Print

Mál nr. 236/1999

Lykilorð
  • Gjaldþrotaskipti
  • Laun
  • Skaðabætur
  • Stjórnarskrá
  • EES-samningurinn
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit
  • Gjafsókn
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 1999.

Nr. 236/1999.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

gegn

Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur

(Stefán Geir Þórisson hrl.

Þorsteinn Einarsson hdl.)

og gagnsök

 

Gjaldþrot. Laun. Skaðabætur. Stjórnarskrá. EES-samningurinn, EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit. Gjafsókn. Sératkvæði.

 

E var gjaldkeri hjá hlutafélaginu V, sem úrskurðað var gjaldþrota vorið 1995. Skiptastjóri þrotabúsins hafnaði launakröfu E sem forgangskröfu í búið, þar sem hún væri systir eins aðaleiganda V. Af þessum sökum synjaði Ábyrgðasjóður launa vegna gjaldþrota E um greiðslu úr sjóðnum og vísaði til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota, þar áskilið var að launakrafa væri viðurkennd sem forgangskrafa svo að til ábyrgðar sjóðsins stofnaðist, en einnig til 6. gr. sömu laga. E krafðist skaðabóta úr hendi íslenska ríkisins, þar sem það hefði ekki réttilega lagað löggjöf landsins að tilskipun nr. 80/987/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, eins og hún var tekin upp í 24. tl. XVIII. viðauka við EES-samninginn. Talið var, að ríkið hefði ekki fært fram nokkur gögn því til styrktar, að svo hefði háttað til um E, að ákvæði 6. gr. laga nr. 53/1993 ætti við um hana. Hefði sjóðsstjórnin því ekki haft heimild til þess að úrskurða E greiðslur úr sjóðnum, af þeirri ástæðu einni, að krafa hennar uppfyllti ekki skilyrði 5. gr. laga nr. 53/1993. Á það var fallist með héraðsdómi, að ekki væri samræmi milli tilskipunar nr. 80/987/EBE og laga nr. 53/1993 og væri misræmið verulegt að því er sneri að E. Vísað var til álits EFTA-dómstólsins þess efnis, að samkvæmt grundvallarreglum EES-samningsins bæru aðilar hans skaðabótaábyrgð gagnvart einstaklingum á því tjóni, sem hlytist af ófullnægjandi lögfestingu tilskipunar, enda væri nánar tilgreindum skilyrðum fullnægt. Bæri við skýringu EES-samningsins að hafa hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins kæmi ekkert fram sem leiddi til þess, að vikið yrði frá því áliti. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 væri það hins vegar í valdi íslenskra dómstóla að skera úr um hvort bótaábyrgð ríkisins nyti fullnægjandi lagastoðar að íslenskum rétti. Meginmál EES-samningsins hefði lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, og væri eðlilegt að lögin sem lögfestu samninginn væru skýrð svo að einstaklingar ættu kröfu til þess að íslenskri löggjöf væri hagað til samræmis við EES-reglur. Tækist það ekki leiddi það af lögunum og meginreglum og markmiðum EES-samningsins að ríkið yrði skaðabótaskylt að íslenskum rétti. Að þessu virtu, svo og aðdraganda og tilgangi laga nr. 2/1993 var skaðabótaábyrgð ríkisins, vegna ófullnægjandi lögfestingar tilskipunarinnar, talin fá næga stoð í þeim lögum, en ljóst þótti að E hefði fengið greiðslur úr ábyrgðasjóði launa hefði aðlögunin verið með réttum hætti. Varð niðurstaðan því sú að ríkið hefði í verulegum mæli brugðist þeirri skyldu að tryggja E réttindi til greiðslu úr ábyrgðasjóði launa við gjaldþrot að íslenskum rétti, svo sem því hefði borið. Bæri ríkið skaðabótaábyrgð gagnvart E vegna þessara mistaka og færi um bótaábyrgð þess samkvæmt almennum reglum um bótaábyrgð hins opinbera. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ríkið skyldi greiða E skaðabætur vegna synjunar ábyrgðasjóðsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. júní 1999. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að dæmdar fjárhæðir í héraði verði lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn falla niður.

Málinu var gagnáfrýjað 14. september 1999. Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi greiði 739.104 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. mars 1995 til greiðsludags. Til vara krefst hún staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði, fyrir EFTA-dómstólnum og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en gagnáfrýjandi hefur gjafsókn fyrir öllum dómstólunum.

Skýrsla framsögumanns í máli E-9/97 fyrir EFTA-dómstólnum hefur verið lögð fyrir Hæstarétt sem nýtt skjal.

I.

Gagnáfrýjandi var gjaldkeri hjá Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar hf., sem úrskurðað var gjaldþrota 22. mars 1995. Með bréfi 13. október sama ár hafnaði skiptastjóri kröfum hennar sem forgangskröfum í þrotabúið og vitnaði til lokamálsgreinar 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti ofl., sbr. 3. gr. sömu laga. Í bréfi frá ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota 18. mars 1996 var talið, að af þessum sökum yrði að hafna kröfum hennar í sjóðinn samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota og 6. gr. sömu laga. Lögmaður gagnáfrýjanda óskaði endurskoðunar stjórnar sjóðsins á þessari ákvörðun og vísaði því til styrktar til tilskipunar nr. 80/987/EBE frá 20. október 1980 í 24. tl. XVIII. viðauka við EES-samninginn um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, sbr. og bókun 35 við sama samning. Þessari ósk gagnáfrýjanda var hafnað með bréfi 1. apríl 1996. Var þar talið að vegna tengsla hennar við forsvarsmenn félagsins hefði hún verið í betri aðstöðu til þess en almennt gerist um launþega að fylgjast með stöðu félagsins, en hún er systir manns sem var eigandi 40% hlutafjár í hinu gjaldþrota félagi. Félli því krafa hennar undir undanþáguákvæði tilskipunar nr. 80/987/EBE, 2. tl. 1. gr. og 10. gr. Vitnað var til þess að ábyrgðasjóðurinn væri stofnaður með lögum nr. 52/1992, meðal annars með hliðsjón af tilskipuninni og til að undirbúa aðild Íslands að EES-samningnum. Var talið að ákvæði laga nr. 53/1993 væru í fullu samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Gagnáfrýjandi höfðaði því næst mál á hendur aðaláfrýjanda.

II.

Í héraðsdómi er vitnað til úrskurðar dómsins 14. október 1997 um að hafna frávísunarkröfu aðaláfrýjanda. Byggði aðaláfrýjandi þessa frávísunarkröfu á því að fyrri löggjöf um ábyrgð ríkisins á greiðslu launa við gjaldþrot launagreiðanda, og forsaga laga nr. 53/1993 og skýring þeirra, leiddi til þess að samkvæmt lögunum hafi stjórn sjóðsins ótvíræða heimild til þess að greiða launakröfur þeirra, sem eru nákomnir gjaldþrotamanni, enda þótt krafan geti ekki notið forgangsréttar í þrotabú, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Sakarefnið ætti því ekki undir dómstóla að svo stöddu meðan gagnáfrýjandi hefði ekki tæmt allar málsskotsleiðir á hendur ábyrgðasjóði launa. Héraðsdómur taldi hins vegar að rétt stjórnvöld hefðu synjað um greiðsluskyldu og þótt gagnáfrýjandi gæti leitað réttar síns gagnvart sjóðnum fyrir dómstólum, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 53/1993, þyrfti hún ekki að láta reyna á greiðsluskyldu sjóðsins fyrir dómstólum áður en hún leitaði úrlausnar um skaðabótaskyldu aðaláfrýjanda vegna atvika sem leiddu til synjunar sjóðsins á greiðsluskyldu. Byggði héraðsdómur þá meðal annars á því að mál á hendur aðaláfrýjanda hlyti að byggjast á öðrum forsendum en úrslit máls um greiðsluskyldu sjóðsins. Þessum úrskurði var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Þá er í héraðsdómi rakinn úrskurður dómsins 5. nóvember 1997 um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits þess dómstóls um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Spurningar héraðsdóms til EFTA-dómstólsins voru: „1. Ber að skýra gerð þá, sem er að finna í 24. tl. í viðauka XVIII við Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (tilskipun ráðsins nr. 80/987/EBE frá 20. október 1980, eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 87/164/EBE frá 2. mars 1987), einkum 2. mgr. 1. gr. og 10. gr. hennar, á þann veg að samkvæmt henni megi með landslögum útiloka launþega, vegna skyldleika við eiganda, sem á 40% í gjaldþrota hlutafélagi, frá því að fá greidd laun frá ábyrgðasjóði launa á vegum ríkisins þegar launþeginn á ógoldna launakröfu á hendur þrotabúinu? Um er að ræða skyldleika í fyrsta lið til hliðar, þ.e.a.s. systkini.

2. Ef svarið við spurningu nr. 1 er á þá leið, að launþegann megi ekki útiloka frá því að fá laun sín greidd, varðar það ríkið skaðabótaábyrgð gagnvart launþeganum að hafa ekki, samfara aðild sinni að Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, breytt landslögum á þann veg að launþeginn ætti samkvæmt þeim lögbundinn rétt til launagreiðslnanna?“

EFTA-dómstóllinn lét uppi ráðgefandi álit 10. desember 1998. Er það að miklu leyti rakið í héraðsdómi. Taldi dómstóllinn að gerðina, sem vísað er til í fyrri spurningu héraðsdóms, yrði að skýra á þann veg að það væri andstætt henni að á Íslandi væru í gildi lagaákvæði sem útilokuðu launþega, sem er systkini eiganda 40% hlutar í gjaldþrota fyrirtæki sem launþeginn vann hjá, frá þeirri greiðsluábyrgð sem mælt er fyrir um í 3. gr. tilskipunarinnar vegna skyldleika. Þá taldi dómstóllinn að aðilum EES-samningsins bæri skylda til að sjá til þess að það tjón fengist bætt sem einstaklingur yrði fyrir vegna þess að landsréttur væri ekki réttilega lagaður að ákvæðum tilskipunar sem væri hluti EES-samningsins.

III.

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu vinnulaunakröfu launþega við gjaldþrot eftir ákveðnum reglum sem fram koma í lögum nr. 53/1993. Félagsmálaráðherra fer með framkvæmd laganna. Skipar hann sjóðnum þriggja manna stjórn en sjóðurinn er þó í vörslu félagsmálaráðuneytis sem sér um daglega afgreiðslu og reikningshald hans í umboði sjóðstjórnar. Sjóðurinn er fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af greiddum vinnulaunum. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 53/1993 skal sjóðstjórn að fenginni umsögn skiptastjóra taka ákvörðun um það hvort krafa skuli greidd úr ábyrgðasjóðnum. Skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins koma fram í 5. gr. laganna. Samkvæmt greininni tekur ábyrgðin til þeirra launakrafna í bú vinnuveitenda sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum með nánari skilgreiningum sem fram koma í a. til d. liðum greinarinnar. Í 6. gr. laga nr. 53/1993 segir svo að ákveðnir launþegar geti þó ekki krafið sjóðinn um greiðslu krafna samkvæmt a. til d. liðum 1. mgr. 5. gr. Þannig nær ábyrgð sjóðsins aðeins til þeirra krafna sem í senn uppfylla skilyrði laga nr. 21/1991 til að verða viðurkenndar sem forgangskröfur og skilyrði laga nr. 53/1993. Þau ákvæði 6. gr. sem hér skipta máli koma fram í c. og d. lið 1. mgr. greinarinnar. Samkvæmt c. liðnum er hér átt við forstjóra, framkvæmdastjóra og aðra þá sem vegna stöðu sinnar hjá hinum gjaldþrota vinnuveitanda áttu að hafa þá yfirsýn yfir fjárhag fyrirtækisins að þeim mátti ekki dyljast að gjaldþrot þess væri yfirvofandi á þeim tíma sem unnið var fyrir vinnulaununum. Aðaláfrýjandi hefur ekki fært fram nokkur gögn því til styrktar að svo hafi háttað til um gagnáfrýjanda. Í d. lið 1. mgr. greinarinnar eru maki og skyldmenni vinnuveitanda í beinan legg og maki skyldmennis í beinan legg útilokuð frá greiðslu. Undanþága er þó veitt frá þessu ákvæði ef það leiðir að mati sjóðstjórnar til mjög ósanngjarnrar niðurstöðu og getur stjórnin þá heimilað greiðslu til þessara launþega úr ríkissjóði, eins og þar segir, enda þótt launakrafan hafi ekki verið viðurkennd sem forgangskrafa, sbr. 3. gr. og 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga.

Áður er fram komið að bróðir gagnáfrýjanda átti 40% eignarhlut í hinu gjaldþrota félagi. Hún tengist félaginu því um fyrsta legg til hliðar. Ákvæði d. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 53/1993 á því ekki við um hana. Skiptastjóri úrskurðaði að launakrafa hennar væri ekki forgangskrafa og vísaði um það efni til 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, sbr. 3. gr. sömu laga. Krafa gagnáfrýjanda uppfyllti því ekki skilyrði upphafsákvæðis 5. gr. laga nr. 53/1993 og hafði sjóðstjórnin af þeirri ástæðu einni ekki heimild að lögum til þess að úrskurða henni greiðslur úr sjóðnum.

IV.

Með lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið var heimilað að fullgilda EES-samninginn fyrir Íslands hönd. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna hefur meginmál samningsins lagagildi á Íslandi. Í 7. gr. samningsins segir: „Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir: a. gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila; b. gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.“

Tilskipun nr. 80/987/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota er að finna í 24. tl. XVIII. viðauka við EES-samninginn. Var tilskipunin því samkvæmt greindri 7. gr. samningsins bindandi fyrir Ísland og bar að taka efni hennar upp í landsrétt samkvæmt ákvæðinu í samræmi við b. lið þess. Eftir því sem fram kemur í gögnum málsins var tilskipunin að hluta til notuð sem fyrirmynd tiltekinna ákvæða laga nr. 53/1993. Mun ætlunin hafa verið sú að ákvæði laganna uppfylltu samningsskyldur Íslands samkvæmt tilskipuninni, sbr. og bókun 35 um framkvæmd EES-reglna, sem Ísland hefur einnig fullgilt. Samkvæmt þeirri bókun áttu samningsaðilar ekki að framselja löggjafarvald sitt til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins og því átti að ná markmiðum samningsins með þeirri málsmeðferð sem gilti í hverju landi um sig. Jafnframt sagði þar að vegna þeirra tilvika þar sem komið gæti til árekstra milli EES-reglna, sem komnar væru til framkvæmda, og annarra settra laga, skuldbyndu EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefði, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur giltu í þeim tilvikum.

