Print

Mál nr. 159/2017

Arion banki hf. (Sigurður Guðmundsson lögmaður, Þorsteinn I. Valdimarsson lögmaður 2. prófmál)
gegn
Kristni Þresti Vagnssyni (Einar Hugi Bjarnason lögmaður, Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson lögmaður 2. prófmál)
og til réttargæslu Guðnýju Sigurðardóttur
Lykilorð
  • Greiðsluaðlögun
  • Vextir
  • Stjórnarskrá
Reifun

K krafðist þess að viðurkennt yrði að A hf. hafi verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta á tvö fasteignaveðslán vegna vanskila á því tímabili sem K hafði notið frestunar greiðslna samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt a. lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 væri lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum meðan á frestun greiðslna stæði. Þá skyldi samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki reikna dráttarvexti á kröfur þann tíma sem greiðsludráttur væri ef skuldari héldi af lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar og talið að svo hafi háttað til um hagi K það tímabil sem um ræddi. Þá kom fram að þar sem krafa um dráttarvexti yrði aðeins höfð uppi á grundvelli lögbundinni heimilda væri löggjafanum að sama skapi fært að setja slíkum heimildum þær skorður sem kæmi fram í fyrrnefndri 7. gr. og að sú tilhögun færi ekki í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Var krafa K því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson, Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari og Símon Sigvaldason dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 31. janúar 2017 að fengnu áfrýjunarleyfi. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 15. mars 2017 og var málinu áfrýjað öðru sinni 8. sama mánaðar. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Réttargæslustefndi hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi naut stefndi samkvæmt 1. mgr. 11. gr., sbr. 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, frestunar greiðslna frá 9. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013, meðan umsókn hans um greiðsluaðlögun var til meðferðar eftir lögunum. Í 2. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um að vextir falli á skuldir meðan frestun greiðslna stendur en þeir séu ekki gjaldkræfir. Vextir af kröfum sem tryggðar eru með veði í eign er skuldari fær að halda gjaldfalla þó í samræmi við samninga þar um, að því marki sem veð svarar til verðmætis hinnar veðsettu eignar. Stendur ágreiningur aðila um það eitt hvort áfrýjanda hafi verið heimilt að reikna dráttarvexti á tvö fasteignaveðlán vegna vanskila stefnda á ofangreindu tímabili samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Hvorki orðalag 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 né lögskýringargögn taka af skarið um hvort hugtakið vextir í lagaákvæðinu nái auk almennra vaxta einnig til dráttarvaxta. Verður því við úrlausn málsins að líta til almennra reglna um heimildir kröfuhafa til að krefja skuldara um dráttarvexti af ógreiddum peningakröfum.

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 er lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum meðan á frestun greiðslna stendur. Ákvæði 7. gr. laga nr. 38/2001 kveður meðal annars á um að ekki skuli reikna dráttarvexti á kröfur þann tíma sem greiðsludráttur verður ef skuldari heldur af lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar. Háttaði svo til um hagi stefnda í þessu máli það tímabil sem um ræðir. Þar sem krafa um dráttarvexti verður aðeins höfð uppi á grundvelli lögbundinna heimilda er löggjafanum að sama skapi fært að setja slíkum heimildum þær skorður sem fram koma í 7. gr. laganna og fer sú tilhögun ekki í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar.  

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Arion banki hf., greiði stefnda, Kristni Þresti Vagnssyni, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2016.

Mál þetta sem dómtekið var 18. október 2016 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, 20. janúar 2016, af Kristni Þresti Vagnssyni, Lækjarfit 8, Garðabæ, á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík og Guðnýju Sigurðardóttur, Lækjarfit 8, Garðabæ, til réttargæslu.

