Print

Mál nr. 436/2015

Óli Ásgeir Keransson Stueland (Sveinn Guðmundsson hrl.)
gegn
Tryggingarstofnun ríkisins (Erla S. Árnadóttir hrl.)
Lykilorð
  • Almannatryggingar
  • Ökutæki
  • Aðildarskortur
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Stjórnarskrá
  • Aðfinnslur
Reifun

Árið 2013 samþykkti T umsókn Ó um styrk til bifreiðakaupa vegna fjölfatlaðs sonar hans, þó þannig að fjárhæð sambærilegs styrks sem Ó fékk árið 2009 var að fullu dreginn frá síðari styrknum. Í málinu krafðist Ó þess að T yrði gert að greiða sér styrkinn óskertan og reisti kröfu sína á því að ákvörðun T stæðist hvorki 1. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar né ákvæði laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Ekki var fallist á með T að Ó væri ekki rétthafi þeirra hagsmuna sem um væri deilt í málinu þannig að sýkna bæri hann vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þótt Ó hefði sótt um styrk til kaupa á nýrri bifreið fyrir hönd sonar síns hefði T litið á Ó sem umsækjanda um styrkinn. Þá hefði styrkurinn verið greiddur Ó sem hefði fest kaup á bifreiðinni og verið skráður eigandi hennar. Talið var að dómstólar væru til þess bærir samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar að fjalla um lögmæti ákvörðunarinnar. Á hinn bóginn væri það ekki á valdsviði þeirra að leggja sérfræðilegt mat á það hvort T hefði sem stjórnvaldi verið rétt að veita styrkinn og þá hversu háan með tilliti til sjúkdóms sonar Ó, fötlunar og annarra aðstæðna. Með vísan til þess að í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 hefði verið mælt fyrir um að heimilt væri að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings þegar Ó sótti um styrkinn og T tók ákvörðunina, var talið að hún hefði verið lögmæt og málefnaleg. Var T því sýknað af kröfu Ó.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. júní 2015. Hann krefst þess aðallega að ógilt verði ákvörðun stefnda 30. apríl 2013 „um að frádreginn verði 1.200.000 kr. styrkur vegna bifreiðakaupa sem veittur var á árinu 2009, frá 5.000.000 kr. styrk sem veittur var vegna kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum á árinu 2013“, en til vara að viðurkennt verði að ákvörðunin hafi verið ólögmæt. Þá krefst áfrýjandi þess aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 1.200.000 krónur, en til vara 1.052.640 krónur. Ennfremur krefst hann málskostnaðar í héraði án tillits til gjafsóknar sem honum var þar veitt, svo og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvik eru í stuttu máli þau að sonur áfrýjanda, Keran Stueland Ólason, sem var fæddur 15. mars 2009 og lést 11. júní 2014, var fjölfatlaður með taugahrörnunarsjúkdóm og bundinn við öndunarvél allan sólarhringinn. Þurfti drengurinn af þeim sökum á að halda bifreið, meðal annars til að komast í leikskóla og njóta læknismeðferðar og reglubundinnar þjálfunar. Með bréfi til áfrýjanda 9. júní 2009 tilkynnti stefndi að samþykktur hafi verið styrkur, að fjárhæð 1.200.000 krónur, vegna kaupa á bifreið á grundvelli umsóknar hans. Í bréfinu var vísað til laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Jafnframt var þar tekið fram að óheimilt væri „að selja bifreið innan 5 ára frá veitingu styrks.“ Áfrýjandi eignaðist bifreið skömmu síðar, en á árinu 2010 kom rúmbetri bifreið í hennar stað þegar sonur hans fór að stækka.

Samkvæmt gögnum málsins ritaði áfrýjandi 7. mars 2013 undir umsókn, fyrir hönd sonar síns, á þar til gert eyðublað um styrk til kaupa á enn stærri og fullkomnari bifreið. Í umsókninni var farið fram á að greiðslur „leggist inn á eftirfarandi viðskiptareikning umsækjanda“ sem mun hafa verið reikningur áfrýjanda. Stefndi tók við umsókninni 11. mars 2013 og henni mun hafa fylgt vottorð félagsráðgjafa frá 8. sama mánaðar þar sem lýst var aðstæðum áfrýjanda og sonar hans. Í vottorðinu kom fram að drengurinn hafi fengið „bílastyrk 1200 þ kr. líklega fyrir þremur árum og er því verið að sækja um undanþágu núna.“ Þá kvaðst sá, sem vottorðið gaf, hafa gert áfrýjanda „grein fyrir að ef hann fái úthlutað styrk núna verði honum líklega gert að endurgreiða hluta styrksins sem hann fékk þá og er Óli sáttur við það.“ Í tilefni af síðastnefndum orðum var áfrýjandi spurður fyrir héraðsdómi hvað hann hafi haldið að hann þyrfti að endurgreiða. Því svaraði hann: „Það var alltaf talað við mig um að endurgreiða hlutfallslega til baka sem sagt ef ég myndi selja bílinn innan fimm ára að þá myndi ég þurfa að greiða hlutfallslega til baka eftirstöðvar af þessum fimm árum og við vorum svo sem alveg sátt við það því að ... þessi fimm ár voru að ljúka og hérna okkur bara dauðvantaði stærri bíl þannig að við sættumst alveg á það að gera það.“

