Print

Mál nr. 464/2012

Lykilorð
  • Fjármálafyrirtæki
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Viðbótarkrafa
  • Fullnaðarkvittun
  • Stjórnarskrá
  • Afturvirkni

                                                         

Fimmtudaginn 18. október 2012.

Nr. 464/2012.

Borgarbyggð

(Skarphéðinn Pétursson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Andri Árnason hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. Stjórnarskrá. Afturvirkni.

Sveitarfélagið B og fjármálafyrirtækið A hf. greindi á um uppgjör lánssamnings milli B og S, sem A hf. tók síðar yfir, þar sem mælt var fyrir um ólögmæta gengistryggingu, en vexti af skuldbindingunni skyldi miða við 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu samkvæmt dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. A hf. lét endurreikna skuldbindinguna, en útreikningurinn tók mið af því að A hf. ætti kröfu á hendur B aftur í tímann um áðurgreinda vexti, að frádregnum svonefndum LIBOR-vöxtum auk vaxtaálags samkvæmt lánssamningnum, á grundvelli meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, eigi viðbótarkröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. B taldi sér óskylt að greiða þann vaxtamun með vísan til undantekningarreglu, þess efnis að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrði fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu, enda hefði hver og ein greiðsla hans á lánstímanum falið í sér fullnaðargreiðslu af hans hálfu. Af þeim sökum krafðist B aðallega viðurkenningar á að eftirstöðvar skuldarinnar næmu tiltekinni fjárhæð sem miðaði við þær forsendur. Hæstiréttur vísaði til þess að í málinu yrði að kanna hvort skilyrði væru uppfyllt, á sama hátt og gert var í dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, svo undantekning frá meginreglunni gæti ráðið niðurstöðu málsins. Því var slegið föstu að greiðslutilkynningar S, og síðar A hf., og fyrirvaralaus móttaka á greiðslum B í samræmi við þær tilkynningar hefðu jafngilt fullnaðarkvittunum. Þá taldi Hæstiréttur að augljós aðstöðumunur hefði verið á S og B við lántökuna, þvert á það sem haldið var fram af hálfu A hf. Að öllu virtu taldi Hæstiréttur það standa A hf. nær en B að bera þann vaxtamun sem af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust og að hinn rangi lagaskilningur aðila, sem lá til grundvallar lögskiptum þeirra, yrði í uppgjöri einungis leiðréttur til framtíðar. A hf. gæti því ekki krafið B um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann. Þá taldi Hæstiréttur að lög nr. 151/2010 gætu ekki haggað áðurgreindri niðurstöðu um uppgjör milli aðila, enda væri ekki með almennum lögum unnt að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem var gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Loks féllst Hæstiréttur á réttmæti þeirrar aðferðar B við endurútreikning lánsins, að afborganir af höfuðstól skuldar, sem B innti af hendi til og með þess dags sem A hf. miðaði útreikning sinn við, kæmu að fullu til frádráttar höfuðstól lánsfjárhæðarinnar, sem hvorki bæri gengistryggingu né annars konar verðbætur, og að fjárhæð greiddra vaxta hefði engin áhrif þar á enda teldust þeir að fullu greiddir vegna þessa tímabils. Var aðalkrafa B því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. júní 2012. Hann krefst þess að viðurkennt verði að eftirstöðvar skuldar sinnar við stefnda samkvæmt lánssamningi 27. desember 2006 hafi 10. mars 2011 verið aðallega að fjárhæð 128.951.389 krónur, til vara 162.371.077 krónur, að því frágengnu 185.703.106 krónur, en að öðrum kosti 196.871.513 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi gerði samning við Sparisjóð Mýrasýslu 27. desember 2006 um að sá síðarnefndi veitti honum lán „að jafnvirði allt að 200.000.000“ krónur í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Skuldina lofaði áfrýjandi að greiða að fullu með 80 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 10. mars 2007. Um vexti var svo samið að lánið bæri svokallaða þriggja mánaða LIBOR-vexti eins og þeir væru ákveðnir hverju sinni með 1,80% vaxtaálagi. Vexti skyldi greiða á sömu gjalddögum og afborganir af höfuðstól.

Með heimild í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum ákvað Fjármálaeftirlitið 3. apríl 2009 að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Mýrasýslu og meðal annars að stefndi, sem þá nefndist Nýi Kaupþing banki hf., yfirtæki í einu lagi þau réttindi, eignir og skuldbindingar sparisjóðsins, sem greindi í kaupsamningi milli þessara fjármálastofnana, sem gerður var sama dag. Frá og með 1. júlí 2010 tók stefndi við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum sparisjóðsins vegna samruna félaganna.

Með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, var leyst úr ágreiningi um lögmæti skuldbindinga í íslenskum krónum vegna svonefndra bílalána, sem skyldu taka breytingum í samræmi við breytingar á gengi íslenskrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Niðurstaðan varð sú að slík gengistrygging væri óheimil. Með dómi réttarins 16. september sama ár í máli nr. 471/2010 var til úrlausnar hvernig færi um vexti af slíkum skuldbindingum og var dæmt að í stað umsaminna erlendra vaxta skyldu vextir miðast við 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um er að ræða vexti, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum. Þá var dæmt í Hæstarétti 14. febrúar 2011 í máli nr. 604/2010 að ákvæði um gengistryggingu í skuldabréfum í íslenskum krónum, tryggðum með veði í fasteign, væru ólögmæt. Loks féll dómur í Hæstarétti 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 þar sem niðurstaðan varð sú að vextir af slíkri skuldbindingu töldust fullgreiddir samkvæmt fullnaðarkvittun kröfuhafa. Sá síðastnefndi gæti ekki krafið skuldara um greiðslu vaxta umfram þá erlendu vaxtaviðmiðun, sem hann hafði greitt. Rangur lagaskilningur aðila, sem lá til grundvallar lögskiptum þeirra um vaxtakjör, yrði ekki leiðréttur aftur í tímann heldur einungis vegna vaxta til framtíðar.

Stefndi endurreiknaði ógreiddan höfuðstól skuldar áfrýjanda miðað við 10. mars 2011. Var það gert á þeim grundvelli að stefndi teldi að í lánssamningnum hafi verið mælt fyrir um ólögmæta gengistrygging láns í íslenskum krónum. Því til samræmis féllst stefndi í greinargerð sinni í héraði á þá kröfu áfrýjanda að viðurkennt yrði að skuldbinding hans samkvæmt lánssamningi hafi verið ákveðin í íslenskum krónum en ekki í erlendri mynt. Í útreikningnum var gengið út frá því að lánið hafi frá stofndegi borið vexti samkvæmt 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Telur stefndi sig eiga kröfu aftur í tímann um slíka vexti samkvæmt lánssamningnum. Um þann hluta endurreikningsins kveðst hann hafa fylgt lögum nr. 151/2010, en með þeim var meðal annars breytt 18. gr. fyrrnefndu laganna. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar svo breyttri skal peningakrafa almennt bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lán teljast ógild. Í 3. mgr. 18. gr. segir að vexti samkvæmt ákvæði 1. mgr. skuli reikna frá og með stofndegi peningakröfu nema samið sé um annað. Samkvæmt útreikningi stefnda var skuld áfrýjanda að eftirstöðvum 213.894.396 krónur áðurnefndan dag. Í þeirri fjárhæð var meðtalinn mismunur á annars vegar vöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 og hins vegar erlendum vöxtum frá stofndegi kröfunnar 27. desember 2006 til 10. mars 2011, sem stefndi lagði við ógreiddan höfuðstól og skyldi greiðast með jöfnum greiðslum á umsömdum gjalddögum það sem eftir lifði lánstímans.

