Print

Mál nr. 394/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

                                     

Miðvikudaginn 12. ágúst 2015.

Nr. 394/2015.

Andri Fannar Ágústsson

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu og

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Reykjanesbæ

(Ásbjörn Jónsson hrl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli A gegn Í og R var vísað frá dómi. Krafðist A annars vegar viðurkenningar á því að synjun N um að láta þýða námsefni á íslenskt táknmál yrði dæmd ólögmæt og hins vegar að Í og R yrði gert, að viðlögðum dagsektum, að láta þýða tiltekið námsefni á íslenskt táknmál. Var talið að fyrri spurning A fæli í sér lögspurningu og væri því í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var jafnframt fallist á að sakarefnið sem síðari krafan lyti að heyrði ekki undir dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2015 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði krefst sóknaraðili annars vegar viðurkenningar á því að „synjun Námsgagnastofnunar 30. desember 2014 um að láta þýða námsefni á íslenskt mál verði dæmd ólögmæt“ og hins vegar að varnaraðilum verði gert að viðlögðum dagsektum að láta þýða tiltekið námsefni á íslenskt táknmál.

Með bréfum lögmanns sóknaraðila 19. nóvember og 17. desember 2014 var þess farið á leit að námsefni fyrir skólaárin 2014 til 2015 og 2015 til 2016 yrðu þýdd á táknmál fyrir sóknaraðila. Þeirri ósk synjaði stofnunin að svo stöddu með bréfi 30. desember 2014 og lýtur kröfugerð sóknaraðila að þeirri ákvörðun. Efni þessara erinda og öðrum bréfaskiptum er nánar lýst í úrskurði héraðsdóms.

Fyrri krafa sóknaraðila felur í sér lögspurningu og er því í andstöðu við 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, en hún er í raun málsástæða til stuðnings síðari kröfu hans. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að sakarefnið sem síðari krafan lýtur að heyri ekki undir dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. sömu laga. Þegar af þessum ástæðum verður úrskurðurinn staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2015.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 12. maí sl., er höfðað 20. mars sl. af Björgu Hafsteinsdóttur og Ágústi Þór Haukssyni, báðum til heimilis að Lágmóa 10, Reykjanesbæ, fyrir hönd ólögráða sonar þeirra, Andra Fannars Ágústssonar, til heimilis á sama stað, á hendur Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins og Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra, fyrir hönd Reykjanesbæjar.

Stefnandi krefst þess að synjun Námsgagnastofnunar 30. desember 2014 um að láta þýða námsefni á íslenskt mál verði dæmd ólögmæt og að stefndu verði dæmt skylt að láta þýða eftirtalið námsefni á íslenskt táknmál innan fjögurra mánaða frá dómsuppkvaðningu að viðlögðum 100.000 króna dagsektum að þeim tíma liðnum:

Auðvitað (á ferð og flugi). Höf.: Helgi Grímsson. Útgáfuár 2013.

Ísland – veröld til að njóta. Höf.: Björn Hróarsson. Útgáfuár 2007, 2. útg. 2009.

Auðvitað – jörð í alheimi. Höf.: Helgi Grímsson. Útgáfuár 2014.

Maðurinn – hugur og heilsa. Höf.: Lisa Bjarnbo. Útgáfuár 2010.

Snorra saga. Höf.: Þórarinn Eldjárn. Útgáfuár 2003.

Norðurlönd. Höf.: Kristín Snæland. Útgáfuár 2010.

Kristin trú – fagnaðarerindið. Höf.: Sigurður Ingi Ásgeirsson. Útgáfuár 2008.

Búddhatrú – leiðin til Nirvana. Höf.: Sigurður Ingi Ásgeirsson. Útgáfuár 2004.

Þá er þess krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi, Reykjanesbær, krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Stefndi, íslenska ríkið, krefst sýknu af kröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Andri Fannar Ágústsson er stefnandi máls þessa en samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fara foreldrar hans, þau Björg Hafsteinsdóttir og Ágúst Þór Hauksson, með forræði málsins sökum skorts hans á málflutningshæfi fyrir æsku sakir. Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991. Það var endurupptekið fyrr í dag og tekið til úrskurðar á ný.

Við flutning um frávísunarþátt málsins féll stefnandi frá þeim hluta aðalkröfu sinnar að viðurkennt verði að stefndu sé skylt að láta þýða námsefni sem er á námskrá grunnskóla á íslenskt táknmál eða gera það á annan hátt aðgengilegt fyrir stefnanda innan fjögurra mánaða frá dómsuppkvaðningu að viðlögðum 100.000 króna dagsektum að þeim tíma liðnum. Þar sem fyrri hluti aðalkröfu stefnanda var sá sami og greindi í fyrri hluta varakröfu hans féll hann frá aðalkröfunni í heild sinni og er hin eiginlega dómkrafa hans nú sú krafa sem áður var varakrafa hans að teknu tilliti til breytinga sem stefnandi hafði áður gert á síðari hluta hennar í þinghaldi 15. apríl sl.

