Print

Mál nr. 442/2000

Lykilorð
  • Skaðabótamál
  • Byggingarleyfi
  • Skipulag
  • Stjórnsýsla

Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. mars 2001.

Nr. 442/2000.

Kristján Grétar Tryggvason

(Magnús Thoroddsen hrl.)

gegn

Reykavíkurborg

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

 

Skaðabótamál. Byggingarleyfi. Skipulag. Stjórnsýsla.

K leysti út byggingarleyfi, sem R hafði veitt honum, eftir að leyfisveitingin hafði verið kærð til umhverfisráðherra á grundvelli 8. mgr. 8. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978. Svo fór að leyfið var fellt úr gildi með úrskurði ráðherra og stöðvuðust þá allar framkvæmdir á vegum K. K krafði R um greiðslu skaðabóta vegna tafa sem urðu á verki hans vegna þessa. Ekki var annað fram komið en að meðferð byggingarleyfisumsóknar K hefði í einu og öllu farið eftir ákvæðum laga nr. 54/1978. Á það var ekki fallist með K að samningur eða samningsígildi hefði komist á með honum og R. Talið var að hvort sem K var kunnugt um framkomnar kærur eður ei, er hann leysti út byggingarleyfi sitt, hefði honum mátt vera ljóst að leyfisútgáfan var kæranleg til æðra stjórnvalds lögum samkvæmt. Því yrði ekki annað talið en að K hefði á eigin áhættu hafið framkvæmdir sínar. Þá var ekki fallist á það með K að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár eða 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði verið brotin af hálfu R. Var R því sýknaður af kröfum K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar með stefnu 7. desember 2000 og krefst þess aðallega, að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og stefndi dæmdur til að greiða sér 8.076.465 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 frá 25. september 1997 til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum áfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður þá felldur niður.

Réttargæslustefndu í héraði og fyrir Hæstarétti eru Arnar Jónsson, Gunnar Dyrset, Jóhanna Bogadóttir og Vilhjálmur Hjálmarsson.

I.

Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um skaðabætur vegna verktafa með vísan til þess að allar byggingarframkvæmdir hans að Þórsgötu 2 í Reykjavík hafi stöðvast einni viku eftir uppkvaðningu úrskurðar umhverfisráðherra 20. nóvember 1997 og þær ekki hafist að nýju fyrr en 14. apríl 1998. Hafi tafir þessar í 127 daga valdið honum margháttuðu tjóni og fjárútlátum.

Málavextir eru þeir að 10. júlí 1997 veitti byggingarnefnd Reykjavíkur áfrýjanda leyfi til að byggja þrílyft hús á eignarlóðinni nr. 2 við Þórsgötu og var leyfið staðfest í borgarráði Reykjavíkur 18. júlí sama ár. Með kærum 23. og 29. júlí og 1. ágúst 1997 kærðu réttargæslustefndu leyfisveitinguna til umhverfisráðherra á grundvelli 8. mgr. 8. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978. Gjöld vegna leyfisumsóknar áfrýjanda numu alls 2.346.396 krónum og samkvæmt greiðslukvittun skrifstofu borgarverkfræðings innti áfrýjandi þá fjárhæð af hendi 21. ágúst 1997 og leysti þar með byggingarleyfið út. Hóf hann framkvæmdir í beinu framhaldi.

Kærumálum réttargæslustefndu lauk með því að umhverfisráðherra felldi byggingarleyfi áfrýjanda úr gildi með úrskurði 20. nóvember 1997, á þeim forsendum að þörf hafi verið deiliskipulags þessa byggingarreits. Stöðvuðust þá allar framkvæmdir á vegum áfrýjanda. Að fengnum úrskurði ráðherra fundaði áfrýjandi með fulltrúum stefnda 1. desember 1997 og í framhaldi af þeim fundi var teikningum áfrýjanda breytt og þær sendar til byggingarnefndar á ný 5. desember 1997 með beiðni um byggingarleyfi. Lauk meðferð þeirrar leyfisumsóknar svo, að nýtt byggingarleyfi til handa áfrýjanda fékkst samþykkt í byggingarnefnd 26. mars 1998 og var það staðfest af borgarstjórn 2. apríl sama ár. Á grundvelli 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem gildi tóku 1. janúar 1998, kærðu réttargæslustefndu nýja byggingarleyfið til úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál, sem þá hafði tekið við hlutverki umhverfisráðherra sem úrskurðaraðili í málum af þessu tagi. Með úrskurði 5. júní 1998 hafnaði nefndin kröfum réttargæslustefndu um ógildingu byggingarleyfisins.

II.

Kröfur áfrýjanda eru á því reistar að stefndi hafi vanefnt samning eða ígildi samings sem hann hafi gert við áfrýjanda um útgáfu byggingarleyfis fyrir fjölbýlishúsi á greindri lóð gegn því að hann innti af hendi greiðslu að fjárhæð 2.346.396 krónur. Vegna vanefnda þessara beri stefndi skaðabótaábyrgð á öllu því tjóni sem áfrýjandi hafi orðið fyrir þegar hann gat ekki haldið framkvæmdum sínum á lóðinni óhindrað áfram samkvæmt upphaflegum teikningum af húsinu, eins og þær höfðu verið samþykktar af borgaryfirvöldum, byggingarleyfi fengist fyrir og greitt hafði verið fyrir. Áfrýjandi bendir á, að hefði stefndi látið gera deiliskipulag fyrir þetta svæði hefði umhverfisráðherra ekki fellt leyfið úr gildi.

