Print

Mál nr. 247/1998

Lykilorð
  • Opinberir starfsmenn
  • Uppsögn
  • Áminning
  • Stjórnsýsla
  • Andmælaréttur
  • Skaðabætur

Fimmtudaginn 25

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999.

Nr. 247/1998.

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra

á Suðurlandi

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)            

gegn

Elsu Jónsdóttur

(Gestur Jónsson hrl.)

og gagnsök

Opinberir starfsmenn. Uppsögn. Áminning. Stjórnsýsla. Andmælaréttur. Skaðabætur.

E gegndi starfi forstöðumanns vinnustofu fatlaðra og hafði verið ráðin til starfsins með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Naut hún réttinda og bar skyldur starfsmanna ríkisins samkvæmt lögum nr. 70/1996. E var áminnt og síðar sagt upp störfum. Verulegur vafi var talinn leika á því, hvort henni hefði verið kynnt, að til stæði að áminna hana og hverjar ástæður gætu legið til áminningar. Þótti andmælaréttar ekki hafa verið réttilega gætt. Þá var ekki fallist á að E hefði í starfi brotið gegn hlýðniskyldu sinni. Uppsögnin var því talin ólögmæt. Var niðurstaða héraðsdóms um skaðabætur staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 1998. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist, að dómkröfur gagnáfrýjanda verði lækkaðar til mikilla muna og málskostnaður á báðum dómstigum þá felldur niður.

Málinu var gagnáfrýjað 19. ágúst 1998. Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér skaða- og miskabætur að fjárhæð 3.393.664 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. apríl 1997 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er krafist staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð gögn um atvinnuleysisbætur til handa gagnáfrýjanda á tímabilinu frá 8. ágúst 1997 til 17. september 1998.

I.

Atvikum málsins og framburðum aðila og vitna er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram réðst gagnáfrýjandi til starfa sem forstöðumaður vinnustofunnar að Gagnheiði 39 á Selfossi í janúar 1987, en hún hafði áður starfað sem leiðbeinandi á Sólheimum í Grímsnesi um rúmlega sex ára skeið. Vinnustofan er rekin af aðaláfrýjanda, sem starfar á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Í ráðningarsamningi aðila var tekið fram, að gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir. Með bréfi 18. apríl 1997 sagði aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara. Ekki var óskað eftir vinnuframlagi gagnáfrýjanda eftir 23. apríl en henni  voru greidd laun til og með 31. júlí 1997. Uppsögn þessi var ráðin í kjölfar áminningar, sem gagnáfrýjanda hafði verið veitt með bréfi aðaláfrýjanda 27. febrúar 1997.          

II.

Í 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er forstöðumanni stofnunar heimilað að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Í 1. mgr. 44. gr. starfsmannalaganna segir, að skylt sé að veita starfsmanni áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt, áður en honum er sagt upp störfum, ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna, sem þar eru greindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar, áður en hún tekur gildi. Í 21. gr. laganna eru greindar þær ástæður, er leiða skulu til skriflegrar áminningar. Þar eru meðal annars nefndar ástæður á borð við óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns, vankunnáttu, óvandvirkni eða ófullnægjandi árangur í starfi.

Áminning er stjórnvaldsákvörðun og fer um hana eftir almennum sjónarmiðum stjórnsýsluréttar auk þeirra málsmeðferðarreglna, sem fram koma í lögum nr. 70/1996, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga og bein fyrirmæli 21. gr. starfsmannalaga ber að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um fyrirhugaða áminningu og einstaka efnisþætti hennar, ef það er unnt. Að öðrum kosti getur starfsmaður ekki gætt lögmætra hagsmuna sinna. Einkum er brýnt, að starfsmanni sé kynnt með óyggjandi hætti, að fyrirhuguð stjórnvaldsákvörðun sé áminning í skilningi laga nr. 70/1996, enda eru sérstök réttaráhrif bundin við áminningu, sbr. 44. gr. laganna.

III.

Í þeirri áminningu, er gagnáfrýjandi hlaut 27. febrúar 1997, var vísað til þess, að hún væri reist á 21. gr. laga nr. 70/1996. Um uppsögn gagnáfrýjanda í framhaldi hennar hlaut því að fara eftir 44. gr. laganna en ekki 43. gr. þeirra.

Í áminningunni var sagt, að hún væri veitt vegna ámælisverðrar háttsemi gagnáfrýjanda í starfi forstöðumanns. Til nánari skýringar var hún sögð vera gefin vegna skorts á vilja til samstarfs, sem kæmi meðal annars fram í því, að hún neitaði að hlýða lögmætum fyrirmælum yfirboðara og sinna nauðsynlegu samstarfi við samstarfsaðila. Í dæmaskyni var nefnt, að viðbrögð gagnáfrýjanda við verkefnalista, sem henni var afhentur til eftirbreytni í lok desember 1996 og nánari grein er gerð fyrir í héraðsdómi, hefðu verið á þann veg, að hún hefði haft að engu lögmæt fyrirmæli yfirboðara um starf sitt, sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996. Var þá til þess vitnað, að gagnáfrýjandi hafði skilað aðaláfrýjanda greinargerð um verkefnalistann 14. febrúar 1997, þar sem sagði í niðurlagi: „Niðurstaðan er því sú, eftir að hafa ráðfært mig við bæði fagaðila og samstarfsfólk á vinnustofunni, að frá mínum bæjardyrum séð er það ekki á mínu færi að láta hlutina ganga upp samkvæmt verkefnalistanum.“ Þá var tilgreint í áminningarbréfinu, að borist hefðu ítrekaðar kvartanir frá samstarfsaðilum gagnáfrýjanda og aðstandendum starfsmanna á vinnustofunni vegna skorts hennar á samstarfsvilja. Loks var þess getið, að gagnáfrýjanda hefði verið kynnt efni fyrirhugaðrar áminningar á fundi 21. febrúar 1997 og gefinn kostur á að tala máli sínu á öðrum fundi, er halda hefði átt 27. febrúar 1997 kl. 11.00. Þar sem gagnáfrýjandi hefði kosið að mæta ekki til þess fundar væri þessi áminning send í ábyrgðarpósti.

Á þeim fundi 21. febrúar 1997, sem til er vitnað í áminningarbréfinu, voru auk gagnáfrýjanda Eggert Jóhannesson framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda og Dóra Eyvindardóttir deildarstjóri á skrifstofu hans, og komu þau öll fyrir héraðsdóm. Í framburði gagnáfrýjanda kom fram, að á fundinum hefði framkvæmdastjórinn lýst óánægju sinni með greinargerð hennar og gefið henni frest til að skila „nýju blaði“ til 27. febrúar. Hún mótmælti því eindregið, að hún hefði verið boðuð til fundar á þessum degi  og verður ekki ráðið af framburði hennar, að hún hafi gert sér grein fyrir, að áminning væri fyrirhuguð. Eggert Jóhannesson hélt því fram, að gagnáfrýjandi hefði á fundinum 21. febrúar verið boðuð til nýs fundar 27. febrúar  til þess að koma á framfæri leiðréttingum, ef um þær væri að ræða. Hann var hins vegar ekki beinlínis spurður um það, hvort gagnáfrýjanda hefði verið kynnt, að áminning væri yfirvofandi. Dóra Eyvindardóttir staðhæfði, að gagnáfrýjandi hefði verið boðuð til fundar           27. febrúar og sagt hefði verið við hana, að hún ætti þá að koma með haldbetri skýringar en verið hefðu í greinargerð hennar en sæta áminningu ella.

Engin fundargerð var rituð á fundinum 21. febrúar 1997 og gagnáfrýjanda var ekki sent skriflegt boð til fundar 27. febrúar. Af framburði þeirra, sem áður voru nefndir, verður að draga þá ályktun, að verulegur vafi leiki á því, hvort gagnáfrýjanda hafi verið kynnt, að til stæði að áminna hana og hverjar ástæður gætu legið til áminningar. Þennan vafa verður að skýra gagnáfrýjanda í hag, enda stóð það aðaláfrýjanda nær að tryggja sér sönnun um atriði sem þessi. Hefur þá ekki verið sýnt fram á, að andmælaréttar gagnáfrýjanda við áminninguna hafi verið réttilega gætt í samræmi við fyrirmæli 21. gr. starfsmannalaga og almenn sjónarmið stjórnsýsluréttar.

IV.