Munnlegur málflutningur fór fram um frávísunarkröfu stefnda, Reykjanesbæjar, 12. maí sl. Auk þess að gera kröfu um frávísun málsins krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda í þessum þætti þess. Stefndi, íslenska ríkið, gerði í greinargerð sinni ekki kröfu um frávísun en setti þar fram ábendingar um atriði er hann taldi leiða til frávísunar málsins af sjálfsdáðum (ex officio). Við munnlegan flutning um þennan þátt málsins gerði hann grein fyrir sjónarmiðum sínum þar að lútandi. Hann krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda í þessum þætti málsins. Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfunni verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í þessum þætti málsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

I

Málsatvik

Stefnandi er 10 ára heyrnarlaus nemandi í fimmta bekk Holtaskóla í Reykjanesbæ. Af hálfu stefnanda er frá því greint að fyrsta mál hans sé íslenskt táknmál og að möguleikar hans til að nota sér námsbækur á íslensku séu takmarkaðir.

Í stefnu kemur fram að á útmánuðum 2014 hafi komið í ljós að námsefni fimmta bekkjar sem gert hafi verið ráð fyrir að stefnandi lærði með öðrum nemendum væri ekki tiltækt á táknmáli.

Nokkur samskipti munu þá hafa orðið um málið með tölvubréfum milli Holtaskóla og Námsgagnastofnunar. Ritar starfsmaður Holtaskóla stofnuninni tölvubréf 8. apríl 2014 þar sem gerð er grein fyrir því að í skólanum sé heyrnarlaus nemandi sem muni hefja nám í 5. bekk á komandi hausti. Nauðsynlegt sé að nemandinn fái námsbækur á táknmáli og því kveðst skólastjórinn leita til stofnunarinnar, þar sem hlutverk hennar sé að leggja grunnskólum til námsgögn við hæfi nemenda, um það hvernig stofnunin komi til móts við þarfir nemenda eins og þessa. Í svarbréfi frá stofnuninni kemur m.a. fram að stofnunin hafi ekki séð sér fært að laga efni að þörfum einstakra nemenda með ólíkar fatlanir og að ekki hafi komið til tals að þýða efni hinna einstöku námsgreina á táknmál.

Móðir stefnanda ritaði bréf til mennta- og menningarmálaráðherra 26. júní 2014. Lýsti hún þar aðstæðum sonar síns og að hann ætti að lögum rétt á að honum yrði fengið námsefni við hæfi. Þá óskaði hún eftir leiðbeiningu frá ráðherra um hvernig hún gæti tryggt rétt sonar síns til að fá námsgögn við hæfi vegna grunnskólanáms hans.

Í svarbréfi ráðuneytisins, 29. september 2014, segir að aflað hafi verið umsagnar Námsgagnastofnunar. Þar komi fram að „sú fjárveiting sem varið er til námsefnisgerðar rúmar ekki námsefnisgerð umfram þá framkvæmd sem nú er“. Þá segir að ráðuneytið líti svo á að réttur nemenda í grunnskóla til að njóta menntunar á grundvelli námsefnis við hæfi sé ríkur. Rétt sé þó að árétta að aðalnámskrá grunnskóla feli í sér ákveðinn fyrirvara, þ.e. að veita beri nemendum sem þess þurfa tækifæri til þess að nota íslenskt táknmál í öllum námsgreinum eftir því sem við verði komið. Þá kemur þar fram að undanfarin misseri hafi verið unnið að því að bæta stöðu heyrnarlausra og heyrnarskertra nemenda. Þar á meðal sé dregið fram að auka þurfi framboð á námsefni á íslensku táknmáli, blindraletri og öðru aðgengilegu formi fyrir markhópa.

Með bréfi lögmanns stefnanda til Námsgagnastofnunar 19. nóvember 2014 var óskað eftir því, í ljósi lögbundinnar skyldu stofnunarinnar að útvega námsgögn í samræmi við þarfir nemenda, að tiltekið námsefni, annars vegar vegna skólaársins 2014/2015 og hins vegar vegna skólaársins 2015/2016, yrði þýtt á íslenskt táknmál.

Bréfið var ítrekað 17. desember 2014. Í svarbréfi Námsgagnastofnunar 30. desember 2014 kemur fram að stofnunin líti svo á að markmið laga nr. 71/2007 um námsgögn, um að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda og skóla, feli ekki í sér skyldu til að koma til móts við óskir stefnanda um að þýða umbeðnar námsbækur á táknmál. Stofnunin taki mið af fjárheimildum fjárlaga og forgangsröðun stjórnvalda og þau veiti ekki svigrúm miðað við núverandi stöðu til að koma til móts við óskir stefnanda. Kostnaður við þýðingu námsbóka á táknmál sé mikill og þyrfti að endurskoða forgangsröðun eða auka verulega fjárveitingar til stofnunarinnar til að slík útgáfa yrði framkvæmanleg. Ákvörðun um þess háttar breytingu sé af þeirri stærðargráðu að hana þyrfti að taka í mennta- og menningarmálaráðuneytinu eða á Alþingi þar sem skýrar væri kveðið á um þessi mál en nú væri gert. Þá sagði að erindið yrði kynnt fyrir stjórn stofnunarinnar í tengslum við samþykkt útgáfuáætlunar ársins 2015 og leitað eftir mati Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra um hvernig unnt væri með einhverjum hætti að koma til móts við þarfir stefnanda fyrir námsgögn. Einnig muni stofnunin leita eftir afstöðu ráðherra til forgangsröðunar og fjárveitinga til þýðinga námsbóka á táknmál. Að svo stöddu væri stofnuninni því miður ekki unnt að þýða umbeðið námsefni á íslenskt táknmál.