Af hálfu stefnda er því hafnað að samningur eða samningsígildi hafi komist á milli þeirra. Skaðabótaábyrgð innan samninga komi því ekki til álita og beri að hafna málatilbúnaði áfrýjanda, sem á því sé reistur að um slíka bótaábyrgð stefnda sé að ræða. Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að byggingarleyfið, sem mál þetta er sprottið af, hafi í alla staði verið lögmætt og engin saknæm háttsemi viðhöfð við útgáfu þess. Engin þörf hafi verið á deiliskipulagi á þessu svæði. Það hafi verið stefnda að meta þá þörf og það hafi hann gert með aðalskipulagi 1990-2010, sbr. 11. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

Áfrýjanda og stefnda greinir ennfremur á um það hvort stefndi hafi brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafna bótaskyldu sinni gagnvart áfrýjanda. Áfrýjandi segir stefnda hafa 9. desember 1999 greitt eiganda og byggjanda á lóðinni nr. 53b við Laugaveg í Reykjavík 24,5 milljónir króna í skaðabætur vegna verktafa er orðið hafi þegar byggingarleyfi hans hafi verið fellt úr gildi, og þetta séu sambærileg tilvik. Stefndi vísar þessu á bug, þarna sé ólíku saman að jafna. Á Laugavegi hafi orðið tafir í tvö ár á byggingu stórs húss, og talið hafi verið að stefndi hafi þar kallað yfir sig bótaskyldu þar sem deiliskipulag hefði þurft að gera, en nýtingarhlutfall lóðarinnar hafi farið fram úr því hlutfalli sem ákveðið hafi verið fyrir hverfið í aðalskipulagi. Hafi stefndi því viðurkennt bótaskyldu vegna sakar og fallist á að greiða bætur, sem hafi verið 10,8 milljónir króna, en auk þess hafi verið keypt réttindi. Í tilviki áfrýjanda hafi deiliskipulag ekki skort. Hafi það samkvæmt 1. mgr. 11. gr. þágildandi skipulagslaga verið á valdi borgarstjórnar að meta hvort þörf væri á deiliskipulagi á svæðinu, sbr. og 13. gr. sömu laga, nú 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, en nýtingarhlutfall lóðarinnar hafi verið 1,1 og því bæði verið innan marka aðalskipulags Reykjavíkur og minna en á mörgum lóðum í næsta nágrenni við Þórsgötu 2. Hafi stefndi eigi talið þörf á að bíða eftir deiliskipulagi til að leyfa þá einu húsbyggingu sem mál þetta snýst um. Niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hafi staðfest þetta og af því megi ráða, að úrskurður umhverfisráðherra hefði verið ógiltur með dómi hefði áfrýjandi látið á það reyna. Stefndi bendir og á að hann hafi ekki viðurkennt bótaskyldu í málinu, enda þótt bætur hafi verið boðnar til sátta, sem áfrýjandi hafi hafnað.

III.

Svo sem fyrr greinir er mál þetta risið af atvikum sem urðu í gildistíð byggingarlaga nr. 54/1978, sem leyst voru af hólmi 1. janúar 1998 með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. Í samræmi við ákvæði 11. gr. laga nr. 54/1978, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga, leitaði áfrýjandi eftir leyfi byggingarnefndar Reykjavíkurborgar fyrir framkvæmdum þeim er hann hugðist ráðast í á lóðinni númer 2 við Þórsgötu í Reykjavík. Ekki er annað fram komið en að meðferð þeirrar umsóknar hafi í einu og öllu farið eftir ákvæðum laganna. Úrslit málsins velta þess vegna fyrst og fremst á því hvort talið verði að samningur eða ígildi samnings hafi komist á með áfrýjanda og stefnda með útgáfu umrædds byggingarleyfis og hvort stefndi verði gerður ábyrgur fyrir því að leyfið var síðar úr gildi fellt með úrskurði æðra stjórnvalds.

Við úrlausn málsins ber til þess að líta að umrætt leyfi byggingarnefndar var gefið út á grundvelli þágildandi byggingarlaga, enda bar áfrýjanda að afla sér slíks leyfis vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda, sbr. 9. gr. laganna. Sveitarstjórnir og byggingarnefndir koma undir þessum kringumstæðum fram gagnvart leyfisumsækjendum sem stjórnvöld en ekki sem samningsaðilar. Útgáfa leyfis eða höfnun leyfisumsóknar felur því í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna, en ekki viljayfirlýsingu, sem ætlað er að hafa áhrif að samningarétti. Með áfrýjanda og stefnda var því hvorki gerður samningur né komst á samningsígildi. Hefur af hálfu stefnda og verið réttilega á það bent að stjórnvald getur í þessum tilvikum ekki lofað framkvæmdaraðila að hann megi, að byggingarleyfinu fengnu, treysta því að ekkert komi í veg fyrir framkvæmdir hans, enda er stjórnvaldinu það ókleift, meðal annars vegna þess að byggingarleyfi er kæranlegt. Er þar um lögbundinn kærurétt að ræða, sem í tilviki réttargæslustefndu byggði ekki einvörðungu á almennu ákvæði 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, heldur og á sérákvæði 1. málsliðar 8. mgr. 8. gr. þágildandi byggingarlaga. Hvort sem áfrýjanda var kunnugt um framkomnar kærur réttargæslustefndu eður ei, er hann leysti út byggingarleyfi sitt 21. ágúst 1997, mátti honum vera ljóst að leyfisútgáfan var kæranleg til æðra stjórnvalds lögum samkvæmt. Verður með hliðsjón af þessu ekki annað talið en að hann hafi á eigin áhættu hafið framkvæmdir sínar.

Stefndi hefur í málflutningi sínum nægilega sýnt fram á, með vísan til samþykkts aðalskipulags og nýtingarhlutfalls á byggingarlóðinni, að ekki hafi verið þörf á deiliskipulagi fyrir reitinn. Hann hefur og sýnt fram á að á annan veg hafi farið um bótagreiðslur stefnda vegna tafa á Laugavegi 53b, og eru tilvik þessi því ekki sambærileg. Verður ekki talið að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár eða 11. gr. sjórnsýslulaga hafi verið brotin af hálfu stefnda.

Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kristján Grétar Tryggvason, greiði stefnda, Reykjavíkurborg, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2000.

 Mál þetta, sem dómtekið var 18. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristjáni Grétari Tryggvasyni, kt. 170338-2869, Þórsgötu 2, Reykjavík, á hendur borgarsjóði Reykjavíkur, kt. 530269-7609, Ráðhúsinu við Tjörnina í Reykjavík, með stefnu sem birt var 2. desember 1999.

 Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 8.046.465 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, af 59.760 krónum frá 25. september 1997 til 26. mars 1998, af 696.942 krónum frá þeim degi til 26. júní 1998, af 883.692 krónum frá þeim degi til 16. ágúst 1998, af 1.054.257 krónum frá þeim degi til 10. september 1998, af 4.017.937 krónum frá þeim degi til 23. desember 1998, af 4.428.407 krónum frá þeim degi til 30. júní 1999 og af 8.079.465 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi annarrar lægri fjárhæðar úr hendi stefnda að mati dómsins, auk dráttarvaxta svo sem í aðalkröfu greinir.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda þar með talinn matskostnaður að fjárhæð 506.846 krónur, allt samkvæmt málskostnaðarreikningi.

 Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.

I.

Málavexti kveður stefnandi vera þá að 10. júlí 1997 hafi byggingarnefnd Reykjavíkur veitt stefnanda leyfi til að byggja þrílyft fjölbýlishús á lóðinni nr. 2 við Þórsgötu í Reykjavík.  Leyfi þetta hafi síðan verið staðfest í borgarráði Reykjavíkur 18 s.m.  Hafi stefnandi greitt  fyrir byggingarleyfið, úttektir og viðbótargatnagerðargjöld, samtals 2.346.396 krónur.

Stefnandi segir að réttargæslustefndu, Vilhjálmur Hjálmarsson, Jóhanna Bogadóttir og Gunnar Dyrset, Óðinsgötu 7 og Arnar Jónsson, Óðinsgötu 9, Reykjavík, hafi með bréfum, dags. 23. og 29. júlí og 1. ágúst 1997, kært byggingarleyfið til umhverfisráðherra og  krafist að það yrði fellt úr gildi.  Og með úrskurði umhverfisráðherra, dags. 20. nóvember 1997, hafi byggingarleyfið verið fellt úr gildi.  Með því hafi allar byggingarframkvæmdir stefnanda á lóðinni stöðvast og hafi þær legið niðri frá 27. nóvember 1997 til 14. apríl 1998, þ.e. í a.m.k. 127 daga.

Hinn 1. desember 1997 var að sögn stefnanda haldinn fundur hjá byggingarfulltrúa út af máli þessu.  Fundinn hafi borgarlögmaður, Magnús Sædal Svavarsson byggingarfulltrúi, Bjarni Þór Jónsson, skrifstofustjóri byggingarfulltrúa, Ingimundur Sveinsson, arkitekt hússins, stefnandi og Magnús Thoroddsen hæstaréttarlögmaður setið.  Á fundinum hefði verið farið yfir stöðu málsins og þess farið á leit af hálfu byggingarfulltrúa, að teikningu hússins yrði eitthvað breytt til þess að koma nokkuð til móts við kvörtunarefni kærenda.  Hafi stefnandi orðið við þeim tilmælum, en jafnframt hafi því verið lýst yfir af hans hálfu, að borgarsjóður bæri skaðabótaábyrgð á öllu því tjóni, er hann yrði fyrir vegna þessa.

Í framhaldi af þessu kveður stefnandi arkitekt hússins hafa breytt teikningunni með því að setja boga á útvegg í stofu - í stað horns - og færa svalir.  Við þetta hafi stofur íbúðanna minnkað nokkuð.  Þetta hafi leitt til þess að einnig hefði þurft að breyta burðarvirkjum í bílskúr.  Þannig breyttar hafi teikningar að húsinu verið sendar 5. desember 1997 fyrir byggingarnefnd á ný með beiðni um byggingarleyfi.

Hinn 30. janúar 1998 hafi stefnandi, arkitekt hússins og Magnús Thoroddsen hrl. átt fund með Þorvaldi S. Þorvaldssyni, skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar, og Helgu Bragadóttur, arkitekt hjá borgarskipulagi, út af máli þessu.  Í framhaldi af þeim fundi og að fengnu áliti borgarlögmanns, dags. 31. janúar 1998, hafi skipulagsnefnd ákveðið 2. febrúar 1998 að senda teikningarnar í grenndarkynningu, skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73, 18. maí 1997.  Þeirri kynningu hefði lokið 13. mars 1998.  Og á fundi byggingarnefndar Reykjavíkur 26. mars 1998 hafi hin nýja umsókn um byggingarleyfi verið samþykkt.  Borgarstjórn hefði síðan staðfesti byggingarleyfið á fundi 2. apríl 1998.

Þá greindi stefnandi frá því að með kærubréfi til úrskurðarnefndar skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, dags. 6. apríl 1998, frá Arnhildi Á. Kolbeins, Vilhjálmi Hjálmarssyni, Jóhönnu Bogadóttur og Gunnari Dyrset, Óðinsgötu 7 og Arnari Jónssyni og Þórhildi Þorleifsdóttur, Óðinsgötu 9, Reykjavík, hafi þess verið krafist, að byggingarleyfið yrði fellt úr gildi.  Lögmaður stefnanda hefði ritaði úrskurðar-nefndinni ítarlega greinargerð, dags. 27. apríl 1998, þar sem mótmælt hefði verið ógildingarkröfu á byggingarleyfinu.  Og með úrskurði, uppkveðnum 5. júní 1998, hafi úrskurðarnefndin hafnað kröfum kærenda um að byggingarleyfið yrði fellt úr gildi.

Svo sem að framan er rakið hafi byggingarframkvæmdir að Þórsgötu 2 stöðvast í a.m.k. 127 daga vegna þess, að byggingarleyfið var fellt úr gildi með úrskurði umhverfisráðherra 20. nóvember 1997.  Þessar tafir telur stefnandi hafa valdið sér margs konar tjóni og fjárútlátum, m.a. vegna sérfræðiþjónustu, er hann hefði þurft að kaupa vegna kærumálanna og breytinga á teikningum hússins.  Með bréfi lögmanns stefnanda til borgarlögmanns, dags. 12. febrúar 1998, hafi lögmaðurinn áskilið stefnanda rétt til að krefjast skaðabóta úr hendi borgarsjóðs þegar fjárhæð tjónsins lægi fyrir.  Af hálfu stefnda hafi bótaskyldu borgarsjóðs Reykjavíkur á tjóni stefnanda hins vegar alfarið verið hafnað.