Kröfur aðila

Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að krefja stefnanda um dráttarvexti, samkvæmt lögum nr. 38/2001, á ógreiddar eftirstöðvar veðskuldabréfs nr. 371-74-11278, nú með lánsnúmerið 0351-35-394811278, sem stefnandi og réttargæslustefnda hafi gefið út til Kaupþings Búnaðarbanka hf., kt. 560882-0419, 13. október 2004, en sé nú í eigu stefnda, frá og með 9. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013. Þá krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda hafi verið óheimilt að krefja stefnanda um dráttarvexti, samkvæmt lögum nr. 38/2001, á ógreiddar eftirstöðvar veðskuldabréfs nr. 0318-35-4713, nú með lánsnúmerið 0318-35-019093, sem stefnandi og réttargæslustefnda hafi gefið út til stefnda þann 25. febrúar 2010, frá og með 9. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, sem lagður verði fram við aðalmeðferð málsins ef til hennar komi. 

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Ekki eru í málinu gerðar kröfur á hendur réttargæslustefndu eða kröfur af hennar hálfu.

Atvik máls

Stefnandi, sótti um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara með umsókn móttekinni, 9. febrúar 2011. Meðal skulda stefnanda á þessum tíma var skuld samkvæmt veðskuldabréfi, nr. 371-74-11278, útgefnu af stefnanda og réttargæslustefndu til Kaupþings Búnaðarbanka hf., 13. október 2004. Um var að ræða svonefnt íbúðarlán til 40 ára að höfuðstól 17.800.000 krónur. Fastir vextir af láninu voru 4.2% að teknu tilliti til vaxtaafsláttar og var endurgreiðsla þess tryggð með 6. veðrétti í fasteigninni Lækjarfit 8, Garðabæ. Veðskuldabréfið var framselt þann 29. mars 2006 til Kaupthing mortages institutional investor fund, kt. 570196-9610, sem framseldi bréfið til stefnda, 4. maí 2012. Lánið er í dag með lánsnúmerið 351-35-394811278. Meðal skulda stefnanda var ennfremur skuld við stefnda samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu 25. febrúar 2010, upphaflega með lánsnúmerið 318-4713, síðar 318-35-019093. Um var að ræða óverðtryggt lán að höfuðstól 16.050.213 krónur til þriggja ára með föstum 6% vöxtum tryggðu með 2. veðrétti og uppfærslurétti í fasteigninni Lækjarfit 8, Garðabæ. Óumdeilt er að þegar stefnandi sótti um framangreinda greiðsluaðlögun hafi skuld samkvæmt báðum veðskuldabréfunum verið í vanskilum.

Með ákvörðun Umboðsmanns skuldara, 12. janúar 2012, var umsókn stefnanda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Stefnandi kærði framangreinda ákvörðun Umboðsmanns skuldara, 26. janúar 2012, til Kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Nefndin kvað upp úrskurð í málinu, 5. desember 2013, og var ákvörðun Umboðsmanns skuldara um að synja stefnanda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest. Úrskurðurinn var kynntur Umboðsmanni skuldara með bréfi nefndarinnar, 17. desember 2013, og var úrskurðurinn móttekinn af Umboðsmanni skuldara, 18. desember 2013.

Með bréfi stefnanda til stefnda, 19. ágúst 2015, fór stefnandi þess á leit að stefndi felldi niður dráttarvexti vegna framangreindra skulda, á tímabilinu frá og með 9. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013. Stefndi hafnaði beiðninni með bréfi,  21. ágúst 2015.

Stefnandi og stefndi munu í framhaldi af niðurstöðu kærunefndarinnar hafa átt í viðræðum um uppgjör á framangreindum skuldum stefnanda og mun þeim hafa lokið með munnlegu samkomulagi þess efnis að stefnandi greiddi eingreiðslu til stefnda í síðasta lagi 15. september 2015 að fjárhæð 15.000.000 króna og skyldi fjárhæðinni  að hluta ráðstafað inn á fyrrgreint skuldabréf nr. 318-35-019093. Gegn þeirri greiðslu samþykkti stefndi að veita afslátt af dráttarvöxtum skv. skuldabréfum nr. 351-35-394811278 og nr. 318-35-019093 og að eftirstöðvar skuldabréfanna yrðu færðar í skil. Stefnandi innti greiðsluna af hendi, 10. september 2015. Við uppgjörið var skuldabréf nr. 318-35-19093 gert upp með nýju skuldabréfi nr. 54107, útgefnu 24. nóvember 2015 og skuldabréfi nr. 351-35-394811278 komið í skil.