Í máli þessu krefst stefnandi þess að synjun Námsgagnastofnunar, sem falist hafi í áðurnefndu bréfi hennar frá 30. desember 2014, sé dæmd ólögmæt og að stefndu verði gert að gefa tiltekið námsefni út á táknmáli eins og nánar segir í dómkröfum hans.

Í bréfi lögmanns stefnanda til Námsgagnastofnunar 18. mars sl. segir að í áðurnefndu svari stofnunarinnar hafi komið fram að erindið yrði kynnt fyrir stjórn hennar í tengslum við samþykkt útgáfuáætlunar fyrir árið 2015 og leitað eftir mati Samskiptamiðstöðvar um hvernig unnt væri að koma til móts við þarfir stefnanda. Lögmaðurinn hafi upplýsingar um það af vef stofnunarinnar að búið sé að afgreiða útgáfuáætlun fyrir árið 2015. Sé því óskað eftir greinargerð forstöðumanns stofnunarinnar um það hvernig farið hafi með samráð við stjórn stofnunarinnar og Samskiptamiðstöðina og hvaða efni ætlað heyrnarlausum sé að finna á útgáfuáætlun fyrir árið 2015.

Í svarbréfi forstöðumanns stofnunarinnar 27. mars sl. segir að við afgreiðslu útgáfuáætlunar fyrir árið 2015 hafi ekki reynst unnt að taka útgáfu námsefnis fyrir heyrnarlausa sérstaklega upp í stjórn stofnunarinnar. Síðan er rakið að fyrirsjáanlegt sé að skerða verði almenn framlög til námsefnisgerðar á vegum stofnunarinnar vegna hækkunar virðisaukaskatts. Stofnunin sé þó reiðubúin til að skapa svigrúm í reglulegri starfsemi sinni til að vinna að gerð námsefnis fyrir heyrnarlausa hvort sem viðbótarfjármagn fáist eður ei. Það svigrúm muni hins vegar ekki nægja til að verða við óskum um aðlögun og þýðingu á námsefni yfir á táknmál. Síðan er greint frá því að stofnunin hafi átt viðræður við Samskiptamiðstöðina um útgáfu efnis á táknmáli. Þær viðræður hafi leitt í ljós að ákjósanlegt væri að Samskiptamiðstöðin hefði með höndum þýðingu og aðlögun námsefnis yfir á táknmál og sæi jafnvel um að þýða og aðlaga erlent táknmálsefni fyrir íslenskt táknmál í stað námsefnis Námsgagnastofnunar. Kveðst stofnunin fús til samstarfs við Samskiptamiðstöðina svo að þegar megi hefjast handa við að útbúa námsefni á táknmáli til notkunar haustið 2015.

II

Málsástæður og lagarök stefndu fyrir frávísunarkröfu

Krafa stefnda, Reykjanesbæjar, um frávísun málsins byggist m.a. á því að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni af því að fá efnisúrslausn um dómkröfur sínar og sakarefni málsins uppfylli ekki skilyrði 4. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Stefndi kveðst benda á að samkvæmt 3. mgr. 31. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla beri menntamálaráðherra þá skyldu að útvega grunnskólum námsgögn. Yrði í dómsmáli fallist á kröfu þess efnis að ráðherra væri skylt að útvega námsgögn væru það grunnskólar og eftir atvikum sveitarfélög sem hefðu lögvarða hagsmuni af því en ekki einstakir nemendur þótt þessir sömu nemendur nytu góðs af slíkri niðurstöðu. Hér sé það nemandi sem geri kröfu um tiltekin námsgögn en ekki grunnskóli. Lögvarðir hagsmunir eru hagsmunir sem séu þess eðlis að það geti skipt máli fyrir stöðu stefnanda að lögum að fá dóm um þá. Yrði fallist á kröfu stefnanda hefði það ekki þá lagalegu þýðingu sem haldið er fram af hálfu stefnanda. Það yrði enn í höndum menntamálaráðherra að útvega námsgögnin og enn í höndum grunnskóla að skipuleggja nám sérhvers nemanda. Eins og krafa stefnanda sé sett upp sé þess krafist að tiltekið námsefni verði þýtt á íslenskt táknmál. Þegar og ef dómur gengur í þessu máli verður skólaári stefnanda lokið. Hann mun því þegar hafa sagt skilið við námsefni á listanum og hafi því ekki lögvarða hagsmuni af því að láta þýða umrætt námsefni. Stefnandi hafi því samkvæmt öllu framansögðu ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Þá sé ljóst að fyrri hluti kröfu stefnanda um ólögmæti fái ekki staðist þar sem í bréfi Námsgagnastofnunar hafi ekki falist stjórnvaldsákvörðun, heldur hafi það verið svar stofnunarinnar í tilefni af fyrirspurn stefnanda. Svar stofnunarinnar innihaldi ekki þá efnisþætti sem nauðsynlegir séu svo að það geti talist stjórnvaldsákvörðun. Ákvörðun þurfi að beinast út á við að borgurunum og vera ákvörðun í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Þetta eigi ekki við um svar stofnunarinnar sem hafi verið almenns eðlis.

Dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem nauðsynlegt er til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Útilokað sé að dómsniðurstaða í máli þessu geti orðið til þess að fá úrlausn um þann ágreining stefnanda og stefnda, íslenska ríkisins, um skyldu þess síðarnefnda til að þýða námsefni á táknmál. Eins og krafan sé sett fram er verið að óska eftir áliti dómsins á lögmæti svars Námsgagnastofnunar 30. desember 2014 eða á því hvort stjórnvöldum beri ekki aðeins að gera ögn betur í þessum málaflokki en þau gera í dag. Hér sé því um að ræða lögspurningu sem sé í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Auk framangreinds telur stefndi að dómkrafa stefnanda sé utan valdsviðs dómstóla og með henni sé stefnandi að óska eftir því að dómstólar hlutist til um að skipa málum sem séu ekki á valdsviði þeirra heldur stjórnvalda. Stefndi ítrekar að löggjafinn hafi ekki lagt þær skyldur á herðar stefnda að útvega þau námsgögn sem lögð eru til grundvallar við kennslu í grunnskólum sveitarfélagsins. Stefnandi krefjist þess hins vegar af dómnum með málarekstri sínum að þessi skylda verði lögð á stefnda. Telur stefndi þetta stangast á við meginreglur einkamálaréttarfars og 24. gr. laga nr. 91/1991. Dómkrafa stefnanda sé á skjön við þrískiptingu ríkisvaldsins sem fram komi í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Stefnandi krefjist þess að dómsvaldið komi að tilteknum breytingum á því hvernig framkvæmdavaldið hagar hlutum í þeim málaflokki sem hér er til umræðu. Samkvæmt 3 mgr. 31. gr. grunnskólalaga sé það skylda menntamálaráðherra að leggja grunnskólum til námsgögn. Það heyri því ekki undir dómstóla heldur framkvæmdavaldið hvernig að því sé staðið.

Einnig byggir stefndi á því að málið sé vanreifað af hálfu stefnanda og fari þannig í bága fara við d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þannig sé þáttur stefnda Reykjanesbæjar í málinu algerlega óljós og tengsl hans við sakarefni málsins vanreifuð. Stefnandi geri enga tilraun til þess að útskýra samlagsaðild stefndu né á hvaða lagagrundvelli hann höfði málið gegn stefnda. Eins og áður hafi komið fram sé það menntamálaráðherra sem beri í öllum tilfellum skylda til að útvega grunnskólum og nemendum þeirra námsgögn og stefndi eigi erfitt með að taka til varna í málinu þar sem aðild hans sé í besta falli óljós eða í versta falli vanreifuð. Dómkröfum stefnanda er samkvæmt orðanna hljóðan eingöngu beint gegn stefnda íslenska ríkinu.

Auk þess hafi stefnandi með engu móti útskýrt eigin aðild að máli þessu þegar ekki verði séð að tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun í máli hans. Um sé að ræða almennt svar með útskýringum um stöðu mála. Þá hafi stefnandi heldur ekki útskýrt þörf sína fyrir þýðingu námsefnisins. Ekki sé gerð grein fyrir því í stefnu eða gögnum málsins hvernig námi hans sé háttað eða hvernig námsstaða hans sé, m.a. með tilliti til lestrar. Þá sé ekki reifað hvernig þýðing námsefnisins muni gagnast stefnanda í námi hans en nám hans fari eftir einstaklingsnámskrá auk þess sem stefndi hafi lagt fram bréf yfirsálfræðings stefnda þar sem dregið er í efa að það sé stefnanda fyrir bestu að námsefni hans verði þýtt. Samkvæmt einstaklingsnámskrá stefnanda, sem liggi fyrir í málinu, fái hann fjölþætta aðstoð m.a. í gegnum stuðningsfulltrúa, sérkennara og táknmálstúlk sem þýði námsefnið fyrir stefnanda. Í stefnu málsins og gögnum sé því ekki sýnt fram á hvernig þýðing námsefnisins muni bæta stöðu stefnanda. Sveitarfélagið hafi engum beinum skyldum að gegna varðandi námsefnið og því telji stefndi sig ekki eiga neinn hlut að máli. Skyldan hvíli á stefnda, íslenska ríkinu.

Þrátt fyrir að stefnandi hafi tvívegis breytt dómkröfum sínum frá því að málið var höfðað sé málatilbúnaður hans enn haldinn umtalsverðum göllum. Telur stefndi málatilbúnað stefnanda ganga gegn þeirri meginreglu að grundvöllur málsins sé skýr og liggi ljós fyrir við upphaf málshöfðunar. Stefnandi hafi ekki sett mál sitt fram með þeim hætti sem áskilið sé í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Slíkir gallar séu á öllum málatilbúnaði stefnanda að varði frávísun þar sem ómögulegt sé að leggja dóm á málið.