Áfrýjandi telur sér óskylt að greiða þann vaxtamun, sem að framan greinir. Hann byggir aðalkröfu sína á því að hver og ein greiðsla hans, sem skiptist í vexti og afborgun af höfuðstól, sé fullnaðargreiðsla sem verði ekki endurskoðuð síðar með því að höfuðstóllinn verði uppreiknaður með aðferð, sem aðilar sömdu ekki um í lánssamningnum. Á útreikningsdegi stefnda hafi áfrýjandi lokið greiðslu 17 afborgana af samtals 80 og aðalkrafan, 128.951.389 krónur, nemi því sem eftir standi af upphaflegri lánsfjárhæð í íslenskum krónum þegar greiddar afborganir hafi verið dregnar frá. Þá telur áfrýjandi að ákvæði laga nr. 151/2010 eigi hér ekki við. Þrjár varakröfur hans fela í sér mismunandi aðferðir við útreikning verði lögin talin taka til lögskipta aðila.

II

Málsástæður áfrýjanda eru í grundvallaratriðum hinar sömu og sóknaraðila í áðurnefndu máli nr. 600/2011. Hann byggir á því að aðstæður nú séu um það sem mestu skiptir sambærilegar þeim sem voru í fyrra málinu og því hljóti sá dómur Hæstaréttar að vera fordæmi við úrlausn þessa máls. Stefndi mótmælir því og telur aðstæður þar hafa verið ólíkar þeim, sem séu fyrir hendi nú.

Í máli nr. 600/2011 reyndi á almennar reglur kröfuréttar við úrlausn um kröfu aðila. Í dóminum greindi frá þeirri meginreglu að kröfuhafi, sem hefur fengið minna greitt en hann átti rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Frá meginreglunni séu þó undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Áherslan hvíli á því að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann hafi gert upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og geti treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar. Í dóminum var lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar, sem kröfuhafi sendi fyrir hvern gjalddaga með útreikningi á fjárhæðinni sem skyldi greiða og eftir það fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum í samræmi við tilkynningarnar, hafi jafngilt fullnaðarkvittun um greiðslu á því sem gjaldféll hverju sinni. Þá segir í dóminum að af áðurnefndri meginreglu leiði að einungis við sérstakar aðstæður verði tilkalli kröfuhafa um viðbótargreiðslu hafnað. Undantekning frá henni styðjist meðal annars við þau rök að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur yfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið. Að baki búi sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en því geti fylgt mikil röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, sem um lengri tíma hafi hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp vegna liðins tíma og honum síðan gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar hans um hið gagnstæða. Í framhaldi segir í dóminum að þá komi til athugunar hvort atvik séu með þeim sérstaka hætti í málinu að víkja beri frá framangreindri meginreglu og hafna tilkalli kröfuhafans um viðbótargreiðslu. Niðurstaðan varð sú að öll skilyrði töldust uppfyllt svo undantekning frá meginreglunni ætti við í málinu. Hér á eftir verður með sama hætti og í áðurnefndum dómi kannað hvort skilyrði séu uppfyllt svo undantekning frá meginreglunni geti ráðið niðurstöðu málsins líkt og áfrýjandi krefst.

III

Af gögnum málsins verður ráðið að fyrir hvern gjalddaga til og með 10. mars 2011 hafi Sparisjóður Mýrasýslu og síðan stefndi sent greiðslutilkynningu til áfrýjanda þar sem fram kom fjárhæð afborgunar og gjaldfallinna vaxta. Áfrýjandi greiddi í samræmi við það og fékk kvittun fyrir hverju sinni. Hér verður að líta til þess að á einstökum gjalddögum á þessu tímabili gengu aðilar lánssamningsins út frá því að útreikningur kröfuhafans á fjárhæð afborgana og vaxta tæki mið af því að ákvæði um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild. Var áfrýjandi því í góðri trú um lögmæti skuldbindingarinnar og þar með að umræddar greiðslur fælu í sér fullar og réttar efndir af hans hálfu. Hvað áfrýjanda varðar eru ekki efni til að meta það með öðrum hætti þótt síðasta greiðslan hafi verið innt af hendi að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 604/2010 en hann greiddi þá eins og jafnan áður í samræmi við greiðslutilkynningu kröfuhafans. Þegar stefndi endurreiknaði skuldina var komin á festa í framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt samningnum, en liðinn var rúmlega fimmtungur lánstímans og áfrýjandi hafði þá greitt samsvarandi hlutfall afborgana af láninu. Samkvæmt endurútreikningi stefnda á fjárhæð skuldar áfrýjanda eftir greiðslu afborgunar og vaxta 10. mars 2011 nam hún 213.894.471 krónu, en af höfuðstól skuldarinnar einum hefðu þá átt að standa eftir 157.500.000 krónur í ljósi þess að stefndi hafði þá greitt 17 af 80 jöfnum afborgunum. Endurútreikningurinn fól þannig í reynd í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir liðna tíð sem svaraði mismuninum á þessum tveimur fjárhæðum eða 56.394.471 krónu. Sú fjárhæð er umtalsverð að virtu því að upphafleg fjárhæð lánsins var 200.000.000 krónur. Í því ljósi er haldlaus viðbára stefnda um að sú tilhögun sé ívilnandi fyrir áfrýjanda að bæta vaxtamuninum fyrir liðinn tíma við höfuðstól lánsins til greiðslu síðar í stað þess að krefjast greiðslu strax. Við mat á því hvort undantekning frá áðurnefndri meginreglu komi til álita skiptir loks máli hvort aðstöðumunur hafi verið á aðilum lánssamningsins. Stefndi ber fyrir sig að þetta mál skeri sig frá máli nr. 600/2011 að því leyti að þar hafi aðilarnir verið fjármálafyrirtæki og einstaklingar, en hér sé viðsemjandi fjármálafyrirtækis á hinn bóginn sveitarfélag, sem velti miklu fé í rekstri sínum. Ekki sé um yfirburðastöðu kröfuhafans í samningssambandinu að ræða og því ótækt að niðurstaða ráðist af undantekningu frá meginreglunni. Hér verður að hafa í huga að Sparisjóður Mýrasýslu var fjármálafyrirtæki á lánamarkaði, sem bauð viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin lán með gengistryggingu, sem reyndust ólögmæt. Skilmálar láns áfrýjanda voru samkvæmt einhliða ákvörðun sparisjóðsins og stöðluðum skilmálum hans hvað slík lán varðar. Ekkert liggur fyrir um að áfrýjandi hafi búið yfir slíkri sérþekkingu um fjármálastarfsemi og peningamál á fjölþjóðlegum vettvangi að jafnað verði við þá sem fjármálafyrirtæki búa að öðru jöfnu ein yfir. Augljós aðstöðumunur var þannig á lánveitanda og lántaka í viðskiptum þeirra í umrætt sinn.