Í 24. tl. XVIII. viðauka við EES-samninginn er svo fyrir mælt að tilskipun nr. 80/987/EBE, eins og henni var breytt með tilskipun 87/164/EBE, skuli aðlaga á þann hátt að Ísland megi undanþiggja ábyrgðasjóð greiðslum á sama hátt og gert er í 6. gr. laga nr. 53/1993. Hins vegar var ekki tekið upp í viðaukann ákvæði sama efnis og upphafsákvæði 5. gr. laganna, sem gerir greiðslur úr sjóðnum skilyrtar því að þær hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur. Þessi ákvæði 24. tl. viðaukans heimiluðu því ekki að undanskilja gagnáfrýjanda frá rétti til greiðslu úr ábyrgðasjóði vegna þess eins að hún tengdist þrotamanni um fyrsta lið til hliðar. Er sú skýring í samræmi við niðurstöðu EFTA-dómstólsins, sem um er getið hér að framan, en við skýringu ákvæða EES-samningsins ber að hafa hliðsjón af ráðgefandi áliti hans. Hið sama á við um skýringu þeirra gerða sem vísað er til í viðauka samningsins og teljast óaðskiljanlegur hluti hans, sbr. 119. gr. EES-samningsins. Aðaláfrýjandi hefur heldur ekki sýnt fram á að aðrar undanþágur viðaukans, sbr. 10. gr. tilskipunarinnar, geti átt við gagnáfrýjanda, sbr. og það sem rakið er í III. kafla hér að framan. Verður að fallast á það með héraðsdómi að ekki sé samræmi milli tilskipunarinnar, eins og Ísland skuldbatt sig til að aðlaga hana samkvæmt 24. tl. XVIII. viðauka við EES-samninginn, og laga nr. 53/1993. Misræmið sem varð milli tilskipunarinnar og laganna er verulegt að því er snýr að gagnáfrýjanda. Verður það ekki skýrt til samræmis eftir skýringarreglu 3. gr. laga nr. 2/1993.

V.

EFTA-dómstóllinn hefur látið í ljós það álit að samkvæmt grundvallarreglum EES-samningsins beri aðilar hans skaðabótaábyrgð gagnvart einstaklingum á því tjóni, sem hlýst af ófullnægjandi lögfestingu tilskipunar, enda sé nánar tilgreindum skilyrðum fullnægt. Við skýringu ákvæða EES-samningsins ber sem fyrr segir að hafa hliðsjón af ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins komi ekkert fram sem leiða eigi til þess, að vikið verði frá því áliti. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er það hins vegar í valdi íslenskra dómstóla að skera úr um hvort bótaábyrgð aðaláfrýjanda njóti fullnægjandi lagastoðar að íslenskum rétti.

Samkvæmt 4. mgr. aðfararorða EES-samningsins, sbr. og 15. mgr. þeirra, er það markmið hans að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem grundvallast á sameiginlegum samræmdum reglum, sem leitast á við að skýra af samkvæmni, svo sem nánar er kveðið á um í 1. þætti 3. kafla VII. hluta hans, sbr. og bókun 35 um framkvæmd EES-reglna, sem frá er skýrt í IV. kafla. Í 3. gr. samningsins sjálfs skuldbinda samningsaðilar sig til að gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningnum leiðir. Íslenska ríkið var þannig skuldbundið samningsaðilum sínum eftir 7. gr. EES-samningsins til þess að laga íslenskan rétt að tilskipun nr. 80/987/EBE svo að efnislegt samræmi yrði á milli íslenskra réttarreglna og ákvæða tilskipunarinnar. Þessi aðlögun átti að tryggja einstaklingum réttindi að íslenskum rétti til ákveðinna greiðslna úr ábyrgðasjóði við gjaldþrot og samkvæmt áðursögðu skyldi vera tiltekið samræmi á milli þessara greiðslna og sambærilegra réttinda annars staðar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Skuldbinding íslenska ríkisins var í því fólgin að veita einstaklingum ákveðin réttindi að vissum skilyrðum uppfylltum. Ljóst þykir samkvæmt því sem segir í IV. kafla að gagnáfrýjandi hefði fengið greiðslur úr ábyrgðasjóði launa við gjaldþrot hefði aðlögunin verið með réttum hætti.

Það leiðir af 7. gr. EES-samningsins og bókun 35 við hann að samningurinn felur ekki í sér framsal löggjafarvalds. Hins vegar hefur meginmál EES-samningsins lagagildi hér á landi. Er samkvæmt framansögðu eðlilegt að lögin sem lögfesta meginmál samningsins séu skýrð svo að einstaklingar eigi kröfu til þess að íslenskri löggjöf sé hagað til samræmis við EES-reglur. Takist það ekki leiði það af lögum nr. 2/1993 og meginreglum og markmiðum EES-samningsins að aðaláfrýjandi verði skaðabótaskyldur að íslenskum rétti. Að þessu virtu, svo og aðdraganda og tilgangi laga nr. 2/1993 fær skaðabótaábyrgð aðaláfrýjanda, vegna ófullnægjandi lögfestingar tilskipunarinnar, næga stoð í þeim lögum.

Niðurstaðan verður því sú að aðaláfrýjandi hafi í verulegum mæli brugðist þeirri skyldu að tryggja gagnáfrýjanda réttindi til greiðslu úr ábyrgðasjóði launa við gjaldþrot að íslenskum rétti, svo sem honum bar í samræmi við tilskipun nr. 80/987/EBE eftir því sem segir í 24. tl. XVIII. viðauka við EES-samninginn. Aðaláfrýjandi ber samkvæmt öllu framansögðu skaðabótaábyrgð gagnvart gagnáfrýjanda vegna þessara mistaka og fer um bótaábyrgð hans að almennum reglum  um bótaábyrgð hins opinbera.

VI.

Sundurliðun krafna gagnáfrýjanda er rakin í héraðsdómi. Aðaláfrýjandi hefur fallist á að miða megi ákvörðun bótafjárhæðar við dag þann sem fyrirtækið var lýst gjaldþrota, þrátt fyrir ákvæði 112. gr. gjaldþrotaskiptalaganna, sbr. 2. gr. sömu laga, og 2. mgr. 3. gr., sbr. a. lið 1. mgr. 2. gr., tilskipunar nr. 80/987/EBE, en samkvæmt ákvæðum þessum væri rétt að miða niðurstöðuna við frestdag. Samkvæmt þessu og annars með vísun til raka hins áfrýjaða dóms ber að staðfesta hann um ákvörðun bótafjárhæðar og um vexti og dráttarvexti.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur á að vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Allur áfrýjunarkostnaður gagnáfrýjanda, Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun til lögmanns hennar, 500.000 krónur.

 

Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

I.

Mál þetta varðar það, sem eitt sinn var bein ríkisábyrgð á réttum vinnulaunum, er ekki fengust greidd vegna gjaldþrots vinnuveitanda. Um það efni var fyrst mælt í lögum nr. 31/1974 um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot, sbr. síðar lög nr. 8/1979, og því næst í lögum nr. 23/1985 um ríkisábyrgð á launum. Þeim lögum var svo breytt með 10. - 18. gr. laga nr. 7/1990 um ráðstafanir vegna kjarasamninga, við gerð þjóðarsáttarinnar, sem svo var nefnd, og þau endurútgefin sem lög nr. 88/1990. Á þeim lögum voru gerðar breytingar með 6. - 8. gr.  og 62. gr. laga nr. 1/1992 um ráðstafanir í ríkisfjármálum árið 1992. Voru breytingarnar mikilsháttar að því leyti, að ákveðið var að stofna ábyrgðarsjóð launa, er tæki til starfa 1. mars 1992, þannig að ábyrgð af hálfu sjóðsins á ógreiddum launum kæmi í stað fyrri ábyrgðar ríkissjóðs. Fyrirhugað var að endurútgefa lögin svo breytt, en í þess stað var að því horfið að setja ný lög um málefnið, nr. 52/1992 um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Fór sú lagasetning einnig fram í tengslum við gerð kjarasamninga í landinu.

Þessi síðastnefndu lög, sem tóku gildi 10. júní 1992, voru síðan leyst af hólmi með lögum nr. 53/1993 með sama heiti, og eru þau enn í gildi. Í þeim fólust nokkrar breytingar, sem gerðar voru með hliðsjón af þeim skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem mál þetta varða. Um ábyrgðasjóðinn mæla lögin svo fyrir, að hann skuli fjármagnaður með sérstöku ábyrgðargjaldi af skattskyldum vinnulaunum, sem félagsmálaráðherra ákveði innan tiltekinna marka. Samtök launþega og vinnuveitenda tilnefna hvor sinn manninn í stjórn sjóðsins, en ráðherra skipar hinn þriðja án tilnefningar.

Á heildarlög þau um ábyrgð á greiðslu launa við gjaldþrot, sem hér hafa verið talin, ber að líta hver um sig sem sjálfstæðan lagabálk, er fjalli um þetta efni með tæmandi hætti eða þannig, að ákvæði þeirra gangi fyrir öðrum lagafyrirmælum, sem efninu eru tengd, og þá sérstaklega að því er varðar umfang ábyrgðarinnar. Á það ekki síður við nú en áður, þegar komið hefur verið upp sérstökum sjóði með gjaldi af vinnulaunum í landinu til að leysa ríkissjóð undan þeirri beinu ábyrgð, sem hann tókst á hendur í upphafi. Þetta er og eðlilegt með tilliti til hinna ríku tengsla laganna við kjarabaráttu á vinnumarkaði.

Auðséð er af ákvæðum 5. gr. og 6. gr. laga nr. 53/1993, sem fjalla um umfang ábyrgðarinnar á launum og undanþágur frá henni, að lögunum er ætlað að hafa þessa stöðu. Væru ákvæði 6. gr. til dæmis að miklu leyti óþörf, ef málefnið ætti að ráðast af ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga um stöðu launakrafna gagnvart öðrum kröfum í þrotabú. Þar er um að ræða almenn lög á því sviði, sem mótast af heildarlegu tilliti til lánardrottna manna og þeirra sjálfra og þjóðhagslegum hagsmunum af því réttarúrræði, sem þrotaskipti eru, ásamt nauðsynjum réttarfars. Ákvæði þeirra eru að undirstöðu til byggð á jafnrétti milli manna, bæði kröfuhafa og annarra. Úrræði laganna til að sporna við vafasömum kröfum eru frá fornu fari einkum fólgin í beitingu reglna um riftun á ráðstöfunum þrotamanna, en ekki þau, sem beinast liggja við varðandi ábyrgð á launum. Þá ályktun, að lög nr. 53/1993 eigi að hafa umrædda stöðu, má því einnig draga af þeim lögum sjálfum, sem um gjaldþrot hafa fjallað. Svo mikið mun víst að minnsta kosti, að ákvæði 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem hér reynir á, hafi ekki verið sett að höfðu sérstöku samráði við samtök vinnumarkaðarins.

II.

Mál þetta er fyrst og fremst af því risið, að gagnáfrýjandi var nákomin hinu gjaldþrota félagi í merkingu 3. gr. laga nr. 21/1991, þar sem hún var systir eins helsta hluthafans, sem einnig var stjórnarformaður félagsins. Eftir samsvarandi skilgreiningu 2. gr. gjaldþrotalaga nr. 6/1978 hefði hún einnig talist í hópi nákominna aðila. Þetta hefði þó engu skipt um rétt hennar til forgangs vegna ógreiddra launa, þar sem ákvæði þessara eldri laga um aðila nákomna þrotamanni voru fyrst og fremst tengd reglum VIII. kafla laganna um riftun á ráðstöfunum þrotamanns, en höfðu ekki áhrif á skuldaröð í búinu, sem fór að ákvæðum 8. kapítula skiptalaga nr. 3/1878, eins og þeim var síðast breytt með lögum nr. 32/1974 og nr. 23/1979. Vandamálið, sem hér er við að fást, er þannig nær eingöngu fólgið í lögleiðingu 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sem tóku gildi á tímabilinu milli samþykktar laga nr. 52/1992 og laga nr. 53/1993. Með henni voru sjónarmið um stöðu nákominna aðila tengd ákvæðum laganna um skuldaröð með beinum hætti, en því var ekki áður til að dreifa.

Að sjálfsögðu voru það engin mistök að lögfesta 3. mgr. 112. gr., sem varðar launþega þrotamanna, þótt ákvæðið sé of fortakslaust að mínu mati. Hins vegar eru það ótvíræð mistök að líta svo á, að ákvæðinu hafi verið ætluð bein áhrif á reglur um ríkisábyrgð á launum, sem síðast hafði verið breytt með lögum nr. 7/1990, en undanþágur frá ábyrgðinni voru þar skýrt orðaðar og náðu ekki til allra, sem nákomnir töldust eftir lögum nr. 6/1978 eða lögum nr. 21/1991, sem sjá má í 5. gr. hinna endurútgefnu laga nr. 88/1990.

Vandamálið stafar þannig einvörðungu af því orðalagi á upphafsmálslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993, að ábyrgð á launum taki til krafna í þrotabú vinnuveitanda, sem „viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur“ samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum, en hin tilvitnuðu orð eru óbreytt frá lögum nr. 52/1992 og fyrri lögum. Málsliðurinn er að sjálfsögðu orðaður með tilliti til þess, að lög um gjaldþrot leggja til hinn ytri ramma ábyrgðarinnar á launum, og ber að skýra efni hans samkvæmt því. Eftir núverandi löggjöf er hin rétta skýring ótvírætt á þá leið, að til að njóta ábyrgðar þurfi kröfur að hafa verið viðurkenndar sem réttmætar launakröfur, er eigi forgangsrétt eftir 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga eða væru til þess fallnar, ef ákvæði 3. mgr. hennar stæðu því ekki í vegi. Annar skilningur samræmist ekki þeirri stöðu laganna um launaábyrgð, sem fyrr var lýst. Af henni leiðir meðal annars, að það eru ekki skiptastjórar í þrotabúum, sem ráða eiga beitingu stafliðanna fjögurra í 6. gr. laga nr.  53/1993, sem afmarka undanþágur frá reglum 5. gr. um svið ábyrgðarinnar, heldur stjórnendur ábyrgðasjóðsins sjálfs. Í framburði framkvæmdastjóra sjóðsins fyrir héraðsdómi var og staðfest, að sjóðsstjórnin hafi litið svo á, að hún hefði sjálfstæðu hlutverki að gegna um framkvæmd 5. og 6. gr. Af lögunum sjálfum er einnig ljóst, að stjórnin á að sinna þessu hlutverki undir umsjón og eftirliti félagsmálaráðherra, en í upphafsmálslið 2. gr. segir, að ráðherrann fari með framkvæmd laganna.