Sjónarmið stefnda, íslenska ríkisins, hvað varðar frávísun málsins eru þau að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Óljóst sé hvort í svari Námsgagnastofnunar sem málatilbúnaður stefnanda snúist um felist alger synjun, enda segi í niðurlagi bréfsins að stofnuninni sé „að svo stöddu“ ekki unnt að þýða umbeðið námsefni á íslenskt táknmál. Auk þess sé bréfið hluti af máli sem sé til umfjöllunar hjá stofnuninni og unnið sé að því að koma til móts við þarfir stefnanda. Bréfið sé því þáttur í umræðum og þáttur í því að stuðla að lausn en ekki endanleg ákvörðun og að sönnu ekki stjórnvaldsákvörðun, enda hafi Námsgagnastofnun samkvæmt lögum ekki slíkt hlutverk og ekki sé beint réttarsamband milli hennar og stefnanda. Bréf stofnunarinnar sé svar við erindi þar sem hún lýsi viðhorfum sínum og ástæðum að baki þýðingu bóka á táknmál og upplýst að leitað verði leiða til að koma frekar til móts við þarfir stefnanda. Krafa stefnanda sé því í raun beiðni um lögfræðilega álitsgerð dómsins sem sé í andstöðu við 24., 25. og 26. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verði séð að niðurstaða um lögmæti þessa svarbréfs geti leitt til niðurstöðu á einn eða annan veg.

Þá kveðst stefndi benda á að dómstólar leysi eingöngu úr lögmæti ákvarðana í ákveðnu og fyrirliggjandi máli en taki ekki afstöðu til forsendna að baki þeim og taki þannig ekki stjórnvaldsákvarðanir. Dómstólar kveði ekki á um athafnaskyldu stjórnvalda vegna ákvæða 2. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 24. gr. laga nr. 91/1991.

Þá vanti í stefnu útlistun á stöðu stefnanda, t.d. hvernig námsframvinda hans sé og hvort hann sé læs. Dómkrafan sé í raun sett fram án nánari útskýringa á þörfum stefnanda og séu málsástæður hans fyrst og fremst tilvísanir til stjórnarskrár, laga og alþjóðasamninga. Ekki sé fjallað um nám stefnanda og hvernig því sé í reynd háttað. Eingöngu liggi fyrir í málinu einstaklingsnámskrá stefnanda. Þetta hafi gert stefnda erfitt um varnir. Þá sé óljóst hvort þýðing þessara námsgagna komi stefnanda að notum og þá hvenær. Námi hans í 5. bekk sé að ljúka og ekki sé ljóst hvaða bækur af þeim sem stefnandi telur upp í dómkröfum sínum séu kenndar í 5. bekk og hverjar sé kenndar í 6. bekk. Þá séu þessi gögn ekki lögð fram og stefndi geti því ekki áttað sig á því hvað felist í málsókninni og hvert umfang hennar sé í raun og veru. Þá sé algerlega óljóst hvort fagaðilar telji nauðsynlegt að stefnandi fái þessi gögn þýdd. Ekki verði séð að efnisleg niðurstaða í dómsmáli þessu leiði til niðurstöðu á einn eða annan veg enda verði ekki betur séð af einstaklingsnámskrá stefnanda en að hann njóti táknmálstúlkunar þar sem námsefni hans sé þýtt á táknmál í kennslu stefnanda auk þess sem hann njóti sérstakrar aðstoðar í námi sínu.

III

Málsástæður og lagarök stefnanda gegn frávísunarkröfu

Stefnandi hafnar frávísunarkröfu stefndu. Af hálfu stefnanda er á því byggt að engir ágallar séu á stefnunni sem varðað geti frávísun málsins. Þá sé framsetning kröfugerðar með hefðbundnum hætti. Grundvöllur kröfunnar sé skýr.

Í málinu sé tekist á um rétt tíu ára gamals heyrnarlauss drengs sem hafi íslenskt táknmál að móðurmáli sem samkvæmt lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls sé jafn rétthátt íslensku. Ekki sé verið að krefjast neinnar sérmeðferðar, heldur eingöngu þess að íslenska ríkið fullnægi lagaskyldu sinni. Því hafni stefnandi öllum sjónarmiðum stefndu um að ekki liggi fyrir að hve miklu leyti námsgögn á táknmáli gagnist stefnanda og komi honum að notum.

Þá séu illskiljanlegt sjónarmið stefnda, Reykjanesbæjar, um að kröfur stefnanda séu vanreifaðar. Kröfugerð stefnanda sé skýr og þá hafi kröfugerð hans verið breytt þar sem fallast hafi mátt á að upphafleg aðalkrafa hans hafi verið of almenn. Eftir standi krafa hans um að tiltekin synjun verði dæmd ólögmæt og þess jafnframt krafist að tilteknar námsbækur 5. og 6. bekkjar grunnskóla verði þýddar og hafi þá verið tekið tillit til sjónarmiða sérfræðinga Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra um hvaða námsefni væri raunhæft að þýða yfir á táknmál.