Í máli þessu deila aðilar um heimild stefnda til að reikna dráttarvexti af framangreindum skuldum stefnanda á tímabilinu 9. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013 þ.e. á þeim tíma sem stefnandi var í svonefndu greiðsluskjóli samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi byggir á því að hann hafi notið greiðsluskjóls frá því að Umboðsmaður skuldara hafi móttekið umsókn hans um greiðsluaðlögun, 9. febrúar 2011, og þar til Umboðsmaður skuldara hafi móttekið úrskurð Kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, 18. desember 2013. Samkvæmt a – lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 sé lánar-drottnum óheimilt, á meðan á frestun greiðslna standi, að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum. Tilvitnað ákvæði hafi þannig staðið í vegi fyrir því að stefnandi greiddi af þeim skuldum sem hann hafi stofnað til áður en tímabil greiðsluskjóls hafi hafist, óháð greiðslugetu eða greiðsluvilja stefnanda. Óumdeilt sé í málinu að hvorki stefnandi né réttargæslustefnda hafi verið krafin um greiðslur á þeim kröfum sem dómkröfur stefnanda, aðrar en málskostnaðarkrafan, taki til á tímabili greiðsluskjólsins. Á hinn bóginn liggi fyrir að eftir að greiðsluskjóli stefnanda hafi lokið hafi stefndi krafið stefnanda um dráttarvexti á kröfurnar á tímabili greiðsluskjólsins. Stefnandi byggi á því að stefnda hafi verið þetta óheimilt og sé að áskilja sér víðtæk kröfuréttindi, sem séu ekki fyrir hendi. Stefnandi styðji mál sitt eftirfarandi rökum. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 falli vextir á skuldir á meðan frestun greiðslna standi en þeir séu ekki gjaldkræfir. Vextir af kröfum sem tryggðar séu með veði í eign, sem skuldari fái að halda, gjaldfalli þó í samræmi við samninga þar um, að því marki sem veð svari til verðmætis hinnar veðsettu eignar. Með almennum vöxtum sé átt við þá vexti sem falli á kröfu fram að gjalddaga hennar, óháð því hver sé lögfræðilegur grundvöllur vaxtatökunnar, þ.e. hvort hún byggi á samningi, lögum, venju eða jafnvel á öðrum grundvelli, sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Með dráttarvöxtum sé á hinn bóginn átt við þá vexti sem falli á kröfur eftir gjalddaga hennar. Að mati stefnanda segi það sig sjálft að í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 sé vísað til almennra vaxta en ekki dráttarvaxta. Staðreyndin sé sú að ekkert í lögum nr. 101/2010 heimili stefnda að reikna dráttarvexti á kröfur sínar gagnvart stefnanda á meðan stefnandi hafi notið greiðsluskjóls. Heimild til töku dráttarvaxta sé á hinn bóginn að finna í III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í 5. gr. laganna komi fram að hafi gjalddagi verið fyrirfram ákveðinn sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti sem reiknist af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Sé ekki samið um gjalddaga kröfu þá sé heimilt að reikna dráttarvexti frá og með þeim degi, þegar liðinn sé mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega hafi krafið skuldara með réttu um greiðslu. Í 7. gr. laga nr. 38/2001 komi fram að ef atvik sem varði kröfuhafa og skuldara verði ekki um kennt valdi því að greiðsla eigi sér ekki stað skuli ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verði af þessum sökum. Sama eigi við ef greiðsla fari ekki fram vegna þess að skuldari neyti vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar. Að mati stefnanda blasi við að skilyrði 2. málsl. 