Með bréfi stefnda til áfrýjanda 17. apríl 2013 var vísað til 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 og tekið fram að frekari gögn vantaði vegna umsóknar, sem borist hafi um „styrk til bifreiðakaupa vegna Keran Stueland Ólason“, en börn á aldur við hann þyrftu almennt ekki á stórum og sérútbúnum bifreiðum að halda. Stefndi tók síðan afstöðu til umsóknarinnar í bréfi til áfrýjanda 30. apríl 2013 og sagði í upphafi þess að stefnda hafi borist umsókn hans um styrk til bifreiðakaupa vegna sonar hans. Síðar var komist svo að orði: „Samþykktur hefur verið 60% styrkur af grunnverði bifreiðar án aukabúnaðar, þó ekki hærri en 5.000.000 kr að frádregnum styrk kr. 1.200.000 sem greiddur var 2009. Styrkurinn verður greiddur á tímabilinu 1. maí 2013 til 1. maí 2014 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.“ Meðal þeirra var að bifreið skyldi skráð á forráðamann ef um barn væri að ræða. Í september 2013 keypti áfrýjandi nýja bifreið. Nam kaupverð hennar 8.960.187 krónum og mun hluti þess hafa verið greiddur með fyrrgreindum styrk að fjárhæð 3.800.000 krónur. Var áfrýjandi skráður eigandi bifreiðarinnar í ökutækjaskrá.

Fjárkröfur áfrýjanda eru á því reistar að sú ákvörðun stefnda 30. apríl 2013 að draga fjárhæð fyrri styrksins, sem veittur var árið 2009, að fullu frá síðari styrknum standist hvorki fyrirmæli 1. og 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar né ákvæði laga nr. 99/2007 og reglugerðar nr. 170/2009. Samkvæmt því eru kröfur áfrýjanda, sem lúta að ógildi og ólögmæti ákvörðunarinnar, í raun málsástæður til stuðnings fjárkröfunum og koma þær því aðeins til skoðunar sem slíkar við úrlausn málsins. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af kröfum áfrýjanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  

II

Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 99/2007 er kveðið á um að stefndi greiði bætur samkvæmt þeim lögum. Eftir fyrri málslið 1. mgr. 10. gr. laganna er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í fyrsta málslið 3. mgr. greinarinnar, sbr. 58. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, segir að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Í öðrum málslið málsgreinarinnar, sem bætt var við hana með 13. gr. laga nr. 120/2009, er svo fyrir mælt að heimilt sé að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings og jafnframt var samsvarandi regla að því er varðar uppbót vegna kaupa á bifreið tekin upp í síðari málslið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir meðal annars að stefnda sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfæranda langveikra barna sem dveljast í heimahúsi að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sem sett hefur verið á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007, sbr. lokamálslið 3. mgr. 10. gr. laganna, er fjallað um styrki til kaupa á bifreiðum vegna þeirra sem hreyfihamlaðir eru. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar skal styrkur vera 1.200.000 krónur að uppfylltum nánar greindum skilyrðum. Í 3. mgr. segir að styrk sé heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings og í 5. mgr. að óheimilt sé að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir styrkveitingu nema að fengnu sérstöku leyfi stefnda. Eftir 6. mgr. er heimilt, ef hinn hreyfihamlaði hefur móttekið uppbót samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks, að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og fjárhæð styrks. Styrkur og uppbót getur þó aldrei verið hærri en 1.200.000 krónur á fimm ára fresti. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um styrki til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50% til 60% af kaupverði hennar, það er grunnverði án aukabúnaðar, ef um sé að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Eftir 2. mgr. er heimilt að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Styrkur samkvæmt þessu ákvæði getur aldrei verið hærri en 5.000.000 krónur. Í 5. gr. er ekki að finna sams konar ákvæði og í 6. mgr. 4. gr. um að heimilt sé að draga frá styrk, sem veittur er til kaupa á sérútbúinni og dýrri bifreið, styrk sem hinn hreyfihamlaði hefur áður þegið til kaupa á bifreið.

III

Ákvæði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 ber að skýra þannig, með hliðsjón af 1. mgr. hennar og 1. mgr. 4. gr. laganna, að heimilt sé að greiða styrk til kaupa á bifreið til framfæranda fatlaðs og langveiks barns sem á henni þarf að halda. Þótt áfrýjandi hafi sótt um styrk til kaupa á nýrri bifreið fyrir hönd sonar síns í mars 2013 virðist stefndi hafa litið á áfrýjanda sem umsækjanda um styrkinn í bréfum sínum til hans 17. og 30. apríl sama ár. Jafnframt mun styrkurinn hafa verið greiddur áfrýjanda sem festi kaup á bifreiðinni og var skráður eigandi hennar. Að þessu virtu er hafnað kröfu stefnda um sýknu vegna aðildarskorts þar sem áfrýjandi sé ekki rétthafi þeirra hagsmuna, sem um er deilt í máli þessu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 20. desember 2005 í máli nr. 208/2005.