Þá hafi stefndi, Reykjanesbær, einnig talið aðild sína að málinu vanreifaða. Stefnandi bendir á að varnir er byggja á aðildarskorti leiði til sýknu samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 en ekki frávísunar og umfjöllun um það eigi því í raun ekki við á þessu stigi málsins.

Málatilbúnaði stefnanda sé beint að báðum stefndu á þeim grundvelli sem lög um grunnskóla leggja hvað varðar aðild að svona málum. Samkvæmt 4. gr. þeirra fari ráðherra með yfirstjórn þessa málaflokks, setji grunnskólum aðalnámskrá og leggi grunnskólum til námsgögn. Samkvæmt 5. gr. þeirra sé rekstur grunnskóla á ábyrgð og kostnað sveitafélaga og í 3. mgr. þeirrar greinar segi að sveitarfélögum sé skylt að sjá til þess að skólaskyld börn njóti skólavistar eftir því sem nánar sé kveðið á um í lögunum. Þessi aðstaða sem löggjafinn leggi upp sé ástæða fyrir samaðild stefndu í málinu þar sem það séu þeir sem að lögum beri ábyrgð á menntun og uppfræðslu stefnanda og skyldur þeirra séu því samofnar að lögum.

Rétt sé að form kröfugerðarinnar snúi fremur að stefnda, íslenska ríkinu, en hefði stefnda, Reykjanesbæ, ekki einnig verið stefnt í málinu, hefðu verið verulegar líkur á því að dómstólar hefðu vísað málinu frá vegna þarfar fyrir samaðild. Þá hafnar stefnandi því að lagagrundvöllur fyrir kröfu hans hvað varðar stefnda, Reykjanesbæ, sé óljós. Skyldur sveitarfélaga séu skilmerkilega reifaðar í stefnu og þær feli í sér að stefnda Reykjanesbæ sé skylt að tryggja stefnanda námsgögn á íslensku táknmáli. Það hafi stefndi ekki gert og á því byggi málsóknin á hendur þessum stefnda. Hafnar stefnandi því alfarið að hann hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að beina kröfum að stefnda, Reykjanesbæ. Um aðild stefnanda getur varla verið nokkur vafi og ekki unnt að telja þann þátt málsins vanreifaðan.

Þá hafnar stefnandi því alfarið að málið eigi ekki undir valdsvið dómstóla og að það hafi ekki áhrif á stöðu stefnanda ef fallist yrði á kröfur hans. Ljóst sé að úrlausn málsins hafi mikil áhrif á stöðu stefnanda og möguleika hans til að tileinka sér það námsefni sem um er að ræða og hann hafi rétt á að hafa aðgang að.

Um þau sjónarmið að synjun Námsgagnastofnunar hafi verið stjórnvaldsákvörðun eða ekki sé það að segja að málið snúist um afgreiðslu Námsgagnastofnunar, menntamálaráðuneytisins og Reykjanesbæjar á óskum stefnanda, sem notar íslenskt táknmál sem sitt móðurmál, um að fá að njóta kennslu með þeim gæðum sem lög gera ráð fyrir og hann á rétt á og fullnægir þörfum hans. Markmið laga um námsgögn nr. 71/2007 sé að tryggja framboð og fjölbreytileika námsgagna í samræmi við þarfir nemenda. Í þessu skyni reki ríkið Námsgagnastofnun sem leggi grunnskólum til námsgögn. Þetta endurspeglist í 4. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla þar sem segi að ráðherra leggi grunnskólum til námsgögn. Hlutverk grunnskóla sé samkvæmt 2. gr. laganna í samvinnu við heimilin að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem sé í sífelldri þróun. Sérstaklega sé fjallað um nemendur með sérþarfir í 17. gr. laganna. Skyldur stjórnvalda gagnvart þeim verði að skýra með hliðsjón af stöðu táknmálsins samkvæmt lögum nr. 61/2011. Stjórnvöldum sé því skylt að veita lögbundna þjónustu í samræmi við kröfur þeirra laga. Því feli synjun á útgáfu námsgagna á táknmáli augljóslega í sér skerðingu á þeim réttindum sem stefnandi eigi rétt til þegar litið sé til ákvæða stjórnarskrár og ákvæða áðurnefndra laga. Með ákvörðun Námsgagnastofnunar hafi réttindi stefnanda verið skert með ólögmætum hætti. Sú ákvörðun eigi meira skylt við stjórnvaldsákvörðun samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þjónustustarfsemi stjórnvalda. Telja verði að eftir því sem réttindi viðkomandi séu mikilvægari beri að telja ákvörðun stjórnvaldsákvörðun jafnvel þó að starfsemi stjórnvaldsins að öðru leyti, eins og t.d. kennsla, teljist þjónustustarfsemi. Sé vafi fyrir hendi beri að telja ákvörðun stjórnvaldsákvörðun.