7. gr. laganna séu uppfyllt. Stefnandi hafi notið greiðsluskjóls á grundvelli laga nr. 101/2010. Á því tímabili hafi stefnanda verið óheimilt að greiða af skuldum sínum. Stefnandi hafi því augljóslega haldið eftir greiðslu af kröfum stefnda af lögmætum ástæðum. Af þeim sökum sé stefnda óheimilt samkvæmt 7. gr. laga nr. 38/2001 að reikna dráttarvexti á meðan stefnandi hafi notið greiðsluskjóls. Þá sé einnig til þess að líta að stefndi hafi hvorki krafið stefnanda né réttargæslustefndu um greiðslur á grundvelli skilmála skuldabréfanna, sem um sé fjallað í kröfugerð stefnanda, á tímabili greiðsluskjóls. Þvert á móti hafi bæði skuldabréfin verið greiðsluskjólsmerkt í kerfum stefnda og engir greiðsluseðlar verið sendir út á greiðsluskjólstímabilinu. Að mati stefnanda geti ekki staðist að stefnda verði talið heimilt að krefja hann um dráttarvexti á tímabili greiðsluskjólsins, þegar hann hafi ekki mátt greiða af kröfunum lögum samkvæmt og stefndi hafi ekki krafið hann um greiðslur með útgáfu greiðsluseðla. Í þessu sambandi beri að hafa í huga að dráttarvextir séu í raun skaðabætur fyrir vaxtatap. Það segi sig sjálft að ekki séu greiddar skaðabætur undir þeim kringumstæðum sem hér séu þ.e. þegar kröfuhafi krefji skuldara ekki um greiðslur af kröfum sínum. Stefnandi byggi einnig á því að það sé andstætt markmiði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 og vilja löggjafans að heimila stefnda að reikna dráttarvexti á meðan stefnandi hafi notið greiðsluskjóls. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 101/2010 sé markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Ef niðurstaða dómsins yrði sú, þvert á væntingar stefnanda, að stefnda hafi verið heimilt að reikna dráttarvexti á tímabili greiðsluskjóls stefnanda væri verið að setja fordæmi sem væri í brýnni andstöðu við markmið laga nr. 101/2010 og  fæli það í sér að í raun væri verið að refsa öllum þeim skuldurum sem leitað hafi sér aðstoðar og sótt um greiðsluaðlögun en máli þeirra lokið með öðrum hætti en samningi, t.d. með afturköllun umsóknar, niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana eða Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi staðfest synjun. Ef máli ljúki ekki með samningi þá væru skuldirnar dráttarvaxtareiknaðar á meðan á greiðsluskjólinu standi og umsækjandinn í raun í verri stöðu vegna þess að hann hafi leitað sér aðstoðar og fengið greiðsluskjól. Slík niðurstaða sé vitaskuld með öllu ótæk og bersýnilega í andstöðu við tilgang og markmið laga nr. 101/2010. Þetta segi sig í raun sjálft því greiðsluskjólið sé óháð niðurstöðu og viðkomandi hafi ekki mátt greiða af skuldum sínum á meðan á greiðsluskjólinu hafi staðið. Þá byggi stefnandi einnig á því að það væri í andstöðu við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að nýta sér ákvæði viðkomandi skuldaskjala um töku vaxta á því tímabili sem greiðsluskjól stefnanda hafi staðið.