Samkvæmt því sem áður var rakið verður lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar Sparisjóðs Mýrasýslu og síðan stefnda og fyrirvaralaus móttaka á greiðslum frá áfrýjanda í samræmi við tilkynningarnar hafi jafngilt fullnaðarkvittunum. Þótt ekkert þeirra atriða, sem að framan greinir, geti ráðið úrslitum eitt og sér, verður að líta svo á þegar þau eru öll virt í heild að það standi stefnda nær en áfrýjanda að bera þann vaxtamun, sem deilt er um í málinu og hlaust af hinni ólögmætu gengistryggingu. Er því fallist á með áfrýjanda að sá rangi lagaskilningur sem lá að baki lögskiptum hans og Sparisjóðs Mýrasýslu í upphafi verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. Af því leiðir að stefndi getur ekki krafið áfrýjanda um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann.

IV

Að framan var getið um lög nr. 151/2010, sem stefndi vísar til, en þau hafa meðal annars að geyma ákvæði sem lúta að ákvörðun vaxta aftur í tímann af skuldabréfum þar sem samningsákvæði um gengistryggingu hafa verið talin andstæð lögum. Með almennum lögum er ekki unnt með íþyngjandi hætti að hrófla á afturvirkan veg við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 600/2011. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiðir af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessum sökum fá nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem komist var að hér að framan.

V

Aðalkrafa áfrýjanda er fundin með því að leggja saman greiddar afborganir af höfuðstól á tímabilinu 10. mars 2007 til og með 10. mars 2011 og draga þá fjárhæð frá upphaflegri lánsfjárhæð. Samkvæmt skilmálum lánssamningsins skyldi greiða lánið með jöfnum afborgunum, sem að óbreyttu gengi íslenskrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum hefði verið 2.500.000 krónur í hvert sinn eða 10.000.000 krónur á ári. Á fyrri hluta áðurnefnds tímabils urðu nokkrar afborganir ívið lægri en þessu nemur vegna gengisþróunar en frá árinu 2008 mun hærri af sömu sökum.

Lánið, sem hér um ræðir, var sem fyrr segir ekki gilt lán í erlendri mynt, heldur fól það í sér ólögmæta gengistryggingu skuldbindingar í íslenskum krónum. Því getur lánveitandi ekki átt rétt til þess að einstakar afborganir á fyrrnefndu tímabili taki breytingum í samræmi við breytt gengi erlendra gjaldmiðla og að á þær reiknist umsamdir erlendir vextir. Í aðalkröfu áfrýjanda felst að afborganir af höfuðstól skuldarinnar, sem hann innti af hendi til og með 10. mars 2011, komi að fullu til frádráttar höfuðstólnum, sem beri hvorki gengistryggingu né verðbætur af öðrum toga. Fjárhæð greiddra vaxta hafi þar ekki áhrif, enda teljist þeir að fullu greiddir vegna þessa tímabils. Verður fallist á réttmæti þessarar aðferðar áfrýjanda við útreikning skuldar hans. Samkvæmt þessu verður aðalkrafa áfrýjanda tekin til greina.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennt er að eftirstöðvar skuldar áfrýjanda, Borgarbyggðar, við stefnda, Arion banka hf., samkvæmt lánssamningi 27. desember 2006 hafi eftir greiðslu vaxta og afborgunar 10. mars 2011 numið 128.951.389 krónum.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 22. maí 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 6. júní 2011.

Stefnandi er Borgarbyggð, Borgarbraut 11 í Borgarnesi.

Stefndi er Arion banki hf.

Við uppkvaðningu dóms er gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar lánssamnings, sem gerður hafi verið hinn 27. desember 2006, hafi verið hinn 10. mars 2011:

      1. Aðallega, kr. 128.951.389.

2. Til vara, kr. 162.371.077.

      3. Til þrautavara, kr. 185.703.106.

      4. Til þrautaþrautavara, kr. 196.871.513.

      Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af kröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

MÁLSATVIK

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hinn 27. desember 2006 hafi stefnandi og Sparisjóður Mýrasýslu gert með sér lánasamning sem borið hafi yfirskriftina Lánssamningur (lán í erlendum gjaldmiðlum). Komi jafnframt fram í lánasamningnum, að um sé að ræða lán til allt að 20 ára að jafnvirði allt að tvö hundruð milljónum íslenskra króna.  Í fyrsta kafla lánasamningsins er kveðið svo á að lánið skuli vera samsett úr erlendum myntum í hlutföllunum 50% JPY (japanskt jen) og 50% CHF (svissneskur franki), svokallað fjölmyntalán. 

Kveður samningurinn á um að lánið skuli greiðast með 80 afborgunum með gjalddaga á þriggja mánaða fresti, með fyrsta gjalddaga hinn 10. mars 2007, og að það skuli bera svokallaða LIBOR-vexti (London Inter Bank Offered Rate), þ.e. vexti á millibankamarkaði í London, eða þeir skulu taka mið af öðrum vöxtum á millibankamarkaði eða gjaldmiðlaskiptamarkaði sem lánveitandi gefur upp hverju sinni, auk 1,8% vaxtaálags.

Lánið var greitt út til stefnanda í samræmi við ákvæði lánasamningsins hinn 29. desember 2006, og voru kr. 199.0000.000 lagðar inn á reikning hans, skv. sérstakri kaupnótu, þar sem jafnvirði hinna erlendu mynta (JPY og CHF) var umreiknað í íslenskar krónur.

Með heimild í lögum nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið þá ákvörðun að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM) og að Nýi Kaupþing banki hf. (nú Arion banki hf.) yfirtæki í einu lagi þau réttindi sem áður tilheyrðu SPM og fram komi í kaupsamningi milli SPM og Arion banka hf. sem gerður hafi verið hinn 3. apríl 2009.  Ákvörðun þessi sé dagsett sama dag.  Frá og með 1. júlí 2010 hafi Arion banki hf. tekið við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum SPM.

