Print

Mál nr. 122/2008

Lykilorð
  • Vinnusamningur
  • Uppsögn
  • Trúnaðarskylda

Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. nóvember 2008.

Nr. 122/2008.

Hrafn Sigurðsson

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Marási, vélum ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Vinnusamningur. Uppsögn. Trúnaðarskylda.

Ágreiningur var milli aðila um túlkun á efni viðauka við starfsamning H og óstofnaðs félags sem síðar varð M. Í viðaukanum var kveðið á um að gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir en auk þess yrðu H greidd  þriggja mánaða laun við starfslok án nokkurrar vinnuskyldu en ef þess þyrfti þá myndi H veita aðstoð og stuðning símleiðis og á styttri fundum þessa þrjá mánuði eftir starfslok. H sagði upp starfi sínu hjá M og hóf störf hjá A sem var samkeppnisaðili M. H fékk greidd laun í uppsagnarfresti og þriðjung starfslokagreiðslu samkvæmt umræddum viðauka. H krafði M um eftirstöðvar hennar. M byggði á því að forsendur greiðsluskyldu hans hefðu brostið þar sem H hefði brotið gegn starfsskyldum sínum meðan á uppsagnarfresti stóð með þátttöku og undirbúning í stofnun A og að H hefði komið sér undan að sinna þeirri aðstoð sem hann hefði lofað samkvæmt viðaukanum. Talið var að ráðningu H hefði lokið við lok uppsagnarfrestsins. Þá hefði M ekki leitt í ljós að H hefði rofið trúnaðarskyldur sínar við M meðan á uppsagnarfresti stóð. Jafnframt var ekki talið að leitt yrði af viðaukanum að H hefði verið óheimilt að taka þátt í stofnun eða starfa hjá samkeppnisaðila eftir lok uppsagnarfrests. Samkvæmt þessu var M dæmt til að greiða H eftirstöðvar starfslokagreiðslunnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. mars 2008. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.200.000 krónum frá 1. október 2006 til 6. nóvember 2006, en af 800.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Héraðsdómur var kveðinn upp 13. desember 2007. Fram er komið að gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við meðferð málsins í héraði.

I

Aðdraganda starfsloka áfrýjanda hjá stefnda er nægilega lýst í héraðsdómi. Aðila greinir á um túlkun á efni viðauka við starfsamning áfrýjanda. Í viðaukanum, sem gerður var 4. apríl 2005, segir meðal annars: „Ónefnt félag lofar að eftir 6 mánuði þegar starfskjör verða endurskoðuð með tilliti til núverandi samnings að uppsagnarákvæði munu breytast úr 4 mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti í 3 mánaða uppsagnarfrest, en auk þess verði honum greidd 3 mánaða laun við starfslok án nokkurrar vinnuskyldu. Ef til skyldi koma samþykkir Hrafn að veita óstofnuðu félagi aðstoð og stuðning símleiðis og á styttri fundum þessa 3 mánuði eftir starfslok.“ Hið óstofnaða félag, sem nefnt er í samningnum, varð síðar stefndi. Áfrýjandi sagði upp störfum hjá stefnda í júní 2006. Hann vann út uppsagnarfrestinn til loka september það ár. Áfrýjandi hóf störf hjá Aflahlutum ehf., þar sem hann var einn eigenda og stjórnarmaður, en óumdeilt er að fyrirtæki þetta var í samkeppnisrekstri við stefnda. Áfrýjandi fékk greidd laun í uppsagnarfresti, auk þess sem stefndi greiddi honum 6. nóvember 2006 þriðjung starfslokagreiðslu samkvæmt framangreindum viðaukasamningi, eða 400.000 krónur og samsvaraði það einum mánaðarlaunum. Málsaðilar deila um skyldu stefnda til að greiða eftirstöðvar þeirrar fjárhæðar sem stefndi átti að inna af hendi við starfslok áfrýjanda samkvæmt viðaukanum.

II

Eins og nánar greinir í héraðsdómi reisir stefndi kröfu sína á því að forsendur hafi brostið fyrir greiðsluskyldu hans samkvæmt framangreindum samningsviðauka þar sem áfrýjandi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum meðan á uppsagnarfresti stóð með þátttöku í undirbúningi að stofnun Aflahluta ehf. og einnig eftir það með störfum fyrir þetta félag. Þá hafi áfrýjandi komið sér undan að sinna þeirri aðstoð við stefnda sem hann hefði lofað samkvæmt viðaukasamningnum, auk þess sem stefndi hafi ekki getað nýtt sér þá þjónustu eftir að hann hefði komist að því að áfrýjandi starfaði hjá samkeppnisaðila.

Fallist er á með héraðsdómi að stefndi hafi ekki leitt í ljós að áfrýjandi hafi rofið trúnaðarskyldur sínar við hann meðan á uppsagnarfresti stóð.