Aðaláfrýjandi reisir málatilbúnað sinn aðallega á því, að skylt hafi verið að áminna gagnáfrýjanda, sem hafi með ótvíræðum hætti sýnt í starfi sínu óhlýðni við löglegt boð yfirmanns síns, sbr. 15. gr. og 21. gr. laga nr. 70/1996. Er þá vísað til þeirrar afstöðu gagnáfrýjanda í áðurnefndri greinargerð, að ráðagerðir í hinum svonefnda verkefnalista hafi ekki verið framkvæmanlegar við þær aðstæður, sem fyrir hendi voru. Gagnáfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram, að með greinargerð sinni hafi hún gert metnaðarfulla tilraun til að kynna yfirmanni sínum það, að fyrirhugaðar breytingar væru óframkvæmanlegar miðað við þá aðstöðu, sérþekkingu og fjölda leiðbeinenda, sem vinnustofan hafði yfir að ráða, og hafi ekki falist í því óhlýðni við löglegar fyrirskipanir yfirmanns í skilningi starfsmannalaga.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður ekki á það fallist, að gagnáfrýjandi hafi með greinargerð sinni brotið gegn þeirri hlýðniskyldu, sem lög nr. 70/1996 leggja starfsmönnum ríkisins á herðar. Greinargerðin fól í sér málefnalega afstöðu til þeirra vandkvæða, sem gagnáfrýjandi sá því samfara að hrinda í framkvæmd þeim atriðum, sem um var fjallað í verkefnalistanum. Telja verður, að á þessum tíma hafi í raun ekki verið úr því skorið, hvort gagnáfrýjandi myndi víkjast undan þeim verkum, sem ætlast mátti til af henni við þær aðstæður, sem starfseminni á vinnustofunni voru eða myndu verða búnar. Um önnur atriði í áminningarbréfinu  27. febrúar 1997 leikur svo mikill vafi í málinu, að þau verða ekki talin hafa veitt sjálfstætt tilefni til áminningar.

V.

Samkvæmt framansögðu fullnægði sú áminning, sem gagnáfrýjanda var veitt 27. febrúar 1997, ekki skilyrðum 44. gr. laga nr. 70/1996. Uppsögn hennar 18. apríl 1997 úr starfi forstöðumanns vinnustofunnar að Gagnheiði 39 á Selfossi var því ólögmæt. Aðaláfrýjandi ber fébótaábyrgð á þessari ráðstöfun eftir almennum sjónarmiðum skaðabótaréttar og stendur sérregla 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996 um embættismenn ekki í vegi þeirri niðurstöðu.

Við ákvörðun bóta verður að líta til þess, að gagnáfrýjandi naut réttinda og bar skyldur starfsmanna ríkisins samkvæmt lögum nr. 70/1996. Þótt hún hafi verið ráðin með gagnkvæmum uppsagnarfresti mátti hún almennt treysta því að fá að gegna starfi sínu áfram, þar til einhverjar sérstakar ástæður kæmu til, er ýmist snertu hana sjálfa eða starf hennar á þann veg, að annaðhvort 43. gr. eða 44. gr. starfsmannalaga yrði réttilega beitt um uppsögn hennar. Hún var 55 ára að aldri, er hún missti starf sitt, og hafði hún um nærfellt 17 ára skeið unnið við umönnun fatlaðra, þar af síðustu tíu árin sem forstöðumaður vinnustofunnar á Selfossi. Hún hefur ekki sérstaka menntun umfram gagnfræðapróf og hefur verið að mestu atvinnulaus frá því hún missti starf sitt. Ætla má, að tækifæri gagnáfrýjanda til atvinnu á því sviði, er þekking hennar og reynsla gætu komið að notum, séu af skornum skammti í heimahögum hennar. Við mat á bótafjárhæð verður einnig að taka tillit til þess, að gagnáfrýjandi fékk greidd laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti, en á þeim tíma voru grunnlaun hennar 96.871 króna og föst yfirvinna 30.180 krónur. Líta verður á þessar yfirvinnugreiðslur sem hluta af föstum launum gagnáfrýjanda. Þá hefur hún jafnframt fengið um 700.000 krónur í atvinnuleysisbætur. Með hliðsjón af því, hvernig aðaláfrýjandi stóð að áminningu og uppsögn gagnáfrýjanda, verður hann hins vegar ekki talinn hafa sérstakar málsbætur, er gætu leitt til lækkunar á bótafjárhæð. Þegar allt þetta er virt þykja bætur til gagnáfrýjanda hæfilega metnar í héraðsdómi og er upphafstími dráttarvaxta þar réttilega ákveðinn. Ekki eru efni til ákvörðunar miskabóta samhliða þessari niðurstöðu.

Aðaláfrýjandi skal greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Suðurlandi, greiði gagnáfrýjanda, Elsu Jónsdóttur, 1.600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. nóvember 1997 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 8. apríl 1998.

                Mál þetta, var höfðað var með stefnu, 29. október 1997, en birtri 5. nóvember 1997. Málið var þing­fest 12. nóvember sl. en tekið til dóms að loknum munn­leg­um mál­flutn­ingi hinn 27. febrúar sl.

                Stefnandi er Elsa Jónsdóttir, kt. 060142-3519, Þórisstöðum II, Grímsneshreppi, en stefndi er Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Suðurlandi, kt. 540880-0269, Gagnheiði 40, Selfossi.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 3.393.664 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 18. apríl 1997 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Er þess krafist að gætt verði að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþjónustu, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.

                Stefndi krefst þess aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Málavextir.

                Með samningi 12. janúar 1987 var stefnandi ráðinn til að gegna starfi forstöðumanns vinnustofunnar að Gagnheiði 39, Selfossi, sem er vinnustofa fyrir fatlaða. Síðustu sex árin þar á undan hafði hún starfað sem leiðbeinandi á Sólheimum í Grímsnesi, þar sem m.a. er starfræktur verndaður vinnustaður fyrir fatlaða. Stefndi er ríkisstofnun sem starfar á grundvelli laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Vinnustofan að Gagnheiði 39, Selfossi, er rekin og fjármögnuð af stefnda. Starfsemi vinnustofunnar hefur undanfarin ár verið með tiltölulega fastmótuðu sniði. Fatlaðir starfsmenn hafa verið u.þ.b. tuttugu, en leiðbeinendur fimm að stefnanda meðtöldum, þar af þrír í fullu starfi, einn í 80% starfi og einn í 60% starfi. Á árinu 1994 var ráðinn nýr starfsmaður á svæðisskrifstofuna, Dóra Eyvindardóttir. Var henni ætlað að vera eins konar tengiliður milli svæðisskrifstofunnar og vinnustofunnar. Um áramótin 1996/1997 útbjó stefndi verkefnalista fyrir vinnustofuna (VISS), þar sem segir (svo):

„Vinnustofan er opin öllum fötluðum án tillits til fötlunar. Allir þurfa að hafa eitthvað að gera, við sitt hæfi. Vinnustofuna þarf að hugsa fyrst og fremst út frá virkni þátttakenda en ekki verklegum árangri. Yfirmaður ber ábyrgð á daglegum rekstri og því að sjá starfsmönnum fyrir verkefnum við sitt hæfi.

Það þarf að setja upp þrjá hópa.

Hópur 1. Hæfing: aðalmarkmið = Að bjóða þátttakendum möguleika á að sækja dagtilboð við hæfi utan heimilis.

Hópur 2. Vernduð vinna: aðalmarkmið = Að undirbúa þáttakendur í að takast á við viðfangsefni utan heimils. Hér er um að ræða ýmis konar vernduð störf.

Hópur 3. Starfsþjálfun: aðalmarkmið = að undirbúa fólk undir störf á almennum vinnumarkaði og/eða til þátttöku í verndaðri vinnu.

Skilgreina í hópana og setja upp viðmið um hvernig fólk færist á milli hópa.

Skilgreina hvað hver hópur á að gera. Undirmarkmið fyrir hvern hóp og leiðir að því.

-Hverjir verða í hópnum og hverjir leiðbeina.

Athafnalýsingar/starfslýsingar/verklýsingar.

Öll störf/athafnir sem eru í gangi á VISS þurfa að vera til með myndum (t.a.m. teach eða myndir úr blöðum).

(Ath! að kynbinda ekki störf sem verið er að vinna s.s. að þrífa klósettin og þvo bílana).

Gera skal samning við alla starfsmenn um réttindi og skyldur. (Skv. 10. gr. reglugerðar um atvinnumál fatlaðra)

Gera þarf starfsmat á hverjum starfsmanni á ákv. fresti, þéttast til að byrja með en aldrei skulu líða meira en 6 mánuðir á milli.

Tilgangur með slíku mati er að gera sér grein fyrir styrkleikum og veikleikum hvers og eins. Vinnan yrði þá skipulögð eftir því og fylgst með hvort um framför eða afturför er að ræða hjá hverjum og einum.

Forstöðumenn, eða forráðamenn yrðu kallaðir til þegar farið væri yfir slíkt mat og sameiginleg áætlun gerð um á hverju þarf að taka og að hverju þarf að vinna með hvern og einn og aðgerðir samræmdar.

Gera þarf verkáætlun fyrir hvern leiðbeinanda þar sem skýrt kemur fram hvert er hans verksvið (-hæfileikar) og hvert er hans ábyrgðarsvið.

Gefinn er 6 vikna frestur til að skila þessum áætlunum, frá og með 1. janúar 1997.

Listi þessi er unninn með tilliti til niðurstaðna frá Andrési Ragnarssyni og Annettu Ingimundardóttur og með hliðsjón af Bæjarhrauni í Hafnarfirði og skv. reglugerð um atvinnumál fatlaðra.“

                Stefnandi sendi stefnda svofellda greinargerð innan þess frests sem kveðið var á um í verkefnalistanum (svo): 

„Vegna verkefnalista sem mér var fenginn í hendur þann 20. desember og falið að vinna út frá og útfæra hef ég eftirfarandi fram að færa.

