Print

Mál nr. 86/1999

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Fyrning
  • Vextir

                                                                 

Þriðjudaginn 9. mars 1999.

Nr. 86/1999.

Stálsmiðjan hf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Hávöxtunarfélaginu hf.

(Helgi Sigurðsson hdl.)

                                                                           

Kærumál. Fjárnám. Fyrning. Vextir.

H krafðist fjárnáms hjá S fyrir kröfu samkvæmt áskorunarstefnu áritaðri um aðfararhæfi af héraðsdómara á árinu1988. S taldi sig hafa greitt kröfuna að fullu og mótmælti skyldu sinni til greiðslu áfallina dráttarvaxta fyrir lengra tímabil en sem nam undangengnum fjórum árum frá dagsetningu greiðsluáskorunar H. Málsaðilar deildu um þá ákvörðun sýslumanns að halda áfram fjárnámi, þrátt fyrir mótmæli S. Talið var að dráttarvextir, sem fallið hefðu í gjalddaga eftir áritun áskorunarstefnu H árið 1988, hafi ekki orðið gjaldkræfir samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, fyrr en síðar. Var fyrningarfrestur því liðinn um þá dráttarvexti, sem gjaldfallið höfðu fjórum árum áður en hann rauf fyrningu með aðfararbeiðni sinni. Með hliðsjón af því hvernig aðfararbeiðni H var háttað, var ákvörðun sýslumanns um að halda áfram fjárnámi hjá S, felld úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. febrúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. mars 1999. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 1999, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 9. október 1998 um að halda áfram fjárnámi hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfu varnaraðila um fjárnám hafnað. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms, svo og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

I.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði styðst fjárnámsbeiðni varnaraðila við áskorunarstefnu áritaða um aðfararhæfi af héraðsdómara 24. nóvember 1988. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort dráttarvextir, sem féllu í gjalddaga fyrir 30. apríl 1994, séu fallnir niður fyrir fyrningu, en sóknaraðili hefur ekki uppi önnur mótmæli við fjárkröfu varnaraðila. Heldur sóknaraðili því fram að kröfur um dráttarvexti af höfuðstól kröfu varnaraðila fyrnist á fjórum árum samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en að öðrum kosti séu kröfurnar fallnar niður fyrir tómlæti hans. Fjárnámsbeiðni varnaraðila er hins vegar á því reist að dráttarvextir af dómkröfu fyrnist á 10 árum samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laganna.

II.

Samkvæmt 1. tölulið 4. gr. laga nr. 14/1905 fyrnast kröfur samkvæmt dómi, sem ekki falla undir ákvæði 2. gr. laganna, á 10 árum. Af síðari málslið sama töluliðar leiðir þó að krafa um vexti samkvæmt dómi fyrnist því aðeins á 10 árum, að vextirnir hafi verið gjaldfallnir þegar dómur gekk um þá.

Áritun héraðsdómara á stefnu hefur sama gildi og dómur samkvæmt 2. mgr. 113. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 179. gr. sömu laga með áorðnum breytingum, sbr. 23. gr. laga nr. 38/1994. Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga nr. 14/1905 hófst 10 ára fyrningarfrestur 24. nóvember 1988 um höfuðstól kröfu varnaraðila og þá dráttarvexti sem gjaldkræfir voru þann dag. Dráttarvextir, sem eftir það féllu í gjalddaga, urðu hins vegar ekki gjaldkræfir, eðli málsins samkvæmt, fyrr en síðar. Átti 2. töluliður 3. gr. laga nr. 14/1905 því við um kröfur til þessara dráttarvaxta, en af gögnum málsins verður ekki ráðið að varnaraðili hafi rofið fyrningu krafnanna fyrr en með aðfararbeiðni, sem barst sýslumanninum í Reykjavík 11. ágúst 1998, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt framangreindu var þá fyrningarfrestur liðinn hvað varðar þá vexti, sem gjaldfallið höfðu fyrir 11. ágúst 1994. Sóknaraðili hefur hins vegar aðeins haft uppi mótmæli við greiðslu dráttarvaxta, sem féllu fyrir 30. apríl 1994.

