Print

Mál nr. 142/2007

Lykilorð
  • Samkeppni
  • Skaðabætur
  • Fyrning

Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. febrúar 2008.

Nr. 142/2007.

Skeljungur hf.

(Hörður F. Harðarson hrl.)

Einar Þór Sverrisson hdl.)

Olíuverzlun Íslands hf. og

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

Ker hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

og gagnsök

 

Samkeppni. Skaðabætur. Fyrning.

Á árunum 1993, 1996 og 2001 leitaði R tilboða vegna kaupa á olíuvörum fyrir fyrirtæki sín Strætisvagna Reykjavíkur og Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar. Var tilboði S tekið í útboðum 1993 og 1996 en tilboði O í útboði 2001. Samkeppnisstofnun hóf í desember 2001 rannsókn á því hvort S, K og O hefðu haft ólögmætt samráð í viðskiptum og brotið með því gegn ákvæðum 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993. Til rannsóknar voru meðal annars atriði varðandi tilboðsgerð S, K og O við fyrrnefnd útboð R. Niðurstaða áfrýjunarnefndar samkeppnismála var sú að S, K og O hefðu með aðgerðum sínum haft samráð meðal annars um útboðsverð til R. Þau hefðu auk þess stýrt sameiginlega viðskiptunum til S og síðan skipt á milli sín framlegð af þeim. Hafi þessi hegðun þeirra falið í sér ólögmætt samráð og brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga. Í málinu leitaði R skaðabóta vegna tjóns, sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmæts samráðs S, K og O um verð, sem þeir buðu fyrir eldsneyti í útboði hennar á árinu 1996. S, K og O viðurkenndu í málatilbúnaði sínum að þeir hefðu með samráði við þetta útboð brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga. Þeir báru á hinn bóginn fyrir sig að ósannað væri að R hefði orðið fyrir tjóni vegna þessa, en að því frágengnu hafi henni hvað sem öðru líður ekki tekist að sanna tjón sitt. Í niðurstöðu Hæstaréttar var talið sýnt að S, K og O hafi samið af nákvæmni um hvað R yrði boðið af hendi hvers þeirra og að sá, sem lægst bauð myndi greiða hinum tiltekna fjárhæð fyrir hvern lítra af eldsneyti, sem R keypti. S, K og O hefðu ekkert fært fram í málinu, sem staðið gæti í vegi þeirri ályktun að tilgangur þessa alls hafi verið að halda viðskiptum R hjá S gegn verði sem ekki hefði staðist boð K og O ef reglur samkeppnislaga hefðu verið virta í skiptum þeirra. S, K og O hefðu heldur ekkert fært fram til stuðnings því að slíkur ágóði hefði ekki hlotist af þessu í reynd. Sá ágóði varð ekki sóttur úr hendi annarra en R. Yrði því að leggja til grundvallar að með þessu hafi verið leiddar nægar líkur að því að R hafi orðið fyrir tjóni, sem S, K og O hafi bakað henni svo að skaðabótaskyldu þeirra varði. Aðalkrafa R var reist á því að við útboðið 2001 hafi ekki tekist samráð milli S, K og O og hafi hagstæðasta boðið, sem þá kom fram, verið lægra en nam því, sem hún greiddi fyrir eldsneyti frá S samkvæmt útboðinu 1996. Taldi R að hún myndi hafa fengið tilboðið 1996 með sama afslætti og hún fékk með útboðinu 2001 og krafðist því að sér yrði bætt tjón sem reiknað var eftir ákveðnum forsendum. Um aðalkröfu R sagði Hæstiréttur að forsendur R fyrir útreikningi hennar væru rangar og að sú skekkja sem væri í reikningunum hefði teljandi áhrif á fjárhæð hennar. Væri því ekki fært að taka til greina aðalkröfu R. Til vara krafðist R að S, K og O bæri að greiða sér þrefaldar þær fjárhæðir sem S hefði skuldbundið sig til að greiða K og O á gildistíma samningsins frá 1996 til 2001. Um varakröfu R sagði að líta yrði svo á að þær fjárhæðir sem S skuldbatt sig til að greiða K og O vegna eldsneytiskaupa R sýndu að lágmarki hvaða hag þeir hafi talið af því að hafa samráð um viðskipti hennar í stað þess að keppa um þau. Væri því ekki ástæða til annars en að ætla að tilboð, sem gefið hefði verið án slíks samráðs, hefði orðið lægra en hagstæðasta boðið um að minnsta kosti þrefalda fjárhæðina sem S tók að sér að greiða hvorum hinna. Ekki væri ágreiningur um útreikning fjárhæðar varakröfu R og ekki var fallist á að R hefði vanrækt að takmarka tjón sitt með því að láta hjá líða að segja samningnum upp við S þegar henni var það fyrst kleift. Var því fallist á varakröfu R og S, K og O gert að greiða henni skaðabætur óskipt enda hefðu þeir bakað R tjón með sameiginlegri háttsemi sinni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar hver fyrir sitt leyti 13. mars 2007.

Aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst aðaláfrýjandinn málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Að þessu frágengnu krefst hann þess að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Aðaláfrýjandinn Olíuverzlun Íslands hf. krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Aðaláfrýjandinn Ker hf. krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, til vara að hún verði lækkuð, en að því frágengnu beri hún fyrst dráttarvexti frá þeim degi, sem málið var höfðað. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 1. júní 2007. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjendur verði dæmdir óskipt til að greiða sér 139.072.399 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. janúar 1997 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann að aðaláfrýjendur verði dæmdir óskipt til að greiða sér 72.733.904 krónur, aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, en ella vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga frá 1. janúar 2002 til greiðsludags. Að þessu frágengnu krefst gagnáfrýjandi lægri fjárhæðar óskipt úr hendi aðaláfrýjenda með vöxtum eins og greinir í varakröfu. Í öllum tilvikum krefst hann þess að aðaláfrýjendur verði dæmdir óskipt til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Af gögnum málsins verður ráðið að gagnáfrýjandi hafi á árinu 1993 leitað tilboða vegna kaupa á olíuvörum og tekið þá boði aðaláfrýjandans Skeljungs hf. um gasolíu og bensín fyrir fyrirtæki sín, Strætisvagna Reykjavíkur og Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar. Samkvæmt bréfi Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar 18. júní 1993 var með því boði veittur afsláttur að fjárhæð 4,30 krónur af hverjum lítra af gasolíu og 3,44 krónur af hverjum lítra af bensíni, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti. Ekki liggur annað fyrir en að samningur um þetta hafi enn verið í gildi þegar innkaupastofnun gagnáfrýjanda leitaði á ný með útboði 3. júní 1996 eftir tilboðum vegna kaupa á olíuvörum fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, Malbikunarstöð Reykjavíkur og Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar. Í útboðslýsingu, sem gerð var í tengslum við þetta, var greint frá áætluðu magni gasolíu, bensíns og steinolíu, sem keypt yrði ár hvert, en miðað var við að samningur um kaupin yrði gerður til þriggja ára frá 1. október 1996 og myndi framlengjast um eitt ár í senn ef honum yrði ekki sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. Tekið var fram að ráðgert væri að vörur yrðu af sömu gæðum og þær, sem seldar væru á smásöluafgreiðslum bjóðenda á höfuðborgarsvæðinu. Þá skyldu verðbreytingar á einingarverðum, sem boðin yrðu, „reiknaðar út sem hlutfallslegar við breytingar sem eiga sér stað á sömu smásöluafgreiðslum. Verðbreytingar sem koma til vegna breytinga á innflutningsgjöldum og sköttum á eldsneyti þurfa að reiknast sérstaklega og skal olíusalinn gera sérstaklega grein fyrir þeim útreikningum hverju sinni.“

Aðaláfrýjendur gerðu hver um sig tilboð í framangreindu útboði 16. og 17. september 1996. Á eyðublöðum, sem fyllt voru út í þessu skyni, átti að færa verðið, sem boðið væri fyrir hverja af áðurnefndum þremur vörutegundum, og jafnframt svokallað grunnverð þeirra, sem væri í gildi á smásölustað bjóðanda eftir tilgreiningu hans sjálfs, en í báðum tilvikum skyldi virðisaukaskattur vera innifalinn. Á eyðublaðinu var eftirfarandi tekið fram um sambandið milli boðins verðs og grunnverðsins, sem hér um ræðir: „Verðbreytingar á einingaverðum tilboðs skulu ... reiknaðar út sem hlutfallslegar við breytingar sem eiga sér stað á smásöluafgreiðslum í miðbæ Reykjavíkur“. Í tilboði aðaláfrýjandans Skeljungs hf. var hver lítri af gasolíu boðinn á 24,09 krónur, bensíni á 71,46 krónur og steinolíu á 30,50 krónur, en grunnverð á gasolíu var sagt vera 29,40 krónur, bensíni 76 krónur og steinolíu 35 krónur. Í tilboði aðaláfrýjandans Olíuverzlunar Íslands hf. var lítrinn af gasolíu boðinn á 24,19 krónur, bensíni á 71,90 krónur og steinolíu á 29,40 krónur, en grunnverð á gasolíu var tiltekið 29,40 krónur, bensíni 76 krónur og steinolíu 35,40 krónur. Í tilboði aðaláfrýjandans Kers hf., sem þá hét Olíufélagið hf., var gasolía boðin á 24,15 krónur fyrir hvern lítra, bensín á 71,59 krónur og steinolía á 30,45 krónur, en grunnverð samkvæmt tilboðinu voru þau sömu og fram komu í tilboði Olíuverzlunar Íslands hf.

Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar tilkynnti aðaláfrýjandanum Skeljungi hf. 25. september 1996 að framangreindu tilboði hans hafi verið tekið. Fyrir liggur í málinu að þegar til kom hafi samningi, sem komst á með þessu, ekki verið beitt að því er varðar Malbikunarstöð Reykjavíkur og hann því eingöngu tekið til kaupa á gasolíu fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, svo og gasolíu og bensíni fyrir Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar. Samningnum hafði ekki verið sagt upp þegar kom að lokum upphaflegs gildistíma hans 1. október 1999 og heldur ekki að liðinni framlengingu hans til sama dags 2000, en samkvæmt gögnum málsins beindi aðaláfrýjandinn Olíuverzlun Íslands hf. fyrirspurnum til Strætisvagna Reykjavíkur í október 1999 og ágúst 2000 um hvort ekki yrði efnt á ný til útboðs vegna þessara viðskipta og hvatti jafnframt til þess síðara skiptið. Með bréfi til aðaláfrýjandans Skeljungs hf. 27. júní 2001 sagði gagnáfrýjandi upp samningnum frá 1. október sama ár að telja, en samkomulag tókst síðan milli þeirra um að lengja samningstímann til 31. desember 2001. Eftir uppsögn samningsins var rekstri Strætisvagna Reykjavíkur hætt 1. júlí 2001 og tók þá við þeirri starfsemi byggðasamlag í eigu gagnáfrýjanda og sex annarra sveitarfélaga, Strætó bs., sem keypti gasolíu af aðaláfrýjandanum á grundvelli samningsins þar til hann rann skeið sitt á enda. Samkvæmt gögnum málsins keypti gagnáfrýjandi eldsneyti af aðaláfrýjandanum Skeljungi hf. á gildistíma samnings þeirra vegna vélamiðstöðvar sinnar fyrir samtals 167.535.114 krónur og vegna Strætisvagna Reykjavíkur fram til 1. júlí 2001 fyrir alls 400.314.035 krónur, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.

