Print

Mál nr. 62/2016

Isavia ofh. (Stefán Geir Þórisson hrl.)
gegn
Kaffitári ehf. (Geir Gestsson hrl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn
Reifun

Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn. K ehf. krafðist þess að I ohf. yrði gert með beinni aðfarargerð að veita sér aðgang að tilteknum gögnum í samræmi við úrskurðarorð úrskurðarnefndar um upplýsingarmál. Undir rekstri málsins í héraði krafðist I ohf. þess að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á fjórum spurningum í þeim tilgangi að varpa nánara ljósi á samkeppnisþátt málsins. Talið var að álit EFTA-dómstólsins, á þeim atriðum sem I ohf. vildi að leitað yrði ráðgefandi álits um, hefði ekki þýðingu við úrlausn málsins. Var kröfu I ohf. því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. janúar 2016 en kærumálsgögn bárust réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við mál varnaraðila á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kæru sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. 

Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 segir að sé mál rekið fyrir héraðsdómstóli þar sem þurfi að taka afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum sé getið, geti dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta. Samkvæmt því  breytir engu þótt spurningar sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt séu ekki að öllu leyti eins orðaðar og þær spurningar sem hann setti fram í héraði, enda getur Hæstiréttur kveðið upp úrskurð eins og lýst er í 1. mgr. 1. gr. laga 21/1994 í máli sem fyrir honum er rekið, sbr. 3. gr. laganna. Verður því frávísunarkröfu varnaraðila hafnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að álit  EFTA-dómstólsins á þeim atriðum, sem sóknaraðili vill að leitað verði ráðgefandi álits um, hafi ekki þýðingu við úrlausn máls varnaraðila á hendur honum. Verður  hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Isavia ohf., greiði varnaraðila, Kaffitári ehf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2016.

Mál þetta, sem barst dóminum með aðfararbeiðni 23. september 2015, var tekið til úrskurðar 15. desember sl. um kröfu varnaraðila hvort leita skuli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Sóknaraðili er Kaffitár ehf, kt. [...], Stapabraut 7, Reykjanesbæ og varnaraðili er Isavia ohf., kt.[...], Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.

Í málinu gerir sóknaraðili þær kröfur að úrskurðað verði að honum skuli með aðför veittur aðgangur að gögnum í vörslum varnaraðila í samræmi við úrskurðarorð úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 579/2015 frá 15. maí 2015. Sóknaraðili krefst þess jafnframt að gerðin fari fram hið fyrsta, á ábyrgð sóknaraðila en á kostnað varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila að mati réttarins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Í þinghaldi 10. nóvember sl. hafði varnaraðili uppi kröfu um að leitað skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu. Sóknaraðili mótmælti beiðninni, hann krafðist þess að henni yrði hafnað og fór munnlegur málflutningur um kröfuna fram 15. desember sl. Sóknaraðili krafðist málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna þessa þáttar málsins en varnaraðili krafðist þess að tekið yrði tillit til greiðslu málskostnaðar við endanlega úrlausn málsins.

I

Málavextir

Sóknaraðili, sem hefur rekstur te- og kaffivinnslu með hendi, rekur sjö kaffihús á höfuðborgarsvæðinu og víðar í eigin nafni. Varnaraðili er opinbert hlutafélag sem stofnað var 1. maí 2010 með sameiningu opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Varnaraðili annast meðal annars rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi. Hinn 19. mars 2014 efndi varnaraðili til samkeppni vegna verslunar- og veitingareksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Varnaraðili kom fram sem væntanlegur leigusali þátttakenda. Samskipti um ferlið fóru öll fram á ensku en varnaraðili kynnti það undir nafninu „Commercial Opportunities at Keflavik Airport“. Samkeppnin skiptist í tvö stig en á fyrra stiginu, sem nefndist „Request for Qualification“, skyldi kannað hvort þátttakendur uppfylltu þær kröfur um vörur, vörumerki, þekkingu, reynslu og fleira sem varnaraðili gerði til þátttöku í samkeppninni. Þeim sem uppfylltu þessar kröfur var síðan boðið að taka þátt á seinna stigi samkeppninnar, sem nefndist „Request for Proposal“ og skila inn annars vegar tæknilegri og hins vegar fjárhagslegri tillögu.

Sóknaraðili skilaði inn tvíþættum tillögum og komst í gegnum fyrra stig samkeppninnar. Þá var bæði tæknilegur hluti tillögu hans sem og fjárhagslegur hluti hennar metinn. Með bréfi 21. ágúst 2014 tilkynnti varnaraðili sóknaraðila að tillaga hans væri ekki fyrsti valkostur í samkeppninni. Með tölvupósti 29. ágúst 2014 óskaði sóknaraðili eftir frekari upplýsingum og gögnum, bæði um eigin tillögu og tillögur annarra þátttakenda. Þann 5. september 2014 sendi varnaraðili sóknaraðila útfyllt einkunnablöð vegna tilboðsins sem hinn síðarnefndi gerði. Þar komu fram einkunnir á bilinu einn til tíu vegna mismunandi matsþátta og voru einkunnirnar ekki rökstuddar. Þá fékk sóknaraðili upplýsingar um hvar tillaga hans hefði fallið í röð þeirra sem tóku þátt í sömu flokkum samkeppninnar og hann sjálfur. Sóknaraðila var hvorki kynnt hverjir hinir þátttakendurnir væru né hvaða einkunnir þeir fengu.