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum, sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar, þar á meðal vegna sjúkleika, örorku og sambærilegra atvika, og í 3. mgr. er mælt svo fyrir að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í samræmi við þessi fyrirmæli stjórnarskrárinnar er í 10. gr. laga nr. 99/2007 meðal annars kveðið á um heimild til handa stefnda til að greiða til framfærenda fatlaðra og langveikra barna uppbót vegna kaupa á bifreiðum í þeirra þágu eða veita þeim styrk í sama tilgangi, enda sé fullnægt þeim skilyrðum sem þar eru greind. Eins og ráðið verður af áðurgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 208/2005 eru dómstólar til þess bærir samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar að fjalla um lögmæti ákvarðana eins og þeirrar sem mál þetta fjallar um. Á hinn bóginn er það ekki á valdsviði þeirra að leggja sérfræðilegt mat á það hvort stefnda hafi sem stjórnvaldi verið rétt að veita styrk til bifreiðakaupa í tilviki áfrýjanda og þá hversu háan með tilliti til sjúkdóms sonar hans, fötlunar og annarra aðstæðna.

Þegar áfrýjandi sótti um styrk til kaupa á bifreiðinni í mars 2013 var honum samkvæmt því, sem áður er rakið, kunnugt um að styrkurinn kynni að verða skertur vegna styrksins, sem honum hafði verið veittur árið 2009, þar sem ekki væru liðin fimm ár frá styrkveitingunni. Af þeirri ástæðu var ekki þörf á að stefndi upplýsti hann sérstaklega um þetta atriði, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki var heldur tilefni til að gefa áfrýjanda kost á að tjá sig frekar um málið áður en stefndi tók afstöðu til umsóknar hans, að fengnum viðbótarupplýsingum frá honum, sbr. 13. gr. sömu laga.

Þegar áfrýjandi sótti um styrkinn og stefndi tók hina umdeildu ákvörðun hafði 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 sem áður greinir verið breytt á þann veg að þar var svo fyrir mælt að heimilt væri að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Samkvæmt því var það í senn lögmætt og málefnalegt af stefnda að draga fjárhæð þess styrks, sem áfrýjandi hafði þegið til kaupa á bifreið í þágu sonar síns árið 2009, frá styrknum sem honum var veittur í sama tilgangi árið 2013 þar sem ekki voru liðin full fjögur ár frá ákvörðun um fyrri styrkveitinguna.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að sýkna stefnda af kröfum áfrýjanda í máli þessu. Í samræmi við það verður niðurstaða héraðsdóms staðfest, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað hér fyrir dómi eins og nánar greinir í dómsorði.

Það athugast að áfrýjandi afhenti réttinum málsgögn sem voru í verulegu ósamræmi við reglur nr. 601/2014 um málsgögn í einkamálum sem settar eru samkvæmt 4. mgr. 156. gr. laga nr. 91/1991. Á það einkum við um uppröðun skjala, sbr. 3. gr. reglnanna. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. apríl 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. apríl 2015, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, sem þingfest var 10. júní 2014, af Óla Ásgeiri Stueland Keransson, Jötunsölum 2, 201 Kópavogi, á hendur Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, 150 Reykjavík.

I.

        Stefnandi gerir aðallega þá kröfu að ógilt verði ákvörðun stefnda, dags. 30. apríl 2013, um að frádreginn verði 1.200.000 kr. styrkur vegna bifreiðakaupa sem veittur var á árinu 2009, frá 5.000.000 kr. styrk, sem veittur var vegna kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum á árinu 2013.

         Stefnandi gerir þá kröfu til vara að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun stefnda, dags. 30. apríl 2013, um að frádreginn verði 1.200.000 kr. styrkur vegna bifreiðakaupa sem greiddur var á árinu 2009, frá 5.000.000 kr. styrk, sem veittur var vegna kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum á árinu 2013, sé ólögmæt.

         Stefnandi gerir aðallega þá fjárkröfu að stefndi greiði sér 1.200.000 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. desember 2013 til greiðsludags.

        Stefnandi krefst þess til vara að stefndi greiði sér 1.052.640 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. desember 2013 til greiðsludags.

        Þá krefst stefnandi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt gjaldskrá Lagaraka lögmannstofu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, en sótt hefur verið um gjafsókn vegna málsins.

         Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

         Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

II.

        Stefnandi sótti um styrk vegna bifreiðakaupa árið 2009, fyrir son sinn, Keran Stueland Ólasonar, kt. [...]. Óumdeilt er að drengurinn var hreyfihamlaður og uppfyllti skilyrði styrkjar skv. 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa. Drengurinn var bundinn sérútbúinni kerru alla daga og var hún útbúin tækjum vegna veikinda hans. Drengurinn þurfti að hafa meðferðis útistól og innistól, sem fylgdu honum þegar hann var á leikskóla og í ferðum. Drengurinn var reglulega undir læknishendi vegna veikinda hans sinna og fór hann auk reglulegra læknisheimsókna einnig í Rjóður einu sinni í mánuði, þar sem hann dvaldi í nokkra daga í senn.

        Samþykktur var styrkur af hálfu stefnda fyrir drenginn þann 9. júní 2009 vegna bifreiðakaupa að upphæð 1.200.000 kr. og var hann greiddur út á tímabilinu 1. júní 2009 til 31. maí 2010. Styrkurinn var veittur á grundvelli reglugerðar nr. 170/2009 um styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa. Stefnandi keypti bifreiðina Toyota Landcruiser 120 VX með skráningarnúmerinu SH-065. Kaupin fóru fram með þeim hætti að afi barnsins keypti bifreiðina 27. maí 2009, þar sem stefnanda vantaði hana nauðsynlega fyrir drenginn. Hún var síðan færð yfir á stefnanda sem forráðamanns drengsins þann 22. júní 2009, en þá hafði honum borist samþykkt stefnda, dags. 9. júní 2009. Fyrirkomulagið var með vitund og vilja stefnda.