Í október 2001 leitaði innkaupastofnun gagnáfrýjanda tilboða vegna kaupa á gasolíu og bensíni fyrir Strætó bs. og Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar, en gert var ráð fyrir að samningur um þau yrði gerður til þriggja ára frá 1. janúar 2002 að telja og myndi gildistími hans framlengjast eftir það um eitt ár í senn ef honum yrði ekki sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara. Í útboðslýsingu var samsvarandi ákvæði um áhrif verðlagsbreytinga á einingarverð tilboða og fram kom í áðurgreindri útboðslýsingu 3. júní 1996. Við þetta útboð bárust aftur tilboð frá öllum aðaláfrýjendum. Þessu sinni bauð Olíuverzlun Íslands hf. hvern lítra af gasolíu á 30,04 krónur og af bensíni á 78,83 krónur, Skeljungur hf. gasolíu á 37,03 krónur og bensín á 85,70 krónur, en Olíufélagið hf. gasolíu á 38,53 krónur og bensín á 87,70 krónur. Í þessum tilboðum var grunnverð í öllum tilvikum það sama eða 50 krónur fyrir lítra af gasolíu og 94,20 krónur fyrir lítra af bensíni. Tilboði aðaláfrýjandans Olíuverzlunar Íslands hf. var tekið og samningur um kaupin undirritaður 28. desember 2001. Í honum var meðal annars svofellt ákvæði um verðlagsgrundvöll: „Það hlutfall (prósentuhlutfall) sem er á milli tilboðsverðs seljanda og þess grunnverðs sem seljandi hefur til viðmiðunar í tilboði sínu (Klöpp, m.v. fulla þjónustu kr. 50/pr. lít. með vsk) er fast, þ.e. þetta hlutfall verður sá afsláttur sem seljandi veitir á samningstímanum.“ Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti mun samningur þessi hafa gilt fram á árið 2007 þegar efnt var á ný til útboðs vegna þessara eldsneytiskaupa.

II.

Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda hóf samkeppnisstofnun 18. desember 2001 rannsókn á því hvort aðaláfrýjendur hefðu haft ólögmætt samráð í viðskiptum og brotið með því gegn ákvæðum 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993. Samkeppnisráð lauk því máli með ákvörðun 28. október 2004 og áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sem ákvörðuninni var skotið til, með úrskurði 29. janúar 2005. Meðal þess, sem kom samkvæmt gögnum málsins til rannsóknar hjá samkeppnisstofnun og síðan úrlausnar í ákvörðuninni og úrskurðinum, voru atriði varðandi tilboðsgerð aðaláfrýjenda við fyrrnefnd útboð gagnáfrýjanda 1993, 1996 og 2001.

Í ákvörðun samkeppnisráðs eru rakin atriði varðandi aðdraganda tilboða, sem leiddu til samnings gagnáfrýjanda við aðaláfrýjandann Skeljung hf. á árinu 1993 um eldsneytiskaup. Í niðurstöðum samkeppnisráðs um þetta er vísað til nánar tiltekinna gagna, sem þóttu gefa til kynna að samskipti hafi verið milli starfsmanna aðaláfrýjandans Olíuverzlunar Íslands hf. og Olíufélagsins hf. áður en skilafresti tilboða lauk. Í ákvörðuninni segir síðan eftirfarandi: „Í þessum samskiptum felast ólögmætar samstilltar aðgerðir um gerð tilboða ... Samkeppnisráð mun hins vegar líta framhjá þessu tilviki við ákvörðun viðurlaga í málinu þar sem gögn málsins þykja ekki nægjanlega skýr um hvað hafi nánar falist í þessum samskiptum. ... Gegn neitun Skeljungs þykja gögn málsins ekki gefa nægjanlega skýra vísbendingu um þátttöku þess félags í samráðinu og telst hún því ekki sönnuð.“ Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála þótti ekki ástæða til að fjalla um þetta efni „þar sem samkeppnisráð telur þetta útboð ekki fela í sér brot á samkeppnislögum.“

Um útboð gagnáfrýjanda 1996 segir í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála að fram hafi komið að aðaláfrýjendur hafi þegar á árinu 1995 farið að undirbúa samstarf vegna ráðagerða um það og annað útboð í þágu Landhelgisgæslunnar. Hafi starfsmenn þeirra átt í viðræðum um þetta vorið og sumarið 1996 án þess að samkomulag næðist. Forstjórar aðaláfrýjenda hafi síðan átt fund 12. september 1996, þar sem lagt hafi verið fyrir af hendi aðaláfrýjandans Skeljungs hf. skjal, en um útboð gagnáfrýjanda hafi meðal annars eftirfarandi komið þar fram: „Í dag er Skeljungur hf. með öll þessi viðskipti. Skeljungur hf. á jafnframt allan búnaðinn til birgðahalds og afgreiðslu hjá SVR, Vélamiðst. og Malbikunarstöð. ... Óskað er eftir verði á gasolíu í útboðsgögnum og á að gefa upp til samanburðar verð á bensínstöð í miðbæ Reykjavíkur. ... Við leggjum til að eftirfarandi verði boðið“. Í framhaldi af þessu hafi verið tiltekið í töflu hvert væri svokallað verðlistaverð á gasolíu, bensíni og steinolíu og jafnframt hvaða verð aðaláfrýjendur ættu að bjóða hver fyrir sitt leyti, en þar var um að ræða sömu fjárhæðir og aðaláfrýjendurnir settu síðan fram í tilboðum sínum 16. og 17. september 1996, sem áður er greint frá. Í skjalinu hafi svo verið vísað til þess að aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. ætti allan afgreiðslubúnað og myndi sjá um viðhald, endurnýjun og eftirlit á sinn kostnað, svo og afgreiðslu og þjónustu við gagnáfrýjanda. Loks hafi eftirfarandi verið sagt þar: „Því leggjum við til að söluskipting pr. ltr. án VSK verði sem hér segir: Olíufélagið hf. og Olís hf. fái hvort um sig 0,75 kr. af hverjum seldum lítra af gasolíu og 1,125 kr. af hverjum seldum bensínlítra til Reykjavíkurborgar. Af hverjum lítra af steinolíu fái félögin kr. 1,125.“ Um þessa tillögu hafi ekki orðið samkomulag, en á hinn bóginn hafi forstjórar aðaláfrýjenda hist á ný 16. september 1996, þar sem ákveðið hafi verið að aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. myndi greiða hvoru af hinum félögunum tveimur 1,31 krónu vegna hvers lítra af gasolíu og 1,97 krónu vegna hvers lítra af bensíni og steinolíu, sem seldur yrði gagnáfrýjanda. Samkvæmt því, sem segir í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar, hafi tilteknir forráðamenn aðaláfrýjandans Olíuverzlunar Íslands hf. og Olíufélagsins hf. staðfest þetta við rannsókn samkeppnisstofnunar, auk þess sem eftirfarandi hafi meðal annars verið skráð eftir forstjóra aðaláfrýjandans Skeljungs hf. á fundi hjá stofnuninni 25. október 2002: „Þegar Reykjavíkurborg ákvað að bjóða út olíuinnkaup sín hafi blasað við að fleiri aðilar á vegum ríkis og sveitarfélaga áformuðu slík útboð. Vegna þessa var rætt um það meðal starfsmanna olíufélaganna hvernig við skyldi bregðast. ... Það varð að samkomulagi milli olíufélaganna að Skeljungur hefði áfram viðskipti við Reykjavíkurborg og Landhelgisgæslu og að félagið myndi gera upp framlegð af viðskiptunum við hin félögin.“ Í niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar í þessum þætti málsins segir að hún líti svo á „að olíufélögin hafi með fyrrgreindum aðgerðum sínum haft samráð um útboðsverð til Reykjavíkurborgar og Landhelgisgæslunnar og ákveðið það fyrir hvert fyrirtæki fyrir sig. Þau hafa auk þess stýrt sameiginlega viðskiptunum til Skeljungs og síðan skipt á milli sín framlegð af þessum viðskiptum. Hegðun þessi brýtur gegn 10. gr. samkeppnislaga og er til þess fallin að rýra verulega gildi umræddra útboða.“

Varðandi útboð gagnáfrýjanda 2001 er rakið í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála að komið hafi fram við rannsókn samkeppnisstofnunar að margir fundir hafi verið á því ári með starfsmönnum aðaláfrýjenda um skiptingu viðskipta og meðal annars rætt um að „hætta svonefndri skiptisölu en taka þess í stað upp það fyrirkomulag að hvert olíufélag héldi tilteknum viðskiptavinum.“ Meðal þeirra, sem rætt hafi verið um í þessu sambandi, hafi verið gagnáfrýjandi, sem aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. hafi viljað halda viðskiptum við, en af því, sem fram kemur í úrskurðinum um fund 21. nóvember 2001, virðist sem aðaláfrýjandinn Olíuverzlun Íslands hf. hafi viljað fá til sín viðskipti vegna Strætisvagna Reykjavíkur. Við þetta hafi fyrrnefndi aðaláfrýjandinn ekki sætt sig, en fyrirsvarsmenn hinna tveggja hafi við rannsókn samkeppnisstofnunar borið að „Skeljungur hafi ítrekað reynt að fá fyrirtækin til samstarfs vegna útboðs Reykjavíkurborgar.“ Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar um þetta var á þann veg að „nægar sannanir séu fram komnar um það að viðræður hafi farið fram milli olíufélaganna um fyrrgreint útboð, m.a. í tengslum við samstarf milli þeirra varðandi stóra viðskiptaaðila ... Áfrýjunarnefndin telur gögn málsins gefa nægar vísbendingar um að öll olíufélögin þrjú hafi tekið þátt í þessu. Aðgerðum þessum var ætlað að hafa áhrif á gerð tilboða. Í því felst brot á 10. gr. samkeppnislaga án tillits til þess hvort olíufélögin hafi í raun og veru náð því að stilla saman tilboð sín.“

III.

Í málinu leitar gagnáfrýjandi skaðabóta vegna tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna ólögmæts samráðs aðaláfrýjendanna um verð, sem þeir buðu fyrir eldsneyti í útboði hans á árinu 1996. Aðaláfrýjendur hafa í málatilbúnaði sínum viðurkennt að þeir hafi með samráði við þetta útboð brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga. Þeir bera á hinn bóginn fyrir sig að ósannað sé að gagnáfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa, en að því frágengnu hafi honum hvað sem öðru líður ekki tekist að sanna hvert tjónið sé.

Aðaláfrýjendur hafa ekki vefengt í málinu að samráð þeirra við útboð gagnáfrýjanda 1996 hafi verið með þeim hætti, sem rakið er í ákvörðun samkeppnisráðs 28. október 2004 og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 29. janúar 2005. Svo sem áður greinir sagði þáverandi forstjóri aðaláfrýjandans Skeljungs hf. við rannsókn samkeppnisstofnunar að samráð þetta hafi komið til vegna áforma gagnáfrýjanda, annarra sveitarfélaga og ríkisins um að bjóða út eldsneytiskaup sín, en af því tilefni hafi starfsmenn aðaláfrýjenda rætt um „hvernig við skyldi bregðast.“ Að því er varðar útboð gagnáfrýjanda sýna gögn málsins að viðræður leiddu til þeirra viðbragða að aðaláfrýjendur sömdu af nákvæmni um hvað honum yrði boðið af hendi hvers þeirra og að sá, sem lægst bauð, myndi greiða hinum tiltekna fjárhæð fyrir hvern lítra af eldsneyti, sem gagnáfrýjandi keypti. Aðaláfrýjendur hafa ekkert fært fram í málinu, sem staðið getur í vegi þeirri ályktun að tilgangur þessa alls hafi verið að halda viðskiptum gagnáfrýjanda hjá aðaláfrýjandanum Skeljungi hf. gegn verði, sem ekki hefði staðist boð annarra aðaláfrýjenda ef reglur samkeppnislaga hefðu verið virtar í skiptum þeirra, en gegn því að njóta þessa hafi aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. greitt hinum tveimur hluta af þeim ágóða, sem vænst var að þessi háttsemi leiddi af sér. Aðaláfrýjendur hafa heldur ekkert fært fram til stuðnings því að slíkur ágóði hafi ekki hlotist af þessu í reynd. Sá ágóði varð ekki sóttur hér úr hendi annarra en gagnáfrýjanda, enda hefur því hvorki verið hnekkt, sem hann heldur fram, að vélamiðstöð hans hafi ekki selt öðrum þjónustu né að verulegu tapi um árabil af rekstri Strætisvagna Reykjavíkur hafi verið mætt með beinum fjárframlögum hans, en ekki því einu að hækka þar fargjöld. Eins og málið liggur fyrir verður því að leggja til grundvallar að með þessu hafi verið leiddar nægar líkur að því að gagnáfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni, sem aðaláfrýjendur hafi bakað honum svo að skaðabótaskyldu þeirra varði. Er málið ekki vanreifað af hendi gagnáfrýjanda þótt hann hafi ekki aflað frekari sönnunargagna til að styðja þetta sérstaklega.