Eins og að framan er rakið var í gildi milli málsaðila sérstakur samningur um hvernig starfslokum áfrýjanda skyldi háttað ef til kæmi. Átti áfrýjandi að njóta launa á uppsagnarfresti með venjubundnum hætti. Við lok frestsins lauk ráðningu áfrýjanda hjá stefnda. Af orðum viðaukasamningsins verður ráðið að stefndi skyldi inna af hendi sérstaka greiðslu í einu lagi þegar við lok uppsagnarfrests. Eftir það gæti stefndi óskað þess að áfrýjandi yrði um tilgreindan tíma honum innan handar um lítt skilgreinda aðstoð eða stuðning. Hins vegar verður ekki leitt af samningnum að áfrýjanda hafi verið óheimilt að taka þátt í stofnun eða starfa hjá samkeppnisaðila stefnda eftir lok uppsagnarfrests. Verður af þessum sökum fallist á kröfu áfrýjanda.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 skal stefndi greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Marás, vélar ehf., greiði áfrýjanda, Hrafni Sigurðssyni, 800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.200.000 krónum frá 1. október 2006 til 6. nóvember 2006, en af 800.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2007.

Mál þetta var dómtekið 30. október s.l. að loknum munnlegum málflutningi.

Stefnandi er Hrafn Sigurðsson, kt. 150957-2819, Lyngmóum 3, Garðabæ, en stefndi er Marás vélar ehf., kt. 710305-0990, Akralind 2, Kópavogi.

Umboðsmaður stefnanda er Jónas Þór Jónsson hdl., en umboðsmaður stefnda er Ragnar H. Hall hrl.

I. Dómkröfur.

1.  Stefnandi gerir kröfu um að stefnda verði gert að greiða honum 800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af kr. 1.200.000 frá 1. október 2006 til 6. nóvember sama ár, en af kr. 800.000 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu í samræmi við framlagðan málskostnaðar-reikning og að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

2.                       Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

II.  Málavextir.

Stefnandinn í málinu er vélfræðingur að mennt hafði hafið störf sem sölu- og þjónustufulltrúi í véladeild Merkúr ehf. árið 1999.  Þann 1. maí 2004 var gerður nýr ráðningarsamningur milli stefnanda og Merkur ehf. og kemur þar fram að starfssvið stefnanda var m.a., sala og ráðgjöf á vélum og búnaði fyrir sjávarútveg og vinnslu ásamt eftirliti á niðursetningum og annarri tækjavinnu. Jafnframt fylgdi starfinu umsjón með ákveðnum vöruflokkum, tilboðsgerð og samskipti við birgja og þjónustuaðila, innlenda sem erlenda.  Þá var tekið fram að stefnandi slyldi gæta fyllsta trúnaðar um hvaðeina er hann yrði áskynja varðandi fyrirtækið og viðskiptavini þess.  Þann 4. apríl 2005 var gerður viðauki við þennan samning, en þá höfðu verið eigendaskipti að félaginu Merkur ehf. og var ákveðið að selja sjávarútvegsdeild þess og kemur fram hjá stefnda að fyrst hafi Framrás ástandsgreining ehf. keypt sjávarútvegsdeildina og meðan þeir hafi átt hana hafi verið gerður viðaukasamningur við stefnanda, sem stefndi varð aðili að er hann varð eigandi að sjávarútvegsdeildinni og annaðist rekstur hennar.  Í viðaukasamningnum var kveðið á um að ráðningarkjör stefnanda skyldu endurskoðuð að liðnum 6 mánuðum og að uppsagnarákvæði skv. fyrri samningi skyldi fara úr 4ra mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti í 3ja mánaða uppsagnarfrest, en auk þess skyldi stefnanda greidd 3ja mánaða laun við starfslok án nokkurrar vinnuskyldu.  Ef til skyldi koma samþykkti Hrafn að veita óstofnuðu félagi aðstoð og stuðning símleiðis og á styttri fundum þess 3 mánuðum eftir starfslok, en hið óstofnaða félag varð stefndi.

Með bréfi til stefnanda dagsett 20. júlí 2006 sagði stefnandi upp starfi sínu hjá stefnda frá og með 1. júlí 2006.  Stefnandi starfaði hjá stefnda  út uppsagnarfrestinn eða til 30. september 2006.  Stefndi hafði svo greitt stefnanda 6. nóvember 2006 til viðbótar laun fyrir októbermánuð á grundvelli viðaukasamnings, þrátt fyrir að stjórnendur félagsins hafi verið þeirrar skoðunar þá, að stefnandi hefði vanefnt samninginn verulega.