Stefnandi kveðst 3. febrúar 1999 hafa farið fram á dómkvaðningu tveggja sérfróðra manna til að meta hæfilegar skaðabætur til stefnanda vegna verktafanna og hafi þeir Benjamín Magnússon arkitekt og Stanley Pálsson verkfræðingur verið dómkvaddir til að framkvæma hið umbeðna mat 23. sama mánaðar.  Þeir hafi síðan lokið gerðinni 21. júní 1999.

Stefnandi kveðst hafa talið 3. tl. matsgjörðarinnar gallaðan, órökstuddan og ófullnægjandi.  Og með bréfi lögmanns stefnanda til matsmanna, dags. 30. júní 1999, hafi verið óskað endurskoðunar á 3. tl. matsgerðarinnar. Því hafi matsmenn hafnað með bréfi, dags. 13. júlí 1999.  Hinn 17. ágúst 1999 hafi lögmaður stefnanda krafist þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur legði fyrir matsmenn með úrskurði að ljúka mati sínu efnislega í samræmi við dómkvaðninguna.  Með úrskurði uppkveðnum 12. október 1999 hafi verið lagt fyrir matsmenn að vinna mat sitt betur þar eð það væri ófullnægjandi hvað 3. tl. þess áhrærði.  Þetta hafi matsmenn gert með bréfi, dags. 26. október 1999, sem þó hafi í engu breytt fjárhæðum mats þeirra frá 21. júní 1999.

II.

Af hálfu stefnda eru málavexti raktir á eftirfarandi hátt:  Byggingarleyfisumsókn stefnanda vegna nýbyggingar að Þórsgötu 2 var fyrst lögð fram í skipulagsnefnd þann 15. nóvember 1996 og var ákveðið að leita umsagnar Árbæjarsafns og umhverfimálaráðs, en umsóknin gerði ráð fyrir að gamalt hús á lóðinni yrði rifið.  Að fengnum jákvæðum umsögnum frá Árbæjarsafni og umhverfimálaráði samþykkti skipulagsnefnd nýbygginguna fyrir sitt leyti þann 6. janúar 1997.  Samþykkt skipulagsnefndar var staðfest af borgarráði 7. s.m. Byggingarleyfisumsóknin var síðan lögð fyrir byggingarnefnd sem sendi umsóknina í grenndarkynningu samkvæmt 3.1.1. gr. í þágildandi byggingarreglugerð nr. 292/1979 með síðari breytingum (breyting sett 12. jan. 1983).  Við grenndarkynninguna komu fram harðorð mótmæli frá eigendum fasteigna í næsta nágrenni, m.a. réttargæslustefndu í máli þessu.  Byggingarnefndin vísaði því næst málinu til nýrrar skoðunar skipulagsnefndar og var þar fjallað um byggingarleyfisumsóknina ásamt þeim athugasemdum sem borist höfðu.  Nefndin taldi fram komnar athugasemdir ekki þess eðlis að þær breyttu fyrri ákvörðun nefndarinnar um að leyfa umrædda byggingu.

Byggingarleyfi fyrir byggingu á lóðinni nr. 2 við Þórsgötu til handa stefnanda var samþykkt af byggingarnefnd Reykjavíkur 10. júlí 1997, en fyrir nefndinni lágu jafnframt mótmæli nágranna.  Byggingarleyfið var staðfest í borgarráði 18. s.m.  Nokkrum dögum eftir að borgarráð staðfesti leyfið var það kært af réttargæslustefndu til umhverfisráðherra, á grundvelli 7. mgr. 8. gr. þágildandi byggingarlaga nr. 54/1978.  Umhverfisráðherra felldi byggingarleyfið úr gildi með úrskurði dags. 20. nóvember s.á.

Stefnandi leysti út byggingarleyfið 21. ágúst s.á. og hóf því framkvæmdir eftir að það hafði verið kært og tók því sjálfur áhættu af byrjunarframkvæmdum.  

Um framhald samskipta stefnanda og stefnda þykir af hálfu stefnda rétt að eftirfarandi komi fram:  Í málavaxtalýsingu í stefnu er farið rangt með það sem gerðist á fundi hjá byggingarfulltrúa 1. desember 1997.  Á þeim fundi kom fram skýr afstaða byggjandans og lögmanns hans að leita aðstoðar dómstóla til að fá úrskurði umhverfisráðherra hnekkt.  Það var samdóma álit þeirra að úrskurður umhverfisráðherra væri slíkum annmörkum háður að hann yrði fellur úr gildi með dómi.  Á þessum fundi var ekki sett fram bótakrafa á hendur borgarsjóði.  Á fundinum kom fram, að Alþingi hafði sett ný lög um skipulags - og byggingarmál, sbr. lög nr. 73/1997.  Samkvæmt 7. mgr. 43. gr. þeirra laga er byggingarnefnd heimilt að samþykkja nýbyggingar í þegar byggðu hverfi þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir að undangenginni grenndarkynningu.  Skipulags- og byggingarlögin tóku gildi 1. janúar 1998.

Stefnandi ákvað sjálfur að láta ekki reyna á gildi úrskurðar umhverfisráðherra fyrir dómstólum en sú málsmeðferð hefði tafið framkvæmdir um langan tíma.  Þess í stað lét hann gera minniháttar breytingar á áður samþykktum uppdráttum og sótti um nýtt byggingarleyfi á grundvelli nýrra skipulags- og byggingarlaga.  Nýtt byggingarleyfi til handa stefnanda var samþykkt í byggingarnefnd 26. mars 1998 og staðfest af borgarstjórn 2. apríl s.á.

Þetta byggingarleyfi var, af hálfu réttargæslustefndu, kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála, sem tekið hafði við hlutverki umhverfisráðherra í úrskurðarmálum samkvæmt nýjum skipulags- og byggingarlögum.  Úrskurðarnefndin hafnaði kröfum kærenda, réttargæslustefndu, með úrskurði dags. 5. júní 1998.

Í viðræðum stefnanda og lögmanns hans við borgaryfirvöld og bréfaskiptum vegna máls þessa var öllum bótakröfum stefnanda hafnað, enda skoðun stefnda að bótagrundvöllur væri ekki fyrir hendi og reyndar samdóma álit aðila að úrskurður umhverfisráðherra um ógildingu byggingarleyfis byggðist á ólögmætum sjónar-miðum.