Listinn er unninn með tilliti til niðurstaðna frá Andrési Ragnarssyni, Annettu Ingimundardóttur og með hliðsjón af hæfingarstöðinni Bæjarhrauni í Hafnarfirði og skv. reglugerð um atvinnumál fatlaðra.

Til þess að fá álit Andrésar Ragnarssonar átti ég samtal við hann í síma þar sem hann tjáði mér að engar niðurstöður hefðu komið frá sér í sambandi við vinnustofuna. Ekki hefði verið farið fram á það að hann skilaði neinu skriflegu þar um.

Ég fór svo ásamt Arnþrúði Sæmundsdóttur í hæfingarstöðina í Bæjarhrauni, þar sem listinn var unninn með hliðsjón af starfseminni þar. Þar áttum við langan fund með Höllu forstöðukonu og Hrönn þroskaþjálfa.

Einnig fórum við Arnþrúður í Örva í Kópavogi og áttum fund með Kristjáni Valdimarssyni forstöðumanni og Geirlaugu Björnsdóttur þroskaþjálfa sem er starfsráðgjafi í Örva.

Tilheyrandi vinnustofunni eru 6 leiðbeinendur í 4,9 stöðugildum.

Eigi að starfrækja hæfingu á vinnustofunni munu bætast við þá 20 sem nú koma inn 3 ofurfatlaðir og sýnist mér að það muni koma niður á þeirri starfsemi sem nú er. Eini möguleikinn virðist mér þá vera sá að skipta deginum á milli hæfingar og verndaðrar vinnu.

Eins og vinnan fer fram nú er:

Vefur                      3 – 4 starfsmenn   1 leiðbeinandi

Saumar                   2 – 3 starfsmenn   1 leiðbeinandi sem einnig annast matseld

Körfur                    2 – 3 starfsmenn   1 leiðbeinandi

Leir                         2 – 3 starfsmenn   1 leiðbeinandi í 80% starfi

Hæfing                   6 starfsmenn         1 leiðbeinandi í 60% starfi

Verkefni í hæfingu tengjast m.a. vefnum. Öll vinnan krefst undirbúnings. Auk þess er í gangi skrúfupökkun og verkefni frá mjólkurbúi, sem krefjast mikillar nákvæmni og eftirlits.

Þar sem ekki verður fjölgað leiðbeinendum og ekkert fagfólk kemur inn vegna þeirra fjölfötluðu sé ég ekki tilganginn með þessari ráðstöfun, þar sem fyrirsjáanlegt er að fólkið kæmi til með að fá mun minni þjónustu en það hefur nú.

Eftir samtal við Höllu forstöðukonu í Bæjarhrauni þar sem ég sýndi henni verkefnalistann og útskýrði málið sagði hún að sér sýndist þetta með öllu óframkvæmanlegt miðað við þær forsendur sem fyrir lægju.

Á hæfingarstöðinni í Bæjarhrauni er aðeins fagfólk sem annast þá mest fötluðu.

Þangað sækja 22 einstaklingar þjónustu, en enginn er lengur en 4 klst. á dag.

Í niðurstöðum Annettu Ingimundardóttur kemur m.a. fram að hennar skoðun sé sú að hluti af starfsemi VISS, nánar tiltekið iðjan/dagvist, ætti að vera staðsett í öðru húsnæði. Þeir þættir sem leggja beri áherslu á í dagvist séu verkefni við hæfi skjólstæðinganna meira í formi afþreyingar en vinnu, líkamleg þjálfun, félagsþjálfun og andleg uppörvun. Hún telur að slík starfsemi eigi fátt sameiginlegt með hefðbundinni launavinnu. (Tilvitnun lýkur)

Eigi að starfrækja hæfingu á vinnustofunni mun það hafa áhrif á þann hátt að minna verður lagt upp úr vinnu og þar með vinnuþjálfun þeirra sem ætlað er að geti starfað á almennum vinnumarkaði. En þar verður að gera miklar kröfur um vönduð vinnubrögð og að fólk hafi metnað til að gera eins vel og hægt er. Ekki er hægt að gera ráð fyrir að starfsmennirnir líti vinnustofuna sömu augum eftir sem áður þegar minni kröfur verða gerðar til þeirra. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvort vinna þeirra og framleiðsla skili einhverjum tekjum. Vinnustofan er þá orðin meira geymslustaður sem hefur ekki mikið aðdráttar­afl fyrir fólk sem getur unnið vel og framleitt gæðavörur.

Þar sem aðstæður eru þannig á vinnustofunni að öll starfsemin fer fram í einum sal, krefst nærvera hinna mest fötluðu mikils umburðarlyndis af hálfu annarra starfsmanna. Þeim fylgja m.a. mikil hljóð og það veldur áreiti. Margir af starfsmönnunum eru orðnir nokkuð fullorðnir og mikilvægt að gott jafnvægi ríki í umhverfinu.

Svo gæti virst af framantöldu að mikið fatlað fólk sé ekki talið æskilegt inn á vinnustofuna, en svo er alls ekki. Staðreyndin er sú að hvorki húsnæðið eða mannafli vinnustofunnar leyfir að þar sé rekin hæfing. Það krefst fagfólks, mikils rýmis og búnaðar, en ekkert af þessu er fyrir hendi. Fólkið á kröfu á betri þjónustu en unnt er að veita á vinnustofunni við þær aðstæður sem í boði eru.

Eins og áður hefur komið fram er verkefnalistinn unninn m.a. skv. reglugerð um atvinnumál fatlaðra.

Í 10. grein þeirrar reglugerðar segir m.a.

                Verksvið verndaðra vinnustaða er:

Skapa atvinnutækifæri þar sem gerð er krafa um verulegt vinnuframlag gegn launum.

Á verkefnalistanum stendur „Vinnustofuna þarf að hugsa fyrst og fremst út frá virkni þátttakenda en ekki verklegum árangri“.

Og ef svo er, hvernig er þá hægt að þjálfa fólk til vinnu á almennum vinnumarkaði?

Einnig stendur á listanum.

Hópur 3. Starfsþjálfun aðalmarkmið = undirbúa fólk undir störf á almennum vinnumarkaði og/eða til þátttöku í verndaðri vinnu.

Ég fæ ekki betur séð en að það sem talið er upp á listanum og svo aftur þau gögn sem vitnað er í að hann sé unninn eftir, stangist svo mikið á að engin leið sé að láta verkið ganga upp.

Niðurstaðan er því sú, eftir að hafa ráðfært mig við bæði fagaðila og samstarfsfólk á vinnustofunni, að frá mínum bæjardyrum séð er það ekki á mínu færi að láta hlutina ganga upp samkvæmt verkefnalistanum.“

                Í framhaldi af þessari greinargerð stefnanda sendi Eggert Jóhannesson, framkvæmdastjóri stefnda, til stefnanda svofellt bréf, dagsett 27. febrúar 1997 (svo):

„Áminning

Með vísan til 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er þér hér með veitt áminning vegna ámælisverðrar háttsemi í starfi þínu sem forstöðumaður Vinnustaðarins, Gagnheiði 39. Á fundi með undirrituðum og Dóru Eyvindardóttur, þann 21. febrúar 1997, var þér kynnt efni fyrirhugaðrar áminningar og þér gefinn kostur á að tala máli þínu, í dag 27. febrúar kl. 11:00, í samræmi við framangreint lagaákvæði. Þar sem þú kaust að mæta ekki til þess fundar er þér send þessi áminning í ábyrgðarpósti.

Áminning þessi er veitt vegna skorts á vilja til samstarfs, sem kemur m.a. fram í því að þú neitar að hlýða lögmætum fyrirmælum yfirboðara og sinna nauðsynlegu samstarfi við samstarfsaðila. Sem dæmi má nefna að þér var afhentur verkefnalisti í lok desember 1996 og þér ætlað að haga vinnu samkvæmt honum. Með greinargerð þinni vegna verkefnalistans, sem undirrituðum var afhent þann 14. febrúar s.l., koma fram athugasemdir þínar varðandi þau verkefni sem þér höfðuð verið falin með verkefnalistanum. Í niðurlagi greinargerðarinnar segir þú orðrétt: „Niðurstaðan er því sú, að eftir að hafa ráðfært mig við bæði fagaðila og samstarfsfólk á vinnustofunni, að frá mínum bæjardyrum séð er það ekki á mínu færi að láta hlutina ganga upp samkvæmt verkefnalistanum.“ Að mati undirritaðs hefur þú þar með haft að engu lögmæt fyrirmæli yfirboðara um starf þitt, sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996. Þá hafa borist ítrekaðar kvartanir frá samstarfsaðilum þínum og aðstandendum starfsmanna, vegna skorts á samstarfsvilja.