Fram kemur hjá stefnanda að hann hafi lokið starfsferli sínum hjá stefnda með því að aðstoða eftirmann sinn að koma sér inn í starfið á tímabilinu frá 20. til 30. september 2006 og í lokin hafi hann skilið eftir hjá stefnda öll gögn og upplýsingar sem hann hafði unnið með hjá stefnda, en jafnframt hafði hann gefið starfsmönnum stefnda upp símanúmer sitt og tjáð þeim að þeir gætu hringt í hann ef þeir þyrftu á aðstoð frá honum að halda.  Stefnandi hafði komið fimm sinnum til stefnda og boðið fram aðstoð sína, ef þörf væri á.  Stefnandi hafði í september 2006 ráðið sig til fyrirtækisins Kraftvélar ehf. og átti að hefja störf þar 16. október s.á. Áður en til þess kom hafði stefnandi í samstarfi við Björn Björnsson og Baldur Jónsson fyrrverandi starfsmenn R. Sigmundsson ehf. stofnað með þátttöku Íshluta ehf. fyrirtækið Aflhlutir ehf. og var tilgangur félagsins aðallega innflutningur, útflutningur og sala véla, vélahluta og varahluta, auk þjónustu, kaup og sala fasteigna o.fl.  Ekki fer á milli mála að fyrirtækið var í beinni samkeppni við stefnda.  Samkvæmt því sem fram kemur í Hlutafélagaskrá eru samþykktir þess frá 11. október 2006, en það hafði áður verið stofnað undir nafninu AB-35 ehf.  Tilgangur félagsins. var kaup, sala og eignarhald verðbréfa o.fl. og er stjórn félagsins skipuð Símomi Þór Jónssyni, kt. 160670-4289 og Jónu Rós Benediktsdóttur, kt. 180176-3229, starfsmönnum KPMG endurskoðunar hf., Borgartúni 27 í Reykjavík, sem eru endurskoðendur félagsins og stefnda.  Samþykkt félagsins er frá 6. júlí 2007  Af hálfu stefnda er því haldið fram, að þá hafi verið lögð drög að stofnun Aflhluta ehf.  Þann 14. desember 2006 átti stefnandi fund með Guðmundi Bragasyni, framkvæmdastjóra stefnda og Steinþóri Ólafssyni eiganda stefnda og er hann þar sakaður um að hafa á laun sem starfsmaður stefnda unnið að stofnun fyrirtækisins Aflhlutir sem hafði verið stofnað um mitt sumar 2006 meðan stefnandi hafði verið starfsmaður stefndu.  Stefnandi kvað þetta vera misskilning, en engar áætlanir hafi verið uppi eða engar ákvarðanir hafi verið teknar um stofnun nýs fyrirtækis fyrr en eftir lok ráðningartíma hans hjá stefnda enda Aflhlutir ehf. ekki verið stofnað fyrr en nokkru eftir það eða 11. október 2006.  Kennitala Aflahluta ehf. hafi verið keypt af KPMG hf. sem stofnað hafi fyrirtækið AB-35 ehf. í julí 2006.

Þann 4. desember 2006 hafði stefnandi leitað til stefnda og krafið um frekari greiðslu samkvæmt viðaukasamningnum og var því þá borið við að stefnandi hafi ekki svarað síma þegar leitað var til hans, en því hafði stefnandi mótmælt harðlega.  Stefnandi hafði svo haldið fund með Guðmundi Bragasyni framkvæmdastjóra stefnda út af sama efni og var honum þá boðið að ljúka málinu með greiðslu á helmingi af hinni óloknu starfslokagreiðslu.  Við það vildi stefnandi ekki una, þar sem hann taldi sig með engum hætti hafa brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnda meðan á ráðningu hans stóð.  Hann höfðaði svo mál þetta eftir að kröfu hans var hafnað með bréfi lögmanns stefnda dagsett 21. febrúar 2006.

III.  Málsástæður og lagarök.

1. Stefnandi byggir á því að stefnda beri að greiða honum eftirstöðvar starfslokagreiðslu, sem kveðið sé á um með skýlausum hætti í viðauka dags. 4. apríl 2005, sem gerður hafi verið við ráðningarsamning hans. Í viðaukanum hafi verið kveðið á um skyldu stefnda til að greiða stefnanda við starfslok fjárhæð sem næmi 3ja mánaða launum, án nokkurrar vinnuskyldu stefnanda. Ef til skyldi koma skyldi stefnandi veita stefnda aðstoð og stuðning símleiðis og á styttri fundum í þessa þrjá mánuði eftir starfslok.

Á starfstíma stefnanda hjá Merkúr ehf. frá árinu 1999 og síðar hjá stefnda hafi hann ávallt sinnt starfi sínu ávallt með faglegum hætti, með hagsmuni stefnda að leiðarljósi.  Hann hafi gætt í hvívetna fulls trúnaðar gagnvart vinnuveitanda sínum og ekkert aðhafðst  sem komið hafi vinnuveitanda hans illa eða greint óviðkomandi aðilum frá upplýsingum sem hann var bundinn trúnaði um. Staðhæfingar stefnda um annað eséu bæði rangar og ósannaðar.