Aðalkrafa gagnáfrýjanda er reist á því að við útboðið á árinu 2001 hafi ekki tekist samráð milli aðaláfrýjenda og hafi hagstæðasta boðið, sem þá kom fram, verið lægra en nam því, sem hann greiddi fyrir eldsneyti frá aðaláfrýjandanum Skeljungi hf. samkvæmt samningi á grundvelli útboðsins 1996, þar sem aðaláfrýjendur hafi sammælst um tilboð sín. Telur gagnáfrýjandi sig mundu hafa fengið tilboð á árinu 1996 með samsvarandi afslætti frá smásöluverði og hann fékk með útboðinu 2001 ef samkeppni hefði verið milli aðaláfrýjenda fyrrnefnda skiptið. Á þessum grunni reiknar gagnáfrýjandi eftir nánar tilgreindum forsendum að tjón sitt nemi 139.072.399 krónum, sem er fjárhæð aðalkröfu hans. Til vara krefst gagnáfrýjandi að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um að aðaláfrýjendum beri að greiða honum 72.733.904 krónur í skaðabætur, en þá kröfu reiknar hann með því að þrefalda þær fjárhæðir, sem aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. hafi samkvæmt áðursögðu skuldbundið sig 16. september 1996 til að greiða hvorum hinna aðaláfrýjendanna vegna sölu eldsneytis til gagnáfrýjanda eins og hún varð samanlögð á gildistíma samningsins frá 1996 til 2001. Bæði í aðalkröfu og varakröfu er miðað við heildarinnkaup gagnáfrýjanda á eldsneyti frá aðaláfrýjandanum Skeljungi hf. á þessu tímabili fyrir Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar, svo og fyrir Strætisvagna Reykjavíkur fram til 1. júlí 2001, en samhliða máli þessu er rekið hæstaréttarmálið nr. 143/2007, þar sem Strætó bs. krefst fyrir sitt leyti skaðabóta á sama grunni vegna viðskipta við aðaláfrýjandann á tímabilinu frá síðastnefndum degi til 31. desember 2001.

Gagnáfrýjandi hefur kosið að miða útreikning á tjóni sínu við þær tvær aðferðir, sem að framan greinir. Eins og málið liggur fyrir er engin þörf á matsgerð dómkvadds manns til að staðreyna þessa útreikninga eða forsendurnar, sem þeir eru reistir á. Að öðru leyti er hvorki í verkahring matsmanns að taka afstöðu til þess hvort slíkar útreikningsaðferðir hæfi til að komast að niðurstöðu um tjón í tilviki sem þessu né hvílir á gagnáfrýjanda að leita matsgerðar um fjárhæð tjóns síns eftir öðrum aðferðum, sem kunna að vera tækar í þessum efnum, enda ber hann við úrlausn málsins áhættu af vali sínu á aðferðum í þessu skyni. Að þessu virtu eru ekki efni til að verða við kröfu aðaláfrýjandans Skeljungs hf. um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

IV.

Aðalkrafa gagnáfrýjanda, sem að nokkru er áður lýst, er nánar tiltekið reiknuð á þann hátt að lagt er til grundvallar að hann hafi samkvæmt útboðinu 1996 keypt af aðaláfrýjandanum Skeljungi hf. eldsneyti fyrir samtals 567.849.149 krónur í þágu Strætisvagna Reykjavíkur og Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar. Í tilboði aðaláfrýjandans hafi komið fram svokallað grunnverð einstakra tegunda eldsneytis og hafi fjárhæðin, sem boðin var vegna gasolíu, verið sem svarar 18,06% lægri en grunnverðið og fjárhæð vegna bensíns 5,97% lægri. Samkvæmt þessum hlutfallstölum reiknar gagnáfrýjandi að grunnverð í þessum kaupum hafi alls numið 680.576.364 krónum. Afsláttur frá grunnverði, sem aðaláfrýjandinn Olíuverzlun Íslands hf. veitti samkvæmt útboðinu 2001, hafi á hinn bóginn verið 39,92% að því er varðar gasolíu og 16,32% vegna bensíns. Með því að ganga út frá því að sami hlutfallslegi afsláttur hefði fengist við útboðið 1996 ef aðaláfrýjendur hefðu ekki hindrað þar samkeppni með samráði sínu hefði grunnverð að frádregnum afslættinum þá orðið 428.776.750 krónur, sem með öðrum orðum hefði verið heildarkaupverð í viðskiptunum. Mismunurinn á því og þeirri fjárhæð, sem gagnáfrýjandi greiddi í reynd samkvæmt áðursögðu, sé 139.072.399 krónur.

Með framangreindri reikniaðferð leitast gagnáfrýjandi við að sýna fram á tjón sitt með því að bera saman annars vegar umsamið verð fyrir eldsneyti, sem hann hafi fengið með útboðinu 1996, þar sem samráð aðaláfrýjenda hafi komið í veg fyrir samkeppni, og hins vegar tilboð, sem hann tók við útboðið 2001, þar sem sömu bjóðendur áttu hlut að máli og vörutegundir og magn þeirra var samsvarandi, en samráð ekki viðhaft milli þeirra. Þessa leið til að reikna tjónið verður út af fyrir sig að telja færa, enda verður ekki ætlast til af gagnáfrýjanda að hann reisi útreikning sinn á öðrum upplýsingum en þeim, sem honum eru tiltækar. Verður þá að hvíla á aðaláfrýjendum að hnekkja líkindum fyrir að gagnáfrýjandi hefði mátt vænta samsvarandi niðurstöðu í báðum útboðum ef samráð hefði ekki verið um tilboð í fyrra tilvikinu.

Til þess verður á hinn bóginn að líta að gagnáfrýjandi hefur í forsendum útreiknings síns gengið út frá því að afslátt, sem aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. veitti honum við útboðið 1996, hafi átt að ákveða hlutfallslega af grunnverði gasolíu og bensíns, eins og það yrði á hverjum tíma. Í samræmi við þetta reiknar gagnáfrýjandi jafnframt hver afsláttur hefði orðið ef hann hefði numið sama hlutfalli og fékkst með tilboði aðaláfrýjandans Olíuverzlunar Íslands hf. í útboðinu 2001. Orðalag í útboðslýsingu og tilboðum aðaláfrýjenda á árinu 1996 varðandi verðlagsgrundvöll verður ekki skilið á annan veg en þann að ætlast hafi verið til að hlutfallslegur afsláttur, sem fundinn yrði með samanburði tilboðsverðs og grunnverðs, yrði veittur af grunnverði eins og það yrði hverju sinni á samningstímanum. Aðaláfrýjendur hafa á hinn bóginn staðhæft að án tillits til þessa hafi afslátturinn, sem Skeljungur hf. veitti gagnáfrýjanda með samningi á grundvelli útboðsins, í reynd verið föst fjárhæð, 5,31 krónur fyrir hvern lítra af gasolíu og 4,54 krónur fyrir lítra af bensíni, allan tímann sem þessi viðskipti stóðu yfir. Í málflutningi gagnáfrýjanda hefur ekki verið tekin skýr afstaða til þessarar staðhæfingar. Af því, sem fram kemur í héraðsdómsstefnu og umsögn, sem forráðamenn Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar og Strætó bs. gerðu 13. desember 2001 fyrir innkaupastofnun gagnáfrýjanda, verður þó ráðið að kaupverð þessara eldsneytistegunda af aðaláfrýjandanum Skeljungi hf. hafi í árslok 2001 numið þágildandi grunnverði að frádregnum þeim föstu fjárhæðum, sem áður er getið. Ekkert liggur fyrir um hvort viðskipti á grundvelli samningsins hafi verið á þennan hátt allan tímann, sem hann gilti, eða hver hafi verið ástæða þess að vikið hafi verið að þessu leyti frá hljóðan hans. Án tillits til þess er ljóst að forsendur fyrir útreikningi aðalkröfu gagnáfrýjanda eru að þessu leyti rangar, en skekkja í þeim efnum hefur teljandi áhrif á fjárhæð hennar. Af þessum sökum er ekki fært að taka til greina aðalkröfu gagnáfrýjanda.

V.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður að líta svo á að fjárhæðir, sem aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. skuldbatt sig 16. september 1996 til að greiða öðrum aðaláfrýjendum vegna eldsneytiskaupa gagnáfrýjanda, sýni að lágmarki hvaða hag þeir hafi talið af því að hafa samráð um viðskipti hans í stað þess að keppa um þau. Er því ekki ástæða til annars en að ætla að tilboð, sem gefið hefði verið án slíks samráðs, hefði orðið lægra en hagstæðasta boðið, sem þar fékkst, um að minnsta kosti þrefalda fjárhæðina, sem aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. tók á þennan hátt að sér að greiða hvorum hinna. Ekki er ágreiningur um að gagnáfrýjandi reikni fjárhæð tjóns síns réttilega út í varakröfu eftir þessum forsendum. Fallist verður á með héraðsdómi að gagnáfrýjandi hafi ekki vanrækt að takmarka tjón sitt með því að láta hjá líða að segja upp samningnum við aðaláfrýjandann Skeljung hf. þegar gagnáfrýjanda var það fyrst kleift frá 1. október 1999 að telja. Samkvæmt þessu verður aðaláfrýjendunum gert að greiða gagnáfrýjanda skaðabætur að fjárhæð 72.733.904 krónur. Verður að fella skyldu til þessa óskipt á aðaláfrýjendur, sem bökuðu gagnáfrýjanda tjón með sameiginlegri háttsemi sinni, en í því sambandi getur engu breytt þótt aðaláfrýjandinn Skeljungur hf. kunni að hafa vanefnt samkomulagið frá 16. september 1996 við aðra aðaláfrýjendur eða borið meira en þeir úr býtum vegna brots þeirra í garð gagnáfrýjanda, enda eru hér ekki til úrlausnar álitaefni um innbyrðis lögskipti aðaláfrýjenda.

Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda verður að taka til greina þá mótbáru aðaláfrýjenda að krafa gagnáfrýjanda um vexti sé fallin niður fyrir fyrningu að því leyti, sem hún nær til tímabilsins fyrir 4. apríl 2002, en gagnáfrýjandi rauf fyrningu með höfðun málsins sama dag á árinu 2006. Með vísan til 3. mgr. 5. gr., sbr. fyrri málslið 9. gr. laga nr. 38/2001 verða gagnáfrýjanda dæmdir dráttarvextir af kröfu sinni frá 20. október 2005, en þann dag var mánuður liðinn frá því að hann fyrst krafði aðaláfrýjendur um greiðslu skaðabóta. Um vexti fer annars samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum málsins verða aðaláfrýjendur dæmdir í sameiningu til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Skeljungur hf., Olíuverzlun Íslands hf. og Ker hf., greiði óskipt gagnáfrýjanda, Reykjavíkurborg, 72.733.904 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. apríl 2002 til 20. október 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjendur greiði óskipt gagnáfrýjanda samtals 5.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2006.

Mál þetta, sem var dómtekið 22. nóvember, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur gegn Skeljungi hf., Hólmaslóð 8, Reykjavík, Olíuverslun Íslands hf., Sundagörðum 2, Reykjavík  og Keri hf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík, með stefnu þingfestri 6. apríl 2006.