Framangreind háttsemi telst vera af þeim toga að varði áminningu samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996. Með áminningarbréfi þessu er þér gefinn kostur á að bæta ráð þitt, en verði ekki breyting þar á fyrir 18. apríl n.k., leiðir það til uppsagnar á ráðningarsamningi.“

                Hinn 4. mars 1997 ritaði stefnandi bréf til aðstandenda starfsmanna vinnustofunnar sem hún segir vera til komið vegna fullyrðinga framkvæmdastjóra stefnda um að stefnda hafi borist ítrekaðar kvartanir frá aðstandendum starfsmanna vinnustofunnar vegna skorts á samstarfsvilja frá stefnanda. Í bréfinu segir stefnandi að hún hafi beðið um nánari skýringar á þessum kvörtunum og frá hverjum þær hafi komið, en ekki fengið svör við því. Þá segir í bréfinu: „Ég get ekki áttað mig á því í hverju þessi skortur á samstarfsvilja af minni hálfu liggur, og vil því leyfa mér að fara fram á það við þig sem aðstandanda að ræða við mig um málið, ef þú átt hlut að því.

                Ég vil mjög gjarnan jafna ágreining ef einhver er, því eins og fyrr segir átta ég mig ekki á því hvað er um að ræða og fæ ekki svör við því á svæðisskrifstofu.

                Meðfylgjandi er verkefnalisti VISS og greinargerð vegna hans og áminningarbréf.

                Eins og fram kemur í bréfinu, er áminning veitt vegna skorts á vilja til samstarfs, sem kemur m.a. fram í því að neita að hlýða lögmætum fyrirmælum yfirboðara.

                Þetta er ekki rétt, því ég skilaði greinargerð vegna verkefnalista, en hún var ekki eins og yfirboðari vildi hafa hana. Ég skrifaði hana og vann eftir bestu samvisku, en mér er ómögulegt að vinna einhver verk þvert um hug minn til að þóknast yfirboðara mínum. Mér virðist að unnið sé að því leynt og ljóst að koma mér úr starfi, og ekki skipti máli hvaða aðferðir séu notaðar við það.

                Að síðustu vil ég ítreka það að þú hafir samband við mig ef ég hef á einhvern hátt brugðist skyldu minni gagnvart þér sem aðstandanda starfsmanns á vinnustofunni.“

                Hinn 14. mars 1997 sendi lögmaður stefnanda bréf til stefnda þar sem þess var krafist að áminningin yrði dregin til baka. Segir í bréfinu að með greinargerð stefnanda hafi stefnandi verið að setja fram málefnalega gagnrýni á fyrirhuguðum breytingum. Slíkt væri henni ekki einungis rétt að gera, heldur einnig skylt vegna sérþekkingar hennar á málefninu og vegna stöðu hennar sem yfirmanns á vinnustofunni.

                Hinn 18. apríl 1997 fékk stefnandi svofellt bréf, undirritað af framkvæmdastjóra stefnda:

„Með vísan til ákvæða í ráðningarsamningi þínum er þér hér með sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara.

                Ekki er óskað eftir vinnuframlagi þínu eftir 23. þessa mánaðar en þú færð greidd laun út uppsagnarfrestinn, eða til 31. júlí 1997.“

                Aðilar eru ekki sammála um málavexti að öllu leyti. Stefnandi heldur því fram að framkvæmdastjóri stefnda hafi, eftir að verkefnalistinn hafði verið gerður, komið að máli við stefnanda í húsnæði vinnustofunnar og hafi verkefnalistinn borist í tal. Hafi stefnandi sagt framkvæmdastjóranum að hún teldi, miðað við það fjármagn sem vinnustofan réði yfir, væru sumar þeirra breytinga, sem lagðar voru til í verkefnalistanum, óframkvæmanlegar, einkum þær sem lytu að aukinni hæfingu og fyrirætlunum um að bæta við þremur fjölfötluðum einstaklingum á vinnustofuna. Stefnandi kveður svar framkvæmdastjórans hafa verið á þá leið, að hann vissi að ekki yrði tekið mark á honum í ráðuneytinu. Því þyrftu stefnandi og aðrir leiðbeinendur á vinnustofunni að sýna fram á það skriflega, að breytingarnar væru óframkvæmanlegar. Nokkur vitni hefðu verið að þessum ummælum framkvæmdastjórans. Kveður stefnandi greinargerð sína m.a. verið skrifaða með þessi orð framkvæmdastjórans í huga.

                Nýr forstöðumaður hefur verið ráðinn í stað stefnanda. Stefnandi fullyrðir að starfsfólki hafi verið fjölgað, þar sem ráðin hafi verið matráðskona í 50% starfi, viðbótarleiðbeinandi í fullu starfi og afleysingamaður, sem mæti eingöngu í forföllum annarra leiðbeinenda. Á móti hafi komið að þeir leiðbeinendur, sem fyrir voru, hafi minnkað við sig vinnu sem nemi hálfu starfi.

                Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að starfsfólki vinnustofunnar hafi fjölgað frá því að stefnandi hætti störfum. Samanlagt starfshlutfall starfsmanna hafi aðeins aukist um 10%. Þá kveður stefndi það ekki rétt vera að greinargerð stefnanda hafi átt við rök að styðjast eða verið í samræmi við fyrirmæli yfirmanns hennar. Stefndi nefnir einnig að ekki sé rétt sú fullyrðing stefnanda að sátt hafi verið um starfsemi vinnustofunnar, heldur hafi ýmis konar vandamál komið upp sem rekja megi til stefnanda. Stefnandi hafi t.d. ekki tekið þeirri aðstoð sem henni hafi verið boðin og bágborið hafi verið samstarf hennar við áðurnefnda Dóru Eyvindardóttur, svo og Maríu Jónsdóttur og Önnu Hjaltadóttur, forstöðumenn tveggja sambýla á Selfossi, svo og Sigrúnu Þorvaldsdóttur forstöðuþroskaþjálfa sambýlisins að Vallholti 9, Selfossi. Stefndi nefnir einnig að upp hafi komið mikil óánægja með störf vinnustofunnar og kvartanir borist frá aðstandendum og forstöðufólki sambýla.

Stefndi fékk þau Annettu A. Ingimundardóttur, iðjuþjálfa og Andrés Ragnarsson, sálfræðing, til að meta í hverju ætti að breyta starfseminni. Annetta lagði fram skriflega greinargerð, dags. 17. desember 1996, um niðurstöður vettvangskönnunar hinn 18. október 1995, en Andrés kynnti niðurstöður sínar munnlega og skilaði síðar skýrslu, dags. 11. febrúar 1997. Samkvæmt athugunum þeirra mátti bæta margt í starfseminni og taldi Annetta að skilgreina þyrfti markmið vinnustofunnar upp á nýtt, m.a. m.t.t. hæfingar. Fyrir dómi kvaðst Annetta telja að verkefni til handa hinum fötluðu starfsmönnum væru í eðlilegu samræmi við getu þeirra, en hins vegar hafi starfsleiðbeinendur kvartað undan því að verkin væru ekki nægilega fjölbreytt. Hún taldi að þurft hefði faglærðan leiðbeinanda í fast starf á vinnustofuna, en ekki væri nægilegt að fá einungis ráðleggingar frá slíkum aðilum. Andrés kvað ástæðu funda sinna við starfsmenn vinnustofunnar vera vegna niðurstaðna í skýrslu Annettu Ingimundardóttur um vinnustofuna og vegna þess að stefndi hafði látið hann vita um að óánægja væri hjá aðstandendum hinna fötluðu starfmanna og forstöðumönnum sambýla með einhæf störf á vinnustofunni, auk þess sem forstöðumennirnir hafi kvartað yfir ósveigjanleika stefnanda í samskiptum við þá. Voru niðurstöður sálfræðingsins þær að bæta þyrfti vinnubrögð með því að gera markmiðslýsingu um störf vinnustofunnar. Stefnandi hafi sagt sér að hún hefði ekki menntun til slíkra verka og voru það því ráð sálfræðingsins að annað hvort þyrfti að veita stefnanda utanaðkomandi aðstoð eða segja henni upp störfum og ráða sérmenntaðan starfsmann í hennar stað. Hins vegar kom fram hjá sálfræðingnum að hann hefði ekki þekkingu til að segja til um hvort vinna starfsmanna væri of einhæf, en ef vinna ætti að hæfingu starfsmanna yrðu að koma til leiðbeinendur með sérstaka menntun.

Ýmsir aðrir aðilar sem tengst hafa starfsemi vinnustofunnar gáfu skýrslur fyrir dómi. Rétt er að rekja stuttlega þau atriði sem helst þykja skipta máli varðandi atriði er lýtur að framkvæmd þeirrar áminningar sem um er deilt og varðandi óánægju með störf stefnanda vegna meints skorts á samstarfsvilja hennar við samstarfsfólk sitt og yfirmenn.

Fram kom við meðferð málsins að a.m.k. einu sinni, vorið 1996, var haldinn fundur stefnanda, starfsleiðbeinanda á vinnustofunni, fyrirsvarsmanna stefnda og forstöðumanna sambýla á Selfossi. Var sá fundur að tilstuðlan stefnanda eftir að henni höfðu borist kvartanir til eyrna. Eggert Jóhannesson framkvæmdastjóri stefnda kvaðst að loknum þeim fundi hafa lýst yfir að hann myndi ekki mæta á annan slíkan fund þar sem forstöðumenn sambýlanna að Árvegi 8, Vallholti 9 og Vallholti 12-14 og stefnandi yrðu að ná samkomulagi um þau mál sem upp komu, en það hefði hins vegar ekki tekist.