Stefnandi sagði upp störfum sínum hjá stefnda frá og með 1. júlí 2006. Uppsagnarfrestur var þrír mánuðir og sinnti stefnandi störfum sínum allan uppsagnarfrestinn. Þegar stefnandi sagði starfi sínu lausu hjá stefnda hafði hann engar fyrirætlanir um stofnun fyrirtækis ásamt öðrum sem yrði í samkeppnisrekstri við stefnda. Engar slíkar áætlanir hafi verið uppi meðan á uppsagnarfresti stóð, þvert á móti þá hafi hann ráðið sig í september 2006 til fyrirtækisins Kraftvéla ehf., en það hefði hann auðvitað ekki gert hefði þá legið fyrir að hann ætlaði að fara út í atvinnurekstur ásamt öðrum.

Ekkert samkeppnisákvæði hafi verið í ráðningarsamningi stefnanda eða viðauka við hann, um bann við að hann hæfi sjálfstæðan atvinnurekstur eða réði sig til samkeppnisaðila að lokinni ráðningu hans hjá stefnda.

Á stefnanda hvíldi hins vegar trúnaðarskylda gagnvart stefnda. Sú skylda gilti meðan á ráðningarsambandi hans og stefnda hafi staðið, þ.á.m. í uppsagnarfresti. Þessa skyldu hafi stefnandi uppfyllt. Þegar samningssambandi stefnanda og stefnda lauk, hafi þessi trúnaðarskylda fallið niður, ásamt öllum öðrum réttindum og skyldum aðila í ráðningarsambandi þeirra. Viðauki sem gerður hafi verið við ráðningarsamning stefnanda breyti hér engu um, enda hafi þar ekki kveðið á um að trúnaðarskylda stefnanda skyldi gilda lengur en sjálft ráðningarsambandið. Þvert á móti, þá hafi þar verið sérstaklega áréttað að stefnandi hefði enga vinnuskyldu gagnvart stefnda að loknum uppsagnarfresti. Af því verði auðvitað ekki ráðið að aðrar starfsskyldur skyldu hvíla áfram á stefnanda.

Ákvæði viðaukans við ráðningarsamnings stefnana, um aðstoð hans símleiðis og á styttri fundum, “ef til skildi koma” eftir að ráðningarsamningur aðila var úr gildi fallinn, jafngildi auðvitað ekki framlengingu á ráðningarsamningnum og/eða þeim réttindum og skyldum sem slíkum samningi fylgja. Til þess að hægt væri að byggja á því, að stefnandi væri bundinn trúnaði gagnvart stefnda lengur en ráðningarsamband þeirra stóð, hefði þurft að kveða á um það með ótvíræðum hætti í ráðningarsamningnum sjálfum eða viðauka við hann. Stefnda hefði verið í lófa lagið að semja við stefnanda um framlengingu á trúnaðarskyldu hans. Það gerði stefndi þó ekki og þar við sitji.

Í bréfi stefnda frá 21. febrúar 2007 sé staðhæft, að fyrirtækið Aflhlutir ehf., sem stefnandi er einn af eigendum af, hafi verið stofnað í júlí 2006. Þetta sé rangt hjá stefnda. Hið rétta sé að fyrirtækið Aflhlutir ehf. var ekki stofnað fyrr en 11. október 2006, sbr. samþykktir fyrirtækisins á dskj. nr. 11 og kaupsamningur/afsal dags. 11. október 2006 á dskj. nr. 8. Einkahlutafélagið sjálft hafi hins vegar verið stofnað í júlí 2006 af KPMG hf. og heitið þá AB 35 ehf. og verið í eigiu AB ráðgjafar ehf. Þann 11. október 2006 hafi AB 35 ehf. svo verið selt sex nánar tilgreindum einstaklingum, þ.á.m. stefnanda. Nafni fyrirtækisins hafi sama dag verið breytt í Aflhlutir ehf.

Það sé heldur ekki rétt hjá stefnda, að stefnandi hafi verið farinn að leggja drög að samkeppnisrekstri meðan á ráðningu hans hjá stefnda stóð. Í september 2006, á síðasta mánuði uppsagnarfrestsins, réði stefnandi sig til starfa hjá Kraftvélum ehf. Það hafi svo gerst á síðasta vinnudegi stefnanda hjá stefnanda, föstudaginn 29. september 2006, að tveir nafngreindir menn hafi sett sig í samband við stefnanda og óskuðu eftir fundi með honum til þess að kynna honum hugmyndir þeirra að ákveðnu viðskiptatækifæri. Stefnandi hafi fallist á að hitta mennina að loknum vinnudegi þann sama dag með það fyrir augum að sjá hvað þeir hefðu fram að færa. Á fundinum hafi stefnanda verið kynntar í fyrsta skipti hugmyndir mannanna að samstarfi með fyrirtækinu Íshlutir ehf. Að fundinum loknum hafi stefnandi svo fallist á að eiga annan fund næsta dag með tvímenningunum og fyrirsvarsmönnum Íshluta ehf., til þess að sjá hvað þeir hefðu fram að færa. Að loknum þeim fundi og eftir nokkra umhugsun stefnanda hafi hann ákveðið að slá til og hefja samstarf með áðurgreindum aðilum. Í framhaldinu hafi verið leitað til KPMG hf. sem hafi séð um stofnun Aflhluta ehf. Í því skyni hafi þeim verið selt einkahlutafélagið AB 35 ehf. þann 11. október 2006, sem hafi verið sama dag og Aflhlutir ehf. var stofnað, sbr. stofnfundargerð og samþykktir fyrirtækisins dags. sama dag, á dskj. 10 og 11.