Stefnandi  krefst þess aðallega að hin stefndu hlutafélög verði dæmd til þess að greiða stefnanda óskipt 139.072.399 kr. með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 5.207.012 kr. frá 1. janúar 1997 til 1. janúar 1998, af 30.143.075 kr. frá þeim degi til 1. janúar 1999, af 52.992.112 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2000, af 76.652.135 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2001, af 113.730.352 kr. frá þeim degi til 1. júlí 2001, en skv. 9. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 1. janúar 2002, en af 139.072.398 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara er krafist greiðslu á 72.733.904 kr. með dráttarvöxtum, aðallega skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 en ella skv. 1. mgr. 8. gr. sömu laga frá 1. janúar 2002 til greiðsludags.        

Til þrautavara er krafist greiðslu skaðabóta að mati héraðsdóms auk vaxta eins og í varakröfu.

Þá er krafist greiðslu málskostnaðar skv. gjaldskrá Landslaga – lögfræðistofu úr hendi stefndu óskipt.

Stefndu krefjast þess allir aðallega að vera sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar þeim til handa.

Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Varðandi málskostnað í varakröfu krefjast stefndu, Ker hf. og Olíuverslun Íslands hf., þess, að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað, en stefndi, Skeljungur hf., krefst þess að málskostnaður verði látinn falla niður.

 

Málavextir.

Með útboði hinn 3. júní 1996 óskaði Innkaupastofnun Reykjavíkur fyrir hönd Reykjavíkurborgar eftir tilboðum vegna kaupa á gasolíu, 95 oktana bensíni og steinolíu fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, Malbikunarstöð Reykjavíkur og Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar. Í útboðslýsingunni sagði að áætlað árlegt magn sem keypt yrði væri 4 milljónir lítra af gasolíu, 250 þúsund lítrar af bensíni og 8 þúsund lítrar af steinolíu. Gera átti samning um eldsneytiskaup til þriggja ára með sjálfkrafa eins árs framlengingu í senn ef samningnum yrði ekki sagt upp. Frestur til að skila tilboðum var upphaflega til 3. ágúst 1996, en framlengdur til 17. september sama ár.  Stefndu sendu öll inn tilboð. Stefndi, Skeljungur hf., átti lægsta tilboðið og samdi Reykjavíkurborg við lægstbjóðanda. Eins og að framan greinir átti útboðið einungis að vera til þriggja ára.  Eftir það tímamark munu stefndu, Ker hf. og Olíuverslun Íslands hf., hafa óskað eftir nýju útboði, en því ekki verið sinnt og hafi hið eldra útboð framlengst til ársins 2001.

Stefnandi og stefndi, Skeljungur hf., áttu viðskipti með olíuvörur á grundvelli þessa útboðs til 1. janúar 2002 fyrir Strætisvagna Reykjavíkur (Strætó bs.) og Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar, en Malbikunarstöð Reykjavíkur keypti ekki olíuvörur skv. þessu útboði. Hinn 22. júní 2001 sagði stefnandi upp viðskiptunum.

Í október árið 2001 stóð Reykjavíkurborg á nýjan leik fyrir útboði á olíuviðskiptum. Umtalsverður munur var nú á tilboðum stefndu og verð samkvæmt útboði 2001 hagstæðara en það verð sem fékkst í útboðinu 1996. Til dæmis bauð lægstbjóðandi, Olíuverslun Íslands hf., hvern lítra af díselolíu á 30.04 kr. í janúar 2002 þegar grunnverð frá dælu var 50.00 kr./lítra. Verð í árslok 2001 skv. útboðinu 1996 var hins vegar 44.69 kr./lítra. Verðlækkunin á hverjum lítra af díselolíu frá desember 2001 til janúar 2002 var því 14.65 kr.

             Hinn 18. desember 2001 hóf Samkeppnisstofnun, nú Samkeppniseftirlitið, rannsókn á því hvort stefndu hefðu haft með sér ólögmætt samráð í viðskiptum og með því brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993, sem er efnislega samhljóða 10. gr. núgildandi laga nr. 44/2005. Fyrrnefnt útboð stefnanda árið 1996 var eitt af þeim málum sem var rannsakað. 

Með ákvörðun samkeppnisráðs í máli nr. 21/2004, sem efnislega var staðfest með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála 29. janúar 2005 í málinu nr. 3/2004, var ólögmætt samráð stefndu í útboði stefnanda árið 1996 talið sannað og þar með brot á 10. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Í ákvörðuninni frá 16. september 1996 segir að stefndu hafi samið um að stefndi, Skeljungur hf., héldi fyrri viðskiptum sínum við Reykjavíkurborg áfram eftir útboðið. Í ákvörðuninni kemur síðan fram, að forstjórar olíufélaganna hafi gengist við því fyrir samkeppnisyfirvöldum að hafa viðhaft samráð og samstilltar aðgerðir vegna útboðsins. Á bls. 148 í ákvörðuninni segir: ,,Bæði forstjóri OHF [stefnda Ker hf.] og framkvæmdastjóri markaðssviðs hafa lýst því yfir að náðst hafi samkomulag milli olíufélaganna þriggja um samvinnu vegna útboðs Reykjavíkurborgar og Landhelgisgæslunnar og framlegðarskiptingu eftir það. Hið sama hefur forstjóri Olís gert.“

Síðan er haft eftir þáverandi forstjóra stefnda Skeljungs hf.: „Þegar Reykjavíkurborg ákvað að bjóða út olíuinnkaup sín hafi blasað við að fleiri aðilar á vegum ríkis og sveitarfélaga áformuðu slík útboð. Vegna þessa var rætt um það meðal starfsmanna olíufélaganna hvernig við skyldi bregðast. Að því er varðaði viðskipti við Reykjavíkurborg og Landhelgisgæslu, lá fyrir að Skeljungur átti tanka og annan afgreiðslubúnað sem var hjá þessum aðilum. Sá aðili sem hreppti þessi viðskipti þyrfti að fjárfesta í slíkri aðstöðu. Það varð að samkomulagi milli olíufélaganna að Skeljungur hefði áfram viðskipti við Reykjavíkurborg og Landhelgisgæslu og að félagið myndi gera upp framlegð af viðskiptunum við hin félögin.“

Á fundi með forstjórum olíufélaganna lagði forstjóri stefnda Skeljungs hf. síðan fram neðangreinda tillögu sem laut að því hvernig olíufélögin ættu að haga tilboðum sínum í útboðinu og hvernig hagnaði af því yrði skipt. Á bls. 144 í ákvörðuninni segir:  „Í dag er Skeljungur hf. með öll þessi viðskipti. Skeljungur hf. á jafnframt allan búnaðinn til birgðahalds og afgreiðslu hjá SVR, Vélamiðst. og Malbikunarstöð. Þessi búnaður kostar á endurstofnverði um 11 milljónir, en afskrifað bókfært verð er um 8 milljónir. Óskað er eftir verði á gasolíu í útboðsgögnum og á að gefa upp til samanburðar verð á bensínstöð í miðbæ Reykjavíkur. Á bensínstöðvum er gasolía sem seld diselolía og leggjum við tilboðið (sic) taki mið af bjóða díselolíu og að verðlistaverð er 29,40 kr. með VSK. Við leggjum til að eftirfarandi verði boðið:

 

 

Verðlistaverð m. vsk.

Skeljungur býður verð pr. ltr. m. vsk.

Olís býður verð pr. ltr. m. vsk.

Olíufélagið býður verð pr. ltr. m. vsk.

Gasolía

(díselolía) verð pr. ltr. m. vsk.

29,40

24,09

24,19

24,15

Bensín

verð pr. ltr. m. vsk.

76,00

71,46

71,90

71,59

Steinolía

verð pr. ltr. m. vsk.

35,00

30,50

29,40

30,45

 

Skeljungur á allan afgreiðslubúnað, sér um viðhald, endurnýjun og öryggiseftirlit með honum og kostar að öllu leyti. Skeljungur hf. ber jafnframt allan kostnað við að afgreiða og þjónusta Reykjavíkurborg vegna viðskiptanna. Því leggjum við til að söluskipting pr. ltr. án VSK verði sem hér segir: Olíufélagið hf. og Olís hf. fái hvort um sig 0,75 kr. af hverjum seldum lítra af Gasolíu og 1,125 kr. af hverjum seldum bensínlítra til Reykjavíkurborgar. Af hverjum lítra af Steinolíu fái félögin kr. 1,125. Allar tölur eru án VSK.“ Síðast nefndu fjárhæðirnar breyttust síðar.

Stefndu viðurkenna að þetta samkomulag forstjóranna var framkvæmt þannig að þeir sem sömdu og sendu tilboð stefndu notuðu fyrrnefnd umsamin verð í tilboðunum. Bókhaldsgögn og reikningar stefnanda staðfesta þetta.

Eftir að viðskipti stefnda Skeljungs hf. og stefnanda hófust greiddi Skeljungur hf. öðrum stefndu 9.058.178 kr. í bakgreiðslu eða „söluskiptingu“ samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi fyrir árin 1996 og 1997.

Um þetta segir í athugasemdum stefnda Kers hf. til Samkeppnisstofnunar. ,,...að félagið gangist við þessum brotum sínum. Fram kemur einnig að Skeljungur hafi hvatt OHF og Olís til samstarfs í tengslum við þessi útboð. Að lokum hafi Skeljungur náð samkomulagi við hin félögin um samvinnu við tilboðsgerð og framlegðarskiptingu eftir það. Varðandi Reykjavíkurborg hafi Skeljungur ekki staðið nema að litlu leyti við samkomulagið og hafi því notið ávinningsins af brotunum umfram OHF og Olís.“

Á bls. 737 í ákvörðuninni er eftirfarandi haft eftir framkvæmdastjóra markaðssviðs stórviðskipta hjá stefnda Skeljungi hf., Friðriki Stefánssyni: „FS sagði að óumdeilt væri að olíufélögin hafi sammælst í útboði Reykjavíkurborgar í september 1996. Það mál væri hins vegar það eina þar sem FS teldi að félögin hafi haft þess háttar samstarf.“

Þessum samningi stefnanda og stefnda, Skeljungs hf., sagði stefnandi upp í júní 2001 og ákvað að bjóða út olíuviðskipti borgarinnar að nýju.  Tilboð lægstbjóðanda samkvæmt útboðinu 2001 var hagstæðara en tilboð lægstbjóðanda í útboðinu 1996. Verðmunurinn frá desember 2001 (útboð 1996) til janúar 2002 (útboð 2001) á hverjum lítra af díselolíu var samkvæmt tilboðinu 14.65 kr. sbr. hér að framan. Þar var verulegur munur á hæsta og lægsta tilboði í útboðinu 2001 eða rúmar 33 milljónir á ári. Var samningur um eldsneytiskaup milli stefnda, Olíuverslunar Íslands hf., og stefnanda fyrir hönd, Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar, til þriggja ára með framlengingarákvæði, undirritaður 28.  desember 2001 og er enn í gildi.

             Ákvörðun samkeppnisráðs nr. 21/2004 var gerð opinber í lok október 2004. Hinn 29. janúar 2005 staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála ákvörðun samkeppnisráðs. Hinn 20. september 2005 var stefndu ritað kröfubréf. Svar barst frá stefnda, Keri hf., um miðjan október 2005 þar sem stefndi viðurkennir brot á 10. gr. þágildandi samkeppnislaga gagnvart stefnanda í útboðinu 1996, en telur félagið ekki skaðabótaskylt. Frá öðrum stefndu barst ekki formlegt svar heldur ósk um samningaviðræður og var fundur haldinn með lögmanni stefnda, Skeljungs hf., og stjórnarformanni stefnda, Olíuverslunar Íslands hf., hinn 18. október 2005. 