Stefnandi vísi um lagarök m.a. til samninga- og kröfuréttar, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Um heimild til að réttargæslustefna í málinu vísist til 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfur í málinu sé vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem heimilað sé að fá skorið úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands með viðurkenningardómi, án tillits til þess hvort stefnanda væri þess í stað unnt að leita dóms sem fullnægja mætti með aðför. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi þegar gert upp þá dráttarvexti er mál þetta lúti að, án nokkurs fyrirvara. Stefndi hafi talið fyrrgreint samkomulag um uppgjör endanlegt og verið í góðri trú er hann hafi tekið við greiðslu vegna dráttarvaxta fyrir hið tiltekna tímabil. Telji stefndi að stefnandi sé bundinn við uppgjörið enda hafi verið full ástæða fyrir stefnanda til þess að gera fyrirvara við það hafi ætlun hans verið að gera frekari kröfur á hendur stefnda á síðari stigum, en stefnandi hafi notið  liðsinnis lögmanns við þann hluta málsins er snúið hafi að dráttarvöxtum á fyrrgreindu tímabili. Telji stefndi að stefnandi hafi tapað rétti sínum til endurgreiðslukröfu og því sé óljóst um hvaða fjárhagslega hagsmuni sé að ræða. Þá feli kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda í sér lögspurningu. Stefndi telji því koma til skoðunar hvort vísa skuli málinu frá ex officio. Stefndi hafni því að honum hafi verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta fyrir það tímabil er stefnandi hafi notið tímabundinnar frestunar greiðslna. Samkvæmt ákvæði í skuldaskjölunum sjálfum, sem gefin hafi verið út, áður en lög nr. 101/2010 hafi tekið gildi, hafi stefndi haft heimild til þess að reikna dráttarvexti á ógreidda gjalddaga skuldabréfanna. Sú heimild komi einnig fram í 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Stefndi bendi hér einnig á meginreglu samningaréttar um að gerða samninga skuli halda og samningsfrelsi. Stefndi bendi á að í ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 sé sérstaklega tiltekið að vextir falli á skuldir meðan á frestun greiðslna standi. Stefndi hafni því að ákvæði 2. mgr. 11. gr. laganna eigi ekki við um dráttarvexti og telji að orðið vextir taki einnig til dráttarvaxta. Í 1. mgr. ákvæðisins séu tilteknar þær takmarkanir á vanefndaúrræðum sem kröfuhöfum sé heimilt að grípa til á meðan á frestun greiðslna standi. Dráttarvextir séu ekki taldir þar á meðal. Löggjafanum hefði verið í lófa lagið að skýra ákvæðið betur og taka af allan vafa um að dráttarvextir féllu ekki undir 2. mgr. 11. gr. laganna, ef vilji hefði staðið til þess. Þá telji stefndi að sú skýring raski hvorki tilgangi né markmiði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga. Stefndi bendi á að við önnur greiðsluerfiðleikaúrræði sé heimilt að krefjast dráttarvaxta, t.a.m. við greiðslustöðvun, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sé það í samræmi við öll sanngirnissjónarmið sem og eðli dráttarvaxta. Stefndi bendi einnig á að margir kröfuhafar, svo sem sveitarfélög, tryggingafélög og aðrir lögveðskröfuhafar reikni dráttarvexti á kröfur sínar á hinu tilgreinda tímabili. Stefndi byggi einnig á því að skuldabréf nr. 394811278 og nr. 19093 hafi þegar verið komin í vanskil þegar stefnandi hafi sótt um greiðsluaðlögun og dráttarvaxtakrafa stefnda hafi því þegar verið orðin virk. Það fæli í sér takmörkun á eignarrétti og færi gegn sjónarmiðum um afturvirkni ef gert væri ráð fyrir að lög um greiðsluaðlögun einstaklinga breyttu því réttarástandi. Samkvæmt 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 skuli ekki reikna dráttarvexti ef skuldari haldi af lögmætum ástæðum eftir greiðslu kröfunnar. Af hálfu stefnda sé því hafnað að umrætt ákvæði eigi við í fyrirliggjandi máli. Stefndi bendi á að löggjafinn hafi lögfest sérstakt ákvæði um vexti á tímabili frestunar greiðslna, nánar tiltekið 2. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010, sem víki frá almennum ákvæðum vaxtalaga. Þá bendi stefndi á að fyrir liggi að stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrðin til þess að leita greiðsluaðlögunar í upphafi en umsókn hans hafi verið hafnað af embætti Umboðsmanns skuldara og hafi sú ákvörðun verið staðfest af Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að önnur vægari úrræði hefðu ekki dugað til þess að koma nýrri skipan á fjármál hans og að forsendur hafi verið fyrir umsókn hans í upphafi né að honum hafi verið nauðsynlegt að njóta tímabundinnar frestunar greiðslna í tæp 3 ár líkt og raunin hafi verið í þessu máli. Samkvæmt 2. ml. 2. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 gjaldfalli vextir af kröfum sem tryggðar séu með veði í eign sem skuldari fái að halda í samræmi við samninga þar um, að því marki sem veð svari til verðmætis hinnar veðsettu eignar. Stefndi telji stefnanda ekki hafa sýnt fram á að fjárhæð veðskuldabréfanna ásamt dráttarvöxtum hafði numið hærri fjárhæð en sem svarað hafi  til verðmætis hinnar veðsettu eignar, en því sé raunar ekki haldið fram af hálfu stefnanda. Stefndi hafni því að það sé í andstöðu við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að krefjast dráttarvaxta þann tíma sem stefnandi hafi notið tímabundinnar frestunar greiðslna. Þá telji stefndi að krafa stefnanda um ógildingu á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 sé með öllu órökstudd og því beri að hafna þeirri kröfu hans, sjá til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 213/2012. Stefndi telji ákvæðið ekki geta átt við um atvik málsins. Um sé að ræða ákvæði sem feli í sér undantekningarreglu, sem beri að túlka þröngt. 