Af framanröktu megi vera ljóst að meðan á ráðningarsambandi stefnanda og stefnda stóð, hafi stefnandi hvorki rofið trúnað gagnvart stefnda né aðhafðst nokkuð það sem komið gæti honum illa. Leitað hafi verið til stefnanda með hugsanlegan atvinnurekstur í huga, á síðasta vinnudegi hans hjá stefnda. Fyrir liggi að stefnandi hafi ekki átt frumkvæðið að því að til þess atvinnurekstrar var stofnað, enda hann þá verið á leið í aðra vinnu, eins og áður væri rakið. Ákvörðun um að ráðast í atvinnurekstur hafi svo verið tekin eftir lok ráðningarsambands stefnanda og stefnda og hafi fyrirtækið Aflhlutir ehf. í framhaldi af því verið stofnað.

Ekki verði horft framhjá því, að stefndi hafi nú þegar greitt stefnanda þriðjung starfslokagreiðslunnar, sbr. greiðsla á kr. 400.000.- þann 6. nóvember 2006. Sú greiðsla hafi verið innt af hendi án fyrirvara, þrátt fyrir það að fyrirsvarsmönnum stefnda hafi þá verið fullkunnugt um hið nýja fyrirtæki Aflhluti ehf. og þátttöku stefnanda í því. Með því að greiða stefnanda þessa greiðslu, þrátt fyrir vitneskju stefnda um hina meintu en óljósu vanefnd stefnanda á skyldum sínum gagnvart stefnda, hafi stefndi staðfest í verki rétt stefnanda til starfslokagreiðslunnar. Með því að greiða stefnanda stóran hluta greiðslunnar sé stefndi í verki búinn að viðurkenna að hin meinta vanefnd stefnanda hafi ekki verið þess eðlis að hún ætti að hafa áhrif á rétt hans til starfsloka-greiðslunnar. Stefnandi  hafi því verið í góðri trú um að hann fengi greiddar eftirstöðvar starfslokagreiðslunnar og hafði því fullkomlega réttmætar væntingar til þess að ætla, að staðið yrði við áðurgreint ákvæði um starfsloka-greiðslu, í viðauka við ráðningarsamning hans.

Hafi stefndi í raun talið, að stefnandi hefði vanefnt skyldur sínar gagnvart fyrirtækinu með þeim hætti sem nú sé haldið fram, verði að ætla að stefndi hefði rift viðaukanum við ráðningarsamning stefnanda. Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnda dags. 21. febrúar 2007, tæpum 5 mánuðum eftir gjalddaga starfslokagreiðslunnar, að stefndi lýsir því fyrst yfir að hann telji forsendur vera brostnar fyrir starfslokagreiðslunni, eða öllu heldur eftirstöðvum hennar. Ljóst megi vera að yfirlýsing sem þessi, geti enga þýðingu haft svona löngu eftir að hin meinta ámælisverða háttsemi stefnanda átti sér stað. Hefði stefndi talið sér óskylt af einhverjum ástæðum er vörðuðu stefnanda, að greiða honum umrædda starfslokagreiðslu, bar honum að gera stefnanda það ljóst án ástæðulauss dráttar. Að mati stefnanda geti stefndi ekki tæpum fimm mánuðum eftir að hann fékk vitneskju um hina meintu ámælisverðu háttsemi stefnanda, byggt rétt á henni með því að fella einhliða niður eftirstöðvar starfslokagreiðslunnar til stefnanda, eftir að hafa greitt stefnanda þriðjung hennar, enda verði eðlileg tímanleg tengsl að vera á milli hinnar meintu ámælisverðu háttsemi stefnanda og viðbragða stefnda við henni.

Dráttarvaxtakrafa stefnanda byggir á skýru ákvæði viðauka við ráðningar-samning hans, um að starfslokagreiðslan skuli greidd við starfslok. Verði með einhverju móti hægt að halda því fram að ákvæði viðaukans eigi að skýra með öðrum hætti, þ.e. að gjalddagi allrar starfslokagreiðslunnar hafi átt að vera einhver annar en við starfslok, verði að byggja á skilningi stefnanda á viðaukanum, enda verði stefndi sem ráðandi aðili við samningsgerðina og sá aðili er færði viðaukann í letur, að bera allan halla af hugsanlega óskýrri framsetningu hans.