Í héraðsdómi er réttilega að því vikið, að við meðferð Alþingis á frumvarpinu til laga nr. 53/1993 hafi það komið fram í áliti félagsmálanefndar og breytingartillögu frá henni, að í lögunum þyrfti að taka tillit til ákvæða 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Ályktun dómarans þessa vegna fær þó ekki staðist, heldur ber að taka undir það með aðaláfrýjanda, að aðgerðir nefndarinnar beri því vitni fyrst og fremst, að vilji löggjafans hafi ekki staðið til þess að innleiða auknar takmarkanir almenns eðlis á hópi þeirra launþega, sem notið gætu launaábyrgðar eftir ákvæðum laganna. Um þetta má að mínu mati kveða svo að orði, að vilji löggjafans hafi verið sá, að ákvæði 3. gr. og 3. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti hefðu ekki önnur áhrif á 5. og 6. gr. laganna en þau, sem orðið gætu ákvæðum þessara greina til stuðnings eftir efni þeirra sjálfra. Sé þetta í raun inntak umræddrar breytingartillögu.

III.

Á grundvelli þess, sem hér hefur verið rakið, verður að fallast á það með aðaláfrýjanda, sem rökstutt hefur málstað sinn með skýrum hætti, að ekkert misræmi sé milli ákvæða laga nr. 53/1993 og skuldbindinga Íslands samkvæmt 24. tl. XVIII. viðauka við EES-samninginn og tilskipun 80/987/EBE, þannig að máli skipti um kröfu gagnáfrýjanda. Megi jafnframt líta svo á, að gerð þessa viðauka hafi hvorki verið mótuð af mistökum né misskilningi, heldur af réttum skilningi laga. Þessar ályktanir ber ekki að skilja svo, að hið ítarlega og rökfasta álit EFTA-dómstólsins sé án þýðingar í málinu, heldur hefur það einmitt auðveldað úrlausn þess og skýrt það samræmi, sem gæta þurfi milli laganna og umræddra skuldbindinga.

Það leiðir af  því, sem hér var sagt, að skaðabótaskylda af hálfu aðaláfrýjanda á þeim grundvelli, sem dómkröfur gagnáfrýjanda eru á reistar, kemur ekki til álita. Á hinn bóginn virðast gögn málsins gefa til kynna, að hin neikvæðu viðbrögð ábyrgðasjóðs við launakröfu hennar hafi falið í sér mistök, og þá svo alvarleg miðað við almennt hlutverk sjóðsins, að efni gætu verið til kröfugerðar á hendur félagsmálaráðherra vegna ábyrgðar hans á framkvæmd laga nr. 53/1993. Á þessu er þó ekki byggt af hálfu gagnáfrýjanda, auk þess sem kröfugerðin kynni að vera annmörkum háð fyrir þá sök, að upphaflegri launakröfu gagnáfrýjanda var ekki fylgt eftir með málatilbúnaði á hendur ábyrgðasjóðnum eða kæru til ráðherra.

Samkvæmt þessu er það niðurstaða mín, að aðaláfrýjandi eigi að vera sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, en rétt sé, að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 1999.

Mál þetta sem tekið var til dóms 16. febrúar sl., en endurupptekið 15. mars sl., flutt og dómtekið á ný sama dag, höfðaði Erla María Sveinbjörnsdóttir, kt. 021230-2259, Löngumýri 57, Garðabæ, á hendur íslenska ríkinu með stefnu birtri 12. mars 1997.

 

I

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 739.104 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 13. mars 1995 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningum.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.

Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður verði í því tilviki látinn falla niður.

 

II

Stefndi gerði í upphafi kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi. Hinn 14. október 1997 gekk úrskurður um þá kröfu og var henni hafnað.

Hinn 5. nóvember 1997 var kveðinn upp úrskurður í málinu um það að leita bæri ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á tveimur ákveðnum álitaefnum og  hinn 10. desember 1998 lét EFTA-dómstóllinn uppi ráðgefandi álit á þeim. Verður síðar gerð grein fyrir hvorutveggja.

 

 

III

Af hálfu stefnanda er málavöxtum lýst svo að hún hafi starfað samfellt um langt árabil hjá Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar hf. þar til henni hafi verið sagt upp störfum með uppsagnarbréfi dags. 29. desember 1994 og hafi uppsögnin tekið gildi 1. janúar 1995. Vinnuframlags hennar hafi ekki verið óskað í uppsagnarfrestinum sem stefnandi segir hafa verið 6 mánuði, en laun hafi hún fengið greidd allt til 12. mars 1995. Þann 22. mars 1995 hafi bú Vélaverkstæðis Sigurðar Sveinbjörnssonar hf. verið tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi kveðst hafa lýst kröfu sinni í þrotabúið 23. maí 1995 og krafist launa í uppsagnarfresti, ógreiddrar hækkunar á launin, orlofs frá 1. maí 1994 út uppsagnarfrestinn til 30. júní 1995, orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Krafan í þrotabúið hafi verið gerð með vísan til laga nr. 53/1993 um ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota.

Sú krafa sem stefnandi lýsti í þrotabúið nam samtals kr. 759.722 og er því ívið hærri en endanleg dómkrafa hennar. Ástæðulaust þykir að gera sérstaka grein fyrir þeim mun sem þar er á, en dómkrafa stefnanda er sundurliðuð með eftirfarandi hætti:

 

1. Laun í uppsagnarfresti 16 x föst vikulaun = 32.307 =kr. 516.912.

2.  Stefnandi hafði ekki fengið greidd orlofslaun frá 1. maí 1994  þar til ráðningarsamningi var rift 12. mars 1995 = áunnið orlof 170,74 klst. x tímakaup 850,18 =kr. 145.160.- rlofslaun út uppsagnarfrestinn hefðu numið kr. 850,18x 70,71 klst. (4,40 klst. á viku þ.e. 11.59% af 38 klst.). =kr.60.116.-

3.Orlofsuppbót frá 1. maí 1994 – 30. apríl 1995 er skv. launatöflum á dskj. nr. 13 og 14 kr.8.000.-

4. Hluti orlofsuppbótar fyrir tímabilið 1. maí – 30. júní 1995 = 8.000.- / 12 x 2 =kr.1.333.-

5.Desemberuppbót á tímabilinu 1. desember 1994 – 30. júní

1995 (sjá dskj. nr. 14) = 13.000.- / 12 x 7 = kr.7.583.-

Samtals kr.739.104.-

 

Stefnandi kveður skiptastjórann í þrotabúinu hafa sent lögmanni sínum bréf dags. 13. október 1995, þar sem kröfunni í búið hafi verið hafnað með vísan til 112. gr. gjaldþrotaskiptalaganna nr. 21/1991 in fine, sbr. 3. gr. sömu laga, þar sem stefnandi sé systir Sigurðar Sveinbjörnssonar, aðaleiganda fyrirtækisins Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar hf.

Með bréfi dags. 4. mars 1996 hafi lögmaður stefnanda óskað eftir því við Ábyrgðarsjóð launa, að skýring yrði gefin á því hverjar forsendur lægju því til grundvallar að sjóðurinn greiddi ekki kröfuna. Bréfi þessu hafi Ábyrgðarsjóður launa svarað með bréfi dags. 18. mars. Með bréfi dags. 20. mars hafi verið óskað endurskoðunar stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa á ákvörðuninni um höfnun greiðslu kröfunnar. Með bréfi dags. 1. apríl 1996 hafi stjórnin staðfest fyrri ákvörðun um höfnun á greiðslu kröfu stefnanda. Segir m.a. svo í því bréfi:

 

“Kröfu Erlu var hafnað af Ábyrgðarsjóði launa á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 um Ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota, þ.s. skiptastjóri hafði hafnað að samþykkja hana sem forgangskröfu í þrotabúið.

Stjórn Ábyrgðarsjóðs launa hefur aðeins í einu tilviki heimild til að greiða kröfur sem hafa ekki hlotið samþykki skiptastjóra sem forgangskröfur, og er það greint í d-lið 6. gr. i.f. Það ákvæði kemur til álita ef skiptastjóri hefur hafnað forgangskröfu eingöngu á grundvelli skyldleika launþega við vinnuveitanda, án þess að nokkuð gefi til kynna að launþega hafi átt að vera kunnug staða félagsins á þeim tíma sem unnið var fyrir laununum. Var ákvæðið ekki talið eiga við í þessu tilviki.

Afstaða skiptastjóra sem telst vera sérfróður um málefni þrotabúsins vegna stöðu sinnar er að Erla falli undir hugtakið nákomnir í 3. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 112. gr. s.l.  Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til hins gagnstæða og því verður afstaða hans lögð til grundvallar við afgreiðslu málsins.  Bent er á að Erla hafði möguleika á að mótmæla afgreiðslu skiptastjóra og óska eftir að ágreiningi um afgreiðslu kröfunnar í þrotabúinu yrði vísað til úrskurðar héraðsdóms sbr. 120. og 171. gr. laga nr. 21/1991.

Erla vann skrifstofustörf í hinu gjaldþrota félagi sem var eign bróður hennar og hafði fjölskyldan rekið það um árabil.  Verður að telja að vegna tengsla hennar við forsvarsmenn félagsins hafi hún verið í betri aðstöðu en gerist almennt um launþega að fylgjast með stöðu félagsins og taka afstöðu til hvort líklegt væri að það myndi greiða þau laun sem hún vann fyrir.

Vegna tengsla Erlu við félagið fellur krafa hennar undir undanþáguákvæðin í tilskipun nr. 80/987/EBE sem útiloka ákveðna hópa frá ábyrgð, sbr. 6. gr. laga nr. 53/1993.  Bent er á að Ábyrgðarsjóður launa var stofnaður með lögum nr. 52/1992 m.a. með hliðsjón af tilskipuninni og til að undirbúa aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið varðandi ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot vinnuveitanda.  Var hún að hluta til notuð sem fyrirmynd við gerð íslensku laganna.  Vegna þessa er talið að ákvæði laga nr. 53/1993 (áður 52/1992) séu í fullu samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.

Með vísan til ofangreinds og á grundvelli 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993, sbr. og 2. tl. 1. gr. og 10. gr. tilsk. nr. 80/987/EBE er kröfu yðar hafnað.”

 

IV

Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á hendur ríkinu fyrst og fremst á því að við gerð EES-samningsins hafi þess ekki verið gætt að breyta íslenskum lögum til samræmis við tilskipun nr. 80/987/EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 87/164/EBE. Það hafi ríkinu verið skylt en tilskipun þessi sé hluti af EES-samningnum. Þessi vanræksla leiði til þess að stefnandi fái ekki notið þess réttar sem tilskipunin veiti. Tjón það sem stefnandi verði fyrir af þessum sökum beri ríkinu að bæta. Enn fremur byggir stefnandi skaðabótakröfu sína á almennu skaðabótareglunni.

Stefndi byggði frávísunarkröfu sína í málinu á því að skýring á lögum nr. 53/1993 leiddi til þess að Ábyrgðarsjóði launa væri heimilt að greiða stefnanda laun í gjaldþrotinu. Sakarefnið ætti því ekki undir dómstóla að svo stöddu því að stefnandi hefði ekki tæmt þær málskotsleiðir sem honum væru færar, þ.e. að höfða mál á hendur Ábyrgðarsjóði launa til að láta reyna á greiðsluskyldu hans, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 53/1993.

Eins og fyrr segir var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

Í þinghaldi í málinu hinn 14. október 1997 óskuðu báðir lögmenn eftir fresti í því skyni að skoða hvort ástæða væri til að biðja um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Í næsta þinghaldi, 28. október, lýsti lögmaður stefnanda því yfir að umbjóðandi hans væri ekki mótfallinn því að leitað yrði álitsins og hinu sama lýsti lögmaður stefnda en jafnframt því að hann teldi ekki sérstaka ástæðu til þess. Dómarinn kvað síðan upp svohljóðandi úrskurð hinn 5. nóvember 1997:

 

"Þar sem vafi leikur á því hvort 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 um ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrots, sbr. 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. fái samrýmst Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. tilskipun ráðsins 80/987/EBE frá 20. október 1980 eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 87/164 frá 2. mars 1987, en tilskipanirnar er að finna í 24. tl. í viðauka XVIII við framangreindan samning, og niðurstaða þess álitaefnis hefur verulega þýðingu fyrir niðurstöðu í máli þessu eins og það hefur verið lagt fyrir dóminn, þykir rétt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þeim álitaefnum sem í úrskurðarorði greinir.

Friðgeir Björnsson dómstjóri kvað upp úrskurð þennan.

 

 

Úrskurðarorð:

Leita ber ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um eftirfarandi:

 

1.

Ber að skýra gerð þá sem er að finna  24. tl. í viðauka XVIII við Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (tilskipun ráðsins nr. 80/987/EBE frá 20. október 1980, eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 87/164/EBE frá 2. mars 1987), einkum 2. mgr. 1. gr. og 10. gr. hennar, á þann veg að samkvæmt henni megi með landslögum útiloka launþega, vegna skyldleika við eiganda sem á 40% í gjaldþrota hlutafélagi, frá því að fá greidd laun frá ábyrgðarsjóði launa á vegum ríkisins þegar launþeginn á ógoldna launakröfu á hendur þrotabúinu? Um er að ræða skyldleika í fyrsta lið til hliðar, þ.e.a.s. systkini.

2.

Ef svarið við spurningu nr. 1 er á þá leið, að launþegann megi ekki útiloka frá því að fá laun sín greidd, varðar það ríkið skaðabótaábyrgð gagnvart launþeganum að hafa ekki, samfara aðild sinni að Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, breytt landslögum á þann veg að launþeginn ætti samkvæmt þeim lögbundinn rétt til launagreiðslnanna?"