Af gögnum málsins verður ráðið að hluti dráttarvaxtakröfu varnaraðila sé kominn til vegna vaxta, sem þegar voru gjaldkræfir við áritun áskorunarstefnu hans 24. nóvember 1988 og því ófyrndir. Af aðfararbeiðni varnaraðila verður hins vegar ekki ráðið hvaða fjárhæð þessir vextir nemi. Sama á við um vexti af málskostnaði. Er þessi skortur á sundurliðun í aðfararbeiðni varnaraðila í andstöðu við ákvæði 10. gr. laga nr. 90/1989. Eru því ekki uppfyllt skilyrði aðfarar um aðfararbeiðni varnaraðila að því er varðar þessa liði. Verður fallist á með sóknaraðila að hafna kröfu varnaraðila um að haldið verði  áfram fjárnámsgerð hjá sóknaraðila.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 9. október 1998 um að halda áfram fjárnámsgerð í eignum sóknaraðila, Stálsmiðjunnar hf., að kröfu varnaraðila, Hávöxtunarfélagsins hf., er felld úr gildi.

Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 100.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Hérðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 1999.

I.

                Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 25. janúar sl.

                Sóknaraðili er Stálsmiðjan hf., Mýrargötu 2, Reykjavík, kt. 620269-1079, og krefst hann þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 9. október sl. um að fjárnámsgerð að beiðni varnaraðila frá 10. ágúst sl. skuli ná fram að ganga.  Þá er krafist málskostnaðar.

                Varnaraðili, Hávöxtunarfélagið hf., Ármúla 13A, Reykjavík, kt. 611284-0479, krefst þess að framangreind ákvörðun sýslumanns verði staðfest og þá er einnig krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.         

                Málavextir eru þeir að varnaraðili fór þess á leit við sýslumanninn í Reykjavík með beiðni 10. ágúst sl. að fjárnám yrði gert til tryggingar skuld sóknaraðila, sem varnaraðili taldi þá nema 823.071 krónu.  Gerðin var tekin fyrir hjá sýslumannsembættinu 30. september sl. og var þá mætt af hálfu sóknaraðila, sem krafðist þess að synjað yrði um framgang gerðarinnar þar sem umrædd krafa væri að fullu greidd.  Sýslumaður tók sér frest til að ákveða hvort gerðinni yrði fram haldið og við fyrirtöku málsins 9. október sl. kynnti hann þá ákvörðun sína að halda gerðinni áfram að kröfu varnaraðila.  Því var þá lýst yfir af hálfu sóknaraðila að þessi ákvörðun yrði borin undir héraðsdóm og varð samkomulag um að fresta aðgerðum þar til niðurstaða dómsins lægi fyrir.  Krafan var borin undir dóminn með bréfi 21. október sl. og var málið þingfest 20. nóvember sl.

II.

                Sóknaraðili skýrir svo frá málavöxtum að grundvöllur aðfararbeiðni varnaraðila sé áskorunarstefna hans, m.a. á hendur Hamri hf.  Samkvæmt áskorunarstefnunni hafi verið gerð krafa um greiðslu 572.445 króna með nánar tilgreindum vöxtum og sé krafan til komin vegna ábyrgðarskuldbindingar félagsins samkvæmt skuldabréfi.  Stefnan hafi verið árituð af borgardómara um aðfararhæfi 24. nóvember 1988.  Eftir þann tíma sameinaðist Hamar hf. sóknaraðila og skýrir það aðild sóknaraðila að málinu. 

                Nauðasamningur sóknaraðila var staðfestur í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. nóvember 1995 og tók gildi 24. sama mánaðar.  Nauðasamningsumleitanir hafi hafist 29. september 1994.  Varnaraðili hafi ekki nýtt sér rétt sinn til að lýsa kröfu sinni eftir innköllun, þar sem skorað var á lánardrottna sóknaraðila að lýsa kröfum sínum fyrir umsjónarmanni.  Það hafi fyrst verið með greiðsluáskorun lögmanns varnaraðila til sóknaraðila frá 30. apríl 1998 að krafist var greiðslu skuldarinnar.  Fram að þeim tíma hafi forsvarsmönnum sóknaraðila verið alls ókunnugt um tilvist kröfunnar og gögn um hana séu ekki í bókhaldi félagsins.  Í greiðsluáskoruninni hafi skuldin verið tiltekin 1.029.528 krónur og í sundurliðun kröfunnar hafi varnaraðili fært hana niður um 75% vegna nauðasamningsins en reiknað dráttarvexti á hana allt frá 15. júní 1988.  Með bréfi 25. maí 1998 kveðst sóknaraðili hafa sent lögmanni varnaraðila bréf ásamt tékka að fjárhæð 225.226 krónur sem fullnaðargreiðslu á kröfunni.  Þessi fjárhæð hafi sundurliðast þannig að höfuðstóll sé 572.445 krónur, dráttarvextir frá 30. apríl 1994 til 20. september 1994 33.170 krónur og málskostnaður 72.900 krónur eða samtals 678.515 krónur.  Krafan hafi verið niðurfærð um 75% í samræmi við nauðasamninginn þannig að hún varð 169.629 krónur. 