Með tölvupósti 16. september 2014 óskaði sóknaraðili eftir frekari gögnum frá varnaraðila. Í fyrsta lagi óskaði sóknaraðili eftir því að honum yrðu afhent gögn sem rökstyddu nánar einkunnagjöf tilboðs sóknaraðila sjálfs. Í öðru lagi óskaði sóknaraðili eftir gögnum um það hverjir aðrir væru þátttakendur í samkeppninni, í þriðja lagi eftir tillögum annarra bjóðenda og í fjórða lagi eftir gögnum um hvaða einkunnir önnur tilboð hefðu fengið. Með bréfi varnaraðila til sóknaraðila 22. september 2014 var beiðni þess síðarnefnda um fyrrnefnd gögn hafnað. Í ákvörðun varnaraðila var vísað til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 en það væri mat hans að umbeðin gögn vörðuðu mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þátttakenda í samkeppninni. Hinn 1. október 2014 var sóknaraðila síðan tilkynnt að ekki hefði verið gengið að tillögu hans í samkeppninni.

Hinn 20. október 2014 kærði sóknaraðili afgreiðslu varnaraðila á beiðni sóknaraðila um aðgang að gögnum varðandi áðurnefnda samkeppni til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og leitaði nefndin í kjölfarið eftir sjónarmiðum aðila. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 579/2015 féllst hún á að varnaraðila bæri að afhenda sóknaraðila lista yfir þátttakendur í samkeppninni „Commercial Opportunities at Keflavik Airport“ sem og lista yfir einkunnir þeirra. Þá var jafnframt kveðið á um að varnaraðila bæri að afhenda sóknaraðila tillögur og fylgigögn Lagardere Services, Joe Ísland ehf., IGS ehf., og SSP the Food Travel Experts í sömu samkeppni, að undanskildum glærum nr. 59 til 88 í glærukynningu Lagardere Services sem innhéldu tæknilegan hluta tillögu fyrirtækisins.

Varnaraðili óskaði eftir endurupptöku málsins hjá úrskurðarnefndinni á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en til vara frestunar réttaráhrifa úrskurðarins samkvæmt 24. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Með úrskurði nefndarinnar 31. júlí 2015 í máli nr. 586/2015 hafnaði hún bæði aðal- og varakröfu varnaraðila þar sem lagaskilyrði fyrir kröfum hans voru ekki talin vera fyrir hendi. Sóknaraðili skoraði á varnaraðila að afhenda umbeðin gögn í samræmi við niðurstöðu fyrrgreindra úrskurða nefndarinnar með bréfum dagsettum 7. ágúst og 14. ágúst 2015. Með bréfi varnaraðila til sóknaraðila, dagsettu 17. ágúst 2015, lýsti varnaraðili því yfir að hann myndi ekki afhenda gögnin. Í kjölfar þess beindi sóknaraðili kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur um aðgang að umræddum gögnum með beiðni um aðför sem barst dóminum 23. september sl.

Í þessum þætti málsins er eingöngu til úrlausnar ágreiningur aðila er lýtur að því hvort afla skuli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu eður ei.

II

Málsástæður og lagarök varnaraðila vegna kröfu um ráðgefandi álit

Varnaraðili byggir kröfu sína um að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Til stuðnings þeirri kröfu vísar varnaraðili til þess að nauðsynlegt sé að leitað verði álits dómstólsins á því hvernig túlka beri tilteknar réttarheimildir og að álit hans geti komið að miklu gagni við úrlausn málsins. Fyrir hendi séu fjölmörg álitaefni sem lúti að túlkun, beitingu og skilningi á allmörgum réttarheimildum EES-réttar og því sé héraðsdómi eflaust mikilvægt að fá túlkun EFTA-dómstólsins á þeim.

Sem dæmi um slík álitaefni sé hvaða þýðingu túlkun Framkvæmdastjórnar ESB og Evrópudómstólsins geti haft á landfræðilegri skilgreiningu flugvalla sem séu í samkeppni, einkum þegar í hlut eigi flugvöllur eins og Keflavíkurflugvöllur sem flugfélög nýti mikið fyrir tengiflug. Varnaraðili haldi því fram að margir alþjóðaflugvellir keppi um hlut í heildarflugsamgöngum, þ.e. að meðtöldu tengiflugi, en í tengiflugum hafi farþegar viðkomu á fleiri en einum flugvelli og stundi þar verslun.

Þá þurfi að taka afstöðu til markaðsskilgreininga í tilviki starfsemi varnaraðila, eins og þeirrar markaðsskilgreiningar sem framkvæmd hafi verið í ákvörðun Framkvæmdastjórnar ESB, COMP/M.4164 Ferrovial/Quebec/GIC/BAA frá 23. maí 2006 þar sem markaðurinn hafi verið greindur í þrennt, sbr. 10. mgr. ákvörðunar framkvæmdastjórnar ESB í Ferrovial málinu frá 23. maí 2006.

Að mati varnaraðila sé rétt að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem gildi í EB/EES-samkeppnisrétti um hugtakið viðskiptaleyndarmál og því að undirréttur Evrópudómstólsins hafi skilgreint hugtakið viðskiptaleyndarmál með hliðsjón af þeim afleiðingum sem það hefði í för með sér fyrir viðkomandi fyrirtæki ef tilteknar upplýsingar yrðu gerðar opinberar. Æskilegt sé að EFTA-dómstóllinn taki afstöðu til þess hvort fyrir hendi sé viðskiptaleyndarmál í þessum skilningi samkvæmt reglu EB/EES-samkeppnisréttar.

Rekstraraðilar flugvalla á EES-svæðinu séu ýmist einkafyrirtæki eða opinber fyrirtæki eins og varnaraðili. Varnaraðili fullyrðir að ef hann þurfi að afhenda upplýsingar umfram samkeppnisaðila sína muni félagið ekki standa jafnfætis þeim á markaði. Í réttarheimildum EES-réttar sé að finna þau sjónarmið sem gildi um þessi efni í EB/EES-samkeppnisrétti. Varnaraðili heldur því meðal annars fram að sé honum ómögulegt að nota sömu aðferðir og samkeppnisaðilar hans, hafi upplýsingalög skekkt mjög möguleika félagsins á þessum samkeppnismarkaði og standi félagið þá höllum fæti gagnvart öðrum rekstraraðilum flugvalla og fríhafnarsvæða á EES-svæðinu.