 

Niðurstaðan í hinu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins er svohljóðandi:

 

“Með vísan til framangreindra forsendna lætur

 

DÓMSTÓLLINN

 

uppi svohljóðandi ráðgefandi álit um spurningar þær sem Héraðsdómur Reykjavíkur beindi til dómstólsins með úrskurði frá 5. nóvember 1997 og beiðni dagsettri 12. nóvember 1997:

 

1.             Gerð þá sem er að finna í 24. tl. í viðauka XVIII við Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (tilskipun ráðsins 80/987/EBE frá 20. október 1980 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota) verður að skýra á þann veg að það sé andstætt henni að á Íslandi séu í gildi lagaákvæði sem útiloka launþega sem er systkini eiganda 40% hlutar í gjaldþrota fyrirtæki sem launþeginn vann hjá frá þeirri greiðsluábyrgð sem mælt er fyrir um í 3. gr. tilskipunarinnar vegna þessa skyldleika.

2.             Aðilum EES-samningsins ber skylda til að sjá til þess að það tjón fáist bætt sem einstaklingur verður fyrir vegna þess að landsréttur er ekki réttilega lagaður að ákvæðum tilskipunar sem er hluti EES-samningsins.”

 

Ekki þykir ástæða til að taka hið ráðgefandi álit upp í þennan dóm í heild sinni heldur einungis þær greinar þess sem máli kunna að skipta um ágreiningsefni aðila þessa máls. Í hinu ráðgefandi áliti er m.a. sagt eftirfarandi:

 

“9Í 24. tl. XVIII. viðauka við EES-samninginn er vísað til tilskipunar ráðsins 80/987/EBE frá 20. október 1980 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 87/164/EBE, (hér eftir “tilskipunin”).

 

101. gr. tilskipunarinnar er svohljóðandi:

 

“1.Tilskipun þessi gildir um kröfur launþega á hendur vinnuveitendum sem eru gjaldþrota í skilningi 1. mgr. 2. gr., í tengslum við ráðningarsamninga og ráðningarsamkomulag.

2. Aðildarríkjunum er heimilt að undanþiggja kröfur tiltekinna hópa frá gildissviði tilskipunar þessarar vegna ráðningarsamnings eða ráðningarsamkomulags af sérstökum toga eða annars konar trygginga sem veita launþegunum sambærilega vernd og kveðið er á um í tilskipun þessari.

 

Í viðauka eru taldir upp þeir hópar launþega sem getið er um í undanfarandi undirgrein.

 

3. Tilskipun þessi gildir ekki um Grænland. Þessi undantekning skal tekin til endurskoðunar verði breytingar á atvinnuháttum þar.”

 

 

12    10. gr. tilskipunarinnar er svohljóðandi:

 

“Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á rétt aðildarríkja:

a)                        til þess að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun;

b)                        til að hafna þeirri greiðsluábyrgð, sem getið er um í 3. gr. eða þeirri greiðsluskyldu, sem getið er um í 7. gr., eða lækka hana komi í ljós að skuldbindingin sé óréttmæt vegna sérstakra tengsla milli launþegans og vinnuveitandans og sameiginlegra hagsmuna sem leiðir til þess að þeir gera með sér leynilegt samkomulag.”

 

Fyrri spurningin

17Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar er það meginregla að allir launþegar eiga rétt á greiðslu frá ábyrgðarsjóði launa verði vinnuveitandi gjaldþrota.  Tilskipunin heimilar tvær undanþágur frá meginreglunni og koma þær fram í 2. mgr. 1. gr. annars vegar og í 10. gr. hins vegar.  Með fyrri spurningunni leitast Héraðsdómur Reykjavíkur við að ákvarða umfang undanþáganna með því að spyrja um hvort túlka beri tilskipunina svo að hún heimili almenna reglu í íslenskum lögum sem útilokar systkini eiganda 40% hlutafjár í gjaldþrota félagi, sem þau eru launþegar hjá, frá því að fá greiðslur frá sjóðnum.

 

18Dómstóllinn bendir á að kröfur stefnanda taka til tímabilsins frá 1. maí 1994 til 30. júní 1995.  Dómstóllinn telur rétt að vekja athygli á að samkvæmt tilskipuninni skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja greiðslur á óinnheimtum kröfum launþega fyrir tiltekin tímabil sem ákvæði eru um í 3. og 4. gr. tilskipunarinnar.  Stjórnvöld í ríkjunum hafa val um þá dagsetningu sem ábyrgðin miðast við innan ramma ákvæða 2. mgr. 3. gr. og miðað við þau tímamörk sem ákveðin eru í  2. mgr. 4. gr.  Vernd launþega samkvæmt tilskipuninni er lágmarksvernd sem er takmörkuð við ábyrgð á launum fyrir þá dagsetningu sem stjórnvöld velja.  Tilskipunin hefur þó ekki áhrif á rétt aðildarríkjanna til að beita eða koma á lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem eru launþegum hagstæðari, sbr. 9. gr. tilskipunarinnar, þ.m.t. að tryggja ábyrgð á kröfum umfram tiltekið tímabil.  Ákveði samningsaðili að tryggja ábyrgð á kröfum umfram það sem tilskipunin krefst er það undir ríkinu komið að ákveða gildissvið þeirrar ábyrgðar bæði að því er lýtur að tíma og þeim hópum launþega sem verndin tekur til. Þar sem það er ekki í valdi dómstólsins að gefa álit á skýringu innlendra laga á það sem hér á eftir fer aðeins við um þau tímabil sem greind eru í 3. og 4. gr. tilskipunarinnar.

 

22Dómstóllinn telur að það leiði bæði af því markmiði tilskipunarinnar að mæla fyrir um lágmarksvernd allra launþega og því að um sérstaka undanþáguheimild er að ræða í 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, að ákvæðið verði ekki skýrt rúmt með þeim hætti sem ríkisstjórn Noregs heldur fram.  Það leiðir af orðalagi tilskipunarinnar að samningsaðilum er einungis heimilt að undanþiggja kröfur tiltekinna hópa samkvæmt 2. mgr. 1. gr. hennar með því að telja þá upp í viðauka við tilskipunina. Þá styður það þessa túlkun að viðaukinn yrði lítils virði ef samningsaðilar gætu að vild útilokað hópa launþega sem ekki eru taldir þar.

 

31                       Dómstóllinn vísar til þess að sé íslenska undanþágan túlkuð svo að hún taki ekki til systkina, leiðir það til þeirrar niðurstöðu að Ísland hafi óskað eftir undanþágu í viðaukanum sem er ekki nægilega rúm til að ná yfir þær undantekningar sem heimilar voru samkvæmt íslenskum lögum. Þótt þetta gæti virst ólíklegt er sú skýring hugsanleg að aðilum hafi yfirsést það við gerð EES-samningsins að um tvenns konar undantekningar væri að ræða – undantekningar þær sem greinir í lögum um ábyrgðarsjóð launa og þær undantekningar sem greinir í gjaldþrotaskiptalögum. Liður H í viðaukanum svarar til 1. mgr. 6. gr. laganna um ábyrgðarsjóð launa og var einungis vísað til laga nr. 53/1993 um ábyrgðarsjóð launa, en ekki til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti þegar Ísland tilkynnti aðlögun landsréttar að tilskipuninni til Eftirlitsstofnunar EFTA.

 

32                       Að öllu þessu athuguðu telur dómstóllinn að orðalagið “direct relative”/”ættingi í beinan legg” í lið H.4. í 24. tl. XVIII. viðauka verði að túlka svo að það taki aðeins til ættingja í beinan legg, upp og niður á við.  Af því leiðir að undanþágan nær ekki til systkina.

 

33                       Til áréttingar tekur dómstóllinn það fram að ríkisstjórn Íslands hefur við flutning málsins fyrir EFTA-dómstólnum einnig byggt á því að hafna megi kröfu stefnanda á hendur Ábyrgðarsjóði launa á grundvelli liðar H.3. í 24. tl. XVIII. viðauka.  Þar sem spurningar þær sem beint hefur verið til dómstólsins og málsatvik sem rakin eru varða aðeins túlkun tilskipunarinnar með hliðsjón af skyldleika stefnanda og hluthafa í fyrirtækinu telur dómstóllinn ekki ástæðu til að láta uppi álit um túlkun á þessum lið í viðaukanum.

 

Ákvæði 10. gr. tilskipunarinnar

34                       Samkvæmt 10. gr. tilskipunarinnar hefur tilskipunin ekki áhrif á rétt aðildarríkja til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun (a liður 10. gr.), eða til að hafna þeirri greiðsluábyrgð sem mælt er fyrir um í tilskipuninni, eða lækka hana, komi í ljós að skuldbindingin sé óréttmæt vegna sérstakra tengsla milli launþegans og vinnuveitandans og sameiginlegra hagsmuna sem leiðir til þess að þeir gera með sér leynilegt samkomulag (b liður 10. gr.). Í máli því sem hér er fjallað um hefur verið vísað til beggja ákvæðanna sem grundvallar fyrir þeirri reglu íslenskra laga að systkini eiganda verulegs hlutafjár í gjaldþrota fyrirtæki eigi ekki rétt á greiðslu frá ábyrgðarsjóði launa.

 

Ákvæði a liðar 10. gr.

35Í málinu E-1/95, Samuelsson [1994-1995] EFTA Court Report 145, lið 31 og áfram, komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að heimild aðildarríkjanna til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun yrði ekki túlkuð svo að ákvæðið heimilaði almennt hvers konar ráðstafanir sem gætu með einhverjum hætti stuðlað að því að koma í veg fyrir misnotkun. Var sérstaklega vísað til félagslegs markmiðs tilskipunarinnar og þess að um undantekningarákvæði væri að ræða. Það verður því að túlka a lið 10. gr. þröngt, eins og önnur ákvæði sem heimila ríkjum að grípa til ráðstafana sem víkja frá meginreglum tilskipunar einstaklingum í óhag og þess verður að krefjast að allar ráðstafanir sem gripið er til á grundvelli ákvæðisins hafi þýðingu fyrir það markmið sem að er stefnt og að hófs sé gætt. Þetta kemur einnig fram í orðalagi a liðs 10. gr. þar sem segir að ráðstafanirnar verði að vera “nauðsynlegar ... til að koma í veg fyrir misnotkun”. Það ríki sem ber fyrir sig undanþáguna verður því að sýna fram á að þessum skilyrðum sé fullnægt.

 

36Sú fullyrðing að það sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir misnotkun að útiloka  frá greiðslu frá ábyrgðarsjóði launa þá launþega sem eru skyldmenni eiganda verulegs hlutafjár í gjaldþrota fyrirtæki, án tillits til aðstæðna í hverju máli, hefur ekki verið studd sannfærandi gögnum eða rökum. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að þessu markmiði megi ekki ná að sama marki með ráðstöfunum sem hafa minni áhrif á þau réttindi sem tilskipunin veitir og miða að vernd launþega.

 

37                       Af framangreindu leiðir að túlka verður a lið 10. gr. tilskipunarinnar svo að hún heimili ekki ráðstafanir til að koma í veg fyrir misnotkun sem felast í því að lög útiloki almennt systkini eiganda verulegs hlutafjár í gjaldþrota fyrirtæki, sem þau eru launþegar hjá, frá greiðslum frá ábyrgðarsjóði launa.

 

Ákvæði b liðar 10. gr.

38                       Dómstóllinn telur að rök þau sem greind eru hér að framan um a lið 10. gr. tilskipunarinnar eigi með sama hætti við um b lið 10. gr.  Hið félagslega markmið tilskipunarinnar og það að b liður 10. gr. er undantekningarákvæði leiðir til þess að túlka verður b lið 10. gr. þröngt.

 

39                       Eins og bent hefur verið á, einkum af ríkisstjórn Bretlands, fela ákvæði b liðar 10. gr. í sér sjálfstæða heimild til frávika og er greinin óháð ákvæðum 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Það að launþegi sé í aðstöðu sem hefði mátt sæta undanþágu samkvæmt 2. mgr. 1. gr. kemur ekki í veg fyrir beitingu b liðar 10. gr. ef skilyrðum síðargreinds ákvæðis er fullnægt.

 

42                       Af framangreindu leiðir að túlka verður b lið 10. gr. tilskipunarinnar svo að hún komi í veg fyrir að beitt sé ákvæðum innlendra laga sem fela í sér að systkini eiganda verulegs hlutafjár í gjaldþrota fyrirtæki, sem þau eru launþegar hjá, eigi almennt ekki rétt á greiðslu frá ábyrgðarsjóði launa.

 

Síðari spurningin

43                       Með síðari spurningunni ber Héraðsdómur Reykjavíkur upp það álitaefni hvort EFTA-ríkin hafi með því að samþykkja EES-samninginn skuldbundið sig til að sjá til þess að einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri sem orðið hafa fyrir tjóni vegna ófullnægjandi aðlögunar landsréttar að ákvæðum tilskipunarinnar geti fengið tjón sitt bætt.

 

Verður skaðabótaábyrgð ríkisins leidd af almennum meginreglum?

44                       Ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Noregs, ríkisstjórn Svíþjóðar og framkvæmdastjórnin halda því fram að EES-samningurinn skyldi EFTA-ríkin ekki til að bæta tjón sem einstaklingar verða fyrir vegna þess að landsréttur er ekki réttilega lagaður að EES-samningnum. Þau lagarök sem aðilarnir vísa til þessu til stuðnings eru með ýmsu móti en þau má draga saman á eftirfarandi hátt. Hvorki EES-samningurinn né Rómarsamningurinn geyma ákvæði sem mæla fyrir um skaðabótaábyrgð ríkisins. Í rétti bandalagsins (EB-rétti) hefur meginreglunni um skaðabótaábyrgð verið komið á í dómum dómstóls EB. Þar sem dómaframkvæmd dómstóls EB byggist að miklu leyti á sérstökum einkennum á réttarkerfi bandalagsins sem ekki er fyrir að fara í rétti efnahagssvæðisins (EES-rétti) verður dómaframkvæmdin ekki talin eiga við um EES-samninginn með stoð í 6. gr. EES-samningsins. EES-samningurinn er frábrugðinn Rómarsamningnum í mörgum atriðum sem hér skipta máli og má þar nefna að í EES-samningnum er ekki gert ráð fyrir framsali löggjafarvalds eða beinum réttaráhrifum og forgangi ákvæða EES-samningsins gagnvart landsrétti.

 

45                       Stefnandi og Eftirlitsstofnun EFTA halda því hins vegar fram að þær skuldbindingar sem EFTA-ríkin hafa gengist undir samkvæmt EES-samningnum feli í sér skyldu til að bæta tjón sem einstaklingar verða fyrir vegna ófullnægjandi aðlögunar landsréttar að EES-rétti. Vísað er til framkvæmdar dómstóls EB þar sem meginreglan um skaðabótaábyrgð samkvæmt bandalagsrétti kemur fram.  Þá er vísað til þess markmiðs EES-samningsins að skapa einsleitt efnahagssvæði, til þess hlutverks sem viðurkennt er að einstaklingar muni gegna með því að beita þeim réttindum sem þeir öðlast með samningnum, m.a. fyrir tilstilli dómstóla, og til þess markmiðs að tryggja jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri.  Eftirlitsstofnun EFTA heldur því einnig fram að meginreglan um skaðabótaábyrgð ríkisins byggist ekki á framsali á löggjafarvaldi sem færi gegn uppbyggingu EES-samningsins.