Fram kom hjá Eggert og Dóru Eyvindardóttur, deildarstjóra stefnda að atvik máls hafi verið með þeim hætti sem lýst er í framangreindri áminningu. Nefndi Eggert að á fundinum 21. febrúar 1997 hafi kynning á ávirðingum í garð stefnanda fyrst og fremst varðað neitun hennar að vinna eftir verkefnalistanum. Fundurinn sem hafi átt að vera 27. febrúar 1997 hafi verið til þess að leiðrétta ef um einhvern miskilning væri að ræða og gefa stefnanda kost á að bæta ráð sitt. Kvaðst Dóra vita til þess að stefnandi hafi, samkvæmt hennar ráðleggingum, reynt að fá upplýsingar frá öðrum stofnunum um framkvæmd hæfingar. Þá hafi hún ítrekað boðið stefnanda aðstoð faglærðs starfsfólks stefnda við gerð skýrslu um endurskipulagningu vinnustofunnar á grundvelli verkefnalistans. Hins vegar hafi ekki staðið til að kaupa tæki til hæfingar, eða fjölga starfsfólki. Þó nefndi Dóra að hún teldi að það þyrfti tvo leiðbeinendur til að vinna við hæfingu þriggja einstaklinga á meðan að hæfing ætti sér stað. Bæði Dóra og Eggert kváðust vera ánægð með störf þess sem ráðinn var í stað stefnanda.

María Jónsdóttir, fyrrum forstöðumaður sambýlisins að Vallholti 12-14, kvað árekstra sína við stefnanda aðallega hafa stafað af því að stefnandi og leiðbeinendurnir á vinnustofunni hafi lítið gert fyrir einn fatlaðan heimilismann sambýlisins sem sendur hafi verið á vinnustofuna. Sá maður sé líkamlega fatlaður og geti lítið tjáð sig. Stefnanda og leiðbeinendum vinnustofunnar hafi fundist sem viðkomandi ætti ekkert erindi á vinnustofuna vegna mikillar fötlunar og að það væri mannréttindabrot gagnvart honum að senda hann þangað. Vitnið kvað aðstæður nú vera breyttar gagnvart honum þar sem hann fengi nú hæfingu á vinnustofunni, sem vitnið taldi að bjóða hefði átt upp á fyrr.

Vigdís Anna Hjaltadóttir, forstöðumaður sambýlisins að Árvegi 8, kvaðst oft hafa kvartað við stefnda um að það starfsmenn væru í of einhæfri vinnu. Þá kvaðst vitnið hafa gert athugasemdir við það við stefnanda að af hálfu vinnustofunnar væri ekki gerð athugasemd við það þó einn heimilismaður af sambýlinu mætti of seint til vinnu á vinnustofuna og stefnandi hefði átt að sjá til þess að reyna að halda þeim manni betur til vinnu en gert hefði verið.

Vitnið Sigrún Þorvarðardóttir, forstöðuþroskaþjálfi, og forstöðumaður heimilisins að Vallholti 9, þar sem fimm fjölfatlaðir einstaklingar búa, kvaðst hafa átt þátt í að semja verkefnalistann fyrir vinnustofuna. Vitnið taldi það nægilegt að hæfing færi fram með þeim hætti sem nú væri, þ.e. án sérmenntaðra starfsmanna, en með ráðgjöf frá henni og fleirum sem tengdust vinnustofunni. Vitnið kvað þrjá af heimilismönnum Vallholts 9 hafa farið á vinnustofuna, meðan stefnandi var þar, en aðstaða fyrir þá hafi ekki verið til staðar og það hafi m.a. verið ástæðan fyrir gerð verkefnalistans.

Á síðastnefndum þremur vitnum var að skilja að samskipti þeirra við stefnanda hafi ekki verið sem skyldi, en stefnandi hafi lýst því yfir á fundinum haustið 1996 að hún hafi ekki talið að um kvartanir hefði verið að ræða, heldur frekar umræðu um málefni þeirra einstaklinga sem hlut ættu að máli. Fyrir dómi lýsti stefnandi þessum samskiptum sínum við forstöðumenn einnig á þessa lund. Þá lýstu forstöðumenn yfir ánægju sinni með þær breytingar sem orðið hafa á vinnustofunni, en fundurinn haustið 1996 hafi ekki breytt neinu í samskiptum þeirra við vinnustofuna.

Vitnið Erlín Kristín Karlsdóttir, tók við stöðu stefnanda eftir að stefnanda var sagt upp störfum. Vitnið kvaðst enn vera að vinna að verkefnalistanum og nefndi að nú hefði verið ráðin matráðskona til starfa á vinnustofunni, eins og nauðsynlegt hefði verið.

Vitnið Halla Harpa Stefánsdóttir, forstöðuþroskaþjálfi á hæfingarstöðinni í Bæjarhrauni, Hafnarfirði, staðfesti það að hún teldi að verkefnalistinn væri ekki fagmannlega unnin. Vitnið kvað sumar tilvísanir í listanum vera frá hæfingarstöðinni í Bæjarhrauni komnar, en byggðar á misskilningi og vanþekkingu og ekki hefði verið leitað álits þeirra áður en verkefnalistinn var gerður. Vitnið kvað stefnanda hafa haft samband við sig vegna verkefnalistans og hún hefði veitt stefnanda svör miðað við þær forsendur sem fram hafi komið hjá stefnanda og í verkefnalistanum.

Kristján Valdemarsson, forstöðumaður starfsþjálfunarstaðarins Örva í Kópavogi, kvað sig og Geirlaugu G. Björnsdóttur, þroskaþjálfa, hafa tekið á móti stefnanda og svarað spurningum hennar um möguleika til að vinna samkvæmt listanum. Vitnið kvaðst þekkja til vinnustofunnar og álit hans og Geirlaugar hafi verið það að listinn væri ekki þess eðlis að hægt væri að vinna eftir honum.

Fyrrum samstarfsmenn stefnanda á vinnustofunni, Arnþrúður Sæmundsdóttir, Aðalheiður Óskarsdóttir, Olga Birna Jóhannsdóttir og Katrín Súsanna Björnsdóttir, báru allar stefnanda vel söguna. Kváðust þær ekki vita til annars en að kvartanir um störf hennar hafa verið litlar. Þó kom fram í máli Katrínar Súsönnu að fyrirspurn hafi komið frá stefnda vegna kvörtunar einnar forstöðukonunnar varðandi starfsmann vinnustofunnar og jafnframt hefði Dóra Eyvindardóttir sagt að það hefði „rignt inn“ kvörtunum vegna vinnustofunnar. Í framhaldi af því hafi stefnandi og leiðbeinendur á vinnustofunni óskað eftir fundi með forstöðumönnum. Á fundinum hafi komið fram ýmsar athugasemdir frá forstöðumönnum, mismunandi réttmætar að mati vitnisins.

Síðastnefnd vitni kváðu vinnustofuna hafa breyst gífurlega. Nú væru margir starfsmenn annars staðar í vinnu, í raun hafi verið opnaður nýr vinnustaður fyrir suma og miklar breytingar hafi verið gerðar á húsnæðinu og ný tæki keypt. Fram kom að stefnandi hafi sýnt þeim starfsleiðbeinendum verkefnalistann og þær hafi reynt að finna út úr því hvernig vinna mætti eftir listanum, en án árangurs. Vitnin Olga Birna og Aðalheiður og Arnþrúður kváðu framkvæmdastjóra stefnda hafa þá sagt við þær að slík niðurstaða yrði að vera skrifleg, þar sem hann nyti ekki nægilegrar aðstoðar frá ráðuneytinu. Þá kom fram að stefnandi hélt starfsmannafundi reglulega og gerði starfslýsingar þó ekki hafi þær verið skriflegar.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi kveður að um ráðningarsamband hennar og stefnda hafi gilt lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Hafi áminning hennar þurft að uppfylla skilyrði 21. gr. laganna, en samkvæmt 44. gr. laganna sé skylt að veita áminningu samkvæmt 21. gr. og gefa starfsmanni færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á m.a. rætur að rekja til óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns.

                Stefnandi byggir kröfu sína um skaðabætur á því, að áminning sú sem stefnanda var veitt af stefnda hafi verið ólögmæt. Enginn fótur hafi verið fyrir þeirri áminningarástæðu, sem tilgreind hafi verið í áminningarbréfi framkvæmdastjóra stefnda, þ.e. óhlýðni við yfirboðara með því að skila honum greinargerð vegna verkefnalistans.