        Bifreiðin hentaði fyrst um sinn meðan drengurinn var enn ungabarn, en ári síðar kom í ljós, þegar drengurinn fór að stækka, að bifreiðin hentaði ekki sem skyldi og var því fengin ný bifreið, Volkswagen Transporter með skráningarnúmerinu MY-618. Bifreiðin var keypt þann 16. júlí 2010 og stefndi hafði vitneskju um kaupin. Sú bifreið var rúmbetri og var nauðsynleg til að flytja aukabúnað fyrir drenginn.

        Eftir því sem drengurinn stækkaði og sérþarfir jukust varð stefnanda ljóst að hann þyrfti stærri bifreið sem væri rúmbetri og betur útbúin aukabúnaði. Stefnandi sótti um styrk vegna stærri bifreiðar á árinu 2013 þar sem eldri bifreið hentaði ekki lengur þörfum drengsins og ekki var nægilegt rými fyrir hjálpartækin og drenginn. Í 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 er kveðið á um að heimilt sé að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings og að heimild reglugerðarinnar sé bundin við að um nauðsyn sé að ræða. Stefnandi sótti um styrk áður en fimm ár voru liðin þar sem hann taldi það nauðsynlegt. Þann 30. apríl 2013 samþykkti stefndi 60% styrk af grunnverði nýrrar bifreiðar til stefnanda að hámarki að upphæð 5.000.000 kr. sem er hámarksstyrkur að frádregnum veittum styrki á árinu 2009 að fjárhæð 1.200.000 kr. vegna drengsins. Styrkur þessi er veittur til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum skv. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

        Stefnandi keypti bifreið á grundvelli ákvörðunar stefnda um bifreið sem hentaði og skilaði hann inn yfirlýsingu til stefnda um kaupin þann 30. ágúst 2013. Stefnandi keypti bifreið af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter með skráninganúmerinu RX-R30 þann 11. september 2013. Stefnandi taldi sig ekki geta beðið lengur með kaup á bifreiðinni þar sem hún var drengnum nauðsynleg til að stunda læknismeðferð og leikskóla. Styrkurinn var greiddur út á tímabilinu 1. maí 2013 til 1. maí 2014.     

        Lögmaður stefnanda mótmælti með bréfi, dags. 12. nóvember 2013, til stefnda því að stefnandi fengi ekki fullan styrk og krafðist þess til vara að honum yrði veittur styrkur með hlutfallslegum frádrætti.

        Stefndi svaraði erindi þessu með bréfi, dags. 29. nóvember 2013, þar sem fram kom að kærufrestur vegna ákvörðunar stefnda frá 30. apríl 2013 væri runninn út, sbr. 8. gr. Almannatryggingalaga nr. 100/2007 og 27. gr. stjórnsýslulaga. Fram kom að stefndi liti á erindið frá 12. nóvember 2013 sem ósk um endurupptöku, en ekki væri heimild til hennar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

         Keran Stueland Ólason lést þann 11. júní 2014.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi mótmælir því að sá styrkur, sem veittur var árið 2009 að fjárhæð 1.200.000 kr., komi til frádráttar á styrk, sem veittur var árið 2013 að fjárhæð 5.000.000 kr. til kaupa á  nýrri bifreið án aukabúnaðar, skv. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009, þar sem sýnt þótti að eldri bifreið, sem keypt var með með samþykktum styrk árið 2009, var orðinn of lítil. Forsendur hefðu breyst og drengurinn hefði bæði elst og verið orðin stærri og þyngri. Það eitt sýni mikilvægi þess að drengurinn og stefnandi hefðu þurft á stærri bíl að halda svo drengurinn gæti sótt þær endurhæfingar og læknismeðferðir, sem hann þurfti á að halda, sbr. markmið reglugerðar nr. 170/2009.

        Í 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum segi í 1. mgr.: Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“ Þá segi jafnframt í 3. mgr.: Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Í þessu skyni hafi löggjafinn veitt einstaklingum í stöðu stefnanda og sonar hans, Kerans, sérstök réttindi með lögum um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum og lögum um félagslega aðstoð nr. 99/2007, með síðari breytingum. Í 1. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007, komi fram að þau veiti bæði styrki vegna kaupa á bifreið sem og uppbót vegna kaupa á bifreið. Í 10. gr. reglugerðarinnar segir:

.http://www.althingi.is/lagas/hk.jpgHeimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. [Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.]1)
http://www.althingi.is/lagas/hk.jpgSama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.
http://www.althingi.is/lagas/hk.jpg[Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. [Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.]1) Ráðherra setur reglugerð2) um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.]3)
   1)
L. 120/2009, 13. gr. 2)Rg. 170/2009, sbr. 1216/2013. 3)L. 112/2008, 58. gr.

        Með heimild í ofangreindu ákvæði hafi verið sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Þar sem sonur stefnanda uppfylli öll þau skilyrði sem getið er um í 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 hafi hann heimild til að sækja um styrk til til bifreiðakaupa sem falla undir 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

       Fram komi í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 það skilyrði að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja og að Tryggingastofnun ríkisins samþykki val á bifreið. Fyrir hafi legið mat á því að drengurinn þurfti að notast við hjálpartæki og það hafi sýnt sig að eldri bifreið, sem notast hafði verið við, réð illa við það að bera hjálpartæki sem fylgdu honum. Hún hentaði því ekki lengur þörfum drengsins.