             Í gögnum málsins er nefnd álitsgerð Jóns Þórs Sturlusonar hagfræðings.  Álitsgerð þessi var ekki lögð fram.  Niðurstaða hennar var sú, að tjón stefnanda á verðlagi í september 1996 hafi verið 37.167.637 kr., sem á verðlagi í janúar 2006 séu 52.022.191 kr., en í stefnu málsins kemur fram að um þriggja ára tímabil sé að ræða. Lögmaður stefnda, Olíuverslunar Íslands, upplýsti við aðalmeðferð málsins, að til sátta í málinu hafi stefnanda verið boðin nefnd fjárhæð.  Henni hafi aftur á móti verið hafnað. Þar sem sáttir hafa ekki tekist með málsaðilum telur stefnandi málssókn þessa nauðsynlega.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

          Stefnandi telur ágreiningslaust í málinu að bótaskylda sé til staðar hjá stefndu.  Bótaskylduna byggir hann á sakarreglunni. Stefnandi telur að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna hins ólögmæta samráðs, en ágreiningurinn lúti einvörðungu að fjárhæð skaðabótanna. Varðandi útreikning bótafjárhæðinnar setur stefnandi fram tvær leiðir.

             Aðallega telur stefnandi forsendur fyrir bótakröfunni þær að ef samráð stefndu hefði ekki átt sér stað í útboðinu 1996, hefði fengist hlutfallslega sami afsláttur frá grunnverði (verðlistaverði) og fékkst í útboðinu 2001, þegar samráðið hafði ekki áhrif. Forsvarsmenn Strætó bs. og Vélamiðstöðvar Reykjavíkur hafa reiknað út bótakröfuna á þessum forsendum og samkvæmt upplýsingum úr bókhaldi fyrirtækjanna um lítrafjölda og verð. Stefndu hafa ekki gert athugasemdir við þær upplýsingar, hvorki lítrafjölda né verð. Skaðabótakrafa Reykjavíkurborgar er reiknuð út á þessum forsendum.

Skaðabótakrafan vegna SVR sundurliðast þannig með skýringum:

 

 

SVR

Innkaup

Grunnverð

Afsl. 2001/2

Rétt verð

Krafa

okt.-des.

1996

19.517.730

23.819.438

9.508.720

14.310.718

5.207.012

allt árið

1997

71.793.511

87.616.801

34.976.627

52.640.174

19.153.337

allt árið

1998

66.577.873

81.251.636

32.435.653

48.815.983

17.761.890

allt árið

1999

68.339.703

83.401.774

33.293.988

50.107.786

18.231.917

allt árið

2000

110.243.569

134.541.251

53.708.867

80.832.384

29.411.185

jan.-júní

2001

63.841.649

77.912.349

31.102.610

46.809.739

17.031.910

 

samt.

400.314.035

488.543.249

195.026.465

293.516.784

106.797.251

 

Skýringar: Innkaupsverð er verð sem SVR greiddi.

 

 

 

Grunnverð (verðlistaverð) er verð þegar afsláttur samkvæmt tilboði stefnda Skeljungs hf. er afreiknaður (18,06%).

 

Afsl. 2001 er afsláttur frá grunnverði miðað við þann afslátt, sem er í  tilboði frá 2001 (39,92%).

 

 

Rétt verð er grunnverð að frádregnum afsl. 2001.

 

 

 

Krafa er mismunur á innkaupum, þ.e. greiðslu og réttu verði.

 

 

 

 

 

           Skaðabótakrafa vegna Vélamiðstöðvar Reykjavíkur er sundurliðuð á sama hátt og á sömu forsendum:

 

 

Tegund:

Innkaup         kr .án vsk:

Grunnverð kr. án vsk:

Afsl.       2001/2:

"Rétt"verð kr. án vsk:

Krafa         kr. án vsk:

 

 

Ár:

 

 

1997

Bensín

11.647.000

12.386.958

2.021.552

10.365.406

1.281.594

 

 

" 

Dísel

12.607.000

15.385.878

6.142.042

9.243.835

3.363.165

 

 

1998

Bensín

12.684.420

13.490.287

2.201.615

11.288.672

1.395.748

 

 

" 

Dísel

10.084.785

12.307.708

4.913.237

7.394.471

2.690.314

 

 

1999

Bensín

12.195.496

12.970.301

2.116.753

10.853.548

1.341.948

 

 

" 

Dísel

11.313.047

13.806.707

5.511.638

8.295.070

3.017.977

 

 

2000

Bensín

13.251.084

14.092.952

2.299.970

11.792.983

1.458.101

 

 

" 

Dísel

17.618.791

21.502.385

8.583.752

12.918.633

4.700.158

 

 

2001

Bensín

13.861.352

14.741.992

2.405.893

12.336.099

1.525.253

 

 

" 

Dísel

19.303.381

23.558.298

9.404.473

14.153.826

5.149.555

 

 

 

 

 

 

 

 

25.923.814

 kr. án vsk.

 

 

 

 

 

 

 

32.275.148

 kr. m/vsk.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Samkvæmt þessu nemur skaðabótakrafa stefnanda vegna Strætisvagna Reykjavíkur, SVR, fyrir tímabilið október 1996 til og með júní 2001, 106.797.251 kr. og vegna Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar 1997 til og með október 2001, 32.275.148 kr. eða samtals 139.072.397 kr., sem er stefnufjárhæðin.

Stefnandi telur að reikningar frá stefnda, Olíuverslun Íslands hf., eftir útboðið 2001 renni styrkum stoðum undir þennan útreikning stefnanda á skaðabótakröfunni. Á þeim kemur fram að afsláttur af viðskiptum vegna Strætó bs. er 34,70% og enn hærri vegna Vélamiðstöðvar, eða 39,90%.

Skaðabótakrafan vegna SVR nær einungis til 1. júlí 2001, en þá tók Strætó bs. við rekstri SVR. Sérstök krafa er gerð fyrir Strætó bs. vegna viðskiptanna 1. júlí til 31. desember 2001, en þau námu 18.814.428 kr. Sú krafa verður höfð uppi í málinu nr. E-2008/2006.

Krafa stefnanda byggist á innkaupsverði með virðisaukaskatti enda bæði SVR og Vélamiðstöð endanlegir notendur hins selda eldsneytis, en upplýst var af lögmanni stefnanda að stefnandi hefði ekki fengið endurgreiddan virðisaukaskatt.

Að mati stefnanda fela ofangreindar aðferðir við mat á tjóni stefnanda í sér löglíkur fyrir sannanlegu tjóni hans. Í þessu sambandi telur stefnandi á það að líta, að engin haldbær rök geta útskýrt þann augljósa mun sem var á kjörum stefnanda, annars vegar í útboðinu árið 1996 þegar samráð átti sér stað, og hins vegar í útboðinu 2001 þegar samráð átti sér ekki stað, eða hafði ekki áhrif á tilboð stefndu. Telji stefndu beitingu framangreindra aðferða við mat á tjóni stefnanda ekki fela í sér lögfulla sönnun um tjón hans, telur stefnandi að það sé stefndu að sanna hið gagnstæða. Stefndu verða þannig til dæmis að sanna að ekkert samhengi sé á milli kjara sem fengust árið 2001, samanborið við árið 1996 og þess að látið hafi verið af hinum samkeppnishamlandi aðgerðum. Í þessu sambandi verður, að mati stefnanda, einnig að horfa til þess að stefndu eru í allt annarri og betri aðstöðu en stefnandi til að sýna fram á viðlíka atriði.

Varakrafa stefnanda er að fjárhæð 72.733.904 kr. Hún byggir á samkomulagi stefndu um að stefndi, Skeljungur hf., fengi samninginn við stefnanda og greiddi hinum tveimur „söluskiptingu pr. ltr.“ eða „hlutdeild í framlegð“, eins og það heitir í ákvörðun Samkeppnisstofnunar.

Samtals áttu greiðslur stefnda, Skeljungs hf., að nema 1,31 kr. af hverjum seldum olíulítra og 1,97 kr. af hverjum bensínlítra, en það voru tölurnar skv. endanlegu samkomulagi stefndu. Samkomulag þetta var að hluta til efnt með greiðslum stefnda, Skeljungs hf., til annarra stefndu, 9.058.178 kr. til hvors.

             Stefnandi telur að ætla megi að Skeljungur hf. hafi reiknað sér í það minnsta jafnháan hlut af hverjum lítra auk eðlilegrar þóknunar fyrir umsýsluafnot af búnaði og fleira.  Þannig hefur samráð olíufélaganna í nefndu útboði, og samkomulag þeirra um hagnaðarskiptingu af því, leitt til þess að Strætisvagnar Reykjavíkur og Vélamiðstöð Reykjavíkur hafa í það minnsta greitt 3,93 kr. (1,31 kr. x 3) hærra verð fyrir hvern lítra af gasolíu á þessu tímabili vegna fyrrnefndra aðgerða félaganna og Vélamiðstöðin 5,91 kr. (1,97 kr. x 3) af hverjum bensínlítra. Stefnandi telur að hann eigi rétt á að fá það tjón bætt frá stefndu.

Stefnandi tekur fram að á tímabilinu keypti stefnandi 14.003.538 lítra af eldsneyti vegna SVR. Skaðabótakrafa vegna SVR nemur 55.033.904 kr. (14.003.538 lítrar x 3,93 kr). 

Á sama hátt er skaðabótakrafa Vélamiðstöðvar reiknuð, miðað við magntölur skv. útboðslýsingu:

1.                                Gasolía 3.000.000 lítrar x 3,93 kr.          kr.        11.790.000.

2.                                Bensín 1.000.000  lítrar x 5,91 kr.         kr.          5.910.000.

Þessi „hlutdeild í framlegð“ nemur því samtals 72.733.904 kr. sem er varakrafa stefnanda. 

Vaxta er krafist frá því viðskiptum lauk í desember 2001, enda telur stefnandi erfitt að sanna nákvæmlega hvenær tjón hans af þessum samningi og umsömdum endurgreiðslum varð  og  þar með hver gjalddagi kröfunnar er.

             Stefnandi upplýsir að útreikningur Jóns Þórs Sturlusonar hagfræðings, á tjóni stefnanda af samráði stefndu, hafi gefið mjög svipaða niðurstöðu varðandi umframverð af hverjum seldum lítra af olíu og bensíni. Heildarniðurstaða hans var lægri enda eingöngu miðað við 3 ár frá 1. október 1996 til 1. október 1999, en ekki allt samningstímabilið til 1. janúar 2002.

Til þrautavara krefst  stefnandi þess að dómurinn ákveði stefnanda hæfilegar bætur að mati dómsins.

Stefnandi byggir á því að um óskipta ábyrgð sé að ræða hjá stefndu.  Í ljósi þess að stefndu hafa viðurkennt samráð við útboðið 1996 bera þau skaðabótaábyrgð á því tjóni sem samráð þeirra hefur valdið stefnanda. Sú staðreynd að stefndu sammæltust um tiltekin verð olli því að stefnandi naut ekki þess hagræðis af útboðinu sem frjáls samkeppni um viðskiptin hefði leitt af sér og varð af þeim sökum fyrir fjártjóni. Vegna þess verður að telja að ábyrgð stefndu á tjóni stefnanda sé óskipt, enda tóku þau öll þátt í samráðinu.

Vaxtakrafa stefnanda er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá upphafstíma vaxta til 1. júlí 2001.  Frá þeim degi byggist vaxtakrafan á 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, en á 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málslið 4. gr. til vara.