Með dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi verið skýrlega úr því skorið að almennt bann væri við gengistryggingu á Íslandi og að allir lánasamningar svo tryggðir tækju sjálfkrafa breytingum hvað varðar réttindi og skyldur þegar af þeirri ástæðu.  Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 hafi því verið slegið föstu að ákvæði um vexti í lánasamningi þeim, sem til umfjöllunar hafi verið í málinu, skyldi, vegna ólögmætis gengistryggingar, miðast við 4., sbr. 3., gr. laga nr. 38/2001 (vaxtalaga).  Í kjölfarið hafi verið sett lög nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001, þar sem kveðið hafi verið á um með hvaða hætti höfuðstóll ákveðinna gengistryggðra lána skyldi leiðréttur með vísan til fyrrgreindra dóma Hæstaréttar.

Stefnandi hafi alla tíð greitt af láninu í samræmi við ákvæði lánasamningsins og ekki hafi komið til svokallaðrar frystingar lánsins í samræmi við tilmæli ríkisstjórnar Íslands til viðskiptabanka, dags. 22. október 2008.  Höfuðstóll lánsins hafi og ekki verið endurútreiknaður í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í fyrrgreindum málum og hafi stefndi neitað því að lánasamningurinn falli undir fyrrgreind fordæmi Hæstaréttar.

Afborganir lánsins hafi allar verið greiddar með íslenskum krónum sem hafi verið skuldfærðar af tékkareikningi lántaka hjá SPM, nú stefnda, Arion banka hf. 

Sé miðað við ólögmæta gengistryggingu og afstöðu stefnda hafi staða lánsins verið, hinn 10. mars 2011, kr. 352.180.493.

Fulltrúar stefnanda hafi í kjölfar fyrrgreindra dóma Hæstaréttar átt í viðræðum við fulltrúa stefnda um leiðréttingu á höfuðstól hins umdeilda láns en án árangurs og sé stefnanda því nauðugur einn sá kostur að höfða dómsmál þetta.

MÁLSÁSTÆÐUR

Ekki er um það ágreiningur með aðilum að skuldbinding samkvæmt lánasamningi aðila varði lánsfé í íslenskum krónum, sbr. VI. kafla vaxtalaga, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, en ekki lánsfé í erlendri mynt. Samningurinn feli í sér verðtryggingu skuldbindinga lánasamnings í íslenskum krónum, sem bundinn sé við gengi erlendra gjaldmiðla, og fari af þeim sökum í bága við ákvæði 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu. 

Af hálfu stefnanda segir að af dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 megi ráða að við ákvörðun vaxta af skuldbindingum samkvæmt lánasamningnum beri að fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr., vaxtalaga sem feli í sér að vextir skuli vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru skv. 10. gr. laganna.  Í þessu felist annars vegar að lánveitanda hafi eftir uppkvaðningu dómsins verið óheimilt að innheimta greiðslur af láninu sem miðist við gengistryggingu og hins vegar að lántaki geti haft uppi fjárkröfu á hendur lánveitanda sem nemi ofgreiðslu af láninu.

Um aðalkröfu byggir stefnandi aðallega á því að hver og ein afborgun hans af höfuðstól og vöxtum lánsins, sem stefndi hafi veitt athugasemdalaust viðtöku, hafi falið í sér fullnaðargreiðslu af hálfu stefnanda sem hann verði ekki endurkrafinn um.  Þá er til þess vísað að stefndi hafi sjálfur annast útreikning afborgana lánsins og sent stefnanda greiðsluseðla í samræmi við það.  Stefnandi hafi því greitt hverja og eina afborgun af höfuðstól í samræmi við bein fyrirmæli stefnda og á grundvelli útreikninga hans. Stefnandi hafi því réttilega mátt gera ráð fyrir að afborganir hans á hinum fyrir fram ákveðnu gjalddögum, í samræmi við greiðsluseðla stefnda, hafi falið í sér fullnaðargreiðslu hverrar afborgunar, með tilheyrandi lækkun á höfuðstól, og að stefnandi yrði ekki krafinn um frekari greiðslur vegna þeirra síðar. Byggir stefnandi á því, í samræmi við almenn sjónarmið kröfuréttar um aðgæsluskyldu lánastofnana, að það hafi staðið stefnda nær að gæta annars vegar að lögmæti verðtryggingar lánasamningsins og hins vegar að því að innheimtuseðlar, sem stefndi hafi gefið út vegna afborgana lánsins, hafi verið réttir og að fyrirvaralaus móttaka stefnda á greiðslum stefnanda á afborgunardögum hafi því falið í sér fullnaðaruppgjör hverrar afborgunar.  Stefnandi hafi mátt treysta því að um endanlegt uppgjör væri að ræða, enda hafi stefndi haft yfirburðastöðu gagnvart stefnanda og búið yfir sérþekkingu á þessu sviði.

Jafnvel þó að í forsendum fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 komi fram að ákvæði lánasamninga um vexti og verðtryggingu séu svo nátengd að sé verðtrygging ólögmæt beri að miða við vexti eins og ósamið hafi verið um þá, sbr. 4., sbr. 3., gr. vaxtalaga, og að reikna beri vexti af slíkum samningum frá upphafi lánstíma, álítur stefnandi að ekki sé unnt að líta fram hjá því að afborganir lánsins að meðtöldum vöxtum hafi til þessa dags verið greiddar af hálfu stefnanda og mótteknar athugasemdalaust af hálfu stefnda.

Stefnandi heldur því fram að sömu sjónarmið eigi við um afborganir af lánasamningnum og afborganir af skuldabréfum með lögjöfnun frá þeim reglum sem um slík viðskiptabréf gilda. Meginreglan, varðandi þau tilvik þar sem kröfuhafi samkvæmt skuldabréfi hafi gefið út fyrirvaralausa kvittun fyrir greiðslu, þ.m.t. afborgun, sé sú að kröfuhafi eigi ekki rétt til frekari greiðslna þótt síðar komi í ljós að greiðslan hafi verið of lág.  Einungis að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram komi í 32. gr. laga nr. 37/1936 (samningalaga) kæmi slík endurgreiðsla til greina. Í 32. gr. laganna segi að löggerningur, sem vegna misritunar eða annarra mistaka, af hálfu þess sem gerði hann, hefur orðið annars efnis en til var ætlast, sé ekki skuldbindandi fyrir þann sem gerði hann ef sá maður, sem löggerningnum var beint til, vissi eða mátti vita að mistök hefðu átt sér stað.  Ef skuldari vissi eða mátti vita að kvittun var annars efnis en til var ætlast vegna mistaka eða misritunar getur kröfuhafi eftir atvikum krafist greiðslu mismunar.

Fullvíst sé að stefnandi hafi hvorki vitað né mátt vita að efni kvittana, sem gefnar voru út af stefnda vegna greiðslna stefnanda af hinu umdeilda láni, væri byggt á röngum forsendum eða mistökum af hálfu stefnda.  Þvert á móti verði að ætla að stefndi hafi alla tíð talið að umræddar kvittanir væru réttar að efni til og greiðslur samkvæmt þeim fælu í sér fullnaðargreiðslu hvers gjalddaga, enda hafi stefndi innheimt afborganir lánsins á fyrir fram ákveðnum gjalddögum, í samræmi við ólögmæta skilmála samningsins, og engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu stefnda við greiðslum stefnanda.