 

46 Dómstóllinn vísar fyrst til þess að í EES-samningnum er ekkert tiltekið ákvæði sem leggur grunninn að skaðabótaábyrgð ríkisins vegna þess að landsréttur sé ekki réttilega lagaður að samningnum.

 

47 Þar sem ekkert slíkt ákvæði er í EES-samningnum kemur til álita hvort skylda ríkisins verði leidd af yfirlýstum tilgangi EES-samningsins og uppbyggingu hans. Markmiðið með EES-samningnum er, eins og fram kemur í 1. mgr. 1. gr. samningsins, að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði.

 

48 Gildissvið EES-samningsins kemur fram í 2. mgr. 1. gr. hans, þar sem segir að til þess að ná þeim markmiðum sem að er stefnt skuli samstarfið fela í sér, í samræmi við ákvæði samningsins, sex svið sem þar eru talin: frjálsa vöruflutninga, frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi, frjálsa fjármagnsflutninga, kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og nánari samvinnu á öðrum tilteknum sviðum.

 

49 Eins og fram kemur í 1. mgr. 1. gr. EES-samningsins er eitt meginmarkmið hans að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði. Þetta einsleitnimarkmið kemur einnig fram í fjórða og fimmtánda lið aðfararorða EES-samningsins.

 

50Í fjórða lið aðfararorðanna kemur fram yfirlýsing samningsaðila:

“HAFA Í HUGA það markmið að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði er grundvallist á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, tryggri framkvæmd, meðal annars fyrir dómstólum, og jafnrétti, gagnkvæmni og heildarjafnvægi hagsbóta, réttinda og skyldna samningsaðila;”

 

51 Í fimmtánda lið segir:

“STEFNA AÐ ÞVÍ, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu samnings þessa og þeirra ákvæða í löggjöf bandalagsins sem tekin eru efnislega upp í samning þennan, svo og að koma sér saman um jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri að því er varðar fjórþætta frelsið og samkeppnisskilyrði;”

 

52 Til að markmiðinu um einsleitni verði náð er mælt fyrir um tvö grundvallaratriði.

 

53 Í fyrsta lagi skulu efnisákvæði EES-samningsins á þeim sviðum sem samvinnan nær til að mestu leyti vera samhljóða samsvarandi ákvæðum Rómarsamningsins og Stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins. Efnisreglur þessar skulu verða gildandi reglur í þeim EFTA-ríkjum sem aðild eiga að EES-samningnum er ríkin taka þær upp í landsrétt sinn.

 

54 Í öðru lagi er með EES-samningnum komið á margbrotnu kerfi sem tryggja á einsleita túlkun og beitingu þeirra efnisreglna sem teknar hafa verið upp í landsrétt.

 

56... Ákvæði 6. gr. EES-samningsins mæla fyrir um að efnislega samhljóða ákvæði skuli túlka í samræmi við dóma dómstóls EB sem máli skipta og kveðnir voru upp fyrir undirritunardag samningsins. Þá skal samkvæmt 3. gr. samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól taka tilhlýðilegt tillit til þeirra dóma sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp eftir undirritunardag EES-samningsins. ...

 

57 Annað mikilvægt markmið EES-samningsins er að tryggja einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri jafnræði og jöfn samkeppnisskilyrði og raunhæfa leið til að fylgja þeim réttindum eftir. Hér má enn vísa til fjórða og fimmtánda liðs í aðfaraorðum EES-samningsins (sjá lið 50 og 51 hér að framan) og sérstaklega til áttunda liðs aðfaraorðanna, þar sem segir:

 

„ERU SANNFÆRÐIR UM að einstaklingar muni gegna mikilvægu hlutverki á Evrópska efnahagssvæðinu vegna beitingar þeirra réttinda sem þeir öðlast með samningi þessum og þeirrar verndar dómstóla sem þessi réttindi njóta.”

 

58 Dómstóllinn tekur mið af því að ákvæðum EES-samningsins er í ríkum mæli ætlað að vera til hagsbóta einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Því veltur framkvæmd samningsins á því að einstaklingar og lögaðilar, sem tryggð eru þessi réttindi, geti byggt á þeim.

 

59 Með vísan til þess sem að framan greinir telur dómstóllinn að EES-samningurinn sé þjóðréttarsamningur sérstaks eðlis (sui generis) og sem felur í sér sérstakt og sjálfstætt réttarkerfi. EES-samningurinn kemur ekki á fót tollabandalagi heldur þróuðu fríverslunarsvæði, sjá dóm í máli E-2/97, Maglite [1997] EFTA Court Report 127. Samruni sá sem EES-samningurinn mælir fyrir um gengur ekki eins langt og er ekki eins víðfeðmur eins og samruni sá sem Rómarsamningurinn stefnir að. Hins vegar ganga markmið EES-samningsins lengra og gildissvið hans er víðtækara en venjulegt er um þjóðréttarsamninga.

 

60 Dómstóllinn telur að markmið um einsleitni og það markmið að koma á og tryggja rétt einstaklinga og aðila í atvinnurekstri til jafnræðis og jafnra tækifæra komi svo skýrt fram í samningnum, að EFTA-ríkjunum, sem aðild eiga að samningnum, hljóti að bera skylda til að sjá til þess að það tjón fáist bætt sem hlýst af því að landsréttur er ekki réttilega lagaður að tilskipunum.

 

61 Ákvæði 3. gr. EES-samningsins rennir frekari stoðum undir þá skyldu samningsaðila að sjá til þess að tjón fáist bætt. Samkvæmt 3. gr. skulu samningsaðilar gera allar viðeigandi ráðstafanir, hvort sem er almennar eða sérstakar, til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningnum leiðir, sjá dóm frá 30. apríl 1998 í máli E-7/97 Eftirlitsstofnun EFTA gegn Noregi, sem enn er óbirtur. Að því er lýtur að aðlögun landsréttar að tilskipunum sem eru hluti EES-samningsins felur þetta í sér að samningsaðilum ber skylda til að bæta það tjón sem hlýst af því að landsréttur er ekki réttilega lagaður að tilskipunum.

 

 

 

62 Það leiðir af því sem að framan greinir að það er meginregla EES-samningsins

að samningsaðilum ber skylda til að sjá til þess að það tjón fáist bætt sem einstaklingar verða fyrir vegna vanefnda ríkisins á skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum og sem viðkomandi EFTA-ríki ber ábyrgð á.

 

63 Það leiðir af 7. gr. EES-samningsins og bókun 35 við hann að EES-samningurinn felur ekki í sér framsal löggjafarvalds. Meginreglan um skaðabótaábyrgð ríkisins er hins vegar hluti EES-samningsins og er því eðlilegt að lög sem lögfesta meginmál samningsins séu skýrð svo að meginreglan um skaðabótaábyrgð ríkisins felist einnig í þeim.

 

Skilyrði bótaábyrgðar

64 Þótt reglan um skaðabótaábyrgð ríkisins felist þannig í EES-samningnum fara skilyrði bótaréttar sem leiðir af reglunni eftir eðli þeirrar vanrækslu ríkisins á skuldbindingum sínum sem rekja má tjónið til.

 

65 Í því tilviki að landsréttur sé ekki réttilega lagaður að ákvæðum tilskipunar, eins og krafist er í 7. gr. EES-samningsins, leiðir það af þessu ákvæði, til þess að það nái tilgangi sínum, að krefjast má skaðabóta að þremur skilyrðum uppfylltum.

 

66 Í fyrsta lagi verður það að felast í tilskipuninni að einstaklingar öðlist tiltekin réttindi og ákvæði tilskipunarinnar verða að bera með sér hver þau réttindi eru. Í öðru lagi verður að vera um nægilega alvarlega vanrækslu á skuldbindingum ríkisins að ræða. Í þriðja lagi verður að vera orsakasamband milli vanrækslu ríkisins á skuldbindingum sínum og þess tjóns sem tjónþoli verður fyrir.

 

67 Að því er lýtur að því máli sem hér er til umfjöllunar verður að byggja á því að markmið tilskipunar ráðsins 80/987/EBE, eins og henni hefur verið breytt, sé að veita launþegum rétt á ábyrgð á ógreiddum launakröfum. Af sambærilegum ástæðum og þeim sem greinir í framkvæmd dómstóls EB, verður umfang og innihald þess réttar afmarkað á grundvelli ákvæða tilskipunarinnar, sjá til samanburðar dóm í sameinuðum málum C-7/90 og C-9/90, Francovich o.fl. [1991] ECR  I-5357, lið 10 o.áfr.  Fyrsta skilyrðinu virðist því vera fullnægt.

 

 

 

 

68                       Við mat á öðru skilyrðinu, hvort um nægilega alvarlega vanrækslu sé að ræða,

skiptir mestu máli hvort samningsaðilinn með bersýnilegum og alvarlegum hætti leit fram hjá þeim takmörkunum sem eru á svigrúmi ríkisins til mats við ákvarðanatöku.

 

69                       Þau atriði sem dómstóll sá sem fjallar um málið getur metið eru m.a. hversu

skýrt og nákvæmt það ákvæði er sem farið er gegn, hversu mikið mat ákvæðið eftirlætur innlendum stjórnvöldum og hvort um er að ræða vísvitandi brot á samningsskuldbindingum sem leiddi til tjóns eða brot sem ekki var framið af ásetningi. Þá verður litið til þess hvort lögvilla var afsakanleg eða óafsakanleg, hvort afstaða EES-stofnunar eða stofnunar Evrópubandalaganna kunni að hafa stuðlað að vanrækslunni og hvort innleidd eru lög eða framkvæmd, eða þeim viðhaldið, sem eru andstæð EES-samningnum.

 

Málskostnaður

70           Ríkisstjórn Noregs, ríkisstjórn Svíþjóðar, ríkisstjórn Bretlands, Eftirlitsstofnun

EFTA og Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna, sem hafa skilað greinargerðum til dómstólsins, skulu bera sinn málskostnað.  Að því er lýtur að aðilum málsins verður að líta á málsmeðferð fyrir EFTA-dómstólnum sem þátt í meðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og kemur það í hlut þess dómstóls að kveða á um málskostnað.”

 

V

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki fengið launakröfu sína greidda úr Ábyrgðarsjóði launa af þeirri ástæðu að krafan hafi ekki notið forgangs í gjaldþrotabúi launagreiðandans en samkvæmt ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 nái ábyrgð sjóðsins einungis til þeirra krafna sem viðurkenndar hafi verið sem forgangskröfur í bú vinnuveitanda samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum. Að öðrum kosti hefði stefnandi fengið kröfuna greidda.

Við gerð EES-samningsins hafi þess ekki verið óskað af Íslands hálfu að tilskipun 80/987EBE um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd til handa launþegum verði vinnuveitandi gjaldþrota, með síðari breytingu, yrði löguð að þessari takmörkun ábyrgðarinnar með sama hætti og óskað hafi verið vegna a-d liða 6. gr. sömu laga og gert hafi verið, en samkvæmt 2. tl. 1. gr. tilskipunarinnar hafi aðildarríkjum verið heimilt að undanþiggja kröfur tiltekinna hópa frá gildissviði hennar. Þetta leiði síðan til þess að stefnandi njóti ekki þess réttar sem tilskipunin veiti launþegum á Evrópska efnahagssvæðinu. Íslensk lög séu því ekki í samræmi við EES-samninginn að þessu leyti. Íslenska ríkið hafi þannig ekki orðið við þeirri samningsskyldu sinni að laga íslensk lög að ákvæðum EES-samningsins, í þessu tilviki að tilskipun 80/987EBE, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og 3., 6., 7. og 106. gr. samningsins sjálfs. Þessarar skyldu sé einnig getið í bókun 35 í samningnum. Íslensk lög væru í fullu samræmi við tilskipun EBE kæmi ekki til vísun í lögum nr. 53/1993 til 3. gr. og 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga.

Þessi skilningur fái staðfestingu í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins sem leitað hafi verið í þessu máli.

Vanræksla þessi valdi því að ríkið beri bótaábyrgð á tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir af hennar sökum.

Skaðabótaskyldan byggist bæði á almennu skaðabótareglunni svo og á þeirri meginreglu, sem sé að finna í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins, að ríki sem ekki hafi réttilega lagað löggjöf sína að hinni afleiddu löggjöf beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem einstaklingar verði fyrir af þeim sökum. Stefnandi nefnir máli sínu til stuðnings dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-6&9/90 A. Francovich o.fl. gegn ítalska ríkinu og síðari dómaframkvæmd.

Það komi og fram í hinu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins að dómstóllinn telji að aðilum EES-samningsins beri skylda til þess að sjá svo um að það tjón fáist bætt sem einstaklingur verði fyrir vegna þess að landsréttur sé ekki réttilega lagaður að ákvæðum tilskipunar EBE.

Í því tilviki sem hér um ræði séu uppfyllt þau þrjú skilyrði sem EFTA-dómstóllinn telji að þurfi að vera uppfyllt til þess að hægt sé að krefjast skaðabóta.

Ljóst sé að stefnandi eigi rétt samkvæmt tilskipun EBE til þess að íslenska ríkið tryggi að hann fái greidd ógreidd laun vegna gjaldþrots vinnuveitanda síns í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Samkvæmt d lið 1.  mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 verði bætur vegna launamissis eftir gjaldþrotadag greiddar sé um að ræða riftun vinnusamnings og því sé um að ræða rýmri rétt en kveðið sé á um í tilskipun EBE. Þess réttar eigi stefnandi að njóta en vinnusamningi hans hafi verið rift þegar hætt var að greiða launin.

Vanræksla íslenska ríkisins á því að laga landslög að ákvæðum tilskipunarinnar hafi leitt til þess tjóns sem stefnandi krefjist að fá bætt og beint samband sé á milli þessarar vanrækslu ríkisins og þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir.