Óháð því hvort synjun stofnunarinnar teljist stjórnvaldsákvörðun verði engu að síður að líta svo á að af áðurnefndum lögum leiði að á stofnuninni hvíli sú athafnaskylda að sjá til þess að þeir sem nota íslenskt táknmál njóti grunnskólanáms með sömu gæðum og þeir sem hafa íslensku að móðurmáli. Það sé á ábyrgð menntamálaráðherra að stofnunin starfi samkvæmt lögum. Ákvarðanir stofnunarinnar sæti því endurskoðun ráðherra að frumkvæði hans eða á grundvelli kæru samkvæmt 26. stjórnsýslulaga að því er varðar ákvarðarnir um réttindi og skyldur í skilningi 2. gr. þeirra laga. Svör ráðherra 20. september 2014 hafi því ekki heldur verið í samræmi við lög. Stefndu þurfi báðir að sinna skyldum sínum að íslenskum rétti og um það snúist málið.

Niðurstaða

Í máli þessu krefst stefnandi þess að „synjun Námsgagnastofnunar 30. desember 2014 um að láta þýða námsefni á íslenskt táknmál verði dæmd ólögmæt“ og að stefndu verði „dæmt skylt“ að láta þýða tiltekið námsefni, eins og nánar greinir í kröfugerð hans, á íslenskt táknmál innan fjögurra mánaða frá dómsuppkvaðningu að viðlögum 100.000 króna dagsektum að þeim tíma liðnum. Kröfugerð stefnanda er því tvíþætt.

Skilja verður málatilbúnað stefnda, Reykjanesbæjar, hvað varðar kröfu hans um frávísun málsins, svo að hann byggi á því að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um kröfu sína, afgreiðsla Námsgagnastofnunar á erindi stefnanda hafi ekki falið í sér endanlega úrlausn, málið eigi ekki undir dómstóla heldur sé beiðni um lögfræðilegt álit dómsins, málið sé vanreifað af hálfu stefnanda og að með síðari hluta kröfu sinnar sé stefnandi að krefjast þess að dómstólar fari yfir á svið stjórnvalda með því að skipa þar málum sem ekki heyri undir þá. Þá hefur þessi stefndi einnig byggt á því að óljóst sé af hverju honum sé stefnt til varnar í málinu. Stefndi, íslenska ríkið, gerði í greinargerð sinni ekki kröfu um frávísun málsins en reifaði þar sjónarmið um frávísun málsins af sjálfsdáðum (ex officio) og einnig við munnlegan flutning um þennan ágreiningsþátt málsins. Þótt vera kunni einhver blæbrigðamunur á framsetningu stefndu hvað frávísun málsins varðar, verður að telja að sjónarmið þeirra séu áþekk og að þau byggi á svipuðum röksemdum.

Dómurinn telur að stefnandi hafi ekki lagt fram neinar haldbærar skýringar á því að málinu sé meðal annars beint að stefnda, Reykjanesbæ, eða gert nægilega grein fyrir því hver sé lagagrundvöllur kröfu á hendur þessa stefnda. Hefur stefndi, Reykjanesbær, af þessum sökum krafist frávísunar málsins hvað sig varðar. Þegar metið er hvort stefnanda hafi verið nauðsynlegt eða heimilt að beina dómkröfum sínum jafnframt að stefnda, Reykjanesbæ, verður að gæta að því að milli stefndu er ekki slíkt réttarsamband, að það geti leitt af sér óskipt réttindi þeirra eða óskipta skyldu gagnvart stefnanda, enda ljóst að lögum samkvæmt getur sú skylda að þýða tiltekið námsefni ekki hvílt á stefnda, Reykjanesbæ. Verður sameiginleg aðild þeirra að málinu til varnar því ekki studd við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hún heldur ekki studd við 1. mgr. 19. gr. laganna enda hagar stefnandi málatilbúnaði sínum með þeim hætti að hann beinir sömu kröfu að báðum stefndu þótt ljóst megi vera að dómur í málinu hafi eingöngu áhrif á réttarstöðu annars þeirra. Virðist aðild stefnda, Reykjanesbæjar, því tæplega geta komið til álita nema eftir ákvæðum 21. gr. laga nr. 91/1991 en stefnandi hefur ekki kosið að haga málsókn sinni á hendur stefnda, Reykjanesbæ, með þeim hætti. Þó að í stefnu sé gerð grein fyrir þeim lögum er gilda um málefni grunnskóla og um námsgögn, auk umfjöllunar um stöðu táknmálsins samkvæmt lögum þar um, verður allt að einu að telja málið, hvað þátt stefnda Reykjanesbæjar varðar, svo óglöggt og vanreifað að vísa verður frá dómi kröfum stefnanda á hendur þessum stefnda enda verður ekki séð að dómsúrlausn um kröfur stefnanda hafi áhrif á þennan stefnda að lögum.

Að öðru leyti er málatilbúnaður stefnanda hvað varðar stefnda, íslenska ríkið, í samræmi við 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála. Verður ekki talið að málsgrundvöllurinn sé svo óljós að það takmarki á einhvern hátt varnir þessa stefnda. Verður málinu ekki vísað frá af þeim sökum.

