Print

Mál nr. 703/2009

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gagnaöflun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. desember 2009.

Nr. 703/2009.

The Bank of Tokyo Mitsubishi UFJ Ltd.

(Grímur Sigurðarson hdl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(Andri Árnason hrl.)

 

Kærumál. Gagnaöflun. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

T kærði úrskurð héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi beiðni dómstóls í Bandaríkjunum um öflun sönnunargagna vegna erlends einkamáls þar sem T var stefnandi en K stefndi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í íslenskum lögum væri ekki að finna sérstaka heimild til meðferðar fyrir dómi á beiðnum erlendra dómstóla um öflun sönnunargagna hér á landi til notkunar í dómsmálum sem rekin væru erlendis. Væri þörf atbeina íslenskra dómstóla til gagnaöflunar án þess að mál hafi verið höfðað fyrir íslenskum dómstólum yrði að uppfylltum lögmæltum skilyrðum að leita hans eftir ákvæðum XII. kafla laga nr. 91/1991. Þá var Haag-samningur um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum, sem beiðnin byggði á, ekki talinn hafa öðlast lagagildi hér á landi. Var málinu því vísað frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2009, þar sem beiðni dómstóls í Bandaríkjunum, United States Bankruptcy Court Southern Disctrict of New York, um öflun sönnunargagna vegna erlends einkamáls var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið 2. júlí 2009 bréf til Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem framsend var beiðni Logos lögmannsþjónustu 29. júní 2009 um öflun sönnunargagna vegna erlends einkamáls. Beiðnin fylgdi bréfi ráðuneytisins. Í henni var „meðfylgjandi réttarbeiðni“ send ráðuneytinu „með vísan til 1. og 2. gr. Hague samningsins frá 1970 um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum.“ Skjalið sem fylgdi var á ensku og bar yfirskrift United States Bankruptcy Court Southern District of New York. Fól það í sér beiðni um öflun sönnunargagna í máli sóknaraðila gegn varnaraðila sem sagt var rekið fyrir hinum bandaríska dómstóli.

Í tilefni af þessum gögnum var háð dómþing í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. júlí 2009 og bókað að tekin væri fyrir beiðni bandaríska dómstólsins. Þá var bókað um framlagningu skjala og um að mætt væri af hálfu „sóknaraðila“ og „varnaraðila“ án þess að fram kæmi hverjir þeir væru. Við síðari fyrirtökur málsins var bókað að fyrir væri tekin beiðni sóknaraðila „um öflun sönnunargagna vegna erlends einkamáls á grundvelli 1. mgr. 2. gr. Haag-samnings um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum.“

Í íslenskum lögum er ekki að finna sérstaka heimild til meðferðar fyrir dómi á beiðnum erlendra dómstóla um öflun sönnunargagna hér á landi til notkunar í dómsmálum sem rekin eru erlendis. Sé þörf atbeina íslenskra dómstóla til gagnaöflunar án þess að mál hafi verið höfðað fyrir íslenskum dómstólum verður að uppfylltum lögmæltum skilyrðum að leita hans eftir ákvæðum XII. kafla laga nr. 91/1991.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, The Bank of Tokyo Mitsubishi UFJ Ltd., greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2009.

Mál þetta var þingfest 24. júlí 2009. Það var tekið til úrskurðar 22. október sl. um kröfu varnaraðila um frávísun málsins.  

Mál þetta er til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt beiðni  dómstóls í Bandaríkjunum, United States Bankruptcy Court Southern Disctrict New York, sem framsend var dóminum með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 2. júlí s.l. Farið er fram á að aflað verði sönnunargagna vegna erlends einkamáls á grundvelli 1. mgr. 2. gr. Haag-samnings um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum, en sóknaraðili málsins er stefnandi máls þess sem er til meðferðar hjá hinum erlenda dómstóli, en varnaraðili, Kaupþing banki hf., er þar stefndi.