                Krafan hafi síðan verið sundurliðuð, í samræmi við ákvæði nauðasamningsins og dráttarvexti frá tímum er þar eru tilgreindir, og samtals nemi hún því, með áföllnum kostnaði, 255.226 krónum.

                Mismunurinn á þessari fjárhæð og þeirri sem lögmaður varnaraðila krefst greiðslu á felst eingöngu í því að sóknaraðili telur meginhluta dráttarvaxta, þ.e. dráttarvexti sem féllu í gjalddaga fyrir 30. apríl 1994, vera fyrnda eða að öðrum kosti fallna niður vegna stórkostlegs tómlætis varnaraðila við innheimtu kröfunnar. 

                Krafa sóknaraðila í málinu byggist á því að með framangreindum greiðslum hafi hann að fullu staðið skil á kröfu varnaraðila og sé þar af leiðandi enginn grundvöllur fyrir aðför á hendur honum.  Í hinni árituðu stefnu hafi verið gerð krafa um dráttarvexti sem heimilt hafi verið að taka á hverjum tíma samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 og telur sóknaraðili að heimild kröfuhafans samkvæmt árituninni nái einungis til þess að reikna sér dráttarvexti samkvæmt þeim reglum, sem almennt gildi um dráttarvexti. 

                Sóknaraðili byggir á því að ekki fari milli mála að fyrningartími þessara dráttarvaxta, sem og annarra vaxta, sé fjögur ár, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, enda sé ekkert í orðalagi ákvæðisins sem bendi til annars.  Með greiðslunni 25. maí 1998 hafi sóknaraðili innt af hendi gjaldkræfa dráttarvexti eftir 30. apríl 1994 og telur stefnandi einsýnt að þeir dráttarvextir, sem voru gjaldkræfir fyrir þann tíma, séu nú fyrndir samkvæmt þessu en fyrningu þeirra hafi ekki verið slitið með nokkrum hætti.  Þá bendir sóknaraðili á það stórkostlega tómlæti sem varnaraðili hafi sýnt við innheimtu þessarar kröfu, þ.e. að níu ár og fimm mánuðir hafi liðið eftir áritun áskorunarstefnunnar þar til varnaraðili hafi gert reka að því að innheimta hana hjá sóknaraðila.  Það sé grundvallarregla í kröfurétti að tómlæti leiði til réttarmissis og telur sóknaraðili að líta verði svo á að réttur til frekari dráttarvaxta en varnaraðili hafi þegar fengið greidda sé fallinn niður vegna þessa, teljist hann ekki vera fyrndur. 

III.

                Varnaraðili kveður kröfuna vera tilkomna vegna sölu skuldabréfs á grundvelli samnings sóknaraðila og Hamars hf. við Kaupþing hf., sem var rekstraraðili varnaraðila á þessum tíma, um sölu á skuldabréfum og verðbréfum í eigu sóknaraðila, sem framseld voru með ábyrgð hans, enda hafi söluandvirði bréfanna runnið til seljanda þeirra.  Á þeim tíma sem dómurinn var áritaður og allt fram til ársins 1995 hafi staða sóknaraðila verið afar slæm enda hafi hann hafið nauðasamningsumleitanir í lok ársins 1994.  Innheimtuaðgerðum hafi því verið beint að aðalskuldara kröfunnar og um það hafi verið fullt samkomulag við forsvarsmenn sóknaraðila á þessum tíma. 

                Varnaraðili byggir á því að samkvæmt 1. tl. 4. gr. fyrningarlaga fyrnist kröfur samkvæmt dómi eða opinberri sátt á tíu árum.  Að því er snerti kröfur þær, er um ræði í 2.- 4. tl. 3. gr., gildi tíu ára fyrning þó því aðeins að dómur sé genginn eða sátt gerð eftir að krafan féll í gjalddaga.  Fjárnámskrafa varnaraðila byggi á áritaðri stefnu, sem lögð hafi verið fram í bæjarþingi Reykjavíkur 22. nóvember 1988 og árituð 29. sama mánaðar.  Fyrningarfrestur á dómkröfum teljist frá dómsuppsögu, þ.e. 29. nóvember 1988, sbr. 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga. 

