bótakröfu

Af hálfu stefnanda sé á því byggt, sbr. ofangreint, að rannsóknaraðilar hafi með ólögmætum hætti brotið gegn grundvallar mannréttindum stefnanda þ.á.m. persónufrelsi hans.  Að mati stefnanda beri stefnda að standa skil á skaða- og miskabótum vegna hinna fyrrgreindu brota.  Sé bótakrafa stefnanda byggð á almennum reglum skaðabótaréttar, 26. gr. 1. nr. 50/1993 og sérstaklega á ákvæðum XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála.

Í 175. gr. laga nr. 19/1991, sbr. l. nr. 36/1999, sé því lýst að kröfur um miska og skaðabætur samkvæmt XXI. kafla laganna megi taka til greina ef rannsókn hafi verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að ekki hafi fengist sönnur um þá háttsemi sem sakborningur hafi verið borinn.  Í 176. gr. sé því jafnframt lýst að dæma megi bætur m.a. vegna handtöku, leitar og gæsluvarðhalds, ef lögmæt skilyrði hafi brostið til slíkra aðgerða eða ef eigi hafi verið nægt tilefni til þeirra aðgerða sem gripið hafi verið til.  Samkvæmt framangreindu séu öllum þeim skilyrðum, sem lýst sé í XXI. kafla laga nr. 19/1991, fullnægt hvað varði stefnanda.

Hvað varði almennt fjártjón stefnanda vísi stefnandi til þess að seta hans í gæsluvarðhaldi hafi skert orlof hans um fjóra daga en samkvæmt vinnuáætlun hafi stefnandi átt að vera í orlofi eftir heimkomu ms Goðafoss þann 8. mars 1999.  Þannig  reiknist stefnanda til að tjón hans nemi daglaunum þá fjóra daga sem hann hafi verið sviptur frelsi sínu.

Í 26 gr. laga nr. 50/1993 sé því lýst sem svo að hver sá, sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, skuli greiða miskabætur til þess sem misgert hafi verið við.  Að mati stefnanda sé ljóst að rannsóknaraðilar stefnda hafi í veigamiklum atriðum misgert við stefnanda.  Beri stefnda því að standa skil á umkröfðum miskabótum.

Að mati stefnanda sé ljóst að stefndi beri óskerta ábyrgð á ólögmætu atferli þeirra rannsóknaraðila, sem gert hafi á hlut stefnanda, samkvæmt almennum meginreglum skaðaðbótaréttar um húsbóndaábyrgð, sbr. framangreint.

Sundurliðun dómkröfu

Stefnandi sundurliðar dómkröfur sínar með eftirfarandi hætti:

Tapaður orlofstími m.v. dagl. vélav.(4 dagar*4.094,-): 16.376, kr.

Miskabætur: 1. 500.000 kr.

­Samtals: 1.516.376 kr.

Stefnandi kveðst byggja málatilbúnað sinn á almennum reglum skaðabótaréttar um skaða­bætur utan samninga, almennum reglum skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð, ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. sérstaklega 26. gr., lögum nr. 19/1991, einkum XXI. kafla, sbr. 1. nr. 36/1999, l. nr. 62/1994, 1. nr. 33/1944 og vaxtalögum nr. 25/1987.  Krafa um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála.  Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðji við lög nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri því nauðsyn að fá dæmt álag á málskostnað er nemi virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir á því að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir handtöku stefnanda og vísar til 97. gr. laga nr. 19/1991.  Við handtöku stefnanda hafi atvik máls verið þannig að tollgæslumenn hafi séð verulegu magni af áfengi hent frá borði og mikið magn af áfengi og fleiru fundist síðar í skipinu.  Enginn skipverja hafi viljað kannast við að vera eigandi þessa.  Því hafi grunur fallið á alla í áhöfn skipsins um stórfellt smygl eða tilraun til þess og hafi þeir því allir verið handteknir með heimild í l. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Því hafi verið fyrir hendi rökstuddur grunur um að stefnandi hafi framið afbrot sem sætt gæti ákæru og skilyrði greinarinnar uppfyllt að öðru leiti.

Frumrannsókn málsins hafi tekið nokkurn tíma þar sem sakborningar hafi verið margir.  Reynt hafi verið að rannsaka hverjir bæru ábyrgð á smyglinu þannig að ekki þyrfti að krefjast gæsluvarðhalds yfir öllum skipverjum.  Það hafi hins vegar ekki tekist á þeim tíma og því hafi allir skipverjar verið áfram undir rökstuddum grun.  Mótmælt sé sem rangri fullyrðingu í stefnu að stefnanda hafi verið meinað hafa samband við vandamenn sína.