III.

Stefnandi styður skaðabótakröfu sína eftirfarandi röksemdum:  Málsaðiljar gerðu með sér samning.  Samkvæmt honum veitti stefndi stefnanda byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á lóðinni nr. 2 við Þórsgötu í Reykjavík.  Fyrir leyfi þetta galt stefnandi alls 2.346.396 krónur.  Eftir það hóf stefnandi byggingu hússins í góðri trú.  Umhverfisráðherra felldi byggingarleyfið úr gildi, með úrskurði uppkveðnum 20. nóvember 1997.  Með bréfi byggingafulltrúans í Reykjavík til stefnanda og byggingarmeistara við húsið, dags. 27. nóvember 1997, voru byggingaframkvæmdir stefnanda stöðvaðar.

Á fundi með byggingafulltrúanum og fleirum, er haldinn var 1. desember 1997 í húsakynnum byggingafulltrúa að Borgartúni 3 var þess farið á leit af hans hálfu, að teikningu hússins yrði eitthvað breytt til þess að koma nokkuð til móts við kvörtunarefni kærenda út af byggingunni.  Varð stefnandi við þessum tilmælum, en því var jafnframt lýst yfir af hans hálfu, að borgarsjóður bæri skaðabótaábyrgð á öllu því tjóni, er hann yrði fyrir vegna þessa.  Sams konar yfirlýsing um skaðabótaábyrgð borgarsjóðs var gefin af hálfu stefnanda á fundi, er haldinn var 30. janúar 1998 með Þorvaldi S. Þorvaldssyni, skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar og Helgu Bragadóttur, arkitekt hjá borgarskipulagi, út af þessu máli.  Þá var skaðabótaábyrgð borgarsjóðs enn áréttuð í bréfi lögmanna stefnanda til borgarlögmanns, dags. 12. febrúar 1998.

Vegna úrskurðar umhverfisráðherra frá 20. nóvember 1997 stöðvuðust byggingarframkvæmdir stefnanda við Þórsgötu 2 í a.m.k. 127 daga.  Þessar tafir ollu stefnanda margháttuðu tjóni og fjárútlátum m.a. vegna sérfræðiþjónustu, er hann þurfti að kaupa vegna kærumálanna og vegna breytinga á teikningum hússins.

Stefndi ber skaðabótaábyrgð á öllu því tjóni, sem stefnandi varð fyrir, þegar hann gat ekki haldið byggingaframkvæmdum að Þórsgötu 2 óhindrað áfram samkvæmt upphaflegum teikningum af húsinu, eins og þær höfðu verið samþykktar af borgaryfirvöldum, byggingarleyfi fengist fyrir og greitt hafði verið fyrir.

Með þessu vanefndi stefndi þann samning er stefnandi hafði gert við hann og efnt af sinni hálfu.  Hér er því um skaðabótaábyrgð innan samninga að ræða vegna vanefnda stefnda.  Vegna þessara vanefnda stefnda ber hann fulla skaðabótaábyrgð á öllu því tjóni, er stefnandi varð fyrir vegna þeirra.

  Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:

1. Tveir reikningar frá Magnúsi Thoroddsen, hrl. kr. 246.510.-

2. Reikningur frá Jóni B. Stefánssyni, verkfræðingi kr. 170.565.-

3. Reikningur frá Ingimundi Sveinssyni, arkitekt kr. 410.470.-

4. Tveir reikn. frá Magnúsi B. Stefánssyni, byggingameistara kr. 2.963.680.-

5. Vaxtakostnaður, sbr. 1. tl. matsgerðar kr. 637.182.-

6. Aukakostn. v/klæðningar á bogavegg, sbr. 2. tl. matsgerðar kr. 177.180.-

7. Tapað söluverðmæti vegna minnkunar hússins um 2,3 ferm.

 pr. íbúð á 3 íbúðum, minnkunar bílageymslu og óhagkvæmni

 bogaveggja í stað beinna veggja, sbr. 3. tl. í matsgerð kr. 1.167.000,-

8. Rýrnun söluverðmætis á íbúðum á 1. og 2. hæð vegna

 bogaveggja í stað beinna kr. 1.000.000,-

9. Vanreiknað fermetraverð í mati á íbúðum á 1. hæð miðað

 við raunverulegt söluverð (95.000 kr. í mati á móti

 141.500 kr. = 46.500 kr. x 2,3 ferm.) kr. 106.950,-

10. Vanreiknað fermetraverð í mati á íbúð á 2. hæð miðað

 við raunverulegt söluverð (95.000 kr. í mati á móti

 124.860 kr. = 29.860 kr. x 2,3 fermetrar) kr. 68.678.-

11. Vanreiknað fermetraverð í mati á íbúð á 3. hæð miðað

 við að það sé hið sama og á 1. hæð ( 100.000 kr. í mati

 á móti 141.500 kr. = 41.500 kr. x 2,3 ferm.) kr. 95.450.-

12. Vinna stefnanda sjálfs við bygginguna meðan á verktöf

 stóð sbr. 4. tl. í matsgerð kr. 103.000.-

13. Tap vegna 15% launaskriðs sumarið 1997, sem er um

 10% fram yfir vísitölulegar hækkanir, sbr. 5. tl. í matsgerð kr.        900.000.-

14. Tap og útgjöld vegna breytinga, er gera varð á suð- vestur

 horni lóðarinnar, sbr. 7. tl. í matsgerð kr. 29.800.-

15. Steypukostnaður vegna burðarbita í bílageymslu kr.   3.000.-  kr. 8.79.465.-

 Stefnandi segir skaðbótakröfuna annars vegar vera vegna aðkeyptrar sérfræðiþjónustu en reikninga yfir þá þjónustu sé að finna á dskj. nr. 5, 7, 8 og 9.  Hins vegar sé bótakrafan reist á matsgjörðinni á dskj. nr. 19 nema að því er varðar 3. tl. hennar.  Þar séu gerðar hærri kröfur en skv. þessum tölulið matsins.  Stafi hin hækkaða kröfugerð af því, að matsmenn hafi ekki tekið til greina verðmætisrýrnun á íbúðum á 1. og 2. hæð hússins vegna bogaveggja í stað beinna.  Hér sé um að ræða rökleysu og mótsögn í mati hinna dómkvöddu manna, því að þeir hafi metið verðmætisrýrnun á íbúðinni á 3. hæð vegna hins sama upp á 500.000 krónur.  Því hafi skaðabótakrafa vegna íbúðanna á 1. og 2. hæð verið hækkuð um samtals 1.000.000 króna.  Þá hafi matsmenn vanmetið fermetraverð íbúðanna á 1. 2. og 3. hæð miðað við raunverulegt söluverð sem nemi samtals 271.078 krónum.