        Stefnandi telur, að þar sem umrædd lagaákvæði um bifreiðastyrki feli í sér útfærslu á aðstoð sem skyldi tryggð fötluðum einstaklingum með lögum samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár, verði við túlkun reglugerðarinnar að líta til þeirra markmiða sem styrkjunum væri ætlað að ná, þ.e. að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu. Stefnandi telji því ekki forsendur til að túlka undanþáguheimildina í 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 þröngt, enda yrði slík þrengjandi skýring talin ganga gegn meginmarkmiðum reglugerðarinnar. Stefnandi telur jafnframt að túlkun stefnda hafi þær afleiðingar í för með sér að hreyfihamlaður einstaklingur yrði að leggja út í kostnað langt umfram verðmæti viðkomandi bifreiðar til að gera óhentuga bifreið nothæfa þar sem bifreið hefði ekki ónýst skyndilega. Stefnandi byggir á að ljá verði ákvæðinu inntak sem samrýmdist meginmarkmiðum sem styrkjunum væri ætlað að ná.

        Stefnandi mótmælir því að fyrri styrkur verði endurgreiddur að fullu. Skoða verður öll ákvæði reglugerðar nr. 170/2009 í samræmi við áðurgreind markmið reglugerðarinnar og lög nr. 99/2007 sem og ákvæði 76. stjórnarskrár. Stefnandi mómælir því að styrkur, sem veittur var á árinu 2009 vegna kaupa á bifreið, skuli koma að öllu leyti til frádráttar styrk, sem veittur á árinu 2013 vegna kaupa á stærri bifreið, og slíkt standist hvorki lög né stjórnarskrá.

        Stefnandi byggir á því að þó lögfest sé í öðrum málslið 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007, að heimilt sé að veita styrk til bifreiðakaupa á fimm ára fresti vegna sama einstaklings, verði ekki ráðið af lögskýringargögnum að baki lögum nr. 120/2009 að ætlunin hafi verið að takmarka svigrúm ráðherra á grundvelli reglugerðarheimildar lokamálsliðar 3. mgr. 10. gr. fyrrnefndu laganna til að útfæra nánar þetta skilyrði í reglugerð. Því verði að játa honum nokkurt svigrúm til að mæla fyrir um nauðsynleg frávik frá umræddu skilyrði, styrkþegum í hag, svo fullnægt sé þeim markmiðum með þessum styrkveitingum sem að framan séu rakin og útfærð í 1 .gr. reglugerðarinnar. Að þessu virtu telur stefnandi jafnframt að ekki séu forsendur til að túlka þröngt heimild 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sem heimilar að horft sé fram hjá fimm ára tímamarkinu við nánari skilgreindar aðstæður, enda yrði slík þrengjandi skýring talin ganga gegn meginmarkmiðum 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

        Stefnandi byggir á því, að með áðurgreindum ákvæðum og við afgreiðslu málsins hafi í raun verið komið í veg fyrir mat stjórnvalds, sem og að stefndi hafi ekki sinnt lögbundnu mati og nýtt heimild sína í 2. ml. 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Þannig sé heimilt að víkja frá fimm ára tímamarki eyðileggist bifreið á tímabilinu. Stefnandi byggir á því að skýra verði ákvæðið rúmt og bifreiðin hafi í raun ónýst þar sem hún hentaði ekki lengur þörfum drengsins og honum því verið nauðsyn að fá stærri bifreið. Stefnandi telur að þröng túlkun á þessu ákvæði fari gegn lögum, enda hafi umboðsmaður Alþingis fundið að þessu ákvæði og framkvæmd stefnda í sambærilegu máli í áliti sínu í máli nr. 6505/2011 frá 18. júlí 2012.

        Stefnandi hafi sótt um styrk skv. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 og fengið hann samþykktan. Stefndi ákveði síðan að draga eldri styrk frá þrátt fyrir að ekki sé að finna skýra stoð í 5. gr. reglugerðarinnar fyrir þeirri ákvörðun. Stefnandi mótmælir því að lagastoð sé fyrir þessum frádrætti. Stefnandi hafi selt eldri bifreiðina í ágúst 2013 til að eiga fyrir stærri bifreið, sem hann keypti í september sama ár. Stefndi hafi ekki gætt góðra stjórnsýsluhátta og ekki leiðbeint stefnanda um réttarstöðu sína eða bent honum á úrræði til að koma í veg fyrir þá skerðingu réttinda sem hafi falist í ákvörðun stefnda, dags. 30. apríl 2013. Þannig hafi stefndi hvorki gætt leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né heldur meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Þá hafi stefnanda ekki verið veittur andmælaréttur í ákvörðunarferli stefnda eins og skylt sé skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefnda hafi verið í lófa lagt að veita stefnanda undanþágu eða þá að leiðbeina honum um að sækja um styrkinn síðar svo hann fengi að njóta hans að fullu. Stefnandi hefði með því móti getað t.a.m. haft nýju bifreiðina á kaupleigu fram að fimm ára tímamarkinu, en keypt hana þegar því væri náð.