Stefnandi byggir á meginreglum vinnu-, samninga- og kröfuréttar um skuldbindingagildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Byggt er einnig á ráðningarsamningi stefnanda og viðauka sem gerður var við hann. Krafa um dráttarvexti byggir m.a. á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað vísast til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Um virðisaukaskatt vísast til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

2.  Rökstuðningur stefnda.

Líkt og rakið hafi verið í stefnu þessa máls hafi  einkahlutafélagið AB 35 ehf. verið stofnað í júlí 2006 af KPMG Endurskoðun hf. Af tilkynningu til fyrirtækjaskrár um stofnun einkahlutafélagsins megi ráða að félaginu hafi verið úthlutað kennitölunni 580706-1340, sbr. dskj 17. Stofnfundur félagsins hafi verið haldinn þann 6. júlí 2006 þar sem lögð var fram stofnskrá fyrir félagið auk samþykkta, sbr. dskj. 18 - 20. Kosnir hafi verið í stjórn félagsins tveir starfsmenn KPMG hf., þau Símon Þór Jónsson og Jóna Rós Benediktsdóttir.

Með bréfi KPMG hf. til fyrirtækjaskrár, dags. 17. október 2006 var tilkynnt að ákveðið hafi verið á hluthafafundi félagsins sem haldinn var þann 11. október 2006 að breyta nafni einkahlutafélagsins AB 35 ehf. í Aflhlutir ehf., sbr. dskj. nr. 9. Jafnframt var tilkynnt að á fundinum hafi verið kosin ný sex manna stjórn í félaginu og er stefnandi þessa máls einn þeirra sem kosnir voru í stjórnina.  Að auki kemur fram að tilgangi félagsins hafi verið breytt.

Á það er  bent að uppsagnarbréf stefnanda hafi borist stefnda aðeins nokkrum dögum áður en AB 35 ehf. var stofnað. Þar til viðbótar verði að teljast með talsverðum ólíkindum og í raun ótrúlegt að það geti verið tilviljun að það hafi gerst á síðasta vinnudegi stefnanda hjá stefnda að tveir nafngreindir menn hafi þá fyrst sett sig í samband við stefnanda og kynnt fyrir honum hugmyndir sínar um stofnun Aflhluta ehf.

Takist ekki að sanna að stefnandi hafi brotið gegn starfsskyldum sínum meðan uppsagnarfrestur leið er á því byggt að stefnandi geti sökum forsendubrests ekki gert kröfu um frekari laun úr hendi stefnda en hann hefur þegar fengið greidd og því beri að sýkna hið stefnda félag af dómkröfum stefnanda.  Í því sambandi er bent á eftirfarandi:

1. Í ofangreindum viðauka við ráðningarsamning stefnanda sé gert ráð fyrir launum í þrjá mánuði í framhaldi af þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ef texti viðaukans sé lesinn er augljóst að forsendan fyrir þessari greiðslu er sú að stefnandi veiti félaginu ákveðna þjónustu án endurgjalds.

Með kaupsamningi/afsali dags. 11. október 2006 keypti stefnandi 16,66% hlut í einkahlutafélaginu AB 35 ehf. (síðar Aflhlutir ehf.), sbr dskj. 8. Líkt og áður er rakið settist stefnandi í stjórn Aflhluta ehf. þennan sama dag, sbr. dskj 9. Með þeirri breytingu á tilgangi félagsins sem samþykkt hafi verið á hluthafafundinum þennan sama dag sé ljóst að félagið Aflhlutir ehf. var a.m.k. frá þeim tíma í beinni samkeppni við stefnda.

Augljóst sé að hið stefnda félag hafi ekki, frá þeim tíma sem stefnandi keypti hlut í Aflhlutum ehf. og settist í stjórn þess, getað nýtt þá þjónustu sem hafi verið forsendan fyrir greiðslu launa í þrjá mánuði eftir að uppsagnarfresti lauk. Að mati stefnda sé algjörlega fráleitt að það geti farið saman að sitja í stjórn félags og ætla á sama tíma að veita fyrirtæki sem er í samkeppnisrekstri við það félag ráðgjöf og stuðning.

Á því sé byggt af hálfu stefnda að frá og með 11. október 2006 hafi stefnandi ekki getað gert kröfu til launa hjá hinu stefnda félagi án beins vinnuframlags. Greiðsla launa fyrir allan októbermánuð 2006 hafi því a.m.k. að hluta til verið umfram skyldu. Af gefnu tilefni sé því algjörlega vísað á bug sem fram komi í stefnu að með greiðslunni hafi hið stefnda félag með einhverjum hætti viðurkennt að vanefnd stefnanda hafi ekki verið þess eðlis að hún ætti að hafa áhrif á rétt hans til starfslokagreiðslunnar.

2. Í viðaukanum sé sú þjónusta við félagið sem stefnandi átti að inna af hendi skilgreind sem „aðstoð og stuðning[ur] símleiðis og á styttri fundum í þrjá mánuði eftir starfslok“. Af hálfu stefnda sé á því byggt að stefnandi hafi vanefnt þessar skyldur sínar að öllu verulegu leyti sem eigi að leiða til þess að sýkna beri stefnda að kröfum stefnanda.

