Print

Mál nr. 34/2017

Harjit Delay (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Fasteignum Akureyrarbæjar
og til réttargæslu Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald lögmaður)
Lykilorð
  • Fasteign
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Viðurkenningarkrafa
Reifun

Í málinu krafðist H viðurkenningar á bótaskyldu F vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir er hann féll úr áhorfendastúku á knattspyrnuvelli á Akureyri. Varð slysið með þeim hætti að H var að teygja sig yfir handrið sem girti af áhorfendastúkuna í því skyni að slá í lófa leikmanns sem þá var að ganga af velli. Við það steyptist hann yfir handriðið og féll niður í steypta gryfju þar fyrir neðan. Byggði H á því að handriðið hefði ekki uppfyllt nánar tilgreind ákvæði byggingarreglugerðar sem hefðu verið í gildi er völlurinn var byggður og að rekja mætti orsakir slyss síns til þess. Héraðsdómur féllst ekki á það og taldi sömuleiðis ljóst að H hefði með háttsemi sinni sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, sem eitt og sér hefði valdið því að hann féll úr áhorfendastúkunni. Var F því sýknað af kröfum H. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2017. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns, sem hann varð fyrir 14. september 2014 „þegar hann féll úr áhorfendastúku á Þórsvelli á Akureyri.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Réttargæslustefndi gerir engar kröfur í málinu.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Harjit Delay, greiði stefnda, Fasteignum Akureyrarbæjar, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2016.

                Mál þetta var höfðað 28. október 2015 og dómtekið 30. september 2013.

                Stefnandi er Harjit Delay, Hvammabraut 8, Hafnarfirði.

                Stefndi er Fasteignir Akureyrarbæjar og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. til réttargæslu.

                Stefnandi krefst viðurkenningar á bótaskyldu stefnda vegna slyss sem stefnandi varð fyrir þann 14. september 2014 þegar hann féll úr áhorfendastúku á Þórsvelli á Akureyri. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

                Til vara krefst stefndi þess að skaðabótaskylda stefnda verði aðeins viðurkennd að hluta vegna þess óhapps sem stefnandi varð fyrir þann 14. september 2014 og að málskostnaður verði felldur niður.

                Réttargæslustefndi gerir ekki kröfu um málskostnað.

                                                                                   I.

Málavextir

                Þann 14. september 2014 fór fram knattspyrnuleikur á Þórsvelli á Akureyri. Stefnandi var áhorfandi á leiknum og var í áhorfendastúku yfir inngangi að búningsklefa leikmanna. Handrið girðir stúkuna af en ágreiningslaust er að það er 82 cm hátt og stendur á steyptum kanti sem er 32 cm. Stefnandi steig upp á hinn steypta kant og þegar leikmenn gengu af velli ætlaði stefnandi að gefa einum leikmanninum „fimmu“ og teygði sig í áttina til hans yfir handrið stúkunnar. Steyptist hann við það fram fyrir sig og féll niður í steypta gryfju fyrir neðan stúkuna með þeim afleiðingum að hann hlaut líkamstjón. Óumdeilt er að fallið var rúmir þrír metrar.

                Fyrir liggur að stefnandi leitaði á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri í kjölfar óhappsins þar sem tekin var tölvusneiðmynd af höfði sem sýndi minni háttar blæðingu og brot í andliti. Næsta dag var stefnandi skoðaður á slysadeild Landspítala ‒ háskólasjúkrahúss og var þá sendur á háls- nef og eyrnadeild. Fram kemur í læknabréfum að hann hafi verið greindur með mörg brot sem nái til höfðukúpu og andlitsbeina. Hann hafi verið talsvert bólginn hægra megin í andliti og framtennur brotnar. Þá var til staðar væg bitskekkja. Ný tölvusneiðmynd sýndi að áverkamerki í höfuðkúu sem voru verulega á undanhaldi.

                Stefnandi leitaði á háls-, nef- og eyrnadeild þann 20. október 2014. Í göngudeildarnótu kemur fram að stefnandi hafi kvartað undan suði í hægra eyra og heyrnartruflun. Hann væri enn með skakkt bit, með dofa í enni og aftur í hnakka og með þrýstingstilfinningu kringum hægra eyra. Þá var framkvæmd heyrnarmæling sem sýndi talsvert heyrnatap. Segir í nótunni að erfitt sé að segja hvort það væri nýtt eða ekki en hann væri með sprungur í botni höfuðkúpu í grennd við beinið aftan við gagnauga og sem gæti hugsanlega verið afleiðing þess.