        Stefnandi telur sig bæði hafa lögvarða hagsmuni og réttmætar væntingar á því að fyrri ákvörðun standi. Stefndi horfi fram hjá sjónarmiðum á borð við nauðsyn stefnanda við að fá stærri bifreið svo sinna megi læknismeðferð og skólagöngu drengsins. Einnig horfi stefndi fram hjá því að stefnandi hafi gert allt sem í hans valdi stóð til að fá aðrar bifreiðar til að þjóna þörfum drengsins eins lengi og hann mögulega gat og hafi reynt allt áður en hann sótti um hærri styrk og fékk sérútbúna bifreið fyrir drenginn.

        Í kröfum stefnanda felist að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt að draga styrk, sem veittur var á árinu 2009 að fjárhæð 1.200.000 kr., frá styrk að fjárhæð 5.000.000 kr. sem veittur hafi verið með ákvörðun stefnda þann 30. apríl 2013 vegna kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum sem falla undir skilgreiningu 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Krafa stefnanda sé því skaðabótakrafa vegna þess tjóns sem stefnandi hafi hlotið vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar stefnda.

        Stefnandi telur í besta falli ásættanlegt að hlutfall af fyrri styrknum verði dregið frá, en ekki styrkurinn allur í heild sinni, enda hafi verðgildi bílsins fallið og ætti upphæð fyrri styrksins að taka mið af því sem og að rúm 4 ár hafi verið liðin frá fyrri styrkveitingu. Auk þess verði að taka mið af því hvort bifreiðin sem keypt var árið 2009 þjóni þeim tilgangi sem hún var keypt til að þjóna, sem hún geri ekki lengur í þessu tilfelli. Byggir stefnandi hér á sanngirnissjónarmiðum og tilgangi laganna sem og þeirri heimild að líta fram hjá fimm ára tímamarki sem veitt er í 5. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Stefnandi reisi varakröfu sína á þessum grundvelli, en fyrsta bifreið var keypt 22. maí 2009 og hafi hann notað hana fram til 11. september 2013 þegar hann keypti nýja bifreið, eða í fjögur ár, þrjá mánuði og 19 daga. Það séu 87,72% af fullum fimm árum og varafjárkrafan sé miðuð við það hlutfall af 1.200.000 kr. sem frádráttur frá styrk veittum á árinu 2013, eða samtals 1.052.640 kr.

        Stefnandi byggir á því að honum sé nauðsyn á að fá dóm fyrir því að ákvörðun stefnda sé ólögmæt sem og  dóm fyrir þeirri kröfu hann eigi að njóta styrkjar að fullu auk dráttarvaxta á þá fjárhæð sem dregin var frá veittum styrk á árinu 2013. Upphafstími dráttarvaxta miðist við mánuð eftir að krafa um styrk að fullu var sett fram með formlegum hætti með bréfi f.h. stefnanda til stefnda, dags. 12. nóvember 2013, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Að lokum byggir stefnandi á því að túlkun stefnda á reglugerð nr. 170/2009 sé ekki í samræmi við þau markmið, sem stefnt hafi verið að í 1. mgr. 76. gr. laga nr. 33/1944 og að þröng túlkun undanþágu frá fimm ára tímamarki ásamt kröfu um ónýtingu bifreiðar hafi ekki lagastoð.

        Krafa stefnanda sé, auk ógildingarkröfu, viðurkenningarkrafa skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnanda sé nauðsynlegt að fá úr því skorið með dómi hvort stefnda sé heimilt að draga upphæð styrks, sem veittur var 2009 vegna kaupa á bifreið skv. 4. gr. reglugerðar 170/2009, frá styrk sem veittur var skv. 5. gr. reglugerðar 170/2009, þar sem sýnt þyki að fyrri bifreið hafi verið orðin of lítil til að koma bæði barni og hjálpartækjum fyrir í bifreiðinni.

        Stefnandi vísar til þess að hann hafi verið í fríi þegar umrædd ákvörðun var send honum og hann hafi af þeirri ástæðu ekki séð hana fyrr en kærufrestur hafi verið liðinn.

        Um rétt stefnanda til að fá greiddan þann styrk sem hann á rétt á vísast til reglugerðar nr. 170/2009 með markmið 1. mgr. 76. gr. laga nr. 33/1944 að leiðarljósi og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007.

        Um varnarþing vísar stefnandi til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 33. gr. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggir á XXI. kafla laga 91/1991, sérstaklega 130. gr., en taka verði mið af skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málskostnaði, sbr. lög nr. 50/1988, en stefnandi máls þessa sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því nauðsynlegt að taka tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar. Krafa um dráttarvexti er reist á III., IV. og V. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Málsástæður og lagarök stefnda

        Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Málatilbúnaður stefnanda byggi á því að stefnda hafi verið óheimilt að draga styrk, sem veittur var á árinu 2009 með ákvörðun stefnda þann 9. júní 2009, að fjárhæð 1.200.000 kr., frá styrk að fjárhæð 5.000.000 kr., sem veittur var á árinu 2013 með ákvörðun stefnda þann 30. apríl 2013. Styrkirnir hafi verið veittir vegna kaupa á sérútbúinni og dýrri bifreið samkvæmt skilgreiningu 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Stefnandi hafnar þessum málatilbúnaði á grundvelli eftirfarandi málsástæðna:

        Í fyrsta lagi krefst stefndi sýknu á grundvelli aðildarskorts stefnanda. Umsækjandi að styrk þeim, sem deilt er um í málinu, hafi verið Keran Stueland Ólason, kt. [...], sonur stefnanda, og hafi hann því verið rétthafi þeirra hagsmuna sem um sé deilt. Sá einn geti að réttu lagi höfðað mál, sem sé rétthafi að þeim hagsmunum sem leita eigi úrlausnar dómstóla um. Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála komi lögráðamaður fram sem fyrirsvarsmaður ólögráða manns sem á aðild að máli og brestur hæfi til að ráða sakarefninu. Stefnandi hefði því með réttu átt að vera fyrirsvarsmaður sonar síns en ekki aðili að málinu. Eftir lát drengsins væri dánarbú hans réttur aðili að málinu. Ef brotið sé gegn þessum grundvallarreglum á þann hátt að maður höfði mál um hagsmuni, sem annar eigi með réttu, sé uppi aðildarskortur, sem leiða eigi til sýknu stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. 

        Í öðru lagi byggir stefndi á því að sér hafi verið bæði rétt og skylt að draga styrk að fjárhæð 5.000.000 kr., sem veittur var vegna bifreiðakaupa á árinu 2013, frá styrk að fjárhæð 1.200.000 kr. vegna bifreiðakaupa, sem veittur hafi verið á árinu 2009. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vanti. Á grundvelli þessa ákvæðis sé í gildi reglugerð nr. 170/2009. Óumdeilt sé að sonur stefnanda uppfyllti nefnd skilyrði og átti á sínum tíma rétt á styrk, sem veittur var á árinu 2009. Í 2. málslið 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 komi aftur á móti skýrt fram að einungis sé heimilt að veita styrk til bifreiðakaupa á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Hið sama komi einnig fram í reglugerð nr. 170/2009, þar sem segi í 2. mgr. 5. gr. að heimilt sé að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings og að styrkur samkvæmt ákvæðinu geti aldrei verið hærri en 5.000.000 kr. Einungis sé heimilt að víkja frá nefndu fimm ára tímamarki eyðileggist bifreið á tímabilinu, sbr. 2. málslið 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Fimm ár hafi ekki verið liðin milli styrkveitinga, þ.e. frá því að styrkur var veittur árið 2009 og þar til hin nýja umsókn var afgreidd á árinu 2013. Stefnandi hafi sótt sérstaklega um undanþágu frá fimm ára reglunni. Hefði styrkumsókn stefnanda verið samþykkt að fullu án frádráttar hefðu styrkir vegna sonar stefnanda numið samtals 6.200.000 kr. á árunum 2009-2013, en það sé umfram leyfilegt hámark. Í stað þess að hafna umsókn um styrk hafi stefndi beitt þeirri aðferð að draga fyrri styrkveitingu frá styrk sem veittur var. 

        Til stuðnings þess að rétt hafi verið að draga fyrri styrkveitingu frá síðar veittum styrk vill stefndi til hliðsjónar vekja athygli á því hvernig samspili uppbótar samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 og styrkja til kaupa á bifreiðum samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar sé háttað. Í 3. gr. reglugerðarinnar sé mælt fyrir um heimild til að greiða elli- og örorkulífeyrisþegum og örorkustyrkþegum 300.000 kr. (600.000 kr. til þeirra sem eru að kaupa bifreið í fyrsta sinn) uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn vegna hreyfihömlunar. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé mælt fyrir um heimild til að greiða styrk að hámarki 1.200.000 kr. til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Í 6. mgr. 4. gr. komi svo fram að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót samkvæmt 3. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt þessu ákvæði sé heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og fjárhæð styrks. Styrkur og uppbót geta þó aldrei verið hærri en 1.200.000 kr. á fimm ára fresti. Þessu undanþáguákvæði hafi einnig verið beitt um þá sem hafi fengið styrk að fjárhæð 1.200.000 kr., en sjúkdómsástand/aðstæður breyst til hins verra þannig að viðkomandi uppfyllir skilyrði 50-60% styrks. Stefndi vekur jafnframt athygli á að þessi framkvæmd sé auk þess í samræmi við eldri framkvæmd eins og hafi verið í tíð eldri reglugerðar nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, með síðari breytingum. Benda megi á, að sú framkvæmd þykir einnig eðlileg í ljósi þess að ætla megi að bifreið sú sem keypt var fyrir styrkinn frá 2009, sé ennþá einhvers virði og geti söluandvirði hennar farið upp í kaupverð á nýrri sérútbúinni bifreið. Þá vekur stefndi athygli á því að 3. mgr. 10. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 170/2009 mæli fyrir um styrk til bifreiðakaupa, en ekki heildarfjármögnun á bifreiðakaupum. Ljóst sé að umsækjendur þurfi því yfirleitt sjálfir að koma að fjármögnun bifreiða að einhverju marki.

        Í þriðja lagi er á því byggt, að jafnvel þó svo ólíklega verði talið, að stefnanda hafi verið óheimilt að draga fyrri styrkveitingu frá síðar veittum styrk á grundvelli framangreindra málsástæðna, hafi honum verið heimilt að gera það með vísan til skilyrða sem sett voru fyrir styrkveitingu árið 2009. Þegar styrkumsókn stefnanda hafi verið samþykkt til kaupa á Toyota Land Cruiser bifreið árið 2009 (skráningarnúmer SH-065), hafi það verið gert að skilyrði að óheimilt væri að selja bifreiðina innan fimm ára frá veitingu styrks.. Með því að stefnandi seldi bifreiðina á árinu 2010, eins og ráða megi af stefnu, sé ljóst að stefnda hafi verið heimilt að krefjast þess að styrkurinn vegna bifreiðarinnar yrði endurgreiddur.