IV.

Af hálfu stefnda er talið að grundvöllur skaðabótakröfu stefnanda sé ekki fyrir hendi.  Í stefnu málsins komi fram, að stefnandi styðji skaðabótakröfu sína þeim rökum að stefnandi og stefndi hafi gert með sér samning.  Og samkvæmt þeim samningi hafi stefndi veitt stefnanda byggingarleyfi sem stefnandi hafi greitt fyrir.  Þessum málatilbúnaði stefnanda sé alfarið hafnað.

Það sé ekki rétt að með stefnanda og stefnda hafi verið gerður samningur eða ígildi samnings.  Byggingarleyfi það er byggingarnefnd Reykjavíkur veitti stefnanda fyrir framkvæmdum að Þórsgötu 2 hafi verið veitt á grundvelli laga, enda sé framkvæmdaraðila skylt að afla sér slíks leyfis vegna byggingaframkvæmda, sbr. 9. gr. eldri byggingalaga nr. 54/1978, sbr. nú ákvæði l. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Á grundvelli skipulags- og byggingarlaga komi sveitarstjórnir og byggingarnefndir á þeirra vegum fram sem stjórnvald, en ekki sem samningsaðili þeirra er eftir slíkum leyfum leita.

Byggingarleyfisgjöld séu innheimt samkvæmt 53. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Gatnagerðargjöld séu innheimt á grundvelli laga nr. 17/1996 um gatnagerðargjald og reglugerðar og gjaldskrár sem settar hafa verið með stoð í lögunum.  Byggingarleyfi verði ekki gefið út fyrr en byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld, svo sem gatnagerðargjöld, hafi verið greidd samkvæmt settum reglum eða samið um greiðslu þeirra, sbr. 2. tl. l. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Fráleitt sé að halda því fram að útgáfa stjórnvalds á lögbundnu leyfi, gjaldtaka stjórnvalds á grundvelli laga og innheimta gjalda sem gjaldkræf verða við útgáfu byggingarleyfis feli í sér að leyfishafi og viðkomandi stjórnvald séu í gagnkvæmu samningssambandi.  Samskipti þeirra aðila sem hér eigi í hlut fari fram á sviði opinbers réttar, stjórnsýsluréttar, en alls ekki á sviði einkaréttar, þ.e. samningaréttar eða fjármunaréttar.  Þessi samskipti sveitarstjórnar og framkvæmdaraðilans eiga sér einungis stað á grundvelli lagaboða.  Ekki sé heldur um það að ræða, að stjórnvaldið semji við framkvæmdaaðilann eða lofi honum, að byggingarleyfinu fengnu, að hann megi treysta því að ekkert komi í veg fyrir framkvæmdir hans, enda sé það stjórnvaldinu ókleift, m.a. vegna þess að byggingarleyfi sé kæranlegt til æðra stjórnvalds.  Sveitarstjórn geti ekki stjórnað því hvort þriðju aðilar, s.s. eigendur nágrannaeigna, kæri útgefið byggingarleyfi til úrskurðar æðra stjórnvalds, enda um lögbundinn rétt að ræða, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í þessu samhengi megi benda sérstaklega á, að kæruaðild vegna stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds sé alls ekki bundin við þá aðila sem stefnandi byggir á að séu í samningssambandi, þ.e. stefnanda og stefnda, þar sem hugtakið aðili í stjórnsýsluréttinum getur verið mun víðtækara en hugtakið aðili á sviði samningaréttar eða einkaréttar yfirleitt.

Af hálfu stefnda er talið eðlilegt að þeir sem reisa vilja byggingar eða önnur mannvirki á lóðum sínum beri sjálfir ábyrgð á að fyrir þeim framkvæmdum fáist fullgilt byggingarleyfi.  Ekki sé unnt að fallast á það, að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem varð af því að byggingarnefnd Reykjavíkur veitti byggingarleyfi sem síðar var fellt úr gildi án þess að stefndi fengi við því gert.  Stefnandi og stefndi hafi ekki verið í samningssambandi og því sé ekki um það að ræða að stefndi hafi vanefnt samning við stefnanda máls þessa.  Skaðabótaábyrgð innan samninga komi því ekki til álita í máli þessu og ber alfarið að hafna málatilbúnaði stefnanda, sem einungis byggi á að um slíka bótaábyrgð stefnda sé að ræða.

Þá  er á því byggt af hálfu stefnda að byggingarleyfið frá 10. júlí 1997 hafi í alla staði verið lögmætt.  Stefndi hafi ekki verið aðili að þeirri stjórnsýslukæru sem til úrskurðar var hjá umhverfisráðherra, heldur einungis umsagnaraðili á stjórnsýslustigi.  Stefndi geti því ekki höfðað mál til ógildingar úrskurðarins heldur einungis stefnandi.  Að mati stefnda hafi úrskurður umhverfisráðherra verið ýmsum annmörkum háður og megi sem dæmi nefna að í forsendum úrskurðarins er fjallað um smekksatriði eins og þakform en með afskiptum af útliti bygginga verði að telja að úrskurðaraðili sé þar kominn langt út fyrir verksvið sitt.  Í forsendum úrskurðar umhverfisráðherra sé m.a. á því byggt að nýbyggingin takmarki verulegu birtu á suðurhlið Óðinsgötu 7.  Þessu sé þannig til að svara að hafi verið um einhverja birtuskerðingu að ræða hafi hún verið í   rýmum sem samþykktar teikningar sýna sem stigahús og geymslur.  Þá hafi það verið mat umhverfisráðherra að full þörf hafi verið á að gera deiliskipulag þess reits sem nýbyggingin var reist á.  Samkvæmt l. mgr. 11. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, er giltu er byggingarleyfið var veitt, segir hins vegar að gera skuli deiliskipulag þar sem þörf krefur, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna, „svo og 11. gr. að því leyti sem slíkt er nauðsynlegt."  Það hafi því verið á valdi borgarstjórnar að meta þessa þörf, og í því felst jafnframt að mat borgarstjórnar var gilt, þ.e. að ekki væri þörf að bíða eftir deiliskipulagi til að leyfa þá einu húsbyggingu sem mál þetta snýst um.