Þá telur varnaraðili að dómstóllinn þurfi að taka afstöðu til túlkunar 6. gr. tilskipunar 2003/6/EB sem hann vísar til í málatilbúnaði sínum sem og leiðbeiningarreglna Framkvæmdastjórnar ESB 2011/C11/01, í tengslum við það hvaða upplýsingaskipti keppinauta teljist ólögmæt, meðal annars um ólögmæti þess að skiptast á eða afhenda gögn sem eyði óvissu milli keppinauta um áætlanir og framtíðarhegðun á markaði. Upplýsingaskiptin þurfi ekki að vera gagnkvæm heldur geti einhliða afhending slíkra gagna raskað samkeppni og leitt til samstilltra aðgerða. Ákvæðin séu túlkuð þannig að með því að taka við upplýsingum keppinauta sinna taki fyrirtæki óhjákvæmilega mið af þeim og lagi hegðun sína á markaði að þeim.

Í þinghaldi 10. nóvember sl. lagði varnaraðili fram eftirfarandi tillögur að spurningum sem leggja mætti fyrir EFTA-dómstólinn og rakti eftirfarandi álitaefni:

1. Varnaraðili vísar í málatilbúnaði sínum til 4. töluliðar 10. gr. upplýsingalaga sem heimilar að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga, að því leyti sem þau séu í samkeppni við aðra. Varnaraðili heldur því meðal annars fram að undirréttur Evrópudómstólsins hafi skilgreint hugtakið viðskiptaleyndarmál með hliðsjón af þeim afleiðingum sem það hefði í för með sér fyrir viðkomandi fyrirtæki ef tilteknar upplýsingar yrðu gerðar opinberar. Af þessu tilefni er óskað álits EFTA-dómstólsins á:

„a. Hvort félag eins og Isavia ohf. sem reki flugvöll eins og Keflavíkurflugvöll geti talist vera í samkeppni við aðra flugvelli á Evrópska efnahagssvæðinu;

b. Hvert sé inntak hugtaksins viðskiptaleyndarmál að EES rétti og að hvaða marki sé rétt að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem gildi að EES rétti um hugtakið viðskiptaleyndarmál við túlkun á 4. mgr. 10. gr. upplýsingalaga.“

2. Félagið Lagardere Services sé skráð á hlutabréfamarkað í Frakklandi og varnaraðili heldur því fram að með úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál hafi varnaraðila verið gert að afhenda gögn varðandi framtíðar- og viðskiptaáætlanir Lagardere Services. Í 3. mgr. 6. gr. tilskipunar 2003/6/EB sé kveðið á um að aðildarríki skuli fara fram á að hvenær sem útgefandi eða aðili fyrir hans hönd eða fyrir hans reikning, láti þriðja aðila í té innherjaupplýsingar og það sé eðlilegur liður í hans starfi, starfsgrein eða hlutverki, eins og um geti í a-lið 3. gr., verði hann að birta upplýsingarnar í heild sinni, samtímis því að þær séu látnar þriðja aðila í té þegar birtingin sé áformuð og tafarlaust þegar birtingin hafi ekki verið áformuð. Þess sé óskað að dómstóllinn veiti Héraðsdómi Reykjavíkur „á því álit hvort rétt sé að túlka ákvæði tilskipunarinnar þannig að það takmarki rétt aðila eins og Kaffitárs ehf. til að fá viðskiptaupplýsingar eins og það hugtak sé skilgreint í EES rétti“.

3. Þá sé þess farið á leit við dómstólinn að hann gefi „á því álit hvort Leiðbeiningarreglur Framkvæmdastjórnar ESB 2011/C11/01 sem Isavia ohf. vísar til í málatilbúnaði sínum geti haft áhrif á túlkun upplýsingalaga eða eftir atvikum skyldu Isavia ohf. til að afhenda sóknaraðila viðskiptaupplýsingar. Einkum og sér í lagi sé óskað eftir því að dómstóllinn tjái sig um hvort upplýsingaskipti milli keppinauta geti verið ólögmæt á grundvelli leiðbeiningarreglnanna þar sem um sé að ræða afhendingu gagna um áætlanir og framtíðarhegðun á markaði milli keppinauta.“

Við munnlegan flutning um þennan þátt ágreinings aðila hafði varnaraðili útfært nánar tillögur sínar og lagði hann til að eftirfarandi spurningar yrðu lagðar fyrir EFTA-dómstólinn. Verða þær þannig fram settar hafðar til hliðsjónar við úrlausn málsins. Spurningarnar eru að mestu samhljóða við fyrri spurningar en rétt þykir að rekja þær hér orðrétt:

Fyrsta spurningin lýtur að samkeppni milli flugvalla og samkeppnishagsmunum varnaraðila til framtíðar litið og er hún að efni til sambærileg við spurningu 1a hér að framan auk viðbótar er lýtur að samkeppnisreglum EES-samningsins og er hún svohljóðandi:

„1. Telst félag eins og Isavia ohf. sem rekur millilandaflugvöll eins og Keflavíkurflugvöll í samkeppni við aðra flugvelli á Evrópska efnahagssvæðinu. Sé svo hafa samkeppnisreglur EES-samningsins áhrif á skyldu félagsins til að afhenda þátttakendum í samkeppni um útleigu á verslunar- og veitingaþjónusturými í flugstöðinni viðskiptaupplýsingar sem þau afhentu félaginu vegna þátttökunnar í samkeppninni.“

Önnur spurningin lýtur að samkeppni milli þátttakenda í samkeppninni, hún er að efni til sú sama og sett er fram í spurningu 3 hér að framan og er svohljóðandi:

„2. Isavia ohf. vísar í málatilbúnaði sínum til Leiðbeiningarreglna framkvæmdastjórnar ESB 2011/C11/01. Hafa leiðbeiningarreglurnar áhrif á skyldu félagsins til að afhenda þátttakendum í samkeppni um útleigu á verslunar- og veitingaþjónusturými í flugstöðinni viðskiptaupplýsingar sem þau afhentu félaginu vegna þátttökunnar í samkeppninni. Sérstaklega er óskað eftir að dómstóllinn tjá sig um hvort upplýsingaskipti milli keppinauta geti verið ólögmæt á grundvelli Leiðbeiningarreglnanna þar sem um sé að ræða afhendingu gagna um áætlanir og framtíðarhegðun á markaði milli keppinauta.“

Tillaga varnaraðila að þriðju spurningunni lýtur að því hvort hægt sé að lesa inntak hugtaksins viðskiptaleyndarmál út úr dómaframkvæmd Evrópudómstólsins. Hún er efnislega samhljóða spurningu 1b hér að framan fyrir utan það að tekin hefur verið út tilvísun til 4. mgr. 10. gr. upplýsingalaga og er hún svohljóðandi:

„3. Hvert er inntak hugtaksins viðskiptaleyndarmál að EES-rétti og að hvaða marki er rétt að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem gilda að EES-rétti um hugtakið viðskiptaleyndarmál við túlkun á skyldu félagsins til að afhenda þátttakendum í samkeppni um útleigu á verslunar- og veitingaþjónusturými í flugstöðinni viðskiptaupplýsingar sem þau afhentu félaginu vegna þátttökunnar í samkeppninni.“

Tillaga varnaraðila að fjórða álitaefninu er að efni til sú sama og sett er fram í  spurningu 2 hér að framan og er hún svohljóðandi:

„4. Félagið Lagerdere Services er skráð á hlutabréfamarkað í Frakklandi og Isavia ohf. heldur því fram að með úrskurði Úrskurðarnefndar upplýsingamála hafi Isavia ohf. verið gert að afhenda gögn varðandir framtíðar- og viðskiptaáætlanir Lagardere Services. Í 3. mgr. 6. gr. tilskipunar 2003/6/EB er kveðið á um að aðildarríkin skuldi fara fram á að hvenær sem útgefandi eða aðili fyrir hans hönd eða fyrir hans reikning lætur þriðja aðila í té innherjaupplýsingar og það er eðlilegur liður í hans starfi, starfsgrein eða hlutverki, eins og um getur í a-lið 3. gr., verði hann að birta upplýsingarnar í heild sinni, samtímis því að þær er látnar þriðja aðla í té þegar birtingin er áformuð og tafarlaust þegar birtingin hefur ekki verið áformuð. Þess er óskað að dómstóllinn veiti Héraðsdómi Reykjavíkur á því álit hvort rétt sé að túlka ákvæði tilskipunarinnar þannig að það takmarki rétt aðila eins og Kaffitárs ehf. til að fá viðskiptaupplýsingar eins og það hugtak er skilgreint í EES-rétti.“

Varnaraðili vísar til þess að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi ekkert skoðað eða metið ýmis grundvallaratriði á sviði samkeppnisréttar og Evrópuréttar. Varnaraðili telur blasa við að um leið og gögnin komist í hendur sóknaraðila geti þau auðveldlega komist í hendur samkeppnisaðila varnaraðila, þ.e. rekstrarfélaga annarra flugvalla í Evrópu. Markmið varnaraðila með samkeppni um útleigu á húsnæðinu í Leifsstöð sé að hámarka arðsemi húsnæðisins í þeim tilgangi að vera betur í stakk búinn til að keppa við samkeppnisaðila sína um flugfarþega. Gögn sem talin eru raska samkeppni geti samkvæmt ofangreindum leiðbeiningarreglum Framkvæmda­stjórnarinnar m.a fjallað um verð, lista yfir viðskiptavini, framleiðslukostnað, magn­upplýsingar, veltu og sölu, afkastagetu, eiginleika, markaðsáætlanir, áhættu, fjár­festingar, vöruþróun, tæknilegar upplýsingar og rannsóknar- og þróunarferla og niðurstöður þeirra. Mjög mikið magn upplýsinga um framangreint sé að finna í þeim gögnum sem varnaraðila hafi verið gert að afhenda. Veruleg hætta sé á því að afhending umræddra gagna muni bæði skerða verulega viðskiptalega hagsmuni þeirra fyrirtækja sem í hlut eigi auk þess sem verulegar líkur séu á því að afhending þeirra muni fela í sér brot á bannreglu 53. gr. EES-samningsins, sbr. 10. gr. samkeppnislaga, sbr. áðurnefndar leiðbeiningarreglur. Við slíku broti liggi þung stjórnsýsluviðurlög samkvæmt 37. gr. samkeppnislaga.

Varnaraðili heldur því fram að þar sem um flókið og sérhæft réttarsvið sé að ræða geri EES-samningurinn ráð fyrir að aflað sé álits EFTA-dómstólsins um túlkun ofangreindra réttarheimilda.

III

Málsástæður og lagarök sóknaraðila vegna kröfu um ráðgefandi álit

Sóknaraðili mótmælir því að kröfur varnaraðila nái fram að ganga enda hafi það enga þýðingu fyrir úrlausn málsins að fá álit EFTA-dómstólsins.

Bendir hann á að einkenni aðfararmála séu þau að verið sé að fullnusta réttindi og að í þeim sé hröð málsmeðferð. Álitaefnið í þeim varði eingöngu það hvort heimild sé fyrir hendi til að þvinga fram tiltekin réttindi eður ei en ekki hver rétturinn sé. Ekki verði ráðið af lögunum að þau geri ráð fyrir að unnt sé að afla ráðgefandi álits undir rekstri aðfararmála.