Skaðabótakrafa stefnanda á hendur stefndu byggist á alvarlegu réttarbroti forsvarsmanna stefndu gagnvart stefnanda, brotum á samkeppnislögum sem stóðu yfir í langan tíma og linnti ekki fyrr en með rannsókn samkeppnisyfirvalda. Vegna þessa aðdraganda og eðlis brotanna telur stefnandi réttmætt að þau beri dráttarvexti frá því að stefndu fengu til sín hagnaðinn af samráði sínu og tjón stefnanda sem af því varð, þ.e. á árunum 1996 til 2001. Stefnanda var ókunnugt um tjón sitt á þessum tíma og hafði þar af leiðandi enga möguleika á að afla gagna um tjón sitt eða reikna það út. Stefnandi telur vegna þessa rétt að líta á vaxtakröfu sína sem hluta af skaðabótakröfu sinni, frekar en sem vexti af gjaldkræfri kröfu. Fyrningarfrestur heildarkröfunnar er því 10 ár.

Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á 1. mgr. 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefndu.

             Stefndu málsins hafa samstöðu í máli þessu. Við aðalmeðferð málsins vísuðu lögmenn stefndu, Olíuverslunar Íslands hf. og Kers hf., til málflutnings stefnda, Skeljungs hf. og gerðu hann að sínum.

Í greinargerð stefnda, Skeljungs hf., kemur fram að hann hafnar alfarið aðalkröfu stefnanda og þeim ályktunum sem stefnandi byggir hana á. Stefndi telur að þótt óumdeilt sé að allir stefndu hafi haft með sér ólögmætt samstarf í útboðinu 1996 þá hvíli það á stefnanda að sanna að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna þess samstarfs. Að mati stefnda eru engar forsendur til að víkja frá þessari grundvallarreglu með þeim hætti sem stefnandi fer fram á. Stefndi telur ljóst, að stefnandi hafi með framsetningu í stefnu og framlögðum gögnum hvorki sannað né gert líklegt að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna samstarfs stefndu í útboðinu 1996. Að mati stefnda verður sú framsetning sem stefnandi styðst við í málinu ekki notuð til að sýna fram á tjón af viðskiptum við stefnda. Því til rökstuðnings tekur stefndi eftirfarandi fram:

Í fyrsta lagi hefur stefnandi með öllu horft fram hjá því að afslættir af bifreiða-eldsneyti eru ekki og hafa aldrei verið reiknaðir í hlutfalli (%) af verðlistaverði. Stefndi hefur í starfsemi sinni ávallt miðað álagningu við tiltekna krónutölu en ekki hlutfall af verðlistaverði. Við ákvörðun verðlistaverðs stefnda er heimsmarkaðsverð á olíu ráðandi þáttur. Líkt og dæmin sýna þá eru verðsveiflur oft miklar á þessum markaði. Ef notast væri við fast álagningarhlutfall í starfseminni myndi það þýða að hlutdeild stefnda í hverjum seldum lítra í krónum talin breyttist í takt við breytingar á heimsmarkaðsverði og ykist þannig þegar verð á olíu hækkaði. Sú er ekki reyndin. 

Stefndi telur að þær forsendur sem stefnandi gefur sér í aðalkröfu verða þegar af þessari ástæðu ekki notaðar sem grundvöllur bótakröfu í málinu. Fyrir liggur að stefndi bauð hvorki í útboðinu 1996 né í útboðinu 2001 afslátt sem tiltekið hlutfall af verðlistaverði. Í tilboði stefnda árið 1996 var boðinn fastur krónutöluafsláttur og fyrir liggur að sá afsláttur hélst óbreyttur allan samningstímann, óháð því hvert verðlistaverðið var á hverjum tíma.

Í öðru lagi telur stefndi að líta verði til þess, að aðstæður í þjóðfélaginu breyttust mikið á milli áranna 1996 og 2001. Verðákvarðanir á hérlendum olíumarkaði voru lengst af opinberar og meginreglan sú að frá þeim varð ekki vikið, hvorki til hækkunar né lækkunar. Þessum verðafskiptum var ekki endanlega hætt fyrr en á árinu 1994 og af þeim sökum umtalsvert minna um það á þessum tíma að viðskiptamenn stefnda nytu afsláttarkjara miðað við það sem síðar varð. Markaðurinn þróaðist síðan þannig að afslættir færðust í aukana. Svigrúm til að veita afslætti frá verðlistaverði jókst einnig eftir því sem leið á umrætt tímabil. Ástæðuna er að rekja til þess að á árunum 1996-1997 var að ljúka erfiðri efnahagslægð en síðari hluta tímabilsins (1998-2001) var samfellt hagvaxtarskeið. Alþekkt er að við fákeppnisaðstæður fylgir álagning fyrirtækja hagsveiflunni. Var þetta m.a. lagt til grundvallar í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem áður var vísað til (bls. 250) og óumdeilt í því máli að álagning olíufélaganna í krónum talið jókst á þessu hagvaxtarskeiði. Af þessum ástæðum verður samanburður á milli þess afsláttar sem veittur var í útboðinu 1996 og afsláttar í útboðinu 2001 ekki marktækur.

Í þriðja lagi tekur stefndi fram að kjör þau sem stefndi bauð stefnanda í útboðinu 1996 voru með því besta sem þekktist á þessum tíma og engin leið að halda því fram að stefnandi hefði átt að fá önnur og betri kjör ef ekki hefði komið til samstarfs olíufélaganna í útboðinu. Afsláttur stefnanda frá verðlistaverði skv. tilboði stefnda 1996 var 5,31 kr. af hverjum lítra af gasolíu og 4.54 kr. af hverjum lítra af bensíni. Til samanburðar má nefna að starfsmönnum stefnda var í fyrsta sinn gefinn kostur á að kaupa bensín og diesel olíu með afslætti á bensínstöðvum félagsins á árinu 1996. Afsláttur af útsöluverði hvers lítra af bensíni var 4 krónur og 2 krónur af útsöluverði hvers lítra af diesel olíu. Í dreifibréfi sem afhent var fastráðnum starfsmönnum félagsins af þessu tilefni var tiltekið að með þessu vildi stefndi tryggja að starfsmenn félagsins nytu "bestu viðskiptakjara sem í boði [væru]". Þau kjör sem hér um ræðir voru fullkomlega í takt við það sem tíðkaðist í tilboðum til bestu viðskiptavina félagsins á þessum tíma. Þá má enn fremur líta til þess að meirihluti bensínstöðva stefnda voru í útleigu á þessum tíma, þ.e á árinu 1996. Stefndi lagði til búnað til geymslu og afgreiðslu eldsneytis og þeir sem önnuðust rekstur bensínstöðvanna nutu afsláttar til að geta staðið undir kostnaði við reksturinn. Þessi afsláttur var á árinu 1996 4.04 kr. á hvern lítra eldsneytis. Þá má nefna í dæmaskyni að verð á gasolíu frá bíl til stórnotenda, svo sem verktaka, var á þessum sama tíma 31 eyri hærra en verð á sömu olíu í tilboðinu til stefnanda..

Í fjórða lagi byggir stefndi á því að sú aðferð stefnanda að nota lægsta boð sem barst í útboði á árinu 2001 sem viðmið við útreikning bótakröfu, sé hvorki í samræmi við framkvæmd í málum af þessu tagi né kenningar fræðimanna. Í fræðilegri umfjöllun um útreikning tjóns vegna brots gegn ákvæðum samkeppnislaga er almennt viðurkennt að slíkir útreikningar séu vandmeðfarnir enda fjölmargar breytur sem áhrif geta haft á útkomuna og taka þarf tillit til. Meðal þeirra aðferða sem notast hefur verið við, með nokkrum fyrirvörum þó, er samanburður á verði vöru eða þjónustu, á þeim tíma þar sem ólögmætt ástand var fyrir hendi, við verð vöru eða þjónustu fyrir það tímamark. Ef slíkur samanburður er ekki mögulegur hefur verið talið hugsanlegt að líta til síðara tímamarks.

Stefndi tekur fram að stefnandi hafi enga tilraun gert til samanburðar við fyrra tímamark enda ljóst að slíkur samanburður sé honum afar óhagstæður. Ef notast er við þá aðferð stefnanda að líta eingöngu til eigin útboða þá liggur fyrir að Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar leitaði á árinu 1993 eftir tilboðum í olíuvörur vegna Strætisvagna Reykjavíkur, Vélamiðstöðvar Reykjavíkur og Slökkviðstöðvar Reykjavíkur. Tilboði stefnda um 3.45 kr. afslátt án vsk. á hvern lítra af diesel olíu fyrir Strætisvagna Reykjavíkur og Vélamiðstöð Reykjavíkur var tekið.  Ef tekið er tillit til virðisaukaskatts er afslátturinn 4.29 kr. á hvern lítra eða 1.02 krónum lægri en í tilboði stefnda í útboðinu 1996. Liggur þó fyrir að ekkert samráð var haft milli olíufélaganna í útboðinu 1993. Ef á annað borð ætti að líta til útboða stefnanda við mat á því hvort fjártjón hafi hlotist af samráði olíufélaganna í útboðinu 1996 þá er nærtækt að líta til útboðsins 1993. Það útboð er nær útboðinu 1996 í tíma og markaðir og þjóðfélagsaðstæður um flest samanburðarhæfari.

Stefndi vekur einnig athygli á því að í ákvörðun samkeppnisráðs í máli nr. 21/2004 og úrskurði áfrýjunarnefndar í máli nr. 3/2004 var komist að þeirri niðurstöðu að olíufélögin hefðu haft með sér ólögmætt samráð í aðdraganda útboðsins 2001. Enn fremur var talið að álagning olíufélaganna hafi verið hærri á síðari hluta rannsóknartímabilsins (1993-2001) en fyrri hluta þess og það rakið til samráðs. Virðist því lagt til grundvallar að samráð olíufélaganna hafi verið meira, eða a.m.k. ekki minna, á síðari hluta tímabilsins. Þegar litið er til þessara gagna er óhætt að fullyrða að samanburður milli áranna 1996 og 2001 geti aldrei leitt til réttrar niðurstöðu um áhrif þess að olíufélögin höfðu með sér samráð í útboðinu 1996.

Stefndi telur engin skynsamleg rök standa til þess að leggja tilboð eins félags í tilteknu útboði á árinu 2001 til grundvallar mati á því hver hefði verið líkleg niðurstaða útboðs á árinu 1996 við eðlilegar markaðsaðstæður. Stefndi skilaði inn tilboði í sama útboði sem var umtalsvert hærra en tilboð Olíuverslunar Íslands hf. Sömu sögu er að segja af Olíufélaginu hf. Tilboð Olíuverslunar Íslands hf. var raunar svo lágt að verulegar líkur eru á því að félagið hafi tapað á þessum viðskiptum. Í öllu falli er ljóst að stefndi gat hvorki í útboðinu 1996 né útboðinu 2001 boðið kjör af þessu tagi. Stefndi bauð eins lágt og unnt var í útboðinu 2001 enda mikið í húfi fyrir félagið þar sem einn af stærri viðskiptavinum félagsins var annars vegar. 

             Stefndi hafnar enn fremur varakröfu stefnanda. Varðandi hana tekur stefndi fram að tilvitnað samkomulag olíufélaganna hafi verið um skiptingu framlegðar af viðskiptum við stefnanda. Af samkomulaginu má ráða að olíufélögin hafa áætlað að framlegð af viðskiptunum yrði a.m.k. 3.93 kr. af hverjum lítra af gasolíu og 5.91 kr. af hverjum lítra af bensíni. Framlegð er ætlað að standa undir föstum kostnaði og eðlilegum hagnaði af rekstri. Stefndi telur langan veg frá því að unnt sé að líta á framlegð af viðskiptunum sem tjón stefnanda. Samkvæmt útboðsskilmálum lagði stefndi til allan búnað til geymslu og afgreiðslu eldsneytis, annaðist viðhald búnaðarins, endurnýjun, eftirlit með vatni og gruggi í botni geyma, fjarlægði úrgangsolíu og dældi olíu úr olíuskilju. Þá er ótalinn annar fastur kostnaður í rekstri félagsins sem framlegðarhluta söluverðs er ætlað að standa undir.