Af hálfu stefnda er bent á  að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 1990-2010 segi að nýtingahlutfall lóða á svæðinu innan Hringbrautar og Snorrabrautar sé víða á bilinu 0,7 - 1,5.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar Þórsgata 2 var fyrirhugað l,l og var því bæði innan marka aðalskipulags Reykjavíkur og minna en á mörgum lóðum í næsta nágrenni við Þórsgötu 2.  Úrskurður kærunefndar í skipulags - og byggingarmálum frá 5. júní 1998 staðfesti að byggingin fór ekki í bága við aðalskipulag Reykjavíkur, hvorki uppdrátt né greinargerð.  Þá hafi það verið mat úrskurðarnefndarinnar að byggingin fæli ekki í sér verulegt frávik frá þeirri byggð sem var fyrir á reitnum og í nágrenni hans.  Úrskurður kærunefndarinnar staðfesti það mat stefnda, að úrskurður umhverfisráðherra hefði verið ógiltur með dómi hefði stefnandi látið á það reyna.

Til vara krefst stefndi að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og byggir á því að hús það, sem samþykkt var að Þórsgötu 2 árið 1997, hafi verið að stærð 788,3 fermetrar en hús það, sem samþykkt var að Þórsgötu 2 árið 1998, hafi verið að stærð 785,3 fermetrar.  Fyrir þriggja fermetra minnkun hússins, breytingar á teikningum og seinkun framkvæmda í 127 daga krefjist stefnandi rúmlega 8.000.000 króna. Til lækkunar á kröfu stefnanda sé t.d. bent á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lækkunarkrafan á því byggð að stefnandi tók sjálfur ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir eftir að byggingarleyfið hafði verið kært til æðra stjórnvalds.  Hann tók því sjálfur áhættuna af því að byggingarleyfið yrði fellt úr gildi, honum var í lófa lagið að bíða eftir úrskurði umhverfisráðherra og hefði með því getað takmarkað tjón sitt verulega.  Öllum kröfum um kostnað, svo sem vegna vaxta á tafatíma (127 dagar) og vegna leigu á mótum, beri því að hafna.

Í öðru lagi er lækkunarkrafan á því byggð að það hafi verið eigin ákvörðun stefnanda að leggja breyttar teikningar fyrir byggingarnefnd í ársbyrjun 1998 og hann hafi því sjálfur ákveðið að koma að nokkru til móts við nágrannana með því að milda umfang byggingarinnar.  Á þessari ákvörðun ber hann einn ábyrgð og verður að bera þann kostnað sem af þessu hlaust.  Með skírskotun til þessa ber að hafna öllum liðum í kröfugerð stefnanda sem rætur eiga að rekja til endurhönnunar, minnkunar hússins og rýrnunar söluverðmætis.

Í þriðja lagi hefur ekki verið sýnt fram á, að stefnandi hafi yfir höfuð orðið fyrir tjóni því hvergi liggur fyrir staðfestur byggingarkostnaður hússins annars vegar og hins vegar staðfest yfirlit yfir söluverðmæti þess.

Í fjórða lagi er því mótmælt að 15% launaskrið hafi átt sér stað sumarið 1997 sem samkvæmt matsbeiðni á dskj. 18 er um 10% umfram vísistölumælanlegar hækkanir.  Hvergi er að finna stoð fyrir þessari fullyrðingu stefnanda.

Í fimmta lagi er mótmælt að meta skuli vinnu stefnanda sjálfs við bygginguna meðan á verktöfum stóð, en hvergi er að finna neina staðfestingu á þessu vinnuframlagi sem er að mestu tilkomið vegna kæru réttargæslustefndu til umhverfisráðherra sem stefndi hefur ekkert með að gera.

Í sjötta lagi er öllum kröfum um hækkun byggingarkostnaðar mótmælt sem og kröfum vegna leigu á mótum og vinnuskúr í 127 daga.  Stefnanda bar að sjálfsögðu að takmarka tjón sitt með því að koma þessum hlutum í notkun annars staðar eða skila þeim til leigusala.

Í sjöunda lagi ber til lækkunar á kröfum stefnanda að taka tillit til hækkunar á söluverði fasteigna á umræddu tímabili.

Í áttunda lagi er reikningum lögmanns stefnanda; sem rætur eiga að rekja til kæru réttargæslustefndu, mótmælt.  Auk þess er í stefnu sérstaklega gerð krafa um málskostnað.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt og þess krafist, verði dráttarvextir dæmdir, að upphafsdagur þeirra reiknist frá dómsuppkvaðningu eða í fyrsta lagi mánuði eftir að fullmótuð krafa stefnanda var fyrst kynnt stefnda með útgáfu stefnu.

V.

Fyrir dóminn komu Stanley Páll Pálsson verkfræðingur og Benjamín Magnússon arkitekt sem dómkvaddir voru til að framkvæma matsgerð þá er liggur frammi í málinu.  Staðfestu þeir að hafa unnið matgerðina.