                Í göngudeildarnótu frá 14. janúar 2015 kemur fram að brot hafi gróið vel og stefnandi sé í tannviðgerðum, hann hafi bæði fengið titanium implönt og tannviðgerðir. Hafi hann verið með svolítil brottfallseinkenni frá heilataugum. Undanfarnar vikur og mánuði hafi hann orðið var við lyktar- og bragðtruflun sem sennilega sé vegna mars á framhluta heila sem hann hlaut. Þá hafi stefnandi fundið fyrir stöðubundnum svima nokkrum vikum áður sem ekki sé til staðar nú. Einnig er rakið að stefnandi sé með suð í eyrum en hann hafi haft slíkt suð áður en slysið gerðist. Hafi hann þá verið með talsvert „discant“ tap beggja vegna.

                Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 20. nóvember 2014, óskaði stefnandi eftir því að stefndi tæki afstöðu til bótaskyldu vegna slyss stefnanda. Þar er meðal annars rakið að stefnandi telji sig hafa orðið fyrir líkamstjóni sem rekja mætti til vanbúnaðar á áhorfendastúku við Þórsvöllinn en handriðið sem stefnandi hafi fallið yfir væri of lágt. Þá er því haldið fram að handriðið uppfylli ekki kröfur um frágang handriða sem áskildar séu í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998, einkum       gr. 202.15 og gr. 202.13. Megi því rekja tjón stefnanda til þessa vanbúnaðar.

                Í svarbréfi réttargæslustefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., vátryggjanda stefnda, dagsettu 23. desember 2014, var því hafnað að slys stefnanda mætti rekja til vanbúnaðar á umræddu handriði. Að mati réttargæslustefnda beri atvik það með sér að slys stefnanda sé að rekja til eigin sakar stefnanda þar sem hann hafi teygt sig svo langt yfir umrætt handrið vallarmegin að hann hafi farið yfir það. Bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu vátryggingartaka var því hafnað.

                Stefnandi skaut ágreiningi aðila til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum með bréfi, dags. 30. janúar 2015. Var það álit nefndarinnar að stefndi bæri ekki skaðabótaábyrgð vegna líkamstjóns stefnanda enda hefði handrið það sem um var deilt uppfyllt kröfur ákvæða 202.15 og 2012.13 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Niðurstaða nefndarinnar var því sú að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu stefnda. Stefndi unir ekki niðurstöðu þessari og höfðaði því mál þetta.

                                                                                  II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir á því að tjón hans megi rekja til vanbúnaðar á áhorfendastúku vallarins þar sem frágangur handriðsins uppfylli ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sem var í gildi þegar Þórsvöllurinn var byggður.

                Í fyrsta lagi bendir stefnandi á að handriðið sjálft sé 82 cm að hæð sem sé 18 cm lægra en áskilið sé í grein 202.15 í reglugerðinni. Geti stefnandi ekki fallist á að hæðin taki einnig mið af hinum steypta kanti sem sé 35 cm enda sé hann ekki hluti handriðsins. Hafa verði í huga að auðvelt sé að standa uppi á hinum steypta kanti þétt upp að hinu lága 82 cm handriði, rétt eins og ef staðið væri á gólfi upp að handriði í sömu hæð.

                Í öðru lagi sé augljóslega til staðar klifurhætta þar sem bæði sé auðvelt að klifra upp á hinn steypta kant auk þess sem mögulegt sé að klifra upp á láréttan rimil sem sé á sjálfu handriðinu í 15 cm. hæð mælt frá hinum steypta kanti. Ef staðið sé uppi á hinum lárétta rimli séu einungis 67 cm upp að efstu mörkum handriðsins. 

                Stefnandi telur að um augljóst brot sé að ræða á grein 202.13 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Byggir hann á því að ef handriðið hefði verið hærra, samanber áðurnefnda grein 202.15, eða klæðning verið til staðar til að koma í veg fyrir klifur, samanber áðurnefnda grein 202.13, hefði þyngdarpunktur stefnanda ekki náð eins hátt yfir handriðið og raun bar vitni. Líkurnar á því að hann félli fram yfir handriðið hafi því verið meiri vegna þeirrar vanrækslu stefnda að gæta þess ekki að aðbúnaður uppfyllti þær kröfur sem gerðar eru í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Telur stefnandi því vera beint orsakasamband á milli vanrækslunnar og fallsins.

                Sé litið svo á að stefnandi beri að einhverju leyti ábyrgð á tjóni hafnar hann því að eigin sök verði metin 100%.