Í lögum nr. 90/1989 sé útlistað hvernig aðfararbeiðni eigi að vera úr garði gerð, hvað henni eigi að fylgja og hvað teljist gildar aðfararheimildir en þ. á m. sé úrskurður stjórnvalds, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 1. gr. laganna, eins og um sé deilt í máli þessu, sem aðfararhæfur er eftir fyrirmælum 3. mgr. 23. gr. laga nr. 140/2015. Enginn ágreiningur sé um að fyrirmæli laga nr. 90/1989 séu uppfyllt að þessu leyti.

Þá sé kveðið á um málsmeðferð í 13. kafla laganna sæki gerðarþoli þing og taki til varna. Öflun ráðgefandi álits sé í andstöðu við orðalag og tilgang laga nr. 90/1989, sbr. 83. gr. þeirra. Ráðgefandi álit sé hvorki greinargerð málsaðila né sýnilegt sönnunargagn heldur lögskýringargagn. Þar að auki eigi öflun sönnunargagna að vera á höndum málsaðila. Engin heimild sé til að fresta málinu til að dómstóll geti aflað ráðgefandi álits eins og miðað sé við í 1. gr. laga nr. 21/1994. Einungis eigi að veita skamman frest til að skila greinargerðum og eftir það skuli málið sótt og varið munnlega. Næstu skref í málinu ættu því að vera munnlegur flutningur þess.

Þá bendir sóknaraðili á að heimild til sönnunarfærslu sé takmörkuð samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1989. Ekki sé gert ráð fyrir dómkvaðningu matsmanna í málum af þessu tagi og óheimilt sé að taka vitnaskýrslur, enda eigi réttur gerðarbeiðanda í slíkum málum að vera það skýr að hann verði ráðinn af framlögðum gögnum. Öflun álits EFTA-dómstólsins fari augljóslega gegn markmiðum laganna bæði hvað varðar sönnunarfærslu og hraða málsmeðferð.

Samkvæmt 84. gr. laga nr. 90/1989 gildi lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála einungis ef sérákvæði um málsmeðferð koma ekki fram í lögunum. Ákvæði 83. gr. laganna sé slíkt sérákvæði sem kveði á um hraða málsmeðferð og takmarkaða sönnunarfærslu.

Reglur um öflun ráðgefandi álits sé að finna í lögum nr. 21/1994. Samkvæmt 1. gr. þeirra og leiðbeiningum EFTA-dómstólsins sjálfs þurfi beiðni að snúa að túlkun á EES-reglu þar sem dómstóllinn hefur ekki vald til að túlka landslög viðkomandi ríkja. Þá verði dómstóllinn sem setur fram beiðnina að beita viðkomandi reglu EES-réttar í því tiltekna máli sem hann hafi til meðferðar. Þetta leiði til þess að halda verður landsréttarreglum algerlega fyrir utan spurningar til EFTA-dómstólsins. Dómstóllinn veiti ekki álit á því hvernig reglur horfi við staðreyndum máls sem rekið sé fyrir landsréttardómstólum. Þá verði að vera þörf fyrir öflun ráðgefandi álits samkvæmt 1. gr. laganna og túlkun verður að hafa raunverulega þýðingu fyrir réttarágreining aðila.

Sóknaraðili telur því með vísan til framangreinds að ráðgefandi álit sé sýnilega þýðingarlaust fyrir úrslit málsins og skilyrði laga nr. 21/1994 fyrir öflun slíks álits ekki uppfyllt. Þá byggi hvorki lög nr. 90/1989 né lög nr. 140/2012 á EES-rétti.

Telji dómurinn allt að einu heimilt að afla ráðgefandi álits undir rekstri aðfararmáls telur sóknaraðili spurningar varnaraðila eða tillögur hans að spurningum ekki tækar. Bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi raunar breytt tillögum sínum að spurningum sem hann lagði fram í þinghaldi 10. nóvember sl. og lagt fram betrumbættar tillögur í þinghaldi við flutning þessa ágreiningsefnis 15. desember sl. Sjónarmið sóknaraðila eigi þó við að öllu leyti.

Hvað varði það álitaefni hvort varnaraðili geti talist í samkeppni við aðra flugvelli á Evrópska efnahagssvæðinu eins og fram komi í spurningu 1 þá uppfylli hún ekki skilyrði laga nr. 21/1994. Ekki sé nefnd sú EES-regla sem þarfnist skýringar. Spurningin sé mjög almenn og vísað almennt til samkeppnisreglna EES-samningsins. Varnaraðili geti auðveldlega fært rök fyrir því að hann sé í samkeppni við þriðju aðila án aðkomu EFTA-dómstólsins, eins og hann geri raunar á bls. 9-12 í greinargerð sinni, og dómurinn geti hæglega tekið afstöðu til þess án þess að aflað sé ráðgefandi álits. Þá eigi sjónarmið um ólögmætt samráð, sem raunar séu sett fram með mjög óljósum hætti af hálfu varnaraðila, ekki við í málinu sem varði afhendingu gagna til sóknaraðila en ekki til neinna annarra aðila hvað þá samkeppnisaðila varnaraðila. Spurningin sé þýðingarlaus. Þess utan kveðst sóknaraðili benda á að 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 taki ekki til þess þegar einn opinber aðili, eins og úrskurðarnefnd um upplýsingamál, skyldar annan opinberan aðila, eins og varnaraðila máls þessa, til að afhenda gögn. Gildissvið greinarinnar takmarkist við samráð „milli samkeppnisaðila“. Þá bendir sóknaraðili á að nefndin hafi margoft skyldað útboðshaldara til að afhenda þátttakendum í útboði gögn frá samkeppnisaðilum án þess að það verði talið brjóta gegn 10. gr. laga nr. 44/2005. Auk þess sé það ítarlega útskýrt í úrskurðum nefndarinnar í máli þessu að samkeppnislög eigi ekki við. Hagsmunir sóknaraðila séu eingöngu þeir að geta gengið úr skugga um lögmæti samkeppnisferlisins eins og í öðrum sambærilegum málum.