Stefndi tekur fram að ekkert liggi fyrir um að framlegð stefnda af viðskiptunum hafi verið hærri en af öðrum sambærilegum viðskiptum á árinu 1996 eða eftir atvikum fyrir eða eftir það tímamark. Þá hefur engin tilraun verið gerð til að sýna fram á að framlegð stefnda af viðskiptunum sé í heild eða að hluta að rekja til samráðs olíufélaganna.

Stefndi vísar að öðru leyti til þeirra málsástæðna sem raktar eru í umfjöllun um aðalkröfu stefnanda.  

Þá hafnar stefndi þrautavarakröfu stefnanda um að stefnanda verði dæmdar bætur að álitum. Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til að dæma bætur að álitum eins og mál þetta er vaxið. Stefnanda ber að sanna að hann hafi orðið fyrir fjártjóni af samráði stefndu. Að mati stefnda hefur stefnandi hvorki sannað né gert líklegt að tjón hafi hlotist af háttsemi stefndu. Af þeim fjölmörgu ástæðum sem raktar hafa verið hér að framan telur stefndi ljóst að ekki verði byggt á þeim forsendum sem stefnandi hefur kosið að leggja til grundvallar bótakröfum sínum í málinu. Af því leiðir að engin leið er að áætla hvort tjón hafi hlotist af háttsemi stefndu, hvað þá hverrar fjárhæðar það á að hafa verið. Takist stefnanda ekki sönnun um þessa þætti ber að sýkna stefnda af öllum kröfum.

Til vara krefst stefndi lækkunar á kröfum stefnanda. Fari svo að sannað teljist að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna samráðs stefndu í útboðinu 1996 er krafist verulegrar lækkunar bóta frá því sem krafist er í aðal- og varakröfu stefnanda. Stefndi telur að jafnvel þótt talið yrði að þær málsástæður sem að framan eru raktar leiði ekki til sýknu þá beri að taka mið af þeim við mat á hugsanlegu tjóni stefnda. Þá er því sérstaklega mótmælt að það tímabil sem litið er til taki til lengri tíma en þriggja ára. Samkvæmt útboðsskilmálum var gildistími samnings á grundvelli útboðsins 3 ár, þ.e. frá 1. október 1996 til 30. september 1999. Að samningstíma loknum framlengdist hann sjálfkrafa um eitt ár í senn ef honum hafði ekki áður verið sagt upp. Fyrir liggur því að stefnandi átti þess kost að segja samningnum upp á árinu 1999 og bjóða viðskiptin út að nýju frá og með 1. október það ár.

Stefndi tekur fram að stefnandi hafi kosið að halda viðskiptunum áfram án útboðs og það þrátt fyrir að keppinautar stefnda hafi ítrekað leitað til stefnanda og óskað eftir því að viðskiptin yrðu boðin út. Ef á annað borð verður talið sannað að þau kjör sem stefnandi naut á grundvelli útboðsins 1996 hafi verið hærri en ella vegna samráðsins er eftir sem áður ljóst að stefndi gat takmarkað tjón sitt með útboði að nýju árið 1999. Sérstök ástæða var til þess fyrir stefnanda að framlengja ekki samninginn þegar virtar eru tilraunir keppinauta stefnda til að fá að bjóða í viðskiptin. Stefnandi mátti ætla að útboð við þær kringumstæður væri afar líklegt til að skila a.m.k. jafn góðum ef ekki betri kjörum. Að mati stefnda er ekki unnt að líta til tímabilsins 1. október 1999 til 31. desember 2001 við mat á hugsanlegu tjóni stefnanda. 

Stefndi tekur fram að ef talið yrði sannað að samráð stefndu hafi leitt til hærra verðs til stefnanda en ella hefði átt að nást með útboðinu þá verði að ætla að stefnandi hafi haft ráðrúm til að takmarka tjón sitt með verðhækkunum á eigin þjónustu sem aftur hafi þá skilað auknum tekjum, til að mæta þessum viðbótarkostnaði. Við þær kringumstæður á stefnandi ekki kröfu til þess að fá umræddan viðbótarkostnað bættan frá stefnda enda grundvallarregla í skaðabótarétti að tjónþoli eigi ekki að hagnast af broti. Stefndi skorar á stefnanda að leggja fram gögn um verðbreytingar á þjónustuþáttum þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga á tímabilinu 1. október 1996 - 31. desember 2001.

Þá krefst stefndi sýknu vegna aðildarskorts. Í stefnu er gerð grein fyrir aðild stefnanda að málinu með þeim hætti að því er lýst yfir að Strætisvagnar Reykjavíkur og Vélamiðstöð Reykjavíkurborgar séu fyrirtæki í eigu stefnanda og rekin fyrir reikning borgarsjóðs. Reyndin er hins vegar sú að Strætó bs., sem er byggðasamlag sjö sveitarfélaga, tók við rekstri Strætisvagna Reykjavíkur 1. júlí 2001. Engin grein er gerð fyrir því í stefnu hvort og þá hvernig rekstri Strætisvagna Reykjavíkur var haldið sérgreindum í bókum Reykjavíkurborgar og heldur ekki hvort Strætó bs. hafi tekið yfir öll réttindi og skyldur Reykjavíkurborgar sem þeim rekstri tengdust. Að sama skapi er ekki gerð grein fyrir því í stefnu hvernig þessum málum var háttað við sölu Reykjavíkurborgar á Vélamiðstöðinni ehf. til Íslenska gámafélagsins ehf., en sú sala mun hafa átt sér stað í ágúst 2005. Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sýnt nægjanlega fram á aðild sína að málinu og krefst sýknu af öllum kröfum á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt og þess krafist að hann miðist við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum Hæstarétti enda hefur stefnandi fram til þessa ekki sannað eða gert líklegt að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna háttsemi stefndu. Í öllu falli er ljóst að dráttarvaxta verður ekki krafist frá fyrra tímamarki en 4 árum fyrir birtingu stefnu í málinu. Eldri dráttarvextir eru fyrndir, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905.  Málskostnaðarkrafan er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Í greingargerð stefnda, Olíuverslunar Íslands  hf., er því hafnað að skilyrðum sakarreglunnar sé fullnægt og því hafnað að tjón hafi orðið.  Stefndi telur að sönnunarbyrgðin hvíli á stefnanda og honum beri einnig að takmarka tjón sitt. Stefndi, Olíuverslunin hf., hafnar forsendum stefnanda fyrir aðalkröfunni og telur að rök hafi ekki verið færð fyrir því hvers vegna sami hlutfallsafsláttur ætti að vera árið 1996 og 2001.  Ekki er gerð athugasemd við upplýsingar um lítrafjölda né verð sem gengið sé útfrá í kröfugerð, enda skipti það ekki máli þegar forsendurnar eru rangar. Olíuverslunin Íslands hf. byggir eins og stefndi, Skeljungur hf., á því að ólíkar markaðs- og efnahagsaðstæður hafi verið og útboðin 1996 og 2001 geti því ekki verið samanburðarhæf.  Stefndi tekur sérstaklega fram að varðandi samanburð á útboðunum 1996 og 2001 hafi gæði hins selda aldrei verið skilgreint sem föst breyta, heldur vísað í þau gæði er hver og einn bauð á hverjum stað. Þá er einnig byggt á því að stefnandi geti aldrei, ef sannast að tjón hafi átt sér stað, átt rétt á bótum fyrir lengra tímabil en til 30. september 1999, en samningurinn var í upphafi gerður til þess tíma og reyndi stefndi, Olíuverslunin ítrekað að þrýsta á stefnanda að segja upp samningnum. Þá ítrekar stefndi, Olíuverslunin Íslands hf., þá meginreglu í skaðabótarétti að tjónþola beri að takmarka tjón sitt. Stefndi telur sig né aðra stefndu aldrei geta borið sönnunarbyrði í málinu.  Hann mótmæltir aðild stefnanda og telur að stefnandi hafi ekki sýnt nægilega fram á hana. Þá mótmæltir hann dráttarvöxtum og að þeir ættu í fyrsta lagi að miðast við dómsuppkvaðningu.  Þá telur hann dráttarvexti fyrnda. Varðandi varakröfu stefnanda tekur stefndi fram að ekkert styðji staðhæfingar stefnanda um réttmæti þeirrar kröfu. Hann telur að ef samið hafi verið svo sem stefnandi heldur fram, þá hefði verið verulegur fjárhagslegur hvati hjá stefndu, Ker hf. og Olíuverlsuninni hf., að virða samkomulagið að vettugi og bjóða einfalda eða tvöfalda samningsupphæð en ekki þrefalda svo sem Skeljungur hf. hafi gert. Þá hafi stefndi, Skeljungur hf., lagt fram allan búnað og aðstöðu til geymslu og afgreiðslu eldsneytisins.  Að lokum hafnar stefndi þrautavarakröfu stefnanda og telur slíka leið ekki koma til álita.

             Í greinargerð stefnda Kers hf. er í fyrsta lagi byggt á aðildarskorti stefnanda sem leiða eigi til sýknu.  Varðandi aðalkröfu stefnanda telur hann að hin svokallaða fyrir og eftir aðferð sem stefnandi byggir á sé röng í þessu máli og varpi ekki réttu ljósi á ætlað tjón. Hann telur að sú leið að sami hlutfallslegi afsláttur sé árin 1996 og 2001 standist engan veginn.  Því til rökstuðnings nefnir hann að afslættir hafi aldrei verið reiknaðir sem hlutfall af verðlistaverði heldur sem krónutala. Í öðru lagi er því haldið fram að árið 1996 hafi stefnandi fengið bestu kjör sem í boði hafi verið. Ker hf. hafi skorað á stefnanda að benda á dæmi um betri kjör miðað við magn á þeim tíma er útboðið fór fram, en stefnandi hafi ekki orðið við því. Í þriðja lagi er bent á að við samanburðinn á útboðunum 1996 og 2001 séu gæði hins selda ekki skilgreind sem föst breyta en látið nægja að vísa í þau gæði sem hver bjóðandi bauð á hverjum tíma á ótilgreindum sölustöðum. Í fjórða lagi er tekið fram að grunnurinn sem notaður er fyrir 2001 sé ónothæfur þar sem almennt sé álitið að um mistök í tilboðsgerð hafi verið að ræða.  Í fimmta lagi er bent á ólíkar markaðs- og efnahagsaðstæður á árunum 1996 og 2001. Í sjötta lagi er bent á að rökfræðilega sé útilokað að útboðið 2001 geti verið til viðmiðunar um verð sem fengist hafi án samráðs, því að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefndu hafi einnig á því ári brotið gegn 10. gr. samkeppnislaga.  Í sjöunda lagi er bent á að mótsögn sé í málatilbúnaðinum þar sem samkeppnisyfirvöld hafi haldið því fram að verðlagning olíufélaganna hafi hækkað jafnt og þétt 1996-2001 vegna brota á 10. gr. samkeppnislaga en í dómkröfu stefanda er gert ráð fyrir að verð hafi lækkað á sama tímabili, einnig vegna brots á sömu grein.  Í áttunda lagi er bent á að marktækara hefði verið að reikna út kjörin 2001 á verðlagi 1996 til að fá út hið meinta tjón hefði aðferð stefnanda verið nothæf að öðru leyti. Í níunda lagi er tilgreint að rökréttara hefði verið fyrir stefnanda að miða við útboðið 1993 til viðmiðunar en ekki útboðið 2001. Þá tekur stefndi, Ker hf., fram að rétt hefði verið að fá sérfróða aðila til að meta ætlað tjón stefnanda. Varðandi varakröfu stefnanda telur stefndi, Ker hf., hana ekki standast.  Hann telur blasa við að fjárhagslegur bati væri fyrir hann og Olíuverslunina að bjóða einfalda eða tvöfalda viðbótarfjárhæð en ekki þrefalda svo sem stefndi, Skeljungur hf., gerði. Þá telur hann rangt að líta á framlegðina sem tjón stefnanda. Varðandi þrautavarakröfu stefnanda þá telur Ker hf. ekki vera heimild til að taka hana til greina.  Til vara krefst Ker hf. lækkunar á dómkröfum stefnanda og bendir á að ekki sé hægt að taka lengra tímabil en til 30. september 1999, því útboðið hafi bara verið til þriggja ára og að stefnanda hafi borið að takmarka tjón sitt. Þá telur stefndi, Ker hf., að hámark bóta til stefnanda sé 9.052.178 kr., en það sé sú upphæð sem stefndi, Skeljungur hf., greiddi meðstefndu. Þá er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt og einnig er því haldið fram að þeir séu að hluta til fyrndir.