Lögmælt skilyrði hafi einnig verið fyrir gæsluvarðhaldi stefnanda, enda úrskurðað um það af Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 9. mars 1999.  Krafa um gæsluvarðhald hafi byggt á því að ljóst hafi verið að umtalsvert smygl á áfengi og öðrum varningi hafi átt sér stað og áhafnarmeðlimir, allir eða nokkrir, borið ábyrgð á því.  Ekki hafi verið hægt eins og atvik hafi legið fyrir að útiloka neinn einn skipverja.  Allir hafi þeir því verið undir rökstuddum grun þegar krafa um gæsluvarðhald hafi verið gerð.  Þá hafi einnig verið talin hætta á að sakborningarnir gætu torveldað rannsókn málsins ef þeir gengju lausir.  Í þessu sambandi verði að geta þess að sú aðferð skipverja að kasta brúsum í hafið hafi bent til þess að þeir hafi haft samverkamenn í landi sem sæju um að sækja áfengið.  Hafi markmið rannsóknarinnar þannig ekki aðeins verið til að upplýsa hverjir af áhöfninni stæðu að smyglinu og um líklega samaðild þeirra, heldur einnig að upplýsa um hugsanlega samverkamenn í landi.

Stefnanda hafi ekki verið ekki haldið lengur í gæsluvarðhaldi en nauðsyn hafi borið til og honum sleppt 12. mars.  Í yfirheyrslum hjá lögreglu hafi stefnandi neitað aðild sinni að smyglinu og allri vitneskju um það t.d. hvað varðaði felustaði um borð, hverjir hefðu staðið að því, hverjir úr áhöfn hafi séð um viðskipti við skipshöndlara o.fl.  Framburður stefnanda sé ótrúverðugur.

Ítrekað sé að um umfangsmikið smygl hafi verið að ræða.  Ólíklegt sé annað en að öll áhöfnin hafi vitað um smyglið en enginn hafi kannast við það við handtöku.  Við rannsókn málsins hafi verið leitast við að útiloka að þeir sem hafi tengst málinu á einhvern hátt og lögreglan hafi handtekið gætu komið upplýsingum til hugsanlegra vitorðsmanna sinna og tafið þannig eða eyðilagt möguleika lögreglunnar til að finna hugsanlega vitorðsmenn og þar með að upplýsa málið.

Eftir að rannsókn málsins lauk hafi það verið tekið til ákærumeðferðar og þótti það sem fram var komið ekki vera nægilegt eða líklegt til sakfellis varðandi stefnanda, sbr. 112. gr. laga nr. 19/1991, og hafi honum verið tilkynnt um það bréflega.  Sú tilkynning sé ekki yfirlýsing um sakleysi hans heldur um það að rannsóknargögn þættu ekki líkleg eða nægileg til sakfellis hvað hann varðaði.  Mótmælt sé sem röngum fullyrðingum stefnanda að rannsóknaraðilum hafi orðið það ljóst á öðrum degi varðhaldsins að stefnandi hafi ekki verið viðriðinn smyglið.  Staðreyndin sé sú að ekki hafi tekist að gera grein fyrir eignarhaldi og smygli á u.þ.b. 235 lítrum af sterku áfengi, en útilokað þyki að aðrir en meðlimir úr áhöfninni hafi borið ábyrgð á því.

Með vísan til þess sem að framan sé rakið telji stefndi að ekki séu uppfyllt skilyrði XXI. kafla laga nr. 91/1991 til greiðslu bóta og því beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Í kaflanum séu tæmandi talin þau tilvik sem gætu orðið grundvöllur bóta, en þar sé mælt fyrir um heimild en ekki skyldu.  Af hálfu stefnanda sé vísað til 175. og 176. gr. laga nr. 19/1991 en því sé hafnað af hálfu stefnda að skilyrðum þeirra ákvæða sé fullnægt.  Aðrar tilvitnanir til lagaheimildar veiti stefnanda ekki ríkari rétt til bóta en mælt sé fyrir um í XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála.

Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.  Krafa stefnanda um tapaðan orlofstíma 16.376 krónur sé ósannaður, enda ekki um fjártjón að ræða.  Miskabótakrafan sé ekki í neinu samræmi við dómvenju í sambærilegum málum.  Um vexti beri að fara að vaxtalögum nr. 25/1987 m.s.br.  Vaxtakrafa vegna tímabilsins frá mars 1999, er stefnandi var látinn laus úr gæslu og til þingfestingar málsins, sé án viðhlítandi lagastoðar og sé henni hafnað.  Upphafstíma dráttarvaxtakröfu er mótmælt og er vísað til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Skilyrði skaðabóta í tilvikum eins og hér um ræðir lúta ákvæðum 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991.  Ákvæði 175. gr. laganna var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999 sem tóku gildi 1. maí sama ár.  Atvik þau sem um er deilt í málinu áttu sér stað í marsmánuði 1999.  Stefnandi byggir málatilbúnað sinn m.a. á 175. gr. laga nr. 19/1991 eins og henni var breytt með 42. gr. laga nr. 36/1999 og hefur stefndi ekki fundið að því.  Kemur fram í athugsemdum með frumvarpi að lögum nr. 36/1999 að markmið löggjafans með breytingunni hafi verið að taka af tvímæli um það að ákvæði laga nr. 19/1991 væru í samræmi við 5. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Með hliðsjón af þessu svo og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands frá 1. mars 2001 í málinu nr. 269/2000 þykir rétt að byggja á ákvæði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 eins og það er nú.