Þótt síðar komi í ljós að einstök samningsákvæði séu ólögmæt og að miða beri vexti af gengistryggðum lánum við nýjar forsendur breyti það ekki því að þær greiðslur, sem þegar hafi verið inntar af hendi á grundvelli hinna ólögmætu samningsskilmála, séu fullnaðargreiðslur sem skuldari verði ekki endurkrafinn um. 

Önnur niðurstaða sé í andstöðu við almennar reglur kröfuréttar um lok kröfuréttinda og efndir kröfu, en fullnaðarkvittun hafi almennt verið talin staðfesting á því að kröfuhafi eigi ekki frekari kröfur á hendur skuldara.  Ekki verði séð að nokkur munur sé á láni með ólögmætri verðtryggingu, sem greitt hafi verið upp að hluta í samræmi við efni samnings, og sambærilegu láni sem greitt hafi verið upp að fullu. 

Ljóst sé hins vegar að aldrei kæmi til álita í hinu síðara tilfelli að krefja skuldara um greiðslu á mismuni heildargreiðslna og þeirrar niðurstöðu sem myndi fást við endurútreikning með hliðsjón af ákvæðum 4., sbr. 3., gr. vaxtalaga.

Útreikningur í aðalkröfu stefnanda byggist á því að þær afborganir, sem stefnandi hafi innt af hendi inn á höfuðstól lánsins, séu að fullu efndar og skulu því dragast frá upphaflegum höfuðstól lánsins.

Samkvæmt hinum umdeilda lánasamningi hafi átt að greiða lánsfjárhæðina að fullu með 80 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti.  Fullljóst sé að greiðsla hverrar afborgunar gegn útgáfu kvittunar feli í sér endalok þeirrar kröfu. Stefnandi hafi þegar greitt 17 afborganir af láninu sem skiptist samkvæmt kvittunum á dskj. 5 á eftirfarandi hátt:

Dagsetning  #                    Vextir             Afborgun              Greiðsla                 Eftirstöðvar láns

29.12.2006 Útgreiðsla                                                                                           200.000.000

12.3.2007    1             1.189.489             2.369.970             3.559.459             197.630.030

11.6.2007    2             1.433.941             2.199.657             3.633.598             195.430.373

10.9.2007    3             1.598.968             2.400.264             3.999.232             193.030.109

10.12.2007 4             1.685.004             2.312.973             3.997.977             190.717.136

10.3.2008    5             1.989.543             2.792.134             4.781.677             187.925.002

10.6.2008    6             2.193.298             3.074.173             5.267.471             184.850.829

10.9.2008    7             2.422.427             3.491.743             5.914.170             181.359.086

10.12.2008 8             2.970.538             4.589.614             7.560.152             176.769.472

10.3.2009    9             2.285.407             4.455.941             6.741.348             172.313.531

10.6.2009    10           2.247.930             5.255.197             7.503.126             167.058.334

10.9.2009    11           2.171.614             5.387.118             7.558.732             161.671.216

10.12.2009 12           2.022.680             5.414.480             7.437.160             156.256.736

10.3.2010    13           1.934.542             5.504.936             7.439.479             150.751.800

10.6.2010    14           1.899.767             5.414.354             7.314.121             145.337.446

10.9.2010    15           1.797.572             5.414.659             7.212.231             139.922.787

10.12.2010 16           1.766.086             5.363.963             7.130.049             134.558.824

10.3.2011    17           1.772.010             5.607.435             7.379.444             128.951.389

                                                                     33.380.816           71.048.611           104.429.427       

Samkvæmt útgefnum kvittunum hafi stefnandi þegar greitt 71.048.611 krónur í afborganir af höfuðstól lánsins og 33.380.816 krónur í vexti.  Þar af leiði að eftir standi af höfuðstól lánsins 128.951.389 krónur sem er sú staða lánsins sem krafist er viðurkenningar á í aðalkröfu.

Varakrafa

Stefnandi byggir útreikning dómkrafna sinna, skv. varakröfu, á því að hann hafi greitt af láninu fram til 10. mars 2011, alls kr. 104.429.427, þar af kr. 33.380.816 í vexti.  Álítur stefnandi, með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, að greiðslur hans af láninu skuli koma til frádráttar upphaflegri lánsfjárhæð áður en vextir skv. 4. gr., sbr. 3. gr., vaxtalaga eru lagðir við lánsfjárhæðina.  Þannig álítur stefnandi að frá lántökudegi beri að reikna framangreinda vexti af mismun upphaflegs höfuðstóls og þeirra greiðslna sem hann hefur innt af hendi til 10. mars 2011, þ.e. kr. 95.570.573.  Samkvæmt því eru eftirstöðvar lánsins reiknaðar á eftirfarandi hátt:

Tímabil                    Dagar                     Meðalvextir         Staða                     Vextir

1    29.12.2006           29.12.2007           360         16,04%  95.570.573           15.325.238

2    29.12.2007           29.12.2008           360         17,74%  110.895.811        19.668.143

3    29.12.2008           29.12.2009           360         14,14%  130.563.953        18.455.536

4    29.12.2009           29.12.2010           360         7,79%   149.019.489        11.610.084

5    29.12.2010           10.03.2011           71          5,50%   160.629.573          1.741.505

6    10.03.2011           10.03.2011             0           5,25%   162.371.077                       0

7    10.03.2011           10.03.2011             0           5,25%    162.371.077                        0

     

Staða 10.03.2011 (1)                                                       162.371.077        66.800.504

      Þegar greiddir vextir (2)                                                                      0                          

      Eftirstöðvar 10.03.2011 (1-2)                                                         162.371.077                       

Samkvæmt þessu eru vextir reiknaðir af mismun upphaflegs höfuðstóls lánsins og þeirra greiðslna sem stefnandi innti af hendi til 10. mars 2011, þ.m.t. vaxtagreiðslur, og vextir reiknaðir af þeirri fjárhæð á grundvelli 4. gr., sbr. 3. gr., vaxtalaga kr. 66.800.504 og því er ný staða lánsins kr. 162.371.077 sem krafist er viðurkenningar á í þessum kröfulið. Jafnframt er vísað til þeirra sjónarmiða sem fram koma í 5. mgr. 18. gr. vaxtalaga.