                Í því sambandi bendir stefnandi á í fyrsta lagi, að samkvæmt samtali stefnanda við framkvæmdastjóra stefnda, þar sem stefnandi hafi greint framkvæmdastjóranum frá vandkvæðum við að framfylgja verkefnalistanum, hafi framkvæmdastjórinn farið þess á leit við stefnanda, að hún sýndi fram á það skriflega að breytingar honum samkvæmt væru óframkvæmanlegar, framkvæmdastjórinn vissi það sjálfur en þeir í ráðuneytinu tækju ekki mark á honum. Kveður stefnandi greinargerðina því hafa verið vandaða og fagmannlega umsögn um fyrirhugaðar breytingar, í samræmi við fyrirmæli yfirmanns stefnanda, ekki gegn þeim.

                Í öðru lagi hafi stefnandi ekki óhlýðnast fyrirmælum framkvæmdastjóra stefnda eins og þau komu fram á verkefnalistanum, með greinargerð sinni. Í tilvitnuðum niðurstöðuorðum greinargerðar stefnanda hafi ekki falist óhlýðni, heldur hafi verið um að ræða metnaðarfulla tilraun stefnanda til að upplýsa yfirmann sinn um það, að fyrirhugaðar breytingar væru óframkvæmanlegar, miðað við þá aðstöðu, sérþekkingu og fjölda leiðbeinenda, sem vinnustofan bjó yfir. Til þess að ráðast í breytingarnar hafi því verið nauðsyn á því að bæta aðstöðu og fjölga starfsfólki.

                Í þriðja lagi hafi fyrirmæli framkvæmdastjórans samkvæmt verkefnalistanum verið óframkvæmanleg, að óbreyttum mannafla, sérþekkingu og aðstöðu, eins og stefnandi hafi lýst í greinargerð sinni. Hafi stefnandi vísað m.a. til samtala við forstöðumenn Hæfingarstöðvarinnar Bæjarhrauni, Hafnarfirði og Örva, Kópavogi, sem starfi náið með fötluðum. Stefnandi kveður það nú staðfest að hún hafi haft rétt fyrir sér að þessu leyti, þar sem starfsfólki hafi verið fjölgað og aðstaða bætt. Fyrirmæli, sem ekki sé mögulegt að framfylgja falli ekki undir orðalagið „löglegar fyrirskipanir yfirmanna“ í 15. gr. laga nr. 70/1966 og það að framfylgja ekki slíkum fyrirmælum geti ekki talist til „óhlýðni“ samkvæmt 21. gr. sömu laga.

                Í fjórða lagi hafi framkvæmdastjóra stefnda borið, áður en hann veitti stefnanda áminningu á grundvelli skýslunnar, að rannsaka nákvæmlega hvort greinargerð stefnanda hafi stuðst við gild rök, t.d. með samanburði við aðrar sambærilegar stofnanir. Þetta hafi ekki verið gert og sé þar um brot á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ræða.

                Í fimmta lagi er á það bent varðandi framangreindar málsástæður, að líta verði til þeirrar aðstöðu, sem stefnandi hafi verið í er hún hafi séð sig tilneydda til að senda frá sér framangreinda greinargerð. Stefnandi hafi borið ábyrgð á vinnustað, þar sem u.þ.b. tuttugu fatlaðir einstaklingar stundi verndaða vinnu. Stefnandi hafi mikla þekkingu og reynslu af málefnum fatlaðra og hún hafi sem forstöðumaður vinnustofunnar á rúmum tíu árum átt verulegan þátt í mótun hennar. Lög nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, taki til starfseminnar og geri lögin ásamt öðrum meginreglum íslensks réttar strangar kröfur um aðbúnað og þjónustu við fatlaða einstaklinga. Í ljósi þessa hafi verið sérstakt tilefni fyrir framkvæmdastjóra stefnda til að taka greinargerð stefnanda alvarlega og vanda málsmeðferð en ekki grípa til þeirra ómálefnalegu ráðstafana sem mál þetta sé sprottið af.

                Þar sem áminning stefnanda hafi verið ólögmæt samkvæmt framangreindu hafi skilyrði uppsagnar samkvæmt 44. gr. laga nr. 70/1996 ekki verið fyrir hendi. Því sé uppsögnin ólögmæt og veiti stefnanda rétt til skaðabóta.

                Um stefnufjárhæðina.

                Stefnandi kveðst hafa unnið í rúman áratug við framangreint starf er hún missti stöðu sína 55 ára að aldri. Hún hafi verið atvinnulaus síðan. Við mat á tjóni stefnanda vegna uppsagnarinnar beri m.a. að hafa í huga aldur hennar, kyn, menntun og starfsreynslu. Atvinnumöguleikar 55 ára gamallar konu, sem hafi gagnfræðapróf, sé búsett á Selfossi og hafi alla sína starfsreynslu við að sinna fötluðu fólki, séu fáir. Þetta eigi sérstaklega við um störf þar sem þekking hennar og reynsla komi að notum. Þá beri að hafa í huga að stefnandi hafi verið ríkisstarfsmaður og því notið réttinda samkvæmt lögum nr. 70/1996 og lögum nr. 29/1963, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hafi stefnandi því mátt vænta þess að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka ríkisstarfsmanna svo lengi sem viðkomandi starfsemi yrði haldið áfram á vegum ríkisins og hún gerðist ekki brotleg í starfi. Stefnukrafa hennar um skaðabætur vegna fjártjóns 3.143.664 krónur sé því síst of há, en hún samsvari launum stefnanda í tvö ár, miðað við laun stefnanda eins og þau voru í apríl 1997.

                Stefnandi gerir ennfremur kröfu um miskabætur að fjárhæð 250.000 krónur, með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi kveður þá kröfu vera hóflega, enda hafi uppsögnin og uppsagnarástæðan valdið stefnanda verulegum ærumissi.

               

Málsástæður og lagarök stefnda.

                Stefndi byggir í fyrsta lagi á því að uppsögn hafi verið lögmæt og í samræmi við gildandi ráðningarsamning, sem verið hafi með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Samkvæmt því bresti algerlega stoð fyrir kröfum stefnanda um bætur úr hendi stefnda vegna uppsagnarinnar. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Auk tilvísunar til ákvæða í ráðningarsamningi vísar stefndi til 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

                Stefndi kveður stefnanda hafa verið veitt áminning, með vísan til 21. gr. laga nr. 70/1996, vegna ámælisverðrar háttsemi í starfi sem forstöðumaður vinnustofunnar að Gagnheiði 39. Áminningin hafi verið fyllilega lögmæt og réttmæt. Stefnanda hafi verið kynnt efni fyrirhugaðrar áminningar og henni gefinn kostur á að tala máli sínu. Áminningin hafi komið til vegna skorts á samstarfsvilja af hálfu stefnanda, með því að hún hafi neitað að hlýða lögmætum fyrirmælum yfirboðara og sinna nauðsynlegu samstarfi við samstarfsaðila. Með greinargerð stefnanda þar sem hún lýsti því yfir að henni væri ekki fært að sinna hinum nýja verkefnalista sem henni var afhentur í lok desember 1996 hafi stefnandi haft að engu lögmæt fyrirmæli yfirboðara, sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi kveður stefnanda ekki hafa verið áminnta sérstaklega fyrir að hafa skilað greinargerð vegna verkefnalistans, heldur hafi það verið nefnt sem dæmi um skort hennar á samstarfsvilja, en í áminningarbréfinu hafi komið fram að ítrekaðar kvartanir hefðu borist frá samstarfsaðilum stefnanda og aðstandendum starfsmanna vinnustofunnar vegna skorts á samstarfsvilja.

                Stefndi nefnir að stefnandi hafi kosið að sleppa því að mæta til fundarins með framkvæmdastjóra stefnda og Dóru Eivindardóttur, sem fyrirhugaður hafi verið 27. febrúar 1997 og hafi stefnandi ekki tjáð sig um efni fyrirhugaðrar áminningar. Þrátt fyrir að það komi fram í áminningarbréfi hverju það myndi varða ef stefnandi bætti ekki ráð sitt, þá hafi engin teikn komið fram um að stefnandi myndi gera það. Stefnandi hafi hins vegar ritað bréf sitt til aðstandenda starfsmanna vinnustofunnar hinn 4. mars 1997 og óskað eftir því að þeir ræddu við hana um áminninguna hefðu þeir átt einhvern hlut að máli. Þá hafi stefnandi lýst því yfir að henni væri ómögulegt að vinna einhver verk þvert um hug sinn til að þóknast yfirboðara sínum. Þar með hafi stefnandi lýst því yfir að það væri ekki vilji til þess af hennar hálfu til að bæta samstarf við yfirboðara og fylgja fyrirmælum hans.

                Þá byggir stefndi á því að yfirmaður stefnanda hafi haft lögmætan rétt til að áminna stefnanda fyrir að fara ekki að fyrirmælum sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996. Framkvæmdastjóri stefnda hafi átt mat um það hvaða starfsmenn hann teldi að best gætu farið að fyrirmælum um stjórn og starfsemi stofnunarinnar. Vinnuveitandi stefnanda hafi því ekki þurft að sæta gagnrýni stefnanda á starfseminni og hafi við þessar aðstæður verið rétt og skylt að slíta ráðningarsamningi með lögmæltum hætti. Stefndi kveður áminningu til stefnanda hafa verið lögmæta og byggða á efnislega réttmætum grundvelli og ástæðum og að skylt hefði verið að veita hana samkvæmt ákvæðum 21. gr. laga nr. 70/1996. Fyrir hafi legið að stefnandi hafi sýnt óhlýðni við löglegt boð yfirmanns og ekki sýnt vilja til að ná fullnægjandi árangri í starfi.