Fram er komið að tollgæsla og lögregla höfðu, áður en atvik þau urðu er mál þetta fjallar um, haft grun um að skipverjar ms Goðafoss stunduðu smygl. Eins og greinir hér að framan urðu tollgæslumenn vitni að því, hinn 8. mars 1999, er tveimur trossum með plastbrúsum var kastað frá borði ms Goðafoss skammt utan við innsiglinguna inn í Reykjavíkurhöfn og skömmu síðar fundu þeir megna áfengislykt.  Við rannsókn kannaðist enginn skipverja við að hafa átt þann varning sem kastað var í sjóinn.  Var því tekin ákvörðun um að handtaka alla áhöfn ms Goðafoss.  Nokkru síðar fannst verulegt áfengismagn og vindlingalengjur ofl. undir vinnuborði í málningargeymslu, sem tilheyrir sameiginlegu rými skipsins. 

Með hliðsjón af  því að tollgæslumenn höfðu séð umbúðum utan af áfengi kastað  frá borði ms Goðafoss verður að telja að rökstuddur grunur hafi verið fyrir hendi við handtöku um að smyglvarningur væri í skipinu enda þótt hann hefði ekki fundist þar á þeim tímapunkti.  Eins og atvikum háttaði beindist grunur að öllum skipverjum og þykir ekkert hafa komið fram er sýni fram á sérstöðu stefnanda við handtökuna að þessu leyti.  Verður að telja að skilyrði 97. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið uppfyllt og tilefni hafi verið til handtöku eins og á stóð.

Stefnandi byggir og á því að á honum hafi verið brotið með því að hann var ekki yfirheyrður fyrr en sjö tímum eftir handtöku.  Þá hafi liðið tæpir 24 tímar áður en hann var færður fyrir dómara. 

Ljóst er að margir voru handteknir á sama tíma og að frumrannsókn tók sinn tíma.  Samkvæmt 102. gr. laga nr. 19/1991 skal leiða mann sem tekinn er fastur fyrir dóm án  undandráttar enda sé hann ekki látinn laus eða færður aftur í gæslu eða refsivist sem hann á að sæta.  Að færa handtekinn mann fyrir dómara innan 24 tíma verður að telja að sé innan þeirra marka sem ákvæðið setur.  Er því ekki fallist á að brotið hafi verið á stefnanda að því er þetta varðar.

Eins og segir í kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald, sem gerð var 9. mars 1999, var leit í skipinu langt á veg komin og hafði þá þegar talsvert magn af smyglvarningi fundist.  Skipverjar höfðu þá allir verið yfirheyrðir hjá lögreglu og enginn kannaðist við aðild að málinu.  Rökstuddur grunur lá því fyrir um meint brot og beindist hann að allri skipshöfninni.  Verður að telja að lögmæt skilyrði og fullt tilefni hafi legið til þess að stefnandi, ásamt öðrum skipverjum, var úrskurðaður í gæsluvarðhald, sbr. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Stefnandi heldur því m.a. fram að hann hafi verið látinn sitja í gæsluvarðhaldi að ósekju.  Fyrir liggur að stefnandi var í gæsluvarðhaldi í fjóra sólarhringa.  Þykir ekkert það hafa komið fram í málinu er styður þær fullyrðingar stefnanda að fyrir hafi legið á öðrum degi gæsluvarðhaldsins að stefnandi væri ekki viðriðinn meint brot.  Rannsókn málsins var í fullum gangi og margir voru grunaðir.  Er því ekki fallist á að stefnandi hafi setið lengur í gæsluvarðhaldi en rannsóknarhagsmunir kröfðust.  Þá er ekki fallist á að þó að stefnandi hafi ekki verið saksóttur hafi í því falist viðurkenning á ólögmæti nefndra aðgerða.

Samkvæmt framansögðu eru skilyrði bótaréttar samkvæmt XXI. kafla laga nr. 19/1991 eða samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar ekki fyrir hendi.  Þá þykir ekki sýnt fram á annað en að málsmeðferð rannsóknaraðila hafi verið í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.

Með hliðsjón af framansögðu ber því að sýkna stefnda, íslenska ríkið, af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 300.000 krónur, sem er þóknun lögmanns hans Jóhanns Halldórssonar hrl., greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsuppkvaðning dróst vegna mikils annríkis dómara.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Rögnvaldar Rögnvalds­sonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Jóhanns Halldórs­sonar hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.