                Í stefnunni séu dómkröfur tilgreindar í samræmi við d-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991.  Samkvæmt ákvæðinu séu dómkröfur tiltekin stefnufjárhæð, vextir og málskostnaður.  Í stefnunni sé krafist 572.445 króna og dráttarvaxta frá fyrsta gjalddaga í vanskilum, 15. júní 1988, til greiðsludags í samræmi við 14. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, auk þess sem gerð sé krafa um málskostnað.  Í samræmi við 1. tl 113. gr. einkamálalaganna hafi þessar dómkröfur verið teknar til greina með áritun dómara, sem hafi sama gildi og dómur, sbr. 2. tl. sömu greinar.  Í 4. gr. fyrningarlaga segi berum orðum að kröfur samkvæmt dómi fyrnist á tíu árum.  Þær kröfur sem varnaraðili byggi fjárnámsgerð sína á séu allar skilgreindar í lögum sem dómkröfur. 

                Jafnvel þótt fallist yrði á sjónarmið sóknaraðila sé ljóst að krafan ber dráttarvexti frá þeim tíma sem vanskil urðu og þar til dómur gekk í málinu, sbr. orðalag 2. málsl. 1. tl. 4. gr. fyrningarlaga.  Þá sé rétt í samræmi við áritun dómara að reikna með dráttarvöxtum á málskostnaðarkröfu fyrir tímabilið frá 30. apríl til 29. september 1994.

                Varðandi þá málsástæðu sóknaraðila að krafan sé niður falin vegna tómlætis vísar varnaraðili til þess að með sameiningu sóknaraðila og Hamars hf. hafi sóknaraðili yfirtekið eignir og skuldir Hamars hf., sbr. nú 119. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.  Sóknaraðili geti ekki öðlast annan og betri rétt en sá aðili, sem hann leiðir rétt sinn frá.  Eftir að mál hefur verið höfðað á hendur sóknaraðila, eða þeim sem hann leiðir rétt sinn frá og dómur tekinn yfir kröfunni, geti hann ekki borið fyrir reglu um tómlæti.  Dómkröfur á hendur Hamri hf. bar að tilgreina í bókhaldi félagsins og hafi það ekki verið gert sé það á ábyrgð og áhættu sóknaraðila.  Sá sem dæmdur sé til greiðslu skuldar sé skyldugur til þess að greiða dómkröfuna á hverjum tíma.  Geri hann það ekki verði hann að greiða þann vaxtakostnað sem fellur til þar til krafan sé fallin niður fyrir fyrningu.

IV.

                Eins og að framan hefur verið rakið er krafa sú, sem varnaraðili krafðist fjárnáms fyrir hjá sóknaraðila, byggð á áskorunarstefnu, sem árituð er um aðfararhæfi í Borgardómi Reykjavíkur 24. nóvember 1988.  Áritunin hefur sama gildi og dómur, sbr. 235. gr. laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, er þá giltu, sbr. nú 2. mgr. 113. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Kröfur samkvæmt dómi fyrnast á 10 árum, sbr. 1. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda og telst fyrningarfrestur frá dómsuppsögu, sbr. lokamálslið 1. mgr. 5. gr. sömu laga.  Dómkrafan, sem var um greiðslu höfuðstóls, dráttarvaxta og málskostnaðar, var tekin til greina og málskostnaður ákvarðaður tiltekin fjárhæð.  Krafa samkvæmt dómnum felur því í sér höfuðstól, vexti og málskostnað.  Vextirnir eru ekki gjaldkræfir vextir í skilningi 2. tl. 3. gr. fyrningarlaga heldur hluti af hinni dæmdu kröfu og fyrnast því á 10 árum frá 24. nóvember 1988 að telja.  Krafa varnaraðila var því ófyrnd þegar málið var tekið fyrir hjá sýslumanni og verður krafa hans þar af leiðandi tekin til greina og ákvörðun sýslumanns staðfest en með hliðsjón af atvikum öllum þykir mega fella málskostnað niður.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.                                

Úrskurðarorð:      

                Ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 9. október 1998 um að halda áfram fjárnámi hjá sóknaraðila, Stálsmiðjunni hf., að kröfu varnaraðila, Hávöxtunarfélagsins hf., er staðfest en málskostnaður fellur niður.