        Að endingu er því sérstaklega mótmælt, sem fram kemur í stefnu, að stefndi hafi ekki gætt góðra stjórnsýsluhátta og hafi engan reka gert að því að leiðbeina stefnanda um réttarstöðu sína. Í stefnu segi að stefnda hafi verið „í lófa lagt að veita stefnanda undanþágu eða þá að leiðbeina honum um að sækja um styrkinn síðar svo hann fengi að njóta hans að fullu“. Með því að gera það ekki hafi stefndi hvorki gætt leiðbeiningarskyldu skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né heldur meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Þessum málatilbúnaði er alfarið vísað á bug. Stefndi bendir á það sem fram komi á blaðsíðu 2 í stefnu, að stefnandi hafi sótt um styrk „áður en fimm ár voru liðin en hann taldi það nauðsynlegt“. Jafnframt komi fram í bréfi frá Maríu Játvarðardóttur félagsráðgjafa, sem sé fylgiskjal með umræddri umsókn, að sonur stefnanda hafi fengið styrk til kaupa á bifreið „líklega fyrir þremur árum og sé því verið að sækja um undanþágu núna“. Af framangreindu leiði að stefnanda hafi verið fyllilega ljósir þeir möguleikar sem voru í stöðunni, þ.e. að bíða eftir að fimm árin liðu eða að fá undanþágu um greiðslu styrks strax og hlíta þá hlutfallslegum frádrætti. Því hafi ekki þurft sérstakra leiðbeininga við. Starfsmenn stefnda og stefnandi hafi átt í ítrekuðum samskiptum um málið og stefnanda verið gerð ítarlega grein fyrir afleiðingum þess að sækja um styrkinn á þeim tíma er gert var.

         Þá er því mótmælt af stefnda að skylt hafi verið á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga að veita stefnanda sérstakan andmælarétt í ákvörðunarferli stefnda. Talið hefur verið, að þegar aðili sækir um réttindi hjá stjórnvöldum og afstaða hans liggur fyrir í umsókn hans, sé óþarft að veita honum færi á að tjá sig um málið. Þá telja stefndi enn fremur að óþarft hafi verið að veita stefnanda frekara færi á að tjá sig um málið, enda hafi umsókn hans  verið samþykkt og honum veittur hæsti styrkur sem lög heimiluðu. Ítrekað sé að hér hafi verið um ívilnandi ákvörðun að ræða og stefnanda verið fullfrjálst að velja hvort hann nýtti sér hana eða ekki.

        Stefndi bendir á að það sé meginregla stjórnsýsluréttar að aðili máls verði sjálfur að hafa frumkvæði að því að kynna sér gögn máls og tjá sig um þau. Frá þeirri meginreglu séu tvær undantekningar: Annars vegar þegar mál byrji að frumkvæði annars en aðila máls og hann viti ekki að mál hans sé til meðferðar og hins vegar þegar aðila sé ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verði að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins. Ljóst sé að hvorug nefndra undantekninga eigi við í máli þessu.

        Um lagarök vísar stefndi m.a. til laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, einkum 3. mgr. 10. gr. og reglugerðar nr. 170/2009.

        Kröfu um málskostnað styður stefndi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Niðurstaða

        Umsækjandi um styrk að fjárhæð 5.000.000 kr., sem veittur var á árinu 2013 með ákvörðun stefnda þann 30. apríl 2013, var sonur stefnanda, Keran Stueland Ólason, sbr. umsókn á dskj. nr. 16. Við aðalmeðferð var því mótmælt af hálfu stefnanda að um aðilaskort væri að ræða og vísað til 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar sé kveðið á um að heimilt sé að greiða til elli- og örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið, sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar, ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Stefnandi sé umönnunargreiðsluþegi og því sé hann réttur aðili til að höfða mál þetta.

        Óumdeilt er að stefnandi sótti um styrkinn fyrir hönd sonar síns sem forráða maður hans. Keran Stueland er hins vegar styrkþegi. Ekki var sótt um styrkinn á þeim grundvelli að stefnandi væri umönnunaraðili eða hann skilgreindur sem slíkur. Keran Stueland, sonur stefnanda, var því rétthafi þeirra hagsmuna sem um er deilt í máli þessu. Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur lögráðamaður fram sem fyrirsvarsmaður ólögráða manns sem á aðild að máli og brestur hæfi til að ráða sakarefninu. Sá einn getur höfðað mál, sem er rétthafi þeirra hagsmuna sem leita á úrlausnar dómstóla um. Stefnandi hefði því með réttu átt að vera fyrirsvarsmaður sonar sín en ekki aðili að málinu. Með vísan til þessa er um aðildarskort af hálfu stefnanda að ræða, sem leiðir til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

       Rétt þykir að málskostnaður falli niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, en stefnanda var veitt gjafsóknarleyfi með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 8. september 2014. Gjafsóknarkostnaður þykir hæfilega ákveðinn 900.000 kr.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

        Stefndi, Tryggingastofnun ríkisins, er sýkn af kröfum stefnanda, Óla Ásgeirs Stueland Keranssonar.

        Málskostnaður fellur niður.

        Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 900.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.