Um sé að ræða alvarlega vanrækslu því að ríkinu hafi yfirsést tilvísun í lögum nr. 53/1993 til gjaldþrotaskiptalaga og jafnframt hafi ríkinu verið kunnar niðurstöður í dómum EBE sem hnígi í sömu átt. Þá hafi ríkinu verið kunnur dómur EFTA-dómstólsins í málinu nr. 1/95 Samuelsson. Ríkinu sé skylt að aðlaga íslensk lög jafnóðum og dómar falli þar sem fram komi skýringar á EES-samningnum sem sýni að íslensk lög séu ekki í samræmi við samninginn. EB-dómstóllinn líti svo á að liggi fyrir dómur um ákveðið tilvik sem gefi tilefni til að breyta landslögum, en það ekki gert, sé um alvarlegt brot að ræða.

Stefnandi hélt því fram í munnlegum málflutningi að yrði litið svo á að tilskipunin takmarki bætur til hans miðað við rétt samkvæmt íslenskum lögum þá eigi engu að síður að dæma bætur á grundvelli 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. jafnréttislaga, en þessari málsástæðu mótmælti stefndi sem of seint fram kominni.

Þess sé krafist að bætur til stefnanda verði byggðar á því að hann hafi átt rétt til launa frá 12. mars 1995, þ.e. frá þeim tíma að hætt var að greiða honum laun í uppsagnarfresti til loka hans 30. júní s.á., en með því að hætta að greiða launin hafi vinnusamningi stefnanda verið rift í skilningi d liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993. Um sé að ræða 16 föst vikulaun en vikukaup stefnanda hafi verið kr. 32.307. Nemi því fjárhæðirnar samanlagt kr. 516.912. Hér verði að líta til þess að íslenska ríkið hafi ekki notfært sér heimildir 3. gr. tilskipunar EBE til þess að miða greiðsluskyldu við þær dagsetningar sem þar um ræði og verði því að samtvinna íslensk lög við tilskipunina að þessu leyti.

Stefnandi hafi átt ógreidd orlofslaun frá 1. maí 1994 þar til ráðningarsamningi var rift 12. mars 1995 að fjárhæð kr. 145.160 og orlofslaun frá þeim tíma til loka uppsagnarfrests kr. 60.116.

Orlofsuppbót fyrir tímabilið frá 1. maí 1994 til 30. apríl 1995 nemi kr. 8.000 og sama uppbót fyrir tímabilið frá 1. maí til 30. júní 1995 nemi kr. 1.333.

Byggja verði á því að við starfslok launþega gjaldfalli allar orlofsgreiðslur. Það hafi og komið fram hjá starfsmanni Ábyrgðarsjóðs launa í skýrslu hans fyrir dómi að stjórn sjóðsins hafi litið svo á að allt orlof gjaldfélli við gjaldþrot launagreiðanda.

Þá  hafi stefnandi ekki fengið greidda desemberuppbót fyrir tímabilið frá 1. desember 1994 til 30. júní 1995 sem nemi kr. 7.583.

Þannig sé bótakrafa stefnanda samanlagt kr. 739.104.

Stefnandi hefur lagt fram vottorð Félagsmálaskrifstofu Garðabæjar um að stefnandi hafi verið skráður atvinnulaus og í atvinnuleit frá 30. mars 1995 til 10. mars 1997.

Þá hefur stefnandi lagt fram launaseðla frá Verslunarmannafélagi Hafnarfjarðar sem sýna að hann hefur fengið greiddar bætur frá félaginu samtals kr. 138.518 á tímabilinu frá 30. mars til 30. júní 1995 og jafnframt að stefnandi hafi verið fyrst á skrá hjá félaginu hinn 30. mars 1995.

Stefndi hefur ekki mótmælt útreikningum stefnanda tölulega eins og hann hefur sett þá fram.

 

 

VI

Af hálfu stefnda er á því byggt að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið sé skylt að skýra íslensk lög til samræmis við EES-samninginn. Verði íslensk lög skýrð með þeim hætti að samræmi sé á milli þeirra og EES-samningsins sé útilokað að skaðabótaskylda stofnist með þeim hætti sem stefnandi haldi fram.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi ekki sýnt fram á það að 1. mgr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 53/1993, eins og þær hafi verið skýrðar og þeim beitt, útiloki stefnanda frá því að fá greidd laun úr Ábyrgðarsjóði launa.

Með tilvísun í 6. gr. laga nr. 53/1993 til 3. gr. og 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 og með ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 sé ekki verið að útiloka ákveðna hópa launþega frá því að fá greiðslur úr sjóðnum eða stefnt að nýjum takmörkunun frá því sem áður var. Verið sé að vísa til þess forms sem launakrafa af þessi tagi verði að fullnægja s.s. um lagagrundvöll og stofnunartíma. Slíkur skilningur sé eðlilegur og ljóst sé að þessi ákvæði megi ekki skýra þröngt og í öllu falli ekki svo þröngt að systkini gjaldþrota geti samkvæmt þeim ekki fengið greiðslur úr sjóðnum. Fyrrum stafsmaður sjóðsins hafi og lýst því fyrir dómi að dæmi séu þess að stjórn sjóðsins hafi greitt launakröfur enda þótt þeim hafi verið hafnað sem forgangskröfum í þrotabú.

Ábyrgðarsjóður launa geti því aðeins borið fyrir sig 3. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og 6. gr. laga nr. 53/1993 að um sé að ræða tilvik sem félli undir b lið 10. gr. tilskipunar ráðsins nr. 80/987/EBE, en þar segi að hægt sé að hafna því að greiða laun í gjaldþroti komi í ljós að skuldbinding til þess sé óréttmæt vegna sérstakra tengsla milli launþegans og vinnuveitandans og sameiginlegra hagsmuna sem leiði til þess að þeir geri með sér leynilegt samkomulag. Sömu ástæður liggi til grundvallar ákvæðunum.

Stefndi bendir á að það hafi fyrst verið með setningu laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að takmarkaður hafi verið réttur nákominna þrotamanni til forgangs launakröfum í þrotabú, sbr. 112. gr. laganna in fine. Áður hafi þeir notið sama réttar og aðrir starfsmenn þrotamanns. Þessi breyting á gjaldþrotaskiptalögunum hafi einungis varðað framkvæmd gjaldþrotaskipta en ekki snert á neinn hátt ríkisábyrgð á launum.

Í tíð eldri laga um ríkisábyrgð á launum og fyrst eftir að Ábyrgðarsjóður launa hafi verið settur á fót hafi ekki verið að finna tilvísun sama efnis og nú sé í lögum nr. 53/1993 til 3. gr. og 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, enda þótt þar hafi verið sömu takmarkanir og í 6. gr. laga nr. 53/1993.

Það fáist ekki séð að tilgangur löggjafans með þessari tilvísun hafi verið sá að minnka þann hóp launþega sem átt gæti rétt á hendur ábyrgðarsjóðnum umfram það sem leiddi af 6. gr. laganna sjálfra.

Þvert á móti komi það ítrekað fram í fumvarpi til laganna og nefndaráliti að það fæli ekki í sér breytingu á réttindum eða öðru er varðaði efnisleg atriði, aðeins nauðsynlegar lagfæringar til samræmis við nýja löggjöf um dómstólaskipan, réttarfar og meðferð framkvæmdavalds í héraði.

Í 6. gr. laga nr. 53/1993 séu tilgreindir þeir hópar launþega sem ekki geti krafið Ábyrgðarsjóð launa um kröfur samkvæmt a-d liðum 1. mgr. 5. gr. Þar séu áfram tilgreindir aðilar í a, c og d liðum sem skýrt hafi verið tekið skarið af  um með 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga að ekki gætu lengur notið forgangsréttar fyrir kröfum er samkvæmt stofnunartíma og lagagrundvelli sínum myndu ella falla undir 1-3. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna. Svo virðist sem áfram sé á því sé byggt í 6. gr. laga nr. 53/1993 að kæmi sú  regla ekki til ættu þessir aðilar rétt samkvæmt a-d lið 1. mgr. 5. gr. vegna slíkra krafna sem stofnuðust á því tímabili sem forgangsréttur fylgdi almennt kröfum af því tagi.

Stefndi bendir enn fremur á að við meðferð frumvarpsins á þingi hafi ákvæði d liðar 6. gr. in fine verið breytt í þá veru að ekki væri skilyrði fyrir beitingu heimildar til greiðslu ákveðinnar launakröfu að hún væri viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabú.

Rétt þykir hér að taka orðrétt upp það sem í nefndaráliti félagsmálanefndar Alþingis segir um þessa breytingu:

 

“Lögð er til breyting á d-lið fyrri málsgreinar 6. gr. Eftir að frumvarpið kom til umfjöllunar félagsmálanefndar barst formanni hennar ábending frá stjórn ábyrgðarsjóðs launa varðandi rétt maka og barna gjaldþrota einstaklings til greiðslna úr sjóðnum. Samkvæmt ákvæðinu geta maki og skyldmenni í beinan legg ekki krafist bóta úr sjóðnum. Leiði þetta til mjög ósanngjarnrar niðurstöðu má sjóðstjórnin þó heimila greiðslu til þessara launþega. Skilyrði þess að kröfur megi greiða úr ábyrgðarsjóðnum er að þær hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum. Hin nýju lög um gjaldþrotaskipti koma hins vegar í veg fyrir það að slíkar kröfur, sem hér um ræðir, geti hlotið viðurkenningu sem forgangskröfur. Því er lögð til viðbót við 6. gr. þannig að unnt verði að taka tillit til sérstakra mála er varða maka og börn þess er gjaldþrota verður enda þótt launakrafa þeirra hafi ekki verið viðurkennd sem forgangskrafa á grundvelli gjaldþrotaskiptalaga.”

 

Stefndi heldur því fram að samkvæmt því sem rakið hefur verið sé ekki hægt að fallast á að ákvæði laga nr. 53/1993 útiloki stefnanda frá því að fá greiðslu úr Ábyrgðarsjóði launa né heldur frá því að njóta þess réttar sem tilskipun 80/987/EBE veiti honum. Löggjafinn hafi því rækt þær skyldur sem á hann hafi verið lagðar samkvæmt EES-samningnum.

Greiðslusynjun stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa skapi stefnanda ekki skaðabótarétt á hendur ríkinu heldur hefði hann átt að beina bótakröfu sinni gegn sjóðstjórninni.

Þá heldur stefndi því einnig fram að íslensk lög brjóti ekki í bága við tilskipun EBE þar sem í tilskipuninni sé aðildarríkjunum ákveðinn réttur til undantekninga frá henni, sbr. ákvæði 10. gr. tilskipunarinnar. Því hafi ekki verið nauðsynlegt fyrir ríkið að gera fyrirvara þar um. Áskilnaður 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 um forgangskröfur eigi sér fyrirmynd í danskri löggjöf um Ábyrgðarsjóð launþega. Framkvæmd Dana byggi á þeim skilningi að í ákvæði 10. gr. b lið felist heimild til þess að útiloka nákomna frá greiðslu launa sem skiptaréttur synji forgangsréttar í þrotabú án þess að um það þurfi að gera sérstakan fyrirvara samkvæmt 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.

Stefndi heldur því fram að jafnvel þótt litið yrði svo á að lög nr. 53/1993 útiloki stefnanda frá rétti sem tilskipun nr. 80/987/EB veiti verði samt ekki fallist á að það geti leitt til bótaábyrgðar ríkisins.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið feli ekki í sér framsal aðildarríkjanna á löggjafarvaldi sínu, þvert á móti sé hið gagnstæða tekið skýrt fram í samningnum. Samkvæmt því sé ekki hægt að fallast á að svokölluð Frankovichregla sé ákvarðandi um stöðu ólögfestra EES-reglna í íslenskum landsrétti. Vandséð sé hverja þýðingu skýrir fyrirvarar EFTA-ríkjanna um að fullveldisréttur þeirra yrði ekki skertur með samningnum ætti annars að hafa.

Stefndi hafnar því og að almenna skaðabótareglan eigi hér við eins og stefnandi haldi fram.

Ekki sé hægt að gera þá kröfu að íslenska ríkið gerði fyrirvara í samræmi við dóma EB- og EFTA-dómstólanna sem gengið hafi eftir að frá Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var gengið.

Stefndi mótmælir kröfum stefnanda sem alltof háum. Verði litið svo á að bótaréttur skapist vegna þess að stefnandi njóti ekki réttar samkvæmt tilskipun EBE þá verði að miða bæturnar við réttinn samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar. Stefnandi eigi ekki, samkvæmt 2. tl. 3. gr. tilskipunarinnar, rétt á að fá greidd laun nema til þess tíma að bú vinnuveitandans var tekið til gjaldþrotaskipta, þ.e. til 22. mars 1995. Þannig eigi hann hugsanlega rétt á einnar viku kaupi. Krafa um kaup eftir 22. mars verði ekki tengd tilskipuninni og verði því ekki beint gegn íslenska ríkinu sem bótakröfu, heldur verði að beina henni gegn Ábyrgðarsjóði launa.

Stefnandi eigi ekki rétt til annarra orlofslauna en þeirra sem fallið hafa til á tímabilinu frá 12.-22. mars 1995.

Þá eigi að draga frá kröfu stefnanda þær atvinnuleysisbætur sem hann kunni að hafa fengið greiddar fyrir tímann fram að gjaldþroti vinnuveitandans.

Stefnandi geti ekki átt rétt á dráttarvöxtum frá fyrri tíma en þingfestingu. Krafa stefnanda um greiðslu dráttarvaxta frá 13. mars 1995 til greiðsludags eigi hvorki stoð í vaxtalögum, sbr. 7. og 15. gr. þeirra, né í lögum nr. 53/1993, sbr. f lið 1. mgr. 5. gr. þar sem kveðið sé á um að vextir af kröfum samkvæmt stafliðum a-e fari samkvæmt 5. gr. vaxtalaga.