                                                                                  III.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að rangt sé og í öllu falli ósannað að meint tjón stefnanda sé að rekja til vanbúnaðar á áhorfendastúku stefnda. Stefndi telur þvert á móti að gögn málsins beri það með sér að áhorfendastúkan og handrið á henni uppfylli kröfur laga og reglugerðar nr. 444/1998. Mótmælir stefndi fullyrðingum um að handriðið uppfylli ekki hæðarkröfur byggingarreglugerðarinnar samkvæmt grein 202.15. Ljóst sé að handriðið samanstandi annars vegar af steyptum hluta sem sé 35 cm og hins vegar af stálhandriði sem sé 82 cm og sé því alls 1,17 m. Það uppfylli því ríflega ákvæði byggingarreglugerðarinnar. Stefndi eigi því ekki sök á tjóni stefnanda.

                Þá uppfylli handriðið kröfur greinar 202.13 í byggingarreglugerðinni. Handriðið samanstandi ekki af láréttum rimlum þannig að möguleiki gefist á klifri barna. Sú staðreynd að á handriðinu sé einn láréttur rimill rétt ofan við hinn steypta kant og annar láréttur rimill við efstu brún þess feli ekki í sér að handriðið uppfylli ekki skilyrði fyrrnefndrar greinar. Telur stefndi tilgang ákvæðisins þann að fyrirbyggja að handrið geti skapað börnum hættu sem hafi gjarnan takmarkaðan þroska eða skilning á þeirri hættu sem klifur eða annar óvitaskapur geti skapað.

                Þá liggi fyrir að byggingaryfirvöld hafa ekki gert neinar athugasemdir við umrætt handrið í þeim úttektum sem framkvæmdar hafa verið á mannvirkinu.              

                Í öðru lagi telur stefndi að um hafi verið að ræða óhappatilviljun sem hafi komið til vegna gáleysislegrar háttsemi stefnanda sjálfs. Þegar atvik málsins séu skoðuð sé ljóst að það var stefnandi sjálfur sem setti sig í verulega hættu með þeirri gáleysislegu háttsemi að teygja sig langt yfir handriðið og niður að leikmanni í því skyni að gefa honum „fimmu“. Í því sambandi bendir stefndi á að það dyljist engum sem sé í stúkunni, eða á vellinum fyrir neðan hana, að hæðin frá efri brún handriðsins og niður að undirlaginu fyrir neðan sé veruleg. Samkvæmt teikningum sé hæðin frá vellinum að efri brún handriðsins um 3,60 m og enn meiri sé miðað við gryfjuna sem stefnandi féll ofan í. Sömu gögn beri með sér að hæð frá undirlagi fyrir framan stúkuna upp að steyptum hluta handriðs sé að lágmarki 2,50 m. Þegar staðið sé ofan í þeirri gryfju sem stefnandi datt niður í er hæðin enn meiri. Af þessu megi ráða að til að gefa leikmanni sem stendur á undirlagi fyrir framan stúkuna „fimmu“, eða í gryfju sem stendur enn lægra, hafi stefnandi þurft að teygja sig niður fyrir hinn steypta kant. Er ljóst að með slíkri háttsemi stefnanda hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem hafi síðan valdið því að hann féll niður úr stúkunni.

                Í þriðja lagi byggir stefndi á því að stefnanda hafi ekki tekist að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, í hverju slíkt tjón felist ellegar að orsakatengsl séu milli þess og umrædds óhapps. Að mati stefnda hafi stefnandi ekki uppfyllt lágmarkskröfur um sönnun á tjóni sínu. Stefndi telur að þau gögn sem stefnandi hafi lagt fram því til stuðnings leiði ekki nægar líkur að því að óhapp stefnanda muni hafa varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins um að stefnandi hafi glímt við varanlegar afleiðingar af óhappinu. Óhappið hafði vissulega í för með sér áverka í andliti og brotnar tennur en ekkert sé fjallað um varanleika slíkra áverka ellegar að slíkir áverkar muni mögulega skerða varanlega getu stefnanda til að afla sér vinnutekna í framtíðinni.

                Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda byggir hann til vara á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til óhappatilviljunar sem hafi komið til vegna athafna stefnanda sjálfs. Stefndi vísar sérstaklega til þess að stefnanda hafi verið ljósar aðstæður í stúkunni og að sú háttsemi að teygja sig yfir handrið og niður til leikmanns sem var á vellinum fyrir neðan kynni að skapa hættu. Hafi háttsemi stefnanda að þessu leyti falið í sér stórkostlegt gáleysi og verði hann því að bera stærstan hluta af tjóni sínu sjálfur. Vísar stefndi að öðru leyti eftir atvikum til umfjöllunar um aðalkröfu til stuðnings þess að varakrafa stefnda skuli ná fram að ganga.