2.6   Þrautavarakrafa

Stefnandi byggir útreikning dómkrafna sinna skv. þrautavarakröfu á sömu sjónarmiðum og rakin eru í kafla 2.5 í stefnu að því frátöldu að heildarafborganir stefnanda af höfuðstól lánsins koma til frádráttar upphaflegri lánsfjárhæð í stað samtölu afborgana af höfuðstól auk vaxta.  Greiddir vextir stefnanda koma til frádráttar niðurstöðunni. Samkvæmt því eru eftirstöðvar lánsins reiknaðar á eftirfarandi hátt:

Tímabil                 Dagar                     Meðalvextir         Staða                     Vextir

1    29.12.2006           29.12.2007           360         16,04%  128.951.389        20.678.025

2    29.12.2007           29.12.2008           360         17,74%  149.629.414        26.537.816

3    29.12.2008           29.12.2009           360         14,14%  176.167.230        24.901.671

4    29.12.2009           29.12.2010           360         7,79%   201.068.901        15.665.245

5    29.12.2010           10.03.2011           71          5,50%   216.734.146        2.349.776

6    10.03.2011           10.03.2011             0           5,25%   219.083.922                        0

7    10.03.2011           10.03.2011             0           5,25%    219.083.922                        0            

Staða 10.03.2011 (1)                                                       219.083.922        90.132.533

      Þegar greiddir vextir (2)                                                    33.380.816                          

      Eftirstöðvar 10.03.2011 (1-2)                                                         185.703.106                       

Samkvæmt þessu eru vextir reiknaðir af mismun upphaflegs höfuðstóls lánsins og þeirra afborgana af höfuðstól lánsins sem stefnandi innti af hendi til 10. mars 2011 og vextir reiknaðir af þeirri fjárhæð á grundvelli 4. gr., sbr. 3. gr., vaxtalaga.  Frá þeirri fjárhæð eru dregnar þær vaxtagreiðslur sem stefnandi innti af hendi á gjalddögum, kr. 33.380.816, og því er ný staða lánsins kr. 185.703.106, sem krafist er viðurkenningar á í þessum kröfulið.

2.7   Þrautaþrautavarakrafa

Dómkröfur stefnanda skv. þrautaþrautavarakröfu miðast við að vextir af greiddum afborgunum reiknist í samræmi við 4. gr., sbr. 3. gr., vaxtalaga en hver afborgun dragist frá höfuðstól.  Þá koma þeir vextir, sem stefnandi hefur þegar innt af hendi á gjalddögum, til frádráttar frá hinum fyrrnefnda vaxtaútreikningi.  Mismunur þeirrar tölu leggst við höfuðstól lánsins eins og hann var þann 10. mars 2011.

Með einföldum hætti reiknast krafan skv. þessum kröfulið á neðangreindan hátt:

Þá vísast jafnframt til þeirra sjónarmiða sem fram koma í 5. mgr. 18. gr. vaxtalaga.

Lagarök      

Stefnandi vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, einkum til sjónarmiða um efndir og lok kröfuréttinda.  Þá vísast til lögfestra og ólögfestra reglna um viðskiptabréf, einkum skuldabréf, sem stefnandi telur eiga við um málsefnið með lögjöfnun, sbr. m.a. tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf, nr. 9/1798.

      Þá vísast til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum II., VI. og VII. kafla þeirra.

      Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr.

Af hálfu stefnda er viðurkennt að lán stefnanda falli undir 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, og sé stefndi af þeim sökum búinn að endurreikna lánasamninginn í samræmi við framangreind lagaákvæði. Stefndi fallist hins vegar ekki á viðurkenningarkröfu stefnanda og sé því krafist sýknu af þeirri kröfu, að því er varðar alla fjóra töluliði kröfunnar. Krafa stefnda um sýknu byggi á því að niðurstaða útreiknings hverrar kröfu stefnanda, sem rúmist innan viðurkenningarkröfunnar (allir fjórir töluliðirnir), sé byggð á röngum forsendum. Nánar tiltekið byggir stefndi á því að við endurútreikninginn fylgi stefnandi ekki fyrirmælum 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, þar sem fram komi með nákvæmum hætti hvernig haga skuli endurútreikningi og uppgjöri vegna þeirra lána sem falli undir 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010.

Hinn 18. desember 2010 hafi lög nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu o.fl., verið samþykkt á Alþingi. Ákvæði 1. gr. laganna, sem orðið hafi að 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, hafi að geyma fyrirmæli um það með hvaða hætti endurreikna eigi þau lán sem falli undir gildissvið ákvæðisins, þ.e. ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljist ógild eða ef samningur kveði á um verðtryggingu skuldar samhliða vaxtaákvæðum, og annað tveggja sé ógilt. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 skuli endurútreikningurinn fara þannig fram að upphaflegur höfuðstóll lánsins, í íslenskum krónum, sé vaxtareiknaður miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum, skv. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001 og birtur  samkvæmt 10. gr. sömu laga. Vextir séu reiknaðir frá stofndegi peningakröfu, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, og séu lagðir við höfuðstól einu ári eftir lántöku og síðan árlega, sbr. 12. gr. sömu laga. Frá þeirri fjárhæð dragist greiðslur, sem lántaki hafi innt af hendi (þ.e. afborganir af höfuðstól, vextir, dráttarvextir og vanskilaálögur), vaxtareiknaðar frá greiðsludegi til viðmiðunardags endurútreiknings miðað við sömu vexti, sbr. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Undanskilið frá þessum greiðslum sé tilkynningar- og greiðslugjald, samkvæmt gjaldskrá hverju sinni, enda hefði lántaki í öllum tilvikum þurft að greiða þann kostnað. Þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar, þ.e. höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Skuli þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldarinnar, sbr. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndi hafi endurreiknað lán stefnanda í samræmi við ofangreind fyrirmæli 18. gr. laga nr. 38/2001. Niðurstaða endurútreikningsins, miðað við hinn 10. mars 2011, þ.e. sömu dagsetningu og útreikningar stefnanda séu miðaðir við, sé sú að eftirstöðvar lánsins nemi 213.894.396 krónum. Þar kemur fram að upphaflegur höfuðstóll lánsins hafi verið 200.000.000 króna og að áfallnir vextir (þ.e. áfallnir vextir sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum skv. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001) nemi 139.813.867 krónum frá stofndegi peningakröfunnar til viðmiðunardags, samtals 339.813.867 krónum. Greiðslur stefnanda vegna lánasamningsins hafi numið samtals 104.429.425 krónum og óverðtryggðir vextir á innborganir (þ.e. vextir sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum skv. 1. málsl. 4. gr. laga nr. 38/2001) hafi numið samtals 21.490.046 krónum frá hverjum greiðsludegi til viðmiðunardags, samtals 125.919.471 krónu. Mismunurinn á þessum fjárhæðum, þ.e. vaxtareiknaður höfuðstóll að frádregnum vaxtareiknuðum innborgunum, myndi eftirstöðvar skuldarinnar, þ.e.  213.894.396 krónur (339.813.867 – 125.919.471).