 

VII

Niðurstaða dómsins

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra íslensk lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Þrátt fyrir þessa lagaskyldu þykir ekki unnt að fallast á þá málsástæðu stefnda að íslensk lög verði skýrð svo að þau veiti þeim rétt til að fá launakröfu sína greidda úr Ábyrgðarsjóði launa, sem ekki nýtur forgangs í þrotabúi fyrir þeirri kröfu, enda þótt um  hann verði ekki beitt undantekningarákvæðinu í d lið 6. gr. laga nr. 53/1993. Þetta undantekningarákvæði nær aðeins til maka og skyldmenna þeirra í beinan legg, sem um getur í a-c lið 6. gr., svo og maka þessara skyldmenna. Stefnandi fellur ekki undir framangreint undantekningarákvæði og tilvísun laga nr. 53/1993 til ákvæða um forgangskröfur í þrotabú sýnist fortakslaus að öðru leyti. Má hér benda á að í nefndaráliti félagsmálanefndar Alþingis um frumvarp til laga um ábyrgðarsjóð launa vegna gjaldþrota, sem að hluta til er rakið hér að framan, kemur skýrt fram sá skilningur að “skilyrði þess að kröfur megi greiða úr ábyrgðarsjóðnum er að þær hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum.” Það er samkvæmt þessum skilningi nefndarmanna að þeir leggja til breytingu á 6. gr. frumvarpsins, þ.e. að launakröfur ákveðins hóps manna þurfa ekki að hafa verið viðurkenndar sem forgangskröfur í viðkomandi þrotabú til þess að verða greiddar úr Ábyrgðarsjóði launa, en þó einvörðungu ef ákvæði d liðar 6. gr. leiddi að öðrum kosti til mjög ósanngjarnrar niðurstöðu að mati sjóðstjórnar.

Þótt svo kunni að vera að stjórn Ábyrgðarsjóðs launa hafi einhverju sinni greitt kröfur, sem hvorki nutu forgangs í þrotabú né voru gerðar af þeim sem falla undir framangreint undantekningarákvæði d liðar 6. gr. laga nr. 53/1993, þykir það ekki breyta því að kröfu stefnanda verður að telja ólögvarða vegna tilvísunar í lögunum til 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga.

Stefndi heldur því og fram, þegar litið sé til þess tilviks sem hér um ræðir, að íslenska ríkinu hafi heldur ekki verið þörf á að óska eftir undanþágu við tilskipun EBE vegna ákvæðis 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga því að samkvæmt b lið 10. gr. tilskipunarinnar  megi hafna greiðslu þegar um sé að ræða sérstök tengsl  á milli launþegans og vinnuveitandans og sameiginlega hagsmuni sem leiði til þess að þeir geri með sér leynilegt samkomulag. Íslensk lög séu þannig í samræmi við tilskipun EBE að þessu leyti.

Íslenska ríkið hélt því fram í málflutningi fyrir EFTA-dómstólnum þegar hins ráðgefandi álits var leitað að á grundvelli a og b liða 10. gr. tilskipunarinnar væri íslenska ríkinu heimilt að útiloka systkini eiganda verulegs hlutafjár í fyrirtæki frá greiðslum úr ábyrgðarsjóði launa.

Eins og fram kemur í hinu ráðgefandi áliti telur EFTA-dómstóllinn það meginreglu tilskipunar EBE, samkvæmt 1. mgr. 1. gr. hennar, að allir launþegar eigi rétt á greiðslu frá ábyrgðarsjóði launa verði vinnuveitandi gjaldþrota. Tilskipunin veiti launþegum lágmarksvernd sem sé takmörkuð við ábyrgð á launum fyrir þá dagsetningu sem stjórnvöld velji innan ramma ákvæða 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Tilskipunin hafi þó ekki áhrif á rétt aðildarríkjanna til að beita eða koma á lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem launþegum séu hagstæðari, þ.m.t. að tryggja ábyrgð á kröfum fram yfir ákveðið tímabil.

Enn fremur kemur fram í álitinu skýring á þann veg að sú heimild sem tilskipunin hefur að geyma aðildarríkjunum til handa, til að undanskilja ákveðna hópa launþega, verði ekki skýrð rúmt, þá hópa verði að telja upp í  viðauka við tilskipunina. Viðaukinn yrði lítils virði ef hægt væri að útiloka launþega sem ekki væri getið í viðaukanum. Dómstóllinn vísar og til þess að verði íslenska undanþágan sem gerð var við tilskipunina, sem var svipaðs efnis og 6. gr. laga nr. 53/1993, túlkuð svo að hún taki ekki til systkina, leiði það til þeirrar niðurstöðu að Ísland hafi óskað eftir undanþágu í viðaukanum sem ekki sé nægilega rúm til þess að ná yfir þær undantekningar sem heimilar voru samkvæmt íslenskum lögum.

Í hinu ráðgefandi áliti kemur einnig fram að skýra verði b lið 10. gr. tilskipunar EBE svo að hún komi í veg fyrir að “beitt sé ákvæðum innlendra laga sem fela í sér að systkini eiganda verulegs hlutafjár í gjaldþrota fyrirtæki, sem þau eru launþegar hjá, eigi almennt ekki rétt á greiðslu frá ábyrgðarsjóði launa.”

Á grundvelli þessarar skýringar verður á því byggt að íslenska ríkið geti ekki borið það fyrir sig að undantekningarákvæðin í 6. gr. laga nr. 53/1993 heimili að útiloka systkini gjaldþrota frá því að fá greiðslu úr Ábyrgðarsjóði launa án þess að það brjóti í bága við tilskipun EBE. Skyldleikinn einn og sér nægir ekki, heldur yrði að koma til einhver sérstök tengsl systkinanna sem féllu undir b lið 10. gr. tilskipunarinnar.

Í bréfi frá Ábyrgðarsjóði launa til lögmanns stefnanda dags. 1. apríl 1996, sem fyrr er rakið, kemur fram að vegna tengsla stefnanda við hið gjaldþrota fyrirtæki falli krafa hennar undir undanþáguákvæðin í tilskipun EBE sem útiloki ákveðna hópa frá ábyrgð á launagreiðslum þeirra og jafnframt er vísað til 6. gr. laga nr. 53/1993. Ekki kemur fram í bréfinu á hverju þessi fullyrðing er byggð og engra gagna hefur verið aflað í máli þessu um stöðu stefnanda í fyrirtækinu að þessu leyti.

Verður að telja ósannað í málinu að stefnandi hafi haft þau tengsl við vinnuveitanda sinn að heimilt hafi verið að hafna því að greiða launakröfu hans úr Ábyrgðarsjóði launa á grundvelli ákvæða 10. gr. tilskipunar EBE.

Niðurstaðan í hinu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins er sú að það sé andstætt tilskipuninni “að á Íslandi séu í gildi lagaákvæði sem útiloka launþega sem er systkini eiganda 40% hlutar í gjaldþrota fyrirtæki sem launþeginn vann hjá frá þeirri greiðsluábyrgð sem mælt er fyrir um í 3. gr. tilskipunarinnar vegna þessa skyldleika.”

Með þessar skýringar EFTA-dómstólsins í huga verður á því að byggja að stefnandi eigi samkvæmt tilskipun EBE rétt á því að íslenska ríkið tryggi það að við gjaldþrot ábyrgist tryggingasjóður greiðslu á óinnheimtum kröfum hans samkvæmt ráðningarsamningi er varða vinnulaun fyrir tiltekna dagsetningu, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar.

Niðurstaða dómsins er sú að íslensk lög standi því í vegi að stefnandi fái notið réttar síns samkvæmt tilskipun 80/987EBE og að íslenska ríkið hafi vanrækt þá skyldu sína samkvæmt EES-samningnum að breyta íslenskum lögum á þann hátt að þau standi ekki í vegi fyrir því að menn geti notið þess réttar sem tilskipun EBE veitir eða reyna að fá að öðrum kosti sett í tilskipunina undantekningarákvæði, sbr. 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, sem gerði lagabreytingu óþarfa.

 

Þessu næst verður tekin afstaða til þess hvort framangreind vanræksla ríkisins leiðir til þess að stefnandi eigi bótakröfu á hendur ríkinu.

Stjórn Ábyrgðarsjóðs launa synjaði stefnanda um að greiða launakröfu hans. Íslenska ríkið hefur út af fyrir sig ekki staðið að þeirri synjun. Niðurstaða dómsins í úrskurði í máli þessu sem kveðinn var upp 14. október 1997 var sú að stefnanda væri heimilt að beina bótakröfu á hendur íslenska ríkinu án þess að láta fyrst reyna á greiðsluskyldu Ábyrgðarsjóðs launa fyrir dómi.

Í hinu ráðgefandi áliti kemur fram það álit EFTA-dómstólsins að í EES-samningnum sé ekkert tiltekið ákvæði sem leggi grunninn að skaðabótaábyrgð ríkisins vegna þess að landsréttur sé ekki réttilega lagaður að samningnum.

Hins vegar telur dómstóllinn að markmið um einsleitni á Evrópska efnahagssvæðinu og það markmið að koma á og tryggja rétt einstaklinga og aðila í atvinnurekstri til jafnræðis og jafnra tækifæra komi svo skýrt fram í samningnum að EFTA-ríkjunum sem aðild eigi að samningnum hljóti að bera skylda til að sjá til þess að það tjón fáist bætt sem hlýst af því að landsréttur er ekki réttilega lagaður að tilskipunum.

Þá telur EFTA-dómstóllinn að ákvæði 3. gr. EES-samningsins renni frekari stoðum undir þá skyldu samningsaðila að sjá til þess að tjón fáist bætt. Samkvæmt þeirri grein samningsins beri samningsaðilum að gera allar viðeigandi ráðstafanir, hvort sem þær séu almennar eða sérstakar, til þess að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningnum leiði og vísar þar til dóms frá 30. apríl 1998 í máli E-7/97 Eftirlitsstofnun EFTA gegn Noregi.

EFTA-dómstóllinn telur enn fremur að meginreglan um skaðabótaábyrgð ríkisins sé hluti af EES-samningnum og því sé eðlilegt að lög sem lögfesta meginmál samningsins séu skýrð svo að meginreglan um skaðabótaábyrgð ríkisins felist einnig í þeim.

Eins og fyrr er rakið er svar EFTA-dómstólsins í hinu ráðgefandi áliti við þeirri spurningu Héraðsdóms Reykjavíkur sem til hans var beint um skaðabótaskyldu ríkisins svohljóðandi:

 

“Aðilum EES-samningsins ber skylda til að sjá til þess að það tjón fáist bætt sem einstaklingur verður fyrir vegna þess að landsréttur er ekki réttilega lagaður að ákvæðum tilskipunar sem er hluti EES-samningsins.”

 

EFTA-dómstóllinn telur hins vegar að fullnægja þurfi þremur skilyrðum til þess að hægt sé að krefjast bóta fyrir það tjón sem leiði af því að landsréttur hefur ekki verið lagaður að ákvæðum tilskipunar og segir þar um m.a. eftirfarandi:

 

“Í fyrsta lagi verður það að felast í tilskipuninni að einstaklingar öðlist tiltekin réttindi og ákvæði tilskipunarinnar verða að bera með sér hver þau réttindi eru. Í öðru lagi verður að vera um nægilega alvarlega vanrækslu á skuldbindingum ríkisins að ræða. Í þriðja lagi verður að vera orsakasamband milli vanrækslu ríkisins á skuldbindingum sínum og þess tjóns sem tjónþoli verður fyrir.”

 

Dómstóllinn segir í framhaldi af þessu (liður 67 í hinu ráðgefandi áliti) að umfang og innihald réttar launþega á ábyrgð ríkisins á ógreiddum launakröfum verði afmarkað á grundvelli ákvæða tilskipunarinnar og bendir á til samanburðar dóm EB-dómstólsins í sameinuðum málum C-7/90 og C-9/90 Francovich o.fl. [1991] lið 10 og áfram.Dómur þessi var kveðinn upp á árinu 1991.

Að því er varðar nánari útlistun EFTA-dómstólsins á skilyrðum þess að hægt sé að krefjast bóta skal vísað til liða 68 og 69 í hinu ráðgefandi áliti dómstólsins sem rakin eru hér að framan.

Í svokölluðu Francovich-máli kvað Evrópudómstóllinn í fyrsta skipti á um það að ríki væri skylt að bæta það tjón,  sem leiddi af því að landslög væru ekki í samræmi við evrópuréttinn, hefðu ekki verið aðlöguð honum. Ákveðin skilyrði þurftu eðlilega að vera fyrir hendi. Í síðari dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hafa þessi skilyrði verið afmörkuð nánar og eru þau hin sömu og EFTA-dómstóllinn telur að fullnægja þurfi til þess að bóta verði krafist, en þau eru rakin hér að framan. Sjá má að þessi skilyrði eru sama eðlis og þau sem almenna skaðabótareglan hefur að geyma, svo sem vænta mátti.

Stefndi heldur því fram að svokölluð Francovich-regla, sem af framangreindum dómi er leidd,  geti ekki verið  ákvarðandi um stöðu ólögfestra EES-reglna í íslenskum landsrétti. EES-samningurinn feli ekki í sér framsal aðildarríkjanna á lagasetningarvaldi og Francovich-reglan fái ekki gildi að íslenskum rétti fyrr en hún hafi verið lögfest.

Í bókun 35 í Samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er þess getið í innskotssetningu að samningsaðila sé ekki gert að framselja löggjafarvald sitt til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins. Um það má deila hvort EES-samningurinn felur í raun í sér framsal á löggjafarvaldi og þar með á fullveldi og hefur það vissulega verið gert. Það breytir ekki því að í 6. gr. EES-samningsins er kveðið á um það að ákvæði hans skuli túlka í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samningsins að vísu að ákveðnum skilyrðum uppfyllum. Ennfremur kemur fram í EES-samningnum að aðildarríki hans stefna að því að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu samningsins og þeirra ákvæði í löggjöf bandalagsins sem tekin eru efnislega upp í samninginn. Þetta þykir leiða til þess að við dómsniðurstöðu í þessu máli verður að taka tillit til  dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins.

Fyrr er sú niðurstaða fengin að stefnandi eigi samkvæmt tilskipun EBE, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr., rétt á því að fá greiddar af tryggingarsjóði óinnheimtar kröfur samkvæmt ráðningarsamningi sínum við Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar hf. er varða vinnulaun fyrir ákveðinn dag, en aðildarríki getur valið á milli þriggja dagsetninga og verður nánar vikið að því síðar.

Íslenska ríkið hefði eflaust getað við gerð EES-samningsins fengið undanþágu frá ákvæðum tilskipunar EBE að því er varðar tilvísunina í 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga með sama hætti og það fékk undanþágu vegna ákvæða 6. gr. laga nr. 53/1993, en ríkið lét það ógert.

Hefði það skilyrði verið numið úr lögum nr. 53/1993 að launakrafa þurfi að njóta forgangs í þrotabú til þess að hún verði greidd úr Ábyrgðarsjóði launa verður ekki annað séð en stefnandi hefði fengið launakröfu sína greidda úr sjóðnum þó með þeim takmörkunum sem lögin kveða á um og eru í samræmi við tilskipun EBE. Þar með hefði hann jafnframt a.m.k. notið þess réttar tilskipunar EBE. Þykir því ljóst að vanræksla íslenska ríkisins á því að laga íslensk lög að EES-samningum í því tilviki sem hér um ræðir hefur leitt til tjóns fyrir stefnanda.