                Stefndi mótmælir því eindregið að óvilji stefnanda til að sinna fyrirmælum megi skoðast sem metnaðarfull tilraun til að upplýsa yfirmann sinn um að verkefnaskipan hans væri óframkvæmanleg. Stefnda hafi ekki borið skylda til að rannsaka gagnrýni stefnanda á starfsemi stofnunarinnar. Um skyldu þess efnis sé hvorki mælt fyrir um í lögum nr. 70/1996 né ráðningarsamningi. Þá mótmælir stefndi að 10. gr. laga nr. 37/1993 geti átt við í þessu máli, enda hafi við stjórn og stefnumörkun stofnunarinnar ekki verið tekin ákvörðun um réttindi og skyldur stefnanda. Stefndi kveður að innri málefni um stjórn og starfsemi stofnana teljist ekki vera stjórnvaldsákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefndi kveður lög nr. 70/1996 ganga framar lögum nr. 37/1993 varðandi réttindi og skyldur starfsmanna. Mál stefnanda hafi verið nægilega rannsakað enda hafi verið að fullu upplýst að stefnandi hafi ekki viljað gegna þeim skyldum sem henni var falið.

                Samkvæmt framansögðu hafi uppsögn stefnanda einnig verið í samræmi við ákvæði 43. gr. og 44. gr. laga nr. 70/1996, enda hafi áminning í engu borið tilætlaðan árangur.

                Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda að sátt hafi verið um starfsemi vinnustofunnar og vísar um það til gagna málsins og framburðar vitna fyrir dómi. Stefndi kveður stefnanda hafa átt mjög erfitt með að eiga samskipti við þá sem tengst hafi starfsemi vinnustofunnar, t.d. við Dóru Eyvindardóttur, deildarstjóra ráðgjafadeildar stefnda, Önnu Hjaltadóttur, forstöðumann sambýlisins að Árvegi 8, Maríu Jónsdóttur, forstöðumann sambýlisins að Vallholti 12-14 og Sigrúnu Þorvarðardóttur forstöðuþroskaþjálfa, Vallholti 9, sem telji að starf stefnanda hafi ekki skilað þeim árangri sem eðlilegt geti talist af vernduðum vinnustað.

                Vegna þessara kvartana hafi stefndi fengið þau Annettu Ingimarsdóttur, iðjuþjálfa og Andés Ragnarsson, sálfræðing, til að meta í hverju ætti að breyta starfseminni. Í skýrslu þeirra hafi verið margt í starfsemi vinnustofunnar sem mætti bæta og hafi Annetta talið að skilgreina þyrfti markmið vinnustofunnar upp á nýtt, en stofnunin gæti auðveldlega sinnt margþættri starfsemi fyrir fatlaða, þar sem fram færi hæfing, starfshæfing og vernduð vinna. Annetta hafi gagnrýnt marga þætti starfseminnar, en Andrés m.a. bent á að bæta þyrfti úr faglegum römmum vinnustofunnar og gera bragarbót á vinnubrögðum. Hins vegar hafi úrvinnsla og undirtektir stefnanda vegna þessara skýrslna engar verið og þegar verkefnalistinn, sem m.a. hafi verið byggður á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra og úttektum sérfræðinganna tveggja, var kynntur, hafi höfnun stefnanda á breytingum verið alger.

                Þar sem samskipti stefnanda við samstarfsaðila hafi hvorki verið góð né árangursrík og stefnandi hafi ekki viljað fara eftir verkefnalista, hafi forstöðumanni stefnda verið skylt að áminna stefnanda samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996.

                Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda sem rangri að óframkvæmanlegt sé eða hafi verið að vinna eftir verkefnalistanum og að framkvæmdastjóri stefnda hafi viðurkennt það í samtölum við stefnanda, eða að greinargerð stefnanda hafi verið samin að einhverju leyti að tilhlutan framkvæmdastjórans. Þótt leita hafi þurft eftir fjármagni til að framkvæma breytingar á vinnustofunni, hafi það ekki verið viðurkennt af hálfu framkvæmdastjórans að breytingar hafi verið óframkvæmanlegar. Ávallt hafi legið fyrir að sú stefna að koma á þjónustu fyrir fjölfatlaða einstaklinga á sambýlum sem ekki hafi notið hennar fyrr. Því er mótmælt að þurft hafi að ráða fleira fólk vegna þessa, en samanlagt starfshlutfall starfsmanna hafi aðeins aukist um 10%. Í stað stefnanda hafi verið ráðinn ófaglærður starfsmaður, rétt eins og stefnandi, til að veita vinnustofunni forstöðu. Sá verkefnalisti sem um er rætt hafi nýst ágætlega við endurskipulagningu vinnustofunnar, sbr. greinargerðir Dóru Eyvindardóttur, deildarstjóra, Erlínar Karlsdóttur, forstöðumans og Sigrúnar Þorvarðardóttur, forstöðuþroskaþjálfa. Engin vandamál hafi orðið við að koma á þjónustu og verndaðri vinnu fyrir þá fjölfötluðu einstaklinga sem stefnandi hafi talið ófært að láta í té.

                Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni eða grundvöllur sé fyrir bótakröfu hennar, þótt talið yrði að áminning hafi ekki byggst á réttmætum forsendum. Stefnandi hafi ekki getað treyst því að fá frekari bætur vegna ráðningarslita, en sem næmu launum í uppsagnarfresti, en fyrir liggi að stefnanda voru greidd þriggja mánaða laun án vinnuskyldu. Stefnandi hafi heldur ekki getað treyst því að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka ríkisstarfsmanna, enda hafi gilt um ráðninguna gagnkvæmur uppsagnarfrestur. Stefndi kveðst mótmæla sérstaklega miskabótakröfu stefnanda, enda hvorki lagaskilyrði né tilefni til að dæma stefnanda miska. Uppsögn ráðningarsamningsins hafi ekki verið ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda og bresti því skilyrði fyrir beitingu 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Sé þetta sjálfstæð ástæða til sýknu af öllum kröfum stefnanda.

                Vegna varakröfu sinnar vill stefndi benda á, að bótakrafa geti ekki samsvarað tveggja ára launum, eins og stefnandi haldi fram. Stefnandi hafi ekki rökstutt kröfu sína. Engu tjóni, samsvarandi tveggja ára launum, sé fyrir að fara í tilviki stefnanda og engri réttarreglu sé til að dreifa þess efnis að bætur megi ákvarða á þann hátt er uppsögn byggi á gildum ákvæðum ráðningarsamnings. Bótakrafa stefnanda sé að þessu leyti langt umfram það sem dómvenja, á grundvelli 3. mgr. 11. gr. eldri laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954, gefi tilefni til, ef stefnandi hefði hins vegar notið skipunar í starf, sbr. reglu þá er nú gildi að þessu leyti um embættismenn í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996. Að lokum mótmælir stefndi því sérstaklega að miða eigi við yfirvinnu og orlofsgreiðslur ef bætur verða dæmdar með hliðsjón af föstum launum stefnanda, en í því tilviki kæmi aðeins til greina að miða við föst mánaðarlaun án yfirvinnu, sem hafi í apríl 1997 numið 96.871 krónum.

                Stefndi reisir kröfur sínar um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstöður.

Eins og rakið hefur verið var stefnandi ráðin til starfa hjá stefnda 12. janúar 1987, samkvæmt samningi með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, segir m.a.: „Forstöðumaður stofnunar hefur rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi...“.

Hins vegar segir í 44. gr. sömu laga: „Skylt er að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar.

Ef starfsmaður óskar skal rökstyðja uppsögn skriflega. Ef hún á rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. má bera hana undir hlutaðeigandi ráðherra.“.

Þá segir í 21. gr. laganna: „Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.“

Áður en stefnanda var veitt lausn frá störfum bar stefnda að taka skýra afstöðu til þess á hvaða lagagrunni það var gert. Við úrlausn þessa máls verður ekki litið til 43. gr. laga nr. 70/1996 í þessu sambandi, heldur ber við það að miða að uppsögn stefnanda hafi stuðst við 44. gr. laga nr. 70/1996. Er það eðlilegt miðað við starf stefnanda, sem var ráðin ótímabundið og aðdraganda uppsagnarinnar, auk þess sem framlögð gögn í málinu bera það nokkuð með sér, sbr. t.d. orð áminningarbréfs til stefnanda, þar sem tvisvar sinnum var sérstaklega skírskotað til 21. gr. laganna, jafnframt því sem tekið var fram að stefnanda væri gefinn kostur á að bæta ráð sitt fyrir 18. apríl 1997, ella yrði henni sagt upp störfum.

Kemur næst til skoðunar hvort áminning stefnanda hafi verið lögmæt þannig að stefnda hafi verið rétt að víkja stefnanda úr starfi.