Varðandi lagarök fyrir kröfu sinni um sýknu vísi stefndi til almennra reglna samninga og kröfuréttar, þar með talið um réttar efndir fjárskuldbindinga og frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum. Einnig sé vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þá vísi stefndi einnig til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og Stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944. Varðandi kröfu stefnda um málskostnað sé vísað m.a. til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129.-131. gr. þeirra.

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um hvort stefnda hafi verið heimilt, meðan stefnandi var í samþykktri greiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, að reikna dráttarvexti á tvö nánar tilgreind lán í eigu stefnda.

Óumdeilt er að stefnandi naut tímabundinnar frestunar greiðslna skv. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, frá 9. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 101/2010 var markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft væri að skuldari gæti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í II. kafla laganna, greinum 4-8, er mælt fyrir um hvernig sækja megi um tímabundna frestun greiðslna og hvernig þær umsóknir skuli afgreiddar. Þá er í 11. gr. laganna mælt svo fyrir að þegar umboðs-maður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna og sé lánadrottnum þá m.a. óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum. Þá er í 2. mgr. 11. gr. mælt svo fyrir að vextir falli á skuldir meðan á frestun greiðslna standi en þeir séu ekki gjaldkræfir.

Í málinu deila aðilar um skýringu á framangreindu vaxtahugtaki í 2. mgr. 11. gr. Af hálfu stefnanda er á því byggt að hugtakið nái eingöngu til almennra vaxta en af hálfu stefnda að auk almennra vaxta nái það einnig til dráttarvaxta. Við skýringu á orðinu vextir í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 er að mati dómsins rétt að líta til eftirfarandi.

Í athugasemdum með frumvarpi til laganna er ekki að finna skýringu á framangreindu vaxtahugtaki. Var þó að mati dómsins full ástæða til að taka sérstaklega fram í skýringargögnum, með hliðsjón af áðurgreindum tilgangi laganna, að heimilt væri að reikna dráttarvexti af skuldum, meðan á frestun greiðslna skv. lögunum stæði, hafi það verið vilji löggjafans. Þykir rétt að skýra þögn löggjafans í þessum efnum sem sterka vísbendingu um að dráttarvextir falli ekki undir  vaxtahugtakið í 2. mgr. 11. gr.

  Samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 er lánardrottnum óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum meðan á frestun greiðslna stendur. Eins og áður er rakið stóð greiðsluskjól stefnanda í rúma 34 mánuði eða frá 9. febrúar 2011 til 18. desember 2013. Væri það fráleit niðurstaða að mati dómsins og í fullkomnu ósamræmi við framangreindan tilgang laga nr. 101/2010 ef fallist væri á að umræddar skuldir stefnanda hefðu átt að bera dráttarvexti allan þann tíma og stefnanda jafnframt verið óheimilt að greiða inn á skuldirnar og stefnda óheimilt að veita slíkum greiðslum viðtöku.