Ekki er upplýst hvernig á því stendur að lögum nr. 53/1993 var ekki breytt til samræmis við tilskipun EBE eða undanþágu óskað frá henni. Ekkert bendir til þess að um beinan ásetning hafi verið að ræða.

Í hinu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins kemur fram að hugsanleg skýring á því, hvers vegna íslenska ríkið óskaði ekki eftir undanþágu í viðaukanum sem náð hefði til tilvísunarinnar í 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, sé sú að aðilum hafi yfirsést að um tvenns konar undantekningar hafi verið að ræða. Annars vegar þær sem greini í lögum um Ábyrgðarsjóð launa og hins vegar þær sem greini í gjaldþrotaskiptalögunum. (sjá lið 31 í álitinu)

Þótt ekki skipti það beinu máli hér þá er samt rétt að geta þess að í bréfi stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa til lögmanns stefnanda dags. 1. apríl 1996 kemur fram sú skoðun að ákvæði laga nr. 53/1993 séu í fullu samræmi við ákvæði tilskipunar EBE og að krafa stefnanda falli undir undanþáguákvæðin í tilskipuninni.

Vel má vera að það hafi og verið skoðun íslenska ríkisins að lögin væru í fullu samræmi við tilskipunina, en niðurstaða dómsins sem fengin hefur verið er hins vegar sú að svo sé ekki. Um er að ræða einfaldan og auðskilinn lagatexta. Mátti vera tiltölulega auðvelt að sjá að samkvæmt honum var ákveðinn hópur launþega, sem naut réttar samkvæmt tilskipun EBE, útilokaður frá greiðslum úr Ábyrgðarsjóði launa. Hvort heldur er um lögvillu að ræða eða það gáleysi að skoða ekki íslensk lög svo rækilega að rétt niðurstaða yrði fundin þá er álit dómsins að báðar ástæðurnar séu, eins og hér háttar, í raun alvarlegt gáleysi, sem leiði hvor um sig til þess að skilyrði bótaskyldu séu fyrir hendi að þessu leyti.

Niðurstaða dómsins er því sú að íslenska ríkinu sé skylt að bæta stefnanda það tjón sem  hann hefur orðið fyrir vegna þess að íslensk lög standa því í vegi að hann fái notið þess réttar sem tilskipun EBE veitir honum.

 

Verður þessu næst vikið að bótafjárhæðum.

Stefnandi heldur því fram að með því að hætt var að greiða honum laun hinn 12. mars hafi ráðningarsamningi við hann verið rift í skilningi d liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 og eigi  hann því rétt til að fá greiddar bætur sem svari launum út uppsagnarfrestinn eða til 30. júní. Krafa stefnanda er þannig miðuð við 3 mánuði og 19 daga, en ekki þrjá mánuði eins og bætur vegna launamissis miðast við í framangreindum d lið.

Stefndi hélt því hins vegar fram í munnlegum málflutningi að stefnandi geti ekki átt kröfu til að fá bættan launamissi nema til þess dags að launagreiðandinn varð gjaldþrota, þ.e. 22. mars og sé því um að ræða tímann frá 12. til 22. mars. Bótakröfu stefnanda verði að miða við þau tímamörk sem um ræði í 2. tl. 3. gr. tilskipunar EBE og beri í þessu tilviki að miða við þann dag sem vinnuveitandinn varð gjaldþrota.

Eins og að framan er lýst var stefnanda sagt upp störfum 29. desember 1994 og tók uppsögnin gildi 1. janúar 1995. Óumdeilt er í málinu að samkvæmt ráðningarsamningi átti stefnandi rétt á 6 mánaða uppsagnarfresti eða til 30. júní 1995.

Í uppsagnarbréfinu kemur fram að fyrirtækið Vélaverkstæði Sigurðar Sveinbjörnssonar hf. myndi leggja niður starfsemi sína frá 1. janúar 1995 og hefur það væntanlega leitt sjálfkrafa til þess að ekki var óskað eftir vinnuframlagi stefnanda í uppsagnarfrestinum en það er óumdeilt í málinu.

Ráðningarsamningi stefnanda hafði verið sagt upp áður en hætt var að greiða honum laun og með þeim hætti hafði gildistíma samningsins verið mörkuð ákveðin endalok. Stefnandi byggir ekki einungis á því að ráðningarsamningnum hafi verið sagt upp heldur einnig á því að samningnum hafi verið rift þegar hætt var að greiða stefnanda laun.

Hér þykir rétt að geta þess að stefnandi hefur ekki haldið því fram, að þar sem um sé að ræða laun í uppsagnarfresti, uppsagnarfresti sem launþeginn hafi áunnið sér samkvæmt ráðningarsamningi, en í þessu tilviki ekki þurft að vinna fyrir laununum, þá hafi hann fyrir gjaldþrotið verið búinn að fullnægja þeirri vinnuskyldu sem gefi honum rétt til að fá 6 mánaða laun greidd.

Í 1. gr. laga nr. 53/1993 kemur fram sú meginregla að Ábyrgðarsjóður launa ábyrgist greiðslu vinnulaunakröfu launþega við gjaldþrotaskipti og í a lið  1. mgr. 5. gr. laganna kemur fram að ábyrgð sjóðsins tekur til kröfu launþega um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuðina hjá vinnuveitanda. Megintilgangurinn er því sá að launþeginn fái greitt úr sjóðnum fyrir þá vinnu sem hann hefur innt af hendi en ekki fengið greidda frá vinnuveitanda, þó með framangreindum tímatakmörkunum.

Það liggur í hlutarins eðli að við gjaldþrot vinnuveitanda, þegar hann missir forræði á búi sínu, falla niður allir vinnusamningar, launþegar hætta að vinna í þágu vinnuveitandans og hætta að fá laun greidd frá honum. Þótt ekki sé neitt um það upplýst má gera ráð fyrir að hætt hafi verið að greiða öðrum launþegum Vélaverkstæðis Sigurðar Sveinbjarnarsonar laun um svipað leyti og stefnanda og varla lengur en til gjaldþrotadags. Ekki verður séð að stefnandi hafi neina sérstöðu fram yfir aðra starfsmenn að þessu leyti eða sérstöðu vegna þess að vitað var um áramótin 1994/1995 hvenær ráðningartíma hans hjá fyrirtækinu lyki.

Verður ekki á það fallist að það að hætta að greiða laun vegna yfirvofandi gjaldþrots fyrirtækis feli í sér riftun ráðningarsamnings í skilningi d liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 og skapi eitt og sér bótaskyldu samkvæmt þeim lið, þannig að stefnandi geti gert bótakröfu á þeim grundvelli.

Krafa stefnanda er skaðabótakrafa og bótagrundvöllurinn er sá að íslenska ríkið hafi vanrækt að breyta landslögum þannig að þau samræmdust ákvæðum tilskipunar EBE og stefnandi fengi þar með að njóta þess réttar sem tilskipunin kveður á um.

Sá réttur sem tilskipunin veitir launþegum í aðildarríkjum EES-samningsins er að þeim skal tryggð greiðsla á óinnheimtum kröfum samkvæmt ráðningarsamningi og varða vinnulaun fyrir ákveðinn dag. Samkvæmt 2. tl. 3. gr. tilskipunarinnar hefði ríkið getað miðað við þrjár dagsetningar. Eðlilega er ekki um neina viðmiðun ríkisins að ræða og þykir því rétt að miða við þá dagsetningu sem helst þykir eiga við og vera stefnanda hagstæðust, en það er dagurinn þegar vinnuveitandinn varð gjaldþrota.

Samkvæmt þessu ber stefnda að greiða stefnanda bætur sem eru jafnar kaupi hans frá og með 13. mars til og með 22. mars 1995 eða í 10 daga. Svara þær til kr. 46.152 miðað við það vikukaup sem stefnanda var greitt. Viðmiðun þessarar bótaákvörðunar þykir ekki fara út fyrir þau mörk sem aðildarríkjum EES-samningsins er heimilt að setja ábyrgð sinni á ógreiddum launakröfum í gjaldþroti samkvæmt 4. gr. tilskipunar EBE.

Stefnandi hefur gert kröfu til þess að fá bætur fyrir ógreitt orlof á tímabilinu frá 1. maí 1994 til 30. júní 1995.

Stefndi hélt því fram í málflutningi að stefnandi ætti ekki rétt til orlofslauna af öðrum launagreiðslum en þeim sem ógreiddar voru fyrir gjaldþrot vinnuveitandans.Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof segir að launþega skuli greiða áunnin orlofslaun næsta virkan dag fyrir töku orlofs. Lögin gera einnig ráð fyrir að hægt sé að semja um að greiðsla orlofs fari fram með öðrum hætti. Í 8. gr. sömu laga segir að ljúki ráðningarsamningi launþega og vinnuveitanda skuli vinnuveitandi við lok ráðningartímans  greiða launþeganum öll áunnin orlofslaun hans samkvæmt reglunni í 2. mgr. 7. gr. laganna.

Í 2. mgr. 3. gr. orlofslaganna segir að orlofsárið sé frá 1. maí til 30. apríl. Bótakrafa stefnanda að því er orlofslaun varðar byggist á því að hún eigi ógreidd orlofslaun frá 1. maí 1994 til 12. mars 1995 kr. 145.160 og einnig frá þeim degi til 30. júní s.á. kr. 60.116. Virðist því hafa verið miðað við að orlof yrði greitt annað hvort í lok orlofsársins eða við orlofstöku stefnanda þótt upplýsingar liggi ekki fyrir um það.

Í b lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 segir að ábyrgð Ábyrgðarsjóðs launa taki til kröfu launþega um orlofslaun sem koma áttu til útborgunar á síðustu þremur starfsmánuðum hans hjá vinnuveitanda. Ekki verður á það fallist að hér sé eingöngu um að ræða orlofslaun af ógreiddum vinnulaunum stefnanda fyrir gjaldþrotið eins og stefndi heldur fram. Má þar líta til þess að í a lið 1. mgr. 5. gr. er talað um vinnulaun fyrir síðustu þrjá starfsmánuði en í b lið um orlofslaun sem koma áttu til útborgunar á síðustu þremur starfsmánuðunum án skilyrða um það hvenær fyrir þeim var unnið.

Í 4. gr. tilskipunar EBE kemur fram að aðildarríki eiga rétt á að takmarka þá ábyrgð tryggingasjóða sem um er getið í 3. gr. tilskipunarinnar. Þær takmarkanir verða þó að vera innan þeirra marka sem í 4. greininni segir. Hverju ríki er heimilt að ákveða rýmri takmarkanir, eða m.ö.o. rýmri rétt til greiðslna, en tilskipunin kveður á um, en eins og fram er komið tryggir tilskipunin launþegum lágmarksréttindi.

Í því tilviki sem hér um ræðir verður að líta svo á ráðningartíma stefnanda hafi í raun lokið að þessu leyti þegar vinnuveitandinn missti forræði á búi sínu við töku þess til gjaldþrotaskipta 22. mars 1995 og því hafi honum borið samkvæmt 8. gr. laga nr. 30/1987 að greiða stefnanda öll áunnin orlofslaun hans til þess tíma, en þá hafi þau gjaldfallið. Þykir þessi niðurstaða rúmast innan marka tilskipunar EBE eins og hún  hefur verið skýrð.

Ber því að taka til greina þessa skaðabótakröfu stefnanda með kr. 150.508.

Á sömu forsendum ber að taka til greina þann hluta orlofsuppbótar sem féll á framangreindu tímabili sem reiknast vera kr. 7.156.

Hins vegar verður að hafna því að stefnda beri að greiða bætur fyrir þau orlofslaun sem stefnandi reiknar sér eftir gjaldþrotadag. Ekki verður séð að tilskipun EBE veiti rétt til greiðslu vegna launakrafna sem verða til eftir gjaldþrotadag. Íslensk lög sýnast og vera í samræmi við tilskipunina að því leyti.

Þá gerir stefnandi kröfu til þess að sér verði bættur missir svokallaðrar desemberuppbótar. Miðar hann þar við tímabilið frá 1. desember 1994 til 30. júní 1995 og krefst greiðslu á kr. 7.583.

Þessi launakrafa er sérstaks eðlis og samkvæmt kjarasamningi Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar, sem stefnandi vann eftir, skal greiða hana í einu lagi eigi síðar en 15. desember ár hvert. Hér er ekki um að ræða laun sem stefnandi gat krafist að fá greidd á öðrum tíma og þykir því þriggja mánaða tíminn sem kveðið er á um í a lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1993 ekki eiga hér við. Rétt þykir að miða bætur til stefnanda við að hún hefði fengið greidda við gjaldþrotið desemberuppbót miðað við tímabilið frá 1. desember 1994 til 22. mars 1995 eða kr. 4.044.

Niðurstaða dómsins er því sú að stefnda ber að greiða stefnanda skaðabætur samtals kr. 207.960.

Rétt þykir að stefnandi greiði vexti af tildæmdri fjárhæð samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. mars 1995 til 18. mars 1996, þegar Ábyrgðarsjóður launa hafnar því að greiða launakröfu stefnanda, vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá þeim degi þar til stefnandi gerir bótakröfu á hendur stefnda með birtingu stefnu hinn 12. mars 1997 og dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi hefur fengið gjafsóknarleyfi, bæði að því er varðar kostnað vegna reksturs málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og  eins vegna úrlausnar EFTA-dómstólsins, og greiðist gjafsóknarkostnaður stefnanda úr ríkissjóði eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

Eftir niðurstöðu þessa máls væru efni til þess að dæma stefnda til að greiða málskostnað skv. 130. gr. laga nr. 91/1991. Þar sem stefnandi hefur gjafsókn í þessu máli myndi dæmdur málskostnaður úr  hendi stefnda renna í ríkissjóð og þar með til stefnda sjálfs. Af þessum sökum þykir rétt að láta ógert að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar.

Friðgeir Björnsson dómstjóri kvað upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Erlu Maríu Sveinbjörnsdóttur, kr. 207.960 með vöxtum samkvæmt 5. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. mars 1995 til 18. mars 1996, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá þeim degi til 2. mars 1997 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og EFTA-dómstólnum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans með virðisaukaskatti kr. 450.000 fyrir rekstur málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og kr. 950.000 fyrir rekstur málsins fyrir EFTA-dómstólnum eða samtals kr. 1.400.000.