                                                                                  IV.

Niðurstaða

                Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda á því að tjón hans verði rakið til vanbúnaðar á handriði áhorfendastúku Þórsvallar á Akureyri. Telur hann að handriðið hafi ekki uppfyllt nánar tilgreind skilyrði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 sem var í gildi þegar völlurinn var byggður. Af hálfu stefnda er því mótmælt að handriðið uppfylli ekki kröfur reglna þar um.

                Samkvæmt grein 101.3 í reglugerðinni er um frágang handriða á veggsvölum vísað til greina 202.13 og 202.15. Í grein 202.15 segir að á veggsvölum skuli vera handrið, sem ekki skuli vera lægra en 1 metri en þó megi það aldrei vera lægra en 1,20 metrar á þriggja hæða húsi og ofar.

                Óumdeilt er að hæð hins umdeilda handriðs Þórsvallar frá gólfi að efri brún er 117 cm. Þannig mælt uppfyllir handrið þær kröfur sem gerðar eru um hæð samkvæmt grein 202.15 í byggingarreglugerðinni, þ.e. yfir 1 metri. Þá er óumdeilt í málinu, enda stutt ljósmyndum af vettvangi og teikningum, að stálhandrið sem er 82 cm á hæð hvílir 35 cm háum steyptum kanti. Telur stefnandi að ekki sé rétt að líta á kantinn sem hluta handriðsins þegar hæð þess er mæld. Bendir hann á í þessu sambandi að steypti kanturinn sé ekki í beinni samfellu við stálhandriðið og auðvelt sé að standa uppi á honum.

                Að mati dómsins verður ekki litið á steypta kantinn sem framlengingu á gólffleti áhorfendastúkunnar heldur sem undirstöðu fyrir stálhandrið og hann sé því hluti þess. Samkvæmt því er hæð handriðsins 17 cm. hærra en þær lágmarkskröfur sem gert er ráð fyrir í áðurnefndri grein byggingarreglugerðar. Með fyrrgreindri útfærslu á handriðinu braut stefndi því ekki gegn grein 202.15 í byggingarreglugerðinni.

                Stefnandi telur enn fremur að gerð handriðsins fullnægi ekki grein 202.13 í sömu reglugerð sem segir að ganga skuli frá handriðum þannig að ekki stafi hætta af. Skuli m.a. klæða handrið klæðningu í a.m.k. 0,80 m hæð séu þau með láréttum rimlum sem gefi möguleika á klifri barna. Bendir stefnandi á í þessu sambandi að tveir láréttir rimlar séu á stálhandriðinu bæði að ofan- og neðanverðu. Þá sé eins og fyrr segir unnt að stíga upp á steypta kantinn og megi því jafna honum til lárétts rimils.

                Dómurinn fellst ekki á sjónarmið stefnanda um að handriðið uppfylli ekki kröfur greinar 202.13. Þegar litið er til skýrs orðalags greinarinnar verður ekki séð að þörf hafi verið á slíkri klæðningu, enda skal þörfin metin út frá því að hætta sé á klifri barna.

                Með hliðsjón af ofangreindu verður ekki fallist á það með stefnanda að handriðið hafi verið í ósamræmi við fyrrnefndar greinar byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Verður tjón stefnanda því ekki rakið til vanbúnaðar handriðsins.

                Eins og fram hefur komið varð slysið með þeim hætti að stefnandi stóð á steypta kantinum, teygði sig yfir handriðið og hugðist, eins og stefnandi sjálfur hefur lýst og vitni staðfest, gefa leikmanni sem staddur var á vellinum beint fyrir neðan hann „fimmu“ þ.e. að slá saman lófum. Bar hann fyrir dómi að honum virtist það mögulegt. Að mati dómsins var slíkt útilokað án þess að leggja sig í stórhættu þegar litið er til aðstæðna. Miðað við áform stefnanda hefði áhætta hans af þessu athæfi orðið síst minni við það að handriðið væri 18 cm. hærra eða það klætt frá gólffleti. Að mati dómsins er ljóst að stefnandi hugði ekki að sér og telst með háttsemi sinni hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem eitt og sér varð til þess að hann féll úr áhorfendastúkunni og slasaðist með þeim hætti sem lýst hefur verið. Á því ber stefndi hins vegar ekki skaðabótaábyrgð og ber því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda í málinu.

                Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sem þykir hæfilegur 500.000 krónur.

                Sigríður Hjaltested, héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                   D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Fasteignir Akureyrarbæjar, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Harjit Delay.

                Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.