Hvað varði það álitaefni að dómstóllinn gefi álit sitt á því hvort leiðbeiningarreglur Framkvæmdastjórnar ESB 2011/C11/01 geti haft áhrif á túlkun upplýsingalaga og skyldu félagsins til að afhenda umrædd gögn, eins og nánar komi fram í tillögu varnaraðila að spurningu 2, bendir sóknaraðili á að þessi spurning uppfylli ekki skilyrði þess að aflað verði ráðgefandi álits þar sem leiðbeinandi reglur af þessu tagi eigi ekki undir 1. gr. laga nr. 21/1994. Leiðbeiningarreglur Framkvæmdastjórnarinnar um túlkun frumheimilda séu ekki í meginmáli samningsins, ekki í viðauka við hann eða í bókun við samninginn. Ekki sé um svokallaða „gerð“ að ræða sem getið sé í viðaukum við samninginn. Þá sé ekki vísað til ákveðinna greina leiðbeiningarreglnanna. Því sé óskýrt hvað sé beðið um og hvaða þýðingu það hafi. Auk þess sé ekki um upplýsingaskipti milli keppinauta að ræða þegar einn opinber aðili skyldi annan opinberan aðila til að afhenda þriðja aðla gögn. Þá séu aðilar máls þessa ekki keppinautar. Þá geti afhending gagna ekki verið samkeppnishamlandi heldur tryggi hún gagnsæi og jafnræði. Ekki sé hægt að líta svo á að um ólögmætt samráð sé að ræða og sé sú hugmynd í raun gersamlega fráleit og afar langsótt.

Hvað varði inntak hugtaksins „viðskiptaleyndarmál“ sem fram kom í tillögu varnaraðila að spurningu 3 bendir sóknaraðili á að ekki komi fram hvaða regla EES-réttar þarfnist skýringar að þessu leyti heldur sé vísað almennt til EES-réttarins. Auk þess hafi hugtakið enga þýðingu við úrlausn málsins.

Að lokum bendir sóknaraðili á hvað varðar tillögu varnaraðila að spurningu 4, um hvort rétt sé að túlka a-lið 3. mgr. 6. gr. tilskipunar 2003/6/EB þannig að það takmarki rétt sóknaraðila til að fá viðskiptaupplýsingar, eins og hugtakið sé skilgreint í EES-rétti, að óþarfi sé að afla álits hvað þetta varðar þar sem ákvæðið takmarki ekki rétt til upplýsinga heldur rýmki hann. Umrædd tilskipun fjalli um innherjaupplýsingar og markaðsmisnotkun og örðugt sé að sjá hvernig hún geti átt við í málinu. Að því marki sem reyna kynni á slík sjónarmið hafi þessar reglur verið innleiddar í lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 sem íslenskir dómstólar beiti og túlki ef á þurfi að halda.

Með vísan til alls framangreinds telur sóknaraðili ljóst að hafna beri beiðni varnaraðila enda sé beiðnin tilefnislaus og beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

IV

Niðurstaða

Krafa sóknaraðila í máli þessu er um afhendingu gagna úr hendi varnaraðila og er hún reist á úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 15. maí 2015, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, þar sem segir að aðför megi gera til fullnustu kröfum samkvæmt úrskurðum yfirvalda sem aðfararhæfir eru samkvæmt fyrirmælum laga. Í úrskurðarorðinu segir orðrétt: „Isavia ohf. ber að afhenda Kaffitári ehf. lista yfir þátttakendur í sömu samkeppni [„Commercial Opportunities at Kaflavik Airport“] sem og lista yfir einkunnir þeirra. Isavia ohf. ber að afhenda Kaffitári ehf. tillögur og fylgigögn Lagardere Services, Joe Ísland ehf., IGS ehf. og SSP the Food Travel Experts í sömu samkeppni að undanskildum glærum 59 til 88 í glærukynningu Lagardere Services sem inniheldur tæknilegan hluta tillögu fyrirtækisins.“

Krafa sóknaraðila er sem fyrr greinir reist á stjórnvaldsúrskurði sem er aðfararhæfur samkvæmt 3. mgr. 21. gr. upplýsingalaga og aðfararheimild, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Í úrskurðinum er kveðið á um skyldu varnaraðila til að veita sóknaraðila aðgang að tilgreindum gögnum, sbr. 73. gr. síðarnefndra laga. Lítur dómurinn svo á að af þessum sökum beini sóknaraðli aðfararbeiðni sinni til héraðsdóms eftir 1. tölulið 1. mgr. 11. gr. laganna en ekki með beiðni um innsetningargerð samkvæmt 1. mgr. 78. gr. þeirra og fer um meðferð málsins eftir 13. kafla laganna, sbr. 2 mgr. 14. gr. þeirra.