Staðreyndin sé sú að stefnandi svaraði ekki síma sínum eftir starfslok hjá stefnda, þegar starfsmenn stefnda hugðust leita til hans. Dæmin séu fjölmörg eins og starfsmenn stefnda geta vitnað um. Í þessu samhengi sé rétt að benda á að þann 1. október 2006, daginn eftir að uppsagnarfrestinum lauk, sendi stefnandi tölvuskeyti á netfangið maras@maras.is. Í skeytinu segir orðrétt:

 

Ég verð ekki í síma-tengingu fyrr enn á Fimmtudag, er að fara í smá ferðalag. Kveðja Hrafn.

 

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að það er með engu móti unnt að halda því fram að stefnandi hafi uppfyllt þær skyldur sem á hann séu lagðar í viðaukanum.

3. Á blaðsíðu 5 í stefnu þessa máls sé réttilega á það bent að á stefnanda hvíldi trúnaðarskylda gagnvart stefnda sem eins og kunnugt er starfar á miklum samkeppnismarkaði. Í ráðningarsamningi Merkúrs og stefnanda, dags. 1. maí 2004, sem einnig hafi gilt á milli stefnda og stefnanda, sé trúnaðarskyldan orðuð með þessum hætti, sbr. dskj. 3.

 

Samningur þessi er trúnaðarmál á milli starfsmanns og launagreiðanda. Starfsmaður skal jafnframt gæta fyllsta trúnaðar um hvaðeina sem hann verður áskynja varðandi fyrirtækið og viðskiptavini þess.

 

Stefnandi sem er menntaður vélfræðingur hafði sem sölumaður hjá stefnda mikilsverðar trúnaðarupplýsingar undir höndum um starfsemi stefnda, þ. á m. um birgja stefnda erlendis og þau kjör sem stefnda buðust í gegnum þessa aðila. Á því er byggt af hálfu stefnda að stefnandi hafi brotið freklega gegn þeim trúnaðarskyldum sem á honum hvíldu eftir að uppsagnarfresti hans hjá hinu stefnda félagi lauk.

Í þessu sambandi vísi stefndi til tölvupóstssamskipta milli stefnanda og Michael Koetsier, sölumanns hjá hollenska fyrirtækinu Bloksma, sem lögð eru fram á dskj. 21. Í tveimur aftari tölvuskeytunum í tölvupóstkeðjunni, frá 20. og 21. desember 2005, sé um það að ræða að Michael sé að gera stefnda tilboð í tilteknar vörur. Viðtakandi þeirra skeyta sé stefnandi þessa máls. Fremsti tölvupósturinn í keðjunni sé póstur sem Michael sendi stefnanda þann 17. nóvember 2006. Í póstinum segir m.a. orðrétt:

 

Hello Hrafn,

Enclosed “OLD MARAS EMAIL NUMBER 1”

I will send some more old offers after this message... anything I can dig up. However, this does not mean that any of these offers are still valid. ...

 

Stórfyrirtækið Bloksma sérhæfi sig m.a. í sölu á box- og kjölkælum í allar gerðir skipa. Þetta fyrirtæki, sem er með starfsemi um allan heim, sé einn af stærstu birgjum stefnda. Af þessum tölvupóstsamskiptum sjáist svo ekki verði um villst að stefnandi hafi verið að vinna úr tilteknu tilboði sem starfsmaður hins stefnda félags í lok árs 2005 en hefur svo eftir að uppsagnarfrestinum lauk, en meðan á því þriggja mánaða tímabili sem stefnandi átti að vera stefnda til aðstoðar og ráðgjafar, haft samband við viðkomandi aðila og leitast við að fá þau viðskipti yfir til síns nýja vinnuveitanda.

Líkt og áður segir var forsenda launagreiðslna í þrjá mánuði eftir lok uppsagnarfrests sú að stefnandi yrði hinu stefnda félagi til „aðstoðar og stuðnings“ eins og það er orðað í viðaukanum.  Stefndi mátti því ætla að á þessu tímabili ynni stefnandi hagsmunum stefnda gagn en ekki hið gagnstæða. Því er ekki að heilsa í þessu máli, þvert á móti liggi fyrir að stefnandi nýtti sér trúnaðarupplýsingar sem hann fékk vitneskju um í starfi sínu hjá stefnda með ámælisverðum hætti sem fólst m.a. í því að stefnandi hefur frá því í október 2006 verið í viðræðum við birgja sem hann átti í samskiptum við í starfi sínu hjá stefnda.

Að mati stefnda nægir hvert og eitt þeirra atriða sem nefnd séu í töluliðum 1 – 3 hér að ofan til þess að forsendur teljist hafa brostið fyrir frekari greiðslum til stefnanda en þegar hafi farið fram. Þegar atvikin séu skoðuð heildstætt sé að mati stefnda alveg ljóst að enginn grundvöllur sé fyrir kröfu stefnanda um frekari launagreiðslur.

Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV. Sönnunarfærsla.

Í málinu gáfu stefnandi, Guðmundur Bragason, framkvæmdastjóri stefnda aðilaskýrslu, en vitni báru Jóhann Ólafur Ársælsson, kt. 120942-7869, Strandvegi 18, Garðabæ, Steinþór Ólafsson, kt. 250660-5889, Kjartan Steinar Egilsson, kt. 160764-5279, Björn Björnsson, kt. 240459-5909 og Hjálmar Helgason, kt. 171075-5999.

V. Niðurstöður.

Viðaukasamning stefnanda og stefnda um starfslok verður að meta í  ljósi þess hvernig hann er til kominn og þykir mega miða við að ákvæðið um 3ja mánaða laun sem starfslok án vinnuskyldu hafi verið sett í samninginn að kröfu stefnanda, sem kvaðst hafa viljað tryggja stöðu sína, ef til uppsagnar kæmi, en hann kvaðst ekki hafa þekkt mikið til eigenda stefnda.  Að sama skapi er ljóst, að stefndu lögðu upp úr því að fá stefnanda til áframhaldandi starfa vegna starfsreynslu hans og sérþekkingar og féllust á þennan starfslokasamning.  Á hinn bóginn vildu stefndu og tryggja stöðu sína með ákvæðinu um skyldu stefnanda til að veita stefnda aðstoð og stuðning símleiðis og á styttri fundum. Af framburði fyrirsvarsmanns stefnda og vitnisins Steinþórs Ólafssonar, er ljóst að ætlast var til að stefnandi aðstoðaði við tilboðsgerð og samninga og önnur flókin verkefni meðan eftirmaður hans væri að ná tökum á starfinu.  Þá kom fram í framburði stefnda að hann hafði eftir starf sitt hjá stefnanda og áður hjá Merkur ehf. kynnst mörgum lykilstarfsmönnum viðskiptamanna stefnda t.d. erlendum birgjum og verið í góðu sambandi við þá og það því verið fengur fyrir stefnda að stefnandi væri tiltækur í tengslasamband við þessa menn og gæti verið á fundum með þeim.  Þessu áttu þó ekki að fylgja mikil vinna eða mikið ónæði.

Þegar virtir eru framburðir vitnanna Björns Björnssonar og Hjálmars Helgasonar, sem báðir bera að stefnandi hafi ekki komið að stofnun og rekstri Aflhluta ehf. fyrr en eftir stofnun þess 11. október 2006 og farið er yfir gögn um skráningu félagsins þykir bresta sönnun um að stefnandi  hafi verið kominn í eða lagt drög að samkeppnisrekstri við stefnda, áður en hann lauk störfum hjá stefnda.

Hins vegar fer ekki á milli mála að stefnandi er kominn í samkeppni við stefnda eftir að hann er kominn í stjórn Aflhluta ehf. og farinn að starfa hjá fyrirtækinu og augljóst að hann gat ekki eftir það veitt stefnda þá ráðagjöf og þjónustu, sem hann hafði gengist undir í viðbótarsamningnum.  Það verður nokkuð ráðið af framburði fyrirsvarsmanns stefnda og vitnisins Steinþórs að það væri skilyrði fyrir greiðslu  launa í 3 mánuði án vinnuskyldu að þessi ráðagjöf og þjónusta væri fyrir hendi þetta tímabil, þó að ætla megi m/v rafpóst stefnanda um að hann yrði ekki í símasambandi ákveðinn tíma, að hann hafi ekki tekið þessa skyldu jafn alvarlega.  Kemur þá til álita hvort stefnandi hafi átt rétt á þessari greiðslu, þó að hann hefði alfarið neitað að veita þessa ráðgjöf eða þjónustu.  Það er mat réttarins að þetta sé svo nátengt að stefnda hafi þá verið stætt á því að neita greiðslu.  Stefnanda gat ekki dulist það við gerð vibótarsamningsins, að til þess að uppfylla skilyrði hans gat hann ekki farið út í samkeppnisrekstur á umræddu 3ja mánaða tímabili og tölvusamskipti hans við stórfyrirtækið Bloksma og viðskiptin sem af því leiddi eru og til merkis um að það gat ekki gengið.  Ekki eru efni til þess að meta þjónustuþáttinn sérstaklega til verðs heldur verður að líta svo á að forsendur viðbótarsamningsins hafi brostið er stefnandi var ekki lengur fær um að veita þá ráðgjöf og þjónustu sem hann hafi skuldbundið sig til og eigi því ekki lengur rétt á greiðslu eftirstöðva launanna skv. samningnum og er stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda.

Rétt þykir þegar litið er til atvika í málinu að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.

DÓMSORÐ

Stefndi Marás, vélar ehf. er sýknað af kröfum stefnanda, Hrafns Sigurðssonar.

Málskostnaður fellur niður.