Fallast verður á það með stefnanda að réttindi hans sem heyrnarlauss nemanda séu mikilsverð réttindi og að hagsmunir hans af því að fá námsgögn við hæfi verði ekki dregnir í efa. Almennt verður að telja að aðili eigi rétt til þess á grundvelli 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar að dómstólar leysi úr því hvort beiðni hans um þýðingu tiltekinna námsgagna í ákveðnu og fyrirliggjandi máli hafi verið synjað með ólögmætum hætti.

Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum verður á hinn bóginn ekki talið að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómsins um fyrri hluta kröfu­gerðar hans hvað varðar svar Námsgagnastofnunar frá 30. desember 2014 þar sem efni bréfsins ber ekki með sér að um lyktir málsins sé að ræða gagnvart stefnanda. Í svar­inu segir að „að svo stöddu [sé] stofnuninni því miður ekki unnt að þýða umbeðið náms­efni á íslenskt táknmál“. Verður ekki ráðið af bréfi stofnunarinnar að búið sé að taka endanlega afstöðu til erindis stefnanda, heldur þvert á móti. Ljóst er að stofnunin telur málinu ekki lokið þar sem í bréfinu er gerð grein fyrir því hvernig haldið verði á erindi stefnanda í framhaldinu. Þar segir að erindi hans muni í tengslum við samþykkt útgáfu­áætlunar ársins 2015 verða kynnt fyrir stjórn stofnunarinnar og leitað eftir mati Sam­skiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra á því „hvernig unnt væri með einhverjum hætti að koma til móts við þarfir [stefnanda] fyrir námsgögn“. Þykir ekki breyta í þessu sambandi þótt fyrir liggi bréf Námsgagnastofnunar 27. mars sl. þar sem gerð er grein fyrir því að við afgreiðslu útgáfuáætlunar fyrir árið 2015 hafi ekki reynst unnt að taka útgáfu námsefnis fyrir heyrnarlausa sérstaklega upp í stjórn stofn­un­ar­innar. Er enda ítrekað í niðurlagi þess bréfs að stofnunin hafi átt viðræður við Sam­skipta­miðstöðina um útgáfu námsefnis á táknmáli. Þær viðræður hafi leitt í ljós að ákjós­anlegt væri að Samskiptamiðstöðin hefði með höndum þýðingu og aðlögun náms­efnis yfir á táknmál og sæi jafnvel um að þýða og aðlaga erlent táknmálsefni fyrir íslenskt táknmál í stað námsefnis Námsgagnastofnunar. Þá segir í lok þess bréfs að stofnunin sé „fús til samstarfs við Samskiptamiðstöðina svo þegar megi hefjast handa við að útbúa námsefni á táknmáli til notkunar haustið 2015“. Verður að telja að þetta síðara svarbréf stofnunarinnar styrki enn frekar áðurnefnda niðurstöðu.

Eins og málið liggur fyrir dóminum verður því að telja að stefnandi hafi af þessum sökum ekki lögvarða hagsmuni af að fá úrlausn um fyrri hluta dómkröfu sinnar og því feli krafa hans í reynd í sér lögspurningu. Er þessi hluti kröfu stefnanda því andstæður 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og er þá einnig litið til 1. mgr. 26. gr. laganna. Er þessum hluta kröfugerðar stefnanda því með vísan til framangreinds vísað frá dómi.

Stefnandi hefur með síðari hluta kröfugerðar sinnar krafist þess að stefndu verði dæmt skylt að láta þýða tiltekið námsefni á íslenskt táknmál að viðlögðum dag­sektum. Eins og fram er komið hvílir sú skylda á menntamálaráðherra samkvæmt ákvæðum grunnskólalaga að sjá grunnskólum fyrir námsgögnum. Til þess að efna þá skyldu hefur Námsgagnastofnun verið sett á laggirnar sem hefur það hlutverk lögum samkvæmt að útvega grunnskólum námsgögn. Að mati dómsins verður að líta svo á að með þessum hluta kröfugerðar stefnanda sé farið fram á að dómurinn taki ákvörðun um að nánar tiltekin námsgögn verði þýdd á íslenskt táknmál og kveði á um skyldu stefndu þar að lútandi. Í kröfunni felst því með öðrum orðum að dómurinn taki ákvörð­un sem með réttu heyrir undir stjórnvöld að taka að undangengnu faglegu og frjálsu mati. Ekki verður fallist á að það sé á valdsviði dómstóla að ákveða slíkt og gengur það í berhögg við 2. gr. stjórnarskrárinnar. Sakarefnið heyrir því ekki undir dóm­stóla. Því verður þessum lið kröfugerðar stefnanda, með vísan til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, einnig vísað frá dómi.

Með vísan til framangreinds verður því ekki hjá því komist að vísa máli stefn­anda í heild sinni frá dómi.

Rétt þykir að málskostnaður milli stefnanda og stefndu falli niður. Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi innanríkisráðuneytisins 13. maí sl. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ástráðar Haraldssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, Andra Fannars Ágústssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Ástráðar Haraldssonar hrl., 500.000 krónur.