Varnaraðili hefur í aðfararmáli þessu teflt fram ýmsum málsástæðum er lúta að efnislegum annmörkum á stjórnvaldsúrskurðinum, sem varnaraðila er heimilt sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, og gildi hans sem aðfararheimildar. Einn af þeim annmörkum er varnaraðili telur vera á umræddum úrskurði er að þar hafi ekki verið fjallað efnislega um samkeppnishlið málsins og þýðingu þess fyrir bæði aðra þátttakendur í umræddri samkeppni og varnaraðila sjálfan að gögnin verði afhent sóknaraðila. Nefndin hafi þannig vikist undan því að taka afstöðu til mikilvægra álitaefna á sviði samkeppnis- og Evrópuréttar. Hefur varnaraðili um þetta vísað til 2. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þess efnis að aðgangur að gögnum eigi ekki við um gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eiga að fara samkvæmt 10. gr. laganna. Hefur varnaraðili nánar um þetta vísað til 4. töluliðar þeirrar lagagreinar um að heimilt sé að takmarka aðgang þegar um er að ræða viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra. Varnaraðili hefur einnig vísað til þess að nefndin hefði átt að synja um afhendingu gagnanna á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem hagsmunir annarra af því að gögnin verði afhent vegi þyngra en hagsmunir sóknaraðila af því að fá gögnin. Undantekningarákvæði 3. mgr. 14. gr. áðurnefndra laga er svohljóðandi: „Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.“ Samkvæmt orðanna hljóðan er hér um að ræða heimild til að takmarka aðgang en ekki skyldu. Varnaraðili telur þann galla vera á úrskurði nefndarinnar að umrætt hagsmunamat hafi ekki verið framkvæmt með tilliti til samkeppnissjónarmiða sem áskilið sé í ákvæðinu áður en nefndin kvað upp úrskurð sinn. Hefur varnaraðili af þessum sökum sett fram kröfu um að undir rekstri málsins verði aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins og gert tillögu að fjórum spurningum í þeim efnum er varpa eiga nánara ljósi á samkeppnisþátt málsins. Því var mótmælt af hálfu sóknaraðila og er sá þáttur málsins einungis hér til úrlausnar.

Varnaraðili setti upphaflega fram tillögur að tilteknum spurningum í þinghaldi 10. nóvember sl. en útfærði þær svo nánar með tillögum sem hann gerði grein fyrir við munnlegan flutning málsins. Sóknaraðili taldi þetta eiga að leiða til þess að kröfu varnaraðila yrði hafnað. Dómurinn fellst ekki á það og bendir á að röksemdir sóknaraðila vegna fyrri spurninganna eigi jafnt við um síðari spurningar varnaraðila sem um margt eru efnislega sambærilegar auk þess sem dómurinn getur sjálfur gert tillögu að spurningum telji hann það nauðsynlegt.

Í 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) segir að ef mál er rekið fyrir héraðsdómstóli þar sem þurfi að taka afstöðu til skýringa á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum sé getið, geti dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því. Samkvæmt 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna hefur EFTA-dómstóllinn lögsögu til að gefa ráðgefandi álit varðandi túlkun á ESS-samningnum.

Við mat á því hvort skilyrði 1. gr. laga nr. 21/1994 séu uppfyllt er óhjákvæmilegt að dómari taki að einhverju leyti afstöðu til þess hvaða þýðingu þær réttarheimildir sem tilgreindar eru í 1. gr. eigi að hafa í málinu þrátt fyrir að úrlausnin feli ekki í sér niðurstöðu um efnisatriði máls. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar þarf að liggja nægilega skýrt fyrir að skýring á ákvæðum EES-samningsins hafi raunverulega þýðingu fyrir úrslit málsins og að staðreyndir málsins liggi nægilega skýrt fyrir til þess að til greina komi að leita álits. Þá verður, samkvæmt dómafordæmum, sú ályktun dregin af 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, svo og af EES-samningnum í heild, að dómari aðildarríkis skuli ekki óska eftir ráðgefandi áliti nema fyrir hendi sé réttlætanlegur vafi um túlkun reglnanna með hliðsjón af fyrirliggjandi sakarefni.

Í málinu hefur sóknaraðili á því byggt að ekki sé unnt að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna þeirrar takmörkuðu sönnunarfærslu sem lög nr. 90/1989 heimila og málshraða sem einkenni mál sem rekin eru samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Dómurinn telur ekki unnt að fallast á þessi sjónarmið og verður beiðninni ekki hafnað á þeim grundvelli að álits verði ekki aflað undir rekstri máls sem rekið er eftir reglum laga nr. 90/1989, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 489/2013 sem rekið var samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/1989.

Þá hefur sóknaraðili bent á að til þess að unnt sé að fallast á beiðni um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins verði aðilar að byggja á EES-reglu í aðfararbeiðni og greinargerð, reglan verður að vera leidd í innlendan rétt og á hana verður að reyna í í tilteknu dómsmáli.

Í þessum ágreiningsþætti hefur varnaraðili gert grein fyrir nokkrum álitaefnum og gert tillögu að fjórum spurningum, sem hann telur nauðsynlegt að leggja fyrir EFTA-dómstólinn þar sem um flókið og sérhæft réttarsvið sé að ræða þar sem reyni á túlkun réttarheimilda sem séu hluti af EES-réttinum. Er spurningum þessum og álitaefnum nánar lýst hér framar og sjónarmiðum beggja aðila hvað það varðar.

Fyrsta spurningin lýtur að því hvort varnaraðili sé í samkeppni við aðra millilandaflugvelli og hvaða áhrif „samkeppnisreglur EES-samningsins“ hafa á skyldu félagsins til að afhenda þátttakendum í umræddri samkeppni „viðskiptaupplýsingar“.

Önnur spurningin lýtur að því hvort leiðbeiningarreglur Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins 2011/C11/01 hafi áhrif á skyldu félagsins til afhendingar slíkra upplýsinga og hvort slík upplýsingaskipti geti verið ólögmæt á grundvelli þessara leiðbeininga.

Þriðja spurningin lýtur að inntaki hugtaksins „viðskiptaleyndarmál að EES-rétti“ og að hvaða marki sé rétt að hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem gilda að EES-rétti um hugtakið eins og það komi fram í dómaframkvæmd Evrópuréttar við túlkun á skyldu félagsins til að afhenda umrædd gögn.

Að lokum lýtur fjórða spurningin að tilskipun 2003/6/EB um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun og hvort rétt sé að túlka ákvæði tilskipunarinnar svo að þau takmarki rétt aðila, eins og sóknaraðila, til að fá viðskiptaupplýsingar eins og það hugtak er skilgreint í EES-rétti.