 Stanley Páll Pálsson bar fyrir réttinum m.a. að við mat á töpuðu söluverðmæti vegna minnkunar húss um 2,3 ferm. á íbúð á þremur íbúðum, minnkunar bílageymslu og óhagkvæmni bogaveggja í stað beinna veggja skv. lið 3 í matsbeiðni hafi verið byrjað á því að draga frá 1.000.000 króna vegna bílageymslu og síðan hafi verið deilt með stærð íbúðar upp í 10.200.000 krónur.  Kvað hann matsmenn hafa talað við nokkra fasteignasala og fengið uppgefið söluverðmæti á bilinu 105.000 upp í 115.000 krónur á fermeter á íbúð á þessu svæði.  Verðmat þeirra hafi því passað ágætlega við markaðsverð.  Hann sagði að matsmenn hefðu ekki staðreynt að eigin frumkvæði það sem fram kemur í matsbeiðninni undir tölulið nr. 5 þar sem segir: Tap vegna 15% launaskriðs sumarið 1997, sem er um 10% fram yfir vísitölumælanlegar hækkanir.  Við þetta jókst byggingarkostnaður um ca 5% umfram almennt markaðsverð.  Þeir hefðu einungis reiknað út frá þessum gefnu forsendum matsbeiðanda.

 Benjamín Magnússon bar fyrir réttinum m. a. að við vettvangsskoðun hefðu matsmenn lagt mat á eignina í því ástandi sem hún þá var í.  Ekki hefði verið talið að söluverðmæti á íbúð í húsinu, er þeim var kunnugt um sbr. kaupsamning 11. mars 1999, ætti að ráða matinu.  Hann taldi aðspurður að fækkun svefnherbergja í þeim íbúðum hússins, sem eru minni en upphaflegar teikningar gerðu ráð fyrir, myndi lækka verðmæti þeirra.

VI.

Niðurstaða:

 Byggingarleyfi fyrir byggingu á lóðinni nr. 2 við Þórsgötu til handa stefnanda, sem samþykkt var af byggingarnefnd Reykjavíkur 10. júlí 1997 og staðfest var í borgarráði 18. s.m., var fellt úr gildi með úrskurði umhverfisráðherra 20. nóvember s.á.  Vegna úrskurðarins stöðvuðust byggingarframkvæmdir stefnanda við Þórsgötu 2 í 127 daga og telur stefnandi að stefndi, Reykjavíkurborg, beri ábyrgð á tjóni og fjárútlátum er hann varð fyrir þess vegna.

Af hálfu stefnda er þessu hafnað og því haldið fram, að stefndi hafi ekki átt sök í því að byggingarframkvæmdir stefnanda töfðust þennan tíma og raunar hafi stefndi ekki átt aðild að þeim ágreiningi sem úrskurður umhverfisráðherra fjallaði um.

 Af hálfu stefnanda er staðhæft að á fundi hjá byggingarfulltrúa 1. desember 1997 út af úrskurði umhverfisráðherra frá 20. nóvember s.á. hafi þess verið farið á leit af hálfu byggingarfulltrúa, að teikningu hússins yrði eitthvað breytt til að koma til móts við kvartanir þeirra, er kært höfðu byggingarleyfið til ráðherra.  Hafi stefnandi orðið við þeim tilmælum en jafnframt tjáð viðstöddum að borgarsjóður bæri skaðabótaábyrgð á öllu því tjóni er hann yrði fyrir vegna þess. 

Af hálfu stefnda er þessu hafnað og því haldið fram að á fundinum 1. desember 1997 hefði komið fram skýr afstaða stefnanda og lögmanns hans að leita aðstoðar dómstóla til að fá úrskurði umhverfisráðherra hnekkt.  Það hafi verið samdóma álit viðstaddra að úrskurður ráðherra væri slíkum annmörkum háður að  hann yrði felldur úr gildi.  Borgarlögmaður hefði þá bent á að ný lög um skipulags- og byggingarmál tækju gildi 1. janúar 1998 en samkvæmt þeim gæti byggingarnefnd samþykkt nýbyggingar í þegar byggðu hverfi þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir að undangenginni grenndarkynningu. Stefnandi hefði síðan ákveðið sjálfur að láta ekki reyna á gildi úrskurðar umhverfisráðherra fyrir dómstólum.  Þess í stað hafi hann látið gera minniháttar breytingar á teikningum hússins og sótt um nýtt byggingarleyfi á grundvelli hinna nýju laga. Á framangreindum fundi hefði ekki verið sett fram bótakrafa á hendur borgarsjóði.

Ekki þykir skipta máli, hvort stefnandi fór að ósk byggingafulltrúa á fundinum 1. desember 1997, að teikningu hússins að Þórsgötu 2 yrði eitthvað breytt til þess að koma til móts við kvörtunarefni réttargæslustefndu í þessu máli, eins og haldið er fram af hálfu stefnanda, eða hvort stefnandi átti sjálfur frumkvæði að því að breyta teikningu hússins og sækja um nýtt leyfi án tilmæla byggingafulltrúa, eins og haldið er fram af hálfu stefnda.  Þykir mega fallast á þau sjónarmið stefnda að byggingarleyfi, er byggingarnefnd Reykjavíkur veitti stefnanda fyrir framkvæmdum að Þórsgötu 2, hafi ekki verið veitt á grundvelli samnings málsaðila heldur á grundvelli laga.  Hér hafi með öðrum orðum verið um stjórnvaldsathöfn að ræða en ekki frjálsa ákvörðun stefnda á grundvelli mats á hagsmunum aðila. 

Skaðabótakrafa á hendur stefnda verður samkvæmt framansögðu ekki reist á öðru en því að byggingarnefndin hafi með ólögmætri stjórnvaldsaðgerð valdið stefnanda tjóni.  Úrskurður umhverfisráðherra 20. nóvember 1997 getur ekki talist sanna með óyggjandi hætti að byggingarnefndin hafi ekki gætt lögmætrar aðferðar við veitingu byggingarleyfisins.   Stefnandi hefur enda ekki byggt málsókn sína á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar stjórnarathafnar heldur á grundvelli þess að stefndi hafi vanefnt samning við hann.  Verður því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda

Eftir atvikum þykir rétt að aðilar beri hvor sinn málskostnað.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir, Atli Vagnsson, héraðsdómslögmaður og löggiltur fasteignasali, og Hjörtur Hansson verkfræðingur, kveða upp dóminn.

DÓMSORÐ:

 Stefndi, Reykjavíkurborg, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kristjáns Grétars Tryggvasonar.

 Málskostnaður fellur niður.