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 101/2010 var m.a. gerð grein fyrir tilurð laganna. Þar kemur m.a. fram að ætlunin með frumvarpinu hafi verið að festa í lög sértækar reglur m.a. að norskri fyrirmynd og er sérstaklega, í því sambandi, vísað til Lov, nr. 99 av 17. juli 1992, om frivillig og tvungen gjeldsordning for privatpersoner (gjeldsordningsloven). Ljóst er að 11. gr. laga nr. 101/2010 er samin að fyrirmynd norsku laganna þ.m.t. ákvæðið í 2. mgr. 11. gr. um vexti, sem á sér fyrirmynd í ákvæði 3:4 í norsku lögunum þar sem segir m.a.: „Renter pålöper í perioden, men forfaller ikke til betaling.“ Í norskum rétti er gerður skýr greinarmunur á annars vegar „renter“, sem vísar til almennra vaxta og hins vegar „forsinkelses-renter“ sem vísar til dráttarvaxta eða vanskilavaxta, sbr. Lov om renter ved forsinket betaling m.m. (forsinkelserenteloven).

Í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er gerður skýr greinarmunur annars vegar á almennum vöxtum, sbr. II. kafla laganna, það er þeim vöxtum sem greiddir eru af peningakröfum á grundvelli samnings, venju eða laga og hins vegar dráttarvöxtum skv. III. kafla laganna. Á almennum vöxtum og dráttarvöxtum er verulegur eðlismunur enda eru dráttarvextir í eðli sínu meðalhófsbætur og tilgangur þeirra fyrst og fremst að bæta kröfuhafa það tjón sem almennt má ætla að greiðslu-dráttur skuldara hafi valdið honum auk þess sem þeim er ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif, hvað efndir skuldbindinga varðar. Almennir vextir eru hins vegar í eðli sínu það endurgjald sem lánveitandi áskilur sér fyrir að lána fjármagn. 

Í 2. ml. 7. gr. laga nr. 38/2001 er mælt svo fyrir að ekki skuli reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsla fari ekki fram vegna þess að skuldari neyti vanefndaúrræða eða haldi eftir greiðslu eða hluta hennar af öðrum lögmætum ástæðum. Að mati dómsins er rétt að skýra vaxtahugtakið í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 til samræmis við framangreint ákvæði laga nr. 38/2001.

Með vísan til framangreindra lögskýringarsjónarmiða og lögskýringargagna er það niðurstaða dómsins að rétt sé að skýra vaxtahugtakið í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 á þann veg að það nái eingöngu til almennra vaxta en ekki dráttarvaxta. Verður ekki fallist á það með stefnda að 72. gr. stjórnarskrárinnar standi þessari skýringu í vegi. 

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi, í framhaldi af munnlegu samkomulagi hans og stefnda, gert upp a.m.k. hluta þeirra dráttarvaxta, sem mál þetta snúist um og hafi uppgjörið farið fram án nokkurs fyrirvara af hálfu stefnanda. Stefnandi sé því bundinn af uppgjörinu enda hafi stefndi verið í góðri trú, þegar hann á grundvelli samkomulagsins hafi móttekið greiðslu dráttarvaxtanna. Ljóst sé með vísan til samkomulagsins og eftirfarandi uppgjörs að stefnandi eigi ekki fjárhagslega hagsmuni af kröfugerð sinni í málinu og kröfugerð hans feli því í sér lögspurningu, sbr. 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Af hálfu stefnanda er framangreindum málsástæðum stefnda mótmælt með vísan til mótmæla lögmanns stefnanda í bréfi til stefnda, 19. ágúst 2015, enda liggi fyrir að stefnandi hafi verulega hagsmuni af því að fá viðurkennt að stefnda hafi verið óheimilt að krefja hann um dráttarvexti fyrir tímabilið 9. febrúar 2011 til 18. desember 2013 þar með þá dráttarvexti, sem hann hafi greitt stefnda, 10. september 2015. 