Dómurinn tekur fram að í máli sem þessu sem rekið er eftir ákvæðum laga nr. 90/1989 verði ekki kveðið á um ógildingu úrskurðar stjórnvalds heldur eingöngu tekin afstaða til þess hvort úrskurðurinn geti talist gild aðfararheimild sbr. 5. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 og hvort aðför fari fram eða, eftir atvikum, hvort varhugavert verði talið að gerðin nái fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna. Málatilbúnað varnaraðila verður að skilja svo að hann telji úrskurð úrskurðarnefndarinnar háðan slíkum annmörkum að hann geti ekki talist gild aðfararheimild og því beri að hafna kröfu sóknaraðila.

Eins og mál þetta liggur nú fyrir dóminum, eins og málið var lagt fyrir úrskurðarnefndina og úrskurður nefndarinnar er að efni til verður ekki séð að svör EFTA-dómstólsins geti haft þýðingu við úrlausn málsins. Fyrir það fyrsta telur dómurinn unnt að leggja sjálfstætt mat á það, ef þörf krefur, hvort afhending umræddra gagna geti leitt til röskunar á eðlilegri samkeppni á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu og með beitingu þeirra lagareglna sem um þetta réttarsvið gilda eða hvort slíkt mat hafi yfirleitt þýðingu við úrlausn málsins. Brestur því skilyrði samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 til að óskað verði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í málinu hvað fyrstu spurninguna varðar. Dómurinn vekur athygli á því að íslenskir dómstólar fjalla um öll þau álitaefni sem á kann að reyna í tengslum við samkeppnismál, eins og skilgreiningu markaða o.fl. auk atriða er leitt geta til röskunar á samkeppni, með hliðsjón af þeim dómafordæmum sem fallið hafa á sviði íslensks réttar og eftir atvikum á sviði Evrópuréttar. Verður því ekki séð að efni séu til að verða við kröfu varnaraðila hvað varðar spurningu 1 eins og henni er lýst hér að framan og er þessum þætti beiðninnar hafnað.

Hvað varðar leiðbeiningarreglur Framkvæmdastjórnar ESB um upplýsingaskipti sem raskað geta samkeppni sem varnaraðili hefur vísað til og fjallað er um í annarri spurningu er til þess að líta að ekki verður séð að þær reglur geti fallið undir 1. gr. áðurnefndra laga nr. 21/1994. Eru þær hvorki hluti meginmáls EES-samningsins, viðauka eða bókana við hann né gerð sem getið er um í viðaukum við samninginn. Ekki getur því komið til álita að leitað verði álits EFTA-dómstólsins á efni leiðbeiningarreglnanna einna og sér og er þessum þætti beiðninnar hafnað. Dómurinn bendir á að leiðbeiningar þessar varða beitingu reglna er innleiddar hafa verið í íslenskan rétt m.a. með 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 sem á sér efnislega samsvörun í 53. gr. EES-samningsins og 101. gr. stofnsáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins. Eins og dómurinn hefur þegar bent á leiðir það af 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, að hlutverk EFTA-dómstólsins er að skýra EES-samninginn en íslenskir dómstólar fara hins vegar með sönnunarfærslu um staðreyndir máls, skýringu innlends réttar og beitingu EES-samningsins að íslenskum lögum. Hafa íslenskir dómstólar því verið taldir til þess bærir að túlka og beita samkeppnisreglum sem uppruna sinn eiga í evrópskum samkeppnisrétti.

Hvað varðar það álitaefni sem tíundað er í þriðju spurningunni og lýtur að hugtakinu viðskiptaleyndarmál og hvernig það hefur verið túlkað í dómafordæmum Evrópudómstólsins er til þess að líta að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Tekur slík lögskýring eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast er unnt gefin merking, sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá verður ekki séð með óyggjandi hætti að hugtakið viðskiptaleyndarmál hafi þýðingu við úrlausn málsins eins og það álitaefni er sett fram í þriðju spurningunni en auk þess er þetta álitaefni sett fram af hálfu varnaraðila án þess að getið sé um það á hvaða reglu eða ákvæði EES-réttar reyni sérstaklega. Er framsetning varnaraðila því að þessu leyti óljós. Er þessum þætti beiðninnar hafnað.

Að lokum hefur varnaraðili með fjórðu spurningu óskað eftir því að beint verði spurningu til EFTA-dómstólsins um túlkun 3. mgr. 6. gr. tilskipunar 2003/6/EB um innherjasvik og markaðsmisnotkun og þýðingu þessa ákvæðis við afmörkun á rétti aðila eða takmörkun á rétti aðila, eins og sóknaraðila, við að fá afhentar umræddar upplýsingar. Hvað þetta álitaefni varðar lítur dómurinn svo á að túlkun á hugtakinu innherjaupplýsingar geti trauðla haft þýðingu í málinu en að því marki sem svo kann að vera sé til þess að líta að ákvæði tilskipunar 2003/6/EB hafa verið innleidd í lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og hefur því ekki verið haldið fram í málinu að misræmi sé milli þeirra ákvæða er varnaraðili tiltekur í spurningunni og innlendrar löggjafar eða að vafi sé um túlkun þessara ákvæða. Verður ekki séð að þörf sé á áliti EFTA-dómstólsins hvað þetta álitaefni varðar og er þessum þætti beiðninnar hafnað.

Það er því niðurstaða dómsins þegar á allt er litið að, að því marki sem reyna kann á hvort á úrskurðinum séu þeir efnislegu annmarkar sem valdi því að hann geti ekki talist gild aðfararheimild, að ekki verði séð að þörf sé á að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins undir rekstri málsins enda varpi það ekki skýrara ljósi á ágreiningsefni aðila um afhendingu gagna.

Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað í þessum þætti málsins bíði efnislegrar úrlausnar þess.

Úrskurð þennan kvað upp Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari. Dómarinn tók við meðferð málsins 3. nóvember sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu varnaraðila, Isavia ohf., um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, er hafnað.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnislegrar úrlausnar málsins.