Stefndi byggir á því að framangreind niðurstaða endurútreiknings stefnda, þ.e. að hinn 10. mars 2011 nemi eftirstöðvar skuldbindingar stefnanda við stefnda 213.894.396 krónum, feli í sér réttar eftirstöðvar skuldarinnar. Þar af leiðandi sé niðurstaða útreiknings hverrar kröfu, sem rúmist innan síðari viðurkenningarkröfu stefnanda, þ.e. allir fjórir töluliðirnir, byggð á röngum forsendum, enda fylgi stefnandi ekki fyrirmælum 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. gr. laga nr. 151/2010, við endurútreikninginn. Þar sem stefnandi fylgi ekki skýrum lagafyrirmælum við endurútreikning kröfunnar beri, að mati stefnda, að sýkna hann af síðari viðurkenningarkröfu stefnanda.

Varðandi framangreindan endurútreikning stefnda á láni stefnanda vísar stefndi m.a. til skýrslu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands frá 27. maí 2011 sem ber heitið „Endurútreikningur gengistryggðra lána“. Tilgangur skýrslunnar hafi verið sá að yfirfara endurútreikninga fjármálafyrirtækja, þ.m.t. stefnda, á lánum til viðskiptavina í kjölfar gildistöku laga nr. 151/2010 og kanna hvort útreikningarnir væru í samræmi við ákvæði laganna. Í 3. kafla skýrslunnar er þeirri aðferð lýst, sem stefndi beitir við endurútreikning gengistryggðra lána og útlistuð er hér að framan. Höfundar skýrslunnar telja að fjármálafyrirtækin, þ.m.t. stefndi, fylgi fyrirmælum laga nr. 151/2010 um endurútreikning í meginatriðum. Jafnframt er talið að sú aðferð sem stefndi beitir við endurútreikning sé í bestu samræmi við lögin, sbr. 1. og 2. kafla skýrslunnar.

Viðurkenningarkrafa stefnanda sé byggð á því að hver og ein afborgun stefnanda af höfuðstól og vöxtum lánsins, sem stefndi hafi athugasemdalaust veitt viðtöku, hafi falið í sér fullnaðargreiðslu af hálfu stefnanda sem hann verði ekki endurkrafinn um. Jafnframt hafi stefnandi réttilega mátt gera ráð fyrir því að afborganir hans af fyrir fram ákveðnum gjalddögum, í samræmi við greiðsluseðla frá stefnda, hafi falið í sér fullnaðargreiðslu hverrar afborgunar og að stefnandi yrði ekki krafinn um frekari greiðslu vegna þeirra síðar. Telji stefnandi að önnur niðurstaða sé í andstöðu við almennar reglur kröfuréttar um lok kröfuréttinda og efndir kröfu þar sem fullnaðarkvittun hafi almennt verið talin staðfesting á því að kröfuhafi eigi ekki frekari kröfur á hendur skuldara. Stefndi hafnar því að þessi sjónarmið stefnanda nái fram að ganga í máli þessu. Stefndi dragi ekki í efa almennar reglur kröfuréttar um fullnaðargreiðslu og fullnaðarkvittun. Í máli þessu hagi hins vegar svo til að ekki sé um það að ræða að stefndi hafi tekið það upp hjá sjálfum sér, samkvæmt eigin mati, að krefjast frekari greiðslu hverrar greiddrar afborgunar. Þvert á móti byggi stefndi á því að Alþingi hafi sett lög sem hafi að geyma fyrirmæli um það hvernig breyta eigi efnislega samningi milli aðila ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljist ógild eða ef samningur kveði á um verðtryggingu skuldar samhliða vaxtaákvæðum, og annað tveggja sé ógilt, en aðilar séu sammála um að svo hagi til um skuldbindingu stefnanda við stefnda samkvæmt umþrættum lánasamningi. Að mati stefnda verði að telja að slík lagasetning gangi framar hinni almennu reglu kröfuréttarins um gildi fullnaðargreiðslu og fullnaðarkvittana. Um þetta atriði vísar stefndi til viðurkenndra forgangsreglna hinnar almennu réttarheimildafræði og lögskýringarfræðinnar um lex superior, lex specialis og lex posterior. Jafnframt bendir stefndi á að af athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 151/2010 megi ráða að vilji löggjafans sé skýr um það hvernig endurreikna eigi lán sem falli undir gildissvið 18. gr. laga nr. 38/2001. Í athugasemdunum komi m.a. fram að ákvæðið ætti að endurspegla með skýrum hætti þá staðreynd að órjúfanleg tengsl séu á milli ákvæða um verðtryggingu og samninga um vexti af fjárskuldbindingum. Af því leiði að ef annaðhvort ákvæði samninga um vexti eða verðtryggingu eru ógildanleg verði að koma til heildarendurskoðunar í samræmi við ákvæði 4. gr. laga nr. 38/2001, þ.e. að litið sé á þá aðstöðu eins og ekki hafi verið samið um tiltekna vexti eða verðtryggingu. Þá segi að þessi regla sé í fullu samræmi við þá niðurstöðu sem komist hafi verið að í dómi Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Í forsendum dómsins segi meðal annars að fullljóst væri að umsamin vaxtakjör lánsins, sem til umfjöllunar voru í málinu, hefðu aldrei komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess sem lægi fyrir að óheimilt hafi verið að kveða á um. Í því ljósi og að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæða um gengistryggingu og vaxta væri hvorki unnt að styðjast við fyrirmæli um vexti óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak. Hafi Hæstiréttur því talið óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðis um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð og að líta svo á að atvik svari til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 skuli vextir, þegar svo standi á, vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.

Af athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 151/2010 og dómi Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 leiði að óhjákvæmilegt sé að meta sem eina heild þá breytingu sem verði á samningi aðila með því að hin ólögmæta gengistrygging falli brott og vextirnir breytist um leið. Þá sé, að mati stefnda, ekki unnt að líta með öllu fram hjá ákvæðum lánasamningsins um vexti án þess að það verði gert frá stofndegi peningakröfunnar, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Að öðrum kosti séu virt að vettugi sjónarmið löggjafans og forsendur Hæstaréttar í framangreindu máli um þau beinu og órjúfanlegu tengsl sem séu milli gengistryggingar og vaxta. Þá sé ómögulegt að vaxtareikna upphaflegan höfuðstól án þess að það sé gert frá stofndegi, því ef endurútreikningur vaxta væri látinn miðast við annað og síðara tímamark væri ekki fylgt þeirri reglu að vaxtareikna hinn upphaflega höfuðstól, sbr. 2. málsl. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Athugasemdalaus móttaka greiðslna af hálfu stefnda frá stefnanda fái engu breytt í þessum efnum, líkt og stefnandi haldi fram.