Óumdeilt er að framangreint uppgjör stefnanda og stefnda, sem m.a. fól í sér greiðslu stefnanda, 10. september 2015, að fjárhæð 15.000.000 króna, átti sér stað í  framhaldi af bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, 19. ágúst 2015. Í bréfinu var gerð skýr krafa um  niðurfellingu dráttarvaxta vegna skuldabréfa nr. 318-35-019093 og nr. 351-35-394811278, fyrir það tímabil sem stefnandi hefði verið í greiðsluskjóli. Hefur stefndi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi fallið frá þessum mótmælum með framan-greindu uppgjöri. Þvert á móti var viðurkennt af lögmanni stefnda, við aðalmeðferð málsins, að stefnda hefði við uppgjörið verið kunnugt um framangreind mótmæli stefnanda og ekki hefði af hálfu stefnda verið litið svo á að stefnandi hefði með uppgjörinu fallið frá mótmælunum. Þá var ennfremur viðurkennt af lögmanni stefnda við aðalmeðferðina að í uppgjörinu hefði m.a. falist greiðsla á hluta þeirra dráttarvaxta sem stefndi hefði talið sér heimilt að krefja stefnanda um vegna tímabilsins 9. febrúar 2011 til 18. desember 2013. Verður með vísan til framangreinds ekki á það fallist með stefnda að umrætt uppgjör stefnanda og stefnda standi í vegi fyrir kröfugerð stefnanda í máli þessu. Þá verður stefnandi talinn hafa sýnt nægilega fram á lögvarða hagsmuni af niðurstöðu málsins. Verður af sömu ástæðu ekki á það fallist með stefnda að kröfugerð stefnanda feli í sér lögspurningu í merkingu 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Með vísan til alls framangreinds verður viðurkennt að stefnda hafi verið óheimilt að krefja stefnanda um dráttarvexti, samkvæmt lögum nr. 38/2001, á ógreiddar eftirstöðvar veðskuldabréfs nr. 371-74-11278, nú með lánsnúmerið 0351-35-394811278, sem stefnandi og réttargæslustefnda hafi gefið út til Kaupþings Búnaðarbanka hf., kt. 560882-0419, 13. október 2004, en sem nú sé í eigu stefnda, frá og með 9. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013. Þá er viðurkennt að  stefnda hafi verið óheimilt að krefja stefnanda um dráttarvexti, samkvæmt lögum nr. 38/2001, á ógreiddar eftirstöðvar veðskuldabréfs nr. 318-35-4713, nú með lánsnúmerið 318-35-019093, sem stefnandi og réttargæslustefnda hafi gefið út til stefnda, 25. febrúar 2010, frá og með 9. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Viðurkennt er að stefnda, Arion banka hf., hafi verið óheimilt, frá og með 11. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013, að krefja stefnanda, Kristinn Þröst Vagnsson, um dráttarvexti, samkvæmt lögum nr. 38/2001, á ógreiddar eftirstöðvar veðskuldabréfs, upphaflega með lánsnúmerið 371-74-11278 en nú með lánsnúmerið 0351-35-394811278, sem stefnandi og réttargæslustefnda hafi gefið út til Kaupþings Búnaðarbanka hf., kt. 560882-0419, 13. október 2004, en  nú sé í eigu stefnda. Þá er viðurkennt að stefnda hafi verið óheimilt, frá og með 9. febrúar 2011 til og með 18. desember 2013, að krefja stefnanda um dráttarvexti, samkvæmt lögum nr. 38/2001, á ógreiddar eftirstöðvar veðskuldabréfs nr. 0318-35-4713, nú með lánsnúmerið 0318-35-019093, sem stefnandi og réttargæslustefnda hafi gefið út til stefnda, 25. febrúar 2010.

Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.