 

Forsendur og niðurstöður.  

        Fyrir liggur í málinu viðurkenning stefndu á því, að þeir hafi haft með sér ólögmætt samráð á árinu 1996, er stefnanda var gert tilboð í gasolíu, bensín og steinolíu.  Stefnandi byggir bótakröfu sína á sakarreglunni.  Af hálfu stefndu er bótaskyldu ekki hafnað, en þeir telja að skilyrðum sakarreglunnar sé ekki fullnægt varðandi það hvort tjón hafi átt sér stað hjá stefnanda og þá hversu mikið það tjón er. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum sett fram tvær leiðir til útreiknings á kröfum sínum.  Ekki er tölulegur ágreiningur milli málsaðila heldur varðar ágreiningurinn réttmæti krafnanna.

             Í málinu liggur fyrir að stefnandi keypti inn gasolíu og bensín af stefnda, Skeljungi hf., á grundvelli útboðsins allt til 1. janúar 2002, en af hálfu stefndu hafa ekki verið gerðar sérstakar athugasemdir við það magn eldsneytis sem stefnandi telur sig hafa keypt á þessum tíma. Eins og málið liggur fyrir verður að miða við að öll þau innkaup stefnanda á gasolíu og bensíni, sem gerð er grein fyrir í stefnu, hafi farið fram á grundvelli samnings sem kominn var til vegna sameiginlegs brots stefndu á 10. gr. laga nr. 8/1993 við útboð stefnanda 3. júní 1996. Verður ekki fallist á, að stefnanda hafi mátt vera þessi atvik ljós í október 1999 eða að sérstakt tilefni hafi að öðru leyti verið fyrir stefnanda að segja upp samningi sínum við stefnda, Skeljung hf., á samningstímanum í því skyni að takmarka tjón sitt. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt stefndi, Olíuverslun Íslands hf., hafi síðla árs 1999 gert nokkrar tilraunir til að fá til sín olíuviðskipti stefnanda.         

             Í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar ber, við mat á tjóni stefnanda, að líta annars vegar til þess verðs sem hann greiddi í raun og veru fyrir þá gasolíu og bensín sem hann keypti af stefnda, Skeljungi hf., á grundvelli útboðsins 3. júní 1996. Hins vegar ber að horfa til þess verðs sem stefnandi hefði greitt fyrir sama magn á umræddum olíuvörum á sama tímabili, ef ekki hefði komið til nefnt brot stefndu á 10. gr. laga nr. 8/1993 við útboðið 3. júní 1996.

             Svo sem fyrr greinir byggir stefnandi aðalkröfu sína á samanburði útboðsins 3. júní 1996 við niðurstöðu í öðru útboði á árinu 2001, þar sem stefndi, Olíuverslun Íslands hf., átti lægsta boð. Telur stefnandi ljóst að ef ekki hefði komið til samráð stefndu á árinu 1996 hefði hlutfallslega sami afsláttur frá ráðandi verði fengist árið 1996 og fékkst í útboðinu 2001. Af hálfu stefnanda hefur í þessu sambandi verið vísað til reiknings frá stefnda, Skeljungi hf., vegna kaupa á gasolíu í desember 2001 og til reikninga frá stefnda, Olíuverslun Íslands hf., vegna kaupa á sömu vöru 2002 og 2003 sem gerð voru á grundvelli útboðs stefnanda árið 2001. Af hálfu stefnanda hafa hins vegar engin sérfræðileg gögn verið lögð fram um forsendur verðmyndunar á olíuvörum í útboðinu 1996 og þær bornar saman við þær forsendur útboðsins árið 2001. Að mati dómsins hefur stefnandi því ekki sýnt fram á, að þær forsendur sem réðu álagningu hjá einum stefnda, þ.e. Olíuverslun Íslands hf., á árinu 2001 hafi almennt átt við í júní 1996. Er það niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist sönnun þess að hlutfallslega sami afsláttur hefði verið boðinn fram af einhverjum stefndu í útboðinu 1996, ef ekki hefði komið til brot stefndu á 10. gr. laga nr. 8/1993. Verður því aðalkrafa stefnanda ekki tekin til greina.

Víkur þá næst að varakröfu stefnanda sem miðast við þær fjárhæðir sem stefndu sömdu um, að stefndi, Skeljungur hf., myndi greiða öðrum stefndu vegna sölu félagsins á eldsneyti til stefnanda.  Dómurinn fellst á það með stefnanda að brot á 10. gr. laga nr. 8/1993 sé almennt til þess fallið að hækka verð, eða a.m.k. komast hjá lækkun verðs, í því skyni að skapa ávinning í einu eða öðru formi. Eins og áður greinir liggur enn fremur fyrir í málinu að stefndu sammæltust um að einn stefndu, Skeljungur hf., greiddi meðstefndu tilteknar fjárhæðir við sölu á hverjum lítra eldsneytis til stefnanda eftir að samningur væri gerður. Verður þetta samkomulag stefndu ekki túlkað á aðra leið en að stefndu hafi talið sig hagnast á samráði sínu sem næmi a.m.k. þeim fjárhæðum sem skipta áttu um hendur við sölu á hverjum lítra eldsneytis. Einnig liggur fyrir að umrætt samkomulag var efnt, a.m.k. að hluta, og innti stefndi, Skeljungur hf., af hendi greiðslur til meðstefndu vegna viðskipta sinna við stefnanda. Þessar greiðslur fóru fram án þess að séð verði að stefndu, Ker hf. og Olíuverslun Íslands hf., hafi haft nokkurn kostnað af viðskiptum stefnda, Skeljungs hf., við stefnanda. Verða þær því ekki skýrðar með öðrum hætti en þeim að litið hafi verið svo á að hér væri um hreinan ávinning af samráði stefndu að ræða. Þá telur dómurinn óeðlilegt að ætla annað en að stefndi, Skeljungur hf., hafi ætlað sér sambærilegan ávinning af samningnum og aðrir stefndu.

             Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að gögn málsins bendi eindregið til þess að þær fjárhæðir, sem forsvarsmenn stefndu sammæltust um að skipta á milli sín við útboðið 3. júní 1996 við sölu á hverjum lítra af eldsneyti, hafi svarað til fjárhæða sem voru umfram eðlilega framlegð við sölu á gasolíu og bensíni til stefnanda samkvæmt forsendum útboðsins. Telur dómurinn þannig að verulegar líkur hafi verið leiddar að því, að ef samráð stefndu hefði ekki komið til, hefðu framboðin verð í útboðinu 3. júní 1996 a.m.k. orðið lægri sem nemur þeim fjárhæðum sem stefndu sammæltust um að skipta með sér.

             Af hálfu stefndu hafa engin gögn verið lögð fram til stuðnings þeirri afstöðu þeirra að samráð þeirra við útboðið 3. júní 1996 hafi enga þýðingu haft um þau verð sem boðin voru fram. Þá hafa engin gögn verið lögð fram af hálfu stefndu um innkaupsverð gasolíu og bensíns, breytilegan og fastan kostnað við sölu á þessum vörum eða önnur gögn sem gefa myndu vísbendingar um eðlilega framlegð og verðmyndun við sölu á vörunum við þær aðstæður sem uppi voru 1996. Með hliðsjón af stöðu aðila og almennum reglum réttarfars um sönnun verða stefndu að bera hallann af skorti á upplýsingum um þessi atriði. Leiðir meðal annars af þessu að hafna verður fullyrðingum stefndu þess efnis að þær fjárhæðir sem samið var um fyrir útboðið 1996 hafi svarað til venjulegrar eða eðlilegrar framlegðar stefnda, Skeljungs hf., við sölu á gasolíu og bensíni í viðskiptum sem þessum.

             Samkvæmt framansögðu er ekkert komið fram í málinu af hálfu stefndu sem styður fullyrðingar þeirra í þá átt að þær fjárhæðir, sem þeir sömdu um við útboð stefnanda 1996, hafi ekki bæst við þau verð sem stefnandi hefði getað vænst, ef ekkert brot á 10. gr. laga nr. 8/1993 hefði komið til.  Í samræmi við þetta verður lagt til grundvallar að í útboðinu 3. júní 1996 hafi verð á gasolíu verið a.m.k. 3,93 krónur umfram það verð sem boðið hefði verið, ef samráð stefndu hefði ekki komið til. Með sama hætti verður miðað við að umframverð á bensíni hafi numið 5,91 krónu, en kröfugerð stefnanda tekur ekki mið af sölu á steinolíu. Eins og áður greinir er ekki uppi ágreiningur með aðilum um það magn af eldsneyti sem stefnandi keypti af stefnda, Skeljungi hf., á umræddu tímabili. Svara þessar fjárhæðir, margfaldaðar með því magni gasolíu og bensíns sem stefnandi keypti á umræddu tímabili, til tjóns stefnanda.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að stefnanda hafi borið að takmarka tjón sitt með því að velta umræddum kostnaði út í verðlagið. Einkum er hér vísað til þess, að unnt hafi verið að hækka fargjöld SVR. Að mati dómsins er ekkert fram komið í málinu um að hugsanleg hækkun á fargjöldum SVR hefði leitt til takmörkunar tjóns. Er því málsástæða þessi ósönnuð. Þá hefur ekki verið sýnt fram á, að stefnandi sé ekki eigandi þeirrar kröfu sem hér um ræðir vegna stofnunar Strætó bs. og Vélamiðstöðvarinnar ehf. Þar af leiðandi er málsástæðu stefndu um aðildarskort hafnað.  Með vísan til þess sem að framan greinir verður varakrafa stefnanda tekin til greina.

Eins og að framan greinir er krafa stefnanda byggð á samráði því sem stefndu höfðu með sér og tekur til tímabilsins 1996 til 2001.  Stefnanda var ókunnugt um samráðið og það tjón sem hann varð fyrir á þessum tíma og gat þar af leiðandi ekki haft kröfur sínar uppi. Telur dómurinn því, eins og mál þetta liggur fyrir og einnig með vísan til 9. gr. i.f. laga nr. 38/2001, að stefnandi eigi rétt á dráttarvöxtum svo sem krafist er. Stefndu hafa þó mótmælt upphafstíma dráttarvaxta og með vísan til 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu eru eldri vextir en frá 4. apríl 2002 fyrndir. Skúli Magnússon héraðsdómari, tekur fram, að hann telji  að krafa stefnanda eigi að bera vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2002, en dráttarvexti einungis frá málshöfðun. 

Eftir úrslitum málsins verða stefndu dæmdir sameiginlega til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

             Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.

             Af hálfu stefnda, Skeljungs hf., flutti málið Hörður Felix Harðarsson hrl.

             Af hálfu stefnda, Olíuverslunar Íslands hf., flutti málið Gísli Baldur Garðarsson hrl.

             Af hálfu stefnda, Kers hf., flutti málið Oddgeir Einarsson hdl.

             Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Skúla Magnússyni héraðsdómara og Friðbirni Björnssyni löggiltum endurskoðanda.

 

D Ó M S O R Ð

             Stefndu, Skeljungur hf., Olíuverslun Íslands hf. og Ker hf., greiði stefnanda, Reykjavíkurborg, sameiginlega 72.733.904 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 4. apríl 2002 og til greiðsludags.

             Stefndu greiði stefnanda sameiginlega 1.200.000 krónur í málskostnað.