Stefndi mótmælir sérstaklega fullyrðingum stefnanda er lúta að því að stefnda hafi, sem lánveitanda, verið óheimilt að innheimta greiðslur af umþrættu láni sem miði við gengistryggingu, eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Lagaleg óvissa hafi verið uppi um tilteknar tegundir lánasamninga stefnda fram að uppkvaðningu dóms Hæstaréttar frá 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 en sem fyrr segi hafi stefndi lýst því yfir hinn 15. júní 2011, þ.e. sex dögum síðar, að tiltekin lán stefnda teldust vera gengistryggð lán í íslenskum krónum og því að hluta ólögmæt samkvæmt íslenskum lögum.

Þá bendir stefndi á að ekki fáist staðist, að mati stefnda, að sömu sjónarmið eigi við um afborganir af lánasamningum og afborganir af skuldabréfum, með lögjöfnum, líkt og stefnandi haldi fram. Sérreglur gildi um þær tegundir krafna sem teljast viðskiptabréfakröfur en lánasamningar séu ekki þar á meðal. Að mati stefnda væru sérstakar reglur um viðskiptabréf, þ.m.t. skuldabréf, óþarfar ef hægt væri að beita þeim reglum um kröfur sem ekki teljist viðskiptabréfakröfur, þ.m.t. lánasamninga. Ef fallist yrði á þessi sjónarmið stefnanda, þrátt fyrir það sem að framan greini, ættu, allt að einu, sömu sjónarmið við og rakin eru hér að ofan um þessa málsástæðu stefnanda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur stefndi einsýnt að sýkna beri hann af síðari viðurkenningarkröfu stefnanda.

                Lagarök

Vísað er til laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010. Jafnframt er vísað til viðurkenndra forgangsreglna hinnar almennu réttarheimildafræði og lögskýringarfræðinnar um lex superior, lex specialis og lex posterior. Vísað er til almennra reglna kröfuréttar og meginreglna samningaréttar um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Varðandi kröfu stefnda um málskostnað er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991, einkum og sér í lagi 129. gr. og 130. gr. þeirra. Um kröfu stefnda um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísast til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

NIÐURSTAÐA

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, frá 16. september 2010, kemur fram að þegar talið væri að um lánssamninga væri að ræða sem teldust fela í sér óheimila gengistryggingu væri fullljóst að umsamin vaxtakjör í slíkum samningum, sem miðuðust við kjör í viðkomandi erlendum myntum, hefðu aldrei komið til álita nema í tengslum við umrædda gengisviðmiðun og þannig væru bein og órjúfanleg tengsl milli ákvæða um gengisbindingu og vaxtanna, og væri því ekki unnt að styðjast við fyrirmæli samningsins um vexti óbreytt eftir orðanna hljóðan.  Yrði því, samhliða ógildingu gengisbindingar, að líta með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæðina eða um hina erlendu vexti  og líta bæri svo á að atvik svari til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera, eins og það var orðað.  Þegar svona stæði á giltu ákvæði 4. gr., sbr. 3. gr., vaxtalaga nr. 38/2001, þ.e. vextir sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. vaxtalaga. Af þessum dómi leiði þannig, að ef samið var um gengisviðmiðun, sem var óheimil, eigi að koma til heildarendurskoðunar vaxta eins og ekki hafi verið samið um neina tiltekna vexti, og að líta yrði þá að öllu leyti fram hjá ákvæðum samningsins um erlendu vextina og því hafi í öndverðu verið samið um greiðslu vaxta sem birtir eru skv. 4. gr. vaxtalaganna, svokallaðra Seðlabankavaxta.

Á þessum grundvelli voru síðan sett lög nr. 151/2010 um uppgjör eða endurútreikning lána sem tekið höfðu mið af  óheimilli gengisviðmiðun, en í 1. gr. breytingalaganna, sem laut að 18. gr. vaxtalaganna, kom fram að endurútreikningur lána við þessar aðstæður skyldi miðast við vexti skv. 1. ml. 4. gr. vaxtalaga, þ.e. birta Seðlabankavexti.  Síðan var skýrlega kveðið á um það í 3. mgr. 18. gr. laga nr. 151/2010 að slíkir vextir skyldu reiknast frá stofndegi kröfu, en frá fjárhæð láns þannig reiknuðu skyldi síðan draga þær fjárhæðir, sem inntar höfðu verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti og afborganir miðað við hvern innborgunardag, og þannig útreiknuð fjárhæð myndi mynda eftirstöðvar skuldarinnar.  Skyldu síðan upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varðar lánstíma o.fl.  Stefndi telur ljóst að þetta ákvæði 18. gr. vaxtalaga gildi um útreikning á láni því sem hér um ræðir.  Beri því að reikna kröfuna sem slíka í samræmi við ákvæði 5. mgr. 18. gr. vaxtalaga, sbr. l. nr. 151/2010.

Stefnandi ber fyrir sig að hver og ein afborgun vaxta og höfuðstóls sem hann hafi innt af hendi teljist fullnaðargreiðsla og verði hann ekki krafinn um greiðslu frekari vaxta en þegar hafi verið greiddir án nokkurra athugasemda frá stefnda. Það er meginregla í kröfurétti að hafi kröfuhafi fengið greitt minna en hann átti rétt til í lögskiptum eigi hann kröfu á skuldara um það sem vangreitt er. Enda þótt undantekning frá þeirri reglu komi til álita við sérstakar aðstæður, svo sem fram koma í dómi Hæstaréttar í máli nr. 347/1997, þykir ekki sýnt fram á það hér að atvik séu með þeim hætti að af þessari ástæðu komi til þess að skuldari hafi losnað undan greiðsluskyldu sinni. Verður hér að líta til hinna sérstöku aðstæðna sem sköpuðust á fjármálamarkaði við það að lán voru veitt enda þótt verðtrygging þeirra væri ólögmæt.

Með lögum nr. 151/2010 voru settar reglur um það hvernig taka skyldi á því að verðtrygging lána reyndist ekki fyrir hendi sökum ólögmætis þeirra en vextir voru miklum mun lægri heldur en verið hefði ef miðað hefði verið við vaxtastig hér innanlands. Þykir sú lagasetning hafa verið málefnaleg og í tilviki stefnanda ekki hafa verið svo íþyngjandi að ekki verði farið að ákvæðum þeirra um útreikning eftirstöðva lánasamnings aðila svo sem stefndi byggir á.

Loks verður litið til þess að stefnandi er opinber aðili og að ekki þykir sá aðstöðumunur aðila fyrir hendi hér að efni séu til þess að stefndi beri einn áhættuna af ólögmæti þess að binda lánasamninginn við gengi erlendra gjaldmiðla.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að við útreikning á eftirstöðvum lánasamnings aðila beri að fara að ákvæðum laga nr. 38/2001 eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara.

Útreikningur stefnanda á kröfum hans hverri og einni er ekki í samræmi við ákvæði laga þessara og verður sýknukrafa stefnda því tekin til greina.

Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 750.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi, Arion banki hf., skal sýkn af kröfum stefnanda, Borgarbyggðar.

Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.