Í gögnum málsins kemur fram að tilefni beiðni um öflun sönnunargagna sé dómsmál sem rekið er fyrir bandarískum dómstólum á milli aðila máls þessa. Í réttarbeiðni frá hinum erlenda dómstól kemur meðal annars fram að ástæða þess að fara þurfi þessa leið við gagnaöflum sé að varnaraðili hafi neitað að leggja fram tiltekin gögn þar sem hann hafi engin yfirráð yfir skjölum og skrám Nýja Kaupþings og að hann muni ekki útvega gögn sem séu í vörslum og undir yfirráðum Nýja Kaupþings. Í þinghaldi í málinu 29. september s.l. var mætt af hálfu Nýja Kaupþings og neitað að verða við áskorun um að afhenda gögn, en áskoruninni hafði verið beint til félagsins skriflega.

Sóknaraðili, The Bank of Tokyo Mitsubishi UFJ Ltd., krefst þess að Nýja Kaupþing banka verði gert að afhenda gögn þau sem talin eru upp í réttarbeiðni hins erlenda dómstóls og er vísað til beiðninnar um nánari upptalningu á þeim gögnum.

Varnaraðili, Kaupþing banki hf., gerir þá kröfu aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Í þessum hluta málsins er einungis til úrlausnar aðalkrafa varnaraðila um frávísun málsins frá dómi og gerir sóknaraðili þær kröfur í þeim hluta málsins að frávísunarkröfu verði hafnað og varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.

I.

Helstu málsatvik að baki málarekstri þeim, fyrir hinum erlenda dómstól, sem krafa sóknaraðila um gagnaöflun tengist, varða samkvæmt gögnum málsins uppgjör á gjaldeyris­skiptasamningi aðila. Fyrir mun liggja að sóknaraðili efndi sinn hluta samningsins, en ekki hafi orðið af efndum af hálfu varnaraðila, að því er fram kemur í greinargerð hans vegna þess að Fjármálaeftirlitið hafi ákveðið að nýta heimild Alþingis með vísan til laga nr. 125/2008, um sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði, til að skipa varnaraðila skilanefnd sem tæki við öllum heimildum stjórnar varnaraðila.

II.

Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að beiðni sóknaraðila sé sett fram með vísan til og á grundvelli Haag-samningsins um öflun sönnunargagna erlendis í einkamálum og verslunarmálum frá 18. mars 1970, sbr. orðalagið á bls. 1 í beiðninni þess efnis að „[t]he Honourable Martin Glenn, United States Bankruptcy Judge ... hereby respectfully requests ... in accordance with the provisions of the Hague Convention on the Taking of Evidence Abroad in Civil or Commercial Matters ...“. Varnaraðili bendir annars vegar á að umræddur samningur hafi ekki lagagildi hér á landi. Af því leiði að mati varnaraðila að ekki stoði að krefjast fyrir hérlendum dómstólum  aðgangs að gögnum á grundvelli hans. Umræddur samningur teljist ekki gild réttarheimild að íslenskum rétti þar sem hann hafi ekkert lagagildi. Þá sé fyrirliggjandi beiðni  í eðli sínu íþyngjandi í garð þess sem hún beinist að. Hins vegar bendir varnaraðili á að umræddur samningur hafi ekki verið birtur í C-deild stjórnartíðina. Af því leiði jafnframt að ekki stoði að byggja á umræddum samningi gagnvart innlendum aðilum, sbr. einnig lög nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað. Af framangreindu leiði að mati varnaraðila að ekki stoði að reisa fyrirliggjandi beiðni á umræddum Haag-samningi, svo sem gert sé, og verði þegar af þeim ástæðum að vísa beiðninni frá dómi, en ellegar að hafna henni af sömu ástæðum.