Í 30. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, er kveðið á um verndaða vinnustaði. Vinnustofan að Gagnheiði 39, Selfossi er rekin og fjármögnuð af stefnda, sem er ríkisstofnun sem starfar eftir 12. gr. laga um málefni fatlaðra. Framkvæmdastjóri svæðisskrifstofunnar var næsti yfirmaður stefnanda.

Upplýst er að starfsemi vinnustofunnar var með tiltölulega fastmótuðu sniði áður en stefnanda var sagt upp störfum. Fötluðum starfsmönnum hafði þó fjölgað eftir því sem fram liðu stundir og voru u.þ.b. 20 þegar stefnanda var sagt upp störfum. Starfsleiðbeinendur voru fimm í 4,4 stöðugildum, auk eins starfsmanns frá Atvinnutryggingarsjóði sem starfaði að hluta til í þágu vinnustofunnar. Eini leiðbeinandinn sem hafði einhverja menntun varðandi málefni fatlaðra var í 60% starfi, en aðrir starfsleiðbeinendur voru án sérstakrar menntunar á þessu sviði. Forstöðumaður sá sem ráðinn var í starf stefnanda var ekki með meiri reynslu eða þekkingu en stefnandi á þessu sviði.

Í áminningarbréfi stefnda kemur fram að ástæða áminningarinnar hafi verið skortur á samstarfsvilja stefnanda. Eins og að framan er rakið virðist óánægjan aðallega hafa beinst að því að mikið fatlaðir starfsmenn fengju ekki á vinnustofunni það atlæti og hæfingu sem þeim best hentaði. Hins vegar voru stefnandi og aðrir leiðbeinendur vinnustofunnar óánægðir með hversu mikill fjöldi starfsmanna var sendur til vinnustofunnar og að verulega fötluðum starfsmönnum var komið fyrir á vinnustofunni, án þess að aðstaða, fjármagn eða starfskraftur væri til staðar til að sinna þeim.

Af framburði aðila og vitna fyrir dómi, verður að telja að meginástæða áminningarinnar hafi ekki verið óhlýðni stefnanda við lögleg boð yfirmanna sinna að öðru leyti en því sem nemur skýrslu stefnanda er gerð var í tilefni títtnefnds verkefnalista stefnda og háttsemi stefnanda í kjölfar skýrslunnar. Enda laut viðvörun í áminningarbréfi að skýrslunni, en ekki að öðrum atriðum. Auk þess kvað framkvæmdastjóri stefnda viðbrögð sín, eftir fund forstöðumanna sambýla og starfsleiðbeinanda á vinnustofunni haustið 1996 vegna þessarar óánægju, hafa verið þau, að um væri að ræða samskiptamál þess eðlis að hann tæki ekki afstöðu til þeirra, heldur væri það viðkomandi að leita sameiginlega að lausnum. Verður því ekki séð að af hálfu stefnda hafi verið tekin skýr afstaða til þess hvort kvartanir þessar um störf stefnanda og að nokkru leyti um störf annarra starfsleiðbeinanda vinnustofunnar, væru á rökum reistar.

Eins og rakið hefur verið ákvað stefndi að gefa mikið fötluðum einstaklingum möguleika á hæfingu á vinnustað stefnanda, í samræmi við markmið laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992.

Í 1. mgr. 8. gr. reglugerðar um atvinnumál fatlaðra nr. 376/1996 segir: „Í hæfingu felst kerfisbundin og alhliða starfs- og félagsleg þjálfun. Með hæfingunni skal stuðlað að því að einstaklingar verði hæfari til iðju eða atvinnuþátttöku. Stefnt skal að því að hæfingin sé tímabundin. Ekki er skylt að greiða laun fyrir hæfingu.“

Framkvæmdastjóri stefnda lagði því fyrir stefnanda títtnefndan verkefnalista og óskaði eftir skýrslu frá stefnanda um það hvernig uppfylla mætti verkefnalistann.

Eins og stefnandi rakti í skýrslu sinni leitaði hún aðstoðar sérfræðinga áður en hún gerði skýrsluna. Hafa þeir sérfræðingar staðfest fyrir dómi að niðurstöður stefnanda sem hún kemst að í skýrslunni séu réttar. Meðal annars var um að ræða forstöðumann vinnustofunnar við Bæjarhraun þar sem hæfing fyrir mikið fatlað fólk hefur verið stunduð um árabil. Í verkefnalistanum var þó sérstaklega vísað til þess til að haft hefði verið mið af starfseminni þar.

Þá ber að hafa í huga að niðurstöður stefnanda eru með þeim fyrirvara, að miðað væri við þær forsendur sem henni voru sannanlega gefnar. Þannig að ef ekki kæmi til aukin aðstaða, tæki, aukinn starfskraftur og að sérstök fagþekking kæmi í öðru formi en sem ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga, væri verkefnalistinn óframkvæmanlegur og ekki á hennar færi að framfylgja honum. Í málinu liggja frammi gögn sem sýna að stefndi hafði áður en verkefnalistinn var gerður leitað eftir fjármagni frá ríkissjóði, m.a. vegna væntanlegs aukins umfangs í starfsemi vegna hæfingar. Að virtum framburði samstarfsmanna vinnustofunnar er einnig upplýst að starfsemi vinnustofunnar að Gagnheiði 39, Selfossi hefur tekið töluverðum breytingum frá því að stefnanda var sagt upp störfum, þannig að nokkrir starfsmenn vinnustofunnar eru nú starfandi á almennum vinnumarkaði, sumt af starfsemi vinnustofunnar á sér nú stað í öðru húsi, auk þess sem sérhæfð tæki til hæfingar hafa verið keypt. Virðist sem breytingum þessum sé ekki með öllu lokið.

Svo virðist sem stefnandi hafi upphaflega ætlað að reyna að uppfylla verkefnalistann, auk þess sem í skýrslu stefnanda segir að hægt væri að nálgast markmið verkefnalistans um hæfingu á vinnustofunni með því að skipta deginum niður milli hæfingar og vinnu.

Samkvæmt því sem að framan er rakið, verður ekki annað séð en að skýrsla stefnanda hafi verið samin eftir bestu samvisku miðað við þær forsendur sem stefnanda voru gefnar og að höfðu samráði við reynda aðila á þessu sviði.

Þrátt fyrir að ákvörðunarvald um stefnumörkun á starfsemi vinnustofunnar sé stefnda, verður samkvæmt framansögðu ekki talið að með skýrslu sinni hafi stefnandi brotið hlýðniskyldu sína gagnvart stefnda og „þar með haft að engu lögmæt fyrirmæli yfirboðara um starf … [sitt], sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996.“, eins og segir í áminningarbréfi til stefnanda.

Að teknu tilliti til stöðu Dóru Eyvindardóttur hjá stefnda, verður heldur ekki talið sannað, gegn andmælum stefnanda, að stefnandi hafi á fundinum hinn 21. febrúar 1997 verið boðuð til fundar hinn 27. febrúar 1997, eins og stefndi heldur fram.

Að því virtu sem að framan er rakið, lítur dómurinn svo á að þegar af þeirri ástæðu að áminning sú sem um ræðir var ekki byggð á lögmætum forsendum, voru ekki lagaskilyrði fyrir uppsögn stefnanda samkvæmt ákvæðum 44. gr. laga nr. 70/1996. Því ber stefnanda bætur úr hendi stefnda, að teknu tilliti til fastra launa hennar hjá stefnda, en laun fyrir svokallaða fasta yfirvinnu er hluti af föstum launum hennar.

Liðið er tæpt ár frá því að stefndi sagði stefnanda upp störfum og er stefnandi enn atvinnulaus, en því er ekki mótmælt að stefnandi hefur leitað sér að vinnu allt frá þeim tíma. Stefnandi var 55 ára gömul er henni var sagt upp störfum og hefur sína starfsreynslu á þessu atvinnusviði. Því er fallist á það með stefnanda að atvinnumöguleikar stefnanda eru ekki miklir, sérstaklega varðandi störf þar sem þekking hennar og reynsla kemur að notum. Hins vegar ber að hafa í huga að stefnandi fékk greidd laun frá stefnda út uppsagnarfrest, eða allt til 31. júlí 1997. Með vísan til alls þessa þykja bætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 1.600.000 krónur.

                Hins vegar er fallist á það með stefnda að lagaskilyrði séu ekki fyrir því að dæma stefnanda miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og er stefndi því sýknaður af kröfu um miskabætur.

Ber stefnda því að greiða stefnanda 1.600.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi 12. nóvember 1997 til greiðsludags.

Eftir þessum úrslitum skal stefndi greiða stefnanda 280.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Ólafur Börkur Þorvaldsson, héraðsdómari, kveður upp þennan dóm, en uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna mikilla starfsanna dómara.     

Dómsorð:

                Stefndi, Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Suðurlandi, kt. 540880-0269, greiði stefnanda, Elsu Jónsdóttur, kt. 060142-3519, 1.600.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 12. nóvember 1997 til greiðsludags.

                Stefndi er sýknaður af kröfum stefnanda um miskabætur.

                Stefndi greiði stefnanda 280.000 krónur í málskostnað.