Þá byggir varnaraðili á því að fyrirliggjandi beiðni sé mjög víðtæk. Óskað sé eftir hvers konar gögnum er tengist reikningum sem varnaraðili kunni að eiga eða hafa átt hjá Nýja Kaupþingi banka hf. og hvers konar gögnum er tengist þeirri málsástæðu (kröfu, e. claim) sóknaraðila að hann hafi eignarrétt, eða ígildi eignarréttar, í fjármunum sem hreyfðir voru af reikningi hjá JP Morgan. Að mati varnaraðila fái þessi framsetning á beiðni sóknaraðila ekki staðist. Varnaraðili byggir á því að ákvæði laga nr. 91/1991 verði ekki talin fela í sér þá reglu, óháð því hvort gagnaöflun tengist máli sem rekið er fyrir erlendum dómstól, að aðili geti óskað eftir hvers konar gögnum í von og óvon um að einhver þeirri innihaldi upplýsingar sem mögulega styðji málatilbúnað aðila í dómsmáli. Fyrirliggjandi beiðni sé þessu marki brennd, og endurspegli raunar bandarískar réttarfarsreglur um öflun sönnunargagna sem séu almennt taldar mun víðtækari en hérlendar reglur. Af beiðninni verði heldur ekki fullkomlega ráðið hvaða einstöku og lögvörðu hagsmuni sóknaraðili hafi af öllum þeim gögnum sem krafist sé aðgangs að. Þá sé ljóst að beiðnin sé, vegna þess hversu víðtæk og óljós hún er, verulega íþyngjandi og raunar á skjön við sjónarmið um meðalhóf.  Telur varnaraðili, að yrði fallist á beiðnina, fæli það í sér mjög víðtækar heimildir að íslenskum rétti til öflunar sönnunargagna. Þá skal og t.d. bent á að í 2. tölul. beiðninnar sé óskað eftir öllum upplýsingum varðandi reikning nr. 3410301 án þess að beiðnin sé sérstaklega afmörkuð við upplýsingar er tengjast varnaraðila. Telur varnaraðili allt framangreint leiða til þess að vísa eigi beiðninni frá dómi.

Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi krafist afhendingar á sumum þeirra gagna sem hér er beðið um í málinu Ö-18/2009 sem sé jafnframt rekið fyrir dóminum. Telur hann að vart fái staðist að hafa uppi kröfu um sömu hagsmuni í fleiri en einu máli sem rekin séu fyrir dóminum á sama tíma. Þetta geti einnig leitt til þess að vísa beri beiðninni frá dómi, í heild eða að hluta.

Um lagarök vísar varnaraðili einkum til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og meginreglna einkamálaréttarfars. Varnaraðili vísar jafnframt til laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað svo og tvíeðliskenningu þjóðaréttar.

III.

Sóknaraðili byggir kröfu sína um að frávísunarkröfu verði hafnað meðal annars á því að engar lagareglur komi í veg fyrir að beiðnin sé afgreidd ein og hún er sett fram. Samið hafi verið um aðild málsins og málið sé í réttum farvegi. Í beiðni hins erlenda dómstóls sé útlistað hver sé ástæða beiðninnar og ljóst sé að lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála geri ráð fyrir slíkri málsmeðferð. Þá sé ekkert því til fyrirstöðu að erlendur dómstóll sé aðili að dómsmáli hérlendis. Ljóst sé að Ísland sé aðili að Haag-samningnum um öflun sönnunargagna. Ekki skipti máli hvort samningurinn hafi lagagildi hér á landi eða hafi verið birtur í C-deild stjórnartíðinda og engu skipti þótt löndin hafi ekki gert með sér gagnkvæman samning, aðalatriði sé að heimildin sé fyrir hendi í lögum nr. 91/1991 og að henni verði beitt um ágreiningsefnið.

IV.

Krafa sóknaraðila sem kemur fram í framlagðri beiðni er reist á margnefndum Haag- samningi um öflun sönnunargagna í einkamálum og verslunarmálum. Með lögum nr. 53/2008 um breytingu á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 var 2. mgr. 76. gr. laganna breytt og bætt við nýjum málslið, svohljóðandi: „Ef beiðni kemur frá öðru ríki skal haga gagnaöflun í samræmi við þjóðréttarsamning, ef slíkur samningur er í gildi við hlutaðeigandi ríki, enda fari það ekki í bága við ákvæði laga þessara.“

Í málinu þykir hafa verið sýnt fram á að nefndur Haag-samningur hefur ekki öðlast lagagildi hér á landi og ekki hefur verið sýnt fram á að sérstakur þjóðréttarsamningur sé í gildi á milli Íslands og Bandaríkjanna. Það er því ljóst að réttindi verða ekki byggð á þeim lagagrunni sem gert er í máli þessu og því verður þegar af þeirri ástæðu að vísa því frá dómi.

Í ljósi málsatvika allra þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.